Hæstiréttur íslands
Mál nr. 2/2013
Lykilorð
- Vinnuslys
- Líkamstjón
- Orsakatengsl
Vinnuslys. Líkamstjón. Orsakatengsl.
A krafði Í hf. um bætur vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir við vinnu sína hjá Í hf. þegar á hana féllu pakkar sem hún var að losa af bögglagrind. Talið var að slysið mætti rekja til óhappatilviljunar og einnig að nokkru til aðgæsluleysis A. Var því ekki fallist á það með A að óhappið yrði rakið til þess að Í hf. hefði vanrækt skyldur sínar samkvæmt lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerðar nr. 499/1944, með því að bögglagrindin hefði verið hlaðin þannig að hætta stafaði af henni fyrir þann sem kæmi til með að losa hana, né að slysið yrði rakið til óforsvaranlegs og saknæms frágangs starfsmanna Í hf. á umræddri grind. Var Í hf. því sýknað af bótakröfu A. Þá var V hf. einnig sýknað af kröfu A um greiðslu úr slysatryggingu launþega, þar sem A hafði ekki tekist að sanna að líkamstjón hennar mætti rekja til slyssins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Gunnlaugur Claessen og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. janúar 2013. Hún krefst þess aðallega að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda aðalstefnda, Íslandspósts hf., vegna líkamstjóns sem hún hlaut í vinnuslysi 15. nóvember 2007 hjá félaginu. Til vara krefst hún þess að viðurkenndur verði með dómi réttur hennar til bóta úr launþegatryggingu Íslandspósts hf., hjá varastefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf., vegna framangreinds líkamstjóns. Í báðum tilvikum krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Aðalstefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að hann verði aðeins talinn skaðabótaskyldur að hluta vegna atviksins 15. nóvember 2007 og að málskostnaður verði látinn niður falla.
Varastefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Áfrýjandi hefur jafnframt stefnt Sjóvá-Almennum tryggingum hf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti að því er varðar aðalkröfu sína.
I
Að morgni fimmtudagsins 15. nóvember 2007 var áfrýjandi við vinnu sína hjá aðalstefnda að losa bögglapóst úr grind á hjólum, er kassi féll af grindinni ofan á öxl hennar. Í vottorði B læknis á Heilbrigðisstofnuninni […], sem hún leitaði til samdægurs, kemur fram að hún hafi ekki verið með einkenni um alvarlega áverka, heldur bentu einkenni til að hún hefði marist á vöðvum. Í vottorðinu segir jafnframt að dofatilfinning sem hún hafi haft fyrst á eftir, stafaði líklegast af því að höggið hefði haft áhrif á taugarnar sem ganga niður í handlegginn. Í málinu er fram komið að tilkynning stefnda til Vinnueftirlitsins var undirrituð af starfsmanni stefnda, C, 16. nóvember 2007, sem kvaðst hafa sent hana til starfsmanns í starfsmannahaldi stefnda. Venjan væri að sá starfsmaður sæi um að senda slíkar tilkynningar til Vinnueftirlitsins. Fyrir liggur að Vinnueftirlitið rannsakaði ekki slysið, en ekki er ljóst af hvaða sökum það var.
Áfrýjandi var frá vinnu frá slysdegi til mánudagsins 19. nóvember 2007. Í vottorði fyrrnefnds læknis kemur fram að áfrýjandi hafi ekki leitað aftur til heilsugæslunnar vegna einkenna sem gætu tengst slysinu fyrr en 5. ágúst 2010 og sé engar upplýsingar að finna í sjúkraskrá um að hún hafi leitað annað vegna þessara einkenna á því tímabili. Áfrýjandi boðaði forföll frá vinnu deginum áður og gaf þá skýringu að hún hefði runnið til á gólfi við skúringar og fengið hnykk á bakið. Hún kom ekki aftur til vinnu hjá stefnda og sagði starfi sínu lausu 30. nóvember 2010.
Með matsbeiðni 23. maí 2011 óskaði áfrýjandi einhliða eftir því að metnar yrðu afleiðingar slyssins. Voru matsmennirnir D lögfræðingur og E læknir og sérfræðingur í bæklunarskurðlækningum fengnir til matsins, sem taka skyldi til tímabundinnar örorku og varanlegs miska. Samkvæmt mati þeirra 11. mars 2012 voru batahvörf talin vera 15. febrúar 2008 og var þá aðallega miðað við hjöðnun á mari og tognunareinkennum í öxl. Varanlegur miski áfrýjanda var metinn 15 stig.
II
Eins og að framan er rakið er ekki upplýst hvers vegna Vinnueftirlitið rannsakaði ekki tildrög slyss og aðstæður á slysstað í samræmi við 81. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Án tillits til þess er í málinu nægilega upplýst með framburði áfrýjanda sjálfrar, sem fær stoð í vætti þeirra C og F, um aðstæður á vettvangi og atvik að slysinu.
Að þessu gættu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sýknu aðalstefnda, af kröfu áfrýjanda.
Áfrýjandi hefur byggt varakröfu sína um viðurkenningu á rétti hennar til bóta úr slysatryggingu aðalstefnda hjá varastefnda, á því að um að sé að ræða slys í skilningi 2. mgr. 1. gr. vátryggingarskilmála varastefnda, en óumdeilt er að stefnandi var tryggð slíkri slysatryggingu launþega þegar hún varð fyrir slysinu.
Í málinu hefur verið lagður fram hluti sjúkraskrár áfrýjanda. Af henni verður ráðið að hún leitaði margoft til læknis á tímabilinu frá slysdegi 15. nóvember 2007 til miðs árs 2010, en á þeim tíma verður ekki séð að hún hafi kvartað undan verk á axlarsvæði. Í göngudeildarnótu læknis á heilsugæslu […] 5. ágúst 2010 var skráð að áfrýjandi hefði runnið til og fengið hnykk á bakið og haft þar mikinn verk. Ekkert er þar skráð um verki í öxl. Í göngudeildarnótu Sjúkrahúss […] 6. september 2011 var skráð að hún hafi tveimur eða þremur árum fyrr fengið kassa ofan á hægri öxl og verið lengi að jafna sig af verk fram í hægri hendi, en hún hafi náð sér af því. Í læknisvottorði G 6. maí 2011, þar sem haft er eftir áfrýjanda, segir að daglegt líf hennar hafi gengið ágætlega þar til í ágúst 2010, er henni hafi skrikað fótur og hún runnið til. Eftir það leitaði áfrýjandi einnig til H og læknanna I og J og gáfu þeir út vottorð um einkenni, ástand og meðferð áfrýjanda. Enginn þessara sérfræðinga skoðaði áfrýjanda í kjölfar slyssins í nóvember 2007 og öxl hennar var fyrst segulómuð um þremur og hálfu ári eftir slysið, 13. maí 2011. Vottorð ofangreindra um einkenni áfrýjanda og niðurstöður segulómunar geta ekki, þegar önnur gögn málsins eru virt, rennt nægilegum stoðum undir að áfrýjandi hafi orðið fyrir varanlegu líkamstjóni við slys það sem mál þetta er sprottið af.
Með hliðsjón af ofangreindu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður einnig staðfest niðurstaða hans um sýknu af kröfu á hendur varastefnda og málskostnað í héraði.
Rétt er að aðilarnir beri hvert sinn kostnað af rekstri málsins fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. október 2012.
Mál þetta, sem dómtekið var 6. september 2012, er höfðað af A, […], með stefnu áritaðri um birtingu 21. Október 2011, á hendur Íslandspósti hf., Pósthússtræti 5, Reykjavík og Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Reykjavík, til réttargæslu.
Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda hins stefnda félags, Íslandspósts hf., vegna líkamstjóns stefnanda á hálsi og hægri öxl, sem stefnandi hlaut í vinnuslysi, 15. Nóvember 2007, er hún starfaði hjá Íslandspósti hf.
Til vara krefst stefnandi þess, að viðurkenndur verði með dómi, réttur stefnanda á bótum úr launþegatryggingu Íslandspósts hf., hjá Sjóvá-Almennum tryggingum hf., vegna líkamstjóns hennar á hálsi og hægri öxl, sem hún hlaut í vinnuslysi, 15. Nóvember 2007, er hún starfaði hjá Íslandspósti hf. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt málskostnaðaryfirliti, auk virðisaukaskatts.
Af hálfu stefnda, Íslandspósts hf., er þess aðallega krafist, að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins. Til vara krefst stefndi þess, að verða aðeins talinn skaðabótaskyldur að hluta vegna atviksins 15. Nóvember 2007 og að málskostnaður verði látinn niður falla.
Af hálfu stefnda, Sjóvár-Almennra trygginga hf., er þess krafist, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins.
Af hálfu réttargæslustefnda eru engar kröfur gerðar, en réttargæslustefndi tekur undir málatilbúnað og málsástæður stefnda, Íslandspósts hf.
I.
Stefnandi kveður málavexti vera þá að hinn 15. Nóvember 2007 hafi tveir þungir pakkar fallið ofan á stefnanda þegar hún var við vinnu sína hjá stefnda, Íslandspósti hf., í útibúi félagsins á […]. Hún hafi verið að losa pakka af bögglagrind þegar pakkarnir losnuðu af grindinni með þeim afleiðingum að þeir féllu ofan á hana og hafi annar pakkinn lent á axlarsvæði stefnanda. Stefndi fullyrðir hins vegar að pakkarnir hafi ekki báðir lent á stefnanda heldur hafi annar pakkinn lent við fætur stefnanda og F, þáverandi starfsmanns stefnanda. Stefnandi leitaði til Heilbrigðisstofnunar […] samdægurs en í göngudeildarnótu þaðan kemur fram að stefnandi hafi hlotið mar á vöðvum við óhappið. Daginn eftir, þ.e. 16. nóvember 2007, tilkynnti stefndi um slys stefnanda til Vinnueftirlits ríkisins. Umrætt óhapp varð á fimmtudegi en stefnandi mætti aftur til starfa næsta mánudag.
Hinn 5. ágúst 2010 boðaði stefnandi forföll frá vinnu og gaf þá skýringu að henni hefði skrikað fótur og fengið hnykk á bakið við skúringar á pósthúsinu daginn áður. Eftir þetta kveðst stefnandi hafa verið óvinnufær vegna verkja í hálsi, hægri öxl, hægri handlegg og baki. Stefnandi sneri ekki aftur til vinnu hjá stefnda og sagði síðan upp starfi sínu hjá stefnda 30. nóvember 2010.
Upp frá þessu fór stefnandi í fjögur skipti til H osteopata. Þá leitaði stefnandi einnig til G taugalæknis, I bæklunarlæknis, L bæklunarsérfræðings og J sérfræðings.
Stefndi, Íslandspóstur hf., hefur hafnað skaðabótaskyldu. Þá hefur hið stefnda félag, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., hafnað bótaskyldu úr slysatryggingu launþega með vísan til 1. mgr. 124. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004.
II.
Stefnandi byggir á því að varanlegt líkamstjón hennar sé sannanleg afleiðing vinnuslyss, sem hún hafi orðið fyrir 15. nóvember 2007, við störf sín hjá stefnda, Íslandspósti hf. Stefnandi vísar til þess að sjúkraskrá sín staðfesti áverka þá, sem hún hafi orðið fyrir í umræddu slysi, og að læknisvottorð og önnur gögn sýni fram á að stefnandi hafi í raun orðið fyrir varanlegu líkamstjóni.
Stefnandi byggir aðalkröfu sína á því að stefndi hafi vanrækt skyldur sínar samkvæmt lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, sbr. 13. gr., 37. gr. og 42. gr. laganna. Þá hafi stefndi vanrækt skyldur sínar samkvæmt reglugerð nr. 499/1994, um öryggi og hollustu þegar byrðar eru handleiknar, sem sett var með heimild í 38. gr. sömu laga. Beri stefndi ábyrgð á því að vinnustaður sé þannig úr garði gerður að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar. Stefnda beri að haga vinnu og framkvæmd hennar þannig að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar.
Stefnandi vísar til þess að hjá stefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf., komi fram að bögglagrindurnar séu fluttar með flutningabílum frá Reykjavík og að ekki sé óeðlilegt að bögglarnir hafi færst til í grindunum við flutning. Stefnandi byggir á því að flutningur þessi sé eðlilegur hluti af starfsemi stefnda og að ofangreind slys eigi ekki að geta átt sér stað, séu bögglagrindurnar rétt hlaðnar og ekki ofhlaðnar. Stefnda sé fullkunnugt um að útbúa þurfi grindurnar fyrir flutning þannig að bögglarnir færist ekki til og skapi þannig hættu fyrir starfsmenn sem opni grindurnar. Atvik sem þessi geti á engan hátt talist ófyrirsjáanleg, heldur hafi stefndi átt að haga vinnuaðstöðu og framkvæmd vinnu þannig, að tekið væri mið af hættunni og við henni brugðist. Atvik málsins sýni glögglega að sú hafi ekki verið raunin. Bögglagrindin, sem stefnandi hafi unnið við, hafi verið hlaðin þannig að hætta hafi stafað af henni fyrir þann, sem vann við að losa hana, en á því gáleysi beri stefndi, Íslandspóstur hf., ábyrgð.
Stefnandi byggir á því, að starfsmenn stefnda hafi sýnt af sé vangæslu þegar þeir hlóðu bögglum í umrædda grind. Grindin hafi verið ofhlaðin og bögglarnir hafi ekki verið nægilega vel skorðaðir í grindinni, sem hafi orðið til þess að þeir hrundu úr grindinni og ofan á stefnanda þegar hún skar plast utan af grindinni. Hefðu starfsmenn stefnda gætt fyllilega að því að bögglarnir hefðu verið vel skorðaðir þannig að ekki hefði verið hlaðið upp fyrir grindurnar, hefði slysið ekki orðið. Teljist það vangæsla að setja svo þunga bókapakka efst á staflann á grindinni, þar sem ekkert viðnám hafi verið fyrir kassana og ekkert hafi haldið við þá eftir að plastið hafði verið tekið utan af. Stefnandi bendir á að hún hafi framkvæmt verk sitt í samræmi við venjubundna aðferð en hún hefði starfað hjá stefnda í tæplega fjögur ár og hafi samstarfskona hennar, F, vitnað um að stefnandi hefði beitt venjubundnum vinnubrögðum við starf sitt umrætt sinn. Stefndi beri vinnuveitandaábyrgð á starfsmönnum sínum og vangæslu þeirra við störf sín þegar af henni hljótist líkamstjón. Einu mögulegu orsakir slyssins sé því að rekja til vinnutilhögunar, sem stefndi beri ábyrgð á, og beri jafnframt skaðabótaábyrgð á gagnvart stefnanda.
Þá vísar stefnandi til þess að greina verði á milli skyldna sem hvíli á atvinnurekanda annars vegar og starfsmönnum hins vegar. Frumskyldan samkvæmt lögum nr. 46/1980 liggi hjá atvinnurekanda og beri hann því ábyrgð á afleiðingum vegna vanrækslu að þessu leyti. Slík ábyrgð væri að engu höfð, ef lögð væri svo þungbær skylda á starfsmenn að hafa frumkvæði að öryggisráðstöfunum sem atvinnurekanda standi næst að viðhafa. Fái þetta stoð í 3. mgr. 5. gr. tilskipunar 89/391/EBE sem og í dómi EFTA-dómstólsins í máli nr. E-2/10 þar sem segi að skyldur starfsmanna á sviði öryggis og hollustu við vinnu sína skuli ekki hafa áhrif á meginregluna um ábyrgð vinnuveitanda. Stefnandi hafi ekki vanrækt skyldur sínar sem starfsmaður með þeim hætti að það hafi haft meðvirkandi áhrif á tjónvaldandi atburðarrás. Ljóst sé að hægt hefði verið að koma í veg fyrir umræddan tjónsatburð með því að gera viðeigandi ráðstafanir, sem hefðu tryggt öryggi og aðbúnað á vinnustaðnum, líkt og stefnda hafi borið skylda til að gera samkvæmt lögum nr. 46/1980.
Þá byggir stefnandi á því, að hún hafi fyrst orðið þess áskynja að líkamstjón hennar væri varanlegt eftir að hún hafði fengið hnykk á líkamann við skúringar í vinnu sinni hjá stefnda hinn 4. ágúst 2010. Stefnandi hafi snúið aftur til vinnu sinnar þremur dögum eftir vinnuslysið 15. nóvember 2007 og hafi starfað hjá stefnda allt þar til 4. ágúst 2010. Þá hafi stefnandi tekið sér veikindafrí og hafi svo neyðst til þess að hætta störfum frá og með 1. desember 2010 vegna verkja. Stefnandi hafi því verið við störf frá því að hún lenti í vinnuslysinu 15. nóvember 2007 og ekki verið ljóst að líkamstjón hennar væri varanlegt. Varanlegar afleiðingar slyssins hafi síðan verið staðfestar við skoðun hjá læknum dagana 6. og 7. apríl 2011.
Stefnandi byggir varakröfu sína á því, að um sé að ræða slys í skilningi 2. mgr. 1. gr. vátryggingaskilmála félagsins. Atburðurinn hafi bæði verið skyndilegur og utanaðkomandi, auk þess sem hann hafi sannanlega átt sér stað án vilja stefnanda. Þá vísar stefnandi til þess, að hún hafi tilkynnt um atvik þau, sem krafa hennar sé reist á, sbr. 1. mgr. 22. gr. vátryggingaskilmála og 1. mgr. 124. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004. Hefði stefnandi ekki getað tilkynnt kröfu sína um bætur úr launþegatryggingunni fyrr en henni varð ljóst að hún hefði orðið fyrir varanlegu líkamstjóni, enda sé varanlegt líkamstjón grundvöllur kröfu hennar. Hafi ofangreindur ársfrestur fyrst byrjað að líða þegar stefnanda gat verið ljóst að hún hefði hlotið varanlegar líkamlegar afleiðingar í slysinu. Þá vísar stefnandi til þess, að tilkynning hennar hafi borist hinu stefnda félagi, Sjóvá-Almennum tryggingum hf., innan þess frests sem greini í vátryggingaskilmálum og ofangreindum lögum um vátryggingarsamninga nr. 30/2004. Orðalag 1. mgr. 124. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004 og 1. mgr. 22. gr. vátryggingaskilmálans sé ekki á þann veg, að tímamarkið sé bundið við vátryggingaatburð, heldur atvik sem krafa verði reist á. Verði því að miða við það tímamark þegar vátryggður fékk vitneskju um að líkamstjón hans væri varanlegt. Krafa um bætur úr launþegatryggingu vegna varanlegra afleiðinga vinnuslyss geti ekki orðið til fyrr en sýnt þykir að til staðar séu varanlegar afleiðingar. Fyrr hafi stefnandi ekki getað tilkynnt tryggingafélaginu um líkamstjón sitt. Enn fremur byggir stefnandi á að við túlkun vátryggingarsamninga beri að skýra allan vafa vátryggðum í hag. Vinnuveitandi stefnanda hafi tilkynnt tjónið 16. nóvember 2007 til Vinnueftirlits ríkisins og sé ólíklegt að tjónið hafi þá ekki einnig verið tilkynnt til stefnda, Sjóvár-Almennra trygginga hf. Loks byggir stefnandi í öllum tilvikum á því að slysið hafi ekki verið tilkynnt til Vinnueftirlitsins í samræmi við 79. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, og því beri hið stefnda félag alla sönnunarbyrði í máli þessu varðandi þau atvik sem óljós kunna að þykja varðandi slysaatburðinn sjálfan.
Stefnandi styður aðalkröfu sína við sakarregluna, regluna um vinnuveitandaábyrgð, regluna um nafnlaus mistök og regluna um uppsöfnuð mistök. Um lagarök vísar stefnandi til 13. gr., 37. gr. og 42. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, sem og til 79. gr. laganna. Þá vísar stefnandi til 7. gr. og 10. gr. reglugerðar nr. 499/1994 um öryggi og hollustu þegar byrðar eru handleiknar. Þá skírskotar stefnandi einnig til viðauka I. í reglugerð nr. 920/2006. Jafnframt vísar stefnandi til tilskipunar 89/391/EBE, sbr. 3. mgr. 5. gr. Þá byggir stefnandi á skilyrðisreglu skaðabótaréttar.
Stefnandi byggir varakröfu sína á 1. gr. og 1. mgr. 22. gr. vátryggingaskilmála stefnda, Sjóvár-Almennra trygginga hf. Þá byggir stefnandi á 1. mgr. 124. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004. Enn fremur skírskotar stefnandi til laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 55/1980 og grundvallarreglna um kjarasamninga.
III.
Stefndi byggir aðalkröfu sína um sýknu í fyrsta lagi á því, að ósannað sé að tjón stefnanda megi rekja til saknæmrar háttsemi stefnda, Íslandspósts hf., eða starfsmanna hans, saknæms frágangs á umræddri bögglagrind eða annarra atvika sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á að lögum.
Stefndi mótmælir sem röngum og ósönnuðum málsástæðum stefnanda um að meint varanlegt heilsufarslegt tjón stefnanda sé sannarleg afleiðing af óhappinu, sem hún varð fyrir 15. nóvember 2007, sem rekja megi til óforsvaranlegs og saknæms frágangs á umræddri bögglagrind, sem hafi verið á ábyrgð stefnda.
Stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir orsök tjóns síns en hafi ekki sannað að tjónið megi rekja til atvika sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á að lögum. Um ábyrgð stefnda fari samkvæmt sakarreglu skaðabótaréttar ásamt reglunni um vinnuveitendaábyrgð. Stefndi byggir á því, að ósannað sé að slysið sé að rekja til atvika sem hann beri skaðabótaábyrgð á að lögum. Verði slysið ekki rakið til ófullnægjandi leiðsagnar eða vinnuaðstöðu stefnanda, gáleysis starfsmanna eða stjórnenda stefnda eða brots á þeim skyldum sem á stefnda hvíla samkvæmt lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, og reglum sem settar eru með stoð í þeim lögum.
Stefndi telur verulegan vafa leika á því, hvort slysið hafi borið að með þeim hætti sem stefnandi lýsi. Stefnandi kveðst hafa verið að skera plast af grind, sem sé um 170 - 180 cm á hæð og opnist að ofanverðu, og kveður grindina hafa verið hlaðna bögglum.
Stefndi bendir á, að miðað við þau mál, sem stefnandi gefi upp á bögglagrindinni sé ljóst, að um hafi verið að ræða stóra grind með hurðum, sbr. framlagðar myndir. Sú málsatvikalýsing styðjist einnig við framlagðar yfirlýsingar F, samstarfsmanns stefnanda, og C yfirmanns stefnanda. Stefndi heldur því fram, að þegar bögglum sé raðað eða staflað á stórar grindur sé aldrei sett plast utan um þá eða grindina, enda sé það talið óþarft þar sem þessar grindur séu útbúnar með tveimur rimlahurðum og lokaðar allan hringinn. Á hinn bóginn séu litlar grindur jafnan pakkaðar inn í plast af starfsmönnum þess pósthúss, sem þær komi frá, til að varna því að bögglar falli af þeim, enda ein hlið þeirra opin. Stefndi telji því rangt með farið í stefnu þegar stefnandi haldi því fram að hún hafi verið að skera plast utan af stórri bögglagrind þegar slysið hafi orðið, þar sem þær hafi ekki verið umvafðar plasti.
Þá vísar stefndi til þess að þessi frásögn stefnanda af slysinu gangi í berhögg við frásögn F, sem minnist í yfirlýsingu sinni ekki á að stefnandi hafi þurft að skera plast utan af grindinni heldur kveður hún stefnanda hafa opnað grindina. Að sögn F, sem unnið hafi að verkinu með stefnanda umrætt sinn, hafi ekkert verið athugavert við bögglagrindina eða losun hennar. Þá komi einnig fram í yfirlýsingu C að grindin hefði ekki verið óvanaleg á neinn hátt. Stefnandi hafi ekki borið sig rétt að við verk sitt við losun grindarinnar og ekki gætt að því að styðja við þá böggla,sem kynnu að hafa verið óstöðugir eða færst til eftir flutninginn. Hún hafi því ekki sýnt þá aðgæslu, sem ætlast hefði mátt til af henni, og hafi ekki gætt að sér með fullnægjandi hætti.
Fallist dómurinn á frásögn stefnanda um að hún hafi verið að opna stóra grind, sem hafi verið pökkuð inn í plast, og hafi hagað verkinu þannig að hún hafi byrjað að skera plastið af grindinni að ofanverðu og síðan sest á hækjur sínar til að skera plastið af grindinni neðst, þá byggir stefndi á því að stefnandi hafi ekki farið eftir réttu og viðurkenndu verklagi við losun grindarinnar. Starfsmönnum stefnda sé kennt að losa grindurnar jafnóðum og plast sé skorið utan af þeim eða hurðir opnaðar og að byrja að ofanverðu. Þannig eigi þeir við losun böggla af litlum grindum, sem hafa verið pakkaðar inn í plast, að byrja að skera plastið af grindinni að ofanverðu og styðja um leið við þá böggla sem þar séu og helst taka þá af grindinni, áður en plastið sé skorið neðst af grindinni og þeir bögglar teknir af.
Stefndi byggir á því, að stefnandi hafi í engu farið eftir þessu þegar óhappið varð og vísar stefndi til þess að stefnandi kveðst hafa setið á hækjum sér og skorið plast neðst af grindinni þegar kassarnir hafi fallið á hana. Stefnanda, sem hafi á slysdegi verið reyndur og þaulvanur starfsmaður stefnda, hafi mátt vera það augljóst að með slíku athæfi hafi hún sýnt af sér stórkostlegt kæruleysi, enda hafi henni verið fullkunnugt um að grindin hafi þá enn verið fullhlaðin, auk þess sem þá hafi ekkert lengur varnað bögglunum að falla af grindinni, þar sem hún hafi ekki stutt við þá. Einnig hafi stefnanda vart geta dulist hversu hlaðin grindin hafi verið er hún hafðist handa við losun hennar. Stefnandi hafi með aðgæsluleysi sínu breytt tiltölulega einföldu og hættulausu verki í hættulegt verk og með því hafi hún sett sjálfa sig og aðra samstarfsmenn í hættu.
Stefndi bendir á, að ávallt beri að gæta fyllstu varúðar við losun böggla hvort sem er af litlum sem stórum grindum, enda hafi það verið brýnt fyrir öllum starfsmönnum stefnda þegar í upphafi starfs þeirra að bögglar geti færst úr stað á grindunum, enda séu þeir fluttir um langan veg. Starfsmönnum stefnda sem vinni við losun grinda, beri því ávallt að gera ráð fyrir því að bögglarnir kunni að hafa færst úr stað á grindunum.
Þá mótmælir stefndi harðlega fullyrðingum stefnanda þess efnis að stefnda hafi borið að tryggja að gengið hefði verið frá grindum og bögglum staflað á þær með þeim hætti að þeir færðust ekki úr stað en að öðrum kosti bæri að meta það stefnda til vanrækslu. Eðli málsins samkvæmt sé stefnda ómögulegt að ábyrgjast slíkt, enda sé ekki á hans valdi að tryggja að bögglar færist ekki úr stað við flutning, sama hversu vandlega og vel sé gengið frá þeim á grindurnar. Þá telur stefndi að ef slík skylda hvíldi á starfsmönnum stefnda, sem önnuðust hleðslu umræddra grinda, þá væri hún bæði ósanngjörn og alltof þungbær. Mun nær væri að leggja ríkari aðgæsluskyldu á þá starfsmenn sem ynnu við losun grinda að sýna varúð við verkið hverju sinni og að gera ávallt ráð fyrir því að einhverjir bögglar kunni að vera illa skorðaðir eftir flutning þeirra um langan veg og því líklegir til að falla af grind um leið og búið væri að opna hurð á henni eða skera plast utan af henni.
Stefndi byggir á því, að um einfalt verk hafi verið að ræða og þá hafi bæði sjónarvottur að slysinu og yfirmaður stefnanda lýst því yfir að ekkert athugavert hafi verið við grindina sem stefnandi hafi verið að losa. Stefndi mótmælir því fullyrðingu stefnanda, um að grindin hafi verið ofhlaðin umrætt sinn sem rangri og ósannaðri, enda styðjist hún ekki við frásögn F, sem hafi verið eini sjónarvotturinn að slysinu. Stefndi hafnar því jafnframt að starfsmenn hans hafi sýnt af sér vangæslu við hleðslu eða flutning umræddrar grindar […] á […]. Lýsingar stefnanda þess efnis að hún hafi verið búin að losa plastið efst og hafi verið að skera það neðst af grindinni, án þess að hún hafi stutt við eða tekið þá böggla af grindinni sem hún kveður hafa verið ofan á grindinni og því grindin augljóslega verið ofhlaðin, sýni, svo hafið sé yfir allan vafa, að stefnandi hafi ekki sýnt þá tilhlýðilegu aðgæslu sem ætlast hafi mátt til af henni. Stefnanda hafi mátt vera það augljóst, að hafi bögglar verið ofan á grindinni þannig að hvorki hurð grindarinnar né plast utan um þá hafi varnað því að þeir féllu af, hafi hún átt að fjarlægja þá af grindinni um leið og hún hafi skar plastið af þeim, eða áður en hún hafi haldið áfram að skera afganginn af plastinu utan af grindinni.
Stefndi telur því ljóst að orsök slyssins hafi verið sú að stefnandi hafi ekki tekið þá böggla af grindinni sem hafi verið efst á henni eða stutt við þá meðan hún skar plastið neðst af grindinni en henni hafi borið samkvæmt réttu verklagi að losa bögglana af grindinni jafnóðum og umbúðir voru losaðar utan af þeim eða hurðir opnaðar sem vörnuðu því að þeir féllu af henni. Stefnandi hafi því sýnt af sér vítavert kæruleysi og ekki borið sig rétt að við verkið í umrætt sinn. Enda liggi fyrir að stefnandi hafi ekki fjarlægt neina böggla af grindinni er slysið varð en hún kveðst hafa setið á hækjum sér eða á gólfinu og skorið plastið neðst af grindinni þegar kassarnir féllu á hana. Slysið verði því ekki að neinu leyti rakið til saknæms frágangs starfsmanna stefnda á bögglum á grindinni eða grindarinnar sjálfrar þannig að hætta hafi getað stafað af fyrir þann aðila, sem hafi komið til með að losa grindina. Þá vísar stefndi til þess að atburðurinn hafi ekki verið í neinum tengslum við vinnustaðinn sjálfan eða meintan skort á fullnægjandi aðbúnaði og öryggi starfsmanna á vinnustaðnum. Þannig verði slysið ekki rakið til skorts á öryggisráðstöfunum, sem hvíli á atvinnurekanda að viðhafa, heldur til aðgæsluleysis stefnanda, sem hafi ekki fylgt viðurkenndu verklagi í umrætt sinn. Stefndi hafnar því alfarið að hafa vanrækt skyldur sínar og/eða að hafa gerst brotlegur gegn ákvæðum 13., 37. og 42. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, ákvæðum reglna nr. 499/1999, um öryggi og hollustu þegar byrðar séu handleiknar, og 3. mgr. 5. gr. tilskipunar 89/391/EBE.
Stefndi byggir aðalkröfu sína um sýknu í öðru lagi á því, að stefnandi verði að bera tjón sitt að fullu sjálfur vegna eigin sakar. Stefnanda, sem hóf fyrst störf hjá stefnda í janúar 2004 og bjó því yfir mikilli starfsreynslu þegar óhappið varð í nóvember 2007, hafi mátt vera ljóst hvernig frágangi og flutningi böggla hafi verið háttað hjá stefnda. Stefnandi hafi því átt að gera viðeigandi ráðstafanir við losun bögglapósts af grindum, miðað við aðstæður hverju sinni. Bögglapósturinn komi með flutningabílum frá Reykjavík og gengið sé þannig frá bögglum að þeim sé raðað á grindur. Starfsmenn stefnda í Reykjavík reyni ávallt að ganga frá bögglapósti með þeim hætti að bögglunum sé raðað og staflað á grindurnar með þeim hætti að þeir séu vel skorðaðir til að stuðla að sem minnstri hreyfingu á þeim í grindum við flutning í póstbílum milli staða. Bögglagrindurnar séu oft fluttar um langa leið í mismunandi færð og því sé ekki óeðlilegt að bögglar hafi getað færst til í grindum við flutning þeirra. Starfsmönnum stefnda beri því ávallt að gera viðeigandi ráðstafanir þegar bögglarnir séu teknir af grindunum, þ. á m. með því að styðja við þá við losun grindanna.
Stefndi byggir á því að þó að starfsmenn hans vandi sig við hleðslu grinda, þá verði aldrei unnt að koma í veg fyrir að bögglar færist eitthvað úr stað á grindunum við flutning þeirra út á land. Því sé eðli málsins samkvæmt sanngjarnt að þeir starfsmenn stefnda sem vinna við losun grinda gangi út frá því sem vísu að bögglar hafi að öllum líkindum hreyfst eitthvað úr stað og sýni því ýtrustu varkárni við losun grindanna.
Stefndi telur því að slys stefnanda sé að rekja til óhappatilviks og/eða aðgæsluleysis stefnanda. Stefnandi hafi með engum hætti sýnt fram á að stefndi og/eða starfsmenn hans hafi sýnt af sér saknæma háttsemi við frágang og hleðslu umræddrar grindar eða röðun þeirra böggla sem á henni hafi verið. Frásögn sjónarvottsins, F, renni endanlegum stoðum undir þá afstöðu stefnda.
Stefndi byggir aðalkröfu sína um sýknu í þriðja lagi á því, að það sé með öllu ósannað að orsakatengsl séu milli þess heilsutjóns, sem stefnandi kveðst búa við í dag, og óhappsins sem stefnandi hafi orðið fyrir 15. nóvember 2007. Ekkert liggi fyrir í málinu sem staðfesti að stefnandi hafi orðið fyrir (varanlegu) líkamlegu heilsutjóni eftir umrætt slys. Þvert á móti verði ekki annað ráðið af athöfnum stefnanda og gögnum málsins en að stefnandi hafi einungis hlotið mar á vöðva. Þá komi fram í yfirlýsingu C, þáverandi yfirmanns stefnanda, að stefnandi hafi mætt aftur til vinnu einungis tveimur virkum dögum eftir slysið, eða mánudaginn 19. nóvember 2007, og verið að fullu vinnufær þar til hún hafi fengið hnykk á bakið 4. ágúst 2010.
Að sögn C hafi stefnandi aldrei haft orð á því að hún hafi fundið fyrir eftirköstum eftir slysið eða að hún hafi búið við líkamleg einkenni eða heilsutjón vegna þess. Þá komi fram í læknisvottorði B, dagsettu 13. maí 2011, að stefnandi hafi ekki leitað til Heilbrigðisstofnunar […] vegna einkenna sem hafi getað tengst þessu slysi í tæp þrjú ár, eða frá því að hún hafi leitað þangað á slysdegi 15. nóvember 2007 og þar til hún hafi komið þangað eftir að hafa fengið hnykk á bakið 5. ágúst 2010. Jafnframt segi í vottorðinu að samkvæmt sjúkraskrá stefnanda hafi hún heldur ekki leitað annað vegna einkenna, sem tengst gætu slysinu á framangreindu tímabili, svo sem til annarra heilbrigðisstofnana eða heilbrigðisstarfsmanna.
Í þessu sambandi bendir stefndi á að samkvæmt framangreindu séu fullyrðingar stefnanda, sem hafðar séu eftir henni í læknisvottorði G, um að hún hafi verið í eftirliti hjá Heilbrigðisstofnun […] vegna einkenna af völdum slyssins ekki réttar, enda komi fram í framangreindu vottorði læknisins að hann hafi engin gögn haft undir höndum sem staðfesti þessa frásögn stefnanda. Stefndi telur því ljóst, með hliðsjón af gögnum málsins, að stefnandi hafi hvorki leitað sér læknisaðstoðar í tæp þrjú ár vegna þeirra einkenna sem hún kveðst hafa byrjað að þjást af þegar eftir slysið 15. nóvember 2007, né hafi hún sagt yfirmanni sínum frá meintum einkennum.
Þá mótmælir stefndi sem röngum læknisvottorðum I um þetta atriði en þar sé því slegið föstu að stefnandi hafi orðið fyrir varanlegu líkamstjóni í óhappinu 15. nóvember 2007. Stefndi telur að meint orsakatengsl milli slyssins 2007 og þeirra líkamlegu einkenna, sem stefnandi kveður nú hrjá sig, séu með öllu ósönnuð. Í vottorðinu, sem sé dagsett 18. maí 2011, sé meðal annars haft eftir stefnanda að hún hafi verið við góða heilsu um ævina. Í niðurlagi vottorðsins komi fram álit læknisins, sem sé alfarið byggt á einhliða frásögnum stefnanda og hafi því ekkert sönnunargildi í málinu, að því leyti sem þau njóti ekki stuðnings í öðrum læknisfræðilegum gögnum málsins. Stefndi bendir máli sínu til stuðnings á að framangreint álit læknisins gangi í berhögg við það, sem komi fram í göngudeildarnótu L, bæklunarlæknis, dagsettri 6. september 2010, þar sem segi að stefnandi hafi jafnað sig af verk fram í hægri hendi sem hún hafi fengið eftir slysið 15. nóvember 2007. Í sömu göngudeildarnótu segi einnig að þegar stefnandi hafi verið um tvítugt, hafi hún fengið tak í bakið. Þá komi fram í samskiptaseðli M læknis, dagsettum 5. ágúst 2010, sem hafi skoðað stefnanda eftir að hún hafi fengið hnykk á bakið í ágúst 2010, að stefnandi hafi fengið þursabit um tvítugsaldurinn og að hún hafi líkt einkennum sínum við þau sem hún hafi haft þá. Sé því röng sú fullyrðing að stefnandi hafi ekki kennt sér meins fyrir slysið.
Stefndi vísar einnig til þess að í samskiptaseðli N, dagsettum 5. ágúst 2010, sé haft eftir stefnanda að hún hafi getað gengið eftir að hafa skrikað fótur við ræstingar 4. ágúst 2010 en þegar hún hafi beygt sig fram daginn eftir þá hafi hún fengið mjög slæmt tak í bakið og nánast fest sig. Í læknisvottorði G, dagsettu 6. maí 2011, sé haft eftir stefnanda lýsing á framangreindum atburði sem sé í stórum dráttum eins. Að mati stefnda séu þessar lýsingar stefnanda enn ein sönnun þess að orsakatengsl milli slyssins 15. nóvember 2007 og þess varanlega líkamstjóns, sem stefnandi kveðst búa við í dag, séu með öllu ósönnuð. Stefnandi gæti allt eins hafa orðið fyrir hinu meinta heilsutjóni þegar hún hafi beygt sig fram að morgni dags 5. ágúst 2010.
Stefndi vísar í greinargerð stefnanda, sem hún sendi G, en samkvæmt henni sé ljóst að stefnandi hafi orðið fyrir líkamstjóni er hún beygði sig fram þegar hún var stödd á heimili sínu 5. ágúst 2010 en ekki við slysið sem hún hafi orðið fyrir við vinnu sína hjá stefnda í nóvember 2007.
Þá mótmælir stefndi því sem komi fram í læknisvottorði I, dagsettu 27. október 2011, þar sem segi að stefnandi hafi þjáðst af verkjum í hægri öxl eftir slysið í nóvember 2007. Ekkert í málinu staðfesti þessa fullyrðingu stefnanda. Hafi stefnandi í raun verið kvalin af verkjum í hægri öxl, sæti furðu að hún hafi beðið í tæp þrjú ár með að leita sér læknisaðstoðar vegna þess. Þótt stefnandi hafi undirgengist þrýstingslosandi liðspeglunaraðgerð 14. júní 2011 og segist ekki hafa kennt sér meins í öxlinni fyrir umrætt slys 2007, hafi slík yfirlýsing stefnanda ekkert sönnunargildi, enda sé einungis um einhliða frásögn stefnanda að ræða. Hvergi sé heldur minnst á það í sjúkraskrá stefnanda að hún hafi þjáðst af klemmueinkennum í öxlinni eftir slysið 2007 eða að slík einkenni hafi farið versnandi.
Þá telur stefndi að líta beri til þess að I hafi ekki skoðað stefnanda fyrr en 7. apríl 2011 eða þremur og hálfu ári eftir slysið 15. nóvember 2007 og rúmum átta mánuðum eftir að stefnandi hafði fengið hnykk á bakið í ágúst 2010. Ekki verði ráðið af vottorði læknisins að stefnandi hafi minnst einu orði á síðarnefnda óhappið við hann og það heilsutjón sem það hafi haft í för með sér. Þannig víki læknirinn í engu að síðara óhappinu í umfjöllun sinni um heilsufar stefnanda, heldur slái því föstu að það heilsutjón, sem stefnandi kveðst þjást af, megi að öllu leyti rekja til slyssins sem hún hafi orðið fyrir 15. nóvember 2007. Virðist læknirinn líta svo á að ástæðu þess að stefnandi hafi hætt störfum hjá stefnda megi rekja til þess varanlega líkamstjóns sem stefnandi kveðst hafa orðið fyrir í síðarnefnda slysinu. Þá segi í niðurlagi framangreinds læknisvottorðs I að læknirinn telji að axlarklemman, sem stefnandi kveðst hafa byrjað að þjást af eftir slysið í nóvember 2007, hafi komið fram smátt og smátt eftir umrætt slys.
Að mati stefnda hafi umrædd læknisvottorð I ekkert sönnunargildi um þetta atriði, enda byggist þau alfarið á endursögn einhliða frásagnar stefnanda sem fái ekki stuðning í öðrum gögnum málsins en þeim, sem hér að framan greini.
Stefndi bendir einnig á, að frásagnir stefndu af því hvernig hún hafi fengið núverandi einkenni beri ekki saman. Þannig haldi stefnandi því fram í stefnu að hún hafi fengið hnykk á bakið er hún hafi hrasað við ræstingar 5. ágúst 2010. Í læknisvottorði G, dagsettu 6. maí 2011, sé á hinn bóginn haft eftir stefnanda og tekið upp úr greinargerð hennar til læknisins, að hún hafi ekki kennt sér meins er henni hafi skrikað fótur við ræstingar framangreindan dag, heldur hafi einkenni hennar komið fram við það að hún hafi beygt sig fram á heimili sínu daginn eftir.
Stefndi byggir varakröfu sína á því að tjón stefnanda sé að mestu leyti að rekja til óhappatilviks eða gáleysis hennar sjálfrar og því verði stefnandi að bera tjón sitt að hluta sjálf vegna eigin sakar. Þá séu með öllu ósönnuð orsakatengsl á milli óþæginda, sem stefnandi kveðst nú búa við, og þess óhapps sem stefnandi hafi orðið fyrir 15. nóvember 2007. Stefndi lítur svo á að stefnandi verði, líkt og aðrir starfsmenn, að sýna tilhlýðilega aðgæslu og ítrustu varúð við losun böggla af grindum og gera viðeigandi ráðstafanir við verkið sem taki meðal annars mið af aðstæðum hverju sinni. Þannig hafi stefnandi mátt vera fullljóst að hún hafi aldrei getað gengið út frá því að starfsmönnum stefnda hafi verið unnt að ganga frá hleðslu böggla á grind með þeim hætti að þeir hafi ekki getað haggast úr stað við flutninginn. Þannig sé óraunhæft að ætla að bögglarnir hafi ekki getað hreyfst úr stað á grindinni við flutning um langa vegu, sama hversu kyrfilega og vel þeir hafi verið skorðaðir á grindunum í upphafi. Þvert á móti hafi stefnanda borið að fara eftir réttu og viðurkenndu verklagi við losun grinda og hafi átt að styðja við böggla eftir því sem þörf hafi reynst á hverju sinni, auk þess að fara að öllu með gát að öðru leyti við verkið. Þá telur stefndi að stefnandi hafi sýnt af sér vítavert kæruleysi með því að hafa sest á hækjur sér þegar hún vann að losun grindarinnar umrætt sinn, enda hefði henni ekki getað dulist að grindin var fullhlaðin og hafði ekki verið affermd að neinu leyti. Varðandi eigin sök stefnanda, vísist til þeirra röksemda sem hafi verið raktar að framan til stuðnings aðalkröfu.
Hið stefnda félag, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., byggir sýknukröfu sína á því, að stefnandi hafi glatað rétti sínum til bóta úr slysatryggingu launþega fyrir tómlæti. Stefnandi hafi ekki gert kröfu um bætur til stefnda innan árs frá því að hann fékk vitneskju um atvik þau sem hún sé reist á, svo sem áskilið sé í 124. gr. laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga.
Samkvæmt læknisvottorði B, dagsettu 13. maí 2011, hafi stefnandi til læknis strax eftir slysið 15. nóvember 2007 og fengið þá greiningu að hún hefði marist á vöðvum. Stefnandi hefði síðan ekki leitað til læknis út af meintum líkamlegum einkennum, sem hún kveður hafa byrjað að hrjá sig eftir framangreint slys, fyrr en tæpum þremur árum síðar, þ.e. 5. ágúst 2010, en þá hafi meðal annars legið fyrir að stefnandi hafi, fyrr þann sama dag, fengið hnykk á bakið eða tak í það við það að beygja sig fram fyrir sig heima hjá sér. Ekki liggi fyrir í málinu nein gögn, sem sýni fram á að stefnandi hafi leitað læknisaðstoðar vegna umræddra meintra einkenna á framangreindu tímabili, og þá hafi það aldrei komið fram í samskiptum stefnanda við þáverandi yfirmann sinn hjá stefnda að hún hafi haft einhver einkenni eða byggi við heilsutjón eftir slysið í nóvember 2007.
Ekki hafi verið sýnt fram á að stefnandi hafi hlotið taugaskaða eða annað tjón sem rekja megi til slyssins og sem geti skýrt núverandi einkenni tjónþola. Stefndi vísar í því sambandi til göngudeildarnótu L, bæklunarlæknis, dagsettrar 6. september 2010, en þar komi fram að taugaskoðun á stefnanda hafi reynst eðlileg. Vegna gruns stefnanda um að hún hefði fengið brjósklos eða mænuskaða, hefði verið gerð segulómun af hrygg hennar á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri en sú rannsókn hafi einungis leitt í ljós að stefnandi var með „vægar aldurstengdar breytingar í hálshryggnum.“
Stefndi byggir á því að hafi stefnandi hlotið líkamstjón í slysinu 15. nóvember 2007, hljóti henni að hafa verið orðið kunnugt um það mun fyrr heldur en haldið sé fram í stefnu þar sem segi að stefnanda hafi fyrst orðið ljóst að líkamstjón hennar var varanlegt vegna framangreinds slyss, eftir að hún hafi fengið hnykk á bakið í ágúst 2010. Vísar stefndi þessu til stuðnings til frásagnar stefnanda í greinargerð, sem höfð er eftir henni í læknisvottorði G, dagsettu 6. maí 2011. Fullyrðingum stefnanda í greinargerð þess efnis að henni hafi fyrst orðið kunnugt um þessi atvik þegar hún hafði lent í óhappinu í ágúst 2010 sé því alfarið hafnað og þeim mótmælt sem röngum og ósönnuðum.
Af lýsingum stefnanda sé ljóst að meint einkenni hafi verið byrjuð að hrjá hana þegar eftir að hún varð fyrir óhappinu í nóvember 2007 en hún kveður þau hafa haft talsverð áhrif á daglegt líf hennar. Að þessu virtu telur stefndi ljóst að frestur stefnanda til að gera kröfu um bætur úr slysatryggingu launþega hjá stefnda hafi byrjað að líða sama dag og slysið varð hinn 15. nóvember 2007 eða í síðasta lagi nokkrum vikum eða mánuðum síðar. Því sé hafið yfir allan vafa að stefnandi var búin að fyrirgera rétti sínum fyrir tómlæti, sbr. 1. mgr. 124. gr. laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga, þegar hún hafi fyrst haft uppi kröfu um bætur úr slysatryggingu launþega þremur og hálfu árið eftir slysið með bréfi lögmanns stefnanda 2. mars 2011.
Þá byggir stefndi sýknukröfu sína á því að orsakatengsl séu með öllu ósönnuð á milli meints heilsutjóns stefnanda og atburðarins 15. nóvember 2007. Vísist í því sambandi einnig til þeirra röksemda sem færðar séu fram til stuðnings aðalkröfunni.
Um lagarök vísa stefndu, Íslandspóstur hf. og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., einkum til reglna skaðabótaréttar um sönnun tjóns og sönnunarbyrði, óhappatilviljun, gáleysi, orsakatengsl og sennilega afleiðingu og eigin sakar tjónþola, auk skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999. Einnig er vísað til laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, og til ákvæða reglna nr. 499/1994, um öryggi og hollustu þegar byrðar eru handleiknar. Málskostnaðarkrafa stefndu er byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Jafnframt vísar stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., til laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga, auk vátryggingarskilmála um slysatryggingu launþega.
VI.
Óumdeilt er að hinn 15. nóvember 2007 varð óhapp þegar tveir bögglar af bögglagrind, sem stefnandi sem starfsmaður stefnda, Íslandspósts hf., vann við að losa, féllu niður og annar þeirra lenti á öxl stefnanda. Stefnandi byggir aðalkröfu sína á því að stefndi, Íslandspóstur hf., hafi vanrækt skyldur sínar samkvæmt lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, en bögglagrindin hefði verið hlaðin þannig að hætta stafaði af henni fyrir þann sem kæmi til með að losa hana. Óhappið megi því rekja til óforsvaranlegs og saknæms frágangs starfsmanna stefnda á grindinni. Stefndi, Íslandspóstur hf., byggir aðalkröfu sína um sýknu meðal annars á því, að ósannað sé að tjón stefnanda megi rekja til saknæmrar háttsemi stefnda eða starfsmanna hans, saknæms frágangs á umræddri bögglagrind eða annarra atvika sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á að lögum. Varakröfu sína um að hann verði einungis dæmdur skaðabótaskyldur að hluta, byggir stefndi á því að tjón stefnanda megi að mestu leyti rekja til óhappatilviks eða gáleysis stefnanda sjálfs og því verði hann að bera tjón sitt að hluta sjálfur vegna eigin sakar. Þá sé ósönnuð orsakatengsl milli óhappsins og líðanar stefnanda nú.
Stefnandi byggir varakröfu sína á hendur stefnda, Almennum-tryggingum hf., um viðurkenningu á rétti til bóta úr launþegatryggingu stefnda, Íslandspósts hf., hjá tryggingarfélaginu á því að um hafi verið að ræða slys í skilningi 2. mgr. 1. gr. vátryggingarskilmála félagsins. Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi glatað rétti sínum til bótanna fyrir tómlæti. Stefnandi hafi ekki gert kröfu um bætur til stefnda innan árs frá því að hann fékk vitneskju um atvik þau sem hún sé reist á, svo sem áskilið sé í 124. gr. laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga. Þá byggir stefndi sýknukröfu sína jafnframt á því, að orsakatengsl milli ætlaðs heilsutjóns stefnanda og umrædds atviks 15. nóvember 2007 séu með öllu ósönnuð.
Í stefnu er því lýst að um hafi verið að ræða bögglagrind sem sé um 170-180 cm há og opnist að framanverðu. Grindin hafi verið full af pökkum og umvafin plasti. Í greinargerðinni gera stefndu grein fyrir þeim tveim tegundum grinda sem notaðar eru undir böggla. Annars vegar eru stórar grindur sem útbúnar eru með tveimur rimlahurðum og lokaðar allar hringinn. Hins vegar er um að ræða litlar grindur sem eru jafnan pakkaðar inn í plast til að varna því að bögglar falli af þeim. Í greinargerðinni bendir stefndi á að miðað við þau mál, sem að stefnandi gefi upp á grindinni, sé ljóst að um hafi verið að ræða stóra grind. Sé aldrei sett plast utan um stórar grindur þar sem þær séu lokaðar allan hringinn. Við aðalmeðferð málsins leiðrétti stefnandi lýsingu sína á grindinni og sagði að um hefði verið að ræða litla grind og að hún hefði verið vafin inn í plast. Vitnin, F og C, staðfestu í skýrslum sínum að um hefði verið að ræða litla grind og kvað C hana vera um 150 cm háa.
C, stöðvarstjóri á […], var yfirmaður stefnanda þegar umrædd atvik urðu á árinu 2007. Bar hún fyrir dómi að viðurkennt verklag við losun grindanna væri að skera eða klippa plast af grindinni efst og niður að miðju grindarinnar og taka síðan þá böggla sem þar væru. Síðan væri haldið áfram að losa plastið alla leið niður og afgangurinn af bögglunum tekinn. Kvað hún þessa aðferð ávallt vera notaða og sagði að öllum nýjum starfsmönnum væri kennt að losa grindurnar með þessum hætti.
F var að störfum með stefnanda umræddan dag. Kvaðst hún hafa verið að kveikja á tölvunni og verið staðsett um það bil 2-3 metra frá stefnanda þegar óhappið átti sér stað. Hún hafi síðan snúið sér að stefnanda og grindinni og séð þá kassana á hreyfingu. F bar fyrir dóminum að ekkert hefði verið frábrugðið við grindina eða hvernig bögglunum hefði verið komið fyrir á henni. Þá kvað hún grindurnar ævinlega losaðar með þeim hætti að byrjað væri að skera eða klippa plastið efst og niður að miðju grindarinnar. Væri grindin full af bögglum, kæmi ekki til greina að taka allt plastið af í einu, heldur væru efstu bögglarnir alltaf teknir af fyrst og síðan væri haldið áfram að klippa plastið. Það væri einungis ef grindin væri hálf sem til álita kæmi að taka allt plastið af í einu.
Fyrir liggur að stefnandi hafði unnið hjá stefnda í fjögur ár þegar umrætt óhapp varð og að á þeim tíma hafði hún m.a. unnið við losun grinda. Ekki verður annað séð en að það verk, sem stefnandi vann umrætt sinn, þ.e. að losa böggla úr bögglagrind, sé tiltölulega einfaldur starfi sem ekki þurfi sérstaka kunnáttu til að leysa af hendi. Stefnandi kveðst hafa verið að skera plastið að ofanverðu og niður eftir grindinni og hafi hún setið á hækjum sér þegar bögglar féllu á hana. Stefnandi kveður grindina hafa verið fulla af bögglum umrætt sinn og því verður að telja að stefnanda hefði ekki átt að dyljast að sýna þurfti aðgát þegar bögglarnir voru losaðir. Í ljósi vættis F, samstarfskonu stefnanda, verður að telja að rétt verklag hefði falist í því að losa bögglana af grindinni grindurnar jafnóðum og plastið, sem skorðaði þá, var skorið utan af þeim eða í það minnsta að styðja við þá böggla sem efstir voru. Samkvæmt framburði stefnanda sjálfrar gerði hún hvorugt.
Samkvæmt meginreglu skaðabótaréttar verður sá, sem krefst skaðabóta, að sanna að hann hafi orðið fyrir tjóni, auk þess sem hann ber sönnunarbyrðina fyrir því hver atvikin að baki tjóninu voru. Þá ber honum að sanna að orsakatengsl séu milli tjóns hans og atvika. Sönnunarbyrðin hvílir á tjónþola og verður ekki vikið frá þessari almennu reglu nema í undantekningartilvikum. Í þessu máli ber stefnanda því að sanna tjón sitt og jafnframt að tjónið megi rekja til atvika sem stefndi, Íslandspóstur hf. eða starfsmenn hans, beri skaðabótaábyrgð á að lögum.
Af gögnum málsins og framburði F, sem var eini sjónarvotturinn að óhappinu, verður ekki annað ráðið en að ekkert hafi verið athugavert við bögglagrindina sem stefnandi vann við umrætt sinn. Þá hafi aðstæður að öðru leyti ekki verið með þeim hætti að þær ógnuðu öryggi starfsmanna. Kom fram í vætti vitnanna, C og F, að sú aðferð, sem stefnandi beitti við að ná plastinu af bögglagrindinni umrætt sinn, þ.e. að skera plastið alveg niður áður en efstu bögglarnir hefðu verið teknir af, hefði ekki verið í samræmi við viðurkennd vinnubrögð þegar um fullhlaðna bögglagrind væri að ræða. Báru bæði vitnin um að starfsmönnum væru kennd rétt vinnubrögð við losun grindanna. Að þessu virtu verður að telja sannað að umrædd atvik þegar böggull féll af bögglagrind á öxl stefnanda verði rakið til óhappatilviljunar og einnig að nokkru til aðgæsluleysis stefnanda, sem stefnda verður ekki gefið að sök. Verður því ekki fallist á það með stefnanda að óhappið verði rakið til þess að stefndi, Íslandspóstur hf., hafi vanrækt skyldur sínar samkvæmt lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, og reglugerð nr. 499/1994, um öryggi og hollustu þegar byrðar eru handleiknar, með því að bögglagrindin hafi verið hlaðin þannig að hætta stafaði af henni fyrir þann sem kæmi til með að losa hana, né að það verði rakið til óforsvaranlegs og saknæms frágangs starfsmanna stefnda á umræddri grind. Í ljósi framangreinds verður ekki séð að neinu hefði breytt að Vinnueftirlitið var ekki kallað á staðinn í kjölfar umrædds atviks.
Að öllu framangreindu virtu verður, þegar af þessari ástæðu, að sýkna stefnda, Íslandspóst hf., af aðalkröfu stefnanda.
Stefnandi byggir varakröfu sína á því, að um sé að ræða slys í skilningi 2. mgr. 1. gr. vátryggingaskilmála stefnda, Sjóvár-Almennra trygginga hf. Óumdeilt er að stefnandi var tryggð slysatryggingu launþega hjá stefnda þegar hún varð fyrir hinu umdeilda óhappi. Í 1. gr. skilmála tryggingarinnar kemur fram að með orðinu „slys“ sé átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð, sem valdi meiðslum á líkama vátryggðs og gerist sannanlega án vilja hans.
Í vottorði B, dagsettu 13. maí 2011, kemur fram að stefnandi leitaði til Heilbrigðisstofnunar […] á slysdegi. Hún hafi ekki verið með einkenni um alvarlega áverka, heldur hafi einkennin bent til þess að hún hefði marist á vöðvum. Þá kemur fram að stefnandi hafi ekki leitað til Heilbrigðisstofnunar […] vegna einkenna, sem hafi getað tengst umræddu óhappi, frá því hún leitaði þangað á slysdegi 15. nóvember 2007 og þar til hún kom aftur á stofnunina eftir að hafa fengið hnykk á bakið 4. ágúst 2010. Jafnframt kemur fram að samkvæmt sjúkraskrá séu ekki upplýsingar um að stefnandi hafi leitað annað vegna einkenna sem tengst gætu óhappinu á framangreindu tímabili.
Hinn 6. september 2010 fór stefnandi í skoðun hjá L bæklunarsérfræðingi á Heilbrigðisstofnun […]. Í göngudeildarnótu sérfræðingsins kemur fram að stefnandi hafi greint honum frá óhappinu 15. nóvember 2007 og að hún hafi lýst því að við það hafi hún fengið verk fram í höndina sem hún hefði svo náð sér af. Þá hafi hún greint frá því að henni hefði skrikað fótur við skúringar um það bil mánuði áður og hefði hún runnið til í hálku og fengið hnykk á brjóst/hálshrygg. Hún hafi síðan vaknað með verkina, sem hún hefði fengið eftir óhappið 2007, dofa og verk í mjóbakinu. Niðurstaða taugaskoðunar sýndi að stefnandi hafði minni kraft í vöðvum hægri útlima en vinstri og þá hafði stefnandi öðruvísi skynjun í hægra handarbaki en vinstra. Var stefnandi send í segulómun vegna gruns um mænuskaða eða brjósklos en allt hefði komið eðlilega út.
G læknir skoðaði stefnanda 6. apríl 2011. Vegna gruns um taugaskaða út frá hálsi, framkvæmdi G vöðvaafrit og taugaleiðingarannsókn en niðurstaða þeirrar rannsóknar benti til þess að allt væri eðlilegt. Álit læknisins var að stefnandi væri með slæma tognun í hnakkafestum, hnakka- og herðavöðvum en ekki tókst að sýna fram á að þessi einkenni væru vegna taugaskaða.
Í læknisvottorði G, dagsettu 6. maí 2011, er vísað til greinargerðar, sem stefnandi sendi honum, þar sem hún segir m.a. að daglegt líf hennar hafi gengið ágætlega þar til í ágúst 2010 þegar hún hafi verið að skúra og skrikað fótur og runnið til í bleytunni. Það hafi svo verið morguninn eftir þegar hún beygði sig niður sem allt hafi farið „í lás.“ Handleggurinn hafi dofnað og hún hafi fundið stingandi verk í hálsi og niður í bak. Upp frá því hefði hún verið misslæm til heilsunnar en aldrei góð.
I bæklunarlæknir skoðaði stefnanda 7. apríl 2011. Í vottorði hans, dagsettu 18. maí 2011, er því slegið föstu að stefnandi hafi orðið fyrir varanlegu líkamstjóni við óhappið 15. nóvember 2007. Hún hafi hlotið maráverka á hægra axlarsvæði og tognun á hálsvöðvanum hægra megin. Þá segir að hún hafi ekki fundið fyrir bata lengi og ekki sé við því að búast að hún verði betri með tímanum þar sem þrjú ár séu liðin frá slysinu. Í vottorði sama læknis, dagsettu 27. október 2011, er það talið líklegt að axlarklemma, sem stefnandi kvaðst þjást af, hafi komið til eftir óhappið 15. nóvember 2007.
Eins og áður segir ber stefnandi sönnunarbyrði fyrir því að það heilsutjón, sem hún kveðst nú búa við, sé að rekja til óhappsins 15. nóvember 2007. Ljóst þykir að stefnandi hafi ekki verið óvinnufær eftir umrætt óhapp, þar sem hún mætti til vinnu fjórum dögum eftir óhappið. Þá er ekki að sjá af gögnum málsins að stefnandi hafi leitað til Heilbrigðisstofnunar […] vegna einkenna sem tengst gætu óhappinu í tæp þrjú ár, þ.e. frá því hún kom þangað á slysdegi 15. nóvember 2007 og þar til hún leitaði aftur á stofnunina eftir að hafa fengið hnykk á bakið 5. ágúst 2010. Þá báru vitnin, C og F, bæði á þann veg að stefnandi hefði tekið upp fyrri störf þegar hún mætti aftur til vinnu sinnar 19. nóvember 2007 en vitnið, F, minnti að stefnandi hefði talað um að hún væri eitthvað aum. Tók hún jafnframt fram að þær stefnandi umgengjust töluvert en stefnandi hefði ekki rætt um afleiðingar óhappsins í nóvember 2007 fyrr en eftir atvikið 2010. Þegar til alls framanritaðs er litið þykir ekki verða fullyrt að stefnandi hafi orðið fyrir því líkamstjóni, sem hún gerir kröfu um bætur fyrir, þegar umrætt óhapp varð 15. nóvember 2007. Með vísan til framlagðra gagna málsins er enda ekki útilokað að hún hafi orðið fyrir tjóni þegar henni skrikaði fótur við skúringar í ágústbyrjun 2010.
Í vottorði I, dagsettu 18. maí 2011, er því slegið föstu að stefnandi hafi orðið fyrir varanlegu líkamstjóni við óhappið 15. nóvember 2007. Stefndu hafa mótmælt sönnunargildi vottorðsins um að stefnandi hafi þjáðst af verkjum í hægri öxl eftir óhappið 2007, enda sé ekkert fram komið í málinu sem staðfesti þessa fullyrðingu. Fyrir liggur að I skoðaði stefnanda ekki fyrr en þremur og hálfu ári eftir óhappið og einnig eftir að stefnanda hafði skrikað fótur við skúringar. Þá fær þetta álit I ekki beina stoð í öðrum gögnum málsins og virðist það jafnvel ganga gegn því sem kemur fram í áðurnefndri göngudeildarnótu L læknis, dagsettri 6. september 2010, þar sem fram kemur að stefnandi hefði náð sér af verk í hendinni sem hún hafði fengið við óhappið. Önnur vottorð, sem liggja frammi í málinu, renna ekki nægilegum stoðum undir það að stefnandi hafi orðið fyrir varanlegu líkamstjóni við umrætt óhapp. Framlög matsgerð D lögfræðings og E læknis, sem stefndu hafa mótmælt og sem aflað var einhliða af hálfu stefnanda undir rekstri málsins, þykir í ljósi framangreinds ekki breyta þeirri niðurstöðu.
Að öllu framangreindu virtu er það því mat dómsins að ósönnuð séu orsakatengsl milli þess varanlega tjóns, sem stefnandi kveðst hafa orðið fyrir, og óhappsins 15. nóvember 2007. Þegar af þeirri ástæðu, ber að sýkna stefnda, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., af varakröfu stefnanda.
Eftir atvikum málsins og með vísan til ákvæða 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af máli þessu.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð
Stefndi, Íslandspóstur hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, A.
Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, A.
Málskostnaður fellur niður.