Hæstiréttur íslands

Mál nr. 10/2009


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Skilorð
  • Miskabætur
  • Sératkvæði


Fimmtudaginn 17

 

Fimmtudaginn 17. desember 2009.

Nr. 10/2009.

Ákæruvaldið

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari)

gegn

Jóhannesi Berg Hjaltasyni

(Ásdís J. Rafnar hrl.)

 

Líkamsárás. Skilorð. Miskabætur. Sératkvæði.

J var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa hrint A þannig að hún féll í gólfið en við það hlaut hún heilahristing og eymsli yfir hægra gagnauga og kjálkalið. Hins vegar var ekki talið sannað að J hefði sparkað í höfuð hennar eins og greindi í ákæru. Talið var að háttsemin hefði verið með vilja J og að honum hefði mátt vera fyllilega ljóst að af henni gæti hlotist meiðsl. Að teknu tilliti til aldurs J, sem var 16 ára þegar brotið var framið, þess hve langur tími var liðinn frá brotinu, og þess að hann hafði ekki áður sætt refsingu, þótti rétt að fresta ákvörðun um refsingu hans skilorðsbundið í tvö ár frá uppsögu dómsins að telja.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 18. desember 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða verði staðfest en refsing hans þyngd. Þá er krafist staðfestingar á niðurstöðu dómsins um skaðabætur, vexti og dráttarvexti.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að honum verði ekki gerð refsing. Þá krefst hann þess aðallega að bótakröfu verði vísað frá dómi, en til vara að hann verði sýknaður af henni.

Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi er ákært fyrir líkamsárás með því að ákærði hafi 25. febrúar 2007 hrint A þannig að hún féll á gólfið og þá sparkað í höfuð hennar, með þeim afleiðingum að hún hafi hlotið heilahristing og eymsli yfir hægra gagnauga og kjálkalið.

Ákærði og A voru ásamt fleiri unglingum í samkvæmi sem haldið var að Viðarási 18, Reykjavík, umrætt sinn. Þau voru stödd í herbergi í húsinu þar sem einnig voru D og E, en hann bjó á staðnum. Til ágreinings kom milli ákærða og A, en ekki er upplýst hvert tilefnið var. Sannað er, meðal annars með játningu ákærða, að hann ýtti eða hrinti A þannig að hún lenti á rúmi er var í herberginu og að hún féll í framhaldi af því á gólfið. Ákærði neitar því að hann hafi í kjölfarið sparkað í eða til A. Hún kveðst sjálf hafa vankast við fallið er ákærði hrinti henni og ekki geta borið um það, hvort hann hafi sparkað í höfuð hennar. D bar fyrir dómi að ákærði hafi sparkað í átt að A eftir að hún féll á gólfið, en rúmið hafi verið fyrir þannig að hún hafi ekki getað séð hvort spörkin hafi lent í höfði hennar. E bar fyrir dómi að eftir að ákærði hafi hent A til hliðar og hún dottið í gólfið hafi hann gripið um ákærða, sem hafi sparkað ,,eitthvað til hennar“. Vitnið kvaðst fyrir dómi ekki hafa séð að ákærði hafi sparkað í höfuð A. Borin var undir vitnið frásögn, sem lögreglumaður skráði í skýrslu eftir símtal við hann 12. apríl 2007, sbr. nú 2. mgr. 60. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, um að ákærði hafi sparkað einu sinni í andlit A. Vitnið staðfesti ekki þessa frásögn, kvaðst ekki muna að hafa sagt þetta og verður ekki á skýrslu lögreglumannsins byggt um þetta atriði. Verður ekki talið að fram sé komin sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, um að ákærði hafi sparkað í höfuð A, sbr. nú 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008.

Verknaðarlýsing í ákæru tekur til þeirrar háttsemi ákærða, sem sönnuð er, að hann hafi umrætt sinn hrint A þannig að hún féll í gólfið og hlaut af þau meiðsl sem í ákæru greinir. Háttsemi ákærða var með vilja hans og honum mátti vera fyllilega ljóst að af henni gátu hlotist meiðsl. Verður hann sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Samkvæmt framansögðu og að teknu tilliti til aldurs ákærða, sem var 16 ára er brotið var framið, þess hve langur tími er liðinn frá broti, og þess að hann hefur ekki áður sætt refsingu þykir rétt að fresta ákvörðun um refsingu hans í tvö ár frá uppsögu dóms þessa, sbr. a. lið 1. mgr. 57. gr. almennra hegningarlaga, og skal hún falla niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 3. mgr. 57. gr. sömu laga.

Í hinum áfrýjaða dómi voru A dæmdar þjáningabætur og miskabætur án sérgreiningar. Engin gögn liggja fyrir um veikindi A vegna líkamsárásarinnar. Eru því ekki uppfyllt skilyrði 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 til að dæma þjáningabætur. A missti meðvitund er hún féll á gólfið af völdum ákærða. Í læknisvottorði Guðjóns Baldurssonar 4. apríl 2007 kemur fram að hún hafi hlotið heilahristing og áverka eins og lýst er í ákæru. Ekkert liggur fyrir um varanlegar afleiðingar líkamstjónsins. Miskabætur þykja hæfilega ákveðnar 50.000 krónur með vöxtum eins og greinir í dómsorði. Krafa um kostnað lögmanns við að halda fram skaðabótakröfu fyrir héraðsdómi er vanreifuð og verður henni vísað frá héraðsdómi.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður óraskað.

Ákærði greiði helming áfrýjunarkostnaðar málsins þar með talið málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að teknu tilliti til virðisaukaskatts eins og í dómsorði greinir.

Það athugast að rannsókn og meðferð máls þessa fram að útgáfu ákæru var ábótavant. Ekki var lagður fram uppdráttur af herberginu og skipan húsmuna í því þar sem atvik áttu sér stað, þótt slíkt hefði verið mikilvægt til upplýsingar. Þá var ákæra fyrst gefin út um einu og hálfu ári eftir að atvik málsins urðu, þótt um einfalt mál væri að ræða. Er þetta aðfinnsluvert.

Dómsorð:

Frestað er ákvörðun refsingar ákærða, Jóhannesar Berg Hjaltasonar, skilorðsbundið í tvö ár frá uppsögu dómsins að telja og skal hún falla niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði A 50.000 krónur í miskabætur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. febrúar 2007 til 29. október 2008 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Kröfu A um bætur vegna kostnaðar við að halda fram skaðabótakröfu er vísað frá héraðsdómi.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði greiði helming áfrýjunarkostnaðar málsins sem er í heild 200.911 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, Ásdísar J. Rafnar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur.

 

Sératkvæði

Jóns Steinars Gunnlaugssonar

Ekki verður refsað fyrir brot gegn 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 nema sannað sé að sakaður maður hafi haft ásetning til þess að valda líkamstjóni. Ég er sammála meirihluta dómara um að einungis sé sannað að ákærði hafi hrint A í rúm sem stóð í herberginu. Ekki hefur verið upplýst í málinu um stærð herbergisins, staðsetningu rúmsins eða stöðu ákærða og A þegar hann hrinti henni. Það er almennt ekki fallið til að valda líkamstjóni að hrinda manni ofan í rúm með dýnu, sérstaklega ef um er að ræða rúm þar sem dýnan liggur ofan á undirstöðum án rúmgafla eins og hér var raunin. Ákærði nýtur að réttum lögum vafans um huglæga afstöðu sína til þess verknaðar sem sannaður telst. Tel ég varhugavert að telja sannað að ákærði hafi við þá háttsemi sem telst sönnuð haft ásetning til að valda A líkamstjóni. Því beri að sýkna hann af sakargiftum ákærunnar og vísa skaðabótakröfu frá héraðsdómi. Samkvæmt þessu beri að leggja allan sakarkostnað málsins á ríkissjóð. Ég tel að staðfesta ætti ákvæði hins áfrýjaða dóms um fjárhæð málsvarnarlauna skipaðs verjanda ákærða í héraði en ákveða þau fyrir Hæstarétti að meðtöldum virðisaukaskatti, 249.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. desember 2008.

Ár 2008, miðvikudaginn 10. desember, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Ragnheiði Harðardóttur, settum héraðsdómara, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 995/2008: Ákæruvaldið gegn Jóhannesi Berg Hjaltasyni, sem tekið var til dóms í þinghaldi 28. nóvember sl.

Mál þetta er höfðað með ákæru Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 12. ágúst 2008, á hendur ákærða, Jóhannesi Berg Hjaltasyni, kt. 000000-0000, Iðnbúð 4, Garðabæ, „fyrir líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 25. febrúar 2007, hrint A, kt. 000000-0000, þannig að hún féll í gólfið og þá sparkað í höfuð hennar, með þeim afleiðingum að hún hlaut heilahristing og eymsli yfir hægra gagnauga og kjálkalið.

Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20, 1981 og 110. gr. laga nr. 82, 1998.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Í málinu gerir B, kt. 000000-0000, þá kröfu, fyrir hönd ólögráða dóttur sinnar, A [svo], að ákærði verði dæmdur til að greiða bætur að fjárhæð kr. 345.682.- með vöxtum skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 25. febrúar 2007, en síðan með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga.”

Við aðalmeðferð málsins óskaði sækjandi eftir því, með vísan til 1. mgr. 117. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, að fært yrði til bókar að hin meinta líkamsárás hefði átt sér stað að Viðarási 18 í Reykjavík.

Ákærði krefst þess að hann verði alfarið sýknaður af kröfum ákæruvalds og að bótakröfu verði vísað frá dómi, jafnframt því sem allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði.  Til vara krefst ákærði þess að honum verði ekki gerð refsing í málinu.

Málavextir

Aðfaranótt sunnudagsins 25. febrúar 2007, kl. 3:33, barst lögreglu tilkynning um að líkamsárás hefði átt sér stað að Viðarási 18 í Reykjavík, þar sem sparkað hefði verið í höfuð 16 ára stúlku og væri hún talin meðvitundarlaus. Samkvæmt skýrslu lögreglu reyndist meintur árásarmaður á bak og burt er lögreglumenn bar að garði. Nokkrir unglingar voru saman komnir í húsinu, þ.á m. A, sem sögð var hafa orðið fyrir líkamsárásinni. Stúlkan sagðist ekki vita hver hefði ráðist á hana. Hún sagðist kenna til eymsla í enni og að hún hefði kastað upp eftir að hafa fengið högg á framanvert höfuðið. Roði og marblettir voru á enni stúlkunnar. Var hún flutt á slysadeild til skoðunar.

C gaf sig fram við lögreglu á vettvangi og sagðist eiga þarna heima. C sagðist ekki vita hvað hefði gerst, en A og einhver piltur hefðu farið inn í herbergi og lokað að sér. Hann sagðist ekki vita hvað fór fram í herberginu og ekki vita nafn piltsins.

Mánudaginn 26. febrúar mætti A hjá lögreglu í fylgd föður síns og lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir líkamsárás. A sagðist hafa verið þarna stödd í samkvæmi ásamt 10-15 unglingum. Hún sagðist hafa neytt áfengis, en ekki í þeim mæli að hún hefði verið ofurölvi. Hún sagðist muna eftir því að hafa setið við heimilistölvuna og að ákærði, sem hefði verið áberandi ölvaður, hefði verið að atast í henni. Hún hefði beðið hann um að láta sig vera og fara í burtu. Hann hefði þá spurt hvort hann ætti að berja hana og hún svarað honum að gera það bara. Þá hefði ákærði ráðist á hana. A sagðist muna eftir því að hafa fengið högg á vinstri kinn og hefði hún fallið í gólfið. Eftir það væri allt í móðu. Henni hefði verið sagt að ákærði hefði sparkað í höfuð hennar.

Samkvæmt vottorði Guðjóns Baldurssonar, sérfræðings á slysa- og bráðadeild Landspítala - háskólasjúkrahúss, dvaldist A á deildinni í um klukkustund aðfaranótt sunnudagsins 25. febrúar og fékk þar verkjalyf. Hún hefði leitað aftur til slysadeildar á sunnudagskvöldi. A hefði sagst hafa orðið fyrir líkamsárás nóttina áður og hefði verið lamið í höfuð hennar og sparkað í höfuð hægra megin. Hún hefði misst meðvitund og verið rugluð á eftir. Um daginn hefði hún verið með höfuðverk, ekki getað legið á hægri hlið, haft viðvarandi ógleði og kastað upp. Við skoðun reyndist A vera þreifiaum yfir gagnaugasvæði hægra megin. Einnig voru eymsli yfir kjálkalið. Ekki var að sjá neitt mar, sár eða önnur áverkamerki og taugaskoðun var eðlileg. Var A greind með yfirborðsáverka á höfði og heilahristing. Segir í vottorðinu að áverkar þessir geti vel komið heim og saman við sögu sjúklings.

Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 18. apríl 2007 og sagðist hafa verið inni í herbergi með A og fleiri unglingum í umrætt sinn. Hefði komið til orðaskipta á milli þeirra A, en hún hefði verið að espa hann upp og meðal annars ítrekað sagst hata hann. Hann hefði beðið hana að hætta þessu, en hún þá sagt honum að berja sig. Við þetta hefði fokið í hann. Hefði hann þrifið í A og hún dottið í gólfið. Ákærði sagðist hafa yfirgefið húsið eftir þetta og farið heim til sín. Hann sagðist hafa verið mikið ölvaður þetta kvöld og ekki muna mikið eftir þessu. Hann myndi ekki eftir að hafa sparkað í A. Hann myndi eftir að hafa hrint henni og minnti að hún hefði við það lent með höfuðið á hlið rúms sem þarna var. Þegar læknisvottorð var borið undir ákærða áréttaði hann að hann hefði hrint A í rúmið og að áverkalýsing kæmi heim og saman við það. Hún hefði rekið höfuðið í rúmið og væntanlega meitt sig á höfði við það.

Í lögregluskýrslu frá 11. apríl 2007 vegna símtals við D kom fram að þær A hefðu verið inni í herbergi að spjalla saman þegar tveir strákar hefðu komið þar inn sem hún taldi heita E og Jóhannes, kallaður Jói. Jói og A hefðu farið að rífast og hefði hún séð hvar hann henti A í gólfið. D sagðist hafa gengið á milli, en þá hefði Jói ýtt henni frá sér svo að hún datt í rúmið. Síðan hefði hún séð hvar hann sparkaði ítrekað í átt að A þar sem hún lá á gólfinu. Hún hefði hinsvegar ekki séð hversu oft hann hitti hana. Jói hefði loks verið tekinn í burtu og hún farið að tala við A. A hefði ekkert sagt, en bara grátið.

Í lögregluskýrslu frá 12. apríl 2007 vegna símtals við E kom fram að samkvæmi hefði staðið yfir á heimili hans. A og ákærði hefðu verið inni í herberginu hans ásamt D. E sagðist síðan hafa heyrt einhver læti inni í herberginu og farið inn og þá séð A og ákærða vera að rífast. Hann hefði síðan séð að ákærði hrinti A. Hann kvaðst halda að ákærði hefði ætlað að hrinda A í rúmið, en hún hefði fallið á gólfið. E sagðist þá hafa gripið utan um ákærða, en þá hefði hann sparkað einu sparki í andlit A.

Fyrir dómi sagðist ákærði hafa verið inni í herbergi að tala við A, en hann hefði ekki þekkt hana áður. Komið hefði til orðaskipta á milli þeirra og hefði hann ætlað út úr herberginu. A hefði verið fyrir honum og hefði hann ýtt henni burt. Ákærði kvaðst ekki hafa séð hvort hún féll við þegar hann ýtti henni. Hann neitaði að hafa sparkað í höfuð stúlkunnar. Áverkar hlytu að hafa hlotist af því að hún hefði dottið á höfuðið. Ákærði kvaðst ekki hafa verið mikið ölvaður þetta kvöld. Hinsvegar myndi hann atvik illa þar sem langt væri um liðið. Hann kvaðst hafa verið skólaus inni í íbúðinni. Ákærði kvaðst ekki muna eftir því að A hefði rekið höfuðið í hlið rúmsins. Hann kvaðst telja að hann hefði hrint henni í rúmið eins og hann hefði lýst hjá lögreglu og að hún hefði rekið höfuðið í hlið rúmsins þegar hún féll. Hann kvaðst ekki draga í efa að áverkar sem lýst væri í áverkavottorði væru af völdum þessa falls.

A sagði þau ákærða hafa farið að kýta vegna þess að hann hefði viljað komast í tölvuna og ekki viljað bíða eftir því að hún lyki við það sem hún var að gera. Ákærði hefði kýlt hana í kjálka vinstra megin og hefði hún við það fallið niður og misst meðvitund. Hún hefði kastað upp þegar hún vaknaði aftur og hefði vinkona hennar sagt að ákærði hefði sparkað í höfuð hennar. A sagðist hafa setið við tölvuna þegar ákærði sló hana.

D sagði þær A hafa verið við tölvuna í umrætt sinn. Ákærði hefði komið inn og þau A farið að þræta. Minnti hana að A hefði staðið upp og ákærði þá ýtt við henni svo að hún féll. D sagðist hafa séð ákærða sparka í átt að A eftir að hún féll, en ekki séð hvort spörkin lentu á henni. Hún hefði ekki séð nákvæmlega hvað gerðist eftir að A féll þar sem rúmið hefði byrgt henni sýn. A hefði fallið fyrst á rúmið og síðan niður á gólf. Hún sagðist ekki muna hvort ákærði hefði verið í skóm þegar þetta var, en taldi líklegra að hann hefði verið á sokkaleistunum. Borið var undir D það sem haft var eftir henni í lögregluskýrslu að hún hefði séð ákærða sparka ítrekað í átt að A þar sem hún lá á gólfinu, en ekki séð hversu oft hann hitti í hana. Sagðist hún ekki hafa séð ákærða sparka í A, heldur í átt til hennar. Ákærði hefði sparkað oftar en einu sinni í átt til A.

E sagði atvikið hafa orðið í herbergi sínu. Hefði A setið í tölvustólnum og þau ákærði verið að rífast. Ákærði hefði tekið í A og hent henni til hliðar svo að hún féll í gólfið. Hann minnti að ákærði hefði tekið um axlir A og hrint henni. E sagðist þá hafa tekið utan um ákærða, sem hefði sparkað til A þar sem hún lá. Hann hefði verið að horfa á ákærða og ekki séð hvað gerðist, en svo litið á A og hefði hún þá legið á gólfinu og verið „í roti“ að því er hann taldi. Síðan hefði hún vaknað upp og byrjað að gráta. Borið var undir E það sem haft var eftir honum í lögregluskýrslu að hann hefði gripið utan um ákærða sem hefði þá sparkað einu sparki í andlit A. Hann sagðist ekki muna eftir að hafa sagt þetta, en verið gæti að hann hefði munað þetta betur þá. E sagðist jafnframt ekki muna það greinilega hvort A stóð eða sat þegar þetta gerðist. E lýsti rúmi sínu sem „amerísku rúmi“. Ekkert væri hart á því nema fæturnir. Hann sagðist minna að E hefði dottið á rúmið og „skoppað“ af því niður á gólf. E sagðist telja að ákærði hefði verið á sokkaleistunum þegar þetta gerðist.

Guðjón Baldursson, sérfræðingur á slysa- og bráðadeild Landspítala -háskólasjúkrahúss, kom fyrir dóminn og staðfesti læknisvottorð sitt. Guðjón sagði áverka sem lýst er í vottorðinu geta komið heim og saman við þá lýsingu að sparkað hefði verið í höfuð stúlkunnar. Hinsvegar væri ekki hægt að staðfesta að þetta hefði gerst. Stúlkan hefði ekki verið með sýnilega áverka, svo sem mar. Greining væri byggð á einkennum sem hún hefði lýst við skoðun.

Niðurstaða

Ákærði neitar sök. Hann viðurkennir að hafa hrint A  þannig að hún féll í gólfið, eins og lýst er í ákæru. Hann neitar hinsvegar að hafa sparkað í höfuð hennar eftir að hún féll.

Vitnin D og E hafa bæði borið að ákærði hafi hrint A svo að hún féll í gólfið. D sagðist hafa séð ákærða sparka ítrekað í átt til A eftir að hún féll, en þar sem A hefði legið í hvarfi bakvið rúm hefði hún ekki séð hvort spörkin hæfðu hana. Í lögregluskýrslu E kemur fram að ákærði hafi sparkað í andlit A þar sem hún lá á gólfinu. Fyrir dómi sagðist E hafa séð ákærða sparka til A. Þegar hann hefði litið til A eftir þetta hefði hún legið á gólfinu og verið meðvitundarlaus að því er hann taldi. E sagði þó að verið gæti að hann hefði munað atvik betur við skýrslugjöf hjá lögreglu. A sagði ákærða hafa slegið sig hnefahögg í kjálka vinstra megin og hefði hún við það fallið niður og misst meðvitund. Samkvæmt læknisvottorði Guðjóns Baldurssonar og vætti sérfræðingsins fyrir dómi gátu yfirborðsáverkar á höfði og heilahristingur, sem stúlkan greindist með komið heim og saman við að hún hefði verið slegin í höfuð og sparkað í höfuð hennar eins og hún hefði lýst við komu á slysadeild. Þykir ekki varhugavert að telja sannað að A hafi hlotið áverkana við það að ákærði hafi sparkað í höfuð hennar eftir að hafa hrint henni svo að hún féll í gólfið. Samkvæmt þessu er ákærði sannur að líkamsárás á A, eins og rakið er í ákærunni og réttilega er þar fært til refsiákvæða.

Refsing, skaðabætur og sakarkostnaður

Við ákvörðun refsingar verður litið til þess að ákærði var aðeins 16 ára er hann framdi brotið, en meðferð málsins hefur tafist úr hófi. Þótt sú háttsemi að sparka í höfuð hljóti ávallt að teljast vítaverð verður lagt til grundvallar að ákærði hafi verið skólaus þegar atlagan átti sér stað og hún því ekki eins ámælisverð og ella. Þá liggur fyrir að komið hafði til orðaskipta á milli ákærða og A áður en ákærði veittist að stúlkunni og þykir aðdragandi líkamsárásarinnar með þeim hætti að við ákvörðun refsingar megi taka mið af 3. mgr. i.f. 218. gr. b. almennra hegningarlaga. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Af hálfu A hefur verið krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða skaðabætur að fjárhæð kr. 345.682 með vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 25. febrúar 2007, en síðan með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga.

Höfuðstóll kröfunnar sundurliðast þannig:

1.        Þjáningabætur í 30 daga, kr. 1.130 á dag, sbr. 3. gr. skaðabótalaga, samtalskr.  33.900

2.     Miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalagakr. 250.000

3.     Lögfræðikostnaður að viðbættum virðisaukaskatti     kr. 61.782

Samtalskr. 345.682

Með hliðsjón af læknisfræðilegum gögnum þykja þjáninga- og miskabætur hæfilega ákveðnar 50.000 krónur. Þá ber að dæma ákærða til að greiða kostnað við að halda fram bótakröfu, 61.782 krónur. Ber þannig að dæma ákærða til að greiða A 111.782 krónur, sem beri vexti eins og í dómsorði greinir.

Dæma ber ákærða til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ásdísar Rafnar hæstaréttarlögmanns, 180.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, auk annars sakarkostnaðar málsins, 25.700 krónur.

Ragnheiður Harðardóttir settur héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð:

Ákærði, Jóhannes Berg Hjaltason, sæti fangelsi í 30 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði greiði A skaðabætur að fjárhæð 111.782 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 25. febrúar 2007 til 29. október 2008, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði 205.700 krónur í sakarkostnað, þar með talið málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ásdísar Rafnar hæstaréttarlögmanns, 180.000 krónur.