Hæstiréttur íslands
Mál nr. 254/2017
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Börn
- Einkaréttarkrafa
- Milliliðalaus málsmeðferð
- Dómtúlkur
- Lögráðamaður
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Eiríkur Tómasson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 4. apríl 2017 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur, en til vara að hann verði sýknaður og einkaréttarkröfu vísað frá héraðsdómi.
Af hálfu brotaþola, A, er þess krafist að ákærða verði gert að greiða henni 3.500.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.
I
Í máli þessu eru ákærða, sem var stjúpfaðir brotaþola, í fyrsta lagi gefin að sök brot gegn 2. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa í tvö skipti á árunum 2015 og 2016, þegar hún var 13 og 14 ára að aldri, á heimili þeirra að [...] í [...] „stungið einum fingri í leggöng [A] og notfært sér að hún gat ekki spornað við verknuðunum þar sem hún var sofandi.“ Þá er ákærði í öðru lagi sakaður um brot gegn 2. mgr. 202. gr. og 233. gr. b. sömu laga „með því að hafa ítrekað áreitt [A] með kynferðislegu og ósiðlegu orðbragði, meðal annars með því að segja við hana að hún væri ekki hrein mey með þeim orðum að hún væri ekki heil og að hún væri ekki hrein, einnig með því að spyrja [A] hvort hún væri orðin háð samförum þar sem brjóst hennar væru komin aðeins lægra niður og með því að hafa í eitt skipti, er [A] lá sofandi í rúmi sínu, hvíslað að henni hvort hún vildi hafa samfarir við hann en hún vaknaði í umrætt sinn“. Með þessari háttsemi, sem einnig hafi átt sér stað á árunum 2015 og 2016, hafi ákærði móðgað og smánað brotaþola.
Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi gaf brotaþoli skýrslu fyrir héraðsdómi 16. mars og 5. júlí 2016 meðan á rannsókn málsins stóð á grundvelli a. liðar 1. mgr. 59. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Í fyrra skiptið bar hún að ákærði hefði oftar en einu sinni stungið einum fingri eða fleiri í leggöng sín og lýsti því framferði hans ítarlega. Sama gerði hún í síðara skiptið, en greindi þá frá fjórum slíkum atvikum. Við fyrri skýrslugjöfina minnti brotaþola að þetta hefði fyrst átt sér stað í júlí 2015 þegar hún var 13 ára að aldri, en í síðari skýrslunni kom fram að það hefði fyrst gerst í september sama ár eftir að hún var orðin 14 ára. Í þessum skýrslum skýrði brotaþoli frá því að ákærði hefði ítrekað sagt að hún væri ekki hrein mey og notað um það ýmis orð. Þá sagði brotaþoli í fyrri skýrslunni að ákærði hefði eitt sinn hvíslað að sér þar sem hún var í svefnrofunum „kannski myndirðu vilja ríða mér“ eða eitthvað á þá leið. Við það hefði hún vaknað og sparkað í ákærða. Í síðari skýrslunni endurtók hún þetta, meðal annars með þeim orðum að ákærði hefði við þetta tækifæri hvíslað að sér hvort hún vildi „stunda kynlíf með honum“.
Í héraðsdómi eru reifaðar ítarlega skýrslur sem ákærði gaf hjá lögreglu 16. mars og 5. júlí 2016. Þar játaði hann í hvort sinn að hafa sett fingur í leggöng brotaþola, meðan hún svaf, í að minnsta kosti tvö skipti að [...].
Við aðalmeðferð málsins breyttu ákærði og brotaþoli bæði fyrrgreindum framburði sínum og sögðu hann vera hreinan uppspuna, svo sem nánar er gerð grein fyrir í hinum áfrýjaða dómi. Þar er einnig reifaður framburður annarra þeirra sem komu fyrir dóm sem vitni.
Héraðsdómur sakfelldi ákærða fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök samkvæmt framansögðu. Var sakfellingin meðal annars reist á vitnisburði brotaþola fyrir dómi 16. mars og 5. júlí 2016 þar sem hún var sögð hafa lýst atvikum mjög nákvæmlega. Við úrlausn á þessum þætti málsins var á hinn bóginn litið framhjá hinum breytta framburði brotaþola við aðalmeðferð þess, enda þóttu skýringar hennar á honum ekki trúverðugar. Að sama skapi var breyttur framburður ákærða fyrir dómi talinn mjög ótrúverðugur, en það, sem hann bar við skýrslutöku hjá lögreglu, álitin lýsing á því sem í raun hafi átt sér stað.
II
Krafa ákærða um ómerkingu hins áfrýjaða dóms er einkum á því reist að skýrslur ákærða og móður brotaþola, sem bar vitni hjá lögreglu og fyrir héraðsdómi við aðalmeðferð málsins, bæru með sér að túlkun á tungumáli því, sem sé móðurmál þeirra beggja, hefði verið ábótavant þannig að merking orða, hugtaka og heilla setninga hefði glatast. Í ljósi þess að byggt sé á því í hinum áfrýjaða dómi að framburður ákærða hafi verið ruglingslegur megi vera að það skýrist af ónákvæmri þýðingu túlks á orðum hans. Því beri að ómerkja dóminn og endurtaka meðferð málsins fyrir héraðsdómi þannig að ákærði fái notið aðstoðar túlks, sem sé hæfur til að rækja starfann, svo sem ákærði eigi rétt á, til að framburður hans komist óbrenglaður til skila.
Í 2. mgr. 12. gr. laga nr. 88/2008 segir að gefi maður skýrslu fyrir dómi sem kann ekki íslensku nægilega vel skuli ákæruvaldið sjá um að kalla til löggiltan dómtúlk. Sé þess ekki kostur sé dómara rétt að samþykkja að annar hæfur maður annist þýðingu, en sá skuli þá undirrita heit í þingbók um að hann muni rækja starfann eftir bestu getu og beri honum að staðfesta þýðingu fyrir dómi sé hún vefengd. Samkvæmt 5. mgr. 63. gr. laganna er lögreglu á sama hátt skylt að kalla til löggiltan dómtúlk eða annan hæfan mann til annast þýðingu ef skýrslugjafi kann íslensku ekki nægilega vel, hvort sem í hlut á sakborningur eða vitni.
Fyrir liggur að hér á landi mun ekki vera kostur á löggiltum dómtúlki til að þýða á íslensku móðurmál ákærða og móður brotaþola sem fædd eru á [...]. Í tölvubréfi frá Alþjóðasetri, túlkaþjónustu, sem ákæruvaldið hefur lagt fyrir Hæstarétt, kemur fram að sá túlkur, sem annaðist þýðingu fyrir þau bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, hefur starfað hér sem túlkur um árabil og meðal annars sinnt því starfi á þeim vettvangi. Eins og sést á endurritum af skýrslunum voru nokkrir hnökrar á orðfæri túlksins, meðal annars á beitingu persónufornafnanna „hann“ og „hún“. Þó verður ekki annað ráðið af þeim en að túlkurinn hafi búið yfir nægilegri kunnáttu á móðurmáli skýrslugjafanna og íslenskri tungu til að geta komið til skila því sem þau vildu sagt hafa. Í því sambandi skiptir og máli að ekki var fundið að túlkuninni, hvorki af þeim sjálfum né af verjanda ákærða hjá lögreglu og fyrir héraðsdómi. Þær athugasemdir, sem ákærði hefur gert fyrir Hæstarétti um starfa túlksins og áður er vísað til, lúta heldur ekki að atriðum sem haft geta þýðingu fyrir vörn hans. Að öllu þessu virtu verður ekki fallist á ómerkingarkröfu ákærða af þessari ástæðu, en aðrar röksemdir fyrir henni eru haldlausar.
III
Í 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008 er svo fyrir mælt að dómur skuli reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi. Einnig er dómara eftir fyrsta málslið 2. mgr. sömu greinar heimilt að taka til greina sem sönnunargögn skýrslur, sem gefnar hafa verið fyrir dómi áður en mál var höfðað, þar á meðal af brotaþola, sbr. 59. gr. laganna. Samkvæmt því verður sakfelling reist á slíkum vitnisburði, enda samrýmist hann öðru því sem fram hefur komið í málinu.
Mat héraðsdóms á trúverðugleika vitnisburðar brotaþola, sem hún gaf fyrir dómi 16. mars og 5. júlí 2016, er rökstutt á viðhlítandi hátt í hinum áfrýjaða dómi, meðal annars með skírskotun til framburðar ákærða hjá lögreglu á sama tíma og vættis þriggja nafngreindra vitna fyrir dómi. Á sama hátt hefur héraðsdómur tekið rökstudda afstöðu til síðari framburðar ákærða og brotaþola fyrir dómi og vísað honum á bug. Er ekki ástæða til að draga þá niðurstöðu í efa. Í fyrstgreindum skýrslum brotaþola fyrir dómi kom ekki fram að ákærði hefði spurt hana hvort hún væri orðin háð samförum þar sem brjóst hennar væru komin aðeins lægra niður. Þótt ákærði hafi borið hjá lögreglu að hafa viðhaft þvílík ummæli við brotaþola nægir það ekki til að hann verði sakfelldur fyrir þau gegn neitun hans fyrir dómi, sbr. 111. gr. laga nr. 88/2008. Að þessu frágengnu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur samkvæmt framansögðu um sakfellingu ákærða, sem er sannur að sök að hafa brotið gegn brotaþola þegar hún var 14 ára, svo og um heimfærslu brota hans til refsiákvæða.
Brotin voru framin á heimili brotaþola þar sem hún bjó ásamt móður sinni og tveimur bræðrum, en ákærði, sem hafði verið stjúpfaðir brotaþola, virðist hafa dvalið þar öðru hverju. Sökum þess að tengsl þeirra tveggja voru náin, að sögn beggja, koma þau til þyngingar refsingu ákærða, sbr. 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt því og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms er staðfest niðurstaða hans um refsingu ákærða, svo og um sakarkostnað.
IV
Af hálfu brotaþola er sem fyrr segir krafist miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 3.500.000 krónur. Ákærði krefst þess eins að bótakröfunni verði vísað frá héraðsdómi í tengslum við kröfu sína um sýknu af kröfu ákæruvaldsins.
Hinn 14. febrúar 2017 skipaði yfirlögráðandi brotaþola sérstakan fjárhaldsmann á grundvelli 6. mgr. 51. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 að beiðni barnaverndaryfirvalda. Í skipunarbréfi var fjárhaldsmanninum, sem er héraðsdómslögmaður, falið að taka ákvörðun um gerð bótakröfu í máli þessu fyrir hönd brotaþola, en hann hafði áður gert slíka kröfu sem réttargæslumaður hennar. Þótt rétt hefði verið að skipun lögmannsins til þessa starfa væri gerð á grundvelli 53. gr. lögræðislaga verður að líta svo á að hann hafi verið skipaður lögráðamaður brotaþola í máli þessu, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga nr. 88/2008. Í samræmi við það var brotaþola samkvæmt 4. mgr. 201. gr. laganna skipaður réttargæslumaður hér fyrir dómi að beiðni fjárhaldsmannsins og er haldið fast við upphaflegu bótakröfuna þrátt fyrir að brotaþoli hafi sjálf lýst því yfir við aðalmeðferð málsins í héraði að hún vildi ekki gera slíka kröfu á hendur ákærða.
Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 88/2008 kemur lögráðamaður fram í sakamáli sem fyrirsvarsmaður brotaþola sem er ólögráða. Þar segir jafnframt að lögráðamaður taki ákvarðanir fyrir hönd hins ólögráða sem hann er ekki talinn bera skynbragð á eða vera fær um að taka. Þótt brotaþoli í þessu máli sé ekki fjárráða fyrir æsku sakir, sbr. 1. mgr. 1. gr. lögræðislaga, og hafi því ekki verið fær um að taka sjálf ákvörðun um að hafa uppi bótakröfu á hendur ákærða bar hinum sérstaka fjárhaldsmanni að taka tillit til fyrrgreindrar afstöðu hennar og hafa samráð við hana áður en kröfunni var haldið til streitu, sbr. 1. mgr. 60. gr. lögræðislaga, enda verður brotaþoli, sem orðin var 15 ára þegar aðalmeðferð í héraði fór fram, talin bera skynbragð á hvort það sé henni sjálfri til hagsbóta að hafa uppi kröfu sem þessa. Sökum þess að engin gögn hafa verið lögð fram um að slíkt samráð hafi verið haft við brotaþola af hálfu fjárhaldsmannsins eða réttargæslumanns hennar hér fyrir dómi verður ekki hjá því komist að vísa kröfunni frá héraðsdómi.
Ákærða verður gert að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir. Þó greiðist þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola úr ríkissjóði þar sem einkaréttarkröfu hennar er vísað frá dómi, en þóknunin verður ákveðin með virðisaukaskatti eins og fram kemur í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en einkaréttarkröfu.
Einkaréttarkröfu brotaþola, A, er vísað frá héraðsdómi.
Ákærði, X, greiði af áfrýjunarkostnaði málsins samtals 941.100 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Arnars Þórs Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 868.000 krónur. Annar áfrýjunarkostnaður, 186.000 krónur, sem er þóknun réttargæslumanns brotaþola, Oddgeirs Einarssonar hæstaréttarlögmanns, greiðist úr ríkissjóði.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. mars 2017.
Málið er höfðað með ákæru héraðssaksóknara, dagsettri 16. september 2016, á hendur:
,,X, kennitala [...],
[...], [...],
fyrir neðangreind hegningarlagabrot gegn stjúpdóttur sinni, A, fæddri [...] 2001, á heimili þeirra að [...] og að [...] í [...], á árunum 2015-2016, er stúlkan var þrettán til fjórtán ára gömul, svo sem hér greinir:
1. Kynferðisbrot, með því að hafa í tvö skipti á [...] stungið einum fingri í leggöng A og notfært sér að hún gat ekki spornað við verknuðunum þar sem hún var sofandi.
Telst þetta varða við 2. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með síðari breytingum.
2. Kynferðisbrot og stórfelldar ærumeiðingar með því að hafa ítrekað áreitt A með kynferðislegu og ósiðlegu orðbragði, meðal annars með því að segja við hana að hún væri ekki hrein mey með þeim orðum að hún væri ekki heil og að hún væri ekki hrein, einnig með því að spyrja A hvort hún væri orðin háð samförum þar sem brjóst hennar væru komin aðeins lægra niður og með því að hafa í eitt skipti, er A lá sofandi í rúmi sínu, hvíslað að henni hvort hún vildi hafa samfarir við hann en hún vaknaði í umrætt sinn, en með framangreindri háttsemi móðgaði ákærði og smánaði A.
Telst þetta varða við 2. mgr. 202. gr. og 233. gr. b. almennra hegningarlaga.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkrafa:
Af hálfu, B, kennitala [...], f.h. ólögráða dóttur sinnar, A, kennitala [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 3.500.000, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. ágúst 2015 þar til mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist þóknunar réttargæslumanns úr hendi sakbornings að mati dómara eða samkvæmt síðar framlögðum reikningi, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.“
Verjandi ákærða krefst aðallega sýknu og frávísunar bótakröfu. Til vara vægustu refsingar sem lög leyfa og að bótakrafa sæti lækkun. Málsvarnarlauna er krafist samkvæmt tímaskýrslu.
Samkvæmt rannsóknarskýrslu lögreglu, dagsettri 6. júní 2016, kom A, móðir hennar og starfsmaður barnaverndar [...] ásamt réttargæslumanni A, hinn 14. mars 2016, til lögreglu í því skyni að greina frá kynferðisbroti sem A hefði orðið fyrir af hálfu ákærða. Fram kom að réttargæslumaðurinn hafði haft samband við lögregluna 12. mars 2016 og boðað komu til lögreglu eftir helgina en þá var talið að ákærði hygðist yfirgefa landið eins og lýst er í skýrslunni.
Teknar voru skýrslur af ákærða undir rannsókninni og af A fyrir dómi. Vegna breytts framburðar ákærða fyrir dómi og vitnisburðar er nauðsynlegt, eins og á stendur, að reifa framburð ákærða og vitnisburð A fyrir dómi undir rannsókninni.
Nú verður rakinn framburður ákærða og vitnisburður fyrir dómi og hjá lögreglu eins og ástæða þykir til.
Ákæruliðir 1 og 2.
Ákærði neitar sök.
Tekin var skýrsla af ákærða hjá lögreglunni 16. mars 2016. Eftir að honum var kynnt tilefni skýrslutökunnar kvaðst hann ætla að gefa yfirlýsingu. Eftir það greindi hann sjálfstætt og ítarlega frá í löngu máli. Hann lýsti væntumþykju sinni í garð A og áhyggjum sínum af því hvort hún ætti kærasta og lýsti ákærði hvernig hann hafði eftirlit með henni og fylgdist meðal annars með netsamskiptum hennar við pilt. Er A spurði hvers vegna hún mætti ekki gera það sem vinkonur hennar gerðu kvaðst ákærði hafa útskýrt það með því að hún ætti að einbeita sér að stórum draumum um að verða fræg söngkona og lýsti hann þessu nánar. Ákærði kvað áhyggjur sínar af A hafa haldið fyrir sér vöku. Hann lýsti því sem hann gerði þannig:
„Ég get ekki sofið út af því ég er alltaf að hugsa af því ég er svo hræddur. Og þann tíma þegar núna þessi þunglyndi er að koma aftur. Núna ég var að hugsa að ég ætla að tékka þetta sjálfur af því að ég er núna með mikið áhyggjur. Og svo þegar ég var að hugsa þetta ég var að tékka á hana og svo ég gerði það með fingur, núna þá var ég að vita það að hún er ekki meira ekki heil þess vegna ég var svo mikið hræddur og núna veit ég það ég vissi að hún er ekki meira í heilu lagi heil, hann er að meina hrein mey.“
Þá lýsti ákærði því er hann kom til landsins frá [...] og breytingum sem hann kvaðst hafa merkt á A. Ákærði lýsti ýmsu í sambandi við þetta. Meðal annars því að hann hefði spurt hana hvort hún væri háð samförum. Framburður ákærða um þetta er svo felldur:
„Þegar ég kom heim frá [...] þegar ég var í fríi þar til ég kom þá ég sá það að þarna það var ég sá að þarna að líkaminn hennar dóttir mín ég það er þess vegna var ég að láta hana útskýra hvað er þetta sem dóttir mín er að, þá var hún að segja að brjóstin hennar voru að koma aðeins hérna lægra niður og þarna ég þarna sá þetta og svo sagði bara af hverju var þetta gert svona kannski orðin hérna svo háð á þessi hérna að hafa samfarir með einhverjum.“
Síðan er í skýrslunni svofelldur kafli:
„Á þessum tíma þá var ég orðinn svona svolítið hérna órólegur og svo ég var orðinn svo rosalega hérna þunglyndur og svo ég get ekki meira sofið af því ég er alltaf að hugsa um [A] af því ég er svolítið hræddur núna af því hvað gerðist að það er bara búið að gerast hjá henni. Alltaf þegar helgin fór heim þá var hún orðin ofboðslega þreytt alveg einsog hún er alltaf búin að vera í samfarir úti og alltaf þegar hún kom heim hún sofnaði bara strax og svo ég var einmitt að hugsa þetta að ég var orðinn svo hræddur aftur og ég var að hugsa aftur að ég ætla að fara að tékka ég ætla bara að athuga þetta aftur af því ég var hérna kannski hún er orðin svo háð á þessa hluti og það var ekkert nema bara að athuga þetta og út af þessari hræðslu þá var ég að hugsa aftur að ég ætla að tékka hana aftur út af því að ég er svo mikil von og ég er með svo hátt hérna hugsun að þessu hún er komin með mjög góða framtíð nema hún ætli bara að fara hinu megin. Og það er núna sem gerðist aftur ég er aftur að athuga henni og svo ég vissi það núna að hún er bara að stækka, stækka hérna kynfærin hennar og ég var svo ofboðslega hræddur orðinn og ég var svo ofboðslega hræddur og ég var svo ofboðslega hérna að hugsa eitthvað inn í sér já hann getur ekki gert meira að hugsa ef þetta var eitthvað hjá mér og hérna að hugsa með því að hún er orðin svo háð. Og svo núna ég get ekki sofið vel og hérna mín tilfinning er svolítið öðruvísi en ég var ég varð að sýna konuna mína samband við þetta. Ég sagði við hana elskan þú verður að segja mamma þín frá því og svo hérna þá hún sagði nei ég er enn þá heil ég er enn þá hrein mey. Hún er alltaf að segja mér ég er enn þá hrein mey það er þess vegna hún svarar mér alltaf þessu.“
Ákærði lýsti áhyggjum sínum og svefnleysi vegna A. Eftir fjórar svefnlausar nætur hafi hann ákveðið að „tjekka þetta aftur“ og í framhaldinu lýsti hann því er hann hafi hvíslað að A hvort hún vildi hafa samfarir við ákærða en hann myndi þá ekki klaga í móður hennar. Síðar í skýrslunni kvaðst ákærði hafa sagt þetta í gríni og til að reita A til reiði eftir því sem helst verður ráðið af framburði hans.
Eftir sjálfstæða frásögn eða yfirlýsingu ákærða sem rakin var, var hann spurður um fyrsta tilvikið sem hann lýsti og kvaðst hann þá hafa sett fingur í kynfæri A meðan hún svaf. Þetta hefði hann gert til að athuga meyjarhaft hennar. Hann kvaðst síðan hafa gert hið sama aftur og þá notað þrjá fingur en hann hefði notað einn fingur í fyrra skiptið sem hann lýsti. Hann hefði gert þetta til að athuga hvort A væri hrein mey. Hann kvaðst eitt sinn hafa hvíslað að henni að hann vildi hafa við hana samfarir. Þetta hefði verið stríðni af sinni hálfu. Honum var kynntur vitnisburður A þess efnis að ákærði hefði lofað henni að gera þetta ekki aftur og að hún myndi þá ekki segja frá þessu. Hann mundi ekki eftir því.
Hinn 5. júlí 2016 var tekin skýrsla af ákærða hjá lögreglunni eftir að hann hafði verið viðstaddur skýrslutöku af A fyrir dómi fyrr sama dag. Ákærða var gerð grein fyrir því að til stæði að bera undir hann það sem fram kom við skýrslutökuna af A. Ákærði byrjaði á því að greina sjálfstætt frá en tók þá ekkert af því til baka eða leiðrétti það sem fram hafði komið í vitnisburði A sem hann hafði verið viðstaddur. Ákærði var nánar spurður um það sem A greindi frá að hefði gerst á [...]. Ákærði kvað það sem A sagði hafa gerst. Hann hafi ekki verið með réttu ráði. Hann kvaðst hafa verið búinn að „tjekka hana tvisvar sinnum“. Síðast hafi hann gert það á [...]. Ákærði lýsti í skýrslunni hvernig hann setti fingur í leggöng A í því skyni að athuga hvort hún væri hrein mey. Hann mundi eftir tveimur slíkum tilvikum á [...]. Hann kannaðist við tilvikið sem A lýsti er ákærði setti fingur í leggöng hennar er hún var í rúmi móður sinnar á [...]. Hann lýsti báðum tilvikunum nákvæmlega, m.a. hversu langt hann setti fingur inn í leggöng A og hvaða fingur hann notaði.
Fyrir dómi neitaði ákærði sök og kvað ekkert af því sem í ákæru greinir hafa átt sér stað og hann hefði ekki viðhaft þau ummæli sem lýst er í ákærulið 2. A hefði búið þessa frásögn til. Ekkert væri rétt í þessu og hann hefði sjálfur búið til frásögn undir rannsókn málsins. Ákærði var ítrekað spurður um skýringar á breyttum framburði fyrir dómi. Svör hans voru mjög óskýr og endurtók hann það sem hann greindi frá í upphafi að ekkert af því sem í ákæru greinir hefði átt sér stað. Ítrekað spurður um framburð sinn hjá lögreglu og hvers vegna hann væri eins og raun ber vitni kvaðst hann nú kominn fyrir dóminn til að leiðrétta fyrri framburð sinn sem ekki væri réttur. Ákærði var ítrekað spurður um breyttan framburð sinn frá því sem hann greindi frá hjá lögreglu og farið yfir það með ákærða að ákæran væri í samræmi við þann framburð. Ákærði kvað framburðinn hjá lögreglunni rangan og hann vildi ekki heyra meira af því sem þar segir. Fram kom hjá ákærða að eiginkona hans hefði hringt í hann áður en hann fór í yfirheyrslu hjá lögreglunni og greint frá því í símtalinu að A hefði borið hann sökum. Það skýrði hvers vegna hann játaði sakargiftirnar við skýrslutöku hjá lögreglunni. A hefði síðan dregið vitnisburð sinn til baka og hann hefði þá einnig gert það. Fram kom hjá ákærða að hann hefði verið strangur uppalandi og það hafi komið fram gagnvart A.
Ákærði var viðstaddur skýrslutöku af A fyrir dómi í júlí 2016. Ákærði var spurður hvers vegna hann hefði ekki komið fram með skýringar eftir það en ákærði gaf sjálfur skýrslu hjá lögreglunni síðar sama dag. Fram kom hjá ákærða að ef til vill væri rétt af honum að játa sakargiftirnar til að ljúka málinu og það væri ef til vill best fyrir A. Nánar spurður um þessa afstöðu sína kvað hann að skýringarinnar væri að leita í þunglyndi hans á þessum tíma og að hann gerði það sem kona hans segði honum en hún hefði greint honum frá því í símtali hvernig A lýsti atburðum. Hann hefði hagað framburði sínum hjá lögreglu eins og raun ber vitni vegna þessarar vitneskju sinnar eftir því er helst mátti ráða af framburði ákærða. A hefði búið þessa frásögn til og þau A væru þau einu sem viti að frásögn hennar væri ekki rétt. Hann hefði sagt við konu sína að hann hefði játað vegna þess að hann hafi talið það gott fyrir A en hann kvaðst aldrei hafa haft neinar kynferðislegar tilfinningar í hennar garð. Frásögn hans fyrir dómi sé hin rétta í málinu. Ákærði var enn spurður hvers vegna hann hefði játað sakargiftir við tvær skýrslutökur hjá lögreglu fyrst atburðir þessir gerðust ekki. Hann kvað sér hafa brugðið og þá hafi hann hugsað að það væri A fyrir bestu og hann myndi því taka á sig sökina. Hann kvað frásögn sína fyrir dómi rétta. Ákærði kvaðst hafa flutt af heimilinu í mars 2016 eftir að málið kom upp. Spurður um ástæðu þess kvað hann þetta hafa verið eins og drama eða leikrit. Hann hafi sjálfur ákveðið að fara. Hann kvaðst engin samskipti hafa átt við A eða móður hennar eftir að málið kom upp. Hann hafi því hvorki rætt málið beint við A né móður hennar og hann hafi ekki reynt að hafa áhrif á vitnisburð A.
Tekin var skýrsla af A fyrir dómi 16. mars 2016. Þar lýsti hún því að ákærði, fyrrum stjúpfaðir hennar, hefði stungið fingri í leggöng hennar. Hún lýsti því svo að þetta hefði verið á árinu 2015 er hún bjó að [...]. Hún hefði verið sofandi en vaknað og í fyrstu ekki áttað sig á því hvort þetta væri draumur eða hvort þetta hefði gerst í raun og veru. Hún kvað sams konar atburð hafa átt sér stað fjórum til fimm sinnum. Fram kom hjá henni að í sum skiptin hefði ákærði sett fingur inn í leggöng hennar en ekki í önnur skipti. Hún lýsti því hvað ákærði sagði við hana en hann hafi stöðugt giskað á að hún væri ekki hrein mey og sakað hana um að stunda samfarir sem hún lýsti. Hún lýsti síðasta tilvikinu þannig að ákærði hefði komið inn í herbergi hennar að [...] í því skyni að vekja hana. Þetta mun hafa verið 6. mars 2016. Þá hafi hann stungið fingri inn í leggöng hennar og spurt hana hvort hún vildi hafa samfarir við hann. Hún kvaðst hafa sparkað ákærða frá og lokað að sér. Hún kvaðst eftir þetta hafa greint móður sinni frá þessu og lýsti hún viðbrögðum hennar en móðir hennar hafi rætt þetta við ákærða í kjölfarið og heyrði A þau rífast. A kvaðst ekki hafa ætlað að greina móður sinni frá því sem gerðist vegna þessa. Hún hafði áður tekið loforð af ákærða um að hann léti af þessari háttsemi og hann hefði beðið hana fyrirgefningar. Hún hefði treyst ákærða eftir það. En eftir að það gerðist sem lýst var að ofan hafi hún ákveðið að greina móður sinni frá.
Hinn 5. júlí 2016 var aftur tekin skýrsla af A fyrir dómi. Ákærði X var viðstaddur skýrslutökuna. Í upphafi kvað A erfitt að greina aftur frá því sem gerðist en hún kvað sér líða illa út af þessu og hún væri „pirruð“. Hún kvað ákærða fyrst hafa brotið gegn sér á árinu 2015. Hún muni ekki hvenær en það gæti hafa verið í september en það hafi verið eftir afmæli hennar í [...] sama ár. Hún hafi sofið í stofunni er þetta gerðist í fyrsta skiptið. Ákærði hefði sagt henni að hann hefði „tékkað á þér“ og fram kom hjá ákærða að þetta hafi verið vegna þess að hann taldi A ekki lengur hreina mey. Hún lýsti öðrum tilvikum sem ekki eru sakarefni málsins. Þá lýsti hún öðru sambærilegu tilviki sem átti sér stað á [...] stuttu síðar er hún lá sofandi í rúmi móður sinnar og taldi hún að ákærði hefði talið hana sofandi en hann hefði stungið fingri í leggöng hennar. Hún lýsti þessu nákvæmlega, m.a. því að hún hefði fundið fyrir löngum nöglum ákærða. Hún kvaðst ekki hafa þorað að greina móður sinni frá þessu. Hún lýsti því að hún hefði talið að móðir hennar yrði mjög reið og þetta myndi leiða til skilnaðar sem hún vildi ekki og lýsti hún þessu og heimilisaðstæðum sem hafi mótað þessa afstöðu hennar. Þá lýsti hún því að fram hafi komið hjá ákærða að hann hefði gert sér grein fyrir því að hún var vakandi er hann setti fingurinn inn í leggöng hennar. Ákærði hafi beðið hana fyrirgefningar og sagst ekki mundu gera þetta aftur. Fram kom hjá A að þetta gæti hafa verið í desember 2015 eða í janúar 2016. Hún kvað fjölskylduna eftir þetta hafa flutt að [...] í [...] þar sem ákærði hafi enn brotið gegn henni á sama hátt. Hún lýsti þeim atburði eins og hún gerði við fyrri skýrslutöku sína en þá hafi ákærði meðal annars spurt hvort hún vildi stunda kynlíf með honum. Eftir þennan atburð sagði hún móður sinni frá brotunum vegna þess að ákærði hafi þarna brotið loforð sem hann gaf henni um að gera ekki það sem hann gerði og hún hefði fyrirgefið honum eftir það. Við þessa skýrslutöku kom fram hjá A að hún myndi eftir fjórum skiptum sem ákærði hefði brotið gegn henni eins og hér hefur verið rakið. Þrisvar sinnum á [...] og í eitt skipti að [...]. Hún lýsti þriðja tilvikinu á [...] svo að hún hefði verið í rúminu ásamt móður sinni og ákærði hafi setið á rúmstokknum með tæki til að lagfæra slitna húð eftir því sem helst mátti ráða. Hún kvað ákærða hafa verið að „putta mig“ þar sem hún lá við hlið móður sinnar. Hún hefði ekki getað brugðist við með því að öskra eða bregðast við með álíka hætti auk þess sem hún vildi ekki að ákærði og móðir hennar skildu sín vegna.
Vitnið A kom fyrir dóminn undir aðalmeðferð málsins og kvað fyrri vitnisburð sinn undir rannsókn málsins rangan. Hún hefði haft ákærða fyrir röngum sökum. Spurð um ástæðu þess að hún bar ákærða röngum sökum kvað hún ástæðuna þá að henni liði ekki vel með ákærða á heimilinu. Hann væri strangur og hún hefði þurft að „ljúga“ til að fá hann í burtu. Hún kvað ákærða aldrei hafa stungið fingri inn í kynfæri hennar og fyrri vitnisburður hennar um það væri rangur. Hún kvað ákærða hafa flutt af heimilinu eftir að þau móðir hennar skildu, að hún taldi á árinu 2012. Síðan hafi ákærði iðulega komið í heimsókn og gist. Hún kvaðst hafa sagt móður sinni frá atburðinum í mars 2016. Það hefði hún gert í því skyni að losna við ákærða af heimilinu og tryggja að hann kæmi ekki aftur en hún kvað ákærða hafa skipt sér af lífi hennar þótt þau móðir hennar væru skilin en hún vildi ekki þessi afskipti. Hún lýsti þessu nánar og aðstoð ákærða og afskiptum hans af henni en hún hafi ekki getað eignast vini vegna ákærða sem ekki hafi hleypt henni út. Hún kvað ákærða ítrekað hafa spurt sig að því hvort hún væri hrein mey. Hún lýsti því hvernig þetta tengdist rangri frásögn hennar um kynferðisbrot sem hún kvað ákærða hafa beitt sig. Hún kvað vitnisburð sinn undir rannsókninni um ummæli ákærða um meydóm sinn og fleira réttan en frásögnin um að hann hefði sett fingur í leggöng hennar væri rangur. Daginn sem hún greindi móður sinni frá hefði hún haft samband við hana og beðið hana um að aðstoða sig við að finna föt. Er hún kom hafi hún greint henni frá upplognum sökum sínum á hendur ákærða. A kvaðst hafa hugsað fyrir fram að bera ákærða sökum til að fá hann út af heimilinu. Hún kvaðst hafa gert sér grein fyrir alvarleika þessa en hún hefði ekki haft önnur ráð til að losna við hann og hún kvað sér hafa verið sama um hvað gerðist. Hún lýsti því er móðir hennar ræddi við ákærða um það sem hún sagði ákærða hafa gert henni. Ákærði hefði neitað en móðir hennar hefði trúað sér og ákærða verið vísað út af heimilinu. Hún kvaðst síðan hafa greint móður sinni frá því að hún hefði haft ákærða fyrir röngum sökum og hún þyrfti að leiðrétta það. Hún kvaðst hafa farið á neyðarmóttöku með móður sinni. Þar hafi hún greint frá á sama hátt en hún hefði orðið að segja þar og annars staðar sömu söguna, sem hún gerði. Einnig í samskiptum við C, kennarann sinn. Þá hafi hún greint frá á sama hátt við starfsmenn barnaverndar sem ræddu við hana í skólanum. Hún lýsti því hversu ósátt hún var við að vera vistuð utan heimilis móður sinnar. Hún hafi enn haldið sig við sömu sögu við síðari skýrslutöku fyrir dómi undir rannsókn málsins. Eftir þá skýrslutöku hafi henni tekið að líða illa vegna þessa og ákveðið að greina satt og rétt frá sem hún geri nú fyrir dómi. Hún kvaðst hafa hugsað hvers vegna hún bæri ákærða röngum sökum og hvort það væri rangt og komist að þeirri niðurstöðu að málið yrði verra ef hún héldi áfram að greina rangt frá. Móðir hennar hefði aldrei beðið hana um að breyta vitnisburði sínum. Hún kvað engan annan utanaðkomandi þrýsting, hvorki frá ákærða né öðrum, hafa haft áhrif á þessa afstöðu sína. Hún hafi ákveðið að leiðrétta vitnisburðinn vegna eigin samvisku.
Hinn 15. mars 2016 var tekin lögregluskýrsla af B, móður A. Þar greindi hún meðal annars svo frá að sunnudaginn 6. mars 2016 hefði A gert henni grein fyrir því að ákærði hefði káfað á kynfærum hennar og sett fingur inn í þau. Þá hefði hann hvíslað að henni hvort hún vildi hafa við hann samfarir. Þetta hefði gerst er fjölskyldan bjó að [...]. Hún kvaðst hafa rætt þetta við ákærða sem í fyrstu neitaði þessu en síðan hafi hann greint frá því að hann hefði ætlað að athuga hvort A væri hrein mey. Fram kom hjá henni að ákærði hefði haft samband í nokkur skipti eftir þetta og viljað að sér yrði fyrirgefið þar sem hann hefði hjálpað fjölskyldunni svo mikið.
Önnur skýrsla var tekin af vitninu B hjá lögreglu 19. ágúst 2016. Þar lýsti hún því að A, dóttir hennar, hefði búið til ásakanir á hendur ákærða í því skyni að fá hann út af heimilinu þar sem hann væri svo strangur. Hún greindi svo frá, eftir að A sá fréttir um að sakborningur gæti átt yfir höfði sér þunga fangelsisrefsingu að hún hefði búið ásakanirnar á hendur ákærða til í því skyni að losna við hann út af heimilinu. Þá kom fram hjá B að ákærði hefði sagst hafa athugað hvort A væri hrein mey. Hann hafi ekki skýrt þetta nánar.
Fyrir dómi kvaðst vitnið B, móðir A, eiga erfitt með að ræða málið en fyrir liggur að hún kærði málið til lögreglu. Hún kvað A hafa greint sér frá því að ákærði hefði gert henni eitthvað. Hún kvaðst ekki muna hverju hún lýsti. Spurð um það hvað hún viti um sakarefnið kvaðst hún vita það sem A sagði henni að hefði gerst á [...]. Hún kvaðst hafa hringt í ákærða og greint honum frá kærunni eftir að hún var lögð fram. Síðan hafi A sagt að fyrri frásögn hennar væri röng. Hún hefði áður borið ákærða röngum sökum vegna þess að hún var reið út í hann sökum þess hversu strangur hann væri við hana og að hún vildi losna við hann út af heimilinu. Hún kvað ákærða strangan uppalanda og lýsti hún því. Spurð um viðbrögð sín er málið kom upp í mars 2016 kvað hún sér hafa brugðið. Hún hefði reiðst en A hefði hringt grátandi í sig og greint frá því að ákærði hefði gert henni eitthvað. Hún hefði rætt við ákærða í framhaldinu og spurt hvað hefði gerst. Hann sagði að hann hefði gert A eitthvað en ekki hvað. Ákærði hefði þá ekki verið í lagi og verið ruglaður eins og vitnið bar. Þau deildu og hann hafi farið út. Spurð um það hvort ákærði hefði rætt hvort það sem hann gerði A tengdist því hvort hún væri hrein mey eða ekki kvaðst hún ekki muna það. Ákærði hefði hins vegar stöðugt sagt A að hún væri ekki hrein mey og hann hefði áhyggjur af því hvort svo væri eða ekki og kvað hún ákærða hafa sofið illa af áhyggjum vegna þessa. Hún mundi ekki hvenær A sagði að það sem hún hefði áður sagt um ákærða væri ekki rétt en það hafi verið eftir skýrslutökurnar af henni. Hún kvað þær A ekki hafa rætt málið. A vilji ekki ræða það. Hún kvaðst aldrei hafa rætt við A um það að hún þyrfti að draga vitnisburð sinn til baka en hún sjái á A að henni líði betur eftir að hún dró vitnisburðinn til baka. Hún kvaðst engin samskipti hafa haft við ákærða eftir að hann flutti út. Hún kvað A hafa verið ósátta við strangar uppeldisreglur ákærða. B gaf skýrslu hjá lögreglunni 19. ágúst 2016 um að ákærði hefði ekki brotið gegn dóttur sinni en þá hafði hún rætt við dóttur sína áður sem greindi henni frá því að hún hefði áður greint rangt frá um ákærða. Hún hefði spurt A hvers vegna hún bar ákærða röngum sökum. A hafi sagt að ákærði væri svo strangur og hún vildi losna við hann af heimilinu. Vitnið kvaðst í framhaldinu hafa haft samband við réttargæslumann og greint frá þessu. Við skýrslutöku af vitninu hjá lögreglunni 15. mars 2016 kemur fram að hún hafi spurt ákærða út í málið. Hann hafi í fyrstu neitað að hafa gert nokkuð af sér en síðan sagt að hann hefði ætlað að kanna hvort A væri enn hrein mey. Spurð um þetta fyrir dómi kvaðst hún muna eftir þessu og að þessi skýrsla væri rétt. Ákærði hafi farið af heimilinu eftir þetta. Í sömu skýrslu segir að hún hafi rætt við systur X um málið en hún hafi ekki viljað gera neitt í því. Hún hafi síðan rætt aftur við X á heimili systur hans en hann hafi þá sagst ætla af landinu og að svipta sig lífi fyrst þetta hefði komið upp. Fram kemur í skýrslunni að ákærði sjái eftir þessu og sagðist hann hafa verið þunglyndur vegna þess að hann hefði sofið svo illa og þess vegna káfað á A og reynt að hafa við hana samfarir. Spurð um þetta fyrir dóminum kvað hún að A hafi sagt sér þetta en ekki ákærði. Hún var nánar spurð um þetta og hvað X sagði henni um málið, en samkvæmt skýrslunni sem rakin var sýnist hann hafa viðurkennt fyrir vitninu að hafa brotið gegn A. Hún kvað þetta hið eina sem hann sagði áður en hann fór af heimilinu og að hann hafi verið að „tjekka á [A]“. Hún viti ekki hvað það þýddi og hún hafi ekki spurt ákærða út í það. Hún kvaðst muna eftir samtalinu á heimili systur X og það sem fram kemur í skýrslunni sé rétt varðandi þetta. Hún kvaðst hafa skrifað ákærða bréf eftir að A kvaðst hafa haft hann fyrir röngum sökum og beðið afsökunar en A hafi viljað biðja hann fyrirgefningar.
Meðal gagna málsins er móttökuskýrsla hjúkrunarfræðings sem rituð var við komu A á neyðarmóttöku hinn 11. mars 2016. Í skýrslunni er því lýst að A hafi greint frá ítrekuðum brotum ákærða sem hafi sett fingur í leggöng hennar. Þessi háttsemi ákærða hafi byrjað í júlí 2015 og gerst í fjögur til fimm skipti, síðast í mars 2016. Fram kom að þessi háttsemi ákærða tengdist því að hann hefði verið að athuga hvort A væri hrein mey.
D hjúkrunarfræðingur ritaði móttökuskýrsluna sem rakin var. Hún kom fyrir dóminn og staðfesti skýrsluna og lýsti komu A á neyðarmóttöku í fylgd móður. Er hún ræddi við A hafi hún greint frá atburðinum. A hafi lagt áherslu á skoðun til að geta sannað fyrir móður sinni að hún væri með ósnortið meyjarhaft. Hún hafi verið einlæg og trúverðug og greint mjög skýrt frá atburðum og verið barnslega einlæg. Hún hafi greint frá því að háttsemi ákærða hefði byrjað í júlí 2015 og átt sér stað í fjögur til fimm skipti. Hún hafi verið að horfa á sjónvarp fyrst er þetta átti sér stað. Hún hafi verið á milli svefns og vöku og fundið eins og fingur hafi verið settur í leggöng hennar en þetta hafi verið óraunverulegt en fundið síðan að aftur var átt við hana auk þess sem þuklað var á brjóstum hennar. Hún hafi spurt ákærða hvað hann væri að gera og hafi hann þá svarað því að hann ætti rétt á því að vita hvort hún væri hrein mey. Eftir þetta leið einhver tími og lét hún málið kyrrt liggja en var undrandi á þessu. Síðan hafi hið sama gerst aftur. Hún hafi þá sagt ákærða að hún myndi segja móður sinni frá þessu. Í þriðja sinn sem þetta gerðist, nokkrum dögum fyrir skoðunina, hafi ákærði sett einn til tvo fingur í leggöng hennar og þá ákvað hún að segja móður sinni frá. A sagðist vita til þess að ákærði hefði rætt við móður hennar um það að hann ætti rétt á því að skoða A í því skyni að athuga hvort hún væri hrein mey. D lýsti samtali við móður A um málið en úr varð að A gekkst ekki undir kvenskoðun. D kvað A hafa verið létt yfir því að hafa sagt frá því sem hún gerði.
Vitnið E, sálfræðingur hjá Barnahúsi, kom fyrir dóminn og greindi frá meðferðarviðtali sem A sótti til hennar í Barnahús í framhaldi af skýrslutöku 13. apríl 2015. Ekkert vottorð liggur frammi um þetta. E kvað A hafa sagt að hún hefði ekki þörf fyrir viðtöl og í hennar huga væri málinu lokið. Hún hefði viljað fá meintan geranda út af heimilinu. Hún hefði greint frá þessu og málinu væri lokið. E kvaðst hafa talað við A eftir síðari skýrslutökuna af henni í Barnahúsi og spurt hvort hún vildi ekki fleiri viðtöl og hún sagt svo vera. Hún kvaðst að beiðni barnaverndaryfirvalda hafa hitt A í skólanum í þrjú skipti í nóvember 2016 og í fjórða skiptið í síðustu viku er hún var komin heim. Fram kom að A var mjög ósátt við að vera vistuð utan heimilis og að hún vildi vera hjá móður sinni. Hún hafi rætt þetta við A. Fram kom hjá A að hún vildi draga fyrri frásögn sína til baka því hún hefði áður sagt ósatt um snertingar ákærða sem hún kvað ekki hafa átt sér stað. Hún kvað A hafa verið trúverðuga í frásögn sinni.
Vitnið C, umsjónarkennari A, lýsti samskiptum þeirra A vegna málsins en upphafið megi reka til komu móður A í skólann í mars 2016. C kvað A ekki eiga sterkt bakland og hafi hún haft mikil samskipti við vitnið gegnum facebook en hún kvað samskiptunum hafa verið eytt. Fram hafi komið hjá A að henni leið illa og hún hefði leitað eftir samskiptum við C til að tala við einhvern. A hefði grátið mikið framan af og greinilega liðið illa og rætt við hana um málið. A hafi lýst því sem gerðist þannig að ákærði hefði áreitt hana í herbergi sínu, talað við hana og strokið henni en ekki gengið svo langt að hafa mök við hana eins og vitnið bar. Hún kvaðst hafa talið frásögn A trúverðuga á þessum tíma. Eftir að málið var farið af stað hefði A farið að draga úr málinu og dregið frásögn sína til baka og sagst hafa borið, eins og hún gerði, í því skyni að losna við ákærða út af heimilinu. Eftir það hafi A eins og lokað sig af og talaði ekki mikið við vitnið. Fram hefði komið hjá A að hún vildi draga málið til baka og greindi hún frá því að hún hefði sagt ósatt og búið málið til. Hún kvað A hafa verið trúverðuga er hún greindi frá ásökunum í garð ákærða og einnig er hún dró frásögn sína til baka með skýringum sem raktar voru. Þessi breytta afstaða A hafi komið fram í október/nóvember 2016. Hún kvaðst hafa vitað af aðkomu barnaverndar. Hún kvaðst lítil samskipti hafa haft við móður A. Hún viti ekki um nein samskipti ákærða og A eftir að málið kom upp. Spurð um stöðu A í dag og líðan kvað hún hana loka sig af og hún tali um að allir viti af málinu og greinilegt sé að henni líði verr en áður.
Vitnið F, ráðgjafi barnaverndar í [...], greindi frá aðkomu sinni að málinu. Meðal gagna málsins eru gögn barnaverndar og samtöl við A í upphafi málsins en þetta kemur fram í dagnótum. Upphaf afskipta af málum A hafi verið þau að skólastjóri hringdi í vitnið og greindi frá áhyggjum sínum af henni sem hafi vegnað illa í skólanum vegna þessa máls. F kvaðst þá, að ósk skólastjórans, hafa hitt A í skólanum í apríl og maí 2016. Þar hafi A greint frá því að móðir hennar hefði óskað eftir því að hún drægi frásögn sína til baka. A hefði verið ósátt við þetta í viðtalinu og átt erfitt. Fram hefði komið hjá A að hún ætlaði ekki að draga vitnisburð sinn til baka því þá væri hún að segja ósatt sem hún vildi ekki gera. Hún vissi til þess að A hefði rætt málið á sömu nótum við umsjónarkennara sinn. F lýsti því að A hefði verið ósátt við vistun utan heimilis, sem var í október og nóvember sl., og orðið reið. Á þeim tíma hefði hún greint frá því að hún hefði sagt ósatt um ákærða. Er hún ræddi málið við A hafi ekki komið fram hjá henni mótmæli við því að það sem hún hefði áður greint frá hefði átt sér stað.
Niðurstaða
Ákæruliður 1
Ákærði neitar sök. Eins og rakið var að framan voru teknar tvær vitnaskýrslur af A fyrir dómi undir rannsókn málsins. Þar greindi hún efnislega frá á sama veg og lýsti atburðunum sem í báðum ákæruliðum greinir mjög nákvæmlega og í smáatriðum. Vitnið A breytti vitnisburði sínum fyrir dómi undir aðalmeðferð málsins að því er þennan ákærulið varðar, eins og rakið var. Af gögnum málsins og af því sem rakið hefur verið hafa fjölskylduaðstæður A verið erfiðar og alls kyns erfiðleikar komið þar upp. Hver svo sem raunveruleg ástæða breytts vitnisburðar hennar er þykja skýringar hennar fyrir dómi undir aðalmeðferð málsins ekki trúverðugar og verður sá vitnisburður hennar ekki lagður til grundvallar niðurstöðunni.
Við skýrslutökur af ákærða hjá lögreglunni 16. mars 2016 greindi hann ítarlega frá atburðum eins og rakið var. Þá bar hann efnislega á sama veg við síðari skýrslutökuna hjá lögreglunni 5. júlí 2016 eftir að hafa, fyrr sama dag, hlýtt á vitnisburð A fyrir dómi. Breyttur framburður ákærða fyrir dómi er mjög ótrúverðugur og skýringar hans þar eru mjög ótrúverðugar og ruglingslegar og fá að mati dómsins engan stað í öðru því sem fram er komið í málinu og byggt verður á. Ýtarlegur og nákvæmur framburður ákærða við skýrslutökur hjá lögreglu, þar sem hann lýsti háttsemi sinni gagnvart A, á sér að mati dómsins enga aðra skýringu en þá að ákærði hafi þar lýst því sem í raun átti sér stað. Fær það álit dómsins stoð í vitnisburði A fyrir dómi undir rannsókn málsins, og stoð í vitnisburði B hjá lögreglu 19. ágúst 2016 sem kvað ákærða hafa greint sér frá því að hann hafi verið að athuga hvort A væri hrein mey.
Að öllu ofanrituðu virtu er sannað með framburði ákærða hjá lögreglu 16. mars 2016 og 5. júlí 2016, og með stoð í efnislega samhljóða vitnisburði A fyrir dómi 16. mars 2016 og 5. júlí 2016, með stoð í vitnisburði D, C og F og öðrum gögnum málsins, en gegn neitun ákærða, að hann hafi gerst sekur um brotin sem í þessum ákærulið greinir.
Brot ákærða eru rétt færð til refsiákvæða í ákærunni.
Ákæruliður 2
Vitnið A hefur þrisvar sinnum fyrir dómi greint frá háttsemi ákærða sem hér er lýst. Er sannað með trúverðugum vitnisburði hennar um þetta og með framburði ákærða hjá lögreglu og stoð í öðrum vitnisburði og gögnum sem rakin voru að framan, en gegn neitun ákærða fyrir dómi, að hann hafi framið háttsemina sem í þessum ákærulið greinir.
Brot ákærða eru rétt færð til refsiákvæða í ákærunni.
Ákærði hefur ekki áður gerst brotlegur við lög. Brot hans samkvæmt 1. kafla ákæru eru gróf og ruddaleg og framin inni á heimili A þar sem hún átti að vera óhult. Refsing ákærða er ákvörðuð með hliðsjón af a-lið 195. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga og þykir þannig hæfilega ákvörðuð fangelsi í 3 ár.
Meðal gagna málsins er skipunarbréf yfirlögráðanda, dagsett 14. febrúar 2017, fyrir Helgu Völu Helgadóttur héraðsdómslögmann, til að vera sérstakur fjárhaldsmaður A. Samkvæmt skipunarbréfinu er fjárhaldsmanninum falið að annast allt er varðar bótakröfu f.h. A í máli þessu. Greint var frá skipunarbréfinu við upphaf þinghalds 14. febrúar 2017 og var bréfið lagt fram í þinghaldinu. Bótakrafan stendur. A á rétt á miskabótum úr hendi ákærða á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og þykja bæturnar hæfilega ákvarðaðar 2.000.000 króna auk vaxta svo sem í dómsorði greinir en dráttarvextir reiknast frá 17. nóvember 2016, er mánuður var liðinn frá því bótakrafan var birt ákærða fyrir dómi, til greiðsludags. Þá greiði ákærði 1.076.670 króna réttargæsluþóknun Helgu Völu Helgadóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns A.
Ákærði greiði 32.000 krónur í útlagðan sakarkostnað ákæruvaldsins.
Ákærði greiði 2.066.460 króna málsvarnarlaun Jóns Egilssonar hæstaréttarlögmanns. Þá greiði ákærði 347.820 króna málsvarnarlaun Snorra Snorrasonar héraðsdómslögmanns, skipaðs verjanda undir rannsókn málsins og 32.480 krónur vegna aksturskostnaðar sama lögmanns. Tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun þóknunar lögmanna.
Margrét Unnur Rögnvaldsdóttir saksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Dóminn kveða upp héraðsdómararnir Guðjón St. Marteinsson, sem dómsformaður, Barbara Björnsdóttir og Kristrún Kristinsdóttir.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 3 ár.
Ákærði greiði A, kt. [...], 2.000.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. ágúst 2015 til 17. nóvember 2016 en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Þá greiði ákærði 1.076.670 króna réttargæsluþóknun Helgu Völu Helgadóttur héraðsdómslögmanns.
Ákærði greiði 32.000 krónur í útlagðan sakarkostnað ákæruvaldsins.
Ákærði greiði 2.066.460 króna málsvarnarlaun Jóns Egilssonar hæstaréttarlögmanns. Þá greiði ákærði 347.820 króna málsvarnarlaun Snorra Snorrasonar héraðsdómslögmanns og 32.480 krónur vegna aksturskostnaðar sama lögmanns.