Hæstiréttur íslands
Mál nr. 298/2015
Lykilorð
- Gjaldþrotaskipti
- Riftun
- Gjöf
- Óvenjulegur greiðslueyrir
- Skuldajöfnuður
- Skaðabætur
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. apríl 2015. Endanlegar dómkröfur hans fyrir Hæstarétti eru þær að rift verði eftirtöldum ráðstöfunum Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., samtals að fjárhæð 12.952.380 krónur: Gjöf með skuldajöfnuði 30. apríl 2010 að fjárhæð 135.000 krónur, ráðstöfun 17. maí sama ár að fjárhæð 26.700 krónur, greiðsla með skuldajöfnuði 20. maí sama ár að fjárhæð 1.602.142 krónur, gjöf með skuldajöfnuði 20. maí sama ár að fjárhæð 9.397 krónur, ráðstöfun 3. júní sama ár að fjárhæð 100.000 krónur, ráðstöfun 9. júní sama ár að fjárhæð 750.000 krónur, ráðstöfun 9. júní sama ár að fjárhæð 200.000 krónur, ráðstöfun 23. júní sama ár að fjárhæð 2.555.207 krónur, ráðstöfun 28. júní sama ár að fjárhæð 302.535 krónur, ráðstöfun með skuldajöfnuði 1. júlí sama ár að fjárhæð 47.891 króna, ráðstöfun með skuldajöfnuði 1. júlí sama ár að fjárhæð 225.900 krónur, ráðstöfun 19. júlí sama ár að fjárhæð 2.833.670 krónur, ráðstöfun 18. ágúst sama ár að fjárhæð 296.180 krónur, ráðstöfun 2. september sama ár að fjárhæð 42.514 krónur, ráðstöfun 10. september sama ár að fjárhæð 48.415 krónur, ráðstöfun 13. september sama ár að fjárhæð 323.141 króna, ráðstöfun 16. september sama ár að fjárhæð 843.360 krónur, ráðstöfun 17. september sama ár að fjárhæð 975.000 krónur og ráðstöfun með skuldajöfnuði 30. september sama ár að fjárhæð 1.635.328 krónur.
Þá krefst áfrýjandi þess að stefnda, K.B. Umbúðum ehf., verði gert að greiða sér 12.952.380 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. maí 2011 til greiðsludags. Einnig krefst hann þess að stefndu, Sigurði L. Sævarssyni og Jóni Snorra Snorrasyni, verði óskipt gert að greiða sér 5.814.454 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 26. maí 2011 til greiðsludags. Loks krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti óskipt úr hendi stefndu.
Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Svo sem rakið er í hinum áfrýjaða dómi var bú áfrýjanda, sem þá hét Sigurplast ehf., tekið til gjaldþrotaskipta 30. september 2010 og var frestdagur 27. september sama mánaðar. Skiptastjóri höfðaði mál þetta 8. desember 2011 til riftunar á grundvelli XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. á tuttugu og sjö nánar tilgreindum ráðstöfunum sem fram fóru á síðustu sex mánuðunum fyrir gjaldþrotið. Þá gerði áfrýjandi skaðabótakröfu á hendur stefnda K.B. Umbúðum ehf., stefnda Sigurði L. Sævarssyni, sem var stjórnarmaður og framkvæmdastjóri Sigurplasts ehf. fram að upphafi gjaldþrotaskipta en jafnframt einn eigandi hlutafjár í stefnda K.B. Umbúðum ehf. á sama tíma og stefnda Jóni Snorra Snorrasyni, sem var stjórnarformaður Sigurplasts ehf. á sama tíma. Í hinum áfrýjaða dómi voru stefndu sýknaðir af öllum kröfum áfrýjanda. Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi breytt kröfugerð sinni með framangreindum hætti og standa nú eftir 19 kröfuliðir þar sem krafist er riftunar. Þá hefur áfrýjandi lækkað fjárkröfur sínar.
II
Hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp 28. janúar 2015. Málinu var síðan áfrýjað 22. apríl 2015. Sameiginlegum gagnaöflunarfresti fyrir Hæstarétti lauk 12. ágúst sama ár og málinu frestað samdægurs til flutnings. Hinn 19. febrúar og 18. mars 2015 lagði áfrýjandi fram beiðnir um að dómkvaddur yrði matsmaður til þess að meta nánar tiltekin atriði sem lutu meðal annars að gjaldfærni Sigurplasts ehf. á árinu 2010 og verðlagningu á vörum í viðskiptum málsaðila á síðustu sex mánuðum fyrir gjaldþrotið. Stefndu í máli þessu, sem voru matsþolar, mótmæltu því að matsbeiðnirnar næðu fram að ganga. Gengu úrskurðir vegna beggja matsbeiðna í Héraðsdómi Reykjavíkur 5. júní 2015 sem heimilaði dómkvaðningu matsmanna. Staðfesti Hæstiréttur þá niðurstöðu með dómum sínum 24. ágúst 2015 í málum nr. 431/2015 og 432/2015. Var matsmaður síðan dómkvaddur 30. september 2015. Skilaði hann matsgerðum 15. og 19. janúar 2016 og sendi lögmaður áfrýjanda Hæstarétti þær með bréfi 21. janúar sama mánaðar. Við munnlegan flutning málsins fyrir réttinum 26. janúar 2016 mótmælti lögmaður stefndu því að þær fengju komist að í málinu. Ekki eru uppfyllt skilyrði 1. mgr. 160. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til framlagningar umræddra matsgerða. Koma þær því ekki til álita við úrlausn þess.
III
Við munnlegan flutning málsins hefur áfrýjandi teflt fram þeirri nýju málsástæðu að ráðstöfun sem fram fór með skuldajöfnuði 30. september 2010 verði rift á grundvelli 139. gr. laga nr. 21/1991. Sú málsástæða fær ekki komist að í málinu, vegna skilyrða 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991.
IV
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða hans að ekki standi lagaskilyrði til þess, sbr. 131. gr., 134. gr. og 136. gr., sbr. 100. gr. laga nr. 21/1991, að rifta þeim ráðstöfunum sem fram fóru 30. apríl, 17. og 20. maí, 3., 9., 23. og 28. júní, 1. og 19. júlí og 18. ágúst 2010 en riftunarkröfur áfrýjanda byggja á tilvitnuðum ákvæðum 131. gr. og 134. gr. og þá ýmist báðum eða stökum ákvæðum í einstökum tilvikum, sbr. 100. gr. og 136. gr. vegna þeirra ráðstafana sem fram fóru 30. apríl, 20. maí og 1. júlí 2010. Hvað varðar skilyrðið til beitingar riftunarreglu 141. gr. sömu laga er til þess að líta að héraðsdómur, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmanni, komst að þeirri niðurstöðu, sem jafnframt samræmist matsgerð 12. febrúar 2014, að stjórnendur stefnda K.B. Umbúða ehf., hafi ekki mátt vera grandsamir um ógjaldfærni Sigurplasts ehf. fyrr en Arion banki hf. hafi krafið félagið um greiðslu gengistryggðs láns með bréfi 30. ágúst 2010. Því mati hefur ekki verið hnekkt og af því leiðir að skilyrði 141. gr. laganna um grandsemi um ógjaldfærni er ekki uppfyllt fram að því tímamarki og kemur þegar af þeirri ástæðu ekki til álita að þeirri riftunarreglu verði beitt um framangreindar ráðstafanir.
Þær sex ráðstafanir sem fram fóru eftir umrætt tímamark áttu sér stað á tímabilinu frá 2. til 30. september 2010 en síðastgreindan dag voru liðnir þrír dagar frá því að stjórnendur Sigurplasts ehf. höfðu beðist gjaldþrotaskipta. Í öllum tilvikum nema einu skiptu vörur um hendur gegn greiðslu peninga. Með síðustu ráðstöfuninni sem fram fór 30. september 2010 greiddi Sigurplast ehf. fyrir vöruúttekt 15. september sama ár með því að skuldajafna kröfu vegna lagerþjónustu mánuðina janúar til september 2010. Með vísan til þess hvernig viðskiptasambandi aðilanna var háttað og nánar er lýst í hinum áfrýjaða dómi, sem og forsendna dómsins að öðru leyti verður hvorki á það fallist að í umræddum ráðastöfunum hafi falist gjöf í skilningi 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 né eftir atvikum að þær hafi verið inntar af hendi með óvenjulegum greiðslueyri, sbr. 1. mgr. 134. gr. sömu laga. Af sömu ástæðum geta umræddar ráðstafanir ekki skoðast ótilhlýðilegar í skilningi 141. gr. laganna. Stendur það mat héraðsdóms jafnframt óhaggað að eignir Sigurplasts ehf. hafi ekki sannanlega rýrnað vegna þeirra viðskipta sem um ræðir og bjuggu að baki þeim ráðstöfunum sem krafist er riftunar á. Að auki hefur áfrýjandi því ekki sýnt fram á það að eignir þrotamannsins hafi ekki verið til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða umræddar ráðstafanir leitt til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, sbr. 141. gr. laga nr. 21/1991.
Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur. Áfrýjandi greiði stefndu, hverjum fyrir sig, málskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Þrotabú Splasts ehf., greiði stefndu, K.B. Umbúðum ehf., Sigurði L. Sævarssyni og Jóni Snorra Snorrasyni, hverjum fyrir sig, 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. janúar 2015.
Mál þetta, sem var dómtekið 9. desember sl., var höfðað 8. desember 2011.
Stefnandi er þrotabú Splasts ehf. (áður Sigurplast ehf.), Borgartúni 26 í Reykjavík.
Stefndu eru K.B. Umbúðir ehf., Barrholti 33 í Mosfellsbæ, Sigurður L. Sævarsson, Suðurmýri 4 á Seltjarnarnesi og Jón Snorri Snorrason, Suðurhlíð 38c í Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að rift verði með dómi eftirfarandi ráðstöfunum stefnanda (þá Sigurplast ehf.) til stefnda, K.B. Umbúða ehf., samtals að fjárhæð 15.959.518 krónur:
-
Ráðstöfun Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., þann 21. apríl 2010 að fjárhæð 158.175 krónur.
-
Ráðstöfun Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., þann 21. apríl 2010 að fjárhæð 135.033 krónur.
-
Ráðstöfun Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., þann 21. apríl 2010 að fjárhæð 413.918 krónur.
-
[...]
-
Ráðstöfun Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., þann 21. apríl 2010 að fjárhæð 739.383 krónur.
-
Ráðstöfun Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., þann 21. apríl 2010 að fjárhæð 51.233 krónur.
-
Ráðstöfun Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., þann 21. apríl 2010 að fjárhæð 162.675 krónur.
-
Ráðstöfun Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., þann 21. apríl 2010 að fjárhæð 26.408 krónur.
-
Gjöf Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., að fjárhæð 201.825 krónur með skuldajöfnuði þann 30. apríl 2010 að fjárhæð 2.500.299 krónur.
-
Ráðstöfun Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B Umbúða ehf., þann 17. maí 2010 að fjárhæð 65.886 krónur.
-
Greiðslu Sigurplasts ehf. á skuld við stefnda, K.B. Umbúðir ehf., að fjárhæð 1.602.142 krónur með skuldajöfnuði þann 20. maí 2010 að fjárhæð 2.000.000 króna.
-
Gjöf Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., að fjárhæð 60.599 krónur sem fólst í skuldajöfnuði þann 20. maí 2010 að fjárhæð 2.000.000 króna.
-
Ráðstöfun Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., þann 3. júní 2010 að fjárhæð 100.000 krónur.
-
Ráðstöfun Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., þann 9. júní 2010 að fjárhæð 750.000 krónur.
-
Ráðstöfun Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., þann 9. júní 2010 að fjárhæð 200.000 krónur.
-
Ráðstöfun Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., þann 23. júní 2010 að fjárhæð 2.734.503 krónur.
-
Ráðstöfun Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., þann 28. júní 2010 að fjárhæð 302.535 krónur.
-
Ráðstöfun Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., með skuldajöfnuði þann 1. júlí 2010 að fjárhæð 47.891 króna.
-
Ráðstöfun Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., með skuldajöfnuði þann 1. júlí 2010 að fjárhæð 225.900 krónur.
-
Ráðstöfun Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., þann 19. júlí 2010 að fjárhæð 2.833.670 krónur.
-
Ráðstöfun Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., þann 18. ágúst 2010 að fjárhæð 296.180 krónur.
-
Ráðstöfun Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., þann 2. september 2010 að fjárhæð 42.514 krónur.
-
Ráðstöfun Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., þann 10. september 2010 að fjárhæð 48.415 krónur.
-
Ráðstöfun Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., þann 13. september 2010 að fjárhæð 323.141 króna.
-
Ráðstöfun Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., þann 16. september 2010 að fjárhæð 843.360 krónur.
-
Ráðstöfun Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., þann 17. september 2010 að fjárhæð 1.958.804 krónur.
-
Ráðstöfun Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., með skuldajöfnuði þann 30. september 2010 að fjárhæð 1.635.328 krónur.
Þess er jafnframt krafist að stefnda, K.B. Umbúðum ehf., verði gert að greiða stefnanda 6.671.360 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. maí 2011 til greiðsludags. Þess er einnig krafist að öllum stefndu verði gert að greiða stefnanda óskipt (in solidum) 9.288.158 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. maí 2011 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu sameiginlega.
Stefndu kröfðust þess aðallega að málinu yrði vísað frá dómi en með úrskurði upp kveðnum 4. desember 2012 var frávísunarkröfunni hafnað.
Stefndu krefjast nú sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar.
I
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 30. september 2010 var bú Sigurplasts ehf. tekið til gjaldþrotaskipta og var Grímur Sigurðsson hrl. skipaður skiptastjóri búsins. Þann 30. október 2010 var nafni félagsins breytt í Splast ehf. Frestdagur við skiptin er 27. september 2010, en þá barst dóminum beiðni fyrirsvarsmanna félagsins um að það yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Í beiðninni kemur fram að stjórn félagsins hafi á fundi sínum 24. sama mánaðar ákveðið að gefa það upp til gjaldþrotaskipta. Félagið geti ekki staðið í skilum við aðalkröfuhafa sinn, Arion banka hf., sem telji sig eiga yfir eins milljarðs króna gjaldfallna kröfu á hendur félaginu, en um sé að ræða lán með ólögmætri gengistryggingu sem hafi valdið því að lánið margfaldaðist. Með bréfi 30. ágúst 2010 hafi bankinn skorað á félagið að lýsa því yfir að það gæti greitt skuldina innan þriggja vikna en ella gefa sig upp til gjaldþrotaskipta. Félagið eigi ekki fyrir skuldum miðað við útreikninga bankans eða þá vexti sem nýlegur dómur Hæstaréttar mæli fyrir um að greiða eigi af sambærilegum lánum, þrátt fyrir jákvætt tekjustreymi félagsins, ágæta EBIDTu og góða framtíðarmöguleika.
Sigurplast og stefndi, K.B. Umbúðir ehf., áttu í nokkrum viðskiptum á árinu 2010. Stefndi var með tvo viðskiptareikninga í bókhaldi Sigurplasts ehf. þar sem sjá má færslur vegna ýmissa viðskipta milli félaganna sem öll áttu sér stað á síðustu mánuðum fyrir gjaldþrot Sigurplasts ehf. Heildarvelta umræddra viðskipta var um 20 milljónir króna.
Skiptastjóri stefnanda fékk endurskoðunarfyrirtækið Ernst & Young hf. til þess að fara yfir framangreind viðskipti milli félaganna. Í skýrslu þess frá 31. janúar 2011 er m.a. að finna yfirlit yfir viðskiptareikninga stefnda, K.B. Umbúða ehf. Þar kemur fram að viðskipti aðila hafi í fyrsta lagi lotið að sölu Sigurplasts ehf. á vörum til stefnda, K.B. Umbúða ehf., þar sem vörur hafi verið seldar á kostnaðarverði og í einhverjum tilvikum undir kostnaðarverði til stefnda samkvæmt birgðabókhaldi Sigurplasts ehf. Þessar vörur hafi, samkvæmt fyrri sölureikningum, verið seldar öðrum viðskiptavinum Sigurplasts ehf. með allt að 250% álagningu. Þannig hafi stefndi, K.B. Umbúðir ehf., verið gerður að millilið í viðskiptasambandi Sigurplasts ehf. og viðskiptavina félagsins. Um hafi verið að ræða viðskipti 21. apríl 2010 þegar Sigurplast ehf. hafi selt stefnda, K.B. Umbúðum ehf., ýmsar vörur fyrir 2.500.299 krónur. Álagning Sigurplasts ehf. á þessum vörum samkvæmt fyrri sölureikningum til ótengdra viðskiptavina hafi verið frá 30% og upp í 250%, en vörurnar hafi verið seldar stefnda á kostnaðarverði og í sumum tilvikum undir kostnaðarverði. Þann 17. maí 2010 hafi Sigurplast ehf. selt vörur til stefnda, K.B. Umbúða ehf., fyrir 284.822 krónur. Álagning Sigurplasts ehf. á þessar vörur samkvæmt fyrri sölureikningum til ótengdra viðskiptavina hafi verið um 40% en einungis numið um 8% til stefnda. Þann 10. september 2010 hafi Sigurplast ehf. enn selt vörur til stefnda, K.B. Umbúða ehf., að fjárhæð 155.276 krónur. Álagning Sigurplasts ehf. á þessa vöru samkvæmt fyrri sölureikningum til ótengdra viðskiptavina hafi numið um 60% en einungis verið um 15% til stefnda.
Í öðru lagi hafi viðskiptin lotið að kaupum Sigurplasts ehf. á vörum frá stefnda, K.B. Umbúðum ehf., þar sem sams konar vörur hefðu áður verið fluttar inn beint af Sigurplasti ehf. allt til haustmánaða 2009. Stefnda hafi hér einnig verið skotið inn á milli viðskiptanna en við það hafi innkaupsverð varanna hækkað töluvert fyrir Sigurplast ehf. Um hafi verið að ræða vörukaup 23. apríl 2010 fyrir 2.598.641 krónu, þann 17. maí 2010 fyrir 3.503.800 krónur, þann 23. júní 2010 fyrir 995.074 krónur, þann 19. júlí 2010 fyrir 2.833.670 krónur, þann 13. september 2010 fyrir 1.645.567 krónur, þann 15. september 2010 fyrir 1.653.328 krónur og þann 16. september 2010 fyrir 843.360 krónur.
Í þriðja lagi sé um að ræða viðskipti milli Sigurplasts ehf. og stefnda, K.B. Umbúða ehf., með svokallaða ROPP tappa. Sigurplast ehf. hafi keypt 97.500 stk. af slíkum töppum af stefnda fyrir 1.958.804 krónur, en þessir sömu tappar hafi áður verið í eigu Sigurplasts ehf. og horfið af lager félagsins eftir að færð hefði verið 100.000 tappa birgðaminnkun í bókhaldi Sigurplasts ehf. Þegar tapparnir hafi upphaflega borist Sigurplasti ehf. hafi komið í ljós að þeir væru ónothæfir.
Í fjórða lagi hafi stefndi, K.B. Umbúðir ehf., gefið út reikning, dags. 27. maí 2010, að fjárhæð 3.520.000 krónur, stílaðan á Sigurplast ehf., vegna húsaleigu fyrir Völuteig 6 árið 2008 og sex mánaða tímabil árið 2009.
Í fimmta lagi sé svo um að ræða viðskipti milli Sigurplasts ehf. og stefnda, K.B. Umbúða ehf., frá apríl til júní 2010, en allar kröfur stefnda á hendur félaginu hafi verið greiddar fyrir lok júnímánaðar 2010. Frá þeim tíma og til gjaldþrots Sigurplasts ehf. hafi allar kröfur stefnda verið greiddar nær samstundis, með reiðufé. Sigurplast ehf. hafi samtals greitt stefnda, K.B. Umbúðum ehf., 20.466.322 krónur á þessu tímabili.
Skiptastjóri sendi stefnda, K.B. Umbúðum ehf., bréf 26. apríl 2011, þar sem framangreindum viðskiptum var lýst og krafist riftunar á greiðslum Sigurplasts ehf., auk endurgreiðslu þeirra fjárhæða. Með bréfi stefnda, K.B. Umbúða ehf., dags. 16. maí 2011, var kröfum stefnanda hafnað.
Í þinghaldi í máli þessu 24. maí 2013 lögðu stefndu, Sigurður og Jón Snorri, fram beiðni um dómkvaðningu matsmanns í því skyni að afla mats á gjaldfærni Sigurplasts ehf. Stefnandi mótmælti því að orðið yrði við beiðninni. Með úrskurði dómsins 5. júní sama ár var fallist á að dómkvaddur skyldi matsmaður. Í þinghaldi 23. september sama ár var Klemens Arnarson viðskiptafræðingur dómkvaddur til starfans og er matsgerð hans dagsett 12. febrúar 2014.
Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslu stefndu, Sigurður L. Sævarsson og Jón Snorri Snorrason, auk vitnanna Klemens Arnarsonar matsmanns, Guðjóns Norðfjörð, Hrólfs Þórs Valdimarssonar, Rögnvaldar Pálmasonar, Kjartans H. Bragasonar, Sigríðar Súsönnu Friðriksdóttur, Baldurs Jónssonar, Ragnars Þórs Ragnarssonar, Fannars Ólafssonar og Jóhönnu Gunnarsdóttur.
II
Málsástæður stefnanda:
Kröfuliðir 1-8, 10 og 23
Stefnandi byggir á því að þær ráðstafanir sem greint er frá í kröfuliðum nr. 1-8, 10 og 23, sem hafi átt sér stað dagana 21. apríl, 17. maí og 10. september 2010, hafi verið gjafir Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991. Þá taki almenna riftunarreglan í 141. gr. sömu laga einnig til ráðstafananna.
Sigurplast ehf. hafi selt stefnda, K.B. Umbúðum ehf., vörur ýmist á eða undir kostnaðarverði, en félagið hafi samkvæmt fyrri sölureikningum selt viðskiptavinum sínum sömu vörur með töluverðri álagningu. Gjöf Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., felist í mismun á söluverði félagsins til stefnda og því verði sem það hafi selt öðrum viðskiptavinum sömu vörur á og verði þar af leiðandi að teljast eðlilegt. Um eftirfarandi viðskipti hafi verið að ræða:
1. Sala Sigurplasts ehf. á „180ml dósum IIC“ til stefnda, K.B. Umbúða ehf., þann 21. apríl 2010 fyrir samtals 79.107 krónur. Kostnaðarverð sömu vara hafi verið 79.094 krónur. Sigurplast ehf. hafi áður selt sömu vörur í svipuðu magni með 200% álagningu sem myndi samsvara 237.282 krónum fyrir þann fjölda vara sem félagið hafi selt stefnda. Mismunurinn á söluverði Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., og söluverði félagsins til annarra viðskiptavina sé því áætlaður 158.175 krónur. Stefnandi byggi á því að þessi mismunur feli í sér gjöf Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf.
2. Sala Sigurplasts ehf. á „210ml dósum IIC“ til stefnda, K.B. Umbúða ehf., þann 21. apríl 2010 fyrir samtals 435.410 krónur. Kostnaðarverð sömu vara hafi verið 435.453 krónur. Sigurplast ehf. hafi áður selt sömu vörur í svipuðu magni með 31% álagningu sem myndi samsvara 570.443 krónum fyrir þann fjölda vara sem félagið hafi selt stefnda. Mismunurinn á söluverði Sigurplasts ehf. til stefnda og söluverði félagsins til annarra viðskiptavina sé því áætlaður 135.033 krónur. Stefnandi byggi á því að þessi mismunur feli í sér gjöf Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf.
3. Sala Sigurplasts ehf. á „280ml dósum IIC“ til stefnda, K.B. Umbúða ehf., þann 21. apríl 2010 fyrir samtals 702.404 krónur. Kostnaðarverð sömu vara hafi verið 702.089 krónur. Sigurplast ehf. hafi áður selt sömu vörur í svipuðu magni með 59% álagningu að meðaltali sem myndi samsvara 1.116.322 krónum fyrir þann fjölda vara sem félagið hafi selt stefnda. Mismunurinn á söluverði Sigurplasts ehf. til stefnda og söluverði félagsins til annarra viðskiptavina sé því áætlaður 413.918 krónur. Stefnandi byggi á því að þessi mismunur feli í sér gjöf Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf.
5. Sala Sigurplasts ehf. á „180-330ml lokum“ til stefnda, K.B. Umbúða ehf., þann 21. apríl 2010 fyrir samtals 369.600 krónur. Kostnaðarverð sömu vara hafi verið 369.661 króna. Sigurplast ehf. hafi áður selt sömu vörur með um 200% álagningu sem myndi svara til 1.108.983 króna fyrir þann fjölda vara sem félagið hafi selt stefnda. Mismunurinn á söluverði Sigurplasts ehf. til stefnda og söluverði félagsins til annarra viðskiptavina sé því áætlaður 739.383 krónur. Stefnandi byggir á því að þessi mismunur feli í sér gjöf Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf.
6. Sala Sigurplasts ehf. á „500ml lokum“ til stefnda, K.B. Umbúða ehf., þann 21. apríl 2010 fyrir samtals 18.865 krónur. Kostnaðarverð sömu vara hafi verið 23.366 krónur. Sigurplast ehf. hafi ekki áður selt sömu vörur, en algengt gangverð varanna hafi verið með 200% álagningu sem myndi svara til 70.098 króna fyrir þann fjölda vara sem félagið hafi selt stefnda. Mismunurinn á söluverði Sigurplasts ehf. til stefnda og gangverði varanna sé því áætlaður 51.233 krónur. Stefnandi byggi á því að þessi mismunur feli í sér gjöf Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf.
7. Sala Sigurplasts ehf. á „280ml dósum IIC“ til stefnda, K.B. Umbúða ehf., þann 21. apríl 2010 fyrir samtals 184.467 krónur. Kostnaðarverð sömu vara hafi verið 228.383 krónur. Sigurplast ehf. hafi áður selt sömu vörur í svipuðu magni með 52% álagningu að meðaltali sem myndi svara til 347.142 króna fyrir þann fjölda vara sem félagið hafi selt stefnda. Mismunurinn á söluverði Sigurplasts ehf. til stefnda og söluverði félagsins til annarra viðskiptavina sé því áætlaður 162.675 krónur. Stefnandi byggi á því að þessi mismunur feli í sér gjöf Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf.
8. Sala Sigurplasts ehf. á „280ml lokum“ til stefnda, K.B. Umbúða ehf., þann 21. apríl 2010 fyrir samtals 69.414 krónur. Kostnaðarverð sömu vara hafi verið 69.436 krónur. Sigurplast ehf. hafi áður selt sömu vörur í svipuðu magni með 38% álagningu að meðaltali sem myndi svara til 95.822 króna fyrir þann fjölda vara sem félagið hafi selt stefnda. Mismunurinn á söluverði Sigurplasts ehf. til stefnda og söluverði félagsins til annarra viðskiptavina sé því áætlaður 26.408 krónur. Stefnandi byggi á því að þessi mismunur feli í sér gjöf Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf.
10. Sala Sigurplasts ehf. á „Hands. filmum“ til stefnda, K.B. Umbúða ehf., þann 17. maí 2010 fyrir samtals 223.773 krónur. Kostnaðarverð sömu vara hafi verið 210.471 króna. Sigurplast ehf. hafi áður selt sömu vörur í svipuðu magni með um 40% álagningu, sem myndi svara til 294.659 króna fyrir þann fjölda vara sem félagið hafi selt stefnda. Mismunurinn á söluverði Sigurplasts ehf. til stefnda og söluverði félagsins til annarra viðskiptavina sé því áætlaður 65.886 krónur. Stefnandi byggi á því að þessi mismunur feli í sér gjöf Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf.
23. Sala Sigurplasts ehf. á „100ml PET POWER“ til stefnda, K.B. Umbúða ehf., þann 10. september 2010 fyrir samtals 123.726 krónur. Kostnaðarverð sömu vara hafi verið 107.588 krónur. Sigurplast ehf. hafi áður selt sömu vörur í svipuðu magni með 60% álagningu, sem myndi svara til 172.141 krónu fyrir þann fjölda vara sem félagið hafi selt stefnda. Mismunurinn á söluverði Sigurplasts ehf. til stefnda og söluverði félagsins til annarra viðskiptavina sé því áætlaður 48.415 krónur. Stefnandi byggi á því að þessi mismunur feli í sér gjöf Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf.
Fjárhæð þeirra verðmæta sem hafi verið gefin stefnda, K.B. Umbúðum ehf., og þar með tap stefnanda, vegna þessara liða hafi numið samtals 1.801.126 krónum.
Samkvæmt 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 megi krefjast riftunar á gjafagerningi ef gjöfin var afhent á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Framangreindar ráðstafanir hafi átt sér stað dagana 21. apríl, 17. maí og 10. september 2010, á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Öll önnur skilyrði riftunar samkvæmt ákvæðinu séu uppfyllt. Gjafirnar hafi rýrt eignir skuldara. Af ráðstöfununum hafi leitt að eignir stefnanda hafi rýrnað um mismuninn á söluverði Sigurplasts ehf. á vörunum til stefnda, K.B. Umbúða ehf., og söluverði Sigurplasts ehf. til annarra viðskiptavina, samtals að fjárhæð 1.801.126 krónur. Gjafirnar hafi leitt til auðgunar móttakanda. Með þeim hafi stefndi, K.B. Umbúðir ehf., komist hjá því að greiða eðlilegt gangverð fyrir vörur sem hann hafi fengið ýmist á eða undir kostnaðarverði. Með gjöfunum hafi stefndi auðgast um mismuninn á eðlilegu gangverði varanna og því verði sem þær hafi verið seldar honum, eða um samtals 1.801.126 krónur. Þá hafi gjafatilgangur verið fyrir hendi. Ljóst sé að það þjóni engum viðskiptalegum eða rekstrarlegum tilgangi að selja vörur á eða undir kostnaðarverði. Vörurnar hafi því verið seldar í gjafatilgangi. Því beri, samkvæmt 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991, að rifta framangreindum ráðstöfunum Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., að fjárhæð 1.801.126 krónur
Skilyrði riftunar samkvæmt 141. gr. laga nr. 21/1991 sé einnig uppfyllt hvað greiðslurnar í kröfuliðum 1-8, 10 og 23 varði. Samkvæmt greininni megi krefjast riftunar ráðstafana sem á ótilhlýðilegan hátt séu kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, leiði til þess að eignir þrotamannsins verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða leiði til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, ef þrotamaðurinn var ógjaldfær eða varð það vegna ráðstöfunarinnar og sá sem hafði hag af henni vissi eða mátti vita um ógjaldfærni þrotamannsins og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg.
Skilyrði riftunar samkvæmt ákvæðinu séu fjögur: 1. að ráðstöfunin hafi verið ótilhlýðileg, 2. að ótilhlýðilega ráðstöfunin falli í einn af þremur upptöldum flokkum í ákvæðinu, 3. að skuldari hafi verið ógjaldfær og 4. að sá sem hag hefði af ráðstöfuninni hafi vitað eða mátt vita um ógjaldfærni og þær aðstæður sem leitt hafi til ótilhlýðileika ráðstöfunarinnar. Stefnandi telji framangreind skilyrði vera uppfyllt. Ráðstafanir Sigurplasts ehf. hafi verið ótilhlýðilegar. Með þeim hafi félagið selt stefnda, K.B. Umbúðum ehf., vörur ýmist á eða undir kostnaðarverði á sama tíma og það hefði getað selt sömu vörur á gangverði með hefðbundinni álagningu. Mismunurinn á söluverði Sigurplasts ehf. til stefnda og söluverði þess til annarra viðskiptavina sé áætlaður samtals 1.801.126 krónur. Á sama tíma hafi félagið verið ógjaldfært og í miklum lausafjárvanda. Þessi ótilhlýðilega ráðstöfun hafi leitt til þess að verðmæti að andvirði 1.801.126 krónur hafi ekki verið til fullnustu fyrir aðra kröfuhafa stefnanda. Stefnandi og kröfuhafar hans hafi því orðið fyrir tjóni sem nemi tilgreindri fjárhæð. Um ógjaldfærni Sigurplasts ehf. verði nánar fjallað síðar. Þá byggi stefnandi á því að vegna sömu tengsla og valdi því að stefndi, K.B. Umbúðir ehf., teljist nákominn stefnanda, sbr. 3. gr. laga nr. 21/1991, hafi fyrirsvarsmenn stefnda vitað eða mátt vita um ógjaldfærni félagsins og þær aðstæður sem leitt hafi til þess að ráðstöfunin hafi verið ótilhlýðileg. Af framangreindu leiði að fyrrnefndar ráðstafanir, samtals að fjárhæð 1.801.126 krónur, séu riftanlegar samkvæmt 141. gr. laga nr. 21/1991.
Kröfuliður 9
Stefnandi telji að í skuldajöfnuði frá 30. apríl 2010 milli Sigurplasts ehf. og stefnda, K.B. Umbúða ehf., að fjárhæð 2.500.299 krónur, sbr. kröfulið nr. 9, hafi falist gjöf Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., að fjárhæð 201.825 krónur, sbr. 131. gr. laga nr. 21/1991. Þá telji stefnandi að almenna riftunarreglan í 141. gr. sömu laga taki til ráðstöfunarinnar. Með skuldajöfnuðinum hafi kröfu Sigurplasts ehf., að fjárhæð 2.500.299 krónur, sem tilkomin hafi verið vegna sölu á ýmsum vörum til stefnda þann 21. apríl 2010, verið skuldajafnað við kröfu stefnda að fjárhæð 2.598.641 króna, sem hafi verið tilkomin vegna vörukaupa Sigurplasts ehf. þann 23. apríl 2010.
Samkvæmt 136. gr. laga nr. 21/1991 gildi ákvæði um riftun greiðslu einnig um skuldajöfnuð ef ekki mætti beita honum samkvæmt 100. gr. sömu laga. Í síðastnefndri grein segi að hver sá sem skuldi þrotabúinu geti dregið það frá sem hann eigi hjá því hvernig sem skuld og gagnkröfu sé varið ef lánardrottinn hefur eignast kröfuna áður en þrír mánuðir voru til frestdags, hvorki vitað né mátt vita að þrotamaðurinn átti ekki fyrir skuldum og ekki fengið kröfuna til að skuldajafna, enda hafi krafa þrotabúsins á hendur honum orðið til fyrir frestdag.
Stefnandi byggi á því að skuldajöfnuðurinn frá 30. apríl 2010 hafi ekki uppfyllt skilyrði skuldajafnaðar samkvæmt 100. gr. laga nr. 21/1991. Stefnandi telji annars vegar að skilyrði 100. gr., um að lánardrottinn hafi hvorki vitað né mátt vita að þrotamaðurinn ætti ekki fyrir skuldum, sé ekki uppfyllt. Þegar skuldajöfnuðurinn hafi farið fram hafi Sigurplast ehf. löngu verið orðið ógjaldfært og það hafi stefndi, K.B. Umbúðir ehf., og fyrirsvarsmenn þess mátt vita, enda sé stefndi, K.B. Umbúðir ehf., nákominn þrotamanni í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991. Um ógjaldfærni Sigurplasts ehf. og tengsl þess við stefnda, K.B. Umbúðir ehf., verði nánar fjallað síðar. Hins vegar telji stefnandi ekki uppfyllt það skilyrði 100. gr. að stefndi hafi ekki fengið kröfu sína til að skuldajafna. Augljóst sé að krafa stefnda, K.B Umbúða ehf., frá 23. apríl 2010, sem stofnast hafi tveimur dögum á eftir kröfu Sigurplasts ehf., hafi eingöngu verið stofnuð í þeim tilgangi að skuldajafna, enda sé fjárhæð krafnanna nánast hin sama. Af þessum sökum sé ráðstöfunin sem falist hafi í skuldajöfnuðinum frá 30. apríl 2010 riftanleg, sbr. 136. gr. laga nr. 21/1991.
Stefnandi byggi á því að í skuldajöfnuðinum frá 30. apríl 2010 hafi falist gjöf að fjárhæð 201.825 krónur og krefjist hann þess að þeirri fjárhæð verði rift á grundvelli 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991. Líkt og fyrr greini hafi Sigurplast ehf. árið 2010 hafið að kaupa vörur af stefnda, K.B. Umbúðum ehf., sem félagið hafi flutt beint inn til landsins allt til haustmánaða ársins 2009. Við þetta hafi innkaupsverð þeirra vörutegunda sem Sigurplast ehf. hafi keypt af stefnda orðið um 100-300% hærra en í viðskiptum félagsins með sömu vörutegundir áður en stefnda hafi verið skotið inn í viðskiptasambandið sem millilið. Skuldajöfnuðurinn frá 30. apríl 2010 hafi m.a. verið notaður til að greiða fyrir kaup Sigurplasts ehf. á 13.500 einingum af „úðadælu 35/410“ frá stefnda, K.B. Umbúðum ehf., þann 23. apríl 2010 fyrir samtals 405.000 krónur. Sigurplast ehf. hafi áður keypt inn sömu vörur og þá greitt 203.175 krónur fyrir sama magn. Mismunurinn á kaupverði Sigurplasts ehf. frá stefnda, K.B. Umbúðum ehf., og því verði sem félagið hafi áður keypt vörurnar á sé því áætlaður 201.825 krónur. Stefnandi byggi á því að í þessum mismun hafi falist gjöf Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf.
Skuldajöfnuðurinn hafi átt sér stað á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Öll önnur áðurnefnd skilyrði riftunar samkvæmt 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 séu einnig uppfyllt. Af skuldajöfnuðinum hafi leitt að eignir stefnanda hafi rýrnað um mismuninn á kaupverði Sigurplasts ehf. á vörunum frá stefnda og því verði sem félagið hafi áður keypt sömu vörur á, samtals að fjárhæð 201.825 krónur. Með gjöfinni hafi stefndi, K.B. Umbúðir ehf., auðgast um sömu fjárhæð. Þá sé ljóst að það þjóni að óbreyttu engum viðskiptalegum eða rekstrarlegum tilgangi að skjóta þriðja aðila inn í viðskiptasambönd félags þannig að innkaupsverð þess á vörum hækki umtalsvert. Vörurnar hafi því verið seldar í gjafatilgangi. Beri því, skv. 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991, að rifta framangreindri ráðstöfun Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., að fjárhæð 201.825 krónur.
Öll skilyrði riftunar samkvæmt 141. gr. laga nr. 21/1991, sem áður hafi verið rakin, séu uppfyllt hvað ráðstöfunina varði. Stefnda, K.B. Umbúðum ehf., hafi verið skotið inn í viðskiptasamband Sigurplasts ehf. og þeirra aðila sem félagið hafi áður keypt sömu vörur af. Þannig hafi stefndi, K.B. Umbúðir ehf., notfært sér viðskiptasambönd Sigurplasts ehf. til að auðgast um talsverða framlegð af þessum vörum. Með ráðstöfuninni hafi Sigurplast ehf. greitt fyrir þessa auðgun stefnda sem hafi verið samtals að fjárhæð 201.825 krónur. Á sama tíma hafi Sigurplast ehf. verið ógjaldfært og í miklum lausafjárvanda. Þessi ótilhlýðilega ráðstöfun hafi leitt til þess að 201.825 krónur hafi ekki verið til fullnustu fyrir aðra kröfuhafa stefnanda. Stefnandi og kröfuhafar hans hafi því orðið fyrir tjóni sem nemi tilgreindri upphæð. Stefnandi telji því að skilyrði um ótilhlýðilega ráðstöfun sé uppfyllt, enda augljóst að greiðslan hafi verulega raskað jafnræði kröfuhafa. Um ógjaldfærni Sigurplasts ehf. og vitneskju stefnda verði fjallað síðar. Af framangreindu leiði að ráðstöfunin að fjárhæð 201.825 krónur sé riftanleg samkvæmt 141. gr. laga nr. 21/1991.
Kröfuliðir 11 og 12
Varðandi kröfu um riftun ráðstafana í kröfuliðum 11 og 12 byggi stefnandi á því að í skuldajöfnuði frá 20. maí 2010 að fjárhæð 2.000.000 króna hafi falist 60.599 króna gjöf Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., sem rifta skuli á grundvelli 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991. Þá hafi í skuldajöfnuðinum falist greiðsla á 1.602.142 króna skuld Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., fyrr en eðlilegt hafi verið og í óeðlilegum greiðslueyri. Stefnandi krefjist þess að þeirri fjárhæð verði rift á grundvelli 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 136. gr. sömu laga. Að lokum telji stefnandi að almenna riftunarreglan í 141. gr. laga nr. 21/1991 taki til allra framangreindra ráðstafana.
Með skuldajöfnuðinum hafi kröfu stefnda á hendur Sigurplasti ehf. að fjárhæð 1.602.142 krónur, sem hafi verið tilkomin vegna kaupa Sigurplasts ehf. á ýmsum vörum hjá stefnda 17. maí 2010, verið skuldajafnað við kröfu Sigurplasts ehf. á hendur stefnda að fjárhæð 2.000.000 króna, sem hafi verið tilkomin vegna greiðslu Sigurplasts ehf. á skuld stefnda við TVG Zimsen ehf. þann 20. maí 2010.
Framangreindur skuldajöfnuður hafi ekki uppfyllt skilyrði skuldajafnaðar samkvæmt 100. gr. laga nr. 21/1991 og sé því riftanlegur á framangreindum grundvelli, sbr. 136. gr. laganna. Þegar hann hafi farið fram hafi Sigurplast ehf. löngu verið orðið ógjaldfært. Það hafi stefndi, K.B. Umbúðir ehf., mátt vita, enda nákominn þrotamanni. Þar af leiðandi hafi skilyrði 100. gr. laga nr. 21/1991, um að lánardrottinn hafi hvorki vitað né mátt vita að þrotamaðurinn ætti ekki fyrir skuldum, ekki verið uppfyllt hvað skuldajöfnuðinn varði. Þá byggi stefnandi jafnframt á því að þegar í skuldajöfnuði felist greiðsla á skuld í óvenjulegum greiðslueyri séu skilyrði 100. gr. þegar af þeim ástæðum ekki uppfyllt.
Skuldajöfnuðurinn hafi m.a. verið notaður til að greiða fyrir kaup Sigurplasts ehf. á 1.530 einingum af „tappa 61mm UN“ af stefnda þann 17. maí 2010 fyrir 66.007 krónur. Sigurplast ehf. hafi áður keypt inn sömu vörur og hafi þá greitt 29.636 krónur fyrir sama magn. Mismunurinn á kaupverði Sigurplasts ehf. frá stefnda og því verði sem félagið hafi áður keypt vörurnar á sé því áætlaður 36.371 króna. Stefnandi byggi á því að í þessum mismun hafi falist gjöf Sigurplasts ehf. til stefnda. Einnig hafi verið um að ræða kaup Sigurplasts ehf. á 340 einingum af „tappa 61mm klór“ frá stefnda 17. maí 2010 fyrir 43.598 krónur. Sigurplast ehf. hafi áður keypt inn sömu vörur og hafi þá greitt 19.370 krónur fyrir sama magn. Mismunurinn á kaupverði félagsins frá stefnda og því verði sem það hafi áður keypt vörurnar á sé því áætlaður 24.228 krónur. Stefnandi byggi á því að í þessum mismun hafi falist gjöf Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf.
Tap stefnanda vegna framangreindra viðskipta hafi verið samtals 60.599 krónur. Stefnandi byggi á því að í viðskiptunum hafi falist gjöf Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., en þau hafi átt sér stað á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Öll önnur áðurnefnd skilyrði riftunar samkvæmt 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 séu einnig uppfyllt. Með gjöfunum hafi stefndi auðgast um mismuninn á kaupverði Sigurplasts ehf. á vörunum frá stefnda og því verði sem félagið hafi áður keypt sömu vörur á. Auðgun stefnda vegna gjafarinnar hafi því verið samtals 60.599 krónur. Þá sé ljóst að eignir stefnanda hafi rýrnað um sömu fjárhæð. Að lokum sé ljóst að það þjóni ekki viðskiptalegum eða rekstrarlegum tilgangi að skjóta þriðja aðila inn í viðskiptasambönd félags þannig að innkaupsverð þess á vörum hækki umtalsvert. Ráðstafanirnar hafi því verið viðhafðar í gjafatilgangi. Beri því skv. 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 að rifta 60.599 krónum af framangreindum skuldajöfnuði milli Sigurplasts ehf. og stefnda, K.B. Umbúða ehf.
Samkvæmt 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 megi krefjast riftunar á greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag ef greitt var með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var eða greidd var fjárhæð sem hefur skert greiðslugetu þrotamannsins verulega, nema greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum.
Sigurplast ehf. hafi verið í reikningi hjá stefnda, K.B. Umbúðum ehf. Fyrir lok júnímánaðar 2010 hafi félagið greitt allar kröfur stefnda, K.B. Umbúða ehf., á hendur sér. Sigurplast ehf. hafi notað framangreindan skuldajöfnuð til að greiða útistandandi skuld við stefnda, K.B. Umbúðir ehf., að fjárhæð 1.602.142 krónur. Þegar umræddur skuldajöfnuður hafi farið fram hafi Sigurplast ehf. verið byrjað að vanefna gjaldfallnar skuldir sínar, enda hafi félagið þá verið orðið ógjaldfært. Á þessum tíma hafi þannig verið fyrirséð að Sigurplast ehf. gæti ekki greitt allar skuldir sínar þegar þær féllu í gjalddaga. Sigurplast ehf. hafi m.a. skuldað Arion Banka hf. þrjú lán, með gjalddaga fyrstu afborgana 10. ágúst 2008, 10. apríl 2009 og 10. júní 2009. Gjalddagar síðari afborgana skyldu síðan vera á þriggja mánaða fresti. Fyrir liggi að Sigurplast ehf. hafi einungis greitt lítinn hluta af þessum afborgunum. Þannig sé ljóst að Sigurplast ehf. hafi vanefnt verulegar skuldbindingar sem allar hafi fallið í gjalddaga talsvert löngu áður en Sigurplast ehf. hafi greitt kröfur stefnda enda hafi félagið þá verið orðið ógjaldfært. Þrátt fyrir þetta hafi framangreind krafa stefnda verið greidd að fullu. Krafa stefnda hafi þannig verið meðhöndluð með allt öðrum hætti en meginþorri skuldbindinga Sigurplasts ehf. við aðra lánardrottna. Framangreindur skuldajöfnuður félagsins við stefnda, K.B. Umbúðir ehf., hafi verið stefnda til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa. Með skuldajöfnuðinum hafi kröfuhöfum Sigurplasts ehf. augljóslega verið mismunað. Þá sé ljóst að Sigurplast ehf. hafi ekki verið gjaldfært þegar félagið hafi ráðstafað greiðslunni til K.B. Umbúða ehf. Í ljósi alls framangreinds hafi skuld Sigurplasts ehf. við stefnda, K.B. Umbúðir ehf., verið greidd fyrr en eðlilegt hafi verið.
Þá sé til þess að líta að framangreind krafa stefnda, K.B. Umbúða ehf., hafi verið greidd með kröfu Sigurplasts ehf. á hendur stefnda sem hafi verið tilkomin vegna greiðslu Sigurplasts ehf. á skuld stefnda við þriðja mann. Ekki sé gögnum til að dreifa sem sýni fram á að samið hafi verið fyrir fram um að viðskiptum milli aðila skyldi háttað á þennan veg. Þá fáist heldur ekki séð að háttur viðskiptanna eigi sér hliðstæðu í viðskiptum Sigurplasts ehf. við aðra aðila. Verði því að líta svo á að í framangreindum skuldajöfnuði hafi einnig falist greiðsla í óvenjulegum greiðslueyri, sbr. 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991.
Þegar framangreindar greiðslur séu metnar saman með greiðslunum í kröfuliðum nr. 13-22 og 24-27 sé ljóst að um verulega fjárhæð sé að ræða. Þótt hið gjaldþrota félag hafi fyrir löngu verið orðið ógjaldfært í ágúst og september 2010 sé samt sem áður ljóst að greiðslur að fjárhæð samtals 12.293.826 krónur hafi skert greiðslugetu hins gjaldþrota félags verulega frá því sem fyrir hafi verið. Ráðstafanirnar séu því einnig riftanlegar á grundvelli þess skilyrðis 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 að fjárhæðin hafi skert greiðslugetu þrotamannsins verulega. Beri því skv. 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 að rifta framangreindri ráðstöfun sem hafi falist í skuldajöfnuði milli Sigurplasts ehf. og stefnda, K.B. Umbúða ehf., að fjárhæð samtals 1.602.142 krónur.
Þá séu öll skilyrði riftunar samkvæmt 141. gr. laga nr. 21/1991 uppfyllt hvað ráðstöfunina í kröfulið nr. 11 að fjárhæð 60.599 krónur varði, með sömu rökum og vísað sé til að framan varðandi það lagaákvæði. Beri því að rifta þeirri fjárhæð á grundvelli þess ákvæðis. Þá hafi Sigurplast ehf. notað óvenjulegan greiðslueyri með skuldajöfnuðinum til að greiða skuld við stefnda, K.B. Umbúðir ehf., að fjárhæð samtals 1.602.142 krónur, á sama tíma og félagið hafi verið ógjaldfært og í miklum lausafjárvanda. Beri því einnig, með vísan til sömu röksemda, að rifta þeirri fjárhæð á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991.
Kröfuliðir 13-16
Stefnandi telji ráðstafanir í kröfuliðum 13-16, samtals að fjárhæð 3.784.503 krónur, riftanlegar, en um sé að ræða greiðslur Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., þann 3. júní 2010 að fjárhæð 100.000 krónur, þann 9. júní 2010 að fjárhæð 750.000 krónur, þann 9. júní 2010 að fjárhæð 200.000 krónur og þann 23. júní 2010 að fjárhæð 2.734.503 krónur. Stefnandi byggi á því að í framangreindum ráðstöfunum hafi falist gjöf Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., sbr. 131. gr. laga nr. 21/1991. Þá hafi í ráðstöfununum einnig falist greiðsla fyrr en eðlilegt hafi verið, sbr. 1. mgr. 134. gr. sömu laga. Að lokum telji stefnandi að almenna riftunarreglan í 141. gr. laganna taki til ráðstafananna.
Framangreindar ráðstafanir, samtals að fjárhæð 3.784.503 krónur, hafi allar verið notaðar til að greiða fyrir viðskipti Sigurplasts ehf. við stefnda, K.B. Umbúðir ehf., að fjárhæð samtals 3.787.677 krónur. Þann 27. maí 2010 hafi stefndi gefið út reikning fyrir húsaleigu vegna Völuteigs 6, vegna ársins 2008 og sex mánaða tímabils vegna ársins 2009. Reikningurinn hafi verið stílaður á Sigurplast ehf. og verið að fjárhæð 3.520.000 krónur. Þessi leiga hafi áður verið gjaldfærð af Sigurplasti ehf. og færð til skuldar við RP Consulting ehf. sem hafi verið úrskurðað gjaldþrota 3. febrúar 2010. Skuldin hafi engu að síður verið færð af viðskiptareikningi RP Consulting ehf. yfir á viðskiptareikning stefnda 27. maí 2010. Svo virðist sem átt hafi sér stað kröfuhafaskipti á kröfu RP Consulting ehf. tæpum fjórum mánuðum eftir gjaldþrot þess félags, en án aðkomu þrotabús þess. Samkvæmt upplýsingum frá starfsfólki Sigurplasts ehf. sé krafan til komin vegna leigu fyrir húsnæði sem RP Consulting ehf. hafi haft undir sinn lager. Framangreindur reikningur virðist ekki hafa tengst rekstri Sigurplasts ehf. með neinum hætti. Upphafleg skuld Sigurplasts ehf. við RP Consulting ehf. sé því tilhæfulaus og framsal kröfunnar frá þrotabúi RP Consulting ehf. til stefnda sé ólögmætt. Stefnandi telji því að greiðsla reikningsins hafi verið gjöf Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf.
Þá sé um að ræða kaup Sigurplasts ehf. á 10.350 einingum af „tappa 61mm UN“ frá stefnda, K.B. Umbúðum ehf., þann 23. júní 2010 fyrir samtals 468.157 krónur. Kaupin hafi verið hluti af stærri pöntun að fjárhæð samtals 995.074 krónur. Sigurplast ehf. hafi áður keypt inn sömu vörur og þá greitt 200.480 krónur fyrir sama magn. Mismunurinn á kaupverði Sigurplasts ehf. frá stefnda og því verði sem félagið hafi áður keypt vörurnar á sé því áætlaður 267.677 krónur. Stefnandi byggi á því að í þessum mismun hafi einnig falist gjöf Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf.
Tap stefnanda vegna framangreindra viðskipta hafi verið samtals 3.787.677 krónur. Ekki sé með góðu móti hægt að tilgreina nákvæmlega með hvaða greiðslu frá Sigurplasti ehf. hafi verið greitt fyrir ofangreind viðskipti en stefnandi leggi til grundvallar að ráðstöfunum hafi ávallt verið varið til greiðslu á skuld vegna elstu viðskiptanna. Vart þurfi að taka fram að einstökum ráðstöfunum hafi ekki verið varið til greiðslu á viðskiptum sem hafi átt sér stað eftir að greiðslum hafi verið ráðstafað. Eins og sjáist sé gjöfin 3.174 krónum hærri en greiðslurnar sem hafi verið inntar af hendi fyrir hana. Stefnandi geti ekki með góðu móti fundið í hvaða greiðslum þessar 3.174 krónur felist og verði því hvorki gerð krafa um riftun né endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar.
Framangreindar ráðstafanir hafi verið gjöf stefnanda til stefnda, K.B. Umbúða ehf., en þær hafi allar átt sér stað á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Öll önnur áðurnefnd skilyrði riftunar skv. 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 séu einnig uppfyllt. Með gjöfunum hafi stefndi auðgast um annars vegar mismuninn á kaupverði Sigurplasts ehf. á vörunum frá stefnda og því verði sem Sigurplast ehf. hafi áður keypt sömu vörur á og hins vegar með því að fá greitt upp í tilhæfulausa kröfu sem stefndi virðist hafa fengið framselda frá gjaldþrota félagi án atbeina þrotabús þess. Auðgun stefnda vegna gjafarinnar hafi því samtals verið 3.787.677 krónur. Þá sé ljóst að eignir stefnanda hafi rýrnað um sömu fjárhæð. Að lokum sé ljóst að það þjóni hvorki viðskiptalegum eða rekstrarlegum tilgangi að skjóta þriðja aðila inn í viðskiptasambönd félags þannig að innkaupsverð þess á vörum hækki umtalsvert né að greiða tilhæfulausa kröfu sem virðist hafa verið framseld frá gjaldþrota félagi. Ráðstafanirnar hafi því verið viðhafðar í gjafatilgangi. Beri því skv. 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 að rifta framangreindum greiðslum Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., að fjárhæð samtals 3.784.503 krónur sem hafi farið í að greiða framangreinda gjöf að fjárhæð 3.787.677 krónur.
Þegar framangreindar greiðslur hafi farið fram hafi Sigurplast ehf. verið byrjað að vanefna verulegar skuldbindingar sem fallið hafi í gjalddaga talsvert löngu áður en greiðslurnar til stefnda, K.B. Umbúða ehf., hafi átt sér stað, enda hafi félagið þá verið orðið ógjaldfært. Þrátt fyrir þetta hafi framangreindar greiðslur verið notaðar til að greiða að fullu kröfur stefnda, K.B. Umbúða ehf., sem hafi ýmist stofnast sama dag eða fáeinum dögum áður en greiðslunum hafi verið ráðstafað. Kröfur stefnda hafi þannig verið meðhöndlaðar með allt öðrum hætti en meginþorri skuldbindinga Sigurplasts ehf. við aðra lánardrottna. Af þessum sökum hafi skuldir Sigurplasts ehf. við stefnda verið greiddar fyrr en eðlilegt hafi verið, sbr. 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Þá séu ráðstafanirnar einnig riftanlegar á grundvelli þess skilyrðis ákvæðisins að fjárhæðin hafi skert greiðslugetu þrotamannsins verulega. Beri því skv. 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 að rifta framangreindum ráðstöfunum Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., samtals að fjárhæð 3.784.503 krónur.
Þá verði, með sömu rökum og fyrr greini, að telja öll áðurnefnd skilyrði riftunar samkvæmt 141. gr. laga nr. 21/1991 uppfyllt hvað varði ráðstafanirnar sem greitt hafi fyrir viðskiptin frá 23. júní 2010. Með ráðstöfununum hafi Sigurplast ehf. greitt upp í tilhæfulausa kröfu sem stefndi, K.B. Umbúðir ehf., virðist hafa fengið framselda frá gjaldþrota félagi. Beri að öðru leyti með vísan til framkominna röksemda að rifta framangreindum ráðstöfunum samtals að fjárhæð 3.784.503 krónur á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991.
Kröfuliðir 17, 21, 22 og 24
Stefnandi telji að í ráðstöfunum frá Sigurplasti ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., í kröfuliðum 17, 21, 22 og 24, samtals að fjárhæð 964.370 krónur, hafi falist riftanlegir gerningar. Um sé að ræða greiðslur Sigurplasts ehf. til stefnda 28. júní 2010 að fjárhæð 302.535 krónur vegna vörukaupa félagsins 27. júní 2010, greiðslu 18. ágúst 2010 að fjárhæð 296.180 krónur vegna vörukaupa félagsins sama dag, greiðslu 2. september 2010 að fjárhæð 42.514 krónur vegna vörukaupa félagsins sama dag og greiðslu 13. september 2010 að fjárhæð 323.141 króna vegna vörukaupa félagsins sama dag. Í framangreindum ráðstöfunum hafi falist greiðsla fyrr en eðlilegt hafi verið, sbr. 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Þá telji stefnandi að almenna riftunarreglan í 141. gr. sömu laga taki til allra framangreindra ráðstafana.
Þegar framangreindar greiðslur hafi farið fram hafi Sigurplast ehf. verið byrjað að vanefna verulegar skuldbindingar sem hafi fallið í gjalddaga talsvert löngu áður en greiðslurnar til stefnda hafi átt sér stað, enda hafi félagið þá verið orðið ógjaldfært. Þrátt fyrir þetta hafi framangreindar greiðslur verið notaðar til að greiða að fullu kröfur stefnda sem hafi ýmist stofnast sama dag eða deginum áður en greitt hafi verið. Kröfur stefnda hafi þannig verið meðhöndlaðar með allt öðrum hætti en meginþorri skuldbindinga Sigurplasts ehf. við aðra lánardrottna. Þá hafi kröfurnar frá 18. ágúst, 2. september og 13. september 2010, sem greiddar hafi verið samdægurs, einnig verið meðhöndlaðar með öðrum hætti en meginþorri annarra skuldbindinga Sigurplasts ehf. við stefnda, K.B. Umbúðir ehf., þar sem félögin hafi einungis farið að stunda staðgreiðsluviðskipti á síðustu mánuðum fyrir gjaldþrot Sigurplasts ehf. Af þessum sökum hafi skuldir Sigurplasts ehf. við stefnda, K.B. Umbúðir ehf., verið greiddar fyrr en eðlilegt hafi verið. Þá séu ráðstafanirnar einnig riftanlegar á grundvelli þess skilyrðis 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 að fjárhæðin hafi skert greiðslugetu þrotamanns verulega. Beri því að rifta framangreindum greiðslum Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., samtals að fjárhæð 964.370 krónur, skv. 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991.
Kröfuliðir 18 og 19
Stefnandi telji að í ráðstöfunum Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., í kröfuliðum 18 og 19, samtals að fjárhæð 273.791 króna, hafi falist riftanlegir gerningar. Um sé að ræða annars vegar greiðslu félagsins á kröfu stefnda með skuldajöfnuði 1. júlí 2010 að fjárhæð 47.891 króna. Krafa stefnda hafi verið tilkomin vegna útistandandi skulda Sigurplasts ehf. vegna fjölmargra viðskipta á tímabilinu 21. apríl 2010 til 28. júní sama ár, samtals að fjárhæð 47.891 króna. Krafa félagsins hafi stofnast 1. júlí 2010 með útgáfu reiknings á hendur stefnda að sömu fjárhæð vegna birgðahalds og dreifingar. Kröfunum hafi verið skuldajafnað sama dag. Hins vegar sé um að ræða greiðslu Sigurplasts ehf. á kröfu stefnda með skuldajöfnuði 1. júlí 2010 að fjárhæð 225.900 krónur. Krafa stefnda hafi verið tilkomin vegna vörukaupa Sigurplasts ehf. þann 29. júní 2010 að fjárhæð 225.900 krónur. Krafa Sigurplasts ehf. hafi stofnast samdægurs með útgáfu reiknings á hendur stefnda að sömu fjárhæð vegna aksturs í apríl til júní 2010. Stefnandi telji að í framangreindum ráðstöfunum hafi falist greiðsla fyrr en eðlilegt hafi verið og greiðsla í óvenjulegum greiðslueyri, sbr. 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Þá telji stefnandi að almenna riftunarreglan í 141. gr. laganna taki til framangreindra ráðstafana. Heimild til að rifta skuldajöfnuði á framangreindum grundvelli sé í 136. gr. sömu laga.
Stefnandi byggi á því að skuldajöfnuðurinn hafi ekki uppfyllt skilyrði 100. gr. laga nr. 21/1991 og sé því riftanlegur, sbr. 136. gr. laga nr. 21/1991. Þegar framangreindur skuldajöfnuður hafi farið fram hafi Sigurplast ehf. fyrir löngu verið orðið ógjaldfært og það hafi stefndi, K.B. Umbúðir ehf., mátt vita, enda nákominn þrotamanni. Þar af leiðandi hafi skilyrði 100. gr. laga nr. 21/1991, um að lánardrottinn hafi hvorki vitað né mátt vita að þrotamaðurinn ætti ekki fyrir skuldum, ekki verið uppfyllt hvað skuldajöfnuðinn varði. Þá sjáist á bókhaldi Sigurplasts ehf. að krafa stefnda, K.B. Umbúða ehf., að fjárhæð 225.900 krónur, sem notuð hafi verið til að skuldajafna við kröfur Sigurplasts ehf. þann 1. júlí 2010, hafi orðið til 29. júní 2010, þ.e. á síðustu þremur mánuðum fyrir frestdag, sem hafi verið 27. september 2010. Skilyrði skuldajafnaðar skv. 100 gr. laga nr. 21/1991 séu þegar af þeim ástæðum ekki uppfyllt hvað þann skuldajöfnuð varði.
Þegar framangreindur skuldajöfnuður, samtals að fjárhæð 273.791 króna, hafi farið fram hafi Sigurplast ehf. verið byrjað að vanefna verulegar skuldbindingar sem hafi fallið í gjalddaga talsvert löngu áður en kröfum félagsins hafi verið skuldajafnað við kröfur stefnda enda hafi félagið þá verið orðið ógjaldfært. Þrátt fyrir þetta hafi framangreindar kröfur stefnda verið greiddar að fullu með skuldajöfnuði og þannig meðhöndlaðar með allt öðrum hætti en meginþorri skuldbindinga Sigurplasts ehf. Af þeim sökum hafi skuldir Sigurplasts ehf. við stefnda, K.B. Umbúðir ehf., verið greiddar fyrr en eðlilegt hafi verið í skilningi 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Þá sé til þess að líta að framangreindar kröfur stefnda hafi verið greiddar með kröfum Sigurplasts ehf. á hendur stefnda vegna vinnu og þjónustu. Stefndi hafi því í reynd fengið skuldir Sigurplasts ehf. við sig greiddar með þjónustu. Ekki sé til að dreifa gögnum sem sýni fram á að samið hafi verið fyrir fram um að viðskiptum milli aðila skyldi háttað á þennan veg. Þá fáist ekki heldur séð að háttur viðskiptanna eigi sér hliðstæðu í viðskiptum Sigurplasts ehf. við aðra aðila. Stefnandi telji að líta verði svo á að í framangreindum skuldajöfnuði hafi einnig falist greiðsla í óvenjulegum greiðslueyri, sbr. 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Þá séu ráðstafanirnar einnig riftanlegar á grundvelli þess skilyrðis ákvæðisins að fjárhæðin hafi skert greiðslugetu þrotamannsins verulega. Beri því að rifta framangreindum ráðstöfunum milli Sigurplasts ehf. og stefnda, K.B. Umbúða ehf., samtals að fjárhæð 273.791 króna, skv. 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991.
Með sömu rökum og áður hafi komið fram séu öll áðurnefnd skilyrði riftunar samkvæmt 141. gr. laga nr. 21/1991 uppfyllt hvað varði framangreindar ráðstafanir að fjárhæð 273.791 króna og beri að rifta þeim á grundvelli ákvæðisins.
Kröfuliður 20
Varðandi kröfulið nr. 20 telji stefnandi að í greiðslu Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., þann 19. júlí 2010 að fjárhæð 2.833.670 krónur, vegna vörukaupa Sigurplasts ehf. sama dag, hafi falist greiðsla fyrr en eðlilegt hafi verið í skilningi 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Þá hafi í hluta greiðslunnar einnig falist gjöf Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., í skilningi 131. gr. laga sömu laga. Að lokum telji stefnandi að almenna riftunarreglan í 141. gr. laganna taki til greiðslunnar.
Stefnandi byggi á því að í framangreindri greiðslu hafi falist gjöf Sigurplasts ehf. til stefnda að fjárhæð 466.566 krónur og krefjist hann þess að þeirri fjárhæð verði rift á grundvelli 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991. Greiðslan hafi verið notuð til þess að greiða fyrir vörukaup Sigurplasts ehf. af stefnda sama dag. Meðal þeirra viðskipta hafi verið kaup Sigurplasts ehf. á 5.400 einingum af „tappa 61mm klór“ frá stefnda fyrir samtals 774.204 krónur. Sigurplast ehf. hafi áður keypt inn sömu vörur og hafi þá greitt 307.638 krónur fyrir sama magn. Eins og áður hafi komið fram hafi stefnda verið skotið inn í viðskipti Sigurplasts ehf. sem millilið án þess að fyrir því liggi einhver rökræn skýring. Mismunurinn á kaupverði Sigurplasts ehf. frá stefnda og því verði sem félagið hafi áður keypt vörurnar á sé því áætlaður 466.566 krónur. Stefnandi byggi á því að í þessum mismun hafi falist gjöf Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf.
Greiðslan hafi átt sér stað á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag og öll önnur skilyrði riftunar samkvæmt 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 séu uppfyllt. Af gjöfinni hafi leitt að eignir stefnanda hafi rýrnað um mismuninn á kaupverði Sigurplasts ehf. á vörunum frá stefnda og því verði sem Sigurplast ehf. hafi áður keypt sömu vörur á, samtals að fjárhæð 466.566 krónur. Með gjöfunum hafi stefndi jafnframt auðgast um sömu fjárhæð. Þá sé ljóst að það þjóni engum viðskiptalegum eða rekstrarlegum tilgangi að skjóta þriðja aðila inn í viðskiptasambönd félags þannig að innkaupsverð þess á vörum hækki umtalsvert. Ráðstöfunin hafi því verið viðhöfð í gjafatilgangi. Beri því að rifta 466.566 krónum af framangreindri greiðslu Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf. á grundvelli 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991.
Þegar umrædd greiðsla, samtals að fjárhæð 2.833.670 krónur, hafi farið fram hafi Sigurplast ehf. verið byrjað að vanefna verulegar skuldbindingar sem fallið hafi í gjalddaga talsvert löngu áður en greiðslan til stefnda hafi átt sér stað, enda hafi félagið þá verið orðið ógjaldfært. Þrátt fyrir þetta hafi krafa stefnda vegna ráðstöfunarinnar verið greidd að fullu og þannig meðhöndluð með allt öðrum hætti en meginþorri skuldbindinga Sigurplasts ehf. Þá hafi krafan einnig verið meðhöndluð með öðrum hætti en meginþorri skuldbindinga Sigurplasts ehf. við stefnda, en þeir hafi ekki stundað staðgreiðsluviðskipti fram að þessari greiðslu. Af þeim sökum hafi skuld Sigurplasts ehf. við stefnda, K.B. Umbúðir ehf., verið greidd fyrr en eðlilegt hafi verið. Þá sé ráðstöfunin einnig riftanleg á grundvelli þess skilyrðis 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 að fjárhæðin hafi skert greiðslugetu þrotamannsins verulega. Beri því skv. 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 að rifta framangreindri greiðslu Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., samtals að fjárhæð 2.833.670 krónur.
Með sömu rökum og áður hafi komið fram séu öll skilyrði riftunar samkvæmt 141. gr. laga nr. 21/1991 uppfyllt hvað varði hluta ráðstöfunarinnar, þ.e. gjöf að fjárhæð 466.566 krónur, og beri því að rifta þeirri fjárhæð á grundvelli ákvæðisins.
Kröfuliður 25
Varðandi kröfulið nr. 25 telji stefnandi að í staðgreiðslu Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., þann 16. september 2010 að fjárhæð 843.360 krónur, vegna vörukaupa sama dag, hafi falist greiðsla fyrr en eðlilegt hafi verið í skilningi 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Þá hafi í hluta greiðslunnar einnig falist gjöf Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991. Að lokum telji stefnandi að almenna riftunarreglan í 141. gr. sömu laga taki til greiðslunnar.
Stefnandi byggi á því að í framangreindri greiðslu hafi falist gjöf Sigurplasts ehf. til stefnda að fjárhæð 454.160 krónur og krefjist þess að þeirri fjárhæð verði rift á grundvelli 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991. Greiðslan hafi verið notuð til að greiða fyrir vörukaup Sigurplasts ehf. af stefnda sama dag. Meðal þeirra viðskipta hafi verið kaup Sigurplasts ehf. á 8.000 einingum af „úðadælu m/hærri ró“ frá stefnda 16. september 2010 fyrir samtals 672.000 krónur. Sigurplast ehf. hafi áður keypt inn sömu vörur og hafi þá greitt 217.840 krónur fyrir sama magn. Eins og áður hafi komið fram hafi stefnda verið skotið inn í viðskipti Sigurplasts ehf. sem millilið án þess að fyrir því liggi einhver rökræn skýring. Mismunurinn á kaupverði Sigurplasts ehf. frá stefnda og því verði sem félagið hafi áður keypt vörurnar á sé 454.160 krónur. Stefnandi byggi á því að í þessum mismun hafi falist gjöf Sigurplasts ehf. til stefnda. Greiðslan hafi átt sér stað á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Öll önnur skilyrði riftunar samkvæmt 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 séu uppfyllt. Af gjöfinni hafi leitt að eignir stefnanda hafi rýrnað um mismuninn á kaupverði Sigurplasts ehf. á vörunum frá stefnda og því verði sem félagið hafi áður keypt sömu vörur á, samtals að fjárhæð 454.160 krónur. Með gjöfinni hafi stefndi jafnframt auðgast um sömu fjárhæð. Þá sé ljóst að það þjóni engum viðskiptalegum eða rekstrarlegum tilgangi að skjóta þriðja aðila inn í viðskiptasambönd félags þannig að innkaupsverð þess á vörum hækki umtalsvert. Ráðstöfunin hafi því verið viðhöfð í gjafatilgangi. Beri því að rifta 454.160 krónum af framangreindri greiðslu Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., á grundvelli 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991.
Þegar framangreind greiðsla, að fjárhæð 843.360 krónur, hafi farið fram hafi Sigurplast ehf. verið byrjað að vanefna verulegar skuldbindingar sem fallið hafi í gjalddaga talsvert löngu áður en greiðslan til stefnda, K.B. Umbúða ehf., hafi átt sér stað, enda hafi félagið þá verið orðið ógjaldfært. Þrátt fyrir þetta hafi krafa stefnda vegna ráðstöfunarinnar verið greidd að fullu og þannig meðhöndluð með allt öðrum hætti en meginþorri skuldbindinga Sigurplasts ehf. Þá hafi krafan einnig verið meðhöndluð með öðrum hætti en meginþorri skuldbindinga Sigurplasts ehf. við stefnda en þeir hafi ekki stundað staðgreiðsluviðskiptviðskipti fram að þessari greiðslu. Þá sé ráðstöfunin einnig riftanleg á grundvelli þess skilyrðis 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 að fjárhæðin hafi skert greiðslugetu þrotamannsins verulega. Samkvæmt þessu beri að rifta framangreindri greiðslu Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., að fjárhæð 843.360 krónur, sbr. 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991.
Með sömu rökum og áður hafi komið fram séu öll skilyrði riftunar samkvæmt 141. gr. laga nr. 21/1991 uppfyllt hvað varði hluta ráðstöfunarinnar, þ.e. gjöf að fjárhæð 454.160 krónur, og beri því að rifta þeirri fjárhæð á grundvelli ákvæðisins.
Kröfuliður 26
Kröfuliður nr. 26 sé reistur á kaupum Sigurplasts ehf. þann 16. september 2010 á 97.500 stk. af svokölluðum ROPP töppum á tveimur brettum af stefnda, K.B. Umbúðum ehf., fyrir 1.958.804 krónur. Í birgðabókhaldi Sigurplasts ehf. komi fram að 100.000 tappar á tveimur brettum hafi verið fluttir inn af Sigurplasti ehf. þann 5. júní 2009 fyrir 636.568 krónur. Samkvæmt upplýsingum starfsmanna Sigurplasts ehf. hafi þessir tappar ekki passað á neitt sem félagið hafi verið að selja. Þann 10. nóvember 2009 hafi verið færð 100.000 stk. birgðaminnkun á þessa tappa. Samkvæmt upplýsingum starfsmanna Sigurplasts ehf. hafi tapparnir verið fluttir til Viðarsúlu ehf. Samkvæmt framgreindu virðist Sigurplast ehf. hafa keypt sömu vörur af stefnda 16. september 2010 og félagið hafi flutt inn 5. júní 2009. Sigurplast ehf. hafi greitt fyrir kaupin daginn eftir, þann 17. september 2010. Stefnandi telji að í þessari ráðstöfun frá 17. september 2010 hafi falist gjöf Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991. Þá telji stefnandi að í framangreindri ráðstöfun hafi einnig falist greiðsla fyrr en eðlilegt hafi verið í skilningi 1. mgr. 134. gr. laganna. Að lokum telji stefnandi að almenna riftunarreglan í 141. gr. sömu laga taki til ráðstöfunarinnar.
Stefnandi byggi á því að framangreind greiðsla sé riftanlegur gjafagerningur samkvæmt 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991. Greiðslan hafi átt sér stað 17. september 2010 og hafi því verið afhent á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Öll önnur skilyrði riftunar samkvæmt ákvæðinu séu uppfyllt. Af ráðstöfununum hafi leitt að eignir stefnanda hafi rýrnað um samtals 1.958.804 krónur vegna kaupa á vörum sem stefnandi hafi þegar átt og hafi þar að auki verið ónothæfar. Með gjöfinni hafi stefndi fengið greiðslu frá Sigurplasti ehf. fyrir vörur sem hann hafi ekki með réttu átt. Með gjöfinni hafi stefndi því auðgast um kaupverð varanna, eða samtals um 1.958.804 krónur. Þá sé ljóst að það þjóni engum viðskiptalegum eða rekstrarlegum tilgangi að greiða fyrir ónothæfar vörur sem viðkomandi eigi nú þegar. Greiðsla fyrir vörurnar hafi því verið í gjafatilgangi. Beri því samkvæmt 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 að rifta framangreindum ráðstöfunum Sigurplasts ehf. til stefnda, að fjárhæð 1.958.804 krónur.
Þegar umrædd greiðsla, að fjárhæð 1.958.804 krónur, hafi farið fram hafi Sigurplast ehf. verið byrjað að vanefna verulegar skuldbindingar sem fallið hafi í gjalddaga talsvert löngu áður en ráðstöfunin til stefnda hafi átt sér stað, enda hafi félagið þá verið orðið ógjaldfært. Þrátt fyrir þetta hafi krafa stefnda vegna ráðstöfunarinnar verið greidd að fullu og þannig meðhöndluð með allt öðrum hætti en meginþorri skuldbindinga Sigurplasts ehf. Þá hafi krafan einnig verið meðhöndluð með öðrum hætti en meginþorri skuldbindinga félagsins við stefnda. Af þeim sökum hafi skuld félagsins við stefnda verið greidd fyrr en eðlilegt hafi verið. Þá sé ráðstöfunin einnig riftanleg á grundvelli þess skilyrðis 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 að fjárhæðin hafi skert greiðslugetu þrotamannsins verulega. Beri því samkvæmt 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 að rifta framangreindri greiðslu Sigurplasts ehf., að fjárhæð 1.958.804 krónur, til stefnda.
Með ráðstöfuninni hafi stefnandi greitt fyrir vörur sem hann hafi verið réttur eigandi að. Skilyrði 141. gr. laga nr. 21/1991 um ótilhlýðileika sé því uppfyllt. Beri að öðru leyti með vísan til fyrri röksemda að rifta framangreindri ráðstöfun á grundvelli þess ákvæðis.
Kröfuliður 27
Varðandi kröfulið nr. 27 telji stefnandi að í skuldajöfnuði frá 30. september 2010 milli Sigurplasts ehf. og stefnda, K.B. Umbúða ehf., að fjárhæð 1.635.328 krónur, hafi að hluta til falist gjöf Sigurplasts ehf. til stefnda í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991. Þá hafi í skuldajöfnuðinum einnig falist greiðsla fyrr en eðlilegt hafi verið og greiðsla í óvenjulegum greiðslueyri í skilningi 1. mgr. 134. gr. sömu laga. Að lokum telji stefnandi að almenna riftunarreglan í 141. gr. laganna taki til skuldajafnaðarins. Með framangreindum skuldajöfnuði hafi kröfu stefnda að fjárhæð 1.635.328 krónur, sem hafi stofnast 15. september 2010 með vörukaupum Sigurplasts ehf., verið skuldajafnað við kröfu félagsins á hendur stefnda frá 30. september 2010 að fjárhæð 1.694.250 krónur, vegna vinnu við lagerþjónustu í janúar til september 2010.
Stefnandi byggi á því að skuldajöfnuðurinn hafi ekki uppfyllt skilyrði skuldajafnaðar samkvæmt 100. gr. laga nr. 21/1991 og sé því riftanlegur á áðurgreindum grundvelli, sbr. 136. gr. laganna. Í fyrsta lagi hafi Sigurplast ehf. löngu verið orðið ógjaldfært þegar framangreindur skuldajöfnuður hafi farið fram og það hafi stefndi, K.B. Umbúðir ehf., mátt vita, enda nákominn þrotamanni. Þar af leiðandi hafi skilyrði 100. gr. laga nr. 21/1991, um að lánardrottinn hafi hvorki vitað né mátt vita að þrotamaðurinn ætti ekki fyrir skuldum, ekki verið uppfyllt. Í öðru lagi sjáist á bókhaldi Sigurplasts ehf. að krafa stefnda, sem notuð hafi verið til að skuldajafna við kröfur Sigurplast ehf., hafi orðið til á síðustu þremur mánuðum fyrir frestdag og skilyrði skuldajafnaðar sé þegar af þeim ástæðum ekki uppfyllt. Í þriðja lagi telji stefnandi að ekki sé uppfyllt skilyrði ákvæðisins um að stefndi hafi ekki fengið kröfu sína til að skuldajafna. Stefnandi telji augljóst að krafa stefnda hafi eingöngu verið stofnuð í þeim tilgangi að skuldajafna, enda sé fjárhæð krafnanna nánast hin sama.
Stefnandi byggi á því að í skuldajöfnuðinum frá 30. september 2010 hafi falist gjöf Sigurplasts ehf. til stefnda að fjárhæð 560.575 krónur. Stefnandi krefjist þess að þeirri fjárhæð verði rift á grundvelli 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991. Skuldajöfnuðurinn hafi verið notaður til að greiða fyrir vörukaup Sigurplasts ehf. af stefnda sama dag. Meðal þeirra viðskipta hafi verið kaup á 8.500 einingum af „úðadælu m/hærri ró“ frá stefnda fyrir samtals 792.030 krónur. Sigurplast ehf. hafi áður keypt inn sömu vörur og hafi þá greitt 231.455 krónur fyrir sama magn. Stefnda hafi verið skotið inn í viðskipti Sigurplasts ehf. sem millilið, án þess að fyrir því liggi einhver rökræn skýring. Mismunurinn á kaupverði Sigurplasts ehf. frá stefnda og því verði sem félagið hafi áður keypt vörurnar á sé því áætlaður 560.575 krónur. Stefnandi byggi á því að í þessum mismun hafi falist gjöf Sigurplasts ehf. til stefnda.
Skuldajöfnuðurinn hafi átt sér stað á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag og öll önnur skilyrði riftunar samkvæmt 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 séu uppfyllt. Af gjöfinni hafi leitt að eignir stefnanda hafi rýrnað um mismuninn á kaupverði Sigurplasts ehf. á vörunum frá stefnda og því verði sem félagið hafi áður keypt sömu vörur á, samtals að fjárhæð 560.575 krónur. Með gjöfinni hafi stefndi jafnframt auðgast um sömu fjárhæð. Þá sé ljóst að það þjóni engum viðskiptalegum eða rekstrarlegum tilgangi að skjóta þriðja aðila inn í viðskiptasambönd félags þannig að innkaupsverð þess á vörum hækki umtalsvert. Ráðstöfunin hafi því verið viðhöfð í gjafatilgangi. Beri af þeim sökum að rifta 560.575 krónum af framangreindum skuldajöfnuði milli Sigurplasts ehf. og stefnda, K.B. Umbúða ehf., á grundvelli 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991.
Þegar framangreindur skuldajöfnuður hafi farið fram hafi Sigurplast ehf. verið byrjað að vanefna verulegar skuldbindingar sem fallið hafi í gjalddaga talsvert löngu áður en kröfum stefnda hafi verið skuldajafnað við kröfu Sigurplasts ehf., enda hafi félagið þá verið orðið ógjaldfært. Þrátt fyrir þetta hafi kröfur stefnda verið greiddar að fullu með skuldajöfnuði og þannig meðhöndlaðar með allt öðrum hætti en meginþorri skuldbindinga Sigurplasts ehf. Af þeim sökum hafi skuldir Sigurplasts ehf. við stefnda verið greiddar fyrr en eðlilegt hafi verið í skilningi 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Þá sé til þess að líta að Sigurplast ehf. hafi greitt kröfu stefnda með kröfu sinni á hendur honum sem hafi verið til komin vegna vinnu við lagerþjónustu í janúar til september 2010. Þannig sé ljóst að stefndi hafi í reynd fengið skuld Sigurplasts ehf. við sig greidda með þjónustu. Ekki sé til að dreifa gögnum sem sýni fram á að samið hafi verið fyrir fram um að viðskiptum milli aðila skyldi háttað á þennan veg. Þá fáist heldur ekki séð að þessi háttur viðskiptanna eigi sér hliðstæðu í viðskiptum Sigurplasts ehf. við aðra aðila. Stefnandi telji að líta verði svo á að í skuldajöfnuðinum milli Sigurplasts ehf. og stefnda, K.B. Umbúða ehf., hafi einnig falist greiðsla í óvenjulegum greiðslueyri í skilningi 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Beri því að rifta framangreindum skuldajöfnuði að fjárhæð 1.635.328 krónur á grundvelli framangreinds ákvæðis.
Áðurnefnd skilyrði riftunar samkvæmt 141. gr. laga nr. 21/1991 séu uppfyllt, sbr. áður fram komin rök vegna ákvæðisins, hvað varði framangreinda ráðstöfun að fjárhæð 1.635.328 krónur og beri að rifta henni á grundvelli ákvæðisins.
Ógjaldfærni stefnanda
Stefnandi byggi á því að Sigurplast ehf. hafi verið ógjaldfært þegar hinir riftanlegu gerningar hafi átt sér stað. Þrátt fyrir að stefndi, K.B. Umbúðir ehf., beri sönnunarbyrðina fyrir gjaldfærni Sigurplasts ehf. þegar beita eigi ákvæði 141. gr. laga nr. 21/1991 vilji stefnandi benda á ýmis atriði sem sýni að Sigurplast ehf. hafi ekki verið gjaldfært þegar framangreindar ráðstafanir hafi farið fram. Á þeim tíma hafi eignir Sigurplasts ehf. verið minni en skuldir félagsins, auk þess sem fyrirséð hafi verið að félagið gæti ekki greitt skuldir sínar þegar þær féllu í gjalddaga.
Endurskoðunarfyrirtækið Ernst & Young hf. hafi verið fengið til að kanna ítarlega bókhald Sigurplasts ehf. og rannsaka rekstur félagsins frá árinu 2007 til úrskurðardags 30. september 2010. Meðal þess sem kannað hafi verið hafi verið hvenær félagið hefði orðið ógjaldfært. Eftir útkomu skýrslu Ernst & Young hf. 31. janúar 2011 hafi viðskiptabanki félagsins, Arion banki hf., fallist á endurútreikning lána félagsins í erlendum myntum á grundvelli 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þess hafi því verið farið á leit við Ernst & Young hf. að gera nýja rannsókn vegna sama tímabils sem byggði á áhrifum endurútreiknings langtímaskulda félagsins á ógjaldfærni þess. Í niðurstöðum skýrslu Ernst & Young hf. frá 14. október 2011 komi fram að þeir telji Sigurplast ehf. hafa verið komið í veruleg fjárhagsleg vandræði í byrjun árs 2008, sem sé sama niðurstaða og í fyrri skýrslunni. Þá hafi verið ljóst í hvað stefndi, þannig að félagið myndi ekki geta staðið við skuldbindingar sínar og að það hafi ekki verið líklegt að úr rættist um fjárhag þess í náinni framtíð, nema með niðurfellingu og/eða eftirgjöf skulda. Þannig hafi Sigurplast ehf. verið orðið ógjaldfært á fyrstu mánuðum ársins 2008.
Í skýrslunni komi m.a. fram að að teknu tilliti til endurútreikninga lána félagsins hafi eigið fé verið 24,3 milljónir króna í árslok 2007 og eiginfjárhlutfall 5,3%. Í árslok 2008 hafi eigið fé verið neikvætt um 92,3 milljónir króna og eiginfjárhlutfall hafi verið neikvætt. Sjóðstreymi (EBITDA) félagsins á árunum 2007 og 2008 hefði ekki dugað til að standa skil á vaxtagreiðslum eftir endurútreikning erlendra lána. Nettóstaða handbærs fjár félagsins hafi verið neikvæð um 1,1 milljón króna í árslok 2007 og um rúmar 55,5 milljónir króna í lok árs 2008. Heildarskuldir hafi verið tvöfalt hærri en seljanlegar eignir á tímabilinu janúar 2008 til september 2010.
Hinir riftanlegu gerningar hafi allir átt sér stað fáeinum mánuðum áður en félagið hafi óskað eftir gjaldþrotaskiptum. Félagið hafi þá fyrir löngu verið byrjað að vanefna skuldbindingar sínar. Eignir þess hafi þá verið miklum mun minni en skuldir og fyrirséð að félagið gæti ekki greitt skuldir sínar þegar þær féllu í gjalddaga. Af framangreindu sé ljóst að Sigurplast ehf. hafi verið orðið ógjaldfært þegar hinir riftanlegu gerningar hafi átt sér stað.
Stefndi, K.B. Umbúðir ehf., nákominn stefnanda, skv. 3. gr. laga nr. 21/1991
Stefnandi byggi á því að stefndi, K.B. Umbúðir ehf., sé nákominn stefnanda í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991. Sé þar sérstaklega vísað til 4.-6. tl. ákvæðisins. Stefndi hafi skrifað reikninga sína úr reikningakerfi Viðarsúlu ehf., sem hafi verið staðsett á starfsstöð Sigurplasts ehf. á árinu 2010 og nátengt félaginu. Enn þann dag í dag sé starfsstöð stefnda sú sama og Viðarsúlu ehf. Þá muni Kjartan H. Bragason, stjórnarformaður stefnda, vera starfsmaður Viðarsúlu ehf. Þau viðskipti milli félaganna sem lýst hafi verið veiti ein og sér löglíkur fyrir því að félögin hafi verið nátengd, enda engar viðskiptalegar eða rekstrarlegar forsendur á bak við þau.
Krafa um greiðslu úr hendi stefnda, K.B. Umbúða ehf.
Stefnandi byggi kröfu sína um greiðslu 15.959.518 króna úr hendi stefnda, K.B. Umbúða ehf., á 1. og 3. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991. Í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 segi að í kjölfar riftunar með stoð í 131.–138. gr. skuli sá sem hafði hag af riftanlegri ráðstöfun eða fullnustugerð greiða þrotabúinu fé sem svari til þess sem greiðsla þrotamannsins hafi orðið riftunarþolanum að notum. Þó skuli ekki greiða hærri fjárhæð en sem nemi tjóni þrotabúsins. Af þessu leiði að ef fallist verður á riftun ráðstafana samkvæmt 131., 134. eða 136. gr. laga nr. 21/1991, líkt og stefnandi krefjist, eigi stefnandi rétt á að krefja stefnda um endurgreiðslu á auðgun hans, en tjón stefnanda sé það sama. Ef talið verði að 141. gr. laga nr. 21/1991 eigi við um riftun greiðslunnar beri stefnda að endurgreiða þá fjárhæð sem hann hafi auðgast um vegna greiðslunnar á grundvelli 3. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991, enda hafi stefndi, K.B. Umbúðir ehf., verið grandsamur um riftanleika hennar.
Auðgun stefnda, K.B. Umbúða ehf., hafi annars vegar falist í þeim gjöfum sem Sigurplast ehf. hafi ráðstafað til hans og hins vegar í fullum greiðslum á kröfum sínum gagnvart félaginu sem hefðu orðið almennar kröfur í þrotabúið ef ekki hefði verið fyrir hina riftanlegu ráðstöfun. Um leið felist tjón stefnanda í rýrnun á eignum búsins vegna hinna riftanlegu ráðstafana Sigurplasts ehf. til stefnda. Verði fallist á riftun framangreindra ráðstafana beri stefnda, K.B. Umbúðum ehf., að endurgreiða stefnanda þá fjárhæð sem hann hafi orðið af svo hún geti staðið öllum kröfuhöfum þrotabúsins til fullnustu.
Rakni ráðstafanir, aðrar en peningagreiðslur, við vegna riftunar þeirra byggi stefnandi kröfu sína um endurgreiðslu einnig á meginreglum samninga- og kröfuréttar um skuldbindingagildi loforða. Verði ekki fallist á endurgreiðslu þeirra á grundvelli 142. gr. laga nr. 21/1991 beri stefnda, K.B. Umbúðum ehf., þannig t.d. að greiða kröfur stefnanda, sem notaðar hafi verið til að skuldajafna við kröfur stefnda, K.B. Umbúðir ehf., enda séu þær fyrir löngu orðnar gjaldkræfar.
Krafa um greiðslu skaðabóta úr hendi stefndu, Sigurðar og Jóns Snorra
Stefnandi byggi jafnframt á því að stefndu, Sigurður og Jón Snorri, beri óskipta ábyrgð með stefnda, K.B. Umbúðum ehf., á greiðslu 9.288.158 króna, af 15.959.518 krónum sem stefndi, K.B. Umbúðir ehf., sé krafinn um, á grundvelli 1. mgr. 108. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög og almennra reglna skaðabótaréttar, einkum sakarreglunni. Við gjaldþrotaskiptin hafi stefnandi eignast skaðabótakröfur Sigurplasts ehf. á hendur stjórnarmanni og framkvæmdastjóra félagsins, sbr. XII. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Krafan sé reist á því að stefndu, Sigurður og Jón Snorri, hafi, sem framkvæmdastjóri og stjórnarformaður Sigurplasts ehf., vitað eða mátt vita um eftirfarandi ráðstafanir og að þær myndu valda Sigurplasti ehf. tjóni:
-
Ráðstöfun Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., þann 21. apríl 2010 að fjárhæð 158.175 krónur;
-
Ráðstöfun Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., þann 21. apríl 2010 að fjárhæð 135.033 krónur;
-
Ráðstöfun Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., þann 21. apríl 2010 að fjárhæð 413.918 krónur;
-
[...]
-
Ráðstöfun Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., þann 21. apríl 2010 að fjárhæð 739.383 krónur;
-
Ráðstöfun Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., þann 21. apríl 2010 að fjárhæð 51.233 krónur;
-
Ráðstöfun Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., þann 21. apríl 2010 að fjárhæð 162.675 krónur;
-
Ráðstöfun Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., þann 21. apríl 2010 að fjárhæð 26.408 krónur;
-
Ráðstöfun Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., með skuldajöfnuði þann 30. apríl 2010 að fjárhæð 201.825 krónur;
-
Ráðstöfun Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., þann 17. maí 2010 að fjárhæð 65.886 krónur;
-
Gjöf Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., að fjárhæð 60.599 krónur sem fólst í skuldajöfnuði þann 20. maí 2010 að fjárhæð 2.000.000 krónur.
-
Ráðstöfun Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., þann 3. júní 2010 að fjárhæð 100.000 krónur;
-
Ráðstöfun Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., þann 9. júní 2010 að fjárhæð 750.000 krónur;
-
Ráðstöfun Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., þann 9. júní 2010 að fjárhæð 200.000 krónur;
-
Ráðstöfun Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., þann 23. júní 2010 að fjárhæð 2.734.503 krónur;
-
Gjöf að fjárhæð 466.566 krónur í ráðstöfun Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., þann 19. júlí 2010 að fjárhæð 2.833.670 krónur;
-
Ráðstöfun Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., þann 10. september 2010 að fjárhæð 48.415 krónur;
-
Gjöf að fjárhæð 454.160 krónur í ráðstöfun Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., þann 16. september 2010 að fjárhæð 843.360 krónur:
-
Ráðstöfun Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., þann 17. september 2010 að fjárhæð 1.958.804 krónur.
-
Gjöf að fjárhæð 560.575 krónur í ráðstöfun Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., með skuldajöfnuði þann 30. september 2010 að fjárhæð 1.635.328 krónur.
Stefnandi telji ljóst að stefndu, Sigurður og Jón Snorri, hafi brotið gegn skyldum sínum sem stjórnendur Sigurplasts ehf. Þeir hafi sýnt af sér bótaskylda vanrækslu og/eða tekið ákvarðanir varðandi þá gerninga sem fjallað sé um að framan, án þess að hafa hagsmuni félagsins að leiðarljósi. Þá sé ljóst að stefndu hafi með umræddum ákvörðunum brotið gegn 51. gr. laga nr. 138/1994, enda hafi ráðstafanirnar klárlega verið til þess fallnar að afla öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað félagsins.
Skilyrði fyrir skaðabótaábyrgð stefndu, Sigurðar og Jóns Snorra, sem lúti að huglægri afstöðu þeirra séu uppfyllt, en telja verði háttsemi þeirra í það minnsta fela í sér gáleysi, ef ekki ásetning. Stefndu hafi þannig sýnt af sér saknæma háttsemi og einnig ólögmæta, enda hafi þeir valdið félaginu tjóni með ólöglegri og skaðlegri háttsemi. Orsakatengsl séu milli tjóns Sigurplasts ehf. og ólögmætra athafna og/eða athafnaleysis stefndu. Tjón félagsins sé einnig sennileg afleiðing athafna og/eða athafnaleysis þeirra. Með vísan til framangreinds beri stefndu, Sigurður og Jón Snorri, skaðabótaábyrgð á því tjóni sem Sigurplasti ehf. hafi verið valdið með framangreindum ráðstöfunum. Þeir beri því óskipta ábyrgð með stefnda, K.B. Umbúðum ehf., á greiðslu 9.288.158 króna sem svari til tjóns stefnanda vegna framangreindra ráðstafana.
Málshöfðunarfrestur o.fl.
Bú Sigurplast ehf. hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta 30. september 2010. Kröfulýsingarfresti í búið hafi lokið 11. desember 2010. Samkvæmt 2. mgr. 194. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 1. gr. laga nr. 31/2010, sé málshöfðunarfrestur samkvæmt XX. kafla laganna tólf mánuðir frá því skiptastjóri hafi átt þess kost að gera riftunarkröfu. Fresturinn byrji þó aldrei að líða fyrr en við lok kröfulýsingarfrests. Málshöfðun þessi sé því vel innan marka sem kveðið sé á um í 148. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 2. mgr. 194. gr. laganna og 1. gr. laga nr. 31/2010.
Stefnandi krefjist dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 26. maí 2011, þ.e. mánuði frá því stefnandi hafi krafið stefnda um greiðslu með kröfubréfi, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.
Málskostnaðarkrafa stefnanda eigi sér stoð í 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um varnarþing vísist til 1. mgr. 32. gr., 1. mgr. 33. gr. og 1. mgr. 42. gr. sömu laga, um samlagsaðild til 1. mgr. 19. gr. og um kröfusamlag til 1. mgr. 27. gr. laganna.
III
Sýknukrafa stefndu er m.a. reist á því að Sigurplast ehf. hafi verið gjaldfært á þeim tíma er um ræði. Arion banki hf. hafi gjaldfellt rekstrarlán Sigurplasts ehf., sem hafi verið í skilum frá lántökudegi. Bankinn hafi viljað þvinga eigendur félagsins til að gangast við ólöglegum erlendum lánum. Rekstrarfyrirgreiðsla viðskiptabanka félagsins hafi fallið niður á sama tíma og erlendir birgjar hafi krafist staðgreiðslu frá íslenskum fyrirtækjum eftir hrun. Lausafjárstaða félagsins hafi ekki leyft sömu umsvif í innflutningi og áður, en hann hafi verið aðalástæða veltuaukningar félagsins milli ára. Allir fjármunir félagsins hafi farið til greiðslu hráefna og annars kostnaðar við að halda verksmiðju gangandi. Skaði Sigurplasts ehf. sé því til kominn vegna aðgerða Arion banka hf. en ekki vegna eigenda og stjórnenda félagsins. Unnið hafi verið hart að því að tryggja rekstur verksmiðjunnar og bjarga verðmætum. Þegar tekið hafi verið tillit til þess að erlend lán félagsins hafi reynst ólögleg hafi eigið fé félagsins verið jákvætt. Reksturinn hafi verið í mjög góðu jafnvægi og félagið skilað mjög jákvæðri afkomu fyrir fjármagnsliði.
Í skýrslu endurskoðunarfyrirtækisins Ernst & Young hf. frá ársbyrjun 2010 komi ekki fram að félagið sé ógjaldhæft. Lánveitingar Arion banka hf. á árinu 2008 bendi heldur ekki til þess, þó svo að bókfært virði hafi verið neikvætt. Á þeim tíma hafi ekki verið búið að dæma gengislán ólögmæt. Þetta staðfesti að félagið hafi verið að fullu gjaldhæft, metið út frá fjárflæði, en ekki bókfærðu mati eigin fjár, sem sé sú aðferð sem almennt sé lögð til grundvallar. Í skýrslunni sé sérstaklega vikið að því að áætlanir hafi alltaf staðist og þess vegna sé félagið í góðum málum með áframhaldandi vexti tekna og afkomu og kostnaðarhlutföll séu öll að lækka. Skýrslan beri þessu glöggt vitni, en hún lýsi rekstri og horfum á árunum 2007 til 2011.
Í skýrslunni komi m.a. fram að mikil aukning hafi verið á veltu rekstrarárin 2007 og 2008. Heildarvelta félagsins hafi aukist um 180 milljónir króna milli ára eða úr 131 milljón króna árið 2007 í 310 milljónir króna árið 2008. Þá segi að gert sé ráð fyrir því að veltan verði um 400 milljónir króna árið 2009 og að hún verði komin í um 460 milljónir króna árið 2011. Áætlað sé að EBITDA nái um 50 milljónum króna árið 2009, um 63,5 milljónum króna árið 2010 og um 71 milljón króna árið 2011. Gert sé ráð fyrir að frjálst sjóðsflæði verði um 36,2 milljónir króna árið 2010 og um 54 milljónir króna árið 2011. Hvergi í skýrslunni sé efast um forsendur áætlana, en frekar vikið að því hve varkárar þær séu og lögð blessun yfir áreiðanleika þessara gagna. Framlegð sé áætluð 45% en núllpunktur sé við 30%. Af umfjöllun um skuldsetningu félagsins sé ljóst að neikvæð eiginfjárstaða sé eingöngu reikningsfærsla vegna útreiknings á erlendum lánum, en með afnámi ólögmætra erlendra lána væri staða félagsins sterk og félagið fullfært um að standa við skuldbindingar sínar. Fram komi að veltufé frá rekstri sé jákvætt um annars vegar 14,3 milljónir króna og hins vegar 10 milljónir króna fyrir árin 2007 og 2008 og handbært fé sé í árslok, bæði árin. Frjálst sjóðstreymi sé 7 milljónir króna fyrir árið 2008, 55 milljónir króna fyrir árið 2009, 36 milljónir króna fyrir árið 2010 og loks 54 milljónir króna fyrir árið 2011.
Í skýrslunni komi fram að stærstu birgjar Sigurplasts ehf. væru almennt ekki mjög mikilvægir fyrir áframhaldandi rekstur þar sem hægt væri að fá þessar vörur hjá fleiri aðilum. Félagið hafi engin einkaumboð lengur hjá neinum birgjum og njóti ekki neinna sérkjara, aðeins almennra kjara. Þá segi að almennur greiðslufrestur hafi í ljósi aðstæðna fallið niður eða styst verulega gagnvart flestum viðskiptavinum. Þetta eigi sérstaklega við um erlenda viðskiptamenn þar sem greiðslufrestur sé enginn. Það eigi því ekki við rök að styðjast að umboð hafi verið tekin frá félaginu.
Framangreind skýrsla hafi verið afhent Arion banka hf. Endurskoðunarfyrirtækið Ernst & Young hf. hafi með henni gefið stöðu félagsins og rekstri bestu meðmæli fyrir 2009 og talið horfur góðar fyrir árið 2010. Í kjölfarið, í febrúar 2010, hafi bankinn gert tillögu um 300 milljón króna skuldastöðu og viljað eignast 80% félagsins, en eignarhald bankans hafi verið 33%. Varla geti verið að bankinn hafi metið félagið ógjaldhæft á þessum tíma í ljósi ofangreindrar skýrslu.
Eftir gjaldþrot Sigurplasts ehf. hafi Ernst & Young hf. skilað nýrri skýrslu í ársbyrjun 2011. Það sé meginforsenda skýrslunnar að Sigurplast ehf. hafi skuldað 1.100 milljónir króna og verið ógjaldfært frá árinu 2008 vegna uppreiknings erlendra lána, þrátt fyrir að þá hafi legið fyrir dómar Hæstaréttar um ólögmæti lánanna. Niðurstaða skýrslunnar sé sú að félagið sé ógjaldhæft og hafi verið það nánast frá upphafi. Byggt sé á bókfærðu virði eigna og skulda. Árinu áður hafi Ernst & Young hf. hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að rekstur félagsins væri góður og framtíð félagsins björt samkvæmt hefðbundnum og viðurkenndum aðferðum um greiðslu- og gjaldhæfi. Þá hafi, í framhaldi af dómi Hæstaréttar í júní 2010, verið sett lög sem staðfest hafi 300 milljóna króna skuldastöðu félagsins, en Arion banki hf. hafi nokkrum mánuðum áður talið félagið geta staðið undir þeirri skuld. Við gerð skýrslunnar hafi ekki verið leitað skýringa hjá eigendum félagsins. Vinnubrögð Ernst & Young hf. við gerð skýrslunnar séu félaginu til vansa. Ekki standi steinn yfir steini í röksemdafærslu og málatilbúnaði í skýrslunni og útreikningum sé hagrætt að vild. Fram komi í skýrslunni að félagið hafi verið í skilum við bankann og samið hafi verið um lánamál. Varðandi samanburð eigna og skulda við mat á ógjaldhæfi sé rétt að vitna til álits réttarfarsnefndar um að eignastaða gagnstætt skuldum hafi minna vægi. Ógreiðslufærni félagsins hafi verið tímabundin.
Skiptastjóri hafi óskað nýrrar skýrslu frá Ernst & Young hf. þar sem lánin séu endurútreiknuð með óverðtryggðum vöxtum eins og lög hafi kveðið á um. Þetta hafi verið gert, en þó hafi ekki verið gerð frekari grein fyrir endurútreikningnum. Skuldastaðan hafi farið úr 1.100 milljónum króna í rúmar 300 milljónir króna. Niðurstaða skýrslunnar frá hausti 2011 hafi verið sú að félagið hafi þrátt fyrir þetta verið ógjaldhæft. Stefndu telji skýrsluna byggja á röngum forsendum og útreikningum. Þá sé hún í andstöðu við fyrstu skýrsluna frá árinu 2010.
Í þessari síðastgreindu skýrslu séu áhrif gengismunar felld út og reiknaðir vextir til gjalda langt umfram t.d. dráttarvexti til þess að gera eigið fé neikvætt. Greiddir vextir áranna 2007 og 2008 séu færðir út úr rekstri og reiknaðir nýir og hærri innlendir vextir, þrátt fyrir að félagið hafi verið í skilum og fyrir liggi dómur Hæstaréttar sem geri slíka útreikninga ólögmæta. Í engu sé tekið tillit til þessa, enda bresti þá allar forsendur fyrir niðurstöðu skýrslunnar.
Í ársbyrjun 2012 hafi verið kveðinn upp dómur í Hæstarétti um að ekki megi reikna óverðtryggða vexti á lán eins og Sigurplast ehf. hafi verið með. Staða skulda félagsins hafi því enn verið rúmlega 300 milljónir króna. Það liggi því fyrir að félagið hafi allan tímann verið gjaldhæft. Sú niðurstaða byggist á tveimur Hæstaréttadómum um réttan útreikning á skuldastöðu og vöxtum. Séu raunverulegar tölur fyrir utan gengismun í vaxtagjöldum skoðaðar, með sama hætti og gert hafi verið í skýrslunni með óverðtryggðu vextina, komi í ljós að vaxtagreiðslur nemi 17 milljónum króna fyrir árið 2007 og 41 milljón króna fyrir árið 2008 eða samtals 58 milljónum króna en ekki 162 milljónum króna eins og fram komi í lokaskýrslunni. Á þessu byggist fullyrðing Ernst & Young hf. um það að eigið fé sé neikvætt, sem verði síðan aðalforsenda fullyrðingar um ógjaldhæfi. Þannig muni rúmum 100 milljónum króna. Að teknu tilliti til þessara stærða sé félagið með jákvætt bókfært eigið fé í árslok 2008. Að engu sé vikið að útreikningum fyrir 2009, en þá sé EBITDA jákvæð um 53 milljónir króna. Áætlanir fyrir árið 2010 hafi verið 63 milljónir króna og 70 milljónir króna fyrir árið 2011. Félagið hafi greitt 7 milljónir króna í vexti árið 2007 og tæpar 18 milljónir króna árið 2008. Þetta hafi allt komið fram í fyrstu skýrslunni.
Við kaup á Sigurplasti ehf. hafi virði félagsins verið metið út frá frjálsu fjárflæði, en ekki bókfærðu verði eigna og skulda, enda sé það ávallt lagt til grundvallar við alla útreikninga á virði, þar sem fyrirtæki séu metin, þ.e. út frá því verðmæti sem þau skapi. Þannig hafi virðismat bankans við kaupin og fjármögnun þess tekið tillit til þessara forsendna. Við kaupin hafi óefnislegar eignir félagsins verið 220 milljónir króna og virði félagsins verið metið um 350 milljónir króna. Ernst & Young hf. leggi þessa viðurkenndu matsaðferð til hliðar og kjósi þess í stað að leggja til grundvallar að bókfærðar eignir dugi ekki fyrir skuldum. Um mjög óvenjulega leið sé að ræða.
Umsvif Sigurplasts ehf. hafi aukist á árunum 2007 og 2008, en veltan hafi tvöfaldast, úr 131 milljón króna í 310 milljónir króna. Við það hafi reynt mjög á greiðsluflæði þar sem velta hafi tekið til sín aukið fjármagn, þannig að lagerar og viðskiptakröfur hafi tvöfaldast. Þetta hafi allt verið gert með samþykki og vitund Arion banka hf., enda hafi hann átt mann í stjórn félagsins og fengið allar upplýsingar um reksturinn. Þá hafi allt sem staðið hafi fyrir dyrum verið bókað á stjórnarfundum. Ef félagið hefði verið ógjaldhæft hefði bankinn ekki verið að skoða nýja 40 milljóna króna lánveitingu til félagsins á haustmánuðum 2008. Lánið hafi verið hugsað til að fjármagna aukin umsvif félagsins. Enginn banki hefði tekið í mál að lána félagi sem hann teldi ekki geta greitt af lánum. Mikill munur sé á því hvort bankar fjármagni tap eða vöxt. Ástæðan sé sú, eins og fram hafi komið í fyrstu skýrslunni, að allar áætlanir sem settar hafi verið fram við kaupin hafi staðist og rúmlega það, þrátt fyrir gífurlega erfið ytri skilyrði.
Hafa þurfi í huga að skuldastaða félagsins árið 2007 hafi verið um 2,7 ársveltur, fyrir árið 2008 um 1,2 ársveltur og fyrir árið 2009 1,08 ársveltur. Félagið hafi staðið undir tæpri 500 milljón króna skuld. Það sé byggt á skuldaþekju, þ.e. sjóðstreymi úr rekstri til greiðslu vaxta og afborgana lána. Sú tala sé að meðaltali yfir 1,2, sem skýrsluhöfundar Ernst & Young hf. hafi staðfest í fyrstu skýrslu sinni sem mjög raunhæfa. Virðismat á félaginu miðað við mat á frjálsu fjárflæði gefi virði langt umfram ofangreinda skuldastöðu. Virðið hafi verið 350 milljónir króna þegar velta hafi verið 150 milljónir króna við kaupin árið 2007, en á árinu 2009 hafi veltan verið 370 milljónir króna.
Til einföldunar sé sett fram tafla er sýni að eigið fé félagsins hafi verið jákvætt miðað við þá hæstaréttardóma sem hafi fallið að undanförnu um ólögmæti gengislána og vaxtaútreikninga:
2007 2008 2009
|
Eigið fé ársbyrjun |
66.900 |
56.655 |
51.083 |
|
Tap skv. rekstarreikningi |
28.882 |
566.669 |
84.325 |
|
Gengismunur ólöglegra lána færður út |
18.637 |
552.581 |
38.064 |
|
-10.245 |
-14.088 |
-46.261 |
|
|
Vextir ólöglegra lána færðir út |
0 |
25.666 |
50.950 |
|
Samningsvextir gengisbundinna lána færðir inn |
0 |
-17.150 |
-18.463 |
|
Leiðrétt tap ársins |
-10.245 |
-5.572 |
-13.774 |
|
Eigið fé í árslok |
56.655 |
51.083 |
37.309 |
Innflutningur Sigurplasts ehf. hafi minnkað þegar rekstrarfyrirgreiðsla viðskiptabanka félagsins hafi fallið niður, á sama tíma og erlendir birgjar hafi krafist staðgreiðslu frá íslenskum fyrirtækjum eftir hrun. Aðgerðir Arion banka hf., að fella fyrirvaralaust niður rekstrarlán, hafi leitt til vanskila við hráefnisbirgja, sem hafi hætt að lána félaginu og fært það yfir í staðgreiðslu. Útstreymi á vormánuðum 2010 vegna þessa hafi verið 10 til 12 milljónir króna. Aðgerðir bankans í málum Mjallar hafi aukið vanda félagsins um 16 milljónir króna. Lausafjárstaða félagsins hafi því ekki leyft sömu umsvif í innflutningi og áður. Til að verja hagsmuni Sigurplasts ehf. hafi félagið leitað til stefnda, K.B. Umbúða ehf., um að það félag myndi flytja inn og greiða fyrir þessar vörur og stefndi myndi selja Sigurplasti ehf. jafnharðan og sala til viðskiptavinar ætti sér stað. Sigurplast ehf. hafi ekki aðeins fengið framlegð af þessum viðskiptum, heldur haldið viðskiptavild sinni gagnvart viðskiptavinum sínum. Það sé öllum ljóst sem eitthvað þekki til vöruskipta að ábati stefnda, K.B. Umbúða ehf., hefði orðið meiri ef hann hefði selt vörurnar beint. Sigurplast ehf. hafi selt allar þessar vörur jafnharðan fyrir hærra verð en það hafi keypt þær á.
Öll vörukaup stefnda, K.B. Umbúða ehf., af Sigurplasti ehf. hafi verið til ábata fyrir Sigurplast ehf. Vörurnar hafi verið seldar fyrir hærra verð en þær hafi verið keyptar á. Þannig hafi félagið fengið af þeim góða framlegð og fyrir þær hafi verið greitt skilvíslega.
Ásökun um tilhæfulausa reikninga frá stefnda, K.B. Umbúðum ehf., sé hafnað. Reikningar þessir séu til komnir vegna húsaleigu fyrir fasteignina að Völuteigi 6, 270 Mosfellsbæ.
Eins og áður hafi komið fram hafi Sigurplast ehf. ekki haft fjármuni til að stunda innflutning í sama mæli og áður. Til að bæta lausafjárstöðu félagsins hafi vörur verið seldar með miklum afslætti gegn staðgreiðslu. Það hafi gilt um öll viðskipti á þessum tíma, ekki einungis til stefnda, K.B. Umbúða ehf. Þær vörur sem keyptar hafi verið af stefnda hafi félagið ekki haft bolmagn til að flytja inn. Til þess að verja viðskiptahagsmuni og viðskiptasambönd hafi þær vörur sem Sigurplast ehf. hafi mest þurft á að halda verið keyptar inn. Þær hafi yfirleitt verið seldar fyrir fram og því ekki setið inni á lagerum Sigurplasts ehf. Með þessu hafi verksmiðjan verið varin og þær innfluttu vörur sem tengdust framleiðslu, en mismunur á framlegð skýrist af nokkrum þáttum. Félagið hafi verið að verja stóra viðskiptavini sem ekki hafi borgað mikið fyrir innflutta vöru, en hafi borið uppi mikla framlegð og sölu félagsins. Innfluttar vörur hafi oft ekki skilað miklu, en stutt mikla framlegð í framleiddum vörum. Sigurplast ehf. hafi enga áhættu borið af viðskiptunum. Á tímum mikilla gengisbreytinga minnki framlegð af vörum, litlir fjármunir leiði til þess að vörur séu keyptar inn í litlu magni, sem þýði hærra verð. Í ljósi þess að Sigurplast ehf. hafi verið gjaldfært sé ljóst að ekkert óeðlilegt sé við framangreind viðskipti. Sigurplast ehf. hafi verið í staðgreiðsluviðskiptum við stefnda, K.B. Umbúðir ehf., eins og alla aðra birgja sína. Stefndi hafi notið staðgreiðslukjara og staðgreitt öll sín innkaup og náð niður verðum með þeim hætti. Þetta sé í samræmi við þau viðskipti sem félagið hafi við önnur fyrirtæki á þessum tíma. Lausafjárstaða flestra fyrirtækja hafi verið mjög slæm á þessum tíma. Stefndi hafi nýtt sér það til að ná niður verðum frá sínum birgjum. Vegna þessara viðskipta og þeirra afsláttarkjara sem stefndi hafi notið hafi félagið ákveðið að aðstoða Sigurplast ehf. við að viðhalda viðskiptasamböndum sínum, en auk þess hafi félagið fengið ábata af viðskiptunum. Ábati félagsins hefði orðið miklu meiri ef þessi háttur hefði ekki verið viðhafður.
Kröfuliðir 1-10
Varðandi 1. til 10. lið riftunarkröfu stefnanda sé vísað til þess að umræddar vörur hafi verið seldar stefnda, K.B. Umbúðum ehf., til að fjármagna vörukaup Sigurplasts ehf. á töppum og skyldum vörum sem tengdust framleiðslu félagsins. Þetta hafi verið gert til að viðhalda viðskiptasamböndum Sigurplasts ehf. til þess að félagið gæti selt framleiðsluvörur sínar ásamt eðlilegum fylgihlutum. Engir gjafagerningar eða nokkuð slíkt hafi falist í þessu. Stefndi hafi engan ábata haft af umræddum viðskiptum og sitji uppi með stóran hluta af vörunum. Viðskiptin hafi ekki rýrt eignir Sigurplasts ehf. eða leitt til auðgunar móttakanda. Ósannað sé að óeðlilegt verð hafi verið greitt fyrir vörurnar miðað við þær aðstæður er verið hafi eftir hrun á Íslandi. Því sé mótmælt að um gjafatilgang hafi verið að ræða, en eins og fram hafi komið hafi umrædd viðskipti verið gerð í þágu Sigurplasts ehf. vegna áframhaldandi framleiðslu félagsins og til að viðhalda viðskiptasamböndum þess.
Skilyrði til riftunar samkvæmt 141. gr. laga nr. 21/1991 séu ekki fyrir hendi. Ekki sé um að ræða ótilhlýðilegar ráðstafanir, en eins og lýst hafi verið hafi félagið verið að verja verksmiðju og viðskiptavild sína. Framlegðartap félagsins hefði orðið mun meira ef ekki hefði verið hægt að framleiða og selja vörur þess, en álagning þar hafi verið um 60-100%. Þá hafi félagið ekki verið ógjaldfært, eins og sýnt hafi verið fram á. Þar af leiðandi hafi stefnda, K.B. Umbúðum ehf., ekki getað verið ljóst að félagið væri ógjaldfært.
Kröfuliður 9
Varðandi riftun á ráðstöfun í 9. lið sé í fyrsta lagi bent á að ekki sé um sambærilegar vörur að ræða. Í öðru lagi hafi orðið veruleg hækkun á heimsmarkaðsverði og í þriðja lagi hafi gengi krónunnar veikst. Þetta skýri umræddan verðmun. Loks megi geta þess að Sigurplast ehf. hafi enga áhættu borið af innflutningi þessara vara þar sem þær hafi þegar verið seldar viðskiptavini, þegar þær hafi verið keyptar af stefnda, K.B. Umbúðum ehf. Sigurplast ehf. hafi selt vörurnar með góðri framlegð. Þannig hafi verið um augljósan ávinning fyrir félagið að ræða af þessum viðskiptum. Þetta hafi allt verið gert í þeim tilgangi að viðhalda viðskiptasamböndum Sigurplasts ehf. Ekkert óeðlilegt sé við það að reikningar milli félaganna séu að svipaðri fjárhæð, en vegna fjárskorts hafi Sigurplast ehf. greitt fyrir vörur frá stefnda með vörum frá sér og magn af vörum eða fjárhæðir látnar mætast eins og mögulegt hafi verið. Þessar upphæðir hafi aldrei getað mæst alveg að krónutölu þar sem vörur hafi verið afhentar í brettavís eða í kassavís. Aldrei hafi verið um það að ræða að vörur væru seldar í gjafatilgangi heldur hafi Sigurplast ehf. ávallt selt þær vörur með framlegð er félagið hafi fengið frá stefnda þannig að kröfuhafar þess hafi notið góðs af. Því sé mótmælt sem röngu og ósönnuðu að skilyrði riftunar samkvæmt 1. mgr. 131. gr. eða 141. gr. laga nr. 21/1991 eigi við.
Kröfuliðir 11 og 12
Varðandi riftunarkröfu í kröfuliðum 11 og 12 sé í fyrsta lagi vísað til þess að ekki sé um sambærilegar vörur að ræða. Framleiðandi sé ekki sá sami, ekki sé um sama magn í innkaupum að ræða og þar af leiðandi ekki sömu viðskiptakjör. Þá hafi orðið veruleg hækkun á heimsmarkaðsverði, auk þess sem gengi krónunnar hafi veikst. Þetta skýri umræddan verðmun. Loks megi geta þess að Sigurplast ehf. hafi enga áhættu borið af innflutningi þessara vara, þar sem þær hafi þegar verið seldar viðskiptavini, þegar þær hafi verið keyptar af stefnda, K.B. Umbúðum ehf. Vörurnar hafi verið seldar af Sigurplasti ehf. með góðri framlegð. Þannig hafi verið um augljósan ávinning að ræða hjá félaginu af þessum viðskiptum. Eins og áður hafi verið lýst hafi þetta allt verið gert í þeim tilgangi að viðhalda viðskiptasamböndum félagsins. Fullyrðingum um tap félagsins af umræddum viðskiptum sé algjörlega hafnað.
Á þessum tíma hafi lán félagsins hjá Arion banka hf. verið fryst og félagið hafi verið í viðræðum við bankann um fjárhagslega endurskipulagningu. Það sé viðtekin venja að ekki sé gerð krafa til greiðslu skulda meðan viðræður við banka standi yfir. Félagið hafi því í sjálfu sér ekki verið í vanskilum á þessum tíma, eins og stefnandi haldi nú fram, vegna frystingar umræddra lána. Öll framangreind viðskipti hafi í raun verið staðgreiðsluviðskipti. Eini kröfuhafinn sem hafi getað verið mismunað hafi verið Arion banki hf. Lán bankans hafi hins vegar verið í frystingu og þessi viðskipti til hagsbóta fyrir Sigurplast ehf. Vegna viðræðna um fjárhagslega endurskipulagningu hafi bankanum verið fullkunnugt um staðgreiðslu og skuldajöfnunarviðskipti Sigurplasts ehf., en engar athugasemdir hafi verið gerðar við það.
Hvað varði skuldajöfnuð vegna TVG Zimsen þá hafi verið um að ræða greiðslu Sigurplasts ehf. til TVG Zimsen vegna annars vegar eigin viðskipta og hins vegar skuldar stefnda, K.B. Umbúða ehf., við TVG Zimsen. Um heildarskuldajöfnuð hafi verið að ræða í hagræðingarskyni. Sigurplast ehf. hafi skuldað stefnda, K.B. Umbúðum ehf. Þetta hafi ekki verið gert í ágóðaskyni fyrir stefnda. Færslur í bókhaldi vegna þessa hafi verið eðlilegar. Skuldajöfnuðurinn hafi því verið eðlilegur og ekki um óeðlilegan greiðslueyri að ræða. Riftun sé því mótmælt á þeim grundvelli að félagið hafi ekki verið ógjaldfært og að um eðlilegar færslur í viðskiptum hafi verið að ræða.
Kröfuliðir 13-16
Varðandi riftun ráðstafana í kröfuliðum 13-16 sé vísað til þess að Sigurplast ehf. hafi nýtt húsnæðið að Völuteigi 6 í Mosfellsbæ og greitt fyrir það húsaleigu, enda hafi félagið keypt rekstur RPC árið 2008, en stefndi, K.B. Umbúðir ehf., yfirtekið húsaleigusamninginn og framleigt Sigurplasti ehf. húsnæðið. Húsnæðið hafi verið notað undir lager RPC sem Sigurplast ehf. hafi keypt reksturinn af. Umræddir reikningar séu því réttir.
Þá sé bent á að stefnandi sé að bera saman ósambærilegar vörur. Þótt verið sé að bera saman sama magn sé ekki sami framleiðandi og ekki sé um sama magn í innkaupum að ræða. Þar af leiðandi sé stefnandi ekki að bera saman sömu viðskiptakjör. Þá hafi orðið veruleg hækkun á heimsmarkaðsverði, auk þess sem veiking á gengi krónunnar skýri umræddan verðmun. Sigurplast ehf. hafi enga áhættu borið af innflutningi þessara vara þar sem þær hafi þegar verið seldar viðskiptavini, þegar þær hafi verið keyptar af stefnda og verið seldar af Sigurplasti ehf. með góðri framlegð. Þannig hafi verið um augljósan ávinning af viðskiptunum fyrir félagið að ræða. Þetta hafi allt verið gert í þeim tilgangi að viðhalda viðskiptasamböndum þess. Fullyrðingum um tap stefnanda af umræddum viðskiptum sé algjörlega hafnað. Um staðgreiðsluviðskipti hafi verið að ræða. Sigurplast ehf. hafi eingöngu verið í staðgreiðsluviðskiptum við sína birgja og því ekkert óeðlilegt við umræddar færslur við stefnda. Engum kröfuhöfum hafi verið mismunað, enda hafi það sama átt við um alla birgja félagsins, eins og bókhald félagsins sýni. Að auki hafi félagið verið í viðræðum við viðskiptabanka sinn og með lán í frystingu. Þá hafi skiptastjóri þrotabús RPC engar athugasemdir gert við umrædd viðskipti
Kröfuliðir 17, 21, 22 og 24
Varðandi kröfu um riftun ráðstafana í liðum 17, 21, 22 og 24 sé vísað til þess að um staðgreiðsluviðskipti hafi verið að ræða, en Sigurplast ehf. hafi eingöngu verið í staðgreiðsluviðskiptum við sína birgja. Því hafi ekkert óeðlilegt verið við umræddar færslur við stefnda, K.B. Umbúðir ehf. Engum kröfuhöfum hafi verið mismunað, enda hafi það sama átt við um alla birgja félagsins, eins og bókhald félagsins sýni. Að auki hafi félagið verið í viðræðum við viðskiptabanka sinn og með lán í frystingu. Það sé rangt að skuldbindingar Sigurplasts ehf. við stefnda hafi verið meðhöndlaðar með öðrum hætti en skuldbindingar við aðra birgja. Ekki hafi verið um tilhæfulausar kröfur að ræða og riftun sé því alfarið hafnað.
Kröfuliðir 18 og 19
Varðandi riftun ráðstafana í liðum 18 og 19 sé bent á að í þeim fjárhæðum sem krafist sé riftunar á liggi fyrir að samið hafi verið um að viðskiptum milli þessara aðila skyldi háttað á þann veg að stefndi, K.B. Umbúðir ehf., nytu þjónustu Sigurplasts ehf. vegna aksturs og lagerþjónustu. Því sé eðlilegt að skuldjöfnun eigi sér stað milli þessara aðila um þessi viðskipti. Varðandi ógjaldfærni sé vísað til þess sem áður hafi komið fram um það. Það sé rangt að skuldbindingar Sigurplasts ehf. við stefnda hafi verið meðhöndlaðar með öðrum hætti en skuldbindingar við aðra birgja.
Kröfuliður 20
Varðandi kröfulið 20 sé í fyrsta lagi bent á að ekki sé um sambærilegar vörur að ræða. Þetta sé sama magn en ekki sami framleiðandi. Ekki sé um að ræða sama magn í innkaupum og þar af leiðandi ekki sömu viðskiptakjör. Þá hafi orðið veruleg hækkun á heimsmarkaðsverði, auk þess sem gengi krónunnar hafi veikst. Þetta skýri umræddan verðmun. Loks megi geta þess að Sigurplast ehf. hafi enga áhættu borið af innflutningi þessara vara þar sem þær hafi þegar verið seldar viðskiptavini, þegar þær hafi verið keyptar af stefnda, K.B. Umbúðum ehf. Vörurnar hafi verið seldar af Sigurplasti ehf. með góðri framlegð. Þannig hafi verið um augljósan ávinning að ræða hjá Sigurplasti ehf. af þessum viðskiptum. Þetta hafi allt verið gert í þeim tilgangi að viðhalda viðskiptasamböndum Sigurplasts ehf., eins og áður hafi verið lýst. Fullyrðingum um tap stefnanda af umræddum viðskiptum sé algjörlega hafnað. Um ógjaldfærni sé vísað til þess sem áður hafi komið fram. Þá sé það rangt að skuldbindingar Sigurplasts ehf. við stefnda hafi verið meðhöndlaðar með öðrum hætti en skuldbindingar við aðra birgja.
Kröfuliður 25
Varðandi kröfu um riftun greiðslu í 25. lið sé í fyrsta lagi vísað til þess að ekki sé um sambærilegar vörur að ræða. Um sama magn sé að ræða en framleiðandi sé ekki sá sami. Ekki sé sama magn í innkaupunum og þar af leiðandi ekki sömu viðskiptakjör. Þá hafi orðið veruleg hækkun á heimsmarkaðsverði, auk þess sem gengi krónunnar hafi veikst, sem skýri umræddan verðmun. Loks megi geta þess að Sigurplast ehf. hafi enga áhættu borið af innflutningi þessara vara þar sem þær hafi þegar verið seldar viðskiptavini, þegar þær hafi verið keyptar af stefnda, K.B. Umbúðum ehf. Vörurnar hafi verið seldar af Sigurplasti ehf. með góðri framlegð. Þannig hafi verið um augljósan ávinning af viðskiptunum að ræða hjá félaginu. Þetta hafi allt verið gert í þeim tilgangi að viðhalda viðskiptasamböndum Sigurplasts ehf., eins og áður hafi verið lýst. Fullyrðingum um tap stefnanda af umræddum viðskiptum sé algjörlega hafnað. Um ógjaldfærni sé vísað til þess sem áður hafi komið fram. Þá sé það rangt að skuldbindingar Sigurplasts ehf. við stefnda, K.B. Umbúðir ehf., hafi verið meðhöndlaðar með öðrum hætti en skuldbindingar við aðra birgja.
Kröfuliður 26
Varðandi riftun greiðslu í kröfulið nr. 26 sé málsatvikum mótmælt sem röngum og ósönnuðum. Stefndu kannist ekki við þessar vörur eða ætlaða lýsingu starfsmanna Sigurplasts ehf. Rétt sé að taka fram að ógerningur sé að bera saman innkaup á samheitavörunni „tappi“ frá júní 2009 til september 2010 í ljósi þess sem áður hafi komið fram um gengisþróun, hækkun á erlendum mörkuðum, mismunandi gæði vara, ólíka framleiðendur og ólík viðskiptakjör miðað við innkaup.
Kröfuliður 27
Varðandi riftun greiðslu í lið 27 sé vísað til þess í fyrsta lagi að ekki sé um sambærilegar vörur að ræða. Magnið sé það sama en framleiðandi sé ekki sá sami. Ekki sé um sama magn að ræða í innkaupum og þar af leiðandi séu ekki sömu viðskiptakjör. Í öðru lagi hafi orðið veruleg hækkun á heimsmarkaðsverði og í þriðja lagi hafi gengi krónunnar veikst, sem skýri umræddan verðmun. Loks megi geta þess að Sigurplast ehf. hafi enga áhættu borið af innflutningi þessara vara þar sem þær hafi þegar verið seldar viðskiptavini, þegar þær hafi verið keyptar af stefnda, K.B. Umbúðum ehf. Félagið hafi selt vörurnar með góðri framlegð. Þannig hafi verið um augljósan ávinning félagsins að ræða af þessum viðskiptum. Þetta hafi allt verið gert í þeim tilgangi að viðhalda viðskiptasamböndum Sigurplasts ehf., eins og áður hafi verið lýst. Fullyrðingum um tap stefnanda af umræddum viðskiptum sé algjörlega hafnað. Um ógjaldfærni sé vísað til þess sem áður hafi komið fram. Þá sé það rangt að skuldbindingar Sigurplasts ehf. við stefnda hafi verið meðhöndlaðar með öðrum hætti en skuldbindingar við aðra birgja.
Í þeim fjárhæðum sem krafist sé riftunar á í ofangreindum lið liggi fyrir að samið hafi verið um að viðskiptum milli þessara aðila skyldi háttað á þann veg að stefndi, K.B. Umbúðir ehf., nytu þjónustu Sigurplasts ehf. vegna aksturs og lagerþjónustu. Því hafi verið eðlilegt að skuldjöfnun ætti sér stað milli þessara aðila um þessi viðskipti.
Það sé rangt að stefndi, K.B. Umbúðir ehf., hafi notað reikningakerfi Viðarsúlu ehf. Viðskiptalegar og rekstrarforsendur milli Sigurplasts ehf. og stefnda hafi, eins og áður hafi komið fram, verið til ábata fyrir Sigurplast ehf. og eingöngu í viðskiptalegum tilgangi til að verja iðnaðarframleiðslu og viðskiptasambönd því tengdu.
Skaðabótakrafa á hendur stefndu, Sigurði og Jóni Snorra
Skaðabótaábyrgð stefndu, Sigurðar og Jóns Snorra, sé alfarið hafnað þar sem öll viðskipti sem hér um ræði hafi verið eðlileg og til hagsbóta fyrir Sigurplast ehf. til þess að verja iðnaðarframleiðslu félagsins og viðskiptasambönd í kjölfar efnhagshruns á Íslandi. Ljóst sé að stefndu, Sigurður og Jón Snorri, hafi með umræddum ákvörðunum haft hagsmuni félagsins að leiðarljósi, enda hafi öll fyrrgreind viðskipti skilað félaginu ábata og tryggt viðskiptasambönd sem að öðrum kosti hefðu glatast og færst til þriðja aðila.
Stefndi, Jón Snorri, hafi verið stjórnarformaður Sigurplasts ehf. Hann hafi ekki sinnt neinum daglegum störfum hjá félaginu, heldur haft með höndum ráðsmennsku vegna stjórnarstarfa og sérverkefni sem oftast tengdust erlendum viðskiptamönnum, samskiptum við lánastofnanir og stefnumótun. Honum hafi því verið ókunnugt um dagleg samskipti að svo miklu leyti sem þau hafi ekki komið á borð stjórnar. Framkvæmdastjóri hafi haft umsjón með daglegum rekstri og haft fullt umboð til þess. Þannig hafi stefnda, Jóni Snorra, verið með öllu ókunnugt um þær fjárhagslegu ráðstafanir sem um sé fjallað í málarekstri þessum, enda hafi þær verið þess eðlis og af þeirri stærðargráðu að eiga ekki erindi á borð stjórnar. Þetta eigi einnig við um stöðu birgða félagsins, sem ekki hafi verið ræddar í stjórn. Stefndi, Jón Snorri, hafni því að hann beri hlutlæga ábyrgð samkvæmt lögum um hlutafélög eða öðrum lögum og reglum á ráðstöfunum og rekstri Sigurplasts ehf. sem stjórnarformaður félagsins, enda hafi hann á alla lund staðið við skyldur sínar í félaginu sem eftirlits- og yfirumsjónarmaður.
Stefndu vísi til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., einkum IX., XII. og XX. kafla, þ.m.t. 3., 131., 134., 141., 142. og 194. gr. Þá sé vísað til almennra skaðabótareglna, laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, m.a. 44., 73., 79. og 108. gr. Einnig sé vísað til laga nr. 145/1994 um bókhald, einkum 8. og 9. gr. og laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafa um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun styðjist við lög nr. 50/1988. Stefndu séu ekki virðisaukaskattsskyldir og beri þeim því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnanda.
IV
Bú Splast ehf., áður Sigurplast ehf., var tekið til gjaldþrotaskipta 30. september 2010. Frestdagur við skiptin var 27. september 2010. Þrotabúið krefst í máli þessu riftunar á 26 nánar tilgreindum ráðstöfunum. Í fyrsta lagi er um að ræða sölu Sigurplasts ehf. á vörum til stefnda, K.B. Umbúða ehf., á eða nálægt kostnaðarverði. Í öðru lagi er um að ræða kaup Sigurplasts ehf. á vörum frá stefnda, K.B. Umbúðum ehf., á hærra verði en Sigurplast ehf. hafði áður flutt inn sams konar vörur. Í þriðja lagi er um að ræða viðskipti milli Sigurplasts ehf. og stefnda, K.B. Umbúða ehf., með svokallaða ROPP tappa, en stefnandi byggir á því að Sigurplast ehf. hafi keypt 97.500 stk. af töppum af stefnda en þessir sömu tappar hafi áður verið í eigu Sigurplasts ehf. og horfið af lager félagsins eftir að færð hafi verið 100.000 tappa birgðaminnkun í bókhaldi Sigurplasts ehf. Í fjórða lagi telur stefnandi að stefndi, K.B. Umbúðir ehf., hafi gefið út reikning fyrir húsaleigu, stílaðan á Sigurplast ehf., sem engar rekstrarlega forsendur séu fyrir. Þá er í fimmta lagi um að ræða kröfur stefnda, K.B. Umbúða ehf., á hendur Sigurplasti ehf. sem greiddar voru nær samstundis, með reiðufé.
Kröfuliðir 1-3, 5-8, 10 og 23
Stefnandi reisir riftunarkröfu sína vegna kröfuliða 1-3, 5-8, 10 og 23 á því að um hafi verið að ræða gjafir Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf. í skilningi 131. laga nr. 21/1991. Þá taki almenna riftunarreglan í 141. gr. sömu laga einnig til ráðstafananna. Sigurplast ehf. hafi selt stefnda, K.B. Umbúðum ehf., vörur, ýmist á eða undir kostnaðarverði. Félagið hafi hins vegar samkvæmt fyrri sölureikningum selt viðskiptavinum sínum sömu vörur með töluverðri álagningu. Gjöfin felist í mismun á söluverði varanna til stefnda, K.B. Umbúða ehf., og því verði sem sama vara hafi verið seld öðrum viðskiptavinum á. Fjárhæð þeirra verðmæta sem stefnda, K.B. Umbúðum ehf., hafi verið gefin með þessum hætti, og þar með tap stefnanda, nemi samtals 1.801.126 krónum.
Samkvæmt 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 má krefjast riftunar á gjafagerningi ef gjöfin var afhent á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Ákvæðið hefur verið skýrt þannig að undir það falli hver sú ráðstöfun sem rýri eignir þrotamanns og leiði til eignaaukningar hjá þeim er nýtur góðs af henni, enda búi gjafatilgangur að baki ráðstöfuninni og hún falli ekki undir 3. mgr. sömu greinar sem tekur til venjulegra tækifærisgjafa og svipaðra smærri ráðstafana. Undir örlætisgerninga í þessum skilningi geta fallið gagnkvæmir samningar eins og kaupsamningar ef umtalsverður munur er á greiðslu þrotamanns og því gagngjaldi sem hann hefur fengið í staðinn.
Óumdeilt er að allar þær ráðstafanir sem fjallað er um í framangreindum kröfuliðum fóru fram innan sex mánaða tímamarks ákvæðisins. Stefndi telur skilyrðum til riftunar á grundvelli framangreinds ákvæðis ekki fullnægt þar sem ekki hafi verið um gjafir að ræða. Vörurnar hafi verið seldar stefnda, K.B. Umbúðum ehf., til að fjármagna vörukaup Sigurplasts ehf. og viðhalda viðskiptasamböndum þess. Þá hafi ráðstafanirnar hvorki rýrt eignir þrotamanns eða leitt til eignaaukningar stefnda.
Af gögnum um sölu Sigurplasts ehf. á umræddum vörum til stefnda, K.B. Umbúða ehf., má sjá að vörurnar voru keyptar inn á tímabilinu frá maí 2008 til október 2009, flestar í apríl og maí 2009. Slík gögn hafa þó ekki verið lögð fram vegna fyrsta kröfuliðarins. Framangreind sala Sigurplasts ehf. fór hins vegar fram í apríl, maí og september 2010. Þá höfðu vörurnar setið á lager félagsins í marga mánuði, en einungis mjög takmarkað selst af þeim og í einu tilviki ekkert. Fyrir liggur að á þessum tíma átti Sigurplast ehf. erfitt með að nálgast fjármagn vegna aðstæðna á fjármálamarkaði. Stefndu, Sigurður og Jón Snorri, lýstu því báðir fyrir dóminum að þessi viðskipti hefðu verið til ágóða fyrir Sigurplast ehf., en með þeim hefði tekist að útvega fjármagn til þess að halda rekstri félagsins gangandi. Ekkert mat liggur fyrir í málinu sem sýnir fram á hvert hæfilegt endurgjald fyrir vörurnar hefði verið miðað við verðlag þegar þær voru seldar stefnda, K.B. Umbúðum ehf. Er því ekki sannað að viðkomandi vörur hefði mátt selja á því verði sem stefnandi miðar við eða að um rýrnun á eignum Sigurplasts ehf. hafi verið að ræða. Þegar af þessum sökum eru skilyrði fyrir riftun vegna þessara kröfuliða á grundvelli 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 ekki uppfyllt.
Kemur þá til athugunar hvort uppfyllt séu skilyrði riftunar samkvæmt 141. gr. laga nr. 21/1991 hvað framangreinda kröfuliði varðar. Samkvæmt ákvæðinu er unnt að krefjast riftunar ráðstafana sem á ótilhlýðilegan hátt eru kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, leiða til þess að eignir þrotamannsins verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða leiða til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, ef þrotamaðurinn var ógjaldfær eða varð það vegna ráðstöfunarinnar og sá sem hafði hag af henni vissi eða mátti vita um ógjaldfærni þrotamannsins og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg.
Stefnandi telur ráðstafanirnar hafa verið ótilhýðilegar þar sem Sigurplast ehf. hafi selt stefnda, K.B. Umbúðum ehf., vörur ýmist á eða undir kostnaðarverði á sama tíma og félagið hefði getað selt vörurnar á gangverði með hefðbundinni álagningu. Félagið hafi á sama tíma verið ógjaldfært og í miklum lausafjárvanda. Þá hafi ráðstöfunin leitt til þess að verðmæti að andvirði 1.801.126 krónur hafi ekki verið til fullnustu fyrir aðra kröfuhafa stefnanda. Þar sem líta verði á félögin sem nákomin í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991 hafi fyrirsvarsmenn félagsins vitað eða mátt vita um ógjaldfærni stefnanda og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin var ótilhlýðileg. Stefndi hafnar því að framangreindar ráðstafanir hafi verið ótilhlýðilegar þar sem tilgangur þeirra hafi verið að vernda viðskiptasambönd félagsins. Þá hafi félagið verið gjaldfært og skilyrði ákvæðisins því ekki uppfyllt. Við aðalmeðferð málsins kom frá hjá stefnda, Sigurði, að hann hafi í mars 2010 keypt stefnda, K.B. Umbúðir ehf., og því verið eigandi þess á þeim tíma sem málsatvik áttu sér stað. Er því óumdeilt að Sigurplast ehf. og stefndi, K.B. Umbúðir ehf., voru nákomin í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991. Með hliðsjón af framangreindri niðurstöðu um að ekki hafi verið sýnt fram á rýrnun eigna stefnanda verður heldur ekki fallist á að upplýst sé að framangreindar ráðstafanir hafi verið ótilhlýðilegar og verður því jafnframt hafnað riftun þeirra á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991.
Kröfuliður 9
Krafa stefnanda um riftun vegna 9. kröfuliðar er reist á því að í skuldajöfnuði frá 30. apríl 2010 að fjárhæð 2.500.299 krónur hafi falist gjöf Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., að fjárhæð 201.825 krónur, sbr. 131. gr. laga nr. 21/1991. Þá eigi almenna riftunarreglan í 141. gr. sömu laga við um ráðstöfunina. Með framangreindum skuldajöfnuði var kröfu Sigurplasts ehf. að fjárhæð 2.500.299 krónur, sem til komin var vegna sölu á ýmsum vörum til stefnda, K.B. Umbúða ehf., skuldajafnað við kröfu stefnda að fjárhæð 2.598.641 króna, sem var til komin vegna vörukaupa Sigurplasts ehf. þann 23. apríl 2010. Stefnandi telur skilyrði 100. gr. laga nr. 21/1991 fyrir skuldajöfnuði ekki vera uppfyllt. Ráðstöfunin sé því riftanleg, sbr. 136. gr. laganna. Í skuldajöfnuðinum hafi falist gjöf að fjárhæð 201.825 krónur. Gjöfin sé þannig til komin að Sigurplast ehf. hafi keypt 13.500 einingar af „úðadælu 35/410“ af stefnda, K.B. Umbúðum ehf., þann 23. apríl 2010 fyrir samtals 405.000 krónur. Sigurplast ehf. hafi áður keypt inn sömu vörur og þá greitt 203.175 krónur fyrir sama magn. Stefnandi áætli mismuninn því 201.825 krónur.
Framangreind greiðsla Sigurplasts ehf. fór fram með skuldajöfnuði 30. apríl 2010. Samkvæmt 136. gr. laga nr. 21/1991 gilda ákvæði laganna um riftun greiðslu einnig um skuldajöfnuð ef ekki mætti beita honum samkvæmt 100. gr. þeirra. Samkvæmt því ákvæði getur hver sá sem skuldar þrotabúinu dregið það frá sem hann á hjá því hvernig sem skuld og gagnkröfu er varið ef lánardrottinn hefur eignast kröfuna áður en þrír mánuðir voru til frestdags, hvorki vitað né mátt vita að þrotamaðurinn átti ekki fyrir skuldum og ekki fengið kröfuna til að skuldajafna, enda hafi krafa þrotabúsins á hendur honum orðið til fyrir frestdag. Stefndi, K.B. Umbúðir ehf., eignaðist kröfu sína á hendur Sigurplasti ehf. áður en þrír mánuðir voru til frestdags 27. september 2010. Stefnandi heldur því hins vegar fram að stefndi hafi vitað eða mátt vita að félagið ætti ekki fyrir skuldum og að hann hafi fengið kröfuna til að skuldajafna. Sönnunarbyrði um að svo hafi verið hvílir á stefnanda.
Kemur þá til athugunar hvort stefndi, K.B. Umbúðir ehf., var grandsamur um ógjaldfærni Sigurplasts ehf. Eins og að framan greinir er óumdeilt í málinu að stefndi og Sigurplast ehf. voru nákomnir í skilingi 3. gr. laga nr. 21/1991. Aðila greinir hins vegar á um hvort Sigurplast ehf. hafi verið gjaldfært. Við mat á því hvort félagið hafi verið gjaldfært ber að líta til þess hvort það gat staðið í skilum við lánardrottna sína þegar kröfur þeirra féllu í gjalddaga eða innan skamms tíma frá því. Eins og greint hefur verið frá hér að framan liggja fyrir í málinu þrjár skýrslur endurskoðunarfyrirtækisins Ernst og Young hf. um fjárhag Sigurplasts ehf., auk matsgerðar dómkvadds matsmanns. Í tveimur skýrslum Ernst og Young hf., dags. 31. janúar og 14. október 2011, sem skiptastjóri stefnanda aflaði, er komist að þeirri niðurstöðu að Sigurplast ehf. hafi verið ógjaldfært þegar á árinu 2008. Stefndu hafa lagt fram verðmat Dögunar Capital á rekstri Sigurplasts ehf., dags. í apríl 2012, sem byggir á ársuppgjöri félagsins 2007-2009 og rekstraráætlunum 2010-2014. Það er niðurstaða þess að verðmæti félagsins hafi verið 390.000.000 króna, að frádregnum 370.000.000 króna í vaxtaberandi langtímaskuldum. Þá lögðu stefndu fram uppreikning endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte á fjárhagsætlun Sigurplasts ehf. út frá forsendum um endurreikning erlendra lána, dags. 17. apríl 2013.
Í matsgerð dómkvadds matsmanns, Klemens Arnarsonar viðskiptafræðings, frá 12. febrúar 2014, er komist að þeirri niðurstöðu að félagið hafi verið í jákvæðu fjárstreymi og þar af leiðandi rekstrarhæft. Það skipti meira máli en virðismötin sem slík. Greiðslugeta félagsins fram til ársins 2016 „skipti öllu máli“. Félagið hafi haft alla burði til þess að greiða niður umtalsverðan hluta af þeim lánum sem á félaginu hafi hvílt. Það hafi því „klárlega“ verið „hæft til þess að falla inn í beinu brautina“ samkvæmt lögum nr. 107/2009 um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja. Þetta hefði þýtt að samkvæmt verklagi beinu brautarinnar hefði fjármálafyrirtæki átt, að mati matsmanns, að búa til lánafyrirkomulag þar sem félaginu væri gert fært að borga niður eins mikið af höfuðstól lána og því var unnt á tilteknu tímabili án þess að vera íþyngjandi félaginu.
Í málinu liggja frammi ársreikningar áranna 2007, 2008 og 2009. Ársreikningur vegna ársins 2007 er endurskoðaður. Þar er enginn fyrirvari gerður í áritun endurskoðanda við rekstrarhæfi fyrirtækisins eða umfjöllun um óvissu í rekstrarumhverfi. Ársreikningur vegna ársins 2008 er ekki endurskoðaður en áritaður af löggiltum endurskoðanda með áritun á óendurskoðuð reikningsskil. Í árituninni er ekki gerður fyrirvari um rekstrarhæfi fyrirtækisins eða ábending um óvissu um rekstrarhæfi. Þá er ekki fjallað um rekstrarhæfi fyrirtækisins í skýrslu stjórnar eða skýringum með ársreikningi, eins og eðlilegt er að gera ef óvissa ríkir um þessi atriði eða um einstaka liði reikningsskilanna. Með framlögðum ársreikningi 2009 fylgja engar áritanir, hvorki frá stjórn né endurskoðanda og er hann ekki dagsettur. Þrátt fyrir að bókfært eigið fé hafi verið neikvætt samkvæmt ársreikningum áranna 2007-2009 má ekki ráða af þeim að grunnforsenda um rekstrarhæfi hafi ekki verið til staðar og óvissa hafi ríkt um rekstrarhæfi fyrirtækisins. Enn fremur var ekki tekið tillit til endurútreiknings gengistryggðra lána félagsins og áhrifa hans á bókfært eigið fé þess.
Þá liggur fyrir að Sigurplast ehf. gerði svokallaðan kyrrstöðusamning við viðskiptabanka sinn, Arion banka hf., um frestun á gjalddögum lána, sem var í gildi á þessum tíma og var í viðræðum við bankann um fjárhagslega endurskipulagingu. Eins og málið liggur fyrir verður jafnframt að byggja á því að félagið hafi verið í skilum við lánardrottna sína, eins og stefndu greindu frá fyrir dóminum.
Að virtum þeim gögnum sem hér hefur verið gerð grein fyrir og öðrum framlögðum gögnum málsins er það niðurstaða dómsins að stjórnendur stefnda, K.B. Umbúða ehf., hafi, eins og atvikum var háttað, ekki verið grandsamir um að félagið væri ógjaldfært fram til þess að Arion banki hf. krafðist greiðslu gengistryggðs láns með bréfi, dags. 30. ágúst 2010.
Eins og að framan greinir hvílir sönnunarbyrðin um það að stefndi, K.B. Umbúðir ehf., hafi fengið kröfu sína í þeim tilgangi að skuldajafna á stefnanda. Stefnandi hefur ekki rennt stoðum undir þá fullyrðingu sína og verður því ekki talið sannað að svo hafi verið. Er það því niðurstaða dómsins að Sigurplasti ehf. hafi verið framangreindur skuldajöfnuður 30. apríl 2010 heimill og verður riftun vegna hans því hafnað.
Kröfuliðir 11 og 12
Krafa stefnanda um riftun greiðslna í kröfuliðum 11 og 12 byggir á því að í skuldajöfnuði frá 20. maí 2010 að fjárhæð 2.000.000 króna hafi falist annars vegar gjöf að fjárhæð 60.599 krónur og hins vegar greiðsla á 1.602.142 krónum fyrr en eðlilegt geti talist og í óvenjulegum greiðslueyri. Þá telur stefnandi að almenna riftunarreglan í 141. gr. laga nr. 21/1991 taki til beggja ráðstafananna.
Þær greiðslur sem um er að ræða fóru fram með skuldajöfnuði 20. maí 2010. Eins og að framan greinir gilda ákvæði laga nr. 21/1991 um riftun greiðslu einnig um skuldajöfnuð ef ekki mætti beita honum samkvæmt 100. gr. þeirra, sbr. 136. gr. Ákvæði 100. gr. er rakið hér að framan. Stefnandi byggir á því að Sigurplasti ehf. hafi ekki verið skuldajöfnuðurinn heimill þar sem félagið hafi verið ógjaldfært og stefndi, K.B. Umbúðir ehf., hafi mátt vita það. Þá teljist skilyrði ákvæðisins ekki uppfyllt þegar um sé að ræða greiðslu í óvenjulegum greiðslueyri.
Þegar hefur verið komist að þeirri niðurstöðu í umfjöllun um 9. kröfulið að stjórnendur stefnda, K.B. Umbúða ehf., hafi, eins og atvikum var háttað, ekki verið grandsamir um að félagið væri ógjaldfært allt fram til 30. ágúst 2010. Verður því hafnað að skuldajöfnuðurinn hafi verið óheimill á þeim grundvelli að félagið hafi verið ógjaldfært og stefnda hafi mátt vera það ljóst. Þá verður ekki fallist á að sjónarmið um óvenjulegan greiðslueyri eigi að leiða til þess að skuldajöfnuðurinn teljist óheimill, en skilyrðin eru eins og að framan greinir rakin í 100. gr. laga nr. 21/1991. Þegar af framangreindum sökum verður hafnað riftun vegna kröfuliða 11 og 12.
Kröfuliðir 13-16
Í kröfuliðum 13-16 krefst stefnandi riftunar á fjórum greiðslum Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., 3.-23. júní 2010 samtals að fjárhæð 3.784.503 krónur. Stefnandi telur að í þeim hafi falist gjöf til stefnda, sbr. 131. gr. laga nr. 21/1991. Þá sé um að ræða greiðslu fyrr en eðlilegt hafi verið, sbr. 1. mgr. 134. gr. laganna, auk þess sem almenna riftunarreglan í 141. gr. laganna taki til allra framangreindra ráðstafana. Þær greiðslur sem um sé að ræða hafi allar farið til þess að greiða fyrir viðskipti að fjárhæð samtals 3.787.677 krónur. Þau viðskipti hafi annars vegar verið vegna húsaleigu og hins vegar vegna vörukaupa Sigurplasts ehf.
Stefnandi byggir á því að reikningur stefnda, K.B. Umbúða ehf., að fjárhæð 3.520.000 krónur vegna húsaleigu fyrir Völuteig 6 í Mosfellsbæ sé tilhæfulaus. Því hafi verið um að ræða gjöf til stefnda. Leigan hafi áður verið gjaldfærð af Sigurplasti ehf. og færð til skuldar við RP Consulting ehf. Það félag hafi verið úrskurðað gjaldþrota 3. febrúar 2010. Skuldin hafi engu að síður verið færð af viðskiptareikningi RP Consulting ehf. yfir á viðskiptareikning stefnda, K.B. Umbúða ehf., þann 27. maí 2010. Því virðist hafa átt sér stað kröfuhafaskipti á kröfu RP Consulting ehf., án aðkomu þrotabús þess.
Stefndu hafa skýrt framangreind viðskipti á þann hátt að Sigurplast ehf. hafi nýtt húsnæðið, en félagið hafi keypt rekstur RP Consulting ehf. á árinu 2008 og lager þess hafi verið að Völuteigi 6. Félagið hafi því greitt húsaleigu. Stefndi, K.B. Umbúðir ehf., hafi yfirtekið húsaleigusamninginn og framleigt Sigurplasti ehf. húsnæðið.
Framangreindur reikningur að fjárhæð 3.520.000 krónur er vegna húsaleigu í nóvember og desember 2008 og janúar til apríl 2009. Með framlögðum kaupsamningi, dags. 11. apríl 2008, keypti Sigurplast ehf. RPC, sem er innflutnings- og rekstrareining í eigu RPC ehf. Samkvæmt 4. gr. samningsins skyldi RPC leggja til lagerhúsnæði að Völuteigi 6 út apríl, en yrði dráttur á tæmingu skyldi Sigurplast ehf. greiða fyrir. Stefndi, Sigurður, skýrði svo frá fyrir dóminum að Sigurplast ehf. hefði haft húsnæðið til leigu, en enginn leigusamningur hefði verið gerður þar sem um skammtímaráðstöfun hafi verið að ræða. Jóhanna Gunnarsdóttir, bókari Sigurplasts ehf., lýsti því að mistök hefðu verið gerð við bókun húsaleigunnar. Hún hefði fyrir mistök slegið inn „RPC“ fyrir RP Consulting ehf. í stað „RP“ sem hafi verið Rögnvaldur Pálmason. Færslan hafi verið bakfærð. Hún hafi talið að reikningarnir kæmu frá Rögnvaldi, en þeir hafi ekki verið komnir og hún því áætlað húsaleigu. Síðar hafi komið í ljós að reikningarnir hafi átt að koma frá stefnda, K.B. Umbúðum ehf. Þá greindi Rögnvaldur Pálmason frá því að hann hefði selt rekstur RP Consulting ehf. til Sigurplasts ehf. Hluti af kaupunum hafi verið lager að Völuteigi 6. Innifalið hafi verið leiga í u.þ.b. mánuð, áður en Sigurplast ehf. skyldi greiða leigu. Hann hafi síðan átt viðskipti við stefnda, K.B. Umbúðir ehf., og það félag hafi eignast kröfuna. Með hliðsjón af framangreindu þykja komnar fram nægilegar skýringar á tilurð framangreinds reiknings og verður ekki fallist á riftun á grundvelli 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991.
Stefnandi reisir kröfurnar í liðum 13-16 einnig á kaupum Sigurplasts ehf. á töppum frá stefnda, K.B. Umbúðum ehf. Félagið hafi keypt 10.350 einingar á 468.157 krónur, en áður keypt inn sömu vörur á 200.480 krónur. Gjöf Sigurplasts ehf. til stefnda hafi falist í mismuninum, 267.677 krónum. Framangreind kaup Sigurplasts ehf. fóru fram í júní 2010, innan sex mánaða tímamarks 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991. Stefndu halda því fram að stefnandi sé ekki að miða við sömu vörur, en samkvæmt yfirliti úr birgðabókhaldi virðast innkaup á sömu vörutegund hafa farið fram í mars til nóvember 2009. Ekkert liggur hins vegar fyrir í málinu um hvert hæfilegt innkaupsverð varanna hefði verið miðað við verðlag í júní 2010. Stefndu hafa borið því við að vörurnar hafi í raun þegar verið seldar þriðja aðila þegar þær hafi verið keyptar af stefnda, K.B. Umbúðum ehf. Stefnandi hefur ekki lagt fram nein gögn um hvort sú sala hafi farið fram og þá fyrir hvaða fjárhæð. Hann hefur því ekki sýnt fram á að eignir Sigurplasts ehf. hafi rýrnað vegna framangreindra innkaupa. Þegar af þessum sökum eru skilyrði fyrir riftun á grundvelli 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 ekki uppfyllt.
Stefnandi byggir einnig á því að framangreindar greiðslur séu riftanlegar á grundvelli 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991, en samkvæmt þeirri grein má krefjast riftunar á greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag ef greitt var með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var eða greidd var fjárhæð sem hefur skert greiðslugetu þrotamannsins verulega, nema greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum.
Stefnandi reisir kröfuna á því að skuldirnar hafi verið greiddar fyrr en eðlilegt hafi verið. Skuldbindingar Sigurplasts ehf. gagnvart stefnda, K.B. Umbúðum ehf., hafi verið meðhöndlaðar með öðrum hætti en meginþorri skuldbindinga við aðra lánardrottna, þar sem þær hafi verið greiddar ýmist sama dag og þær hafi stofnast eða nokkrum dögum síðar. Framangreindu ákvæði 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 er einkum ætlað að ná til þeirra tilvika þegar greiðsla hefur farið fram fyrir gjalddaga. Það getur þó einnig átt við þegar greiðsla hefur farið fram á gjalddaga eða eftir hann, t.d. þegar ákveðin venja hefur myndast um aðra tilhögun á greiðslu. Af gögnum málsins virðist sem staðgreiðsluviðskipti hafi verið meginreglan í viðskiptum Sigurplasts ehf. og stefnda, K.B. Umbúða ehf. Þá virðist sem slíkt hafi einnig verið meginreglan í viðskiptum félagsins við aðra birgja. Verður því ekki fallist á að umræddar greiðslur hafi átt sér stað fyrr en eðlilegt hafi verið.
Stefnandi telur einnig að framangreind fjárhæði hafi skert greiðslugetu Sigurplasts ehf. verulega. Eins og að framan greinir telur dómurinn að félagið hafi á þessum tíma verið gjaldfært. Um er að ræða húsaleigu um sex mánaða skeið vegna lagerhúsnæðis að fjárhæð 3.520.000 krónur og 267.677 krónur, en krafan er þó 3.174 krónum lægri. Með hliðsjón af fjárhag og starfsemi Sigurplasts ehf. verður ekki fallist á að framangreindar greiðslur hafi skert greiðslugetu félagins verulega þannig að þær séu riftanlegar á grundvelli 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991.
Stefnandi telur skilyrði riftunar á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991 einnig vera uppfyllt varðandi kröfuliði 13-16. Með vísan til framangreindrar niðurstöðu varðandi 1. mgr. 131. gr. og 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 verður ekki fallist á að framangreindar ráðstafanir hafi verið ótilhlýðilegar í skilningi ákvæðisins og verður því jafnframt hafnað riftun þeirra á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991.
Kröfuliðir 17, 21, 22 og 24
Stefnandi reisir kröfu sína um riftun á fjórum greiðslum Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf. í kröfuliðum 17, 21, 22 og 24, samtals að fjárhæð 964.370 krónur, á því að í þeim hafi falist greiðsla fyrr en eðlilegt hafi verið, sbr. 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Þá eigi almenna riftunarreglan í 141. gr. sömu laga einnig við. Um er að ræða greiðslur 28. júní 2010 að fjárhæð 302.535 krónur vegna vörukaupa 27. júní 2010, þann 18. ágúst 2010 að fjárhæð 296.180 krónur vegna vörukaupa sama dag, þann 2. september 2010 að fjárhæð 42.514 krónur vegna vörukaupa sama dag og þann 13. september 2010 að fjárhæð 323.141 króna vegna vörukaupa sama dag.
Með vísan til röksemda varðandi kröfuliði 13 til 16 verður ekki fallist á að framangreind staðgreiðsluviðskipti hafi falið í sér greiðslu fyrr en eðlilegt hafi verið, þau hafi skert greiðslugetu verulega eða að þau hafi verið ótilhlýðileg, sbr. 1. mgr. 134. gr. og 141. gr. laga nr. 21/1991.
Kröfuliðir 18 og 19
Í kröfuliðum 18 og 19 krefst stefnandi riftunar á greiðslum Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., samtals að fjárhæð 273.791 króna. Er þar um að ræða tvær greiðslur með skuldajöfnuði 1. júlí 2010. Annars vegar er um að ræða greiðslu á 47.891 krónu. Krafa stefnda var vegna viðskipta á tímabilinu 21. apríl til 28. júní 2010, en krafa Sigurplasts ehf., sem stofnaðist sama dag, var vegna birgðahalds og dreifingar. Hins vegar er um að ræða greiðslu að fjárhæð 225.900 krónur. Krafa stefnda er vegna vörukaupa 29. júní 2010, en krafa Sigurplasts ehf. stofnaðist sama dag með útgáfu reiknings vegna aksturs í apríl til júní 2010.
Stefnandi byggir riftunarkröfu sína á því að í framangreindum skuldajöfnuðum hafi falist greiðsla fyrr en eðlilegt hafi verið, auk þess sem um greiðslu í óvenjulegum greiðslueyri hafi verið að ræða, sbr. 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Jafnframt eigi almenna riftunarreglan í 141. gr. sömu laga við. Þá sé heimilt að rifta skuldajöfnuðunum á grundvelli 136. gr. laganna.
Stefnandi telur framangreinda skuldajöfnuði ekki uppfylla skilyrði skuldajafnaðar samkvæmt 100. gr. laga nr. 21/1991. Þeir séu því riftanlegir, sbr. 136. gr. laganna. Eins og að framan greinir er það skilyrði þess að beita megi skuldajöfnuði samkvæmt 100. gr. laga nr. 21/1991 að lánardrottinn hafi eignast kröfuna áður en þrír mánuðir voru til frestdags. Frestdagur var 27. september 2010. Krafa stefnda vegna vörukaupa að fjárhæð 225.900 krónur myndaðist 29. júní 2010, en þá voru innan við þrír mánuðir til frestdags. Var skuldajöfnuðurinn að fjárhæð 225.900 krónur því ekki heimill. Stefnandi byggir hins vegar á því varðandi skuldajöfnuðinn að fjárhæð 47.891 króna að Sigurplast ehf. hafi verið orðið ógjaldfært og stefnda hafi verið það kunnugt, eða mátt vera það. Með vísan til niðurstöðu um gjaldfærni félagsins í kröfulið nr. 9 verður talið að skuldajöfnuðurinn 1. júlí 2010, að fjárhæð 47.891 króna, hafi verið Sigurplasti ehf. heimill og verður riftun vegna hans því hafnað.
Þar sem skuldajöfnuður að fjárhæð 225.900 krónur þann 1. júlí 2010 var ekki heimill, samkvæmt 100. gr. laga nr. 21/1991, er unnt að beita riftunarreglum laganna, sbr. 136. gr. Stefnandi telur í fyrsta lagi að 1. mgr. 134. gr. laganna eigi við þar sem greiðslan hafi átt sér stað fyrr en eðlilegt hafi verið og greitt hafi verið með óvenjulegum greiðslueyri. Framangreind skuld við stefnda, K.B. Umbúðir ehf., stofnaðist 29. júní 2010, en var greidd með skuldajöfnuði 1. júlí sama ár. Með vísan til framangreindrar niðurstöðu varðandi kröfuliði nr. 13-16 verður að hafna því að greiðslan hafi átt sér stað fyrr en eðlilegt var. Stefnandi hefur jafnframt vísað til þess að um óvenjulegan greiðslueyri hafi verið að ræða. Kröfur stefnda, K.B. Umbúða ehf., voru í þessu tilviki greiddar með kröfu Sigurplasts ehf. vegna aksturs. Stefnandi telur að stefndi hafi í raun fengið kröfu sína greidda með þjónustu. Ekki liggi fyrir að samið hafi verið um að viðskiptunum skyldi háttað á þann veg. Stefndu byggja hins vegar á því að svo hafi verið. Í framburði Baldurs Jónssonar lagerstarfsmanns kom fram að Sigurplast ehf. og stefndi, K.B. Umbúðir ehf., hafi um tíma haft lager á sama stað. Er því ljóst að fyrirtækin samnýttu aðstöðu að einhverju leyti. Við það er ekki óeðlilegt að krafa myndist vegna gagnkvæmrar þjónustu. Með hliðsjón af framangreindu, og því hvernig viðskiptasambandi aðilanna var háttað, verður ekki talið að um óvenjulegan greiðslueyri hafi verið að ræða. Þá byggir stefnandi að lokum á því að framangreindur skuldajöfnuður hafi valdið verulegri skerðingu á greiðslugetu Sigurplasts ehf. Fjárhæðin sem til umfjöllunar er í þessum lið er 225.900 krónur. Með hliðsjón af fjárhag Sigurplasts ehf. verður ekki talið að um slíka fjárhæð sé að ræða að hún geti talist hafa skert fjárhag félagsins verulega og verður riftun á grundvelli 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 því hafnað.
Stefnandi telur einnig að skilyrði 141. gr. laga nr. 21/1991 séu uppfyllt vegna framangreindrar ráðstöfunar. Með hliðsjón af framangreindri niðurstöðu varðandi 134. gr. þykir ekki unnt að líta svo á að um ótilhlýðilega ráðstöfun hafi verið að ræða.
Kröfuliður 20
Stefnandi krefst þess í 20. kröfulið að rift verði greiðslu Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., þann 19. júlí 2010, að fjárhæð 2.833.670 krónur. Um er að ræða greiðslu vegna vörukaupa sama dag. Stefnandi byggir á því að í þessu hafi falist greiðsla fyrr en eðlilegt hafi verið, sbr. 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Í hluta greiðslunnar hafi einnig falist gjöf til stefnda í skilningi 131. gr. sömu laga. Þá eigi almenna riftunarreglan í 141. gr. laganna einnig við.
Stefnandi telur gjöf Sigurplasts ehf. hafa falist í því að greiðslan hafi meðal annars verið fyrir kaup á 5.400 einingum af tilteknum töppum á verðinu 774.204 krónur. Félagið hafi áður keypt sömu vörur á 307.638 krónur. Mismunurinn, sem áætlaður sé 466.566 krónur, sé því gjöf. Framangreind kaup fóru fram í júlí 2010, innan sex mánaða tímamarks ákvæðisins. Stefndu halda því fram að stefnandi sé ekki að miða við sömu vörur, en samkvæmt yfirliti úr birgðabókhaldi virðast innkaup á sömu vörutegund hafa farið fram í apríl 2008 til maí 2010. Stefnandi miðar mismuninn við ein tiltekin innkaup í nóvember 2009. Ekkert liggur hins vegar fyrir í málinu um hvert hæfilegt innkaupsverð varanna hefði verið miðað við verðlag í júlí 2010. Stefndu hafa borið því við að vörurnar hafi í raun þegar verið seldar þriðja aðila þegar þær hafi verið keyptar af stefnda, K.B. Umbúðum ehf. Stefnandi hefur ekki lagt fram nein gögn um það hvort sú sala hafi farið fram og þá fyrir hvaða fjárhæð. Hann hefur því ekki sýnt fram á að eignir Sigurplasts ehf. hafi rýrnað vegna framangreindra innkaupa. Þegar af þessum sökum eru skilyrði fyrir riftun á grundvelli 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 ekki uppfyllt.
Stefnandi telur jafnframt að umrædd greiðsla, að fjárhæð 2.833.670 krónur, sé riftanleg á grundvelli 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 þar sem í henni hafi falist greiðsla fyrr en eðlilegt hafi verið. Með vísan til áður fenginnar niðurstöðu um að í staðgreiðsluviðskiptum aðila hafi ekki falist greiðsla fyrr en eðlilegt hafi verið verður því hafnað að greiðslan hafi verið riftanleg af þeim sökum. Þá þykir ekki unnt að líta svo á að um hafi verið að ræða fjárhæð sem skert hafi greiðslugetu Sigurplasts ehf. verulega og verður því ekki fallist á riftun vegna 20. kröfuliðar á grundvelli 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991.
Þá telur stefnandi að rifta beri þeim hluta greiðslunnar sem hann telji gjöf, að fjárhæð 466.566 krónur, á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991. Í samræmi við ofangreinda niðurstöðu um 1. mgr. 131. gr. er ekki unnt að fallast á að framangreind greiðsla hafi verið ótilhlýðileg og verður riftun á grundvelli þessa ákvæðis því jafnframt hafnað.
Kröfuliður 25
Riftunarkrafa stefnanda í 25. lið byggist á því að í staðgreiðslu Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., þann 16. september 2010, að fjárhæð 843.360 krónur, hafi falist greiðsla fyrr en eðlilegt hafi verið í skilningi 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Í hluta greiðslunnar hafi einnig falist gjöf til stefnda í skilningi 131. gr. sömu laga. Þá eigi 141. gr. laganna við.
Stefnandi telur gjöf Sigurplasts ehf. hafa falist í því að með framangreindri greiðslu hafi meðal annars verið greitt fyrir kaup á 8.000 einingum af úðadælum á verðinu 672.000 krónur. Félagið hafi áður keypt sömu vörur á 217.840 krónur. Mismunurinn, 454.160 krónur, sé því gjöf. Framangreind kaup fóru fram í september 2010, innan sex mánaða tímamarks ákvæðisins. Stefndu halda því fram að stefnandi sé ekki að miða við sömu vörur, en samkvæmt yfirliti úr birgðabókhaldi virðast innkaup á sömu vörutegund hafa farið fram allt frá október 2007. Stefnandi miðar mismuninn við ein tiltekin innkaup í maí 2010. Ekkert liggur hins vegar fyrir í málinu um hvert hæfilegt innkaupsverð varanna hefði verið miðað við verðlag í september 2010. Stefndu hafa borið því við að vörurnar hafi í raun þegar verið seldar þriðja aðila þegar þær hafi verið keyptar af stefnda, K.B. Umbúðum ehf. Stefnandi hefur ekki lagt fram nein gögn um það hvort sú sala hafi farið fram og þá fyrir hvaða fjárhæð. Hann hefur því ekki sýnt fram á að eignir Sigurplasts ehf. hafi rýrnað vegna framangreindra innkaupa. Þegar af þessum sökum eru skilyrði fyrir riftun á grundvelli 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 ekki uppfyllt.
Stefnandi byggir riftunarkröfu sína á grundvelli 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 á því að greiðslan hafi farið fram fyrr en eðlilegt hafi verið og því að fjárhagur Sigurplasts ehf. hafi skerst verulega vegna hennar. Með vísan til niðurstöðu varðandi 20. kröfulið verður jafnframt hafnað riftun á grundvelli þessarar greinar. Þá verður riftun á grundvelli 141. gr. laganna jafnframt hafnað þar sem ekki hefur verið sýnt fram á að um ótilhlýðilega greiðslu hafi verið að ræða.
Kröfuliður 26
Í 26. kröfulið krefst stefnandi riftunar á greiðslu 17. september 2010 að fjárhæð 1.958.804 krónur þar sem í henni hafi falist gjöf Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991. Þá hafi falist í henni greiðsla fyrr en eðlilegt hafi verið í skilningi 1. mgr. 134. gr. sömu laga, auk þess sem 141. gr. laganna taki til greiðslunnar. Stefnandi byggir kröfuna á því að Sigurplast ehf. hafi keypt 97.500 stk. af svokölluðum ROPP töppum á tveimur brettum af stefnda, K.B. Umbúðum ehf., þann 16. september 2010. Í birgðabókhaldi Sigurplasts ehf. komi fram að 100.000 tappar á tveimur brettum hafi verið fluttir inn af félaginu 5. júní 2009 fyrir 636.568 krónur. Stefnandi vísar til upplýsinga frá ótilgreindum starfsmönnum félagsins um að þessir tappar hafi ekki passað á neitt sem félagið hafi verið að selja. Þann 10. nóvember 2009 hafi verið færð 100.000 stk. birgðaminnkun á þessa tappa, en starfsmennirnir hafi sagt tappana hafa verið flutta til Viðarsúlu ehf. Stefnandi telur að félagið hafi 16. september 2010 keypt sömu vörur af stefnda og það hafi flutt inn 5. júní 2009.
Stefnandi telur öll skilyrði riftunar samkvæmt 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 uppfyllt. Greiðslan hafi átt sér stað á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Eignir Sigurplasts ehf. hafi rýrnað þar sem það hafi greitt fyrir vörur sem það hafi þegar átt og hafi verið ónothæfar. Stefndi hafi því hagnast um kaupverðið og ljóst sé að greiðslan hafi farið fram í gjafatilgangi. Stefndu hafna framangreindri lýsingu stefnanda. Þeir telja að ekki sé um sömu vöru að ræða, auk þess sem bent sé á ýmis atriði sem valdi breyttu verði.
Í málinu liggja fyrir tveir reikningar vegna viðskiptanna, annars vegar reikningur frá stefnda, K.B. Umbúðum ehf., vegna 97.500 stykkja af „tappi 28 mm hv. ROPP m/innleggi“ og hins vegar reikningur Gramss Gmbh & Co vegna 100.000 stykkja af „0361/0319a Alkozelleinlage“. Þær vörur sem um er að ræða hafa sama vörunúmer. Það veitir þó ekki fullvissu þess að um sömu vöru sé að ræða. Enginn starfsmaður Sigurplasts ehf., Viðarsúlu ehf., eða stefnda, K.B. Umbúða ehf., gat staðfest fyrir dóminum að viðskiptin hefðu farið fram með þeim hætti sem stefnandi heldur fram. Liggur því ekki fyrir sönnun þess að með kaupum sínum á töppum 16. september 2010 hafi Sigurplast ehf. keypt aftur sömu tappa og 5. júní 2009. Verður riftun greiðslunnar á grundvelli 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 því hafnað.
Stefnandi telur riftun einnig eiga að fara fram á grundvelli 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 þar sem greiðslan hafi farið fram fyrr en eðlilegt hafi verið, auk þess sem fjárhæðin hafi skert greiðslugetu félagsins verulega. Með vísan til niðurstöðu varðandi 20. kröfulið verður jafnframt hafnað riftun á grundvelli þessarar greinar. Þá verður riftun á grundvelli 141. gr. laganna jafnframt hafnað þar sem ekki þykir sannað að Sigurplast ehf. hafi keypt sömu vöruna tvisvar sinnum og stefnandi hefur því ekki sýnt fram á að um ótilhlýðilega greiðslu hafi verið að ræða.
Kröfuliður 27
Að síðustu krefst stefnandi, í 27. kröfulið, þess að rift verði ráðstöfun Sigurplasts ehf. til stefnda, K.B. Umbúða ehf., 30. september 2010 með skuldajöfnuði að fjárhæð 1.635.328 krónur. Stefnandi telur að í framangreindum skuldajöfnuði hafi að hluta til falist gjöf til stefnda í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991. Þá hafi falist í honum greiðsla fyrr en eðlilegt hafi verið og greiðsla í óvenjulegum greiðslueyri í skilningi 1. mgr. 134. gr. sömu laga, auk þess sem almenna riftunarreglan í 141. gr. laganna taki til skuldajafnaðarins.
Krafa stefnda á hendur Sigurplasti ehf., sem notuð var til að skuldajafna við kröfu félagsins varð, samkvæmt bókhaldi þess, til 15. september 2010. Þar sem krafan varð til á síðustu þremur mánuðum fyrir frestdag eru skilyrði skuldajafnaðar samkvæmt 100 gr. laga nr. 21/1991 ekki uppfyllt. Eiga riftunarreglur laganna því við, sbr. 136. gr.
Framangreindri kröfu stefnda, að fjárhæð 1.635.328 krónur, var skuldajafnað við kröfu Sigurplasts ehf. að fjárhæð 1.694.250 krónur sem var vegna vinnu við lagerþjónustu í janúar til september 2010. Stefnandi telur að í þessu hafi falist gjöf Sigurplasts ehf. til stefnda að fjárhæð 560.575 krónur. Félagið hafi m.a. keypt 8.500 einingar af tiltekinni úðadælu fyrir 792.030 krónur. Félagið hafi áður keypt sömu vörur á 231.455 krónur. Mismunurinn, sem sé áætlaður 560.575 krónur, sé því gjöf til stefnda. Framangreind kaup fóru fram í september 2010, innan sex mánaða tímamarks ákvæðisins. Stefndu halda því fram að stefnandi sé ekki að miða við sömu vörur, en samkvæmt yfirliti úr birgðabókhaldi virðast innkaup á sömu vörutegund hafa farið fram allt frá október 2007. Stefnandi miðar mismuninn við ein tiltekin innkaup í maí 2010. Ekkert liggur hins vegar fyrir í málinu um hvert hæfilegt innkaupsverð varanna hefði verið miðað við verðlag í september 2010. Stefndu hafa borið því við að vörurnar hafi í raun þegar verið seldar þriðja aðila þegar þær hafi verið keyptar af stefnda, K.B. Umbúðum ehf. Stefnandi hefur ekki lagt fram nein gögn um það hvort sú sala hafi farið fram og þá fyrir hvaða fjárhæð. Hann hefur því ekki sýnt fram á að eignir Sigurplasts ehf. hafi rýrnað vegna framangreindra innkaupa. Þegar af þessum sökum eru skilyrði fyrir riftun á grundvelli 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 ekki uppfyllt.
Stefnandi telur greiðslu Sigurplasts ehf. hafa farið fram fyrr en eðlilegt hafi verið og að um óvenjulegan greiðslueyri hafi verið að ræða í skilningi 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Svo sem að framan greinir verður ekki talið að staðgreiðsluviðskipti aðilanna eða skuldajöfnuður hafi falið í sér greiðslu fyrr en eðlilegt hafi verið. Stefnandi telur greiðslueyrinn hafa verið óvenjulegan þannig að rifta beri greiðslunni. Sigurplast ehf. greiddi kröfu stefnda, K.B. Umbúða ehf., með kröfu sinni vegna lagerþjónustu. Eins og að framan greinir kom fram í framburði Baldurs Jónssonar lagerstarfsmanns að Sigurplast ehf. og stefndi, K.B. Umbúðir ehf., hafi um tíma haft lager á sama stað. Er því ljóst að fyrirtækin samnýttu aðstöðu að einhverju leyti. Við það er ekki óeðlilegt að krafa myndist vegna gagnkvæmrar þjónustu. Með hliðsjón af framangreindu og því hvernig viðskiptasambandi aðilanna var háttað verður ekki talið að um óvenjulegan greiðslueyri hafi verið að ræða.
Með hliðsjón af framangreindri niðurstöðu varðandi þennan kröfulið þykir ekki unnt að fallast á að framangreind ráðstöfun hafi verið ótilhlýðileg og verður riftun hennar á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991 því einnig hafnað.
Samkvæmt öllu framangreindu ber að sýkna stefnda, K.B. Umbúðir ehf., af riftunarkröfum stefnanda. Með hliðsjón af þeirri niðurstöðu kemur ekki til álita fjárkrafa stefnanda á hendur stefnda, K.B. Umbúðum ehf., eða skaðabótakrafa á hendur stefndu, Sigurði og Jóni Snorra, og verður því jafnframt sýknað af þeim.
Samkvæmt þessari niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnandi dæmdur til að greiða stefndu málskostnað. Við ákvörðun málskostnaðar er litið til þess að málið var flutt um frávísunarkröfu stefndu og til útlagðs matskostnaðar. Í ljósi framangreinds og umfangs málsins þykir málskostnaður hæfilega ákveðinn 3.800.000 krónur.
Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991. Dómarar og aðilar töldu ekki þörf á því að málið yrði flutt að nýju.
Dóminn kveða upp héraðsdómararnir Barbara Björnsdóttir og Ásmundur Helgason og Sigrún Guðmundsdóttir, löggiltur endurskoðandi.
D Ó M S O R Ð :
Stefndu, K.B. Umbúðir ehf., Sigurður L. Sævarsson og Jón Snorri Snorrason, eru sýknir af kröfum stefnanda, þrotabús Splasts ehf.
Stefnandi greiði stefndu 3.800.000 krónur í málskostnað.