Hæstiréttur íslands
Mál nr. 143/2004
Lykilorð
- Líkamsárás
- Skilorð
- Miskabætur
|
|
Fimmtudaginn 21. október 2004. |
|
Nr. 143/2004. |
Ákæruvaldið(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn Sverri Þór Skaftasyni (Benedikt Ólafsson hdl.) |
Líkamsárás. Skilorð. Miskabætur.
S var dæmdur til tveggja mánaða skilorðsbundinnar fangelsisvistar fyrir líkamsárás, með því að hafa veist að J og slegið hann í andlitið og sparkað í hann í átökum sem urðu milli þeirra. Við ákvörðun refsingar var litið til ákvæðis 3. mgr. 218. gr. a almennra hegningarlaga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Guðrún Erlendsdóttir og Hrafn Bragason.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 2. apríl 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar héraðsdóms um sakfellingu ákærða og þyngingar refsingar. Þá krefst hann þess, að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 240.767 krónur með dráttarvöxtum frá 27. júlí 2003 til greiðsludags.
Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins en til vara að refsing verði milduð.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um annað en dráttarvexti af bótakröfu, sem dæmdir verða frá 10. október 2003, er mánuður var liðinn frá því að ákærða var birt krafan.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en dráttarvexti af bótakröfu, sem dæmdir verða frá 10. október 2003 til greiðsludags.
Ákærði, Sverrir Þór Skaftason, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Benedikts Ólafssonar héraðsdómslögmanns, 150.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 5. mars 2004.
Mál þetta, sem dómtekið var 20. febrúar s.l., hefur sýslumaðurinn á Akureyri höfðað hér fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra með ákæru útgefinni 30. september 2003, á hendur Sverri Þór Skaftasyni, kt. 120383-3299, Lækjarstíg 7, Dalvíkurbyggð:
„fyrir líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 26. janúar 2003 við Nætursöluna Strandgötu 6 Akureyri, veist að J og slegið hann a.m.k. tveimur höggum í andlitið og sparkað í hann í átökum sem urðu milli þeirra, með þeim afleiðingum að hann hlaut glóðarauga á báðum augum, áberandi roða og mar undir vinstra auga, mar á vinstra brjóstvöðva, ca 2-3 cm á stærð og eymsli, þreifieymsli yfir miðjum brjósthrygg, auk þess sem lítið gat kom á miðhluta hljóðhimnu hægra eyra
Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. laga nr. 19, 1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20, 1981.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Í málinu gerir Þorsteinn Hjaltason hdl. fyrir hönd J kröfu á hendur ákærða til greiðslu bóta að fjárhæð kr. 240.767, með dráttarvöxtum frá 27. júlí 2003 til greiðsludags.“
Af hálfu ákærða er aðallega krafist sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefst skipaður verjandi ákærða hæfilegra málsvarnarlauna úr ríkissjóði sér til handa.
I.
Samkvæmt lögregluskýrslum eru málsatvik þau að sunnudaginn 26. janúar 2003 kl. 04:03 voru þrír lögreglumenn staddir í lögreglubifreiðinni 24-119 á Strandgötu, er þeir sáu hvar tveir menn voru í ryskingum austan við Nætursöluna að Strandgötu 6. Þegar þeir nálguðust mennina sáu þeir ákærða lemja tveimur hnefahöggum í andlit J sem stóð þá gegnt honum, er lögreglumennirnir komu út úr bifreiðinni höfðu þeir J og ákærði farið í sitt hvora áttina. Höfðu lögreglumenn tal af þeim og voru þeir beðnir að koma inn í lögreglubifreiðina þar sem rætt var við þá. Fólk sem var á staðnum virtist ekki hafa áhuga á að skipta sér af málinu og hvarf allt á braut.
Samkvæmt lögregluskýrslu var ákærði spurður um tildrög slagsmálanna og var hann mjög kokhraustur og upptekinn af því að gera lítið úr frammistöðu J í slagsmálunum og þá um leið að upphefja sjálfan sig í þeim efnum. Gat hann litlar skýringar gefið á tilefni áfloganna eða hvernig þau hófust. Sagðist hann hafa verið við Nætursöluna þegar hann hafi gengið fram á J, sem þá hafði verið fyrir honum, hann hafið þá sagt honum að færa sig og ýtt við honum í leiðinni. Sagði ákærði að J hefði þá ráðist á sig og kýlt sig. Aðspurður um það hvort það hafi verið eitthvað þröngt um hann við Nætursöluna og því ástæða til að ýta við J, sagði ákærð það ekki hafa verið. J hefði bara verið fyrir honum á þeirri leið sem hann var að fara.
Samkvæmt skýrslunni var ákærði undir áhrifum áfengis en jafnvægi stöðugt og málfar skýrt. Engin sýnilegir áverkar voru á ákærða.
Lögreglumenn ræddu einnig við J í lögreglubifreiðinni. Samkvæmt lögregluskýrslunni sagði J ákærða hafa verið að abbast eitthvað upp á sig og hafi hann þá spurt ákærða hvort hann ætti að þekkja hann. Þá hafi ákærði ráðist á hann og hafi orðið átök á milli þeirra þar sem J kvaðst hafa reynt að verja sig. J var með áverka í andliti og blæddi lítillega úr nefinu á honum. J kvaðst hafa meir áhyggjum af bakmeiðslum sem hefðu verið að hrjá hann í kjölfar vinnuslyss sem hann lenti í. Aðspurður taldi J ekki ástæðu til að fara á slysadeild FSA vegna áverkanna að svo komnu máli.
Þriðjudaginn 28. janúar 2003 kom J til rannsóknardeildar lögreglunnar á Akureyri og kærði ákærða fyrir líkamsárás.
II.
Ákærði skýrir svo frá að hann hafi í greint sinn verið að koma út úr Nætursölunni, nokkuð drukkinn. J hafi verið fyrir utan ásamt kærustu sinni. Kveðst ákærði hafa beðið hann að færa sig og komið hafi til orðaskipta þeirra á milli. Segir ákærði að J hafi látið kærustuna hafa jakka sinn og beðið hann að bíða aðeins, hann hafi síðan ráðist á ákærða og tekið hann júdóbragði. J hafi síðan sleppt honum, svo hafi þeir hafið slagsmál. Kveður ákærði J hafa kýlt sig og kveðst sjálfur hafa kýlt J einu sinni eða tvisvar. Segir ákærði J hafa tekið sig aftur hálstaki, en sleppt honum aftur og þá hafist slagsmál á milli þeirra, sem hafi endað er lögreglan kom á staðinn. Viðurkennir ákærði að hafa veitt J áverka þá er hann hlaut. Hann neitar hins vegar að hafa sparkað í hann.
Vitnið J skýrir svo frá að hann hafi verið staddur ásamt unnustu sinni, G, inni á Nætursölunni við Strandagötu á Akureyri í greint sinn. Þau hafi verið að fá sér að borða og hafi verið nýkomin af dansleik. Kveður vitnið mann hafa farið að kalla til sín, en hann ekki tekið köllin til sín þar sem hann hafi ekki kannast við manninn. Kveðst vitnið ásamt unnustu sinni hafa farið út og maðurinn elt þau. Maðurinn hafi ávarpað hann og spurt hann hvort hann þekkti sig ekki. Kveðst vitnið hafa sagt að hann kannaðist ekkert við hann. Maðurinn hafi brugðist ókvæða við og spurt hann hvort hann væri svo merkilegur með sig að hann heilsaði honum ekki. Kveðst vitnið hafa útskýrt fyrir manninum að hann vissi ekki hver hann væri og hefði ekki vitað að hann væri að ávarpa sig og því ekki svarað honum. Kveður vitnið manninn þá hafa gengið í átt til sín, hann hafi hrasað og dottið í járntröppunni við hliðina á Nætursölunni. Segir vitnið að fallið hafi greinilega farið í skapi á manninum. Maðurinn hafi sparkað í átt til sín og risið á fætur og ráðist á sig. Í upphafi hafi maðurinn hrint sér, en síðan hlaupið að sér og slegið sig hnefahögg í andlitið.
Kveðst vitnið kunna sjálfsvörn og hafi hann tekið manninn byrjandataki í júdó og haldið honum föstum liggjandi á jörðinni. Önnur hendi mannsins hafi verið laus og hana hafi maðurinn notað til að rífa í hár vitnisins. Þá hafi vinur mannsins komið að þeim og sagt vitninu að sleppa honum. Kveðst vitnið hafa haldið að maðurinn væri hættur og því sleppt. Vitnið kveðst hafa verið seinn á fætur bæði vegna þess að hann sé meiddur í baki eftir vinnuslys og vegna þess að hann hafi ekki búist við frekari árásum. Maðurinn hafi verið fljótur á fætur og hann strax sparkað nokkrum spörkum í maga og bak og brjóstkassa vitnisins. Kveðst vitnið hafa varið sig með því að snúa manninn aftur niður, líkt og í fyrra skiptið, enda hafi hann haft áhyggjur af því að árás mannsins kynni að valda honum heilsutjóni. Kveðst vitnið hafa haldið manninum aftur í sama taki á jörðinni. Maðurinn hafi þá bitið í geirvörtur vitnisins og vitnið þá tekið „axlarlás“ á honum til að verjast bitum. Vinur mannsins hafi komið og kallað aftur og aftur til hans að sleppa manninum. Kveðst vitnið hafa sleppt manninum, hafi þá verið gripið í hendur hans og úlpa hans dregin yfir höfuð hans. Kveðst vitnið hafa fengið spark í andlitið og um leið hafi úlpan fallið frá andliti hans þannig að hann hafi séð að það var maðurinn sem hafði ráðist á hann sem hafði sparkað í hann.
Maðurinn hafi svo sparkað nokkrum sinnum til viðbótar, þau spörk hafi komið í kvið vitnisins og eitt í læri. Kveðst vitnið ekki hafa talið spörkin, en þau hafi verið nokkur. Vitnið kveðst síðan hafa risið á fætur og ýtt manninum frá sér, kveðst hann hafa snúið sér að unnustu sinni og ætlað að labba heim með henni.
Þá hafi lögreglubifreið komið framan að honum. Vitnið segir að maðurinn, sá sami og hafi ráðist á hann upphaflega, hafi þá ráðist að honum aftan frá og slegið hann einu hnefahöggi í andlitið. Síðan hafi þeir verið teknir inn í lögreglubifreiðina.
Vitnið kveðst strax næsta morgun farið á slysadeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri og gengið undir læknisskoðun. Kveðst vitnið hafa verið með glóðaraugu á báðum augum, skerta heyrn á vinstri eyra og með bitsár við hægri geirvörtu, auk þess kveðst hann hafa verið illa þjáður í baki og hálsi. Hann hafi verið meiddur í hryggsúlunni fyrir árásina vegna slyss sem hann hafi lent í undir lok október 2002, en árás þessi hafi orðið til þess að honum hafi stórversnað.
Vitnið neitar því að hafa farið úr jakkanum áður en átökin hófust, svo sem ákærði heldur fram.
Vitnið G skýrir svo frá að hún hafi í greint sinn verið í Nætursölunni ásamt unnusta sínum, J, er einhver maður hefði heilsað þeim, en þau ekki tekið undir, enda ekki talið að væri verið að ávarpa þau. Þau hafi síðan farið út og maðurinn elt þau. Maðurinn hafi spurt J hvort hann þættist ekki þekkja sig. J hafi svarað því til að hann þekkti manninn alls ekki. Maðurinn hafi svo dottið í stiganum við norð-austurinngang Nætursölunnar, maðurinn hafi síðan ýtt við J og slegið hann hnefahögg. Kveðst vitnið hafa séð greinilega hvar á líkama J höggið kom. J hafi brugðist við þessu með því að taka manninn taki og snúa hann niður í jörðina. Vinur mannsins hafi beðið J að sleppa manninum og hafi J gert það. Maðurinn hafi staðið upp og sparkað í J, þar sem J lá í jörðinni. Kveður vitnið manninn hafa sparkað oftar en einu sinni í J þar sem hann lá, það gæti hafa verið tvisvar jafnvel oftar. Spörkin hafi lent á búk J á svæði milli axla og mjaðma. J hafi staðið á fætur og tekið manninn aftur tökum til að halda honum. Vinur mannsins hafi aftur beðið J að sleppa honum, J hafi gert það, þá hafi þeir verið liggjandi í jörðinni. Strax og maðurinn hafi verið laus hafi hann gripið í jakka J og tekið hann upp fyrir höfuð hans. J hafi verið staðinn upp en verið boginn vegna þess að maðurinn hafði gripið í jakka hans aftan í hálsmáli og dregið hann fram yfir höfuð J og hafi maðurinn, meðan hann hélt jakkanum yfir höfuðið, sparkað í andlit J.
J hafi svo gengið í átt til hennar og þau hafi ætlað að labba burtu, lögreglan hafi þá verið að koma akandi til þeirra, greinilega búin að veita árásinni athygli, þau hafi snúið frá árásarmanninum og að lögreglunni. Árásarmaðurinn hafi þá komið hlaupandi að J aftan frá og slegið hann hnefahögg í andlitið, eftir þetta hafi lögreglan komið út úr lögreglubifreiðinni og tekið bæði J og árásarmanninn til viðtals.
Vitnið B skýrir svo frá að hann hafi verið með ákærða inni í Nætursölunni í greint sinn, en síðan hafi þeir farið út þar sem strætisvagnarnir stoppa. Segir vitnið að ákærði hafi lent í einhverju rifrildi við einhvern aðila sem hann hafi ekki kannast við. Kveður vitnið það hafa verið farið að fjúka í þá báða og þessi aðili hafi farið úr jakkanum og rétt stelpu sem með honum var. Vitnið segir að þessi aðili hafi svo tekið á ákærða júdóbragð og við það hafi báðir dottið í götuna og maðurinn lent undir ákærða. Kveður vitnið andlit mannsins hafa skollið í götuna. Vitnið segir að þessi aðili hafi þá ýtt ákærða ofan af sér og hafi báðir staðið upp og hafi haldið áfram slagsmálum og lent einu sinni í götunni eftir það.
Kveður vitnið lögregluna síðan hafa komið að og tekið þá og fært inn í lögreglubifreiðina. Vitnið telur að upphaf átakanna hafi verið það að ákærði hafi verið að fara niður stigann í Nætursölunni og beðið manninn að færa sig frá. Kvaðst vitnið ekki muna til þess að ákærði ýtti við manninum og kveður vitnið ákærða ekki hafa kýlt manninn áður en til átakanna kom. Þá kannaðist vitnið ekki við að ákærði hefði tekið jakka mannsins upp fyrir höfuð honum og sparkað í andlit hans. Vitnið kveðst halda að ákærði hefði slegið manninn hnefahöggi skömmu áður en lögreglan kom, en kveðst ekki vita hvort höggið hitti.
Vitnið F kveðst hafa verið að aka fyrir ákærða og B. Vitnið kveðst hafa verið að sækja þá ákærða og B við Nætursöluna þegar atburðurinn átti sér stað. Kveðst vitnið hafa ekið austur fyrir Nætursöluna og stöðvað þar sem strætisvagnarnir leggja. Kveðst vitnið hafa séð B og ákærða ganga upp að eystri innganginum í Nætursölunni. Vitnið kveður einhvern strák hafa staðið fyrir þeim, en kveðst ekki muna hvort strákurinn snéri baki í þá eða ekki. Kveðst vitnið hafa séð ákærða ýta við stráknum og ætlað að reyna að komast fram hjá honum. Kveður vitnið strákinn hafa ýtt til baka í ákærða. Síðan hafi komið til átaka milli ákærða og þessa stráks. Í átökunum hafi báðir dottið í götuna við hliðina á bílnum sem vitnið var í og kveðst vitnið því ekki hafa séð hvað gerðist. Vitnið kveður mennina hafa staðið upp og átökin hafi borist fram fyrir bifreiðina. Kveður vitnið þá hafa slegið hvorn annan, en B hafi síðan reynt að skilja þá að, en þá hafi átökin færst aftur fyrir bílinn. Kveðst vitnið lítið hafa séð eftir það, en lögreglan hafi komið fljótlega og tekið ákærða og þennan strák inn í lögreglubifreiðina. Vitnið kveðst ekki hafa séð hvort ákærði sparkaði í strákinn.
Lögreglumennirnir, Geir Baldursson, María Jespersen og Logi Geir Harðarson, voru í eftirlitsferð á lögreglubifreiðinni í Strandgötu í greint sinn.
Skýrir vitnið Geir svo frá að þau hafi verið stödd við gatnamót Strandgötu og Geislagötu er þau hafi séð tvo aðila í átökum á pallinum við vestur inngang að Nætursölunni. Kveðst vitnið hafa séð annan aðilann slá hinn hnefahögg í andlitið. Kveður vitnið þau hafa farið að þeim og hafi átökunum þá lokið og mennirnir gengið á brott. Lögreglumennirnir hafi síðan fært báða mennina í lögreglubifreiðina og ekið með þá í burtu af svæðinu. Kveður vitnið Loga Geir hafa rætt við mennina. Kveðst vitnið hafa verið ökumaður, en Logi Geir og María hafi setið með þessum mönnum afturí lögreglubifreiðinni. Vitnið kveðst ekki hafa veitt því nána athygli hvað fór fram á milli Loga og mannanna og því ekki geta sagt til um hvað mennirnir sögðu. Vitnið mundi ekki hvort hann hefði séð áverka á mönnunum.
Vitnið María Jespersen skýrir svo frá að þau hafi verið að aka vestur Strandgötuna og verið komin að mótum Geislagötu er hún hafi séð nokkra menn standa við tröppurnar austan við Nætursöluna. Kveðst vitnið svo hafa tekið eftir því að ákærði hafi komið út úr Nætursölunni og gengið að J og slegið hann í andlitið. Kveður vitnið að sér hafi virst þetta vera þungt högg, en eftir þetta hafi ákærði gengið á brott. Vitnið segir þau lögreglumennina hafa farið þarna að og tekið ákærða upp í lögreglubifreiðina. Kveður vitnið ákærða hafa verið með leiðindi og dólgsskap inni í lögreglubifreiðinni og hafi verið að stæra sig af því að hafa verið meiri slagsmálamaður en J. Vitnið kveður ákærða hafa sagt ástæðuna fyrir því að hann hafi slegið J vera þá að J hefði verið fyrir sér.
Vitnið segir að eftir viðtal við ákærða hafi hann verið látinn laus. Vitnið segir að í viðtali við J hafi komið fram að hann hefði spurt ákærða um hvort hann ætti að þekkja hann og staðinn hefði hann fengið hnefahögg í andlitið frá ákærða. Vitnið kveður J hafa verið blóðugan í framan,en kveðst ekki muna hvort hann hafi verið með blóðnasir eða sprungna vör.
Vitnið Logi Geir Harðarson kveðst lítið muna eftir málinu, það staðfestir frumskýrslu þá er frammi liggur í málinu og áður er rakinn.
III.
Af framburði aðila og vitna virðist mega ráða að í upphafi hafi farið fram einhver orðaskipti milli ákærða og J, sem síðan leiddu til hnippinga þeirra á milli og að lokum til slagsmála. Með eigin framburði ákærða, sem studdur er framburði vitna, er ljóst að ákærði veitti J a.m.k. nokkur hnefahögg. Með framburði vitnanna J og G þykir einnig nægjanlega fram komið að ákærði sparkaði í J eins og í ákæru greinir. Afleiðingar urðu þær er í ákæru greinir, en þær eru raktar í læknisvottorði er fram er lagt í málinu. Þykir brot ákærða því nægjanlega sannað eins og því er í ákæru lýst.
Sakarferill ákærða hefur ekki áhrif á refsiákvörðun í þessu máli.
Rétt þykir að taka nokkuð mið af 3. mgr. 218. gr. a hegningarlaga við ákvörðun refsingar. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin 2 mánaða fangelsi, en rétt þykir að fresta fullnustu refsinga og hún falli niður að 3 árum liðnum frá birtingu dómsins að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19, 1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22, 1955.
Ákærði hefur viðurkennt bótaskyldu sína á tjóni J, en hann sundurliðar kröfur sínar svo: Útlagður kostnaður samkvæmt kvittunum 15.767, miskabætur kr. 200.000 og lögmannskostnaður kr. 25.000, alls kr. 240.767. Ákærði mótmælir ekki 1. lið kröfunnar, þ.e. útlögðum kostnaði, en krefst lækkunar á miskabótum og lögmannskostnaði. Hæfilegt er að mati dómsins að dæma ákærða til greiðslu kr. 50.000 í miskabætur og lögmannskostnaðinn að fullu, 25.000 kr. Samtals ber því að dæma ákærða til að greiða J kr. 90.767 ásamt vöxtum eins og krafist er. Að lokum ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans Benedikts Ólafssonar hdl. sem þykja hæfilega ákvarðaðar kr. 70.000.
Dóm þennan kveður upp Freyr Ófeigsson dómstjóri.
D Ó M S O R Ð
Ákærði, Sverrir Þór Skaftason, sæti fangelsi í 2 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingar og hún niður falla að 3 árum liðnum frá birtingu dómsins að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19, 1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22, 1955.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda, Benedikts Ólafssonar hdl., kr. 70.000.
Ákærði greiði J kr. 90.767 ásamt dráttarvöxtum frá 27. júlí 2003 til greiðsludags.