Hæstiréttur íslands
Mál nr. 413/2013
Lykilorð
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Riftun
- Greiðsla
|
|
Fimmtudaginn 16. janúar 2014. |
|
Nr. 413/2013. |
Stefnir hf. (Helga Melkorka Óttarsdóttir hrl.) gegn LBI hf. (Jóhannes Sigurðsson hrl.) og gagnsök |
Fjármálafyrirtæki. Slit. Riftun. Greiðsla.
L hf. (áður LÍ hf.) krafðist þess að staðfest yrði með dómi riftun á greiðslu LÍ hf. á peningamarkaðsinnláni til S hf. þann 9. október 2008 sem og að S hf. yrði gert að endurgreiða fjárhæðina sem greidd var. Greiðslan fór fram eftir að Fjármálaeftirlitið hafði sett skilanefnd yfir L hf. Byggði L hf. kröfu sína á 1. mgr. 134. gr. og 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 103. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Í niðurstöðu Hæstaréttar var rakið að í dómum Hæstaréttar í málum nr. 441/2011 og 112/2012 hefði því verið slegið föstu að á tímabilinu 7. október 2008 til 22. apríl 2009 hefði L hf. verið settur í aðstöðu, sem jafna mætti til þess að hafin væru gjaldþrotaskipti á búi hans að því er varðarði þau atvik sem málin tóku til. Taldi Hæstiréttur einnig að leggja yrði stöðu skilanefndar, að því er varðaði þá ráðstöfun sem deilt var um í málinu, að jöfnu við ráðstöfun skiptastjóra í þrotabúi. Yrði riftunarreglum XX. kafla laga nr. 21/1991 ekki beitt til að hnekkja ráðstöfunum skiptastjóra, sem gerðar hefðu verið eftir upphaf gjaldþrotaskipta, en um heimildir hans færi samkvæmt 1. mgr. 122. gr. laganna. Að sama skapi yrði þeim reglum ekki beitt til að hnekkja ráðstöfunum, sem hefðu verið gerðar af eða á ábyrgð skilanefndar sem skipuð var yfir L hf. 7. október 2008. Breytti engu þar um þótt ráðstöfun sú, sem riftunar var krafist á, hefði verið gerð fyrir lögákveðinn frestdag við slitameðferð bankans. Þegar af þessari ástæðu var S hf. sýknaður af kröfu L hf.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Eiríkur Tómasson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. júní 2013. Hann krefst sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 22. ágúst 2013. Hann krefst þess að dóminum verði breytt á þann veg að aðaláfrýjanda verði gert að greiða af dæmdri fjárhæð vexti aðallega samkvæmt 8. gr. en til vara 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. október 2008 til 22. september 2011, en dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst gagnáfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
I
Að morgni 29. september 2008 var greint frá því opinberlega að vegna fjárhagsörðugleika hafi Glitnir banki hf. skömmu áður leitað eftir fyrirgreiðslu Seðlabanka Íslands, en þetta hafi leitt til þess að fyrrnefnda bankanum hafi verið boðið hlutafjárframlag úr ríkissjóði að fjárhæð 600.000.000 evrur gegn 75% eignarhluta í honum og hafi stjórn félagsins og helstu hluthafar samþykkt það boð. Í héraðsdómsstefnu kveður gagnáfrýjandi stjórn Landsbanka Íslands hf., sem nú ber heiti gagnáfrýjanda, hafa haldið fund sama dag og hafi þar verið rætt um að þessi „ákvörðun ríkisins hafi haft neikvæð áhrif á eigið fé“ félagsins, svo og að leita yrði „allra skynsamlegra leiða til þess að treysta og styrkja eiginfjárstöðu bankans“, en samkvæmt þessu hafi legið fyrir á því tímamarki að bankinn „uppfyllti ekki kröfur sem til hans voru gerðar um stöðu eiginfjárgrunns“. Fjármálaeftirlitið í Bretlandi hafi krafist þess 3. október 2008 að gagnáfrýjandi legði 400.000.000 sterlingspund á reikning við Englandsbanka ekki síðar en að morgni 6. sama mánaðar sem varasjóð vegna innlánsreikninga í útibúi hans þar í landi. Seðlabanki Evrópu hafi samhliða þessu tilkynnt gagnáfrýjanda um breytingar á skilmálum í endurhverfum viðskiptum milli þeirra, sem hafi aukið þörf hans á lausafé um 400.000.000 evrur. Þótt breska fjármálaeftirlitið hafi 5. október 2008 lækkað kröfu sína um framlag frá gagnáfrýjanda í varasjóð í 200.000.000 sterlingspund hafi hann ekki fengið við þetta ráðið og því leitað eftir aðstoð Seðlabanka Íslands, sem neitað hafi verið um.
Að morgni 6. október 2008 gaf ríkisstjórnin út svofellda yfirlýsingu: „Ríkisstjórn Íslands áréttar að innstæður í innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi verða tryggðar að fullu. Með innstæðum er átt við allar innstæður almennra sparifjáreigenda og fyrirtækja sem trygging innstæðudeildar Tryggingasjóðs innstæðueigenda tekur til.“ Samkvæmt gögnum málsins gerði aðaláfrýjandi, sem mun áður hafa borið heitið Rekstrarfélag Kaupþings banka hf. og hafa starfsleyfi sem rekstrarfélag verðbréfasjóða, samning laust fyrir klukkan 16 sama dag við gagnáfrýjanda um að veita honum svonefnt peningamarkaðsinnlán að fjárhæð 400.000.000 krónur, sem bæri 16,25% ársvexti og yrði á gjalddaga næsta dag, en vextir yrðu samkvæmt því að fjárhæð 180.556 krónur. Þessi viðskipti voru ákveðin með tölvubréfum án þess að frekari skriflegir samningar væru gerðir. Forsætisráðherra flutti ávarp þennan sama dag klukkan 16, þar sem greint var frá stórfelldum örðugleikum, sem íslenskir viðskiptabankar stæðu frammi fyrir, og boðað að flutt yrði á Alþingi frumvarp til laga, sem myndi gera ríkinu kleift að bregðast við ástandi á fjármálamörkuðum. Að kvöldi þessa dags var frumvarp þess efnis samþykkt sem lög nr. 125/2008 og leiddu þau meðal annars til breytinga á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Á grundvelli 100. gr. a. síðarnefndu laganna, sbr. 5. gr. þeirra fyrrnefndu, ákvað Fjármálaeftirlitið 7. október 2008 að taka yfir vald hluthafafundar í gagnáfrýjanda, víkja stjórn hans frá og setja yfir hann skilanefnd.
Fyrir liggur að gagnáfrýjandi stóð ekki aðaláfrýjanda skil á fyrrgreindu peningamarkaðsinnláni á gjalddaga þess 7. október 2008. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október sama ár, sem kom til framkvæmda klukkan 9 að morgni þess dags, var nánar tilgreindum eignum og skuldbindingum gagnáfrýjanda ráðstafað til Nýja Landsbanka Íslands hf., sem nú heitir Landsbankinn hf., og tók hann frá þeim tíma yfir starfsemi gagnáfrýjanda, sem þessu tengdist. Meðal eigna, sem fluttar voru á þennan hátt frá gagnáfrýjanda, voru kröfuréttindi hans og allt reiðufé, en um skuldbindingar, sem nýi bankinn tók við, sagði meðal annars eftirfarandi í ákvörðuninni: „Nýi Landsbanki Íslands hf. yfirtekur skuldbindingar í útibúum Landsbanka Íslands hf. á Íslandi vegna innlána frá fjármálafyrirtækjum, Seðlabanka Íslands og öðrum viðskiptavinum ... Innlendar innstæður við Landsbanka Íslands hf. flytjast yfir til Nýja Landsbanka Íslands hf. miðað við stöðu og áunna vexti á tímamarki framsals“. Samkvæmt gögnum málsins voru 400.180.556 krónur lagðar inn á bankareikning í eigu aðaláfrýjanda klukkan 16.10 síðastnefndan dag. Óumdeilt er að Nýi Landsbanki Íslands hf. innti þessa greiðslu af hendi og hafi með henni endurgreitt peningamarkaðsinnlán aðaláfrýjanda til gagnáfrýjanda, svo og að það hafi gerst sökum þess að farið hafi verið með innlánið eins og það hafi verið flutt til nýja bankans með áðurnefndri ákvörðun Fjármálaeftirlitsins.
Í bréfi Fjármálaeftirlitsins 11. nóvember 2008 til gagnáfrýjanda kom fram að stjórn þess hafi „tekið til umfjöllunar hvaða áhrif ákvarðanir eftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. ... hafa á ... svokölluð peningamarkaðslán/innlán frá fjármálafyrirtækjum ... Á fundi stjórnar Fjármálaeftirlitsins í dag var ákveðið að árétta að skuldbindingar vegna slíkra lána frá fjármálafyrirtækjum eru ekki fluttar til ... Nýja Landsbanka Íslands hf. ... Er því beint til endurskoðenda sem annast endanlegan frágang stofnefnahagsreikninga að huga sérstaklega að þessu og jafnframt að skilanefndir og stjórnir félaganna vinni eftir því sama þar sem mikilvægt er að um samræmi sé að ræða við framkvæmd málsins.“ Í öðru bréfi Fjármálaeftirlitsins 21. sama mánaðar var þessi afstaða ítrekuð og hún rökstudd.
Með lögum nr. 129/2008 var aftur breytt lögum nr. 161/2002 og á grundvelli þeirra var gagnáfrýjanda veitt heimild til greiðslustöðvunar 5. desember 2008. Í breytingalögunum var einnig kveðið á um að í þeim fjármálafyrirtækjum, sem Fjármálaeftirlitið hafði sett skilanefnd yfir, skyldi frestdagur miðast við gildistöku breytingalaganna, sem var 15. nóvember 2008. Með lögum nr. 44/2009 voru enn gerðar breytingar á ýmsum ákvæðum laga nr. 161/2002. Við þá breytingu var gagnáfrýjandi, sem naut ennþá heimildar til greiðslustöðvunar, tekinn til slita, en um þá meðferð voru sett sérstök ákvæði í síðastnefndu lögin. Var þar einkum mælt fyrir um að reglur laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. skyldu gilda meðal annars um lýsingu og meðferð krafna, svo og að um slitastjórn, störf hennar og þá menn, sem ættu sæti í henni, skyldu gilda reglur laganna um skiptastjóra. Upphaf slita skyldi miðast við 22. apríl 2009, en þann dag tóku lög nr. 44/2009 gildi.
Slitastjórn gagnáfrýjanda tilkynnti aðaláfrýjanda með bréfi 22. ágúst 2011 að hún rifti framangreindri greiðslu til hans frá 9. október 2008 á grundvelli 1. mgr. 134. gr. og 141. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 103. gr. laga nr. 161/2002. Skoraði hún á aðaláfrýjanda að greiða gagnáfrýjanda 400.180.556 krónur með vöxtum, aðallega samkvæmt 8. gr. og til vara 4. gr. laga nr. 38/2001, frá 10. október 2008 til greiðsludags. Með því að aðaláfrýjandi varð ekki við þeirri áskorun höfðaði gagnáfrýjandi mál þetta 14. október 2011.
II
Samkvæmt framansögðu leitar gagnáfrýjandi með máli þessu riftunar á þeirri ráðstöfun, sem hann kveður felast í því að peningamarkaðsinnlán aðaláfrýjanda til sín hafi verið greitt 9. október 2008 með því að fjárhæð þess ásamt umsömdum vöxtum hafi verið lögð inn á bankareikning aðaláfrýjanda. Hafi þetta gerst vegna óvissu um hvort peningamarkaðsinnlán teldust innlán, sem yrðu yfirtekin af Nýja Landsbanka Íslands hf. samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá sama degi. Verði riftunarkrafan tekin til greina beri aðaláfrýjanda að endurgreiða fjárhæðina, sem lögð var inn á reikning hans.
Með dómi Hæstaréttar 28. nóvember 2011 í máli nr. 441/2011 var því slegið föstu að með ákvörðun Fjármálaeftirlitins 7. október 2008 og skipun skilanefndar yfir gagnáfrýjanda, sem hafi farið með allar heimildir félagsins og öll málefni þess, þar á meðal haft umsjón með eignum og annast rekstur þess, hafi hann verið settur í aðstöðu, sem jafna mætti til þess að hafin væru gjaldþrotaskipti á búi hans að því er varðar tilkall annarra til peninga í vörslum hans á grundvelli eignarréttinda. Hafi þessu ástandi fyrst lokið 22. apríl 2009 þegar lög nr. 44/2009 tóku gildi, en þá var gagnáfrýjandi tekinn til slita eins og áður greinir. Með dómi Hæstaréttar 22. mars 2012 í máli nr. 112/2012 var framangreind aðstaða gagnáfrýjanda á hinu tilgreinda tímabili áréttuð, en í málinu var leyst úr um skyldu hans til að endurgreiða peninga, sem honum höfðu verið ofgreiddir í uppgjöri í lok október og byrjun nóvember 2008.
Skilanefndin, sem sett var yfir gagnáfrýjanda, var skipuð í skjóli opinbers valds og var henni samkvæmt heiti sínu ætlað að leggja drög að aðgerðum til skuldaskila hans. Verður að leggja stöðu skilanefndar að því er varðar þá ráðstöfun, sem gagnáfrýjandi krefst riftunar á og var á ábyrgð nefndarinnar, að jöfnu við ráðstöfun skiptastjóra í þrotabúi. Reglum XX. kafla laga nr. 21/1991 um riftun ráðstafana þrotamanns er ætlað að leiðrétta afturvirkt ráðstafanir þrotamanns, sem í raun hafa falið í sér mismunun milli lánardrottna hans. Er riftunarreglunum og reglum um endurgreiðslu við riftun ætlað að tryggja jafnræði kröfuhafa að því marki, sem unnt er að lögum, við gjaldþrotaskiptin og úthlutun úr þrotabúi. Eftir upphaf gjaldþrotaskipta gilda á hinn bóginn aðrar reglur um heimildir til að ráðstafa fjármunum þrotabús og fer skiptastjóri með þær heimildir, sbr. 1. mgr. 122. gr. laganna. Framangreindum riftunarreglum verður ekki beitt til að hnekkja ráðstöfunum skiptastjóra, sem gerðar hafa verið eftir upphaf gjaldþrotaskipta. Með sama hætti verður þeim reglum ekki beitt til að hnekkja ráðstöfunum, sem voru gerðar af eða á ábyrgð skilanefndar sem skipuð var yfir gagnáfrýjanda 7. október 2008. Þótt frestdagur við slitameðferð gagnáfrýjanda hafi eins og að framan greinir verið með lögum ákveðinn 15. nóvember 2008 og ráðstöfun sú, sem riftunar er krafist á, hafi því verið gerð fyrir þann dag, breytir það ekki framangreindri niðurstöðu. Verður aðaláfrýjandi þegar af þessari ástæðu sýknaður af kröfum gagnáfrýjanda.
Gagnáfrýjandi verður dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Aðaláfrýjandi, Stefnir hf., er sýkn af kröfum gagnáfrýjanda, LBI hf.
Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. maí 2013.
Þetta mál, sem var tekið til dóms 21. mars 2013, er höfðað af LBI hf. (áður Landsbanka Íslands hf. nú í slitameðferð), kt. 540291-2259, Austurstræti 16, Reykjavík, á hendur Stefni hf., kt. 700996-2479, Borgartúni 19, Reykjavík, vegna verðbréfasjóðsins Stefnir-ríkisverðbréfasjóður millilangur.
Stefnandi krefst þess aðallega að staðfest verði með dómi riftun á greiðslu Landsbanka Íslands hf. á peningamarkaðsinnláni að fjárhæð 400.180.556 krónur til stefnda 9. október 2008.
Jafnframt krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 50.022.569 krónur með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 10. október 2008 til 15. september 2011 en með dráttarvöxtum skv. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Til vara er þess krafist að á fjárkröfuna reiknist vextir skv. 4. gr. laga nr. 38/2001 frá 10. október 2008 til 15. september 2011 en með dráttarvöxtum skv. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Stefnandi krefst einnig málskostnaðar ásamt virðisaukaskatti úr hendi stefnda.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda.
Hann krefst jafnframt málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda.
Málsatvik
Atvik þessa máls eru alkunn og hafa verið rakin í mörgum dómum. Engu að síður verður einnig að reifa þau hér. Forsagan er sú að upp úr miðju ári 2007 hófst lausafjárkreppa á fjármálamörkuðum um allan heim. Hana má rekja til þess að tiltekin lán til fasteignakaupa í Bandaríkjunum voru talin mun minna virði en áður hafði verið talið. Á árinu 2008 fór ástand erlendra fjármálamarkaða sem og hins íslenska versnandi og var staða Landsbanka Íslands hf. eins og margra annarra fjármálafyrirtækja orðin mjög alvarleg þegar leið á árið sökum þessarar alþjóðlegu lausafjárkreppu.
Hinn 29. september 2008 tilkynnti ríkisstjórn Íslands að hún og helstu hluthafar Glitnis banka hf. hefðu samið um að ríkið tæki yfir 75% hlutafjár bankans. Með þessu var reynt að mæta lausafjárþörf Glitnis þar sem allar leiðir fyrir lánsfjáröflun íslensku bankanna voru lokaðar. Aðgerðinni fylgdi að virði eignarhluta annarra hluthafa í Glitni banka rýrnaði verulega frá skráðu markaðsvirði. Stærsti eigandi Glitnis, FL Group hf., og fleiri tengdir aðilar, höfðu tekið há lán hjá Landsbanka Íslands hf. Því var fyrirséð að tilraunin til að bjarga Glitni hefði veruleg áhrif á stöðu fjármálafyrirtækja í landinu.
Að sögn stefnanda var, á fundi bankaráðs Landsbanka Íslands hf., 29. september 2008, rætt um að ákvörðun ríkisins hefði haft slæm áhrif á stöðu eigin fjár bankans. Einnig hafi komið fram að leita þyrfti allra skynsamlegra leiða til þess að treysta og styrkja eiginfjárstöðu hans. Á þessum tíma hafi því legið fyrir að Landsbanki Íslands hf. uppfyllti ekki þær kröfur sem gerðar voru til eiginfjárgrunns hans.
Síðdegis 3. október 2008 krafðist fjármálaeftirlitið í Bretlandi þess að Landsbankinn greiddi Englandsbanka 400.000.000 breskra punda að morgni mánudagsins 6. október 2008 til þess að auka við varasjóð vegna Icesave-reikninga í Bretlandi. Á sama tíma tilkynnti Seðlabanki Evrópu breytingar á skilmálum í endurhverfum viðskiptum við Landsbanka Íslands hf. Vegna þessara breytinga jókst lausafjárþörf Landsbankans samtals um 800.000.000 evra. Sunnudaginn 5. október 2008 lá fyrir að Seðlabanki Evrópu hefði frestað því að krefjast 400.000.000 evra innborgunar en hvikaði ekki frá því að lækka fyrirgreiðsluna um 400.000.000 evra. Þá hafði breska fjármálaeftirlitið lækkað kröfur sínar í 200.000.000 breskra punda. Að sögn stefnanda var Landsbanka Íslands hf. sú leið ein fær að leita eftir fyrirgreiðslu frá Seðlabanka Íslands til að fjármagna kröfu breska fjármálaeftirlitsins.
Helgina 4. til 5. október 2008 jukust beiðnir um úttektir af Icesave-reikningum Landsbankans í Bretlandi og Hollandi verulega. Vegna skorts á erlendum gjaldeyri, 6. október 2008, var ekki unnt að greiða út allar beiðnir um úttektir sem höfðu safnast um helgina.
Stefnandi getur þess að við upphaf viðskipta mánudaginn 6. október 2008 hafi legið fyrir að Seðlabanki Íslands væri ekki reiðubúinn að lána Landsbankanum þá fjármuni sem bankinn þurfti til að mæta kröfum breska fjármálaeftirlitins. Landsbanki Íslands hf. hafi því ekki getað staðið við skuldbindingar sínar við upphaf viðskipta þann dag og hafi því verið ógjaldfær.
Um hádegi 6. október 2008 var boðað að þáverandi forsætisráðherra Íslands, Geir H. Haarde, flytti þjóðinni ávarp kl. 16:00. Í ávarpinu var almenningi formlega tilkynnt yfirvofandi hrun bankakerfisins og að lagt yrði fyrir Alþingi frumvarp að lögum til að bregðast við hinum bráða og aðsteðjandi vanda. Frumvarpið var lagt fram síðar þann dag og varð um kvöldið að lögum nr. 125/2008, svonefndum neyðarlögum.
Vegna ógjaldfærni Landsbanka Íslands hf. var honum skipuð skilanefnd, 7. október 2008, á grundvelli neyðarlaganna. Á grundvelli sömu laga tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun um að færa tilteknar eignir og skuldbindingar Landsbanka Íslands hf. inn í nýjan banka og tók sá banki, NBI hf., til starfa að morgni dags 9. október 2008. Af gögnum má ráða að eftir yfirtöku bankans og uppskiptingu á eignum hans og skuldbindingum hafi leikið vafi á því hvort peningamarkaðslán sem fjármálafyrirtæki lögðu inn í bankann skyldu flytjast til nýja bankans sem innlán og vegna þess hafi peningamarkaðslán stefnda og nokkurra annarra fjármálafyrirtækja verið greidd eftir fall Landsbanka Íslands hf. Með bréfi Fjármálaeftirlitsins, 21. nóvember 2008, voru tekin af öll tvímæli um að skuldbindingar sem fólust í peningamarkaðslánum sem fjármálafyrirtæki lögðu inn hér á landi hefðu ekki færst yfir til hins nýja banka á grundvelli stjórnvaldsákvarðana eftirlitsins.
Stefndi tekur fram að hann hafi starfsleyfi frá Fjármálaeftirlitinu sem rekstrarfélag verðbréfasjóða, sbr. 7. tölulið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og sé sjálfstætt starfandi fjármálafyrirtæki. Félagið reki sjóði um sameiginlega fjárfestingu samkvæmt lögum nr. 128/2011 um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði. Auk þess taki starfsleyfi rekstrarfélagsins til eignastýringar, fjárfestingaráðgjafar og vörslu og stjórnunar fjármálagerninga í sameiginlegri fjárfestingu, sbr. 1.-3. tölulið 1. mgr. 27. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Tilteknum þáttum starfsheimilda stefnda hafi verið útvistað til Arion banka hf. samkvæmt sérstökum samningi þar um. Hlutverk stefnda sé einkum að reka verðbréfa-, fjárfestingar- og fagfjárfestasjóði með hagsmuni hlutdeildarskírteinishafa að leiðarljósi. Stefndi gefi út hlutdeildarskírteini sem séu ávísun á hlut eigenda sjóðanna í eignasafni þeirra. Eignir sjóðanna séu alfarið í eigu hlutdeildarskírteinishafa á hverjum tíma og sé eignum stefnda og eignum sjóða í rekstri haldið algerlega aðgreindum. Hver sjóður í rekstri stefnda sé rekinn í sérstakri deild og á eigin kennitölu og sé því lögformlega aðgreindur frá stefnda. Rekstrarfélög beri ekki ábyrgð á skuldbindingum einstakra verðbréfasjóða í þeirra rekstri, sbr. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 128/2011. Stefndi áréttar að lögin hafi tekið gildi 1. nóvember 2011 en fram að þeim tíma giltu lög nr. 30/2003 um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði þar sem voru efnislega sambærileg ákvæði og þau sem stefndi vitnar til.
Einn af þeim sjóðum sem stefndi reki sé verðbréfasjóðurinn Ríkisverðbréfasjóður-millilangur, kt. 650398-9129. Þessum sjóði sé heimilt að fjárfesta í skuldabréfum og víxlum útgefnum eða með ábyrgð íslenska ríkisins (60-100%), innlánum fjármálafyrirtækja (0-20%) og öðrum fjármálagerningum (0-10%).
Hinn 6. október 2008 gerðu Landsbanki Íslands hf. og stefndi með sér samning um peningamarkaðslán (e. Money Market Deposit). Stefndi lagði þá 400.000.000 króna fyrir hönd sjóðsins inn á reikning hjá bankanum. Lánið skyldi endurgreiða næsta dag, 7. október, og skyldi fjárhæðin bera 16,25 % ársvexti, sem námu því samtals 180.556 kr. Stefnandi innti greiðsluna hins vegar ekki af hendi 7. október eins og honum hefði borið. Síðdegis 9. október 2008, tveimur dögum eftir gjalddaga, lagði Nýi Landsbankinn 400.180.556 krónur á bankareikning verðbréfasjóðsins hjá Kaupþingi banka hf. nr. 0329-26-001802. Ríkisverðbréfasjóðurinn var þá ekki kenndur við Stefni eins og nú og Kaupþing banki var rekstrarfélag hans.
Landsbanka Íslands hf. var veitt heimild til greiðslustöðvunar 5. desember 2008. Slitameðferð hans hófst, 22. apríl 2009, við gildistöku laga nr. 44/2009 og stendur enn. Bankanum var skipuð slitastjórn 29. apríl 2009. Frestdagur við slitameðferð hans er 15. nóvember 2008 samkvæmt III. bráðabirgðaákvæði laga nr. 44/2009 um breytingu á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.
Skoðun slitastjórnar á ráðstöfunum sem gerðar voru í bankanum fyrir frestdag leiddi í ljós það sem fram er komið að Nýi Landsabankinn hf. hafi, 9. október 2008, greitt verðbréfasjóðnum 400.180.556 kr. vegna kröfunnar samkvæmt peningamarkaðsláninu.
Stefnandi tekur fram að þegar umrædd greiðsla var afhent sjóðnum hafi Landsbanki Íslands hf. verið ógjaldfær. Bankanum hafi því verið óheimilt að efna aðrar skuldbindingar en nauðsynlegt var til að komast hjá verulegu tjóni eða skuldbindingar sem myndu greiðast við gjaldþrotaskipti. Á þeim tíma sem greiðslan fór fram hafi bankinn hvorki átt laust reiðufé í íslenskum krónum né erlendum gjaldeyri og hún því verið fjármögnuð með lántöku.
Stefnandi segir fjölmörg fjármálafyrirtæki hafa lýst kröfum í bú bankans vegna peningamarkaðsinnlána. Þær kröfur nemi alls 15.470.793.059 krónum. Slitastjórnin hafi tekið þá afstöðu að þessar kröfur njóti forgangs sem innstæður. Sú afstaða slitastjórnarinnar sé umþrætt og hafi ágreiningi vegna þeirra mála verið vísað til dómstóla til úrskurðar.
Tæplega þremur árum eftir að greiðslan var innt af hendi, eða 22. ágúst 2011, lýsti slitastjórn stefnanda yfir riftun hennar á grundvelli 134. og 141. gr. laga . nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og krafðist endurgreiðslu fjárhæðarinnar, auk vaxta. Með bréfi, 5. september 2011, mótmælti stefndi riftunaryfirlýsingunni og hafnaði því að verða við fjárkröfum stefnanda.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi vísar fyrst til þess að við slit fjármálafyrirtækis ráðstafi slitastjórn hagsmunum þess eftir sömu reglum og gildi um bústjórn skiptastjóra við gjaldþrotaskipti samkvæmt 103. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 7. gr. laga nr. 44/2009. Samkvæmt 4. mgr. 103. gr. laganna geti slitastjórn rift ráðstöfunum fjármálafyrirtækis í slitameðferð eftir sömu reglum og gildi um riftun ráðstafana þrotamanns við gjaldþrotaskipti, sbr. XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., enda sé sýnt að eignir fyrirtækisins muni ekki nægja til að efna skuldbindingar þess. Fyrir liggi að stefnandi geti ekki efnt að fullu skuldbindingar sínar við kröfuhafa eins og komið hafi fram á kröfuhafafundi stefnanda 23. nóvember 2009 sem hafi verið haldinn í samræmi við fyrirmæli í 5. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 6. gr. laga nr. 44/2009.
Stefnandi hafi lýst yfir riftun gagnvart stefnda á þeirri greiðslu sem Landsbanki Íslands hf. afhenti stefnda 9. október 2008. Þess sé krafist að dómurinn staðfesti riftunaryfirlýsingu og fjárkröfu sem send var stefnda með bréfi, 22. ágúst 2011.
Riftun stefnanda á greiðslu tilgreindrar skuldar samkvæmt samningi Landsbanka Íslands hf. og stefnda um peningamarkaðsinnlán sé reist á 134. og 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Stefnandi byggir á því að uppfyllt séu skilyrði beggja ákvæðanna en tekur fram að nægjanlegt sé, til að riftun nái fram að ganga, að skilyrði annars hvors þeirra teljist uppfyllt.
Samkvæmt 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. sé unnt að krefjast riftunar á greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag hafi verið greitt með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var eða ef greidd var fjárhæð sem skerti greiðslugetu þrotamanns verulega, nema greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum. Með hliðsjón af fjárhagsstöðu Landsbanka Íslands hf., þegar greiðsla peningamarkaðsinnlánsins var innt af hendi, byggir stefnandi á því að greiðslan hafi skert greiðslugetu bankans verulega í skilningi tilgreinds ákvæðis. Fyrir liggi að bankinn hafi verið ógjaldfær á þessum tíma og hafi kröfuhöfum því verið mismunað með greiðslunni. Samtals hafi verið greiddar 43.672.201.488 krónur, 280.034 bresk pund og 40.579.742 Bandaríkjadalir vegna peningamarkaðsinnlána til fjármálafyrirtækja á tímabilinu 7. október til 19. nóvember 2008. Hinn fallni banki hafi hvorki haft fjármuni til að greiða hina umdeildu kröfu né kröfur annarra fjármálafyrirtækja vegna peningamarkaðsinnlána. Fjármagna hafi þurft greiðslurnar meðal annars með láni frá Seðlabanka Íslands. Ljóst sé að greiðslan til sjóðsins og sambærilegar greiðslur hafi skert greiðslugetu stefnanda verulega í skilningi ákvæðis 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Auk þess byggir stefnandi á því að skuldin hafi, eins og atvikum var háttað, verið greidd fyrr en eðlilegt var enda hafi, vegna fjárhagsstöðu bankans og óvissu um efndir skuldbindinga, ekki verið réttmætt að greiða peningamarkaðsinnlánið á þessum degi.
Þá byggir hann á því að greiðslan geti ekki verið venjuleg eftir atvikum þegar af þeirri ástæðu að kröfuhöfum bankans hafi verið eða mátt vera kunnugt um fall hans og ógjaldfærni.
Samkvæmt 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. sé unnt að krefjast riftunar á ráðstöfunum sem á ótilhlýðilegan hátt séu kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, leiða til þess að eignir þrotamanns verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða leiða til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, hafi þrotamaðurinn verið ógjaldfær eða orðið það vegna ráðstöfunarinnar og sá sem hag hafði af henni vissi eða mátti vita um ógjaldfærni þrotamannsins og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg.
Kröfur stefnanda byggja einnig á því að það hafi verið ótilhlýðilegt í skilningi ákvæðisins að greiða einstökum kröfuhöfum út fjármuni þegar sýnt var að Landsbanki Íslands hf. var ógjaldfær og ljóst að greiðslan gæti skert jafnræði kröfuhafa. Þá telur stefnandi að líta verði svo á að kröfuhafar bankans og sérstaklega fjármálafyrirtæki hafi vitað eða mátt vita um ógjaldfærni hans í síðasta lagi frá skipun skilanefndar bankans.
Vegna þeirra aðstæðna sem voru á íslenskum fjármálamarkaði þegar greiðslan fór fram og þess að Landsbanki Íslands hf. var ógjaldfær hafi ekki verið tilhlýðilegt af stjórnendum bankans að greiða upp peningamarkaðsinnlánið. Þessi ótilhlýðileiki og ógjaldfærni bankans hafi mátt vera ljós öllum þeim sem áttu viðskipti á íslenskum fjármálamarkaði eftir skipun skilanefndar bankans í byrjun dags. 7. október 2008.
Með vísan til 142. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. krefst stefnandi þess að stefndi greiði sér 50.022.569 krónur með vöxtum. Aðallega er byggt á því að stefnda beri að greiða vexti skv. 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá því að greiðslan var innt af hendi til upphafsdags dráttarvaxtareiknings, þar sem endurheimtukrafa vegna riftunar á grundvelli 141. gr. sé skaðabótakrafa skv. 3. mgr. 142. gr. laga um gjaldþrotaskipti ofl. Til vara er byggt á því að stefnda beri að greiða vexti á umræddu tímabili skv. 4. gr. vaxtalaga. Krafan um dráttarvexti miðar við að þeir reiknist á kröfuna mánuði eftir að áskorun um greiðslu var send stefnda, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.
Stefnandi byggir á því að verðbréfasjóðurinn Stefnir-ríkisverðbréfasjóður millilangur sé ekki sjálfstæður lögaðili og því sé rétt að stefna rekstrarfélagi hans, Stefni hf., þar sem það félag hafi stofnað og reki ríkisverðbréfasjóðinn á grundvelli laga nr. 30/2003 um verðbréfasjóði og fjárfestingasjóði.
Málið sé rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem efndastaður greiðslu á peningamarkaðsinnlánum hafi verið í Reykjavík samkvæmt lögum, samningi aðila eða tilætlun þeirra. Efndastaður peningamarkaðsinnlána sé hjá því fjármálafyrirtæki sem hafi vörslur fjármunanna. Greiðslan hafi verið innt af hendi inn á bankareikning í eigu stefnda hjá fjármálafyrirtæki með höfuðstöðvar í Reykjavík. Það staðfesti að samkomulag hafi verið um að efndastaðurinn væri í Reykjavík eða að minnsta kosti að það hafi verið ætlun aðila að efna kröfuna þar. Endurgreiðslan hafi verið liður í þjónustu sem veitt var á starfstöð stefnanda og fólst í ávöxtun á fjármunum stefnda.
Stefnandi byggir einnig á því að heimilt sé að höfða málið á brotavarnarþingi þar sem ráðstöfunin sem sé grundvöllur kröfunnar, það er endurgreiðsla peningamarkaðsinnlánsins til stefnda, hafi farið fram í Reykjavík.
Stefnandi byggir kröfur sínar á lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., einkum 134., 141. og 142. gr. laganna. Vaxtakröfur hans eru reistar á lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, einkum 4. gr., 3. mgr. 5. gr., 6. gr. og 1. mgr. 8. gr. laganna. Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málið sé rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með heimild í 35., 36. og 38. gr. sömu laga.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi mótmælir öllum kröfum, málsástæðum og lagarökum stefnanda og krefst sýknu af öllum kröfum hans á grundvelli þess að það sé ekki stefnandi sem eigi kröfuna, að greiðsluskyldan hvíli ekki á stefnda og að skilyrði riftunar séu ekki fyrir hendi, hvorki almenn né sérstök skilyrði 134. og 141. gr. laga nr. 21/1991. Auk þess telur stefndi ekki vera skilyrði fyrir greiðsluskyldu, hann telur samning málsaðila ógildan og að hann eigi skaðabótakröfu á hendur stefnanda til skuldajöfnuðar.
Stefnandi á enga kröfu á hendur stefnda
Stefndi byggir fyrst á því að framlögð gögn sýni að stefnandi geti ekki átt neina kröfu á hendur stefnda vegna þeirrar greiðslu sem lögð var inn á reikning sjóðsins hjá Kaupþingi banka hf., 9. október 2008, þar sem það hafi ekki verið fjármunir gamla Landsbankans sem hafi verið nýttir til að endurgreiða innlánið. Ekki sé hægt að rifta greiðslum sem annar en þrotamaður inni af hendi.
Stefnandi haldi því fram í stefnu að hann hafi þegar verið orðinn ógjaldfær við upphaf viðskipta 6. október 2008. Jafnframt segi í stefnu að 9. október 2008 hafi stefnandi hvorki átt laust reiðufé í íslenskum krónum né erlendum myntum. Af ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, 9. október 2008, um ráðstöfun eigna og skulda stefnanda til Nýja Landsbankans verði jafnframt ráðið að frá og með morgni þess dags hafi nánast öllum eignum gamla Landsbankans á Íslandi, svo sem fasteignum, lausafé og reiðufé, verið ráðstafað til Nýja Landsbankans hf. Gamli Landsbankinn hafi því ekki átt neina fjármuni til að endurgreiða stefnda, fyrir hönd sjóðsins, framangreint innlán.
Í stefnu sé því hins vegar haldið fram að greiðsla á innláninu hafi verið fjármögnuð með lántöku, meðal annars frá Seðlabanka Íslands. Þetta sé rangt. Fram lögð kvittun og tölvuskeyti sem fóru milli starfsmanna stefnda og Landsbankans hf. (áður Nýja Landsbankans hf.) í febrúar 2012, sýni að Nýi Landsbankinn hf. hafi lagt umrædda greiðslu inn á reikning sjóðsins kl. 16:10, 9. október 2008. Stefndi telur hæpið, svo ekki sé sterkar að orði kveðið, að nokkur lánveitandi hefði verið reiðubúinn að lána gamla Landsbankanum umtalsverðar fjárhæðir þegar hann var orðinn ógjaldfær og eftir að allar eignir hans á Íslandi höfðu verið færðar til annars aðila, til að standa skil á skuldbindingum vegna innlána.
Þar sem gamli Landsbankinn hafi ekki innt þessa greiðslu af hendi geti stefnandi hvorki krafist riftunar á greiðslunni né þess að stefndi inni af hendi fjármuni vegna hennar. Því eigi stefnandi ekki neina kröfu á hendur stefnda vegna framangreindra viðskipta.
Stefndi telur ofangreinda aðstöðu jafnframt leiða til þess að sýkna eigi hann á grundvelli aðildarskorts til sóknar og/eða vegna þess að málið sé augljóslega höfðað á röngum málsgrundvelli.
Aðildarskortur stefnda
Verði talið, þrátt fyrir framangreint, að stefnandi eigi kröfu í málinu, sé ljóst að greiðsluskylda vegna hennar hvíli ekki á stefnda þar sem það hafi verið sjóðurinn en ekki stefndi sem tók við greiðslunni, 9. október 2008. Gera verði greinarmun á stefnda, sem rekstrarfélagi sjóðsins, og sjóðnum sem haldi sjálfur utan um þær eignir sem í honum séu. Fjárhagur þessara aðila sé aðskilinn og þeir því tveir aðskildir lögaðilar. Þetta sjáist glöggt af ákvæði 2. mgr. 12. gr. 128/2011 um verðbréfasjóði, fjárfestingasjóði og fagfjárfestasjóði. Þar komi fram að rekstrarfélög beri ekki ábyrgð á skuldbindingum einstakra verðbréfasjóða sem þeir reki, og standi einvörðungu eignir hvers sjóðs til fullnustu skuldbindinga hvers þeirra. Því sé ekki hægt að gera kröfu á hendur stefnda vegna skuldbindinga sjóðsins eða annarra sjóða í hans rekstri. Ekki stoði því að beina riftunarkröfu að stefnda og á honum geti ekki hvílt greiðsluskylda vegna fjármuna sem sjóðurinn hafi tekið við, jafnvel þótt sjóðurinn sé í umsjón og vörslu stefnda.
Stefndi bendir á að samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 128/2011 beri rekstrarfélög ábyrgð á rekstri verðbréfasjóða og komi fram fyrir þeirra hönd. Í þessu ákvæði felist hins vegar hvorki að rekstrarfélög beri ábyrgð á skuldbindingum sjóða í þeirra vörslu né eigi beina aðild að dómsmálum sem varði málefni einstakra sjóða. Í þessu felist einungis að rekstrarfélögin komi fram fyrir hönd einstakra sjóða, eftir atvikum í dómsmálum, en ekki með þeim hætti að stefnda sé skylt að standa skil á skuldbindingum sjóðanna. Eins og stefnandi hafi lagt málið upp ætlist hann einmitt til þess að stefndi, rekstrarfélagið, standi skil á greiðslu samkvæmt dómkröfum en ekki sjóðurinn sjálfur. Slíkur málatilbúnaður gangi ekki upp og því sé kröfunni beint að röngum aðila. Þar með beri að sýkna stefnda vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Enda þótt atvik málsins hafi orðið í gildistíð eldri laga, nr. 30/2003 um verðbréfasjóði og fjárfestingasjóði, hafi ekki orðið neinar efnisbreytingar á ábyrgð sjóðsins með hinum nýju lögum eins og komi fram í greinargerð með 12. og 16. gr. nýju laganna. Fyrir rök gegn aðild til varnar skipti ekki máli þótt talið verði að beita eigi eldri lögum um verðbréfasjóði um þennan ágreining, sömu sjónarmið eigi við að breyttu breytanda.
Skilyrði riftunar ekki fyrir hendi
Sýknukrafa stefnda byggist jafnframt á því að skilyrði laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. til þess að rifta greiðslunni séu ekki fyrir hendi, hvorki almenn né sérstök skilyrði 134. og 141. gr.
Almenn skilyrði fyrir riftun ekki fyrir hendi
Engin riftanleg greiðsla innt af hendi
Eins og rakið hafi verið hafi gamli Landsbankinn ekki innt af hendi fjármuni til greiðslu á innláni sjóðsins. Því séu skilyrði fyrir riftun greiðslunnar ekki fyrir hendi. Það sé forsenda riftunar samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti, þar á meðal 134. og 141. gr., að þrotamaður sjálfur hafi innt af hendi greiðslu eða framkvæmt aðra ráðstöfun sem geti verið andlag riftunar. Ekki sé hægt að rifta greiðslum sem komi frá öðrum en þrotamanni.
Ráðstöfunum sem framkvæmdar eru eftir að gjaldþrotaskipti eru hafin verður ekki rift
Krafa stefnda um sýknu byggist jafnframt á því að stöðu stefnanda við hina ætluðu riftanlegu ráðstöfun megi jafna við að hafin hafi verið gjaldþrotaskipti á búi hans. Ráðstafanir sem skiptastjóri standi að eða samþykki eftir að gjaldþrotaskipti séu hafin geti ekki verið riftanlegar.
Á því tímamarki sem hin meinta riftanlega ráðstöfun hafi farið fram, 9. október 2008, hafi gamli bankinn verið undir stjórn skilanefndar, sem Fjármálaeftirlitið hafi skipað til að fara með stjórn og daglegan rekstur hans. Henni hafi verið ætlað að leggja drög að skuldaskilum bankans, sem að sögn stefnanda var ógjaldfær á þessum tíma. Því megi leggja þá stöðu sem bankinn var þá í að jöfnu við það að hafin væru gjaldþrotaskipti á búi hans, að minnsta kosti hvað varðar riftanlegar ráðstafanir, og að skilanefnd færi með vald skiptastjóra.
Markmið riftunarreglna gjaldþrotaskiptalaga sé að hnekkja ráðstöfunum sem þrotamaður hafi gert í aðdraganda gjaldþrotaskipta í því skyni að gæta jafnræðis kröfuhafa. Af því leiði að riftunarreglur laga um gjaldþrotaskipti geti ekki tekið til ráðstafana sem skiptastjóri, eða annar í stöðu sem jafna megi við stöðu skiptastjóra, framkvæmi sjálfur eða samþykki að séu framkvæmdar eftir að bú hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta eða annarrar meðferðar sem jafna megi við gjaldþrotaskipti. Slíkt gangi beinlínis gegn markmiði riftunarreglna gjaldþrotaskiptalaga auk þess að stefna hagsmunum viðskiptalífsins í hættu þar sem gagnaðili slíkra ráðstafana gæti ekki treyst lögmæti þeirra, jafnvel þótt þær hefðu verið ákveðnar af skiptastjóra í skjóli opinbers valds.
Í þessu máli liggi fyrir að greiðsla til sjóðsins hafi verið innt af hendi eftir að Fjármálaeftirlitið skipaði bankanum skilanefnd og að meðferð sem jafna má til gjaldþrotaskiptameðferðar var hafin. Jafnframt verði varla annað ályktað en að greiðsla til sjóðsins hefði ekki verið innt af hendi án heimildar og samþykkis skilanefndar og jafnvel Fjármálaeftirlitsins. Slíkum ráðstöfunum sé ekki heimilt að rifta eins og áður segi.
Stefnandi varð ekki fyrir neinu tjóni
Eitt af skilyrðum þess að riftun nái fram að ganga, burtséð frá því á hvaða ákvæði gjaldþrotalaga riftunarkrafa grundvallist, sé að riftunin leiði til þess að möguleiki kröfuhafa til fullnustu á kröfum sínum við úthlutun úr þrotabúi aukist við endurgreiðslu í kjölfar riftunar. Í þessu felist að hin riftanlega ráðstöfun þurfi að hafa orðið þrotabúi til tjóns. Ljóst sé hins vegar að sú ráðstöfun sem hér sé krafist riftunar á hafi ekki valdið stefnanda neinu tjóni.
Í fyrsta lagi þar sem greiðsla á innláni sjóðsins hafi ekki komið frá honum, heldur Nýja Landsbankanum hf. Stefnandi hafi ekki getað orðið fyrir tjóni vegna greiðslu sem hann innti aldrei af hendi.
Jafnframt verði að gæta að því að kröfur um innstæður séu forgangskröfur við gjaldþrotaskipti. Þannig segi í 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki:
Við slit fjármálafyrirtækis gilda sömu reglur og um rétthæð krafna á hendur þrotabúi, en þó skulu kröfur um innstæður samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta jafnframt teljast til krafna sem njóta rétthæðar skv. 1. og 2. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.
Stefndi telur að krafa sjóðsins á hendur stefnanda hefði talist til innstæðu í skilningi framangreinds ákvæðis, og hefði þar með notið forgangs samkvæmt 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti við skipti stefnanda, hefði hún ekki fengist greidd 9. október 2008. Að eigin mati stefnanda muni forgangskröfur í búið greiðast að fullu og gott betur. Því sé ljóst að hefði greiðslan ekki verið innt af hendi, hefði sjóðurinn átt innstæðu hjá stefnanda sem nyti forgangs við úthlutun úr búi stefnanda, og sem slík hefði hún fengist greidd að fullu. Stefnandi hafi því ekki orðið fyrir neinu tjóni við það að umrædd greiðsla var innt af hendi til sjóðsins framangreindan dag. Skilyrði fyrir riftun samkvæmt 134. eða 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., eða nokkru öðru ákvæði laganna, séu því ekki fyrir hendi.
Til stuðnings því að krafa stefnda hefði talist til innstæðu í skilningi 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, hefði hún ekki fengist greidd, bendir stefndi á að í þeim lögum sé ekki skilgreint hvaða kröfur teljist til innstæðna, heldur vísi þau um skilgreiningu hugtaksins til laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar. Í 3. mgr. 9. gr. þeirra komi meðal annars fram:
Með innstæðu skv. 1. mgr. er átt við innstæðu sem tilkomin er vegna innláns eða millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi og viðskiptabanka eða sparisjóði ber að endurgreiða samkvæmt skilmálum er gilda samkvæmt lögum eða samningum. Tryggingin nær hins vegar ekki til skuldabréfa, víxla eða annarra krafna sem útgefnar eru af viðskiptabanka eða sparisjóði í formi verðbréfa.
Þessi skilgreining sé nánast samhljóða íslenskri þýðingu skilgreiningar tilskipunar Evrópusambandsins nr. 94/19/EC um innlánatryggingarkerfi, innstæðutilskipuninni.
Samkvæmt þessari skilgreiningu verði krafa að uppfylla þrjú skilyrði til þess að teljast innstæða í skilningi laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar:
i) Innstæða verður að vera tilkomin vegna innláns eða millifærslu,
ii) í hefðbundinni almennri bankastarfsemi, og
iii) það verður að vera skylt að endurgreiða hana samkvæmt skilmálum laga eða samninga.
Hvorugt hugtakið í fyrsta skilyrðinu, innlán eða millifærsla, sé skýrt nánar í lögunum sjálfum. Hugtakið innlán sé hins vegar skilgreint í 12. tölulið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 128/2011 um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði, sem fjárfesting þar sem sérstaklega hefur verið samið um binditíma og vexti. Jafnframt segi að innlán séu hluti af fjárfestingastefnu verðbréfasjóða. Þá sé hugtakið innlán einnig skilgreint í 1. gr. reglna Seðlabanka Íslands um bindiskyldu nr. 373 frá 2008 sem: Fjárhæðir sem bindiskyldur aðili skuldar viðskiptavinum aðrar en þær sem tilkomnar eru vegna útgáfu framseljanlegra skuldaskjala.
Með hliðsjón af þessu sé augljóst að krafa sjóðsins, hefði hún ekki fengist greidd, teldist til innlána í skilningi ofangreindra ákvæða, enda hafi verið samið um binditíma og tiltekna vexti á innláni sjóðsins í skilningi laga nr. 128/2011 eins og kvittun fyrir greiðslunni sýni, auk þess sem innlánið hafi verið hluti af fjárfestingarstefnu sjóðsins. Þá staðfesti fram lögð skjöl að stefnandi hafi skuldað sjóðnum fjárhæð í skilningi reglna Seðlabankans, en þessi skuld hafi ekki komið til vegna framseljanlegra skuldaskjala.
Hugtakið millifærsla sé ekki skilgreint sérstaklega í lögum. Þó komi fram í greinargerð með eldri lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 113/1996, en hugtakið innstæða hafi upprunalega verið tekið upp í íslensk lög með þeim, að millifærsla geti til dæmis verið þegar greitt er í einum banka inn á reikning í öðrum banka.
Sú greiðsla sem hér sé deilt um hafi einmitt farið fram með millifærslum milli reikninga. Því sé skilyrði um millifærslur uppfyllt, þótt það sé í raun ekki nauðsynlegt til þess að krafa sjóðsins teldist til innstæðu, þar sem nóg sé að krafan sé komin til vegna innláns eða millifærslu, að öðrum skilyrðum fullnægðum.
Vegna þess skilyrðis að innstæða verði að vera komin til vegna innláns eða millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi, sé hvergi í lögum skilgreint hvað sé hefðbundin almenn bankastarfsemi. Þó hljóti að mega hafa hliðsjón af reglum 3. og 4. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki þar sem kveðið sé á um hvaða fjármálastarfsemi sé starfsleyfisskyld. Ætla megi að sú starfsemi sem lögin tilgreini gefi til kynna hvað felist að lágmarki í hefðbundinni almennri bankastarfsemi. Þar segi meðal annars að innlán og veiting útlána sé starfsleyfisskyld. Þá teljist móttaka innlána og útlán, samkvæmt almennum skilningi á starfsemi banka, til hefðbundinnar almennrar bankastarfsemi.
Krafa stefnda sé því komin til vegna innláns eða millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi í skilningi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar.
Þriðja skilyrðið fyrir því að kröfur teljist til innstæðu í skilningi 3. mgr. 9. gr. laga um innstæðutryggingar, sé að þær byggist á innláni eða millifærslu sem viðskiptabanka eða sparisjóði beri að endurgreiða skv. skilmálum er gilda samkvæmt lögum eða samningum.
Enginn vafi sé á því að stefnanda beri að endurgreiða sjóðnum þær skuldbindingar sem hann tók á sig samkvæmt ákvæðum þeirra staðfestinga sem liggi fyrir. Í staðfestingunum sé beinlínis mælt fyrir um endurgreiðsluskyldu á tilteknum degi. Þetta sé jafnframt óumdeilt. Innlánin hafi því verið endurkræf að tilteknum tíma liðnum (e. term deposit), en innlán geti hvort heldur sem er verið þeirrar tegundar eða endurkræf hvenær sem er (e. demand deposit).
Með hliðsjón af öllu ofangreindu liggi því fyrir að krafa sjóðsins á hendur stefnanda, hefði uppfyllt öll þau skilyrði sem ákvæði 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 setji til að geta talist innstæða í skilningi laganna. Stefndi áréttar, að jafnvel þótt hann sé aðildarfyrirtæki að innstæðutryggingarsjóði samkvæmt lögum nr. 98/1999, hefði krafa sjóðsins á hendur stefnanda notið tryggingar sjóðsins skv. 6. mgr. 9. gr. laganna. Með hliðsjón af þessu hefði krafa hans notið forgangs við skipti bús stefnanda, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og 112. gr. laga nr 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Málsaðilar deili ekki um þetta enda sé afstaða slitastjórnar til sambærilegra krafna (sem stefnandi nefni peningamarkaðsinnlán) og krafa stefnda hefði verið, hefði hún ekki fengist greidd, að þær njóti forgangs sem innstæður.
Að mati stefnanda muni forgangskröfur í búið greiðast að fullu. Eins og áður sé rakið hafi stefnandi ekki orðið fyrir neinu tjóni vegna hinnar umdeildu greiðslu sem innt var af hendi 9. október 2008, því sjóðurinn hefði hvort eð er fengið hana greidda við slit á stefnanda, hefði krafan ekki verið greidd 9. október 2008. Skilyrði riftunar skv. 134. eða 141. gr. laga um gjaldþrotaskipti séu því ekki fyrir hendi og beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í málinu.
Hér beri að athuga að með lögum nr. 55/2011 hafi lögum nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta verið breytt. Meðal annars hafi verið tekið upp í bráðabirgðaákvæði skilgreining á hugtakinu innstæða. Þessi lagabreyting hafi tekið gildi 1. júní 2011, og því verði skilgreiningu hugtaksins ekki beitt í þessu máli. Jafnvel þótt það ákvæði gilti um þennan ágreining aðila hafi það engin áhrif á þau sjónarmið sem hér hafi verið rakin, þar sem hin nýja skilgreining sé efnislega alveg sambærileg skilgreiningunni í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 og sömu sjónarmið eigi því við. Krafa stefnda hefði því jafnt talist til innstæðu í skilningi 3. mgr. 9. gr. og í skilningi bráðabirgðaákvæðis laganna og notið forgangs sem slík við slit á búi stefnanda.
Jafnræði kröfuhafa ekki raskað
Framangreindu til viðbótar og frekari stuðnings bendir stefndi á að greiðsla á innláni sjóðsins hafi ekki getað leitt til þess að jafnræði kröfuhafa væri raskað, eins og stefnandi byggi á, en það sé einmitt einn megintilgangur riftunarreglna að tryggja jafnræði kröfuhafa og ekki komi til greina að beita riftunarreglum gjaldþrotaskiptalaga nema kröfuhöfum hafi verið mismunað. Grundvallarmunur sé annars vegar á greiðslu langtímaláns rétt fyrir gjaldþrot og hins vegar greiðslu skuldbindingar sem veitt var eftir að lántaki var orðinn ógjaldfær.
Samkvæmt fullyrðingu stefnanda sjálfs hafi gamli bankinn þegar verið orðinn ógjaldfær að morgni 6. október 2008, áður en innlán sjóðsins var veitt. Endurgreiðsla á innláni sjóðsins við þær aðstæður hafi ekki getað haft í för með sér ójafnræði milli kröfuhafa í skilningi riftunarreglna gjaldþrotaskiptalaga, vegna þess að sjóðurinn hafi þá verið í allt annarri stöðu en aðrir kröfuhafar sem eignuðust kröfur sínar og fengu þær greiddar áður en stefnandi varð ógjaldfær. Í greiðslu lánsins felist því ekki mismunun sem réttlæti riftun, og því beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.
Skilyrði riftunar samkvæmt 134. gr. laga nr. 21/1991 ekki fyrir hendi
Til viðbótar framangreindu séu einstök skilyrði riftunar samkvæmt 134. og 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. ekki fyrir hendi. Samkvæmt 134. gr. laganna sé heimilt að beita riftun að eftirfarandi skilyrðum uppfylltum:
(i) að greidd hafi verið skuld með óvenjulegum greiðslueyri,
(ii) fyrr en eðlilegt var, eða
(iii) greidd hafi verið fjárhæð sem hafi skert greiðslugetu þrotamannsins verulega.
(iv) Hafi greiðslan hins vegar „virst venjuleg eftir atvikum“, er ekki heimilt að rifta.
Riftunarheimild 134. gr. gildi um greiðslu skuldar sem greidd var á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Ákvæðinu sé fyrst og fremst ætlað að taka til greiðslna á skuldum sem fram hafi farið á annan hátt eða við aðrar aðstæður en upphaflega var gert ráð fyrir.
Fram sé komið að gamli Landsbankinn innti ekki af hendi fjármuni til greiðslu á innláni sjóðsins. Hann hafi því aldrei greitt neina skuld sem sé forsenda þess að hægt sé að beita riftunarheimild 134. gr. laga um gjaldþrota skipti o.fl.
Stefndi telur augljóst að skilyrði ákvæðisins um óvenjulegan greiðslueyri sé ekki fyrir hendi. Í samkomulagi Landsbankans og sjóðsins hafi falist að 400.000.000 króna í peningum yrðu lagðar inn á reikning hjá stefnanda 6. október 2008, sem skyldu greiddar út daginn eftir, með nánar umsömdum vöxtum í peningum. Greiðslan, 9. október 2008, hafi að öllu leyti verið í samræmi við þetta samkomulag að því undanskildu að fjárhæðin var greidd tveimur dögum eftir umsaminn gjalddaga. Því sé fráleitt að hún geti talist óvenjulegur greiðslueyrir, enda geti greiðsla sem innt sé af hendi í umsömdum greiðslueyri ekki talist óvenjulegur greiðslueyrir í skilningi 134. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.
Það að greiðslan var innt af hendi tveimur dögum eftir gjalddaga leiði jafnframt til þess að ekki séu skilyrði til þess að líta svo á að greiðslan hafi verið greidd fyrr en eðlilegt geti talist í skilningi 134. gr., enda verði almennt að líta svo á að greiðsla sem sé innt af hendi á umsömdum gjalddaga eða skömmu síðar og fari að öllu öðru leyti fram í samræmi við samkomulag aðila þar um, sé réttmæt og eðlileg greiðsla sem ekki hafi verið innt af hendi fyrr en eðlilegt geti talist.
Það sé fjarri lagi að hin umrædda greiðsla geti talist hafa skert greiðslugetu þrotamanns verulega. Greiðsla sem þrotamaður inni ekki sjálfur af hendi geti ekki talist hafa skert greiðslugetu hans verulega.
Jafnvel þótt talið væri að greiðslan hefði komið frá gamla bankanum verði að hafa í huga að í árshlutauppgjöri hans vegna fyrri hluta árs 2008 komi fram að heildareignir hans hafi, 30. júní 2008, numið um 3.970 milljörðum króna. Samkvæmt yfirliti skilanefndar bankans frá 20. febrúar 2009 hafi heildareignir hans í nóvember 2008 numið um 3.400 milljörðum króna. Hin umdeilda greiðsla hafi því aðeins verið lítið brot af eignum gamla bankans þegar hún var innt af hendi, eða um 0,012% sé miðað við eignastöðuna í nóvember 2008. Niðurstaðan sé sú sama jafnvel þótt miðað sé við síðasta þekkta mat á eignastöðu stefnanda sem birt var 17. nóvember 2011, en þar sé gert ráð fyrir að eignir hans nemi um 1.353 milljörðum króna. Hvernig sem á málið sé litið nemi umrædd greiðsla í öllum tilvikum einungis litlu broti af eignum stefnanda.
Engu máli skipti í þessu samhengi þótt gamli bankinn hafi innt af hendi fleiri greiðslur vegna svokallaðra peningamarkaðsinnlána, en jafnvel þótt svo væri sé ósannað að slíkar greiðslur, hafi þær farið fram, séu sambærilegar þeirri sem hér sé deilt um. Auk þess nemi heildargreiðslur allra sambærilegra innlána, hafi þær farið fram, einungis litlum hluta af heildareignum stefnanda samkvæmt áætlun hans sjálfs. Þá sé ósannað að gamli bankinn hafi verið ógjaldfær á þessum tíma.
Stefndi telji í öllu falli ljóst að greiðslan hafi verið venjuleg með hliðsjón af atvikum öllum, verði á annað borð talið að hún hafi komið frá stefnanda. Ákvæði 134. gr. laga nr. 21/1991 sé ætlað að taka til greiðslna á skuldum sem farið hafi fram á annan hátt eða við aðrar aðstæður en upphaflega hafi verið gert ráð fyrir. Eins og rakið hafi verið hafi ekkert óeðlilegt verið við framangreinda greiðslu, sem farið hafi fram nákvæmlega á þann hátt sem aðilar sömdu um, með þeirri undantekningu einni að greiðslan var innt af hendi tveimur dögum eftir gjalddaga. Þessi ráðstöfun hafi verið í samræmi við það sem áður hafði tíðkast í samskiptum aðila og almennt tíðkaðist á markaði á þessum tíma, og geri enn.
Einnig beri að hafa í huga að engin óeðlileg tengsl, hvorki stjórnunarleg né önnur, hafi verið á milli aðila þessa máls sem réðu því að greiðslan var innt af hendi. Stefndi teljist til að mynda ekki nákominn í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., auk þess sem greiðslan hafi farið fram alveg án tillits til fjárhagsvandræða stefnanda á þessum tíma, og með henni hafi hvorki stefnda né sjóðnum verið hyglt eða jafnræði kröfuhafa raskað.
Þá verði heldur ekki betur séð en að greiðslan hafi verið innt af hendi í kjölfar þess að Fjármálaeftirlitið tók ákvörðun um stofnun Nýja Landsbankans hf., 9. október 2008, og um ráðstöfun eigna og skulda gamla bankans til hins nýja. Í ákvörðun eftirlitsins hafi meðal annars falist að Nýi Landsbankinn hf. tæki yfir, frá kl. 9.00, 9. október 2008, allar skuldbindingar stefnanda vegna innlána, þar á meðal innlána frá fjármálafyrirtækjum, sbr. 7. tölulið ákvörðunarinnar. Ákvörðunin hafi náð til allra tegunda innlána. Því hafi ekki verið vitað betur þennan dag en að það innlán sem hér sé deilt um hafi verið yfirtekið af Nýja Landsbankanum hf. Það hafi ekki verið fyrr en löngu síðar, eða 21. nóvember 2008, sem tekin var ákvörðun um að „svokölluð peningamarkaðslán/innlán/PM lán/innlán“ fjármálafyrirtækja skyldu ekki flytjast yfir til Nýja Landsbankans hf. Á þeim tíma sem greiðslan var innt af hendi, síðdegis 9. október 2008, hafi hins vegar ekki annað legið fyrir en að öll innlán skyldu flytjast yfir til nýja bankans, og því fullkomlega eðlilegt að inna greiðsluna af hendi þá. Hér verði að hafa í huga að gögn málsins beri með sér að greiðsla á innláni sjóðsins hafi einmitt komið frá Nýja Landsbankanum hf., en ekki gamla bankanum. Tilhlýðileika greiðslunnar verður að skoða undir þessu ljósi. Þar sjáist að greiðslan geti aldrei talist annað en venjuleg eftir atvikum í skilningi 134. gr.
Skilyrði riftunar samkvæmt 141. gr. laga nr. 21/1991 ekki fyrir hendi
Stefndi mótmælir því að uppfyllt séu skilyrði 141. gr. sem séu:
i) að ráðstöfunin teljist ótilhlýðileg,
ii) ótilhlýðileikinn verði að lúta að því að ráðstöfun hafi verið kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, hafi leitt til þess að eignir þrotamanns verði ekki til fullnustu kröfuhöfum eða leitt til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, og
iii) að þrotamaður hafi verið ógjaldfær eða orðið það vegna ráðstöfunarinnar, og að sá sem hafði hag af ráðstöfuninni hafi vitað eða mátt vita um ógjaldfærnina og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfun var ótilhlýðileg.
tefndi mótmælir því að greiðsla á innláni sjóðsins hafi verið ótilhlýðileg ráðstöfun í skilningi 141. gr. enda geti greiðsla sem komi ekki frá þrotamanni sjálfum ekki talist ótilhlýðileg. Að auki hafi greiðslan verið innt af hendi í umsömdum greiðslueyri, skömmu eftir umsaminn gjalddaga, og að öllu öðru leyti í samræmi við samkomulag aðila þar um. Slík greiðsla geti aldrei talist ótilhlýðileg í skilningi ákvæðisins. Að öðru leyti eigi við sömu sjónarmið og rakin voru varðandi 134. gr. að breyttu breytanda. Það sé ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir beitingu 141. gr. að greiðsla teljist ótilhlýðileg. Þar sem hún sé það ekki verði þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda sem byggja á þessu ákvæði laganna.
Stefndi mótmælir því að framangreind greiðsla hafi verið honum til hagsbóta á kostnað annarra, hafi leitt til þess að eignir þrotamanns voru ekki til fullnustu kröfuhöfum eða leitt til skuldaaukningar þrotamanns kröfuhöfum til tjóns. Hann vísar til fyrri röksemda um að gamli Landsbankinn hafi ekki innt greiðsluna af hendi og hún því ekki orðið honum til tjóns. Hefði gamli bankinn greitt hana beri að líta til þess að hún teldist til forgangskrafna við slit stefnanda og fengist því greidd af eignum búsins, hefði hún ekki fengist greidd þegar 9. október 2008.
Það sé jafnframt skilyrði riftunar samkvæmt 141. gr. að þrotamaður hafi verið ógjaldfær eða orðið það vegna ráðstöfunarinnar, og að sá sem hafði hag af ráðstöfuninni hafi vitað eða mátt vita um ógjaldfærnina og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfun var ótilhlýðileg.
Ósannað sé að stefnandi hafi verið ógjaldfær þegar umrædd greiðsla fór fram og að stefndi hafi verið grandsamur um ógjaldfærnina, hafi hún verið fyrir hendi. Hér verði að hafa sérstaklega í huga að starfsmenn stefnda vissu ekki betur á þessum tíma en að innlánið hefði færst yfir til Nýja Landsbankans hf. með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 9. október 2008 enda hafi greiðslan komið frá Nýja Landsbankanum hf. Það hafi ekki verið fyrr en löngu eftir að greiðslan var innt af hendi sem í ljós kom að sambærileg innlán fluttust ekki yfir til nýja bankans, eins og áður er rakið. Það að inna greiðsluna af hendi og taka við henni geti því ekki talist ótilhlýðilegt, en jafnvel þótt svo væri, hafi starfsmenn stefnda verið algerlega grandlausir um það svo og ógjaldfærni stefnanda. Þeir hafi tekið við greiðslunni í góðri trú um að heimilt hefði verið að inna hana af hendi.
Skilyrði greiðsluskyldu ekki fyrir hendi
Til viðbótar öllu framangreindu telur stefndi ljóst að á honum geti ekki hvílt skylda til að greiða stefnanda nokkuð, þar sem skilyrði 1. og 3. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991, sem stefnandi byggir fjárkröfur sínar á, séu ekki fyrir hendi.
Fyrir liggi að stefnandi innti greiðsluna ekki af hendi og varð ekki fyrir neinu tjóni vegna hennar. Þegar af þeirri ástæðu geti greiðsluskylda ekki hvílt á stefnda.
Til viðbótar sé það skilyrði samkvæmt báðum framangreindum málsgreinum 142. gr. að greiðsluskylda geti einungis hvílt á þeim aðila sem hafði hag af riftanlegri ráðstöfun. Í þessu tilviki hafi stefndi ekki haft neinn hag af umræddri greiðslu, sem var innt af hendi af stefnanda [svo] og móttekin af sjóðnum, en ekki stefnda. Gera verði greinarmun á stefnda, sem reki og hafi umsjón með tilteknum sjóðum, og sjóðunum sjálfum, sem haldi utan um eignir hlutdeildarskírteinishafanna. Þetta séu tveir aðskildir aðilar, þar sem hvor beri ábyrgð á eigin skuldbindingum samkvæmt ákvæðum laga um verðbréfasjóði. Því séu ekki fyrir hendi skilyrði til þess að krefja stefnda um fjárgreiðslu eins og stefnandi geri. Í þessu samhengi sé einnig rétt að hafa í huga að þeir aðilar sem í raun höfðu hag af umræddri greiðslu voru hlutdeildarskírteinishafar sjóðsins á þeim tíma sem hin umrædda greiðsla fór fram. Um þetta vísar stefndi eftir því sem við á til fyrri umfjöllunar um aðildarskort hér að framan.
Samningur aðila um innlánið var ógildur ‒ Riftun leiðir til óréttmætrar auðgunar
Þá byggir stefndi jafnframt á því að samningur aðila um innlánið hafi verið ógildur. Yrði fallist á riftun á ógildum samningi myndi það leiða til óréttmætrar auðgunar stefnanda.
Stefnandi byggi sjálfur á því að hann hafi verið ógjaldfær við upphaf viðskipta mánudaginn 6. október 2008 og hann hafi ekki mátt búast við því að greiðsluörðugleikar hans liðu hjá innan skamms. Stefnanda hafi því samkvæmt eigin málflutningi orðið skylt að gefa bú sitt upp til gjaldþrotaskipta skv. 2. mgr. 64. gr. laga nr. 21/1991. Þrátt fyrir þetta hafi stefnandi tekið við innláni sjóðsins án þess að upplýsa sjóðinn um að hann væri orðinn ógjaldfær, en stefnandi hlaut að gera sér grein fyrir því á þessum tíma. Vegna þess verði að telja samninginn um innlánið ógildan frá upphafi samkvæmt ákvæðum 30., 33. og/eða 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936.
Stefnandi krefjist riftunar greiðslu sem var innt af hendi á grundvelli ógilds samnings. Slíkum greiðslum sé ekki unnt að rifta því hefði hinn ógildi samningur ekki komið til hefðu engar greiðslur átt sér stað, eða greiðslur hefðu í það minnsta gengið til baka. Stefndi byggir á því að þetta hafi raunverulega gerst í þessu tilviki. Verði fallist á kröfu stefnanda sé stefndi í raun knúinn til greiðslu á grundvelli ógilds löggernings. Það standist ekki, enda geti ógildur löggerningur ekki skapað neinn rétt. Yrði fallist á slíka kröfu myndi slíkt leiða til óréttmætrar auðgunar stefnanda.
Telur stefndi ljóst af öllu framangreindu að ekki verði komist hjá því að sýkna hann af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.
Skaðabótakrafa ‒ Gagnkrafa til skuldajöfnuðar
Verði ekki fallist á framangreindar málsástæður fyrir sýknu byggir stefndi á því að hann eigi skaðabótakröfu á hendur stefnanda sömu fjárhæðar og stefnufjárhæðin sem nota megi til skuldajöfnuðar.
Eins og að framan greini byggi stefnandi sjálfur á því að gamli bankinn hafi verið ógjaldfær 6. október 2008. Honum hafi verið skylt að gefa bú sitt upp til gjaldþrotaskipta. Þrátt fyrir það hafi hann tekið við innláni sjóðsins og upplýst á opinberum vettvangi að staða hans væri traust.
Vegna þessa sé ljóst að gerð samnings um innlán hafi falið í sér saknæma og ólögmæta háttsemi gamla bankans. Verði fallist á riftunarkröfu stefnanda, verði stefndi fyrir tjóni sem nemi dómkröfunni. Það stafi af því að gamli bankinn hafi fengið stefnda til að ganga til samninga um innlán sem bankanum mátti vera ljóst að hann gæti ekki efnt. Verði fallist á riftunarkröfu stefnanda verði samningurinn ekki efndur. Tjón stefnda sé því bein og sennileg afleiðing af þeirri háttsemi stefnanda og öll skilyrði skaðabótaskyldu því uppfyllt í málinu.
Stefndi mótmælir að lokum vaxtakröfu stefnanda en hún eigi sér enga lagastoð.
Til stuðnings máli sínu vísar stefndi til laga nr. 128/2011 um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði, einkum 12. og 16. gr., svo og eldri laga nr. 30/2003 um sama efni eftir því sem við á. Jafnframt vísar hann til laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki sem og laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., einkum 134., 141. og 142. gr. Einnig vísar hann til 30., 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga sem og meginreglna kröfuréttarins um óréttmæta auðgun. Þá vísar stefndi til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 2. mgr. 16. gr. Um málskostnað er vísað til 129. gr, sbr. 130. gr. laganna.
Niðurstaða
Ágreiningur þessa máls á rætur að rekja til ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 og nánari útfærslu þeirrar ákvörðunar í bréfum eftirlitsins 11. og 21. nóvember sama ár. Með heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 ákvað eftirlitið, 9. október, að færa allar eignir Landsbanka Íslands hf., sem þá var kominn undir stjórn skilanefndar, til Nýja Landsbanka Íslands hf. Þarna á meðal voru fasteignir, lausafé, reiðufé, eignarhlutar í öðrum félögum og kröfuréttindi svo og samningsbundin afnotaréttindi til fasteigna og lausafjár. Jafnframt skyldi nýi bankinn taka yfir skuldbindingar vegna innlána frá fjármálafyrirtækjum, Seðlabankanum og öðrum viðskiptavinum. Í ákvörðuninni segir að hún byggist á fyrirliggjandi upplýsingum og gögnum. Reynist hún byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða aðrar forsendur ákvörðunarinnar bregðist verulega geti Fjármálaeftirlitið gert hvers konar breytingar á henni þar með talið að fella hana úr gildi í heild eða að hluta.
Þegar vinna átti eftir ákvörðuninni risu álitamál vegna peningamarkaðslána sem bankinn hafði fengið frá fjármálafyrirtækjum. Fyrst í bréfi 11. nóvember en aftur í bréfi 21. nóvember 2008 útfærði Fjármálaeftirlitið ákvörðunina 9. október 2008 um ráðstöfun eigna og skulda gamla bankans nánar. Í bréfinu 11. nóvember kemur fram að á stjórnarfundi Fjármálaeftirlitsins þann dag hafi verið ákveðið að árétta að skuldbindingar vegna peningamarkaðslána/innlána frá fjármálafyrirtækjum hafi ekki verið fluttar til þeirra banka, sem eftirlitið tók yfir í október það ár með þeim ákvörðunum sem áður höfðu verið teknar um ráðstöfun eigna þeirra og skulda. Eftirlitið beindi því jafnframt til endurskoðenda, sem önnuðust gerð stofnefnahagsreikninga nýju bankanna, að huga sérstaklega að þessu og ítrekaði að skilanefndir og stjórnir félaganna ynnu eftir því sama þar sem mikilvægt væri að gætt væri samræmis við framkvæmd málsins. Í bréfi Fjármálaeftirlitsins 21. nóvember er enn áréttað að líta beri á svonefnd peningamarkaðslán/innlán frá öðru fjármálafyrirtæki sem lánveitingu sem hafi verið skilin eftir í gömlu bönkunum.
Þá þegar hafði nýi Landsbankinn greitt nokkrum fjármálafyrirtækjum peningamarkaðsinnlán þeirra eins og þau hefðu verið flutt til hans.
Það álitamál sem í raun er lagt fyrir dóminn er hvort þau fjármálafyrirtæki sem höfðu veitt gamla bankanum margnefnd peningamarkaðslán þurfi að umbera það að ákvörðun Fjármálaeftirlitsins var í upphafi ekki nægjanlega afgerandi, þannig að úr þurfti að bæta 11. og 21. nóvember, um það hvorum bankanum slík innlán tilheyrðu og fjármálafyrirtækin þurfi af þeim sökum að endurgreiða slitabúi gamla bankans þær fjárhæðir sem þeim voru vegna ónákvæmrar ákvörðunar greiddar fyrir mistök. Þessi spurning er þó ekki berum orðum lögð fyrir dóminn heldur er hún klædd í búning riftunarreglna laga um gjaldþrotaskipti.
Eins og áður segir áréttaði Fjármálaeftirlitið, 21. nóvember 2008, að peningamarkaðsinnlán sem annað fjármálafyrirtæki hefði veitt þeim bönkum sem eftirlitið tók yfir í október 2008 hefðu verið skilin eftir í þeim bönkum. Þrátt fyrir að nýi Landsbankinn hafi innt peningagreiðsluna af hendi var það ekki hann sem stóð í skuld við stefnda vegna peningamarkaðslánsins, heldur gamli bankinn. Greiðslan var innt af hendi á meðan starfsmenn nýja bankans stóðu í þeirri röngu trú að sá banki hefði yfirtekið skuldina. Þar sem skuldin hafði ekki flust til nýja bankans, heldur hvíldi enn á gamla bankanum þegar hún var greidd, verður að líta svo á að starfsmenn nýja bankans hafi innt greiðsluna af hendi fyrir hönd þess gamla. Stefnandi, slitabú gamla bankans, er því réttur aðili að þessu máli til sóknar.
Í lokamálslið 1. mgr. 18. gr. laga nr. 20/1989 um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði, sem felld voru úr gildi 1. júlí 1993, sagði að verðbréfasjóður gæti eigi verið aðili að dómsmáli nema málið fjallaði um samskipti sjóðsins og þess verðbréfafyrirtækis sem sæi um rekstur hans. Þetta gilti þrátt fyrir að í gildistíð þessara laga hafi verðbréfasjóður mátt vera hlutafélag og skyldi hafa samþykktir og sérstaka stjórn. Í lögum nr. 30/2003 um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði var ekki ákvæði um aðild rekstrarfélaga fyrir hönd verðbréfasjóða.
Nú gilda lög nr. 128/2011 um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði. Í 2. mgr. 16. gr. þeirra segir að rekstrarfélag beri ábyrgð á rekstri verðbréfasjóða og sjóðsdeilda og komi fram fyrir þeirra hönd. Í greinargerð með 16. gr. er tekið fram að einungis sé færð í lagaákvæði sú regla sem hafi gilt í framkvæmd. Hvorki í eldri né yngri lögum um verðbréfasjóði er aðild rekstrarfélags verðbréfasjóðs fyrir hans hönd takmörkuð við ákveðnar tegundir dómsmála til dæmis þannig að riftunar- og endurgreiðslukröfu, vegna greiðslu sem verðbréfasjóður hafi tekið við, verði ekki beint að rekstarfélagi.
Ákvæði 2. mgr. 12. gr. laga nr. 128/2011 þess efnis að rekstrarfélag beri ekki ábyrgð á skuldbindingum einstakra verðbréfasjóða eða deilda þeirra og einvörðungu eignir hvers sjóðs eða deildar standi til fullnustu skuldbindingum hvers þeirra þýðir ekki annað en það að eigendur hlutdeildarskírteina eigi einungis kröfu til hlutdeildar í eignum viðkomandi sjóðs eða deildar sem þeir eru eigendur í en geti ekki gert tilkall til eigna rekstrarfélags eða annarra sjóða eða deilda í rekstri þess. Annað verður ekki lesið út úr ákvæðinu enda virðist þetta vera eina sjálfstæða ábyrgðin sem sjóðurinn ber því að í lokamálslið ákvæðisins er áréttað að það víki ekki til hliðar skaðabótaábyrgð rekstrarfélags vegna saknæmrar háttsemi starfsmanna þess.
Verðbréfasjóður er ekki sjálfstæður lögaðili þrátt fyrir að hafa kennitölu. Verðbréfasjóðir hafa ekki sjálfstæða stjórn og eru hvorki félög né sjálfseignarstofnanir. Ársreikningur verðbréfasjóðs er hluti, að vísu sjálfstæður hluti, en engu að síður hluti af ársreikningi rekstrarfélagsins og það eru stjórn og framkvæmdastjóri rekstrarfélags sem samþykkja hann. Þrátt fyrir að rekstrarfélag beri ekki ábyrgð á skuldbindingum einstakra verðbréfasjóða hafa þeir, þar á meðal Stefnir-ríkisverðbréfasjóður millilangur, ekki það sjálfstæði að lögum að þeim sé ætlað aðildarhæfi. Varnir stefnda sem byggja á því að greiðslan hafi runnið inn á reikning sjóðsins en ekki reikning stefnda geta því ekki haft þýðingu í málinu. Stefnir hf. er því réttur aðili að málinu til varnar.
Stefndi verður því ekki sýknaður af þeim sökum að aðild til sóknar eða varnar sé áfátt. Málið er ekki heldur höfðað á röngum grundvelli.
Vegna yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á Landsbankanum réð eftirlitið starfsmenn endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte tímabundið sem sína eigin starfsmenn. Samkvæmt fram lagðri yfirlýsingu Deloitte, 29. ágúst 2012, vegna uppgjörs á peningamarkaðslánum milli Landsbanka Íslands hf. og Nýja Landsbanka Íslans hf. gaf nýi bankinn út skuldabréf til þess gamla þannig að jafna mætti muninn á milli eigna og skulda sem nýi bankinn tók yfir. Í yfirlýsingunni er tekið fram að þar sem nýi bankinn hafði greitt hluta af peningamarkaðslánunum eftir skiptinguna, 9. október 2008, hafi fjárhæð skuldabréfsins verið lægri sem samsvaraði þeim greiðslum.
Þar sem svona var gengið frá málum við uppgjör milli nýja og gamla bankans verður að líta svo á að fjármunirnir hafi komið frá gamla bankanum. Þar sem gamli bankinn greiddi þannig nýja bankanum það sem sá síðarnefndi hafði greitt verðbréfasjóðnum getur það ekki staðið í vegi riftunar þótt margnefnd greiðsla hafi verið millifærð af reikningum nýja bankans en ekki þess gamla.
Hæstiréttur sló því föstu í máli nr. 441/2011 að jafna mætti stöðu gamla bankans, á tímabilinu frá 7. október 2008 til 22. apríl 2009, við það að hafin væru gjaldþrotaskipti á búi hans að því er varðaði tilkall annarra á grundvelli eignarréttinda til peninga í vörslum hans. Það haggar þó ekki því að frestdagur við slit Landsbanka Íslands hf. var með lögum ákveðinn 15. nóvember 2008. Greiðslan var innt af hendi fyrir þann dag.
Vitað er að starfsmenn Nýja Landsbanka Íslands hf. stóðu í þeirri trú að skuldin hefði færst til þess banka og greiddu lánið þess vegna. Ekkert hefur verið fært fram um það að nýskipuð skilanefnd gamla bankans hafi komið að málinu og þaðan af síður Fjármálaeftirlitið. Riftunarreglur XX. kafla laga nr. 21/1991, sbr. 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, eiga því við um ráðstöfunina.
Gegn því að rifta megi ráðstöfuninni færir stefndi fram þá málsástæðu að gamli bankinn hafi ekki orðið fyrir tjóni vegna greiðslunnar þar sem sú krafa sem sjóðurinn átti á hendur bankanum hafi byggst á innláni og slíkar kröfur njóti forgangs við slit fjármálafyrirtækja. Þar af leiðandi ætti stefndi forgangskröfu í bú stefnanda jafnvel þótt ráðstöfun greiðslu til hans yrði nú rift.
Í máli sem þessu, þar sem slitabú reynir að fá tiltekinni ráðstöfun rift, verður einungis tekin afstaða til þess hvort uppfyllt séu skilyrði riftunarreglna laga um gjaldþrotaskipti. Dómstólar taka ekki afstöðu til forgangsröðunar krafna í slitabú fyrr en kröfu hefur verið lýst í búið og óleysanlegur ágreiningur um stöðu hennar hefur risið milli kröfuhafa og slitastjórnar þannig að slitastjórn sé skylt að vísa þeim ágreiningi til héraðsdóms.
Af þessum sökum verður ekki tekin afstaða til þeirrar málsástæðu stefnda að peningamarkaðslán hans teljist innlán í skilningi 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 6. gr. laga nr. 44/2009, og njóti þar með forgangs við slit stefnanda.
Þegar litið er til þess að fjárhæð skuldabréfsins, sem nýi bankinn gaf út til þess gamla þannig að jafna mætti muninn á milli þeirra eigna og skulda sem nýi bankinn tók yfir, var lægri sem nam þeim peningamarkaðslánum sem nýi bankinn hafði greitt hluta af eftir skiptinguna 9. október 2008 þykir ekki nokkrum vafa undirorpið að gamli bankinn hafi orðið fyrir tjóni við greiðsluna.
Við mat á því hvort kröfuhöfum var mismunað eða ekki þykir nægja að líta til þess að bankinn var ógjaldfær þegar greiðslan var innt af hendi. Þeim eigendum peningamarkaðslána sem og öðrum kröfuhöfum sem jafnvel lögðu fé sitt í bankann á sama tíma og sjóðurinn og þurftu í stað þess að fá kröfu sína greidda að lýsa henni í bú stefndanda var því mismunað með greiðslunni.
Þar sem greiðslan er riftanleg, ráðstöfunin fór fram fyrir frestdag, stefnandi varð fyrir tjóni og jafnræði kröfuhafa var raskað er hafnað þeirri málsástæðu stefnda að almenn skilyrði riftunar séu ekki uppfyllt.
Þegar metið er hvort skilyrði 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. séu uppfyllt þarf að undirstrika að þau eru öll hlutlæg.
Eins og ítrekað hefur komið fram var skarið tekið af um það að skuldin sem hér er deilt um tilheyrði gamla bankanum þegar hún var greidd, 9. október 2008, kl. 16.10. Jafnframt er alkunna að Fjármálaeftirlitið ákvað að morgni sama dags að færa allar eignir Landsbanka Íslands hf. hverju nafni sem þær nefndust til Nýja Landsbankans hf. Þarna á meðal voru fasteignir, lausafé, allt reiðufé gamla bankans svo og samningsbundin afnotaréttindi til fasteigna og lausafjár.
Við mat á skilyrðum riftunar þarf að miða við aðstæður eins og þær voru þegar meint riftanleg ráðstöfun fór fram. Með vísan til ákvörðunarinnar, 9. október 2008, þykir nægjanlega leitt í ljós að gamli bankinn hafði ekki neitt fé til ráðstöfunar þegar greiðslan var innt af hendi og átti ekki neinar eignir sem auðvelt hefði verið að selja á þeim tíma. Hann hafði því ekki getu til að greiða nokkra skuldbindingu. Af þessum sökum þykir sú greiðsla, sem hér er deilt um, hafa verið innt af hendi fyrr en eðlilegt var.
Samkvæmt margtilvitnuðu bréfi Fjármálaeftirlitsins, 21. nóvember 2008, voru peningamarkaðslán frá fjármálafyrirtækjum skilin eftir í gamla bankanum og hann var þegar greiðslan var innt af hendi aura- og eignalaus. Að mati dómsins var því hvorki venjulegt eftir atvikum að lánið væri á þeim tíma yfirhöfuð greitt né að sú greiðsla bærist frá Nýja Landsbanka Íslands hf. enda er ekkert komið fram um það að skilanefnd gamla bankans hafi óskað eftir þessari ráðstöfun nýja bankans. Þar sem regla 134. gr. laga nr. 21/1991 er hlutlæg hafa réttmætar væntingar viðtakanda greiðslunnar ekki neina þýðingu.
Þar sem fallist er á að uppfyllt sé það skilyrði 134. gr. laga nr. 21/1991 að greiðslan hafi verið innt af hendi fyrr er eðlilegt var og jafnframt að hún hafi ekki verið venjuleg eftir atvikum er krafa stefnanda um riftun hennar tekin til greina. Með vísan til 142. gr. sömu laga verður stefnda gert að endurgreiða stefnanda 50.022.569 krónur.
Gegn kröfu stefnanda um endurgreiðslu þess fjár sem Nýi Landsbankinn hf. millifærði til verðbréfasjóðsins teflir stefndi fram sömu rökum og hann studdi þá málsástæðu að hvorki stefnandi né stefndi væru réttir aðilar að málinu, sem sagt þeim að gamli bankinn hefði ekki orðið fyrir neinu tjóni þar sem greiðslan hafi komið frá þeim nýja og stefndi hefði ekki auðgast þar sem greiðslan hafi runnið til verðbréfasjóðsins. Afstaða dómsins til þessara röksemda er áður rakin og leiðir einnig til þess að hafnað er þeirri málsástæðu stefnda að skylda til endurgreiðslu hvíli ekki á honum.
Gegn greiðsluskyldu sinni færir stefndi enn fram þau rök að samningur sjóðsins og gamla bankans um innlánið hafi verið ógildur þar sem til hans hafi verið stofnað á sviksamlegan hátt, sbr. 30. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, hann sé tilkominn vegna óheiðarlegra atvika, sbr. 33. gr. sömu laga, eða að ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju sé að bera hann fyrir sig, sbr. 36. gr. þeirra.
Ógildingarreglum samningalaga er einkum beitt þar sem samningsaðilar njóta ekki jafnrar stöðu. Verðbréfasjóðurinn Stefnir-ríkisverðbréfasjóður millilangur var, 6. október 2008, rekinn af Kaupþingi sem þá var banki. Eins og Landsbanka Íslands hf., tveimur dögum áður, var þeim banka skipuð skilanefnd 9. október 2008. Hafi almennum starfsmönnum hans ekki verið kunnugt um þær aðgerðir stjórnvalda sem í vændum voru verður ekki við það miðað að almennum starfsmönnum Landsbanka Íslands hafi verið þær kunnar. Hvað sem líður vitneskju æðstu stjórnenda bankans um stöðu hans verður að miða við það að ógjaldfærni hans hafi ekki verið staðfest fyrr en með lögum nr. 125/2008 og skipun skilanefndar 7. október á grundvelli þeirra. Að mati dómsins hefur stefndi ekki sýnt fram á að hann hafi verið beittur svikum, að óheiðarlega hafi verið staðið að samningnum á þeim tíma sem hann var gerður né heldur að ósanngjarnt sé að bera hann fyrir sig.
Gegn greiðsluskyldu sinni byggir stefndi í þriðja lagi á því að hann eigi gagnkröfu til skuldajöfnuðar. Hún byggist á því að vegna ógjaldfærni sinnar, 6. október 2008, hafi gamla bankanum borið að gefa bú sitt upp til gjaldþrotaskipta. Engu að síður hafi hann tekið við innláni verðbréfasjóðsins og lýst yfir því að staða sín væri traust. Það hafi því verið saknæm og ólögmæt háttsemi að taka við innláni sjóðsins. Samningurinn sé því ólögmætur og verði ekki efndur verði greiðslunni rift. Þannig verði stefndi fyrir tjóni sem sé bein og sennileg afleiðing ólögmætrar og saknæmrar háttsemi starfsmanna bankans.
Eins og fram er komið er það mat dómsins að ógjaldfærni Landsbanka Íslands hf. hafi ekki verið staðfest fyrr en Fjármálaeftirlitið hafði vikið stjórn hans frá og skipað honum skilanefnd 7. október. Þótt gera verði ráð fyrir að æðstu stjórnendur bankans hafi gert sér grein fyrir í hvað stefndi eftir atburði helgarinnar 4. og 5. október varð að gefa stjórnvöldum ráðrúm til að leggja hinn lagalega grunn að því sem koma skyldi, sem þau og gerðu að kvöldi 6. október.
Samningurinn, sem stefndi telur nú ógildan, var gerður af tveimur fjármálafyrirtækjum. Gera verður ráð fyrir að æðstu stjórnendur Kaupþings hf. hafi rennt grun í hvernig komið væri fyrir Landsbanka Íslands hf. Engu að síður fyrirbuðu þeir starfsmönnum sínum ekki að lána Landsbankanum fé mánudaginn 6. október 2008. Ábyrgðin á því að samningurinn um peningamarkaðslánið var gerður þann dag hvílir því ekki einvörðungu á þeim sem störfuðu hjá Landsbanka Íslands hf. á þeim tíma.
Jafnvel þótt verðbréfasjóðurinn ætti kröfu til skuldajöfnuðar á hendur stefnanda stendur 143. gr. laga nr. 21/1991 því í vegi að honum væri heimilt að skuldajafna henni við kröfu stefnanda um endurgreiðslu.
Stefnandi á ekki rétt á almennum vöxtum af þeirri fjárhæð sem stefnda ber að endurgreiða honum en hún skal bera dráttarvexti frá þeim degi þegar liðinn er mánuður frá því að hann skoraði á stefnda að greiða kröfuna, það er frá 22. september 2011.
Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, hæfilega ákveðinn 900.000 kr.
Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
D Ó M s o r ð
Rift er greiðslu Landsbanka Íslands hf. á peningamarkaðsláni að fjárhæð 400.180.556 krónur til stefnda, Stefnis hf., 9. október 2008.
Stefndi, Stefnir hf., greiði stefnanda, LBI hf., 400.180.556 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 22. september 2011 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 900.000 kr. í málskostnað.