Hæstiréttur íslands

Mál nr. 123/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann


                                     

Þriðjudaginn 17. febrúar 2015.

Nr. 123/2015.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Kristján Stefánsson hrl.)

Kærumál. Farbann.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta áfram farbanni á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. febrúar 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. febrúar 2015 þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram farbanni „á meðan á áfrýjunarfresti stendur eða fram að afplánun dóms komi til þess“ en þó eigi lengur en til 10. apríl 2015 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að farbanninu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. febrúar 2015.

Ríkissaksóknari gerir þá kröfu að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, fæddur [...], verði gert að sæta áframhaldandi farbanni á meðan á áfrýjunarfresti stendur eða fram að afplánun dóms komi til þess, þó ekki lengur en til miðvikudagsins 6. maí nk., kl. 16:00.

Í greinargerð ríkissaksóknara kemur fram að með ákæru ríkissaksóknara 29. ágúst 2014, hafi dómfellda verið gefið að sök kynferðisbrot gegn A aðfaranótt fimmtudagsins 17. apríl 2014, í svefnherbergi dómfellda að [...], með því að særa blygðunarsemi hennar og áreita hana kynferðislega, en dómfelldi hafi staðið og fróað sér fyrir framan andlit hennar, þar sem hún hafi legið í rúmi, og fengið sáðfall yfir öxl hennar og hár sem og kodda sem hún hafi legið á. Dómfelldi hafi skömmu síðar káfað á A, þar sem hún hafi legið á fjórum fótum á gólfi svefnherbergisins og kastað upp, en dómfelldi hafi staðið fyrir aftan hana, losað brjóstahaldara hennar, þuklað á brjóstum á hennar og strokið kynfæri hennar innanklæða. Sé háttsemin talin varða við 209. og 199. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 18. desember 2014 í máli nr. S-746-/2014 hafi dómfelldi verið sakfelldur og dæmdur í 9 mánaða fangelsi, en 6 mánuðum af refsingunni hafi verið frestað skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins. Dómfelldi hafi tilkynnt með yfirlýsingu að hann hygðist  áfrýja dóminum til Hæstaréttar. Áfrýjunarstefna vegna málsins hafi verið gefin út af ríkissaksóknara þann 5. janúar sl. Sé þess nú beðið að frumgögn málsins berist frá héraðsdómi.

Dómfelldi hafi sætt farbanni vegna málsins frá 30. apríl. Með hliðsjón af því að dómfelldi hafi lítil tengsl við landið, hann hafi einungis búið hér í tæpt ár og sé nú að skilja við eiginmann sinn, sé það mat ríkissaksóknara að veruleg hætta sé á að hann reyni að komast úr landi til að forðast fullnustu dómsins.

Niðurstaða:

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 18. desember 2014 var dómfelldi sakfelldur fyrir kynferðisbrot og dæmdur í 9 mánaða fangelsi en 6 mánuðum af refsingunni var frestað skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins að telja. Dómfelldi tilkynnti með yfirlýsingu að hann hygðist áfrýja dóminum til Hæstaréttar og gaf ríkissaksóknari út áfrýjunarstefnu vegna málsins 5. janúar sl.

Fram kom fyrir dóminum að dómfelldi ætti ekki fjölskyldu hér á landi. Skilnaður hans við maka hans sé ekki um garð genginn og bindi hann vonir við að úr sambandinu rætist. Hann kvaðst vera tekjulítill en reyndi um þessar mundir að komast á samning sem [...]. Hefði hann áður tekið að sér  rekstur á slíkum tímabundnum samning.

Með hliðsjón af ofangreindu og þegar litið er til takmarkaðra tengsla varnaraðila við landið er fallist á að skilyrði til áframhaldandi farbanns séu fyrir hendi skv. b-lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/1988 sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga. Megi ætla að dómfelldi muni ella reyna að komast úr landi til þess að koma sér undan fullnustu refsingar. Verður ekki talið að önnur og vægari úrræði komi að sama gagni. Verður því fallist á kröfu ríkissaksóknara um áframhaldandi farbann eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Sigríður Hjaltested héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Dómfelldi, X, fæddur [...], skal sæta áframhaldandi farbanni á meðan á áfrýjunarfresti stendur eða fram að afplánun dóms komi til þess, þó ekki lengur en til 10. apríl nk., kl. 16:00.