Hæstiréttur íslands

Mál nr. 13/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Hæfi dómara


Miðvikudaginn 24

 

Miðvikudaginn 24. janúar 2007.

Nr. 13/2007.

M

(Magnús Björn Brynjólfsson hdl.)

gegn

K

(enginn)

 

Kærumál. Dómari. Hæfi.

Héraðsdómari í máli, sem K hafði höfðað gegn M, var ekki talinn vanhæfur til að fara með málið í ljósi skyldleika við M eða af öðrum ástæðum, sbr. d. og g. liði 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kröfu M um að dómarinn viki sæti í málinu var því hafnað. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hjördís Hákonardóttir og Hrafn Bragason.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. desember 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. janúar 2007. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. desember 2006, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari víki sæti í máli, sem varnaraðili hefur höfðað gegn sóknaraðila. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að víkja sæti í málinu. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Aðilar gengu í hjónaband 4. ágúst 1984 og höfðu þá verið í sambúð í átta ár. Þau eiga saman þrjú börn. Sóknaraðili sótti um skilnað að borði og sæng 16. september 2005. Ágreiningur varð um fjárskipti. Náðu þau sáttum í maí 2006 um annað en skiptingu áunninna lífeyrisréttinda og var þeim ágreiningi vísað til héraðsdóms. Það mál var þingfest 27. júní 2006. Varnaraðili höfðar málið aðallega til greiðslu á 10.831.527 krónum ásamt dráttarvöxtum frá 15. maí 2006 til greiðsludags, en til vara lægri fjárhæðar að mati dómsins. Sóknaraðili krefst sýknu, en til vara lækkunar á kröfum. Í þinghaldi 11. desember sama ár lagði sóknaraðili fram bókun þar sem þess var krafist að dómarinn viki sæti. Rökstyður sóknaraðili kröfuna annars vegar með því að skyldleiki sé með sér og dómaranum „í beinan legg“ með því að afi dómarans og afi sóknaraðila hafi verið bræður, og hins vegar með því að bróðir dómarans gegni stöðu lækningaforstjóra á höfuðborgarsvæðinu og sé því yfirmaður sinn, en hann kveðst vera heimilislæknir á Heilsugæslunni í Kópavogi. Varnaraðili mótmælti kröfunni og vísaði til þess að skyldleiki sóknaraðila og dómarans félli ekki undir ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1991, auk þess sem það myndi tefja málið ef dómari segði sig frá því.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. desember 2006.

Það mun rétt vera að stefndi og dómari málsins eru skyldir í þriðja lið til hliðar, en ekki í beinan legg eins og fram kemur í kröfu stefnda.

Ekki er fallist á að dómari sé vanhæfur að lögum vegna þessa skyldleika sbr. 1. mgr. 5. gr. l. nr. 91/1991. 

Dómari og stefndi í máli þessu þekkjast ekki persónulega og var dómara ekki kunnugt um þennan skyldleika fyrr en krafan kom fram og verður ekki talið að önnur atvik, sbr. g. lið 5. gr. eml. séu fyrir hendi sem valdi vanhæfi dómara.

Kröfunni er því hafnað.

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kröfu stefnda um að dómari víki sæti er hafnað.