Hæstiréttur íslands

Mál nr. 37/2005


Lykilorð

  • Sjómaður
  • Líkamstjón
  • Vátrygging
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 2

 

Fimmtudaginn 2. júní 2005.

Nr. 37/2005.

Guðlaugur L. Sveinsson

(Þorsteinn Einarsson hrl.)

gegn

Tryggingamiðstöðinni hf.

(Guðmundur Pétursson)

 

Sjómenn. Líkamstjón. Vátrygging. Gjafsókn.

G var skipverji á fiskiskipi og var sem slíkur tryggður kjarasamningsbundinni slysatryggingu hjá T. G varð fyrir líkamstjóni þegar hann var við vinnu sína að lyfta svonefndri bakstroffu og fékk við það hnykk á bakið. Hélt G því fram að hann hefði við þetta orðið fyrir slysi. Talið var ótvírætt af gögnum málsins að ekki hefði verið um að ræða skyndilegan, utanaðkomandi atburð eða að líkamstjón G yrði rakið til ákomu eða áhrifa utan að og yrði atburðurinn því ekki talinn slys í skilningi vátryggingarskilmála. Var T sýknað af kröfu G.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason og Hrafn Bragason.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. janúar 2005 og krefst þess að stefndi greiði sér 21.694.230 krónur með tilgreindum vöxtum frá 29. september 2001 til greiðsludags og málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum  hefur verið veitt.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna héraðsdóms ber að staðfesta hann.

Rétt er að hvor aðila beri sinn kostnað málsins fyrir Hæstarétti.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda greiðist úr ríkissjóði eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Guðlaugs L. Sveinssonar, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Þorsteins Einarssonar hæstaréttarlögmanns, 250.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. nóvember 2004.

                Mál þetta var höfðað 16. febrúar 2004 og dómtekið 1. þ.m.

Stefnandi er Guðlaugur L. Sveinsson, Kambaseli 10, Reykjavík.

Stefndi er Tryggingamiðstöðin hf., Aðalstræti 6-8, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 21.694.230 krónur með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum, af 3.671.053 krónum frá 29. september 2001 til 20. nóvember 2002 en frá þeim degi af 21.694.230 krónum til 17. febrúar 2004 en með dráttar­vöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.  Stefnandi krefst einnig málskostnaðar úr hendi stefnda eins og málið væri ekki gjafsóknarmál en honum var veitt gjafsóknarleyfi 17. október 2003.

Af hálfu stefnda er krafist sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans.

Stefnandi var háseti á frystitogaranum Höfrungi III frá Akranesi er það atvik varð 29. september 2001, þegar verið var að taka trollið inn, sem er efni máls þessa.  Um það segir í tilkynningu skipstjórans Kristjáns Péturssonar, dags. 6. mars 2002, til útgerðar og Tryggingastofnunar ríkisins,, sbr. 221. gr. siglingalaga nr. 34/1985: 

“Kl. 14.20 híft á stað þessum . . . Veður var norð-austan 5-6 vindstig.  Hinn slasaði (stefnandi máls þessa-innskot dómara) var á trollþilfari og var búinn að losa úr bakstroffu og var að lyfta henni út úr rennunni þegar hann fann fyrir hnykk í baki og fylgdi því mikill sársauki sem leiddi niður í vinstri fót.  Var hann með öllu óvinnufær og lá algerlega fyrir.  Hóf síðan störf en kenndi mikils sársauka.  Þann 17.10. kom skipið til hafnar, þá hafði sársaukinn rénað.  Hinn slasaði fór síðan í næsta túr og leitaði læknis við lok þeirrar veiðiferðar en þá var ástand hans orðið mjög slæmt.  Kom þá í ljós brjósklos.”

Í læknisvottorði Kristins R. Guðmundssonar, dags. 18. febrúar 2002, sem stefnandi leitaði til 26. nóvember 2001, segir að stefnandi hafi verið að losa úr bakstroffu um borð er hann hafi fengið hnykk á bakið ásamt miklum sársauka sem leiddi niður í fót.  Hann hafi leitað á slysadeild 20. nóvember 2001.  Hann hafi verið óvinnufær fyrstu tvo daga eftir slysið og síðan í lok næsta túrs (20.11.2001).  Um niðurstöðu skoðunar  segir:  “Haltur.  Getur lítið beygt sig.  Getur ekki setið flötum beinum.  Dofa- og máttleysiskennd í h. fæti.  Minnkuð viðbrögð í fótum.  Eymsl í mjóbaki, h. rasskinn og aftanverðu læri.  Niðurstaða skoðunar var að um brjósklos gæti verið að ræða en rannsóknir hafa ekki sýnt fram á það. . .”  .  Hann kom aftur í skoðun til Kristins R. Guðmundssonar 10. desember 2001 samkvæmt vottorði hans dags. 17. október 2002.  Þar segir:  “. . . Það er svo að Guðlaugur hefur verið illa haldinn af verkjum í baki og hægri mjöðm og fæti í tæpt ár eftir umrætt óhapp um borð í Höfrungi III í lok september 2001.  Hann hefur alls ekki náð að lagast þrátt fyrir ýmiskonar meðferð og ekki hefur heldur fundist nein ástæða til aðgerðar.  Það er því ekki um annað að ræða en almenna meðferð áfram.  Hann er samt nýbyrjaður hjá nýjum sjúkraþjálfara og standa vonir til að það muni hafa góð áhrif.  Hann er ennþá óvinnufær.  Í ljósi þess hve bati hefur verið lítill og hægur verður ekki um það fullyrt hversu lengi veikindi hans munu enn standa en það gæti dregist á langinn.” Sjúkdóms­greiningar Kristins voru lumbago (mjóbaksverkur), lumbago ischiasi/radiculitis (mjóbaksverkur með taugaertingu) og spurning um brjósklos í baki.  Kristinn R. Guðmundsson vísaði stefnanda til Ragnars Finnssonar læknis til sársauka- og deyfingarmeðferðar sem varaði frá maí 2002 til október s.á. og segir í “samantekt og áliti” vottorðs Ragnars, dags. 19. október 2002:  “. . . Rúmlega fertugur karlmaður sem hlaut tognunaráverka í mjóbaki fyrir rúmu ári síðan við störf úti á sjó.  Hefur haft viðvarandi verkjavandamál frá mjóbaki með leiðni niður í ganglimi síðan en hefur heldur skánað við sjúkraþjálfun og deyfingar þannig að verkir eru nú meira í bakinu en minni leiðni í fætur.  Ólíklegt er að Guðlaugur nái nokkurn tímann fullum bata þó verkir geti enn minnkað þegar frá líður.”

Þann 14. mars 2002 sendi stefnandi stefnda tjónstilkynningu vegna slyss og var það á grundvelli slysatryggingar (sbr. síðar).  Stefndi óskaði eftir því við sýslu­manninn á Akranesi að fram færi lögreglurannsókn og verður hér á eftir greint í meginatriðum frá efni lögregluskýrslna sem gerðar voru í byrjun apríl s.á.

Stefnandi lýsti aðdraganda þannig að unnið hafi verið við að taka inn trollið.  Hann hafi verið að lyfta þungri bakstroffukeðju til þess að henda henni út úr rennunni.  Við það hafi hann fengið mikinn hnykk á bakið og mikinn verk sem leiddi niður í vinstri fót.  Hann kvaðst fyrst hafa farið á togara árið 1976, vera vanur þessari vinnu og ekki hafa staðið öðruvísi að verki en endranær.  Hann kvaðst strax hafa orðið óvinnu­fær og verið frá í tvær eða þrjár vaktir.  Hann hafi reynt að vinna aftur en ávallt verið með verk.  Hann hafi farið í næsta túr á eftir en sífellt versnað og verið óvinnufær síðan.

Elías Ólafsson kvaðst hafa verið bátsmaður í umræddri veiðiferð og verið við að stjórna hífingum frá brú skipsins.  Stefnandi hafi verið að lása út bakstroffunni á hlerunum;  hann hafi þurft að fara út í rennuna, lása þar út og það séu mikil þyngsli á keðjunni.  Hann kvaðst hafa séð að stefnandi átti í erfiðleikum með keðjuna, þ.e. að færa hana út úr rennunni.  Eftir þetta hafi stefnandi kvartað um verk í baki, reynt að harka af sé í smátíma en síðan verið óvinnufær.  Aðspurður hvort eitthvað öðru vísi hafi verið staðið að verki en venjulega kvað hann svo ekki hafa verið.  Aðspurður um veður sagði hann að það hafi verið smá kaldi.

Elís Þorgeir Friðriksson kvað stefnanda hafa verið að lása úr bakstroffunni í umrætt sinn og ekki hafi farið á milli mála að eitthvað gerðist því að stefnandi hafi ekki rétt úr sér eftir þetta.  Hann kvaðst hafa verið að bíða eftir því að stefnandi lásaði úr bakstroffunni til þess að henda síðan keðjunni út í síðu.  Hann kvað stefnanda hafa verið vanan þessum verkum og greinilega góðan verkmann.

Lögregla hafði (sím-)tal af Kristjáni Péturssyni, skipstjóra á Höfrungi III.  Hann kvaðst muna vel eftir atvikinu.  Hann hafi verið við stjórn skipsins í umrætt sinn og fylgst með því sem gerðist.  Staðið hafi verið að verki á venjulegan hátt og ekki á neinn hátt hægt að kenna ytri aðstæðum um hvað gerðist.  Stefnandi hafi verið að lyfta þungum hlut og meiðst í baki við það.

Í bréfi stefnda til stefnanda, dags. 17. apríl 2002, segir að á grundvelli fyrirliggjandi tjónstilkynningar og lögregluskýrslu verði ekki séð annað en að það tilvik, sem hér um ræðir, falli ekki undir skilgreiningu greinar 2.2 í skilmálum slysa­tryggingar þar sem ekki sé um neinn utanaðkomandi atburð að ræða sem valdi meiðslunum.  Óhjákvæmilegt sé því að hafna bótaskyldu en stefnanda er bent á mál­skots­rétt til tjónanefndar vátryggingafélaganna.  Niðurstaða þeirrar nefndar var þessi sam­kvæmt fundargerð 30. apríl 2002:  “Ekki er um slys að ræða í skilningi vátryggingaréttar.  Tjónið bætist ekki.”

Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 10. apríl 2002, til stefnanda er honum tjáð að fallist hafi verið á að um sé að ræða bótaskyldan atburð og geti hann átt rétt á eftirfarandi bótum vegna slyssins:  Sjúkrahjálp, dagpeningum og örorkubótum.

Í bréfi lögmanns stefnanda til stefnda 27. maí 2002 er mótmælt þeirri afstöðu hans að hafna bótaskyldu.  “. . .Umbj. minn tekur fram að slys hans varð við vinnu hans við að lyfta þungum keðjum og fékk hann mikinn hnykk á bakið er skipið féll í öldu.  Umbj. minn telur því ótvírætt að um utanaðkomandi atburð hafi verið að ræða og því slys skv. skilmálum slysatryggingar.”

Stefndi sendi lögmanni stefnanda svar við framangreindu bréfi 5. júlí 2002.  Á það er bent að fram hafi komið að staðið hafi verið venjulega að verki og hvergi sé að því vikið að eitthvað óvenjulegt eða óvænt hafi gerst sem valdið hafi bakein­kennunum.  Því sé ógerlegt að byggja á því að slysið megi rekja til þess að skipið hafi fallið í öldu.  Ítrekuð er sú afstaða að tjónið sé ekki bótaskylt úr téðri slysatryggingu.  Stefnanda er bent á að vísa málinu til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum sem hann gerði síðan.  Samkvæmt úrskurði 16. ágúst 2002 var niðurstaða nefndarinnar sú að tjón stefnanda sé ekki afleiðing slyss í skilningi skilmála kjarasamningsbundinnar slysa­tryggingar sjómanna.

Lögmaður stefnanda óskaði eftir mati Jónasar Hallgrímssonar læknis samkvæmt skaðabótalögum nr. 50/1993 vegna óhapps stefnanda, “vinnuslyss á sjó 29. september 2001.”  Matsgerð er dagsett 10. mars 2003.  Um almenna niðurstöðu segir þar:  “Samkvæmt frásögn skipstjóra, annarra áhafnarmeðlima og síðan Guðlaugs sjálfs virðist ljóst að Guðlaugur varð fyrir slysi við þennan atburð sem leiddi til mikillar tognunar í mjóbaki með leiðslu niður í gagnlimi en Guðlaugur hafði aldrei fundið fyrir slíku áður.  Einkenni hans hafa haldist síðan en þó með einhverri rénun eftir með en Guðlaugur hefur ekki komist til starfa á ný og er núna að reyna að hefja nám.  Undirrituðum finnst afar ólíklegt að Guðlaugur komist aftur til starfa á sjó og alls er óvíst um framvindu hans varðandi nám enda erfitt um vik vegna bakóþægindanna annars vegar og erfiðra námsgreina sem Guðlaugur er nú að stríða við, sennilega sumra í fyrsta sinn.”  (Tilvitnað nám er við Tækniskóla Íslands.  Við aðalmeðferð málsins 1. þ.m. kvaðst stefnandi enn vera óvinnufær.)  Niðurstöður matsins eru þær að tímabundið atvinnutjón stefnanda teljist vera 100% tímabilið 20. nóvember 2001 til 20. nóvember 2002 og teljist hann hafa verið veikur í skilningi skaðabótalaga það tímabil.  Stöðugleikapunktur er settur 20. nóvember 2002.  Varanlegur miski er metinn 15% og varanleg örorka 35%.

Kröfugerð stefnanda er reist á slysatryggingu sjómanna sem útgerð Höfrungs III., Haraldur Böðvarsson hf., hafði keypt hjá stefnda samkvæmt kjarasamningi frá 16. maí 2001 milli Sjómannasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins f.h. Landssambands ísl. útvegsmanna en þar segir:  “. . .Útgerðin skal tryggja hvern þann mann sem samningur þessi nær til og slasast um borð í skipi eða í vinnu í beinum tengslum við rekstur skips í samræmi við ákvæði 172. gr. laga nr. 34/1985.  Bætur úr vátryggingu þessari skulu ákvarðast á grundvelli reglna skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum leiði það til hærri heildarbóta en samkvæmt 172. gr. laga nr. 34/1985.  Bætur úr vátryggingu þessari dragast frá skaðabótum frá útgerð.  Skaða­bætur frá bótaskyldum þriðja aðla eða samkvæmt ábyrgðartryggingu koma til frá­dráttar bótum samkvæmt vátryggingu þessari.  Um vátryggingu þessa skulu að öðru leyti gilda almennir skilmálar fyrir slysatryggingu sjómanna. . . “

Um slysatrygginguna gilda vátryggingaskilmálar stefnda nr. 781.  Þar segir í grein 2.1:  “Félagið greiðir bætur vegna slyss er sá sem tryggður er verður fyrir eins og segir í vátryggingarskírteini eða iðgjaldskvittun og skilmálum þessum.  Skilgreiningu slysahugtaksins er að finna í grein 2.3:  “Með orðinu “slys”er hér átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem veldur meiðslum á líkama þess sem tryggður er og gerist án vilja hans.”

Á því er byggt af hálfu stefnanda að óumdeilt sé að afleiðingar þær sem stefnandi hafi orðið fyrir hafi átt sér stað vegna vinnu hans og þess atburðar sem um ræðir.  Slysið hafi átt sér stað vegna óvenjulegs álags enda um þunga keðju að ræða sem stefnandi hafi orðið að lyfta við erfiðar vinnuaðstæður þar sem skipið hafi verið á hreyfingu auk þess sem það hafi fallið í öldu í sama mund sem sé til þess fallið að auka álagið til muna.  Því sé um að ræða slys í skilningi kjarasamnings og 1. tl. 2. gr. vátryggingaskilmála stefnda.

Á því er byggt af hálfu stefnanda að við túlkun slysahugtaksins beri að líta til eðlis þeirra bóta sem um ræðir en þær séu af félagslegum toga og því sé ástæða til að beita rúmri túlkun við skilgreininguna.  Hins vegar er byggt á því að engu skipti hvort beitt sé hefðbundinni túlkun vátryggingaréttar eða annarri rýmri túlkun, sem bersýnilega eigi við, enda falli slys stefnanda í báðum tilvikum endir hugtakið “slys” samkvæmt karasamningi og vátryggingaskilmálum stefnda.

Krafa stefnanda er þannig sundurliðuð:  1.  Tímabundið atvinnutjón (7.678 að frádr. 4.923.511) 2.755.003 krónur.  2.  Þjáningabætur (90x970) 85.500 krónur.  3.  Varanlegur miski (15% af 5.537.000) 830.550 krónur.  4.  Varanleg örorka (6.067.000 x 10.289 x 35%) 21.848.177 krónur að frádregnum 40% greiðslum frá TR til 31/03/05 356.000 krónum og að frádregnum 40% af greiðslu frá lífeyrissj. til 31/03/06 3.469.000 krónum.

Af hálfu stefnda er vísað til þess að þeim sem hafi gefið skýrslur um atvikið beri saman um  að eðlilega hafi verið staðið að verki og ekkert óvenjulegt komið upp á.  Fullyrðingu um að þetta hafi gerst þegar skipið féll niður í öldu er mótmælt sem ósannaðri.  Til frekari áréttingar mótmælir stefndi því að hreyfing skips úti á rúmsjó geti talist skyndilegur utanaðkomandi atburður.  Þar sé ekkert óvænt eða skyndilegt á ferðinni.  Það að lyfta þungri byrði geti ekki talist slys í skilningi skilmála þeirra, sem giltu um trygginguna, og því verði að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

Í máli þessu, sem stefnandi höfðar gegn hinu stefnda tryggingafélagi, ræður úrslitum hvort líkamstjón stefnanda, sem varð við það að hann lyfti þungri byrði við vinnu sína á sjó, falli undir skilgreiningu vátryggingaskilmála stefnda á hugtakinu slys.  Ekkert er fram komið um óvænt, skyndileg utanaðkomandi atvik.   Því er hafnað að rök geti staðið til þess að fallast á að þar sem umsamdar bætur séu af félagslegum toga eigi það að leiða til rýmkaðrar túlkunar í skiptum aðila.  Framangreind skilgreining á “slysi” í grein 2.3 í vátryggingaskilmálum stefnda er hin hefðbundna skilgreining slysahugtaksins í íslenskum vátryggingarétti.

Ótvírætt er af gögnum málsins að leggja beri til grundvallar að ekki hafi verið um að ræða í umrætt sinn skyndilegan, utanaðkomandi atburð eða að líkamstjón stefnanda verði rakið til ákomu eða áhrifa utan að.  Samkvæmt þessu er niðurstaða dómsins sú að sýkna beri stefnda að kröfum stefnanda.  Ákveðið er að málskostnaður skuli falla niður.  Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. útlagður kostnaður að upphæð 86.800 krónur og málflutningslaun lögmanns hans, Þorsteins Einarssonar hrl., 500.000 krónur.

Mál þetta dæmir Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Guðlaugs L. Sveinssonar.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. útlagður kostnaður að upphæð 86.600 krónur og málflutningslaun lögmanns hans, Þorsteins Einarssonar hrl., 500.000 krónur.