Hæstiréttur íslands

Mál nr. 27/2010


Lykilorð

  • Rán
  • Þjófnaður
  • Hlutdeild
  • Ávana- og fíkniefni
  • Reynslulausn
  • Skilorðsrof


                                                        

Mánudaginn 21. júní 2010.

Nr. 27/2010.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir vararíkissaksóknari)

gegn

Axel Karli Gíslasyni og

(Jóhannes Ásgeirsson hrl.)

Viktori Má Axelssyni

(Kristján Stefánsson hrl.)

Rán. Þjófnaður. Hlutdeild. Ávana- og fíkniefni. Reynslulausn. Skilorðsrof.

V var ásamt samverkamanni gefið að sök brot gegn 2. mgr. 226. gr., 231. gr. og 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa ruðst inn á heimili A til að stela verðmætum, ráðist þar á hann þegar hann kom óvænt heim, bundið hann og krafið um upplýsingar um hvar tiltekin verðmæti væri að finna, tekið þar úr, skartgripi o.fl. og skilið A svo eftir á gólfi í fjötrum, en við þetta hafi A hlotið skrámur, mar og önnur eymsli. Þá var AK sakaður um hlutdeild í broti gegn 244. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa skipulagt innbrot og þjófnað á heimili A fyrrgreint sinn, gefið V og samverkamanni fyrirmæli og leiðbeiningar, tekið síðan við þýfi, sem hafi verið afrakstur ránsins og komið því í hendur óþekkts manns. Fallist var á að ásetningur V hefði upphaflega ekki staðið til annars en að brjótast inn í íbúðarhús A og fremja þar þjófnað. A hefði á hinn bóginn komið að V stuttu eftir að hann hafði brotið sér leið inn í húsið og áður en nokkru hafði þar verið stolið, en þá hefði V veist að A. Sannað þótti að V hefði slegið A hnefahögg í andlitið, þvingað hann til að liggja á gólfi, fjötrað hann síðan með límbandi á höndum og fótum og skilið hann loks eftir þannig einan í húsinu. Meðan á þessu stóð lét samverkamaður V greipar sópa og viðurkenndu þeir að hafa haft á brott með sér umtalsverð verðmæti. Var talið að háttsemi V varðaði við 252. gr. almennra hegningarlaga, sem tæmdi hér sök gagnvart 2. mgr. 226. gr. og 231. gr. sömu laga. Þá var talið sannað að AK hefði skipulagt innbrot í húsakynni A, þjófnað á tilteknum verðmætum þar og tekið við þeim úr höndum V og samverkamanni, en með því gerðist AK sekur um brot gegn 244. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga. Við ákvörðun refsingar varð að gæta að því að brot V og AK tóku til verulegra verðmæta og var þar um að ræða samverknað fjögurra manna að undangengnum rækilegum undirbúningi, sem AK hafði öðrum fremur á hendi og laut meðal annars að því hvers konar muni ætti að taka við fyrirhugaðan þjófnað. Hvorugur þótti eiga sér neinar málsbætur. V var einnig ákveðin refsing vegna fjögurra annarra brota, sem hann hafði verið sakfelldur fyrir. Þótti refsing V hæfilega ákveðin fangelsi í þrjú ár, en refsing AK fangelsi í tvö og hálft ár. Þá voru A dæmdar 800.000 krónur í miskabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 30. desember 2009 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur um sakfellingu ákærðu að öðru leyti en því að brot ákærða Viktors Más Axelssonar samkvæmt 1. lið ákæru ríkissaksóknara 13. júlí 2009 verði talið varða við 2. mgr. 226. gr. og 231. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, auk 252. gr. laganna sem sakfellt var fyrir í héraðsdómi. Þá er þess krafist að refsing beggja ákærðu verði þyngd.

Ákærði Axel Karl Gíslason krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð.

Ákærði Viktor Már Axelsson krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af háttsemi, sem varði við 252. gr. almennra hegningarlaga samkvæmt áðurgreindum lið í ákæru 13. júlí 2009, en án tillits til þess krefst hann að refsing verði milduð og komi til frádráttar henni gæsluvarðhaldsvist hans í 104 daga. Þá krefst hann að fjárhæð einkaréttarkröfu, sem A var dæmd í héraði, verði lækkuð.

I

Eins og greinir í héraðsdómi var mál þetta höfðað með þremur ákærum. Þá fyrstu gaf lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu út 12. maí 2009 á hendur ákærða Viktori Má ásamt Sævari Frey Höskuldssyni fyrir að hafa brotið gegn 244. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa 13. október 2008 brotist inn í nánar tiltekna verslun í Kópavogi og stolið þaðan tveimur fartölvum, svo og á hendur þeim fyrrnefnda einum fyrir að hafa brotið gegn 2. gr., sbr. 5. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni og reglugerðum, settum samkvæmt þeim lögum, með því að hafa 14. sama mánaðar haft í vörslum sínum 0,44 g af amfetamíni. Aðra ákæru gaf sami lögreglustjóri út 13. júlí 2009 á hendur ákærða Viktori Má fyrir að hafa brotið gegn 244. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa 31. maí 2009 annars vegar ruðst og hins vegar brotist inn í tvö tiltekin íbúðarhús í Hafnarfirði og stolið þar fartölvu, blikkljósi, bílavarahlutum og ýmsum skjölum. Þriðja ákæran var einnig gefin út 13. júlí 2009, en af ríkissaksóknara. Hún beindist að báðum ákærðu ásamt Jóhanni Kristni Jóhannssyni og Marvini Kjarval Michelsen. Í henni voru ákærði Viktor Már og Marvin bornir sökum um brot gegn 2. mgr. 226. gr., 231. gr. og 252. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa 25. maí 2009 ruðst inn á heimili fyrrnefnds A að [...] á [...] til að stela verðmætum, ráðist þar á hann þegar hann kom óvænt heim, bundið hann og krafið um upplýsingar um hvar tiltekin verðmæti væri að finna, tekið þar úr, skartgripi og fleira að andvirði samtals um 2.095.000 krónur og skilið hann svo eftir á gólfi í fjötrum, en við þetta hafi hann hlotið skrámur, mar og eymsli svo sem nánar var tilgreint í ákærunni. Í annan stað var ákærði Axel Karl sakaður um hlutdeild í broti gegn 244. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa skipulagt innbrot og þjófnað á heimili A fyrrgreint sinn, gefið ákærða Viktori Má og Marvin fyrirmæli og leiðbeiningar, tekið síðan við þýfi, sem hafi verið afrakstur ránsins, og komið því í hendur óþekkts manns. Loks var Jóhanni Kristni gefin að sök hlutdeild í broti gegn 244. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa ekið ákærða Viktori Má og Marvini að heimili A með vitneskju um áform þeirra, beðið eftir þeim og ekið með þá brott eftir að þeir komu í bifreiðina með þýfi.

Þáttur Sævars Freys Höskuldssonar samkvæmt ákæru 12. maí 2009 var skilinn frá málinu að öðru leyti og var honum gerð refsing með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 26. maí 2009, sem ekki var skotið til Hæstaréttar. Ákærði Viktor Már játaði fyrir dómi sakir samkvæmt fyrrnefndum ákærum lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 12. maí og 13. júlí 2009 og var hann með hinum áfrýjaða dómi sakfelldur fyrir þargreind brot. Að því er varðar 1. lið ákæru ríkissaksóknara 13. júlí 2009 neitaði ákærði Viktor Már að hafa slegið A, eins og honum var gefið að sök, og bar því einnig við að upphafleg ætlun sín hafi verið að brjótast inn í íbúðarhús A og stela, en ekki að fremja rán. Marvin neitaði því að hafa átt hlut að því að hafa bundið A eða að hafa lagt á hann hendur. Að öðru leyti lýstu þeir báðir þennan lið ákærunnar réttan. Ákærði Axel Karl neitaði allri sök samkvæmt 2. lið sömu ákæru. Þá kvaðst Jóhann Kristinn ekki hafa vitað um áform ákærða Viktors Más og Marvins um þjófnað og taldi því 3. lið ákærunnar rangan. Í hinum áfrýjaða dómi voru ákærði Viktor Már og Marvin sakfelldir fyrir þá háttsemi, sem þeim var gefin að sök í 1. lið ákærunnar, en hún þótti þó aðeins varða við 252. gr. almennra hegningarlaga. Þá voru ákærði Axel Karl og Jóhann Kristinn sakfelldir fyrir brot, sem þeir voru bornir sökum um í 2. og 3. lið ákærunnar. Marvin og Jóhann Kristinn undu báðir við niðurstöðu héraðsdóms og svo var einnig af hálfu ákæruvaldsins að því er þá varðar.

II

Niðurstaða héraðsdóms um sakir ákærða Viktors Más samkvæmt ákærum lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 12. maí og 13. júlí 2009 eru ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti og koma þær því ekki til frekari athugunar hér nema varðandi ákvörðun refsingar ákærða.

Svo sem orðalagi er háttað í 1. lið ákæru ríkissaksóknara 13. júlí 2009 verður að fallast á með héraðsdómi að ásetningur ákærða Viktors Más og fyrrnefnds samverkamanns hans hafi upphaflega ekki staðið til annars en að brjótast inn í íbúðarhús A 25. maí 2009 og fremja þar þjófnað. Eins og nánar greinir í héraðsdómi kom A á hinn bóginn að ákærða Viktori Má stuttu eftir að hann hafði brotið sér leið inn í húsið og áður en nokkru hafði þar verið stolið, en þá veittist ákærði að A. Staðfesta ber niðurstöðu héraðsdóms um að sannað sé að ákærði hafi slegið A hnefahögg í andlitið, þvingað hann til að liggja á gólfi, fjötrað hann síðan með límbandi á höndum og fótum og skilið hann loks eftir þannig einan í húsinu. Meðan á þessu stóð lét samverkamaður ákærða greipar sópa og hafa þeir viðurkennt að hafa haft á brott með sér verðmæti eins og í ákæru greinir. Ofbeldi það, sem ákærði beitti A, var órjúfanlegur þáttur í auðgunarbrotinu, sem framið var á þennan hátt og fellur undir 252. gr. almennra hegningarlaga, enda eru engin efni til að fallast á þá málsvörn ákærða að líta eigi svo á að háttsemi hans varði aðeins annars vegar við 217. gr. og hins vegar 245. gr. sömu laga sökum þess að hann hafi ekki beitt A valdi í öðrum tilgangi en til að tefja fyrir að sá síðarnefndi gæti leitað aðstoðar lögreglu. Frelsissviptingin, sem ákærði beitti A, kom ekki til fyrr en auðgunarbrot hans var hafið og leið hún á skömmum tíma undir lok eftir að hann yfirgaf vettvang, þótt A hafi þá enn um sinn verið í fjötrum. Húsbrot ákærða var jafnframt þáttur í auðgunarbroti hans. Að þessu virtu verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um að háttsemi ákærða Viktors Más varði við 252. gr. almennra hegningarlaga, sem tæmi hér sök gagnvart 2. mgr. 226. gr. og 231. gr. sömu laga.

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi lýsti Marvin Kjarval Michelsen því við aðalmeðferð málsins í héraði að ákærði Axel Karl hafi fengið sig og ákærða Viktor Má til að fara inn á heimili A 25. maí 2009 og taka þaðan muni, sem ákærði Axel Karl hafi tilgreint nánar hverjir ættu að vera. Sá síðastnefndi hafi í helstu atriðum lagt á ráðin um hvernig standa ætti að verki og tekið síðan við þeim verðmætum, sem Marvin og ákærði Viktor Már hafi tekið af heimili A. Fyrir dómi könnuðust hvorki ákærði Viktor Már né Jóhann Kristinn Jóhannsson, sem ók ákærða og Marvini á vettvang og þaðan brott, við að ákærði Axel Karl hafi átt þennan hlut að máli. Á hinn bóginn verður að gæta að því að fyrir dómi var borin undir ákærða Axel Karl frásögn hans í lögregluskýrslu 29. maí 2009 um að hann tengdist ekki máli þessu á annan hátt en þann að hann hafi tekið „við þýfinu“, sem hafi verið taska full af skartgripum og armbandsúrum, og látið hana í hendur manns, sem hann vildi ekki segja hver væri. Ákærði var spurður hvort þetta væri rétt, sem hann hafi sagt hjá lögreglu, og svaraði hann því án orðalenginga játandi. Samkvæmt þessu hefur ákærði gengist við því, sem hér var getið, fyrir dómi, en ekki einvörðungu fyrir lögreglu, svo sem lagt var til grundvallar í héraðsdómi. Að því virtu og með stoð í skýrslu Marvins fyrir dómi verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sannað sé að ákærði Axel Karl hafi skipulagt innbrot í húsakynni A, þjófnað á tilteknum verðmætum þar og tekið við þeim úr höndum Marvins og ákærða Viktors Más, en með því gerðist ákærði Axel Karl sekur um brot gegn 244. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga.

III

Við ákvörðun refsingar beggja ákærðu verður að gæta að því að brot þeirra samkvæmt ákæru ríkissaksóknara 13. júlí 2009 tóku til verulegra verðmæta og var þar um að ræða samverknað fjögurra manna að undangengnum rækilegum undirbúningi, sem ákærði Axel Karl hafði öðrum fremur á hendi og laut meðal annars að því hvers konar muni ætti að taka við fyrirhugaðan þjófnað. Eins og ákæru er háttað í málinu verður að leggja til grundvallar að ákærðu hafi ekki reiknað með að nokkur myndi hittast þar fyrir, þótt fram sé komið að ákærði Viktor Már hafi haft meðferðis á vettvang límband, sem hann notaði síðan til fjötra þar húsráðanda. Þar veittist ákærði Viktor Már með ofbeldi að húsráðandanum á áttræðisaldri, sem ákærða gat ekki dulist að væri alls ófær um að veita mótspyrnu, og skildi hann eftir í fjötrum án þess að skeyta nokkru um hvernig honum myndi reiða af. Í þessum þætti málsins á hvorugur ákærða sér neinar málsbætur, en að því verður þó einnig að gæta að refsimörk þeirra ákvæða almennra hegningarlaga, sem háttsemi hvors þeirra varðar við, eru ekki þau sömu.

Ákærði Axel Karl, sem er fæddur 1989, hlaut á árunum 2004 til 2006 í fimm skipti dóma fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, þar af fjórum sinnum fyrir auðgunarbrot, meðal annars rán. Hann var einnig á árunum 2006 og 2008 dæmdur tvívegis fyrir fíkniefnalagabrot. Áðurnefnd auðgunarbrot ákærða voru framin áður en hann varð fullra 18 ára og gætir því ekki ítrekunaráhrifa af þeim, sbr. 1. mgr. 71. gr. almennra hegningarlaga, en til sakaferils hans verður þó allt að einu litið við ákvörðun refsingar nú. Með brotinu, sem ákærði er hér sakfelldur fyrir, rauf hann reynslulausn, sem honum var veitt 26. október 2007 í tvö ár á 390 daga eftirstöðvum fyrri fangelsisdóma, og jafnframt skilorð, sem eins mánaðar fangelsi var bundið samkvæmt dómi á hendur honum 10. janúar 2008, en refsing verður nú ákveðin í einu lagi, sbr. 60. og 77. gr. almennra hegningarlaga. Hún er hæfilega ákveðin fangelsi í tvö og hálft ár.

Ákærði Viktor Már, sem einnig er fæddur 1989, hefur ekki svo að kunnugt sé áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Honum er nú ákveðin refsing vegna fyrrnefndra fimm brota. Eins og getið er í héraðsdómi framdi ákærði tvö þeirra, sem fólust í þjófnaði úr íbúðarhúsnæði, tveimur dögum eftir að hann losnaði úr gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar á ráninu, sem hann gerðist sekur um 25. maí 2009. Ákærða verður að öllu virtu gert að sæta fangelsi í þrjú ár, en til frádráttar þeirri refsingu skal koma gæsluvarðhald, sem hann hefur sætt og stóð samkvæmt því, sem óumdeilt var við málflutning fyrir Hæstarétti, í 104 daga.

Ákvæði héraðsdóms um bætur handa A og sakarkostnað verða staðfest.

Ákærðu verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjenda sinna, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði Axel Karl Gíslason sæti fangelsi í 2 ár og 6 mánuði.

Ákærði Viktor Már Axelsson sæti fangelsi í 3 ár, en til frádráttar þeirri refsingu komi gæsluvarðhaldsvist hans í 104 daga.

Héraðsdómur skal að öðru leyti vera óraskaður.

Ákærðu greiði hvor fyrir sig málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, hæstaréttarlögmannanna Jóhannesar Ásgeirssonar og Kristjáns Stefánssonar, 376.500 krónur í hlut hvors. Annan áfrýjunarkostnað málsins, 37.013 krónur, greiði ákærðu óskipt.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. október 2009.

Málið er höfðað í þrennu lagi.  Í fyrsta lagi er það höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri  13. júlí sl. á hendur ákærðu, Axel Karli Gíslasyni, kennitala 250389-2569, Seljalandi 3, Reykjavík, Jóhanni Kristni Jóhannssyni, kennitala 010587-2559,  Hólabergi 80, Reykjavík, Marvini Kjarval Michelsen, kennitala 100189-2599,  Kríuhólum 4, Reykjavík og Viktori Má Axelssyni, kennitala 110989-2599, Vesturbergi 118, Reykjavík,

„1.              Gegn ákærðu Viktori Má og Marvini Kjarval fyrir húsbrot, rán og frelsissviptingu með því að hafa að kvöldi mánudagsins 25. maí 2009 í heimildarleysi ruðst inn á heimili A að [...], [...], í því skyni að stela verðmætum. Þegar A kom óvænt heim réðist ákærði Viktor að honum, sló hann með hnefum í andlitið og neyddi hann til að leggjast á gólfið þar sem ákærðu bundu A á höndum og fótum með límbandi og kröfðu hann upplýsinga um hvar verðmæti væri að finna. Stóð ákærði Viktor yfir A á meðan meðákærði Marvin safnaði saman verðmætum en ákærðu höfðu á brott með sér fjölda úra, skartgripi, silfurskeiðar, verkfæri og vasaútvarp allt að verðmæti um 2.095.000 krónur  Er ákærðu fóru af vettvangi skildu þeir A eftir á gólfi vaskahúss í fjötrum og tókst honum með herkjum að losa sig úr þeim að tuttugu mínútum liðnum. Við atlöguna hlaut A skrámur og mar við vinstra auga og á nefi, eymsli á gagnaugasvæði og ofan við eyra vinstra megin, á handleggjum og fótleggjum.

Telst þetta varða við 2. mgr. 226. gr., 231. gr. og 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

2.                Gegn ákærða Axel Karli fyrir hlutdeild í þjófnaðarbroti með því að hafa skipulagt innbrot og þjófnað á heimili A, sbr. ákærulið 1, og gefið ákærðu Viktori og Marvin fyrirmæli og leiðbeiningar um að fara þangað og stela verðmætum, einkum úrum, og fyrir að hafa tekið við þýfinu sem var afrakstur ránsbrotsins í 1. ákærulið og afhenda það ónafngreindum aðila.

Telst þetta varða við 244. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en til vara við 254. gr. sömu laga.

3.                Gegn ákærða Jóhanni Kristni fyrir hlutdeild í þjófnaðarbroti með því að hafa ekið ákærðu Viktori og Marvin á vettvang að [...], þrátt fyrir vitneskju um þjófnaðaráform þeirra, beðið eftir þeim á meðan þeir létu greipar sópa á heimili A og ekið síðan brott af vettvangi eftir að meðákærðu komu inn í bifreiðina með þýfið.

Telst þetta varða við 244. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en til vara við 254. gr. sömu laga.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

A, kennitala [...], krefst skaðabóta úr hendi ákærðu Viktors og Marvins að fjárhæð kr. 1.000.000 ásamt vöxtum skv. 8. gr., sbr. 4. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 25. maí 2009 til þess dags er mánuður er liðinn frá því að kærðu var birt krafan en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags auk málskostnaðar við að halda kröfunni fram.“

   Í öðru lagi er málið höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 12. maí sl. á hendur ákærða Viktori Má „fyrir eftirtalin hegningar- og fíkniefnalagabrot:

I.

Á hendur ákærðu Viktori og Sævari fyrir þjófnað, með því að hafa í félagi að kvöldi mánudagsins 13. október 2008 brotisti inn í verslunina [...] við Hamraborg í Kópavogi og stolið þaðan tveimur fartölvum, með því að brjóta rúðu í versluninni, fara inn og taka tölvurnar og síðan lagt á flótta af vettvangi.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

II.

Á hendur ákærða Viktori fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa þriðjudaginn 14. október 2008 í herbergi í fjölbýlishúsi að [...] í Kópavogi, haft í vörslum sínum 0,44 g af amfetamíni sem lögregla fann við leit í herberginu.

Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr., laga um ávana og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og alls sakarkostnaðar.“

   Loks er málið höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 13. júlí sl. á hendur ákærða Viktori Má „fyrir eftirtalin hegningarlagabrot:

I.

Fyrir þjófnað, með því að hafa síðdegis sunnudaginn 31. maí 2009 í heimildarleysi ruðst inn í íbúðarhúsnæði að [...] í Hafnarfirði, í því skyni að stela verðmætum og stolið þaðan fartölvu af tegundinni IBM Thinkpad T42 að óþekktu verðmæti, sem ákærði síðan missti í gólfið er hann flúði af vettvangi.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

II.

Fyrir þjófnað, með því að hafa síðdegis sunnudaginn 31. maí 2009 brotist inn í íbúðarhúsnæði að [...] í Hafnarfirði með því að slíta í sundur stormjárn á glugga á neðri hæð hússins og stolið þaðan blikkljósi af vinnuvél og ýmsum bílavarahlutum auk ýmissa gagna og pappíra merktum [...] að óþekktu verðmæti, en lögregla fann munina í vörslum ákærða þegar hann var handtekinn.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

I. Ákæra ríkissaksóknara

Málavextir

Mánudagskvöldið 25. maí sl., kl. 20.35, barst lögreglu tilkynning um það að brotist hefði verið inn í húsið nr. [...] við [...] á [...], sem er einbýlishús, og ráðist þar á húsráðandann og hann rændur.  Þegar Rafn Hilmar Guðmundsson lögreglumaður kom á vettvang hitti hann fyrir húsráðandann, A úrsmið, kt. [...], og son hans, B.  Samkvæmt staðfestri skýrslu lögreglumannsins skýrði A svo frá að hann hefði komið heim um áttaleytið þetta kvöld og verið einn á ferð.  Hefði hann heyrt þrusk úr svefnherberginu.  Þegar hann ætlaði að fara þangað inn að aðgæta með þetta hafi hurðin verið opnuð innan frá og maður komið út.  Hefði hann þegar ráðist á sig með öskrum og látum og slegið sig í höfuðið og kvaðst hann annað hvort hafa fallið við höggið eða það að maðurinn hrinti honum.  Hefði maðurinn svo vafið hendur hans og fætur með límbandi og hann og annar maður til hefðu skipað honum að liggja kyrrum.  Hefðu mennirnir spurt hvar úrin væru og hefði hann sagt þeim að þau væru í vinnustofu á neðri hæð hússins.  Menn þessir hefðu talað íslensku og hefði annar verið kallaður Marri.  Hefðu mennirnir farið niður þangað en hann legið eftir hreyfingarlaus.  Eftir nokkra stund, þegar ekki heyrðist lengur til mannanna, hefði hann árætt að hreyfa sig og tekist að lokum að losna úr böndunum.  Hefði hann hringt í ættingja sína sem hefðu þegar komið til hans.

A leitaði á slysadeild Fossvogsspítala og er í málinu staðfest vottorð Steinunnar G.H. Jónsdóttur læknis þar.  Segir þar að A hafi verið í miklu uppnámi og virst örþreyttur.  Hafi hann sagt menn hafa ráðist á sig og bundið á höndum og fótum.  Hann hefði verið með verið skrámur og mar við vinstra auga en þar kvað hann gleraugu hafa verið brotin á sér.  Þá hafi A kvartað um eymsli yfir gagnaugasvæði og ofan við eyrað vinstra megin þar sem hann sagðist hafa verið sleginn.  Einnig hafi hann sagst vera aumur á höndum og fótum eftir að hafa losað sig úr fjötrum. 

Í ljós kom að svefnherbergisgluggi hafði verið spenntur upp og þar verið farið inn.  Guðjón Grétarsson rannsóknarlögreglumaður rannsakaði vettvang.  Í staðfestri skýrslu hans segir að [...] sé einbýlishús á tveimur hæðum sem standi innst í götunni, tvær hæðir mót norðri, en neðri hæðin sé niðurgrafin mót suðri.  Útgangur sé úr eldhúsi á annarri hæð út í suðurgarð hússins.  Útivistarsvæði sé á bak við húsið og til suðurs, [...].  Þar séu göngustígar um hæðina og liggi einn þeirra þétt upp að lóðarmörkum hússins.  Íbúð sé á efri hæð hússins, en bílskúr og úrsmíðastofa á þeirri neðri. Auk þess séu þar bakherbergi og forstofa.  Efri hæðin skiptist í stofur og borðstofu, skrifstofuaðstöðu, tvö herbergi, svefnherbergi hjóna og eldhús. Innbrotsmenn höfðu komið inn um svefnherbergisglugga í sunnanverðu húsinu.  Þar hafi sést ummerki þess að rifið hafði verið upp opnanlegt gluggafag, stormjárn verið slitið frá og auk þess hafi sést för og spark eftir skó á utanverðu gleri.  Á gólfinu hafi auk þess verið að sjá skóför.  Í eldhúsvaski hafi verið tætlur af límbandi.  Í herbergi gegnt eldhúsi hafi sést að leitað hafði verið skúffum og þar voru á gólfinu tvö póstkort sem lágu innpökkuð í sellofan.  Í horni á stofu hafi sést að borðstofuskenkur hafði verið opnaður og þar hjá hafi verið silfurskeið og umbúðir af henni. Á neðri hæð hússins sé aðstaða til úraviðgerða.  Þar hafi litið út fyrir að greipar hafi verið látnar sópa.  Er haft eftir húsráðandanum að fjöldi armbandsúra og úrfesta hafði verið tekinn. Allir voru þessir munir í þar til gerðum bökkum, auk þess sem eitthvað hefði verið í sýningarramma með glerloki sem hékk á vegg þar inni.  Reynt hafi verið að finna nothæf fingraför í húsinu til rannsóknar en engin nothæf fingraför hafi fundist. 

Teknar voru ljósmyndir af húsinu, innanstokks sem utan,  Þá voru teknar myndir af áverkum á A.  Þessar myndir fylgja málinu. 

Í málinu er yfirlit sem A gerði um það sem stolið var og annað

fjárhagstjón sem hann beið af ráninu.  Þar segir svo: 

“17 gömul vasaúr úr einkasafni t.d. Roskophf patent frá því fyrir 1880 í mjög góðu lagi, Gullúr frá Pierpont með 40 micro gullhúð þar sem upphafsstafir mínir xx voru handgrafnir á bakið. Omega gullúr. 3 úr í silfurkassa með cylinder gangverki frá 1860. Ég fékk 6 úr til baka frá lögreglunni en það voru verðminnstu úrin. Líklegt er að kunnáttumaður hafi farið yfir þýfið. Stolnu úrin eru allt merkileg úr sem safnarar sækjast eftir. Lágmarksverðmæti 600.000 krónur.

4 gullhringar, verðmæti u.þ.b. 80.000 krónur

Fullur bakki af gömlum armbandsúrum sem ég hef safnað á löngum tíma c.a. 45 stk. Lágmarksverð u.þ.b. 1 milljón króna.

Vasaútvarp, Sony verðmæti u.þ.b. 15.000 kr.

Silfurskeiðar að verðmæti u.þ.b. 30.000 kr.

4 nýleg armbandsúr að verðmæti u.þ.b. 50.000 kr.

Verkfæri af verkstæði, ýmsar tangir og sérhæft áhöld, verðmæti u.þ.b. 180.000 kr.

Úr í viðgerð 2 stk. verðmæti u.þ.b 140.000 kr.

Skemmdir á glugga. Smiður er langt kominn með viðgerðir og áætlar kostnað við útkall og síðan lagfæringar u.þ.b. 30.000 krónur.

Skemmdir á parketti í svefnherbergi eftir að gluggi/gluggakappi datt á það við innbrotið. Erfitt að gera við nema með mikilli fyrirhöfn.

Rifin peysa og buxur eftir árásina u.þ.b. 40.000 kr.

Mölbrotin tvískipt gleraugu u.þ.b. 160.000 kr.

Auk þess var stolið 65 herraúrakeðjum og 42 dömuúrakeðjum sem skilað var aftur rispuðum og þvældum. Auk þess var skilað nokkrum ónýtum úrum og verðlitlu drasli sem tekið hafði verið.“

Við eftirgrennslan lögreglu beindist grunur að ákærðu í málinu.  Voru þeir handteknir  næstu daga á eftir og yfirheyrðir hjá lögreglu.

Ákærði Viktor Már neitaði að öllu leyti sök hjá lögreglu þegar hann var yfirheyrður.

Ákærði Axel Karl neitaði að nokkru sök hjá lögreglu í yfirheyrslu sem fram fór að viðstöddum verjanda hans.  Hann kvaðst ekki  tengjast þessu máli nema fyrir það að hafa tekið við þýfinu í [...], tösku sem full hefði verið af úrum, úrfestum og skartgripum, og hefði hann látið félaga sinn fá þetta í hendur.  Þegar hann svo hefði lesið um málið í blöðunum og séð hversu gróft það var hefði hann beðið félagann um að skila þessu í hendur lögreglunni.

Ákærði Marvin Kjarval sagði frá því í skýrslu, sem hann gaf hjá lögreglu að viðstöddum verjanda sínum, að Axel Karl hefði sent þá Viktor Má til þess að brjótast inn í húsið sem um ræðir og sagt þeim að stela þar tilteknum verðmætum.  Hefði Axel Karl komið á kynnum þeirra Viktors Más 2 eða 3 vikum fyrir atburðinn.  Hann hefði sagt þeim að húsið væri mannlaust og væri búið að prófa það með því að hringja í heimasímann.  Hefði hann sagt þeim að stela þar armbandsúrum en engu öðru.  Hann hefði sagt þeim hvar herbergið væri í húsinu þar sem úrin væru geymd.  Þegar þangað kom hefðu þeir farið á bak við húsið og þar hefði Viktor rykkt upp glugga og farið inn.  Hefði Viktor Már svo opnað fyrir sér svaladyrnar.  Þegar hann kom inn hefði hann séð að Viktor var með gamlan, hræddan mann sem hann skipaði að leggjast á gólfið.  Hefði Viktor Már skipað sér að hafa gætur á manninum meðan hann fór niður á neðri hæðina að leita að vinnuherberginu þar sem úrin áttu að vera.  Hann hafi komið upp aftur án þess að hafa fundið herbergið.  Kvaðst ákærði þá hafa farið niður að leita en Viktor Már hefði gætt mannsins á meðan.  Hefði hann fundið herbergið og gengið þar að verðmætunum sem hann setti í tösku.  Hefðu þetta verið fjölmörg úr, úrfestar og einhverjir gullhringar.  Hefði hann ekki verið nema 5 – 10 mínútur að þessu.  Þegar hann kom upp aftur hefði Viktor verið búinn að fjötra manninn með límbandi þannig að hendur hans voru fyrir aftan bak og fætur hans beygðir um hné.  Voru hendur og fætur að auki bundin saman með bandinu. Hefði maðurinn aðeins getað hreyft sig, þrátt fyrir þetta.  Hann kvaðst hafa, að beiðni Viktors, haldið við hendur mannsins meðan hann var að festa þær.  Hann kvaðst hafa tekið út með þessu því maðurinn hefði minnt sig á afa sinn og ekkert gert á þeirra hlut.  Hefði hann ekki átt skilið að lenda á ræflum eins og þeim tveimur.  Þeir hefðu svo farið út um svaladyrnar og Viktor borið töskuna með þýfinu.  Skammt frá húsinu hefði bíll beðið eftir þeim og ökumaðurinn, Jói, hefði ekið þeim að Reykjavíkurflugvelli þar sem þeir hefðu hitt ákærða Axel Karl.  Hefði Axel Karl sent þá í þennan leiðangur og lagt við hótanir.  Kvaðst ákærði hafa verið skuldugur honum fyrir fíkniefni.  Ákærði kvaðst ekki hafa séð að gamli maðurinn væri sleginn en hann hefði þó séð áverka á honum undir öðru auganu.  Þá hefði hann ekki heyrt að manninum væri hótað með piparúða.  Hann hefði hins vegar séð Viktor Má draga manninn til og svo hafa heyrt hann skipa manninum að leggjast niður.  Hann kvaðst hafa heyrt manninn biðja um að hringt væri á sjúkrabíl en ekki að hann bæði um vatn.

Ákærði Jóhann Kristinn skýrði frá því í yfirheyrslu hjá lögreglu og að viðstöddum verjanda sínum að hann hafi verið skuldugur vegna fíkniefna og eitt sinn hefði Axel Karl Gíslason hringt í sig og boðið honum að fíkniefnaskuld, um 100 þúsund krónur, yrði gerð upp með því að hann tæki að sér að aka tveim tilteknum mönnum, Marvin og Viktor, á milli tiltekinna staða.  Hefði honum verið útvegaður bíll til þess arna. Hann hefði sótt þá þar sem þeir voru við Krónuna í Seljahverfi.  Hefði hann ekki gert sér grein fyrir að þeir væru að fara í einhvern þjófnaðarleiðangur en talað um að Marvin og Viktor myndu sækja tösku á tiltekinn stað, sennilega fara inn í hús og koma síðan aftur í bílinn með tösku sem ætti að vera í anddyri viðkomandi húss.  Aðspurður hvort hann hefði ekki haldið að þeir ætluðu sér að fara að stela sagði hann: „Jú en samt ekki…“ Hann skýrði þetta nánar með því að segja að hann hefði álitið að þetta væri í tengslum við einhver viðskipti þeirra og að þeir ættu að taka þessa tösku og ef til vill hlaupa með hana á brott.  Hefði hann ekið þeim út á [...] eftir leiðsögn Marvins, án þess að spyrja nokkurs, og numið staðar við ákveðna götu þar sem þeir tveir fóru úr bílnum og sögðust koma aftur eftir smástund. Hefði Marvin verið með bakpoka á bakinu.  Á meðan hann beið hefði Axel Karl hringt og spurt hvar hann væri og hvort hann væri ekki á leiðinni.  Eftir um 20 mínútur hefðu þeir Marvin og Viktor komið skokkandi yfir opið svæði og sest inn í bílinn.  Hefðu þeir virst vera nokkuð rólegir og voru með tvo bakpoka eða töskur  Ekki hefði hann séð hvað var í bakpokunum.  Hann myndi að Marvin hefði sagt við Viktor: „Sagðir þú nafn mitt þarna inni?" og svaraði Viktor: „Já, ég kallaði þig gælunafni."  Hefði Marvin þá sagt við Viktor að ef málið kæmist upp, þá ætti hann „feitt" inni hjá Viktori. Hann kvaðst ekki hafa vitað að þeir Marvin og Viktor hefðu verið að gera neitt ólöglegt þarna og þeir ekki sagt neitt hvað þeir hefðu gert.  Þessi orðaskipti þeirra hefðu þó orðið til þess að hann hefði spurt þá hvort eitthvað hefði gerst en þeir neitað því.  Hann hefði svo farið með þá að flugstöðinni á Reykjavíkurflugvelli og lagt bílnum fyrir aftan annan bíl á bílastæðinu þar.  Þar hefði verið  ókunnugur maður, stór og feitur, sem tók við töskunum af þeim Marvin og Viktori og setti í svartan bíl.  Ekki kvaðst hann hafa séð Axel Karl þarna en áleit að hann væri í svarta bílnum.  Honum hefði svo verið sagt að aka strákunum áleiðis upp í Breiðholt þar sem hann lagði bílnum fyrir utan hjá sér. Hefði hann ekki viljað aka þeim alla leið þar sem hann var sviptur ökurétti.

Verður nú gerð grein fyrir því sem fram hefur komið í aðalmeðferð málsins. 

Ákærði Viktor Már hefur sagt að upphaflega hafi verið ætlunin að brjótast inn til þess að stela en ekki til þess að ræna á [...].  Þá tekur hann einnig fram að hann hafi ekki slegið A.  Að öðru leyti segir ákærði ákæruna vera rétta.  Hann segir þá Marvin hafa ákveðið sameiginlega að fara að [...] og brjótast þar inn.  Hafi þeir valið húsið af handahófi og ekki átt von á því að þar fyndust sérstaklega mikil verðmæti.  Hann kveðst hafa sagt Jóhanni Kristni til vegar en tekur það svo aftur að hann hafi gert það og er á honum að skilja að það hafi verið tilviljun að þeir lentu á þessu húsi.  Hann kveðst ekki hafa átt nein samskipti við Axel Karl áður en þetta gerðist og ekki vita um slíkt.  Kveðst hann hafa farið inn um glugga á húsinu og þá komið í flasið á manninum.  Hafi maðurinn gripið í sig en hann þá tekið í manninn og ýtt honum eins fast og hann gat í gólfið.  Geti maðurinn hafa meiðst í andliti við það að detta á andlitið.  Hann segist aðspurður hafa beðið manninn afsökunar á þessu.  Hafi hann sagt manninum að liggja þar og vera rólegur.  Hann hafi svo opnað dyrnar fyrir Marvin. Kveðst ákærði hafa farið að leita að verðmætum í húsinu en ekkert fundið.  Þeir hafi spurt manninn hvar verðmæti væri að finna.  Kveðst hann hafa beðið Marvin að leita og á meðan hafi hann gætt mannsins.  Eitthvað hafi þeim manninum farið á milli á meðan en ekki muni hann hvað það var.  Muni hann þó að maðurinn bað um eitthvað undir höfuðið og kveðst ákærði hafa sett einhverja tusku undir höfuð honum.  Ekki muni hann að maðurinn hafi beðið um að hringt yrði á sjúkrabíl.  Hafi hann bundið manninn laust með breiðu límbandi áður en þeir fóru út og hugsunin hafi verið sú að maðurinn gæti losað sig sjálfur eftir  nokkrar mínútur.  Hafi þeir skilið manninn eftir á eldhúsgólfinu, að hann minnir, og farið af staðnum með úrin.  Jóhann Kristinn hafi beðið eftir þeim í bílnum og ekið þeim á stað þar sem þeir afhentu ókunnum manni þýfið, á stað sem ákærði vill ekki tilgreina.  Hann neitar einnig að lýsa manni þessum.  Þá neitar ákærði að segja hvernig þeir hafi verið í sambandi við mann þennan.  Þá viti hann ekkert um þátt Axels Karls í þessu máli.  Hann segir þýfið hafa verið í tösku sem hann segist halda að þeir hafi komið með á innbrotsstaðinn.    Hann kveðst ekki hafa skoðað fenginn allan. 

Ákærði segist hafa tekið sig á eftir þennan atburð.  Hafi hann sótt fundi og hafið skólanám.  Þá hafi hann unnið hluta af sumrinu.  Hann segist vera að reyna að ljúka námi og koma undir sig fótunum.

Ákærði Marvin Kjarval neitar sök að því leyti að hann kveðst ekki hafa bundið A eins og segir í 1. tl. ákærunnar.  Kveðst hann ekki hafa lagt hendur á manninn.  Að öðru leyti kveður hann ákæruna vera rétta.  Hann hefur skýrt frá því að ákærði Axel Karl hafi fengið þá meðákærða Viktor Má, sem hélt til heima hjá ákærða, til þess að fara á staðinn og brjótast þar inn og stela úrum fyrir einhverja aðra.  Eigi Axel Karl mjög létt með að fá menn til slíkra verka en hann segist hafa verið félítill og efnafíknin hafi einnig rekið á eftir.  Hann segir þá hafa fengið nákvæmar leiðbeiningar hjá Axel Karli að fara eftir til þess að finna úrin. Axel Karl hafi áður farið með þeim og sýnt þeim húsið og sagt þeim hvar herbergið væri þar sem þeir ættu að leita að þýfinu.  Hafi strákur, sem ákærði veit ekki deili á, ekið þeim í þessari ferð.  Hann kveður Jóhann Kristin svo hafa ekið þeim Viktori á vettvang í ferðinni þegar brotist var inn.  Hann kveður Axel Karl ekki hafa sagt Jóhanni Kristni allan sannleikann um ferðina og látið hann halda að sækja ætti illa fengnar tölvur.  Hafi þetta verið til þess að ekki þyrfti að greiða Jóhanni Kristni eins mikið fyrir ómakið og þeim hinum.  Lítið hafi verið talað í bílnum á leiðinni út á [...] en þeir Viktor Már hafi farið úr bílnum nokkuð frá húsinu og þurft að ganga yfir autt svæði að því.   Þegar honum er sýndur uppdráttur af þessu svæði segir hann að þeir hafi farið úr bílnum á [...] og hafi það verið samkvæmt leiðbeiningum Axels Karls að bílnum var lagt þar.  Hann kveðst svo hafa hjálpað Viktori Má til þess að komast upp í gluggann þar sem hann fór inn.  Hann hafi svo heyrt læti út og þegar búið var að opna svaladyrnar fyrir honum hafi hann séð gamlan, hræddan mann liggjandi á gólfinu fyrir innan og með áverka í andliti.  Hafi Viktor Már staðið yfir manninum, sem hann hafði dregið að svaladyrunum, og sagt honum að vera kyrrum og ýtt á axlir manninum.  Viktor Már hafi fyrst farið að leita að verðmætunum en sjálfur hafi hann staðið yfir manninum á meðan.  Viktor hafi komið aftur og sagt að hann fyndi þetta ekki og kveðst ákærði þá hafa farið að leita og fundið verðmætin strax, úr, keðjur og fleira.  Kveðst hann hafa sett þetta í tösku.  Þegar hann kom aftur frá því að finna úrin hafi Viktor verið búinn að fjötra manninn á höndum og fótum með límbandi og hafi hendur og fætur mannsins verið bundin saman fyrir aftan bak þannig að maðurinn lá á grúfu.  Hafi maðurinn beðið um að hringt yrði á sjúkrabíl og kveðst ákærði hafa sagt að þeir myndu gera það.  Hafi manninum liðið illa og sjálfur hafi hann verið miður sín því hann segir gamla manninn hafa minnt sig á afa sinn.  Hann segist ekki muna eftir orðaskiptum Viktors og gamla mannsins eftir að hann kom til baka með þýfið.  Hann segir það geta verið rétt að maðurinn hafi beðið um vatn að drekka.  Þá segist hann hafa tekið eftir því að maðurinn var með klæði af einhverju tagi undir höfðinu.  Viktor hafi tekið góssið og farið með það út og kveðst ákærði hafa fylgt á eftir.  Hafi þeir farið í bílinn til Jóhanns aftur og hann ekið þeim á fundarstaðinn sem Axel hafði ákveðið og var hjá flugstöðinni á Reykjavíkurflugvelli.  Þar hafi Axel Karl, sem var þar með öðrum manni, tekið við þýfinu og farið með það.  Hafi hann sagst mundu hitta þá á eftir og greiða þeim laun fyrir þetta.  Ekki muni hann hver sú greiðsla hafi verið.  Það sem hann hafi sagt hjá lögreglu um fíkniefnaskuld og ofbeldishótanir af hálfu Axels Karls hafi verið tilbúningur sem hann hafi haldið að gæti flýtt fyrir því að hann losnaði úr haldi lögreglu.  Hann segir Jóhann svo hafa ekið þeim Viktori Má upp í Breiðholt.

Ákærði er spurður út í það sem hann sagði hjá lögreglunni, að hann hafi að beiðni Viktors haldið við hendur mannsins meðan Viktor var að festa þær.  Segir hann hugsanlegt að hann hafi „lagt fingur á hann“ en hann segist ekki muna eftir þessu.  Hann segist ekki vita neitt um afdrif þess sem stolið var.

Ákærði Axel Karl kveðst þekkja meðákærðu en neitar að segja hversu vel hann þekki þá.  Þá neitar hann að tjá sig um það hvort hann hafi tekið við þýfi frá þeim Marvin og Viktori.  Hann segir það vera rétt sem haft er eftir honum í lögregluskýrslunni.

Ákærði Jóhann Kristinn segist hafa skutlað þeim Marvin og Viktori út á [...] í greiðaskyni við Marvin.  Hann kveðst þekkja Axel Karl frá barnæsku.  Hann kannast ekki við það að Axel Karl hafi fengið hann til þessa aksturs.  Hann muni ekki eftir því að hafa sagt þetta í yfirheyrslu hjá lögreglunni.  Hann neitar að svara því hvort það sem hann sagði þá sé rangt, en það var tekið upp á mynddisk.  Hann svarar því ekki heldur hvort Marvin hafi verið sá sem hringdi og bað hann að aka.  Hann segist einskis hafa spurt um tilganginn með förinni og ekkert hafa um hann vitað.  Hafi lítið verið talað á leiðinni.  Hann segist hafa sagt lögreglunni að þetta hefði hann gert vegna fíkniefnaskuldar, sjálfsagt af hræðslu við það að fara í gæsluvarðhald.    Hann segir að skuldin sé enn til staðar.  Hann segist ekki hafa verið með ökuréttindi á þessum tíma.  Hann segist ekki vilja svara neinu um bílinn sem farið var á.  Þeir hafi komið til baka í bílinn úr leiðangri sínum eftir um 10 - 20 mínútur með tösku.  Hann segist ekki vilja segja hvert hann ók þeim eftir þetta nema að hann hafi farið heim til sín á bílnum.  Taskan hafi verið afhent einhverjum strák þetta kvöld sem hafi átt hana.  Hafi hann ekki vitað hvað í henni var.  Meira vill hann ekki segja um töskuna.  Undir ákærða er borið það sem hann sagði frá í lögregluskýrslunni um hringinguna frá Axel Karli.  Segist hann ekki vilja svara til um það.  Hann segir það rangt sem segi í lögregluskýrslunni að Axel Karl hafi fengið sig til þess að aka með þá hina tvo.

Ákærði segist búa með barnsmóður sinni.  Hann segir þau vera flutt til Danmerkur þar sem hann sé að setjast í skóla.  

Vitnið A hefur skýrt frá því að hann hafi verið nýkominn heim í umrætt sinn og verið einn heima.  Hafi hann heyrt skarkala úr svefnherberginu og ætlað að opna inn en í þeim svifum hafi dyrnar opnast innan frá og grímuklæddur maður komið fram á móti honum.  Segir A manninn hafa öskrað upp þegar hann varð sín var og slegið sig tvisvar hnefahögg í andlitið svo að gleraugu hans brotnuðu.  Kveðst hann hafa meiðst undan þessu höggi.  Hafi maðurinn rifið í hálsmálið á fötum hans og skellt honum í gólfið á bakið.  Kveðst hann því ekki hafa meiðst í andlitinu við það að vera settur í gólfið.  Hafi maðurinn sagt að hann skyldi þegja, annars myndi hann líma fyrir munninn á honum með breiðu límbandi.  Hafi hann bundið hann með límbandi á höndum og fótum og bundið saman hendur og fætur með því beygja fæturna aftur um hnén.  Eftir þetta hafi hann einnig hótað því að sprauta piparúða í augun.  Hann segist hafa orðið þess var að annar maður var þarna einnig, en hann hafi ekki séð hann og engin samskipti átt við hann, svo hann muni.  Hafi sá maður leitað að verðmætum um allt hús.  Hafi hann kallað upp af neðri hæðinni þar sem vinnustofan sé að hann fyndi engin úr.  Þá hafi sá sem var uppi spurt sig höstuglega um úrin og kveðst hann hafa sagt honum það.  Hafi maðurinn þá kallað: „Marri, þau eru þarna niðri!“  A kveðst hafa beðið um að fá vatn að drekka en þá hafi maðurinn sem hjá honum var farið í kranann og fengið sér að drekka en ekki gefið honum að drekka.  Hann segir þó að þessi maður hafi sett tusku undir höfuð hans til þæginda fyrir hann.  Hann kveðst hafa beðið mennina um að hringja fyrir sig á sjúkrabíl því hann óttaðist að þurfa annars að liggja bundinn svo dögum skipti, en eiginkona hans hafi verið erlendis.  Hann kveðst ekki minnast þess að maðurinn hafi sagt að hann ætlaði ekki að berja hann eða meiða.  Hann segist þó ekki vilja fortaka það en þar sem þetta sé haft eftir honum í lögregluskýrslu hljóti það að vera rétt. 

Hann kveður þetta allt hafa gengið nokkuð fljótt fyrir sig, 10 mínútur eða svo, þar til þeir fóru aftur út.  Hafi hann þá farið að reyna að losa sig og það reynt mjög á hann en þó hafi það tekist nokkuð fljótt, einkum að losa fæturna því límbandið var utan um buxur hans.  Ver hafi gengið með hendurnar sem hafi verið harðlega bundnar.  Eftir það hafi hann átt í erfiðleikum með að hringja því gleraugu hans voru brotin.  Hafi hann þó getað hringt í son sinn sem hafi komið fljótlega. 

Hann segir að utan á húsinu sé skilti þar sem standi „[...]“.  Það sjáist hins vegar ekki fyrr en komið sé að húsinu.  Hann kveður úrin sem hurfu hafa verið úr sem hann hafði safnað meðan hann starfaði við úrsmíði.  Þar á meðal hafi verið safn af sérstæðum vasaúrum í kassa.  Hafi þau öll verið tekin.  Þá hafi verið þarna nokkrir gullhringar og leifar úr versluninni sem hann hélt úti.  Mikið af þýfinu hafi svo skilað sér, einkum það sem lítil verðmæti voru í, svo sem úrfestar.  A segir það athyglisvert að eitt vasaúrið, sem honum þótti vænt um og tilgreint er á listanum, hafi ekki skilað sér aftur.  Það úr hafi verið í góðu lagi.  Þess í stað hafi verið skilað úri sömu tegundar en það hafi verið ónýtt.  Kveður hann þetta benda til þess að þarna hafi kunnáttumaður um vélað.  Hann segir verðmæti þess sem rænt var vera varlega reiknað, enda geti gömul úr verið mjög verðmæt.  Hann segist hafa jafnað sig á líkamlegu áverkunum á nokkrum dögum en þessi atburður hafi skilið eftir sig önnur spor.  Þannig finni hann oft til óöryggis, heyri hann óvæntan hávaða.  Hann segist hafa óttast um líf sitt þarna og liðið illa meðan á þessu stóð.  Hann segist þurfa að taka lyf við háum blóðþrýstingi og hafa fundið fyrir hjartslætti meðan hann var þarna fangi mannanna.  Þá getur hann þess að barnabörn hans þori tæpast að koma í heimsókn lengur og vilji ekki gista hjá afa sínum og ömmu.  

Niðurstaða

1.

Sannað er með framburði ákærðu, Viktors Más og Marvins Kjarval, að þeir brutust inn í húsið [...] í umrætt sinn.  Þeir hafa báðir sagst hafa staðið í þeirri trú að enginn væri þar heima og að ásetningur þeirra hafi einungis verið að stela úrum sem þeim hafði verið sagt að væru þar, en ekki að ræna íbúana þar.  Ekkert er komið fram í málinu sem bendir til annars en að þetta sé rétt hjá ákærðu og verður þessu slegið föstu.  Þá er sannað með játningu Viktors Más, sem studd er vætti A, að þegar þeir A hittust þar óvænt í svefnherbergisdyrunum hafi ákærði veist að A, sett hann í gólfið og látið hann liggja þar og auk þess hleypt meðákærða inn um svaladyrnar.  Ákærði Viktor Már hefur neitað því að hafa slegið A en með framburði A, læknisvottorðinu, sem grein var gerð fyrir, svo og ljósmyndum af A, telst vera sannað að ákærði hafi slegið hann tvö hnefahögg í andlitið.  Þá er það sannað með framburði ákærðu beggja, sem studdur er vætti A, að þeir skiptust á um að gæta hans og leita að verðmætunum.  Þá er sannað með framburði ákærðu beggja, sem stuðning hefur af vætti A, að Viktor Már fjötraði A á höndum og fótum með sterku límbandi eins og rakið hefur verið og að Marvin Kjarval liðsinnti honum lítillega við það.  Loks er sannað með játningu ákærðu og vætti A að ákærði Marvin Kjarval fann verðmætin, sem taka átti og tilgreind eru í ákærunni, setti þau í tösku og ákærðu höfðu þau á brott með sér.   Ákærðu hafa með þessu orðið sekir um rán og brotið gegn 252. gr. almennra hegningarlaga.  Ekki verður séð að 2. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga sé ætlað að taka til verknaðar af því tagi sem ákærðu eru orðnir sekir um.  Þá tæmir auðgunarbrotið sök gagnvart 231. gr. almennra hegningarlaga.

2.

Ákærði Axel Karl neitar sök.  Hann viðurkenndi þó í skýrslu hjá lögreglu, að viðstöddum verjanda sínum, að hafa tekið við tösku með úrum, úrkeðjum og skartgripum sem hann svo hlutaðist til um að komið var til skila eftir á.  Hann hefur neitað að tjá sig um þetta atriði fyrir dómi þótt hann staðfesti þessa skýrslu sína.  Viktor Már hefur sagt að honum sé ókunnugt um þátt Axels Karls í þessu máli en kannast þó við að þeir hafi farið með ránsfenginn á stað, sem hann vill ekki tiltaka, og afhent hann þar ókunnum manni.  Aftur á móti hefur Marvin Kjarval borið það, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, að Axel Karl hafi fengið þá Viktor Má til þess að fara að [...], brjótast þar inn og stela úrum.  Þá segir hann Axel Karl hafa tekið við góssinu þegar þeir komu þaðan og hittu hann á Reykjavíkurflugvelli.  Í lögregluyfirheyrslu, sem tekin var upp, sagði Jóhann Kristinn Axel Karl hafa fengið sig til þess að aka þeim hinum út á [...] og þaðan á Reykjavíkurflugvöll þar sem hann hefði einnig tekið við töskunni.  Þá sagði hann Karl Axel hafa hringt í sig meðan hann beið í bílnum eftir þeim hinum.  Fyrir dómi hefur hann dregið þennan framburð til baka og sagst hafa tekið að sér að gera þetta fyrir Marvin Kjarval en jafnframt kannast við það að þeir Karl Axel hafi þekkst frá barnæsku.  

Dómurinn lítur svo á að engin trúverðug eða viðhlítandi ástæða sé fyrir þessum breytta framburði Jóhanns Kristins um hlut ákærða Axels Karls að málinu og verður hér byggt á skýrslu hans hjá lögreglunni um hann.  Þá verður einnig byggt á játningu ákærða hjá lögreglu um það að hann hefði tekið við töskunni með ránsfengnum.  Með þessu tvennu og eindregnum framburði Marvins Kjarvals um þátt ákærða telur dómurinn það vera sannað að hann hafi skipulagt innbrot á [...] og þjófnað á úrum þar svo og að hafa í framhaldinu tekið undir sig þau verðmæti sem þar voru tekin.  Ásetningur ákærða tók ekki til frekara brots en þjófnaðar, frekar en þeirra Viktors Más og Marvins Kjarval, og verður hann því einungis sakfelldur fyrir hlutdeild í þjófnaði og broti gegn 244. gr., sbr. 22. gr. almennra hegningarlaga.

3.

Ákærði Jóhann Kristinn neitar því að hafa vitað að til stæði að stela verðmætum þegar hann ók þeim Viktori Má og Marvin Kjarval út á [...].  Ákærði gaf ítarlega skýrslu hjá lögreglunni að viðstöddum verjanda sínum.  Ber henni í flestum atriðum saman við frásögn þeirra Marvins Kjarvals og Viktors Más um ökuferðina út á [...] og þaðan á Reykjavíkurflugvöll og atvik sem tengjast því ferðalagi.  Þá hefur breyttur framburður ákærða fyrir dómi enga trúverðuga eða viðhlítandi ástæðu, eins og fyrr sagði.  Ber að byggja á skýrslu ákærða hjá lögreglu um þessi atvik öll.  Þannig liggur það fyrir að ákærði fór þessa ferð fyrir beiðni Axels Karls á bíl sem honum var útvegaður og þótt hann væri sviptur ökurétti.  Þá beið ákærði eftir þeim tveimur meðan þeir brugðu sér frá með tösku og hann ók þeim, eftir að hann sá þá koma skokkandi með hana yfir [...], á Reykjavíkurflugvöll þar, sem aðrir tóku við henni.  Þegar gengið var á ákærða hjá lögreglu um tilganginn með ferðinni bendir svar hans svo sterklega til þess að hann hafi vitað að þetta væri innbrotsleiðangur að stappar nærri játningu.  Er því óhætt að telja það sannað að ákærði hafi hlotið að vita að farþegarnir voru að fara til þess að stela og að þeir höfðu með sér fenginn þegar hann ók þeim á Reykjavíkurflugvöll.  Ber að sakfella hann fyrir hlutdeild í þjófnaði og brot gegn 244. gr., sbr. 22. gr. almennra hegningarlaga.

II. Ákæra lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, 12. maí sl.

Ákærði hefur skýlaust játað þjófnað og fíkniefnabroti sem hann er saksóttur fyrir með þessari ákæru.  Hefur hann orðið sekur um athæfi það sem lýst er í ákærunni og réttilega er þar fært til refsiákvæða. 

III. Ákæra lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, 13. júlí sl.

Ákærði hefur skýlaust játað þá þjófnaði sem hann er saksóttur fyrir með þessari ákæru.  Hefur hann orðið sekur um athæfi það sem lýst er í ákærunni og réttilega er þar fært til refsiákvæðis. 

Refsing, skaðabætur og sakarkostnaður

Ákærði Axel Karl á að baki verulegan sakaferil, þrátt fyrir ungan aldur.  Hann hefur til þessa hlotið sjö refsidóma fyrir ýmisleg brot, einkum hegningarlagabrot og þar á meðal líkamsárás og rán.  Ákærði hlaut reynslulausn 26. október 2007 af 390 fangelsisdögum og 10. janúar 2008 var hann dæmdur í mánaðarlangt skilorðsbundið fangelsi fyrir fíkniefnalagabrot. Ákærði hefur rofið skilorð bæði reynslulausnar þessarar og dómsins og ber að dæma upp skilorðið og gera honum refsingu í einu lagi.  Þykir hún hæfilega ákveðin fangelsi í 20 mánuði.

Ákærði Jóhann Kristinn hefur ekki fyrr gerst sekur um hegningarlagabrot.  Refsing hans þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 3 mánuði.  Rétt þykir að fresta framkvæmd refsingarinnar og ákveða að hún falli niður að liðnum 3 árum frá dómsuppsögu, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði Viktor Már hefur ekki áður gerst sekur um refsilagabrot og hann hefur auk þess að mestu játað ránsbrotið fyrir dómi.  Þá ber að hafa í huga að ásetningur til ráns kom ekki upp í huga hans fyrr en hann var kominn inn í húsið og rakst þar á húsráðandann.  Á hinn bóginn verður að líta til þess að verknaður ákærða var gríðarleg misgerð við persónu og heimilisfrið aldraðs manns.  Þá er ekki unnt að horfa fram hjá því að ákærði braust tvisvar sinnum inn og stal tveimur dögum eftir að hann var laus úr gæsluvarðhaldi vegna ránsins.  Þykir refsing hans vera hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár.  Frá refsingunni ber að draga gæsluvarðhald í 103 daga.

Ákærði Marvin Kjarval hefur ekki áður gerst sekur um refsilagabrot.  Brot ákærða á [...] var verulegt þótt athæfi hans þar verði ekki jafnað við verknað Viktors Más.  Á hinn bóginn verður að hafa hliðsjón af því að hann játaði strax brot sitt og ljóstraði upp um aðra sakborninga.  Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði.  Frá refsingunni ber að draga tveggja daga gæsluvarðhaldsvist.

Ekki er gerð krafa um upptöku fíkniefnis í ákærunni 12. maí sl. og verður upptaka því ekki dæmd.

Af hálfu A hefur þess verið krafist að ákærðu, Viktor Már og Marvin Kjarval, verði dæmdir til þess að greiða honum 1.000.000 krónur í miskabætur ásamt almennum vöxtum samkvæmt 8., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001, frá 25. maí 2009 til þess er mánuður var liðinn frá því að þeim var birt krafan en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr. laganna til greiðsludags.   Með hliðsjón af þeirri miklu meingerð við A, sem ákærðu eru sekir um, ber að dæma þá til þess að greiða honum óskipt 800.000 krónur í miskabætur.  Þá ber að dæma ákærðu til þess að greiða almenna vexti af fjárhæðinni frá  25. maí 2009 til 21. september 2009 en eftir það dráttarvexti til greiðsludags.

Dæma ber ákærða Axel Karl til þess að greiða verjanda sínum, Jóhannesi Ásgeirssyni hrl., 224.000 krónur í málsvarnarlaun, ákærða Jóhann Kristin til þess að greiða verjanda sínum, Jóni Höskuldssyni hrl., 237.048 krónur í málsvarnarlaun, ákærða Marvin Kjarval til þess að greiða verjanda sínum, Brynjólfi Eyvindssyni hdl., 278.880 krónur í málsvarnarlaun og ákærða Viktor Má til þess að greiða málsvarnarlaun verjendum sínum, þeim Stefáni Karli Kristjánssyni hdl., 630.829 krónur ásamt kostnaði, Erlendi Þór Gunnarssyni hdl., 97.610 krónur og Agnari Þór Guðmundssyni hdl., 83.664 krónur.  Loks ber að dæma ákærðu Marvin Kjarval og Viktor Má óskipt til þess að greiða Ólafi Garðarssyni hrl. 150.000 krónur í réttargæslulaun að meðtöldum 14.000 króna kostnaði.  Málsvarnar- og réttargæslulaunin dæmast með virðisaukaskatti.

Annan sakarkostnað, 38.850 krónur, ber að dæma ákærðu Marvin Kjarval og Viktor Má til þess að greiða óskipt.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Ákærði, Axel Karl Gíslason, sæti fangelsi í 20 mánuði.

Ákærði, Jóhann Kristinn Jóhannsson, sæti fangelsi í 3 mánuði.  Frestað er því að framkvæma refsingu þessa og fellur hún niður að liðnum 3 árum frá dómsuppsögu, haldi ákærði almennt skilorð.

Ákærði, Marvin Kjarval Michelsen, sæti fangelsi í 12 mánuði.  Frá refsingunni dregst tveggja daga gæsluvarðhaldsvist.                                                                         

Ákærði, Viktor Már Axelsson, sæti fangelsi í tvö ár.  Frá refsingunni dregst 103 daga gæsluvarðhald.

Ákærðu, Marvin Kjarval og Viktor Már, greiði A 800.000 krónur í miskabætur ásamt almennum vöxtum frá 25. maí 2009 til 21. september 2009 en eftir það með dráttarvöxtum til greiðsludags.

Ákærði Axel Karl greiði verjanda sínum, Jóhannesi Ásgeirssyni hrl., 224.000 krónur í málsvarnarlaun, ákærði Jóhann Kristinn greiði verjanda sínum, Jóni Höskuldssyni hrl., 237.048 krónur í málsvarnarlaun, ákærði Marvin Kjarval greiði verjanda sínum, Brynjólfi Eyvindssyni hdl., 278.880 krónur í málsvarnarlaun, ákærði Viktor Már greiði verjendum sínum málsvarnarlaun, þeim Stefáni Karli Kristjánssyni hdl., 630.829 krónur, Erlendi Þór Gunnarssyni hdl., 97.610 krónur og Agnari Þór Guðmundssyni hdl., 83.664 krónur.  Loks greiði ákærðu Marvin Kjarval og Viktor Már óskipt Ólafi Garðarssyni hrl. 150.000 krónur í réttargæslulaun og kostnað. 

Annan sakarkostnað, 38.850 krónur, greiði ákærðu Marvin Kjarval og Viktor Már óskipt.