Hæstiréttur íslands

Mál nr. 192/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Þriðjudaginn 20. apríl 2010.

Nr. 192/2010.

SP-fjármögnun hf.

(Sigurmar K. Albertsson hrl.)

gegn

Jónasi Val Jónassyni og

Önnu Sigurlínu Karlsdóttur

(Björn Þorri Viktorsson hrl.)

Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli S hf. gegn J og A var vísað frá dómi. Í dómi Hæstaréttar kom fram að S hf. hafi freistað þess að skýra kröfur sínar með því að leggja fram ný gögn fyrir Hæstarétt. Talið var að ákvæði 80. gr. laga nr. 91/1991 um efni stefnu ætti ekki síst þann tilgang að tryggja stefnda rétt til að kynna sér málatilbúnað stefnanda í því skyni að eiga þess sanngjarnan kost að verjast kröfum hans. Yrði því ekki bætt úr annmörkum á reifun máls í stefnu með því að leggja fram gögn og skýringar á kröfugerð fyrir Hæstarétti. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. mars 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. mars 2010, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði er niðurstaða hans á því reist að málatilbúnaður sóknaraðila í stefnu hafi ekki uppfyllt kröfur e. liðar 1. mgr. 80 gr. laga nr. 91/1991. Sóknaraðili hefur nú freistað þess að skýra kröfur sínar frekar með því að leggja fram ný gögn fyrir Hæstarétt. Ákvæði 80. gr. laga nr. 91/1991 um efni stefnu eiga sér ekki síst þann tilgang að tryggja stefnda rétt til að kynna sér málatilbúnað stefnanda í því skyni að eiga þess sanngjarnan kost að verjast kröfum hans að því er alla þætti þeirra varðar. Það verður því ekki bætt úr annmörkum á reifun máls í stefnu með því að leggja fram gögn og skýringar á kröfugerð fyrir Hæstarétti í kærumáli vegna frávísunar máls frá héraði.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur, þó þannig að varnaraðilum verður dæmdur málskostnaður sitt í hvoru lagi, sbr. 2. mgr. 132. gr. laga nr. 91/1991.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um að vísa máli sóknaraðila, SP-fjármögnunar hf., á hendur varnaraðilum, Jónasi Val Jónassyni og Önnu Sigurlínu Karlsdóttur, frá héraðsdómi.

Sóknaraðili greiði varnaraðilum málskostnað í héraði og kærumálskostnað, samtals 200.000 krónur til hvors þeirra um sig.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. mars 2010.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar hinn 4. febrúar sl., að loknum munnlegum málflutningi, var höfðað af SP Fjármögnun hf., á hendur Jónasi Vali Jónassyni og Önnu Sigurlínu Karlsdóttur, með stefnu birtri hinn 23. mars og 28. mars 2009.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndu verði dæmd til þess að greiða stefnanda 6.306.607 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 12. desember 2008 til greiðsludags.  Jafnframt krafðist stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu, að skaðlausu, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun. 

Dómkröfur stefndu eru þær aðallega, að málinu verði vísað frá dómi, en til vara að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda.  Jafnfram krefjast stefndu málskostnaðar úr hendi stefnanda, að skaðlausu, að viðbættum virðisaukaskatti.

II

Málavextir eru þeir, að hinn 30. nóvember 2007 gerði stefndi, Jónas Valur, samning við stefnanda, þar sem hann tók á leigu bifreiðina RX-622, sem er af gerðinni Porsche Cayenne árgerð 2004, en stefnandi er fjármögnunarleiga og hefur starfsleyfi sem slík.  Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á skuldbindingum stefnda, Jónasar Vals, tókst stefnda, Anna Sigurlína Karlsdóttir, á hendur óskipta sjálfskuldarábyrgð á efndum hans samkvæmt samningnum.

Stefnandi kveður, að samkvæmt bílasamningnum hafi framkvæmd viðskiptanna verið með þeim hætti, að stefnandi keypti umrædda bifreið af fyrrverandi eiganda hennar og leigði stefnda bifreiðina á þann hátt að kaupverð bifreiðarinnar, 10.900.000 krónur að viðbættu stofngjaldi að fjárhæð 173.469 krónur, en að frádreginni innborgun 2.400.000 krónur, hafi myndað höfuðstól leigusamningsins, 8.673.469 krónur, en í því hafi falist, að stefndi skyldi endurgreiða stefnanda samningsverðið með mánaðarlegum leigugreiðslum á leigutímabilinu sem standa skyldi frá 1. mars 2008 til 1. febrúar 2015 og hann eignast bifreiðina í lok leigutímans gegn lokagreiðslu sem skyldi nema 1.000 krónum.  Samkvæmt II. kafla samningsins skyldi gjalddagi leigu vera 1. hvers mánaðar og leigan innheimtast eftir á.

Hafi mánaðarlegt viðmið leigugreiðslu verið ákveðið 142.426 krónur og hafi samningurinn verið 100% verðtryggður miðað við vísitölu neysluverð sem hafi við útgáfu samningsins verið 278,1 stig.  Þá kemur einnig fram í stefnu að við ákvörðun fjárhæðar leigugreiðslu skyldi einnig taka tillit til umsaminna vaxta, sem í þessu tilfelli hafi verið LIBOR vextir á gjalddaga leigugreiðslunnar af myntum þeim, sem myndað hafi myntkörfuna.   Við munnlegan málflutning kvað stefnandi að tilvísun í LIBOR vexti væri röng og hefði ekki átt að vera í stefnu, enda hefði samningurinn ekki verið um fjárhæð í erlendri mynt.

Vanskil hafi orðið á greiðslum og hafi þær vanefndir stefnda orðið til þess að stefnandi hafi nýtt sér heimild í 14. gr. samnings aðila og lýst yfir riftun á leigusamningi sínum við stefnda hinn 12. desember 2008, en þá hafi stefnandi látið vörslusviptingarmenn sækja bifreiðina til stefnda og flytja hana á starfsstöð stefnanda.  Hafi þessar ráðstafanir verið gerðar með heimild í 15. gr. samnings aðila.  Stefndu kveða hins vegar, að hinn 14. ágúst 2008 hafi stefndu látið flytja bifreiðina á starfsstöð stefnanda, að eigin frumkvæði, og þar hafi starfsmanni stefnanda verið afhentir lyklar að bifreiðinni.

Í kjölfar riftunar stefnanda á samningi aðila hinn 12. desember 2008 var stefndu sent uppgjör vegna samningsins, að fjárhæð 7.053.656 krónur, sem stefndu hafa gert athugasemdir við.

III

Stefnandi byggir á þeirri meginreglu íslensks samninga- og kröfuréttar að samninga beri að efna. Vísar hann í því sambandi til þess að stefndi hafi hinn 30. nóvember 2007 gert samning við stefnanda málsins og þar með skuldbundið sig til þess að leigja bifreiðina RX622 af stefnanda með þeim skilmálum sem í samningnum greini, þ.á m. varðandi það undir hvaða kringumstæðum stefnanda væri heimilt að rifta samningi sínum við stefnda, sem og það hvernig uppgjör leigusamningsins skyldi fara fram í kjölfar slíkrar riftunar.  Byggir stefnandi á því, að með því að stefndi hafi ekki sinnt samningsskyldum sínum og hann ekki greitt umsamið leigugjald hafi stefnanda verið heimilt á grundvelli 14. gr. samningsins að lýsa yfir riftun hans og krefja stefndu um greiðslu þeirra fjárhæða sem mælt sé fyrir um í 16. gr. samningsins, svo sem gert sé í þessu máli.

Stefnandi kveður að í kjölfar riftunar hafi stefnda borið, samkvæmt 16. gr. samningsins, að standa stefnanda skil á þeim leigugreiðslum sem fallið hafi í gjalddaga fram til riftunar auk áfallinna dráttarvaxta, sbr. 3. gr. samnings aðila.  Jafnframt hafi stefnda borið samkvæmt umræddri grein, að standa skil á ógjaldföllnum leigugreiðslum fyrir þann tíma sem eftir hafi verið af samningstímanum, auk sérstaks uppgjörsgjalds.  Hafi í því sambandi átt að reikna höfuðstól leigugreiðslnanna á þann hátt sem segi í 2. gr. samnings aðila miðað við riftunardagsetningu og margfalda þá tölu með fjölda þeirra afborgana sem þá hafi verið eftir af samningi aðila án þess að tekið væri tillit til þeirra samningsvaxta sem ella hefðu átt að koma til greiðslu á hinum ógjaldföllnu gjalddögum.  Hafi krafa stefnanda numið, hinn 12. desember 2008, er samningi hafi verið rift, 7.053.656 krónum og sundurliðist þannig:  Gjaldfallin leiga og kostnaður 2.090.740 krónur, eftirstöðvar samnings hafi verið 9.207.740 krónur, eða samtals 10.551.431 króna, en innifalið í þeirri fjárhæð séu viðgerðarkostnaður að fjárhæð 239.859 krónur,  bifreiðagjöld að fjárhæð 44.344 krónur, tryggingar frá Sjóvá 87.429 krónur, vörslusviptingarkostnaður 13.944 krónur og stöðumælasektir 3.000 krónur.  Við bætist kostnaður við mat Frumherja á bifreiðinni, en stefnandi hafi látið meta ástand hennar af Frumherja hf. og hafi niðurstaða matsins verið að gera þyrfti við bifreiðina fyrir 642.676 krónur.  Frá kröfum stefnanda dragist áætlað söluverðmæti bifreiðarinnar 4.887.500 krónur.  Verðmat Bílgreinasambandsins miðað við aldur og akstur bifreiðarinnar sé 5.750.000 krónur, en frá þeirri fjárhæð séu dregin 15%, eða 862.500 krónur, vegna bifreiðagjalda, þrifa, tryggingargjalds og annarrar umsýslu, þar til stefnanda takist að selja bifreiðina. Eftir standi því 4.887.500 krónur til frádráttar.  Samtals sé því krafa stefnanda á hendur stefndu 7.053.656 krónur.  Við munnlegan flutning málsins vegna frávísunarkröfu stefndu, lækkaði stefnandi kröfur sínar um 747.049 krónur, þar sem hann féll frá kröfum vegna tryggingar frá Sjóvá, vörslusviptingarkostnaðar, viðgerðarkostnaðar, stöðumælasektar og mats á viðgerðarkostnaði.

Kröfu sína á hendur stefndu, Önnu Sigurlínu, byggir stefnandi á meginreglu íslensks samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi loforða.  Stefnda hafi þannig lofað að takast á hendur óskipta ábyrgð á efndum stefnda, Jónasar Vals, á samningi hans við stefnanda, en með því að stefndi, Jón Valur, hafi vanefnt umræddan samning sé ljóst að stefnanda sé heimilt að beina einnig kröfum sínum um efndir samningsins að henni í málinu. 

Um lagarök vísar stefnandi til meginreglu íslensks samninga – og kröfuréttar.

Kröfu um dráttarvexti byggir stefnandi á III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, einkum 129. gr. og 130. gr. þeirra laga.

Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir stefnandi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.  Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og því beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skattinum úr hendi stefndu.

IV

Stefndu byggja kröfu sína um frávísun á því að málatilbúnaður stefnanda sé vanreifaður og skilyrðum 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sé ekki fullnægt.  Framsetning höfuðstólsfjárhæðarinnar sé um margt ruglingsleg auk þess sem ýmsir liðir er myndi höfuðstólsfjárhæðina séu með öllu vanreifaðir.

Stefnandi hræri saman málsástæðum og lagarökum í einn graut, án sérstakrar aðgreiningar og kröfur hans verði að teljast vanreifaðar og málatilbúnaður svo óglöggur að mikið skorti á að uppfyllt séu skilyrði réttarfarslaga um skýran og glöggan málatilbúnað.

Benda stefndu á að í stefnu komi fram að samningurinn hafi verið 100% verðtryggður og skyldi við ákvörðun fjárhæðar leigugreiðslna taka tillit til umsaminna vaxta.  Segi svo í stefnu að átt sé við LIBOR vexti, án þess að nánar sé tilgreint í stefnu hverjir þeir vextir séu.  Lánssamningurinn sjálfur sé kaupleigusamningur, þar sem kaupverð á bifreiðinni í lok samnings sé tilgreint 1000 krónur.  Samningurinn sé því í eðli sínu eignarleigusamningur sem skilgreindur sé í 4. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002.  Þar sem samningurinn sé eignarleigusamningur, lánveitandi fjármögnunarleiga og lántaki neytandi, falli samningurinn undir d-lið 2. gr. laga nr. 121/2004. 

Í 5. gr. laga nr. 121/2004 sé lögð skylda á lánveitanda að gera skriflegan lánssamning, þar sem m.a. skuli koma fram upplýsingar um vexti, sbr. 3. tl. 6. gr. laganna.  Í 9. gr. sömu laga segi að heimilt sé að semja um breytilega vexti en þá skuli greint frá vöxtum eins og þeir séu á þeim tíma sem upplýsingar séu gefnar og tilgreint skuli með hvaða hætti vextirnir séu breytilegir og við hvaða aðstæður þeir geti breyst.  Í lánssamningi stefnda, Jónasar, og stefnanda sé hvergi tilgreining á vöxtum þeim sem átt hafi að gilda við samninginn.  Þar sem slíka tilgreiningu hafi hvergi verið að finna hafi stefnanda ekki verið heimilt að innheimta vexti af samningnum, sbr. 14. gr. laga um neytendalán nr. 121/2004.  Í þeirri grein sé sérstaklega tiltekið að hafi vextir ekki verið tilgreindir í lánssamningi sé lánveitanda ekki heimilt að krefja neytanda um greiðslu þeirra.  Þá komi fram í 2. gr. skilmála samningsins að LIBOR vextir gildi þegar um gengistryggt lán sé að ræða og þá komi einnig fram að leigutaki lýsi því yfir að lántaka í erlendum gjaldmiðli sé áhættusamari en lántaka í íslenskum krónum.  Eins og áður segi hafi verið um íslenskt lán að ræða, sem hafi verið 100% verðtryggt, samkvæmt samningnum, og því nái tilgreining til LIBOR vaxta ekki fram að ganga sér í lagi vegna þess hve óljós lánssamningurinn sjálfur sé.

Stefndu byggja frávísunarkröfu sína einnig á því, að stefnufjárhæðin sé alvarlega vanreifuð.  Þannig sé uppgjör samningsins bæði villandi og rangt.  Auk þess séu upphæðir með engu móti rökstuddar svo oft sé raunar erfitt eða ómögulegt að átta sig á þeim, sem geri það að verkum að erfitt sé í raun að koma við vörnum.  Í fyrsta lagi komi hvergi fram greiðslusaga stefnda Jónasar, og því ómögulegt að vita fyrir vissu upphæð vanskila hans.  Í öðru lagi séu gerðar athugasemdir við bæði útreikning og upphæð eftirstöðva, þ.e. höfuðstóls.  Í stefnunni sé að finna aragrúa ýmissa talna sem virðist eiga að mynda höfuðstólsfjárhæðina, en mikið vanti á að sú framsetning sé skýr og glögg.  Þá sé hvorki í stefnu né í uppgjörsbréfi tiltekin vísitala neysluverð, en aðeins með þeim hætti sé unnt að reikna út raunverulegan ógjaldfallinn höfuðstól.  Í stefnu sé jafnframt greint frá því að fyrir liggi mat Bílgreinasambandsins á verðmæti bifreiðarinnar, en þegar gögn málsins séu skoðuð komi í ljós að ekkert slíkt mat liggi fyrir.  Hins vegar liggi fyrir mat starfsmanns Bílabúðar Benna þar sem hann meti bifreiðina á svonefndu „uppítökuverði“ á 5.750.000 krónur.  Að vísa til mats Bílgreinasambandsins að þessu leyti sé bæði villandi og bersýnilega rangt.  Þá sé enn fremur með öllu hulið hvernig stefnandi telji sig geta byggt á framangreindu „mati“ á bifreiðinni og miðað við stöðuna eins og hún hafi verið 10. desember 2008, þegar bifreiðin var komin í umráð stefnanda í ágúst 2008.

V

Eins og áður greinir var mál þetta flutt um frávísunarkröfu stefndu og er einungis sá þáttur málsins til úrlausnar hér.

Stefnandi sem er fjármögnunarleiga krefur í máli þessu stefndu um greiðslu eftirstöðva bílasamnings aðila, sem stefnandi rifti hinn 12. desember 2008.  Stefndu krefjast frávísunar málsins þar sem málatilbúnaður stefnanda sé ekki í samræmi við áskilnað 80. gr. laga nr. 91/1991.

Af stefnu verður ráðið að stefnufjárhæðin í málinu sé eftirstöðvar samnings aðila sem og gjaldfallin leiga og kostnaður að frádregnu mati á umræddri bifreið.  Þá var í stefnu sagt að inni í þeirri fjárhæð væri tilgreindur kostnaður vegna bifreiðagjalda, trygginga frá Sjóvá, vörslusviptingar, viðgerðar, stöðumælasektar og mats á viðgerðarkostnaði.  Stefnandi féll síðan frá kröfum vegna hluta þessa kostnaðar við munnlegan málflutning um frávísunarkröfu.  Verður að fallast á það með stefnda að sundurliðun þessi sé bæði ruglingsleg og óljós, og með engu móti unnt reikna út hvernig þessar fjárhæðir eru fundnar út eða hvaða áhrif þær hafi á skuld stefndu.  Varð sundurliðun þessi á engan hátt skýrari við það að stefnandi lækkaði kröfur sínar.  Þá er ekki í stefnu að finna útskýringu eða sundurliðun á því hvernig gjaldfallin leiga er reiknuð út, við hvaða vísitölu er miðað eða hvað stefndu hafa greitt af samningsfjárhæðinni. Er því ekki ljóst hvernig stefnufjárhæðin er fundin.  Telst því málatilbúnaður stefnanda svo óljós og óskýr að hann fullnægir ekki kröfum e. liðar 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, til þess að efnisdómur verði lagður á málið.  Þegar allt framangreint er virt þykir stefnandi ekki hafa lagt málið upp með nægilega skýrum hætti og ekki lagt þann grundvöll að málinu, sem nauðsynlegur er til þess að efnisdómur verði á það lagður.  Þá þykir málatilbúnaður stefnanda vera mjög til þess fallinn að takmarka möguleika stefndu á að halda uppi vörnum í málinu.

Ber því þegar af þeirri ástæðu að fallast á kröfu stefndu um að vísa málinu frá dómi.

Eftir þessari niðurstöðu ber að úrskurða stefnanda til þess að greiða stefndu in solidum  málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 200.000 krónur, þ.m.t. virðisaukaskattur.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnandi SP Fjármögnun hf., greiði stefndu, Jónasi Val Jónassyni og Önnu Sigurlínu Karlsdóttur, 200.000 krónur í málskostnað, þ.m.t. virðisaukaskattur.