Hæstiréttur íslands
Mál nr. 13/2003
Lykilorð
- Verksamningur
- Dagsektir
|
|
Fimmtudaginn 12. júní 2003. |
|
Nr. 13/2003. |
Tækja Tækni ehf. (Þorsteinn Einarsson hrl.) gegn Dráttarbílum ehf. (Erla S. Árnadóttir hrl.) |
Verksamningur. Dagsektir.
T ehf. og D ehf. gerðu með sér skriflegan verksamning um að sá síðarnefndi tæki að sér tilgreinda jarðvinnu fyrir þann fyrrnefnda og skyldi verkinu vera að fullu lokið 1. apríl 2001. Þar sem verklok drógust til 18. maí 2001 dró T ehf., með vísan til ákvæða verksamningsins um dagsektir, 900.000 krónur frá lokagreiðslu sinni til D ehf. Deildu aðilarnir um réttmæti þessarar ákvörðunar. Fallist var á að D ehf. hefði borið samkvæmt viðbótarsamningi aðilanna að ljúka verkinu 12. apríl 2001, að því undanskildu sem ekki hefði verið unnt að ljúka vegna frosta. Var fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum, að verkinu hefði mátt ljúka að fullu eigi síðar en 7. maí 2001 og að eftir þann tíma hefði T ehf. mátt beita umsömdum dagsektum samkvæmt ákvæði verksamningsins. Var T ehf. því gert að greiða D ehf. 625.000 krónur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Haraldur Henrysson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. janúar 2003 og krefst þess að verða sýknaður af öllum kröfum stefnda og að sér verði dæmdur málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Greint er frá málsatvikum í héraðsdómi. Eins og þar kemur fram nýtur takmarkaðra gagna um samskipti aðila á verktíma og aðeins voru haldnir tveir verkfundir. Síðari fundurinn var haldinn 3. apríl 2001, þremur dögum eftir umsamin verklok. Fundargerð þess fundar var aðeins undirrituð fyrir hönd áfrýjanda, en á honum varð samkomulag um framlengingu á verktíma vegna magnaukningar í klöpp, en ekki var ákveðinn dagafjöldi í því sambandi. Fyrir Hæstarétt hefur verið lagður tölvupóstur frá starfsmanni stefnda til umsjónarmanns áfrýjanda með verkinu 8. apríl 2001 þar sem kemur fram ósk um framlengingu allt til 28. apríl 2001 vegna magnaukningar í klöpp og vegna frosta. Í orðsendingu nr. 7 11. apríl 2001, sem undirrituð er af umsjónarmanninum, segir að verklok vegna klappar færist fram til 12. apríl 2001. Hins vegar segir að þetta eigi ekki við um það, sem ekki hafi verið unnt að ljúka vegna frosta, þ.e. þjöppun fyllingar. Geti lokaúttekt verksins ekki farið fram fyrr en þjöppun sé lokið og viðeigandi próf hafi farið fram.
Að þessu athuguðu og að öðru leyti með skírskotun til forsendna héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum, verður hann staðfestur.
Dæma ber áfrýjanda til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Tækja Tækni ehf., greiði stefnda, Dráttarbílum ehf., 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 9. október 2002.
Málið var höfðað 7. febrúar 2002 og dómtekið 24. september 2002. Stefnandi er Dráttarbílar ehf., Skeiðarási 4, Garðabæ. Stefndi er Tækja Tækni hf., Smiðjuvegi 44, Kópavogi.
Málið varðar ágreining um samningsbundið févíti (dagsektir).
Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða honum skuld að fjárhæð krónur 900.000, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 22. maí 2001 til 1. júlí 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Til vara er þess krafist að álagðar dagsektir að fjárhæð krónur 900.000 verði lækkaðar verulega að áliti réttarins og eftirstöðvar skuldarinnar að frádregnum dagsektargreiðslum að álitum verði dráttarvaxtafærðar samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 22. maí 2001 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda.
Stefndi krefst sýknu af dómkröfum stefnanda og málskostnaðar.
I.
Hinn 22. nóvember 2000 gerðu málsaðilar með sér skriflegan verksamning um að stefnandi tæki að sér jarðvinnu fyrir stefnda vegna lóðaframkvæmda við Íshellu 8, Hafnarfirði, samkvæmt nánar tilgreindum útboðsgögnum gerðum af VSB Verkfræðistofu ehf. (hér eftir VSB), sem einnig annaðist eftirlit með verkinu fyrir hönd stefnda. Samkvæmt grein 1.1. verksamningsins skyldu öll útboðsgögnin, þar á meðal útboðs- og verklýsing frá VSB, tilboðseyðublað, safnblað og tilboðsskrá frá stefnanda, verk- og tímaáætlun hans og íslenskur staðall ÍST 30, teljast hluti af samningnum. Verkið fólst aðallega í uppúrtekt á jarðvegi, losun á klöpp og fyllingum innan lóðar. Fyrir verkið skyldi stefnandi fá greiddar 25.450.000 krónur, sbr. grein 1.2. í verksamningnum. Samkvæmt grein 1.3. skyldi stefnandi hefja verkið þegar í stað og nota til þess þá afkastagetu í mannafla, tækjum og efnisútvegun, svo ljúka mætti verkinu á tilsettum tíma, þ.e. eigi síðar en 1. apríl 2001, sbr. grein 2.2. í almennum verkskilmálum útboðslýsingar. Í grein 2.3. verkskilmálanna er að finna ákvæði um dagsektir. Þar segir að sé verkinu ekki lokið á umsömdum tíma skuli stefnandi greiða stefnda 25.000 krónur í dagsektir fyrir hvern almanaksdag umfram 1. apríl. Frá þeirri meginreglu eru gerðar undantekningar í sömu grein, sem og í grein 2.11. verkskilmálanna og grein 24 í íslenskum staðli, ÍST 30:1997 um almenna útboðs- og samningsskilmála um verkframkvæmdir, sem vísað var til hér að framan.
Óumdeilt er að verklok drógust fram til 18. maí 2001 og að við kostnaðaruppgjör 13. júlí sama ár dró stefndi frá lokagreiðslu sinni til stefnanda 900.000 krónur í formi dagsekta í 36 daga fyrir tímabilið frá 12. apríl til 18. maí. Aðila greinir hins vegar á um hvort réttmætt hafi verið að beita hinum samningsbundnu dagsektarákvæðum vegna atvika, sem upp hafi komið á samningstímanum. Verður vikið að þeim atriðum hér á eftir.
II.
Í útboðs- og verklýsingu VSB kemur fram að umrædd lóð sé í Hellnahrauni, á athafnasvæði sunnan Reykjanesbrautar. Var lagt fyrir stefnanda og aðra bjóðendur í verkið að kynna sér vel aðstæður á svæðinu og hafa allan kostnað vegna vetrarvinnu innifalinn í einingarverðum tilboða. Tekið var fram að í verkinu fælist aðallega uppgröftur á lausum, óburðarhæfum jarðvegi, losun á klöpp og fyllingar, en unnið væri að hönnun byggingar á lóðinni. Byggingareitur og hæðarsetning húss og lóðar gæti því breyst og þá einnig magntölur.
Ekki liggur annað fyrir í málinu en að stefnandi hafi byrjað verkið á tilsettum tíma og að verk- og tímaáætlun hans hafi gengið eftir framan af verki. Umrædd áætlun er þó ekki meðal málsskjala og eigi heldur dagbók, sem sýni hvernig verkinu miðaði áfram. Þá voru á verktímanum aðeins haldnir tveir formlegir verkfundir; hinn seinni 3. apríl 2001, þ.e. eftir upphaflega áætluð verklok. Nýtur því takmarkaðra gagna um samskipti stefnanda og stefnda á verktímanum, en sem fyrr segir kom VSB fram fyrir hönd stefnda og var eftirlit með verkinu í höndum Svavars Sigþórssonar tæknifræðings. Þó liggja fyrir níu orðsendingar frá eftirlitsmanninum til stefnanda, sem varpa nokkru ljósi á framgang verksins, en svo virðist sem reglulega hafi verið greitt inn á verkið án athugasemda um verkframvindu.
Af hálfu stefnanda er á því byggt að tafir á verklokum hafi orðið vegna aðstæðna við framkvæmd verksins, sem honum verði ekki kennt um. Hafi þar einkum komið til tafir vegna aukaverka og veðurfarslegra atriða. Um aukaverkin hafi verið gerðir aukasamningar í formi áðurnefndra orðsendinga. Stefnandi nefnir þar í fyrsta lagi orðsendingu nr. 2 frá 15. janúar 2001, en samkvæmt henni stóðust ákveðnar fyllingar ekki þjöppunarpróf. Í annan stað nefnir hann orðsendingu nr. 4 frá 12. febrúar 2001, en samkvæmt henni var óskað eftir því að stefnandi gætti þess að brjóta niður þök á nokkrum hellisskútum, svo að unnt væri með góðu móti að fylla í þá. Í þriðja lagi sé um að ræða orðsendingu nr. 5 frá 15. mars 2001, en með henni var tilkynnt um breytingar á hæðarlínum fyrir lóðina vegna lækkunar á húsgrunni á byggingareit hennar. Síðast en ekki síst nefnir stefnandi orðsendingu nr. 7 frá 11. apríl 2001, en samkvæmt henni var stefnanda heimilað að draga verklok til 12. apríl vegna magnaukningar í losun klappar. Segir í niðurlagi orðsendingarinnar að þetta eigi þó ekki við um það sem ekki hefur verið hægt að klára vegna frosta, þ.e. þjöppun fyllingar. Að því er varðar tafir vegna veðurs bendir stefnandi á að verkið hafi einnig dregist vegna frosta, einkum í marsmánuði. Þrátt fyrir að verulega hafi hlýnað í lofti í apríl sé alþekkt að það taki frost ávallt talsverðan tíma að fara úr jörðu. Bendir stefnandi í þessu sambandi á opinberar tölur frá Veðurstofu Íslands um lágmarkshita við jörðu á greindu tímabili, en þær sýni að sá hiti hafi verið langt undir frostmarki allt fram undir miðjan apríl. Sökum þessa hafi ekki verið unnt að fara umsvifalaust í jarðvegsvinnu um leið og lofthiti hafi farið yfir frostmark.
Af hálfu stefnda er þessum málatilbúnaði stefnanda mótmælt og á því byggt að stefnanda hafi verið veittur 11 daga viðbótarfrestur til að ljúka verkinu eftir samningsbundin verklok 1. apríl 2001. Verklok hafi engu að síður dregist allt til 18. maí og því hafi stefnda verið rétt að draga samningsbundnar dagsektir frá lokauppgjöri sínu við stefnanda.
III.
Pálmi Sigurðsson framkvæmdastjóri stefnanda og Magnús Jón Árnason framkvæmdastjóri stefnda gáfu aðilaskýrslur fyrir dómi, en auk þeirra báru vitni Sigurður Pálmason, sonur fyrrnefnds framkvæmdastjóra og starfsmaður stefnanda, Einar Sigmundsson, starfsmaður stefnanda, Ragnar Bjarnason, fyrrum mælingamaður á vegum stefnanda og Svavar Sigþórsson, tæknifræðingur hjá VSB. Verður vikið að framburði þeirra í VII. kafla að svo miklu leyti, sem þýðingu hefur fyrir málsúrslit.
IV.
Stefnandi byggir aðalkröfu sína annars vegar á því að tafir hafi orðið á verklokum vegna áðurnefndra atvika og aðstæðna, sem hann beri ekki ábyrgð á og hins vegar á því að stefndi hafi ekki orðið fyrir neinu tjóni vegna tafanna. Viðurkennt sé í verktakarétti að ekki skuli koma til greiðslu dagsekta nema um sé að ræða atvik, sem verði rakin til athafna eða athafnaleysis verktaka. Ytri aðstæður og óskir stefnda hafi orðið til þess að verkinu hafi ekki verið skilað 1. apríl 2001, svo sem kveðið hafi verið á um í verksamningi. Ekkert bendi hins vegar til þess að stefndi hafi orðið fyrir óhagræði eða tjóni vegna tafanna, enda hafi Svavar Sigþórsson eftirlitsmaður oft lýst því yfir á verktímanum að ekkert lægi á verklokum; síðast er hann hafi komið á verkstað að kvöldi 3. apríl. Þá hafi stefndi aldrei varað stefnanda við því að hann hyggðist beita dagsektum og ekki lagt inn teikningar hjá byggingarfulltrúa fyrir næsta byggingaráfanga fyrr en 2. ágúst 2001. Allt þetta sýni, svo ekki verði um villst, að stefnda hafi enginn akkur verið í því að verkinu væri skilað á umsömdum tíma. Því hljóti að teljast afar óeðlilegt að hann fái greiddar dagsektir. Aðalkröfunni til frekari stuðnings bendir stefnandi á almennar reglur kröfuréttar um greiðslu skuldbindinga og skuldbindingargildi samninga og ákvæði laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.
Varakrafa stefnanda er á því byggð að stefndi hafi aðeins beðið óverulegt tjón vegna tafa á verklokum. Verði stefnandi látinn greiða dagsektir að fullu þá leiði það til verulega ósanngjarnrar niðurstöðu í hans garð og á móti hagnist stefndi með óeðlilegum og ósanngjörnum hætti. Slíkt sé ekki markmið dagsektargreiðslna heldur þjóni þær þeim tilgangi að einfalda uppgjör verkkaupa og verktaka þegar verk dragist, með því að samið er fyrirfram um skaðabætur. Vegna fyrrnefndra atvika og aðstæðna, sem komið hafi upp á verktímanum, eigi þau sjónarmið ekki við í máli þessu. Krafa stefnda um dagsektir sé því sett fram að tilefnislausu, en ekki til að bæta honum tjón vegna nefndra tafa. Til stuðnings varakröfunni vísar stefnandi til 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 og viðurkenndra sjónarmiða í verktakarétti um lækkun dagsektargreiðslna þegar tjón hlýst ekki af töfum á verklokum.
V.
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að honum hafi verið heimilt að draga frá uppgjöri sínu við stefnanda 900.000 krónur í dagsektir á grundvelli greinar 24.5.4. í ÍST 30 og reglna kröfuréttar um skuldajöfnuð og því sé hann skuldlaus við stefnanda. Óumdeilt sé að verkinu hafi ekki verið lokið fyrr en 18. maí 2001, en þá hafi verið liðnir 36 dagar frá framlengdum skiladegi verksins, 12. apríl. Stefnanda hafi verið gefinn sá viðbótarfrestur að eigin ósk á verkfundi 3. apríl, en á þeim fundi hafi hann fyrst óskað eftir framlengingu verktímans og þá aðeins vegna magnaukningar í losun klappar. Stefndi hafi fallist á þau rök og aðilar gert samkomulag um lokafrest til 12. apríl, að undangengnum sameiginlegum útreikningi á magnaukningunni. Stefnanda stoði því ekki að bera fyrir sig tafir af öðrum ástæðum, enda hafi þeim ekki verið hreyft fyrr en löngu eftir verklok. Í þessu sambandi bendir stefndi sérstaklega á greinar 2.3. og 2.11. í almennum verkskilmálum útboðslýsingar, en samkvæmt þeim hafi stefnanda borið að tilkynna stefnda skriflega um það fyrirfram ef hann óskaði eftir framlengingu á verktíma og tilgreina hvaða orsakir lægju því að baki. Hliðstætt ákvæði sé einnig að finna í grein 24.3. í ÍST 30. Stefnandi hafi ekki gætt þessara skilyrða og beri þegar af þeirri ástæðu að hafna kröfum hans. Þá eigi þau undantekningaratvik, sem getið sé í grein 2.11. verkskilmálanna og grein 24.2. í ÍST 30 ekki við í málinu, en samkvæmt grein 1.3. í útboðs- og verklýsingu gildi hún framar ÍST 30 þar sem ákvæði þeirra stangist á.
Stefndi mótmælir því jafnframt harðlega að verkið hafi dregist vegna þeirra atvika og aðstæðna, sem stefnandi byggir á og segir rangt að hann eða eftirlitsmaður á hans vegum hafi lýst því yfir að ekkert lægi á verklokum. Að því er sérstaklega varðar ætlaðar tafir vegna frosta bendir stefndi á að verkið hafi verið unnið að vetrar-lagi og því hafi verktími verið afar rúmur. Það sé því rangt að verkið hafi dregist fram yfir 1. apríl vegna þess eins að stefnandi hafi verið beðinn um að fylla ekki yfir frosna fyllingu, svo sem fram komi í orðsendingu nr. 2., enda slíku ekki borið við fyrr en löngu eftir verklok. Þá hafi stefnanda verið greitt fyrir sem aukaverk að brjóta niður þök á hellisskútum í febrúar, sbr. orðsending nr. 4 og hafi það tekið 2 daga. Tafir á verklokum verði því ekki raktar til þess. Hið sama gildi um breytingar á hæðarlínum fyrir umrædda lóð, sem óskað hafi verið eftir um miðjan mars, en sú breyting hafi í raun haft í för með sér að minni fyllingar hafi verið þörf en ella. Fyrir vikið hafi verkið orðið einfaldara og því fráleitt að halda því fram að verkið hafi tafist af þeim sökum.
Þá mótmælir stefndi þeirri málsástæðu stefnanda í aðalkröfu að honum beri ekki að greiða dagsektir vegna þess eins að stefndi hafi ekki orðið fyrir tjóni vegna tafa á verklokum. Fyrir liggi að stefndi hafi beðið tjón vegna aukinnar vinnu eftirlitsmanns er nemi krónum 288.066 samkvæmt reikningum frá VSB. Að auki hafi stefndi orðið fyrir margvíslegu tjóni, meðal annars vegna vinnu eigin starfsmanna og vegna tafa á öðrum framkvæmdum, sem leitt hafi af drætti stefnanda. Þessi atriði skipti þó ekki máli, enda sé það ekki skilyrði fyrir beitingu dagsekta að tjón hafi orðið af drættinum samkvæmt fortakslausu ákvæði í grein 24.5.1. í ÍST 30. Þá hafi verksamningur aðila verið skýr að þessu leyti og stefnanda verið fullkunnugt um dag-sektarákvæði hans, sem og um það að stefnda hafi verið óskylt að vara hann við því fyrirfram að dagsektum yrði beitt ef kæmi til vanefnda.
Stefndi mótmælir varakröfu stefnanda með sömu rökum og fram hafa komið varðandi sýknu af aðalkröfu. Ekki geti komið til álita að beita ákvæðum 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 í lögskiptum aðila, enda sé þar um undantekningarheimild að ræða í þeim tilvikum þegar það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera fyrir sig samning samkvæmt efni sínu. Þau rök eigi fráleitt við í máli þessu þegar litið sé til efnis verksamningsins, fjárhæð umsaminna dagsekta og stöðu samningsaðila, en stefnandi hafi áratuga reynslu að baki sem verktaki.
Loks mótmælir stefndi kröfu stefnanda um upphafstíma dráttarvaxta og krefst þess að dráttarvextir verði ekki dæmdir fyrr en frá dómsuppsögu, komi á annað borð til þess að fallist verði á kröfugerð stefnanda.
VI.
Svo sem áður er rakið gerðu málsaðilar með sér skriflegan verksamning 22. nóvember 2000 um að stefnandi tæki að sér nánar tilgreinda jarðvinnu fyrir stefnda og skyldi verkinu vera að fullu lokið 1. apríl 2001. Fyrir verkið skyldi stefnandi fá greiddar 25.450.000 krónur. Samkvæmt skýru ákvæði í verksamningnum skyldu öll útboðsgögn, þar á meðal útboðs- og verklýsing frá VSB og íslenskur staðall ÍST 30:1997, teljast hluti af samningnum. Í grein 1.3. útboðsskilmálanna segir að þar sem útboðs- og verklýsing stangist á við ÍST 30 gildi útboðs- og verklýsingin.
Í grein 2.3. almennra verkskilmála er að finna ákvæði um dagsektir. Þar segir að sé verkinu ekki lokið á umsömdum tíma skuli stefnandi greiða stefnda 25.000 krónur í dagsektir fyrir hvern almanaksdag umfram 1. apríl. Telji stefnandi sig eiga rétt á framlengingu á þeim verklokum skuli hann tilkynna stefnda skriflega um orsök tafarinnar innan þriggja daga frá því umrædd orsök liggur fyrir, en kvartanir sem berast eftir þann tíma verði ekki teknar til greina. Nánari ákvæði um framlengingu verktíma er að finna í grein 2.11. Þar segir að stefnandi eigi rétt á framlengingu, án dagsekta, ef hann hefur orðið fyrir töfum af eftirfarandi orsökum: Verkföllum, verkbönnum, vöntun efnis sem stefndi skuli leggja til, náttúruhamförum, stríðsráðstöfunum eða vegna meiri háttar breytinga á verkinu, sem stefndi fer fram á að gerðar séu. Aðrar orsakir verða ekki teknar til greina.
Að auki eru ákvæði um dagsektir í greinum 24.1. til 24.3. í ÍST 30, sem ekki þykja efni til að rekja vegna greinar 1.3. í útboðsskilmálunum. Í grein 24.5. staðalsins eru hins vegar tekin af öll tvímæli um að verkkaupi, hér stefndi, geti krafið verktaka, stefnanda, um tafabætur eða dagsektir samkvæmt samningi og að þær skuli greiddar fyrir hvern almanaksdag sem það dregst að verki sé lokið eftir að samningsbundinn skilafrestur er útrunninn. Þá segir í grein 24.5.1. að ef ákvæði eru í verksamningi um tafabætur þurfi verkkaupi ekki að sanna tjón sitt.
Í málinu liggur fyrir að stefndi samþykkti ótvírætt að verklok mættu dragast til 12. apríl 2001. Samkvæmt framansögðu á stefndi því ekki rétt til dagsekta fyrir þann tíma, enda ekki á öðru byggt af hans hálfu.
Stefnandi reisir málatilbúnað sinn á því að verkið hafi tafist vegna óhagstæðs veðurs um og eftir miðjan janúar 2001, vegna aukaverka við að brjóta niður hellisskúta og vegna breytinga á hæðarlínum umræddrar lóðar. Óumdeilt er að stefnandi tilkynnti hvorki stefnda um tafir á verkinu af þeim sökum né heldur óskaði hann eftir framlengingu á verktíma vegna slíkra atvika. Með hliðsjón af grein 2.3. í útboðslýsingu verksamnings aðila verður því ekki litið til þeirra atvika við ákvörðun dagsekta. Grein 2.11. kemur eigi heldur til skoðunar, enda ekki á henni byggt af hálfu stefnanda.
Eftir stendur hvort stefnanda hafi verið heimilt að draga verklok fram yfir 12. apríl 2001 vegna magnaukningar í losun klappar og vegna frosta og óhagstæðs veðurfars í lok upphaflega áætlaðs verktíma. Við mat á því koma til skoðunar þau atriði, sem nefnd verða hér á eftir.
VII.
Samkvæmt grein 2.2. almennra verkskilmála skyldi greinargóð tímaáætlun um gang verksins liggja fyrir við undirritun samnings, unnin í samráði við stefnda og samþykkt af honum. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að sú áætlun hafi staðist framan af verki, að minnsta kosti greiddi stefndi inn á verkið samtals krónur 24.084.001 á tímabilinu frá 18. desember 2000 til 19. mars 2001, án athugasemda svo kunnugt sé og krónur 1.345.000 hinn 10. apríl.
Með orðsendingu nr. 6 frá 2. apríl 2001, sem undirrituð var af hálfu stefnanda, boðaði Svavar Sigþórsson eftirlitsmaður stefnda þann dag til verkfundar næsta dag á eftir. Samkvæmt fundarboði var tilefni verkfundarins: „Verklok og uppgjörsmál, eftirlit fer fram á að verktaki leggi inn útreiknaðar magntölur á fundinum.“ Á fundinum var meðal annars rætt um verkstöðu og verkáætlun stefnanda og ber fundargerð með sér að verkinu hafi þá verið að mestu lokið. Þar segir að lokið sé 3.000 m³ af fleygun, 11.100 m³ af uppúrtekt og 50.000 m³ af fyllingum, en samkvæmt tilboðsskrá frá VSB um magntölur, sem tilboð stefnanda skyldi taka mið af, voru samsvarandi magntölur 2.000 m³ af fleygun, 8.000 m³ af uppúrtekt og 52.000 m³ af fyllingum. Í fundargerðinni segir enn fremur að áætluð verklok verði ákveðin eftir að búið verði að ganga frá magntölum, en því verði lokið á næstu dögum. Miðað við verkstöðu og áætlanir stefnanda um heildarfleygun og afköst á dag ætti fleygun að verða lokið 5. apríl og verkinu öllu eftir 8. apríl. Fundargerðin er aðeins undirrituð af hálfu eftirlitsmanns. Þar segir einnig að stefnandi hafi lagt fram útreikninga sína og að hann og eftirlitsmaður muni hittast þegar sá síðarnefndi hafi farið yfir umræddar magntölur og semja um lokatölur. Því næst segir orðrétt:
„Verktaki bendir á að töluverðar aukningar hafi orðið á losun klappar og sé það aðalástæðan fyrir því að verkinu var ekki lokið á tilsettum tíma. Eftirlit og verkkaupi eru sáttir við að verktaki fái einhverja daga til að klára verkið vegna þessa aukninga sem orðið hafa. Það verður þó ekki ljóst fyrr en uppgjöri magntalna er lokið hvað þessir dagar verða margir. Verktaki gerði kröfu um að fá viðbótartíma vegna magnaukninga á klöpp. Viðbótartíminn skuli miðast við það magn sem um semst í klöpp og að verktaki afkasti 60-90 m³/dag.“
Með orðsendingu nr. 7 frá 11. apríl var stefnanda tilkynnt að stefndi væri reiðubúinn að gefa honum eftir tíma til að klára það sem umfram væri frá áætluðum magntölum í klöpp. Viðbótarmagn væri 800 m³ og tæki það 11 daga að losa klöppina, sem þýddi að verklok skyldu færast aftur til 12. apríl. Í niðurlagi orðsendingarinnar, sem stafar einhliða frá eftirlitsmanni stefnda og er óundirrituð af hálfu stefnanda, segir orðrétt:
„Þetta á þó ekki við um það sem ekki hefur verið hægt að klára vegna frosta þ.e. þjöppun fyllingar. Lokaúttekt verksins getur ekki farið fram fyrr en búið er að klára þjöppun og gera viðeigandi próf.“
Samkvæmt framburði Pálma Sigurðssonar framkvæmdastjóra stefnanda bað hann einnig um framlengingu á verktíma vegna frosta, á verkfundinum 3. apríl 2001. Fær sá framburður stoð í vitnisburði Svavars Sigurþórssonar eftirlitsmanns stefnda, sem kvaðst þó ekki muna nákvæmlega hvort umrædd beiðni hafi verið sett fram á fundinum sjálfum eða í tengslum við hann. Framburður Pálma um þetta atriði samrýmist einnig einhliða bókun Svavars á verkfundinum þess efnis að stefnandi hafi sagt að aðalástæðuna fyrir töfum á verkinu mætti rekja til magnaukningar í losun klappar. Fyrir dómi var Svavar þráspurður um skýringar á síðastnefndri bókun innan gæsalappa, án þess að marktæk og einhlít skýring kæmi fram. Í ljósi þessa alls þykir verða að byggja á því að stefndi hafi, með orðsendingu nr. 7, gefið stefnanda viðbótarfrest fram yfir 12. apríl til að ljúka þjöppun fyllingar og gera viðeigandi þjöppunarpróf áður en lokaúttekt gæti farið fram, en sönnunarbyrði um hið gagnstæða hvílir á stefnda. Sá frestur breytir engu um það að stefnanda bar að ljúka fleygun í klöpp eigi síðar en 12. apríl. Liggur ekki annað fyrir í málinu en að fleygun og fyllingum hafi verið lokið á þeim tíma.
Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið er það álit dómsins að stefnanda hafi borið, samkvæmt viðbótarsamningi aðila, að ljúka verkinu 12. apríl 2001 að því einu undanskildu, sem ekki hafi verið unnt að ljúka fyrir þann tíma vegna frosta, þ.e. þjöppun fyllingar, og að lokaúttekt á verkinu skyldi fara fram um leið og búið væri að klára þjöppun og gera viðeigandi próf. Fær sú niðurstaða enn fremur stoð í vætti Svavars Sigurþórssonar, sem bar fyrir dómi að ekki hefði verið unnt að ljúka verkinu vegna frosta fyrr en eftir miðjan aprílmánuð.
Sem fyrr segir drógust verklok til 18. maí 2001. Af hálfu stefnanda er á því byggt að honum hafi ekki verið unnt að ljúka þjöppun fyllingar og framkvæma þjöppunarpróf fyrir þann tíma. Er þeirri málsástæðu hreyft í stefnu og var á henni byggt með beinum hætti við munnlegan flutning málsins. Þykir hún því komast að í málinu, sbr. 2. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Kemur þá til álita við hvaða tímamörk eigi að miða við ákvörðun dagsekta, þ.e. hvað megi telja eðlilegan og sanngjarnan frest fyrir stefnanda til að ljúka verkinu að fullu, en ósannað er að ákveðin hafi verið sérstök tímamörk í þessu sambandi. Samkvæmt framlögðum vottorðum um veður frá Veðurstofu Íslands, sem dómurinn metur rétt að efni og uppruna, sbr. 71. gr. laga um meðferð einkamála, var lágmarkshiti við jörð meira og minna undir frostmarki frá 16. mars til 19. apríl 2001. Frá þeim tíma til aprílloka var lágmarkshiti yfir frostmarki flesta daga. Það er álit dómsins, sem skipaður er tveimur sérfróðum meðdómendum, að frá 19. apríl hafi þurft að líða ákveðinn tími þar til frost væri farið úr jörðu, til að unnt væri að ljúka þjöppun fyllingar á lóðinni og framkvæma þjöppunarpróf, sem standast myndu þær kröfur, sem gerðar voru í verksamningi aðila. Með hliðsjón af nefndu vottorði um lágmarkshita við jörð telur dómurinn að stefnandi hafi mátt byrja umrætt verk um mánaðamót apríl/maí og að hæfilegt sé að honum hefði mátt áætla eina viku til að ljúka því. Samkvæmt því er það álit dómsins að verkinu hefði mátt ljúka að fullu eigi síðar en 7. maí 2001 og að eftir þann tíma hafi stefndi mátt beita stefnanda umsömdum dagsektum samkvæmt skýru ákvæði í grein 2.3. verksamningsins. Breytir engu í því sambandi hvort stefndi hafi orðið fyrir tjóni vegna tafa á verklokum, sbr. grein 24.5.1. í ÍST 30 og bar honum eigi heldur skylda til að tilkynna fyrirfram að dagsektum kynni að verða beitt.
Samkvæmt framansögðu er það álit dómsins að við ákvörðun dagsekta skuli miða við tímabilið frá 8. til 18. maí 2001 að báðum dögum meðtöldum. Stefnda var því rétt að draga frá í uppgjöri sínu við stefnanda 275.000 krónur í dagsektir (þ.e. 11 x 25.000 krónur). Ákvæði 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 hafa ekki áhrif á þá niðurstöðu þegar litið er til efnis viðkomandi verksamnings, fjárhæðar umsaminna dagsekta og stöðu samningsaðila. Samkvæmt því ber stefnda nú að greiða stefnanda skuld að fjárhæð krónur 625.000.
Stefnandi krafði stefnda sannanlega um greiðslu vegna áður álagðra dagsekta með bréfi lögmanns síns 31. júlí 2001. Með hliðsjón af framangreindri niðurstöðu dæmist því stefndi til að greiða honum dráttarvexti af nefndri fjárhæð samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 31. ágúst 2001 til greiðsludags.
VIII.
Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála skal sá er tapar máli í öllu verulegu að jafnaði dæmdur til að greiða gagnaðila sínum málskostnað. Frá þessu má víkja ef veruleg vafaatriði eru í máli eða ef aðili vinnur mál að nokkru og tapar því að nokkru eða ef þeim sem tapar máli hvorki var né mátti vera kunnugt um þau atvik sem réðu úrslitum fyrr en eftir að mál var höfðað, sbr. 3. mgr. 130. gr. Má þá dæma annan aðilann til að greiða hluta málskostnaðar hins eða láta hvorn þeirra bera sinn kostnað af málinu.
Með hliðsjón af framangreindum málsúrslitum er ljóst að stefndi hefur tapað málinu að verulegu leyti í skilningi 130. gr. og að stefnandi hefur á móti fengið framgengt kröfu sinni að um það bil 2/3 hlutum. Þegar þetta er virt og við bætist að stefnandi bauð ítrekað fram sættir undir rekstri málsins, með mun lægri krónutölu en dæmt hefur verið, þykir ótæk önnur niðurstaða en að dæma stefnda til að greiða hluta af málskostnaði hans. Með hliðsjón af eðli og umfangi málsins þykir sá kostnaður hæfilega ákveðinn 250.000 krónur.
Dómurinn er kveðinn upp af Jónasi Jóhannssyni héraðsdómara og meðdómsmönnunum Ásmundi Ingvarssyni byggingaverkfræðingi og Birni Bjarnasyni húsasmíðameistara.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Tækja Tækni hf., greiði stefnanda, Dráttarbílum ehf., 625.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 31. ágúst 2001 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 250.000 krónur í málskostnað.