Hæstiréttur íslands

Mál nr. 513/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Mánudaginn 18

 

Mánudaginn 18. nóvember 2002.

Nr. 513/2002.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Jón Höskuldsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. nóvember 2002. Kærumálsgögn bárust réttinum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. nóvember 2002, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 18. desember nk. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. nóvember 2002.

Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X verði á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, gert að sæta gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 18. desember 2002 kl. 16.00.

Í kröfugerð lögreglustjórans í Reykjavík segir að þann 2. nóvember sl., hafi kærði, að kröfu lögreglustjórans í Reykjavík, verið úrskurðaður í Héraðsdómi Reykjavíkur til að sæta gæsluvarðhaldi til kl. 16.00 í dag á grundvelli a-liðar 103. gr. laga nr. 19/1940. Að aðdragandi þeirrar kröfu hafi verið sá að kærði hafi verið grunaður um aðild að innbroti í íbúðarhúsnæði að [...]. Hafi kærði játað að hafa verið þar að verki ásamt öðrum manni. Hafi þeir stolið munum að verðmæti um 180.000 krónur.

Undanfarna mánuði hafi lögregla og dómstólar margoft þurft að hafa afskipti af X vegna ýmissa afbrota, svo sem innbrota og þjófnaða, sem og vegna umferðarlagabrots. Kærði hafi hlotið dóm 22. nóvember 2001 fyrir mörg auðgunarbrot og fíkniefnalagabrot framin á árinu 2001. Refsingin hafi verið ákveðin 15 mánaða fangelsi þar af 12 mánuðir skilorðsbundnir í 2 ár. Brotastarfsemin hafi verið stöðvuð með því að kærði hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald 21. september 2001 á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. oml og hafi hann setið í gæsluvarðhaldi fram að dómsuppsögu. Þann 23. maí sl. hafi kærði verið úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli a-liðar 103. gr. vegna aðildar hans að nokkrum þjófnuðum og innbrotum. Hafi hann rofið skilorð fyrrnefnds dóms með brotum sínum og verið dæmdur 4. september sl. í 12 mánaða fangelsi skilorðsbundið í 3 ár.

Þrátt fyrir framangreind afskipti lögreglu og dómstóla hafi kærði ekki látið sér segjast og nú rofið skilorð dómsins frá 4. september sl. Lögregla kveður eftirfarandi mál vera sem kærði sé grunaður um að hafa framið vera til meðferðar hjá lögreglu.

010-2002-20648. Innbrotsþjófnaður í [...] þann 29. júní sl. Stolið munum að verðmæti um kr. 1.100.000.

010-2002-22015. Innbrotsþjófnaður í íbúðarhúsnæði að [...] þann 8. júlí sl. Stolið munum að andvirði um kr. 200.000.

010-2002-22736. Innbrotsþjófnaður í [...] þann 19. júlí sl. Stolið munum að verðmæti um kr. 200.000.

010-2002-27976. Innbrotsþjófnaður þann 6. september sl. í [...], þann 6. september sl. Stolið tölvum og tölvubúnaði að verðmæti kr. 307.000.

010-2002-29561. Þjófnaður í 2 íbúðir að [...], þann 19. september sl. Stolið munum að verðmæti um kr. 367.121.

010-2002-30246. Innbrotsþjófnaður í [...] þann 27. september sl. Stolið munum að verðmæti um kr. 930.000.

010-2002-33804. Innbrotsþjófnaður í íbúðarhúsnæði að [...] þann 31. október sl. Stolið munum að verðmæti um. kr. 180.000.

Kærði hafi játað aðild sinni að fimm þessara brota sem varði við 244. gr. almennra hegningarlaga og rökstuddur grunur sá um að hann hafi framið hin.

Lögregla kveður kærða ekki hafa stundað launaða vinnu undanfarið, hann hafi verið í mikilli neyslu fíkniefna og standi í afbrotum til þess að fjármagna fíkniefnaneyslu sína. Nú í dag hafi lögregla birt fyrir kærða dóm undirréttar í Noregi þar sem hann hafi verið dæmdur í 6 mánaða fangelsi þar af 3 mánuði skilorðsbundið fyrir kynferðisafbrot.

Lögregla telur að yfirgnæfandi líkur séu á að kærði haldi áfram afbrotum gangi hann laus. Miklir hagsmunir af því að orðið verði við kröfu hennar svo koma megi í veg fyrir frekari afbrot og lögreglu og ákæruvaldi verði unnt að ljúka málum hans. Ákæra verði væntanlega gefin út í næstu viku.

Með vísan til alls framanritaðs, framlagðra gagna og loks með vísan til c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála er þess farið á leit að krafan verði tekin til greina.

Ákærði hefur játað aðild að fjórum innbrotum og þjófnaði á tímabilinu 29. júní til 31. október 2001. Aðild hans að þessum brotum er mismikil. Rökstuddur grunur þykir á að hann hafi framið tvö innbrot til viðbótar á sama tímabili. Fjögur umræddra brota voru framin eftir að kærði var dæmdur í 12 mánaða skilorðsbundið fangelsi 4. september 2002, þar af átti hann aðild að innbroti 6. september 2002. Kærði var áður dæmdur í 15. mánaða fangelsi þar af 12 mánuði skilorðsbundna 22. nóvember 2001 fyrir á annan tug auðgunarbrota og fíkniefnalagabrot framin á árinu 2001.

Með hliðsjón af framangreindu þykir ljóst að kærði hefur ekki látið sér segjast við tvo refsidóma sem hann hefur nýlega hlotið og haldið áfram brotastarfsemi. Má ætla að hann muni halda brotum áfram meðan máli hans er ekki lokið. Kærði á yfir höfði sér fangelsisrefsingu vegna brota þeirra sem hann hefur játað en einnig hefur hann rofið skilorð dómsins frá 4. september sl. með brotum sínum. Þykja því uppfyllt skilyrði c-liðs 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til þess að fallast á kröfu lögreglustjórans í Reykjavík um gæsluvarðhald yfir kærða og verður kærði því úrskurðaður í gæsluvarðhald til miðvikudagsins 18. desember nk. kl. 16.00.

Sigurður Tómas Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, en þó ekki lengur en til miðvikudagsins 18. desember nk. kl. 16.00.