Hæstiréttur íslands

Mál nr. 58/2000


Lykilorð

  • Eignarnám
  • Erfðaskrá
  • Endurheimturéttur
  • Aðild


Fimmtudaginn 8

 

Fimmtudaginn 8. mars 2001.

Nr. 58/2000.

 

Þorsteinn Hjaltested

(Guðmundur Ingvi Sigurðsson hrl.

Ólafur Haraldsson hdl.)

gegn

Landssíma Íslands hf.

(Andri Árnason hrl.

Bjarki H. Diego hdl.)

 

Eignarnám. Erfðaskrá. Endurheimturéttur. Aðild.

Þ krafðist þess að fellt yrði úr gildi eignarnám á spildu úr landi jarðarinnar V, sem fram fór árið 1947. Taldi Þ að lagaheimild hefði skort til þess að eignarnámið færi fram en ef fullnægjandi lagaheimild hefði verið fyrir hendi bæri eigi að síður að ógilda það nú, enda hefði fyrirhuguð nýting þess eignarnumda ekki gengið eftir. Hélt Þ því fram að L hefði nú í hyggju að selja hið eignarnumda land undir íbúðabyggð í stað þess að nýta það í samræmi við eignarnámsheimild. Talið var að fram hefði farið skilyrðislaus eignayfirfærsla á landinu, sem hefði verið tekið til notkunar í eðlilegu samræmi við tilgang eignarnámsins. Var ekki talið að eignarnámsþola yrði veittur réttur til að endurheimta eignarnumið land nema á grundvelli lagaheimildar eða vegna sérstakra aðstæðna. Þar sem hvorugs var talið njóta við var kröfu Þ hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Magnús Hjaltested höfðaði mál þetta í héraði. Hann lést 21. desember 1999 eftir uppsögu héraðsdóms. Eftirlifandi maki hans, Kristrún Ólöf Jónsdóttir, og elsti sonur þeirra, Þorsteinn Hjaltested, tóku við aðild málsins og skutu því til Hæstaréttar 17. febrúar 2000. Áfrýjandinn Kristrún Ólöf féll síðar frá öllum kröfum.

Áfrýjandi krefst þess aðallega að fellt verði úr gildi eignarnám samgönguráðuneytisins á 69,68 hektara spildu úr landi jarðarinnar Vatnsenda í Kópavogi samkvæmt afsali Lárusar Hjaltested til eignarnema 4. febrúar 1947 að undanskilinni 44.079 fermetra spildu úr eignarnámslandinu, sem afmörkuð sé á uppdrætti Verkfræðistofunnar Hamraborgar frá í september 1998, og að stefnda verði gert skylt gegn greiðslu á 912,10 krónum frá áfrýjanda að afhenda og afsala honum landspildunni til eignar að 15 dögum liðnum frá uppkvaðningu dóms í málinu eða að liðnum þeim fresti sem dómurinn telur hæfilegan til að afhenda spilduna, að viðlögðum 20.000 króna dagsektum fyrir hvern sólarhring, sem líða kann frá þeim tíma til þess dags, er afhending og afsal spildunnar fer fram. Til vara krefst áfrýjandi þess að endurgreiðsla til stefnda verði ákveðin 4.269.508,79 krónur eða önnur fjárhæð samkvæmt mati dómsins, en varakrafan er að öðru leyti hin sama og aðlakrafan. Til þrautavara krefst áfrýjandi þess að stefnda verði gert skylt, með eða án ógildingar eignarnámsins, að afhenda sér og afsala til eignar fyrrgreindri landspildu eða minni spildu úr eignarnámslandinu samkvæmt ákvörðun dómsins að 15 dögum liðnum frá uppkvaðningu dóms í málinu eða að liðnum þeim fresti, sem dómurinn ákveður hæfilegan til að afhenda spilduna að viðlögðum 20.000 króna dagsektum fyrir hvern sólarhring, sem líða kann frá þeim tíma til þess dags er afhending og afsal spildunnar fer fram, gegn greiðslu þeirrar fjárhæðar frá áfrýjanda, sem dómurinn ákvarðar hæfilega og með þeim vöxtum, sem dómurinn kann að dæma stefnda og frá því tímamarki, sem dómurinn kann að ákveða. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.  

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Málsatvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Þar er gerð grein fyrir ágreiningi aðila um lögmæti eignarnáms á landspildu úr landi jarðarinnar Vatnsenda í Kópavogi og hvort eignarnámsþoli eigi rétt til þess að fá hluta hinnar eignarnumdu spildu afhentan. Var hinu eignarnumda landi afsalað til eignarnemans, Landssíma Íslands vegna ríkissjóðs, með afsalsgerningi 4. febrúar 1947.

Áfrýjandi heldur því fram að ógilda beri eignarnámið á þeim forsendum að lagaheimild hafi skort á sínum tíma til þess að það mætti fara fram. Þá telur áfrýjandi að hvað sem hinu upphaflega lögmæti eignarnámsins líði eigi hann nú rétt til þess að eignarnámið verði ógilt, enda hafi fyrirhuguð nýting þess eignarnumda ekki gengið eftir. Það megi sjá af því að stefndi hafi aðeins nýtt hluta þess undir fjarskiptavirki. Eignarneminn ráðgeri nú þess í stað að selja hluta landsins undir íbúðabyggð. Þessar breyttu forsendur og síðari atvik telur áfrýjandi að eigi að leiða til þess að eignarnámið verði ógilt að því er varðar þann hluta landsins, sem ekki hafi verið nýttur í samræmi við eignarnámsheimild. Þá telur áfrýjandi að hann eigi rétt til þess að fá landið afhent, hvort sem eignarnámið verði ógilt eður ei.

II.

Stefndi telur að áfrýjandi geti ekki gert tilkall til þeirra réttinda sem hann krefst að sér verði dæmd. Beri því að sýkna stefnda vegna aðildarskorts. Eignarheimild áfrýjanda að jörðinni Vatnsenda sé reist á erfðaskrá Magnúsar Erlendssonar Hjaltested 4. janúar 1938. Af henni megi ráða að jörðin lúti ekki beinum eignarrétti heldur sé um að ræða afnota- og umráðarétt að fullnægðum nánar tilgreindum skilyrðum. Auk þessa vísar stefndi til eftirfarandi ákvæðis í erfðaskránni: „Allar bætur fyrir landspjöll, sem þegar eru orðin eða kunna að verða á jörðinni ... hefur Lárus Hjaltested eða næsti ábúandi rétt til að krefja um og semja um, með lögsókn ef með þarf ... ef ekki hefur verið fullkomlega um það samið áður.” Af þessu orðalagi verði ekki séð að áfrýjandi geti krafist þess að fellt verði úr gildi með dómi eignarnám, sem framkvæmt hafi verið í tíð fyrri erfingja og sé bindandi fyrir síðari erfingja.

Að föður sínum látnum tók áfrýjandi við eignarumráðum og skyldum að jörðinni svo sem faðir hans hafði áður haft samkvæmt erfðaskránni. Áfrýjandi hefur því að lögum sömu aðild og arftakar á undan honum höfðu til að bera ágreining um gildi eignarnámsins undir dómstóla. Ekki verður talið að eignarnáminu og því afsali sem fylgdi verði jafnað til samnings í skilningi framangreinds ákvæðis. Verður því ekki fallist á að sýkna beri stefnda vegna aðildarskorts áfrýjanda.

III.

Í afsali 4. febrúar 1947 kemur fram að umræddri landspildu sé afsalað eignarnema, að eignarnámsbætur hafi verið greiddar og að eignarnemi sé þar með lýstur fullkominn eigandi spildunnar. Með eignarnáminu, eftirfarandi afsali og greiðslu eignarnámsbóta fór fram skilyrðislaus eignayfirfærsla á því landi sem hér um ræðir. Telja verður að sýnt hafi verið nægilega fram á að landið hafi eftir það verið tekið til notkunar í eðlilegu samræmi við tilgang eignarnámsins undir fjarskiptamannvirki eða sem verndar- og öryggissvæði þeim tengt. Verður því ekki fallist á með áfrýjanda að landið hafi ekki verið nýtt til þeirra þarfa, sem ákvörðun um eignarnám var réttlætt með.

Eignarnámsþola verður ekki veittur réttur til að endurheimta eignarnumið land nema á grundvelli lagaheimildar eða vegna sérstakra aðstæðna. Þar sem hvorugs nýtur við í þessu máli eru ekki efni til að verða við kröfu áfrýjanda um að stefnda verði gert að afhenda og afsala honum spildunni. Vegna þessa og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Áfrýjandi, Þorsteinn Hjaltested, greiði stefnda, Landssíma Íslands hf., 700.000 krónur samtals í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

            Dómur Héraðsdóms Reykjaness 30. september 1999.

Ár 1999, fimmtudaginn 30. september, er á dómþingi Héraðsdóms Reykja­ness, sem háð er í dómhúsinu að Brekkugötu 2, Hafnarfirði, af Jónasi Jóhannssyni héraðs­­­dómara ásamt meðdómendunum Þorgeiri Inga Njálssyni héraðsdómara og Vilhjálmi Þór Kjartans­syni rafmagnsverkfræðingi kveðinn upp dómur í málinu nr. E-1296/1998: Magnús Hjaltested gegn Landssíma Íslands hf.

Málið höfðaði Magnús Sigurðsson Hjaltested, kt. 280341-2079, Vatnsenda, Kópa­vogi, á hendur Landssíma Íslands hf., kt. 500269-6779, Thorvaldsensstræti 4, Reykjavík, með stefnu birtri 16. nóvember 1998.  Málið var þingfest 16. desember 1998 og dóm­tekið 23. júní síðastliðinn að loknum munn­legum málflutningi.  Þar sem dómur varð ekki kveðinn upp innan fjögurra vikna frá dómtöku var málið flutt á ný 28. september síðast­liðinn og að því búnu dómtekið öðru sinni, sbr. 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einka­mála.

I.

Stefnandi gerir aðallega þá dómkröfu að stefndi þoli að fellt verði úr gildi með dómi eignarnám Samgöngumálaráðuneytisins til handa Landssíma Íslands vegna ríkis­­sjóðs á 69,68 hektara landspildu úr landi jarðarinnar Vatnsenda í Kópavogi sam­kvæmt afsali Lárusar Hjaltested til eignarnema dagsettu 4. febrúar 1947, að undan­skilinni 44.079 fermetra spildu úr eignarnámslandinu, sem afmörkuð er á uppdrætti Verk­fræði­stofunnar Hamraborg frá í september 1998, og að stefnda verði gert skylt gegn greiðslu á krónum 912,10 frá stefnanda að afhenda og afsala stefnanda land­spildunni til eignar að 15 dögum liðnum frá dómsuppsögu í málinu eða að liðnum þeim fresti, sem  dómurinn ákveður hæfilegan til að afhenda spilduna, að viðlögðum 20.000 króna dagsektum fyrir hvern sólarhring, sem líða kann frá þeim tíma til þess dags er  afhending og  afsal spildunnar fer fram.

Til vara gerir stefnandi þá dómkröfu að endurgreiðsla til stefnda verði ákveðin krónur 4.269.508,79 eða önnur fjárhæð samkvæmt mati dómsins, en varakrafan er að öðru leyti orðrétt hin sama og aðalkrafan.

Til þrautavara gerir stefnandi þá dómkröfu að stefnda verði gert skylt með eða án ógildingar eignarnámsins að afhenda stefnanda og afsala honum til eignar fyrr­greindri landspildu eða minni landspildu úr eignarnámslandinu samkvæmt ákvörðun dómsins að 15 dögum liðnum frá dómsuppsögu í málinu eða að liðnum þeim fresti, sem dómurinn ákveður hæfilegan til að afhenda spilduna að viðlögðum 20.000 króna dag­sektum fyrir hvern sólarhring, sem líða kann frá þeim tíma til þess dags er afhending og afsal spildunnar fer fram gegn greiðslu þeirrar fjárhæðar frá stefnanda, sem dómurinn ákvarðar hæfilega og með þeim vöxtum, sem dómurinn kann að dæma stefnda og frá því tímamarki, sem dómurinn kann að ákveða. 

Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.

Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda í málinu og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu sam­kvæmt mati dómsins.

II.

Í nóvember 1929 keypti ríkissjóður 7,5 hektara spildu á Vatnsendahæð (Vatns­enda­hvarfi) úr landi jarðarinnar Vatnsenda í því skyni að reisa þar útvarpsstöð, en svæðið var talið ákjósanlegt fyrir uppsetningu sendibúnaðar vegna fyrir­hugaðra út­varps­­­sendinga fyrir Reykjavík.  Í afsali Magnúsar Einarssonar Hjalte­sted þáverandi eiganda jarðarinnar segir að í kaupinu sé innifalinn réttur fyrir kaupanda til að taka allt byggingarefni sem þurfa kann í landi jarðarinnar, sem og vatn og aðrar lands­­nauð­synjar sem útvarpsstöðin kann að þurfa.  Kaupanda sé jafnframt heimilt að gera þær ráð­stafanir sem hann kann að telja þurfa til þess að hafa frjálsan aðgang að stöðinni, svo sem að leggja að henni veg þá leið sem hann kýs, að taka efni í veginn þar sem hann vill, sem og að leggja vatnsleiðslu, rafmagnsleiðslu og aðrar leiðslur sem þurfa kann, hvar um land jarðarinnar sem hann vill og yfirleitt að gera allar þær ráðstafanir sem kaupandi kann að telja þörf á vegna útvarpsstöðvarinnar nú eða síðar.

Ríkisstjórnin lét reisa á landspildunni útvarpsstöð (langbylgjustöð) árið 1930.  Stöðin var starfrækt til ársins 1997 fyrir langbylgjuútsendingar útvarps, en þá voru þær færðar að Gufuskálum á Snæfellsnesi.  Þegar í upphafi kom það í hlut Lands­síma Íslands að annast allt er laut að umsjón og rekstri stöðvartækja vegna útvarps­rekstrarins, en um hann fór samkvæmt lögum nr. 31/1928, lögum nr. 62/1930 og síðar lögum nr. 68/1934 um útvarpsrekstur ríkisins.  Segir í 1. gr. þeirra laga að ríkis­­stjórnin hafi einkarétt til að reka útvarp á Íslandi, hún láti starfrækja útvarpsstöð í Reykja­­­vík og megi auka orku hennar eftir því sem þörf krefur.  Ríkisstjórnin láti reisa endur­varps­­­stöðvar annars staðar á landinu eftir því sem ástæður krefjast, en um hvort tveggja fari eftir ákvörðun Alþingis í hvert sinn.

Í maí 1934 seldi Magnús Einarsson Hjaltested Landssímanum í hendur 30,54 hektara spildu til viðbótar á Vatnsendahæð, sem umlukti á þrjá vegu land það sem Magnús hafði áður selt (1929) úr landi Vatnsenda undir útvarpsrekstur ríkisins.  Hin nýja landspilda var að langstærstum hluta leirblandinn grjótmelur, illa eða lítt ræktan­legur, en á henni skyldi reist stuttbylgjustöð vegna Landssímans. 

Við hernám Breta 1940 hóf breski herinn framkvæmdir á Rjúpnahæð, sem liggur að landi Vatnsenda, en Rjúpnahæð taldist til jarðarinnar Fífuhvamms í Kópa­vogi og að hluta til Vífilsstaða, en að einhverju leyti var um þrætuland að ræða á milli jarðanna.  Herinn kom sér upp eftirlitsbúnaði og fjarskiptabúnaði á Rjúpna­­­­hæð og við hluta þess búnaðar tók Landssíminn í kjölfar stríðsins.  Vegna aukinna umsvifa á sviði fjarskipta og yfirtöku Landssímans á starfsemi setuliðsins á Rjúpna­­­hæð hófst Lands­síminn handa um að eignast frekara land á svæðinu. 

Magnús Einarsson Hjaltested var ókvæntur og barnlaus.  Með erfðaskrá dag­settri 4. janúar 1938, sem staðfest var að nýju með áritun arfleifanda (Magnúsar) 29. október 1940, arfleiddi hann bróðurson sinn Sigurð Kristján Lárusson Hjaltested að öllum eignum sínum, föstum og lausum, eftir sinn dag.  Um jörðina Vatnsenda voru þó sett skilyrði í erfðaskránni.  Meðal þeirra var að arftaki skyldi búa á eigninni, þó með þeim fyrirvara að föður hans Lárusi Péturssyni Hjaltested var áskilinn ábúðar­rétturinn svo lengi sem hann lifði.  Að Sigurði Kristjáni látnum skyldi jörðin ganga að erfðum til elsta sonar hans (stefnanda þessa máls) og svo til niðja hans í beinan karl­legg þannig að ávallt fengi aðeins einn ­maður allan arfinn, sbr. nánari fyrir­­mæli og skilyrði í erfða­skránni.  Meðal annarra kvaða sem fylgdu eignar­haldi á jörðinni var bann við frjálsri sölu jarðarinnar eða ein­stakra hluta hennar.  

Að undangenginni yfirmatsgerð eignarnámsbóta 21. desember 1946 neytti ráð­herra fjarskiptamála (samgöngumálaráðherra) heimildar í 17. gr. laga nr. 30/1941 um fjarskipti til að taka eignar­námi frekara svæði úr landi Vatnsenda, handa Útvarps­stöð ríkisins á Vatns­enda­hæð.  Eignarnámsheimildin hljóðar svo:

,,Ef afla þarf lóðar eða annarrar eignar í sam­bandi við lagningu eða rekstur fjar­skiptavirkja ríkisins, og samningum um kaup verður ekki við komið, má eftir ráð­stöfun ráðherra taka eignina eignarnámi gegn endur­gjaldi, sem metið sé eftir eignar­náms­lögum.”

Að loknu yfirmati samkvæmt framanröktu gaf þáverandi ábúandi jarðarinnar Vatnsenda, Lárus Hjaltested, út afsal 4. febrúar 1947 fyrir þrætulandinu í máli þessu.  Er óumdeilt að spildan var að langstærstum hluta lítt eða óræktanlegt land, sem aðeins hafði verið nýtt til beitar.  Í upp­hafi afsalsins segir: ,,Samkvæmt heimild í 17. gr. laga nr. 30/1941, hefir Sam­göngumálaráðuneytið krafist eignarnáms á lands­spildu úr landi jarðarinnar Vatns­enda í Seltjarnarnesshreppi, til handa Landsíma Íslands vegna ríkis­sjóðs, og er stærð landsins 69,68 ha. samkvæmt meðfylgjandi upp­drætti, er sýnir legu og stærð lóðar­innar, og sem lagður var fram við matið.  Innan hins eignarnumda lands liggja 10 lóðir er leigðar hafa verið einstökum mönnum til 50 ára hver.”  Síðan er í afsalinu um­ræddum lóðarleigusamningum nánar lýst, svo og því hvaða áhrif tilvist þeirra hafi á útreikning eignarnámsbóta.  Í niðurlagi afsalsins segir: ,,Samkvæmt ofan­skráðu hefir póst- og símamálastjóri greitt mér matsverð hins eignar­numda lands, með kr. 97.368.69 -níutíu og sjö þúsund þrjú hundruð sextíu og átta krónur 69/100-, og segi ég því Landsíma Íslands f.h. ríkissjóðs, fullkominn eiganda hinnar eignarnumdu lands­­­spildu í Vatnsendalandi með þeim skyldum og réttindum er nefndir 10 leigu­samningar fela í sér.  Eignarnámshafi kostar þinglestur afsals þessa en ég svara til afsals­­­heimildar minnar.”  Afsalinu var þinglýst 10. apríl 1947.

Samhliða eignarnámi á síðastgreindu landsvæði úr jörðinni Vatnsenda tók ráð­herra eignarnámi rúmlega 51 hektara spildu úr Fífuhvammslandi og ríflega 40 hektara spildu úr landi Vífilsstaða, sem báðar lágu að Rjúpnahæð.  Samfellt eignar­land Lands­símans á Vatnsendahæð og Rjúpnahæð nam því tæplega 200 hekturum, þar af 159,6 hekturum innan lögsagnarumdæmis Kópavogs, og myndaði eina heild í land­fræði­legu og fjarskiptalegu tilliti. 

III.

Með lögum nr. 8/1935 um stjórn og starfrækslu póst- og símamála fór póst- og símamálastjóri með símamálefni ríkisins, þ.e. málefni Landssímans, undir yfirstjórn ráð­­herra.  Með samnefndum lögum nr. 6/1977 fór Póst- og símamálastofnun með fram­­­­kvæmd umrædds málaflokks, undir yfirstjórn samgönguráðherra.  Með lögum nr. 103/1996 um stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og síma­mála­stofnunar var ríkis­stjórninni heimilað að stofna hlutafélag um rekstur stofnun­arinnar og að leggja til félagsins allar eignir og skuldir stofnunarinnar.  Á grund­velli téðra laga var meðal annars stofnað hlutafélagið Landssími Íslands hf., sem hefur tekið við þeim þætti í rekstri Póst- og símamálastofnunar, sem mál þetta snertir og yfir­tekið þær fasteignir, sem eignarnámið tók til.  Hefur málshöfðun því verið beint að Landssíma Íslands hf., stefnda í máli þessu.

IV.

Að því er varðar beina nýtingu hinnar umdeildu eignarnámsspildu er eftir­farandi upplýst: i) Suðaustan í Vatnsendahæð var dæluskúr og vatnsgeymir, sem notaður var til miðlunar úr Vatnsendavatni (Elliðaárvatni) vegna starfsemi stefnda á svæðinu, m.a. til að kæla senda.  Vegur lá frá vatninu að vatnsgeyminum og má enn greina vegarslóða á eignarnámsspildunni.  Vatnstaka er nú löngu aflögð og vatns­­­­geymirinn fallinn. ii) Vegarspotti er milli stöðvanna á Rjúpnahæð og Vatns­enda­hæð, sem nú er aflagður. iii) Í norðurhluta hins eignarnumda lands eru enn undir­stöður undir mastur sem þar stóð, en því hafa fylgt stagfestur sem náð hafa all­nokkuð út frá mastrinu. iv) Í dalverpi milli Rjúpnahæðar og Vatnsenda­hæðar, á svo­­kölluðum Hörðu­­­völlum, er og hefur verið frá því um 1960 stórt tígullaga fjar­­skipta­loft­­­net sem borið er uppi af fjórum u.þ.b. 45 metra háum stöguðum stál­grinda­­möstrum.  Möstrin eru inngirt með landi sem fylgir Rjúpnahæð, en að öðru leyti hefur eignar­námsspildan aldrei verið afgirt.  Stefndi kveður loft­­neta­sam­stæðu þessa vera enn í mikil­vægri notkun og þjóni hún fjar­skiptum vegna flug­umferðar við Ísland.  Stað­­­setning fjar­skipta­­loftnetsins á Hörðu­völlum sé einkar vel til þess fallin.  Stefnandi kveður land­spildu þá sem er undir möstrunum vera 44.079 fer­metra að stærð miðað við svo­kölluð stag­ankeri sem hornpunkta og sé ekki krafist ógildingar á eignar­náminu að því er varðar þá spildu, sbr. kröfugerð stefnanda í kafla I að framan.

V.

Sigurður Kristján Lárusson Hjaltested eigandi og ábúandi að Vatnsenda lést í nóvember 1966.  Stefnandi erfði jörðina samkvæmt ákvæðum fyrrnefndrar erfðaskrár, en tók ekki við ábúð á Vatnsenda fyrr en síðla árs 1969 vegna málaferla við seinni eigin­konu föður síns um gildi erfðaskrárinnar (hrd. 1968:422).

VI.

Með bréfi til Fasteigna­mats ríkisins dagsettu 25. júlí 1972 fór stefndi þess á leit að eignir sínar á Rjúpnahæð og Vatnsendahæð, samtals 156,3 hektarar að stærð, yrðu endurmetnar til lækkunar á fasteignagjöldum.  Í bréfinu er bent á að umrætt land­svæði sé notað undir möstur, ásamt tilheyrandi stögum og er fyrirhugaðri framtíðar­nýtingu þess lýst svo: ,, ...er því einkum ætlað að vera óbyggt og án allra venjulegra nytja og hvers konar mannvirkja eða vélvædds atvinnurekstrar, til að fyrirbyggja truflandi áhrif á hina geysinákvæmu og mikilvægu starfsemi, sem þar á sér stað á sviði fjarskipta­þjónustu.  Meðan starfsemi af þessu tagi verður á annað borð rekin á umræddu land­svæði, verður að teljast fullvíst, að því verður ekki ætlað annað hlut­verk.  Ekki væri óeðli­legt að líta á þetta landsvæði hliðstætt því, sem er frátekið við þjóð­vegi alla, þ.e. nokkra landræmu undir vegina og samhliða þeim.  Þá mætti nefna friðuð svæði umhverfis vatnsból o.fl.”  Síðan segir í bréfinu: ,,Því er ekki á móti mælt, að landsvæði það sem hér er um rætt, yrði geysiverðmætt, ef það yrði leyst frá nú­verandi hlutverki, enda yrði það þá að sjálfsögðu tekið til nýs verðmæta- og fast­eigna­mats.”

Í greinargerð stefnda til Fasteignamats ríkisins dagsettri 10. nóvember 1972 er gerð nánari grein fyrir framangreindum sjónarmiðum.  Þar kemur fram að á Rjúpna­hæð sé sendistöð vegna þjónustu við skip og flugvélar á milli- og stuttbylgjum og að á Vatnsendahæð sé annars vegar sendistöð fyrir bifreiðaþjónustu á millibylgju og enda­stöð fyrir radíófjölsímasamband á últrastuttbylgjum við Vestmannaeyjar og hins vegar útvarpsstöðin, sem þjóni mestum hluta þjóðarinnar með hljóðvarpssendingum og meira en helmingi hennar með sjónvarpssendingum.  Stöðvunum þremur fylgi möstur, sem beri lofnet stöðvanna og séu flest mastranna stöguð.  Því næst segir í greinar­gerðinni: ,,Undir þessi mannvirki og umhverfis þau þarf talsvert landssvæði, sem ekki er hægt að nota í öðrum tilgangi af eftirtöldum ástæðum: 1) Í næsta nágrenni stöðvanna, einkum útvarpsstöðvarinnar, er mjög mikill sviðstyrkur.  Af þeim ástæðum væri hætta á erfiðum viðtökuskilyrðum hljóðvarps og sjónvarps í íbúðarhúsum og hugsan­legt væri, að tækjabúnaður í sambandi við iðnað truflaðist. 2) Á stöðvunum er margs konar búnaður, sem er mjög næmur fyrir hvers kyns utanaðkomandi rafmagns- og radíótruflunum.  Slíkar truflanir eru yfirleitt til staðar umhverfis bæði íbúðar- og iðnaðarhúsnæði. 3) Eins og greint er að ofan, eru mörg mastranna stöguð.  Enda þótt gætt sé fyllsta öryggis við uppsetningu og viðhald mastra og staga, er alltaf möguleiki á því að mastur falli niður í ofviðri.  Það er því fráleitt að staðsetja slík möstur inni í íbúðar- eða iðnaðarhverfi. 4) Breytingar á starfsemi stöðvanna ásamt nýjungum í loft­neta og tækjafyrirkomulagi, hafa oft í för með sér breytingar á möstrum.  Það er nauð­syn­legt að tryggja nóg landrými umhverfis stöðvarnar til þess að hægt sé að fylgja þróun þessara mála í framtíðinni.”

VII.

Skipulagi hinnar umdeildu eignarnámsspildu hefur verið þannig háttað að gert hefur verið ráð fyrir að spildan myndi notuð undir starfsemi stefnda.  Þó voru settar fram hugmyndir um byggð á hluta spildunnar í aðalskipulagi Kópavogskaup­staðar 1982-2003 með þeim möguleika að byggð verði hafin eftir 2003.  Samkvæmt aðal­skipu­­lagi 1988-2008 var gert ráð fyrir nokkurri byggð á hluta spildunnar, nánar til tekið á Hörðuvöllum, en ekki ráð­gert að byggð yrði hafin þar fyrr en eftir 2008.  Í greinar­­gerð með aðalskipulagi Kópavogs 1992-2012 er ekki gert ráð fyrir að byggð verði hafin á Hörðuvöllum fyrr en einhvern tíma eftir 2012.  Birgir Sigurðsson skipu­lags­stjóri Kópavogsbæjar staðfesti þetta í vitnisburði sínum fyrir dómi.  Hann kvaðst ekki vita til þess að stefndi hefði mótmælt skipulaginu.  Fram kom í vætti Birgis að hluti eignarnámsspildunnar væri ofan við hundrað metra hæðarmörk, sem íbúða­byggð væri almennt miðuð við. 

Með bréfi 27. október 1997 falaðist Kópavogskaupstaður eftir samningum við stefnda um kaup á landi stefnda á Rjúpnahæð og Vatnsendahæð, þ.e. 159,6 hektara eignar­landi stefnda innan lögsagnarumdæmis Kópavogs.  Stefndi hafnaði kauptilboði í landareignina, en í framhaldi af því voru teknar upp viðræður, að frumkvæði Kópa­vogs­kaupstaðar, um að hluti landsins yrði tekinn undir skipulagt íbúðasvæði og voru til­­nefndir þrír matsmenn til að gefa álit á verðmæti landsins, ef til skipulagðrar byggðar kæmi.  Tók matið til um það bil 100 hektara lands, en eingöngu að hluta til þess lands sem mál þetta snýst um.  Samkvæmt nefndri matsgerð frá 16. júní 1998 er verðmæti landsvæðisins metið krónur 315.000.000 miðað við staðgreiðslu. 

Stefndi kveðst ekki vilja selja hið eignarnumda land og segir tilnefningu mats­­­­­manna ekki hafa falið í sér neins konar skuldbindingu af sinni hálfu til að láta land í té heldur hafi hún ein­göngu verið eðlilegur liður í upplýsingaöflun þar að lútandi.  Því sé hins vegar ekki að leyna að heimildir skipulagslaga, nú 32. gr. laga nr. 73/1997, geti leitt til þess að landið kunni að verða tekið eignarnámi án samþykkis stefnda, enda óhjá­­­kvæmi­legt um síðir að þrengt verði að starfsemi stefnda á Rjúpna­hæð og Vatns­­enda­­hæð með ein­hvers konar íbúðabyggð.  Í vætti Viðars Viðars­sonar framkvæmda­stjóra rekstrarsviðs stefnda, sem þátt tók í við­ræðum stefnda við Kópavogskaupstað, kom fram um þetta atriði að stefndi teldi hags­munum sínum best borgið með því að fara samningaleiðina við Kópavogskaupstað og hafa þannig áhrif á framtíðar­mótun byggðar á Rjúpnahæð og Vatnsendahæð, meðal annars á þrætulandinu í máli þessu.  Raun­veruleikinn væri sá að byggð í Kópavogi væri að þenjast út og að á einhverjum tíma­punkti myndi stefndi þurfa að hörfa frá svæðinu og fara með fjarskiptavirki sín eitthvert annað. 

Stefnandi kveðst fyrst hafa orðið þess áskynja árið 1997 að hafnar væru við­ræður milli stefnda og Kópavogskaupstaðar um kaup á eignarnámsspildunni og að stefndi hyggðist selja hana sem byggingarland; sama land og tekið hafi verið eignar­námi á þeirri forsendu og með þeim skilyrðum að nota skyldi landið ein­göngu í sam­bandi við lagningu og rekstur fjarskiptavirkja ríkisins.  Eftir að stefnanda hafi orðið þetta ljóst og að eina ,,nýting” stefnda á eignarnámsspildunni, sem ekki hafi verið notuð í þágu fjarskipta gegnum tíðina nema að mjög litlu leyti, myndi verða sú að mis­­­­nota eignarnámsheimildina og selja spilduna með marg­földum hagnaði miðað við áður­ goldnar eignarnámsbætur, hafi stefnandi krafist þess (fyrst í bréfi 30. desember 1997) að sér yrði afhent spildan til eignar á ný, þar sem eignarnámið hefði farið fram á röngum forsendum, skilyrði eignarnámsheimildarinnar fyrir eignarnámi hefðu aldrei verið fyrir hendi, forsendur væru brostnar fyrir eignarnáminu og sala landsins nú fæli í sér grófa misnotkun á eignarnámsheimildinni.  Stefndi hafi ­ítrekað hafnað kröfum stefnanda (fyrst í bréfi 8. janúar 1998) og því sé málshöfðun þessi nauðsynleg.

Af hálfu stefnanda er lögð á það áhersla í stefnu að mannvirki í eigu stefnda á landi því sem kröfu­gerðin taki til og talist geti til verðmæta muni fá stöðurétt þar sem þau standa nú, verði dóm­kröfur stefnanda teknar til greina, þar til þau þurfi að víkja fyrir skipulagi, en verði þá bætt.  Jafnframt tekur stefnandi fram að ekki vaki fyrir sér að raska rétti óstefnds þriðja manns til mannvirkja sem vera kynnu á landinu, svo sem eignar­rétti einkaðila að sumarbústöðum eða réttindum samkvæmt lögmætum leigu­samningum.  Þá er því lýst yfir af hálfu stefnanda að hann muni, ef  dómkröfur hans verða teknar til greina, tryggja stefnda nauðsynlegan umferðarrétt um landið að fjar­skipta­möstrunum fjórum á meðan þau eru nýtt til fjarskipta.

Málsaðilar eru sammála um að engar þinglýstar veðskuldir hvíli á eignarnáms­landinu að því best verði séð.

VIII.

Auk áðurnefndra vitna komu fyrir dóm Magnús Skarp­héðins­son Waage raf­magns­verk­fræðingur og Stefán Arndal loftskeytamaður, báðir starfsmenn stefnda.  Vitnin báru með líkum hætti um mikil­vægi þess að haft væri verndarsvæði í kringum fjar­skiptavirki og færðu sömu rök fyrir því og til­greind eru í kafla VI að framan.  Vitnin töldu að slíkir þættir hefðu verið hafðir í huga þegar Vatn­senda­hæð varð fyrir valinu sem stöð fyrir lang­bylgju- og stutt­bylgju­senda, þ.e. óbyggt svæði, fjarri byggð, með rúmt landrými umhverfis og möguleika á stækkun með tilliti til örrar þróunar á sviði fjarskipta.  Vitnin gátu um jarðnet sem lagt hefði verið í kringum langbylgju­loft­net útvarpsins á Vatns­endahæð.  Magnús kvað geisla jarðnetsins hafa verið um 90 metra, sem telja yrði fremur lítið miðað við tækni­þekkingu þess tíma og áranna á eftir, en erlendis hefði gjarnan verið gert ráð fyrir jarð­netum í kringum lang­bylgjumöstur sem næmu hálfri til heilli bylgjulengd, þ.e. næðu allt að 1500 metra út frá sendistað.  Vitnin kváðu mikil­vægi stöðvarinnar helgast nú af því að þar væru aðalsendar FM útvarps­sendinga og sjónvarpssendinga fyrir höfuð­borgar­svæðið.  Fram kom í vætti Magnúsar að mikil aukning hefði orðið á þeim um­svifum síðastliðin ár og að útlit væri fyrir að þau myndu aukast á næstu árum.  Því væri áfram þörf á verndar­svæði í kringum stöðina.  Aðspurður um nauðsyn á verndar­svæði í kringum loft­­­netasam­stæðuna á Hörðu­völlum kvaðst Magnús telja að vegna þeirrar starf­semi sem þar færi fram þyrfti verndarsvæði í kringum hvert mastur sem mældist í tugum eða hundruðum metra út frá miðju þess.  

IX.

Stefnandi reisir málatilbúnað sinn á því að eignarnámsheimild 17. gr. laga nr. 30/1941 um fjarskipti, sem stefndi styðji eignarheimild sína á hinni umdeildu land­spildu við, sé svokölluð almenn eignarnámsheimild, þar sem löggjafinn hafi falið fram­­kvæmdarvaldshöfum að ákveða í hverju tilviki, að fullnægðum tilteknum skil­yrðum, hvort og að hve miklu leyti eignarnám skuli fara fram.  Í þessu tilviki hafi lög­gjafinn ekki sjálfur lagt mat það á hvort ,,almenningsþörf” krefði eignarnáms, sbr. áður áskilnað 67. gr., nú 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 10. gr. laga nr. 97/1995, heldur hafi ráðherra fjarskiptamála tekið umrædda ákvörðun og um leið lagt mat á það hvort almenningsþörf krefði eignarnáms.  Slíkt brjóti í bága við téð stjórnar­skrárákvæði.  Ákvörðun ráðherra hafi að öllum líkindum grund­vallast á upp­­lýsingum og gögnum frá stefnda um fyrirhugaða nýtingu land­spildunnar og skipti þá sköpum um gildi nefndrar stjórn­valds­ákvörðunar að þær upp­lýsingar hafi verið réttar í öllum meginatriðum.  Ekki verði fullyrt um það nú hvort rangar upplýsingar um fyrir­hugaða notkun landspildunnar hafi verið lagðar fyrir ráð­herra áður en ákvörðun um eignarnám hafi verið tekin, en hitt sé ljóst að eignarnemi (stefndi) hafi kosið að nota spilduna ekki til fjarskipta þegar frá leið eða hafi aldrei haft þörf fyrir hana til slíkra nota, nema þá í mjög smáum stíl.  Hér vegi og þungt á metunum að við­komandi ráð­herra hafi jafnframt verið æðsti yfir­maður stefnda og því setið báðum megin borðsins við ákvarðanatöku í málinu.  Ráð­herra hafi því verið van­hæfur sem stjórnvald, auk þess sem ljóst sé að löggjafinn hafi gengið of langt í að fram­selja lög­gjafar­vald sitt til framkvæmdarvaldshafa.

Þá leggur stefnandi áherslu á að samkvæmt 17. gr. fjarskiptalaga sé það skil­yrði fyrir eignar­námi að landspildu sé þörf ,,í sambandi við lagningu eða rekstur fjar­skipta­virkja ríkisins”.  Það skilyrði laganna hafi aldrei verið fyrir hendi í því tilviki sem hér um ræðir, nema hvað varðar lítinn hluta eignarnámsspildunnar.  Spildan hafi aldrei verið nýtt á þann hátt sem eignarnámsheimildin áskilji, nema að mjög litlu leyti.  Forsendur eignarnámsins hafi því frá öndverðu verið rangar eða brostið er frá leið.  Af þessu leiði að ógilda beri eignarnámið að því leyti sem spildan hafi ekki verið nýtt í þágu fjar­skipta.  Byggir stefnandi á að í þessu sam­hengi gildi einu fyrir niðurstöðu málsins hvort heldur rangar upplýsingar um fyrir­hugaða landnotkun hafi á sínum tíma verið bornar fyrir ráðherra eða hvort stefndi hafi síðar meir hætt við að nota spilduna á þann hátt sem verið hafi for­senda eignarnámsins.  Sannað sé með nýtingu eða öllu heldur notkunarleysi landspildunnar að almenningsþörf hafi aldrei krafið umrædds eignar­­náms og því hafi það meginskilyrði 72. gr. stjórnarskrárinnar aldrei verið upp­fyllt til að eignarnám hafi mátt fara fram.  Beri einnig af þeirri ástæðu að ógilda eignar­­­­­námið.  Alltént hafi hér verið gengið miklu lengra en nauðsyn hafi borið til í því skyni að fullnægja meintri þörf þeirrar ríkisstofnunar sem eignarnámið hafi átt að þjóna.  Ljóst sé að meðalhófsregla stjórnarfarsréttar hafi verið þverbrotin og að stjórn­völd hafi skert rétt eignarnámsþola langt umfram þarfir.  Ekki sé réttlætanlegt að svipta eignarnámsþola stjórnarskrárvernduðum eignarrétti sínum í þágu þeirrar notkunar eða notkunarleysis eignarnema á landspildunni sem nú sé sannreynt.  Ljóst sé og að almenningsþörf krefji þess alls ekki að stefndi fái nú að selja spilduna, sem hann hafi nánast ekkert notað, með stórhagnaði undir byggingarlóðir.  Almennings­þörf krefji þess heldur ekki að eignarnáminu sé haldið til streitu einungis í því augna­­miði að eignarnemi geti nú hagnýtt sér spilduna á allt annan hátt en eignarnáms­heimild 17. gr. þágildandi fjarskiptalaga kvað á um. 

Stefnandi telur enn fremur að fella beri eignarnámið úr gildi þar sem það fari á allan hátt í bága við lagareglur stjórnarfarsréttar, það sé háð efnisannmörkum, sé ólög­mætt að efni til og hér sé um að ræða misbeitingu valds.  Þá byggir stefnandi og á því að eignarnámið beri að fella úr gildi vegna ógildisannmarka sem nefndur sé vald­níðsla í stjórnarfars­rétti.  Það sé valdníðsla þegar stjórnvöld taki land ein­staklings eignar­námi á röngum forsendum.  Einnig sé á því byggt að það teljist vald­níðsla ef hluta­félag í einkaeign ríkisins hyggst halda til streitu eignarnámi á landi ein­staklings sem lagaskilyrði hafi aldrei verið fyrir og sannanlega hafi aldrei verið nein þörf á.  Það sé enn alvarlegri vald­­níðsla ef stjórnvöld hyggist nú í nafni þessa hluta­félags selja sömu eignarnáms­spildu undir byggingarlóðir með stjarnfræðilegum ofur­hagnaði.  Er á því byggt að vald­níðsla af þessu tagi eigi að lögum að leiða til þess að fella beri eignar­námið úr gildi, verði það ekki gert á grundvelli annarra málsástæðna.  Hér gæti og ógildisannmarka þess sem valdþurrð nefnist, en ljóst sé að stjórnvöld hafi hér farið óravegu út fyrir lögmarkað valdsvið sitt.  Telur stefnandi og að hér beri að byggja á sömu laga­sjónar­miðum og gildi um ógilda löggerninga á sviði einkaréttar samkvæmt III. kafla samningalaga nr. 7/1936 sem leiði einnig til ógildingar eignarnámsins. 

Þeirri málsástæðu er einnig teflt fram af hálfu stefnanda að í afhendingu hinna eignarnumdu réttinda frá ríkinu til stefnda felist sjálfstæð ógildingarástæða og að sömu ógildingarsjónarmið eigi við ef til margboðaðrar einkavæðingar á fyrirtækinu myndi koma með sölu á hlutabréfum til einkaaðila.  Hvort tveggja feli í sér misnotkun á eignar­náms­heimildinni, sem hér sé alfarið bundin við eignarnám í sambandi við lagningu eða rekstur fjarskiptavirkja ríkisins.

Stefnandi byggir málatilbúnað sinn loks á því að stefnda sé skylt að skila og afhenda stefnanda eignarnámsspilduna til eignar af þeirri ástæðu einni að staðreynt sé að landspildan muni aldrei hér eftir verða notuð á þann hátt sem eignarnámsheimildin áskildi og þeirri takmörkuðu notkun á hluta spildunnar í þágu fjarskipta sé nú í það mund að ljúka.  Liggi í slíku tilviki beint við samkvæmt íslenskum rétti að land­eiganda skuli að kröfu hans skilað landinu aftur gegn endurgreiðslu þeirra eignar­náms­bóta sem eignarnemi hafi borgað fyrir sama land eða gegn endurgreiðslu á þeirri fjárhæð sem dómurinn ákvarði hæfilega.  Sé þetta mun eðlilegra í tilviki sem þessu heldur en að ríkisvaldið fái að maka krókinn á sölu lands sem það hafi tekið eignar­námi á alröngum forsendum.

Réttargrundvöll aðal-, vara- og þrautavarakröfu sinnar kveður stefnandi í megin­­atriðum svipaðan.  Það sem skilji á milli sé að gert sé ráð fyrir misháum endur­greiðslum til stefnda á eignarnámsbótum þeim er hann greiddi í upphafi og að þrauta­varakrafan sé ekki alfarið við það miðuð að eignarnámið sæti formlegri ógildingu.

Aðal­krafan byggi á því að stefnandi endurgreiði stefnda eignarnámsbóta­fjár­hæðina án vísi­töluálags og án vaxta fyrir þann hluta landspildunnar sem krafist sé ógildingar eignar­náms á.  Samkvæmt afsali 4. febrúar 1947 hafi heildargreiðsla fyrir hið eignar­numda land numið gkr. 97.368,69 en það séu nú krónur 973,69 sem sé endur­­greiðsla til stefnda samkvæmt aðalkröfunni.  Fyrir liggi að eignarnemi hafi haft ráðstöfunarrétt á eignarnámsspildunni til þessa og átt þess kost að hirða af henni allan arð.  Hann hafi því haft arð af þeim höfuðstól sem hann hafi lagt í spilduna frá upp­hafi.  Eignarnáms­þoli hafi á hinn bóginn verið sviptur ráðstöfunarrétti og tekjumögu­leikum af land­spildunni þann tíma sem eignarnámið hefur varað.  Hafi eignarnemi þurft að leggja í einhvern kostnað vegna spildunnar eða greitt af henni opinber gjöld sé það hans mál, en ljóst sé að eignarnemi hafi hvorki reist á spildunni nein þau mann­virki sem aukið hafi verðmæti landsins sem slíks né heldur bætt landið.  Samkvæmt þessu miðar stefnandi aðalkröfu sína við að honum beri aðeins að endurgreiða stefnda þá fjárhæð sem stefndi hafi greitt fyrir spilduna á sínum tíma.

Varakrafan byggi á því að stefndi fái greiddar vísitölubætur á eignarnámsbóta­greiðslu sína, það er eignarnámsbótafjárhæðina framreiknaða til verðlags í júlí 1998 miðað við breytingar á vísitölu vöru- og þjónustu (neysluverðsvísitölu án húsnæðis). Séu þær vísitölubætur þannig reiknaðar:

Eignarnámsbætur samkvæmt  afsali 4. febrúar 1947 námu gkr. 97.368,69

97.368,69  =  973,69 nýkr. (eftir myntbreytingu)

                 100

Vísitala vöru- og þjónustu í febrúar 1947: 360 stig

Vísitala vöru- og þjónustu í júlí 1998: 1.685.140 stig

Kr.973,69  x   1.685.140 stig=kr.  4.557.788,79

            360  stig

Stefnandi telur að rangt sé í reynd að framreikna greiðsluna miðað við vísi­tölu­breytingar og raunar andstætt lögum.  Endurgreiðsluboð þetta sé aðeins sett fram, ef dómurinn kynni að komast að þeirri niðurstöðu að aðalkrafan eigi ekki við rök að styðjast.  Svipaðra sjónarmiða gæti varðandi þrautavarakröfuna sem geri ráð fyrir að endur­­greiðsla fari að álitum dómsins.  

Þar sem stefnandi krefjist ekki ógildingar eignarnáms á allri eignarnáms­spildunni byggir hann á að rétt sé að endurgreiðslan miðist við hlutfall flatarmáls  þeirrar landspildu sem ógildingar eignarnáms sé ekki krafist á og sé 44.079 fermetrar að stærð, af heildarflatarmáli eignarnámsspildunnar samkvæmt téðu afsali, sem er 69,68 hektarar eða 696.800 fermetrar.  Hlutfall þetta sé 44.079 fermetrar deilt með   696.800 fermetrum eða 6,325%.  Endurgreiðslufjárhæð samkvæmt aðalkröfu sé því:

Nýkr.973,69 x 44.079    =  nýkr. 69,59

      696.800

         nýkr. 973,69 - nýkr. 69,59 = 912,10 nýkr. sem sé endurgreiðslufjárhæð sam­kvæmt aðalkröfu.

Með sömu reikniaðferð sé endurgreiðslufjárhæð samkvæmt varakröfu:

Nýkr. 4.557.788,79 x 44.079  = 288.280,14

       696.800

nýkr. 4.557.788,79 - nýkr. 288.280,14 = nýkr. 4.269.508,65.

Þrautavarakröfuna kveður stefnandi eins og áður segi reista á sömu ógildingar­sjónarmiðum og fyrri kröfur.  Þessi krafa, um að fá landspildunni afsalað til baka gegn endurgreiðslu á þeirri fjárhæð sem dómurinn kann að ákvarða hæfilega, sé auk þess reist á þeim lagastöfum er fram komi í lögum nr. 113/1952 um lausn ítaka af jörðum og í 13. og 14. gr. jarðalaga nr. 65/1976.  Heldur stefnandi því fram að réttur jarð­eiganda til innlausnar jarðarhluta eigi að vera mun ríkari hér, þegar fyrir liggi að jarðar­parturinn hafi verið tekinn eignarnámi á alröngum forsendum, ef ekki með svikum.  Er á því byggt að slík krafa um afsal eigi fullan rétt á sér hvort heldur komi til ógildingar eignarnáms eður ei.  Þar sem umsagnar- og ákvörðunaraðilar samkvæmt jarðalögum séu flestir stjórnvöld á vegum íslenska ríkisins, sem sé eigandi stefnda Lands­símans hf., sé tilgangslaust að leita umsagnar þeirra um innlausn, en gert sé ráð fyrir að hér komi til matsgerð dómkvaddra matsmanna á þeim atriðum sem á reyni samkvæmt lagaákvæðum þessum.  Slíkan endurlausnarrétt, þegar hið eignar­numda hefur ekki verið notað á þann hátt sem eignarnámsheimild kveði á um, styðjist og við fordæmi úr norrænum rétti.

Auk áðurnefndra lagaraka vísar stefnandi almennt til stjórnarskrár lýð­veldisins Íslands nr. 33/1944 með síðari breytingum og laga nr. 30/1941 um fjarskipti og nefnir einnig 28. gr. núgildandi fjarskiptalaga nr. 143/1996.  Þá vísar stefnandi til reglna stjórnar­­farsréttar um ógildi stjórnvaldsákvarðana og til stjórnsýslu­laga nr. 37/1993.  Einnig er vísað til III. kafla laga nr. 7/1936 með síðari breytingum um samningsgerð, umboð og ógilda lög­­­gerninga, þ.e. 30., 33. og 36. gr. laganna, laga nr.103/1996 um stofnun hluta­félags um rekstur Póst- og símamálastofnunar og laga nr. 11/1973 um fram­­kvæmd eignarnáms.  Loks vísar stefnandi um málskostnaðarkröfu sína til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

X.

Stefndi reisir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á aðildarskorti stefnanda, en ekki verði séð að hann eigi að lögum aðild að þeim kröfum sem hafðar séu uppi í málinu, sbr. 16. gr. laga um meðferð einkamála.  Stefnandi leiði rétt sinn til jarðarinnar Vatns­enda af erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested frá 4. janúar 1938 og hafi tekið við jörðinni sem elsti sonur Sigurðar Lárus­sonar Hjalte­sted.  Af erfðaskránni megi ráða að jörðin lúti ekki beinum eignarrétti við­komandi bréf­erfingja heldur sé um að ræða tak­mörkuð eignarréttindi, þ.e. sérstakan afnota- og umráðarétt, að uppfylltum tilteknum skil­yrðum.  Þannig sé afnota- og umráða­manni skylt að búa á jörðinni og hafi hann ekki rétt til að selja jörðina frjálsri sölu eða veðsetja hana nema að takmörkuðu leyti.  Þá hafi umráðamaður ekki rétt til að leigja jörðina út nema um sé að ræða leigu á óræktuðu landi jarðarinnar.  Einnig séu fyrirmæli í erfðaskránni um hvernig fara skuli með jörðina að umráðamanni látnum, en finnist ekki karlerfingi sem upp­fylli skil­yrði erfðaskrárinnar skuli andvirði jarðeignar­innar renna í sjóð sem beri nafnið Styrktar­sjóður Magnúsar Einarssonar Hjaltested á Vatns­enda.  Um heimild stefnanda til jarðar­­innar vísar stefndi annars almennt til dóms Hæstaréttar frá 5. apríl 1968 (hrd. 1968:422). 

Að því er varðar skerðingu á eigninni sé eftirfarandi tekið fram í erfðaskránni: ,,Allar bætur fyrir landsspjöll, sem þegar eru orðin eða kunna að verða á jörðinni ... hefur Lárus Hjaltested eða næsti ábúandi rétt til að krefja um og semja um, með máls­sókn ef með þarf ... ef ekki hefur verið fullkomlega um það samið áður.”  Stefndi telur að af þessu orða­lagi erfðaskrárinnar og því sem að framan greini verði ekki séð að stefnandi hafi með erfðagerningnum öðlast ótvíræðan rétt til að krefjast þess að fellt verði úr gildi með dómi eignarnám sem framkvæmt hafi verið í tíð fyrri umráðamanns jarðarinnar.  Þvert á móti megi ráða af orðalagi erfðaskrárinnar að slíkir gerningar séu bindandi fyrir síðari erfingja, enda ljóst að fyrri erfingi hafi með fullkomnum hætti lokið þeim gerningum sem um ræðir.  Sú ráðstöfun sem mál þetta fjallar um hafi verið frágengin með undirritun afsals 4. febrúar 1947 og kaupverð verið greitt samkvæmt sér­stakri yfir­­matsgerð.  Jörðin Vatnsendi hafi þannig verið skert með varanlegum hætti áður en stefnandi hlaut jörðina í arf á grundvelli bréferfðar.

Þá er sýknukrafa á því byggð að með eignarnámi á grundvelli 17. gr. laga nr. 30/1941 um fjarskipti, greiðslu kaupverðs samkvæmt yfirmatsgerð og undir­ritun og útgáfu afsals 4. febrúar 1947 hafi allur eignarréttur að umræddu landi færst til Lands­síma Íslands, nú stefnda, án nokkurs fyrirvara.  Komi þetta skýrt og ótvírætt fram í afsalinu þar sem Lárus Hjaltested lýsi Landssíma Íslands fyrir hönd ríkissjóðs „full­kominn eiganda hinnar eignarnumdu landsspildu í Vatnsendalandi...”.  Eignar­námið og afsalsgerningur þessi feli í sér fullkomið eignarframsal í skilningi eignaréttar. Við eignar­afsalið hafi öll þau réttindi sem landinu tengjast, þar með talinn beinn eignar­réttur, færst til eignarnema og afsalshafa (stefnda) og fari hann eftir það með öll eignarráð hins afsalaða.  Frá útgáfu afsals og eftir þinglýsingu þess 10. apríl 1947 hafi stefndi og farið að öllu leyti með eignarráð eignarnámsspildunnar og þær heimildir sem felist í inntaki hins beina eignarréttar.  Í því felist að stefndi ráði yfir eigninni, hafi heimild til að hag­nýta hana, til að banna öðrum hagnýtingu hennar og til að ráð­stafa eigninni með lög­gerningi, enda séu ekki á því gerðar sérstakar takmarkanir.  Í þessu sambandi megi nefna að stundum sé eignar­nám í upphafi skilyrt eða bundið tak­mörkunum (t.d. leigunám) og geti það þá eftir atvikum gengið til baka síðar.  Því sé ekki til að dreifa varðandi umrædda eignarnámsspildu.  Hér hafi verið um fullkomna og skil­yrðis­lausa eignaryfirfærslu að ræða.

Stefndi mótmælir því alfarið að ekki hafi verið til staðar heimild til eignar­náms samkvæmt fjarskiptalögum nr. 30/1941 þegar ríkið krafðist eignarnáms á land­spildunni.  Jafnframt er því mótmælt að ákvæði fjarskiptalaganna hafi farið gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944.  Í fyrsta lagi sé ljóst að kröfur reistar á því að 17. gr. nefndra fjarskiptalaga hafi ekki verið gild eignarnámsheimild séu löngu fallnar niður fyrir tómlæti.  Hafi eignar­náms­heimildinni að einhverju leyti verið áfátt hafi þáverandi eiganda (rétthafa) borið að gera athugasemdir við heimildina og/eða gera fyrir­­vara við eignarafsal til stefnda, en því hafi hann aldrei hreyft.  Ljóst sé að réttar­­ástandi sem byggir á slíku lagaákvæði og sem viðgengist hefur um hálfrar aldar skeið verði ekki breytt á þeim grundvelli sem á er byggt í málinu af hálfu stefnanda.  Í öðru lagi sé til þess vísað að ákvæði téðrar 17. gr. hafi falið í sér fullkomna eignarnáms­heimild í skilningi eignaréttar og ákvæðið hafi ekki á nokkurn hátt farið gegn eignar­réttar­ákvæði 67. gr. stjórnarskrárinnar (nú 72. gr.).  Áskilnaður stjórnskipunarlaga um að eignarnám verði að byggjast á almenningsþörf, til þess þurfi lagaboð og að fyrir komi fullt verð, sé að öllu leyti uppfylltur.

Stefndi kveður eignarnámsheimild 17. gr. fjarskiptalaga nr. 30/1941 falla undir svo­nefnda almenna eignarnámsheimild, en slíkar heimildir séu t.d. í vegalögum og skipulagslögum.  Viðurkennt sé að í slíkum tilfellum þurfi ekki að setja lög um ein­stakt eignarnám, enda yrði slíkt erfitt í framkvæmd.  Í eignarnáms­heimild 17. gr. fjar­skiptalaga sé sérstaklega tekið fram að ef afla þurfi lóðar eða annarrar eignar í sam­bandi við lagningu eða rekstur fjarskiptavirkja ríkisins og ekki náist samkomulag um kaup megi „eftir ráðstöfun ráðherra“ taka eignina eignarnámi gegn endurgjaldi sem metið sé eftir eignarnámslögum.  Á þeim tíma sem eignarnámið fór fram hafi sú skoðun verið ríkjandi að löggjafarvaldið ætti fullnaðarúrskurð um það hvort um almennings­­þörf væri að ræða í skilningi 67. gr. stjórnarskrárinnar.  Hvort sem litið sé svo á að endanlegt mat á því að um almenningsþörf sé að ræða eða ekki liggi hjá lög­gjafarvaldi eða dóm­stólum þurfi vart að vera vafamál að öflun lóða í sambandi við rekstur fjarskiptavirkja eða lagningu fjarskiptaleiðslna ríkisins hafi verið í almanna­þágu og fallið undir hugtakið almennings­þörf.  Uppsetning fjarskiptavirkja og önnur notkun svæðisins á Vatnsenda­hæð í þágu þeirrar starfsemi hafi augljóslega verið eðlilegur liður í þeirri upp­byggingu, enda hafi verið reist þar fjöldamörg möstur til móttöku og sendinga fjarskipta og sé svæðið mikilvægur hlekkur í fjarskiptaneti hér á landi.  Fjarskipti séu almenningi auðvitað mjög mikilvæg, þó ekki væri nema út frá öryggissjónarmiðum.  Á þeim tíma sem eignarafsalið fór fram hafi Vatnsendahæð og Rjúpnahæð þegar verið orðnir mikil­vægir hlekkir íslensks fjarskiptanets og öflun frekara lands þar í beinu samhengi við þá uppbyggingu móttöku- og sendiloftneta sem átt hefði sér stað.  Þannig sé ljóst að hvort sem litið sé til hinnar almennu heimildar laganna eða til þeirrar ákvörðunar að beita ákvæðinu til að taka eignarnámi landsvæði úr jörð Vatnsenda (og við Rjúpna­hæð) hafi að öllu leyti verið uppfyllt það skilyrði 67. gr. stjórnarskrárinnar (nú 72. gr.) að almenningsþörf krefði eignarnáms.

Stefndi bendir á að í málinu njóti ekki sérstakra gagna um undirbúning að þeirri ákvörðun ráðherra að taka umrætt land eignarnámi á grundvelli hinnar almennu lagaheimildar fjarskiptalaga.  Með vísan til þess tíma sem nú sé liðinn verði halli af því þó ekki lagður á stefnda.  Athugasemdir þar að lútandi hefði þurft að hafa uppi án tafar, en af gögnum málsins sé ekki að merkja að neinn fyrirvari hafi verið gerður þar að lútandi allan þann tíma sem liðinn sé frá eignarnáminu.  Ekkert bendi til annars en að umrædd stjórnvaldsákvörðun hafi fullnægt að öllu leyti þá­gildandi sjónarmiðum um undirbúning og töku slíkra ákvarðana.  Þá hafi því ekki verið hnekkt að með yfir­mats­gerð 21. desember 1946 hafi verðmæti eignarnámsspildunnar verið metið af þar til kvöddum aðilum, sbr. 7. gr. laga nr. 61/1917 um framkvæmd eignar­náms og því verið lögformlega rétt að eignarnáminu staðið að því leyti sem gögn eru finnan­leg og fullt verð komið fyrir eignina í skilningi þágildandi 67. gr. stjórnar­skrárinnar.  Engar athugasemdir hafi verið gerðar við það, á þeim tíma sem liðinn sé frá eignarafsalinu, að fullar bætur hafi ekki komið fyrir eignina.

Stefndi byggir einnig á því að breytt notkun á eignarnámsspildunni af sinni hálfu geti ekki leitt til þess að skila beri landinu til fyrri eiganda gegn endur­greiðslu upphaflegs kaupverðs.  Ekki verði séð að íslenskar réttarreglur mæli fyrir um slíka skyldu.  Eignarnám landsins hafi tekið til hins beina eignarréttar, enda sé í afsalinu tekið fram að seljandi lýsi kaupanda „fullkominn eiganda hinnar eignar­numdu land­spildu.”  Þegar svo sé flytjist eignarrétturinn til hins nýja eiganda, andstætt því ef land er tekið takmörkuðu eignarnámi.  Eignarnemi öðlist þann rétt yfir eignar­náms­and­laginu sem eignarnámsheimild segi til um.  Eignar­námið í þessu tilfelli hafi hvorki verið takmarkað né tímabundið.  Þá verði ekki séð að ætlunin hafi verið að hafa ein­hvern þann fyrirvara á eignarnáminu að seljandi ætti rétt á að fá landinu skilað, jafn­vel þó svo að nýting þess breyttist á síðari stigum.  Hér beri jafnframt að líta til þess að liðin séu rúmlega 50 ár frá því að eignarnámið og eignar­yfir­­færsla í kjöl­far þess hafi farið fram.  Þó svo að fallist yrði á að brostnar eða breyttar forsendur sem fram kæmu skömmu eftir eignarnám kynnu að leiða til þess að réttaráhrif þess yrðu úr gildi felld sé fráleitt að slíkt geti komið til álita eftir rúm­lega hálfa öld.  Með vísan til þessa skipti í reynd engu máli með hvaða hætti stefndi kjósi að fara með land sitt.  Gildi þá einu hvernig á eignarnámi hafi staðið fyrir rúm­lega hálfri öld.  Ljóst sé að aðstæður geti breyst eftir að ákvörðun er tekin um eignar­nám.  Eignarnumið land geti hvort sem er hækkað eða lækkað í verði.  Landi sem tekið er eignarnámi kunni að vera nauðsyn­legt að ráðstafa með öðrum hætti en upp­haf­lega hafi verið ráðgert.  Ákvörðun um slíkt hljóti að fara eftir atvikum í hverju tilfelli.  Á hinn bóginn sé ljóst að engin skilaskylda eða skilaréttur skapist við slíkar aðstæður.  Raunverð eignarinnar hafi verið bætt að fullu og sé seljandi því búinn að umbreyta eign sinni í peninga.  Þannig væri jafn frá­leitt að eignarnemi gæti skilað eign sem hann hefði tekið eignar­námi, gegn endur­greiðslu, ef hið eignarnumda hentaði ekki eða reyndist óþarft.  Það sem gerist eftir að eignarnám fer fram skipti í reynd engu máli í þessu sambandi og geti ekki ráðist af forsendum aðila á hverjum tíma, ekki frekar en ef þessi eign hefði verið keypt með frjálsum samningum.

Varðandi yfirtöku hlutafélagsins Pósts og síma hf. á réttindum og skyldum, eignum og skuldum Póst- og símamálastofnunar, sbr. lög nr. 103/1996, heldur stefndi því fram að með breytingu á stofnuninni í hlutafélag hafi ekki falist önnur breyting en sú að hlutafélag sem enn sé að öllu leyti í eigu ríkisins hafi tekið að sér þá starfsemi sem áður hafi verið falin Póst- og símamálastofnun.  Ákvæði fjarskiptalaga nr. 143/1996 mæli svo fyrir eftir sem áður að íslenska ríkið skuli tryggja „eftir því sem unnt er að öllum landsmönnum bjóðist aðgangur að talsímaþjónustu og öðrum fjar­skiptum, eftir því sem nánar er mælt fyrir um í [fjarskiptalögum].”  Lögin geri ekki ráð fyrir að tiltekinn rekstrarleyfishafi í fjarskiptum hafi einkarétt á að veita fjar­skipta­þjónustu, en á leyfishafa séu lagðar víðtækar skyldur til að veita slíka þjónustu, sbr. til hliðsjónar b-, c-, d- og h-lið 2. mgr. 6. gr. fjarskiptalaga, sbr. einnig 7. gr.  Með ákvæðum téðra laga sé tryggt að rekstrarleyfishafi í fjarskiptum hafi skyldur gagn­vart almenningi með sama hætti og áður.  Fjarskiptalög geri og ráð fyrir að rekstrar­­­­leyfis­höfum kunni að vera nauðsynlegt að afla sér lands undir fjarskiptavirki, sbr. nú XV. kafla fjarskiptalaga.  Sú málsástæða stefnanda að framsal réttinda og skyldna til Lands­­­­­síma Íslands hf. feli í sér sérstaka ógildingarástæðu í þessu sam­bandi eigi því ekki við rök að styðjast.  Gildi þar einu hvort hlutabréf í stefnda séu seld eða verði áfram í eigu íslenska ríkisins.

Af hálfu stefnda er sérstaklega mótmælt þeim fjárhæðum sem stefnandi býður fram til endurgreiðslu á kaupverði eignarnámsspildunnar.  Verði ekki séð að rök séu til þess, fari svo að dómurinn kæmist að þeirri niðurstöðu að umrætt eignarnám skuli fellt úr gildi, að endurgreiðsla miðaðist eingöngu við krónur 912,10.  Þegar svo langur tími sé liðinn frá því að eignarnám fór fram og eignarnámsbætur greiddar beri að miða endurgreiðslu við raunverð eignarinnar (markaðsverð í dag), enda önnur niður­staða í reynd ótæk.  Vísar stefndi í þessu sambandi til hrd. 1996:1089 (bls. 1091).

Þá liggi ekkert fyrir um það hvernig eignarnámsþoli hafi ráðstafað eignar­náms­­­bótum eftir greiðslu þeirra.  Því sé ekki loku fyrir það skotið að þær hafi verið ávaxtaðar með þeim hætti að þær hafi haldið verðgildi sínu með svipuðum eða sam­bæri­legum hætti og að því er varðar hið eignarnumda land.

Um frekari lagarök vísar stefndi til almennra reglna eignaréttar, laga nr. 30/1941 um fjarskipti, sbr. nú lög nr. 143/1996, laga nr. 68/1934 um útvarpsrekstur ríkisins, laga nr. 61/1917 um framkvæmd eignarnáms, grunnreglna íslensks stjórn­sýslu­­réttar, grunnreglna um tómlæti, laga nr. 103/1996 um stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar og XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einka­mála að því er varðar málskostnað.  Loks vísar stefndi sérstaklega til hrd. 1996:1089.

 XI.

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands lést Magnús Einarsson Hjalte­sted 31. október 1940.  Hann var ókvæntur og barn­­laus og lét ekki eftir sig lög­erfingja.  Með skriflegum arf­leiðslu­­­gerningi frá 4. janúar 1938, sem Magnús stað­festi að nýju tveimur dögum fyrir andlát sitt, arfleiddi hann bróður­son sinn Sigurð Kristján Lárusson Hjaltested að jörðinni Vatns­enda eftir sinn dag með þeirri kvöð að faðir hans, Lárus Pétursson Hjalte­sted, hefði ábúðar­rétt á jörðinni meðan hann lifði.  Sigurður Kristján öðlaðist engu að síður beinan eignar­­­rétt að jörðinni við and­lát Magnúsar með þeim tak­mörkunum á ráð­stöfunar­­heimild sem erfða­­skráin setti honum og var eigandi jarðarinnar og eignar­­náms­þoli 4. febrúar 1947 þegar eignar­námið sem um er deilt í málinu fór fram.  Að honum látnum færðist hinn beini eignar­­réttur að jörðinni til stefnanda málsins og tók hann við sömu fjárhags­legu réttindum og skyldum og faðir hans hafði átt sam­kvæmt erfða­skránni.  Stefnandi hefur því að lögum sömu aðild og faðir hans átti til að bera ágreining um gildi eignar­námsins undir dómstóla, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Verður stefndi því ekki sýkn af kröfum stefnanda á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. sömu laga.

Í 1. málslið 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 10. gr. laga nr. 97/1995, er eignarrétturinn lýstur friðhelgur með þeim takmörkunum þó sem leiðir af seinni hluta ákvæðisins.  Þar segir að engan megi skylda til að láta af hendi eign sína nema almennings­þörf krefji.  Þurfi til þess lagaboð og komi fullt verð fyrir.  Samkvæmt ákvæðinu má í almennum lögum því aðeins heimila eignarnám að upp­­­fylltum þessum þremur skilyrðum. 

Eignarnámsheimildin sem hér skiptir máli er í 1. mgr. 17. gr. laga nr. 30/1941 um fjarskipti og hljóðar svo:

,,Ef afla þarf lóðar eða annarrar eignar í sam­bandi við lagningu eða rekstur fjarskipta­virkja ríkisins, og samningum um kaup verður ekki við komið, má eftir ráð­stöfun ráð­herra taka eignina eignarnámi gegn endur­gjaldi, sem metið sé eftir eignar­náms­­lögum.” 

Ágreiningslaust er að fyrirmælum þágildandi laga um framkvæmd eignar­náms nr. 61/1917 hafi verið fylgt við ákvörðun eignar­náms­bóta fyrir hina umdeildu land­spildu og að fullt verð hafi komið fyrir spilduna í skilningi 72. gr. stjórnar­skrárinnar.  Samkvæmt stjórnarskrár­ákvæðinu er ekki skilyrði fyrir gildi eignarnáms­heimildar að óhjákvæmi­leg nauðsyn sé á eignar­námi heldur nægir almenningsþörf.  Kemur það álitaefni til kasta lög­gjafans þegar hann setur við­komandi eignar­náms­lög og sætir mat löggjafans á því atriði almennt ekki endur­skoðun dómstóla.  Í því tilviki sem hér um ræðir (fjarskipta­lög nr. 30/1941) verður þessu mati lög­gjafans ekki haggað.

Stefnandi byggir einnig á því að ekki hafi verið þörf á umræddu eignarnámi, að eignar­náms­spildan hafi aldrei verið notuð í þágu fjarskipta nema að mjög tak­mörkuðu leyti og að þeirri nýtingu sé nú lokið.  Skilyrði eignarnáms sam­kvæmt 1. mgr. 17. gr. fjarskiptalaga nr. 30/1941 hafi því tæplega verið fyrir hendi í öndverðu og séu það ekki í dag.  Þá hafi ráðherra sá er heimilaði eignar­námið verið vanhæfur sem æðsti yfirmaður Landssíma Íslands, hann hafi sýnt af sér valdníðslu og við ákvarðana­töku um eignarnám landspildunnar farið út fyrir lögmarkað vald­svið sitt.  Beri því sam­kvæmt íslenskum rétti að ógilda eignarnámið og skila eignarnáms­spildunni til stefnanda gegn ákveðinni greiðslu.

Samgöngumálaráðherra fór á greindum tíma með hags­muni ríkisins á sviði fjar­skiptamála og hafði ákvörðunarvald um eignarnám land­spildunnar sem um er deilt.  Við þá ákvarðanatöku hlýtur að hafa skipt verulegu máli að ríkið hafði þegar keypt ríflega 38 hektara landspildu á Vatnsendahæð og rak bæði þar og á nær­liggjandi Rjúpnahæð umfangsmikla og ört vaxandi fjarskiptastarfsemi.  Vegna kvaðar í erfða­skrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested um bann við frjálsri sölu jarðarinnar Vatns­enda eða einstakra hluta hennar eftir hans dag gat ríkið ekki eignast hina nýju ­spildu nema með eignar­námi.  Verður að ætla að ráðherra hafi því neytt hinnar almennu eignar­­­­náms­­­heimildar í 1. mgr. 17. gr. fjarskiptalaga nr. 30/1941.  Þótt takmarkaðra gagna njóti um undir­búning og framkvæmd eignarnámsins verður ekki annað ráðið en að þá­verandi ábúanda jarðarinnar Vatnsenda hafi verið gefinn kostur á að skýra mál sitt og kynna sér hvað stæði fyrir dyrum.  Gögn málsins bera ekki með sér að ábúandi eða eigandi jarðarinnar hafi verið mótfallnir eignar­náminu, en eins og áður er rakið var um lítt eða óræktanlegt land að ræða, sem aðeins hafði verið nýtt til beitar.  Fullt verð kom fyrir eignarnámsspilduna og verður að ætla að í yfirmatsgerð frá 21. desember 1946 hafi verið miðað við markaðsverð þess tíma, þ.e. ,,gangverð” samkvæmt 10. gr. laga nr. 61/1917 um framkvæmd eignarnáms.  Verður því ekki fallist á með stefnanda að sam­göngu­málaráðherra hafi gerst sekur um valdníðslu eða hann farið út fyrir lög­markað valdsvið sitt við ákvarðanatöku í málinu.

Við mat á því hvort þörf hafi verið á eignarnámi hinnar umdeildu land­spildu í þágu fjarskiptavirkja ríkisins verður að horfa aftur til áranna eftir seinni heims­styrjöld og þeirrar öru þróunar og uppbyggingar sem átti sér stað á sviði fjar­skipta­mála.  Ríkið og stofnanir þess höfðu lögum samkvæmt einkarétt til að stofna og reka fjarskiptavirki og báru skyldur gagnvart almenningi, m.a. til útvarpsrekstrar og fjarskiptaþjónustu vegna skipa- og flugumferðar við Ísland.  Fráleitt verður talið að við fyrrgreint mat verði eingöngu miðað við þarfir hins opinbera árið 1947 og næstu ár á eftir heldur ber hér að líta til þeirra nota sem ríkið og stofnanir þess höfðu af landspildunni næstu áratugi eftir eignar­námið.  Má þar nefna uppsetningu loftnetasamstæðunnar á Hörðu­völlum í kringum 1960, sem enn er í mikil­­vægri notkun.  Hér skiptir máli að með hug­takinu ,,notkun” á sviði fjar­skipta er ekki eingöngu átt við það landrými sem þarf undir stöðvar­hús og möstur loftneta heldur einnig óbeina notkun.  Viðurkennt er að í kringum fjarskiptavirki þarf landrými, sem stefndi kýs að kalla verndarsvæði, fjarri íbúðarbyggð og vélvæddum atvinnurekstri, sem hvort tveggja geta í senn orðið fyrir truflunum frá fjarskiptavirkjum og haft truflandi áhrif.  Af hálfu stefnda hefur ekki verið bent á gildandi reglur þar að lútandi, en dómurinn telur viðhorf stefnda vera fag­lega réttmæt.  Sama á við um hugsanleg slæm áhrif á heilsu fólks, sem vitnið Magnús Skarphéðinsson Waage gat um, en þau sjónarmið koma þó fyrst og fremst til álita við áframhaldandi fjölgun sjónvarps- og FM-senda á Vatnsendahæð.  Þá er þekkt að um­hverfi loftnets fyrir lang-, mið- eða stuttbylgju hefur áhrif á útgeislunareiginleika og er fallist á að nokkurt frísvæði sé eðlilegt í kring.  Tugir metra, jafnvel hundruð, geta átt við fyrir stuttbylgjuloftnet.  Mikilvægi jarðneta með lóðréttum loftnetum fyrir lang- og miðbylgju er og viður­kennd staðreynd.  Á framlagðri loftmynd frá 1950 sjást glögg merki slíkra jarðneta inni á spildunni sem Landssími Íslands keypti 1934, en ekki hefur verið leitt í ljós að jarð­net nái inn á hina umdeildu landspildu.  Hins vegar er fallist á að eðlilegt hafi verið að tryggja land umhverfis langbylgjuloftnet útvarpsins er leyfa myndi endur­bætur og stækkun í samræmi við þróun tækninnar frá því er útvarps­stöðin var reist.  Slík sjónar­mið komu fram í vitnisburði Stefáns Arndal og Magnúsar Skarphéðins­sonar Waage. Sparlega var farið við kaup á landi undir útvarps­stöðina 1929, það rúmar t.d. ekki jarðnet með 90 metra geisla.  Víðtæk heimild í afsali til ráðstafana utan spildunnar ber með sér að samningsaðilum hafi verið landleysið ofar­lega í huga.  Þegar ráðist var í byggingu stuttbylgjustöðvar Landssíma Íslands 1934 var eðlilegt að loftnet hennar væru reist eftir atvikum fjarri loftneti útvarps­stöðvar­innar.  Þessa gætir og á fyrrgreindri loftmynd frá 1950.  Samtímis var keypt land sem liggur óbyggt með fram spildu útvarpsstöðvarinnar til beggja handa.  Sú ráð­stöfun jafnaði fjarlægð frá virka hluta útvarpsloftnets að lóðarmörkum og telst við­eigandi.  Fræðileg viðhorf til umfangs jarðneta eru jafnframt vísbending um æskilega stærð frísvæðis umhverfis viðkomandi loftnet.  Telur dómurinn að rök séu til þess að fjórðungur bylgjulengdar sé þá hófleg viðmiðun en algeng.  Það jafngildir hring með 375 metra geisla út frá niðurtaki langbylgjuloftnets útvarpsins á Vatnsenda og reynist falla vel að mörkum hins umdeilda eignarnáms á tvo vegu.  Mannvirki innan frísvæðis stríða að jafnaði gegn tilgangi þess.  Varðandi nýtingu á öðrum hlutum eignar­náms­spildunnar vísar dómurinn annars vegar til þess sem fram kemur í greinar­gerð Lands­síma Íslands til Fasteigna­mats ríkisins 10. nóvember 1972 og áður er rakið í kafla VI að framan og hins vegar til vitnis­burðar Stefáns Arndal og Magnúsar Skarp­héðins­sonar Waage, sem er sam­hljóða um greind atriði.  Er það mat dómsins að eignar­náms­spildan, sem er 69,68 hektarar að stærð, hafi verið hóflega stór, hvort heldur sem litið er til umsvifa ríkisins á sviði fjarskipta og tækni­­þekkingar þegar eignar­námið fór fram eða til viður­kenndra sjónarmiða í dag.  Verður því ekki fallist á með stefnanda að skil­yrði 1. mgr. 17. gr. fjar­skiptalaga nr. 30/1941 hafi skort fyrir eignar­náminu í önd­verðu.  Það er einnig álit dómsins að frá þeim tíma og a.m.k. fram til ársins 1997 hafi nýting eignarnáms­spildunnar verið með þeim hætti að samrýmst fær tilvitnaðri eignar­námsheimild.

Nægjanlega er upp­lýst að eignarnámið fór fram til handa Landssíma Íslands vegna ríkissjóðs og til að afla frekara land­svæðis ,,handa Útvarpsstöð ríkisins á Vatns­endahæð”, sbr. meðal annars orðalag yfir­matsgerðar eignarnámsbóta frá 21. desember 1946.  Leiðir það eitt ekki til ógildingar á eignarnáminu, þ.e. að eignarnámið hafi farið fram í þágu tveggja aðskildra stofnana ríkisins, enda féll sendi­búnaður Útvarpsstöðvar ríkisins og síðar Ríkis­­út­varpsins undir fjarskiptavirki ríkisins í skilningi 17. gr. fjar­skipta­laga og annaðist Landssími Íslands tækni­lega ráðgjöf og þjónustu við þær stofnanir, eins og áður greinir.  Breytingar á yfirstjórn og rekstrarformi Landssímans, síðast með stofnun sérstaks hlutafélags í eigu ríkisins á grundvelli laga nr. 103/1996, leiða heldur ekki til ógildingar á eignarnáminu, en stefndi í málinu er nú rekstrar­leyfis­hafi á eignarnámsspildunni samkvæmt ákvæðum núgildandi fjarskipta­laga nr. 143/1996 og er meðal annars tryggður sambærilegur réttur til eignarnáms og áður var í lögum nr. 30/1941, samkvæmt nánari ákvörðun samgönguráðherra og að fenginni umsögn Póst- og fjarskiptastofnunar.

Líta verður svo á að með fyrirvara­lausu afsali Lárusar Hjaltested 4. febrúar 1947, framgöngu hans í tengslum við afsals­gerðina og eftirfarandi aðgerðarleysi hans og eigenda jarðarinnar Vatnsenda um árabil, hafi farið fram fullkomin og skil­yrðis­laus eignaryfir­færsla á hinni umdeildu landspildu til Landssíma Íslands fyrir hönd ríkis­sjóðs.  Sam­kvæmt því sem rakið er í kafla III að framan hefur stefndi í málinu, Lands­sími Íslands hf., yfirtekið þær fast­eignir sem eignarnámið tók til og telst því eigandi landspildunnar.  Með því að fallist er á sjónarmið stefnda um að þörf hafi verið á eignar­náminu í öndverðu og að nýting eignarnámsspildunnar hafi síðan og a.m.k. fram til ársins 1997 verið með þeim hætti að samrýmist 1. mgr. 17. gr. fjarskiptalaga nr. 30/1941, en einnig síðar sam­­hljóða ákvæðum í fjarskiptalögum nr. 73/1984 og nú 143/1996, verður ekki fallist á að íslensk lög eða aðrar réttarreglur leiði til þess að stefnda beri nú skylda til að skila eignarnámsspildunni eða einstökum hlutum hennar til stefnanda.  Eignarnámið frá 4. febrúar 1947 er því að öllu leyti skuldbindandi fyrir stefnanda, enda engir þeir gallar á afsalsgerðinni sem valda eiga ógildingu hennar.  Ber því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í málinu. 

Samkvæmt greindum málsúrslitum ber með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að dæma stefnanda til greiðslu máls­kostnaðar, en að áliti dómsins eiga ákvæði 3. mgr. sömu lagagreinar ekki við í málinu.  Að því virtu og að teknu tilliti til skaðleysis stefnda af málssókninni samkvæmt málflutningi lög­manns hans þykir málskostnaður hæfilega ákveðinn 550.000 krónur.

Jónas Jóhannsson héraðs­­­dómari ásamt meðdómendunum Þorgeiri Inga Njálssyni héraðsdómara og Vilhjálmi Þór Kjartans­syni rafmagnsverkfræðingi kváðu upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Stefndi, Landssími Íslands hf., er sýkn af öllum kröfum stefnanda, Magnúsar Hjaltested, í málinu.

Stefnandi greiði stefnda 550.000 krónur í málskostnað.