Hæstiréttur íslands
Mál nr. 559/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Fimmtudaginn 23. ágúst 2012. |
|
Nr. 559/2012. |
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (Óli Á. Hermannsson fulltrúi) gegn X (Daði Ólafur Elíasson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. ágúst 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 19. ágúst 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 29. ágúst 2012 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að sér verði ekki gert að sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 19. ágúst 2012.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess að X, kt. [...], verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta gæsluvarðhaldi og einangrun allt til föstudagsins 31. ágúst 2012 kl. 16:00.
Kærða krefst þess aðallega að kröfu lögreglustjórans verði hafnað en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími og að hún verði ekki látin sæta einangrun.
Í greinargerð Lögreglustjórans á Suðurnesjum segir m.a. að lögreglunni hafi borist tilkynning frá Tollgæslunni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í nótt, um að kærða hafi verið stöðvuð, ásamt Y, kt. [...], á tollhliði í kjölfar komu þeirra með flugi FI-595 frá Madrid, Spáni, vegna gruns um að þær hefðu fíkniefni falin í fórum sínum.
Við leit í farangri kærðu hafi fundist þrjár flöskur merktar Algarrobina sýrópi og hafi allar flöskurnar verið innsiglaðar. Er innsigli flasknanna hafi verið rofin og sýni tekin úr þeim og þau sett í Itemiser efnagreiningarvél Tollstjóra, hafi sýni úr einni flöskunni gefið jákvæða svörun á kókaín. Þá leiki einnig grunur á að töluvert magn fíkniefna kunni að vera falin í ferðatösku kærðu.
Lögregla hafi nú sent hin meintu fíkniefni til frekari rannsóknar hjá tæknideild Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Þá hafi ferðataska kærða einnig verið send til frekari rannsóknar hjá tæknideild Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Sé beðið niðurstaðna frá tæknideildinni varðandi magn og tegund hinna meintu fíkniefna.
Kærða hafi verið yfirheyrð einu sinni frá komu sinni til landsins. Við yfirheyrsluna hafi kærða borið því við að hún hafi ekki vitað að taska hennar hefði innihaldið hin meintu fíkniefni.
Vísast nánar til meðfylgjandi gagna málsins.
Rannsókn þessa máls sé á algjöru frumstigi. Meðal þess sem rannsaka þurfi sé aðdragandi ferðar kærðu og Y til landsins og tengsl þeirra við hugsanlega vitorðsmenn á Íslandi og eða erlendis, auk annarra atriða. Magn hinna meintu fíkniefna, sem kærða hafi flutt til landsins, þykir eindregið benda til þess að hin meintu fíkniefni hafi verið ætluð til sölu og dreifingar og að háttsemi kærðu kunni að varða við ákvæði 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 auk ákvæða laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Lögregla telji einnig að ætla megi að kærða kunni að torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka gangi hún laus. Þess sé krafist að kærðu verði gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldi skv. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88, 2008.
Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni, telji lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærðu verði gert að sæta gæsluvarðhaldi og einangrun allt til föstudagsins 31. ágúst 2012 kl. 16.00.
Með vísan til alls framanritaðs, svo og gagna málsins, er fallist á það með lögreglustjóra að kærða sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing liggur við. Rannsókn málsins er á frumstigi. Haldi kærða óskertu frelsi sínu gæti hún torveldað rannsókn málsins, svo sem með því að hafa áhrif á framburð vitorðsmanna eða vitna. Telst því fullnægt skilyrðum a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til þess að kærða sæti gæsluvarðhaldi, þó þannig að það verður úrskurðað allt til miðvikudagsins 29. ágúst nk. kl. 16.00. Þá verður með sömu rökum fallist á að kærða sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldi stendur. sbr. b. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.
Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kærða, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 29. ágúst 2012 kl. 16:00.
Kærða skal sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldsvist hennar stendur.