Hæstiréttur íslands
Mál nr. 435/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
|
|
Miðvikudaginn 27. júní 2012. |
|
Nr. 435/2012. |
A (Björgvin Þórðarson hdl.) gegn Velferðarsviði
Reykjavíkurborgar (Kristbjörg Stephensen hrl.) |
Kærumál. Lögræði.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að A yrði sviptur
sjálfræði á grundvelli a. og b. liða 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Garðar Gíslason
hæstaréttardómari og Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson settir
hæstaréttardómarar.
Sóknaraðili skaut málinu til
Hæstaréttar með kæru 14. júní 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19.
sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júní 2012, þar sem
sóknaraðili var að kröfu varnaraðila sviptur sjálfræði í eitt ár. Kæruheimild
er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega
að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að sóknaraðila
verði gert að sæta sjálfræðissviptingu í sex mánuði. Þá krefst hann þóknunar úr
ríkissjóði til handa skipuðum verjanda sínum.
Varnaraðili krefst staðfestingar
hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður
hann staðfestur.
Samkvæmt
1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist kærumálskostnaður úr ríkissjóði, þar með
talin þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, sem ákveðin verður eins og í
dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með
talin þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Björgvins Þórðarsonar héraðsdómslögmanns,
150.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms
Reykjavíkur 6. júní 2012.
Með beiðni, dagsettri 30. maí 2012, hefur velferðarsvið Reykjavíkurborgar krafist þess að A, kt. [...], [...], [...], verði sviptur sjálfræði tímabundið í eitt ár á grundvelli a- og b-liða 4. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Um aðild er vísað til d-liðar 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga.
Varnaraðili andmælir kröfunni og krefst þess aðallega að henni verði synjað, en til vara að sjálfræðissviptingu verði markaður skemmri tími en krafist er.
Samkvæmt vottorði B geðlæknis, dagsettu 29. maí 2012, greinist varnaraðili með aðsóknargeðklofa og fíknisjúkdóm. Hann á að baki 40 innlagnir á geðdeild og tæplega 300 komur á göngudeildir, flestar á bráðamóttöku. Læknismeðferð hefur ekki borið tilætlaðan árangur og hefur vímuefnaneysla varnaraðila hamlað bata. Varnaraðili hefur neytt áfengis frá 13 ára aldri og vímuefna frá 19 ára aldri. Hann hefur komið átta sinnum á fíknigeðdeild síðan á haustmánuðum, en endurtekið útskrifað sig gegn læknisráði. Hann hefur svarað lyfjameðferð í innlögnum, en ekki tekið lyf sín að undanförnu og verið í neyslu örvandi lyfja. Hann er nú heimilislaus, en dvelur í gistiskýli eða fær að gista hjá kunningjum. Kemur fram að varnaraðili sé með mikil geðrofseinkenni og líði verulega illa, en meðferðarheldni hans hafi verið afar léleg.
Þá liggur fyrir læknabréf C yfirlæknis, dagsett 29. maí 2012, þar sem kemur fram að nauðsynleg sé talið að varnaraðili verði sviptur sjálfræði í 12 mánuði svo að unnt verði að veita honum viðeigandi læknismeðferð við aðsóknargeðklofa og fjölefnafíkn, sem hann sé haldinn.
C gaf skýrslu fyrir dóminum. Hann kvað veikindi varnaraðila langvinn og hafi vímuefnaneysla hans hamlað læknismeðferð. Meðferðarheldni varnaraðila sé léleg. Þá hafi hann oft verið ógnandi og lent í átökum á geðdeild. Það sé samdóma álit lækna, sem komi að meðferð varnaraðila, að óhjákvæmilegt sé að svipta hann sjálfræði til að koma við viðeigandi læknismeðferð. Kvaðst vitnið telja að sjálfræðissvipting yrði að vara í minnst eitt ár til að bera árangur í því skyni. Þá kom fram hjá vitninu að varnaraðili hefði horfið af geðdeild síðastliðinn föstudag og ekki snúið til baka.
Varnaraðili talaði máli sínu fyrir dóminum. Hann kvaðst telja viðtöl sem geðlæknar hefðu átt við hann vera ófullnægjandi. Þá kvaðst hann reiðubúinn að samþykkja að vera sviptur sjálfræði í sex mánuði, með því skilyrði að hann yrði ekki þvingaður til að taka lyf. Hann kvaðst jafnframt reiðubúinn að þiggja aðstoð til að vinna úr sálfræðilegum vanda sínum, en ekki telja lyfjameðferð gera sér gagn.
Niðurstaða
Með framangreindu vottorði geðlæknisins B geðlæknis og vætti C geðlæknis fyrir dóminum, er sýnt fram á að varnaraðili er ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum í skilningi a- og b-liða 4. gr. lögræðislaga. Verður hann sviptur sjálfræði í eitt ár, sbr. 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga, til að tryggja megi að hann njóti viðeigandi læknismeðferðar.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs talsmanns varnaraðila, Björgvins Þorsteinssonar hdl., 75.300 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Varnaraðili, A, kt. [...], er sviptur sjálfræði í eitt ár.
Þóknun skipaðs talsmanns varnaraðila, Björgvins Þorsteinssonar hdl., 75.300 krónur, greiðist úr ríkissjóði.