Hæstiréttur íslands
Mál nr. 169/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Útivist
- Kæruheimild
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Mánudaginn 24. mars 2014. |
|
Nr. 169/2014.
|
North Atlantic Mining Associates ehf. (Sveinn Jónatansson hdl.) gegn Lífeyrissjóði starfsmanna sveitarfélaga (Eiríkur Gunnsteinsson hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Útivist. Kæruheimild. Frávísun máls frá Hæstarétti.
Við fyrirtöku beiðni L um gjaldþrotaskipti á búi N ehf. var ekki mætt af hálfu þess síðarnefnda. Brast N því heimild til kæru úrskurðar um gjaldþrotaskipti, sem upp var kveðinn í kjölfarið, og var málinu vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. mars 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 20. febrúar 2014 þar sem bú sóknaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og kröfu varnaraðila hafnað.
Varnaraðili kveðst ekki gera „athugasemd við það að áðurgreindum úrskurði verði hrundið.“
Skiptastjóri sóknaraðila tilkynnti með bréfi 14. mars 2014 að hann léti málið ekki til sín taka.
Sóknaraðili sótti ekki þing í héraði þegar mál þetta var tekið fyrir á dómþingi 13. febrúar 2014. Í framhaldi af því var málið tekið til úrskurðar og hinn kærði úrskurður kveðinn upp. Eins og greinir til dæmis í dómi Hæstaréttar 20. nóvember 2012 í máli nr. 660/2012 og dómi réttarins 17. ágúst 2012 í máli nr. 475/2012 hefur allt frá dómi Hæstaréttar 9. desember 1992 í máli nr. 427/1992, sem birtur er á blaðsíðu 2028 í dómasafni réttarins það ár, ítrekað verið slegið föstu í dómum réttarins að skýra verði kæruheimild í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 með hliðsjón af 4. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þannig verður úrskurður um gjaldþrotaskipti ekki kærður til Hæstaréttar ef útivist hefur orðið af hálfu skuldarans í héraði, heldur ber að leita endurskoðunar slíks úrskurðar með kröfu um endurupptöku máls fyrir héraðsdómi samkvæmt 1. mgr. 137. gr. síðarnefndu laganna. Af þeim sökum brestur heimild til kæru máls þessa og verður því án kröfu vísað frá Hæstarétti.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 20. febrúar 2014.
Málið var þingfest 16. janúar 2014 og tekið til úrskurðar 13. febrúar 2014.
Lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga, kt. [...], Sigtúni 42, Reykjavík, krefst þess í málinu að bú North Atlantic Mining Associates ehf., kt. [...], Flugvallarbraut 936, Keflavíkurflugvöllur, verði tekið til gjaldþrotaskipta.
Skiptabeiðandi kveðst eiga kröfu á hendur skuldara sem að viðbættum dráttarvöxtum og kostnaði nemi 215.791 krónu. Gögn í málinu sýna að árangurslaust fjárnám var gert hjá skuldara 5. desember 2013. Skiptabeiðni var móttekin af héraðsdómi 20. desember 2013.
Fyrirkall, ásamt skiptakröfu, var löglega birt fyrirsvarsmanni skuldara. Þegar krafa skiptabeiðanda var tekin fyrir á dómþingi 16. janúar 2014 var sótt þing af hálfu skuldara. Samkomulag var gert með aðilum um að fresta meðferð málsins, sbr. 3. mgr. 70. gr. laga nr. 21/1991. Þegar krafa skiptabeiðanda var á ný tekin fyrir á dómþingi 13. febrúar 2014 var þing ekki sótt af hálfu skuldara. Það ber skv. 2. mgr. 70. gr. laga nr. 21/1991 að túlka þannig, að skuldari viðurkenni fullyrðingu skiptabeiðanda um að hann standi í skuld við skiptabeiðanda sem hann sé ófær um að standa skil á. Því telst fullnægt skilyrðum 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 til að verða við kröfu skiptabeiðanda og er því bú skuldarans tekið til gjaldþrotaskipta.
Úrskurðurinn er kveðinn upp af Ernu Margréti Þórðardóttur, aðstoðarmanni dómara.
ÚRSKURÐARORÐ:
Bú North Atlantic Mining Associates ehf., kt. [...], er tekið til gjaldþrotaskipta.