Hæstiréttur íslands

Mál nr. 272/2007


Lykilorð

  • Líkamsmeiðing af gáleysi
  • Aðfinnslur


         

Fimmtudaginn 1. nóvember 2007.

Nr. 272/2007.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir, vararíkissaksóknari)

gegn

X og

(Guðjón Ægir Sigurjónsson hrl.)

Y

(Guðmundur Ágústsson hdl.)

 

Líkamsmeiðing af gáleysi. Aðfinnslur.

 

X og Y voru ákærðir fyrir að hafa veist að A og rifið allhrottalega í kynfæri hans. Framburður C var ekki samhljóða um það hvar eða hvernig atlagan hefði farið fram né hvor þeirra X eða Y hefði veitt honum þá ákverka sem í ákæru greinir. X og Y neituðu báðir sök en báru báðir við að hafa munað lítið eftir atburðinum sökum ölvunar. Annar vitnisburður en frá A lá ekki fyrir í málinu. Að öllu virtu og með vísan til 45. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála þótti ósannað gegn neitun X og Y að þeir hefðu gerst sekir um verknaðinn. X og Y voru því sýknaðir af kröfum ákæruvaldsins og með vísan til 3. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 var bótakröfu vísað frá héraðsdómi. Í niðurstöðu sinni fann Hæstiréttur að þeim drætti sem orðið hafði á málinu í héraði, en frá því málið var þingfest liðu 14 mánuðir þar til aðalmeðferð þess fór fram. Þessi dráttur þótti ekki verða réttlættur og var talinn brjóta í bága við 1. mgr. 133. gr. laga nr. 19/1999 og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Einnig þótti aðfinnsluvert að látið var við það sitja að taka skýrslu af A í gegnum síma, þrátt fyrir að hann væri eina vitnið í málinu og ljóst að mikilvægt væri vegna sönnunargildis framburðar hans að hann kæmi fyrir dóminn í ljósi meginreglu 1. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 10. apríl 2007 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess nú að héraðsdómur verði staðfestur um annað en fjárhæð bóta úr hendi ákærðu til A, en krafist sé að þær verði 1.500.000 krónur með vöxtum eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi.

Ákærðu krefjast aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð.

Í dagbók togarans [...] var skráð 5. október 2004 eftir frásögn A að hann hafi verið að fara upp stiga af neðsta gangi skipsins þegar ákærðu hafi ráðist á hann og rifið allhrottalega í kynfæri hans. Eftir þetta hafi hann verið marinn á kynfærum, átt erfitt með þvaglát og verið með mikla verki í pungnum. A skýrði lögreglu frá atburðinum 24. nóvember sama ár og var þá haft eftir honum að hann hafi, þegar skipið var í höfn á Fáskrúðsfirði, verið að ganga upp landganginn þegar ákærðu hafi í galsa veist að honum með því að annar hafi gripið í fótinn á honum, en hinn um punginn og dregið hann niður landganginn. Í skýrslu hjá lögreglu 21. janúar 2005 kvað hann ákærða Y hafa gripið um buxnastreng hans þegar hann var á leið upp stiga á miðgangi skipsins, en ákærða X gripið í pung hans og þeir togað hann niður stigann. Hann hafi þá strax fundið sársauka í pungnum, sem hafi bólgnað upp. Eftir þetta hafi skipið látið úr höfn, en hann mest legið fyrir uns skipið kom fjórum til fimm dögum síðar til hafnar í Vestmannaeyjum, en þaðan hafi hann farið með Herjólfi til meginlandsins og flogið samdægurs frá Reykjavík til Akureyrar. Þegar þangað kom hafi hann leitað til læknis. Skýrsla var tekin í gegnum síma af A við aðalmeðferð málsins í héraði og greindi hann þá meðal annars frá því að annar ákærðu eða báðir hafi hlaupið á eftir honum upp stigann, annar þeirra hafi gripið um punginn á honum og hann henst niður tröppurnar en hinn verið við hlið stigans og gripið í buxnastreng hans. Nánar aðspurður um þetta sagði hann að annar ákærðu en ekki báðir hafi hlaupið á eftir sér upp stigann, annar gripið um punginn á honum og hann dottið, en hinn gripið í buxnastrenginn þegar hann datt. Hann gat ekki borið um hvaða þátt hvor þeirra um sig hafi átt í þessari atburðarás.

Eins og ráðið verður af framansögðu hefur framburður A hvorki verið samhljóða um það hvar eða hvernig atlagan, sem hann kveðst hafa orðið fyrir af hálfu ákærðu, á að hafa átt sér stað né hvor þeirra hafi gripið um pung hans og veitt honum þá áverka, sem í ákæru greinir. Læknisvottorð styður heldur ekki þann framburð A að hann hafi verið marinn á kynfærum í kjölfarið. Í gögnum málsins kemur fram að hann hafði átt við vandamál að stríða í þvagfærum um nokkurra ára skeið og hafði læknir sá sem annaðist hann ráðlagt honum að leita strax til læknis ef einkenni um blöðrutæmingartruflanir kæmu fram. Hann leitaði hins vegar ekki læknisaðstoðar fyrr en hann kom til Akureyrar fjórum dögum eftir ætlaða árás. Ákærðu neita báðir sök en segjast muna lítið sem ekkert eftir atburðum þetta kvöld sökum mikillar ölvunar og öðrum vitnum en A er ekki til að dreifa. Þegar framangreint er virt og með vísan til 45. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála er ósannað gegn neitun ákærðu að þeir hafi gerst sekir um þann verknað sem þeim er gefinn að sök. Ber því að sýkna þá af kröfum ákæruvaldsins.

          Eftir þessum málsúrslitum og með vísan til 3. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 verður bótakröfu vísað frá héraðsdómi.

          Allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, eins og nánar greinir í dómsorði. Hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málsvarnarlauna skipaðra verjenda ákærðu.

          Héraðsdómari þingfesti mál þetta 7. október 2005 og frestaði því til aðalmeðferðar sem ákveðin var 15. nóvember sama ár. Hún fór fyrst fram 23. janúar 2007, eða rúmum 14 mánuðum síðar en ráðgert var. Þessi dráttur hefur ekki verið réttlættur og brýtur í bága við meginreglu 1. mgr. 133. gr. laga nr. 19/1991 og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Þá er það einnig aðfinnsluvert að látið var við það sitja að taka skýrslu í gegnum síma af A, þrátt fyrir að hann væri eina vitnið í málinu og ljóst að mikilvægt væri vegna sönnunargildis framburðar hans að hann kæmi fyrir dóminn í ljósi meginreglu 1. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991 um milliliðalausa sönnunarfærslu.

Dómsorð:

Ákærðu, X og Y, eru sýknir af kröfum ákæruvaldsins.

Skaðabótakröfu A er vísað frá héraðsdómi.

Allur sakarkostnaður málsins í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærðu og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola eins og ákveðið var í héraðsdómi, svo og málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærðu fyrir Hæstarétti, Guðjóns Ægis Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns og Guðmundar Ágústssonar  héraðsdómslögmanns, 311.250 krónur til hvors um sig.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 16. mars 2007.

             Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð 23. janúar sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 15. ágúst 2005 á hendur X, kt. [...], [heimilisfang], Selfossi, og Y, kt. [...], [heimilisfang], Vestmannaeyjum, fyrir líkamsmeiðingar af gáleysi, þriðjudagskvöldið 5. október 2004, um borð í V  er skipið var í höfn á Fáskrúðsfirði, með því að hafa í sameiningu veist að A, þar sem hann var á leið upp stiga á svefngangi skipsins, í næstefsta þrepi, ákærði Y gripið í buxnastreng Aog ákærði X gripið um pung hans, ákærðu þvínæst í sameiningu togað í A svo að hann datt fram fyrir sig og dregið hann þannig niður stigann. Við þetta hlaut A varanlega skerðingu á blöðruvöðvastarfsemi og varð að gangast undir aðgerð á þvagfærum þar sem þvaglegg var komið fyrir í blöðrunni til að hann gæti haft þvaglát.

             Ákæruvaldið telur brot ákærðu varða við 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 82/1998, og krefst þess að ákærðu verði dæmdir til refsingar.

             Af hálfu A, kt. [...], er krafist skaðabóta að fjárhæð 1.799.200 króna, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 5. október 2004 en síðan dráttarvaxta samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.  

             Valgerður Dís Valdimarsdóttir hdl., var skipuð réttargæslumaður brotaþola og krafðist hún þóknunar fyrir kröfugerð og málflutning fyrir dóminum.

             Af hálfu beggja ákærðu er krafist sýknu af refsi- og bótakröfu, en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa og að bótakröfu verði vísað frá dómi. Þá er þess krafist að málsvarnarlaun beggja verjenda á rannsóknarstigi og fyrir dómi og ferðakostnaður greiðist úr ríkissjóði.

 

Málsatvik og rannsóknargögn

             Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að kærandi hafi komið til lögreglu 24. nóvember 2004, til að gefa skýrslu vegna atviks er átti sér stað um borð í V, 5. október 2004. Lýsti kærandi atburðum þannig að hann hefði verið í áhöfn V, ásamt ákærðu X og Y.  Skipið hefði verið í höfn á Fáskrúðsfirði og hefði hann verið vinna um borð en ákærðu farið í land. Þegar ákærðu hefðu komið aftur til skips hefðu þeir verið orðnir talsvert ölvaðir og galsi verið í þeim. Kærandi kvaðst sjálfur hafa verið á bryggjunni og ætlað um borð í skipið og lagt af stað upp landganginn. Þá hafi ákærðu X og Y svifið að kæranda í galsa og annar þeirra gripið um löppina á honum en hinn gripið í punginn á honum. Þannig hefðu þeir dregið hann niður landganginn. Kvaðst kærandi hafa dofnað upp í pungnum en ekkert gert meira í því utan þess að atburðurinn hefði verið skráður í skipsdagbók. Sagði ákærði B hafa verið vitni að atburðinum. Í kjölfar þessa hafi skipið farið á sjó og kærandi með en fljótlega hafi honum farið að líða illa og hafi hann verið með öllu óvinnufær í sjóferðinni. Eftir að skipið lagði að landi kvaðst kærandi hafa leitað til læknis og hafi þá komið í ljós að hann var alvarlega skaddaður á þvagfærum. Fram kom hjá kæranda að hann hefði ekki viljað í fyrstu leggja fram kæru á hendur ákærðu en þegar í ljós hafi komið hversu alvarlegir áverkar kæranda voru hefði hann komið á lögreglustöðina 21. janúar 2005 til að leggja fram kæru á hendur ákærðu.

             Í skýrslu lögreglu af kæranda sem tekin var 21. janúar 2005 leiðrétti kærandi frásögn sína á þann veg að atburðurinn átti sér stað um borð í V. Þannig hefðu ákærðu dregið sig niður stiga eins og áður hafi verið lýst en stiginn hefði verið milli hæða í skipinu.  

             Í áverkavottorði, undirrituðu af Vali Þór Marteinssyni yfirlækni þvagfæraskurðlækninga FSA, dagsettu 21. febrúar 2005, segir að kærandi hafi komið á slysadeild FSA 9. október 2004 vegna einkenna frá ytri kynfærum og þvagfærum, eftir atvik er átti sér stað um borð í V 5. október 2004. Í áverkavottorðinu segir ennfremur að sami læknir hefði skoða kæranda 11. október, 13. október og 16. desember 2004. Hafi rannsóknir á kæranda staðfest verulega skerðingu á blöðruvöðvastarfsemi hans og hafi enginn sjálfkrafa bati orðið frá því hinn ætlaði áverki hafi átt sér stað. Horfur séu fremur slakar á bata en kærandi þurfi að losa þvag með Lofric legg nokkrum sinnum á dag. Bati í slíkum tilvikum komi yfirleitt fram á einhverjum vikum eða í versta falli mánuðum. Að 6 – 12 mánuðum liðnum frá hinum ætlaða áverka megi vart búast við neinum sjálfkrafa bata.

             Í læknisvottorði, undirrituðu af Vali Þór Marteinssyni yfirlækni þvagfæraskurðlækninga FSA, dagsettu 28. júní 2005, segir að Valur Þór hafi verið í sambandi við kæranda og hitt hann þann 19. maí 2005. Þá hafði engin sjálfkrafa breyting orðið til batnaðar hjá honum hvað varðaði blöðrustarfsemina og þvaglátin og hann hafi áfram þurft að tappa sig fimm sinnum á sólarhring með þvaglegg. Þá kemur fram í vottorðinu að engin möguleg meðferð sé þekkt þegar vottorðið sé ritað og því séu nánast engar líkur á því að ástandið batni nokkuð. Ástandið teljist því endanlegt eins og málum sé háttað á þeim forsendum sem þekktar voru þegar læknisvottorðið var ritað.

 

Framburður ákærðu og vitna fyrir dómi

             Fyrir dómi greindi ákærði X svo frá að umræddan dag hefði hann verið við drykkju og myndi ekkert eftir því sem honum er gefið að sök. Taldi ákærði að ef hann hefði viðhaft þá háttsemi sem í ákæru greinir, þá hefði hann munað eftir því, a.m.k. einhverju frá því þar sem um stórt atvik væri að ræða að hans mati og hann hefði ekki viljað vinna brotaþola nokkuð illt. Kvað ákærði að dagurinn hefði byrjað á því að hann hefði ásamt fleirum farið að borða í Essóskálanum upp úr hádegi og hefði drykkjan byrjað þar. Síðan hefði hann, við fleiri skipsverja, farið í ríkið, þar sem keypt hefði verið mikið magn af áfengi. Þaðan hefði hann farið í skipið og haldið áfram drykkju sinni í einum klefa skipsverja, ásamt fleirum. Það næsta sem hann muni er daginn eftir þegar skipið er komið út á sjó og hann vaknaði í klefanum sínum. Kvaðst ákærði ekki muna hvenær hann hefði farið yfir í klefann sinn eða hvernig það hefði borið að. Sagði ákærði sig aldrei áður hafa drukkið svo mikið að hann hefði ekki munað eftir gjörðum sínum enda kvaðst hann ekki vanur drykkjumaður. Þá taldi ákærði það illfært að ná í klof á manni sem stæði í næst efstu tröppunni í umræddum stiga, með því að standa á gólfinu, líkt og fram kemur í rannsóknargögnum. Kvað ákærði að í klefanum þar sem hann hafi verið við drykkju hafi verið um 4-6 skipsverjar. Ákærði kvaðst fyrst hafa heyrt af málinu þegar hann mætti á vaktina daginn eftir en þá hafi honum verið tjáð að brotaþoli myndi ekki mæta til vinnu en ákærði kvaðst hafa fengið nánari upplýsingar um málið hjá brotaþola sjálfum. Þá sagði ákærði að hann hafi verið samferða brotaþola með Herjólfi frá Vestmannaeyjum og á leiðinni hefði brotaþoli sagt honum dæmisögu af öðrum skipsverjum sem svipað var ástatt um og í því tilviki hefðu þeir samið um greiðslu til að afgreiða málið sín í milli. Kvað ákærði sig ekki hafa ástæðu til að ætla að brotaþoli væri að gera sig að blóraböggli en hefði samt fundist einkennilegt að brotaþoli hefði sagt sér þessa dæmisögu. Aðspurður um hvers vegna ákærði hefði ítrekað beðið brotaþola afsökunar, kvað ákærði það hafa verið vegna þess að hann vissi ekkert um málin nema af frásögn brotaþola.

             Ákærði Y skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði farið í Essóskálann til að fá sér að borða upp úr hádegi í umrætt sinn með þeim skipverjum sem það gerðu og byrjaði hann að drekka áfengi þar. Því næst hefðu þeir farið í sund og beðið eftir því að áfengisverslunin opnaði en hún hefði einungis verið opin milli 17 og 18. Kvað ákærði að þeim hefði verið vísað úr sundlauginni vegna ölvunar, skömmu eftir að þangað hefði verið komið. Að áfengiskaupum loknum hefði ákærði, ásamt hinum skipsverjunum, farið um borð í V. Kvaðst ákærði ekki muna eftir atvikum eftir að hann kom um borð í skipið vegna mikillar áfengisneyslu. Nánar aðspurður kvað ákærði sig hafa farið í sund eftir áfengiskaupin. Þá kvaðst ákærði muna eftir sér þar sem hann var inni í borðsal skipsins, þar sem hann kallar til brotaþola í gríni og segir „nú ætla ég að ríða þér“ en brotaþoli fer upp tröppurnar frammi á gangi skipsins og ákærði nær að grípa í buxnaskálmina á buxum brotaþola í gegnum rimlana á tröppunum. Annað kvað ákærði sig ekki muna frá þessu kvöldi, nema að skipverjar hefðu almennt verið ölvaðir. Kvaðst ákærði ekki hafa frétt af því hvað hafði komið fyrir brotaþola fyrr en daginn eftir og hafa fengið mikinn móral vegna þess. Ákærði kvað brotaþola hafa komið inn í klefann til sín daginn eftir atvikið en kvað brotaþola ekki hafa minnst einu orði á árásina fyrr en undir lok samtalsins, þar sem brotaþoli sagðist ekkert hafa viljað láta ákærðu líða illa yfir atvikinu ef hann jafnaði sig fljótt. Kvaðst ákærði hafa beðið brotaþola afsökunar á atvikinu og sagði brotaþola hafa verið skipsfélaga sinn í tæpt ár og hafi þeir verið ágætis félagar. Kvað ákærði sig ekki hafa ástæðu til að ætla að brotaþoli hefði verið að ljúga að sér, þegar hann skýrði sér frá atvikinu.

             Símaskýrsla var tekin af vitninu B fyrir dómi. Kvaðst vitnið ekki hafa séð hvað gerðist, þar sem það hafi verið statt í klefa sínum en vitnið kvaðst ekki hafa verið ölvaður umrætt kvöld. Kvaðst vitnið hafa heyrt læti frammi á gangi en kvaðst ekki hafa séð hverjir voru þar að verki, þar sem allir hafi verið farnir þegar hann hafi kíkt fram á gang. Taldi vitnið afar ólíklegt að um líkamsárás hafi verið að ræða og taldi að þarna hefði verið um óhapp að ræða, þar sem menn hefðu einungis verið að grínast í hver öðrum og engin illindi milli manna. Taldi vitnið sig alveg eins hafa getað orðið fyrir þessu, hefði hann verið frammi á gangi í umrætt sinn. Kvaðst vitnið hafa fengið lýsingu á því hvað hafði gerst frá brotaþola dagana eftir atvikið. Minnti vitnið að brotaþoli hefði sagt ákærðu hafa hangið í buxnaskálmunum á sér í umrætt sinn. Þá kvaðst vitnið aðspurt minnast þess að brotaþoli hafi kallað „slepptu mér, slepptu mér“ en því hafi virst það hafi verið á léttum nótum. Kvaðst vitnið ekki muna til þess að hafa heyrt eins og einhver væri að detta niður stiga, heldur hafi lætin verið frá mönnunum sjálfum.

             Þá var tekin símaskýrsla af kæranda fyrir dóminum. Skýrði vitnið svo frá að það hefði verið að koma inn frá því að hafa verið að vinna úti á dekki skipsins er skipsfélagar þess, ákærðu í málinu, hafi séð það. Hafi vitninu heyrst ákærðu vera að tala um að nú væri kominn tími til að ráðast á vitnið en vitnið hafi sagt þeim að það væri þreytt og það hafi verið við vinnu allan daginn. Ákærðu hafi samt hlaupið að vitninu en vitnið kvaðst hafa verið komið í næst efstu tröppu þegar ákærðu hafi náð að rífa í það en annar ákærðu hafi hlaupið á eftir því upp stigann og rifið í punginn á vitninu en hinn í buxnastrenginn. Kvaðst vitnið hafa farið eins og skopparakringla niður tröppurnar í kjölfarið. Kvaðst vitnið hafa eftir árásina farið upp í klefann sinn en verið hálf sljótt eftir aðfarirnar. Það hafi farið að sofa og vaknað daginn eftir með mikinn sársauka en þá hafi skipið verið komið út á sjó. Kvaðst vitnið hafa fengið sterk verkjalyf hjá stýrimanninum sem skráð hafi atvikið í skipsdagbók. Upp úr þessu kvaðst vitnið hafa fengið blöðru- og ristilslömun. Vitnið kvaðst hafa verið óvinnufært í skipsferðinni. Þá kvað vitnið engin illindi hafa verið milli sín og ákærðu en ákærðu hefðu verið mjög ölvaðir í umrætt sinn en vitnið kvaðst hafa verið alsgátt. Vitnið kvaðst hafa séð fleiri en ákærðu í klefa beint á móti eldhúsinu en aðrir skipsverjar hafi ekki skipt sér af árásinni. Kvaðst vitnið hafa verið öryrki frá því árásin hafi átt sér stað og ekki getað unnið nokkuð og verið á lyfjum. Þá neitaði vitnið að hafa sagt ákærða X dæmisögu á leið þeirra heim frá Vestmannaeyjum með Herjólfi og ýjað að því að vitnið vildi fá bætur með því skilyrði að ákærði myndi sleppa við málsókn. Nánar aðspurt kvaðst vitnið áður hafa átt vandamál með þvagblöðruna vegna árásar og skurðaðgerðar en fullyrti að það hefði verið orðið fullfrískt áður en árásin átti sér stað. Þá kvaðst vitnið ekki hafa átt við andleg vandamál að stríða fyrir árásina, að neinu marki, en árásin hafi haft nokkur áhrif á andlega heilsu sína. Vitnið sagði ástæður þess að það hefði ekki lagt fram kæru fyrr en rúmum 3 mánuðum eftir atburðinn hafa verið þær að það hafi ætlað að sjá hversu alvarlegar afleiðingar árásin hefði í för með sér og það hefði ekki talið að árásin hefði verið gerð af neinni illgirni í sinn garð. Þá kvað vitnið sig hafa orðið fyrir verulegum tekjumissi vegna árásarinnar.

             Símaskýrsla var tekin af vitninu Vali Þór Marteinssyni, yfirlækni þvagfæraskurðlækninga FSA, fyrir dóminum. Staðfesti vitnið að hafa gert læknisvottorð, dagsett 21. febrúar 2005, sem liggur frammi í málinu. Kvað vitnið að ekki væri ólíklegt að engir ytri áverkar kæmu fram á ytri kynfærum karla við togáverka, þegar viðkomandi væri í buxum þegar árásin ætti sér stað. Þrátt fyrir að engir ytri áverkar hefðu verið merkjanlegir á ytri kynfærum brotaþola, væri það ekki merki um að árásin hefði ekki átt sér stað. Vitnið kvað allar rannsóknir sem gerðar hefðu verið á brotaþola í kjölfar hins ætlaða áverka benda til þess að þvagblaðran væri með öllu óstarfhæf. Kvaðst vitnið hafa fylgst með brotaþola nokkuð nákvæmlega í nokkur ár og hafði ástand hans aldrei verið neitt líkt því sem það hefði verið eftir árásina. Þá sagði vitnið fyrri þvaglátstregðu sjúklings geta haft þau áhrif að minna þyrfti til, til að skaða sjúkling þannig að síðari þvaglátsvandamál yrðu verri en ella. Hvað brotaþola varðar kvað vitnið það afar ólíklegt að brotaþoli kæmi til með að ná bata miðað við þá þekkingu sem nú væri til á meðhöndlun slíkra tilvika og ástandið væri því endanlegt miðað við núverandi aðstæður. Aðspurt kvað vitnið tímann hafa skipt miklu máli varðandi mögulegan bata, í tilviki brotaþola, og taldi vitnið það líklegt að núverandi ástand hefði ekki verið niðurstaðan ef brotaþoli hefði komist undir læknishendur fljótlega eftir árásina. Nánar aðspurt kvað vitnið brotaþola hafa sögu um vandamál vegna þvagtregðu og tæmingar á þvagblöðru en það hafi ekki verið í líkingu við þá stöðu sem nú sé hjá brotaþola, þar sem nú sé blaðran með öllu óstarfhæf vegna blöðruvöðvalömunar. Vandamál tengd þvagblöðru brotaþola fyrir árásina hafi verið vel mögulegt að halda í skefjum, svo sé hins vegar ekki fyrir að fara nú þar sem, eins og áður segir, um blöðruvöðvalömun sé að ræða og brotaþoli þurfi ætíð að tæma þvagblöðruna með þvaglegg. 

 

Niðurstaða

Ákærðu neita ekki sök í málinu, heldur bera þeir fyrir sig algeru minnisleysi vegna ölvunarástands. Ákærði X  kveðst vera viss um að ef hann hefði framið verknaðinn hefði hann líklegast munað eftir honum þrátt fyrir mikla ölvun og telur á þeim forsendum að hann hafi ekki viðhaft þá háttsemi sem honum er gefið að sök í ákæru. Ákærði Y hefur viðurkennt að hann muni eftir að hafa veist að kæranda og gripið í skálmina á buxunum hans þegar kærandi reyndi að forða sér upp stiga milli hæða í skipinu. Öðru kveðst ákærði Y ekki muna eftir frá kvöldinu.

Kærandi málsins hefur frá upphafi verið samkvæmur sjálfum sér í frásögn af atburðinum, sem hefur verið stöðug og hefur komið fram að hann hafi verið allsgáður umrætt kvöld. Hafði kærandi verið skipsfélagi ákærðu í a.m.k. ár þegar árásin átti sér stað og þekkti hann ákærðu því vel. Þá hefur komið fram í vitnisburði kæranda og ákærðu að ekki hafi verið um nein illindi milli þeirra að ræða og ekki verður af atvikum málsins og framburðum aðila málsins ályktað að ásetningur hafi staðið til að valda kæranda skaða. Ennfremur hafa báðir ákærðu borið fyrir dómi að þeir hafi ekki ástæðu til að ætla að kærandi sé að ekki að fara með rétt mál í frásögn sinni af atburðinum. Þá hefur ekkert komið fram í málinu sem bendir til þess að aðrir en ákærðu hafi verið að verki í umrætt sinn. Kærandi hefur ekki getað sagt til um hvor ákærðu hafi gert hvað í árásinni að öðru leyti en því að annar ákærðu hafi gripið í punginn á sér og hinn í buxnastrenginn og hafi þeir í sameiningu dregið sig niður stigann með fyrrgreindum afleiðingum. Engin vitni voru að árásinni sem slíkri en vitnið B kveðst hafa heyrt læti frá stigaopinu skammt frá svefnklefa hans en kvað alla hafa verið farna þegar hann hafi athugað með málið. Verður að telja, þannig að yfir allan skynsamlegan vafa sé hafið, að ákærðu hafi gerst sekir um háttsemi þá sem þeim er gefið að sök í ákæruskjali. Kemur það ekki að sök þó óljóst þyki hvor hafi gert hvað, þar sem háttsemi þeirra í verknaðinum þykir svo samofin að hending ein þykir hafa ráðið því hvar hvor ákærðu greip í kæranda.

Ákæruvaldið telur háttsemi ákærðu varða við 219. gr. hegningarlaga nr. 19/1940. Í 219. gr. hegningarlaga segir að ef tjón á líkama eða heilbrigði sé slíkt, sem í 218. gr. sömu laga greinir, sé heimilt að beita 219. gr. laganna. Í málinu liggur fyrir að áverkar brotaþola eru slíkir, samkvæmt læknisvottorði dagsettu 21. febrúar 2005, að telja verður lagaáskilnað 219. gr. laganna uppfylltan.

Ákærði, X, hefur ekki áður gerst sekur um refsivert brot gegn hegningarlögum, svo kunnugt sé. Ákærði er fæddur [...] 1986 og var átján ára að aldri þegar brotið var framið og þykir því rétt að líta til 4. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga við ákvörðun refsingar.

Þykir refsing ákærða vera hæfilega ákveðin fangelsi í tvo mánuði en þar sem ákærði er ungur að aldri og hefur ekki áður sætt refsingu fyrir brot samkvæmt XXIII. kafla almennra hegningarlaga, þykir rétt að fresta fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði, [...], var dæmdur í 45 daga fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, með dómi Héraðsdóms Suðurlands uppkveðnum þann 24. mars 2000, fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. og 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Þann 5. október 2004, eða rúmum tveimur árum eftir að sú refsing féll niður, gerðist hann sekur um það brot sem honum er gefið að sök í ákæru. Ber því að ákveða honum refsingu með vísan til 71. gr. almennra hegningarlaga. Þykir refsing hans því hæfilega ákveðin fangelsi í þrjá mánuði en rétt þykir að skilorðsbinda refsinguna í tvö ár, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. 

 

Af hálfu kæranda var þess upphaflega krafist að ákærðu verði gert að greiða kæranda skaðabætur, in solidum, og er krafan sundurliðuð svo:

Þjáningabætur í 160 daga x kr. 1870,-....................299.200 krónur,

Miskabætur .........................................................1.500.000 krónur,

Samtals ................................................................1.799.200 krónur.

Þá er krafist vaxta skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 5. október 2004 en síðan dráttarvaxta skv.  9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga. Við aðalmeðferð málsins var fallið frá kröfu um þjáningarbætur af hálfu brotaþola.

Krafa um miskabætur er rökstudd með vísan til þess hversu ófyrirleitin aðför ákærðu var að brotaþola sem var í rólegheitum við störf sín um borð í skipinu, þegar hún átti sér stað. Ákærðu hafi gripið um kynfæri brotaþola og dregið hann niður stiga. Vegna þessa hafi brotaþoli meiðst mjög illa á viðkvæmum stöðum, sbr. læknisvottorð dagsett 21. febrúar 2005, og þjáist nú af algerri blöðrulömun og getuleysi. Þá segir enn fremur að yfirgnæfandi líkur séu til þess að brotaþoli muni aldrei komast yfir afleiðingar líkamsárásarinnar. Einnig er vísað til þess að hinar alvarlegu afleiðingar árásarinnar hafi valdið brotaþola mjög miklum skaða og vanlíðan. Ljóst þyki að brotaþoli hafi orðið fyrir andlegu og líkamlegu áfalli við árásina og hafi honum liðið mjög illa síðan. 

Árás ákærðu olli kæranda líkamlegu tjóni eins og framan greinir og er til þess fallin að valda honum andlegum þjáningum, og eru ákærðu því bótaskyldir in solidum samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Fyrir liggur að afleiðingar árásar ákærðu á kæranda kynnu að hafa orðið um mun minni hefði kærandi komist strax undir læknishendur eða a.m.k. innan fárra klukkustunda eftir árásina en kærandi leitaði ekki til læknis fyrr en fjórum sólarhringum eftir árásina. Miskabætur þykja með hliðsjón af áverkum kæranda og aðstæðum öllum hæfilega ákveðnar 800.000 krónur.

 

Með vísan til 165. gr. sbr. 164. gr. laga nr. 19/1991 ber að dæma ákærðu til greiðslu sakarkostnaðar. Sakarkostnaður ákærða, X, er 256.716 krónur. Þar af er lækniskostnaður af ½ hluta eða 16.250 krónur, málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Guðjóns Ægis Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 150.000.- krónur, bæði á rannsóknarstigi og við aðalmeðferð málsins og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Þá verður ákærði dæmdur til að greiða helming þóknunar skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Valgerðar Dísar Valdimarsdóttur héraðsdómslögmanns, eða samtals 86.466 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og 4.000 krónur í ferðakostnað en hún mætti einu sinni fyrir dómi og reifaði sjónarmið skjólstæðings síns um framkomna bótakröfu.

  Sakarkostnaður ákærða, Y, er 272.716 krónur. Þar af er lækniskostnaður af ½ hluta eða 16.250 krónur, málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Guðmundar Ágústssonar héraðsdómslögmanns, samtals 166.000 krónur, bæði á rannsóknarstigi og við aðalmeðferð málsins og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Þá verður ákærði dæmdur til að greiða helming þóknunar skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Valgerðar Dísar Valdimarsdóttur héraðsdómslögmanns, eða samtals 86.466 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og 4.000 krónur í ferðakostnað en hún mætti einu sinni fyrir dómi og reifaði sjónarmið skjólstæðings síns um framkomna bótakröfu.

 

Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður flutti málið af hálfu ákæruvaldsins.

Hjörtur O. Aðalsteinsson, dómstjóri, kveður upp dóm þennan en dómsuppsaga hefur dregist  vegna embættisanna dómstjórans.

D ó m s o r ð

Ákærði, X, sæti fangelsi í tvo mánuði. Fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 7. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði 256.716 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Guðjóns Ægis Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns 150.000 krónur, lækniskostnað samtals kr. 16.250 krónur og helming þóknunar skipaðs réttargæslumanns brotaþola Valgerðar Dísar Valdimarsdóttur héraðsdómslögmanns, samtals 86.466 krónur auk ferðakostnaðar hennar 4.000 krónur.

Ákærði, Y, sæti fangelsi í þrjá mánuði. Fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 7. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði 272.716 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun og ferðakostnað skipaðs verjanda síns Guðmundar Ágústssonar héraðsdómslögmanns 166.000 krónur, lækniskostnað samtals kr. 16.250 krónur og helming þóknunar skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Valgerðar Dísar Valdimarsdóttur héraðsdómslögmanns samtals 86.466 krónur auk ferðakostnaðar hennar 4.000 krónur.

Ákærðu skulu greiða A, kt. [...], 800.000 krónur in solidum í skaðabætur, ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. október 2004 til dómsuppsögu en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags, samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001.