Hæstiréttur íslands
Mál nr. 821/2015
Lykilorð
- Lausafjárkaup
- Galli
- Beint tjón
- Óbeint tjón
- Tómlæti
- Skipting sakarefnis
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. desember 2015. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Stefndi höfðaði mál þetta fyrir héraðsdómi á hendur áfrýjanda og gerði í stefnu eftirfarandi kröfur: Í fyrsta lagi að staðfest yrði riftun hans 28. október 2014 á kaupsamningi við áfrýjanda frá því í júní 2013 um gír og öxulþétti sem ætlaðir voru í vélbát áfrýjanda, Ellu ÍS 119. Í öðru lagi að áfrýjandi endurgreiddi honum kaupverð lausafjármunanna sem riftunarkrafan tók til. Í þriðja lagi krafðist hann skaðabóta að fjárhæð 6.082.331 króna með tilgreindum vöxtum. Með hinum áfrýjaða dómi var kröfu um riftun og endurgreiðslu kaupverðs hafnað. Þar sem málinu hefur ekki verið gagnáfrýjað kemur sú niðurstaða ekki til endurskoðunar hér fyrir dómi.
Við meðferð málsins í héraði lagði lögmaður stefnda fram bókun í þinghaldi 22. apríl 2015. Þar kom fram beiðni hans um skiptingu sakarefnis, sem fólst í því að fyrst yrði dæmt um tvær fyrri kröfurnar annars vegar og hins vegar um ,,bótaskyldu ... samkvæmt 3. lið dómkrafna“. Beiðnin var reist á 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í bókuninni var hún skýrð svo að þar sem fram hafi komið mótmæli við fjárhæð skaðabótakröfu stefnda fælist hagræði í því að einungis yrði að svo stöddu dæmt um skaðabótaskyldu áfrýjanda í málinu. Í þinghaldi 18. maí 2015 bókaði dómari að fallist væri á beiðni stefnda ,,eins og hún er fram sett. Verður sakarefni málsins skipt þannig að fyrst verður fjallað um riftun og endurgreiðslu ... og að auki tekin afstaða til bótaskyldu ... óháð fjárhæð tjónsins.“
Í héraðsdómi er látið hjá líða að geta þess að stefndi hafi í upphafi gert kröfu um greiðslu skaðabóta að tilgreindri fjárhæð en sakarefninu síðar verið skipt á þann hátt sem að framan greinir. Í dóminum er skaðabótakröfunni lýst svo: ,,Ennfremur krefst stefnandi þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda.“
Krafa stefnda um skaðabætur að fjárhæð 6.082.331 króna var í stefnu reist á því að tjón hans vegna ætlaðra vanefnda áfrýjanda væri fjórþætt. Í fyrsta lagi vegna veiðitaps á makrílvertíð 2013, 2.500.000 krónur, í öðru lagi vegna dráttar á því að hann kæmist á grásleppuvertíð 2014, 1.790.000 krónur, í þriðja lagi vegna útlagðs kostnaðar við niðursetningu á röngum gír, 363.262 krónur, og í fjórða lagi kostnaðar við ýmsar úrbætur þegar reynt var að bæta úr litlum ganghraða bátsins, sem síðar hafi komið í ljós að hafi orsakast af þeirri vanefnd áfrýjanda að afhenda rangan gír í bátinn, 1.429.069 krónur.
Það tjón, sem stefndi kveðst hafa orðið fyrir og hann telur að rakið verði til ætlaðra vanefnda áfrýjanda, er annars vegar óbeint tjón sem tilgreint var í tveimur fyrri kröfuliðunum, sbr. b. lið 2. mgr. 67. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Í síðari tveimur kröfuliðunum var á hinn bóginn farið fram á bætur fyrir beint tjón sem fólst í útgjöldum og réttmætum ráðstöfunum til þess að bæta úr, þegar söluhlutur reynist gallaður, sbr. 1. mgr. og a. lið 3. mgr. 67. gr. laganna. Samkvæmt 40. gr. sömu laga þarf að fullnægja mismunandi skilyrðum til þess að unnt sé að krefjast skaðabóta fyrir beint tjón annars vegar og óbeint tjón hins vegar. Ábyrgð á beinu tjóni er að meginstefnu hlutlæg, enda hafi hindrun sem fullnægir skilyrðum 1. mgr. 40. gr., sbr. 27. gr., laga nr. 50/2000 ekki valdið því að til vanefnda kom. Skilyrði þess að unnt sé að knýja fram ábyrgð á óbeinu tjóni vegna galla á söluhlut eru á hinn bóginn þau að gallann megi rekja til mistaka eða vanrækslu seljanda eða að söluhlutur er ekki í samræmi við það, sem heitið var af seljanda, sbr. a. og b. liði 3. mgr. 40. gr. laganna.
Í stefnu var krafist skaðabóta vegna fjártjóns, sem sundurliðað var eins og áður segir, án þess að því væri lýst með hvaða hætti skilyrðum til þess að fá einstaka tjónsliði bætta væri fullnægt. Í greinargerð áfrýjanda í héraði var því ekki teflt sérstaklega fram til varnar að ekki væru skilyrði til þess að bæta óbeint tjón. Að þessu er heldur ekki vikið í hinum áfrýjaða dómi. Verður því að skilja niðurstöðu héraðsdóms um viðurkenningu á skaðabótaábyrgð þannig að hún taki bæði til beins og óbeins tjóns stefnda, innan þeirra marka sem upphafleg krafa hans setur, án þess að leyst hafi verið úr ágreiningi um fjárhæð tjónsins.
II
Staðfest er sú niðurstaða héraðsdóms að af gögnum málsins, þar með töldum samskiptum málsaðila í aðdraganda að kaupum á lausafé því sem um ræðir og skýrslum vitna, verði að leggja það á áfrýjanda að bera hallann af því að stefndi fékk ekki afhentan réttan gír í bát sinn, sem leiddi til þess að ganghraði hans varð minni og hann nýttist ekki sem skyldi við veiðar. Verður lagt til grundvallar að ástæða þess að rangur gír var afhentur hafi verið mistök eða vanræksla af hálfu starfsmanna, sem áfrýjandi ber ábyrgð á. Samkvæmt þessu verður staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að viðurkennd sé skaðabótaábyrgð áfrýjanda á tjóni stefnda vegna gallans. Tekur sú skaðabótaábyrgð bæði til beins og óbeins tjóns, sbr. 1. mgr. og a. lið 3. mgr. 40. gr. laga nr. 50/2000.
Lausaféð sem um ræðir var afhent stefnda í júní 2013. Lagt verður til grundvallar að það hafi verið sett í bát stefnda nokkru síðar. Áfrýjandi kveður menn á vegum stefnda hafa haft samband við sig í mars eða apríl 2014 vegna þess að báturinn hafi ekki gengið sem skyldi. Lýsir starfsmaður áfrýjanda því í skýrslu sinni fyrir dómi að ákveðið hafi verið að ganga úr skugga um hvort önnur atriði en gírinn væru orsök vandans. Menn hafi farið að skoða olíulagnir, athuga með túrbínuna í bátnum, skolvatnskæli og spíssa. Eftir að þessir þættir hefðu verið yfirfarnir án þess að ganghraðinn ykist hafi menn farið að huga að því að gírinn kynni að vera orsökin. Af reikningum sem taka til útlagðs kostnaðar stefnda vegna framangreindra atriða verður ályktað að vinna við þetta hafi staðið fram í júlí 2014 hið skemmsta. Stefndi sendi áfrýjanda bréf 30. júní 2014 þar sem hann kvartaði yfir gallanum og lýsti því í hverju hann væri fólginn. Riftun var lýst yfir 28. október sama ár.
Í 1. mgr. 32. gr. laga nr. 50/2000 er kveðið á um að kaupandi glati rétti sínum til þess að bera fyrir sig galla ef hann tilkynnir ekki seljanda án ástæðulauss dráttar frá því að hann varð galla var, eða mátti verða hans var, í hverju gallinn er fólginn. Þótt starfsmenn stefnda kunni að hafa haft hugboð um það síðla árs 2013 að gírinn væri orsök þess að ganghraði bátsins var mun minni en átti að vera, varð þeim eftir ítrekað samráð við starfsmann áfrýjanda ekki ljóst fyrr en í maí eða júní 2014 í hverju gallinn var í raun fólginn. Samkvæmt þessu verður ekki talið að stefndi hafi glatað rétti til að bera fyrir sig gallann vegna tómlætis.
Með vísan til alls framangreinds verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Marás, vélar ehf., greiði stefnda, Birgisási ehf., 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 22. september 2015.
Mál þetta, sem dómtekið var 26. ágúst síðastliðinn, er höfðað 2. desember 2014.
Stefnandi er Birgisás ehf., Ægisbraut 17, Búðardal.
Stefndi er Marás vélar ehf., Miðhrauni 13, Garðabæ.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru að staðfest verði riftun sem stefnandi lýsti yfir í bréfi 28. október 2014 á kaupum á gír af gerðinni ZF 85 IV 1,64, vörunúmer UTVBH, samkvæmt reikningi 18. júní 2013. Þá krefst stefnandi þess að stefndi endurgreiði 790.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 af 450.275 krónum frá 9. júlí 2013 til 4. september 2013, en af 790.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Ennfremur krefst stefnandi þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda. Loks krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar.
I
Stefnandi gerir út bátinn Ellu ÍS 119 með skipaskrárnúmerið 2568 sem hefur verið notaður til veiða á grásleppu og makríl, en einnig verið á strandveiðum. Báturinn er 3,68 brúttótonn og 6,72 metrar á lengd, búinn 290 hestafla mótor af Yanmar-gerð.
Í mars eða apríl 2013 hafði Baldur Þórir Gíslason, sonur fyrirsvarsmanns stefnanda, samband við stefnda vegna þess að gírinn í bátnum bilaði, en stefndi hefur um árabil verið umboðsaðili Yanmar-véla. Þann 3. júní 2013 sendi Baldur starfsmanni stefnda, Hallgrími Hallgrímssyni, vélfræðingi, skriflega fyrirspurn og óskaði eftir upplýsingum um gírinn í bátnum. Fyrirspurn Baldurs var ekki svarað skriflega.
Ágreiningur er á milli aðila um atvik málsins. Í stefnu er fullyrt að stefnandi hafi í fyrstu ætlað að panta gírinn sjálfur frá útlöndum en hætt við það, enda hafi hann ekki talið sig hafa nægar upplýsingar um gírinn og fjöldi gíra gátu komið til greina fyrir bátinn. Því hafi stefnandi ákveðið að kaupa gír hjá stefnda. Hafi Baldur Þórir hringt í Hallgrím og beðið hann að panta nýjan gír í bátinn. Hafi Hallgrímur spurt hann um skipaskrárnúmer bátsins til að geta flett honum upp og fengið upplýsingar um bátinn. Hafi Baldur Þórir spurt Hallgrím að því hvort hann ætti að finna númer eða merkingar á gírnum en Hallgrímur hafi talið það óþarft þar sem hann hefði allar nauðsynlegar upplýsingar. Síðar hafi Hallgrímur haft samband við Baldur Þóri og sagt honum að gír sem væri í bátnum væri handónýtt dót og að hann hafi pantað annan gír sem væri alveg eins nema „númeri ofar“ sem væri sterkari.
Björn Anton Einarsson setti gírinn í bátinn. Í prufusiglingu að því verki loknu kom í ljós að báturinn gekk aðeins 7-8 mílur í stað 19-20 mílur. Björn Anton leitaði skýringa hjá Hallgrími á orsökum þess að báturinn gekk ekki sem skyldi. Hafi í þeim samskiptum alltaf verið útilokað að um rangan gír væri að ræða. Hafi Björn Anton spurt Hallgrím að því tvisvar hvort hlutföllin í gírnum væru þau sömu og í þeim gír sem var í bátnum og fengið þau svör að svo væri.
Stefndi segir í greinargerð sinni að tilgangur þess að óska eftir upplýsingum frá stefnanda um skipaskrárnúmer bátsins hafi verið að athuga hvort stefnandi hafi áður átt viðskipti við stefnda vegna bátsins. Stefndi fullyrðir að Baldur Þórir hafi óskað eftir því að stefndi pantaði fyrir stefnanda gír af tegundinni ZF í hlutföllunum 1,64:1 og hafi Baldur Þórir sérstaklega í því sambandi greint stefnda frá því að sams konar gír væri í bátnum, enda hafi stefnandi ekki haft neinar upplýsingar um það hvernig gír væri í bátnum. Hafi starfsmaður stefnda spurt Baldur Þóri hvort hann væri viss um að þetta væru rétt hlutföll, enda hafi hann talið að gír í hlutföllunum 2,0:1 hentaði betur. Hafi Baldur Þórir fullyrt að þetta væru rétt hlutföll, enda væri báturinn í vörslum stefnanda og hann í aðstöðu til að athuga hvaða gír væri í bátnum. Þá segir stefndi það hafa verið í apríl eða maí 2014 sem Hallgrímur Hallgrímsson hafi verið í símasambandi við Björn Anton Einarsson vegna þess að báturinn hafi ekki gengið sem skyldi eftir að gírinn var kominn í bátinn.
Í júní 2014 fann Björn Anton Einarsson merki af gamla gírnum í kjölsogi bátsins þar sem hlutföllin eru tilgreind 2,0:1. Við samanburð á merkjum beggja gíranna hafi komið í ljós að hlutföllin voru ekki þau sömu. Gírinn sem stefndi afhenti stefnanda er með hlutföllin 1,64:1, en á reikningi stefnda fyrir gírnum eru tilgreind hlutföllin 2,0:1 fyrir gírinn. Kaupverð gírsins var 790.000 krónur.
Með bréfi 30. júní 2014 óskaði stefnandi eftir tillögu frá stefnda um lausn málsins. Stefnandi ítrekaði beiðnina 14. júlí 2014. Með bréfi 28. október 2014 lýsti stefnandi yfir riftun á kaupum á gír af gerðinni ZF 85 IV 1,64, vörunúmeri UTVBH, samkvæmt reikningi 18. júní 2013, og krafðist endurgreiðslu kaupverðsins og skaðabóta. Í bréfinu er tekið fram að báturinn liggi uppi á landi í Búðardal. Stefndi svaraði ekki fyrrnefndum bréfum stefnanda.
II
Stefnandi kveðst byggja riftunarkröfu sína á því að hinn seldi hlutur hafi verið haldinn verulegum galla í skilningi laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup og samkvæmt almennum reglum kröfuréttarins. Gírinn sem stefnanda hafi verið seldur henti ekki í þeim tilgangi sem sambærilegur hlutur sé venjulega notaður til. Stefndi hafi vitað eða mátt vita þegar kaupin hafi verið gerð í hvaða tilgangi hluturinn hentaði, enda hafi stefnandi byggt á sérþekkingu stefnda og hafi stefnandi haft sanngjarna ástæðu til að byggja á mati stefnda, enda sé stefndi með sérfræðiþekkingu á þessu sviði og umboðsaðili fyrir Yanmar-vélar.
Stefnandi bendi á að sé merkið á gírnum borið saman við það sem fram komi á reikningi útgefnum 18. júní 2013 komi í ljós að samkvæmt reikningnum hafi stefndi selt stefnanda gír með réttum hlutföllum, það er 2,0:1. Á gírnum komi hins vegar fram að stefndi hafi selt stefnanda gír með hlutföllunum 1,64:1. Ljóst sé að báturinn geti aldrei gengið eðlilega með þessum röngu hlutföllum. Stefndi hafi því afgreitt allt aðra vöru en hann hafi selt stefnanda samkvæmt reikningi. Því sé einfaldlega um að ræða afhendingu á röngum hlut, enda hafi stefnandi engin not fyrir hina seldu vöru þar sem hún passi ekki í bátinn. Það sé hafið yfir vafa að slíkur söluhlutur sé haldinn galla í skilningi laganna, enda liggi fyrir að stefndi hafi afhent annan söluhlut en hann hafi selt og sá hlutur sem afhentur hafi verið hafi verið allt annars eðlis en sá sem seldur hafi verið. Þrátt fyrir það hafi stefndi hafnað allri ábyrgð vegna málsins. Veiti þetta stefnanda rétt til þess að rifta kaupunum. Um það sé sérstaklega vísað til reglna laga um lausafjárkaup nr. 50/2000 sem fjalli um galla sem vanefndaúrræði, 17.-21. gr., 30. og 39. gr.
Vegna galla á vörunni og í ljósi riftunarkröfu stefnanda sé þess krafist að stefndi endurgreiði stefnanda kaupverð gírsins, 790.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Stefnandi hafi greitt stefnda kaupverðið með tveimur greiðslum, 450.275 krónur 9. júlí 2013 og eftirstöðvarnar 4. september sama ár.
Stefnandi kveðst hafa orðið fyrir margvíslegu tjóni vegna galla á hinum selda hlut. Kveður stefnandi ekki vafa leika á því að stefndi beri fulla og óskoraða ábyrgð á tjóni stefnanda. Stefnandi byggir skaðabótakröfu sína á öllu því tjóni sem hafi orðið vegna gallans. Um sé að ræða veiðitap á makrílvertíðinni 2013; tjón vegna seinkunar á grásleppuvertíð 2014; kostnað vegna niðursetningar á röngum gír og kostnað við að yfirfara vél í þeim tilgangi að auka ganghraða bátsins. Markvisst hafi verið farið í gegnum atriði sem hafi getað valdið því að báturinn hafi ekki gengið á eðlilegum hraða eftir að starfsmaður stefnda hafi fullyrt að hlutföllin í gírnum væru rétt. Fyrst hafi verið talið að millikælir og túrbína gætu verið óhrein og hafi þau verið þrifin og túrbínan gerð upp. Það hafi ekki skilað árangri.
Starfsmenn stefnda hafi gert mistök við pöntum á gírnum og selt stefnanda gír sem aldrei hafi getað virkað sem skyldi. Það hafi valdið stefnanda umtalsverðu fjártjóni sem stefndi beri bótaábyrgð á. Sé þess krafist að stefndi bæti stefnanda tjónið með dráttarvöxtum frá kaupdegi 18. júní 2013 til greiðsludags.
Hvað lagarök varðar vísar stefnandi til meginreglna samningaréttar um skuldbindingargildi samninga. Einnig meginreglna kröfuréttar um galla og vanefndarúrræði og meginreglna skaðabótaréttar um bótaskyldu stefnda. Þá vísar stefnandi til 17., 21., 30., 39. og 40. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Krafa stefnanda um dráttarvexti er byggð á lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, einkum III. og IV. kafla. Krafan um málskostnað er reist á lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 129. og 130. gr.
III
Stefndi kveðst í fyrsta lagi byggja sýknukröfu sína á því að skilyrði riftunar séu ekki fyrir hendi þar sem stefnandi hafi hvorki með riftunaryfirlýsingu 28. október 2014 né síðar boðist til að afhenda stefnda hið selda lausafé gegn endurgreiðslu kaupverðsins. Meginregla íslensks réttar um riftun lýsi sér meðal annars í því, sbr. ákvæði 64. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, að greiðslur sem inntar hafi verið af hendi skuli ganga til baka. Gírinn ZF 85 hafi verið afhentur stefnanda í júní 2013, eða fyrir meira en tveimur árum. Stefndi hafi ekki vitneskju um það hvort gírinn sé enn í vörslu stefnanda eða hvernig ástand hans sé. Þá sé ljóst af dómkröfum stefnanda að hann krefjist þess að stefndi endurgreiði tiltekna fjárhæð, en hvergi sé þess getið hvernig fari um skil á hinu selda eða uppgjöri að öðru leyti sé gírinn bilaður, ónýtur eða glataður.
Stefndi kveðst í öðru lagi reisa sýknukröfu sína á því að gírinn sé ekki og hafi ekki verið haldinn galla í skilningi laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup eða samkvæmt almennum reglum kröfuréttarins þannig að skilyrði riftunar séu fyrir hendi. Af hálfu stefnanda sé því haldið fram að röng vara hafi verið afhent og því sé varan gölluð. Þessari fullyrðingu sé vísað á bug. Stefnandi hafi sérstaklega óskað eftir því að kaupa gírinn ZF 85 í hlutföllunum 1,64:1 og hafi engar sönnur verið færðar fram sem hnekki fullyrðingu stefnda um þetta. Stefnandi hafi ekki haft undir höndum upplýsingar um hvers konar gír hafi verið í bátnum og hafi ekki verið í aðstöðu til að ganga úr skugga um tegundina eða afla annarra upplýsinga. Þar fyrir utan sé það venja í viðskiptum með lausafé sem þetta að seljendur þeirra fari ekki í sjálfstæða skoðun eða könnun á því hvort viðskiptavinur sé í reynd örugglega að panta rétta vöru. Báturinn hafi verið staðsettur í Búðardal í júní 2013 þegar kaupin áttu sér stað og stefndi ekki í aðstöðu til að kanna hvort gírinn sem pantaður hafi verið hentaði til notkunar í bátnum eða ekki. Þess vegna sé ljóst að gírinn hafi ekki verið haldinn galla í skilningi 17. gr., sbr. 18. gr., laga nr. 50/2000. Þá hafi stefndi ekki haft ástæðu til að ætla annað en að upplýsingar þær sem stefnandi hafi gefið um gírinn hafi verið réttar, enda sambærilegur gír notaður í mörgum bátum af sömu tegund og stærð. Stefndi hafi þannig fullnægt upplýsingaskyldu sinni að öllu leyti og því eigi 1. mgr. 18. gr. laga nr. 50/2000 ekki við að því er varði stefnanda.
Stefndi kveðst í þriðja lagi byggja sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi með tómlæti sínu glatað rétti sínum til riftunar og/eða skaðabóta, sbr. ákvæði 32. gr. og 39. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Stefnandi hafi orðið þess var um leið og gírinn hafi verið settur í bátinn og hann prófaður í júlí 2013, eða mánuði eftir að hið selda hafi verið afhent stefnanda, að hann hafi ekki gengið á eðlilegum hraða. Þá sé því haldið fram að starfsmaður stefnda hafi veitt ráðleggingar í kjölfarið um mögulegar orsakir þess að báturinn gekk ekki hraðar og sé í því sambandi nefnt að starfsmaðurinn hafi meðal annars sagt að óhreinindi í túrbínu og millikæli gætu verið orsök þess að báturinn gengi ekki hraðar. Þessu sé vísað á bug. Hið rétta sé að stefnandi hafi engin samskipti haft við stefnda vegna bátsins fyrr en um vorið 2014. Í ljósi þessa sé fullvíst að stefnandi hefði í samræmi við ákvæði 1. mgr. 32. gr. laga nr. 50/2000 átt að gera stefnda án ástæðulauss dráttar grein fyrir því að hann teldi að um galla væri að ræða í júlí 2013 en ekki tæplega einu ári síðar eða um vorið 2014. Þá segi í 31. gr. laganna að eftir afhendingu söluhlutar skuli kaupandi, jafnskjótt og sanngjarnt tækifæri gefst, rannsaka söluhlut á þann hátt sem góð venja stendur til. Í 2. mgr. 39. gr. segi að kaupandi geti ekki rift kaupum nema hann tilkynni seljanda um riftun án ástæðulauss dráttar frá því að hann fékk eða hefði átt að fá vitneskju um gallann. Það gildi þó ekki hafi seljandi sýnt af sér vítavert gáleysi eða framferði hans stríði að öðru leyti gegn heiðarleika og trú. Stefnandi hefði mátt verða gallans var þegar hann hafi tekið við gírnum, enda hafi verið áletrun á honum þar sem hlutföll gírsins komi fram. Stefnanda hefði mátt vera það ljóst þegar við afhendingu gírsins og hefði átt að tilkynna seljanda án tafar um að rangur hlutur hafi verið afhentur, hafi sú verið raunin. Í ljósi atvika málsins sé ljóst að réttur til riftunar og/eða skaðabóta sé ekki fyrir hendi og því beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.
Stefndi mótmæli bótakröfu stefnanda og krefst sýknu af henni. Byggt sé á getgátum um veiðitap og ekki færðar fram sannanir fyrir því að orsakatengsl séu á milli hins meinta galla og þess tjóns sem stefnandi telji sig hafa orðið fyrir. Þá sé ekki sýnt fram á að ætlað tjón sé sennileg afleiðing af ísetningu gírs í hlutföllunum 1,64:1 í bátinn.
Stefndi byggir sýknukröfu sína á meginreglum kröfu- og samningaréttar, lögum nr. 50/2000 um lausafjárkaup og almennum reglum skaðabótaréttar. Krafa stefnda um málskostnað er byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 129. gr. og 130. gr.
IV
Í máli þessu er ágreiningur um það milli aðila hvort stefnandi hafi óskað eftir því við stefnda að hann pantaði gír í bátinn Ellu ÍS 119 í ákveðnum fyrirfram uppgefnum hlutföllum, það er hlutföllunum 1,64:1. Stefnandi heldur því fram að hann hafi ekki haft upplýsingar um hlutföllin í gírnum sem bilaði og hafi stefnanda skort þekkingu til þess að panta sjálfur gír í bátinn frá útlöndum. Því hafi hann talið öruggara að leita til stefnda sem seljanda Yanmar-véla með það að panta gírinn. Hafi það verið gert án upplýsinga frá stefnanda um það hvaða hlutföll hafi verið í þeim gír sem bilaði í bátnum. Stefndi fullyrðir að stefnandi hafi óskað eftir því að fá gír í bátinn í hlutföllunum 1,64:1. Styðst sú fullyrðing við framburð starfsmanns stefnda fyrir dómi, vitnisins Hallgríms Hallgrímssonar vélfræðings, en fær hvorki stoð í málsgögnum né framburði annarra vitna. Vitnið Baldur Þórir Gíslason, sem hringdi í Hallgrím til að panta nýjan gír í bátinn, bar fyrir dómi að hann hefði ekki nefnt nein hlutföll, enda hefði honum verið ókunnugt um hver þau væru, en að beiðni Hallgríms gefið honum upp skipaskrárnúmer bátsins, en ekki aðrar upplýsingar.
Samkvæmt málsgögnum og framburði aðila og vitna fyrir dómi liggur fyrir að gírinn í bátnum Ellu ÍS 119 bilaði á vormánuðum 2013 og að stefnandi pantaði nýjan gír í bátinn hjá stefnda. Reikningur fyrir gír af gerðinni ZF 85 IV með hlutföllunum 2,0:1 var gefinn út 18. júní 2013. Ágreiningslaust er að stefndi afhenti stefnanda gír af sömu gerð en með hlutföllunum 1,64:1 og að sá gír hentaði ekki vélbúnaði bátsins, enda er upplýst í málinu að sterkari gír af sömu tegund, það er með hlutföllunum 2,0:1, var í bátnum fyrir bilunina. Af þessum ástæðum gekk báturinn 7-8 mílur í stað 19-20. Að mati dómsins þykir nægilega í ljós leitt að rangur gír í bátnum sé orsök þess að báturinn gekk ekki með réttum hætti.
Eftir að gírinn hafði verið settur í bátinn og í ljós kom að báturinn gekk ekki sem skyldi voru gerðar ýmsar tilraunir á vegum stefnanda, eftir ábendingum stefnda, til að auka ganghraða bátsins. Kom það fram í framburði vitnisins Björns Antons, sem kvaðst hafa haft samband við Hallgrím Hallgrímsson, starfsmann stefnda, sem benti þeim á að hreinsa túrbínu vélarinnar og spíssa. Það skilaði ekki árangri og svo fór að stefnandi lýsti því yfir með bréfi 28. október 2014 að kaupum á gírnum væri rift. Í málinu krefst stefnandi þess að riftunin verði staðfest.
Samkvæmt 1. mgr. 30. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup er kaupanda heimilt að rifta kaupum á söluhlut reynist hann gallaður. Riftun er einhliða yfirlýsing samningsaðila um að hann muni ekki inna sína greiðslu af hendi og leysir slík yfirlýsing jafnframt gagnaðila undan skyldu hans til að inna sína greiðslu af hendi. Hafi greiðslur farið fram er meginreglan sú að skila ber þeim aftur, sbr. 64. gr. laga nr. 50/2000.
Í framburði Gísla Kristjáns Baldurssonar, fyrirsvarsmanns stefnanda, fyrir dómi kom fram að stefnandi hefði notað bátinn við grásleppuveiðar á Breiðafirði 2014, en útilokað hafi verið að nota bátinn við veiðar á makríl vegna lítils ganghraða. Báturinn væri nú staðsettur í höfn sem héti Skarðsstöð. Spurður um það hvers vegna gírnum í bátnum hefði ekki verið skilað við riftunina sagði Gísli Kristján að ákveðið hefði verið að nota bátinn til grásleppuveiða á Breiðafirði þrátt fyrir lítinn ganghraða og væri gírinn ennþá í bátnum. Í framburði vitnisins Baldurs Þóris Gíslasonar kom fram að hefði gírinn verið tekinn úr bátnum og honum skilað til stefnda hefði báturinn verið ónothæfur. Þess vegna hefði verið ákveðið að nota bátinn eins og hann var, enda hefði fjárhagur stefnanda ekki leyft annað. Samkvæmt þessu liggur fyrir að stefnandi notaði bátinn þrátt fyrir riftunina og hefur ekki gert neinn reka að því að skila gírnum til stefnda þrátt fyrir riftunina. Það samrýmist ekki því að hann haldi til streitu kröfum sínum hér fyrir dómi sem byggðar eru á fyrrnefndri riftunaryfirlýsingu hans. Verður stefndi því sýknaður af kröfu um að riftunin verði staðfest og kaupverðið endurgreitt að viðbættum dráttarvöxtum.
Stefnandi krefst þess einnig að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda vegna tjóns sem stefnandi telur sig hafa orðið fyrir vegna þess að stefndi hafi gert mistök við pöntun á gírnum og selt stefnanda gír sem ekki gat virkað sem skyldi. Kröfuna byggir stefnandi á almennum reglum skaðabótaréttarins. Bendir stefnandi á að hann hafi orðið fyrir veiðitapi á makrílvertíðinni 2013 og tjóni vegna seinkunar á grásleppuvertíð 2014. Þá hafi stefnandi orðið fyrir tjóni vegna kostnaðar við að setja rangan gír í bátinn og kostnaðar við að yfirfara vél í þeim tilgangi að auka ganghraða bátsins. Markvisst hafi verið farið í gegnum atriði sem hafi getað valdið því að báturinn hafi ekki gengið á eðlilegum hraða eftir að starfsmaður stefnda hafi fullyrt að hlutföllin í gírnum væru rétt. Eru sjónarmið stefnanda um þetta nánar rakin í kafla II að framan. Stefndi hafnar bótaskyldu og bendir meðal annars á að ekki hafi verið færðar fram sannanir fyrir því að orsakatengsl séu á milli ætlaðs galla og þess tjóns sem stefnandi telur sig hafa orðið fyrir.
Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er heimilt að leita viðurkenningardóms um kröfu, enda hafi aðili lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands. Áskilnaður ákvæðisins um lögvarða hagsmuni hefur verið skýrður svo að sá sem höfðar mál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu verði að leiða nægar líkur fyrir því að hann hafi orðið fyrir tjóni, gera grein fyrir því í hverju tjón hans felist og hver séu tengsl þess við atvik málsins.
Svo sem fyrr segir er upplýst í málinu að stefndi seldi og afhenti stefnanda rangan gír í bátinn Ellu ÍS. 119. Einnig er upplýst að Björn Anton Einarsson setti gírinn í bátinn og freistaði þess í samráði við starfsmann stefnda, Hallgrím Hallgrímsson vélfræðing, að auka ganghraða bátsins með gírnum með því að yfirfara vél bátsins áður en í ljós kom að hlutföllin í hinum selda gír hentuðu ekki vélbúnaði bátsins. Meðal málsgagna eru reikningar frá B. A. Einarssyni ehf., Tækni ehf. og Vélaverkstæði Hillari ehf. fyrir kostnaði stefnanda af því að setja gírinn í bátinn og fyrir hreinsun á vélinni. Um er að ræða efni og vinnu. Fyrir liggur að stefnandi hugðist nýta bátinn til strandveiða, þar á meðal til makríl- og grásleppuveiða. Fullyrðir stefnandi að hann hafi orðið fyrir veiðitapi á makríl 2013 sem nemi að lágmarki 25 tonnum af makríl vegna ganghraða bátsins. Enn fremur hafi hann misst úr 13 daga af grásleppuvertíðinni 2014. Samkvæmt framburði Björns Antons Einarssonar gekk báturinn 7-8 mílur með nýja gírnum í stað 19-20 mílna. Þá lýsti vitnið samskiptum sínum við Hallgrím Hallgrímsson vélfræðing og starfsmann stefnda og ráðleggingum hans til úrbóta hægum ganghraða bátsins allt þar til í ljós kom í júnímánuði 2014 að hinn seldi gír var of lítinn fyrir vélbúnað bátsins.
Í framburði vitnisins Jóhanns Ólafs Ársælssonar, fyrrum starfsmanns Merkúr, kom fram að stefndi hefði keypt véladeild Merkúr. Vitnið greindi frá því fyrir dómi að unnar hefðu verið skrár yfir seldar bátavélar og hefði hver bátur haft sína möppu sem geymdi afrit af öllum gögnum um seldar vélar. Þessum upplýsingum var haldið til haga hjá Merkúr og voru til í fyrirtækinu þegar það var selt. Vitnið greindi frá því að Merkúr hefði selt vélina í Ellu ÍS 119 og að allar upplýsingar hefðu verið til staðar um þá sölu, þar á meðal um gírinn í bátnum. Við söluna hafi reksturinn verið á sama stað og allar upplýsingar skildar eftir og farið yfir til stefnda. Vitnið kvaðst hafa hætt hjá Merkúr 1. október 2006 við sölu fyrirtækisins. Vitnið Hrafn Sigurðsson vélfræðingur greindi frá því fyrir dómi að hann hefði starfað hjá Merkúr frá 1999 til 2005 og síðar hjá stefnda eftir að stefndi hafði keypt sjávarútvegsdeild Merkúr. Vitnið kvaðst hafa selt vélbúnað í bátinn Ellu ÍS 119 á árinu 2003, það er vél, gír og skrúfubúnað. Hafi hlutföllin í gírnum verið 2,0:1. Vitnið bar að allar tæknilegar upplýsingar um hina seldu hluti hafi verið geymdar í pappaöskju í skjalaskáp. Þar hafi einnig verið afrit af reikningum yfir þær vörur sem fyrirtækið seldi í báta.
Svo sem fram er komið þykir nægilega í ljós leitt að rangur gír sé orsökin fyrir því að báturinn Ella ÍS 119 gekk ekki með réttum hætti. Þegar stefnandi pantaði gírinn hjá stefnda mátti hann treysta því að stefndi hefði sem umboðsaðili Yanmar-véla allar nauðsynlegar upplýsingar um bátinn Ellu til þess að panta gír með réttum hlutföllum fyrir vél bátsins, eða hefði gefið stefnanda það til kynna með skýrum hætti ef svo var ekki. Framburðir vitnanna Jóhanns Ólafs og Hrafns þykja renna stoðum undir það að stefndi hafi haft í sínum fórum upplýsingar um hlutföllin í þeim gír sem var í bátnum og bilaði. Þótt ekki sé upplýst með afgerandi hætti hvað varð til þess að stefndi afhenti stefnanda gír sem ekki hentaði bátnum, en skráði upplýsingar um gír í öðrum hlutföllum á útgefinn reikning fyrir gírnum þykir stefndi, með vísan til þess sem rakið hefur verið, verða að bera hallan af því að stefnandi fékk ekki réttan gír afhendan og þá um leið ábyrgð á því að báturinn gat ekki komið stefnanda að fullum notum við veiðar. Í stefnu er rakið að stefnandi hafi orðið fyrir veiðitapi á makrílvertíð 2013 vegna ganghraða bátsins. Hafi mun meiri tími farið í siglingar en minni tími í veiðar og því hafi sjósóknin verið mun minni. Þá hafi tafist að báturinn kæmist á grásleppuveiðar 2014 vegna tilrauna stefnanda til að finna bilun í bátnum og laga. Hafi báturinn af þessum sökum verið þrettán dögum skemur á veiðum vegna þessa. Þykir stefnandi hafa fært fyrir því viðhlítandi rök að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna þess að báturinn gekk ekki með réttum hætti með þann gír sem stefndi seldi stefnanda í bátinn. Verður stefnandi með þessum hætti talinn hafa leitt fullnægjandi líkur að því að hann hafi orðið fyrir fjártjóni og verður í ljósi atvika málsins fallist á það með stefnanda að stefndi beri fulla ábyrgð á því tjóni og er krafa hans um að skaðabótaskylda stefnda verði viðurkennd því tekin til greina eins og í dómsorði segir.
Með vísan til atvika málsins og samkvæmt 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þykir rétt að ákveða að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.
Dóm þennan kveða upp héraðsdómararnir Jón Höskuldsson og Þorgeir Ingi Njálsson og Egill Guðmundsson vélfræðingur.
D ó m s o r ð:
Viðurkennd er skaðabótaskylda stefnda, Marás vélar ehf., á tjóni stefnanda, Birgisás ehf., vegna kaupa á gír af gerðinni ZF 85 IV, vörunúmer UTVBH, í bátinn Ellu ÍS 119 í júní 2013.
Að öðru leyti skal stefndi vera sýkn af kröfum stefnanda.
Málskostnaður fellur niður.