Hæstiréttur íslands
Mál nr. 260/2011
Lykilorð
- Sameignarfélag
|
|
Fimmtudaginn 8. desember 2011. |
|
Nr. 260/2011.
|
Eiríkur Ormur Víglundsson og Vélsmiðja Orms og Víglundar sf. (Hróbjartur Jónatansson hrl.) gegn Guðmundi Helga Víglundssyni (Jóhannes Sigurðsson hrl.) |
Sameignarfélag.
Deilt var um hvort ákvörðun félagsfundar V sf. um að víkja G úr félaginu hefði verið réttlætanleg. E og V sf. byggðu m.a. á því að G hefði ekki verið félagsmaður í sameignarfélaginu. Hæstiréttur vísaði til þess að í dómi Hæstaréttar í máli nr. 262/2011 hefði verið komist að þeirri niðurstöðu að G ætti ekki eignarhlut í V sf. en að hann væri félagsmaður með þeim réttindum og skyldum sem því fylgdu. Ekki væri sannað að hann hefði vanefnt félagssamning sameignarfélagsins á þann hátt að heimilt væri að víkja honum úr félaginu. Með vísan til þessa var héraðsdómur staðfestur um að ákvörðun félagsfundar V sf. um brottvikningu G úr félaginu væri ógild.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Greta Baldursdóttir og Viðar Már Matthíasson.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 29. apríl 2011. Samkvæmt áfrýjunarstefnu tekur áfrýjun bæði til dóms Héraðsdóms Reykjaness 1. febrúar 2011 og úrskurðar sama dómstóls 30. júní 2010 þar sem hafnað var frávísunarkröfu áfrýjenda. Þeir krefjast þess aðallega að kröfum stefnda verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að þeir verði sýknaðir af kröfum stefnda. Í báðum tilvikum krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst þess að frávísunarkröfu áfrýjenda verði hafnað og að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Áfrýjandi, Vélsmiðja Orms og Víglundar sf., er sameignarfélag sem stofnað var árið 1973 af Víglundi Guðmundssyni og áfrýjanda Eiríki Ormi Víglundssyni. Víglundur var faðir áfrýjandans Eiríks Orms og stefnda og móðir þeirra var Eyrún Eiríksdóttir, eiginkona Víglundar. Hinn 28. desember 1977 gerðu Víglundur og Eyrún með sér erfðaskrá þar sem meðal annars er ákvæði þess efnis að eignarhluta þeirra í Vélsmiðju Orms og Víglundar sf. skuli áfrýjandinn Eiríkur Ormur erfa, „enda afsali hann sér öllu erfðatilkalli til arfshluta í öðrum eignum“ þeirra og taki að sér ábyrgð og greiðslu á öllum skuldbindingum fyrirtækisins. Samtímis gerð erfðaskrárinnar undirrituðu áfrýjandi Eiríkur Ormur og tvær systur hans yfirlýsingu þar sem þau féllust á framangreint ákvæði erfðarskrárinnar varðandi sameignarfélagið. Stefndi ritaði ekki undir þar sem hann var ófjárráða á þessum tíma.
Samkvæmt félagssamningi um Vélsmiðju Orms og Víglundar sf. milli Víglundar og áfrýjandans Eiríks Orms, sem móttekinn var hjá firmaskrá Reykjavíkur 25. júlí 1980 var eignarhlutur Eiríks Orms 80% en Víglundar 20%. Í samningnum er ákvæði um að andist annar þeirra sé hinum heimilt að halda rekstrinum áfram undir sama firmanafni og hafi ekkja eða erfingjar hins látna, ef þau vilji, rétt til að hlutur hins látna fái að standa áfram í félaginu með sömu skilmálum og greini í samningnum enda hafi þau sömu réttindi og beri sömu skyldur og aðrir félagsmenn.
Eftir andlát Víglundar mun Eyrún hafa fengið leyfi til setu í óskiptu búi þeirra hjóna. Þar með tók hún við eignarhluta Víglundar í sameignarfélaginu. Með tilkynningu Eyrúnar og áfrýjandans Eiríks Orms til firmaskrár Reykjavíkur í ágúst 1984 var þess óskað að þar sem Víglundur væri látinn yrði prókúra hans afmáð úr firmaskrá og jafnframt tilkynnt að framvegis myndi áfrýjandinn Eiríkur Ormur rita firmað. Með bréfi 30. september 1994 tilkynnti Eyrún til firmaskrár Reykjavíkur að aðild hennar að félaginu væri lokið og allar skuldbindingar félagsins frá og með birtingu tilkynningarinnar væru henni með öllu óviðkomandi. Á bréfið rituðu áfrýjandinn Eiríkur Ormur og stefndi að sá síðarnefndi hefði gerst aðili að sameignarfélaginu. Var ekki gengið frá skriflegum samningi milli þeirra við þessa inngöngu stefnda í félagið en í árituninni var tekið fram að áfrýjandinn Eiríkur Ormur og stefndi myndu ábyrgjast skuldbindingar félagsins báðir fyrir annan og annar fyrir báða.
Samkvæmt gögnum málsins stofnuðu áfrýjandinn Eiríkur Ormur og stefndi einkahlutafélagið Vélsmiðju Orms og Víglundar á árinu 2005 í þeim tilgangi að taka yfir rekstur sameignarfélagsins. Eignarhluti áfrýjanda Eiríks Orms var í fyrstu 70% í einkahlutafélaginu en stefnda 30%. Síðar keypti Vélsmiðja Orms og Víglundar sf. 99% hlutafjárins og eftir það átti áfrýjandi Eiríkur Ormur 0,7% og stefndi 0,3%.
Eyrún andaðist 25. apríl 2002 og fengu erfingjar hennar leyfi til einkaskipta. Erfingjar búsins voru fjögur börn hennar, áfrýjandinn Eiríkur Ormur, stefndi, Rannveig Víglundsdóttir og Stefanía Víglundsdóttur. Var skiptum á búinu lokið með einkaskiptagerð 4. júlí 2002. Hrein eign búsins nam samkvæmt skiptagerðinni rúmri 21 milljón króna. Meðal eigna var talið land og veiðiréttur í Skeggjastöðum og var verðmat þessara eigna tilgreint tæp ein milljón króna. Segir í einkaskiptagerðinni, sem allir erfingjar undirrituðu, að þeir hafi orðið einhuga um að skipta búinu þannig að í hlut áfrýjandans Eiríks Orms komi fjórðungur Skeggjastaðalands en að öðru leyti afsali hann sér arfi í samræmi við erfðaskrá 28. desember 1977. Var öðrum eignum skipt jafnt milli annarra erfingja. Eignarhluti í Vélsmiðju Orms og Víglundar sf. var ekki talinn meðal eigna dánarbúsins og ekkert getið um að Eyrún hefði setið í óskiptu búi eftir eiginmann sinn.
Samkvæmt gögnum málsins gekk samstarf bræðranna, áfrýjandans Eiríks Orms og stefnda, vel frá upphafi og höfðu þeir báðir aðalatvinnu sína af starfsemi sameignarfélagsins og síðar einkahlutafélagsins. Á árinu 2009 kom upp ágreiningur milli þeirra sem ekki hefur reynst unnt að leysa. Hinn 10. desember 2009 var haldinn félagsfundur í Vélsmiðju Orms og Víglundar sf. og var efni fundarins samkvæmt fundarboði brottvikning stefnda samkvæmt 36. gr. laga nr. 50/2007 um sameignarfélög. Af hálfu stefnda var ekki mætt á fundinn, en hann hafði tilkynnt fyrir fundinn að hann myndi ekki mæta, þar sem honum væri það ekki heimilt vegna fundarefnisins. Á fundinum var tillaga áfrýjandans Eiríks Orms um að víkja stefnda úr félaginu samþykkt.
Samhliða máli þessu hefur milli sömu aðila verið rekið hæstaréttarmál nr. 262/2011 en dómur í því er einnig kveðinn upp í dag. Í því máli snerist meginágreiningur aðila um hvort stefndi ætti eignarhlut í áfrýjandanum Vélsmiðju Orms og Víglundar sf. og hver réttarstaða hans væri innan sameignarfélagsins.
II
Kröfu sína um frávísun málsins byggja áfrýjendur á því að stefndi hafi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr kröfum sínum þar sem andlag kröfugerðarinnar sé ekki lengur til staðar því búið sé að taka ákvörðun um að slíta áfrýjanda, Vélsmiðju Orms og Víglundar sf. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 30. júní 2010, sem áfrýjun þessi tekur til, var kröfu áfrýjenda um frávísun málsins hafnað. Með vísan til forsendna úrskurðarins verður frávísunarkröfu áfrýjanda hafnað.
Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi snýst ágreiningur aðila um það hvort ákvörðun félagsfundar Vélsmiðju Orms og Víglundar sf. 10. desember 2009 um að víkja stefnda úr félaginu hafi verið réttlætanleg. Byggja áfrýjendur meðal annars á því að stefndi hafi ekki verið félagsmaður í sameignarfélaginu. Í fyrrgreindu hæstaréttarmáli nr. 262/2011 var komist að þeirri niðurstöðu að stefndi ætti ekki eignarhlut í Vélsmiðju Orms og Víglundar sf. en hann væri félagsmaður með þeim réttindum og skyldum sem því fylgdu. Fallist er á það sem fram kemur í héraðsdómi að ósannað sé að stefndi hafi vanefnt félagssamning sameignarfélagsins á þann hátt að heimilt sé að víkja honum úr félaginu. Með þessum athugasemdum verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.
Áfrýjendur verða dæmdir til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjendur, Eiríkur Ormur Víglundsson og Vélsmiðja Orms og Víglundar sf. greiði óskipt stefnda, Guðmundi Helga Víglundssyni, 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 1. febrúar 2011.
Mál þetta, sem tekið var til dóms 20. janúar sl., að undangengnum endurteknum munnlegum málflutningi, var höfðað 8. janúar 2010.
Stefnandi er Guðmundur Helgi Víglundsson, Erluási 15, Hafnarfirði.
Stefndu eru Eiríkur Ormur Víglundsson, Svöluási 48, Hafnarfirði og Vélsmiðja Orms og Víglundar sf., Kaplahrauni 14-16, Hafnarfirði.
Stefnandi krefst þess aðallega að dómurinn staðfesti að ákvörðun félagsfundar, Vélsmiðju Orms og Víglundar sf., sem fram fór 10. desember 2009 um brottvikningu stefnanda úr sameignarfélaginu sé ógild.
Til vara krefst stefnandi þess að ógilt verði með dómi ákvörðun félagsfundar í stefnda, Vélsmiðju Orms og Víglundar sf., sem fram fór 10. desember 2009 um brottvikningu stefnanda úr sameignarfélaginu.
Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmdir til þess að greiða stefnanda málskostnað.
Stefndu krefjast þess að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða þeim málskostnað.
I
Vélsmiðja Orms og Víglundar sf. var stofnuð árið 1973 af Víglundi Guðmundssyni og syni hans, stefnda Eiríki Ormi Víglundssyni. Árið 1984 lést Víglundur Guðmundsson og gerðist ekkja hans, Eyrún Eiríksdóttir, aðili að félaginu. Hinn 30. september 1994 gekk Eyrún úr félaginu og þann sama dag var tilkynnt til firmaskrár Reykjavíkur að stefnandi hefði gerst aðili að félaginu. Fram kemur í tilkynningunni að stefndi, Eiríkur Ormur Víglundsson, og stefnandi myndu ábyrgjast skuldbindingar félagsins báðir fyrir annan og annar fyrir báða. Ástæða þess að Eyrún Eiríksdóttir gekk úr félaginu var sú að skuldastaða félagsins var erfið og vildi hún fá frið fyrir innheimtumönnum félagsins.
Í greinargerð stefndu er rakið að með sameiginlegri og gagnkvæmri erfðaskrá hjónanna Víglundar og Eyrúnar Eiríksdóttur, dagsettri 28. desember 1977, hafi verið kveðið á um að það hjóna sem lengur lifði ætti rétt á að sitja í óskiptu búi, en eftir andlát beggja skyldi allur eignarhlutur búsins í félaginu, Vélsmiðju Orms og Víglundar sf., renna til stefnda Eiríks Orms, en á móti afsalaði stefndi sér tilkalli til arfs að öðrum eignum hjónanna og ábyrgðist greiðslu á öllum skuldum félagsins. Sama dag hafi stefndi Eiríkur Ormur og þeir af erfingjum hjónanna, sem þá hafi verið orðnir lögráða, undirritað yfirlýsingu sama efnis. Stefnandi hafi ekki verið orðinn lögráða á þessum tíma. Við andlát móður þeirra bræðra á árinu 2002 hafi dánarbúinu verið skipt í samræmi við erfðaskrá. Hafi öllum eignum búsins, öðrum en eignarhlut þess í stefnda, Vélsmiðju Orms og Víglundar sf., verið skipt á milli systkina stefnda Eiríks Orms, þeirra Rannveigar, Stefaníu og stefnandans Guðmundar Helga, sbr. einkaskiptagerð dagsett 4. júlí 2002. Hafi þar sérstaklega verið tekið fram að skiptin væru framkvæmd í samræmi við ákvæði erfðaskrár þeirra hjóna frá 1977 og að stefndi Eiríkur Ormur afsalaði sér öllu tilkalli til arfs eftir foreldra sína, að undanteknum hlut stefnda í Skeggjastaðalandi í Mosfellsbæ, sem hann hafi erft eftir afa sinn. Einkaskiptagerð þessi hafi verið undirrituð af öllum erfingjum hjónanna. Með undirritun sinni á gerðina og framkvæmd skiptanna hafi hlutur dánarbúsins í stefnda, Vélsmiðju Orms og Víglundar sf., að öllu leyti fallið til stefnda Eiríks Orms.
Í stefnu segir að bræðurnir hafi um áratugaskeið haft aðalatvinnu af starfsemi sameignarfélagsins og hafi samstarf þeirra verið mjög náið og gott í gegnum tíðina. Það hafi hins vegar breyst í júlímánuði 2009 þegar upp hafi komið ágreiningur á milli bræðranna um stjórnun og eignarhald á annars vegar stefnda, Vélsmiðju Orms og Víglundar sf., og hins vegar Vélsmiðju Orms og Víglundar ehf. Einkahlutafélagið sé í 99% eigu stefnda, Vélsmiðju Orms og Víglundar sf. og því dótturfélag þess, auk þess sem stefnandi eigi beint 0,3% hlut í einkahlutafélaginu og stefndi Eiríkur eigi beint 0,7% hlut. Stefnandi hafi verið stjórnarformaður einkahlutafélagsins og framkvæmdastjóri.
Stefndu mótmæla harðlega þeirri staðhæfingu stefnanda að ágreiningur, sem risið hafi á milli þeirra um mitt sumar 2009, hafi verið um eignarhald og stjórnun félaganna tveggja. Hið rétta sé að ágreiningurinn hafi lotið að skiptingu á hlut stefnanda í landi Skeggjastaða. Afleiðing af þeirri deilu hafi verið sú að stefnandi hafi horfið frá vinnu um miðjan júlí 2009 og ekki snúið aftur til starfa. Í stefnu segir að frá því að ágreiningur aðila kom upp hafi stefndi Eiríkur Ormur ítrekað reynt að bola stefnanda út úr starfsemi félaganna og þannig gengið á rétt stefnanda sem sameiganda í sameignarfélaginu. Þá hafi hann ítrekað reynt með ólögmætum hætti að segja honum upp störfum sem framkvæmdastjóra einkahlutafélagsins og reynt að skipta um stjórn í félaginu með aðgerðum sem ekki hafi samræmst ákvæðum samþykkta einkahlutafélagsins og laga um einkahlutafélög. Í stefnu eru rakin nokkur tilvik þessu til skýringar og í greinargerð er skýrt frá sömu tilvikum en með öðrum hætti. Hafa málsaðilar m.a. deilt um vörslur og umráð stefnanda yfir bifreiðum í eigu sameignarfélagsins annars vegar og einkahlutafélagsins hins vegar.
Með símskeyti dagsettu 26. nóvember 2009 boðaði stefndi Eiríkur Ormur til stjórnarfundar í Vélsmiðju Orms og Víglundar ehf. mánudaginn 30. nóvember 2009. Ekki er getið um dagskrá fundarins í fundarboðinu. Með bréfi dagsettu 30. nóvember 2009 tilkynnti stefnandi að hann gæti ekki mætt til stjórnarfundar á þessum tíma og stakk upp á að fundurinn yrði haldinn þremur dögum síðar eða á öðrum tíma ef mikið lægi við. Óskaði stefnandi eftir því að stjórnarfundarboð yrðu gerð með dagskrá. Þeirri beiðni var hafnað og bókaði stefndi Eiríkur Ormur fund með einum stjórnarmanni þar sem bókað var um ráðningu sonar hans, Ólafs Jóns Ormssonar, sem framkvæmdastjóra og honum sjálfum veitt umboð til að boða til hluthafafundar til að kjósa nýja stjórn í félaginu. Í framhaldinu var tilkynnt til Hlutafélagaskrár að búið væri að ráða nýjan framkvæmdastjóra.
Þann 27. nóvember 2009 lagði stefndi, Eiríkur Ormur Víglundsson, fram tvær aðfararbeiðnir hjá Héraðsdómi Reykjaness annars vegar fyrir hönd Vélsmiðju Orms og Víglundar ehf. og hins vegar fyrir hönd stefnda, Vélsmiðju Orms og Víglundar sf. Með beiðnum þessum var þess krafist að ein bifreið í eigu einkahlutafélagsins og tvær í eigu stefnda, Vélsmiðju Orms og Víglundar sf., sem voru í vörslum stefnanda skyldu teknar úr vörslum hans. Stefnandi mótmælti þessari aðgerð.
Með tölvubréfi dagsettu 1. desember 2009 gerði lögmaður stefnanda Hlutafélagaskrá grein fyrir þróun mála og hélt því fram að stefndi Eiríkur Ormur hefði brotið á rétti stefnanda með því að halda stjórnarfund þar sem hann hafi verið einn viðstaddur og tekið ákvarðanir sem ekki hafi uppfyllt skilyrði samþykkta einkahlutafélagsins og því hafi fundurinn ekki verið bær til að taka ákvörðun um ráðningu nýs framkvæmdastjóra. Hlutafélagaskrá ríkisskattstjóra lýsti því á hinn bóginn yfir í tölvubréfi sama dag að ákvarðanir fundarins hafi verið lögmætar.
Með símskeyti 7. desember 2009 boðaði stefnandi til félagsfundar í sameignarfélaginu. Í fundarboðinu er tekið fram að fundurinn verði haldinn 10. desember 2009, kl. 09.00. Samkvæmt fundarboðun var dagskrá fundarins í fyrsta lagi að fjalla um heimild til þess að fara með atkvæðisrétt stefnda, Vélsmiðju Orms og Víglundar sf., á hluthafafundum í Vélsmiðju Orms og Víglundar ehf. Í öðru lagi að fjalla um heimildir til ráðstöfunar á eignum félagsins og fjármunum og í þriðja lagi önnur mál.
Hinn 9. desember 2009 boðaði stefndi, Eiríkur Ormur Víglundsson, til fundar í sameignarfélaginu með fundarboði sem barst stefnanda kl. 17.00 þann dag. Í fundarboðinu var tekið fram að fundurinn yrði haldinn þann 10. desember 2009 og að hann myndi hefjast kl. 8.30. Samkvæmt fundarboðun átti að fjalla um brottvikningu stefnanda úr félaginu. Þar kom jafnframt fram að tilefni brottvikningar stefnanda úr félaginu væri að stefnandi hefði brotið af sér gagnvart félaginu með því að neita að skila eignum félagsins þrátt fyrir margítrekaðar áskoranir.
Með bréfi lögmanns stefnanda til stefndu, dags. 10. desember 2009, var stefndu tilkynnt að engar forsendur væru fyrir því að taka ákvörðun af þessum toga þar sem skilyrði fyrir slíkri ákvörðun væru ekki fyrir hendi. Þá var tilkynnt að stefnandi myndi ekki mæta til fundarins þar sem honum væri ekki heimilt að fjalla um ákvörðun af þessu tagi. Stefndi Eiríkur Ormur bókaði í fundargerð þá kröfu sína að stefnanda skyldi vikið úr félaginu. Var einnig bókað að stefndi Eiríkur Ormur samþykkti þá kröfu. Kveðst stefndi Eiríkur Ormur hafa gert þetta til að verja réttmætar kröfur sameignarfélagsins um að stefnandi skilaði aftur eignum þess, m.a. með aðför og innsetningu í bifreiðarnar, og til þess að reyna að skapa báðum félögum starfsfrið. Stefnandi segir hins vegar að ljóst sé að engar forsendur hafi verið fyrir þessari bókun stefnda Eiríks og ljóst sé að markmið hennar hafi verið að brjóta með ólögmætum hætti á rétti stefnanda sem sameiganda.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness í málinu nr. A-178/2009, sem kveðinn var upp 11. febrúar 2010, var hafnað kröfu stefnda, Vélsmiðju Orms og Víglundar sf., um að tvær bifreiðar yrðu teknar úr vörslum stefnanda.
Þann 22. febrúar tók Fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra við tilkynningu um stofnun eignarhaldsfélagsins VOOV ehf. Þar kemur fram að stefndi Eiríkur Ormur er stofnandi, stjórnarmaður og framkvæmdastjóri félagsins. Í 5. gr. stofnskrár félagsins kemur fram að hlutafé félagsins sé 10.314.053 krónur og að það greiðist með því að stefndi Eiríkur Ormur leggi inn allar eignir Vélsmiðju Orms og Víglundar sf. sem hann sé einn eigandi að.
Í bréfi Sýslumannsins í Reykjavík til stefnda Eiríks Orms Víglundssonar, dagsettu 17. mars 2010, er greint frá því að tilkynning um brottvikningu stefnanda yrði afmáð úr Firmaskrá Reykjavíkur og skráningu breytt til fyrra horfs.
Með símskeyti stefnanda til stefnda, Eiríks Orms Víglundssonar, dagsettu 7. apríl 2010, var boðað til félagsfundar í Vélsmiðju Orms og Víglundar sf. miðvikudaginn 14. apríl 2010 kl. 15.00. Jafnframt er þar tilkynnt að tekin verði fyrir krafa stefnanda um slit á sameignarfélaginu á grundvelli 38. gr. laga nr. 50/2007 um sameignarfélög. Í þinghaldi máls þessa þann 15. apríl 2010 var lögð fram svohljóðandi bókun stefnda Eiríks Orms: “Vegna skeytis stefnanda, dags. 7. apríl 2010, þar sem boðað er til félagsfundar í stefnda Vélsmiðju Orms og Víglundar sf. er því harðlega mótmælt, að stefnandi hafi heimild til að koma fram f.h. stefnda með þessum hætti. Engu að síður, fellst stefndi Eiríkur O. Víglundsson á kröfu stefnanda um að Vélsmiðju Orms og Víglundar sf. verði tafarlaust slitið og krefst þess að afstaða hans verði bókuð. Jafnframt féll stefndi frá öllum kröfum um lögboðna eða samningsbundna fresti og teljist félaginu slitið hér og nú. Í ljósi þessa er þess krafist að málinu verði tafarlaust vísað frá dómi, ex officio á grundvelli 25. gr. eml. þar sem stefnandi hefur ekki lengur neina hagsmuni af því að fá leyst úr kröfum sínum þar sem andlag kröfugerðarinnar er ekki lengur til staðar. Jafnframt krefjast stefndu málskostnaðar úr hendi stefnanda, en kostnaður stefndu af málinu til dagsins í dag, nemur kr. 523.000,-.” Við svo búið var málinu frestað til munnlegs málflutnings um frávísunarkröfu stefndu. Með úrskurði dómsins, dagsettum 30. júní 2010, var hafnað frávísunarkröfu stefndu í málinu.
Fyrir dómi gáfu skýrslu stefnandi, Guðmundur Helgi Víglundsson, stefndi Eiríkur Ormur Víglundsson, svo og Haukur Gunnarsson löggiltur endurskoðandi.
II
Stefndi Eiríkur Ormur hafi haldið því fram að stefnandi hafi brotið af sér gagnvart félaginu með því að halda fyrir því eignum í þess eigu og neitað að skila þeim eignum þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir. Í fyrsta lagi bendi stefnandi á að um sé að ræða ágreining á milli sameiganda um umráð á bifreiðum í eigu félagsins. Sá ágreiningur hafi verið lagður til úrskurðar hjá Héraðsdómi Reykjaness í tilefni af aðfararbeiðnum stefnda Eiríks Orms. Athygli sé vakin á því að stefndi Eiríkur Ormur sé sjálfur með bifreiðar í eigu félagsins í sínum umráðum. Í öðru lagi bendi stefnandi á að stefndi Eiríkur Ormur hafi ekki heimild samkvæmt lögum til þess að taka upp á sitt eindæmi ákvarðanir fyrir hönd sameignarfélagins um umráðarétt á bifreiðum í eigu félagsins.
Stefnandi kveður rétt að geta þess að hvorki stjórn né framkvæmdarstjóri hafi verið kosin í félaginu og geti því hver og einn félagsmaður aðeins gert ráðstafanir sem séu eðlilegur þáttur í rekstri félagsins og að því tilskyldu að enginn félagsmanna hafi lýst sig mótfallinn ráðstöfuninni, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 50/2007 um sameignarfélög. Ljóst sé að ákvörðun stefnda Eiríks Orms uppfylli hvorugt skilyrði ofangreindrar lagagreinar og því hafi þurft heimild félagsfundar til að taka ákvörðun um ráðstöfun bifreiða sem sameigendur hafa umráð yfir. Sú heimild hafi ekki verið fengin. Fyrir liggi hins vegar ákvörðun löglega boðaðs félagsfundar, þann 10. desember 2009, þar sem þessum aðgerðum stefnda Eiríks Orms hafi verið harðlega mótmælt. Stefndi Eiríkur Ormur hafi því engar heimildir til þess að krefjast þess að stefnandi hafi ekki vörslur bifreiðanna.
Stefnandi kveðst mótmæla því sem fram komi í bókun í framangreindri fundargerð um að hann hafi hlaupist úr starfi framkvæmdarstjóra ofangreinds einkahlutafélags og að hann hafi unnið stefnda, Vélsmiðju Orms og Víglundar sf., tjón. Hið rétta sé að stefndi Eiríkur Ormur hafi með ýmsum hætti reynt að koma í veg fyrir að stefnandi geti sinnt starfi framkvæmdastjóra einkahlutafélagsins. Þá séu fullyrðingar stefnda Eiríks um að stefnandi hafi valdið tjóni algerlega tilhæfulausar enda engin gögn sem bendi til slíks. Það sé ljóst að markmið stefnda Eiríks með þessari háttsemi hafi verið að brjóta á réttindum stefnanda sem sameiganda í félaginu og koma málum þannig fyrir að stefndi gæti ráðskast með sameignarfélagið án þess að taka tillit til hagmuna annars sameigandans. Sé það gróft brot á reglum um sameignarfélög og hagsmunum stefnanda og félagsins.
Stefnandi kveður aðalkröfu sína, um að staðfest verði að ákvörðun um brottvikningu stefnanda úr félaginu sé ógild, byggja á því að þar sem skilyrði 36. gr. laga um sameignarfélög hafi ekki verið uppfyllt sé ákvörðun fundarins markleysa og hafi því engin réttaráhrif. Ljóst sé að háttsemi stefnda, Eiríks Orms Víglundssonar, sé algerlega tilefnislaus, gerð til þess að brjóta á rétti stefnanda og gróf tilraun til brots á lögum um sameignarfélög. Varakrafa stefnanda byggi á því að ef ákvörðunin telst ekki markleysa þá beri í öllu falli að ógilda hana þar sem því fari fjarri að skilyrði 36. gr. laga nr. 50/2007 um sameignarfélög séu uppfyllt.
Hvað lagarök varðar kveðst stefnandi byggja kröfur sínar á lögum nr. 50/2007 um sameignarfélög, einkum 1. mgr. 19. gr. og 36. gr. Kröfu um málskostnað byggi stefnandi á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Mál þetta sé rekið fyrir Héraðsdómi Reykjaness samkvæmt heimild í 1. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
III
Stefndu kveða stefnanda aðallega leita úrlausnar um það hvort sú ákvörðun félagsfundar í stefnda, Vélsmiðju Orms og Víglundar sf., frá 10. desember 2009, að vísa stefnanda úr félaginu sé ógild en til vara sé þess krafist að ákvörðunin verði dæmd ógild. Eins og 36. gr. laga nr. 50/2007 um sameignarfélög beri með sér, sé það forsenda fyrir ógildi ákvörðunar um brottvikningu, að hún hafi verið tekin með ólögmætum hætti. Stefndu fái því ekki séð að neinn eðlismunur sé á aðal- og varakröfu stefnanda og líti stefndu þannig á að í raun sé um sömu kröfuna að ræða.
Kröfu sína um sýknu byggja stefndu á því að eins og málum hafi verið komið milli stefnanda og stefnda Eiríks Orms þá hafi verið algerlega brostinn allur grundvöllur undir frekara samstarfi þeirra á milli innan stefnda Vélsmiðju Orms og Víglundar sf. Stefndi Eiríkur Ormur sé einn eigandi að sameignarfélaginu en aðild stefnanda byggðist á nauðsyn þess að félagið héldi skattalegu sjálfstæði. Hvorki stefnandi né stefndi Eiríkur Ormur hafi haft laun frá stefnda Vélsmiðju Orms og Víglundar sf. heldur hafi báðir verið launaðir starfsmenn Vélsmiðju Orms og Víglundar ehf. Þá hafi allar eignir stefnda Vélsmiðju Orms og Víglundar sf., verið leigðar Vélsmiðju Orms og Víglundar ehf. Stefnandi hafi hvorki fyrr né síðar lagt stefnda Vélsmiðju Orms og Víglundar sf. til fé, eða ábyrgðir umfram persónulega ábyrgð sína eins og getið sé í 2. gr. félagssamningsins. Staðhæfingum í stefnu um eignarhald stefnanda á einhverjum hlut í stefnda Vélsmiðju Orms og Víglundar sf. svo og að stefnandi og stefndi Eiríkur Ormur hafi um áratuga skeið haft aðalatvinnu af starfsemi stefnda, Vélsmiðju Orms og Víglundar sf., séu bæði rangar og þeim mótmælt sem ósönnuðum.
Stuttu fyrir brotthlaup sitt úr starfi framkvæmdastjóra hafi stefnandi tekið ófrjálsri hendi tvær bifreiðar í eigu hins stefnda sameignarfélags svo og verkfæri og önnur tól og tæki í eigu þess, sem notaðar hafi verið í tengslum við starfsemi einkahlutafélagsins. Þótt stefnandi hafi haft aðgang að nefndum bifreiðum jafngildi það á engan hátt því að hann hafi átt að hafa frí afnot af þeim til persónulegra nota. Öllum staðhæfingum um slíkt sé harðlega mótmælt sem bæði röngum og ósönnuðum. Áskilji stefndu sér allan rétt til skaðabóta úr hendi stefnanda vegna þessa. Þessi sjálftaka hafi verið einhliða ákvörðun stefnanda enda liggi hvorki samþykki stefnda Eiríks Orms, sem sé einn í forsvari fyrir Vélsmiðju Orms og Víglundar sf., né annað samkomulag fyrir þessari sjálftöku.
Samkvæmt 19. gr. laga um sameignarfélög sé hverjum félagsmanni einungis heimilt að gera ráðstafanir í nafni félags, sem teljist eðlilegur þáttur í rekstri þess, hafi því hvorki verið skipuð stjórn né ráðinn framkvæmdastjóri. Einkaafnot aðila af tækjum og tólum í eigu sameignarfélags geti á engan hátt talist þáttur í rekstri félagsins, auk þess sem því fari fjarri að slík ráðstöfun hafi verið samþykkt af stefnda Eiríki Ormi. Öllum staðhæfingum í stefnu um að stefnandi hafi haft lögmætar vörslur umræddra bifreiða sé mótmælt sem röngum, enda fáheyrt að starfsmenn félaga séu með þrjár bifreiðar til einkaafnota, eins og stefnandi haldi fram. Á hinn bóginn hljóti það að teljast eðlilegur þáttur í rekstri sameignarfélags að sá sem sé í forsvari fyrir það, geri allt það sem hann geti til að nálgast eigur þess hvar sem þær sé að finna í þeim tilgangi að nýta þær í þágu félagsins og við starfsemi þess. Allar ásakanir stefnanda um heimildarskort stefnda Eiríks Orms til að svipta stefnanda afnotum bifreiðanna séu því með öllu haldslausar og sé þeim hafnað.
Stefndu bendi jafnframt á, að samkvæmt tilkynningu til firmaskrár sem móttekin hafi verið 30. ágúst 1984, hafi í samráði við dánarbú Víglundar Guðmundssonar verið ákveðið að stefndi Eiríkur Ormur skyldi einn rita firma félagsins. Sú ráðstöfun hafi haldist óbreytt þegar skipt hafi verið um aðild dánarbúsins að félaginu með tilkynningunni 30. september 1994. Hafi átt að gera breytingu á þeirri ráðstöfun hafi borið að gera það samhliða þeirri tilkynningu. Þar sem það hafi ekki verið gert verði að líta svo á að stefnandi hafi samþykkt og gengist undir þær ráðstafanir að öllu leyti. Samkvæmt lögum nr. 42/1903 um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð sé ljóst, að sá sem ritar firma sé í forsvari fyrir félag og komi fram fyrir þess hönd. Hann einn hafi heimild til að skuldbinda félag og gera rástafanir í þess nafni. Þó ekki sé það nefnt því nafni samkvæmt lögunum megi engu að síður jafna stöðu þess sem ritar firma til stöðu stjórnar eða framkvæmdastjóra eins og það sé skilgreint í lögum um sameignarfélög. Þá bendi stefndu á, að skýrt sé kveðið á um það í 25. gr. laga um sameignarfélög, að halda skuli eignum skráðra sameignarfélaga aðskildum frá eignum félagsmanna.
Samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laga um sameignarfélög, stafliðum b og c, sé heimilt að víkja félagsmanni úr félagi hafi hann gerst sekur um verulega vanefnd á félagssamningi eða aðrar mikilvægar ástæður krefjist brottvikningar hans. Eins og um geti í 6. mgr. 36. gr. séu ákvæði hennar frávíkjanleg. Greinin telji því ekki á tæmandi hátt þær ástæður sem leitt geti til brottvikningar úr sameignarfélagi. Því verði að líta heildstætt á samskipti aðila. Við skýringu á ákvæði greinarinnar um hvað teljist veruleg vanefnd á félagssamningi sé í athugsemdum með frumvarpi laganna m.a. vísað til skýringa á 32. gr. þeirra. Þar sé tekið fram, að sem dæmi um verulega vanefnd á félagssamningi megi nefna ef einn félagsmaður geri eitthvað í nafni félagsins þrátt fyrir að annar félagsmaður hafi lagt bann við því og beitt neitunarvaldi sínu. Stefnandi hafi því hvorki haft rétt né heimild til að taka margnefndar bifreiðar til sinna persónulegu nota og hafi algerlega hundsað þá afstöðu stefnda Eiríks Orms í þessu máli. Hafi stefnandi þar með brotið verulega og alvarlega gegn félagssamningnum.
Þessu til viðbótar þegar sé litið til háttsemi stefnanda í heild, þar sem hann hafi ítrekað hindrað og reynt að hindra að dótturfélagi stefnda, Vélsmiðju Orms og Víglundar ehf., sé skipuð starfhæf stjórn og ráðinn nýr framkvæmdastjóri sé auðsætt að hann hafi ekki aðeins brotið alvarlega gegn félagssamningi stefnda Vélsmiðju Orms og Víglundar sf. heldur séu jafnframt komnar fram mikilvægar ástæður til þess að víkja honum úr hinu stefnda sameignarfélagi svo koma megi á bæði starfhæfri stjórn og skapa frið um rekstur og starfsemi einkahlutafélagsins.
Það sé því ljóst, að ekki aðeins hafi allar forsendur fyrir brottrekstri stefnanda úr félaginu verið til staðar þegar ákvörðunin var tekin þann 10. desember 2009 heldur hafi það verið knýjandi og brýn þörf á því, til að skapa báðum félögum rekstrar- og starfsfrið. Ákvörðunin hafi verið tekin á formlega réttan hátt og kynnt stefnanda með formlega réttum hætti. Því beri að hafna kröfum stefnanda og sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda.
Stefndu kveðast, til viðbótar þeim lagatilvísunum sem að framan sé getið, vísa til ákvæða laga 42/1903, einkum II kafla laganna. Um málskostnað vísi stefndu til 130. gr., sbr. 129. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála.
IV
Ágreiningur máls þessa er um gildi þeirrar ákvörðunar félagsfundar í stefnda, Vélsmiðju Orms og Víglundar sf., frá 10. desember 2009, að víkja stefnanda úr sameignarfélaginu.
Í félagssamningi sem Víglundur Guðmundsson og stefndi Eiríkur Ormur Víglundsson gerðu með sér og skráður var í firmaskrá 25. júní 1980, kemur fram að þeir reki vélsmiðju í félagi svo og annan skyldan atvinnurekstur undir firmanafninu Vélsmiðja Orms og Víglundar sf. Fram er tekið að hlutur Eiríks Orms nemi 80% en hlutur Víglundar 20% og skuli ágóða og halla af starfsemi félagsins skipt eftir sömu hlutföllum, en gagnvart lánadrottnum skyldu þeir ábyrgjast skuldir félagsins að óskiptu. Eftir andlát Víglundar árið 1984 var tilkynnt til firmaskrár af ekkju hans, Eyrúnu Eiríksdóttur, að firmað yrði eftirleiðis ritað af stefnda, Eiríki Ormi. Þann 30. september 1994 tilkynnti Eyrún til firmaskrár að aðild hennar að rekstri sameignarfélagsins væri lokið. Jafnframt var tilkynnt að stefnandi hefði gerst aðili að sameignarfélaginu. Tekið var fram í tilkynningunni, sem undirrituð er af Eyrúnu Eiríksdóttur, Eiríki Ormi Víglundssyni og Guðmundi Helga Víglundssyni, að stefnandi og stefndi Eiríkur Ormur ábyrgist skuldbindingar félagsins báðir fyrir annan og annar fyrir báða.
Fyrir dómi greindi stefnandi frá því að komið hefði upp mikill ágreiningur milli hans og stefnda Eiríks Orms í júlí 2009 vegna kröfu stefnanda um skiptinu á landi Skeggjastaða. Hefðu þeir bræður ekki ræðst við eftir þetta og svo hefði farið að stefndi Eiríkur Ormur hefði bolað honum út úr störfum og rekstri félaganna og meðal annars skipt um læsingar í hurðum að fyrirtækinu og þannig útilokað hann frá því að sinna starfi sínu sem framkvæmdastjóri einkahlutafélagsins. Fyrir dómi greindi stefndi, Eiríkur Ormur, frá því að krafa stefnanda um að sameign þeirra bræðra í landi Skeggjastaða yrði skipt á milli þeirri hefði valdið deilum þeirra. Hann kannaðist við að hafa skipt um læsingar í hurðum, en það hefði verið gert til að vernda stefnanda ef eitthvað kæmi fyrir í fyrirtækinu, enda hefðu fjölmargir aðrir haft lykil að fyrirtækinu.
Með ákvörðun félagsfundar stefnda, Vélsmiðju Orms og Víglundar sf., þann 10. desember 2009, var samþykkt að kröfu stefnda Eiríks Orms að víkja stefnanda úr sameignarfélaginu. Í fundargerð frá fundinum er upplýst og bókað að til fundarins hafi verið boðað þar sem stefnandi hafi á undanförnum mánuðum, eða frá því að hann hafi hlaupist á brott úr starfi framkvæmdastjóra Vélsmiðju Orms og Víglundar ehf., hegðað sér með þeim hætti að til tjóns horfi fyrir bæði félögin og að útilokað sé að starfa saman að rekstri Vélsmiðju Orms og Víglundar sf. Þannig hafi stefnandi tekið ófrjálsri hendi bifreiðar í eigu félagsins og neiti að skila þeim. Að mati stefnda Eiríks Orms hafi staðan verið orðin svo alvarleg að frekara samstarf hans og stefnda sé með öllu útilokað og geri hann þá kröfu að stefnanda verði vikið úr félaginu. Var það samþykkt með „öllum greiddum atkvæðum.“
Ákvörðun félagsfundar stefnda Vélsmiðju Orms og Víglundar sf. um að víkja stefnanda úr sameignarfélaginu er byggð á heimild í 36. gr. laga nr. 50/2007 um sameignarfélög. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt að víkja félagsmanni úr sameignarfélagi með skriflegri tilkynningu ef bú hans hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta, eða hann er af öðrum ástæðum ófær um að standa við skuldbindingar sínar; ef félagsmaður hefur gerst sekur um verulega vanefnd á félagssamningi; eða ef mikilvægar ástæður krefjast brottvikningar hans. Í athugasemdum í frumvarpi því er varð að framangreindum lögum er tekið fram að veruleg vanefnd á félagssamningi veiti rétt til brottvikningar. Um geti verið að ræða brot á skyldum samkvæmt félagssamningi sem leiði af ákvæðum hans eða samkvæmt lögum eða öðrum almennum meginreglum sem gildi um samninginn.
Af hálfu stefndu er öðrum þræði byggt á því í málinu að stefnandi hafi ekki verið félagsmaður í sameignarfélaginu heldur aðili. Sú fullyrðing stefndu er í andstöðu við kröfu stefnda, Eiríks Orms Víglundssonar, í fundargerð frá félagsfundi í Vélsmiðju Orms og Víglundar sf. frá 10. desember 2009 um að víkja stefnanda „tafarlaust úr félaginu“. Þá liggur fyrir að stefnandi er skráður eigandi að sameignarfélaginu hjá firmaskrá og er við það miðað við úrslausn þessa máls að stefnandi hafi gerst sameigandi að félaginu með tilkynningu til firmaskrár Reykjavíkur, dagsettri 30. september 1994, þar sem stefnandi tókst á hendur ábyrgð á skuldbindingum félagsins til jafns við stefnda, Eirík Orm Víglundsson. Við það er einnig miðað að sameignarfélag sé félag í eigu tveggja eða fleiri félagsmanna og því komi ekki til álita að stefndi Eiríkur Ormur hafi verið eini eigandi félagsins frá árinu 1994.
Tilefni kröfu stefnda Eiríks Orms um brottvikningu stefnanda úr sameignarfélaginu eru sagðir samstarfsörðugleikar bræðranna sem þeir eru sammála um að stafi af ágreiningi þeirra vegna Skeggjastaðalands. Forsenda kröfunnar er einnig sögð vera vegna hegðunar stefnanda að undanförnu sem horfi til tjóns fyrir bæði félögin. Þá hafi stefnandi neitað að skila tveimur bifreiðum sameignarfélagsins í hans vörslum. Hvað varðar ágreining vegna bifreiða félagsins í vörslum stefnanda þá liggur fyrir að leyst var úr þeim ágreiningi með úrskurði dómsins frá 11. febrúar 2010 þar sem hafnað var kröfu stefndu um að bifreiðarnar yrðu teknar úr vörslum stefnanda og umráð þeirra fengin stefndu. Framhjá því verður ekki horft við mat á gildi hinnar umþrættu ákvörðunar að stefndi Eiríkur Ormur lagði þann ágreining fyrir dóm með aðfararbeiðni dagsettri 27. nóvember 2009. Um það hvort framkoma stefnanda að undanförnu hafi valdið sameignarfélaginu eða muni valda tjóni, þá liggur ekkert fyrir um það meðal málsgagna að svo sé. Í máli stefnda Eiríks Orms fyrir dómi kom fram að viðskiptabanki félagsins neitaði því um verkábyrgðir vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Um þetta liggur ekkert fyrir í málinu og verður ekki annað séð en að slík neitun, sé hún fyrir hendi, og meint brotthlaup stefnanda úr starfi framkvæmdastjóra einkahlutafélagsins snúi að því félagi en ekki sameignarfélaginu og geti ekki réttlætt ákvörðun félagsfundar stefnda, Vélsmiðju Orms og Víglundar sf. um að víkja stefnanda úr félaginu.
Samkvæmt framangreindu hafa stefndu ekki að mati dómsins fært fram haldbær rök fyrir því að stefnandi hafi vanefnt félagssamninginn verulega eða að aðrar mikilvægar ástæður réttlæti ákvörðun um að víkja stefnanda úr sameignarfélaginu. Þykja því ekki hafa verið uppfyllt skilyrði 1. mgr. 36. gr. laga nr. 50/2007 til að víkja stefnanda úr hinu stefnda sameignarfélagi. Ákvörðun félagsfundar stefnda 10. desember 2009 um að víkja stefnanda úr hinu stefnda félagi er þannig ógild frá upphafi og markleysa. Í samræmi við það verður aðalkrafa stefnanda í málinu tekin til greina.
Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefndu in solidum gert að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 500.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Er þá tekið mið af því að samhliða þessu máli hafa sömu aðilar rekið dómsmál sín á milli um tengt álitaefni, málið nr. E- 1433/2010.
Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð:
Ákvörðun félagsfundar stefnda, Vélsmiðju Orms og Víglundar sf., sem fram fór 10. desember 2009 um brottvikningu stefnanda, Guðmundar Helga Víglundssonar, úr sameignarfélaginu er ógild.
Stefndu, Eiríkur Ormur Víglundsson og Vélsmiðja Orms og Víglundar sf. greiði stefnanda 500.000 krónur í málskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. júní 2010.
I.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 26. maí sl., er höfðað með áritun á stefnu hinn 8. janúar 2010.
Stefnandi er Guðmundur H. Víglundsson, kt. 110262-4699, Erluási 15, Hafnarfirði.
Stefndu eru Eiríkur Ormur Víglundsson, kt. 260650-3789, Svöluási 48, Hafnarfriði og Vélsmiðja Orms og Víglundar sf., kt. 411173-0629, Kaplahrauni 14-16, Hafnarfirði.
Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega að dómurinn staðfesti að ákvörðun félagsfundar, Vélsmiðju Orms og Víglundar sf., sem fram fór þann 10. desember 2009 um brottvikningu stefnanda úr sameignarfélaginu sé ólögmæt.
Til vara krefst stefnandi þess að ógilt verði með dómi ákvörðun félagsfundar í stefnda, Vélsmiðju Orms og Víglundar sf., sem fram fór þann 10. desember 2009 um brottvikningu stefnanda úr sameignarfélaginu.
Þá krefst stefnandi að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda málskostnað að mati dómsins í samræmi við hagsmuni málsins, vinnu málflytjanda og annan kostnað af málinu.
Dómkröfur stefndu eru þær samkvæmt greinargerð að þeir verði alfarið sýknaðir af öllum kröfum stefnanda.
Þá krefjast stefndu málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda, að mati dómsins.
Við fyrirtöku málsins hinn 15. apríl sl. var þess krafist af hálfu stefndu að málinu yrði tafarlaust vísað frá dómi ex officio á grundvelli 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Jafnframt kröfðust stefndu málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Af hálfu stefnanda er þess krafist að frávísunarkröfu stefndu verði hafnað og að stefnanda verði dæmdur málskostnaður fyrir þennan þátt málsins.
Krafa stefndu um frávísun málsins er hér einungis til meðferðar.
II.
Hið stefnda félag, Vélsmiðja Orms og Víglundar sf. var stofnað árið 1973 af Víglundi Guðmundssyni og syni hans stefnda, Eiríki Ormi Víglundssyni. Árið 1984 lést Víglundur Guðmundsson og gerðist ekkja hans, Eyrún Eiríksdóttir, aðili að félaginu. Hinn 30. september 1994 gekk Eyrún úr félaginu og þann sama dag var með tilkynningu til firmaskrár Reykjavíkur tilkynnt að stefnandi hefði gerst aðili að félaginu. Auk þess kom fram í tilkynningunni að stefndi, Eiríkur Ormur Víglundsson, og stefnandi myndu ábyrgjast skuldbindingar félagsins báðir fyrir annan og annar fyrir báða. Ástæða þess að Eyrún Eiríksdóttir gekk úr félaginu var sú að skuldastaða félagsins var erfið og vildi hún fá frið fyrir innheimtumönnum félagsins. Frá þessum tíma hafa bræðurnir Eiríkur og Guðmundur verið einu sameigendur að félaginu.
Í greinargerð stefndu er rakið að með sameiginlegri og gagnkvæmri erfðaskrá hjónanna Víglundar og Eyrúnar Eiríksdóttur, dags. 28. desember 1977, hafi verið kveðið á um að það sem lengur lifði ætti rétt á að sitja í óskiptu búi, en eftir andlát beggja skyldi allur eignarhlutur búsins í félaginu Vélsmiðja Orms og Víglundar sf. renna til stefnda Eiríks, en á móti afsalaði stefndi Eiríkur sér tilkalli til arfs af öðrum eignum hjónanna og ábyrgðist greiðslu á öllum skuldum félagsins. Sama dag hafi stefndi Eiríkur og þeir af erfingjum hjónanna, sem þá hafi verið orðnir lögráða, undirritað yfirlýsingu sama efnis. Stefnandi hafi ekki verið orðinn lögráða á þessum tíma.
Við andlát móður þeirra bræðra á árinu 2002 hafi dánarbúinu verið skipt í samræmi við erfðaskrá. Hafi öllum eignum búsins, öðrum en eignarhlut þess í stefnda Vélsmiðju Orms og Víglundar sf. verið skipt á milli systkina stefnda Eiríks, þeirra Rannveigar, Stefaníu og stefnandans Guðmundar Helga, sbr. einkaskiptagerð dags. 4. júlí 2002. Hafi þar verið sérstaklega tekið fram að skiptin væru framkvæmd í samræmi við ákvæði erfðaskrár þeirra hjóna frá 1977 og að stefndi Eiríkur afsalaði sér öllu tilkalli til arfs eftir foreldra sína, að undanteknum hlut stefnda í Skeggjastaðalandi, sem hann hafi erft eftir afa sinn.
Einkaskiptagerð þessi hafi verið undirrituð af öllum erfingjum hjónanna. Með undirritun sinni á gerðina og framkvæmd skiptanna hafi hlutur dánarbúsins í stefnda Vélsmiðju Orms og Víglundar sf. að öllu leyti fallið til stefnda Eiríks.
Í stefnu segir að bræðurnir hafi um áratugaskeið haft aðalatvinnu af starfsemi sameignarfélagsins. Samstarf þeirra hafi verið mjög náið og gott í gegnum tíðina. Þetta hafi hins vegar breyst í júlímánuði 2009 þegar upp hafi komið ágreiningur á milli bræðranna um stjórnun og eignarhald á annars vegar stefnda, Vélsmiðju Orms og Víglundar sf., og hins vegar Vélsmiðju Orms og Víglundar ehf. Einkahlutafélagið sé í 99% eigu stefnda, Vélsmiðju Orms og Víglundar sf., auk þess sem stefnandi eigi beint 0,3% hlut í einkahlutafélaginu og stefndi Eiríkur eigi beint 0,7% hlut. Stefnandi hafi verið stjórnarformaður einkahlutafélagsins og framkvæmdastjóri.
Í greinargerð er mótmælt harðlega þeirri staðhæfingu stefnanda að ágreiningur, sem risið hafi á milli þeirra um mitt sumar 2009, hafi verið um eignarhald og stjórnun félaganna tveggja. Hið rétta sé að ágreiningurinn hafi lotið að skiptingu á hlut stefnanda í landi Skeggjastaða. Afleiðing af þeirri deilu hafi verið sú að stefnandi hafi horfið frá vinnu um miðjan júlí 2009 og ekki snúið aftur til starfa.
Í stefnu segir að frá því að ágreiningur aðila kom upp hafi stefndi Eiríkur ítrekað reynt að bola stefnanda út úr starfsemi félaganna og þannig gengið á rétt stefnanda sem sameiganda í sameignarfélaginu. Þá hafi hann ítrekað reynt með ólögmætum hætti að segja honum upp störfum sem framkvæmdastjóra einkahlutafélagsins og reynt að skipta um stjórn í einkahlutafélaginu með aðgerðum sem ekki hafi samræmst ákvæðum samþykkta einkahlutafélagsins og laga nr. 138/194 um einkahlutafélög. Í stefnu eru rakin nokkur tilvik þessu til skýringar og í greinargerð er skýrt frá sömu tilvikum en með öðrum hætti. Hafa málsaðilar m.a. deilt um vörslur og umráð stefnanda yfir bifreiðum í eigu sameignarfélagsins annars vegar og einkahlutafélagsins hins vegar.
Hinn 9. desember 2009 boðaði stefndi Eiríkur til fundar í sameignarfélaginu með fundarboði sem barst stefnanda kl. 17.00 þann dag. Í fundarboðinu var tekið fram að fundurinn yrði haldinn þann 10. desember 2009 og að hann myndi hefjast kl. 8.30. Samkvæmt fundarboðun átti að fjalla um brottvikningu stefnanda úr félaginu. Þar kom jafnframt fram að tilefni brottvikningar stefnanda úr félaginu væri að stefnandi hefði brotið af sér gagnvart félaginu með því að neita að skila eignum félagsins þrátt fyrir margítrekaðar áskoranir.
Með bréfi lögmanns stefnanda til stefndu, dags. 10. desember 2009, var stefndu tilkynnt að engar forsendur væru fyrir því að taka ákvörðun af þessum toga þar sem því færi fjarri að skilyrði fyrir slíkri ákvörðun væri fyrir hendi. Þá var tilkynnt að stefnandi myndi ekki mæta til fundarins þar sem honum væri ekki heimilt að fjalla um ákvörðun af þessu tagi.
Þrátt fyrir þessi andmæli bókaði stefndi Eiríkur í fundargerð þá kröfu sína að stefnanda skyldi vikið úr félaginu. Var einnig bókað að stefndi Eiríkur samþykkti þá kröfu. Kveðst stefndi Eiríkur hafa gert þetta til að verja réttmætar kröfur sameignarfélagsins um að stefnandi skilaði aftur eignum þess, m.a. með aðför og innsetningu í bifreiðarnar, og til þess að reyna að skapa báðum félögum starfsfrið.
Stefnandi segir hins vegar að ljóst sé að engar forsendur hafi verið fyrir þessari bókun stefnda Eiríks og ljóst sé að markmið hennar hafi verið að brjóta með ólögmætum hætti á rétti stefnanda sem sameiganda og því sé mikilvægt að fá staðfestingu dóms á ólögmæti þessarar háttsemi stefnda Eiríks.
Í þinghaldi 15. apríl sl. var lagt fram af hálfu stefndu símskeyti stefnanda til stefnda Eiríks þar sem boðað er til félagsfundar í Vélsmiðju Orms og Víglundar sf. miðvikudaginn 14. apríl 2010 kl. 15.00. Jafnframt er þar tilkynnt að tekin verði fyrir krafa stefnanda um slit á sameignarfélaginu á grundvelli 38. gr. laga nr. 50/2007 um sameignarfélög.
Jafnframt var af hálfu stefndu lögð fram svohljóðandi bókun:
“Vegna skeytis stefnanda, dags. 7. apríl 2010, þar sem boðað er til félagsfundar í stefnda Vélsmiðju Orms og Víglundar sf. er því harðlega mótmælt, að stefnandi hafi heimild til að koma fram f.h. stefnda með þessum hætti.
Engu að síður, fellst stefndi Eiríkur O. Víglundsson á kröfu stefnanda um að stefnda VOOV sf. verði tafarlaust slitið og krefst þess að afstaða hans verði bókuð. Jafnframt fellur stefndi frá öllum kröfum um lögboðna eða samningsbundna fresti og telst félaginu slitið hér og nú.
Í ljósi þessa er þess krafist að málinu verði tafarlaust vísað frá dómi, ex officio á grundvelli 25. gr. eml. þar sem stefnandi hefur ekki lengur neina hagsmuni af því að fá leyst úr kröfum sínum þar sem andlag kröfugerðarinnar er ekki lengur til staðar.
Jafnframt krefjast stefndu málskostnaðar úr hendi stefnanda, en kostnaður stefndu af málinu til dagsins í dag, nemur kr. 523.000,-.”
III.
Við munnlegan málflutning um frávísunarkröfu stefndu var á það bent að frávísunarkrafan hefði ekki verið sett fram í greinargerð. Unnt væri hins vegar að setja fram frávísunarkröfu í málinu á síðari stigum án þess að framhaldsstefna, enda hefði frávísunarkröfunni ekki verið mótmælt af hálfu stefnanda þegar hún var sett fram 15. apríl sl. Samkvæmt 1. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skyldi krafan því hljóta umfjöllun.
Eins og fram komi í bókun á dskj. nr. 68 sé þess krafist að málinu verði tafarlaust vísað frá dómi, ex officio á grundvelli 25. gr. eml. þar sem stefnandi hafi ekki lengur neina hagsmuni af því að fá leyst úr kröfum sínum þar sem andlag kröfugerðarinnar sé ekki lengur til staðar.
Samkvæmt 37. gr. laga nr. 50/2007 um sameignarfélög teljist félaginu slitið verði félagsmenn í óskráðu félagi færri en tveir eða hafi félagsmenn í skráðu félagi verið færri en tveir í sex mánuði. Eins og fram kæmi á dskj. nr. 66 hafi verið búið að óska eftir afskráningu félagsins áður en krafa um frávísun var gerð.
Þá benda stefndu á að samkvæmt 36. gr. sömu laga geti hinn brottrekni ekki borið brottvikninguna undir dómstóla.
Sameignarfélag stofnist með samkomulagi og getið félagið liðið undir lok með jafn óformlegum hætti. Báðir málsaðilar hafi lýst vilja sínum til þess að slíta félaginu. Ákvæði 4. mgr. 38. gr. laga nr. 50/2007 um sameignarfélög, um að ákvörðun um slit skráðs félags skuli þegar tilkynnt firmaskrá, sé eingöngu sett til verndar þriðja manni. Starfsemi sameignarfélag byggist eðli málsins samkvæmt á nánu samstarfi eigenda. Ekki sé því hægt að krefjast þess að verða dæmdur inn í sameignarfélag.
Með því að samkomulag hafi náðst um slit á sameignarfélaginu eigi stefnandi enga lögmæta hagsmuni af því að fá úrlausn um lögmæti brottvikningar hans úr félaginu. Sameignarfélagið sé ekki lengur til burt séð frá því hvort sýslumaður hafi afmáð það úr bókum sínum eða ekki.
Deilan snúist nú um það eitt hvaða tilkall stefnandi geti gert til eigna félagsins, þ.e. hvort stefnandi eigi einhverja kröfu á hendur stefndu. Stefnandi hafi nú þingfest mál þar sem hann krefjist slita á félaginu og hlutdeildar í eignum þess. Ekki sé því rétt að stefnandi eigi engan rétt á að fá úrlausn sinna mála ef hann er ekki félagsmaður í sameignarfélaginu. Staða stefnanda hafi ekkert breyst að þessu leyti þótt honum hafi verið vikið úr félaginu.
Stefndu benda á að 36. gr. laga nr. 50/2007 um sameignarfélög geri ráð fyrir að unnt sé að víkja manni úr sameignarfélagi. Uppgjör fari síðan fram samkvæmt 32. og 33. gr. laganna. Uppgjör í lok síðasta árs sýni hins vegar að stefnandi eigi ekkert inni í sameignarfélaginu.
Aðila greini á um eignarhald hvors um sig í félaginu. Niðurstaða þessa máls skipti engu máli um framhaldið. Ekkert muni breytast við efnislega úrlausn þessa máls.
Þá benda stefndu á að fundur sem stefnandi hafi boðað til hinn 14. apríl sl. sé hrein og klár markleysa þar sem stefnandi hafi ekki haft neina stöðu til að boða til fundar í nafni félagsins. Stefnandi hafi enga stöðu innan félagsins þar sem búið sé að reka hann úr félaginu. Í bókun á dskj. nr. 68 felist engin viðurkenning á kröfum stefnanda. Búið sé að vísa honum úr félaginu og því geti hann ekki krafist slita á því.
IV.
Verði litið svo á að frávísunarkrafan komist að í málinu kveðst stefnandi byggja á því að hann hafi lögmæta hagsmuni af því að fá efnislega úrlausn málsins.
Ef brottvikning hans úr félaginu telst lögmæt eigi hann engan rétt sem félagsmaður til að krefjast slita á félaginu o.s.frv. Mjög brýnt sé að fá úr því skorið hvort brottvikning stefnanda er lögmæt eða ekki fyrir framhald málsins. Stefndi hafi freistað þess að reka stefnanda úr félaginu til þess að koma í veg fyrir að hann geti notið réttinda sinna sem félagsmaður.
Stefnandi bendir á að á dskj. nr. 51 komi fram að aðeins hafi verið tekin ákvörðun um brottvikningu stefnanda en ekki um slit á félaginu. Brottvikningin hafi verið tilkynnt til firmaskrár, sbr. dskj. nr. 52, þrátt fyrir að ágreiningur sé um slit á félaginu. Samkvæmt 37.gr. laga nr. 50/2007 teljist félagi hins vegar slitið ef aðilar að því eru færri en tveir. Því hefði með réttu átt að tilkynna einnig um slit á félaginu. Kveðst stefnandi telja að ástæða þess að stefndi Eiríkur óskaði ekki eftir slitum á félaginu sé sú að þá hefðu þurft að fara fram skipti á eignum félagsins, sem þriðji maður hefði annast.
Stefnandi kveður stefnda Eirík hafa reynt að koma eignum félagsins undan sameignarfélaginu, sbr. dskj. nr. 61 og 62. Stefnandi hafi því verulega hagsmuni af því að fá úr því skorið hvort ákvörðun stefnda um brottvikningu hans úr félaginu er lögmæt eða ekki.
Stefnandi kveðst hafa boðað til fundar til að fjalla um slit á félaginu, en stefndi hafi ekki mætt til þess fundar. Í kjölfarið hafi bókun á dskj. nr. 68 verið lögð fram í málinu af hálfu stefnda. Stefnandi hafi sem sagt óskað eftir slitum á félaginu og stefndi samþykkt þá kröfu með bókun á dskj. nr. 68. Þá sé hins vegar eftir að taka ákvörðun um skipti, sbr. 39. gr. laga nr. 50/2007 um sameignarfélög. Stefnandi kveðst krefjast helmingaskipta á eignum félagsins og að skipuð verði skilanefnd. Stefnandi geti eingöngu gert kröfu um þetta ef hann er félagsmaður í sameignarfélaginu. Málið snúist um það hvort stefnandi eigi félagsréttindi sem hann geti beitt við slit á félaginu eða ekki.
Stefnandi bendir á að samkvæmt 6. mgr. 42. gr. laga nr. 50/2007 um sameignarfélög sé félagi ekki slitið fyrr en úthlutunargerð hefur verið staðfest á félagsfundi. Þá bendir stefnandi á að málsaðilar beri óskipta ábyrgð á skuldbindingum félagsins og samkvæmt 43. gr. beri félagsmenn sömu ábyrgð og áður gagnvart kröfuhöfum sem ekki hafi fengið kröfur sínar greiddar við skiptin. Ekkert liggi fyrir um það hvort skuldir Vélsmiðju Orms og Víglundar sf. hafi verið greiddar eða ekki.
Ljóst sé að félagsmaður í sameignarfélagi geti borið brottvikningu úr félagi undir dómstóla þar sem hann hafi lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti brottvikningarinnar.
V.
Eins og fram hefur komið kröfðust stefndu þess við fyrirtöku málsins hinn 15. apríl sl. að málinu yrði vísað frá ex officio á grundvelli 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Með því að tilefni til að gera frávísunarkröfu þessa kom fyrst upp við fyrirtöku málsins hinn 15. apríl sl. og grundvöllur kröfunnar er þess eðlis að frávísun kemur til greina ex officio verður fallist á með stefnanda að krafan komist að málinu, enda var kröfunni ekki mótmælt af hálfu stefnanda þegar hún kom fram.
Af hálfu stefndu er því haldið fram að þar sem stefnandi hafi krafist slita á félaginu og stefndi Eiríkur fallist á þá kröfu og jafnframt fallið frá kröfum um lögboðna og samningsbundna fresti sé félaginu þar með slitið. Stefnandi hafi því ekki lögmæta hagsmuni af því að fá skorið úr um kröfur sínar í málinu þar sem andlag kröfugerðarinnar sé ekki lengur til staðar, eins og það er orðað.
Samkvæmt almennum reglum á sá sem vikið er úr sameignarfélagi rétt á að leita réttar síns fyrir dómstólum, sbr. ummæli í athugasemdum við 36. gr. í frumvarpi til laga nr. 50/2007 um sameignarfélög.
Samkvæmt 38. gr. laga nr. 50/2007 um sameignarfélög getur félagsmaður krafist slita á félaginu að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, m.a. þegar mikilvægar ástæður krefjast félagsslita, sbr. b-lið 1. mgr. greinarinnar. Í athugasemdum við greinina í lagafrumvarpinu segir að sem dæmi um mikilvæga ástæðu, sem réttlætt geti félagsslit skv. b-lið, megi nefna samstarfsörðugleika milli félagsmanna án þess að fyrir liggi vanefndir af þeirra hálfu. Þá getur félagsmaður krafist þess skv. 39. gr. laganna að félagsfundur kjósi skilanefnd og að skuldir félagsins verði greiddar við skiptin eða að tekið sé frá fé til að tryggja greiðslu þeirra og umdeildra krafna, sbr. 2. mgr. 42. gr. laganna.
Samkvæmt 5. og 6. mgr. 42. gr. laganna lýkur skiptum með því að tillaga að úthlutunargerð og lokareikningum félagsins er lögð fram á félagsfundi til staðfestingar. Þegar um skráð sameignarfélög er að ræða ber að tilkynna firmaskrá að skiptum sé lokið og að félaginu hafi verið slitið.
Samkvæmt framangreindu er skráðu félagi fyrst slitið þegar fjárhagslegt uppgjör hefur farið fram. Í 4. mgr. 38. gr. er hins vegar eingöngu kveðið á um að tilkynna skuli til firmaskrár þegar ákvörðun hefur verið tekin um slit skráðs félags, þ.e. að tilkynna skuli að til standi að slíta félaginu. Óumdeilt er að stefndi Vélsmiðja Orms og Víglundar sf. er skráð félag. Með vísan til framangreinds telst félaginu því fyrst slitið þegar úthlutunargerð og lokareikningar félagsins hafa verið staðfestir á félagsfundi og tilkynnt hefur verið til firmaskrár að skiptum sé lokið og félaginu slitið.
Samkvæmt 33-35. gr., sbr. 5. mgr. 36. gr. laganna gilda eðli málsins samkvæmt annars konar reglur um fjárhagslegt uppgjör við brottvikningu og úrsögn úr sameignarfélagi en þegar því er slitið. Ljóst er að sá, sem vikið hefur verið úr félaginu nýtur ekki lengur réttinda sem félagsmaður í sameignarfélaginu. Getur hann t.d. ekki krafist slita á félaginu samkvæmt 38. gr. og getur þar af leiðandi ekki krafist þess að gripið verði til þeirra ráðstafana sem kveðið er á um í 39. - 42. gr. laganna.
Málatilbúnaður stefndu verðu ekki skilinn á annan hátt en að stefndu byggi bæði á því að stefnanda hafi verið vikið úr félaginu og geti því ekki krafist skipta á félaginu eða notið annarra félagsréttinda samkvæmt ákvæðum laga nr. 50/2007, svo og því að samkomulag hafi náðst með aðilum um slit á félaginu og að félaginu sé þar með slitið. Ljóst er því að óvissa ríkir um réttarstöðu stefnanda gagnvart sameignarfélaginu.
Með vísan til alls framangreinds er fallist á með stefnanda að hann hafi lögmæta hagsmuni af því að fá úr því skorið hvort brottvikning hans úr félaginu er lögmæt eða ekki.
Með vísan til alls framangreinds er frávísunarkröfu stefndu hafnað.
Ákvörðun málskostnaðar bíður endanlegs dóms í málinu.
Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn. Uppkvaðning úrskurðarins hefur dregist vegna embættisanna dómara.
Úrskurðarorð:
Frávísunarkröfu stefndu, Eiríks Orms Víglundssonar og Vélsmiðju Orms og Víglundar sf., er hafnað.
Ákvörðun málskostnaðar bíður endanlegs dóms.