Hæstiréttur íslands

Mál nr. 818/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                       

Þriðjudaginn 8. desember 2015.

Nr. 818/2015.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Guðmundur Þórir Steinþórsson fulltrúi)

gegn

X

(Theodór Kjartansson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. 

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. og b. liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. desember 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. desember 2015, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 14. desember 2015 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að honum verði gert að sæta farbanni.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar, en til vara að varnaraðila verði gert að sæta farbanni til mánudagsins 4. janúar 2016 klukkan 16.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness, sunnudaginn 6. desember 2015.

                Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi til mánudagsins 14. desember 2015, kl. 16.00 og að honum verði gert að sæta einangrun á þeim tíma. Til vara er þess krafist að kærða verði bönnuð för af landinu til mánudagsins 4. janúar 2016, kl. 16.00.

                Í greinargerð lögreglustjórans á Suðurnesjum segir að skömmu eftir hádegi laugardaginn 5. desember hafi borist tilkynning um slagsmál að [...] að [...] og að gerendur væru á staðnum. Á vettvangi hafi vitnið A tekið á móti lögreglu og tjáð lögreglumönnum að brotaþoli, B, hefði orðið fyrir þremur líkamsárásum af hálfu kærðu, Y og X. A hafi tjáð lögreglu á vettvangi að kærðu hefðu viðurkennt fyrir sér að þeir hefðu gengið í skrokk á B og að málin væru afgreidd á þennan hátt í heimalandi þeirra.

Lögreglu hafi verið vísað á brotaþola þar sem hann hafi legið illa áttaður í rúmi sínu í svefnherbergi íbúðar þar sem hann búi. Brotaþoli hafi verið töluvert bólginn í framan og með skerta meðvitund. Hafi honum verið komið undir læknishendur. Í viðræðum við lögreglu hafi kærðu neitað að hafa veist að brotaþola um morguninn. Kærði Y hafi verið með ætlaða blóðbletti á peysu sinni og X með áverka á höndum.

Kærðu hafi verið handteknir klukkan 13:45 í þágu rannsóknar málsins, grunaðir um alvarlega líkamsárás. Hafi þeir verið færðir á lögreglustöð þar sem þeir hafi báðir verið vistaðir. Síðla dags í gær hafi lögreglu borist upplýsingar um að brotaþoli væri á leið til Reykjavíkur þar sem hann þyrfti að gangast undir aðgerð á Landspítala. Hafi hann reynst vera margbrotinn í andliti, svo sem á nefi og kjálka.

Við yfirheyrslur nú í morgun hafi báðir kærðu neitað sök að mestu leyti.

Í greinargerð lögreglustjóra segir að rannsókn málsins sé á frumstigi. Lögregla hafi unnið að því síðastliðinn sólahring að afla sönnunargagna vegna málsins, m.a. hafi þó nokkur vitni verið yfirheyrð, auk þess sem kærði hafi verið yfirheyrður ásamt ætluðum samverkamanni sínum. Liggi fyrir að yfirheyra þurfi fleiri vitni, auk þess sem gagnaöflun vegna málsins sé á frumstigi. Þær upplýsingar sem rannsókn málsins hafi leitt í ljós bendi til þess að kærði hafi ásamt ætluðum samverkamanni sínum ráðist ítrekað og með fólskulegum hætti að brotaþola með alvarlegum afleiðingum.

Samkvæmt því sem að framan hefur verið rakið og með vísan til gagna málsins telji lögreglustjóri fram kominn rökstuddan grun um að kærði hafi með háttsemi sinni gerst sekur um líkamsárás sem varði við 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem við liggi allt að 16 ára fangelsi. Að mati lögreglustjóra sé sýnt að þau brot sem kærði er sakaður um muni ekki hafa í för með sér sektir eða skilorðsbundna refsingu miðað við aðstæður.

Af framansögðu telji lögreglustjóri nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til rannsóknar. Megi í fyrsta lagi telja að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins gangi hann laus, svo sem með því að hafa afmá merki eftir brot, skjóta undan munum ellegar hafa áhrif á samseka eða vitni. Í öðru lagi sé mikil hætta sé á að kærði muni reyna að komast úr landi eða leynast og koma sér þannig undan málsókn eða fullnustu refsingar, gangi hann laus. Sé á það bent að kærði, sem sé erlendur ríkisborgari, virðist hafi takmörkuð tengsl við landið

Með vísan til alls framangreinds, gagna málsins, a- og b-liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 telji lögreglustjóri brýna rannsóknar- og refsivörsluhagsmuni standa til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 14. desember 2015, kl. 16.00. Þá sé þess krafist með vísan til framangreindra rannsóknarhagsmuna að kærða verði gert að sæta einangrun, sbr. b-lið 99. gr. laga nr. 88/2008 á meðan gæsluvarðhaldi stendur. Til vara sé þess krafist að kærða verði bönnuð för af landinu til mánudagsins 4. janúar 2016, kl. 16.00.

                Kærði er undir rökstuddum grun um brot sem varðað getur fangelsisrefsingu, en talið er að á tímabilinu frá því síðastliðið föstudagskvöld til hádegis í gær hafi kærði við annan mann ráðist í þrígang á brotaþola með þeim afleiðingum að brotaþoli þurfi að gangast undir aðgerð á sjúkrahúsi í gær vegna beinbrota í andliti. Leikur grunur á um að fyrsta árásin að hafa átt sér stað á veitingahúsi í Reykjavík, en síðari árásirnar tvær á dvalarstað brotaþola og kærðu að [...] í Reykjanesbæ. Rannsókn málsins er á frumstigi, en eftir er að ræða við hugsanleg vitni að árásunum þremur og afla sönnunargagna. Hætta þykir á að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins með því að hafa áhrif á samseka eða vitni gangi hann laus. Er skilyrðum a-liðar 1. mgr. 95. gr. og b-liðar 99. gr. laga nr. 88/2008 því fullnægt til að fallast megi á kröfu lögreglustjóra um að kærða verði gert að sæta gæsluvarðahaldi og einangrun eins og krafist er og nánar greinir í úrskurðarorði.

                Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 14. desember nk., kl.16.00. Kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.