Hæstiréttur íslands
Mál nr. 310/2007
Lykilorð
- Verksamningur
- Skuldamál
- Málsástæða
- Afdráttarlaus málflutningur
- Áfrýjunarstefna
|
|
Fimmtudaginn 7. febrúar 2008. |
|
Nr. 310/2007. |
Pálmi A. Sigurðsson(Hlöðver Kjartansson hrl.) gegn Gunnari Júlíusi Helgasyni (Páll Arnór Pálsson hrl.) |
Verksamningur. Skuldamál. Málsástæða. Afdráttarlaus málflutningur. Áfrýjunarstefna.
Undirverktakinn G krafði aðalverktakan P um greiðslu eftirstöðva samkvæmt fimm reikningum vegna ýmissa verkliða sem hann hafði tekið að sér að vinna fyrir P. Í héraði var fallist á kröfu G vegna tómlætis P eftir að hann fékk reikningana í hendur en vegna þessa var P ekki talinn geta borið fyrir sig að verðið, sem fram hafði komið á reikningunum, væri ósanngjarnt auk þess sem hann var látinn bera halla af skorti á sönnun um að þær magntölur, sem reikningarnir voru reistir á, væru rangar og að G hefði ekki unnið tiltekna verkliði. Þá þótti gagnkrafa P til skuldajafnaðar vanreifuð. Fyrir Hæstarétti bar P fyrir sig að ekki hafi verið unnt að byggja niðurstöðuna á tómlæti hans þar sem þetta atriði hafi ekki komið fram af hálfu G við höfðun málsins. Fallist var á með G að ekki hafi verið tilefni fyrir hann að bera fyrir sig þessa málsástæðu fyrr en eftir að mótmæli P voru komin fram enda teldist hún andsvar við þeim. P þótti ekki hafa sýnt fram á að athugasemdir við reikningana hefðu borist í tæka tíð til fyrirtækis sem hafði reikningana til innheimtu. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms var niðurstaða hans um greiðsluskyldu P staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. júní 2007. Hann krefst þess nú aðallega að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til meðferðar að nýju, en til vara að vísað verði frá héraðsdómi hluta af kröfu stefnda að fjárhæð 4.463.757 krónur. Til þrautavara krefst hann sýknu. Hann krefst málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Í áfrýjunarstefnu var tekið fram að auk hins áfrýjaða dóms væri krafist endurskoðunar á úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 29. september 2006, þar sem kröfu áfrýjanda um frávísun málsins frá dómi var hafnað.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Stefndi er jarðverktaki sem tók að sér vinnu í þágu áfrýjanda á árinu 2004 við þau verk sem greinir í hinum áfrýjaða dómi.
I.
Aðalkrafa áfrýjanda um ómerkingu héraðsdóms og heimvísun málsins kemur ekki fram í áfrýjunarstefnu, sbr. d. lið 1. mgr. 155. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kemur hún því ekki til sérstakrar meðferðar fyrir Hæstarétti, en rétturinn hugar að því sem endranær hvort á meðferð málsins í héraði séu ágallar, sem valda eigi ómerkingu dómsins án kröfu.
II.
Varakrafa áfrýjanda er á því byggð að málatilbúnaður stefnda í héraði hafi farið í bága við e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og krafa hans því verið vanreifuð. Hafi þetta valdið því að áfrýjanda hafi ekki verið unnt að hafa uppi fullnægjandi varnir í greinargerð sinni í héraði um réttmæti fjárhæðar stefnukröfunnar.
Svo sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi var krafa stefnda í héraði byggð á fimm reikningum hans á hendur einkafirma áfrýjanda Dráttarbílum. Reikningarnir voru lagðir fram við þingfestingu málsins auk fylgiblaða, þar sem gerð var nánari grein fyrir sundurliðun þeirra. Þá lagði stefndi einnig fram tvo reikninga í viðbót með samskonar fylgiblöðum, sem hann hafði gert á hendur áfrýjanda en taldi fullgreidda með þeim greiðslum sem áfrýjandi hafði innt af hendi vegna vinnu stefnda við þau verk sem um ræðir í málinu. Var gerð grein fyrir því að krafa stefnda byggðist á þessum reikningum. Áfrýjandi hefur ekki getað fært fram marktæk rök fyrir því að hann hafi átt erfitt með að verjast kröfunni vegna þess hvernig hún var reifuð. Eru því ekki efni til að taka varakröfu hans til greina.
III.
Í greinargerð áfrýjanda í héraði sagði svo um málsástæður fyrir sýknukröfu hans: „Stefnda byggir sýknukröfu sína á að krafan sé greidd bæði með innágreiðslum, sem og verkum sem hið stefnda félag hafi unnið fyrir stefnanda. Stefnda byggir einnig á að engin lokaúttekt hafi farið fram á verkinu, þannig sé stefnandi að krefja um greiðslu fyrir verkþætti sem hann hafi ekki unnið ...“. Engin frekari grein var gerð fyrir þessum málsvörnum og engin skjöl voru lögð fram með greinargerðinni þeim til stuðnings. Lögmaður sá, sem á þessum tíma rak málið fyrir áfrýjanda, gaf að ósk áfrýjanda skýrslu fyrir héraðsdómi eftir að hinn áfrýjaði dómur gekk. Kvaðst hann hafa talið að málinu yrði vísað frá dómi og hafi hugmyndin verið að leggja fram gögn síðar. Af hálfu stefnda var lýst yfir við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti að hann gerði ekki athugasemdir við að héraðsdómur hefði að hluta tekið varnir af hálfu áfrýjanda til efnismeðferðar, þó að þær teldust varla hafa komið fram fyrr en við rekstur málsins eftir að greinargerðin var lögð fram. Með vísan til 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 verður lagt til grundvallar að slíkar málsástæður hafi komið fram í héraði með þeim hætti að héraðsdómi hafi verið rétt að taka þær til efnismeðferðar eins og gert var í dóminum.
IV.
Óumdeilt er að áfrýjandi fékk reikninga stefnda og fyrrnefnd fylgiblöð í hendur strax í byrjun júlí 2005. Héraðsdómur er meðal annars á því byggður að áfrýjandi hafi ekki tímanlega gert athugasemdir við reikningana svo sem honum hafi borið að gera eftir þeirri grunnreglu sem meðal annars komi fram í 47. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi mótmælt því að héraðsdóm hafi mátt byggja á þessu, þar sem ekki hafi komið fram af hálfu stefnda er hann höfðaði málið, að hann byggði á því að áfrýjandi hefði ekki mótmælt reikningum hans tímanlega. Af hálfu stefnda er talið að hann hafi ekki þurft að taka þetta sérstaklega fram í upphafi málsins, þar sem hann hafi einfaldlega verið að krefja áfrýjanda um greiðslu ógreiddra reikninga. Við munnlegan flutning málsins í héraði hafi hins vegar verið sérstaklega bókað að stefndi teldi að mótmæli áfrýjanda hafi þurft „að koma fram í framhaldi af útgáfu reikninga.“ Verður fallist á með stefnda að honum hafi ekki verið nauðsynlegt að taka sérstaklega fram við málsóknina að áfrýjandi hafi látið reikningunum ómótmælt þegar hann fékk þá í hendur. Þetta er atriði sem fyrst kom til meðferðar í málinu eftir að mótmæli áfrýjanda við reikningunum voru komin fram enda telst þetta andsvar við þeim.
Áfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt bréf fyrrverandi lögmanns síns 9. ágúst 2005 til innheimtufyrirtækis, sem mun hafa annast innheimtu á reikningum stefnda á þeim tíma. Í bréfi þessu er kröfu stefnda mótmælt. Stefndi kannast ekki við að hafa fengið það. Heimilisfang umrædds innheimtufyrirtækis er ranglega tilgreint í bréfinu og er því gegn mótmælum stefnda ósannað að það hafi borist til þess.
V.
Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um skyldu áfrýjanda til að greiða kröfu stefnda sem og um dráttarvexti og málskostnað. Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti svo sem í dómsorði greinir.
Í greinargerð sinni í héraði gerði áfrýjandi aðalkröfu um frávísun málsins frá dómi. Héraðsdómari tók kröfuna til meðferðar samkvæmt 2. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991 og hafnaði henni með úrskurði 29. september 2006. Þrátt fyrir þetta hafði áfrýjandi frávísunarkröfu uppi á ný við munnlegan flutning málsins í héraði og þá sem varakröfu við sýknukröfu sína. Héraðsdómari hafnaði kröfunni, en rétt hefði verið að vísa henni frá dómi, þar sem hún hafði verið afgreidd með nefndum úrskurði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er óraskaður um greiðsluskyldu áfrýjanda, Pálma A. Sigurðssonar, við stefnda, Gunnar Júlíus Helgason, og um málskostnað.
Áfrýjandi greiði stefnda 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. mars 2007.
Mál þetta er höfðað með stefnu birtri 8. maí 2006 og dómtekið 7. mars sl. Stefnandi er Gunnar Júlíus Helgason, Vogaverði 2, Vogum. Stefndi er Pálmi A. Sigurðsson, Holtsbúð 22, Garðabæ.
Endanleg dómkrafa stefnanda er að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 5.866.713 krónur með dráttarvöxtum frá 1. ágúst 2005 til greiðsludags auk málskostnaðar. Hann krefst einnig málskostnaðar.
Stefndi krefst aðallega sýknu, en til vara að kröfum stefnanda verði vísað frá dómi. Hann krefst einnig málskostnaðar.
I
Málsatvik
Stefnandi máls þessa er pípulagningarmaður og sinnti hann sjálfstæðri verktakastarfsemi þegar atvik máls þessa gerðust. Stefndi rekur verktakafyrirtæki undir einkafirmanu „Dráttarbílar“. Mál þetta lýtur að verkum sem unnin voru í Asparholti og Breiðumýri, Bessastaðahreppi, á árinu 2004, en fyrir liggur að málsaðilar höfðu unnið saman að ýmsum öðrum verkum fyrir þann tíma. Ágreiningslaust er að um var að ræða tvö verk sem stefndi tók að sér sem aðalverktaki, annars vegar gatnagerð fyrir Húsbygg ehf. og hins vegar jarð- og lagnavinnu fyrir nokkur veitufyrirtæki samkvæmt sameiginlegu útboði þeirra sem fram fór í mars 2004. Í máli þessu krefur stefnandi stefnda um greiðslu samkvæmt fimm reikningum vegna ýmissa verkliða sem hann sinnti sem undirverktaki fyrir stefnda. Eins og nánar greinir síðar er verulegur ágreiningur með málsaðilum um ýmis atvik málsins og réttmæti reikninga stefnanda.
Samkvæmt aðilaskýrslum hafði stefndi samband við stefnanda í árslok 2003 og leitaði eftir því að hann kæmi að áðurnefndu verki fyrir Húsbygg ehf. Fyllti stefnandi þá út með verðum hluta úr tilboðskrá úr útboðsgögnum Húsbyggs ehf. sem hér segir: 2.3.1 „Gröftur og endurfylling/tilflutningur“, 2.3.3 „Fylling undir lagnir“, 3.1 „Fráveituleiðslur“ (auðkennt „án efnis“), 3.2 „Niðurföll“, 3.3 „Brunnar“, 3.4 „Vatnsveitulagnir“, 3.5 „Rennilokar“, 3.6 „Brunahani“, 4.4 „Ljósastaurar“. Samtala þessara liða var 2.342.700 krónur. Af hálfu stefnda er á því byggt að með þessu skjali, sem stefnandi afhenti stefnda, hafi stefnandi gefið honum bindandi tilboð í umrædda verkhluta. Stefnandi telur hins vegar að hér hafi einungis verið um viðmunarfjárhæðir að ræða sem hann hafi verið óbundinn af.
Samkvæmt aðilaskýrslu stefnanda hóf hann að vinna fyrir stefnda í Asparholti í mars 2004 og vann þar til 20. júlí 2004. Kvaðst hann hafa hætt vinnu fyrir stefnda vegna þess að ekki komu greiðslur frá honum. Í aðilaskýrslu stefnanda kom fram að hann hefði haft umsjón með því að finna og semja við undirverktaka og hefði hann jafnframt greitt þeim fyrir verk þeirra, þótt upphaflega hefði staðið til að stefndi greiddi þeim milliliðalaust. Um þau verk sem stefnandi telur sig hafa unnið vísast að öðru leyti til þeirra reikninga sem hann gaf út og síðar greinir. Stefnandi og stefndi staðfestu fyrir dómi að aldrei hefðu verið haldnir sérstakir verkfundir vegna viðskipta þeirra. Þá kom fram í skýrslum þeirra beggja fyrir dómi að magn stefnanda hefði ekki verið mælt eða tekið út sérstaklega og að stefnandi hefði ekki fengið í hendur uppmælingar sem tæknimenn á vegum stefnda framkvæmdu fyrr en eftir að mál þetta var höfðað.
Samkvæmt aðilaskýrslu stefnda hófst verkið í Asparholti fyrir Húsbygg ehf. í febrúar 2004. Stefndi kannaðist við að samþykkt hefði verið að stefnandi ynni einnig við hitt verkið, þ.e. verkið fyrir veitufyrirtækin, og sæi um að útvega undirverktaka. Stefndi kvað stefnanda hins vegar hafa unnið „mjög takmarkað“ í síðargreinda verkinu. Stefndi kannaðist við að hafa samþykkt þá undirverktaka sem stefnandi fékk til verksins.
Samkvæmt framburði stefnanda fyrir dómi leitaði hann árangurslaust eftir viðræðum við stefnda um greiðslur eftir að hann hætti í verkinu í Asparholti. Hinn 30. júní og 1. júlí 2005 gaf stefnandi svo út alls sjö reikninga sem fólu í sér heildaruppgjör fyrir undirverktöku hans í Asparholti fyrir stefnda. Verður nú hverjum og einum reikningi og skýringum við hann lýst eftir því sem ástæða er til.
Reikningur nr. 239 útgefinn 30. júní 2005 að fjárhæð 1.601.235 krónur.
Reikningurinn er sagður gerður vegna Asparholts. Í meginmáli reikningsins segir: „Tímavinna, vélavinna, vatnsveita fyrsta lota, steinlagnir 34 m af 92, sjá fylgibréf“. Í skjali sem lagt hefur verið fram af hálfu stefnanda er reikningurinn sundurliðaður með eftirfarandi hætti:
Verkþáttur Einingar Verð Samtals
Tímavinna 207 tímar 2.739 kr. 566.973 kr.
Vélavinna 20 tímar 3.362 kr. 67.240 kr.
Vatnsveita 1 lota 848.022 kr. 848.022 kr.
Steinlagnir 34 metrar 3.500 kr. 119.000 kr.
Stefnandi kveður afgang steinlagnar (58 m) hafa verið færðan á reikning nr. 242. Í stefnu segir að reikningur nr. 239 hafi greiðst með þremur greiðslum til stefnda í maí til júlí 2005. Stefnandi hafi fallið frá eftirstöðvum reikningsins að fjárhæð 1.235 krónur og sé reikningurinn því að fullu greiddur. Í aðilaskýrslu stefnanda var lögð áhersla á að stefnandi hefði ekki haft aðgang að mælingum á magni og hefði honum því verið einn kostur að miða við eigið tímagjald eða einingaverð. Í aðilaskýrslu stefnda var því mótmælt að samið hefði verið um að stefnandi fengi greitt samkvæmt tímagjaldi. Þá var tímagjaldi stefnanda einnig mótmælt sem of háu. Stefndi hefur einnig mótmælt því að stefnandi skuli hafa ráðstafað innborgun hans til greiðslu þessa reiknings.
Reikningur nr. 240 útgefinn 30. júní 2005 að fjárhæð 1.501.500 krónur
Reikningurinn er sagður vera vegna vinnu við gröft fyrir lögnum í sökkul fasteignanna að Asparholti 1, 2 ,3, 4, 5 og 6. Vinna stefnanda við framangreindan gröft er sögð vera alls 744 metrar og hafi reikningurinn verið gefinn út vegna 715 metra en 29 metrar færðir á reikning nr. 242. Verð hvers metra sé 2.100 krónur og hafi reikningurinn því samtals numið 1.501.500 krónum. Í aðilaskýrslu stefnanda var upplýst að þau einingaverð sem fram kæmu í reikningnum væru samkvæmt einhliða ákvörðun stefnanda. Samkvæmt stefnu var reikningurinn greiddur 26. ágúst 2005 þegar stefndi greiddi víxil að fjárhæð 1.500.000 krónur sem hann hafði gefið út til stefnanda. Stefnandi tekur fram í stefnu að hann hafi fallið frá eftirstöðvum að fjárhæð 1.500 krónur. Í munnlegum málflutningi lýsti lögmaður stefnda því yfir að ekki væri ágreiningur um umræddan reikning stefnanda.
Reikningur nr. 241 útgefinn 1. júlí 2005 að endanlegri fjárhæð 2.326.625 krónur
Reikningurinn er sagður byggður á reikningum OSN lagna ehf. sem stefnandi hafi greitt, en reikningarnir hafa verið lagðir fram í málinu. Þá kemur fram að við þessa reikninga undirverktaka sé bætt 15% umsýsluþóknun stefnanda. Á reikningnum var upphaflega krafist greiðslu á vöxtum að fjárhæð 180.000 krónur, en fallið hefur verið frá þeim lið. Í aðilaskýrslu stefnda kom fram að hann teldi reikninga undirverktaka of háa og mótmælti skyldu sinni til að greiða þessa reikninga að fullu. Þá mótmælti hann kröfu stefnanda um 15% umsýsluþóknun.
Reikningur nr. 242 útgefinn 1. júlí 2005 að fjárhæð 263.900 krónur
Reikningurinn er sagður vera vegna vinnu stefnanda samkvæmt fylgiskjölum með reikningum nr. 239 og 240 sem ekki hafi verið krafist greiðslu fyrir með þeim reikningum. Til að stemma reikninga af við innborganir stefnanda hafi reikningsgerð verið hagað með þessum hætti. Reikningurinn sé þannig vegna 58 metra af steinlögn á 3500 krónur pr. metra (sbr. reikning nr. 240) og vegna graftar fyrir lögnum í sökkul fasteignanna að Asparholti, 29 metrar á 2100 kr. pr. metra (sbr. reikning nr. 239). Í munnlegum málflutningi var því lýst yfir af lögmanni stefnda að fjárhæð vegna graftar fyrir lögnum í sökkul fasteignanna (þ.e. 60.900 krónum) væri ekki mótmælt. Að öðru leyti vísast til fyrrgreindra mótmæla stefnda við reikningi nr. 239 og 240.
Reikningur nr. 243 útgefinn 1. júlí 2005 að endanlegri fjárhæð 318.548 krónur
Reikningurinn er sagður byggja á tveimur reikningum Stigamannsins ehf., samtals að fjárhæð 276.999 krónur, sem lagðir hafa verið fram í málinu, auk 15% umsýsluþóknunar. Leiðrétting reikningsins er sögð vera vegna vaxta. Í aðilaskýrslu stefnda kom fram að hann hefði samþykkt umrædda reikninga Stigamannsins ehf. Hins vegar mótmælti stefndi umsýsluþóknun stefnanda.
Reikningur nr. 244 útgefinn 1. júlí 2005 að fjárhæð 2.678.400 krónur
Reikningurinn er sagður vera vegna vinnu stefnanda við lagningu síma og rafmagnslagna auk ýmissa aukaverka við Asparholt. Reikningurinn byggir á framlögðu vinnuyfirliti sem vísar í ýmsa undirliði liðs 1.1 í tilboðsskrá í gögnum útboðs áðurnefndra veitufyrirtækja. Nánar tiltekið er hér annars vegar um að ræða svokölluð jarðvinnuþversnið (þ.e. skurði fyrir lagnir, strengi o.þ.h.) nr. 1-13 og hins vegar ýmis önnur verk samkvæmt tilboðsskránni. Samkvæmt aðilaskýrslu stefnanda eru einingaverð samkvæmt hans eigin ákvörðun, en miðað er við magn í tilboðsskrá. Reikningurinn er sundurliðaður með eftirfarandi hætti:
|
Verkþáttur |
Einingar |
Verð |
Samtals |
|
Snið |
532 |
1700- 2600 kr. |
1.135.400 kr. |
|
Hola fyrir streng |
11 |
3000 kr. |
33.000 kr. |
|
Ljósastólpar |
9 |
20.000 kr. |
180.000 kr. |
|
Tengiskápar HS |
2 |
25.000 kr. |
50.000 kr. |
|
Brunnar LÍ- plast |
1 |
25.000 kr. |
25.000 kr. |
|
LÍ stofnrör 75 |
600 |
140 kr. |
84.000 kr. |
|
LÍ stofnrör 110 |
200 |
160 kr. |
32.000 kr. |
|
Strengir 100 línu |
7000 |
150 kr. |
1.050.000 kr. |
|
Strengir dregnir í rör |
400 |
200 kr. |
80.000 kr. |
|
HS lagnir í rör50 |
20 |
130 kr. |
2.600 kr. |
|
HS lagnir í rör 110 |
40 |
160 kr. |
6.400 kr. |
Stefndi hefur almennt hafnað því að stefnandi hafi unnið þau verk sem að framan greinir þótt hann viðurkenni að stefnandi hafi unnið „mjög takmarkað“ að verkinu sem undirverktaki. Einkum mótmælir stefndi því að stefnandi hafi grafið þá skurði sem auðkenndir eru sem jarðvinnuþversnið nr. 1-13. Í aðilaskýrslu stefnda, svo og vitnaskýrslum tveggja starfsmanna hans, kom fram að aldrei hefðu verið grafnir skurðir vegna umræddrar lagnavinnu, heldur hefði þess verið gætt að fylla ekki götu með meira efni en svo að mögulegt væri að leggja lagnir án þess að grafnir væru sérstakir skurðir.
Reikningur nr. 245 útgefinn 1. júlí 2005 að fjárhæð 279.240 krónur
Reikningurinn er sagður vera vegna vinnu stefnanda við að slétta sökkla undir plast í gólfflöt á sex húsum, alls 1.861,6 fermetrar. Reikningnum hefur ekki verið mótmælt af stefnda.
XXX
Í aðilaskýrslu stefnanda kom fram að hann hefði fengið alls 1.780.000 krónur greiddar inn á verkið áður en hann hætti vinnu fyrir stefnda í júlí 2004. Þá lítur stefnandi svo á að stefndi hafi að fullu greitt reikning nr. 240 með afhendingu víxils að fjárhæð 1.500.000 krónur, svo sem áður greinir.
Við aðalmeðferð málsins gáfu málsaðilar skýrslu. Þá komu fyrir dóminn sem vitni Ragnar Bjarnason, eigandi RB-mælinga ehf., Gísli Ólafsson, verktaki, Heiðmundur Clausen, verktaki, Stefán Eyvindur Pálsson, starfsmaður Húsbygg ehf., Sigurður Hálfdán Leifsson, verktaki, Einar Sigmundsson, starfsmaður stefnda, Marinó Pálmason, starfsmaður og sonur stefnda, og Helgi Eiríksson, eftirlitsmaður hjá Landsíma Íslands hf. Í skýrslu Ragnars Bjarnasonar kom fram að skjal, sem hefur að geyma útreikninga á magni þeirra verkliða sem stefnandi vann og lagt hefur verið fram af hálfu stefnda, hefði verið unnið af honum. Fullyrti Ragnar að sömu magntölur og fram kæmu í skjalinu hefðu verið notaðar við lokauppgjör verksins milli stefnda og verkkaupa. Að öðru leyti er ekki ástæða til að rekja skýrslur sérstaklega.
II
Málsástæður og lagarök aðila
Stefnandi vísar til framangreindra reikninga, eftir atvikum eins og þeir hafa verið leiðréttir, og byggir kröfur sínar á reglum samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga. Telur hann reikningsgerð sína sanngjarna og í samræmi við góða viðskiptavenju. Hefur hann í því sambandi vísað til þess að þær fjárhæðir sem hann krefji um séu nánast þær sömu og leiddu af þeim viðmiðunarfjárhæðum sem hann gaf stefnda og stefndi telur að hafi falið í sér bindandi tilboð. Stefnandi hafnar fullyrðingum stefnda um að hann hafi á einhverjum tíma gefið honum bindandi tilboð. Þar sem ekki hafi verið samið um verð hafi stefnanda verið rétt að miða við eigin tíma- eða einingaverð. Stefnandi hefur vísað til þess að í sumum tilvikum hafi magntölur ekki verið honum aðgengilegar og því hafi honum verið nauðugur einn kostur að miða við tímagjald eða magntölur sem tekið hafi mið af útboðsgögnum. Stefnandi mótmælir fullyrðingum stefnda um að hann hafi ekki unnið þau verk sem hann krefjist greiðslu fyrir. Þá hafnar hann kröfum stefnda um skuldajöfnuð. Vísar hann til þess að kröfur stefnda séu hvorki af sömu rót né séu þær gjaldkræfar. Séu kröfurnar því ekki hæfar til að mætast. Einnig hefur stefnandi gert athugasemdir við útreikninga stefnda á gagnkröfu sinni. Í munnlegum málflutningi taldi lögmaður stefnda einnig að mótmæli stefnda væru of seint fram komin. Hefði stefndi glatað rétti sínum til að mótmæla reikningum stefnanda vegna tómlætis.
Í greinargerð stefnda er atvikalýsingu stefnanda mótmælt og sagt að innborganir og verk sem stefndi vann fyrir stefnanda hafi ekki verið tilgreind. Í greinargerð er þó hvorki að finna nánari lýsingu á þessum innborgunum og verkum sem stefndi telur sig hafa unnið, né var ákveðin fjárhæð sett fram af hálfu stefnda við aðalmeðferð málsins. Í greinargerð segir að magntaka verksins sé ekki rétt. Þessu til stuðnings hefur stefndi lagt fram útreikninga RB mælinga ehf. þar sem fram kemur magn þeirra verkliða sem stefnandi annaðist. Stefndi kveðst einnig byggja á því að engin lokaúttekt hafi farið fram á verkinu og „þannig sé stefnandi að krefja um greiðslu fyrir verkþætti sem hann hafi ekki unnið, en málið sé að þessu leyti einnig vanreifað.“ Svo sem fyrr greinir í lýsingu atvika hefur stefndi bæði lagt fram skjöl og borið um það fyrir dómi að stefnandi hafi ekki unnið ýmis þau verk sem hann krefst greiðslu fyrir eða þá að magn þessara verka sé ranglega tilgreint. Stefndi vísar til meginreglna verktakaréttar svo og reglna kaupalaga og kröfuréttar um skuldajöfnuð og greiðslur.
III
Niðurstaða
Í máli þessu er ágreiningslaust að stefnandi starfaði sem undirverktaki stefnda við tvö verk sem sá síðarnefndi tók að sér í Asparholti, Bessastaðahreppi, annað fyrir Húsbygg ehf. en hitt fyrir Orkuveitu Reykjavíkur og nokkur önnur veitufyrirtæki. Þá er ágreiningslaust að í lok ársins 2003 fyllti stefnandi út hluta af tilboðsskrá, sem var hluti útboðsgagna í útboði Húsbyggs ehf., með einingarverðum og var ætlun aðila að stefnandi myndi vinna þá verkhluta sem verð voru færð við. Aðilar eru sammála um að enginn skriflegur samningur hafi verið gerður um viðskipti þeirra, hvorki fyrr né síðar. Þá hefur aldrei verið um það að ræða að þeir héldu verkfundi eða tækju út verkstöðu og magn vegna viðskipta sinna. Að lokum er ágreiningslaust að stefnandi var við vinnu í Asparholti frá mars 2004 og fram í júlí sama árs.
Vegna vinnu sinnar fyrir stefnda gaf stefnandi út alls sjö reikninga. Eru tveir þeirra (nr. 239 og 240) dagsettir 30. júní 2005, en hinir fimm dagsettir 1. júlí 2005. Samtals nema þessir reikningar 8.969.448 krónum eftir að tekið hefur verið tillit til leiðréttinga stefnanda. Viðurkennt er að stefndi greiddi stefnanda annars vegar 1.780 þúsund krónur í peningum og hins vegar 1.500 þúsund krónur með víxli inn á verkið. Ráðstafaði stefnandi þessum greiðslum annars vegar inn á reikning nr. 239, að fjárhæð 1.601.235 krónur, og hins vegar inn á reikning nr. 240, að fjárhæð 1.501.500 krónur. Líkt og áður greinir er reikningum stefnanda mótmælt af stefnda að meira eða minna leyti.
A
Að því er varðar reikninga vegna vinnu stefnanda í verki fyrir Húsbygg ehf. byggir stefndi á því að stefnandi hafi verið bundinn af tilboði sem hann gerði í lok árs 2003. Í málinu er viðurkennt að stefnandi fyllti út hluta af tilboðsskrá, sem var hluti útboðsgagna í útboði Húsbyggs ehf., með einingarverðum og sendi stefnda. Að mati dómara verður umrætt skjal ekki túlkað með öðrum hætti en að hér hafi einungis verið um að ræða áætlun stefnanda vegna fyrirhugaðs verks. Telja verður að slík áætlun geti haft þýðingu þegar metið er hvort umkrafið verð sé ósanngjarnt, sbr. meginreglu 45. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Hins vegar verður ekki á það fallist með stefnda að hér hafi verið um bindandi tilboð stefnanda að ræða. Samkvæmt þessu liggur fyrir að málsaðilar gerðu samning um að stefnandi tæki að sér undirverktöku fyrir stefnda án þess að samið væri sérstaklega um verð.
Í máli þessu er ágreiningslaust að stefndi móttók reikninga stefnanda í beinu framhaldi af útgáfu þeirra sumarið 2005. Ekki er fram komið að stefndi hafi mótmælt þeim tíma og einingarverðum, sem miðað var við í reikningunum, fyrr en í greinargerð sinni í héraði sem lögð var fram 4. júlí 2006. Í samræmi við grunnreglu 47. gr. laga nr. 50/2000 er stefndi því bundinn við þau verð sem fram koma í reikningunum, enda er ekki fram komið í málinu að þessi verð hafi verið ósanngjörn. Á þetta einnig við um verð á þeirri aðkeyptu þjónustu og efni sem stefnandi krafðist greiðslu fyrir með umræddum reikningum, svo og þeirri þóknun sem hann reiknaði sér vegna vinnu við aðkeypta þjónustu.
B
Af hálfu stefnda er því haldið fram að magntölur í reikningum stefnanda séu í sumum tilvikum rangar. Í samræmi við almennar reglur verktakaréttar bar stefnda að tilkynna stefnanda um þessa afstöðu sína án tafar eftir móttöku reikninga hans. Á þetta því frekar við að stefndi, sem aðalverktaki verksins, hafði yfir að ráða öllum magntölum verksins og stóð það honum nær að hlutast til um leiðréttingar um þessi atriði. Einnig verður að líta til þess að það stóð stefnda nær sem aðalverktaka að hafa frumkvæði að því að verk stefnanda væru tekin út með einhverjum hætti þannig að unnt væri að staðreyna magn vinnu hans. Að öðrum kosti hlaut reikningsgerð stefnanda að taka mið af mati hans sjálfs eða haldbær gögn, svo sem teikningar, í samræmi við almennar reglur verktakaréttar.
Líkt og áður greinir gerði stefndi ekki athugasemdir við magntölur í reikningum stefnanda fyrr en í greinargerð sinni í héraði. Rökstudd mótmæli stefnda komu svo ekki fram fyrr en með framlagningu útreikninga RB mælinga ehf. 4. janúar 2007, tæplega einu og hálfu ári frá útgáfu reikninga stefnanda. Þá voru liðin hartnær þrjú ár frá því verkin voru unnin og úttekt á magni hefði getað farið fram. Með hliðsjón af þessu tómlæti stefnda verður hann að bera hallann af skorti af sönnun um endanlegar magntölur í þeim verkum sem stefnandi vann, enda er ekkert komið fram um að þessar tölur séu bersýnilega rangar.
C
Af hálfu stefnda er því mótmælt að stefnandi hafi unnið ákveðna verkhluta sem hann krefst greiðslu fyrir með reikningi nr. 244. Einkum er hér vísað til vinnu við svokölluð jarðvinnuþversnið samkvæmt lið 1.1.1 samkvæmt tilboðsskrá í útboði veitustofnana í mars 2004, þ.e. jarðvinnu fyrir hitaveitu, strengi og ídráttarrör. Hafa starfsmenn stefnda, einkum starfsmaður og sonur stefnda, Marinó Pálmason, borið að þeir hafi unnið þennan verkhluta í öllum meginatriðum. Nánar tiltekið báru þeir að ekki hefði reynst nauðsynlegt að grafa þessa skurði, þar sem efni í undirbyggingu götu hefði verið jafnað út í viðeigandi hæð og rör og strengir þannig lagðir beint á plan áður en haldið var áfram að fylla upp í götustæðið. Jafnframt bar nefndur Marinó að hann hefði notað beltagröfu stefnda til þess að grafa skurði að því marki sem það hefði verið nauðsynlegt, en stefnandi hafði yfir að ráða traktorsgröfu.
Af útboðsgögnum í framangreindu útboði verður ráðið að verkhluti, auðkenndur 1.1.1, hafi falið í sér að grafa fyrir lögnum, rörum, ídráttarrörum og strengjum í samræmi við lengd, breidd og dýpt á teikningum. Þá skyldi jafna skurðbotn, sanda og þjappa áður en pípur og strengir væru lagðir. Tilkynna skyldi eftirlitsmanni hvenær skurður yrði tilbúinn til að leggja í hann strengi og ídráttarrör. Hreinsa skyldi vandlega upp alla steina og grús, sem kynnu að hafa hrunið í skurðinn áður en fyllt væri yfir pípur og strengi með sandi og þjappa með handverkfærum sem ekki skemmdu plastkápuna.
Þeim vitnum sem komu fyrir dóminn við aðalmeðferð málsins bar saman um að stefnandi hefði verið á svæðinu þegar unnið var að umræddu verki. Þá er ágreiningslaust að stefnandi vann að því að draga strengi í ídráttarrör. Með framburði vitna telst enn fremur sannað að stefnandi hafi útvegað menn til að sinna plast- og málmsuðu lagna sem lagðar voru í umrædda skurði. Að öllu virtu verður að teljast sannað að stefnandi hafi unnið að einhverju leyti að verkhluta 1.1, þar á meðal hluta 1.1.1, þótt óvíst sé í hvaða mæli. Samkvæmt þessu verður hafnað þeirri málsástæðu stefnda að stefnandi hafi alls ekkert unnið að umræddum verkhluta, líkt og fram kemur í útreikningum RB mælinga ehf. 4. janúar 2007, sem unnir voru einhliða fyrir stefnda í tilefni af máli þessu.
Eins og áður greinir stóð það stefnda nær sem aðalverktaka að halda utan um það magn sem stefnandi innti af henti, ef hann vildi ekki una við mat stefnanda sjálfs eða fyrirliggjandi gögn, svo sem teikningar. Ekki síst átti þetta við ef bæði starfsmenn stefnda og stefnandi unnu ótilgreint að sama verkhluta, líkt og virðist hafa verið raunin með verkhluta 1.1. Eins og áður greinir gaf stefnandi út reikning fyrir umræddum verkhluta í júlí 2005 en verkið var unnið sumarið 2004 án þess að nokkurn tímann væri gerð tilraun til að mæla umfang verkhluta stefnanda. Af gögnum málsins verður ekki séð að stefndi hafi leitast við að færa magntölur til réttari vegar fyrr en með framlagingu útreikninga RB mælinga ehf. 4. janúar 2007. Með hliðsjón af þessu tómlæti stefnda, svo og stöðu hans í viðskiptum aðila að öðru leyti, verður hann látinn bera hallann af skorti um sönnun um það að hvaða marki stefnandi vann að verkhluta 1.1. Verður því ekki fallist á andmæli stefnda við reikningnum.
C
Í greinargerð stefnda er sýknukrafa meðal annars byggð á því að „krafan sé greidd með innágreiðslum, sem og verkum sem hið stefnda félag hafi unnið fyrir stefnanda“. Í greinargerðinni er hvorki höfð uppi töluleg krafa til skuldajafnaðar, né er að finna nánari reifun á hugsanlegri gagnkröfu stefnda. Eftir framlagningu greinargerðar sinnar í héraði lagði stefndi fram gögn sem virðast vera útprentanir úr bókhaldi hans um skuldir stefnanda við hann. Ekkert liggur fyrir hvort og hvenær reikningar hafa verið gefnir út fyrir þeim fjárhæðum sem fram koma í þessum gögnum. Að öllu þessu virtu er það álit dómara að reifun stefnda á gagnkröfu hans fullnægi ekki skilyrðum 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til þess að á hana verði lagður dómur. Verður því hvorki tekin efnisleg afstaða til gagnkröfu stefnda né þess hvort fjármunaréttarlegum skilyrðum til skuldajafnaðar er fullnægt.
D
Samkvæmt öllu framangreindu verður andmælum stefnda við reikningum stefnanda hafnað. Þá er kröfu stefnda um skuldajöfnuð hafnað án þess að tekin sé efnisleg afstaða til hugsanlegrar kröfu sem hann kann að eiga á hendur stefnanda.
Varakrafa stefnda um frávísun málsins er haldslaus, sbr. einnig úrskurð héraðsdóms 29. september 2006. Verður henni hafnað.
Í málinu er viðurkennt að stefndi greiddi stefnanda 1.780.000 krónur áður en til útgáfu framangreindra reikninga kom. Í aðilaskýrslu stefnanda kom fram að umræddri innborgun hefði verið ráðstafað til greiðslu reiknings nr. 239 að fjárhæð 1.601.235 krónur. Af hálfu stefnanda hefur ekki verið gerð grein fyrir því inn á hvaða reikning stefnanda mismuninum, þ.e. 178.765 krónum, hefði verið ráðstafað. Að mati dómara er hér um að ræða ósamræmi milli kröfugerðar stefnanda og þeirra gagna sem hann styður málatilbúnað sinn við. Þótt stefndi hafi ekki haft upp athugasemdir um umrætt atriði verður krafa stefnanda lækkuð sem nemur umræddri fjárhæð, sbr. til hliðsjónar síðari málslið 96. gr. laga nr. 91/1991. Verður stefndi því dæmdur til að greiða 5.687.948 krónur. Með vísan til 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu verður krafa stefnanda um dráttarvexti tekin greina.
Eftir úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað. Við ákvörðun málskostnaðar verður að líta til þess að mál þetta hefur verið tekið fyrir alls níu sinnum eftir úthlutun til dómara af reglulegu dómþingi, í flestum tilvikum í tilefni af gagnaöflun stefnda. Þá var kröfu stefnda um frávísun málsins hafnað með úrskurði 29. september 2006. Að þessu virtu, svo og með hliðsjón af tímaskýrslu lögmanns stefnanda, verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 720.000 krónur í málskostnað. Er þá ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.
Af hálfu stefnanda flutti málið Bjarni Lárusson hdl.
Af hálfu stefnda flutti málið Hlöðver Kjartansson hrl.
Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Pálmi A. Sigurðsson, greiði stefnanda, Gunnari Júlíusi Helgasyni, 5.687.948 krónur með dráttarvöxtum frá 1. ágúst 2005 til greiðsludags.
Varakröfu stefnda um frávísun málsins er hafnað.
Stefndi greiði stefnanda 720.000 krónur í málskostnað.