Hæstiréttur íslands
Mál nr. 276/1998
Lykilorð
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Íþrótt
- Loforð
|
|
Fimmtudaginn 11. febrúar 1999. |
|
Nr. 276/1998. |
Klemenz Jónsson (Helgi Jóhannesson hrl.) gegn Ólafsfjarðarbæ (Hákon Árnason hrl.) |
Skaðabætur. Líkamstjón. Íþróttir. Loforð.
K varð fyrir slysi í íþróttahúsi Ó þegar hann rann til í knattleik og fótur hans lenti undir brún hlífðarplötu sem hékk á rimlum salarins 10-15 cm frá gólfi. Átti platan að nema við gólf og einfalt og auðvelt var að færa hana til. K krafði Ó um bætur fyrir miska og varanlega örorku. Talið var að þar sem K hefði ásamt fleirum tekið húsið á leigu til íþróttaiðkana á eigin vegum hafi honum og félögum hans borið að gæta þess að útbúnaður væri í réttu horfi og var ekki talið að sýnt hefði verið fram á að skylda til aðgæslu hafi hvílt á starfsmönnum Ó. Var Ó ekki talinn bera bótaábyrgð á slysi K. Ekki var talið að bréf frá bæjarstjóra Ó til tryggingafélagsins V, þar sem fram kom það álit að ófullnægjandi frágangur í íþróttasal hefði verið ástæða þess að K slasaðist, eða önnur gögn málsins, fælu í sér yfirlýsingu sem skuldbundið gæti Ó til greiðslu skaðabóta.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Haraldur Henrysson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. júlí 1998 og krefst þess að stefndi greiði sér skaðabætur að fjárhæð 3.687.258 krónur með 2% ársvöxtum frá 10. desember 1993 til 3. ágúst 1996, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti og sérstaklega, að gjafsóknarþóknun verði hækkuð frá því sem í héraðsdómi greinir.
Stefndi krefst þess aðallega, að héraðsdómur verði staðfestur og áfrýjandi greiði sér málskostnað fyrir Hæstarétti, en til vara að sök verði skipt í málinu, kröfur áfrýjanda lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Áfrýjandi hefur stefnt Vátryggingafélagi Íslands hf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti.
Ágreiningslaust er að slys áfrýjanda varð af því að hann rann til í knattleik og fótur hans lenti undir brún hlífðarplötu úr krossvið, sem hékk á rimlum íþróttahússins 10 til 15 cm frá gólfi. Plata þessi, sem nefnd er batti í málinu, hefði að réttu lagi átt að hanga þannig á rimlunum að hún næmi við gólf þegar áfrýjandi og félagar hans voru í leiknum til þess að auðvelda leikinn og koma í veg fyrir slys. Er í ljós leitt að einfalt og auðvelt var að færa plötuna til.
Áfrýjandi styður kröfur sínar meðal annars við það, að stefndi hafi viðurkennt skaðabótaskyldu sína vegna slyss þessa. Svo sem greinir í héraðsdómi skrifaði bæjarstjóri bréf til réttargæslustefnda 3. febrúar 1995, þar sem fram kemur sú skoðun bréfritara að ófullnægjandi frágangur í íþróttasal hafi verið ástæða þess að áfrýjandi slasaðist 10. desember 1993. Jafnframt er í bréfinu fullyrðing um álit bæjarstjórnar um bótaskyldu vegna slyssins, eins og orðrétt er rakið í héraðsdómi. Fyrir héraðsdómi var bæjarstjórinn spurður um efni bréfsins og afstöðu bæjarstjórnar til bótakröfu áfrýjanda, en skýr svör fengust ekki. Hvorki er að finna í bréfi þessu né öðrum gögnum málsins yfirlýsingu, sem skuldbundið gæti stefnda til greiðslu skaðabóta.
Samkvæmt framansögðu er fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að stefndi verði ekki dæmdur til að greiða bætur á grundvelli þess að hann hafi viðurkennt bótaskyldu sína. Að þessu athuguðu verður héraðsdómur staðfestur með vísan til forsendna hans að öðru leyti.
Eftir atvikum er rétt að hvor aðila beri sinn málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 3. apríl 1998.
Ár 1998, föstudaginn 3. apríl, er af Frey Ófeigssyni, dómstjóra kveðinn upp svofelldur dómur
í máli nr. E-199/1997: Klemenz Jónsson gegn Ólafsfjarðarbæ, Skíðadeild Leifturs og Vátryggingafélagi Íslands h.f. til réttargæslu.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 6. mars s.l., að undangengnum munnlegum málflutningi, hefur Klemenz Jónsson, kt. 100468-3879, Furugerði 9, Reykjavík, höfðað hér fyrir dómi, á hendur Ólafsfjarðarbæ, kt. 490269-2079, Ólafsvegi 4, Ólafsfirði, og Skíðadeild Leifturs, kt. 491195-2079, Kirkjuvegi 4, Ólafsfirði, in solidum til greiðslu skaðabóta auk vaxta, og Vátryggingafélagi Íslands h.f., kt. 690689-2009, til réttargæslu. Málið er höfðað gegn öllum stefndu hinn 30. maí 1997, gegn stefnda Ólafsfjarðarbæ og réttargæslustefnda með áritun lögmanns samkvæmt b-lið 3. mgr. 83. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en með birtingu stefnu á hendur stefndu Skíðadeild Leifturs.
Stefnandi krefst þess að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða stefnanda skaðabætur, aðallega að fjárhæð kr. 4.406.763, en til vara að fjárhæð kr. 3.687.975, í báðum tilvikum með 2% vöxtum frá 10. desember 1993 til 3. ágúst 1996, en með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga frá þ.d. til greiðsludags. Þá er þess krafist að stefndu verði dæmd til greiðslu málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál og að við ákvörðun hans verði tekið mið af því að stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur. Þá er gerð krafa um að áfallnir dráttarvextir leggist við höfuðstól kröfunnar á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 3. ágúst 1997.
Stefndu krefjast þess aðallega að verða sýknuð af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hans hendi að mati dómsins, en til vara að sök verði skipt í málinu, stefnukröfur lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefnda og það gerir engar kröfur af sinni hálfu.
Málsatvik eru þau að þann 10. desember 1993, um kl. 19:00, var stefnandi í knattleik nefndum „bandí“, ásamt nokkrum félögum sínum, í íþróttasal barnaskóla Ólafsfjarðar. Höfðu þeir félagar leigt salinn af stefndu Skíðadeild Leifturs til leiks í eina klukkustund, en hún hafði salinn til afnota og ráðstöfunar eftir kl. 18:00 á daginn samkvæmt samningi við stefnda Ólafsfjarðarbæ. Í þessum leik er lítill knöttur sleginn með kylfum, og leika tvö lið, sitt að hvoru marki. Undir lok tímans var stefnandi á hlaupum eftir gólfi íþróttahússins, er hann rann með vinstri fót undir hlífðarplötu, svokallaðan „batta“, framan við íþróttarimlana á veggnum og hlaut við það nokkur meiðsli á fætinum af skörpu horni eða brún plötunnar. Var neðri brún plötunnar eða battans um 10-15 sm frá gólfi þegar óhappið varð.
Meiðsli þau er stefnandi hlaut reyndust meiri en upphaflega var haldið og þurfti hann að gangast undir nokkrar læknisaðgerðir, allt fram á árið 1995
Hinn 11. maí 1996 mat örorkunefnd varanlega örorku stefnanda og miskastig að beiðni hans. Segir í niðurstöðu nefndarinnar að eftir standi varanleg skemmd á vinstri ökkla stefnanda, sem valdi annars vegar þreytuverkjum, sársauka og öðrum óþægindum, en einnig því sem alvarlegra sé, skerðingu á jafnvægistilfinningu og jafnvægisskyni ökklaliðarins, þannig að stefnandi sé nú mjög óöruggur á ósléttu eða hálu undirlagi. Telur örorkunefnd að eftir 1. mars 1995 hafi ekki verið að vænta frekari bata af afleiðingum slyssins. Metur hún varanlegan miska stefnanda 12% og varanlega örorku 15%.
Stefnandi hefur höfðað mál þetta til heimtu bóta vegna þess tjóns er hann telur sig hafa orðið fyrir af framangreindu slysi. Hann kveðst byggja kröfur sínar á hendur báðum stefndu á því, að umbúnaður íþróttahússins hafi verið óforsvaranlegur með tilliti til þeirrar starfsemi sem rekin hafi verið í því. Sérstaklega kveðst hann benda á að battar þeir, sem settir hafi verið upp í íþróttahúsinu fyrir tilstilli stefnda Ólafsfjarðarbæjar, hafi verið stórhættulegir og haft í för með sér verulega slysahættu fyrir þá sem íþróttir hafi stundað í húsinu og hafi stefndu mátt vera það ljóst að búnaður þessi hafi verið ófullkominn og óforsvaranlegur. Vegna þessa hafi hvílt á stefndu rík aðgæslu- og leiðbeiningarskylda og að þessu hafi þau ekki gætt í greint sinn, þar sem einn battanna hafi verið u.þ.b. 12 sm frá gólfi salarins.
Ábyrgð stefnda Ólafsfjarðarbæjar byggir stefnandi á því, að þar sem hann hafi átt og rekið íþróttahúsið beri hann ábyrgð á vanbúnaði og ófullnægjandi frágangi battanna. Stefndi hafi með uppsetningu battanna breytt innréttingum íþróttahússins og verði ekki séð að þessar breytingar hafi verið teknar út og samþykktar í samræmi við fyrirmæli laga. Hafi honum mátt vera kunnugt um vanbúnað íþróttahússins að þessu leyti, en vanrækt að gera viðhlítandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir hættu. Gera verði ríkar kröfur um aðgæslu til þeirra sem reki íþróttahús og beri þeim í því sambandi að gæta þess sérstaklega að allur umbúnaður innanhúss sé traustur og án slysahættu. Hafi stefnda mátt vera það ljóst að gerð battanna og frágangur hafi verið hættulegur, sérstaklega vegna þess hvernig festingum þeirra hafi verið háttað, enda hefði slysið ekki orðið ef festingarnar hefðu verið þannig að þeir hefðu aðeins annað hvort getað numið þéttingsfast við gólfið, eða verið í það mikilli hæð að slysahætta stafaði ekki af þeim. Sökum þessa hafi hvílt á stefnda rík aðgæslu- og leiðbeiningarskylda gagnvart umsjónarmönnum hússins, hvort sem það hafi verið starfsmenn stefnda sjálfs eða leigutakar, að þess væri gætt að battarnir væru rétt staðsettir áður en starfsemi í íþróttahúsinu hæfist. Komið hafi fram í lögregluskýrslum, sem teknar hafi verið vegna slyssins, að það hafi verið í verkahring húsvarðar að gæta að því að battarnir næmu við gólf íþróttahússins, áður en kennsla í húsinu hæfist eða það væri afhent leigutaka, meðstefndu, til útleigu á kvöldin. Upplýst sé í málinu að svo hafi ekki verið þegar slysið varð. Telur stefnandi ljóst að um vanrækslu starfsmanna, sem stefndi beri ábyrgð á, hafi verið að ræða í greint sinn.
Samkvæmt ofangreindu beri stefndi bótaábyrgð á grundvelli almennu skaðabótareglunnar, reglna um húsbóndaábyrgð og sjónarmiða um víðtæka ábyrgð eigenda og umráðamanna fasteigna. Orsakatengsl séu á milli vanbúnaðar og skeytingarleysis stefnda og þess tjóns er stefnandi hafi orðið fyrir í greint sinn. Þá kveðst stefnandi byggja kröfur sínar á hendur stefnda öðrum þræði á því, að hann hafi, í bréfi dagsettu 3. febrúar 1995, viðurkennt bótaskyldu sína gagnvart stefnanda. Beri stefnda samkvæmt því að bæta tjón stefnanda að fullu.
Kröfur sínar á hendur stefndu Skíðadeild Leifturs kveðst stefnandi byggja á því, að hún hafi, samkvæmt samningi við meðstefnda, séð um útleigu á sal íþróttahúss barnaskóla Ólafsfjarðarbæjar. Útleigan hafi verið með þeim hætti að einstaklingar eða hópar hafi getað leigt salinn eftir kl. 18:00 á kvöldin. Fyrir það hafi viðkomandi greitt stefndu gjald, sem miðað hafi verið við einn klukkutíma í senn. Hafi stefndu borið að ganga úr skugga um að íþróttasalurinn væri reiðubúinn til notkunar og án slysahættu, áður en útleiga hæfist í hvert sinn og sérstaklega að gæta þess að battarnir væru rétt staðsettir. Kveðst stefnandi byggja á því að forráðamenn stefndu, eða menn sem þeir beri ábyrgð á lögum samkvæmt, hafi vanrækt þessa skyldu sína og á þeirri vanrækslu beri stefnda ábyrgð samkvæmt almennu skaðabótareglunni, reglum um húsbóndaábyrgð og sjónarmiðum um víðtæka ábyrgð eigenda og umráðamanna fasteigna.
Stefndi Ólafsfjarðarbær kveðst byggja sýknukröfu sína á því að hann beri ekki skaðabótaábyrgð að lögum á óhappi stefnanda og tjóni hans er af því hafi leitt. Fari um bótaábyrgð eftir sakarreglunni. Sé það ekki rétt að stefndi hafi í bréfi 3. febrúar 1995 viðurkennt skaðabótaskyldu gagnvart stefnanda. Sé bréf þetta stílað og sent til réttargæslustefnda en ekki stefnanda og í því aðeins verið að tjá réttargæslustefnda þá skoðun eða álit bæjarstjórnar stefnda að hann telji stefnda bótaskyldan gagnvart stefnanda, en ekki verið með því að tilkynna stefnanda eða viðurkenna við hann skaðabótaskyldu stefnda. Felist því engin bindandi viðurkenning gagnvart stefnanda á skaðabótaskyldu í bréfinu og verði bótaábyrgð stefnda því ekki á bréfinu byggð.
Stefndi telur það ekki vera rétt að battarnir í íþróttasal skólans hafi verið hættulegir. Hafi hér verið um að ræða sléttar plötur með venjulega frágengnum brúnum og hornum, sem í sjálfu sér séu ekkert hættulegri en brúnir og horn á venjulegum hurðum, dyrakörmum, gluggakistum eða borðplötum og ekkert frábrugðin því sem tíðkast hafi annars staðar. Sama hafi gilt um fyrirkomulag festinga. Hafi því enginn vanbúnaður á böttunum verið til staðar. Uppsetning þeirra til hlífðar framan við rimlana hafi verið eðlileg varúðarráðstöfun af hálfu stefnda og verði bótaábyrgð hans ekki byggð á því að íþróttasalurinn eða búnaðurinn þar hafi verið háskalegur eða óforsvaranlegur. Ekki hafi hvílt á stefnda eða starfsmönnum hans nein skylda til að setja battana niður að gólfi áður en skíðadeildin hafi fengið íþróttasalinn til ráðstöfunar eftir skóla á daginn, eða notendahópar eftir skólatíma. Hafi engar fastar reglur gilt um niðurfærslu batta í íþróttasalnum áður en nýr notendahópur hafi tekið við honum. Hafi notendur salarins fært battana til eftir þörfum eftir því hvaða íþrótt hafi verið stunduð í salnum hverju sinni og hver hópur tekið við böttunum í þeirri stöðu sem næsti hópur á undan hefði skilið við þá. Telur stefndi það misskilning að það hafi verið í verkahring húsvarðar skólans að setja battana niður. Ef aðrir en notendur sjálfir hafi átt að gera það, hafi það staðið meðstefndu næst, sem annast hafi eftirlit og þrif í salnum þegar hún hafi haft salinn til afnota eftir kl. 18:00 á daginn. Samkvæmt samningi stefnda og meðstefndu hafi einnig verið svo fyrir mælt að hver hópur sem keypti tíma hjá meðstefndu skyldi tilnefna ábyrgðarmann, sem sæi um að farið væri eftir settum reglum og kæmi kvörtunum á framfæri. Hafi stefnda ekki borist kvartanir út af frágangi eða staðsetningu battanna áður en óhappið hafi orðið. Verði að framangreindu virtu ekki lögð bótaábyrgð á stefnda fyrir að hafa vanrækt að færa battana að gólfi þegar stefnandi hafi meiðst. Ekki hafi heldur hvílt á stefnda nein leiðbeiningarskylda gagnvart stefnanda eða meðstefndu um það að þess yrði gætt að battarnir væru rétt staðsettir áður en starfsemi í íþróttahúsinu hæfist. Hafi battarnir og staðsetning þeirra á rimlunum blasað við augum og mátt vera öllum ljós sem í íþróttasalinn kæmu, stefnanda og félögum hans sem öðrum. Leiðbeiningar af hálfu stefnda um staðsetningu þeirra hafi því verið óþarfar, en ef einhver skylda í því efni hafi verið til staðar, hafi hún hvílt á meðstefndu, sem hafi haft íþróttasalinn til ráðstöfunar og eftirlit með honum þegar stefnandi hafi orðið fyrir óhappinu. Stefnandi og félagar hafi ekki verið óvita börn. Stefnandi hafi verið 25 ára að aldri og húsasmiður að mennt og starfi, auk þess að vera skíðaþjálfari. Hafi honum og félögum hans átt að vera ljóst, að battinn sem stefnandi rann undir næmi ekki við gólf, enda hafi það blasað við. Stefnandi og félagar hans hafi hins vegar kosið að leika bandí í salnum án þess að færa þá batta niður að gólfi sem ofar voru í rimlunum og hafi því tekið á sig áhættuna af því. Hafi þeim verið í lófa lagið að færa battana niður á gólf í upphafi leiks. Eigi stefnandi þannig ekki við aðra að sakast en sjálfan sig og félaga sína um stöðu battans, sem hann meiddi sig á.
Varakröfu sína byggir stefndi Ólafsfjarðarbær á því að tjón stefnanda megi að stærstum hluta rekja til eigin sakar hans sjálfs og óhappatilviljunar. Hafi verið gálaust af stefnanda og félögum að færa ekki battann að gólfi þegar þeir byrjuðu leikinn og óhappatilviljun að stefnandi rann undir battann og að langvarandi sýking komst í aðgerðarsárið, en til þess megi rekja stærstan hluta örorku stefnanda. Verði stefnandi því í öllu falli að bera stærstan hluta tjónsins sjálfur. Þá beri að stórlækka stefnukröfur, en um bótafjárhæð fari eftir skaðabótalögum nr. 50/1993.
Stefnda Skíðadeild Leifturs rökstyður sýknukröfu sína með því að hún eigi ekki sök á tjóni stefnanda og eigi ekki að svara bótum fyrir það. Íþróttahús barnaskóla Ólafsfjarðar sé í eigu meðstefnda, sem og allur búnaður þar og frágangur húsnæðisins sé allur á ábyrgð eiganda þess. Íþróttasalurinn sé leigður að loknum skóladegi í þágu meðstefnda, sem greiði stefndu úr bæjarsjóði sem leigunni nemi. Þannig hafi stefnda ekki verið eiginlegur leigusali, þótt hún hefði umsjón með ráðstöfun salarins á umræddum tíma. Hlutverk hennar hafi einungis verið að bóka í salinn, innheimta leigugjald og loka íþróttahúsinu á kvöldin eftir að útleigu lokinni. Þá hafi íþróttasalurinn og/eða búnaður hans ekki verið háskalegur eða óforsvaranlegur. Ekki hafi hvílt skylda á stefndu eða starfsmönnum hennar að setja niður battana, heldur hafi notendur sjálfir átt að gera það, en ella hafi það staðið nær meðstefnda, fasteignareigandanum, sem hafi haft veg og vanda af frágangi íþróttasalarins, að setja reglur um framkvæmd þessa. Það sé hins vegar mat starfsmanns meðstefnda, húsvarðar barnaskólans, að það hafi verið í hans verkahring sem umsjónarmanns íþróttahússins að koma böttunum fyrir.
Stefnandi, sem sé húsasmiður að mennt, hafi verið 25 ára að aldri þegar óhappið hafi orðið og jafnframt starfað sem skíðaþjálfari. Hefði hann átt að gera sér ljósa grein fyrir aðstæðum í íþróttasalnum þegar óhappið hafi orðið, enda hafi blasað við honum og félögum hans að battinn nam ekki við gólf og hafi stefnandi og félagar hans þar með tekið á sig fulla áhættu af hugsanlegum afleiðingum þess og stefnandi þar með af óhappi sínu.
Varakröfu sína byggir stefnda á sömu málsástæðum og lagarökum og meðstefndi.
Við meðferð málsins gáfu stefnandi og Hálfdán Kristjánsson, bæjarstjóri stefnda Ólafsfjarðarbæjar, skýrslur fyrir dómi. Einnig gáfu skýrslur vitnin Valdimar Brynjólfsson og Björn Þór Ólafsson.
Við munnlegan flutning málsins gerði lögmaður stefndu Skíðadeildar Leifturs athugasemdir varðandi aðildarhæfi hennar. Lögmaður stefnanda mótmælti þeim sem of seint fram komnum og vísaði einnig til þess að stefnda hefði eigin kennitölu og væri skráð í fyrirtækjaskrá og yrði ekki annað séð en að hún hefði sjálfstæðan fjárhag og gæti tekið á sig fjárhagslegar skuldbindingar.
Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 hafa dómstólar vald til að dæma mál allra þeirra sem geta verið aðilar, nema undantekningar séu gerðar í lögum eða samkvæmt þjóðarétti. Verður dómurinn að gæta þess sjálfkrafa að þeir sem gera kröfur fyrir dómi eða mál beinast að, geti verið aðilar að lögum og verður ekki undan þeirri aðgæsluskyldu vikist með vísan til þess að athugasemdir sem lúta að aðildarhæfi séu of seint fram komnar undir meðferð máls.
Samkvæmt nefndri 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 getur aðili dómsmáls hver sá verið, einstaklingur, félag eða stofnun, sem getur átt réttindi eða borið skyldur að landslögum. Samkvæmt nafni sínu er stefnda Skíðadeild Leifturs deild í Leiftri, sem er íþróttafélag á Ólafsfirði. Ekki verður litið svo á með réttu að jafna megi deild í félagi til félags í skilningi 1. mgr. 16. gr., ef lög kveða ekki á um annað, og skiptir þá ekki máli þótt skipulag félags sé með þeim hætti að einstökum deildum þess sé falið að starfa sjálfstætt að tilteknum verkefnum eða á tilteknu sviði og að Hagstofa Íslands hafi af einhverjum ástæðum talið rétt að taka slíka félagsdeild á fyrirtækjaskrá, skv. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 62/1969. Af þessum sökum þykir Skíðadeild Leifturs ekki geta verið aðildarhæf í skilningi 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, en af því leiðir að vísa verður kröfum stefnanda á hendur henni sjálfkrafa frá dómi.
Hinn 3. febrúar 1995 ritaði bæjarstjóri stefnda Ólafsfjarðarbæjar bréf til réttargæslustefnda þar sem hann kveðst geta fullyrt að bæjarstjórn telji að „ við séum bótaskyld vegna þessa slyss sem KJ varð fyrir 10. desember 1993 og ennfremur að bæjarfélagið hafi keypt hjá yður svonefnda frjálsa ábyrgðartryggingu til að tryggja sig fyrir skakkaföllum eins og þessum og því sé komið að félaginu að greiða bætur sem samkomulag náist um.“ Bæjarstjórinn kynnti stefnanda efni þessa bréfs og er ljósrit þess lagt fram af stefnanda.
Í skýrslu sinni hér fyrir dómi tók sami bæjarstjóri fram, að bæjarstjórn stefnda teldi stefnda bótaskyldan vegna tjóns stefnanda, en gat hins vegar ekki útskýrt nánar á hverju bótaskylda stefnda væri talin reist.
Ofangreint bréf ritaði stefndi til réttargæslustefnda og sendi því, og þykir stefnandi ekki geta byggt bótakröfu sína á efni þess þótt það væri kynnt honum, þar sem því þykir ekki verða jafnað til skuldbindandi yfirlýsingar gagnvart stefnda. Yfirlýsingu bæjarstjórans fyrir dómi, þykir ekki heldur unnt að meta sem bindandi málflutningsyfirlýsingu af hálfu stefnda, sérstaklega með tilliti til þess að hún þykir ekki gefin af nægilegri þekkingu eða skilningi, sbr. 1. mgr. 50. gr. laga nr. 91/1991. Með þetta í huga þykir stefndi Ólafsfjarðarbær ekki verða dæmdur til að greiða stefnanda bætur fyrir tjón sitt á grundvelli þess að hann hafi þegar viðurkennt bótaskyldu sína.
Ekki mun hafa farið fram skoðun á böttunum og umbúnaði þeirra í tilefni af slysinu. Lögreglurannsókn fór fram á tildrögum þess, með þeim hætti að stefnandi gaf skýrslu fyrir lögreglu þann 1. febrúar 1994 og að ósk réttargæslustefnda voru síðar teknar skýrslur af formanni Skíðadeildar Leifturs, húsverði, hreingerningamanni og mönnum sem voru með stefnanda, er hann slasaðist. Lögreglan tók myndir í íþróttasalnum í apríl 1994 og liggja þær frammi í málinu. Samkvæmt þeim og því sem fram hefur komið í skýrslum aðila og vitna, voru battarnir úr hörðum krossviði, 12 mm þykkum. Aftan á þeim voru festingar eða krókar úr flatjárni sem var smokrað upp á rimlana í íþróttahúsinu, er battarnir voru settir upp. Horn battanna munu ekki hafa verið rúnnuð. Samkvæmt framburði stefnanda gátu þeir gengið til á rimlunum þannig að bil myndaðist milli þeirra og taldi hann slíkt bil hafa verið milli þeirra er hann slasaði sig.
Samkvæmt framburði vitnisins Björns Þórs Ólafssonar, íþróttakennara, átti hann þátt í því á sínum tíma að battarnir yrðu smíðaðir, til að unnt væri að leika innanhússknattspyrnu og aðra boltaleiki, þ.á.m. bandí, í íþróttahúsinu, án þess að boltinn færi undir rimlana og festist þar og einnig til að draga úr slysahættu af rimlunum. Sagðist hann oft hafa fært battana ofar í rimlana til að unnt væri að skúra á bak við þá, en annars hefðu þeir átt að vera niðri ef þeir væru notaðir á annað borð, en allur gangur hefði verið á því hver færði þá niður hverju sinni eftir að þeir hefðu verið færðir upp. Sagði hann battana hafa verið notaða í nokkuð mörg ár áður en slysið varð.
Battar þessir voru einfaldir að gerð og verður ekki fallist á það með stefnanda að þeir hafi verið stórhættulegir og haft í för með sér verulega slysahættu fyrir þá sem stunduðu íþróttir í húsinu. Þykir ekki sýnt að þeir hafi getað verið hættulegir í sjálfu sér eða að af þeim gæti stafað hætta ef þeir voru rétt settir upp, en uppsetning þeirra virðist hafa verið einföld. Líta ber svo á, og fær það stoð í framburði Valdimars Brynjólfssonar, framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Eyjafjarðar, að battarnir hafi ekki verið hluti af fasteigninni sjálfri, eða varanlegar breytingar á búnaði salarins, heldur laus búnaður, samsvarandi alls konar algengum búnaði sem notaður er í íþróttahúsum og íþróttaiðkun tilheyrir. Stóð það næst þjálfara, íþróttakennara, eða öðrum slíkum, sem hafði umsjón með íþróttaiðkunum í húsinu hverju sinni, að gæta þess að útbúnaður væri í réttu horfi með tilliti til þeirrar íþróttar sem leika átti, þ.m.t. að battarnir væru fjarlægðir, ef nota átti rimla á vegg, en gæta þess að þeir væru í réttri stöðu niðri við gólf ef iðka átti boltaleiki, svo sem innanhússknattspyrnu eða bandí.
Stefnandi tók ásamt fleirum húsið á leigu til íþróttaiðkana þar á eigin vegum. Bar honum því sjálfum og félögum hans að gæta þess að útbúnaður til þeirra, svo sem battarnir, væri í réttu horfi, og hefur ekki verið sýnt fram á að skylda til þeirrar aðgæslu hafi hvílt eða átt að hvíla á starfsmönnum stefnda. Í skýrslu húsvarðar fyrir lögreglu, taldi hann það hljóta að hafa verið í sínum verkahring að ganga frá böttunum, en ekki verður séð af skýrslunni á hverju þessi skoðun hans er reist, og hún fær ekki stoð í öðrum gögnum málsins. Húsvörðurinn kom ekki fyrir dóm við meðferð málsins. Þykir eftir þessu ekki verða á þessari skoðun hans byggt einni saman.
Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið verður ekki á það fallist að stefndi Ólafsfjarðarbær beri bótaábyrgð á slysi stefnanda samkvæmt almennu skaðabótareglunni eða reglum um húsbóndaábyrgð og sjónarmiðum um víðtæka ábyrgð eigenda og umráðamanna fasteigna. Verður hann eftir þessu sýknaður af dómkröfum stefnanda í máli þessu, en eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Stefnandi hefur gjafsókn í málinu samkvæmt bréfi dómsmálaráðuneytisins frá 9. desember 1996 og greiðist gjafsóknarkostnaður úr ríkissjóði samkvæmt skilmálum bréfsins. Samkvæmt yfirliti, sem lögmaður stefnanda, Ólafur Haraldsson hdl., hefur lagt fyrir dóminn, nemur útlagður kostnaður hans kr. 11.105. Þóknun hans þykir hæfilega ákveðin kr. 300.000, og er virðisaukaskattur þar með talinn.
Dóm þennan kveður upp Freyr Ófeigsson, dómstjóri.
Dómsorð:
Dómkröfum stefnanda, Klemenzar Jónssonar, í máli þessu, á hendur stefndu, Skíðadeild Leifturs, er vísað sjálfkrafa frá dómi.
Stefndi, Ólafsfjarðarkaupstaður, á að vera sýkn af kröfum stefnanda í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, kr. 311.105, greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t þóknun lögmanns hans, Ólafs Haraldssonar hdl., kr. 300.000.