Hæstiréttur íslands

Mál nr. 809/2017

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Sigrún Inga Guðnadóttir aðstoðarsaksóknari)
gegn
X (Gunnar Atli Gunnarsson hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Nálgunarbann

Reifun

Staðfest var ákvörðun lögreglustjóra um að X skyldi sæta nálgunarbanni á grundvelli laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Greta Baldursdóttir og Viðar Már Matthíasson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. desember 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2017, þar sem staðfest var ákvörðun sóknaraðila 13. sama mánaðar um að varnaraðili sætti nánar tilgreindu nálgunarbanni. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Varnaraðili krefst þess að framangreind ákvörðun sóknaraðila verði felld úr gildi. Þá krefst hann þóknunar til handa skipuðum verjanda sínum.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin er að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun verjanda varnaraðila, Gunnars Atla Gunnarssonar héraðsdómslögmanns, fyrir Hæstarétti, 186.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur mánudaginn 18. desember 2017

                Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti ákvörðun lögreglustjóra, dagsetta 13. desember 2017, um að X kt. [...], skuli sæta brottvísun af heimili og nálgunarbanni, samkvæmt a- og b-lið 4. gr. og a- og b-lið 1. mgr. 5. gr. laga 85/2011, um nálgunarbann og brottvísun af heimili, í fjórar vikur, þannig að honum er bannað að koma á eða í námunda við heimili sitt og A og ólögráða sonar þeirra, B, að [...] í Reykjavík, á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilið. Jafnframt er lagt bann við því að X veiti A og B eftirför, nálgist þau á almannafæri eða setji sig í samband við þau með öðrum hætti.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi nú til rannsóknar ætlað ofbeldi X gegn syni sínum, B, og eiginkonu sinni, A. Upphaf málsins megi rekja til þess að lögregla hafi verið kölluð að heimili X og A að Hraunbæ 48 í Reykjavík að kvöldi 12. desember sl. vegna heimilisófriðar. Hefðu A og X verið að rífast og hafi A sagt hann hafa rifið af henni síma og kastað í gólfið, auk þess sem hann hafi reynt að ýta henni út úr íbúðinni og slegið hana með flötum lófa í öxlina. Hafi A sagst vera hrædd við X og að hann hefði hótað henni því að láta loka hana inni á geðdeild. Í samtali við B, son A og X, hafi hann sagt að foreldrar sínir hefðu verið að rífast. Faðir hans hefði verið fullur og reiður og reynt að henda móður hans út úr íbúðinni.

Í viðræðum við starfsmenn barnaverndar hafi komið fram að B hafi tjáð þeim að faðir sinn hefði ítrekað beitt sig ofbeldi þar sem að hann hefði meðal annars notað belti, síðast fyrir um það bil tveimur mánuðum. Sagðist hann hafa hlotið áverka eftir ofbeldi föður síns. A hafi staðfest við lögreglu að hún hefði séð X beita B ofbeldi. Í skýrslutöku hjá lögreglu hafi X neitað að hafa beitt ofbeldi. Segist hann aldrei hafa lagt hendur á A eða B.

Samkvæmt gögnum málsins var tekin skýrsla af A hjá lögreglu 14. desember sl. þar sem hún lýsti því að fljótlega eftir að þau X hefðu eignast sitt annað barn hefði hann farið að beita hana líkamlegu ofbeldi, þá hafi hann beitt hana miklu andlegu ofbeldi og geri stöðugt lítið úr henni og segi hana geðveika. Hún lýsti því að hann hefði meðal annars dregið hana á hárinu í einhver skipti og að hann hefði kýlt hana. A sagðist hræðast mann sinn mjög og að hún hefði í tvígang dvalið í Kvennaathvarfinu vegna ofbeldis af hans hendi, auk þess sem hún hefði þurft að leggjast inn á geðdeild. Þá lýsti hún  því að hann beitti B, elsta son þeirra, einnig andlegu ofbeldi og hann hefði m.a. ítrekað refsað drengnum með belti þegar að drengurinn hafi verið um það bil 10 ára.

Í ljósi ofangreinds telji lögreglustjóri að skilyrði 4. og 5. gr. laga nr. 85/2011 séu uppfyllt en kærði liggi undir rökstuddum grun um að hafa beitt A og B líkamlegu ofbeldi sem talið sé varða við ákvæði almennra hegningarlaga og barnaverndarlaga. Talin sé hætta á því að hann muni gera slíkt aftur og jafnframt með því raska friði þeirra B og A í skilningi ákvæðisins, njóti hann fulls athafnafrelsis. Ekki sé talið sennilegt að friðhelgi þeirra verði vernduð með öðrum og vægari hætti eins og sakir standi. Þá sé það talið mikilvægt að kærði setji sig ekki í samband við B á meðan rannsókn málsins sé enn á viðkvæmu stigi.  Í ljósi þess að B sé  ólögráða barn á heimili A, þar sem að X er jafnframt búsettur, þá sé það talið nauðsynlegt að nálgunarbann og brottvísun nái til þeirra beggja til verndar hagsmunum, öryggi þeirra og heimilisins.

Með vísan til framangreinds og framlagðra gagna sé það mat lögreglustjóra að skilyrði 4. og 5.  gr. laga nr. 85/2011, um nálgunarbann og brottvísun af heimili, séu uppfyllt og ítrekað að krafan nái fram að ganga eins og hún er sett fram.

Niðurstaða

Svo sem að framan er rakið, hefur lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti ákvörðun lögreglustjóra, dagsetta 13. desember 2017, um að X skuli sæta brottvísun af heimili og nálgunarbanni, samkvæmt a- og b-lið 4. gr. og a- og b-lið 1. mgr. 5. gr. laga 85/2011, um nálgunarbann og brottvísun af heimili, í fjórar vikur, þannig að honum sé bannað að koma á eða í námunda við heimili sitt og A og ólögráða sonar þeirra, B, að [...] í Reykjavík, á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilið. Jafnframt sé lagt bann við því að X veiti A og B eftirför, nálgist þau á almannafæri eða setji sig í samband við þau með öðrum hætti.

        Heimilt er að beita nálgunarbanni ef rökstuddur grunur er um að viðkomandi hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola eða hætta er á því að viðkomandi brjóti þannig gegn brotaþola, sbr. 4. gr. laga nr. 85/2011, um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Þessu úrræði verður þó aðeins beitt þegar ekki þykir sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti, sbr. 6. gr. laga nr. 85/2011, og skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til. Samkvæmt 5. gr. laganna er heimilt að beita brottvísun af heimili ef rökstuddur grunur er um að viðkomandi hafi framið refsivert brot gegn ákvæðum XXI.-XXIV. kafla almennra hengingarlaga og/eða 108. gr., 233. gr., 233. gr. b, 253. gr. og/eða 257. gr. sömu laga og verknaður hefur beinst að öðrum sem er honum nákominn og tengsl þeirra þykja hafa aukið á grófleika verknaðarins, enda varð brotið fangelsi allt að sex mánuðum, eða hætta er á að viðkomandi brjóti gegn brotaþola samkvæmt ákvæðinu.

          Fram kemur í greinargerð lögreglustjóra að lögregla hafi verið kölluð að heimili varnaraðila og brotaþola 12. desember sl. vegna heimilisófriðar. Meðal rannsóknargagna er lögregluskýrsla sem tekin var af A þar sem hún lýsti því að varnaraðili hefði dregið hana úr rúmi og reynt að henda henni út úr íbúðinni, auk þess sem hann hefði hótað henni út á götu. Sagði hún að lögregla hefði komið nokkrum sinnum áður á heimilið vegna rifrildis þeirra varnaraðila. Fram er komið að A hefur dvalið í Kvennaathvarfinu með börn þeirra varnaraðila og hefur hún lýst ítrekuðu ofbeldi af hálfu varnaraðila gagnvart sér og B, syni þeirra varnaraðila. Þá er í rannsóknargögnum að finna beiðni Barnaverndar Reykjavíkur um lögreglurannsókn á ætluðu ofbeldi gegn B en beiðnin er dagsett 13. desember 2017. Í beiðninni er því lýst að drengurinn hafi deginum áður lýst ofbeldi varnaraðila gagnvart sér síðust tvö ár sem felist í því að varnaraðili lemji hann með belti, slái með flötum lófa í andlit og kýli í handlegg. Hafi drengurinn lýst því að hann hefði fengið áverka eftir ofbeldið sem hefði verið mjög mikið í um það bil sjö mánuði. Fyrir liggur beiðni lögreglustjóra um skýrslutöku fyrir dómi af B sem dagsett er 14. desember sl.

Með vísan til framangreinds verður fallist á með lögreglu að X sé undir rökstuddum grun um refsiverða háttsemi í garð komu sinnar, A, og ólögráða sonar þeirra, B, eða raskað á annan hátt friði þeirra. Að virtum rannsóknargögnum og framburði A og frásögn B þykir einnig komin fram rökstuddur grunur um að ofbeldi varnaraðila gagnvart A eigi sér lengri sögu og afmarkist ekki af því atviki, sem leiddi til afskipta lögreglu 12. desember sl. Þá liggur nú fyrir að B, ólögráða sonur varnaraðila, hefur lýst ítrekuðu ofbeldi varnaraðila gegn sér. Að öllu framangreindu virtu er fallist á að hætta sé á að varnaraðili haldi framangreindri háttsemi sinni áfram með því að raska friði A og B í skilning 4. gr. laga nr. 85/2011, njóti hann fulls athafnafrelsis. Þá verður ekki talið sennilegt að friðhelgi þeirra verði vernduð  með öðrum og vægari hætti eins og sakir standa. Engu þykir breyta um þessa niðurstöðu þótt A hafi einhverju sinni legið á geðdeild. Með sömu rökum verður að fallast á það með lögreglustjóra að uppfyllt séu skilyrði 5. gr. laganna fyrir brottvísun varnaraðila af heimili. Verður ákvörðun Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 13. desember 2017 staðfest eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Gunnars Atla Gunnarssonar hdl., 200.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011. Þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Elvu Daggar Ásudóttur Kristinsdóttur hdl., 200.000 krónur, greiðist einnig úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 48. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011. Virðisaukaskattur er innifalinn í þóknun.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Staðfest er ákvörðun lögreglustjóra, dags. 13. desember 2017, um að X kt. [...], skuli sæta brottvísun af heimili og nálgunarbanni, skv. a og b lið 4. gr. og a og b lið 1. mgr. 5. gr. laga 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili, í fjórar vikur, þannig að honum er bannað að koma á eða í námunda við heimili sitt og A og ólögráða sonar þeirra B að [...] í Reykjavík, á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilið. Jafnframt er lagt bann við því að X veiti A og B eftirför, nálgist þau á almanna færi eða setji sig í samband við þau með öðrum hætti.

Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Gunnars Atla Gunnarssonar hdl., 200.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Elvu Daggar Ásudóttur Kristinsdóttur hdl., 200.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Virðisaukaskattur er innifalinn í þóknun.