Hæstiréttur íslands
Nr. 2020-107
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Sveitarfélög
- Skaðabætur
- Útboð
- Sönnun
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Með beiðni 2. apríl 2020 leitar Sveitarfélagið Árborg eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 6. mars sama ár í málinu nr. 27/2019: EKO eignir ehf. gegn Sveitarfélaginu Árborg, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. EKO eignir ehf. leggjast gegn beiðninni.
Mál þetta er sprottið af almennu útboði sem leyfisbeiðandi hóf í október 2011. Tvö tilboð bárust í verkið en leyfisbeiðandi tók ákvörðun um að hafna þeim báðum. Annar bjóðendanna krafði leyfisbeiðanda um skaðabætur þar sem hann taldi að leyfisbeiðanda hafi borið skylda til að gera verksamning við sig í kjölfar útboðsins. Á miðju ári 2017 var krafan framseld til gagnaðila og tók hann við aðild að málinu. Krafan tók til ætlaðs missis hagnaðar á árinu 2012 en við úrlausn málsins í héraði lágu fyrir matsgerð og yfirmatsgerð. Dómur gekk í málinu í héraði 18. desember 2018. Með honum var leyfisbeiðandi sýknaður af öllum kröfum gagnaðila þar sem undirmatsgerð var ekki talin hafa gefið rétta mynd af umfangi verksins og úr þeim ágöllum hefði ekki verið bætt í yfirmatsgerð. Með fyrrnefndum dómi Landsréttar var aftur á móti fallist á skaðabótaskyldu leyfisbeiðanda. Taldi dómurinn að ekki hefðu verið efnisleg skilyrði fyrir leyfisbeiðanda til að hafna tilboðum í verkið samkvæmt lögum nr. 84/2007 um opinber innkaup og að ákvörðunin hefði því verið ólögmæt. Þrátt fyrir annmarka á þeim matsgerðum sem hefðu legið fyrir hefði gagnaðili leitt fullnægjandi líkur að því að tekjur af verkinu hefðu orðið mun hærri en kostnaður af því og að bjóðandinn hafi því orðið af talsverðri framlegð.
Leyfisbeiðandi telur að skilyrði 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis séu uppfyllt enda hafi úrslit málsins verulegt almennt gildi. Telur leyfisbeiðandi meðal annars að í málinu reyni á fordæmisgefandi lagatúlkun á því hversu verulegir ágallar þurfi að vera á útboðsgögnum og framkvæmd útboðs til þess að málefnalegt sé að hafna öllum tilboðum í verk. Jafnframt hafi málið fordæmisgildi um það hvenær lögfull sönnun teljist framkomin um tjón vegna missis hagnaðar og hvernig rétt sé að ákvarða skaðabætur að álitum í slíkum tilvikum. Þá telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til þar sem dómurinn hafi metið gögn og staðreyndir málsins með röngum hætti.
Að virtum gögnum málsins er ekki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi, umfram dómsúrlausnir sem þegar hafa gengið, í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Er beiðninni því hafnað.