Hæstiréttur íslands

Mál nr. 769/2015

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari)
gegn
X (Bjarni Hauksson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. nóvember 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. nóvember 2015, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 1. desember 2015 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Fallist verður á það með héraðsdómi að fullnægt sé skilyrðum a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til að varnaraðila verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi og einangrun meðan á því stendur, sbr. 2. mgr. 98. gr. laganna. Mál þetta er umfangsmikið og hefur þurft við rannsókn þess að leita atbeina erlendra lögregluyfirvalda. Þótt veita verði lögreglu nokkurt svigrúm við rannsóknina er þess að gæta að varnaraðili hefur setið í gæsluvarðhaldi í einangrun frá 29. september 2015. Að því gættu þykir hæfilegt að gæsluvarðhaldinu verði markaður sá tími sem greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 24. nóvember 2015 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. nóvember 2015.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að kærða, X, fæðingardagur [...], verði áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 1. desember nk., kl. 16.00. Þá er þess krafist að kærða verði gert að sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

Kærði mótmælir kröfunni.

Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu segir að lögreglan hafi til rannsóknar stórfellt fíkniefnalagabrot er varði innflutning á sterkum fíkniefnum hingað til lands. Þann 22. september sl. hafi meðkærði Y komið hingað til lands ásamt erlendri konu á bifreiðinni [...] með [...]. Lögreglan hafi haft eftirlit með bifreiðinni þar sem henni hafi verið ekið til Reykjavíkur og þaðan til Keflavíkur á tímabilinu 22. – 25. september. Föstudaginn 25. september hafi Y farið með flugi frá Íslandi, en hann hafi skilið bifreiðina eftir á bifreiðastæði við Keflavíkurflugvöll. Y hafi komið aftur til landsins 28. september og sótt bifreiðina. Kærði, X hafi einnig komið með flugi til landsins þennan sama dag og hafi þeir ekið á sitt hvorri bifreiðinni sem leið lá inn í [...] að gistiheimili við [...]. Þar hafi hann hitt meðkærða Y og þeir báðir verið handteknir af lögreglu stuttu eftir komu þeirra í húsnæðið. Bifreiðin sem meðkærði Y hafi ekið hafi verið haldlögð af lögreglu og við leit í henni hafi fundist rúmlega 19,5 kg af amfetamíni og rúmlega 2,5 kg af kókaíni sem búið hafi verið að fela í bifreiðinni.

                X hafi neitað sök við fyrstu skýrslutöku hjá lögreglu, en hafi nú játað það að hafa tekið þátt í því að flytja inn ofangreinda bifreið en hann kvaðst ekki hafa vitað að í bifreiðinni væru falin fíkniefni. X hafi lýst fyrir lögreglu hvernig skipulagningu innflutningsins hafi verið háttað og að hann hafi áður tekið þátt í sambærilegum innflutningi. X hafi greint lögreglu frá því að tveir [...] hafi átt þátt í skipulagningu innflutningsins. Nánar varðandi framburð kærða er vísað í gögn málsins.

                Kærði X hefur sætt gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknar málsins frá 29. september sl., nú síðast með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness í málinu nr. [...]/2015, sem hafi verið staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. [...]/2015.

                Rannsókn lögreglu sé að hluta til unnin í samstarfi við erlend yfirvöld. Rannsókn lögreglu beinist nú helst að því að hafa upp á samverkamönnum kærðu í [...], en einnig hafi verið óskað eftir aðstoð annarra erlendra lögregluyfirvalda. Í framburði kærða og meðkærða komi fram að tveir [...] aðilar hafi staðið að skipulagningu innflutningsins og telji lögreglan að þeir hafi gert það í samstarfi við íslenska samverkamenn. Óskað hafi verið eftir því við [...] yfirvöld að þessir einstaklingar verði færðir til yfirheyrslu hjá lögreglu og að framkvæmdar verði húsleitir á heimili þeirra til að afla frekari sönnunargagna og leggja hald á muni sem skipt geta máli við rannsókn málsins. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu vinni nú að þessu í samstarfi við [...] yfirvöld. [...] yfirvöld hafi upplýst íslensku lögregluna um það að farið verði fram á húsleit á heimili annars þeirra nú á næstu dögum og muni hann í kjölfarið vera boðaður í skýrslutöku. Nauðsynlegt sé á þessu stigi máls að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi svo hægt sé að koma í veg fyrir að kærði geti sett sig í samband við meinta samverkamenn eða þeir sett sig í samband við hann. Þá geti kærði einnig komið undan gögnum með sönnunargildi sem lögreglan hafi ekki lagt hald á nú þegar. Þykir þannig brýnt að vernda rannsóknarhagmuni á þessu stigi málsins.

                Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og b. liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga sé þess krafist að krafan nái fram að ganga eins og hún er sett fram.

 

Með vísan til þess sem fram kemur í greinargerð lögreglu og rannsóknargögnum málsins þykir kominn fram rökstuddur grunur um að kærði eigi aðild að innflutningi á miklu magni af sterkum fíkniefnum til landsins. Án vafa er að fíkniefnin hafi verið ætluð til sölu og dreifingar hér á landi og hefur lögreglan upplýsingar um það að fleiri aðilar tengist málinu. Rannsókn málsins er umfangsmikil og er unnið að henni í samstarfi við [...] yfirvöld. Telur lögreglan brýnt að kærði sæti á þessu stigi áfram gæsluvarðhaldi þar sem ljóst sé að hann geti sett sig í samband við meinta samverkamenn gangi hann laus eða þeir sett sig í samband við hann. Þá gæti kærði einnig komið undan sönnunargögnum sem lögreglan hafi ekki lagt hald á nú þegar og afmáð ummerki eftir brot. Fallist er á þessa ályktun lögreglu. Skilyrðum a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er því fullnægt.

Kærði hefur sætt einangrun í gæsluvarðhaldinu frá 29. september síðastliðinn. Til verndar rannsóknarhagsmunum þykir brýnt að skýrslur verði teknar af ætluðum samverkamönnum og vitnum í [...] áður en einangrun kærða verður aflétt. Með heimild í 2. mgr. 98. gr. laga nr. 88/2008 er fallist á að kærði sæti enn um sinn einangrun í gæsluvarðhaldinu, en brot það sem kærði er sakaður um getur varðað meira en 10 ára fangelsi.

Með vísan til framangreinds er fallist á kröfu lögreglustjóra um að kærða verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, og einangrun eins og krafist er, sbr. b. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008, og nánar greinir í úrskurðarorði.

                Úrskurð þennan kveður upp Jón Höskuldsson héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, fæddur [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 1. desember nk., kl. 16:00.

Kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.