Hæstiréttur íslands

Mál nr. 104/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Frestur


                                     

Mánudaginn 23. febrúar 2015.

Nr. 104/2015.

Ásgeir Torfason og

Jensína Matthíasdóttir

(Jóhannes Karl Sveinsson hrl.)

gegn

Múrlínu ehf.

(Guðjón Ólafur Jónsson hrl.)

Kærumál. Frestur.

Á og J kröfðu M ehf. um skaðabætur vegna vanefnda á verksamningi og var bótakrafan reist á matsgerð dómkvadds matsmanns sem Á og J höfðu aflað. M ehf. krafði Á og J á hinn bóginn um greiðslu eftirstöðva verklauna samkvæmt verksamningi. Með hinum kærða úrskurði var fallist á kröfu M ehf. um að fresta málinu þar til matsgerð sem M ehf. hafði óskað eftir í sérstöku matsmáli lægi fyrir, en félagið hugðist leggja matsgerðina fram í málinu. Í niðurstöðu Hæstaréttar sagði m.a. að M ehf. hefði ekki krafist dómkvaðningar matsmanns jafnskjótt og tilefni hefði gefist til. M ehf. hefði sett kröfuna fram á grundvelli XII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þótt rétt hefði verið að  afla matsins undir rekstri málsins samkvæmt IX. kafla laganna fyrir þeim dómara sem með það færi og kæmi til með að leysa úr því. Með þessu hefði félagið komið því svo fyrir að meðferð málsins myndi fyrrsjáanlega dragast óþarflega á langinn yrði fallist á kröfu þess. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 3. febrúar 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. janúar 2015 þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að fresta málinu þar til umbeðin matsgerð lægi fyrir. Kæruheimild er í h. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að fyrrgreindri kröfu varnaraðila verði hafnað. Að auki krefjast þau kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Mál þetta var höfðað af sóknaraðilum gegn varnaraðila 10. desember 2013 og þingfest 7. janúar 2014. Í stefnu til héraðsdóms kröfðust sóknaraðilar skaðabóta úr hendi varnaraðila vegna vanefnda á verksamningi sem taldar voru felast í gölluðu múrverki og ófullnægjandi lögn gólfs í nýbyggingu þeirra. Var bótakrafan reist á matsgerð dómkvadds manns frá því í júní 2013 sem sóknaraðilar höfðu aflað. Samkvæmt nýjum gögnum, sem varnaraðili hefur lagt fram hér fyrir dómi, óskaði hann eftir því í apríl 2013 að frekari spurningar yrðu lagðar fyrir hinn dómkvadda matsmann en fram höfðu komið í matsbeiðni sóknaraðila án þess að formleg matsbeiðni væri lögð fram af sinni hálfu. Sóknaraðilar höfnuðu þessari málaleitan og vísuðu til þess að þau atriði, sem varnaraðili vildi láta meta, væru slík að hann gæti sem matsþoli bent matsmanninum á þau sem „sjónarmið í málinu, eða látið fara fram dómkvaðningu í öðru matsmáli.“

Varnaraðili lagði fram greinargerð í máli þessu á dómþingi 27. febrúar 2014 þar sem hann krafðist sýknu af kröfu sóknaraðila. Í greinargerðinni voru gerðar margþættar athugasemdir við áðurnefnda matsgerð og hún ekki talin hafa sönnunargildi vegna þeirra annmarka sem hún væri haldin. Var jafnframt áskilinn réttur „til að óska eftir dómkvaðningu matsmanna“ ef tilefni kynni að gefast til. Hinn 17. mars 2014 höfðaði varnaraðili mál á hendur sóknaraðilum og krafði þau um eftirstöðvar af verklaunum samkvæmt verksamningi aðila. Eftir að sóknaraðilar höfðu lagt fram greinargerð í því máli, þar sem þau kröfðust aðallega sýknu af kröfu varnaraðila, var ákveðið á dómþingi 27. júní sama ár, að ósk beggja aðila, að sameina það máli þessu.

Hinn 31. október 2014 beindi varnaraðili matsbeiðni til héraðsdóms með vísan til XII. kafla laga nr. 91/1991 þar sem óskað var eftir að dómkvaddir yrðu tveir sérfróðir menn „til að leggja mat á múrklæðningu og annað múrverk“ sem hann hafi unnið á fasteign sóknaraðila. Auk þeirra voru greindir í beiðninni fjórir aðrir sem matsþolar.

Á dómþingi 3. nóvember 2014 lagði varnaraðili matsbeiðnina fram sem dómskjal í þessu máli og var jafnframt bókað að til stæði að leggja hina umbeðnu matsgerð fram í málinu. Sóknaraðilar mótmæltu því á dómþingi 19. desember sama ár að varnaraðila yrði veittur lengri frestur til gagnaöflunar og áréttuðu þá afstöðu sína á dómþingi 7. janúar 2015 þegar hann óskaði eftir fresti til að leggja matsgerðina fram. Úr ágreiningi aðila var leyst með hinum kærða úrskurði þar sem málinu var eins og áður greinir frestað þar til matsgerðin lægi fyrir.

II

Samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 hafa málsaðilar forræði á sönnunarfærslu í málum eins og því, sem hér um ræðir, og ráða því þar með hvernig þeir færa sönnun fyrir atvikum sem þar er um deilt. Samkvæmt XII. kafla laganna er aðila, sem hefur lögvarinna hagsmuna að gæta, heimilt að beiðast dómkvaðningar matsmanns án þess að mál hafi verið höfðað. Eftir að það hefur verið gert á aðili þess kost eftir IX. kafla laganna að krefjast slíkrar dómkvaðningar og skal meðal annars í henni greina hverjum eigi að gefa kost á að gæta hagsmuna sinna við framkvæmd þess, sbr. 5. mgr. 61. gr. þeirra. Þannig er gert ráð fyrir að aðrir en aðilar máls geti verið matsþolar og verður því til samræmis að skýra 2. mgr. 62. gr. laganna svo að matsmaður skuli tilkynna aðilum máls og öðrum þeim, sem hagsmuna hafa að gæta við framkvæmd mats, hvar og hvenær verði metið svo að þeim gefist kostur á að tjá sig eftir þörfum á matsfundi.

Í samræmi við það sem að framan segir hefur aðilum að einkamáli verið játaður víðtækur réttur til að afla matsgerða til að færa sönnur á staðhæfingar sínar. Sá réttur takmarkast hins vegar af öðrum meginreglum einkamálaréttarfars. Eins og meðal annars verður ráðið af 1. mgr. 80. gr. og 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991 skulu aðilar einkamáls tefla fram kröfum og öðrum atriðum, sem varða málatilbúnað sinn, þar á meðal þeim sönnunargögnum sem þeir vilja reisa hann á, svo fljótt sem kostur er. Jafnframt er leitast við að sporna við því í lögunum að aðilar geti upp á sitt eindæmi dregið mál á langinn að óþörfu. Sú meginregla að hraða beri máli eftir föngum styðst ekki einungis við hagsmuni málsaðila, heldur búa einnig að baki henni ríkir almannahagsmunir. Í samræmi við það er mælt svo fyrir í 2. mgr. 102. gr. laganna að aðilar skuli nota fresti, sem dómari ákveður að veita þeim undir rekstri máls, jöfnum höndum til að leita sátta og til að afla frekari gagna, sbr. dóm Hæstaréttar 21. október 2011 í máli nr. 558/2011.

Eins og að framan greinir aflaði varnaraðili ekki mats á grundvelli XII. kafla laga nr. 91/1991 vorið 2013 þótt afstaða sóknaraðila á þeim tíma gæfi tilefni til þess. Hann lét síðan undir höfuð leggjast að krefjast mats samkvæmt IX. kafla laganna eftir að sóknaraðilar höfðuðu mál á hendur honum í desember sama ár. Það var ekki fyrr en í lok október 2014 að varnaraðili beindi matsbeiðni til héraðsdóms eftir XII. kafla laganna, enda þótt sú beiðni lúti að öllu leyti að sömu atvikum og málið sem rekið er milli aðila.

Af því sem rakið hefur verið er ljóst að varnaraðili krafðist ekki dómkvaðningar sérfróðs matsmanns eða matsmanna jafnskjótt og tilefni gafst til. Hann hefur nú gert það í sérstöku matsmáli, sem hann kýs að kalla svo, þótt samkvæmt framansögðu hefði verið rétt að hann aflaði mats undir rekstri þessa máls fyrir þeim dómara sem fer með málið og kemur til með að leysa úr því, sbr. 1. mgr. 47. gr. laga nr. 91/1991, sbr. og dóm Hæstaréttar 14. janúar 2015 í máli nr. 821/2014. Hefur varnaraðili með þessu móti komið því svo fyrir að meðferð málsins mun fyrirsjáanlega dragast óþarflega á langinn verði fallist á þá kröfu hans að því verði frestað þar til umbeðin matsgerð hans liggur fyrir. Þurfa sóknaraðilar ekki að sæta því og verður hinn kærði úrskurður af þeim sökum felldur úr gildi.

Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðilum kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

Varnaraðili, Múrlína ehf., greiði sóknaraðilum, Ásgeiri Torfasyni og Jensínu Matthíasdóttur, hvoru um sig 100.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. janúar 2015.

I.

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 10. desember 2013 og þingfestri 7. janúar 2014 af Ásgeiri Torfasyni og Jensínu Matthíasdóttur, báðum til heimilis að Skildinganesi 20 í Reykjavík, á hendur Múrlínu ehf., Smiðjuvegi 4A í Kópavogi. Mál nr. E-929/2014 var hinn 27. júní 2014 sameinað máli þessu og rekið undir númeri þess, með vísan til b-liðar 1. mgr. 30. gr., sbr. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991, en það var höfðað af Múrlínu ehf. á hendur Ásgeiri Torfasyni og Jensínu Matthíasdóttur með stefnu áritaðri um birtingu 17. mars 2014 og þingfest 20. sama mánaðar. Verður hér eftir vísað til Ásgeirs Torfasonar og Jensínu Matthíasdóttur sem aðalstefnenda en til Múrlínu ehf. sem gagnstefnanda.

Í þessum hluta málsins er til úrlausnar hvort verða eigi við kröfu gagnstefnanda um frekari frest til framlagningar matsgerðar í málinu sem hann hefur óskað eftir með matsbeiðni, dagsettri 31. október 2014, sem lögð hefur verið fram í sérstöku matsmáli. Var málið tekið til úrskurðar um þessa kröfu og mótmæli aðalstefnenda gegn henni 21. janúar sl.

Lögmaður gagnstefnanda vísar til stuðnings kröfu sinni um frekari frest til þess að hann eigi rétt á því að fá dómkvadda matsmenn til að leggja mat á ýmis atriði varðandi umþrætt verk hans, enda geti niðurstaða matsins haft verulega þýðingu fyrir málið. Eigi hann rétt á að höfða sérstakt matsmál í þessu skyni en matsþolar í því matsmáli séu fleiri en aðilar þessa máls. Þótt aflað sé hliðsettrar undirmatsgerðar í stað yfirmats rúmist það innan ákvæða laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.   Gagnstefnandi mótmælir því að hann hafi sýnt af sér tómlæti við öflun matsgerðarinnar, enda sé í raun um að ræða tvöfalt mál. 

Lögmaður aðalstefnenda hefur mótmælt því að frekari frestur verði veittur og krefst þess að frestbeiðni gagnstefnanda verði hafnað og að gagnstefnanda verði gert að greiða aðalstefnendum málskostnað að mati dómsins og að viðbættum virðisaukaskatti. Vísa aðalstefnendur til þess að í málinu liggi nú þegar fyrir matsgerð dómkvadds matsmanns frá júní 2013 sem hafi fljótlega verið kynnt gagnstefnanda. Frá því mál þetta hafi verið höfðað 10. desember 2013 hafi málinu verið frestað margoft til gagnaöflunar af hálfu gagnstefnanda. Þrátt fyrir það hafi gagnstefnandi ekkert aðhafst fyrr en með framlagningu matsbeiðni haustið 2014. Engin skýring hafi verið gefin fyrir seinaganginum og gangi hann gegn meginreglunni um hraða málsmeðferð. Þá sé ljóst að verði málinu frestað, myndi málið dragast mjög á langinn. Loks vísa aðalstefnendur til þess að gagnstefnandi hefði átt að óska eftir dómkvaðningu matsmanns samkvæmt IX. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, en ekki samkvæmt XII. kafla laganna, eins og hann hafi gert. Þá hefði gagnstefnandi átt að krefjast yfirmats til að endurmeta þau atriði, sem þegar höfðu verið metin í undirmatinu, sbr. 64. gr. sömu laga.

Eins og rakið hefur verið var mál þetta höfðað 10. desember 2013 og þingfest 7. janúar 2014 en í málinu krefja aðalstefnendur gagnstefnanda um skaðabætur úr hendi gagnstefnanda vegna ætlaðs tjóns sem hann hefði valdið þeim við vinnu sína fyrir þau. Greinargerð gagnstefnanda var lögð fram 27. febrúar 2014. Gagnstefnandi höfðaði síðan mál á hendur aðalstefnendum 17. mars og þingfest 20. sama mánaðar til greiðslu skuldar vegna framangreindrar vinnu. Greinargerð aðalstefnenda var lögð fram í því máli 27. maí 2014. Við fyrirtöku fyrra málsins 27. júní 2014 voru málin sameinuð og rekin sem eitt mál upp frá því. Með matsbeiðni, dagsettri 31. október 2014, var þess krafist með vísan til XII. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, að héraðsdómur Reykjavíkur að dómkvaddir yrðu tveir hæfir og óvilhallir menn til að leggja mat á umrædda múrklæðningu og annað múrverk að Skildinganesi 20 í Reykjavík.

Af framangreindu er ljóst að rekstur máls þessa hefur tekið nokkurn tíma og er fallist á það með aðalstefnendum að gagnstefnanda hefði verið mögulegt að hraða gagnaöflun sinni. Hins vegar verður jafnframt að líta til þess að í málinu er víðtækur ágreiningur bæði um grundvöll og fjárhæðir krafna beggja aðila og að málið er í raun tvö mál sem hafa verið sameinuð. Þá liggur einnig fyrir að gagnstefnandi hefur krafist dómkvaðningar tveggja matsmanna og hyggst leggja það fram til sönnunar kröfum sínum. Hefur aðilum máls verið játaður ríkur réttur til að afla matsgerða dómkvaddra matsmanna til sönnunar í dómsmálum. Er það því mat dómsins að sú seinkun sem orðið hefur á málinu sé ekki svo mikil að hún geti komið í veg fyrir að gagnstefnanda verði gert kleift að leggja fram það sönnunargagn sem hann telur nauðsynlegt til sönnunar á kröfum sínum. Þykir engu breyta um þá niðurstöðu hver kaflatilvísun gagnstefnanda er í matsbeiðni. Er það því mat dómsins að hvorki meginreglan um hraða málsmeðferð né ákvæði 102. gr. laga nr. 91/1991 standi í vegi fyrir því að umbeðinn frestur til gagnaframlagningar verði veittur. Verður máli þessu því frestað þar til umbeðin matsgerð í máli nr. M-104/2014 liggur fyrir.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Máli þessu er frestað þar til umbeðin matsgerð í máli nr. M-104/2014 liggur fyrir.