Hæstiréttur íslands

Mál nr. 557/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi
  • Farbann


Þriðjudaginn 21. ágúst 2012.

Nr. 557/2012.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Hólmgeir Elías Flosason hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi. Farbann.

Felldur var úr gildi úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Hins vegar var honum gert að sæta farbanni samkvæmt 1. mgr. 100. gr. sömu laga.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason og Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. ágúst 2012 sem barst héraðsdómi 20. sama mánaðar og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. ágúst 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 13. september 2012 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að honum verði gert að sæta farbanni.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði er krafa sóknaraðila um að varnaraðila verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi reist á 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt því ákvæði má úrskurða sakborning í gæsluvarðhald þótti skilyrði a-d liðar 1. mgr. ákvæðisins séu ekki fyrir hendi, ef sterkur grunur leikur á að hann hafi framið afbrot sem að lögum getur varðað 10 ára fangelsi, enda sé brotið þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.

Með ákæru 16. ágúst 2012 voru varnaraðila og A gefin að sök stórfelld fíkniefnalagabrot með því að hafa á árunum 2011 og 2012 staðið saman að innflutningi á samtals 916,23 g af kókaíni frá Bretlandi og Danmörku, ætluðu til söludreifingar í ágóðaskyni. Varnaraðili hefur neitað sök en meðákærða játað aðild sína að innflutningi á 569,15 g kókaíns í maí á þessu ári og að hafa gert tilraun til að flytja til landsins 140 g af sama fíkniefni í febrúar á þessu ári.

Í málatilbúnaði sóknaraðila er ekki að finna rökstuðning fyrir því með hvaða hætti ákærði, sem eins og fyrr segir neitar sök í málinu, hafi fellt á sig sterkan grun um að hafa framið brot þau sem hann er ákærður fyrir. Þar er aðeins að finna þá almennu staðhæfingu, að sím- og herbergishlustun lögreglu tiltekna daga bendi að mati sóknaraðila til sektar  varnaraðila. Samkvæmt þessu hefur sóknaraðili ekki fært viðhlítandi rök fyrir því að fullnægt sé fyrrgreindu skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til þess að gera varnaraðila að sæta áfram gæsluvarðhaldi.

Þótt ekki séu samkvæmt framansögðu skilyrði til þess að verða við kröfu sóknaraðila um að varnaraðili sæti svo íþyngjandi úrræði sem áframhaldandi gæsluvarðhald yfir honum er, þykir í ljósi málsatvika og með vísan til 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 rétt að banna varnaraðila brottför af landinu þar til dómur gengur í máli hans, en þó eigi lengur en til fimmtudagsins 13. september 2012 klukkan 16.

Dómsorð:

Varnaraðila, X, er bönnuð för af landinu þar til dómur gengur í máli hans, en þó eigi lengur en til fimmtudagsins 13. september 2012 klukkan 16.

                                                                 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. ágúst 2012.

Ríkissaksóknari hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kt. [...], verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 13. september 2012 kl. 16:00.

Kærða var í dag í þinghaldi birt ákæra vegna málsins. Hann mótmælti gæsluvarðhaldskröfunni.

Í greinargerð lögreglustjóra segir að upphaf máls þessa megi rekja til fjölda ábendinga sem bárust lögreglunni á Suðurnesjum þess efnis að X og A stæðu að innflutningi fíkniefna til landsins. Formleg rannsókn á þeim hófst 14. desember 2011 með símhlustunum lögreglu á grundvelli úrskurðar Héraðsdóms Reykjaness. Þann 8. desember 2011 lagði lögregla hald á 347,08 g af kókaíni sem B og C fluttu innvortis frá Spáni í gegnum Bretland. B og C vildu ekki gefa upp hverjir stæðu á bak við innflutninginn. Lögregla hlustaði samskipti X og A með herbergishlustun frá 31. janúar sl. á grundvelli úrskarðar héraðsdóms Reykjaness. Sýna upptökur frá síma- og herbergishlustun að mati ákæruvaldsins að X og A hafi staðið á bak við innflutning fíkniefnanna sem B og C fluttu til landsins. Þá má einnig, að mati ákæruvaldsins, heyra þau ræða um og skipuleggja innflutning á fíkniefnum frá Danmörku en A fékk móður sína, sem búsett er í Danmörku til að taka fyrir sig ferðatösku til landsins þann 25. maí sl. Í ferðatöskunni fundust 569,15 af kókaíni. X hefur neitað sök hjá lögreglu en A hefur játað aðild sína að innflutningi kókaíns í maí sl., sem og að hafa gert tilraun til að flytja til landsins 140 g af kókaíni í febrúar 2012.

Með ákæru ríkissaksóknara dagsettri í dag er ákærða X og meðákærðu A, gefið að sök stórfelld fíkniefnalagabrot með því að hafa á árunum 2011 og 2012 staðið saman að innflutningi á samtals 916,23 g af kókaíni til Íslands frá Bretlandi og Danmörku, ætluðu til söludreifingar í ágóðaskyni eins og nánar er líst í meðfylgjandi ákæru. Þá er þeim gefið að sök tilraun til stórfellds fíkniefnalagabrots með því að hafa afhent stúlku 140 g af kókaíni í Kaupmannahöfn í febrúar 2012 í því skyni að hún myndi flytja efnin til Íslands. Ákærða og meðákærðu A er í öllum tilvikum gefið að sök að hafa lagt á ráðin um og skipulagt innflutning fíkniefnanna. Eru brotin talin varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga en brot gegn ákvæðinu varðar fangelsi allt að 12 árum. Til stendur að birta ákæruna fyrir ákærðu í dag.

Ákærði hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 26. maí sl., í upphafi á grundvelli rannsóknarhagsmuna en frá 19. júlí sl. á grundvelli almannahagsmuna, nú síðast með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness nr. R-318/2012. Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhald ákærða á grundvelli rannsóknarhagsmuna sbr. síðast dóm í máli nr. 449/2012 en úrskurði um gæsluvarðhald á grundvelli almannahagsmuna hefur ekki verið kært til Hæstaréttar. Með vísan til 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, með hliðsjón af alvarleika sakarefnis þykir nauðsynlegt vegna almannahagsmuna að ákærði sæti gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans. Til stuðnings kröfunni er auk ofangreinds vísað til dómvenju.

Með ákæru ríkissaksóknara dagsettri í dag er ákærða X og meðákærðu A, gefið að sök stórfelld fíkniefnalagabrot með því að hafa á árunum 2011 og 2012 staðið saman að innflutningi á samtals 916,23 g af kókaíni til Íslands frá Bretlandi og Danmörku, ætluðu til söludreifingar í ágóðaskyni eins og nánar er líst í meðfylgjandi ákæru. Þá er þeim gefið að sök tilraun til stórfellds fíkniefnalagabrots með því að hafa afhent stúlku 140 g af kókaíni í Kaupmannahöfn í febrúar 2012 í því skyni að hún myndi flytja efnin til Íslands. Ákærða og meðákærðu A er í öllum tilvikum gefið að sök að hafa lagt á ráðin um og skipulagt innflutning fíkniefnanna. Eru brotin talin varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga en brot gegn ákvæðinu varðar fangelsi allt að 12 árum. Til stendur að birta ákæruna fyrir ákærðu í dag.

Ákærði hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 26. maí sl., í upphafi á grundvelli rannsóknarhagsmuna en frá 19. júlí sl. á grundvelli almannahagsmuna, nú síðast með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness nr. R-318/2012. Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhald ákærða á grundvelli rannsóknarhagsmuna sbr. síðast dóm í máli nr. 449/2012 en úrskurði um gæsluvarðhald á grundvelli almannahagsmuna hefur ekki verið skotið til Hæstaréttar. Með vísan til 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, með hliðsjón af alvarleika sakarefnis þykir nauðsynlegt vegna almannahagsmuna að ákærði sæti gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans. Til stuðnings kröfunni er auk ofangreinds vísað til dómvenju.

Þegar litið er til þáttar ákærða, magns og styrkleika umræddra fíkniefna, en úr þeim fást samkvæmt matsgerð Rannsóknarstofu H.Í í lyfja og eiturefnafræðum, 1.940 g af kókaíni miðað við almennan neyslustyrk, og dóms Hæstaréttar í máli nr. 593/2006, verður fallist á með saksóknara að ákærði skuli sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Ákærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 13. september 2012 kl. 16:00.