Hæstiréttur íslands
Mál nr. 225/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Aðilaskipti
- Kæruheimild
- Frávísun frá Hæstarétti
|
Fimmtudaginn 19. júní 2003. |
|
|
Nr. 225/2003. |
Örn Karlsson(Sveinn Andri Sveinsson hrl.) gegn íslenska ríkinu (Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Aðilaskipti. Kæruheimild. Frávísun máls frá Hæstarétti.
Í ehf. höfðaði mál á hendur íslenska ríkinu í nóvember árið 2002, en bú félagsins hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta í janúar 2001. Var málinu vísað frá héraðsdómi á þeirri forsendu að það var rekið af aðila, sem ekki var til þess bær. Ö, sem hafði lýst kröfu á hendur þrotabúi Í ehf., kærði úrskurðinn til Hæstaréttar. Talið var að ekki yrði bætt úr þessum annmarka á málinu með því að Ö gengi inn í það með kæru til Hæstaréttar. Samkvæmt því yrði að vísa því frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. júní 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. maí 2003, þar sem máli Íslenska reiðskólans ehf. á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður, en til vara að kærumálskostnaður verði látinn niður falla.
Íslenski reiðskólinn ehf. höfðaði mál þetta 5. nóvember 2002, en bú félagsins mun hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta 15. janúar 2001. Samkvæmt 1. mgr. 122. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. fer skiptastjóri með forræði þrotabús og er einn bær um að ráðstafa hagsmunum og svara fyrir skyldur þess meðan á gjaldþrotaskiptum stendur. Ákveði skiptastjóri að halda ekki uppi hagsmunum sem þrotabú kann að njóta eða geta notið hvort sem það er gert samkvæmt ályktun skiptafundar eða ekki getur lánardrottinn, sem hefur lýst kröfu á hendur búinu sem hefur ekki þegar verið hafnað, gert það í eigin nafni til hagsbóta búinu hafi skiptastjóri ekki þegar skuldbundið það á annan veg, sbr. 1. mgr. 130. gr. laganna. Samkvæmt framansögðu hafði bú Íslenska reiðskólans ehf. verið tekið til gjaldþrotaskipta þegar málið var höfðað. Kæra til Hæstaréttar er borin fram af sóknaraðila, en af gögnum málsins verður ráðið að hann hafi lýst kröfu á hendur þrotabúi Íslenska reiðskólans ehf. Eins og áður greinir var málið rekið í héraði af aðila, sem ekki var til þess bær, og af þeim sökun var því réttilega vísað frá héraðsdómi. Úr þessum annmarka, sem var á málinu frá upphafi, verður ekki bætt með því að sóknaraðili gangi inn í það með kæru til Hæstaréttar. Brestur þannig skilyrði til kæru í málinu og verður að vísa því frá Hæstarétti.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Sóknaraðili, Örn Karlsson, greiði varnaraðila, íslenska ríkinu, 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. maí 2003.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 28. apríl sl., er höfðað 5. nóvember 2002 af Íslenska reiðskólanum ehf., Austurvegi 6, Selfossi, á hendur íslenska ríkinu, Arnarhvoli, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda vegna ákvörðunar búfræðsluráðs frá 31. ágúst 2000, sem staðfest var með úrskurði landbúnaðarráðherra 10. janúar 2001, um að synja stefnanda um samþykki til stofnunar búnaðarnámsbrautar, hrossabrautar, samkvæmt lögum nr. 57/1999 um búnaðarfræðslu í samstarfi við Fjölbrautarskóla Suðurlands. Þess er og krafist að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar ásamt virðisaukaskatti.
Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi og að stefnda verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati réttarins en til vara að ákvörðun um málskostnað verði látin bíða efnisdóms. Til vara er þess krafist að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda í málinu og honum tildæmdur málskostnaður úr hendi hans að mati réttarins.
Úrskurðurinn er kveðinn upp til úrlausnar á frávísunarkröfu stefnda en af stefnanda hálfu er þess krafist að frávísunarkröfunni verði hafnað. Einnig er þess krafist af stefnanda að honum verði ákveðin hæfileg þóknun vegna þessa hluta málsins en til vara að ákvörðun um málskostnað verði frestað þar til tekin verður efnisleg afstaða til sakarefnsins.
I.
Í atvikalýsingu stefnanda kemur fram að fyrirsvarsmaður stefnanda hafi um nokkurra ára bil verið með starfsemi tengda hestamennsku að Ingólfshvoli í Ölfusi. Árið 1998 hafi hann stofnað ásamt öðrum einkahlutafélagið Hestaskólann sem hafi strax tekið til starfa. Árið 2000 hafi nafni félagsins verið breytt í Íslenski reiðskólinn ehf. Tilgangur stefnanda sé kennsla á öllum stigum hestamennsku og hafi skólinn frá upphafi starfsemi sinnar leitast við að fá viðurkenningu Félags tamningamanna þannig að þeir sem útskrifist úr skólanum fái viðurkennt frumtamningarpróf. Forsenda Félags tamningarmanna fyrir viðurkenningu skólans hafi verið að námið yrði viðurkennt af búfræðsluráði.
Í bréfi stefnanda til búfræðsluráðs, dagsettu 25. ágúst 2000, er því lýst að stefnandi og Fjölbrautarskóli Suðurlands áformi að bjóða sameiginlegt nám í hestamennsku og reiðmennsku. Óskað var eftir því í bréfinu að ráðið staðfesti að nám til búfræðiprófs teldist til náms á framhaldsskólastigi. Einnig var þar óskað eftir samþykki og áliti búfræðsluráðs á fyrirhugaðri hrossabraut stefnanda og fjölbrautarskólans í ljósi námsvísis sem þá lá fyrir. Búfræðsluráð hafnaði erindinu með bréfi, dagsettu 31. ágúst sama ár, með vísan til þess að stefnandi væri ekki almennur framhaldsskóli og því ekki unnt að stofna þar til búnaðarnámsbrautar samkvæmt 14. gr. laga um búnaðarfræðslu nr. 57/1999 og engin beiðni hefði borist frá Fjölbrautarskóla Suðurlands um stofnun slíkrar námsbrautar við þann skóla. Stefnandi kærði ákvörðun búfræðsluráðs til landbúnaðarráðuneytisins með bréfi, dagsettu 9. október sama ár, en ráðuneytið staðfesti ákvörðunina með úrskurði 10. janúar 2001. Í málinu er krafist viðurkenningar á skaðabótaskyldu stefnda vegna ofangreindrar ákvörðunar. Verði ekki fallist á að ákvörðun búfræðsluráðs og úrskurður landbúnaðarráðuneytisins hafi verið ólögmætur sé á því byggt að landbúnaðarráðuneytið hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni með því að hafa aldrei bent stefnanda á hvernig hann gæti starfrækt búnaðarfræðslu, og þar með fengið viðurkenningu Félags tamningamanna í samræmi við lagaskilning ráðuneytisins.
II.
Rök stefnda fyrir frávísunarkröfunni eru þau að ekki væri rétt staðið að málssókninni. Stefnandi, Íslenski reiðskólinn ehf., hafi verið tekinn til gjaldþrotaskipta 15. janúar 2001 og hafi búið því verið undir skiptum þegar málið var höfðað 5. nóvember 2002. Aðrir en skiptastjóri og lánardrottnar hefðu ekki málshöfðunarheimild en engum lánardrottnum væri til að dreifa nema stefnda enda hefðu allir, er lýst hefðu kröfum í búið, afturkallað kröfurnar nema stefndi vegna krafna um opinber gjöld. Þessara málsatvika sé hvergi getið í stefnu né á hvaða grundvelli málið hafi verið höfðað í nafni Íslenska reiðskólans ehf. Málshöfðunarheimildir séu tæmandi taldar í 124. gr. og 130. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Mótmælt er að fyrirsvarsmaður og eigandi hins gjaldþrota félags sé lánardrottinn og því geti hann ekki rekið málið. Beri þegar af þeirri ástæðu að vísa máli þessu frá dómi. Við munnlegan málflutning um frávísunarkröfuna kom fram af hálfu stefnda að nú lægi fyrir að skiptastjóri þrotabúsins hefði tekið ákvörðun um að hann ætlaði ekki að reka málið og því væri heimilt að fella málið niður samkvæmt b- lið 1. mgr. 105. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Þá sé því mótmælt að þrotabúið geti haft lögvarða hagsmuni af því að reka mál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu án þess að skorið sé úr um fjárhæð kröfu er renni til þrotabúsins. Krafan feli því í sér beiðni um lögfræðilega álitsgerð en það sé andstætt 1. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála og varði frávísun málsins frá dómi.
Stefnandi hafi heldur ekki gætt þess að reifa málið með tilliti til þeirra réttinda eða réttarsambands sem krafist sé dóms um. Þar sem krafist sé viðurkenningar á skaðabótaskyldu í málinu sé óumflýjanlegt að reifuð séu grundvallarskilyrði bótaskyldu, einkum um tjón og orsakatengsl. Í stefnu sé hvergi fjallað um orsakasamband við ætlað tjón né leiddar líkur að því með gögnum. Krafa stefnanda sé því vanreifuð og óljós sem og málatilbúnaður henni til stuðnings.
Stefnandi staðhæfi að hann hefði orðið af tekjum í starfsemi sinni og starfsgrundvöllur brostið og hann haldi því fram að erfitt sé og stórfellt óhagræði og kostnaður fyrir hann að leggja fram upplýsingar um ætlað tjón sitt. Í umfjöllun í málavaxtalýsingu í stefnu sé vísað til áætlaðs hagnaðar í framtíðinni og ýmist til þess að stefnandi sé leigutaki að fasteignum eða að fjárbinding í fasteignum, sem stefnandi sé ekki skráður eigandi að, sé mjög mikil. Eina umfjöllun um meint tjón með tilvísun til gagna sé þar sem vísað sé til viðskiptaáætlunar KPMG og kostnaðaráætlunar stefnda. Viðskiptaáætlunin varpi ekki neinu ljósi á hið meinta fjártjón og sé málið vanreifað að þessu leyti. Af stefnanda hálfu hafi engin gögn verið lögð fram um fjárhagsstöðu eða um útgjöld og tekjur á þeim tíma sem málið hafi verið til meðferðar hjá búfræðsluráði frá 25. ágúst 2000 uns ráðuneytið hafi kveðið upp úrskurð sinn hinn 10. janúar 2001. Vandséð sé hvernig meint tjón geti tengst þeim ákvörðunum þegar fyrir liggi samkvæmt stefnu að stefnandi hafi hætt starfsemi um mitt árið 2000. Fjárhag stefnanda hafi auk þess verið mjög tekið að halla áður en stefnandi beindi erindi til búfræðsluráðs og hafi bú stefnanda verið tekið til gjaldþrotaskipta fimm dögum eftir að úrskurður ráðuneytisins hafi verið kveðinn upp. Krafa stefnanda sé þannig svo óljós og vanreifuð að varði frávísun málsins, sbr. 2. mgr. 25. gr. og 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
III.
Stefnandi vísar til þess að Örn Karlsson hafi lýst kröfu í þrotabú stefnanda 5. apríl 2001 og sé hann því lánardrottinn sem geti farið með málið til hagsbóta fyrir þrotabúið eins og 130. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. heimili. Kröfum hans í búið hafi hvorki verið hafnað né hafi þær verið afturkallaðar. Hann geti því höfðað málið á sína eigin ábyrgð eins og skiptastjórinn hafi staðfest. Jafnframt er vísað til þess að stefnandi geti samkvæmt lögum um meðferð einkamála fengið dóm um viðurkenningu á bótaskyldu áður en hann leiti dóms í væntanlegu bótamáli.
Stefnandi mótmæli því að málið hafi ekki verið nægilega reifað. Hann hafi lýst málavöxtum og skýrt starfsemi stefnanda ítarlega í málatilbúnaði sínum. Stefndi beri ábyrgð á því að starfsemi stefnanda hafi verið settar skorður með ólögmætum ákvörðunum á þann hátt sem stefnandi hafi lýst. Stefnandi hafi augljóslega orðið fyrir miklu fjárhagslegu tjóni vegna þess að leyfi hafi ekki fengist fyrir þeirri starfsemi sem stefnandi hafi sótt um. Stefnandi hafi misst af nemendum og þar með þeirri veltu sem hann hefði annars getað haft af starfseminni. Í viðskiptaáætlununum hafi verið gert ráð fyrir því að velta færi á þremur árum upp fyrir 100 milljónir króna og hagnaður yrði af starfseminni á þriðja starfsári, sem hefði hækkað í rúmlega 20 milljónir á fimmta starfsári. Einnig vísi stefnandi til kostnaðaráætlunar, sem fylgt hafi umsókn til menntamálaráðuneytisins, en hún hafi verið lögð til grundvallar leyfisveitingu ráðuneytisins þegar það hafi viðurkennt stefnanda sem einkaskóla á framhaldsskólastigi 7. maí 2001. Búfræðsluráð hafi síðan samþykkt að stefnanda væri heimilt að kenna eftir fyrirliggjandi námsskrá. Til þess að unnt væri að fá leyfi til að útskrifa tamningamenn hafi stefnandi þurft að sýna fram á að öll sérhæfð aðstaða væri til staðar. Ráðist hafi verið í mikla uppbyggingu að Ingólfshvoli af eigendum jarðarinnar. Stefnandi sé leigutaki að reiðhöll, mötuneyti, kennsluaðstöðu, hesthúsi og nemendahúsi. Beint tap vegna þessara tafa væri gríðarlegt. Fjárbinding í þessum fasteignum sé mjög mikil, en í eignunum liggi 250 milljóna króna verðmæti og sé fjármagnskostnaður vegna þessarar fjárfestingar á ári um 25 milljónir króna.
IV.
Í stefnu kemur fram að stefnandi hafi hætt starfsemi um mitt ár 2000. Bú stefnanda var tekið til gjaldþrotaskipta 15. janúar 2001 og er skiptum enn ólokið. Samkvæmt 1. mgr. 122. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. fer skiptastjóri með forræði þrotabús meðan á gjaldþrotaskiptum stendur með þeim undantekningum sem fram koma í 130. gr. laganna. Í 1. mgr. síðarnefndu lagagreinarinnar segir að hafi skiptastjóri ákveðið að halda ekki uppi hagsmunum, sem þrotabúið kunni að njóta eða geti notið, geti lánardrottinn sem lýst hafi kröfu á hendur búinu, sem hafi ekki verið hafnað, gert það í eigin nafni til hagsbóta fyrir búið.
Í bréfum skiptastjóra, dagsettum 28. janúar og 8. apríl 2003, er staðfest að þrotabúið eigi ekki aðild að málssókninni sem hér um ræðir. Í fyrra bréfinu kemur fram að skiptastjóri sjái ekkert því til fyrirstöðu að félagið fari sjálft í málið að því gefnu að það verði rekið á ábyrgð Arnar Karlssonar forsvarsmanns félagsins og í því síðara að skiptastjóri hafi samþykkt að eigandi félagsins höfði mál í nafni búsins en á sinn kostnað.
Málið er ekki höfðað af meintum lánardrottni og þrotabú stefnanda hefur aldrei átt aðild að málinu þrátt fyrir að það sé höfðað eftir að búið var tekið til gjaldþrotaskipta. Málið er því hvorki rétt höfðað né verður það rekið á þann hátt sem hér hefur verið gert. Ber þegar af þessum ástæðum að vísa málinu frá dómi.
Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 130.000 krónur.
Úrskurðinn kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Íslenski reiðskólinn ehf., greiði stefnda, íslenska ríkinu, 130.000 krónur í málskostnað.