Hæstiréttur íslands
Mál nr. 29/2005
Lykilorð
- Vátryggingarsamningur
- Bifreið
- Ölvunarakstur
- Nytjastuldur
- Húftrygging
|
|
Fimmtudaginn 9. júní 2005. |
|
Nr. 29/2005. |
Ástþór Magnússon Wium(Róbert Árni Hreiðarsson hdl.) gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf. (Ólafur Haraldsson hrl.) |
Vátryggingarsamningur. Bifreiðir. Ölvunarakstur. Nytjastuldur. Húftrygging.
Á krafðist viðurkenningar á bótaskyldu vegna tjóns sem hann varð fyrir þegar bifreið hans var tekin ófrjálsri hendi við heimili hans og henni ekið á skilti. Talið var í ljós leitt að kona sem Á hafði þekkt í tæpa tvo mánuði hefði ekið bifreiðinni umrætt sinn og verið óhæf til að stjórna henni vegna áfengisáhrifa og ekið svo óvarlega að bifreiðin skemmdist. Hélt Á því fram að hann og ökumaðurinn hefðu ekki hafið sambúð fyrr en talsvert löngu síðar og gengið í hjónaband rúmum tveimur árum eftir atburðinn. Báru konan og systir hennar sem var farþegi í bílnum á sömu lund um kynni þeirra fyrrnefndu og Á. Gegn eindregnum mótmælum Á varð því ekki talið nægilega sannað að konan hefði haft heimild til að aka bifreiðinni. Var því fallist á bótaskyldu S hf. gagnvart Á.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. janúar 2005. Hann krefst viðurkenningar á bótaskyldu stefnda vegna tjóns sem hann hafi orðið fyrir þegar bifreið hans KP 766 hafi verið tekin ófrjálsri hendi við heimili hans að Vogaseli 1, Reykjavík og henni ekið á skilti við bensínstöð við Skógarsel. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Málavextir eru raktir í hinum áfrýjaða dómi. Með skírskotun til forsendna hans er fallist á að í ljós sé leitt að Natalia Wium hafi ekið bifreið áfrýjanda aðfaranótt 1. mars 2002 og verið óhæf til að stjórna bifreiðinni vegna áfengisáhrifa og ekið svo óvarlega að bifreiðin skemmdist. Miða verður við að áfrýjandi hafi byggt á því í héraði að Nataliu hafi verði óheimilt að aka bifreið hans enda er tekið efnislega á þeirri málsástæðu í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar er rakið kvaðst Natalia sem sakborningur við yfirheyrslur hjá lögreglu hafa haft heimild áfrýjanda til að nota bifreið hans þegar henni hentaði, en skilja verður framburð hennar fyrir héraðsdómi á þann veg að hún hafi dregið þann framburð til baka. Áfrýjandi hefur hins vegar fullyrt að þá heimild hafi hún ekki haft. Hefur hann mótmælt því að Natalia hafi nokkru sinni notað bifreið hans, en nefnt að kveikjuláslyklar bifreiðarinnar hafi þessa nótt legið á kommóðu í húsi hans og því verið aðgengilegir þeim sem í húsinu voru. Fram er komið að á þeim tíma er atvik urðu hafi áfrýjandi og Natalia þekkst í tæpa tvo mánuði. Kveður áfrýjandi þau ekki hafa hafið sambúð fyrr en talsvert löngu síðar og gengið í hjónaband sumarið 2004. Bera Natalia og Elena Kadetova, systir hennar, á sömu lund og áfrýjandi um kynni þeirra Nataliu. Af því sem fram er komið í málinu verður gegn eindregnum mótmælum áfrýjanda því ekki talið nægilega sannað að Natalia hafi haft heimild til að aka bifreið áfrýjanda.
Ekki er ágreiningur með aðilum um að áfrýjandi hafi haft gilda húftryggingu hjá stefnda. Samkvæmt grein 1.2. í skilmálum tryggingarinnar bætir stefndi tjón á hinu vátryggða ökutæki af völdum þjófnaðar eða tilraunar til þjófnaðar á því. Þar sem Natalia tók bifreiðina samkvæmt framangreindu ófrjálsri hendi er fallist á bótaskyldu stefnda gagnvart áfrýjanda.
Eftir þessum úrslitum skal stefndi greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Viðurkennd er bótaskylda stefnda, Sjóvá-Almennra trygginga hf., á tjóni er varð aðfaranótt 1. mars 2002 á bifreiðinni KP 766, eign áfrýjanda, Ástþórs Magnússonar Wium.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. október 2004.
I
Mál þetta var höfðað 13. júní 2003 og dómtekið 30. september 2004. Stefnandi er Ástþór Magnússon Wium, [kt.], Vogaseli 1, Reykjavík en stefndi er Sjóvá-Almennar tryggingar hf., [kt.], Kringlunni 5, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru: "Að viðurkennt verði með dómi að stefndi sé bótaskyldur vegna tjóns er stefnandi varð fyrir þegar bifreið hans, KP-766 af gerðinni Grand Cherokee, KP-766, var tekin ófrjálsri hendi við heimili hans að Vogaseli 1, Reykjavík og henni ekið á Essóskilti við Essóstöðina í Skógarseli og hún eyðilögð." Þá krefst stefnandi málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti.
Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnandi dæmdur til að greiða honum málskostnað.
II
Málsatvik eru þau að aðfararnótt föstudagsins 1. mars 2002 klukkan 05:40 tilkynnti Guðmundur Ólafur Birgisson lögreglu að hann hefði verið að aka eftir Skógarseli til norðurs í átt að Breiðholtsbraut á eftir bifreið stefnanda, Grand Cherokee, KP-766. Virtist honum að ökumaður bifreiðarinnar ætti í erfiðleikum með að stjórna henni. Við innkeyrsluna inn á ESSO stöðina við Skógarsel hafi ökumaður fyrrgreindrar bifreiðar ekið upp á kantstein og upp á flötina þar og tekið U-beygju í innkeyrsluna. Þá hafi ekki tekist betur til en svo að ökumaður bifreiðarinnar hafi ekið á skilti merktu ESSO við innkeyrsluna sem hafi brotnað við áreksturinn. Hafi bifreiðin stöðvast og virtist Guðmundi sem ökumaður ætti í erfiðleikum með að gangsetja hana aftur. Að sögn Guðmundar var ökumaðurinn kona með svart axlasítt hár en farþeginn ljósskolhærð kona. Eftir að hafa tilkynnt um þetta til lögreglu kvaðst Guðmundur hafa horfið á braut.
Í kjölfar tilkynningarinnar kom lögreglumaðurinn, Þórður Geir Þorsteinsson, á vettvang og samkvæmt skýrslu hans sá hann glitta í afturljós á bifreið utan vegar skammt fyrir neðan gatnamótin hjá Þverárseli. Hafi bifreiðin verið með akstursstefnu suður Skógarsel. Um 100 metrum til suðurs frá innkeyrslunni inn á ESSO bensínstöðina sé gangbraut en um 15 metrum frá henni í aflíðandi beygju hafi hjólför legið til hægri út fyrir akbraut og verið 33 metrar að rót ljósastaurs. Bifreiðin hafi staðið 3 metrum lengra mikið dælduð að framan og megnið af ljósastaurnum þar fyrir framan og kúpull hans skammt frá. Hafi verið hjólför upp brekku þarna en litið út eins og bifreiðin hafi ekki komist upp brekkuna og henni ekið til baka nokkra metra.
Á vettvangi voru Natalia Benediktsson, núverandi eiginkona stefnanda, sem heitir nú Natalia Wium, og systir hennar, Elena Kadetova, og þegar lögreglan kom á staðinn voru þær að ganga frá bifreiðinni og í þann veginn að ganga inn í garð við Ystasel. Voru þær báðar ölvaðar og hélt Natalia á kveikjuláslyklum bifreiðarinnar. Þær voru báðar handteknar á vettvangi grunaðar um ölvunarakstur. Elena var með meiðsli á hægri olnboga og blæddi talsvert úr henni. Báðar voru konurnar fluttar á lögreglustöðina í sitt hvoru lagi og þaðan á slysadeild þar sem tekin voru úr þeim blóð- og þvagsýni í þágu alkóhólrannsóknar auk þess sem gert var að sárum Elenu. Niðurstaða alkóhólrannsóknar var að Natalia var með 2,62 í blóði og yfir 3,1 í þvagi og Elena 1,66 í blóði og 2,02 í þvagi.
Lögregla sú sem fyrst kom á vettvang hafði samband við Orkuveitu Reykjavíkur til að láta kanna skemmdir á ljósastaurnum. Þá kom dráttarbifreið til að fjarlægja bifreiðina. Þá voru teknar myndir af vettvangi og einnig af skiltinu við innkeyrsluna.
Í frumskýrslu lögreglunnar kemur fram að erfitt hafi verið að leiðbeina konunum, sem eru rússneskar, vegna tungumálaerfiðleika, en mátt hafi skilja á þeim að enginn hefði ekið bifreiðinni. Á lögreglustöðinni hafi þær haldið því fram að stefnandi hefði ekið bifreiðinni og hlaupið af vettvangi. Fór lögreglan heim til stefnanda í kjölfarið en enginn kom til dyra. Kemur fram í skýrslu lögreglunnar að rétt áður en farið var með Nataliu á slysadeild hafi hún viðurkennt að hafa ekið bifreiðinni.
Síðar sama dag, kl. 15:15, var Natalia færð til yfirheyrslu hjá lögreglunni og var túlkur viðstaddur. Viðurkenndi hún að hafa ekið bifreiðinni í umrætt sinn og kvað stefnanda hafa lánað sér bifreiðina. Viðurkenndi hún að hafa drukkið áfengi áður en hún hóf aksturinn og hafi hún farið að bensínstöðinni í þeim tilgangi að kaupa eitthvað matarkyns. Þar hafi hins vegar verið lokað og hafi hún ætlað að aka til baka aftur að Vogaseli. Sérstaklega aðspurð kvað hún systur sína, Elenu, ekkert hafa komið að stjórn bifreiðarinnar umrædda nótt.
Þá var enn fremur tekin skýrsla af Elenu þennan sama dag. Var hún færð til yfirheyrslu kl. 14:45 og var túlkur viðstaddur yfirheyrsluna. Kom fram hjá Elenu að hún hefði ekki ekið bifreiðinni umrætt sinn heldur hafi Natalia verið ökumaður hennar en hún sjálf farþegi. Hafi tilgangur ferðarinnar verið að kaupa eitthvað matarkyns og þær verið á leiðinni aftur að Vogaseli þegar Natalia hefði misst stjórn á bifreiðinni.
Stefnandi kærði þjófnað á bifreiðinni með bréfum til lögreglu dagsettum 5. og 19. mars 2001 (á væntanlega að vera 2002).
Þann 29. apríl 2002 drógu þær Natalia og Elena fyrri framburð sinn til baka og báru við að ástæða fyrri framburðar hefði verið hræðsla. Kom fram hjá Nataliu við það tækifæri að kærasti hennar, stefnandi, hafi ekki lánað henni bifreiðina en hún hafi fullan aðgang að henni. Í hinum breytta framburði töldu Natalia og Elena að tvær konur frá Litháen hefðu tekið bifreiðina ófrjálsri hendi og skemmt hana. Ekki vissu þær nein deili á þessum konum nema að önnur héti Valentína og hin Tatiana. Hefðu konurnar heimsótt þær um kvöldið að Vogaseli 1 og haft meðferðis áfengi og hafi staðið til að þær gistu þar um nóttina þar sem orðið var áliðið nætur. Síðar um nóttina, þegar Natalia hafi verið á salerninu og Elena uppi að horfa á sjónvarpið, hafi konurnar farið burt á bifreið stefnanda. Hefðu þær líklega bakkað á rúðu við hlið útidyrahurðar þannig að hún brotnaði. Síðan hafi aksturinn endað eins og rakið hefur verið. Hafi þær Natalia og Elena hlaupið út þegar þær uppgötvuðu að búið væri að stela bifreiðinni og komið að henni þar sem hún endaði og hafi konurnar þá verið horfnar á braut. Natalia hafi svo tekið lyklana úr kveikjulásnum og verið með þá í hendinni þegar lögreglan kom á staðinn. Fyrir dómi lýstu þær Natalia og Elena atvikum á sömu lund og í þessum breytta framburði.
Með bréfi Lögreglunnar í Reykjavík til Natalíu var henni tilkynnt að eins og atvikum væri háttað í málinu varðandi meint umferðarlagabrot hennar þann 1. mars 2002 væri ekki efni til frekari aðgerða í málinu af hálfu lögreglunnar og málið látið niður falla.
Stefnandi krafði stefnda um bætur fyrir bifreiðina á grundvelli kaskótryggingar með bréfi 23 apríl 2002. Stefnandi ítrekaði kröfur sínar um bætur með bréfi 26. júlí 2002 og lögmaður hans með bréfi 7. ágúst 2002. Stefndi hafnaði bótaskyldu á þeim forsendum að henni hafi verið ekið af ölvuðum ökumanni auk þess sem ósannað væri að henni hefði verið stolið og væri tjónið því ekki bótaskylt.
Fyrir dómi gáfu skýrslu, stefnandi, Natalia Wium, Elena Kadetova, Þórður Geir Þorsteinsson, Björn O. Helgason, Pétur Sveinsson og Guðmundur O. Birgisson.
III
Stefnandi kveður mál þetta tilkomið vegna altjóns á bifreið hans, KP-766. Hafi stefnandi haft gilda kaskótryggingu hjá stefnda er bifreiðin varð fyrir tjóninu og sé um að ræða bótaskylt tjón sem stefnda beri að bæta.
Þar sem stefndi hafi neitað að greiða bætur vegna tjónsins sé málshöfðun þessi nauðsynleg. Hafi umrædd bifreið verið tekin ófrjálsri hendi umrætt sinn þar sem hún hafi staðið fyrir utan heimili stefnanda að Vogaseli 1, Reykjavík.
Í bréfi stefnda 29. júlí 2002 sé því haldið fram að Natalia Benediktsson, þáverandi unnusta en núverandi eiginkona stefnda, hafi ekið bifreiðinni og að stefnandi hafi lánað henni bifreiðina. Þessum fullyrðingum mótmælir stefnandi harðlega sem ósönnuðum og röngum. Rannsókn lögreglunnar í Reykjavík hafi meðal annars beinst að því hvort Natalia hafi ekið bifreiðinni en ekkert hafi sannast í þeim efnum, enda því mótmælt af henni.
Hafi lögreglustjórinn í Reykjavík lýst því yfir með bréfi 28. júní 2002 að Natalia yrði ekki ákærð vegna ölvunaraksturs eða þjófnaðar á bifreiðinni. Megi þá ályktun draga af bréfinu að lögreglan telji ósannað að Natalia hafi ekið bifreiðinni umrætt sinn.
Stefnandi styður kröfur sínar við almennar reglur kröfu- og samningaréttar auk laga um vátryggingasamninga nr. 20/1954 með síðari breytingum meðal annars 21., 22. og 24 gr. svo og tryggingarsamning aðila um kaskótryggingu sbr. vátryggingarskilmála stefnda fyrir kaskótryggingu ökutækja nr. 21 og XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum. Kröfu um málskostnað styður stefnandi við XXI. kafla laga nr. 91/1991 einkum 1. mgr. 130. gr. laganna. Um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun vísar hann til laga nr. 50/1988.
IV
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að bifreiðinni hafi verið stjórnað af ölvuðum ökumanni í umrætt sinn sem hafi haft heimild stefnanda til notkunar bifreiðarinnar. Samkvæmt grein 2.8 í skilmálum kaskótryggingar ökutækja, bæti félagið ekki tjón þegar ökumaður vegna undanfarandi neyslu áfengis teljist ekki geta stjórnað ökutækinu eða teljist vera óhæfur til þess samkvæmt ákvæðum umferðarlaga.
Telur stefndi fullsannað með vísan til gagna í lögreglumáli nr. 010-2002-6963 að Natalia Benediktsson hafi ekið bifreiðinni undir áhrifum áfengis í umrætt sinn. Hafi hún borið svo fyrir lögreglu í tvígang eftir handtöku þann 1. mars 2002. Samkvæmt niðurstöðu alkóhólrannsóknar hafi alkóhólmagn í blóði hennar verið 2,62 prómill og yfir 3,1 prómill í þvagi er hún hafi verið handtekin. Jafnframt hafi Elena Kadetova staðfest fyrir lögreglu sama dag að Natalia hefði ekið bifreiðinni og misst stjórn á henni. Natalia sé sambýliskona stefnda og hafi hún haft afnot af bifreiðinni. Framburður Nataliu og Elenu fyrir lögreglu tveimur mánuðum síðar sé einkar ótrúverðugur. Lýsingar þeirra á að tvær erlendar konur hafi komið í heimsókn og tekið bifreiðina séu óljósar. Hafi þær aðeins getað gefið upp fornöfn þeirra en ekki dvalarstaði eða veitt nokkrar upplýsingar um tilvist þeirra.
Fullyrðingum stefnanda um að bifreiðin hafi verið tekin ófrjálsri hendi sé mótmælt sem röngum og ósönnuðum. Stefnandi beri alfarið sönnunarbyrði um orsök tjónsins og umfang þess. Stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir því að bifreiðinni hafi ekki verið ekið af ölvuðum ökumanni í umrætt sinn sem og að henni hafi verið stolið. Stefnanda hafi ekki tekist sú sönnun enda liggi fyrir gögn í málinu sem sanni hið gagnstæða. Breyti þar engu um þótt ákærandi hafi metið það svo að gögn málsins væru ekki nægileg eða líkleg til sakfellingar ökumanns í refsimáli með vísan til 112. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála enda beri ákæruvaldið alfarið sönnunarbyrði í refsimáli og eðli máls samkvæmt sé öðrum reglum beitt um mat á sönnunarfærslu í slíkum málum.
Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 20/1954 um vátryggingasamninga og almennra reglna skaðabótaréttar um sönnun og sönnunarbyrði, orsakatengsl og sennilega afleiðingu. Um málskostnað vísar stefndi til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
V
Óumdeilt er í máli þessu að stefnandi hafði gilda vátryggingu hjá stefnda fyrir bifreið sína KP-766 þegar tjónsatburður sá sem um er fjallað í málinu átti sér stað. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort réttur stefnanda til tryggingabóta hafi fallið niður vegna þess að ökumaður bifreiðarinnar umrætt sinn hafi verið ölvaður og haft heimild stefnanda til notkunar bifreiðarinnar þegar óhappið varð.
Samkvæmt skilmálum hins stefnda félags um kaskótryggingu ökutækja, segir í grein 2.8. að félagið bæti ekki tjón sem verða kann á ökutæki þegar ökumaður vegna undanfarandi neyslu áfengis, örvandi eða deyfandi lyfja teljist ekki geta stjórnað ökutækinu örugglega eða vera óhæfur til þess samkvæmt ákvæðum umferðarlaga.
Í 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 segir að enginn megi stjórna eða reyna að stjórna vélknúnu ökutæki ef hann er undir áhrifum áfengis. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að ef vínandamagn í blóði ökumanns nemi 0,5 en minna en 1,20 eða vínandamagn í lofti, sem hann andar frá sér, nemi 0,25 milligrömmum í lítra lofts, en sé minna en 0,60 milligrömm, eða ökumaður sé undir áhrifum áfengis þótt vínandamagn í blóði hans eða útöndun sé minna teljist hann ekki geta stjórnað ökutæki örugglega. Samkvæmt 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga telst ökumaður óhæfur til að stjórna ökutæki ef vínandamagn í blóði hans nemur 1,20 eða meira eða vínandamagn í lofti, sem hann andar frá sér, nemur 0,60 milligrömmum í lítra lofts eða meira.
Í málinu liggur fyrir og er ágreiningslaust að núverandi eiginkona stefnanda, Natalia Wium, og systir hennar Elena voru báðar ölvaðar þegar óhappið átti sér stað og var það staðfest með alkóhólrannsókn sem fram fór að beiðni lögreglunnar í Reykjavík strax eftir að þær voru handteknar á vettvangi tjónsatburðarins. Samkvæmt niðurstöðu alkóhólrannsóknar voru þær báðar, vegna undanfarandi neyslu áfengis, óhæfar til að stjórna ökutæki samkvæmt fyrrgreindu ákvæði umferðarlaganna.
Af gögnum málsins verður ráðið að bifreið stefnanda var umrætt skipti fyrst ekið á skilti við bensínstöð ESSO við Skógarsel í Reykjavík, en skiltið brotnaði við áreksturinn. Þaðan virðist sem bifreiðinni hafi verið ekið á ljósastaur og eftir það hafi hún stöðvast utan vegar þar sem hún var þegar lögreglan kom á vettvang. Var bifreiðin mikið skemmd og dregin í burtu eftir þetta.
Vitnið, Guðmundur Ólafur Birgisson, kvaðst hafa fylgst með bifreiðinni þegar henni var ekið á skilti við ESSO bensínstöðina og taldi að ökumaðurinn hefði verið kona með dökkt hár en farþeginn hafi verið ljósskolhærð kona. Við sakbendingu hjá lögreglunni 30. maí 2002 bar hann ekki kennsl á meintan ökumann en Natalia og Elena voru báðar í sakbendingarröðunum. Fyrir dómi treysti hann sér ekki til að fullyrða um þetta en taldi að rétt væri eftir honum haft í lögregluskýrslu sem hann gaf í málinu 9. apríl 2002 en þar kvað hann ekki fastar að orði en svo að hann sagðist ekki hafa betur séð en að kona með svart axlarsítt hár hafi ekið bifreiðinni en ljósskolhærð kona hafi setið í farþegasætinu. Samkvæmt gögnum málsins er Elena dökkhærð en Natalia með ljósara hár.
Þegar lögreglan kom á vettvang voru engir aðrir á vettvangi en Natalia og Elena og var Natalia með lykla bifreiðarinnar í höndunum. Kemur fram í frumskýrslu lögreglu að ekki hafi reynst unnt að tilkynna þeim réttarstöðu sína vegna handtökunnar sökum tungumálaerfiðleika. Af þeim sökum verður það sem haft er eftir þeim á vettvangi, um að enginn hafi ekið bifreiðinni eða að stefnandi sjálfur hafi ekið henni og stungið af, virt að vettugi.
Síðar sama dag var hins vegar tekin af þeim skýrsla hjá lögreglu að viðstöddum túlki og sérstaklega aðspurðar óskuðu þær hvorugar eftir verjanda. Við þetta tækifæri var þeim kynnt að sakarefnið væri að grunur léki á að þær hefðu ekið umræddri bifreið og verið undir áhrifum áfengis. Báðar báru þær mjög á sömu lund hjá lögreglu í þetta skiptið um hvað gerst hefði fyrr um morguninn. Þær kváðu tilgang ökuferðarinnar hafa verið að kaupa eitthvað matarkyns á bensínstöð ESSO, Natalia hefði ekið bifreiðinni og Elena verið farþegi. Framburður þeirra á þessu stigi málsins var gefinn eftir að þær voru handteknar og höfðu gist fangageymslu lögreglu. Höfðu þær engin tök á því að bera sig saman um framburð þar sem þær voru fluttar á lögreglustöðina í sitt hvoru lagi. Við meðferð málsins kom fram hjá þeim báðum að þær hafi ekki vitað af hvor annarri og verið hræddar um afdrif hinnar sem staðfestir enn frekar að þær höfðu engin tök á því á þessu stigi að bera sig saman.
Sú kúvending á framburði þeirra Nataliu og Elenu hjá lögreglu 29. apríl 2002 og fyrir dómi er einkar ótrúverðugur og fær engan stuðning í gögnum málsins. Þeir lögreglumenn sem komu á staðinn sáu ekki til neinna mannaferða annarra en þeirra Nataliu og Elenu sem voru að ganga frá vettvangi og Natalia var með lykla bifreiðarinnar í höndunum. Gátu þær Natalia og Elena engar upplýsingar gefið um hina meintu þjófa bifreiðarinnar aðrar en að þetta hafi verið tvær konur frá Litháen önnur dökkhærð og hin ljósrauðhærð og héti önnur Tatiana og hin Valentina. Annarri konunni átti Natalia að hafa kynnst nokkrum dögum áður en miðað við frásögn þeirra Nataliu og Elenu vissu þær mest lítið um konur þessar. Samt sem áður bera þær að konur þessar hafi komið að Vogaseli 1 umrædda nótt til að heimsækja Nataliu sem þó að sögn var einungis stödd þar sem gestur stefnanda og bjó ekki þar eftir því sem haldið er fram í málinu. Þá hafi þessar konur ætlað að gista þar um nóttina, að því er virðist án þess að stefnandi vissi af því. Stefnandi hefur þó haldið því fram að hann hafi heyrt að rússneskar konur kæmu í heimsókn upp úr miðnætti en síðan ekkert fylgst með því frekar og haldið áfram að sofa.
Ekkert hefur til þessara kvenna spurst og miðað við atvik öll í málinu er hinn breytti framburður vitnanna, Nataliu og Elenu, um meinta tilvist og athafnir þessara kvenna umrædda nótt og skýring þeirra á veru þeirra sjálfra á vettvangi afar ótrúverðugur og fjarstæðukenndur. Þá fær sú skýring þeirra að þær hafi borið rangt hjá lögreglu þann 1. mars 2002 vegna hræðslu enga stoð í gögnum málsins.
Aðspurðar fyrir dómi hvernig stæði á því að báðar hafi þær borið hjá lögreglu 1. mars 2002 að tilgangur með ferðinni hafi verið að kaupa eitthvað matarkyns kvað Natalia að þær hefðu ákveðið áður að segja þetta en Elena neitaði því og gaf enga skýringu á því af hverju hún hefði sagt þetta. Þykir þetta enn fremur draga úr trúverðugleika þessa breytta framburðar þeirra.
Að því virtu sem nú hefur verið rakið verður við það miðað að framburður þeirra Nataliu og Elenu hjá lögreglu 1. mars 2002 hafi verið sannleikanum samkvæmur og þykir því sýnt fram á það svo ekki verði um villst að Natalia hafi ekið bifreiðinni er umræddur tjónsatburður varð. Sú staðreynd að lögreglustjórinn í Reykjavík hafi ekki talið efni til frekari aðgerða í opinberu máli á hendur Natalíu vegna meints umferðarlagabrots breytir engu um sönnunargildi þessara skýrslna í máli þessu.
Stefnandi kærði ekki þjófnað á bifreiðinni fyrr en 5. mars 2002 nokkrum dögum eftir óhappið og engin gögn liggja frammi um afdrif þeirrar kæru. Niðurfelling á máli á hendur Nataliu varðar einungis meint umferðarlagabrot hennar. Engin haldbær gögn liggja fyrir í málinu um að Natalia hafi tekið bifreið stefnanda ófrjálsri hendi enda verður málatilbúnaður stefnanda ekki skilinn á þann veg að hann byggi á því.
Eins og rakið hefur verið hefur Natalia í tvígang fullyrt að hún hafi haft heimild til að nota bifreið stefnanda, bæði hjá lögreglu 1. mars 2002 og einnig þegar hún breytti framburði sínum í meginatriðum hjá lögreglu 29. apríl 2002. Þykir því stefnandi ekki hafa sýnt fram á það með haldbærum gögnum að bifreið hans hafi verið stolið umræddan morgun og verður hann að bera hallann af þeim sönnunarskorti.
Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið þykir sýnt fram á það svo ekki verði um villst að Natalia hafi ekið bifreið stefnanda þegar umræddur tjónsatburður átti sér stað og hafi haft til þess heimild. Samkvæmt niðurstöðum blóð- og þvagrannsóknar reyndist vínandamagn í blóði Nataliu tölvuert meira en þarf til að hún teljist óhæf til að stjórna ökutæki samkvæmt 3. mgr. 45. gr umferðarlaga sbr. grein 2.8 í vátryggingarskilmálum stefnda. Fellur því niður bótaskylda stefnda og verður hann því sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.
Eftir þessum málsúrslitum verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 300.000 krónur.
Af hálfu stefnanda flutti málið Róbert Árni Hreiðarsson hdl. en af hálfu stefnda Ólafur Haraldsson hrl.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Ástþórs Magnússonar Wium.
Stefnandi greiði stefnda 300.000 krónur í málskostnað.