Hæstiréttur íslands

Mál nr. 369/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                                        

Fimmtudaginn 10. júní 2010.

Nr. 369/2010.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Óli Ásgeir Hermannsson fulltrúi)

gegn

X

(Stefán Karl Kristjánsson hdl.) 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. júní 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 8. júní 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi „allt til þriðjudagsins 7. júlí 2010 klukkan 16.“ Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 7. júlí 2010 klukkan 16.

                                                             

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 8. júní 2010.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur með kröfu dagsettri í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kt. [...], dvalarstaður [...], [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 7. júlí 2010, kl. 16.00.

Kærði hefur mótmælt gæsluvarðhaldskröfunni og krafist þess að henni verði hafnað, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími en krafist er.

Í greinargerð lögreglustjóra segir að þann 3. maí um kl. 22:03 hafi lögreglu borist tilkynning um yfirstandandi líkamsárás á [...], [...]. Þegar lögregla kom á vettvang hafi verið þar fyrir árásarþolar, A, kt. [...], B, kt. [...] og C, kt. [...]. Árásarþolar sögðu á vettvangi við lögreglu að þau hefðu þá rétt áður verið nýbúin að setja barn C í barnabílstól í bifreið sem var fyrir utan [...]. Þá hafi tveir aðilar komið að þeim og verið ógnandi,  ráðist á A, sparkað í kvið hans og andlit. B sagði að annar aðilinn hefði dregið upp hníf og otað að A. B hafi reynt að verja A og fengið spörk í sig  og kenndi hún sér meins. Ráðist hafi einnig verið á C og sparkað í líkama hennar er hún lá í jörðinni. Þegar aðilarnir hafi síðan farið hafi þeir hótað árásarþolum um að koma aftur.

Kl. 23:25 hafi kærði og Y verið handteknir við [...] í [...]. Við öryggisleit á Y hafi fundist innanklæða öxi og hamar og við öryggisleit á honum í fangaklefa hafi síðan fundist hnífur í buxnastreng. Blóðblettir hafi fundist á fötum kærða og Y.

A hafi verið fluttur á Landspítala háskólasjúkrahús vegna alvarleika áverka sinna.

Tekinn hafi verið framburður af öllum árásarþolum og hafi þau öll borið að rétt eftir að C var búin að festa 6 vikna gamalt barn sitt í sæti bifreiðar fyrir utan [...] hafi komið að þeim 2 karlmenn, kærði og Y. Hafi þeir spurt um D barnabarn A og B, viljað fá símanúmer hans og sagt þeim að D skuldaði þeim peninga. Þegar að kærða og Y  hafi verið ljóst að D var ekki á [...] hafi þeir ráðist á árásarþola. Hafi þeir báðir kýlt A í andlit hans og hann dottið á jörðina og hafi þá kærði ásamt Y sparkað í höfuð hans og búk. C og B hafi reynt að koma A til hjálpar og hafi kærði og Y þá ráðist á C. Hafi þeir kýlt hana með krepptum hnefa í andlitið þannig að hún féll á jörðina. Þeir hafi þá sparkað í höfuð og kvið hennar. Þegar A hafi síðan náð að standa upp hafi kærði og Y ráðist aftur að honum, slegið hann í jörðina og sparkað í andlit hans og kvið. Öll hafi árásarþolarnir vitnað um að kærðu hefðu verið með hníf við árásina og hótað að beita honum þannig að árásarþolar gátu óttast um líf sitt.

Rannsókn máls þessa sé lokið og verði málið sent til ríkissaksóknara í dag þann 8. júní.    Telji lögregla að hin ætlaða háttsemi kærða kunni að varða einkum við ákvæði 2. mgr. 218. gr., 233. gr. og  251. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Y hafi verið yfirheyrður af lögreglu þann 7. maí og hafi hann viðurkennt að hafa farið að [...] til að ná sér í pening og slegið A einu höggi en að kærði hefði ráðist á A.

Kærði var yfirheyrður af lögreglu þann 7. maí og neitaði hann að tjá sig um atburði þessa kvölds.

Að mati lögreglu sé fram kominn sterkur grunur um að kærði hafi í félagi við Y framið verknað sem varði fangelsi allt að 16 árum. Um sé að ræða mjög alvarlegt brot, unnið í félagi við meðkærða, og sé brotið þess eðlis að mönnum hafi mátt vera ljóst  að brotið hefði í för með sér bersýnilega hættu fyrir ætlaða  þolendur, þá hafi mönnum mátt vera ljóst að bersýnilegur lífsháski var búinn af verkinu.

Telji lögreglustjóri brotið vera í eðli sínu svo svívirðilegt að áframhaldandi gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.

Athygli sé vakin á sakaferli kærða og sérstök athygli vakin á því að fyrir Hæstarétti muni mál nr. 27/2010: Ákæruvaldið gegn kærða og Y, verða flutt þann 15. júní nk. og sé dóms að vænta í því máli innan skamms.

Með vísan til alls framangreinds, 2.  mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 2. mgr. 218., 233. gr. og 251. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 telji lögreglustjóri brýna almannahagsmuni standa til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 7. júlí 2010 kl. 16.00.

Samkvæmt rannsóknargögnum málsins, framansögðu og með vísan til dóms Hæstaréttar Íslands 14. maí sl. í máli nr. 297/2010, er fallist á með lögreglustjóra að sterkur grunur sé um að kærði hafi gerst sekur um brot sem varðað geti 10 ára fangelsi og telja verði gæsluvarðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Samkvæmt framanskráðu, er krafa lögreglustjóra tekin til greina og er kærða gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 7. júlí nk. kl. 16.00.

Úrskurð þennan kveður upp Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 7. júlí 2010, kl. 16.00.