Hæstiréttur íslands
Mál nr. 548/2005
Lykilorð
- Börn
- Forsjá
- Aðfinnslur
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 8. júní 2006. |
|
Nr. 548/2005. |
K (Dögg Pálsdóttir hrl.) gegn M(Garðar Briem hrl. Hildur Sólveig Pétursdóttir hdl.) og gagnsök |
Börn. Forsjá. Aðfinnslur. Gjafsókn.
K og M deildu um forsjá barna sinna, drengs, sem var fæddur 1993, og stúlku, sem fæddist 1998. Í héraðsdómi var K dæmd forsjá stúlkunnar en M falin forsjá drengsins. K krafðist m.a. ómerkingar héraðsdóms þar sem hvorugur aðila hefði gert kröfu um að forsjá barnanna yrði skipt. Til stuðnings kröfunni vísaði hún til breytingar, sem hafði verið gerð með 41. gr. núgildindi barnalaga, þar sem fellt var niður að dómari væri óbundinn af kröfugerð aðila. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að héraðsdómur hefði fallist á kröfur beggja aðila varðandi annað barn þeirra en að þeim hefði verið hafnað um hitt. Hefði dómurinn í hvorugu tilviki farið út fyrir kröfur aðila og var ómerkingarkröfunni því hafnað. Það var ennfremur niðurstaða Hæstaréttar að ekkert væri komið fram í málinu, sem mælti gegn því að systkinin ælust upp sitt á hvoru heimilinu, eða að það ætti að vega þyngra að þau yrðu ekki aðskilin, enda væri jafnframt litið til rúmrar umgengni, sem þau myndu hafa hvort við annað og við foreldra sína. Var niðurstaða héraðsdóms, sem var skipaður hafði verið sérfróðum meðdómsmönnum með mikla reynslu á sviði uppeldismála, staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. desember 2005 og krefst þess aðallega að héraðsdómur verði ómerktur sem og meðferð málsins í héraði frá síðasta þinghaldi fyrir aðalmeðferð, en til vara, að sér verði falin forsjá sonar aðilanna A, sem fæddur er [...] 1993, til átján ára aldurs hans, en héraðsdómur verði staðfestur um forsjá dóttur aðilanna. Hún krefst og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt fyrir réttinum.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 14. mars 2006 og krefst þess aðallega að sér verði falin forsjá dótturinnar B, sem fædd er [...] 1998, til átján ára aldurs hennar, en héraðsdómur verði staðfestur um forsjá sonar aðilanna. Til vara krefst gagnáfrýjandi að héraðsdómur verði staðfestur. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Ný gögn hafa verið lögð fyrir Hæstarétt, þar á meðal matsgerð Ágústu Gunnarsdóttur sálfræðings 22. maí 2006, sem aðaláfrýjandi beiddist eftir uppsögu héraðsdóms.
I.
Aðalkröfu sína um ómerkingu héraðsdóms og meðferðar málsins í héraði frá síðasta þinghaldi fyrir aðalmeðferð reisir aðaláfrýjandi á því að hvorugur aðila hafi gert kröfu um að forsjá barnanna yrði skipt. Hvort fyrir sig hafi krafist óskiptrar forsjár beggja barnanna og annars ekki. Samkvæmt 38. gr. barnalaga nr. 76/2003 séu mál vegna forsjár barns rekin eftir almennum reglum um einkamál nema að því leyti sem mælt sé fyrir á annan veg í lögunum. Í eldri barnalögum nr. 20/1992 hafi verið mælt fyrir um að dómari væri hvorki bundinn af kröfum né málsástæðum aðila, en sú breyting hafi verið gerð með 41. gr. laga nr. 76/2003, að fellt hafi verið niður að dómari væri óbundinn af kröfugerð aðila. Með vísan til þessa sé dómara samkvæmt yngri lögunum óheimilt að víkja frá kröfugerð aðila í forsjármáli, sbr. 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Gagnáfrýjandi krefst þess að hafnað verði aðalkröfu aðaláfrýjanda.
Samkvæmt 1. mgr. 38. gr. barnalaga skal mál vegna forsjár barns rekið eftir almennum reglum um einkamál nema að því leyti sem mælt er fyrir á annan veg í lögunum. Gildir því hin almenna regla laga um meðferð einkamála að dómari megi ganga skemur en kröfur aðila hljóða. Í niðurstöðu héraðsdóms var fallist á kröfur beggja aðila varðandi annað barn þeirra en þeim hafnað um hitt. Dómurinn fór í hvorugu tilviki út fyrir kröfur aðila. Eru því ekki rök fyrir aðalkröfu aðaláfrýjanda.
II.
Aðilar hófu sambúð haustið 1985. Þau fóru til náms í Englandi 1987, en þar fór aðaláfrýjandi að vinna 1991 og lauk námi 1992. Þau gengu í hjónaband í desember 1992 og eignuðust A [...] 1993. Drengurinn átti snemma við veikindi að stríða og jók það á erfiðleika sambands aðilanna, sem þá voru þegar komnir upp. Gagnáfrýjandi vann í lokaverkefni sínu og var mikið frá heimilinu, en lauk námi 1994. Hún fór aftur að vinna þá um haustið og hann hóf störf í fagi sínu. B fæddist í [...] 1998. Þá um haustið fluttust þau heim til Íslands. Fyrst bjuggu þau hjá foreldrum hans en keyptu svo hús og fluttu þangað í janúar 1999. Starfsstofa fyrir hana var útbúin í kjallaranum og hefur hún stundað þar vinnu sína síðan. Í desember 2001 tjáði hún honum að hún vildi skilnað. Hann flutti út af heimilinu í lok janúar 2002 og er í héraðsdómi greint frá skilnaði þeirra að borði og sæng í febrúar og lögskilnaði í desember sama ár, þar sem þau sömdu um sameiginlega forsjá barnanna. Við skilnað að borði og sæng var ákveðið að sonur þeirra ætti lögheimili hjá föður og dóttir hjá móður, en við lögskilnað að lögheimili beggja yrði hjá móður. Aðaláfrýjandi taldi umgengisrétt ekki virtan sem skyldi og höfðaði mál þetta í nóvember 2004. Í héraðsdómi er lýst matsgerð dómkvadds manns um forsjárhæfni aðilanna og þeim þáttum sem henni tengjast.
III.
Fram er komið að báðir aðilarnir séu hæfir uppalendur og hafi aðstöðu til að hafa börnin hjá sér. Héraðsdómur, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum með mikla reynslu á sviði uppeldismála, ákvað að hvorugt skyldi hafa forsjá beggja barnanna heldur skyldi forsjáin vera eins og skilmálar um lögheimili barnanna höfðu kveðið á um við skilnað að borði og sæng. Mat héraðsdóms var að það væri stúlkunni fyrir bestu að móðir hennar fengi forsjá hennar og drengnum fyrir bestu að faðir hans fengi forsjá hans. Ekkert er fram komið, hvorki í matsgerð sálfræðingsins, sem mat hæfi og aðstæður aðila, né í framburði hans fyrir héraðsdómi, sem mælir gegn því að systkinin alist upp sitt á hvoru heimilinu. Aðilar hafa stofnað nýjar fjölskyldur og bæði eignast barn með sínum nýju mökum. Þau ætla því bæði að ala börn sín upp með hálfsystkinum og gagnáfrýjandi einnig með stjúpdóttur sinni.
Frumskylda foreldra er að sýna hverju barni sínu umhyggju og virðingu og gegna forsjár- og uppeldisskyldum sínum svo sem best hentar hag barns og þörfum, sbr. 1. mgr. 28. gr. barnalaga. Þetta gildir jafnt í hjúskap sem við hjúskaparslit. Aðilar eru á svipuðum aldri, bæði við góða heilsu og hæf til að hafa forsjá og ættu því bæði að geta sinnt þörfum barnanna, meðal annars með því að virða umgengnisrétt þeirra við það foreldri sem ekki fær forsjá. Í héraðsdómi var kveðið á um rúman umgengnisrétt frá miðvikudegi til mánudagsmorguns aðra hverja viku, þannig að börnin eigi saman tíma í hverri viku, hjá aðilum til skiptis. Einnig var kveðið á um umgengni á sumri, jólum, áramótum og páskum. Aðilarnir áfrýjuðu ekki þessum þætti héraðsdóms.
Samkvæmt gögnum málsins vilja börnin ógjarna gera upp á milli foreldra sinna. Þegar litið er til síðasta liðs í matsgerð þeirri er í héraðsdómi greinir má sjá að drengurinn hallast meira að jafnara skaplyndi föður og honum finnist hann eiga meira af sameiginlegum áhugamálum með föður en móður. Í skýrslu matsmannsins fyrir héraðsdómi kom og fram, að drengurinn næði góðu sambandi við stjúpmóður sína. Þegar þetta er virt og höfð í huga þau orð matsmannsins fyrir héraðsdómi, að stúlkan gengi út frá því sem vísu að hún yrði áfram hjá móður, svo og að aldursmunur er á systkinunum, þykir verða að líta svo á að ekki eigi að vega þyngra í máli þessu að systkinin verði ekki aðskilin, enda er jafnframt litið til þeirrar rúmu umgengni sem þau munu hafa hvort við annað og við foreldra sína.
Að þessu athuguðu og með vísan til forsendna héraðsdóms að öðru leyti verður niðurstaða hans staðfest.
Eftir atvikum er rétt að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.
Gjafsóknarkostnaður aðaláfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og í dómsorði greinir.
Það athugast, að í dómsorði héraðsdóms var ekki tekið fram hvort áfrýjun frestaði réttaráhrifum hans, andstætt skýrum fyrirmælum 1. mgr. 44. gr. barnalaga.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður aðaláfrýjanda, K, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 500.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Dómur Héraðsdómi Reykjavíkur 22. desember 2005.
Mál þetta höfðaði K, [...], með stefnu birtri 3. nóvember 2004 á hendur M, [...]. Málið var dómtekið 30. nóvember sl.
Stefnandi krefst þess að henni verði með dómi einni falin forsjá barna hennar og stefnda, A, [...] og B, [...], til 18 ára aldurs þeirra. Þá verði í dómi kveðið á um inntak umgengnisréttar þess foreldris sem ekki fær forsjá. Loks krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefndi krefst þess að kröfum stefnanda verði hafnað og að sér verði falin óskipt forsjá barnanna til 18 ára aldurs þeirra. Þá verði í dómi kveðið á um inntak umgengnisréttar þess foreldris sem ekki fær forsjá. Loks krefst stefndi málskostnaðar.
Málavextir.
Aðilar voru í óvígðri sambúð og síðar hjúskap allt þar til þau slitu samvistum í febrúar 2002. Þau eignuðust tvö börn saman, A, sem fæddur er [...] 1993, og B, sem fædd er [...] 1998.
Aðilar fengu leyfisbréf til skilnaðar að borði og sæng 28. febrúar 2002. Þar segir að þau fari sameiginlega með forsjá barnanna. Þau fengu lögskilnað í desember sama ár og var bókað við fyrirtöku hjá sýslumanni að þau væru sammála um að forsjáin væri sameiginleg.
Lýsingar aðila á samskiptum sínum á árunum 2003 og 2004 er mismunandi og verður að nokkru gerð grein fyrir þeim hér á eftir. Samskiptin voru stirð og höfðaði stefnandi mál þetta í nóvember 2004. Undir rekstri málsins var Einar Ingi Magnússon, sálfræðingur, kvaddur til að vinna matsgerð. Er matsgerð hans dagsett 14. september 2005. Í lok matsgerðar eru niðurstöður dregnar saman:
„1. Forsjárhæfni foreldra þ.á.m. helstu persónuleikaeinkenni foreldra, tilfinningaástand og tengslahæfni.
Svar: Báðir foreldrar eru að mati undirritaðs afar vel hæfir sem uppalendur. Í niðurstöðum sálfræðilegra prófana kemur fram að greind þeirra er í góðu meðallagi og engin einkenni geðveiki eða persónuleikabresta koma þar fram. Þá er ekkert sem bendir til annars en að tilfinningalegt ástand sé í góðu lagi og þau hafi bæði góða hæfni til tilfinningatengsla og rísi vel undir því margþætta álagi sem barnauppeldi skapar.
2. Hvernig háttað er tilfinningalegu sambandi og tengslum milli hvors foreldris og barnanna og hver skilningur þeirra á þörfum barnanna er.
Svar: Tilfinningatengsl beggja barnanna við foreldra sína eru afar áþekk og mælist nánast eins í styrkleika og tengslamynstri gagnvart þeim báðum. Ef þau tengsl eru borin saman við tilfinningaleg tengsl og viðhorf foreldra til barnanna falla þessi mynstur saman og einstök afmörkuð dæmi beggja aðila, s.s. um líkamlega snertingar undirstrika það enn frekar. Báðir foreldrar hafa gefið yfirgripsmiklar og nákvæmar lýsingar á börnunum, persónuleika þeirra og þörfum og er ekki annað að sjá en að sá skilningur sé fullnægjandi. Jafnframt hafa foreldrarnir gefið hvort öðru einkunnir sem uppalendur, sem er jákvæður í grundvallaratriðum. Hins vegar greinir foreldrana á um afmörkuð mál, varðandi mismunandi uppeldisaðferðir, sem teljast báðar viðurkenndar og vel má tengja saman í stærri heild.
3. Félagslegar aðstður og persónulegir hagir foreldra með tilliti til heimilisaðstðna, atvinnu og framtíðaráforma.
Svar: Félagslegar aðstæður foreldranna eru ólíkar með hliðsjón af hjúskaparstöðu og fjölskylduaðstæðum. [M] er giftur og þau hjónin hafa nýverið eignast barn. Fyrir á eiginkonan, [C], telpuna [D], sem er á 6. aldursári. Þau búa í rúmgóðu raðhúsi og hafa bæði góða atvinnu, sem þau eru afar ánægð með. Framtíðaráform þeirra miðast við vöxt og framgang fjölskyldulífsins og að skapa börnunum sínum öryggi og stöðugleika í hvetjandi uppeldisumhverfi. [K] er í ástarsambandi við írskan mann, sem hyggst flytja til Íslands í lok ársins og er sambúð þeirra þá fyrirhuguð. Heimilisaðstæður [K] nú eru þær að hún býr í fyrrum sameiginlegu húsnæði fjölskyldunnar og stundar eigin rekstur í kjallara hússins, sem hún er ánægð með og stefnir á að byggja upp frekar. Framtíðaráform [K] beinast fyrst og fremst að uppeldi barna sinna og uppbyggingu eigin atvinnustarfsemi. Það kom margendurtekið fram í rannsókn þessari að [K] hyggst ekki flytja til útlanda.
4. Hvernig er háttað uppeldisaðstðum fyrir börnin hjá hvoru foreldri um sig.
Svar: Þessari spurningu verður að svara þannig að uppeldisaðstæður á báðum heimilum voru afar góðar en ólíkar að einhverju leyti. Ytri aðstæður í húsnæði eru mun rýmri hjá föður en móður en á því heimili eru einnig fleiri fjölskyldumeðlimir. Allur heimilisaðbúnaður eins og hann snýr að börnunum er vel viðunandi á báðum stöðum, svo og samskipti heimilisfólks. Sameiginlegur tími fjölskyldunnar, tómstundir og frí eru með nokkuð áþekkum brag á báðum heimilunum og stöðugur uppeldisrammi í daglegri önn. Benda má á að í gegnum tíðina hafa þau [M] og [K] lagt grunninn að þessum uppeldisramma og mótað hann saman og því lætur nærri að þau hafi áþekkar uppeldishugmyndir og mynd af því hvernig einstaklingar þau vilja að börn þeirra verði.
5. Liðsinni vandamanna hvors foreldris um sig og tengsl barnanna við fjölskyldur hvors foreldris um sig.
Svar: Í þeim tilvikum þegar það reyndi á liðsinni vandamanna á meðan hjónaband [M] og [K] stóð, s.s. í barnapössun og við breytingar og umbætur á húsinu á [X], komu skyldmenni beggja foreldra til aðstoðar. Eftir skilnaðinn má ætla að stuðningur vandamanna gagnvart hvoru foreldrinu um sig haldi áfram. [M] nefnir að foreldrar hans hafi ætíð stutt sig á allan hátt og foreldrar hans létu í ljós vilja til að veita syni sínum áfram ótakmarkaðan stuðning í viðtali við undirritaðan.
Systkinahópur [K] er stór og hún kveðst hafa mest samband við tvo bræður og tvær systur sínar. Samband hennar hefur þó mest verið við [E], eldri systur sína og til hennar hefur hún sótt verulegan styrk. Ekkert hefur komið fram annað en að [K] muni geta sótt sér liðsinni til vandamanna eftir tilefni og aðstæðum.
Fram kom í niðurstöðum tengslaprófa að tengsl barnanna eru mest við [F] föðurafa sinn, að frátöldum þeim sem eru í þrengsta fjölskylduhring. Móðuramma barnanna hefur einnig verið tilgreind af [B]. Foreldrarnir hafa hvort um sig rakið hve mikil tengsl barnanna eru við frændur og frænkur í sinni ætt en þau tengsl virðast vera mjög tilfallandi fremur en samfelld og stöðug.
6. Umgengni barna og forsjárlauss foreldris. Hvort foreldra er líklegra til að viðhalda eðlilegri umgengni við hitt foreldrið til frambúðar.
Svar: Bæði [M] og [K] telja sig hafa á ótvíræðan hátt sýnt og sannað að þau hafi stuðlað að rúmri umgengni við hinn aðilann og séð til þess að börnin geti umgengist hitt foreldrið mikið og rækt stórfjölskyldurnar báðar. Hins vegar kemur einnig það sjónarmið fram hjá báðum foreldrunum að þau vantreysti hinum aðilanum til þess að stuðla að slíkri umgengni og nefna dæmi því til "staðfestingar".
Undirritaður telur að báðir foreldrarnir séu vel hæfir til að halda utan um umgengnisskipulag barnanna þegar búið er að úrskurða hvert það eigi að vera, því þeim [M] og [K] hefur ekki tekist að semja um það sín á milli. Eðlilegt er að taka tillit til þess að börnin geti verið sem mest saman í umgengni og verið rúmhelga daga sem helga daga á heimili forsjárlauss foreldris.
7. Tengsl barnanna innbyrðis.
Svar: Tengsl barnanna innbyrðis eru afar sterk á heildina litið enda má glögglega sjá að þau systkinin eru ræktuð félagslega og tilfinningalega af báðum foreldrum sem stuðla að góðum tengslum þeirra á milli. Það koma fram samsett tengsl hjá þeim báðum gagnvart hinu en jákvæði hlutinn er afgerandi stærri en hinn sem er neikvæður og ræðst m.a. af mismunandi aldri og þroskastigi þeirra systkina.
8. Staða barnanna í félagslegu tilliti og lúti sú athugun bði að skólavist þeirra nú og tengslum við félaga og vini, þ.m.t. áhrif umhverfisbreytinga á börnin.
Svar: Fram kemur að aðlögun barnanna beggja er afar góð gagnvart sínum skóla, það fer vel um þau og vilja þau bæði vera áfram í sínum skólum. Ræddu þau þetta við undirritaðan. Í þessu samhengi hafa þau eignast vini og vinkonur í tengslum við núverandi skólaveru, þótt [B] hafi einnig eignast vinkonur í leikskóla. Fram hefur komið að [B] á mjög margar vinkonur í sínu skólahverfi í nágrenni við heimili móður en aðeins tvær í nágrenni við heimili föður. [A] á hins vegar tvo vini í sínu skólahverfi, nálægt heimili föður en engan í hverfi móður sinnar.
Það er ljóst í hugum barnanna að þau vilja ekki skipta um skóla og ítrekaði [A] það við undirritaðan. Undirrituðum þætti eðlilegt að foreldrarnir tækju mið af þessum vilja því röskun sem hlýst af skólaskiptum getur leitt til vanlíðunar barnsins og aðlögunarvanda á nýjum stað.
9. Vilji og afstaða barnanna verði sérstaklega skoðuð um það hjá hvoru foreldrinu þau kjósi að búa, rætt verði við börnin og lögð fyrir þau hefðbundin sálfræðipróf í samræmi við aldur þeirra og þroska.
Svar: Hvorugt barnanna vildi velja annað heimili foreldra sinna fram yfir hitt. Hins vegar má lesa þannig í svör [B] um kosti og galla hvors heimilis um sig auk tengslamatsins, að hún velji heimili móður fram yfir heimili föður. Þar koma annars vegar til m.a. mjög náin félagstilfinningaleg tengsl hennar við móður sína og á hinn bóginn togstreita hennar við [D], stjúpdóttur [M] og rýr tengsl við [C], eiginkonu hans, þótt þau tengsl séu jákvæð. Hún upplifir ekki valið á milli föður síns og móður sinnar, heldur milli móður sinnar, vinkvenna og séraðstöðu sinnar á heimili hennar annars vegar og hins vegar nýrrar fjölskyldu, sem hún hefur ekki aðlagast fyllilega enn, þótt hún sé mjög tengd föður sínum einum og hlakki til að eignast nýtt hálfsystkin.
Nokkuð erfiðara er að ráða í svör og óskir [A]. Hann kveðst vera nátengdur báðum foreldrum sínum og nái vel til beggja. Það kemur einnig fram í tengslamötunum. Honum líður vel á heimili móður og þau mæðginin eiga auðvelt með að tala saman og honum finnst hann vera líkur móður sinni í skapi en honum finnst að móðir sín sé skapmeiri og geti orðið reiðari en faðir hans og hann hallast mun meira að jafnara skaplyndi föður. Honum finnst einnig að herbergið sitt hjá móður sé fullþröngt auk þess sem skólinn er lengra í burtu frá heimili móður en föður. Hann kveðst jafnframt eiga mun meira af sameiginlegum áhugamálum með föður sínum en móður. Það er einnig mun meira svigrúm í húsi föður en hjá móður, hann nær vel til þeirra mæðgna [C] og [D] auk þess sem hann var fullur tilhlökkunar yfir nýju hálfsystkini, sem var væntanlegt, jafnframt sem það er stutt í skólann. Honum finnst gott að vera þar í fjölskyldunni. Gallarnir eru helstir þeir að hann finnur að athygli föður hans dreifist yfir á fleiri en hann á heimilinu og hann þráir meiri athygli frá honum. Auk þess getur [D] verið æst og pirrandi og þá dregur hann sig í hlé. [A] tók það þó skýrt fram að hann vilji alls ekki gera upp á milli foreldra sinna.”
Einar Ingi gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins og staðfesti matsgerð sína.
Samkvæmt lýsingu aðila stóð sambúð þeirra samtals í 18 ár. Þau bjuggu í Bretlandi frá 1987 til 1998. Þau stunduðu bæði nám þar og síðar unnu þau í fagi sínu. Þau fluttu til Íslands 1998.
Stefndi M er nú í sambúð með annarri konu. Eignuðust þau barn fyrr á þessu ári. Stefnandi K hefur nýverið tekið upp sambúð með manni þeim sem segir frá í matsgerðinni. Er hún barnshafandi.
Við aðalmeðferð gáfu aðilar skýrslur svo og matsmaður eins og áður segir. Þá gáfu núverandi makar aðila skýrslur, systir stefnanda og meðeigandi stefnda að [...].
Málsútlistun stefnanda.
Stefnandi segir að þau hafi bæði stundað nám í Bretlandi, hún [...], en hann nám í [...]. Hún hafi lokið námi 1991 og farið þá að vinna fulla vinnu í faginu. Hún hafi hætt vinnu nokkru áður en A fæddist í október 1993. Þann vetur hafi stefndi verið á lokaári í sínu námi og haft lítinn tíma til að sinna fjölskyldunni. Hún byrjaði í hlutastarfi haustið 1994, en stefndi hafi þá verið í fullri vinnu. Hún hafi að mestu sinnt A.
Þau hafi flutt til Íslands 1998. Hún hafi verið heimavinnandi fyrstu tvö árin eftir heimkomuna. Í ársbyrjun 2000 hafi hún byrjað í hlutastarfi. Hún hafi að mestu séð um börnin, auk þess sem mæður málsaðila hafi skipst á að hjálpa þeim. Þá hafi hún ætíð séð um börnin ef þau voru heima vegna veikinda. Vinna hennar hafi vikið fyrir veikindum barnanna og takmarkast af dagvistartíma þeirra. Vinnutími stefnda hafi hins vegar miðast við þarfir vinnuveitanda hans.
Tilhögun umgengni eftir skilnað þeirra hafi miðast við þær óskir stefnda að hafa börnin aðallega um helgar. Stefnandi kveðst hafa samþykkt þessa tilhögun, enda hafi þá samvera þeirra við stefnda verið sem líkust því sem verið hafði á meðan sambúð þeirra stóð. Hún hafi því séð að mestu um að koma börnunum í skóla og leikskóla og sjá um þau utan skólatíma. Hún kveðst hafa strax óskað eftir því að hafa börnin hjá sér a.m.k. hluta úr annarri hverri helgi, svo að þau gætu notið samvista við fjölskyldu hennar. Stefndi hafi hins vegar aldrei samþykkt slíkt nema sérstakar ástæður væru til. Hún hafi óskað eftir þessari breytingu þar sem hún hafi talið mikilvægt að fá einhvern frítíma með börnunum, þar sem samveran gæti verið afslappaðri og þau fengju tækifæri til að gera meira saman. Virkir dagar séu litaðir af daglegu amstri.
Stefnandi segir að í mars 2004 hafi stefndi ritað sér bréf og óskað eftir ýmsum breytingum á skilnaðarsamningi. Hafi hann sent drög að samningi. Hún hafi ekki samþykkt kröfur stefnda. Í kjölfarið hafi stefndi einhliða breytt fyrra samkomulagi og hætt að skila börnunum eftir umsamda umgengni annan hvern laugardag. Eftir að lögmenn komu að hafi þessu þó verið komið í fyrra horf. Með bréfaskiptum aðila í kjölfarið hafi hins vegar ekki tekist að ná samkomulagi um umgengni þannig að sameiginleg forsjá mætti haldast. Segist stefnandi telja að forsendur sameiginlegrar forsjár séu brostnar.
Stefnandi kveðst hafa séð að mestu um uppeldi og umönnun barnanna allt frá fæðingu þeirra. Stefndi hafi nær einungis notið frítíma með börnunum, bæði á meðan hjúskapur aðila stóð og eins eftir skilnaðinn.
Stefnandi kveðst búa með börnin í því húsi sem fjölskyldan festi kaup á skömmu eftir heimkomuna. Þá stundi hún eigin atvinnurekstur í sama húsi. Hún sé því alltaf heima við.
Stefnandi leggur fram þessa kröfu um tilhögun umgengni stefnda:
Regluleg umgengni þannig að börnin verði hjá stefnda aðra hverja helgi á föstudegi eftir skóla til þriðjudagsmorguns. Þau verði einnig hjá stefnda á fimmtudögum í sömu viku til kl. 18.00 sama dag. Mánudaga eftir helgar hjá stefnanda verði þau hjá stefnda eftir skóla og fram til þriðjudagsmorguns.
Umgengni um jól og áramót víxlist eins og verið hefur þannig að börnin séu til skiptis hjá aðilum á aðfangadag og jóladag og gamlársdag og nýársdag.
Börnin séu hjá öðrum aðilanum allt páskaleyfi skóla, til skiptis hvert ár.
Í sumarleyfi verði börnin heilan almanaksmánuð hjá hvorum aðila um sig. Tilhögun sumarleyfa verði ákveðin fyrir 1. maí ár hvert.
Málsútlistun stefnda.
Stefndi lýsir sambúð aðila og umsjón barna þeirra á nokkuð annan veg. Hann segir að er A fæddist hafi hann verið á lokaári í námi sínu. Hann hafi ekki sótt tíma, heldur getað unnið verkefni sín alfarið heima. Því hafi þá þegar myndast sterk tengsl milli þeirra feðganna. Eftir að stefnandi fór að vinna úti aftur hafi hann verið mjög virkur í umönnun drengsins og gjarnan tekið sér frí úr vinnu til að annast um hann í veikindum.
Þá segir stefndi að eftir að B fæddist hafi hann tekið þátt í umönnun beggja barnanna, þótt stefnandi hafi verið heima.
Stefndi mótmælir þeirri fullyrðingu stefnanda að vinntími hans hafi algjörlega tekið mið af þörfum vinnuveitanda.
Stefndi segir að stefnandi hafi verið mjög ósátt við að vera flutt til Íslands og hafi lýst því er þau undirbjuggu skilnað að hún hygðist flytja utan til starfa. Kveðst stefndi hafa verið mjög sveigjanlegur í samningum um tilhögun lögheimilisskráningar o.fl. til að auðvelda stefnanda að koma undir sig fótunum í rekstri. Unnusti stefnanda reki þrjár [...] á Írlandi og virðist rekstur þeirra ganga vel. Telur stefndi að sú afstaða stefnanda að vilja ekki semja um umgengni lýsi þeim vilja hennar að fá forsjá barnanna til að geta flutt með þau úr landi.
Stefndi kveðst hafa samþykkt ósk stefnanda um að hafa börnin um helgar. Þetta hafi hann gert gegn því að hann fengi þá tíma á virkum dögum í staðinn. Forsenda sín hafi verið að aðilar hefðu sem jafnastan tíma með börnunum. Þá mótmælir stefndi fullyrðingum stefnanda um að hann hafi meinað stefnanda að hafa börnin um helgar.
Stefndi byggir á því að það sé hagsmunum barnanna fyrir bestu að honum verði falin forsjá þeirra. Þau hafi alla tíð verið mjög tengd honum. Þá hafi sá vilji drengsins að vera meira með honum lengi verið skýr. Þá sé stúlkan jafn tengd sér og stefnanda og hafi ríka þörf fyrir meiri samvistir við sig.
Stefndi segir að stefnandi fegri mjög mynd sína í umfjöllun um uppeldi barnanna. Hún fari víða með ósannindi og dragi upp þá mynd af stefnda að hann hafi verið í aukahlutverki við umönnun þeirra. Það sé ósatt. Stefndi hefur tekið saman yfirlit um samverustundir aðila með börnunum. Þá dragi stefnandi ekki upp rétta mynd af framtíðarhorfum sínum. Hún minnist ekki í stefnu á tilvist unnusta síns, sem búi á Írlandi.
Stefndi mótmælir því að hann hafi reynt að draga son þeirra inn í deiluna.
Stefndi kveðst hafa góðar aðstæður til að sinna börnunum. Hann hafi t.d. mjög sveigjanlegan vinnutíma. Hann hafi alla tíð látið umönnun barnanna ganga fyrir vinnu og mótmælir fullyrðingum stefnanda um annað sem röngum.
Þá telur stefndi sig geta boðið börnunum meiri stöðugleika og öryggi en stefnandi. Hann sé kvæntur konu sem börnin hafi kynnst og tengst mjög vel, svo og dóttur hennar.
Loks vísar stefndi til þess að verði honum falin forsjá sé líklegra að börnin geti búið við sem jafnastar samvistir beggja foreldra og að tengsl við báða verði virt. Reynslan sýni þetta. Tillögur stefnanda sýni vilja hennar til að minnka umgengni barnanna við sig.
Stefndi gerir þessa tillögu um tilhögun umgengni:
Regluleg umgengni verði aðra hverja helgi frá kl. 14.00 á fimmtudegi til miðvikudagsmorguns og frá kl. 14.00 á þriðjudegi til miðvikudagsmorguns.
Að börnin verði til skiptis hjá aðilum á aðfangadag og jóladag. Öðrum dögum um jól og áramót verði skipt jafnt.
Í páskaleyfi verði börnin hjá aðilum til skiptis.
Sumardeginum fyrsta og 17. júní verði skipt milli aðila.
Á meðan sumarleyfi er í skólum verði börnin í fimm vikur samfleytt hjá hvorum aðila.
Stefndi vísar til barnalaga nr. 76/2003, einkum 2. mgr. 34. gr. og 42. gr.
Forsendur og niðurstaða.
Í máli þessu skal leyst úr um forsjá drengs sem er 12 ára og stúlku sem verður 8 ára í næsta mánuði. Foreldrar barnanna hafa ekki getað komið sér saman um tilhögun forsjár og umgengni. Valkostirnir eru tveir og gerir hinn dómkvaddi matsmaður ekki upp á milli þeirra, þótt hann lýsi þeim sem nokkuð ólíkum að ýmsu leyti. Það athugast að stefnandi var einstæð er mat var gert, en hún hefur nú tekið upp sambúð með manni og er barnshafandi.
Systkinin eru eðlilega samrýmd og eiga gott með að búa saman á heimili. Matsmaður telur stúlkuna hænast fremur að móður sinni en föður. Drengurinn sakni hins vegar föður síns og vilji eiga meiri tíma með honum.
Dómurinn telur að taka verði sérstaklega tillit til þess að börnin verða ekki ein með foreldrum sínum, hjá föður er bæði hálfsystir og stjúpsystir, en hjá móður verður hálfsystkin. Þá sé eðlilegt að samanlögð umgengni við foreldrana verði tiltölulega jöfn. Dómurinn telur einnig að ekki sé óheppilegt að systkinin verði að nokkru aðskilin með því að þau lúti ekki forsjá sama aðila. Umgengni má koma þannig fyrir að þau yrðu yfirleitt á sama heimili.
Dómurinn telur að það sé heppilegast fyrir bæði börnin að forsjá B verði falin móður, en forsjá A föður. Regluleg umgengni verði aðra hverja viku frá miðvikudegi til mánudagsmorguns, þannig að börnin dvelji saman þann tíma í hverri viku, hjá aðilum til skiptis.
Sumartímanum á meðan grunnskólar starfa ekki er rétt að skipta alveg jafnt á milli aðila þannig að börnin verði bæði í einu hjá öðru foreldra sinna í allt að fjórar vikur í senn. Komi aðilar sér ekki saman um skiptingu skulu þeir hafa sjálfdæmi til skiptis og ákveður annað foreldra þá tíma barnanna með báðum foreldrum það sumar. Skal það foreldra sem ekki hefur sjálfdæmi eiga rétt á einu samfelldu fjögurra vikna tímabili með báðum börnunum. Er rétt að setja aðilum frest til 1. maí ár hvert til að semja um tilhögun umgengni. Komi til þess að annað fái sjálfdæmi ber því að tilkynna tilhögunina eigi síðar en 15. maí.
Í samræmi við tillögur aðila verður ákveðið að um jól og áramót verði börnin saman og til skiptis hjá hvoru foreldri. Verða börnin þá hjá öðru á aðfangadag og nýársdag, en hjá hinu á jóladag, annan jóladag og gamlársdag. Að öðru leyti skulu börnin dvelja jafn lengi hjá hvoru foreldri á meðan jólaleyfi stendur.
Báðir aðilar leggja til að í páskaleyfi dvelji börnin hjá öðru foreldra sinna. Er rétt að svo verði og að þau verði til skiptis hjá hvorum aðila, hjá stefnda M í páskaleyfi 2006, en síðan hjá aðilum ár hvert.
Ekki er ástæða til að mæla fyrir um sérstaka tilhögun umgengni aðra daga.
Rétt er að málskostnaður falli niður. Aðilar beiddust dómkvaðningar matsmanns sameiginlega og skiptu matskostnaði jafnt. Ekki er forsenda til þess nú að leggja kostnaðinn allan á þann sem hefur gjafsókn. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns, 500.000 krónur.
Dóm þennan kveða upp Jón Finnbjörnsson héraðsdómari og Gunnar Hrafn Birgisson og Ragna Ólafsdóttir, sálfræðingar.
D ó m s o r ð
Stefnandi, K, skal fara með forsjá B.
Stefndi, M, skal fara með forsjá A.
Það foreldri sem ekki fer með forsjá barns skal hafa umgengni við það barn aðra hverja viku frá kl. 13.00 á miðvikudegi til kl. 9.00 á mánudegi. Umgengni skal skipt svo að systkinin dvelji á sama heimili þegar umgengni er.
Regluleg umgengni fellur niður ár hvert frá 22. desember kl. 12.00 til 4. janúar kl. 12.00. Bæði börnin skulu dvelja hjá stefnda um jólin 2005 frá kl. 12.00 22. desember til kl. 18.00 þann 23., frá kl. 12.00 á jóladag til kl. 16.00 þann 28. og frá kl. 12.00 þann 30. desember til kl. 12.00 á nýársdag, en hjá stefnanda annars á þessu tímabili. Tilhögun verði á hinn veginn um jólin 2006 og síðan á víxl.
Regluleg umgengni fellur niður um páska frá kl. 9.00 á mánudegi í dymbilviku til kl. 9.00 á miðvikudegi í vikunni eftir páska. Skulu börnin bæði vera hjá aðilum til skiptis. hjá stefnda um páska 2006.
Á sumrin þegar skólar starfa ekki skulu börnin vera saman og dvelja jafn lengi hjá hvorum aðila um sig. Aðilar skulu eigi síðar en 1. maí ár hvert semja um skiptingu tímans. Náist ekki samkomulag hefur stefndi sjálfdæmi um tímabil fyrsta árið, en stefnandi það næsta. Skal þá tilkynna tilhögun eigi síðar en 15. maí. Börnin skulu dvelja samfellt í fjórar vikur hjá hvorum aðila hvert sumar.
Málskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun lögmanns hans, 500.000 krónur.