Mál nr. 218/2017
- Ríkisstarfsmenn
- Ráðningarsamningur
- Uppsögn
- Laun
- Skaðabætur
Ú gerði tímabundinn ráðningarsamning við B til þriggja mánaða sem rann út 6. júlí 2015. Eftir það tímamark starfaði B áfram hjá Ú, en lét af störfum 5. nóvember 2015 í kjölfar þess að ekki náðist samkomulag um launakjör. Gerði B kröfu um skaðabætur fyrir ólögmæta uppsögn auk greiðslu fjárhæðar sem nam launum í uppsagnarfresti og leiðréttingu launa fyrir það tímabil sem hún starfaði hjá Ú. Greindi aðila á um það hvort ótímabundinn ráðningarsamningur hefði komist á sem og um það hvort Ú eða B hefði slitið ráðningarsambandinu. Var ekki talið að B hefði sýnt fram á að ótímabundið ráðningarsamband hefði komist á milli hennar og Ú á því tímabili sem hún starfaði hjá Ú. Var m.a. vísað til þess að fyrir B hefðu verið lagðir tímabundnir ráðningarsamningar en hún neitað að undirrita þá vegna athugasemda við launalið þeirra. Þá yrði að túlka endanlega neitun hennar um að undirrita fyrirliggjandi ráðningarsamning sem rof á ráðningarsambandinu af hennar hendi. Loks hefði B ekki sýnt fram á að hún ætti rétt á hærri launum fyrir það tímabil sem hún starfaði hjá Ú, en einhliða drög B að starfslýsingu gátu ekki orðið grundvöllur að slíkri kröfu. Var Í því sýknað af kröfu B.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari og landsréttardómararnir Vilhjálmur H. Vilhjálmsson og Þorgeir Ingi Njálsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. apríl 2017. Hún krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér aðallega 20.901.477 krónur, til vara 18.380.100 krónur, að því frágengnu 5.084.727 krónur, en að öðrum kosti 2.563.350 krónur, í öllum tilvikum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 21. júní 2016 til greiðsludags en að frádreginni innborgun 1. október 2016 að fjárhæð 487.355 krónur. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. janúar 2017.
Mál þetta, sem þingfest var 28. júní 2016 og dómtekið þann 20. desember sl. var höfðað með stefnu birtri fyrir stefnda þann 21. júní 2016.
Stefnandi er Björk Håkansson, kt. [...], Bjarkargötu 14, 101 Reykjavík.
Stefndi er Ríkissjóður Íslands, kt. [...], Arnarhváli, 101, Reykjavík.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að stefnda verði gert að greiða stefnanda 20.901.477 krónur, auk dráttarvaxta, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af þeirri fjárhæð frá 21. júní 2016, til greiðsludags. Til vara að stefnda verði gert að greiða stefnanda 18.380.100 krónur auk dráttarvaxta, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af þeirri fjárhæð frá 21. júní 2016, til greiðsludags. Til þrautavara að stefnda verði gert að greiða stefnanda 5.084.727 krónur auk dráttarvaxta, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af þeirri fjárhæð frá 21. júní 2016 til greiðsludags. Til þrautaþrautavara að stefnda verði gert að greiða stefnanda 2.563.350 krónur auk dráttarvaxta, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af þeirri fjárhæð frá 21. júní 2016 til greiðsludag. Í öllum tilvikum að frádreginni innágreiðslu stefnda þann 1. október 2016, að fjárhæð 487.355 krónur. Þá er í öllum tilvikum krafist málskostnaðar að skaðlausu skv. mati dómsins að meðtöldum virðisaukaskatti.
Stefndi krefst sýknu af öllum dómkröfum stefnanda, en til vara stórfelldrar lækkunar auk þess sem krafist er málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins en til vara að málskostnaður verði felldur niður.
I
Málavextir
Stefnandi var ráðinn til starfa hjá Útlendingastofnun og gerður var við hana tímabundinn ráðningarsamningur. Gildistími samningsins var frá 7. apríl 2015 til 6. júlí 2015. Samningurinn var endurnýjaður 3. júní 2015 vegna breytinga á launaflokkaröðun en með sama gildistíma. Þann 6. júlí 2016 rann gildistími samningsins út og þann dag, eða degi síðar 7. júlí 2015, var ráðningarsamningur með gildistíma frá þeim degi til 30. september 2015 lagður fyrir stefnanda til undirritunar. Stefnandi neitaði að skrifa undir þann samning á þeim forsendum að hún ætti rétt á hærri launaflokkaröðun en fram komi í þeim samningi. Forstjóri Útlendingastofnunar var á þeim tíma í veikinda- og sumarleyfi og staðgengill forstjóra hafði ekki umboð til þess að semja um hærri launaflokkaröðun en fram kom í samningnum. Varð úr að samningurinn var ekki undirritaður af hálfu stefnanda en samkomulag varð með staðgengli forstjóra og stefnanda að stefnandi héldi áfram vinnu hjá stofnuninni á sömu launum og hún hefði áður fengið, þar til forstjórinn kæmi aftur til starfa.
Forstjóri Útlendingastofnunar kom aftur til starfa um miðjan september 2015. Hófust viðræður milli stefnanda og forstjórans um launaflokkaröðun meðal annars með því að stefnandi útbjó sjálf ,að beiðni forstjóra, starfslýsingu fyrir starf sitt auk þess sem haldnir voru nokkrir fundir án þess að samkomulag næðist.
Þann 26. október 2015, ritaði forstjóri Útlendingastofnunar undir nýjan tímabundinn ráðningarsamning fyrir stefnanda sem gilda átti frá 1. nóvember 2015 til og með 31. desember 2015. Stefnandi tók sér frest til ákvörðunar um undirritun.
Þann 4. nóvember 2015, hafnaði stefnandi því að undirrita drög að framangreindum samningi þar sem að hennar mati var útséð um það að Útlendingastofnun myndi verða við kröfum hennar um hækkun launaliðar. Degi áður, eða 3. nóvember 2015, hafði stefnanda verið tilkynnt af forstjóra að hún yrði að taka afstöðu til þess hvort hún ætlaði að undirrita samninginn eða ekki. Í framhaldi af þessu sendi starfsmannastjóri Útlendingastofnunar tölvupóst til stefnanda þar sem fram kom að litið væri svo á að ráðningu hennar væri lokið frá og með 5. nóvember 2015 og bæri henni að skila lyklum og öðrum munum sem tilheyrðu stofnuninni. Stefnandi sendi tölvupóst í framhaldi af því þar sem fram komu sjónarmið hennar um að ekki hefði verið um tímabundinn ráðningarsamning að ræða og miða ætti uppsögn við næstu mánaðamót á eftir, auk þess sem hún ætti rétt á launum í uppsagnarfresti.
Þann 25. nóvember 2015 barst Útlendingastofnun bréf frá lögmanni stefnanda, þar sem krafist var launa í uppsagnarfresti auk leiðréttingar á launum fyrir þann tíma sem stefnandi hefði starfað hjá Útlendingastofnun. Var þeirri kröfu gerð nánari skil með bréfi lögmanns stefnanda dags. 17. desember 2015. Með bréfi Útlendingastofnunar, dags. 21. desember 2015, var kröfum stefnanda hafnað og aftur í bréfi stofnunarinnar dags. 25. janúar 2016, en í því bréfi kom jafnframt fram að stefnanda yrðu greiddar 75.805 krónur vegna afturvirkra launaleiðréttinga fyrir tímabilið frá 7. apríl 2015 til 31. maí 2015. Þá liggur fyrir að stefnanda voru greidd laun fyrir nóvembermánuð 2015 og að laun fyrir desembermánuð 2015 að fjárhæð 487.355 krónur voru greidd þann 1. október 2016.
Með bréfi, dags. 31. mars 2016, var Útlendingastofnun tilkynnt af hálfu lögmanns stefnanda að næðist ekki sátt í málinu yrði farið með ágreining aðila fyrir dómstóla.
Í málinu liggja meðal annars fyrir nefndir ráðningarsamningar og drög að ráðningarsamningum, tölvupóstsamskipti milli aðila, tilvísuð bréf, drög að starfslýsingu, launaseðlar stefnanda, stofnanasamningur milli aðildarfélaga BHM og Útlendingastofnunar um reglur um röðun starfa, kjarasamningur Fræðagarðs og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, og frétt af kjarnanum.is.
Fyrir dóminn komu og gáfu skýrslu, stefnandi, Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar, Þorsteinn Gunnarsson, staðgengill forstjóra, Fríða Arnardóttir starfsmannastjóri, Halldór Karl Valdimarsson, framkvæmdarstjóri þjónustuskrifstofu stéttarfélags Fræðagarðs, og Elfa Dögg S. Leifsdóttir sálfræðingur.
II
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi telur að stefndi hafi með ólögmætum og saknæmum hætti brotið gegn sér með því að slíta ráðningarsambandi aðila. Engar forsendur hafi verið að lögum eða samkvæmt kjarasamningi til þess að segja stefnanda upp störfum. Sé sú ákvörðun jafnframt ógild að stjórnsýslurétti og hafi stefndi með því bakað stefnanda fjár- og miskatjón, sem stefndi beri fébótaábyrgð á. Einnig sé stór hluti kröfu stefnanda samningsbundin krafa um greiðslu launa í uppsagnarfresti auk leiðréttingar launa á því tímabili sem hún hafi starfað fyrir stefnda.
Stefnandi byggir á því að ráðningarsamband hennar hafi verið ótímabundið, enda hafi enginn tímabundinn ráðningarsamningur verið til staðar eftir að tímabundnum samningi hafi lokið þann 6. júlí 2015. Heimilt hafi verið samkvæmt lögum um tímabundna ráðningu starfsmanna nr. 139/2003, sbr. 2. mgr. 5. gr., að gera nýjan ráðningarsamning sem tæki við af fyrri samningi, enda hefði þá nýr samningur komist á milli aðila innan sex vikna frá lokum þess fyrri. Þetta hafi ekki verið gert og stefnandi hafi starfað áfram hjá stefnda allt fram að uppsögn í byrjun nóvember 2015. Með þessum hætti hafi ótvírætt tekið við ótímabundinn samningur. Megi leiða framangreint af almennum reglum vinnuréttar, sbr. einnig inntak laga nr. 139/2003 og þeirrar meginreglu sem fram komi í 1. mgr. 41. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, um að ríkisstarfsmenn skuli ráðnir ótímabundið. Ráðningarsambandi aðila hafi því ekki verið sagt upp með lögmætum fyrirvara sem væri þrír mánuðir, þar sem við uppsögn hafi enginn tímabundinn samningur verið til staðar. Vegna þessa ætti stefnandi rétt á launum í uppsagnarfresti í þrjá mánuði, frá 1. desember 2015 að telja, en laun fyrir nóvembermánuð ættu ekki að reiknast sem hluti þess.
Stefnandi telur að ekki hafi verið tilefni til að segja henni upp með þeim hætti sem gert var. Hafi stefndi ekki getað bundið enda á ótímabundið ráðningarsamband aðila nema skilyrði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins væri uppfyllt. Stefnandi hafi ekki brotið af sér í starfi eða fengið áminningu og þá hafi uppsögnin ekki átt rót að rekja til niðurskurðar eða hagræðingar í rekstri. Uppsögn ráðningarsambandsins hafi verið án lögmætrar ástæðu þar sem forsendur hafi verið rangar og ógildar. Þá sé ljóst að það hafi ekki verið stefnandi sem sleit ráðningarsambandi aðila eins og stefndi haldi fram. Að mati stefnanda hafi henni án nokkurs fyrirvara verið sagt upp störfum þar sem hún hafi ekki skrifað undir drög að ráðningarsamningi. Ekkert tilefni hafi verið til slíkrar uppsagnar og engin sök af hálfu stefnanda skv. vinnurétti sem réttlætt geti slíkar íþyngjandi aðgerðir. Hafi engin þeirra atvika sem nefnd eru í IX. kafla laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins átt sér stað sem réttlæti þá fyrirvaralausu uppsögn.
Stefnandi telur að brotin hafi verið ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og óskráðar reglur stjórnsýsluréttar og uppsögnin hafi verið í andstöðu við góða stjórnsýsluhætti. Ákvörðun stefnda sé því hvort tveggja ógild að efni og formi, skv. eftirfarandi málsástæðum:
Brot gegn lögmætisreglunni, þar sem ákvörðun stefnda um uppsögn hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 70/1996 og stjórnsýslulögum.
Ákvörðun stefnda hafi verið ómálefnaleg þar sem ekki verði séð að réttlætanlegt hafi verið að segja stefnanda upp störfum. Með því hafi verið brotið í bága við óskráða réttmætisreglu stjórnsýsluréttar. Við uppsögn á ráðningarsamningi skv. 43. gr. laga nr. 70/1996 sé stefndi bundinn sem stjórnvald af þeirri óskráðu meginreglu stjórnsýsluréttar að byggja ákvarðanir sínar á málefnalegum sjónarmiðum. Þurfi stefndi að geta réttlætt og rökstutt nauðsyn þess að segja stefnanda upp störfum en það hafi hann ekki gert.
Brotið hafi verið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Skv. ákvæðinu skal tryggt að íþyngjandi ákvarðanir verði ekki teknar nema því aðeins að það sé nauðsynlegt og markmiði sem að er stefnt verði ekki náð með öðru og vægara móti. Þannig hefði mátt komast hjá uppsögn með vægari úrræðum.
Samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skuli aðili máls eiga andmælarétt áður en stjórnvald taki ákvörðun, en ekki hafi verið gætt að þeim rétti stefnanda.
Stefnandi byggir á því að stefndi hafi brotið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með ólögmætri uppsögn hafi stefndi mismunað stefnanda réttindalega í uppsagnarkjörum í samanburði við aðra starfsmenn stefnda sem einnig hafi notið ótímabundinnar ráðningar eins og stefnandi.
Í aðalkröfu sinni krefst stefnandi bóta vegna vangreiddra launa í uppsagnarfresti, bóta fyrir ólögmæta uppsögn, miskabóta og bóta vegna leiðréttingar launa.
Stefnandi gerir kröfu um greiðslu launa í uppsagnarfresti, í þrjá mánuði, frá 1. desember 2015 að telja. Bætur fyrir ólögmæta uppsögn skuli ákvarða að álitum. Stefnandi krefst bóta miðað við 18 mánaða laun í fyrra starfi til samræmis við dómaframkvæmd. Rökstyður stefnandi kröfu sína með því að hún búi að sérhæfðri menntun og starfsreynslu sem nýtist eingöngu í málefnum sem hún hafi sinnt hjá Útlendingastofnun og hafi meðal annars sinnt þeim verkefnum erlendis. Tækifæri stefnanda til þess að nýta menntun sína og reynslu sé mjög takmörkuð hérlendis. Stefnandi hafi verið atvinnulaus og tekjulaus í framhaldi af uppsögn stefnda. Heildartjón stefnanda skv. þessum lið nemi 18 mánaðarlaunum, eða 18 x 854.450, samtals 15.380.100 krónum að meðtöldum bótum í þrjá mánuði vegna launa í uppsagnarfresti.
Stefnandi krefst miskabóta að fjárhæð 3.000.000 króna. Til stuðnings þeirri kröfu er vísað til 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Hafi uppsögnin verið stefnanda sérlega íþyngjandi og bakað henni andlegt tjón, rýrt starfsheiður hennar og jafnframt álit annarra á henni. Jafnframt verði að hafi í huga það andlega tjón sem stefndi hafi valdið stefnanda með því að skirrast við að fara að lögum. Þá hafi aðgerðir stefnda skaðað verulega möguleika stefnanda á því að geta fundið sér annað starf við hæfi. Hafi þetta falið í sér ólögmæta meingerð gegn æru og persónu stefnanda.
Stefnandi krefst leiðréttingar launa fyrir það tímabil sem hún hafi starfað fyrir Útlendingastofnun. Fái krafa hennar stoð í þeim kjörum sem stefnanda voru ætluð samkvæmt stofnanasamningi Útlendingastofnunar og stéttarfélags þess sem stefnandi tilheyri, eða Fræðagarðs. Sé sá stofnanasamningur frá árinu 2007 og enn í fullu gildi. Hafi stefnda borið við ákvörðun um launagreiðslur til stefnanda að fara að ákvæðum þess samnings. Gerir stefnandi þá kröfu að laun hennar verði leiðrétt frá upphafi starfs og fram til starfsloka miðað við launaflokk 10-8 á því tímabili og sem væri í samræmi við starfslýsingu og menntun skv. stofnanasamningi. Sú starfsheitalýsing sem samkvæmt stofnanasamningi hefði best átt við starf stefnanda væri „Stjórnandi 2“. Samkvæmt því ætti stefnandi að lágmarki að raðast í launaflokk 09 og viðbótarmenntun vegna MA prófs ætti að meta sem 5% hækkun skv. launatöflu eða einum launaflokki. Einnig gerir stefnandi kröfu um að átta álagsflokkar skv. stofnanasamningi bætist við launakröfuna. Til viðbótar þessu telur stefnandi að vangreidd hafi verið til hennar yfirvinna fyrir sama tímabil.
Í stefnu er yfirlit yfir greidd laun stefnanda á tímabilinu 7. apríl 2015 til 30. nóvember 2015, samtals 6.140.844 krónur m.v. launaröðun 08-3. Stefnandi gerir þá kröfu að stefnda verði gert að greiða henni mismun þeirra launa og þeirra laun sem henni hafi borið miðað við laun í flokki 10-8. Samkvæmt því yfirliti hefði stefnanda átt að fá 8.662.221 krónu greidda í laun fyrir sama tímabil. Krafa um leiðréttingu launa væri því 8.662.221-6.140.844, samtals 2.521.377 krónur.
Höfuðstóll aðalkröfu stefnanda er 20.901.477 krónur, 15.380.100 krónur vegna ólögmætrar uppsagnar og launa í uppsagnarfresti, 3.000.000 króna vegna miska og 2.521.377 krónur vegna leiðréttingar launa.
Í varakröfu krefst stefnandi 18.380.100 króna úr hendi stefnda. Miðast krafan við fjárhæð sem svari til bóta fyrir ólögmæta uppsögn að meðtöldum þriggja mánaða uppsagnarfresti ótímabundins ráðningarsambands og til miskabóta.
Stefnandi gerir þrautavarakröfu um greiðslu á 5.084.727 krónum úr hendi stefnda. Miðist krafan við fjárhæð sem svari til bóta fyrir vangreidd laun þriggja mánaða í uppsagnarfresti ótímabundins ráðningarsambands, 2.563.350 krónur, og leiðréttingar launa á meðan stefnandi starfaði fyrir stefnda, 2.521.377 krónur.
Stefnandi gerir þrautaþrautavarakröfu um greiðslu á 2.563.350 krónum úr hendi stefnda. Miðist krafan við fjárhæð sem svari til bóta fyrir vangreidd laun þriggja mánaða í uppsagnarfresti ótímabundins ráðningarsambands.
Í öllum tilfellum krefst stefnandi dráttarvaxta af framangreindum fjárhæðum frá útgáfu stefnu, 21. júní 2016, sbr. ákvæði 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 og í öllum tilfellum að teknu tilliti til innborgunar, 487.355 krónur.
Um lagarök er vísað til framangreinds en auk þess er vísað til almennra reglna samninga- og kröfuréttar, vinnuréttar og stjórnsýsluréttar. Vísað er til ákvæða laga nr. 139/2003, um tímabundna ráðningu starfsmanna, stjórnsýslulaga nr. 37/1993, laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, til orlofslaga nr. 30/1987 og til ákvæða kjara- og stofnanasamnings Fræðagarðs við Útlendingastofnun. Vísað er til réttarreglna og sjónarmiða EES-réttar og þjóðaréttar, sérstaklega til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og laga um EES nr. 2/1993, auk laga nr. 21/1994 og samnings EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls. Þá er ennfremur vísað til afleiddra gerða EES-samningsins, m.a. til tilskipunar ESB nr. 1999/70/EB, um rammasamninginn um tímabundna ráðningu sem ETUC, UNICE og CEEP hafa gert. Stefnandi vísar einnig til almennu skaðabótareglunnar og til 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Dráttarvaxta er krafist í samræmi við ákvæði 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. einnig 4. mgr. 5. gr. og 9. gr. þeirra laga.
Krafan um málskostnað styðst við XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, aðallega 129. og 130. gr. Krafan um virðisaukaskatt af málskostnaði byggir á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og er óskað eftir því að tillit verði tekið til þess við ákvörðun málskostnaðar.
III
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi mótmælir kröfugerð og málsástæðum stefnanda í heild sinni. Hafi það verið stefnandi sjálf sem hafi sagt upp ráðningarsamningi við stefnanda og ekki hafi verið um ótímabundna ráðningu að ræða eftir 7. júlí 2015 eins og stefnandi haldi fram. Stefnanda hafi við lok tímabundins ráðningarsamnings þann 6. júlí 2015, verið boðinn nýr tímabundinn ráðningarsamningur með gildistíma frá 7. júlí 2015 til og með 30. september 2015 með sömu launakjörum og fyrri samningur hafi kveðið á um eftir leiðréttingu eða launaflokk 08-3. Það hafi hins vegar verið stefnandi sem hafi neitað að undirrita þann nýja ráðningarsamning þar sem hún hafi talið sig eiga rétt á hærri launum fyrir störf sín samkvæmt stofnanasamningi Fræðagarðs og Útlendingastofnunar. Vegna veikinda forstjórans og sumarleyfa hafi orðið að samkomulagi með aðilum að fresta viðræðum um launaþáttinn þar til forstjórinn kæmi aftur til starfa. Hafi stefnandi ekki gert neinar athugasemdir við þá tilhögun og sinnt starfi sínu á fyrrgreindum launakjörum út gildistíma hins nýja tímabundna samnings.
Stefnanda hafi í lok október 2015 verið boðinn nýr tímabundinn samningur út árið og þá í hærri launaflokki eða 09-3. Með þeirri launahækkun hafi stefndi talið sig vera að koma til móts við stefnanda og launakröfur hennar, innan þess ramma sem stefnda sé markaður samkvæmt kjara- og stofnanasamningi, launastefnu stofnunarinnar og fjárheimildum. Hafi þau launakjör stefnanda verið langt umfram lágmarkskjör samkvæmt ákvæðum kjarasamnings og stefnanda verið grunnraðað í efsta lag skipurits stofnunarinnar sem „Stjórnandi 1“. Enn á ný hafi það hins vegar verið stefnandi sem hafi neitað að skrifa undir ráðningarsamning og þar með starfstilboð stofnunarinnar. Hafi stefndi tjáð stefnanda, bæði munnlega á fundum og í tölvupósti að ef stefnandi sæi sér ekki fært að gangast að starfstilboðinu, yrði litið svo á að um höfnun á starfstilboði væri að ræða og að stefnandi segði í raun starfi sínu hjá Útlendingastofnun lausu. Hafi sá skilningur stefnda komið berlega í ljós í tölvupóstssamskiptum við stefnanda 3. og 4. nóvember 2015. Að mati stefnda sé ljóst að tímabundin ráðning stefnanda hafi varað frá 7. apríl 2015 til 4. nóvember 2015.
Stefndi kveður það mat sitt að með því að stefnandi hafi haldið áfram starfi sínu hjá Útlendingastofnun þrátt fyrir að neita að undirrita hinn tímabundna ráðningarsamning dags. 7. júlí 2015, með gildistíma til 30. september sama ár, hafi stefnandi í raun samþykkt hinn nýja tímabundna ráðningarsamning með fyrirvara um launakjör. Við þá neitun stefnanda hafi ekki komist á ótímabundið ráðningarsamband milli aðila eins og stefnandi haldi fram, heldur hafi verið um framlengingu á tímabundinni ráðningu stefnanda að ræða. Þegar stefnandi hafi svo ítrekað neitað að samþykkja nýtt tilboð stefnda um tímabundna ráðningu hafi stefndi ekki getað túlkað þá neitun með neinum öðrum hætti en að stefnandi segði starfi sínu lausu frá þeim tíma er endanleg neitun barst stefnda þann 4. nóvember 2015. Þá verði til þess að líta að stefnandi hafi aldrei lagt fram nein gagntilboð.
Stefndi bendir á að í 2. mgr. 41. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sé heimilt að ráða starfsmann til starfa tímabundið og að unnt sé að taka fram í ráðningarsamningi að segja megi slíkum samningi upp af hálfu annars hvors aðila áður en ráðning falli sjálfkrafa úr gildi við lok samningstíma. Hafi slík árétting verið í þeim samningum sem gerðir voru við stefnanda. Stefndi vísar einnig til 42. gr. laga nr. 139/2003 um tímabundna ráðningu starfsmanna, þar sem fram komi að gera skuli skriflegan ráðningarsamning milli forstöðumanns stofnunar og starfsmanns, þar sem meðal annars komi fram ráðningarkjör. Heimild til að gera tímabundna ráðningarsamninga sé aðeins með þeim takmörkunum að hún skuli aldrei vara lengur en í tvö ár samfellt. Að mati stefnda sé ljóst að ekki hafi liðið nema rúmar tvær vikur frá því að ráðningarsamningur sá sem var með gildistíma til 30. september 2015 hafi runnið út, þar til stefnanda hafi verið boðinn nýr tímabundinn samningur. Því sé ekki um það að ræða að ótímabundin ráðning hafi komist á milli aðila. Alltaf hafi verið ljóst, alveg frá upphafi ráðningar stefnanda, að um tímabundna ráðningu hafi verið að ræða og að til stæði að framlengja þá tímabundnu ráðningu á meðan stefnandi starfaði hjá stefnda, enda hafi verið um tímabundið verkefni að ræða sem ekki hafi verið ráðgert að myndi taka lengri tíma en tvö ár. Stefnandi hafi því ekki haft réttmætar væntingar til þess að hljóta ótímabundna ráðningu hjá stefnda.
Stefndi mótmælir túlkun stefnanda á 2. mgr. 5. gr. laga nr. 139/2003, um tímabundna ráðningu starfsmanna, um að hafi ekki verið gerður nýr tímabundinn samningur innan sex vikna, sé komið á ótímabundið ráðningarsamband. Fráleitt sé að mati stefnda að túlka ákvæðin þannig að stefnandi geti knúið á um ótímabundið ráðningarsamband með því einu að neita ítrekað að skrifa undir tímabundinn ráðningarsamning, jafnvel eftir að stefndi hafi gert sitt besta til að koma til móts við launakröfur hennar.
Stefndi hafnar því að stefnanda hafi verið sagt upp störfum með ólögmætum hætti. Það hafi verið ákvörðun stefnanda sjálfrar að slíta ráðningarsambandi sínu við stefnda, eins og henni hafi verið heimilt skv. 2. mgr. 41. gr. laga nr. 70/1996, þegar hún hafi ítrekað neitað að samþykkja þau launakjör sem henni hafi boðist. Stefnandi hafi því í raun sjálf hafnað atvinnutilboði stefnda. Í tímabundnu ráðningarsambandi sé heimilt að semja um eins mánaðar uppsagnarfrest. Um það hafi verið samið og stefnandi nýtt sér þann rétt. Stefndi hafi hins vegar hafnað vinnuframlagi stefnanda á þeim uppsagnarfresti eins og heimild sé til og greitt stefnanda laun út nóvember mánuð 2015. Þá hafi stefnanda þann 1. október sl. verið greidd laun fyrir desembermánuð 2015.
Af hálfu stefnda er fullyrðingum stefnanda um brot á reglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttar hafnað sem röngum. Þar sem stefnandi hafi sjálf sagt upp störfum sé ekki um það að ræða að ákvæði stjórnsýslulaga hafi komið til álita við þá uppsögn. Stefndi hafi tekið við höfnun á atvinnutilboði og ekki lagt fram gagntilboð. Stefndi gæti því ekki hafa brotið gegn lögmætis-, réttmætis, meðalhófs- og jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Andmælaréttur komi heldur ekki til álita þar sem ekki hafi verið um stjórnsýsluákvörðun að ræða og í raun hafi stefnandi notið þess réttar með því að hún kaus að hafna atvinnutilboði stefnda. Þá geti jafnræðisregla stjórnsýslunnar ekki átt við um samanburð á launakjörum stefnanda sem hafi verið með tímabundinn ráðningarsamning og annarra með ótímabundna ráðningarsamninga.
Stefndi hafnar sérstaklega þeirri kröfu að stefnandi eigi rétt á leiðréttingu launa fyrir þann tíma sem hún hafi starfað hjá stefnda. Við mat sitt miði stefnandi við eigin útfærslu á starfslýsingu, ábyrgð og verkefnum og frammistöðu sem hafi aldrei verið samþykkt af stefnda. Það sé ekki á hendi stefnanda að ákveða launaröðun sína heldur sé það byggt á starfsgreiningu og mati stofnunarinnar og sé því á forræði hennar. Ljóst sé að stefnanda hafi verið boðin umtalsvert hærri launakjör en sem nemi lágmarkslaunum samkvæmt stofnanasamningi fyrir umrætt starf. Stefnandi hafi ekki vísað ágreiningi sínum til samstarfsnefndar líkt og henni hafi verið heimilt samkvæmt grein 11.4.3.2 í kjarasamningi Fræðagarðs og fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs og verði stefnandi að bera hallann af því.
Kröfu sína um málskostnað styður stefndi við XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
IV
Niðurstöður
Gerður var tímabundinn ráðningarsamningur til þriggja mánaða milli stefnanda og Útlendingastofnunar þann 14. apríl 2015, og rann samningurinn út þann 6. júlí 2015. Óumdeilt er að stefnandi starfaði áfram eftir að sá ráðningarsamningur rann út og allt fram til 5. nóvember 2015, án þess að stefnandi skrifaði undir ráðningarsamning eftir 6. júlí 2015.
Í skýrslum fyrir dómi af Kristínu Völundardóttur, forstjóra Útlendingastofnunar, Þorsteini Gunnarssyni, staðgengli forstjóra, og Fríðu Breiðfjörð Arnardóttur starfsmannastjóra, kom fram að alltaf hefði legið fyrir að ráðning stefnanda hafi átt að vera tímabundin, enda hafi verið um tímabundið tilraunaverkefni að ræða sem stefnandi sinnti. Bar forstjórinn að Útlendingastofnun hefði í febrúar eða mars 2015 fengið heimild frá ráðuneyti til þess að ráða tímabundið í tvö stöðugildi vegna verkefna tengdum hælisleitendum, en óvissa hefði verið hvort verkefnin yrðu áfram hjá Útlendingastofnun. Þegar ráðið hafi verið í stöðu stefnanda hafi framangreint legið ljóst fyrir og stefnandi verið upplýst um það. Vonir hefðu hins vegar staðið til þess að hægt yrði að veita henni fast starf frá áramótum 2015-2016, ef þá hefði legið fyrir að Útlendingastofnun ætti að sinna þeim verkefnum samkvæmt lögum, en það lægi ekki enn fyrir.
Stefnandi kvaðst fyrir dómi ekki hafa verið upplýst um að starf hennar hafi verið tilraunaverkefni og hafi hún gert ráð fyrir því að eftir þriggja mánaða reynslu á tímabundnum ráðningarsamningi fengi hún ótímabundna ráðningu. Taldi stefnandi í skýrslu sinni fyrir dómi að ótímabundinn samningur hefði tekið við þegar þann 7. júlí 2015, og aðeins hafi þá verið eftir að gera starfslýsingu og semja um launaliðinn.
Í gögnum málsins liggja fyrir drög að ráðningarsamningi, dags. 7. júlí 2015, undirrituð af Þorsteini Gunnarssyni, staðgengli forstjóra, en óundirrituð af hálfu stefnanda. Þorsteinn upplýsti fyrir dómi að sá samningur hefði verið lagður fyrir stefnanda þann 6. eða 7. júlí 2015 en stefnandi hefði neitað að undirrita hann vegna óánægju með þá launaröðun sem fram kæmi í samningnum. Hefði orðið að munnlegu samkomulagi milli þeirra, að hann taldi, að stefnandi héldi áfram störfum á þeim launakjörum sem kveðið væri á um í þeim samningi, en umræða um frekari launakjör yrðu að bíða komu forstjóra. Hafi stefnandi ekki nefnt við hann við það tækifæri að hún teldi að kominn væri á ótímabundinn ráðningarsamningur. Í skýrslu forstjóra og starfsmannastjóra fyrir dómi kom einnig fram að aldrei hefði komið fram í viðtölum þeirra við stefnanda að stefnandi hefði talað um að henni bæri ekki að undirrita tímabundinn ráðningarsamning, þar sem ótímabundið ráðningarsamband væri þegar komið á. Hefðu viðræður og samskipti þeirra á milli verið um launakjör stefnanda, starfslýsingu og undirritun tímabundins ráðningarsamnings.
Ekkert hefur komið fram sem styður þann framburð stefnanda að hún hafi mátt gera ráð fyrir því að sjálfkrafa tæki við ótímabundin ráðning í framhaldi af þriggja mánaða tímabundinni ráðningu eða að samið hafi verið á þá leið. Gögn málsins benda til hins gagnstæða, enda var lagður fyrir stefnanda til undirritunar, nýr tímabundinn ráðningarsamningur um leið og gildistíma eldri samnings lauk. Verður ekki séð að stefnandi hafi gert athugasemdir við að henni hafi þá verið boðinn nýr tímabundinn samningur, heldur hafi athugasemdir hennar snúið að launalið samningsins og hún neitað að skrifa undir vegna þess. Vegna þeirrar neitunar stefnanda, og þar sem staðgengill forstjóra taldi sig ekki geta samið um hærri laun en tilgreind voru í samningnum, var gerður munnlegur samningur um að stefnandi héldi áfram störfum þar til forstjórinn kæmi úr leyfi. Starfaði stefnandi í samræmi við þann samning, án frekari athugasemda að séð verður. Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að sá munnlegi samningur sem báðir málsaðilar telja að hafi komist á, hafi átt að vera um annað en þá lá fyrir að undirrita, þ.e. tímabundinn ráðningarsamning.
Niðurstaða dómsins samkvæmt framangreindu er að þann 7. júlí 2015, hafi komist á munnlegur tímabundinn ráðningarsamningur, með gildistíma frá þeim degi til og með 30. september 2015, með fyrirvara af hálfu stefnanda um laun.
Meginreglan um ráðningar opinberra starfsmanna eru ótímabundnar ráðningar en heimild er til tímabundinna ráðninga í 2. mgr. 41. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, enda vari sú ráðning ekki lengur en tvö ár, sbr. og 1. mgr. 5. gr. laga nr. 139/2003, um tímabundna ráðningu starfsmanna. Ekki reynir á tímaskilyrði nefnds ákvæðis. Af 2. gr. laga nr. 139/2003 verður ráðið að hlutlægar ástæður skuli ráða við ákvörðun um tímabundnar ráðningar. Í málinu hefur ekki annað komið fram en að ráðning stefnanda hafi verið vegna tímabundinna heimilda til handa Útlendingastofnun til að ráða tvo starfsmenn, og hafi því hlutlægar ástæður ráðið því að stefnanda var boðinn tímabundinn ráðningarsamningur.
Á því er byggt af hálfu stefnanda, með vísan til 2. mgr. 5. gr. laga nr. 138/2003, um tímabundna ráðningu starfsmanna, að þar sem ekki hafi verið gengið frá ráðningarsamningi við stefnanda þegar eldri tímabundin ráðning rann út þann 6. júlí 2015, hafi sex vikum síðar sjálfkrafa komist á ótímabundinn ráðningarsamningur. Með vísan til fyrrgreindrar niðurstöðu dómsins um að þann 7. júlí 2015 hafi komist á tímabundinn ráðningarsamningur, kemur nefnd málsástæða stefnanda ekki til álita, enda var sá ráðningarsamningur gerður innan sex vikna frá lokum eldri samnings.
Þegar munnlegum ráðningarsamningi lauk 30. september 2015, var ekki gengið frá nýjum samningi, hvorki munnlega né skriflega að því er séð verður. Gögn málsins benda ekki til þess að þá hafi staðið til að ráða stefnanda ótímabundið, enda eins og fyrr, var nýr skriflegur tímabundinn ráðningarsamningur lagður fyrir stefnanda þann 26. október 2015 til undirritunar. Tölvupóstur stefnanda, dags. 4. nóvember 2015, sem sendur var til forstjóra og starfsmannastjóra styður einnig þá niðurstöðu, en þar kom fram að stefnandi óskaði lagfæringar á launakjörum en engar athugasemdir voru um að sá samningur væri tímabundinn. Samkvæmt þessu liðu fimm vikur frá því að tímabundinn munnlegur ráðningarsamningur rann út þann 30. september 2015 og þar til starfi stefnanda lauk. Eiga ákvæði 2. mgr. 5. gr. laga nr. 138/2003 því heldur ekki við umrætt tímabil, þar sem á því tímabili var hvorki framlengdur eldri samningur né gerður nýr tímabundinn samningur innan sex vikna frá lokum eldri samnings.
Stefnandi hefur að mati dómsins ekki sýnt fram á að ótímabundið ráðningarsamband hafi komið á skv. framangreindu, á því tímabili sem hún starfaði hjá Útlendingastofnun.
Í nefndum tölvupósti stefnanda dags. 4. nóvember 2015, kom fram, að þar sem útséð væri að Útlendingastofnun myndi gera bragarbót á samningsdrögunum, gæti stefnandi ekki undirritað þau. Degi áður hafði forstjóri Útlendingastofnunar sagt í tölvupósti til stefnanda að ráðningarsamningurinn væri ekki samningsatriði, annað hvort myndi stefnandi samþykkja drögin eða ekki og afstaða stefnanda yrði að liggja fyrir í lok þess dags. Útlendingastofnun leit svo á að framangreint svar stefnanda væri höfnun á starfstilboði og væri ráðningu stefnanda því lokið frá og með 5. nóvember 2015. Að mati dómsins verður svar stefnanda ekki túlkað með öðrum hætti en sem endanleg neitun hennar á því að undirrita fyrirliggjandi ráðningarsamning og þar með uppsögn hennar á því ráðningarsambandi sem báðir málsaðilar hafi talið vera í gildi. Sú afstaða stefnanda að hún hafi á þeim tíma verið komin með ótímabundna ráðningu kom fyrst fram í framhaldi af þessum samskiptum.
Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 30/1993, gilda stjórnsýslulög um ákvarðanir stjórnvalda um réttindi og skyldur. Starfslok stefnanda verða skv. framangreindu ekki rakin til stjórnsýsluákvörðunar um uppsögn Útlendingastofnunar á ótímabundinni ráðningu stefnanda. Eiga tilgreind ákvæði stefnanda til stjórnsýslulaga og óskráðra reglna stjórnsýsluréttar þar af leiðandi ekki við um starfslokin.
Með vísan til framangreinds verður að sýkna stefnda af kröfum stefnanda um bætur fyrir fyrir ólögmæta uppsögn á ótímabundnum ráðningarsamningi, þriggja mánaða laun í uppsagnarfresti, og fjár- og miskabætur.
Stefnandi gerir kröfu um leiðréttingu launa frá því að hún hóf störf þann 7. apríl 2015 og fram til 30. nóvember 2015. Hafi hún fengið greitt skv. launaflokki 08-3 en átt rétt á launum skv. launaflokki 10-8. Stefnandi vísar kröfu sinni til stuðnings til stofnanasamnings milli aðildarfélaga BHM og Útlendingastofnunar og kjarasamnings Fræðagarðs og til draga að starfslýsingu.
Fyrir dóminn kom Halldór Karl Valdimarsson, framkvæmdarstjóri þjónustuskrifstofu stéttarfélags Fræðagarðs. Í skýrslu hans fyrir dóminum kom fram að krafa stefnanda um leiðréttingu launa hafi verið gerð í samráði við hann. Hafi krafa stefnanda verið eðlileg og sanngjörn miðað við þá starfslýsingu sem stefnandi hafi lagt fyrir hann og hann taldi að væri sama starfslýsing og lægi fyrir í málinu. Aðspurt kom fram að ekki hefði verið leitað eftir afstöðu Útlendingastofnunar til starfslýsingarinnar.
Stefnandi útbjó fyrirliggjandi starfslýsingu að beiðni forstjórans. Í skýrslu forstjórans og starfsmannastjórans fyrir dómi kom fram að starfslýsingin, og ábyrgð samkvæmt henni hefði ekki verið í neinu samræmi við það starf sem stefnandi hafði í raun og því hefði starfslýsingunni verið hafnað og hún hafi ekki verið lögð til grundvallar á starfi stefnanda.
Þá kom fram að starf stefnanda hafi ekki verið skilgreint í stofnanasamningi en við útreikning í launaflokk 08 hafi verið miðað við „Sérfræðing eða Fulltrúa 2“ og stefnanda því verið grunnraðað í launaflokk 02. Í stofnanasamningi segir meðal annars að „Fulltrúi 2“ sé starfsmaður sem hafi umsjón með ákveðnum málaflokkum eða verkefnum en vinni undir stjórn annarra. Fram kom í drögum að ráðningarsamningi, sem dagsettur var 26. október 2015, að stefnanda hafi verið raðað eins og „Stjórnandi 1“ með grunnröðun í launaflokk 05, en með menntun og reynslu stefnanda hafi hún átt að fara upp í launaflokk 09, miðað við aukna ábyrgð sem þá hafi staðið fyrir dyrum. Ekki hafi staðið til að grunnraða stefnanda sem „Stjórnanda 2“, enda væru einungis sviðstjórar þar undir sem stefnandi hafi ekki verið.
Ekki er um það deilt að starf stefnanda hafi verið mikið og erfitt og hafi umfang þess stöðugt vaxið á þeim tíma sem stefnandi sinnti starfinu. Hins vegar verður krafa um leiðréttingu launa ekki byggð á einhliða drögum stefnanda að starfslýsingu fyrir starfið, enda var þeim drögum hafnað af vinnuveitanda áður og fyrir dómi. Breytir engu þar um þótt álit stéttarfélags liggi fyrir, enda var það álit byggt á framangreindum drögum stefnanda.
Af framangreindu virtu hefur stefnanda ekki tekist að færa sönnur á það að hún eigi rétt á hærri launum fyrir það tímabil sem hún starfaði hjá Útlendingastofnun, en ráðningarsamningar sögðu til um.
Með vísan til alls framangreinds verður að hafna öllum kröfum stefnanda í máli þessu.
Rétt þykir að málskostnaður falli niður.
Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð
Stefndi, Ríkissjóður Íslands, er sýkn af öllum kröfum stefnanda.
Málskostnaður fellur niður.