Hæstiréttur íslands

Mál nr. 423/2000


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Skilorð
  • Skaðabætur
  • Vanreifun
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta


Fimmtudaginn 15

 

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001.

Nr. 423/2000.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Valdimar Þór Ólafssyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

                                       

Líkamsárás. Skilorð. Skaðabætur. Vanreifun. Frávísun að hluta frá héraðsdómi.

V var ákærður fyrir að hafa veist að K með hrindingum, tekið hann hálstaki og slegið hnefahögg í andlitið með þeim afleiðingum að hann hefði hlotið nefbrot, tilfærslu á nefbeinum, glóðaraugu og rispur í andliti. V bar að hann hefði ekki veitt K alla þá áverka sem hann hefði orðið fyrir. Þegar átökin hefðu staðið yfir hefðu vinir K komið aðvífandi og reynt að losa hann með því að sparka í sig. Hefði K þá einnig orðið fyrir spörkunum. Ekki voru talin efni til að hrinda því mati héraðsdóms á framburði vitna að ekkert benti til að K hefði fengið spörk eða högg frá öðrum en V. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu V. Vísað var frá dómi skaðabótakröfu K vegna vanreifunar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 2. nóvember 2000 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess nú að héraðsdómur verði staðfestur að öðru leyti en því að ákærði verði dæmdur til að greiða Kolbeini Andra Ólafssyni skaðabætur að fjárhæð 315.515 krónur „auk dráttarvaxta.“

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvalds, en til vara að refsing verði milduð frá því, sem ákveðið var í héraðsdómi. Þá krefst hann þess að skaðabótakröfu Kolbeins Andra Ólafssonar verði vísað frá héraðsdómi, en að því frágengnu að hún verði lækkuð.

I.

Í málinu er ákærði sóttur til saka fyrir að hafa brotið gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981 og 111. gr. laga nr. 82/1998, með því að hafa 21. nóvember 1999 veist að Kolbeini Andra Ólafssyni, fæddum 1984, með hrindingum, tekið hann hálstaki og slegið hnefahögg í andlitið með þeim afleiðingum að hann hafi hlotið nefbrot, tilfærslu á nefbeinum, glóðarauga beggja megin og rispur í andliti. Þá var og haldið þar uppi skaðabótakröfu Kolbeins, sem lækkuð var undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi í 315.515 krónur, en jafnframt krafðist hann dráttarvaxta af 257.000 krónum frá 21. nóvember 1999.

Ákærði kveður framangreint atvik hafa átt þann aðdraganda að hann hafi verið að vinna við byggingu húss að Lækjarsmára 1 í Kópavogi áðurnefndan dag, en gert hlé á vinnu sinni og farið í heimsókn til bróður síns, Sigurþórs Ólafssonar, að Lækjarsmára 17. Hann hafi verið staddur á heimili Sigurþórs þegar hann varð þess var að nokkur ungmenni væru að kasta snjóboltum að vinnuskúr, sem hann átti hlut í, og brjóta þar rúður. Hafi hann hlaupið út úr húsinu ásamt Sigurþór og samverkamanni sínum, Garðari Steingrímssyni, sem þar hafi einnig verið staddur. Þeim hafi tekist að ná þremur af fjórum piltum, sem hafi átt hlut að verknaðinum, og haldið þeim, en lögreglan hafi verið kvödd á vettvang. Meðan beðið var komu hennar hafi Kolbeinn komið út úr húsinu að Lækjarsmára 13 og farið að skipta sér af gerðum ákærða. Komið hafi til orðaskipta milli þeirra og síðan átaka, sem lauk með því að ákærði hafi tekið Kolbein hálstaki. Hafi þá komið aðvífandi nokkrar stúlkur, sem hafi verið í samkvæmi á heimili Kolbeins, og leitast við að losa hann úr tökum ákærða, meðal annars með spörkum. Ákærði hafi þrátt fyrir þetta haldið Kolbeini þar til lögreglan tók við honum.

Í frumskýrslu lögreglunnar greindi meðal annars frá því að þegar hún kom á vettvang hafi ákærði haldið Kolbeini tökum á jörðinni og þeir báðir verið blóðugir. Hafi lögreglan tekið Kolbein og tvo nafngreinda pilta, sem þeir Sigurþór og Garðar hafi haldið, og kannað skemmdir á áðurnefndum vinnuskúr. Var haft eftir ákærða að hópur unglinga í vinfengi við Kolbein hafi komið að, þar sem þeir lágu á jörðinni, og hafi spörk frá þeim „lent í höfði hans og einnig Kolbeins.“ Hins vegar var haft eftir Kolbeini að ákærði hafi hrint honum, tekið hann hálstaki og „lamið hann nokkrum sinnum í andlitið með krepptum hnefa“, en hvorki var minnst þar né í lögregluskýrslu, sem hann gaf daginn eftir, á að hann hafi orðið fyrir spörkum eins og ákærði lýsti. Kolbeinn kvaðst hins vegar hafa veitt ákærða hnefahögg í andlitið í átökum þeirra. Bæði ákærði og Kolbeinn munu hafa leitað á slysadeild í framhaldi af átökunum. Liggur fyrir í málinu læknisvottorð um ákærða, þar sem meðal annars kemur fram að hann hafi fengið blóðnasir, mikið glóðarauga og rispur undir auga, en beinbrot voru engin og tennur heilar.

II.

Í héraðsdómi er greint frá framburði ákærða og vitna fyrir dómi, en eins og þar segir stóðu flest vitnin í tengslum ýmist við ákærða eða Kolbein Andra Ólafsson. Meðal þess, sem almennt var leitað svara um hjá vitnum, var hvort unglingsstúlkur, sem komu að ákærða og Kolbeini í átökum og hugðust liðsinna þeim síðarnefnda, kunni að hafa óvart sparkað í hann og valdið þannig einhverjum þeim áverkum, sem um ræðir í ákæru. Garðar Steingrímsson og Sigurþór Ólafsson báru báðir fyrir dómi að stúlkurnar hefðu sparkað bæði í ákærða og Kolbein. Tvær af stúlkunum, sem áttu þar hlut að máli, neituðu hvor fyrir sitt leyti að hafa sparkað í Kolbein, en útilokuðu ekki að einhver önnur kynni að hafa gert það. Þótt að þessu leyti sé að nokkru ofmælt í hinum áfrýjaða dómi að ekkert hafi komið fram í málinu, sem benti til að Kolbeinn hafi fengið spörk eða högg frá öðrum en ákærða, fær það því ekki breytt að niðurstaða þar um sök ákærða er reist á rökstuddum ályktunum af framburði vitna, sem taka meðal annars mið af mati á sönnunargildi framburðar þeirra. Eru ekki efni til að hrinda þessu mati á þann hátt, sem um ræðir í 5. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994. Með þessari athugasemd og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða, svo og um refsingu.

Eins og fram kemur í héraðsdómi er skaðabótakrafa Kolbeins Andra Ólafssonar á hendur ákærða sundurliðuð þannig að um sé að ræða bætur fyrir þjáningar hans í sjö daga án þess að hann væri rúmliggjandi, sbr. 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 eins og henni var breytt með 2. gr. laga nr. 37/1999, samtals 7.000 krónur, miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga, sbr. 13. gr. síðarnefndu laganna, 250.000 krónur, og þóknun lögmanns ásamt virðisaukaskatti, samtals 58.515 krónur. Til stuðnings kröfu um þjáningabætur og miskabætur liggja ekki fyrir önnur gögn í málinu en vottorð sérfræðings á háls-, nef- og eyrnadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur frá 14. febrúar 2000. Hvorki er þar greint frá veikindum Kolbeins af völdum áverkanna né vikið að því hvort þeir gætu haft varanlegar afleiðingar. Í vottorðinu kemur fram að Kolbeinn gæti þurft að gangast síðar undir aðgerð til að rétta frekar nefbrot, en ekkert liggur fyrir um hvort af því hafi orðið. Að þessu gættu er krafa um bæði þjáningabætur og miskabætur svo vanreifuð að óhjákvæmilegt er að vísa henni sjálfkrafa frá héraðsdómi. Fer þá á sama veg um kröfu vegna lögmannskostnaðar og þar með skaðabótakröfu Kolbeins í heild.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að skaðabótakröfu Kolbeins Andra Ólafssonar á hendur ákærða, Valdimar Þór Ólafssyni, er vísað frá héraðsdómi.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 75.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 13. október 2000.

Mál þetta, sem dómtekið var 6. október sl., er höfðað með ákæru sýslumannsins í Kópavogi dags. 29. maí, á hendur Valdimar Þór Ólafssyni, kt. 030573-5879, til heimilis að Hlégerði 7 Kópavogi, fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 111. gr. laga nr. 82/1998, „fyrir líkamsárás, með því að hafa að kvöldi sunnudagsins 21. nóvember 1999, við vinnuskúr sunnan við nýbyggingu sem er nr.  17 við Lækjasmára, veist að Kolbeini Andra Ólafssyni, kt. 091184-3979 með hrindingum, tekið hann hálstaki og slegið hann hnefahögg í andlitið, með þeim afleiðingum að Kolbeinn hlaut nefbrot og tilfærslu á nefbeinum, glóðaraugu beggja megin og rispur í andliti".

Í ákæru er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Fyrir hönd foreldra Kolbeins, þeirra Guðmundínu Kolbeinsdóttur og Ólafs Lúðvíkssonar, gerir Kristján B. Thorlacius hdl. kröfu þess efnis, að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 319.515,- auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, með síðari breytingum frá 21. nóvember 1999 til greiðsludags.

Ákærði tók til varna í málinu og sætti það aðalmeðferð hér fyrir dómi. Krefst hann þess aðallega að hann verði alfarið sýknaður af kröfum ákæruvalds og að allur sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði. Til vara krefst ákærði þess, að verði hann fundinn sekur verði brotið talið falla undir 3. mgr. 218. gr.a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og verði refsing látin niður falla. Í varakröfu krefst verjandi málsvarnarlauna sér til handa. 

Krafist er frávísunar á bótakröfu.

Eftir dómtöku máls þessa þann 6. þ.m. varð dómari þess var að hluti af hljóðupptöku hafði misfarist og hafði glatast framburður vitnanna Odds Ólafssonar lögreglumanns, Evu Sólveigar Þórisdóttur og Kjartans Hrafns Matthíassonar. Af þessum sökum taldi dómari óhjákvæmilegt að endurupptaka málið og fá vitnin Odd og Evu  fyrir dóma að nýju. Á hinn bóginn taldi dómari óþarft að taka nýja vitnaskýrslu af Kjartani, enda lýsir fulltrúi ákæruvalds því yfir að hann muni ekki byggja neitt á framburði hans. Sakflytjendur gerðu ekki athugasemdir við þetta fyrirkomulag. Var málið dómtekið að nýju.

 

I.

Samkvæmt rannsóknargögnum lögreglu var hún kvödd að Lækjarhjalla 17 í Kópavogi, laust eftir klukkan 9 að kvöldi þess 21. nóvember 1999. Hafði verið óskað eftir aðstoð hennar vegna rúðurbrota í vinnuskúr. Tilkynnt hafði verið að þremur unglingspiltum væri haldið á staðnum vegna þessa. Á leið á staðinn barst lögreglunni aftur ósk um að hraðað yrði för, þar sem átök væru á staðnum. Er lögreglan kom á vettvang hélt ákærði Valdimar, meintum brotaþola Kolbeini, í tökum niður við jörð og vorur báðir aðilar blóðugir. Sagðist ákærða svo frá, í frumskýrslu lögreglu um atburðinn, að hann og félagar hans hefðu séð er fjórir unglingspiltar hafi brotið rúður í vinnuskúr sem hann og bróðir hans eiga og stóð þar skammt frá. Hafi hann ásamt Sigurþóri og Garðari félaga sínum náð þremur piltanna en einn hafi hlaupið á brott. Skömmu eftir þetta hafi hinn meinti brotaþoli, Kolbeinn, komið þarna og verið æstur og hótað sér og sagst skyldu berja hann ef hann sleppti ekki félaga hans. Hafi hann þá sleppt stráknum og gengið að Kolbeini og boðið honum að slást ef hann vildi, hafi þá Kolbeinn slegið sig tvisvar í andlitið. Eftir þetta hafi hann náð tökum á Kolbeini og lagt hann í jörðina og haldið honum þar. Við þessi slagsmál hafi síðan borið að nokkra unglinga og hafi sumir þeirra tekið að sparka í hann, þar sem hann lá í jörðinni með Kolbein og hafi nokkur sparkanna lent í höfði sínu og einnig hafi spörk lent á  Kolbeini.

Meintur brotaþoli, Kolbeinn, kveðst hafa komið þarna að og þá séð hvar ákærði ásamt tveimur öðrum mönnum, þeim Sigþóri og Garðari, hafi haldið félögum hans vegna ásakana um að hafa brotið rúður í vinnuskúr ákærða og bróður hans Sigurþórs. Hafi ákærði Valdimar hrint honum, tekið á honum hálstak og lamið hann nokkrum sinnum í andlitið með krepptum hnefa. Hafi hann átt erfitt um andardrátt og náð að stynja því upp við Valdimar sem hafi þá sagt að hann gæti þá bara drepist.

Samkvæmt vottorði Ólafs Fr. Bjarnasonar sérfræðings á Háls- nef- og eyrnadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur, kom Kolbeinn á göngudeild spítalans hinn 29. nóvember 1999. Í vottorðinu segir svo um áverka Kolbeins: „Hann er með talsvert mikla innkýlingu á vinstra nefbeini, með mikilli hliðrun á nefi til hægri. Hann er með stór glóðaraugu á báðum augum. Ytri augnhreyfingar eru eðlilegar og pupillurectionir virðast eðlilegar. Einnig með blæðingu í slímhúð á hægra augnloki. Ekki er finnanlegur neinn dofi í andliti og engar misfellur þreifanlegar á neðri brún augntóftar né í öðrum andlitsbeinum. Talsvert mikil skekkja í miðsnensi neðan til og aftan til yfir til vinstri. Sjúklingu kvartar einnig undan braki í anterior efri góm þegar hann bítur saman tönum og einnig dofatilfinningu í framtönnum í efri góm". Um meðferð segir: "Brot og tilfærsla á nefbeinum var lagfært í staðdeyfingu og yfirborðsdeyfingu og náðist nokkuð góð lega á nefbeinum eftir það. Aftur á móti er miðsnesið ennþá talsvert mikið skakkt og tekst ekki að rétta það. Það hefur greinileg gengið úr skorðum við barsmíðarnar og gæti þuft að rétta það seinna með annarri aðgerð.....".  

 

II.

Í skýrslu sinni fyrir dómi, segir ákærði svo frá atburðum sunnudagskvöldsins 21. nóvember 1999, að hann hafi verið ásamt systkinum sínum Björgu og Sigþuróri ásamt Garðari vinnufélaga sínum, að horfa á fréttir í sjónvarpi heima hjá bróður ákærða. Hafi systir ákærða setið við glugga og heyrt brothljóð að utan. Hafi hún kallað til þeirra að verið væri að brjóta rúður í vinnuskúr sem þeir bræður eiga. Hafi þeir þá hlaupið út og fljótlega tekist að ná 3 strákum en einn hafi komist undan. Segir ákærði að hann hafi, þegar búið var að ná strákunum, beðið systur sína að hringja á lögregluna. Segir ákærði að krakkar sem í kring voru hafi tekið upp GSM-síma og farið að hringja og hafi einhver hótað því að nú ætti að berja þá. Síðan segir ákærði að meintur brotaþoli, Kolbeinn, hafi komið út úr húsinu heim hjá sér og ráðist á þá með hótunum og segi m.a.,  "ef þú sleppir ekki strákunum lá lem ég þig". Kolbeinn hafi síðan hrint honum og hann við það misst derhúfu af höfði sér. Þá hafi hann ætlað að hrinda Kolbeini til baka en ekki náð til hans og þá fengið tvö hnefahögg í andlitið. Því næst nái hann að grípa í Kolbein og detti hann á sig og  falli þeir báðir í jörðina og hafi sér tekist að ná hálstaki á  Kolbeini. Fljótlega segist ákærði hafa orðið var við það að einhverjar stelpur sem voru mjög æstar komu þarna að og hafi þær öskrað á hann að sleppa Kolbeini og síðan hafið að berja og sparka í sig ofanverðan. Hann hafi því reynt að setja höfuð sitt sem næst hálsmáli Kolbeins til að hlífa því við höggum og spörkum en  hann hafi engu að síður fengið mikið af spörkum í höfuð og hendur. Ákærði greinir frá því, að þegar hann varð þess var að lögreglan var komin á svæðið, hafi hann strax staðið upp og afhent Kolbein í hendur lögreglu. Kemur fram hjá ákærða að Kolbeinn hafi kallað þá öllum illum nöfnum er hann kom út til þeirra og haft í frammi hótanir sem sér hafi þótt ástæða til að taka alvarlega. Gefur ákærði þær skýringar á þeim áverkum sem síðar komu í ljós á andliti Kolbeins, að þeir hljóti að stafa frá spörkum stelpnanna sem réðust að honum með höggum, en þær haf verið mjög æstar og "móðursjúkar" og því hafi þær ekki getað vitað hvar spörk þeirra lentu. Neitar ákærði því alfarið að hafa slegið Kolbein í andlitið, hann hafi allan tímann haldið Kolbeini í hálstaki í þeirri viðleitni sinni, að koma í veg fyrir að hann lemdi sig fleiri högg í andlitið en Kolbeinn hafi verið mjög æstur. Neitar ákærði því einnig að hann hafi lamið höfði Kolbeins ítrekað í jörðina, enda hafi hann ekki getað það þar sem hann hafi haft Kolbein í hálstaki allan tímann. Aðspurður telur hann að hann hafi haft Kolbein í hálstaki í c.a 2-3 mínútur.

Kolbeinn Andri Ólafsson greinir svo frá atvikum sunnudagskvöldsins 21. nóvember 1999, að hann hafi verið heima hjá sér er Eyjólfur vinur hans hafi komið hlaupandi inn og segi að menn hafi náð vinum þeirra og haldi þeim og hóti að fara með þá inn í skúr og drepa þá. Við þessar fréttir segist Kolbeinn hafa farið út og komið þar að sem ákærði Valdimar, við þriðja mann heldur félögum hans. Hafi hann sagt við Valdimar að hann væri aumingi að ráðast á 14-15 ára unglinga. Hafi Valdimar strax hótað að berja sig en hann hafi svarað því til að hann væri ekki hræddur við hann. Valdimar hafi síðan fengið félaga sínum þann strák sem hann hélt föstum og gengið að sér og hrint. Segist Kolbeinn hafa hrint honum á móti en ákærði hafi  þá slegið hann hnefahöggi í andlitið en hann hafi svarað í sömu mynt. Síðan hafi ákærði hent honum í jörðina og lagst ofan á hann eftir að hafa náð á hálstaki slegið sig mörg högg í andlitið og barið höfði hans ítrekað í jörðina. Aðspurður kveðst Kolbeinn hafa þekkt tvo af þeim þremur mönnum sem héldu kunningjum hans, ákærða Valdimar og bróður hans Sigurþór. Um þátt stúlknanna í málinu segir Kolbeinn, að ákærði hafi haldið sér í það föstu hálstaki að hann hafi ekki náð andanum, þegar losnað hafi um takið hafi hann náð að kallað á ákærða að hann væri að drepa sig og hafi ákærði svarað því til að hann gæti bara drepist. Við þetta hafi stelpurnar byrjað að sparka í ákærða og lemja, þar sem þær hafi talið að hann mundi drepa sig. Segist Kolbeinn aðspurður ekki hafa fengið nein spörk í sig frá þeim.

Við aðalmeðferð málsins komu einnig fyrir dóm sem vitni þau Björg Ólafsdóttir  systir ákærða, Sigurþór Ólafsson bróðir ákærða, Garðar Steingrímsson, Linda Hólmfríður Pétursdóttir, Samúel Kristjánsson, Arnór Guðmundsson, Kjartan Hrafn Matthíasson, Eva Sólveig Þórisdóttir og Oddur Ólafsson lögreglumaður.

Í framburði vitninsins Bjargar Ólafsdóttur segir, um átökin umrætt kvöld, að Kolbeinn hafi ýtt við ákærða sem missi við það derhúfu sem hann hafi verið með. Kolbeinn hafi síðan ráðist á ákærða og byrjað að lemja hann og þeir síðan lent í jörðinni en þá hafi hún farið inn og hringt á lögregluna en framburður Bjargar er óljós um það tímamark þegar hún hringir á lögregluna. Kemur einnig fram hjá vitninu, að hún hafi mest allan tíman staðið undir svölum, svolítið frá og því ekki séð allt sem gerðist og er það í samræmi við það sem kemur fram í lögregluskýrslu sem tekin var af vitninu skömmu eftir atburðinn. Segir vitnið að hún hafi fyrst blandað sér beint inn í málið þegar hún hleypur til og hrindir stúlku frá sem hafi byrjað að sparka í ákærða sem hafi snúið baki í sig en stúlkan hafi verið mjög æst og öskrað og æpt. Segir vitnið að hún hafi séð nokkur spörk lenda á ákærða en henni hafi ekki tekist að koma í veg fyrir að tvær aðrar stelpur sem þarna voru spörkuðu líka í ákærða og hafi þau spörk lent á baki, haus og á hnakka ákærða. Í lögregluskýrslu lýsir vitnið því að hún hafi heyrt háan smell þegar Kolbeinn sló ákærða í andlitið. Aðspurð, fyrir dómi, lýsir vitnið því að þetta hafi hún heyrt þegar Kolbeinn lemur ákærða þar sem þeir liggja í fangbrögðum í jörðinni. Nánar spurð um þetta segist hún ekki hafa séð beint hvar höggið lenti og segist hún ekki hafa séð í raun hvort það var Kolbeinn sem veitti höggið sem smellurinn kom af eða hvort það var ákærði. 

Vitnið Sigurþór Ólafsson, bróðir ákærða ber, að hann og ákærði, ásamt Garðari kunninga þeirra, hafi haldið þremur strákum vegna gruns um rúðubrot er meintur brotaþoli, Kolbeinn kemur að þeim og "sé með skæting" og fari að skipta sér af. Hafi þeir sagt honum ástæðu þess að þeir haldi strákunum og að lögreglan sé á leiðinni en við það hafi Kolbeinn orðið æstur. Ákærði og Kolbeinn fari síðan að rífast sem endi með því að Kolbeinn hrindi ákærða sem nái í fallinu að grípa í Kolbein og detti þeir báðir í jörðina en áður hafi Kolbeinn lamið ákærða tvisvar í andlitið. Eftir þetta hafi ákærði haldið Kolbeini niðri þangað til lögreglan kom.  Í skýrslu sinni hjá lögreglu skýrir Sigurþór frá því að hann hafi séð atburði takmarkað eftir að ákærði og Kolbeinn lenda í jörðinni en áður en þeir lendi í jörðinni hafi Kolbeinn slegið ákærða tvö föst högg og hafi ákærði virst vankast við það. Fyrir dómi segir Sigurþór að hann hafi einnig séð hvar stelpur stóðu yfir ákærða þar sem hann heldur Kolbeini á jörðinni og sparki þær í báða aðila sennilega hafi þær verið þrjár. Ekki segist hann hafa náð tölu á spörkum stúlknanna en allavega hafi þetta verið ein 6-7 spörk. Lýsir vitnið því yfir að hann hafi ekki heyrt neinn háan smell eins og vitnið Björg hefur lýst og  einu höggin sem vitnið sér séu þau tvö högg sem hann segir að Kolbeinn hafi veitt ákærða.

Vitnið Garðar Steingrímsson, ber á sama veg og vitnið Sigurþór og Björg um aðdraganda málsins. Greinir hann jafnframt frá því að Kolbeinn hafi komið að og hótað ákærða að hann geti nú alveg lamið hann ef hann láti ekki þessa stráka í friði. Ákærði hafi svarað þessu með þeim orðum "að hann skuli þá gera það" og hafi ákærði gengið í áttina að Kolbeini. Kolbeinn hafi þá ýtt ákærða sem detti afturábak og sé við það að missa derhúfu sem hann hafði á höfðinu og grípi því um höfuð sér, í sömu andrá slái Kolbeinn ákærða tvö föst högg í andlitið. Ákærði nái síðan taki á Kolbeini og detti þeir báðir í jörðina en ákærði haldi Kolbeini föstum. Það næsta sem gerist sé það að stelpur komi þarna að og séu þær "stjörnuvitlausar" og hefji að sparka í ákærða og örugglega líka í Kolbein þar sem ákærði sé ofan á honum. Síðan gerist það að Björg systir ákærða kemur þar að og hrindi hún einni stelpunni frá. Aðspurður segir vitnið að hann hafi ekki séð ákærða gera Kolbeini neitt annað en að halda honum niðri og telji hann að stelpurnar sem veittu spörkin hafi veitt Kolbeini þá áverka sem hann bar eftir átökin en hann hafi verið í góðri aðstöðu til að sjá atburði enda staðið í um 1 1/2 meter fjarlægð frá atburðinum.  Fram kemur hjá vitninu, að hann er æskufélagi og vinur ákærða.

Vitnið, Linda Hólmfríður Pétursdóttir, greinir svo frá upphafi átakanna, að þegar hún kom að hafi menn haldið þremur strákum. Kolbeinn hafi komið þar að og byrjað að tala við ákærða sem hafi brugðist við með því að hrinda Kolbeini. Ákærði hafi því næst slegið Kolbein og náð honum niður og haldið áfram að slá hann. Hún og stúlka að nafni Eva hafi þá hlaupið til og barið í bakið á ákærða og stúlka að nafni Karen hafi líka komið og hafi þær sparkað og lamið í bak og höfuð ákærða. Hafi Karen meðal annars náð að sparka í gagnauga hans svo skurður hafi myndast. Aðspurð segir vitnið að hún hafi ekki séð neitt spark lenda annarsstaðar en á ákærða. Greinir vitnið einnig frá því að Kolbeinn hafi líka slegið ákærða áður en þeir féllu á jörðina.

Vitnið Samúel Kristjánsson greinir svo frá um upphaf átakanna, að Kolbeinn hafi komið út þar sem sér hafi verið haldið ásamt tveimur vinum sínum. Kolbeinn og ákærði hafi strax farið að rífast og slagsmál brotist út. Vitnið treystir sér ekki til að greina nánar frá átökunum vegna þess að langt sé um liðið. Í lögregluskýrslu sem vitnið gaf 18. janúar 2000 en þá voru tæpir 3 mánuðir frá því að atvik þessi áttu sér stað, kemur fram hjá vitninu, að er Kolbeinn kom á vettvang hafi hann spurt ákærða af hverju hann væri að hóta vinum sínum en þá hafi ákærði sagt honum að halda kjafti eða hann berði hann, hafi þá Kolbeinn sagt að hann væri ekki hræddur við hann. Við þetta hafi maðurinn gengið að Kolbeini og hrint honum en Kolbeinn svarað í sömu mynt. Þá hafi ákærði kýlt Kolbein í andlitið með kreptum hnefa og náð honum í jörðina með einhverju bragði og haldið þar áfram að kýla Kolbein meðal annars með flötum lófa upp undir nef hans. Hafi Kolbeinn sagt "þú nefbraust mig það er byrjað að blæða". Eftir þetta hafi stelpurnar komið og byrjað að sparka í ákærða þar til systir ákærða kom og hrinti stelpunum í burtu.

Vitnið Arnór Guðmundsson greinir svo frá upphafi átakanna, að Kolbeinn hafi komið út og spyrji ákærða hvað hann sé að hóta vinum sínum. Við þetta hafi komið til orðaskipta milli hans og ákærða. Ákærði hafi  þá sagt, "á ég að lemja þig" og hafi Kolbeinn svarað, "ég er ekki hræddur við þig". Ákærði kýli Kolbein í andlitið og Kolbeinn kýli hann á móti. Ákærði og Kolbeinn falla í jörðina í átökum og ákærði haldi áfram að kýla hann meðal annars í nefið þegar þeir liggja og hafi Kolbeinn sagt við ákærða "þú ert búinn að nefbrjóta mig fíflið þitt". Aðspurður um þátt stúlknanna, segir vitnið að þær hafi sparkað og lamið í bakið á ákærða en hann hafi ekki getað greint nákvæmlega hvar spörk þeirra lenda.

Vitnið Eva Sólveig Þórisdóttir greinir svo frá upphafi átakanna, að þegar hún líti út um glugga á íbúð þar sem hún var ásamt nokkrum öðrum krökkum þetta kvöld, sjái hún hvar ákærði og Kolbeinn eru að ýta í hvor í annan. Þegar hún komi síðan út sjái hún hvar ákærði haldi Kolbeini niðri og sé að kýla hann í hið minnsta fimm högg. Þá hafi hún ásamt tveimur öðrum stelpum, þeim Lindu Hólmfríði Pétursdóttur og Karen Ósk Sampsted farið og sparkað í ákærða þar sem hann lá í jörðinni ásamt Kolbeini. Hafi hún sparkað einu sinni í bakið á ákærða en Linda og Karen sparkað í höfuð ákærða, eitt spark hvor. En ekki sér hún nákvæmlega hvar spörkin lenda. Aðspurð um hvort spörkin hafi getað lent á Kolbeini, neitar vitnið því, en segist hafa séð hnefahögg ákærða lenda á andliti Kolbeins. Aðspurð segir vitnið frá því að hún og Kolbeinn hafi verið "saman"  þegar þessir atburðir gerðust.

Vitnið Oddur Ólafsson, lögreglumaður, greinir svo frá fyrir dómi, að þegar lögreglan kom á vettvang hafi verið snjór yfir öllu og sæmileg götulýsing á svæðinu,  hafi ákærði haldið Kolbeini og verið nokkuð rólegur að sjá en Kolbeinn sínu æstari og hafi verið blóð á þeim báðum eftir átök. Hafi lögreglan skoðað tvær brotnar rúður í vinnuskúr og tekið inn í lögreglubílinn þrjá unga drengi þar á meðal Kolbein. Greinir vitnið svo frá að lögreglan hafi ekki séð nein eiginleg átök á milli ákærða og Kolbeins, hafi þau verið afstaðin þegar þeir koma á vettvang.

 

III.

Í máli þessu hafa vitni lýst aðdraganda átaka milli ákærða og Kolbeins Andra Ólafssonar.Hafa verður hugfast við sakarmatið að vitnin eru úr hópi ættingja og kunningja beggja aðila og skortir utanaðkomandi vitni.

Með hliðsjón af framburði vitna verður að telja sannað að Kolbeinn Andri Ólafsson hafi komið að ákærða þar sem hann ásamt bróður sínum Sigurþóri og Garðari Steingrímssyni héldu föstum þremur kunningjum Kolbeins. Varðandi upphaf átakanna eru framburðir misvísandi en telja verður ljóst að Kolbeinn hafi við komu sína á vettvang átt í orðaskiptum við ákærða og skipað honum að sleppa vinum sínum, þá hafi ákærði staðið upp og gengið í áttina að Kolbeini. Samkvæmt framburði vitna hafi ákærði og Kolbeinn síðan hrint hvor í annan. Vitnum ber síðan ekki saman um það hvor átti fyrsta höggið en telja verður sannað að báðir aðilar hafi kýlt hinn. Er um þetta meðal annars til að dreifa framburði vitninsins Lindu sem sér Kolbein kýla ákærða áður en þeir lenda í jörðinni. Ljóst þykir að ákærði og Kolbeinn hafna á jörðinni, þar sem ákærði hefur Kolbein undir og heldur honum hálstaki. Vitni úr hópi Kolbeins hafa öll borið að ákærði hafi slegið Kolbein í andlitið eftir að ákærði náði taki á honum á jörðinni. Systir ákærða bar fyrir dómi að hún hafi mest allan tíman staðið undir svölum svolítið frá og því ekki séð allt sem gerðist. Vitnið Sigurþór Ólafsson, bróðir ákærða hefur og borið að hann hafi séð atburði takmarkað eftir að ákærði og Kolbeinn lenda í jörðinni. Á hinn bóginn hefur vitnið Garðar Steingrímsson borið að hann hafi ekki séð ákærða gera annað en halda Kolbeini eftir að þeir falla í jörðina og telji hann að áverkar á Kolbeini hljóti að vera eftir stelpurnar sem sparkað hafi í hann fyrir slysni. Við mat á framburði Garðars verður ekki hjá því komist að taka tillit til þess að hann er æskufélagi og vinur ákærða. Framburðir, Lindu, Arnórs, Evu og framburður Samúels í lögregluskýrslu, eru hins vegar allir á sama veg, á þá leið að ákærði hafi haldið áfram að slá Kolbein eftir að þeir falla í jörðina. Ekki er hægt að líta fram hjá framburði þessara ungmenna þrátt fyrir kunningskap þeirra við ákærða, þar sem hann er stöðugur hvað varðar þennan þátt og samhljóða. Verður því að telja sannað að ákærði hafi slegið Kolbein eftir að ákærði nær taki á honum á jörðinni.

Vitni úr hópi beggja aðila hafa borið að stúlkurnar Eva, Linda og Karen hafi komið að ákærða og Kolbeini og sparkað í ákærða. Hefur því verið haldið fram við meðferð málsins að áverkar á andliti Kolbeins stafi frá þessum spörkum. Því beri skv. 46. gr. laga nr. 19/1991 að sýkna ákærða af refsikröfu ákæruvalds þar sem vafi sé upp komin um hvort ákærði hafi veitt Kolbeini þá áverka sem um ræðir.

Ekkert er fram komið í máli þessu sem bendir til þess að Kolbeinn hafi fengið spark eða högg í andlitið frá öðrum enn ákærða og hafa vitni ekki borið að þau hafi séð spark eða högg frá öðrum en ákærða lenda í andliti Kolbeins. Er því að mati dómsins ekki kominn upp vafi um að ákærði hafi veitt brotaþola þá áverka sem ákæran byggir á. Verður að telja sannað að  ákærði Valdimar Þór Ólafsson hafi veitt brotaþola Kolbeini Andra Ólafssyni þá áverka sem áður hefur verið lýst og meðal annars felast í brotnu nefi og þar með brotið gegn ákvæðum 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 111. gr. laga nr. 82/1998

Við sakarmat við framangreindar aðstæður er fyrst til þess að líta til þess, að Kolbeinn átti nokkra sök á því að átök brutust út. Ákærði var við þriðja mann að framkvæma borgaralega handtöku og beið þess að lögreglan kæmi á vettvang er Kolbeinn birtist og skipar ákærða að sleppa vinum sínum og ögrar ákærða. Ekkert  hefur komið fram sem bendir til þess að þeir hafi beitt ofbeldi við þá handtöku eða farið offari. Ákærði bregst við með því að ganga í áttina að Kolbeini, en eins og áður sagði er ekki ljóst hver á fyrsta höggið eða hrindinguna. Taka ber fram að Kolbeinn er mjög hávaxinn og sterklegur eftir aldri (15 ára) eða um 187 cm á hæð en ákærði er lágvaxinn en þrekbyggður (26 ára). Í læknisvottorði útgefnu 27. janúar af Leifi Jónssyni lækni, en ákærði leitaði til hans eftir átökin, kemur fram, að ákærði hafi hlotið blóðnasir, nef hans sé þrútið, en sýni þó ekki merki brots. Ákærði hafi mikið glóðarauga og rispur undir auganu, ertingur sé í augnhvítu en hornhimna sé ósködduð. Af framansögðu er ljóst að ákærði fær einnig töluverða áverka við átökin.

 

Af hálfu Guðmundínu Kolbeinsdóttur og Ólafs Lúðvíkssonar er gerð svofelld bótakrafa í máli þessu, fyrir hönd ólögráða sonar þeirra Kolbeins Andra Ólafssonar á grundvelli XX kafla laga nr. 19/1991:

1. Þjáningarbætur án rúmlegu skv. 3. gr. skbl. í 7 daga

7.000

2. Miskabætur skv. 26. gr. skbl.       

250.000

3. Lögmannsþóknun          

47.000

4. Virðisaukaskattur af lögmannsþóknun

11.500

5. Samtals      

315.515

6. Auk dráttarvaxta af kr. 257.000 frá 21.11.1999 til 14.09.2000

44.187

7. Alls því

kr. 359.702

 

Fallist er á lið 1 í bótakröfu. Miskabætur skv. lið 2 þykja með hliðsjón af áverkum Kolbeins hæfilega ákveðnar 150.000 krónur. Fallist er á lið 3 og 4 í bótakröfu. Ákveðst því heildarupphæð bótakröfunnar 215.500 krónur. Með hliðsjón af því að bótaþoli er talinn eiga nokkra sök á því að átök hefjast og með vísan í 24. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, er rétt að bætur þessar séu lækkaðar að helmingi og ber því ákærða að greiða bótaþola 107.750 krónur ásamt dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir.

 

Samkvæmt framlögðu sakavottorði ákærða hefur hann ekki áður gerst sekur um ofbeldisbrot en ákærði hefur hlotið dóma fyrir brot gegn áfengislögum og umferðarlögum síðast 1997.

 

Við ákvörðun refsingar litið til 3. mgr. 218. gr. a, almennra hegningarlaga, sbr. 12. gr. laga nr. 20/1981. Einnig ber að taka tillit til þess að rannsókn málsins og meðferð hefur tekið langan tíma. Refsing ákærða ákvarðast því 2 mánaða fangelsi. Fresta skal fullnustu refsingarinnar í 2 ár frá birtingu dóms þessa og fellur hún niður að liðnum þeim tíma haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Með vísan til 1. mgr. 166. gr. laga nr. 19/1991 ber að dæma ákærða til að greiða allan kostnað sakarinnar þar á laun skipaðs verjanda síns Hilmars Ingimundarsonar, hæstaréttarlögmanns  100.000 krónur, auk virðisaukaskatts

Svein Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Ákærði Valdimar Þór Ólafsson, sæti fangelsi í 2 mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar í tvö ár frá birtingu dóms að telja og hún niður falla að þeim tíma liðnum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. alm. hgl. nr. 19/1940.

Ákærði greiði Kolbeini Andra Ólafssyni kr. 107.750, ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 29. júní  2000.

Ákærði greiði allan kostnað sakarinnar, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hrl. 100.000 krónur.