Hæstiréttur íslands

Mál nr. 304/2016

Lánasjóður sveitarfélaga ohf. (Tómas Hrafn Sveinsson hrl.)
gegn
Glitni Holdco ehf. (Steinunn Guðbjartsdóttir hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Uppgjör
  • Málsástæða
  • Skuldajöfnuður

Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem viðurkennd var að hluta krafa sem L ohf. hafði lýst við slit G ehf. í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. en kröfum hans hafnað að öðru leyti. Aðilar deildu um hvernig haga skyldi uppgjöri sex afleiðusamninga. Í dómi Hæstaréttar kom fram að L ohf. hefði fyrir héraðsdómi byggt á því að hann ætti rétt til fullra efnda samkvæmt samningum aðila en þyrfti ekki að inna gagngjald af hendi samkvæmt þeim. G ehf. byggði hins vegar á því að það bæri að beita skuldajöfnuði við uppgjör samninganna og var fallist á þann útreikning. Þá var tiltekið í dómi Hæstaréttar að L ohf. hefði meðal annars skýrt forsendur kröfugerðar sinnar og útreikninga fyrir Hæstarétti með skírskotun til svonefndrar uppsöfnunaraðferðar, að teknu tilliti til skuldajafnaðar samninganna. Var tekið fram að þær málsástæður sem lutu að skuldajöfnuði skuldbindinga aðila og forsendur þess útreiknings hefðu ekki komið fram í héraði og með þessum nýjum kröfum L ohf. fyrir Hæstarétti hefði grundvelli málsins verið raskað svo verulega að ekki yrði á þeim byggt í málinu. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar var hann staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. apríl 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. apríl 2016 þar sem krafa sóknaraðila að fjárhæð 888.783.838 krónur var viðurkennd við slit sóknaraðila í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., en kröfum hans að öðru leyti hafnað. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. sömu laga. Sóknaraðili krefst þess að krafa hans samtals að fjárhæð 5.202.451.134 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 29. desember 2008 til 22. apríl 2009 verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Jafnframt krefst hann þess að viðurkennt verði að krafa sóknaraðila samtals að fjárhæð 69.145.590 krónur verði skipað í sömu réttindaröð og að samningar með auðkenni 0503/VS/05082301 og 0503/VS/05082302 hafi fallið niður. Að því frágengnu krefst hann þess að „úrskurðað“ verði að áðurgreindir samningar hafi fallið niður frá og með 8. október 2008 án frekari efndaskyldna af hálfu aðila frá þeim degi. Í öllum tilvikum krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði staðfestur, en til vara að krafa sóknaraðila verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 að fjárhæð 953.636.672 krónur. Að því frágengnu er þess krafist að krafa sóknaraðila verði lækkuð verulega. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Í máli þessu greinir aðila á um hvernig haga skuli uppgjöri tveggja vaxtaskiptasamninga og fjögurra gjaldmiðlaskiptasamninga sem gerðir voru á milli þeirra á árunum 2005 og 2008. Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði byggði sóknaraðili á því fyrir héraðsdómi að hann ætti rétt til fullra efnda á samningum aðila en þyrfti ekki að inna gagngjald af hendi samkvæmt þeim. Byggði sóknaraðili þannig á því að skuldajöfnuði yrði ekki beitt við uppgjör þeirra. Varnaraðili byggði hins vegar á því fyrir héraðsdómi að beita ætti skuldajöfnuði við uppgjör aðila, bæði varðandi gjaldfallnar greiðslur sem og framtíðargreiðslur samkvæmt fyrrnefndum samningum miðað við markaðsaðstæður á upphafsdegi slitameðferðar varnaraðila 22. apríl 2009 samkvæmt 2. mgr. 4. gr. markaðsskilmála varnaraðila, sbr. 40. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Sóknaraðili hafði ekki undir rekstri málsins í héraði uppi efnislegar athugasemdir við ítarlegan útreikning varnaðila á skuldbindingum aðila miðað við að skuldajöfnuður ætti að fara fram.

Auk framangreinds skýrði sóknaraðili forsendur kröfugerðar sinnar og útreikninga fyrir Hæstarétti með skírskotun til svonefndrar uppsöfnunaraðferðar, að teknu tilliti til skuldajafnaðar samninganna, þannig að samningar yrðu gerðir upp miðað við stöðu þeirra 22. apríl 2009. Vísaði sóknaraðili til þess að samkvæmt þeirri uppgjörsaðferð ættu vaxtagreiðslur samkvæmt samningunum eftir 22. apríl 2009 að falla niður. Í  niðurlagi greinargerðar hans kom fram að sóknaraðili teldi að krafa sín í bú varnaraðila miðað við ,,réttar forsendur skuldajöfnunar“ ætti að verða viðurkennd að fjárhæð 1.355.929.910 krónur. Sú fjárhæð er í engu samræmi við dómkröfur sóknaraðila sem greindar voru í upphafskafla greinargerðar hans hér fyrir dómi, en þótt horft sé fram hjá því og óskýrleika í kröfugerð hans að þessu leyti, verður ekki fram hjá því litið að málsástæður sóknaraðila er lúta að skuldajöfnuði skuldbindinga aðila og forsendur útreiknings að baki síðastgreindri fjárhæð komu ekki fram í héraði. Með hinum nýju kröfum sóknaraðila fyrir Hæstarétti og málsástæðum sem byggja á því að skuldajöfnuði verði beitt miðað við ákveðnar forsendur, sem ekki lágu fyrir í héraðsdómi, er grundvelli málsins raskað svo verulega að ekki verður á þeim byggt í málinu, sbr. 5. mgr. 101. gr. og 2. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 163. gr. sömu laga, sbr. og 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Eftir framangreindum úrslitum verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir. 

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Lánasjóður sveitarfélaga ohf., greiði varnaraðila, Glitni HoldCo ehf., 500.000 krónur í kærumálskostnað.

                                                           

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. apríl 2016.

                Máli þessu, sem er ágreiningsmál við slitameðferð varnaraðila, var beint til dómsins með bréfi slitastjórnar varnaraðila 31. maí 2013. Um lagagrundvöll vísaði slitastjórn til 171. gr., sbr. 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Málið var þingfest 27. september 2013 og fyrst tekið til úrskurðar 3. nóvember 2015. Vegna embættisanna dómara varð úrskurður ekki kveðinn uppi innan lögbundinna tímamarka og var málið því endurflutt föstudaginn 4. mars sl. og tekið til úrskurðar að nýju. Var þá upplýst af hálfu lögmanns varnaraðila að félagið hefði breytt um nafn og rekstrarform og að slitameðferð þess hefði lokið með nauðasamningi.

                Sóknaraðili er Lánasjóður sveitarfélaga, Borgartúni 30, Reykjavík, en varnaraðili er Glitnir HoldCo ehf., Sóltúni 26, Reykjavík.

                Sóknaraðili gerir þá kröfu að viðurkennd verði krafa hans samkvæmt kröfulýsingu í bú varnaraðila að fjárhæð 6.723.002.437 krónur þannig:

                1. Að viðurkennd verði, sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga  nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., krafa hans við slit varnaraðila, á grundvelli samninga með auðkenni CIRS-3386, 3388, 3390 og CIRS_3517-21, að fjárhæð 5.202.451.134 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 367.728 evrum frá 29. desember 2008 til 28. mars 2009 og af 10.602.748 evrum frá þeim degi til 1. apríl 2009 og af 10.813.722 evrum frá þeim degi til 22. apríl 2009.

                2. Að viðurkennd verði, sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga  nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., krafa sóknaraðila við slit varnaraðila á grundvelli samninga aðila, með auðkenni 0503/VS/05082301 og 0503/VS/05082302, að fjárhæð 69.145.590 krónur og að samningarnir hafi fallið niður, en til vara að úrskurðað verði að samningar aðila, með auðkenni 0503/VS/05082301 og 0503/VS/05082302, séu niður fallnir frá og með 8. október 2008, án frekari efndaskyldna af hálfu aðila frá þeim degi.

                Þá krefst hann málskostnaðar.

                Varnaraðili krefst þess að krafa sóknaraðila verði viðurkennd sem almenn krafa skv. 113. gr. laga nr. 21/1991 aðallega að fjárhæð 888.783.838 krónur, til vara að fjárhæð 953.636.672 krónur en til þrautavara að krafan verði lækkuð verulega.

                Þá krefst varnaraðili málskostnaðar.

I

                Varnaraðili er fjármálafyrirtæki sem sætti slitameðferð og var sóknaraðili viðskiptamaður þess.

                Sóknaraðili er opinbert hlutafélag í eigu sveitarfélaga á Íslandi og um starfsemi félagsins gilda lög nr. 150/2006 um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga, sem tóku gildi 30. desember 2006.  Í 3. gr. nefndra laga kemur fram að tilgangur með rekstri sóknaraðila sé að tryggja sveitarfélögum ásamt fyrirtækjum og stofnunum í eigu sveitarfélaga eða sveitarfélaga og ríkissjóðs lánsfé á hagstæðum kjörum og takmarkast útlán sóknaraðila við verkefni sem hafa almenna efnahagslega þýðingu. Í 1. gr. laganna kemur m.a. fram að félagið starfi sem lánafyrirtæki samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki. Fram kemur í gögnum málsins að varnaraðili flokkaði sóknaraðila sem viðurkenndan gagnaðila í skilningi laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti eftir gildistöku þeirra 1. nóvember 2007. Í ákvæði I til bráðabirgða í lögum nr. 150/2006 er kveðið á um að félagið taki yfir eignir, réttindi, skuldir og skuldbindingar Lánasjóðs sveitarfélaga. Er óumdeilt í málinu að sóknaraðili tók við réttindum og skyldum samkvæmt þeim samningum sem um er fjallað í máli þessu sem gerðir voru milli varnaraðila og Lánasjóðs sveitarfélaga.

                Af hálfu forvera sóknaraðila voru 2. mars 2005 undirritaðir Almennir skilmálar B vegna markaðsviðskipta Íslandsbanka hf. og Lánasjóðs sveitarfélaga, en þeir skilmálar munu hafa gilt um öll markaðsviðskipti milli varnaraðila og Lánasjóðs sveitarfélaga.

                Þann 23. ágúst 2005 gerðu Lánasjóður sveitarfélaga og varnaraðili með sér tvo vaxtaskiptasamninga sem báðir voru gerðir samhliða útgáfu Lánasjóðs sveitarfélaga á tilteknum skuldabréfum. Er samningunum lýst ítarlega í greinargerð varnaraðila og verður ekki séð að efnislegur ágreiningur sé með aðilum um þá lýsingu, enda fellur hún að fullu að þeim skjölum sem um ræðir og liggja fyrir í málinu.

                1. Annars vegar var um að ræða samning með auðkennið 0503/VS/05082302. Samningsdagur var ákveðinn 23. ágúst 2005 og lokadagur (lokagjalddagi) 26. ágúst 2010. Höfuðstóll samningsins var í upphafi ákveðinn 160.000.000 kr. Samkvæmt samningnum bar varnaraðila að greiða Lánasjóði sveitarfélaga fjárhæð sem næmi ávöxtun höfuðstóls samningsins í íslenskum krónum. Ávöxtunin var ákvörðuð sem breyting á körfu veginna erlendra vísitalna, nánar tiltekið S&P 500, DJ Eurostoxx 50, FTSE 100 og Nikkei 225. Vigtir þessara vísitalna voru 60% fyrir S&P 500, 20% fyrir DJ Eurostoxx 50, 10% fyrir FTSE 100 og 10% fyrir Nikkei 225. Ávöxtunin var reiknuð sem hækkun á virði körfunnar frá samningsdegi til gildis lokadags sem skilgreint var sem meðaltal dagslokagengis á lokadegi og mánaðarlega sex mánuðum áður. Greiðsluskylda sóknaraðila fór að lokum eftir því hvort að breytingin hefði verið jákvæð eða neikvæð. Ef breytingin var jákvæð, var ávöxtunin færð yfir í íslenskar krónur og greiðsluskyldan þá hlutfall af upphaflegum höfuðstól. Ef breytingin var neikvæð féll greiðsluskylda niður.

                Á móti bar Lánasjóði sveitarfélaga að greiða varnaraðila 3,85% fasta ársvexti af verðtryggðum höfuðstól vaxtaskiptasamningsins miðað við vísitölu neysluverðs með grunnvísitöluna 242,7.

                Var samningurinn gerður til að verja Lánasjóð sveitarfélaga gegn hækkun vísitölukörfunnar eins og hún var skilgreind, en sjóðurinn gaf út á sama degi og viðkomandi vaxtaskiptasamningur var gerður, þann 23. ágúst 2005,  skuldabréf með auðkennið LSS 05 3B. Skuldbinding Lánasjóðs sveitarfélaga samkvæmt skuldabréfinu var að endurgreiða verðtryggðan höfuðstól skuldabréfanna miðað við vísitölu neysluverðs til verðtryggingar í ágúst 2005, auk ávöxtunar á höfuðstól sem nam breytingu á virði körfunnar frá samningsdegi til gildis sem skilgreint var sem meðaltal dagslokagengis á lokadegi og mánaðarlega sex mánuðum áður. Sömu ákvæði áttu við og í vaxtaskiptasamningnum, þar að segja ef engin hækkun yrði á vísitölukörfunni á tímabilinu var ekki greidd út ávöxtun og greiðsluskylda varnaraðila því engin. Þannig eyddi vaxtaskiptasamningurinn út þeirri áhættu Lánasjóðs sveitarfélaga sem fylgdi óvissu um framtíðargreiðslur sem hann hefði þurft að inna af hendi til eigenda útgefinna skuldabréfa sinna í formi ávöxtunar, ef vísitölukarfa skuldabréfsins hefði jákvæða hækkun yfir tímabilið, enda greiðsluskylda varnaraðila samkvæmt vaxtaskiptasamningnum sú sama og Lánasjóðs sveitarfélaga samkvæmt skuldabréfinu. Gegn því að eyða þeirri áhættu greiddi Lánasjóður sveitarfélaga til varnaraðila 3,85% ársvexti á verðtryggðan höfuðstól samningsins.

                Kveður varnaraðili að með vaxtaskiptasamningnum hafi Lánasjóður Sveitarfélaga því verið að breyta fjármögnun sinni úr áhættusamari greiðslubyrði tengdum sveiflum á hlutabréfamarkaði í verðtryggða fjármögnun með föstum 3,85% vöxtum.

                2. Hins vegar er um að ræða samning með auðkennið 0503/VS/05082301. Samningsdagur var ákveðinn 23. ágúst 2005 og lokadagur (lokagjalddagi) 26. ágúst 2010. Höfuðstóll samningsins var í upphafi ákveðinn 340.000.000 kr. Samkvæmt samningnum bar varnaraðila að greiða Lánasjóði sveitarfélaga fjárhæð sem næmi 170% af ávöxtun höfuðstóls samningsins í íslenskum krónum. Ávöxtunin var ákvörðuð sem breyting á körfu veginna erlendra vísitalna, nánar tiltekið S&P 500, DJ Eurostoxx 50, FTSE 100 og Nikkei 225. Vigtir þessara vísitalna voru 60% fyrir S&P 500, 20% fyrir DJ Eurostoxx 50, 10% fyrir FTSE 100 og 10% fyrir Nikkei 225. Breytingin var reiknuð sem hækkun körfunnar frá samningsdegi til gildis sem skilgreint var sem meðaltal dagslokagengis á lokadegi og mánaðarlega sex mánuðum áður. Greiðsluskylda sóknaraðila fór að lokum eftir því hvort að breytingin hefði verið jákvæð eða neikvæð. Ef breytingin var jákvæð, var ávöxtunin færð yfir í íslenskar krónur og greiðsluskyldan þá hlutfall af upphaflegum höfuðstól. Ef breytingin var neikvæð féll greiðsluskylda niður.

                Á móti hafi Lánasjóði sveitarfélaga borið að greiða varnaraðila 3,85% fasta ársvexti af verðtryggðum höfuðstóli vaxtaskiptasamningsins miðað við vísitölu neysluverðs með grunnvísitöluna 242,7 auk verðbóta á höfuðstólinn frá samningsdegi til lokadags.

                Var samningurinn gerður til að verja Lánasjóð sveitarfélaga gegn hækkun vísitölukörfunnar eins og hún var skilgreind, en sjóðurinn gaf út á sama degi og viðkomandi vaxtaskiptasamningur var gerður, þann 23. ágúst 2005,  skuldabréf með auðkennið LSS 05 3A. Skuldbinding Lánasjóðs sveitarfélaga samkvæmt skuldabréfinu var að endurgreiða höfuðstól, auk ávöxtunar á höfuðstól sem nam 170% af breytingu á virði körfunnar frá samningsdegi til gildis sem skilgreint var sem meðaltal dagslokagengis á lokadegi og mánaðarlega sex mánuðum áður. Sömu ákvæði áttu við og í vaxtaskiptasamningnum, þannig að ef engin hækkun yrði á vísitölukörfunni á tímabilinu var ekki greidd út ávöxtun og greiðsluskylda varnaraðila því engin. Þannig eyddi vaxtaskiptasamningurinn út þeirri áhættu Lánasjóðs sveitarfélaga sem fylgdi óvissu um framtíðargreiðslur sem hann hefði þurft að inna af hendi til eigenda útgefinna skuldabréfa sinna í formi ávöxtunar, ef vísitölukarfa skuldabréfsins hefði jákvæða hækkun yfir tímabilið, enda greiðsluskylda varnaraðila samkvæmt vaxtaskiptasamningnum sú sama og Lánasjóðs sveitarfélaga samkvæmt skuldabréfinu. Gegn því að eyða þeirri áhættu greiddi Lánasjóður sveitarfélaga til varnaraðila 3,85% ársvexti á verðtryggðan höfuðstól samningsins auk verðbóta á höfuðstólinn frá samningsdegi til lokadags.

                Eins og fyrr er lýst tók sóknaraðili yfir réttindi og skyldur samkvæmt ofangreindum samningum í samræmi við lög nr. 150/2006. Í tilefni af gildistöku laga nr. 108/2007 um fjármálafyrirtæki undirritaði stjórn sóknaraðila Almenna skilmála B vegna markaðsviðskipta Glitnis banka hf. og Lánasjóðs sveitarfélaga ohf.

                Kemur fram í 1. gr. skilmálanna að þeir gildi þeir um öll markaðsviðskipti milli varnar- og sóknaraðila. Kveður varnaraðili að skilmálarnir séu efnislega þeir sömu og þeir er Lánasjóður sveitarfélaga, forveri sóknaraðila, og varnaraðili (sem þá hét Íslandsbanki hf.) undirrituðu þann 2. mars 2005. Samkvæmt 10. gr. skilmálanna gilda ákvæði Almennra skilmála fyrir framvirk gjaldmiðlaviðskipti og Almennra skilmála fyrir skiptasamninga, sem útgefnir eru af sambandi íslenskra viðskiptabanka og Sambandi íslenskra sparisjóða, 1. útgáfa, febrúar 1998 (hér eftir nefndir „SFF skilmálarnir“) einnig um viðskipti sóknar- og varnaraðila eftir því sem við eigi. Einnig komi fram í 10. gr. Markaðsskilmála varnaraðila að ef misræmi sé milli SFF skilmálanna og Markaðsskilmála varnaraðila gildi Markaðsskilmálar varnaraðila.

                Þann 11. mars 2008 gerðu sóknar- og varnaraðila með sér þrjá gjaldmiðlaskiptasamninga. Höfðu þeir þann tilgang að verja sóknaraðila fyrir gengisbreytingum íslensku krónunnar gagnvart evru. Hafi sóknaraðili fjármagnað sig í evrum en lánað lánveitendum sínum í íslenskum krónum. Til að takmarka gjaldeyrisáhættu sóknaraðila hafi umræddir gjaldmiðlaskiptasamningarnar verið gerðir. Varnaraðili lýsir efnisinntaki samninga þessara með eftirfarandi hætti og verður ekki séð að ágreiningur sé um þá lýsingu, enda í samræmi við efni samninganna sem liggja fyrir í málinu:

                1. Samningur með auðkennið CIRS 3386. Samningsdagur 11. mars 2008 og lokadagur (lokagjalddagi 28. mars 2009). Samkvæmt samningnum bar aðilum að skiptast á höfuðstólum bæði í upphafi og lok samningsins. Þannig afhenti varnaraðili í upphafi samningsins, 28. mars 2008, 1.052.500.000 kr., gegn afhendingu sóknaraðila á 10.000.000 evrum. Á lokagjalddagi samningsins, 28. mars 2009, bar varnaraðila að afhenda sóknaraðila 10.000.000 evrur og sóknaraðila að afhenda varnaraðila 1.052.500.000 kr. Yfir samningstímann bar aðilum að greiða hvor öðrum fljótandi vexti á þriggja mánaða fresti. Þannig bar sóknaraðila að greiða varnaraðila 28. júní, 28. september, 28. desember og 28. mars ár hvert, frá og með 30. júní 2008 til og með 28. mars 2009, þriggja mánaða REIBOR millibankavexti auk 0,25% álags. Greiðsluskylda varnaraðila til sóknaraðila nam hins vegar þriggja mánaða EURIBOR millibankavöxtum auk 0,7% vaxtaálags, og skyldi varnaraðili greiða slíka vexti til sóknaraðila á þriggja mánaða fresti, þann 28. júní, 28. september, 28. desember og 28. mars ár hvert, frá og með 30. júní 2008 til og með 28. mars 2009.

                2. Samningur með auðkennið CIRS 3390. Samningsdagur var ákveðinn 11. mars 2008 og lokadagur (lokagjalddagi) þann 28. mars 2011. Samkvæmt samningnum bar aðilum að skiptast á höfuðstólum í upphafi og lok samningsins. Þannig afhenti varnaraðili sóknaraðila í upphafi samningsins, 28. mars 2008, 526.250.000 kr., gegn afhendingu sóknaraðila til varnaraðila á 5.000.000 evrum. Á lokagjalddaga samningsins, þann 28. mars 2011, bar varnaraðila að greiða sóknaraðila 5.000.000 evrur, og sóknaraðila að greiða varnaraðila 526.250.000 kr. Yfir samningstímann bar aðilum að greiða hvor öðrum fljótandi vexti á þriggja mánaða fresti. Þannig bar sóknaraðila að greiða varnaraðila 28. júní, 28. september, 28. desember og 28. mars ár hvert, frá og með 30. júní 2008 til og með 28. mars 2011, þriggja mánaða REIBOR millibankavexti auk 0,25% álags. Greiðsluskylda varnaraðila til sóknaraðila nam hins vegar þriggja mánaða EURIBOR millibankavöxtum auk 0,7% álags, og skyldi varnaraðili greiða slíka vexti til sóknaraðila á þriggja mánaða fresti, þann 30. júní, 28. september, 28. desember og 28. mars ár hvert, frá og með 28. júní 2008 til og með 28. mars 2011.

                3. Samningur auðkenndur CIRS 3388. Samningsdagur var ákveðinn 11. mars 2008 og lokadagur (lokagjalddagi) 28. mars 2010. Samkvæmt samningnum bar aðilum að skiptast á höfuðstólum bæði í upphafi og lok samningsins. Þannig afhenti varnaraðili sóknaraðila í upphafi samningsins, þann 28. mars 2008, 1.052.500.000 kr., gegn afhendingu sóknaraðila til varnaraðila á 10.000.000 evrum. Á lokagjalddaga samningsins, þann 28. mars 2010, bar varnaraðila að greiða sóknaraðila 10.000.000 evrur, gegn afhendingu sóknaraðila til varnaraðila á 1.052.500.000 kr. Yfir samningstímann bar aðilum að greiða hvor öðrum fljótandi vexti á þriggja mánaða fresti. Þannig bar sóknaraðila að greiða varnaraðila þann 28. júní, 28. september, 28. desember og 28. mars ár hvert, frá og með 30. júní 2008 til og með 28. mars 2010, þriggja mánaða REIBOR millibankavexti auk 0,25 álags. Greiðsluskylda varnaraðila til sóknaraðila nam hins vegar þriggja mánaða EURIBOR millibankavöxtum auk 0,7% vaxtaálags, og skyldi varnaraðili greiða slíka vexti til sóknaraðila á þriggja mánaða fresti, þann 28. júní, 28. september, 28. desember og 28. mars ár hvert, frá og með 30. júní 2008 til og með 28. mars 2010.

                Þann 30. mars 2008 gerðu sóknar- og varnaraðili með sér gjaldmiðlaskiptasamning með auðkennið CIRS_3517_3521. Fylgir hér á eftir lýsing varnaraðila á efni samningsins enda verður að telja þá lýsingu óumdeilda og í samræmi við gögn málsins. Lýsir varnaraðili því svo að samningurinn hafi verið gerður með það markmið að takmarka áhættu sóknaraðila af hækkun og/eða lækkun bandaríkjadollars, sterlingspunda, svissnesks franka og sænskrar krónu gagnvart evru. Sóknaraðili hafði veitt viðskiptavinum sínum lán í framangreindum fimm myntum en hafi verið fjármagnaður í evrum. Þannig hafi myndast misræmi milli fjármögnunar og útlána sóknaraðila sem skapað hafi áhættu í rekstri hans fyrir gengisbreytingum hinna fimm mynta gagnvart evru. Samkvæmt samningnum hafi höfuðstólaskipti átt að eiga sér stað í upphafi og lok samnings en jafnframt hafi aðilum borið að greiða afborganir af höfuðstólunum á samningstímanum. Þannig hafi varnaraðili afhent sóknaraðila í upphafi samningsins, 3. júní 2008, 2.130.333 bandaríkjadollara, 267.167 sterlingspund, 234.168.333 japönsk jen, 1.658.833 svissneska franka og 4.523.332,81 sænskar krónur, gegn afhendingu sóknaraðila til varnaraðila á 4.639.659,95 evrum. Á lokadegi samningsins, 1. október 2012, hafi sóknaraðila hins vegar borið að afhenda varnaraðila 1.798.941 bandaríkjadollara, 233.633 sterlingspund, 174.313.610 japönsk jen, 1.460.802 svissneska franka og 3.909.997 sænskar krónur, gegn afhendingu varnaraðila á 3.831.882 evrum.

                Yfir samningstímann hafi aðilum borið að greiða hvor öðrum fljótandi vexti á sex mánaða fresti. Þannig hafi sóknaraðila borið að greiða varnaraðila á sex mánaða fresti, 1. október og 1. apríl ár hvert, frá og með 1. október 2008 til og með 1. október 2012, 6 mánaða LIBOR millibankavexti af 2.130.333 bandaríkjadollurum, 267.167 sterlingspundum, 234.168.333 japönskum jenum, 1.658.833 svissneskum frönkum og 4.523.332,81 sænskum krónum, þær fjárhæðir hafi tekið breytingum eftir því sem á hafi liðið í samræmi við umsaminn afborgunarferil í viðauka samningsins. Varnaraðila hafi borið að greiða sóknaraðila sex mánaða EURIBOR millibankavexti á sex mánaða fresti, 1. október og 1. apríl ár hvert, frá og með 1. október 2008 til og með 1. október 2012, af 4.539.659,95 evrum, en sá höfuðstóll hafi tekið breytingum í samræmi við umsaminn afborgunarferil í viðauka samningsins.

                Eins og alkunna er beitti Fjármálaeftirlitið 7. október 2008 heimild samkvæmt 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði, til að taka yfir vald hluthafafundar varnaraðila. Skipaði Fjármálaeftirlitið þá skilanefnd til að taka við stjórn varnaraðila. Kom meðal annars fram í ákvörðuninni að skilanefnd skyldi vinna að því að tryggja áframhaldandi viðskiptabankastarfsemi varnaraðila. Þá var jafnframt tilgreint að eigi bæri að gefa út innköllun vegna ákvörðunarinnar og að ákvæði 64. og 65. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. ætti ekki við meðan skilanefnd fari með málefni fjármálafyrirtækisins.

                Þann 14. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið aðra ákvörðun, þar sem hluti af starfsemi, eignum og skuldum varnaraðila var færð til Nýja-Glitnis banka hf. (sem nú heitir Íslandsbanki hf.). Í ákvörðuninni var sérstaklega tilgreint að réttindi og skyldur samkvæmt afleiðusamningum myndu þó ekki flytjast yfir til Nýja-Glitnis banka hf. Í ákvörðuninni er og tilgreint að engin vanefndarúrræði viðsemjanda skuli taka gildi sem afleiðing af henni. Varnaraðila var veitt heimild til greiðslustöðvunar 24. nóvember 2008. Slitameðferð varnaraðila telst hafa byrjað þann 22. apríl 2009 og var varnaraðila skipuð slitastjórn þann 12. maí 2009, samkvæmt ákvæðum 4. tl. 2. mgr. II til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009 um breytingu á lögum nr. 161/2002. Samkvæmt lögum nr. 44/2009, sem nú eru í XII. kafla laga nr. 161/2002, gilda í meginatriðum reglur laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 um slitameðferð varnaraðila, þ.á.m. um meðferð krafna á hendur varnaraðila. Slitastjórn varnaraðila gaf út innköllun til skuldheimtumanna og birtist hún í fyrsta sinn í Lögbirtingarblaðinu sem kom út 26. maí 2009. Kröfulýsingarfrestur var ákveðinn sex mánuðir og lauk honum þ.a.l. 26. nóvember 2009. Úrskurðardagur við slitameðferð varnaraðila var 22. apríl 2009.

                Í greinargerð sóknaraðili kemur fram að í kjölfar falls varnaraðila í október 2008 hafi skapast mikil óvissa um uppgjör samninga aðila og getu varnaraðila til að uppfylla skyldur sínar samkvæmt þeim. Hafi sóknaraðili litlar eða engar upplýsingar fengið frá varnaraðila um stöðu samninganna og mögulegt uppgjör. Í lok desember hafi verið vaxtagjalddagi á gjaldmiðlaskiptasamningum með auðkennin CIRS_3386-3388 og 3390. Sóknaraðili hafi vegna falls varnaraðila haldið að sér höndum á þeim degi og engar greiðslur hafi farið fram. Þá hafi engar greiðslur, kröfur eða upplýsingar komið frá varnaraðila. Þann 27. janúar 2009 hafi sóknaraðili leitað bréflega eftir upplýsingum frá varnaraðila en erindinu hafi ekki verið svarað. Þá hafi sóknaraðili sent bréf 9. febrúar 2009 þar sem m.a. hafi verið spurt hvort skilanefnd teldi tiltekna samninga aðila „á lífi“. Ekki hafi heldur borist svör við því bréfi. Kveður sóknaraðili því að þegar varnaraðili hafi verið tekinn til slitameðferðar 22. apríl 2009 hafi hann vanefnt greiðsluskyldur sínar og í engu sinnt mótaðilaskyldum sínum eða bankaskyldum.

                Sóknaraðili lýsti kröfu með kröfulýsingu 8. júlí 2009 sem fékk auðkennið CL20090720-43 á kröfuskrá varnaraðila og varðaði krafan þá sex afleiðusamninga sóknar- og varnaraðila sem til umfjöllunar eru í máli þessu. Var höfuðstólsfjárhæð kröfunnar 1.485.000.000 krónur, dráttarvextir til 22. apríl 2009, 122.512.500 krónur og dráttarvextir frá 22. apríl til 8. júlí 2009 63.876.295 krónur.

                Sóknaraðili uppfærði kröfulýsingu sína með bréfi 26. nóvember 2009 uppfærslu á kröfulýsingu sinni nr. CL20090720-43 og því innan kröfulýsingarfrests.

                Kemur fram í greinargerð sóknaraðila að í kröfulýsingu hafi hann gert eftirfarandi kröfur: Krafa vegna CIRS 3386, 3388,3390 hafi numið 25.000.000 evra eða 4.230.750.000 króna. Krafa vegna CIRS 3517-3521 hafi numið 3.831.882 evra eða 648.469.391 krónu. Krafa vegna samninga með auðkennin 0503/vs/05082301 og 0503/vs/05082302 529.000 bandaríkjadalir eða 69.145.590 krónur. Höfuðstóll kröfunnar hafi því alls numið 4.948.364.981 krónu. Að auki krafðist sóknaraðili gjaldfallinna greiðslna ásamt dráttarvöxtum að fjárhæð, 1.774.637.456 krónur ef ekki yrði fallist á kröfu hans um dráttarvexti að fjárhæð 682.913.683 krónur, sem reiknuðust af höfuðstólsfjárhæðum frá 8. október 2008 til 22. apríl 2009. Hæsta samtala krafna sóknaraðila hafi því numið 6.723.002.437 krónum. Að auki krafðist sóknaraðili vaxta frá 22. apríl 2009 auk kostnaðar.

                Varnaraðili hafnaði kröfu sóknaraðila og sóknaraðili mótmælti þeirri afstöðu. Kveður varnaraðili að afstaða hans hafi ráðist af því að hann hafi talið gögn sem sóknaraðili byggði kröfu sína á ófullnægjandi og að sóknaraðili hafi ekki bætt úr því þrátt fyrir áskoranir. Aðilum tókst ekki að jafna ágreining og málið var því borið undir dóminn sem ágreiningsmál við slitameðferð varnaraðila.

                Ekki er í máli þessu ágreiningur með aðilum um að framangreindir samningar hafi verið gerðir og að þeir sem gerðu þá hafi verið til þess bærir. Þá er óumdeilt milli aðila hvaða skilmálar gilda um viðskipti þeirra, en deilt er um efnislega þýðingu þeirra að hluta. Jafnframt er óumdeilt að allar greiðslur samkvæmt samningunum er höfðu gjaldfallið fyrir 29. desember 2008 voru efndar af báðum aðilum en frá og með þeim degi innti hvorugur aðili greiðslur af hendi.

II

                Í greinargerð kveðst sóknaraðili byggja kröfur sínar gagnvart varnaraðila á samningum og reglum um rétt kröfuhafa við uppgjör samninga  við gjaldþrot og slit skuldara. Aðilum hafi ekki tekist að jafna ágreining sinn á fundum, sbr. framlagðar fundargerðir og verði því að bera hann undir dóminn. Sóknaraðili telji að úr ágreiningi aðila verði að skera með athugun á hverjum og einum samningi fyrir sig, en að sömu málsástæður eigi að öllu verulegu leyti við samninga aðila með auðkenni CIRS 3386, 3388, 3390 og CIRS_3517-3321 en að sérstakar málsástæður eigi að hluta til við samninga aðila með auðkenni 0503/VS/05082301 og 0503/VS/05082301 og skiptist kröfur sóknaraðila eftir því.

                Um sé að ræða kröfur samkvæmt afleiðusamningum, sem lýst hafi verið og vísi sóknaraðili til ákvæða hvers samnings um sig. Kröfu sína sundurliði sóknaraðili eftir samningum, hvenær greiðslur varnaraðila hafi fallið í gjalddaga og tegund krafna með eftirfarandi hætti:

Gjaldfellingard.

Samningur

Tegund greiðslu

Fjárhæð

Mynt

Gengi 22/4/2009

Jafnvirði í ISK

28. des 2008

CIRS 3386

vextir

147.091

evra

169.23

24.892.210

28. des 2008

CIRS 3388

vextir

147.091

evra

169.23

24.892.210

28. des. 2008

CIRS 3390

vextir

73.546

evra

169.23

12.446.190

28. mars 2009

CIRS 3386

vextir

94.008

evra

169.23

15.908.974

28. mars 2009

CIRS 3388

vextir

94.008

evra

169.23

15.908.974

28. mars 2009

CIRS 3390

vextir

47.004

evra

169.23

7.954.487

28. mars 2009

CIRS 3386

höfuðstóll

10.000.000

evra

169.23

1.692.300.000

1. apríl 2009

CIRS 3517-21

afborgun

87.189

evra

169.23

14.754.994

1. apríl 2009

CIRS 3517-21

vextir

123.785

evra

169.23

20.948.136

22. apríl 2009

CIRS 3388

höfuðstóll

10.000.000

evra

169.23

1.692.300.000

22. apríl 2009

CIRS 3390

höfuðstóll

5.000.000

evra

169.23

846.150.000

22. apríl 2009

CIRS 3517-21

höfuðstóll

4.519.585

evra

169.23

764.849.370

Samtals

30.333.307

5.133.305.544

 

Seinni dómkrafa sóknaraðila sé aðallega að viðurkennd verði almenn krafa sem sundurliðist þannig:

22. apríl 2009

0503/VS/05082301 og 0503/VS/05082301

Verðmæti afleiðu

529,000

USD

130.71

69.145.590

Samtala krafna miðað við 22. apríl 2009 sé 5.202.451.134 krónur

                Það sé alkunna að Glitnir banki hf. hafi lent í alvarlegum vanda síðari hluta ársins 2008, sem leitt hafi til þess að 7. október það ár hafi Fjármálaeftirlitið tekið þá ákvörðun að víkja stjórn bankans frá, taka yfir vald hluthafafundar og skipa honum skilanefnd. Þar með hafi verið ljóst að Glitnir banki hf. var fallinn. Óljóst hafi þá verið um getu hans til að efna þá samninga við sóknaraðila, sem hér sé deilt um og fyrirsjáanlegt að hann myndi vanefna skyldur sínar samkvæmt þeim. Þannig hafi farið að varnaaðili hafi vanefnt allar skyldur sínar gagnvart sóknaraðila frá þeim degi og hafi sóknaraðili því átt rétt til að halda eftir eigin greiðslum og leita vanefndaúrræða gagnvart varnaraðila og krefjast dráttarvaxta.

                Eftir fall varnaraðila hafi hann ekki sinnt skyldum sínum gagnvart sóknaraðila, samkvæmt samningunum og hafi ekki greitt umsamdar greiðslur vaxta og afborgana. Varnaraðili hafi ekki svarað erindum um uppgjör eða stöðu samninga frá falli hans í október 2009 og hann hafi ekki lýst yfir skuldajöfnun eða haldið fram öðrum réttindum samkvæmt samningum aðila. Varnaraðili verði að bera hallan af því tómlæti. Þar sem varnaraðili hafi vanefnt skyldur sínar og hafi ekki sinnt fyrirspurnum sóknaraðila, eigi sóknaraðili rétt til að beita þeim vanefndaúrræðum sem hann telji sér hagfelldust.

                Varnaraðili hafi verið tekinn til slitameðferðar 22. apríl 2009 og hafi þá endanlega orðið ljóst að hann myndi ekki efna skyldur sínar gagnvart sóknaraðila samkvæmt umræddum samningum. Miði sóknaraðili kröfugerð sína, gjaldfellingu og umreikning krafna á hendur varnaraðila í erlendum myntum yfir í íslenskar krónur, við þann dag.

                Sóknaraðili kveðst telja að með tómlæti og vanefndum sínum, hafi varnaraðili fyrirgert rétti sínum til kröfugerðar á hendur sóknaraðila á grundvelli samninga aðila. Það takmarki aftur ekki rétt sóknaraðila til að hafa uppi þær kröfur við slit varnaraðila sem lýst sé. Komi til þess að talið verði að skuldajöfnun skuli fara fram á milli aðila þurfi það að fara fram á sama grunni gagnvart báðum aðilum og áskilji sóknaraðili sér allan rétt þar að lútandi.

                Sóknaraðili telji að sú aðferð sem hann hafi byggt kröfur sínar á, að miða við stöðu samninga 22. apríl 2009, án tillits til framtíðar breytinga vegna vaxta eða annarra slíkra liða, sé hin rétta aðferð til að nota við þær aðstæður sem uppi séu við slit varnaraðila.

                Á síðastnefndum degi hafi aðeins einn samningur aðila verið kominn á lokagjalddaga, þ.e. gjaldmiðlaskiptasamningur með auðkennið CIRS 3386, en lokadagur hans hafi verið 28. mars 2009. Varnaraðili hafi ekki gert neina tilraun 22. apríl 2009 til að greiða eða efna á annan hátt skyldur sínar við sóknaraðila samkvæmt samningum aðila. Því hafi sóknaraðili átt kröfu á hendur varnaraðila um greiðslu í evrum á grundvelli þessa samnings daginn sem varnaraðili hafi verið tekinn til slitameðferðar.

                Sóknaraðili miði kröfugerð sína við að samningar aðila verði gerðir upp miðað við gjaldfellingu þeirra og umreikning yfir í íslenskar krónur 22. apríl 2009, og byggi þá kröfu á ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti og laga um fjármálafyrirtæki. Þannig krefjist hann að miðað verði í uppgjöri krafna hans við gengi íslensku krónunnar gagnvart viðeigandi myntum 22. apríl 2009, svo sem réttur hans standi til að ákveða og stoð eigi í lögum og samningum aðila.

                Það gengi sem sóknaraðili miði við í útreikningum á kröfum sínum í íslenskum krónum sé birt gengi íslensku krónunnar gagnvart erlendum myntum samkvæmt Seðlabanka Íslands 22. apríl 2009. Gengi krónunnar gagnvart Evru þann dag hafi verið EUR/ISK 169,23

                Sóknaraðili hafi sjálfur þurft að kaupa þær evrur sem varnaraðili hafi ekki borgað þar sem sóknaraðili hafi reiknað með að fá þær evrur til að geta staðið í skilum með erlendar skuldbindingar sínar.

                Varnaraðili hafi ekki gert formlega kröfur á hendur sóknaraðila á grundvelli þeirra samninga sem ágreiningur þessi snýst um né heldur hafi varnaraðili lýst yfir skuldajöfnun eða uppgjöri afleiðusamninga á milli aðila. Varnaraðili verði að bera einn allan halla af því.

                Sóknaraðili telji að sú aðferð sem hann noti til útreiknings á kröfum sínum, með gjaldfellingu 22. apríl 2009, sé rétt og kveðst hafna málsástæðum sem varnaraðili hafi viðrað um uppgjör að teknu tilliti til mögulegs framtíðar virðis eða uppreiknings miðað við vaxtakúrfur og ágiskanir um verðbólgu til framtíðar. Engin samnings- eða sanngirnisrök liggi slíku uppgjöri til stuðnings enda sé óvissa um fjölda þátta.

                Sóknaraðili hafi ekki afhent varnaraðila fé á grundvelli samninga aðila eftir að bankanum hafi verið skipuð skilanefnd í október 2008 og hann síðar verið tekinn til slita enda hafi afstaða bankans til stöðu samninganna verið óljós og sýnt að varnaraðili gæti ekki staðið réttilega við sínar skyldur samkvæmt þeim. Um rétt sóknaraðila til að halda eftir greiðslum vísist m.a. til ákvæða laga um gjaldþrotaskipti.

                Það sé sýnt að varnaraðili muni ekki endurgreiða sóknaraðila réttilega þann höfuðstól sem hann hafi tekið við samkvæmt samningi aðila og að hann muni ekki efna aðrar skyldur sínar. Því eigi varnaraðili ekki rétt til fullra og réttra efnda úr hendi sóknaraðila á grundvelli þessara samninga. Um algeran forsendubrest sé að ræða og því ekki rétt að miða slit og uppgjör við það að réttar efndir fari fram út líftíma samninganna. Til stuðnings málsátæðum sínum og kröfum í fyrri kröfu, vísi sóknaraðili að auki til 9. og 10 gr. hinna almennu skilmála sem vísað sé til í samningum aðila og ákvæða laga um gjaldþrotaskipti.

                Síðari dómkrafa sóknaraðila byggi á ákvæðum samninga aðila með auðkennið 0503/VS/05082301 og 0503/VS/05082301, sem séu vaxtaskiptasamningar frá árinu 2005. Með vísan til samningsstöðu og samningsskyldna aðila krefjist sóknaraðili þess aðallega að samningar aðila falli niður og að viðurkennd verði krafa hans á hendur varnaraðila að fjárhæð 69.145.590 krónur. Til frekari rökstuðnings aðalkröfu sinni vísi sóknaraðili til þeirra málsástæðna sem lýst hafi verið til stuðnings fyrri kröfu, eftir því sem við eigi.

                Ef ekki verður fallist á aðalkröfu sóknaraðila í síðari kröfu, krefjist hann til vara að viðurkennt verði að samningar aðila með auðkennið 0503/VS/05082301 og 0503/VS/05082302 séu niður fallnir sökum vanefnda og forsendubrests án frekari efndaskyldna af hálfu beggja aðila. Sóknaraðili hafi frá samningsdegi greitt árlega umsamda vexti og hafi þá átt rétt til afleiðugreiðslna úr hendi varnaraðila. Við fall bankans hafi sóknaraðili orðið fyrir aukinni áhættu og hafi síðar neyðst til að kaupa á markaði sambærileg hlutabréfaafleiðu og þá sem verið hafi hluti af samningi aðila. Það tjón eigi sóknaraðili rétt á að fá bætt miðað við þekkt verðgildi afleiðunnar. 

                Eftir fall bankans í október 2008 hafi samningur aðila verið í óvissu og afleiða hans í uppnámi, þar sem víst hafi mátt telja að samningar sem Íslandsbanki hafi gert við Morgan Stanley í tengslum við erlendan hluta afleiðunnar væru fallnir niður eða í uppnámi. Framkvæmdastjóri sóknaraðila hafi 27. janúar 2009 leitað eftir afstöðu varnaraðila til þess hver væri lagaleg staða þessara samninga og hvort mögulegt væri að sóknaraðili tæki yfir þá samninga sem bankinn hafi gert við Morgan Stanley til að verja bankann gegn hreyfingum á erlendum hluta afleiðanna sem bankinn hafi gert við sóknaraðila. Engin viðbrögð hafi borist frá varnaraðila við þessari fyrirspurn.

                Sóknaraðili telji, með vísan til eðlis og orðalags þessa samnings og tómlætis varnaraðila, m.a. við fyrirspurnum sóknaraðila, að hann hafi mátt telja að samningarnar hafi lokast 27. janúar 2009 og í síðasta lagi þegar varnaraðili hafi verið tekinn til slitameðferðar og að samningar aðila, 0503/VS/05082301 og 0503/VS/05082301, væru þar með niðurfallnir.

                Þar sem engin höfuðstólsskipti hafi átt sér stað á milli aðila í upphafi og samningsskyldur aðila lúti ekki að endurgreiðslum af því tagi sé eðlilegt, við fall bankans að sóknaraðili losni að fullu undan frekari greiðsluskyldu enda ljóst að hann muni ekki endurheimta réttilega úr hendi varnaraðila þau verðmæti sem samið hafi verið um að varnaraðili greiddi honum við lok samningsins. En þar sem varnaraðili hafi ekki getað afhent eða selt sóknaraðila þá hlutabréfaafleiðu sem verið hafi í samningnum hafi sóknaraðili orðið að leita annað og kaupa afleiðuna sem bakað hafi honum tjón og veiti honum rétt til kröfu á hendur varnaraðila eins og komi fram í kröfulýsingu og í greinargerð þessari.

                Forsendur samningsins séu brostnar að öllu verulegu leyti. Vanefndir varnaraðila hafi verið fyrirséðar í október 2008. Um rétt til bóta við riftun vísist og til almennra ákvæða kröfuréttarins og ákvæða laga nr. 21/1991 þar um, sbr. m.a. XV. kafla laganna.

                Ef ekki sé fallist á aðalkröfu sóknaraðila á grundvelli samninga aðila, 0503/VS/05082301 og 0503/VS/05082301, fari hann fram á að viðurkennt verði að samningarnir séu niðurfallnir án frekari skyldna af hálfu beggja aðila.

                Í samningum aðila sé ekki kveðið á um hvernig uppgjör skuli fara fram við gjaldþrot eða slit varnaraðila. Samningar aðila með auðkenni CIRS 3386, 3388, 3390 og CIRS_3517-3321 vísi til ákvæða Almennra skilmála fyrir markaðsviðskipti í Glitni Banka hf. og Almennra skilmála um vaxta- og gjaldmiðlaskipti útgefinna af Sambandi íslenskra viðskiptabanka og Sambandi íslenskra sparisjóða 1998 (1. útg.). Hvergi í þeim skilmálum sé þess skýrlega getið hvernig farið skuli með uppgjör afleiðusamninga þegar bankinn, sem aðili að slíkum samningum, vanefni sínar skyldur og fari í gjaldþrot eða slit, þar sem skilmálarnir séu nokkuð einhliða og geri ekki ráð fyrir þroti banka.

                Ljóst sé að varnaraðili hafi ekki uppfyllt skyldur sínar til að eiga rétt til krafna á hendur sóknaraðila á grundvelli ákvæða hinna almennu skilmála og dugi þar að vísa til tómlætis hans gagnvart skyldum hans sem komi fram í ákvæði 10.2 í hinum almennu skilmálum um vaxta- og gjaldmiðlaskipti

                Sóknaraðili byggi kröfur sínar á samningum sínum við varnaraðila og almennum reglum kröfuréttarins og almennum reglum um túlkun og fyllingu samninga.

                Vanefndir varnaraðila hafi verið verulegar þegar hann hafi verið tekinn til slitameðferðar og sýnt hafi verið að varnaraðili gæti ekki eftir þann dag efnt skyldur sínar samkvæmt samningum aðila. Þá hafi varnaraðili aldrei lýst því yfir eftir að hann hafi verið tekinn yfir af skilanefnd í október 2008 að hann hygðist taka við skyldum bankans eða tryggja efndir á annan hátt. Við þær aðstæður eigi sóknaraðili, samkvæmt almennum reglum kröfuréttarins, rétt til að gjaldfella samninga aðila og eigi þá val vanefndaúrræða. 

                Þá vísi sóknaraðili til ákvæða laga um gjaldþrotaskipti, m.a. um áhrif gjaldþrots á gildi og uppgjör tvíhliða samninga, sbr. XV. kafla og 113. gr. laga nr. 21/1991 og laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

III

                Varnaraðili kveðst hafna öllum málsástæðum og málatilbúnaði sem sóknaraðili haldi uppi í málinu að frátöldum þeim málsástæðum sem hann beinlínis tiltaki að séu óumdeildar milli aðila. Vísar varnaraðili til þess að kröfum sóknaraðila sé skipt í tvo liði, þ.e. annars vegar vegna samninga með auðkennin CIRS 3386, CIRS 3388, CIRS 3390 og CIRS_3517-21, og hins vegar vegna samninga með auðkennin 0503/VS/05082301 og 0503/VS/05082302. Varnaraðili kveðst á hinn bóginn telja að sömu rök eigi við um þessa tvo liði krafna og eigi umfjöllun hans því jöfnun höndum við um þá báða.

                Varnaraðili bendir á að í greinargerð sóknaraðila komi fram að hann hafi átt rétt til að beita vanefndarúrræðum gagnvart varnaraðila. Varnaraðili telur á hinn bóginn að það liggi fyrir að sóknaraðili hafi engum vanefndarúrræðum beitt, enda hefði hann þá verið skuldbundinn til að upplýsa varnaraðila um það. Þá geri málatilbúnaður hans ekki ráð fyrir að neinum slíkum úrræðum hafi verið beitt. Þá liggi fyrir að varnaraðila hafi verið veitt heimild til greiðslustöðvunar með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 2008, en sú heimild hafi verið framlengd, síðast 13. ágúst 2010 og hafi gilt til 24. nóvember 2010. Samkvæmt 22. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. þá taki ekkert ákvæði í samningum eða réttarreglum um afleiðingar vanefnda gildi gagnvart skuldaranum, í þessu tilviki varnaraðila, á þeim tíma sem greiðslustöðvun standi yfir, að öðru leyti en því að krefjast megi dráttarvaxta, dagsekta eða févítis. Þá liggi jafnframt fyrir að það hafi verið sóknaraðili sem verið hafi í vanefnd á fyrsta gjalddaga eftir skipun skilanefndar yfir varnaraðila, 29. desember 2008, en ekki varnaraðili, líkt og sóknaraðili hafi haldið fram. 

                Sóknaraðili byggi á því að með „tómlæti og vanefndum sínum, hafi varnaraðili fyrirgert rétti sínum til kröfugerðar á hendur sóknaraðila á grundvelli samninga aðila [...].“ Varnaraðili geti ekki séð hvernig sóknaraðili komist að þessari niðurstöðu, enda í engu samræmi við þau viðskipti sem hér um ræði, þá skilmála sem um viðskiptin gildi og meginreglur kröfuréttar. Ekkert ákvæði í skilmálum viðskiptanna geri ráð fyrir því að skuldbindingar aðila falli niður við vanefnd. Þess heldur séu nánar tilgreindar heimildir aðila til að loka/gjaldfella viðkomandi samningi við slíkar aðstæður. Fyrir liggi að sóknaraðili hafi ekki beitt slíku úrræði. Þá liggi fyrir að séu skuldbindingar aðila gjaldfelldar eða þeim lokað, leiði slíkt til uppgjörs þeirra viðskipta sem um ræði á lokunardegi, sbr. ákvæði 10. gr. SFF skilmálanna og 7. gr. markaðsskilmála varnaraðila, sbr. 4. gr. þeirra skilmála. Fyrir liggi eins og áður segi, að jafnvel þótt aðili sé ófær um að greiða skuld sína í reiðufé, hamli það ekki rétti hans til að greiða skuld sína með skuldajöfnuði, eins langt og slíkur skuldajöfnuður nái.

                Sóknaraðili byggi á því í greinargerð sinni að þar sem sýnt sé að varnaraðili muni ekki efna að fullu skuldbindingar sínar geti hann ekki átt rétt til fullra og réttra efnda úr hendi sóknaraðila á grundvelli þessara samninga. Óumdeilt sé að varnaraðili muni ekki efna skuldbindingar sínar að fullu enda hafi hann sætt slitameðferð. Slíkt leiði þó ekki til þess að skuldbindingar sóknaraðila gagnvart varnaraðila falli niður. Skilmálar viðskiptanna geri ráð fyrir að við slíkar aðstæður skuli skuldbindingar samninga gjaldfelldar og þær gerðar upp með skuldajöfnuði þ.e. eins langt og hann nái og í samræmi við það sem nánar sé útlistað hér síðar. 

                Þá liggi fyrir að mótaðilaáhætta hafi ávallt verið sóknaraðila kunn, enda tilgreini sóknaraðili sérstaklega í ársreikningum sínum að mótaðilaáhætta komi einungis til vegna fjáreigna og afleiðusamninga. Sóknaraðili hafi því verið meðvitaður um að varnaraðili, sem mótaðili hans í umræddum viðskiptum, gæti lent í greiðsluerfileikum og hann því ekki fengið fullar efndir frá mótaðila sínum í umræddum viðskiptum.

                Í greinargerð sinni byggi sóknaraðili á því að hann hafi mátt telja að samningar með auðkennin 0503/VS/05082301 og 0503/VS/05082302 hafi lokast 27. janúar 2009 eða í síðasta lagi þegar varnaraðili hafi verið tekinn til slitameðferðar, og því samningarnir fallið niður. Þessu kveðst varnaraðili hafna. Fyrir liggi að sóknaraðili hafi ekki krafist gjaldfellingar né lokunar á framangreindum samningum aðila í bréfi sínu 27. janúar 2009. Þess heldur hafi sóknaraðili óskað í umræddu bréfi eftir upplýsingum frá varnaraðila um hver væri lagaleg staða umrædda samninga og líkleg framvinda þeirra, og svo einnig hvort mögulegt væri fyrir sóknaraðila að yfirtaka tiltekna samninga sem varnaraðili hafi átt að gera við Morgan Stanley. Ekkert í bréfinu gefi því nokkuð tilefni til að ætla að sóknaraðili hafi verið að gjaldfella eða loka samningum aðila. Þá liggi fyrir, að hafi samningum aðila verið lokað, leiði slíkt ekki til þess að skuldbindingar samkvæmt þeim falli niður. Þess heldur sé sérstaklega tilgreint að við slíkar aðstæður skuli fara fram fjárhagslegt uppgjör milli aðila, sbr. n.t.t. 7., sbr. 4. gr. markaðsskilmála varnaraðila. Þannig sé t.a.m. sérstaklega tilgreint í neðanmálsgrein 1 á bls. 3 í markaðsskilmálum varnaraðila, „Lokun með mótstæðum samningi sem eyðir heildarmarkaðsáhættu skal fara fram á eðlilegu gengi m.v. markaðsgengi, markaðsvexti og kjör viðskiptamanns á þeim tíma.“ Lokun leiði því til uppgjörs, ekki til niðurfellingar skuldbindinga. Að mati varnaraðila beri því að hafna þessari málsástæðu sóknaraðila og að uppgjör aðila verði framkvæmt í samræmi við skilmála þá sem aðilar hafi undirgengist og óumdeilt sé að eigi við í málinu.

                Í greinargerð sinni vísi sóknaraðili til þess að hann vegna greiðsluerfileika varnaraðila  hafi hann leitað annað og keypt afleiðu sem hafi bakað honum tjón. Sóknaraðili geri hins vegar ekki reka að því að sýna fram á hvert hið ætlaða tjón sé, né heldur sanni hann tilvist þess. Geti slík bótakrafa því aldrei komið til. Telji varnaraðili málsástæðu sóknaraðila því vanreifaða og að henni beri að hafna, enda beri sóknaraðili óumdeilt sönnunarbyrðina fyrir hinu ætlaða tjóni.

                Í greinargerð sóknaraðila sé vísað til þess að forsendur samninga með auðkennin 0503/VS/05082301 og 0503/VS/05082302 séu brostnar að öllu verulegu leyti og að vanefndir varnaraðila hafi verið fyrirséðar í október 2008. Varnaraðili telji svo ekki vera. Greiðsluerfileikar, skipun skilanefndar, íslenska bankahrunið, greiðslustöðvun og slitameðferð geti ekki falið í sér brostnar forsendur í skilningi kröfuréttar líkt og Hæstiréttur hafi ítrekað staðfest í dómum sínum. Telji varnaraðli því að þessum kröfum sóknaraðila beri að hafna sem röngum og vanreifuðum.

                Í fyrri lið kröfugerðar sóknaraðila sé þess krafist að við slit varnaraðila verði samþykkt krafa um dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 367.728 evrum frá 29. desember 2008 til 28. mars 2009 og af 10.602.748 evrum frá þeim degi til 1. apríl 2009 og af 10.813.722 evrum frá þeim degi til 22. apríl 2009. Þannig sé þess krafist að á kröfu sóknaraðila í evrum, verði samþykktir íslenskir dráttarvextir eins og þeir séu birtir af Seðlabanka Íslands. Sé slíkri kröfu mótmælt enda hún í beinni andstöðu við skilmála þá sem um viðskipti aðila gildi. Þannig segi skýrt í b-lið 6. mgr. 7. gr. Markaðsskilmála varnaraðila, að kröfur í evrum skuli bera dráttarvextir sem séu eins mánaðar EURIBOR vextir eins og þeir ákvarðist hverju sinni að viðbættu 5% vanefndarálagi. Kröfu sóknaraðila um dráttarvexti á erlendar myntir beri því að hafna.

                Varnaraðili kveður aðalkröfu sína þá að krafa sóknaraðila verði viðurkennd við slitameðferð varnaraðila sem almenn krafa að fjárhæð 867.378.389 krónur sem sundurliðist svo að höfuðstóll kröfunnar sé að fjárhæð 863.868.252 krónur en dráttarvextir frá hverjum og einum gjalddaga, til 22. apríl 2009, séu samtals að fjárhæð 3.510.138 krónur.

                Slitastjórn varnaraðila hafi upphaflega hafnað kröfu sóknaraðila þar sem hún hafi talið réttmæti kröfunnar óljóst. Þannig hafi slitastjórn varnaraðila talið að sóknaraðili hefði ekki stutt kröfu sína þeim gögnum sem nauðsynlegt væri til að taka afstöðu til kröfunnar. Nú hafi sóknaraðili í greinargerð sinni tilgreint með nánari og ítarlegri hætti hvernig fjárhæð kröfu hans sé tilkomin og því varnaraðila fyrst nú mögulegt að taka afstöðu til fjárhæðar kröfunnar.

                Með vísan til greinargerðar sóknaraðila kveðst varnaraðili fallast á að ekki skuli beita svokallaðri núvirðisaðferð við útreikning krafna aðila, þ.e. að núvirða ógjaldfallnar greiðslur frá 22. apríl 2009 miðað við væntingar markaðarins, heldur skuli miða við stöðu samninga aðila líkt og þeir hefðu allir verið á gjalddaga 22. apríl 2009. Uppgjör þeirra samninga sem ekki hafi verið komnir á gjalddaga 22. apríl 2009 miðist því við markaðsaðstæður á þeim degi.

                Aðalkrafa varnaraðila byggi á því að gera skuli samninga aðila upp í samræmi við efni þeirra og skilmála þá sem um viðskiptin gildi. Fyrir liggi og sé óumdeilt milli aðila að allar greiðslur til þeirra sem gjaldfallið hafi fyrir 29. desember 2008 hafi verið greiddar af báðum aðilum. Fyrir liggi og sé óumdeilt milli aðila að frá og með þeim degi hafi báðir aðilar haldið að sér höndum, hafi ekki greitt þær greiðslur sem þeim hafi borið samkvæmt samningum, né hafi þeir gert reka að því að afhenda umræddar greiðslur, og hafi því vanefnt greiðsluskyldu sína. Við slíkar aðstæður séu markaðsskilmálar viðskiptanna þó skýrir um að greiðsluskylda aðila skuli mætast með skuldajöfnuði og eftir standi ein fjárhæð. Þannig segi í 2. mgr. 4. gr. markaðsskilmála varnaraðila sem liggi fyrir í málinu: „Með undirritun sinni á skilmála þessa samþykkir viðskiptamaður [sóknaraðili] einnig að kominn sé á skriflegur samningur við bankann í samræmi við III. kafla laga nr. 33/2003  um verðbréfaviðskipti [Nú V. kafli laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti], um að skyldur samningsaðila samkvæmt afleiðu skuli jafnast hver á móti annarri, með skuldajöfnuði, við endurnýjun eða við vanefnd, greiðslustöðvun, nauðasamninga eða gjaldþrotaskipti, og að samningurinn skuli halda gildi sínu að fullu þrátt fyrir ákvæði 91. og 100. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.“

                Markaðsskilmálar varnaraðila séu því skýrir um, líkt og Hæstiréttur hafi staðfest í dómum sínum, að skuldbindingum aðila samkvæmt afleiðusamningum skuli skuldajafnað við vanefnd og eftir standi ein fjárhæð. Sé slíkt jafnframt í samræmi við meginreglur kröfuréttar um skuldajöfnuð samrættra krafna. Þá liggi fyrir að sóknar- og varnaraðili hafi áður gert upp viðskipti sín á milli með skuldajöfnuði, nánar tiltekið við uppgjör samnings með auðkennið IRS 2323 sem verið hafi á gjalddaga 30. maí 2008, en þá hafi sóknaraðila borið að greiða 143.895.421 krónur en varnaraðila að greiða 573.502.500 krónur. Við uppgjörið hafi einungis farið fram ein greiðsla, í þessu tilviki þannig að varnaraðili hafi greitt sóknaraðila 429.607.079 krónur.

                Varnaraðili kveðst ekki skipta umfjöllun sinni niður í undirflokka eins og sóknaraðili hafi gert í greinargerð sinni, en þar hafi afleiðusamningum aðila verið skipt upp í þrjá flokka, þ.e. í fyrsta lagi samninga með auðkennin CIRS 3386, CIRS 33889 og CIRS 3390, í öðru lagi í samninga með auðkennin CIRS_3517_3521 og í þriðja lagi í samninga með auðkennin 0503/VS/05082301 og 0503/VS/05082302. Varnaraðili fái ekki séð hverju sú aðgreining skipti enda gildi um öll viðskiptin sömu skilmálar og uppgjör þeirra því með sama hætti. Verði því gerð grein fyrir útreikningi allra samningana án sérstakrar aðgreiningar.

                Fyrir úrskurðardag varnaraðila, 22. apríl 2009, hafi gjaldfallið skuldbindingar milli aðila á þremur gjalddögum, þ.e. 29. desember 2008, 30. mars 2009 og 1. apríl 2009.

                Báðum aðilum hafi borið að greiða vexti samkvæmt samningum CIRS 3386, CIRS 3388 og CIRS 3390, 29. desember 2008. Um eftirfarandi greiðslur hafi verið að ræða:

Auðkenni

Greiðandi

Tegund

Gjalddagi

Greiðsla í mynt

Greiðsla í ISK

3386

Varnaraðili

Vextir

29.12.2008

-147.091 EUR

-26.454.386 kr.

3386

Sóknaraðili

Vextir

29.12.2008

43.498.948 kr.

43.498.948 kr.

3388

Varnaraðili

Vextir

29.12.2008

-147.091 EUR

-26.454.386 kr.

3388

Sóknaraðili

Vextir

29.12.2008

43.498.948 kr.

43.498.948 kr.

3390

Varnaraðili

Vextir

29.12.2008

-73.546 EUR

-13.227.192 kr.

3390

Sóknaraðili

Vextir

29.12.2008

21.749.474 kr.

21.749.474 kr.

                Í samræmi við framangreint hafi greiðsluskylda sóknaraðila til varnaraðila á gjalddaga þann 29. desember 2008 numið samtals 108.747.370 krónum. Þann sama dag hafi greiðsluskylda varnaraðila til sóknaraðila numið samtals 367.728 evrum, eða jafnvirði  66.135.965 króna miðað við miðgengi Seðlabanka Íslands 29. desember 2008, sem numið hafi 179,85 krónum. Þannig liggi fyrir að greiðsluskylda sóknaraðila hafi numið hærri fjárhæð en greiðsluskylda varnaraðila. Þannig sé ekki rétt sem sóknaraðili tilgreini í greinargerð sinni að varnaraðili hafi verið í vanefnd á gjalddaga 29. desember 2008. Jafnframt sé óumdeilt að hvorugur aðili hafi efnt greiðsluskyldu sína með afhendingu. Í samræmi við 4. gr. markaðsskilmála varnaraðila, 40. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti og meginreglur kröfuréttar um skuldajöfnuð samrættra krafna hafi greiðsluskyldu varnaraðila verið skuldajafnað við greiðsluskyldu sóknaraðila og eftir hafi staðið ein fjárhæð, 42.611.405 krónur, (108.747.370 – 66.135.965) sem sóknaraðili hafi skuldað varnaraðila.

                Þann 30. mars 2009 hafi aðilum borið að greiða vexti samkvæmt samningum CIRS 3386, CIRS 3388 og CIRS 3390, sem og að skiptast á höfuðstólsgreiðslum vegna samnings CIRS 3386. Um eftirfarandi greiðslur hafi verið að ræða:

Auðkenni

Greiðandi

Tegund

Gjalddagi

Greiðsla í mynt

Greiðsla í ISK

Greiðsla í EUR

3386

Varnaraðili

Höfuðst.gr.

30.3.2009

-10.000.000 EUR

-1.600.300.000 kr.

-10.000.000 EUR

3386

Sóknaraðili

Höfuðst.gr.

30.3.2009

1.052.500.000 kr.

1.052.500.000 kr.

6.576.892 EUR

3386

Varnaraðili

Vextir

30.3.2009

-91.942 EUR

-14.713.469 kr.

-91.942 EUR

3386

Sóknaraðili

Vextir

30.3.2009

48.787.760 kr.

48.787.760 kr.

304.866 EUR

3388

Varnaraðili

Vextir

30.3.2009

-94.008 EUR

-15.044.110 kr.

-94.008 EUR

3388

Sóknaraðili

Vextir

30.3.2009

49.884.115 kr.

49.884.115 kr.

311.717 EUR

3390

Varnaraðili

Vextir

30.3.2009

-47.004 EUR

-7.522.055 kr.

-47.004 EUR

3390

Sóknaraðili

Vextir

30.3.2009

24.942.057 kr.

24.942.057 kr.

155.859 EUR

                Í samræmi við framangreint hafi greiðsluskylda sóknaraðila til varnaraðila á gjalddaga 30. mars 2009 numið samtals 1.176.113.932 krónum, eða jafnvirði 7.349.334 evra miðað við miðgengi Seðlabanka Íslands 30. mars 2009, sem numið hafi 160,03 krónum. Þann sama dag hafi greiðsluskylda varnaraðila til sóknaraðila numið samtals 10.232.954 evrum. Óumdeilt sé að greiðsluskylda varnaraðila hafi numið hærri fjárhæð en greiðsluskylda sóknaraðila. Jafnframt sé óumdeilt að hvorugur aðili hafi efnt greiðsluskyldu sína með afhendingu og hafi því vanefnt hana. Í samræmi við 4. gr. markaðsskilmála varnaraðila, 40. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti og meginreglur kröfuréttar um skuldajöfnuð samrættra krafna hafi greiðsluskyldu sóknaraðila því verið skuldajafnað við greiðsluskyldu varnaraðila og eftir hafi staðið ein fjárhæð, 2.883.620 evrur (7.349.334 EUR (1.176.113.932 kr. / 160,03) – 10.232.954 EUR) sem varnaraðili hafi skuldað sóknaraðila.

                Þann 1. apríl 2009 hafi aðilum borið að greiða vexti og höfuðstólsgreiðslur samkvæmt samningi aðila með auðkennið CIRS_3517-3521. Um eftirfarandi greiðslur sé að ræða:

Auð-
kenni

Greiðandi

Tegund

Mynt

Gjalddagi

Greiðsla
í mynt

Allar greiðslur
 í ISK

Allar greiðslur
í EUR

Mynt-
gengi

3517

Sóknaraðili

Vextir

USD

1.4.2009

43.002

5.244.488 kr.

32.486 EUR

   121,96 kr.

3517

Sóknaraðili

Höfuðst.gr.

USD

1.4.2009

34.930

4.260.063 kr.

26.388 EUR

   121,96 kr.

3517

Varnaraðili

Vextir

EUR

1.4.2009

-36.440

-5.882.862 kr.

-36.440 EUR

   161,44 kr.

3517

Varnaraðili

Höfuðst.gr.

EUR

1.4.2009

-22.464

-3.626.664 kr.

-22.464 EUR

   161,44 kr.

3518

Sóknaraðili

Vextir

GBP

1.4.2009

8.618

1.512.614 kr.

9.370 EUR

   175,51 kr.

3518

Sóknaraðili

Höfuðst.gr.

GBP

1.4.2009

2.833

497.220 kr.

3.080 EUR

   175,51 kr.

3518

Varnaraðili

Vextir

EUR

1.4.2009

-8.964

-1.447.078 kr.

-8.964 EUR

   161,44 kr.

3518

Varnaraðili

Höfuðst.gr.

EUR

1.4.2009

-3.575

-577.182 kr.

-3.575 EUR

   161,44 kr.

3519

Sóknaraðili

Vextir

JPY

1.4.2009

1.485.437

1.829.019 kr.

11.329 EUR

       1,23 kr.

3519

Sóknaraðili

Höfuðst.gr.

JPY

1.4.2009

7.557.983

9.306.144 kr.

57.645 EUR

       1,23 kr.

3519

Varnaraðili

Vextir

EUR

1.4.2009

-38.336

-6.188.943 kr.

-38.336 EUR

   161,44 kr.

3519

Varnaraðili

Höfuðst.gr.

EUR

1.4.2009

-46.057

-7.435.471 kr.

-46.057 EUR

   161,44 kr.

3520

Sóknaraðili

Vextir

CHF

1.4.2009

26.378

2.815.054 kr.

17.437 EUR

   106,72 kr.

3520

Sóknaraðili

Höfuðst.gr.

CHF

1.4.2009

11.167

1.191.742 kr.

7.382 EUR

   106,72 kr.

3520

Varnaraðili

Vextir

EUR

1.4.2009

-27.230

-4.396.009 kr.

-27.230 EUR

   161,44 kr.

3520

Varnaraðili

Höfuðst.gr.

EUR

1.4.2009

-6.868

-1.108.802 kr.

-6.868 EUR

   161,44 kr.

3521

Sóknaraðili

Vextir

SEK

1.4.2009

126.789

1.875.086 kr.

11.615 EUR

     14,79 kr.

3521

Sóknaraðili

Höfuðst.gr.

SEK

1.4.2009

76.667

1.133.828 kr.

7.023 EUR

     14,79 kr.

3521

Varnaraðili

Vextir

EUR

1.4.2009

-12.816

-2.069.008 kr.

-12.816 EUR

   161,44 kr.

3521

Varnaraðili

Höfuðst.gr.

EUR

1.4.2009

-8.223

-1.327.591 kr.

-8.223 EUR

   161,44 kr.

 

                Í samræmi við framangreint hafi greiðsluskylda sóknaraðila til varnaraðila á gjalddaga 1. apríl 2009 numið samtals eftirfarandi fjárhæðum:

Skuldbinding í mynt

Skuldbinding í EUR

Gengi

77.932 USD

58.874 EUR

121,96

11.451 GBP

12.449 EUR

175,51

9.043.420 JPY

68.974 EUR

1,2313

37.545 CHF

24.819 EUR

106,72

203.456 SEK

18.638 EUR

14,789

                Þann sama dag hafi varnaraðila borið að greiða sóknaraðila samtals 210.974 evrur. Óumdeilt sé að greiðsluskylda varnaraðila hafi numið hærri fjárhæð en greiðsluskylda sóknaraðila. Jafnframt sé óumdeilt að hvorugur aðili hafi efnt greiðsluskyldu sína með afhendingu. Í samræmi við 4. gr. markaðsskilmála varnaraðila, 40. gr. laga nr. 108/2007 um verbréfaviðskipti og meginreglu kröfuréttar um skuldajöfnuð samrættra krafna hafi greiðsluskyldu varnaraðila því verið skuldajafnað við greiðsluskyldu sóknaraðila og eftir hafi staðið ein fjárhæð, 27.220 evrur (58.874 evrur + 12.449 evrur + 68.974 evrur + 24.819 evrur + 18.638 evrur – 210.974 evrur), sem varnaraðili hafi skuldað sóknaraðila.

                Í samræmi við framangreint liggi fyrir að sóknaraðili hafi skuldað varnaraðila 42.611.405 krónur vegna skuldbindinga á gjalddaga 29. desember 2008, en varnaraðili hafi skuldað sóknaraðila 2.883.620 evrur vegna gjalddaga 30. mars 2009 og 80.031 evru vegna gjalddaga 1. apríl 2009.

                Samkvæmt c-lið 6. mgr. 7. gr. Markaðsskilmála varnaraðila beri kröfur í íslenskum krónum dráttarvexti í samræmi við ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af gjaldfallinni fjárhæð frá gjalddaga til greiðsludags. Sé slíkt jafnframt í samræmi við 1. mgr. 8. gr. síðari hluta SFF skilmálanna. Skuld sóknaraðila við varnaraðila vegna gjalddaga 29. desember 2008 hafi eins og áður segi numið 42.611.405 krónum. Af þeirri skuld reiknist dráttarvextir frá gjalddaga til úrskurðardags varnaraðila, 22. apríl 2009, samtals að fjárhæð 3.322.506 krónur.

                Að því er varði kröfur sóknaraðila á hendur varnaraðila vegna gjalddaga 30. mars 2009 og 1. apríl 2009, þá segi í B-lið 6. mgr. 7. gr. Markaðsskilmála varnaraðila, að kröfur í evrum beri dráttarvexti sem séu eins mánaðar EURIBOR vextir eins og þeir ákvarðist hverju sinni, að viðbættu 5% vanefndarálagi, af gjaldfallinni fjárhæð frá gjalddaga til greiðsludags. Skuld varnaraðila við sóknaraðila vegna gjalddaga 30. mars 2009 hafi numið 2.883.620 evrum eins og áður segi. Af þeirri skuld reiknist dráttarvextir frá gjalddaga til úrskurðardags varnaraðila, 22. apríl 2009, samtals að fjárhæð 8.747 evrur. Skuld varnaraðila við sóknaraðila vegna gjalddaga 1. apríl 2009 hafi eins og áður segir numið 27.220 evrum. Af þeirri skuld reiknist dráttarvextir frá gjalddaga til úrskurðardags varnaraðila, 22. apríl 2009, samtals að fjárhæð 97,41 evrur.

                Í samræmi við framangreint liggi fyrir að varnaraðili hafi skuldað sóknaraðila samtals 448.164.233 krónur (45.933.911 + -489.475.267 + -13.559.183) 22. apríl 2009 vegna skuldbindinga er hafi gjaldfallið fyrir 22. apríl 2009, sbr. eftirfarandi sundurliðun:

Skuldbindingar vegna gjalddaga 29. desember 2008:

Höfuðstóll:                                                                                                                        42.611.405 kr.

Dráttarvextir frá 29. desember 2008 til 22. apríl 2009:                            3.322.506 kr.

Samtals:                                                                                                                             45.933.911 kr.

Skuldbindingar vegna gjalddaga 30. mars 2009:

Höfuðstóll:                                                                                                                        -2.883.620 evrur

Dráttarvextir frá 30. mars 2009 til 22. apríl 2009:                                     -8.747 evrur

Samtals:                                                                                                                             -2.892.367 evrur

Samtals í ISK m.v. sölugengi 22.4.2009:                                                     -489.475.267 kr.

Skuldbindingar vegna gjalddaga 1. apríl 2009:

Höfuðstóll:                                                                                                                        -27.220 evrur

Dráttarvextir frá 1. apríl 2009 til 22. apríl 2009:                                        -97,41 evrur

Samtals:                                                                                                                             -27.317 evrur

Samtals í ISK m.v. sölugengi 22.4.2009:                                                     -13.559.183 kr.

                Líkt og áður segi hafi slitameðferð varnaraðila hafist 22. apríl 2009, sbr. bráðabirgðaákvæði laga nr. 44/2009 og úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur í máli G-1062/2010 og úrskurðardagur varnaraðila í skilningi laga nr. 21/1991 því 22. apríl 2009. Fyrir liggi að einungis einn af afleiðusamningum sóknar- og varnaraðila hafi verið kominn á lokagjalddaga á þeim degi og því samtals 173 greiðslur ógjaldfallnar.

                Samkvæmt ákvæði 9.4. síðari hluta SFF skilmálanna, sem gildi um alla þá afleiðusamninga milli aðila sem hér um ræði, hafi allir skiptasamningar milli samningsaðila gjaldfallið án sérstakrar tilkynningar þar um við gjaldþrot samningsaðila. Fyrir liggi að varnaraðili muni ekki greiða kröfur sínar að fullu og geti slitameðferð varnaraðila því einungis lokið með nauðasamningi eða gjaldþroti, sbr. 3. og 4. mgr. 103. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Í samræmi við fyrrnefnt ákvæði 9.4. síðari hluta SFF skilmálanna hafi því allar skuldbindingar sóknar- og varnaraðila gjaldfallið við töku varnaraðila til slitameðferðar, 22. apríl 2009. Af greinargerð sóknaraðila megi sjá að ekki sé deila um þetta atriði og sé því óumdeilt milli aðila að skuldbindingar þær sem hafi verið á gjalddaga eftir 22. apríl 2009, hafi gjaldfallið 22. apríl 2009 og að uppgjör skuli miða við þann dag. 

                Við slíkar aðstæður beri að gera samninga aðila upp í samræmi við 4. gr. Markaðsskilmála varnaraðila, enda gangi þeir skilmálar framar ákvæði 10. gr. síðari hluta SFF skilmálanna, sbr. 10. gr. Markaðsskilmála varnaraðila og dóm Hæstaréttar Íslands frá 23. maí 2011 í máli nr. 77/2011 (ALMC hf. gegn Landsbanka Íslands hf.). Þannig liggi fyrir að gera skuli upp samninga aðila með skuldajöfnuði miðað við gjaldfellingu þeirra 22. apríl 2009. Þær greiðslur sem hafi verið óuppgerðar 22. apríl 2009 séu eftirfarandi (+=greiðsluskylda sóknaraðila / -= greiðsluskylda varnaraðila).

Gjalddagi 29.6.2009 

 

Í mynt

Í ISK

Greiðsluskylda sóknaraðila:

56.867.891 kr.

56.867.891 kr.

Greiðsluskylda varnaraðila:

-79.791 EUR

-13.503.044 kr.

Nettó:

 

43.364.847 kr.

 

Gjalddagi 26.8.2009

 

Í mynt

Í ISK

Greiðsluskylda sóknaraðila: 

26.689.843 kr.

26.689.843 kr.

Greiðsluskylda varnaraðila: 

0 kr.

0 kr.

Nettó: 

 

26.689.843 kr.

 

Gjalddagi 28.9.2009

Í mynt

Í ISK

Greiðsluskylda sóknaraðila: 

56.867.891 kr.

56.867.891 kr.

Greiðsluskylda varnaraðila: 

-79.791 EUR

-13.503.044 kr.

Nettó: 

 

43.364.847 kr.

 

Gjalddagi 1.10.2009

 

Í mynt

Í ISK

Í EUR

Greiðsluskylda sóknaraðila

54.511 USD

7.125.109 kr.

42.103 EUR

Greiðsluskylda sóknaraðila

5.355 GBP

1.023.204 kr.

6.046 EUR

Greiðsluskylda sóknaraðila

8.654.550 JPY

11.560.748 kr.

68.314 EUR

Greiðsluskylda sóknaraðila

16.879 CHF

1.890.315 kr.

11.170 EUR

Greiðsluskylda sóknaraðila

91.921 SEK

1.409.054 kr.

8.326 EUR

Greiðsluskylda varnaraðila

-124.206 EUR

-21.019.424 kr.

-124.206 EUR

 

 

1.989.007 kr.

11.753 EUR

 

 

 

 

Gjalddagi 28.12.2009

Í mynt

Í ISK

Greiðsluskylda sóknaraðila

56.867.891 kr.

56.867.891 kr.

Greiðsluskylda varnaraðila

-79.791 EUR

-13.503.044 kr.

Nettó:

 

43.364.847 kr.

 

Gjalddagi 29.3.2010

Í mynt

Í ISK

Greiðsluskylda sóknaraðila

1.108.951.276 kr.

1.108.951.276 kr.

Greiðsluskylda varnaraðila

-10.079.207 EUR

-1.705.704.120 kr.

Nettó:

 

-596.752.844 kr.

 

Gjalddagi 1.4.2010

 

Í mynt

Í ISK

Í EUR

Greiðsluskylda sóknaraðila

67.119 USD

8.773.099 kr.

51.841 EUR

Greiðsluskylda sóknaraðila

7.488 GBP

1.430.787 kr.

8.455 EUR

Greiðsluskylda sóknaraðila

9.992.612 JPY

13.348.131 kr.

78.876 EUR

Greiðsluskylda sóknaraðila

38.548 CHF

4.317.028 kr.

25.510 EUR

Greiðsluskylda sóknaraðila

91.571 SEK

1.403.696 kr.

8.295 EUR

Greiðsluskylda varnaraðila

-156.208 EUR

-26.435.120 kr.

-156.208 EUR

 

 

2.837.622 kr.

16.768 EUR

 

Gjalddagi 26.8.2010

Í mynt

Í ISK

Greiðsluskylda sóknaraðila

18.955.964 kr.

18.955.964 kr.

Greiðsluskylda varnaraðila 

-26.597 EUR

-4.501.015 kr.

Nettó:

14.454.949 kr.

 

Gjalddagi 26.8.2010

Í mynt

Í ISK

Greiðsluskylda sóknaraðila: 

158.094.870 kr.

158.094.870 kr.

Greiðsluskylda varnaraðila:

0 kr.

0 kr.

Nettó:

 

158.094.870 kr.

 

Gjalddagi 28.9.2010

Í mynt

Í ISK

Greiðsluskylda sóknaraðila:

19.164.271 kr.

19.164.271 kr.

Greiðsluskylda varnaraðila:

-26.889 EUR

-4.550.476 kr.

Nettó:

 

14.613.795 kr.

 

Gjalddagi 1.10.2010

 

Í mynt

Í ISK

Í EUR

Greiðsluskylda sóknaraðila: 

66.771 USD

8.727.641 kr.

51.573 EUR

Greiðsluskylda sóknaraðila: 

7.453 GBP

1.424.165 kr.

8.416 EUR

Greiðsluskylda sóknaraðila: 

9.955.142 JPY

13.298.079 kr.

78.580 EUR

Greiðsluskylda sóknaraðila: 

38.464 CHF

4.307.637 kr.

25.454 EUR

Greiðsluskylda sóknaraðila: 

91.386 SEK

1.400.849 kr.

8.278 EUR

Greiðsluskylda varnaraðila: 

-155.423 EUR

-26.302.220 kr.

-155.423 EUR

Nettó:  

 

2.856.152 kr.

16.877 EUR

 

Gjalddagi 28.12.2010

Í mynt

Í ISK

Greiðsluskylda sóknaraðila 

18.955.964 kr. 

18.955.964 kr.

Greiðsluskylda varnaraðila

-26.597 EUR

-4.501.015 kr.

Nettó:

14.454.949 kr.

 

Gjalddagi 28.3.2011

Í mynt

Í ISK

Greiðsluskylda sóknaraðila

544.997.656 kr.

544.997.656 kr.

Greiðsluskylda varnaraðila

-5.026.305 EUR

-850.601.553 kr.

Nettó:

 

-305.603.897 kr.

 

Gjalddagi 1.4.2011

 

Í mynt

Í IS

Í EUR

Greiðsluskylda sóknaraðila

 

66.218 USD

8.655.329 kr.

51.145 EUR

Greiðsluskylda sóknaraðila

 

7.392 GBP

1.412.435 kr.

8.346 EUR

Greiðsluskylda sóknaraðila

 

9.906.561 JPY

13.233.184 kr.

78.196 EUR

Greiðsluskylda sóknaraðila

 

38.320 CHF

4.291.442 kr.

25.359 EUR

Greiðsluskylda sóknaraðila

 

91.039 SEK

1.395.537 kr.

8.246 EUR

Greiðsluskylda varnaraðila

 

-154.252 EUR

-26.103.995 kr.

-154.252 EUR

 

2.883.933 kr.

17.041 EUR

 

Gjalddagi 3.10.2011

Í mynt

Í ISK

Í EUR

Greiðsluskylda sóknaraðila

 

66.061 USD

8.634.783 kr.

51.024 EUR

Greiðsluskylda sóknaraðila

 

7.382 GBP

1.410.619 kr.

8.336 EUR

Greiðsluskylda sóknaraðila

 

9.878.785 JPY

13.196.081 kr.

77.977 EUR

Greiðsluskylda sóknaraðila

 

38.293 CHF

4.288.432 kr.

25.341 EUR

Greiðsluskylda sóknaraðila

 

91.005 SEK

1.395.021 kr.

8.243 EUR

Greiðsluskylda varnaraðila

 

-153.820 EUR

-26.030.961 kr.

-153.820 EUR

 

2.893.976 kr.

17.101 EUR

 

Gjalddagi 2.4.2012

Í mynt

Í ISK

Í EUR

Greiðsluskylda sóknaraðila

 

65.317 USD

8.537.560 kr.

50.449 EUR

Greiðsluskylda sóknaraðila

 

7.296 GBP

1.394.083 kr.

8.238 EUR

Greiðsluskylda sóknaraðila

 

9.820.510 JPY

13.118.237 kr.

77.517 EUR

Greiðsluskylda sóknaraðila

 

38.091 CHF

4.265.856 kr.

25.207 EUR

Greiðsluskylda sóknaraðila

 

90.507 SEK

1.387.377 kr.

8.198 EUR

Greiðsluskylda varnaraðila

 

-152.295 EUR

-25.772.869 kr.

-152.295 EUR

 

2.930.244 kr.

17.315 EUR

 

Gjalddagi 1.10.2012

 

 

Í mynt

Í ISK

Í EUR

Greiðsluskylda sóknaraðila

 

1.815.834 USD

237.347.702 kr.

1.402.516 EUR

Greiðsluskylda sóknaraðila

 

235.874 GBP

45.070.763 kr.

266.328 EUR

Greiðsluskylda sóknaraðila

 

175.152.677 JPY

233.968.945 kr.

1.382.550 EUR

Greiðsluskylda sóknaraðila

 

1.465.873 CHF

164.163.136 kr.

970.059 EUR

Greiðsluskylda sóknaraðila

 

3.923.570 SEK

60.144.410 kr.

355.400 EUR

Greiðsluskylda varnaraðila

 

-3.863.096 EUR

-653.751.702 kr.

-3.863.096 EUR

 

86.943.255 kr.

513.758 EUR

                Greiðsluskyldu aðila eftir 22. apríl 2009 sé því skuldajafnað í samræmi við 4. gr. markaðsskilmála varnaraðila, 40. gr. laga nr. 108/2007 og meginreglur kröfuréttar um skuldajöfnuð samrættra krafna, og miðist skuldajöfnuðurinn við 22. apríl 2008. Við slíkan skuldajöfnuð sé hin lægri fjárhæð dregin frá hinni hærri og eftir standi ein fjárhæð. Sé sú fjárhæð í erlendri mynt sé hún færð yfir í íslenskar krónur miðað við skráð sölugengi Seðlabanka Íslands eins og það hafi verið birt 22. apríl 2009, sbr. 3. mgr. 99. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Það sama eigi við um þær fjárhæðir sem hafi gjaldfallið fyrir 22. apríl 2009, þ.e. séu skuldbindingar eftir skuldajöfnuð í erlendri mynt sé hún færð yfir í íslenskar krónur miðað við skráð sölugengi Seðlabanka Íslands 22. apríl 2009.

                Í samræmi við framangreint hafi skuldbindingar aðila er gjaldféllu eftir 22. apríl 2009 numið samtals 440.619.605 krónum, sbr. eftirfarandi sundurliðun:

Í mynt

Sölugengi 22.4.2009

Í ISK m.v. sölugengi
22.4.2009

Höfuðstóll skuldbindinga í EUR

-20.184.268

169,23 kr.

-3.415.783.599 kr.

Höfuðstóll skuldbindinga í JPY

233.360.837

1,34 kr.

311.723.406 kr.

Höfuðstóll skuldbindinga í USD

2.201.830

130,71 kr.

287.801.223 kr.

Höfuðstóll skuldbindinga í CHF

1.674.470

111,99 kr.

187.523.848 kr.

Höfuðstóll skuldbindinga í SEK

4.470.999

15,33 kr.

68.535.945 kr.

Höfuðstóll skuldbindinga í GBP

278.240

191,08 kr.

53.166.057 kr.

Höfuðstóll skuldbindinga í ISK

2.066.413.516

1,00 kr.

2.066.413.516 kr.

Samtals í ISK m.v. sölugengi 22.4.2009:

-440.619.605 kr.

                Í samræmi við framangreint liggi fyrir, í samræmi við aðalkröfu varnaraðila, að skuld varnaraðila við sóknaraðila nemi samtals 888.783.838 krónum (448.164.233 kr.+ 440.619.605 kr.).

                Skuldajöfnuður miðist við gjalddaga hverrar greiðslu sem gjaldfallið hafi fyrir 22. apríl 2009, en 22. apríl 2009 vegna þeirra er hafi verið á gjalddaga eftir það tímamark, enda hafi þær skuldbindingar gjaldfallið sjálfkrafa 22. apríl 2009, sbr. ákvæði 9.4. síðari hluta SFF skilmálanna og fyrri umfjöllun. Skuldajöfnuðurinn miðist við gjalddaga enda kröfur aðila samrættar eins og áður segi, en um það hugtak vísist til 27. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þar sem um samrættar kröfur sé að ræða hafi ekki verið þörf á sérstakri skuldajafnaðaryfirlýsingu, heldur hin lægri fjárhæð dregin frá þeirri hærri og eftir hafi staðið krafa um mismuninn. Engu skipti þótt skuldbindingar aðila á hverjum gjalddaga hafi ekki verið í sama gjaldmiðli eða jafn háar. Það hamli ekki skuldajöfnuði aðila að varnaraðila hafi verið skipuð skilanefnd, hann farið í greiðslustöðvun og loks í slitameðferð, enda verði aðila ekki meinað að greiða skuldbindingar sínar með skuldajöfnuði eins langt og hann nái, þótt hann kunni að vera ófær um að greiða þær með reiðufé.

                Verði komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé heimilt að beita skuldajöfnuði á gjalddaga hverrar skuldbindingar er gjaldfallið hafi fyrir 22. apríl 2009, og þann 22. apríl 2009 vegna þeirra skuldbindinga er hafi verið á gjalddaga eftir 22. apríl 2009 en gjaldfallið hafi sjálfkrafa þann dag, byggi varnaraðili á því að skuldajafna skuli skuldbindingum sóknar- og varnaraðila miðað við úrskurðardag varnaraðila 22. apríl 2009. Til að fyrirgera ekki slíkum rétti sé slíkum skuldajöfnuði hér með lýst yfir.

Skuldbindingar aðilar hafi 22. apríl 2009 numið eftirfarandi fjárhæðum:

Samantekt yfir allar skuldbindingar aðila m.v. 22.4.2009

 

Í mynt

Sölugengi 22.4.2009

Í ISK m.v. sölugengi 22.4.2009

Höfuðstóll skuldbindinga í EUR

-30.995.924

169,23 kr.

-5.245.440.193 kr.

Höfuðstóll skuldbindinga í JPY

242.404.257

1,34 kr.

323.803.606 kr.

Höfuðstóll skuldbindinga í USD

2.279.762

130,71 kr.

297.987.676 kr.

Höfuðstóll skuldbindinga í CHF

1.712.015

111,99 kr.

191.728.506 kr.

Höfuðstóll skuldbindinga í SEK

4.674.455

15,33 kr.

71.654.726 kr.

Höfuðstóll skuldbindinga í GBP

289.691

191,08 kr.

55.354.189 kr.

Höfuðstóll skuldbindinga í ISK

3.351.274.818

1,00 kr.

3.351.274.818 kr.

Samtals í ISK m.v. sölugengi 22.4.2009:

-953.636.672 kr.

                Í samræmi við framangreint liggi fyrir að skuldbindingar sóknaraðila gagnvart varnaraðila 22. apríl 2009 hafi numið samtals 4.291.803.521 krónu (323.803.606 + 297.987.676 + 191.728.506 + 71.654.726 + 55.354.189 + 3.351.274.818) miðað við skráð sölugengi Seðlabanka Íslands. Á sama degi hafi skuldbindingar varnaraðila gagnvart sóknaraðila numið 5.245.440.193 krónum miðað við skráð sölugengi Seðlabanka Íslands. Í samræmi við framangreint sé skuldbindingum aðila skuldajafnað og eftir standi ein fjárhæð, 953.636.672 krónur (5.245.440.193 – 4.291.803.521).

                Varnaraðili kveðst krefjast þess til þrautavara að kröfur sóknaraðila verði stórlega lækkaðar. Fyrir liggi að kröfugerð sóknaraðila geri ráð fyrir að skuldbindingar sóknaraðila gagnvart varnaraðila falli niður en að skuldbindingar varnaraðila gagnvart sóknaraðila haldi fulli gildi sínu og viðurkenna skuli þær við slitameðferð varnaraðila. Slík niðurstaða sé ekki tæk enda í engu samræmi við þau viðskipti sem hér um ræði, skilmála þá er um viðskiptin gildi, meginreglur kröfuréttar og dómafordæmi Hæstaréttar. Vegna þessa telji varnaraðili líkur standa til þess að sóknaraðili muni lækka kröfugerð sína og þá leggja fram nýja útreikninga. Vegna þessa sé sóknaraðila nauðsynlegt að krefjast þess til vara að kröfur sóknaraðila verði stórlega lækkaðar.

                Í þessu sambandi telur sóknaraðili athyglisvert að líta til bréfs sóknaraðila til varnaraðila frá 9. febrúar 2009. Þar tilgreini sóknaraðili að skuld varnaraðila við sóknaraðila nemi samtals 1.485 milljónum króna, en ekki um 5.300 milljónum líkt og hann hafi krafist síðar. Þá sé í bréfinu tilgreint að sóknaraðili vilji ekki fá samningana endurgreidda í undirliggjandi myntum, en í greinargerð sóknaraðila sé nú byggt á því að varnaraðila hafi borið að afhenda undirliggjandi myntir 22. apríl 2009. Málatilbúnaður sóknaraðila sé því í andstöðu við sjálfan sig.

                Til viðbótar við framangreint, þá liggi fyrir að sóknaraðili krefjist í greinargerð sinni hærri fjárhæðar en hann hafi lýst við slitameðferð sóknaraðila. Líkt og fram komi í uppfærðri kröfulýsingu sóknaraðila og fundargerð kröfuhafafundar til að fjalla um kröfu sóknaraðila, hafi lýst krafa sóknaraðila numið að höfuðstólsfjárhæð 4.948.364.981 krónu (4.230.750.000 + 69.145.590 + 648.469.391) auk dráttarvaxta að fjárhæð 682.913.683 krónur. Í greinargerð sóknaraðila sé aftur á móti krafist viðurkenningar á kröfum sóknaraðila annars vegar að fjárhæð 5.202.451.134 krónur auk ótilgreindra dráttarvaxta á fjárhæðir í evrum, og hins vegar kröfu að fjárhæð 69.145.590 krónur. Fyrir liggi að kröfulýsing aðila sé ígildi stefnu, sbr. 6. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili geti því ekki krafist hærri fjárhæðar en hann hafi gert í kröfulýsingu, nema með samþykki varnaraðila. Slíkt samþykki hafi varnaraðili ekki veitt og sé sóknaraðili því bundinn við lýsta fjárhæð kröfu sinnar. Um dráttarvaxtakröfu sóknaraðila vísist til þess sem fyrr greini um það efni.

                Varnaraðili kveðst vísa sérstaklega til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. sérstaklega breytingarlaga nr. 44/2009. Varnaraðili vísi til almennra reglna samninga- og kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga og vanefndaúrræði, sem og um skuldajöfnuð samrættra krafna sbr. og 27. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, ákvæða laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, þá sérstaklega V. kafla laganna, svo og annarra reglna og venja á sviði markaðs- og verðbréfaviðskipta. Kröfur um dráttarvexti styðji sóknaraðili við skilmála viðskiptanna, III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, einkum 1. mgr. 6. gr. þeirra laga. Einnig vísi varnaraðili til laga nr. 150/2006 um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga. Kröfu um málskostnað byggi varnaraðili á 130. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV

                Eins og fram kemur hér að framan er sóknaraðili lánafyrirtæki á grundvelli laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Þá liggur og fyrir að frá því lög nr. 108/2007 tóku gildi var sóknaraðili skráður sem viðurkenndur gagnaðili í viðskiptum sínum við varnaraðila. Verða framangreindar staðreyndir taldar sýna að sóknaraðili hafi búið yfir sérfræðiþekkingu á fjármálamarkaði, enda ekki byggt á öðru af hans hálfu að því er séð verður.

                Eins og rakið er nánar hér fyrr tók Fjármálaeftirlitið yfir stjórn varnaraðila 7. október 2008 og setti yfir hann skilanefnd. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 14. sama mánaðar var tilteknum eignum varnaraðila ráðstafað til nýs banka en þeir samningar sem hér eru til umfjöllunar urðu eftir hjá varnaraðila. Í ákvörðuninni var m.a. tekið fram að engin vanefndaúrræði viðsemjenda skyldu taka gildi sem afleiðing af henni.

                Fyrir liggur að varnaraðila var veitt greiðslustöðvun 24. nóvember 2008 sem stóð enn þegar varnaraðili var tekinn til slitameðferðar 22. apríl 2009. Það liggur því fyrir að varnaraðili var undir greiðslustöðvun þegar skuldbindingar aðila féllu í gjalddaga 29. desember 2008, 30. mars 2009 og 1. apríl 2009. Í samræmi við ákvæði 1. mgr. 22. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. gátu ákvæði í samningum og réttarreglum um afleiðingar vanefnda ekki tekið gildi gagnvart varnaraðila á greiðslustöðvunartíma, að öðru leyti en því að krefjast mátti dráttarvaxta, dagsekta eða févítis vegna vanefnda hans.

                Þeir samningar aðila sem að framan er lýst voru afleiðusamningar og fólu í sér gagnkvæma greiðsluskyldu með þeim hætti að aðilar skiptust á nánar tilgreindum fjárhæðum í nokkrum gjaldmiðlum, allt eins og nánar er lýst hér að framan. Það er meginregla í íslenskum rétti að greiðsluskylda aðila gagnkvæms samnings er háð því að gagnaðili hans ynni sína skyldu einnig af hendi í samræmi við ákvæði samningsins. Eins og fyrr er rakið var varnaraðili í greiðslustöðvun á gjalddögum samninga aðila fyrir upphaf slitameðferðar 22. apríl 2008. Standa þegar af þeirri ástæðu ekki efni til að fallast á með sóknaraðila og varnaraðili geti talist hafa glatað rétti til efnda samkvæmt samningunum á grundvelli aðgerðaleysis síns á því tímabili, enda vart hægt að telja að það samræmist vel framangreindum gagnkvæmnisskyldum að krefja sóknaraðila um greiðslu þegar varnaraðila sjálfum var ekki heimilt að inna greiðslu af hendi fyrir sitt leyti, sbr. 19. til 21. gr. laga nr. 21/1991.

                Auk þess sem að framan greinir liggur fyrir í málinu að í markaðsskilmálum varnaraðila, 2. mgr. 4. gr. segir: „Með undirritun sinni á skilmála þessa samþykkir viðskiptamaður [sóknaraðili] einnig að kominn sé á skriflegur samningur við bankann í samræmi við III. kafla laga nr. 33/2003  um verðbréfaviðskipti, um að skyldur samningsaðila samkvæmt afleiðu skuli jafnast hver á móti annarri, með skuldajöfnuði, við endurnýjun eða við vanefnd, greiðslustöðvun, nauðasamninga eða gjaldþrotaskipti, og að samningurinn skuli halda gildi sínu að fullu þrátt fyrir ákvæði 91. og 100. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.“ Sambærileg ákvæði eru nú í V. kafli laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Liggur því fyrir í málinu að aðilar sömdu um hvernig gera skyldi upp afleiðusamninga og að samningsákvæðið á sér skýra stoð í lögum. Bar því að beita skuldajöfnuði m.a. ef fyrir lá vanefnd eða greiðslustöðvun. Verður ekki annað séð en að samningsákvæði þetta eigi við með sama hætti um báða samningsaðila. Er það og mat dómsins að hvorugur aðili hafi getað með réttu gengið út frá öðru eftir upphaf slitameðferðar varnaraðila að ofangreint samningsákvæði yrði virkt og samningar aðila yrðu gerður upp á grundvelli þess. Er því ekki fallist á með sóknaraðila að ætlað aðgerðarleysi varnaraðila um að halda fram kröfum fyrir sitt leyti geti varðað því að hann hafi glatað rétti til að halda þeim kröfum uppi gagnvart sóknaraðila.

                Óumdeilt er milli aðila að miða skuli við að skuldbindingar samkvæmt umræddum samningum falli í gjalddaga við upphaf slitameðferðar varnaraðila 22. apríl 2009. Ekki er unnt að fallast á með sóknaraðila að þær málsástæður sem hann teflir fram og ítarlega eru raktar hér að framan geti leitt til þess að hann eigi rétt til fullra efnda samninga aðila en þurfi ekki að inna gagngjald af hendi. Verður ekki séð hvernig slík niðurstaða fái fullnægjandi stoð í þeim réttarreglum sem sóknaraðili vísar til.

                Þá verður að fallast á með varnaraðila að ekki sé unnt að telja að með fjárþroti hans hafi forsenda brostið fyrir vaxtaskiptasamningum aðila, í skilningi kröfuréttar, þannig að þeir teljist hafa fallið niður, eða að við eigi aðrar þær ástæður sem sóknaraðili tiltekur því til stuðnings. Er fallist á með varnaraðila að um þessa samninga eigi einnig við fyrr tilvitnað ákvæði markaðsskilmála varnaraðila um uppgjör með skuldajöfnuði og að uppgjör vegna þeirra eigi því einnig að fara fram miðað við að þeir hafi gjaldfallið 22. apríl 2009. Liggja ekki fullnægjandi lagarök fyrir annarri niðurstöðu og fær hún ekki stoð í réttarreglum um slitameðferð fjármáalfyrirtækja eða ákvæða laga nr. 21/1991. Þá verður fallist á með varnaraðila að sóknaraðila hafi ekki tekist sönnun þess að hann hafi orðið fyrir tjóni því sem hann krefst viðurkenningar á í 2. tl. kröfu sinnar. Ber því að hafna umræddum kröfulið í heild sinni.

                Sóknaraðili hefur ekki teflt fram varakröfu í málinu þar sem gengið er út frá að skuldajöfnuður fari fram. Af hálfu varnaraðila er á hinn bóginn teflt fram ítarlegum útreikningi hans þar sem fram koma fjárhæðir greiðslna beggja aðila á þeim gjalddögum sem um ræðir í samningum aðila. Tilgreining fjárhæða sem gjaldféllu fyrir 22. apríl 2009 er sett fram ásamt dráttarvöxtum af nettó niðurstöðu skuldbindinga til þess dags. Þá eru einnig tilgreindar og sundurliðaðar uppgjörsfjárhæðir vegna hvers og eins gjalddaga hvers samnings eftir 22. apríl miðað við að samningurinn hafi verið gjaldfelldur þann dag. Umreikningur gjaldmiðla í íslenskar krónur er og miðaður við þann dag.

                Það liggur því fyrir í málinu að mati dómsins að sóknaraðili hefur ekki gert rökstuddar athugasemdir við útreikning varnaraðila á skuldbindingum aðila miðað við að skuldajöfnuður hafi átt að fara fram. Er fallist á þau sjónarmið sem varnaraðili hélt fram við munnlegan málflutning að í þessu felist vanreifun kröfugerðar sóknaraðila og að á grundvelli þeirra samningsákvæða sem að framan eru rakin hafi hvílt á sóknaraðili skylda til framsetningar kröfu sinnar í samræmi við umrædd ákvæði. Á hinn bóginn liggur fyrir að varnaraðili viðurkennir í málinu að sóknaraðili eigi kröfu á hendur honum er nemi  að lágmarki 888.783.838 krónum. Þar sem sú viðurkenning varnaraðila liggur fyrir eru ekki efni til annars en að fallast á kröfu sóknaraðila að þeirri fjárhæð og verður hún viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.

                Þar sem aðeins er fallist á kröfu sóknaraðila að því marki sem varnaraðili telur hana eiga við rök að styðjast þykir rétt að sóknaraðili verði úrskurðaður til að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn sú fjárhæð sem nánar greinir í úrskurðarorði. Hefur við þá ákvörðun verið tekið tillit til þingfestingargjalds að fjárhæð 250.000 krónur sem varnaraðili greiddi, sem og skyldu til greiðslu virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

                Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

                 Krafa sóknaraðila, Lánasjóðs sveitarfélaga ohf., er viðurkennd við slitameðferð varnaraðila, Glitnis HoldCo ehf., sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. að fjárhæð 888.783.838 krónur, en kröfum hans er að öðru leyti hafnað.

                Sóknaraðili greiði varnaraðila 1.500.000 krónur í málskostnað.