Hæstiréttur íslands

Mál nr. 630/2008


Lykilorð

  • Brot gegn valdstjórninni
  • Þjófnaður
  • Nytjastuldur
  • Umferðarlagabrot
  • Tilraun
  • Fjársvik
  • Eignaspjöll
  • Ávana- og fíkniefni
  • Gæsluvarðhald


Miðvikudaginn 6

 

Miðvikudaginn 6. maí 2009.

Nr. 630/2008.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir, settur saksóknari)

gegn

Má Ívari Henryssyni

(Kristján Stefánsson hrl.)

 

Brot gegn valdstjórninni. Þjófnaður. Nytjastuldur. Umferðarlagabrot. Tilraun til fjársvika. Eignaspjöll. Ávana- og fíkniefni. Gæsluvarðhald.

 

X var dæmdur fyrir fjölmörg brot gegn ákvæðum almennra hegningarlaga nr. 19/1940, umferðarlaga nr. 50/1987 og laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Brotin stóðu yfir í langan tíma og voru misalvarleg. Var refsing hans ákveðin fangelsi í 3 ár en til frádráttar refsingunni kom gæsluvarðhald sem X hafði setið í.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 14. nóvember 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu ákærða en þyngingar á refsingu og staðfestingar á ökuréttarsviptingu og upptöku fíkniefna.

Ákærði krefst nú aðallega sýknu af þeirri háttsemi sem lýst er í ákæru ríkissaksóknara 22. september 2008 og I., II., V., VII., VIII. og X. kafla ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu sama dag. Jafnframt krefst hann sýknu af sakargiftum samkvæmt ákæru 1. október 2008. Ákærði krefst þess að honum verði ekki gerð frekari refsing, en til vara að refsing hans verði milduð og höfð skilorðsbundin, en gæsluvarðhald frá 6. ágúst 2008 dragist frá komi hún til framkvæmda. Þá krefst ákærði þess að ökuréttarsviptingu verði markaður eins skammur tími og lög leyfa.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða samkvæmt ákæru ríkissaksóknara 22. september 2008 og I., II., V., VII. og X. kafla ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 22. september 2008 og 2. og 3. töluliðar ákæru 1. október 2008.

Við meðferð málsins fyrir héraðsdómi var borinn undir ákærða skýrsla hans hjá lögreglu þar sem hann játaði þann verknað sem honum er gefið að sök samkvæmt VIII. kafla ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 22. september 2008 og hefur ákærði ekki gefið haldbærar skýringar á breyttum framburði sínum fyrir dómi. Með þeirri athugasemd verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um sakfellingu ákærða samkvæmt þessum kafla ákærunnar.

Með 1. tölulið ákæru 1. október 2008 er ákærða gefið að sök að hafa aðfaranótt þriðjudagsins 27. maí 2007 á bifreiðastæði við Nýbýlaveg 4, Kópavogi, sparkað í vinstri sköflung lögreglumannsins D, sem þar var við skyldustörf. Höfðu D og lögreglumaðurinn F afskipti af ákærða þar sem hann sat í ökumannssæti bifreiðar sinnar. Framburður ákærða og D er rakinn í héraðsdómi og er framburður D í samræmi við ákæruna. Hins vegar er framburður lögreglumannsins F fyrir dómi ekki skýr um atvik. Þannig lýsir hann því að ákærði hafi sparkað í fót lögreglumanns, Lúðvíks að nafni, og er hann ekki spurður frekar um þennan framburð sinn. Síðar í þinghaldinu talaði lögreglumaðurinn á þann veg að sá lögreglumaður sem sparkið hefði fengið hefði verið kvenmaður. Samkvæmt því sem fram er komið í málinu var lögreglumaður með þessu nafni ekki á vettvangi, heldur einungis ákærði og lögreglumennirnir D og F. Niðurstaða máls verður ekki reist á framburði F með þeim rökum að hann teljist skýr um málsatvik og að framburður lögreglumannanna hafi verið samhljóða. Hins vegar verður að hafa í huga að þegar bornar voru undir ákærða sakargiftir samkvæmt þessum lið ákærunnar var bókað eftir honum að hann játaði sök en hefði skýringar á þessari háttsemi sinni. Í þinghaldi síðar lýsti hann atvikinu þannig að lögreglumennirnir hefðu haldið um framhurð bifreiðarinnar bílstjóramegin en hann viljað loka henni. Það hefði hann viljað gera þar sem honum hefði verið brugðið við komu lögreglu og talið að um útlenda menn væri að ræða. Kvaðst ákærði telja að hann hefði „ýtt“ með fætinum í hurðina, en ekki sparkað í lögreglumanninn. Var þá borin undir ákærða skýrsla hans hjá lögreglu 6. september 2007 þar sem bókað var eftir honum: „Ég var í annarlegu ástandi. Ég sparkaði í lögreglukonu þegar lögregla hafði afskipti af mér. Ég var vakinn harkalega og mér brá við það“. Kvaðst ákærði ítrekað telja það vel geta verið að hann hefði sparkað, en þá óvart þar sem hann hefði ekki vitað að um lögreglumenn væri að ræða. Þá kvaðst hann muna afar illa eftir málsatvikum. Samkvæmt þessu er framburður ákærða misvísandi um málsatvik, en þó frekar á þá lund að hann hafi sparkað í lögreglumann meðan lögregla hélt opinni bílhurð. Með þessum athugasemdum er fallist á niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu ákærða samkvæmt 1. tölulið ákæru 1. október 2008.

Háttsemi ákærða er réttilega heimfærð til refsiákvæða eins og rakið er í héraðsdómi og hefur hann unnið sér til refsingar. Þá er sakarferill hans samkvæmt sakavottorði þar nægilega rakinn, en ákærði hefur einungis hlotið sektarrefsingar og skilorðsbundna dóma vegna fyrri brota sinna. Við ákvörðun refsingar má líta til þess að brot ákærða gegn valdstjórninni eru ekki veruleg. Með þessum athugasemdum verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um ákvörðun refsingar ákærða, en til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald eins og í dómsorði greinir.

Ákvæði héraðsdóms um ökuréttarsviptingu, skaðabætur, upptöku og sakarkostnað verða staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talinn málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Már Ívar Henrysson, sæti fangelsi í 3 ár, en frá refsingunni dregst gæsluvarðhaldsvist hans frá 6. ágúst 2008 til uppsögu þessa dóms.

Héraðsdómur skal vera óraskaður um ökuréttarsviptingu, skaðabætur, upptöku og sakarkostnað.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 468.856 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 373.500 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 31. október 2008.

Mál þetta, sem dómtekið var 17. október sl., er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 22. september 2008 á hendur Má Ívari Henryssyni, kennitala ..., Meðalholti 3, Reykjavík, fyrir brot gegn valdstjórninni, framin aðfaranótt föstu­dagsins 14. september 2007, á  lögreglustöðinni við Hverfisgötu í Reykjavík, sem hér greinir:

1.  Með því að hafa sparkað í vinstri sköflung lögreglumannsins A, er þeir voru í lyftu á leið í fangaklefa.

1.  Með því að hafa, fyrir framan fangaklefa, sparkað í vinstra læri A,  með þeim afleiðingum að hann hlaut mar á læri, og í kjölfarið hótað honum og B lögreglumanni líkamsmeiðingum. 

Brot ákærða eru talin varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 101/1976, lög nr. 82/1998 og lög nr. 25/2007.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Hinn 1. október sl. var sakamálið nr. 1291/2008 sameinað þessu máli en þar er ákærða gefið að sök með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuð­borgarsvæðinu 22. september sl. eftirfarandi hegningar-, umferðar- og fíkniefnalagabrot:

I.

Fyrir umferðar- og fíkniefnalagabrot, með því að hafa aðfaranótt þriðjudagsins 29. maí 2007, ekið bifreiðinni MF-676, sviptur ökuréttindum og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna, austur Kársnesbraut í Kópavogi, svo óvarlega að henni var ekið á umferðarmerki, sem var til móts við Sæbólsbraut, og án þess að nema staðar þegar umferðaróhappið átti sér stað og ekið áfram austur Nýbýlaveg og inn í bifreiðastæði við Toyota á Íslandi, Nýbýlavegi 4 í Kópavogi, og jafnframt haft í vörslum sínum 1,36 g af amfetamíni, sem lögregla fann við leit í bifreiðinni.

Eru brot þessi talin varða við 1. mgr. 10. gr., 1. og 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 3. gr. laga nr. 24/2007, sbr. 1. mgr. 100. gr., laga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006 og 2. gr., sbr. 5. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

II.

Fyrir umferðarlagabrot og skjalabrot, með því að hafa þriðjudaginn 19. júní 2007, ekið bifreiðinni UT-479 sviptur ökurétti, vestur Laugaveg í Reykjavík og með því að hafa ekið bifreiðinni umrætt sinn á negldum hjólbörðum og ekki sinnt fyrirmælum lögreglu um að stöðva bifreiðina, heldur ekið bifreiðinni norður Smiðjustíg og austur Hverfisgötu án þess að virða stöðvunarskyldu á vegamótum Smiðjustígs og Hverfisgötu í Reykjavík og með því að hafa í heimildarleysi og blekkingarskyni sett skráningarmerkin MF-676, sem tilheyra bifreið af tegundinni Mitsubishi Space Wagon, hvítri að lit, á græna Toyota Avensis bifreið, sem bera átti skráningarmerkin UT-479.

Er þetta talið varða við 1. mgr. 5. gr., 1. mgr. 48. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 24/2007, 2. mgr. 59. gr. og 1. mgr. 63. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. lög nr. 44/1993 og 138/1996 og 1. mgr. 157. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

III.

Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa sunnudaginn 24. júní 2007, ekið bifreiðinni NO-969 sviptur ökurétti og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna, austur Breiðholtsbraut í Reykjavík, uns lögregla stöðvaði aksturinn við vegamót við Skógarsel.

Er þetta talið varða við 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 3. gr. laga nr. 24/2007 og 1. og 2. mgr. 45. gr. a., sbr. 1. mgr. 100. gr., laga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006.

IV.

Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 15. júlí 2007, ekið bifreiðinni OR-670 sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 1,12‰), norður Reynisvatnsveg í Reykjavík á vegarkafla við vegamótin að Reynisvatni og  austur Reynisvatnsveg uns lögregla stöðvaði aksturinn á vegarkafla við Reynisvatn.

Þetta er talið varða við 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 3. gr. laga nr. 24/2007 og 1. mgr., sbr. 3. mgr., 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., laga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997.

V.

Fyrir þjófnað, með því að hafa miðvikudaginn 3. október 2007, í verslun 11-11 að Laugavegi 116 í Reykjavík, stolið Júmbó samloku og drykkjarjógúrti, samtals að andvirði kr. 451, með því að setja umræddar vörur í vasa á yfirhöfn og ganga rakleiðis út úr versluninni án þess að greiða fyrir þær.

Þetta er talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í málinu er þess krafist fyrir hönd Kaupáss hf., kt. ..., að ákærði verði dæmdur til að greiða félaginu samtals kr. 451, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá tjónsdegi og dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga, að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.

VI.

Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa sunnudaginn 4. nóvember 2007, ekið bifreiðinni NK-205, óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna, vestur Hjallahraun í Hafnarfirði og norður Reykjavíkurveg, uns lögregla stöðvaði aksturinn fyrir utan hús númer 66 við Reykjavíkurveg í Hafnarfirði.

Þetta er talið varða við 1. og 2. mgr. 45. gr. a., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006.

VII.

Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa laugardaginn 24. nóvember 2007, ekið bifreiðinni NK-205, óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna, um það bil tvær „bíllengdir“ áfram úr bifreiðastæði við Einholt í Reykjavík og svo aftur á bak í sama bifreiðastæði þar sem bifreiðin staðnæmdist.

Þetta er talið varða við 1. og 2. mgr. 45. gr. a., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006.

VIII.

Fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa að kvöldi þriðjudagsins 11. desember 2007, í bifreiðinni FP-657, á bifreiðastæði við Írabakka í Reykjavík, haft í vörslum sínum 1,08 g af amfetamíni sem lögregla fann við leit.

Er brot þetta talið varða við 2. gr., sbr. 5. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

IX.

1. Fyrir þjófnað, með því að hafa fimmtudaginn 13. desember 2007, í verslun Bræðranna Ormsson, Hagasmára 1 í Kópavogi, stolið myndbandsupptökuvél af tegund­inni Samsung, samtals að heildarverðmæti kr. 39.900.

Þetta er talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

2. Fyrir þjófnað, með því að hafa fimmtudaginn 13. desember 2007, í verslun Hagkaupa, Hagasmára 1 í Kópavogi, stolið rakspíra af tegundinni Armani Black Code, heilsudrykk og grænum tetöflum, samtals að heildarverðmæti kr. 5.303.

Þetta er talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

Í málinu er þess krafist fyrir hönd Hagkaupa hf., kt. ...., að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 5.303, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá tjónsdegi sem var 13. desember 2007, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.

X.

Fyrir tilraun til fjársvika, með því að hafa sunnudaginn 20. janúar 2008, í versluninni Á stöðinni ehf., Reykjavíkurvegi 58 í Hafnarfirði, reynt að svíkja út vörur og þjónustu að andvirði kr. 16.262 með því að framvísa heimildarlaust kreditkorti C, kt. [...], en starfsmaður tók kortið af honum eftir að hafa skoðað mynd á kortinu.

Þetta er talið varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 20. gr. sömu laga.

XI.

Fyrir þjófnað, með því að hafa fimmtudaginn 31. janúar 2008, í verslun Hagkaupa, Hagasmára 1 í Kópavogi, stolið 2 GB minniskorti af tegundinni SanDisk, herrailm af tegundinni Essei, boxer nærbuxum og jógúrtdós, allt samtals að heildarverðmæti kr. 8.372.

Þetta er talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í málinu er þess krafist fyrir hönd Hagkaupa hf., kt. ...., að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 8.372, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá tjónsdegi sem var 31. janúar 2008, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.

XII.

Fyrir eignaspjöll, með því að hafa að kvöldi þriðjudagsins 15. apríl 2008 kýlt og sparkað í rafmagns- og hitamæli í eigu Orkuveitu Reykjavíkur, kt. ...., á heimili ákærða að Meðalholti 3 í Reykjavík, með þeim afleiðingum, að mælarnir skemmdust.

Þetta er talið varða við 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í málinu gerir Orkuveita Reykjavíkur þá kröfu, að ákærði verði dæmdur til greiða bætur vegna tjónsins að fjárhæð kr. 40.170.- með vöxtum skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá tjónsdegi, en síðan dráttarvöxtum skv. 9. gr. sömu laga, að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.

XIII.

Fyrir þjófnað, með því að hafa miðvikudaginn 30. apríl 2008, í vínbúð Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, að Kringlunni 4-12 í Reykjavík, stolið einni flösku af koníaki og einni flösku af vodka áfengi, samtals að verðmæti kr. 5.882, með því að stinga flöskunum inn á sig og ganga rakleiðis út úr versluninni án þess að greiða fyrir þær.

Þetta er talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í málinu er þess krafist fyrir hönd Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, kt. ...., að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 5.882, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá tjónsdegi og dráttarvaxta samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.

XIV.

Fyrir þjófnað, með því að hafa árdegis miðvikudaginn 9. júlí 2008, í verslun N1 hf., að Dalvegi 10-14 í Kópavogi, stolið tveimur brúsum af Mobil 1 olíu og gasgrilli af tegundinni Outback, allt samtals að heildarverðmæti kr. 24.460.

Er þetta talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

XV.

Fyrir þjófnað, með því að hafa laugardaginn 5. júlí 2008, í vínbúð Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, að Borgartúni 26 í Reykjavík, stolið tveimur flöskum af áfengi af tegundinni Eldurís, samtals að verðmæti kr. 6.649, með því að stinga flöskunum inn á sig og ganga rakleiðis út úr versluninni án þess að greiða fyrir þær.

Er þetta talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í málinu er þess krafist fyrir hönd Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, kt. ...., að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 6.649, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá tjónsdegi og dráttarvaxta samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.

XVI.

Fyrir þjófnað, með því að hafa laugardaginn 5. júlí 2008, í vínbúð Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, að Borgartúni 26 í Reykjavík, stolið þremur flöskum af vodka áfengi, samtals að verðmæti kr. 8.332, með því að stinga flöskunum inn á sig og ganga rakleiðis út úr versluninni án þess að greiða fyrir þær.

Þetta er talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í málinu er þess krafist fyrir hönd Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, kt. ...., að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 8.332, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá tjónsdegi og dráttarvaxta samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.

XVII.

Fyrir þjófnað, með því að hafa þriðjudaginn 8. júlí 2008, í vínbúð Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, að Spönginni 29 í Reykjavík, stolið tveimur flöskum af vodka áfengi, samtals að verðmæti kr. 6.949, með því að stinga flöskunum inn á sig og ganga rakleiðis út úr versluninni án þess að greiða fyrir þær.

Þetta er talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í málinu er þess krafist fyrir hönd Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, kt. ...., að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 6.949, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá tjónsdegi og dráttarvaxta samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.

XVIII.

Fyrir þjófnað, með því að hafa föstudaginn 11. júlí 2008, í vínbúð Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, að Skeifunni 5 í Reykjavík, stolið vodka áfengispela, að verðmæti kr. 2.494, með því að stinga pelanum inn á sig og ganga rakleiðis út úr versluninni án þess að greiða fyrir hann.

Þetta er talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í málinu er þess krafist fyrir hönd Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, kt. ...., að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 2.494, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá tjónsdegi og dráttarvaxta samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.

XIX.

Fyrir þjófnað, með því að hafa föstudaginn 11. júlí 2008, í vínbúð Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, að Borgartúni 26 í Reykjavík, stungið inn á sig vodka  áfengispela, að verðmæti kr. 2.494, án þess framvísa honum við afgreiðslukassa verslunarinnar þar sem ákærði greiddi fyrir aðrar vörur, en starfsmaður endurheimti hið þjófstolna úr fórum ákærða við það tilefni.

Þetta er talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006 og sæti jafnframt upptöku á annars vegar 1,36 g af amfetamíni og hins vegar 1,08 g af amfetamíni, sem hald var lagt á, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.

Hinn 1. október sl. var sakamálið nr. 1321/2008 sameinað þessu máli en þar er ákærða gefið að sök með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara sama dag neðangreind brot gegn valdstjórninni svo sem hér greinir:

1.  Með því að hafa aðfaranótt þriðjudagsins 29. maí 2007 á bifreiðastæði við bílasölu Toyota að Nýbýlavegi 4 í Kópavogi, sparkað í vinstri sköflung lögreglumannsins D, sem þar var við skyldustörf.

2.  Með því að hafa aðfaranótt miðvikudagsins 12. mars 2008, innandyra að Bollagötu 8 í Reykjavík, bitið lögreglumanninn B, sem þar var við skyldustörf í vísifingur hægri handar. 

3.  Með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 18. apríl 2008, í fangaklefa á lögreglustöðinni við Hverfisgötu í Reykjavík, hrækt á andlit lögreglumannsins E, sem þar var við skyldustörf.

Brot ákærða eru talin varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 101/1976, lög nr. 82/1998 og lög nr. 25/2007.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Hinn 6. október sl. var sakamálið nr. 1322/2008 sameinað þessu máli en þar er ákærða gefið að sök með ákæru útgefinni sama dag af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu eftirfarandi auðgunar- og umferðarlagabrot:

I.

Fyrir þjófnað, með því að hafa fimmtudaginn 11. nóvember 2007, milli klukkan 16 og 17, í húsnæði Tryggingamiðstöðvarinnar að Aðalstræti 6 í Reykjavík, stolið farsíma og seðlaveski, sem hafði að geyma ökuskírteini, greiðslukort og 1.000 krónur í reiðufé.

Þetta er talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

II.

Fyrir tilraun til fjársvika, með því að hafa fimmtudaginn 11. nóvember 2007, um kl. 17:30, í söluturninum Ísgrill við Bústaðaveg í Reykjavík, í félagi með tveimur ónafngreindum stúlkum, reynt að svíkja út fjóra sígarettupakka, kveikjara og tvö símkort, með því að framvísa í heimildarleysi greiðslukorti, sem ákærði hafði stolið fyrr um daginn, sbr. ákærulið I, og þannig reynt að skuldfæra andvirði varanna á greiðslukortareikning korthafa.

Þetta er talið varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 20. gr. sömu laga.

III.

Fyrir nytjastuld og  umferðarlagabrot, með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 2. maí 2008, tekið bifreiðina TF-261, í heimildarleysi til eigin nota, þar sem hún stóð við Meðalholt í Reykjavík og ekið henni undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 2,46‰)  um Laugaveg í Reykjavík, án þess að sinna stöðvunarmerkjum lögreglu, norður Klapparstíg, gegn einstefnu, þá austur Hverfisgötu, gegn rauðu umferðarljósi á gatnamótum Frakkastígs, og svo suður Snorrabraut og þar gegn rauðu umferðarljósi, og áfram austur Flókagötu, inn á Rauðarárstíg, þar sem ákærði missti stjórn á bifreiðinni við Laugaveg.

Þetta er talið varða við 1. mgr. 4. gr.,  1. mgr. og 3. mgr. 5. gr. og  1., sbr. 3. mgr. 45. gr. , sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987,  og 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

IV.

Fyrir þjófnað, með því að hafa að kvöldi laugardagsins 2. ágúst 2008 og aðfaranótt þriðjudagsins 5. ágúst  2008, í félagi við annan mann, á athafnasvæði Byko að Skarfagörðum 2 í Reykjavík, alls í fimm skipti, stolið úr vörugámum 22 sjónvarpstækjum og 7,5 lítrum af pallaolíu, samtals að verðmæti 4.571.631 krónur.

Þetta er talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í málinu er þess krafist fyrir hönd Norvik hf.  að ákærði verði dæmdur til að greiða félaginu samtals kr. 4.571.631, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá ofangreindum tjónsdögum og dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga, að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006.

Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar er lög leyfa, að öðrum skaðabótakröfum en ákærði hefur samþykkt verði vísað frá dómi og að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.

Ákæra ríkissaksóknara 22. september 2008.

Samkvæmt skýrslu lögreglu frá föstudeginum 14. september 2007 kl. 02.15 voru lögreglumennirnir B og A þá nótt á eftirlitsferð í lögreglubifreið vestur Laugaveg í Reykjavík. Veittu þeir þá athygli ferð ákærða þar sem hann var á reiðhjóli. Í skýrslunni kemur fram að ákærði hafi virst í annarlegu ástandi og ekki getað hjólað sökum þess. Hafi ákærði farið af hjólinu og gengið þvert yfir akbrautina þannig að lögreglumaður hafi þurft að snögghemla lögreglubifreiðinni. Hafi lögreglumenn ákveðið að stöðva bifreiðina til að ræða við ákærða. Hafi ákærði átt mjög erfitt með að standa í fæturna. Hafi ákærði verið spurður að því hvar hann hafi fengið reiðhjólið og hafi hann neitað að gera lögreglumönnum grein fyrir því. Er ákærði hafi verið beðinn um að framvísa skilríkjum hafi hann brugðist við með því að hlaupa frá lögreglubifreiðinni og reyna að komast á reiðhjólið. Hafi lögreglumenn hlaupið á eftir honum og gefið honum fyrirmæli um að stoppa. Ákærði hafi ekki sinnt því og hjólað austur Laugaveg. Hafi hann átt mjög erfitt með að halda jafnvægi á hjólinu. Á móts við hús nr. 24 við Laugaveg hafi lögreglumaður náð að grípa í ákærða sem hafi um leið misst stjórn á reiðhjólinu. Er reynt hafi verið að ræða við ákærða hafi hann brugðist mjög illa við og reynt að rífa sig lausan. Hafi hann verið mjög árásargjarn. Hafi hann verið færður í handjárn og í lögreglubifreið. Í framhaldi hafi ákærði verið færður á lögreglustöð. Á leið á lögreglustöð hafi ákærði hrækt framan í þann lögreglumann er setið hafi við hlið hans í bifreiðinni. Á lögreglustöð hafi ákærði síðan verið með hótanir í garð lögreglumanna og hafi hann sagt að hann ætlaði að ,,lúberja“ lögreglumann og annað svipað. Hafi lögreglumenn tekið hótunum sem raunverulegri ógn sem vakið hafi hjá þeim ótta. Ákærði hafi verið færður fyrir varðstjóra sem tekið hafi ákvörðun um að vista skyldi ákærða í fangageymslu. Ákærða hafi verið fylgt í lyftu og hann þá verið í handjárnum. Hafi annar lögreglumannanna haldið um hægri hendi ákærða en hinn lögreglumaðurinn um þá vinstri. Í lyftunni hafi ákærði snögglega og án viðvörunar sparkað aftur fyrir sig með vinstri fæti þannig að hæll á skó ákærða hafi lent í vinstri sköflungi lögreglumannsins A. Er ákærði hafi verið færður út úr lyftunni og að fangaklefa hafi ákærði aftur sparkað með sama hætti í lögreglumanninn A þannig að hæll ákærða hafi lent í vinstra læri lögreglumannsins. Ákærði hafi í framhaldi af þessu verið færður í fangaklefa. A hafi fundið fyrir nokkrum eymslum í vinstri fæti og af þeim ástæðum farið á slysadeild Landspítala í Fossvogi.  

Á meðal rannsóknargagna málsins er læknisvottorð Ófeigs T. Þorgeirssonar sérfræðings á slysa- og bráðadeild Landspítala sem ritað hefur verið 26. mars 2008. Í vottorðinu kemur fram að A hafi komið á slysadeild 14. september 2007. Á vinstri fæti sjáist ekki beint áverkamerki en A sé þreifiaumur í vinstra læri nærhluta yfir svonefndum fjórhöfðavöðva framanvert á læri og sé lítil blæðing þar.

Ákærði var yfirheyrður af lögreglu næsta dag. Greindi hann frá því að hann hafi verið undir áhrifum áfengis umrædda nótt. Kvaðst ákærði minnast þess er lögreglumenn hafi haft afskipti af honum. Eftir viðræður hafi lögreglumenn tjáð ákærða að hann væri handtekinn og hafi ákærði reiðst við það. Hafi þeir flutt ákærða á lögreglustöð, en á leiðinni hafi ákærði verið beittur talsverðri hörku. Gæti verið að ákærði hafi hreytt einhverju í lögreglumenn, en ekki kvaðst ákærði muna hvað það hafi verið. Ekki hafi ákærði sparkað í lögreglumennina, hvorki í lyftu á lögreglustöð né annars staðar inni á lögreglustöðinni. Fyrir dómi kvaðst ákærði hafa verið mjög ölvaður greint sinn og hafi hann vart staðið í fæturna. Myndi hann ekki eftir að hafa verið handtekinn af lögreglumönnum. Hafi hann ekki ætlað að sparka í lögreglumennina. Hafi hann ef til vill dottið og í því rekið fætur í lögreglumennina. Ekki kvaðst ákærði bera neinn kala til lögreglumanna. Kvaðst ákærði ekki muna eftir því að hafa hótað lögreglumönnunum. Gæti vel verið að hann hafi sagt eitthvað sem þá hafi verið í ölæði. Engin meining hafi verið þar að baki. 

A lögreglumaður kvað lögreglumenn hafa verið að aka niður Laugaveg umrætt sinn er ákærða hafi verið veitt athygli þar sem hann hafi verið í mjög annarlegu ástandi og á reiðhjóli. Hafi verið ákveðið að hafa tal af honum. Þau afskipti hafi leitt til þess að ákærði hafi verið handtekinn og fluttur á lögreglustöð. Hafi A sest aftur í lögreglubifreiðina hjá ákærða sem þá hafi hrækt á A. Eftir að B lögreglumaður hafi komið inn í lögreglubifreiðina hafi ákærði verið með hótanir í garð lögreglumanna á leið á lögreglustöð. Varðstjóri hafi tekið ákvörðun um vistun ákærða í fangageymslu. Í lyftu á leið upp í fangamóttöku hafi A og B haldið um sitt hvorn handlegg ákærða og því staðið sitt hvoru megin við hann. Ákærði hafi verið í handjárnum. Þá hafi ákærði skyndilega sparkað aftur fyrir sig af miklu afli og hæll annars fótar ákærða komið í vinstri sköflung A. Hafi A þegar fundið fyrir miklum sársauka í fætinum. Á leið inn í fangaklefa hafi ákærði hótað lögreglumönnunum aftur og sagt að hann myndi ,,berja“ lögreglumenn. Þar sem A hafi fundið fyrir miklum sársauka í fætinum hafi hann farið á slysadeild í framhaldi af atburðinum. Hafi A fundið fyrir sársauka í fætinum í marga daga á eftir. Sparkið hafi verið greinilegur ásetningur af hálfu ákærða. Við skýrslugjöfina fyrir dómi kvaðst A oft hafa lent í átökum í tengslum við starf sitt. Er borin var undir hann frumskýrsla lögreglu kvað hann rétt vera að A hafi einnig fengið spark frá ákærða er flytja hafi átt hann í fangaklefa. Þá kvaðst A staðfesta það sem fram væri tekið í framburðarskýrslu A og frumskýrslu að ákærði hafi hótað lögreglumönnum á lögreglustöð.

B lögreglumaður kvað afskipti hafa verið höfð af ákærða á Laugavegi, sem leitt hafi til handtöku hans, en ákærði hafi verið í mjög annarlegu ástandi. B hafi ekið lögreglubifreið á lögreglustöð en A lögreglumaður setið aftur í lögreglubifreiðinni við hlið ákærða. Á lögreglustöð hafi verið tekin ákvörðun um að vista ákærða í fangageymslu. Er ákærði hafi verið fluttur í lyftu upp í fangamóttöku hafi lögreglumenn staðið sitt hvoru megin við ákærða, sem hafi verið í handjárnum. Ákærði hafi þá sparkað snögglega aftur fyrir sig af talsverðu afli og sparkið komið í sköflung A. Hafi ákærði greinilega verið að reyna að hitta lögreglumanninn og ásetningurinn verið augljós. Er ákærði hafi verið fluttur í fangaklefa hafi hann aftur sparkað í A með svipuðum hætti og áður. Hafi það spark ekki verið eins fast en þó verið greinilegt. Þá hafi hann einnig verið með hótanir í garð lögreglumanna og sagt að hann ætlaði að ,,berja“ lögreglumennina. Hafi lögreglumönnum þótt ástæða til að taka hótanirnar alvarlega. Í framhaldi af atburðum hafi A farið á slysadeild til aðhlynningar.

Niðurstaða:

Ákærða er samkvæmt ákæru gefið að sök að hafa sparkað í vinstri sköflung lögreglumannsins A í lyftu á leið upp í fangageymslu aðfaranótt föstudagsins 14. september 2007. Þá er honum gefið að sök að hafa fyrir framan fangaklefa sparkað aftur í A og hafi höggið komið í vinstra læri lögreglumannsins. Loks er ákærða gefið að sök að hafa hótað lögreglumönnum. Ákærði neitar sök. Kvaðst hann hafa viðhaft einhvern munnsöfnuð í garð lögreglumanna sem ekki hafi verið hótanir eða ástæða fyrir lögreglumenn að óttast. Þá kvaðst hann hugsanlega hafa dottið í lyftunni og þannig rekist í lögreglumennina.

Framburður lögreglumannanna A og B er afdráttarlaus um að ákærði hafi af ásetningi sparkað í vinstri sköflung lögreglumannsins A er ákærði hafi verið fluttur í lyftu upp í fangamóttöku. Þá ber þeim einnig saman um að ákærði hafi aftur sparkað í lögreglumanninn fyrir framan fangaklefa. Loks eru þeir á einu máli um að ákærði hafi hótað lögreglumönnunum bæði í lögreglubifreiðinni og á lögreglustöð. Hafa þeir borið að ástæða hafi verið að óttast hótanir ákærða. Með vísan til samhljóða framburða lögreglumanna og læknisvottorðs Ófeigs T. Þorgeirssonar sérfræðings á slysa- og bráðadeild Landspítala telur dómurinn sannað að ákærði hafi framið þau brot sem honum eru gefin að sök og eru brotin rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Ákæra lögreglustjóra 22. september 2008.

III., IV., VI., IX., XI., XII., XIII., XV., XVI., XVII., XVIII. og XIX. kaflar ákæru.

Ákærði hefur játað sök samkvæmt framangreindum köflum ákæru. Með vísan til játninga ákærða, sem samrýmast gögnum málsins, verður ákærði sakfelldur samkvæmt framangreindum köflum ákæru og er háttsemin rétt heimfærð til refsiákvæða í ofangreindum köflum.

I. kafli.

Samkvæmt skýrslu lögreglu frá aðfaranótt þriðjudagsins 29. maí 2007 kl. 04.25 veittu lögreglumennirnir D og F, sem óku lögreglubifreið austur Kársnesbraut í Kópavogi á móts við Sæbólsbraut, því athygli að ekið hafi verið á umferðarmerki á Kársnesbraut skammt vestan við Sæbólsbraut. Hafði umferðarmerkið brotnað af festingum í gangstéttinni. Glerbrot voru á vettvangi, auk þess sem hluti af stuðara bifreiðar var á vettvangi. Samkvæmt skýrslunni var mikil olíubrák á vettvangi. Reyndist lögreglumönnum unnt að rekja slóð olíubrákarinnar. Rétt austan við gatnamót Kársnesbrautar og Sæbólsbrautar veittu lögreglumenn athygli nýlegum hjólförum á umferðareyju þar sem olíubrák var jafnframt að finna. Slóðin lá inn á bifreiðastæði við verslun Toyota á Íslandi að Nýbýlavegi 4 í Kópavogi. Þar á bifreiðastæði var bifreið með skráningarnúmerið MF-676. Var vél bifreiðarinnar í gangi og heit viðkomu. Tekið er fram að bifreiðin hafi verið mikið skemmd. Hafi verið tjón á henni að framan og á hægri hlið. Þá hafi tvær rúður verið brotnar í bifreiðinni. Vinstra framdekk hafi verið sprungið og mikið af olíu í kringum bifreiðina. Hafi olía lekið niður í niðurfall við hlið bifreiðarinnar. Í glashaldara í bifreiðinni hafi mátt sjá opna bjórflösku. 

Í frumskýrslu kemur fram að ákærði hafi setið undir stýri bifreiðarinnar og legið sofandi fram á stýrið. Er fært í skýrslu að þá hafi verið tekið ákvörðun um að óska eftir aðstoð annarra lögreglumanna á vettvang. Ákærði hafi verið vakinn og hafi hann brugðist illa við afskiptum lögreglumanna og verið illa áttaður. Lögreglumaðurinn F hafi teygt sig inn í bifreiðina og drepið á vél hennar og tekið kveikjuláslykla í sínar vörslur. Þá hafi F einnig tekið í sínar vörslur fjölnota vasahníf sem legið hafi opinn inni í bifreiðinni. Á oddi hnífsins hafi mátt greina hvítar efnisleifar. Ákærði hafi í fyrstu ekki svarað spurningum lögreglumanna. Hafi hann verið beðinn um að stíga út úr lögreglubifreiðinni, sem hann hafi og gert. Hafi hann verið mjög valtur og hafi þurft að styðja hann svo hann dytti ekki. Hafi hann verið beðinn um að halla sér upp að bifreiðinni til að detta ekki og hafi hann þá sest aftur inn í bifreiðina og í ökumannssætið. Hafi lögreglumaðurinn D farið á eftir ákærða og staðið fyrir hurðinni til að ákærði gæti ekki lokað henni. Hafi ákærði teygt sig í hurðina og gert tilraunir til að loka hurðinni. Hafi F þá sett hægri fót sinn í hurðaspjaldið. Hafi ákærði þá snúið sér við í bifreiðastjórasætinu og sparkað af miklu afli og sparkið komið í vinstri sköflung D. Sparkið hafi einnig komið lítillega við vinstri sköflung F. Hafi D í því óskað eftir skjótri aðstoð frá öðrum lögreglumönnum. Hafi ákærða verið tilkynnt að hann væri handtekinn vegna gruns um ölvun við akstur. Hafi ákærði verið tekinn út úr bifreiðinni, en hann hafi brotist um. Hafi hann náð að losa sig frá lögreglumönnum og hlaupið þvert yfir Nýbýlaveg til norðurs í átt að Lundi. Hafi lögreglumennirnir fylgt ákærða eftir. Hafi þeir náð honum og náð að koma honum í jörðina. Í því hafi borist aðstoð frá öðrum lögreglumönnum. Hafi ákærði í framhaldi verið fluttur á lögreglustöð. Á lögreglustöð hafi ákærði verið látinn blása í mæli til ákvörðunar á alkóhóli. Niðurstaða úr því prófi hafi verið sú að ákærði hafi ekki verið undir áhrifum áfengis. Þar sem ákærði hafi augsjáanlega verið í annarlegu ástandi hafi komið læknir á lögreglustöð sem framkvæmt hafi klínískt mat á ákærða. Einnig hafi verið dregið úr ákærða blóð vegna gruns um akstur undir áhrifum lyfja. Að því loknu hafi hann verið vistaður í fangageymslu.

Í málinu liggur fyrir matsgerð Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði frá 25. júní 2006. Samkvæmt matsgerðinni fannst í blóði ákærða amfetamín og klónazepam. Sýni niðurstöður rannsókna að ákærði hafi verið undir slævandi áhrifum klónazepams. Megi gera ráð fyrir að hafi af þeim sökum ekki getað stjórnað bifreið með öruggum hætti. Hafi hann einnig verið undir töluverðum áhrifum örvandi amfetamíns.

Lárus Þór Jónsson læknir hefur framkvæmt hæfnispróf á ákærða kl. 05.50 aðfaranótt þriðjudagsins 29. maí 2007. Samkvæmt niðurstöðu prófsins hafi ákærði verið sljór, að hluta áttaður á stað og tíma, augu verið fljótandi, verið óöruggur við að ganga eftir beinni línu og munað tvær tveggja stafa tölur af fjórum. Andlit hafi verið eðlilegt og svipbrigði eðlileg og viðbrögð við ljósi eðlileg. Hafi ákærði verið óöruggur á skerptum Romberg, innri klukka hafi verið óeðlileg, hann hafi verið aðeins óöruggur á fingur-nef prófi, verið sljór og árásargjarn en ekki með skjálfta. Í niðurstöðu er það álit læknisins að ákærði hafi verið nokkuð undir áhrifum og hafi hann ekki verið fær um að stjórna ökutæki sökum sljóleika vegna róandi lyfja eða efna.

Ákærði var yfirheyrður af lögreglu næsta dag eftir vist í fangageymslu. Kvaðst ákærði hafa verið ölvaður nóttina á undan og ekki muna atvik. Kvaðst ákærði ekki hafa ekið bifreiðinni umrætt sinn, en bifreiðinni hafi ekið maður sem ákærði hafi hitt fyrir utan skemmtistaðinn Pentagon í Ármúla. Ekki myndi ákærði hvernig ökumaðurinn liti út. Ekki kvaðst ákærði vita hvaða leið þeir hafi ekið. Þá kvaðst ákærði gefa þá skýringu á veru sinni í ökumannssæti bifreiðarinnar að viðkomandi ökumaður hafi fært ákærða í sætið. Það síðasta er ákærði myndi hafi verið þar sem hann hafi setið aftur í bifreiðinni. Fyrir dómi kvaðst ákærði muna eftir að hafa verið á skemmtistaðnum Pentagon. Þar hafi hann drukkið áfengi. Á staðnum hafi hann hitt mann sem hann hafi beðið um að aka bifreiðinni MF-676. Eftir að þeir hafi verið lagðir af stað hafi ákærði sofnað. Það næsta er ákærði myndi hafi verið þegar hann hafi verið að hlaupa á undan lögreglumönnum í Kópavogi. Umræddan ökumann kvaðst ákærði þekkja frá skemmtistaðnum. Hann vissi hins vegar ekki hvað hann héti en maðurinn væri dökkhærður. Bifreiðina MF-676 hafi ákærði fengið lánaða hjá vinkonu sinni. Ákærði kvaðst ekki geta skýrt af hvaða ástæðu áfengi hafi ekki mælst í honum í framhaldi af handtöku. Hafi hann ekki notað fíkniefni og gæti ekki skýrt niðurstöðu matsgerðar Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði.

D lögreglumaður kvaðst hafa haft afskipti af ákærða umrædda nótt. Lögreglumenn hafi veitt því athygli að ekið hafi verið á umferðarmerki á Kársnesbraut og hafi bifreiðin augljóslega skemmst mikið þar sem brak úr henni hafi verið á vettvangi. Þá hafi verið töluverð olíubrák á staðnum og hafi verið unnt að fylgja slóð hennar. Slóðin hafi verið rakin inn á bifreiðastæði við bifreiðasöluna Toyota á Íslandi við Nýbýlaveg í Kópavogi. Um hafi verið að ræða bifreið með skráningarnúmerið MF-676. Er komið hafi verið að bifreiðinni hafi ákærði setið undir stýri bifreiðarinnar. Hafi D komið að bifreiðinni ásamt lögreglumanninum F, en þau hafi verið að rannsaka grun um akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna. Er lögreglumenn hafi komið að bifreiðinni hafi ákærði verið sofandi í ökumannssæti og bifreiðin verið í gangi. Hafi D opnað hurð bifreiðarinnar bifreiðastjóramegin og vakið ákærða. Hafi ákærði sýnilega verið í annarlegu ástandi og illa áttaður á stað og stund. Hafi ákærði verið spurður að nafni og kennitölu. Hafi hann engu svarað. Hafi hann þá verið beðinn um að stíga út úr bifreiðinni, sem hann hafi og gert. Hafi hann virst eiga í erfiðleikum með að halda jafnvægi og lögreglumennirnir stutt við hann. Hafi hann verið beðinn um að halla sér upp að bifreiðinni til að halda jafnvægi en hann þá sest inn í bifreiðina á nýjan leik og aftur í ökumannssætið. Hafi lögreglumennirnir staðið fyrir hurðinni til að ákærði gæti ekki lokað henni. Hafi ákærði tekið þessu illa og byrjað að reyna að loka hurðinni. Hafi hann því næst snúið sér í sætinu þannig að hann hafi setið þvert í ökumannssætinu og með fætur í átt að lögreglumönnum. Hafi hann dregið fót að sér og því næst sparkað fram með fætinum með þeim afleiðingum að hann hafi sparkað í vinstri sköflung D. Þá hafi verið tekin ákvörðun um að handtaka ákærða vegna gruns um ölvunarakstur. Hafi hann því næst verið tekinn út úr bifreiðinni. Hann hafi brugðist illa við og því verið óskað eftir aðstoð fleiri lögreglumanna á vettvang. Þegar reynt hafi verið að koma ákærða í handjárn hafi hann brotist mikið um og náð að losa sig. Hafi hann hlaupið í norðurátt yfir Nýbýlaveg. Hafi ákærða verið fylgt eftir og hann yfirbugaður í framhaldinu. Því næst hafi hann verið færður á lögreglustöð. Reynt hafi verið að ræða við ákærða á vettvangi um hvað hafi gerst. Það hafi gengið illa, en ákærði hafi m.a. borið því við að einhver annar en hann hafi ekið bifreiðinni.

F kvaðst hafa haft afskipti af ákærða umrætt sinn. Lögreglumennirnir F og D hafi komið að bifreiðinni MF-676 eftir að hafa rakið slóð eftir hana frá vettvangi þar sem bifreiðin hafi greinilega hafnað á umferðarmerkjum. Olíubrák hafi legið þaðan á þann stað þar sem bifreiðinni hafi verið lagt í stæði við verslun Toyota á Íslandi við Nýbýlaveg. Aflvél bifreiðarinnar hafi verið í gangi og bifreiðin heit viðkomu. Mikil olía hafi lekið af bifreiðinni og hún verið talsvert skemmd. Er þangað kom hafi ákærði setið undir stýri bifreiðarinnar og verið sofandi. Enginn annar en ákærði hafi verið í bifreiðinni og enginn annar á ferli við bifreiðina. Hafi vaknað grunur um að ákærði væri undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna. Er ákærði hafi verið vakinn hafi hann í fyrstu verið ringlaður. Hafi D óskað eftir aðstoð annarra lögreglumanna á vettvang ef vera kynni að ákærði yrði ósáttur við afskipti lögreglu. Hafi ákærði verið beðinn um að koma út úr lögreglubifreiðinni. Hafi hann neitað í fyrstu en ráða hafi mátt af fasi hans að hann hafi viljað forðast afskipti lögreglu. Eftir nokkra stund hafi ákærði komið út úr bifreiðinni, en verið valtur á fæti. Hafi hann af þeim sökum verið beðinn um að halla sér upp að bifreiðinni. Í stað þess að gera það hafi ákærði farið aftur inn í bifreiðina og fálmað eftir handfangi til að loka hurðinni. Við það hafi D sett vinstri fót sinn við bifreiðastjórahurðina til að varna því að ákærði gæti lokað hurðinni. Sjálfur hafi F sett vinstri fót við hurðarspjaldið. Við það hafi ákærði snúið sér í bifreiðastjórasætinu og sparkað nokkuð kröftugu sparki í vinstri sköflung D. Þá um leið hafi D kallað eftir tafarlausri aðstoð. Ákærði hafi þá verið tekinn út úr bifreiðinni. Er leitast hafi verið við að handjárna ákærða hafi hann brotist um. Hafi verið reynt að leggja hann í jörðina en honum tekist að losa sig frá lögreglumönnunum. Hafi honum verið veitt eftirför og hann handtekinn skömmu síðar.

Niðurstaða:

Ákærði neitar sök. Kveður hann annan mann hafa ekið bifreiðinni umrædda nótt. Í málinu liggur það fyrir að tveir lögreglumenn komu að bifreiðinni MF-676 þar sem bifreiðinni hafði verið lagt í bifreiðastæði við verslun Toyota á Íslandi við Nýbýlaveg 4 í Kópavogi. Aflvél bifreiðarinnar var þá í gangi og bifreiðin heit viðkomu. Ákærði sat þá undir stýri bifreiðarinnar og var sofandi. Samkvæmt framburði lögreglu var ákærði einn í bifreiðinni og enginn annar á vettvangi. Þegar til þess er litið að lögreglumenn komu að ákærða við þær aðstæður er hér að ofan greinir, að bifreiðinni hafði fyrr um nóttina augljóslega verið ekið það óvarlega að henni var ekið á umferðarmerki og að ákærði hefur ekki getað gefið neina haldbæra skýringu á því hver ók bifreiðinni umrædda nótt heldur bent á óþekktan mann, telur dómurinn hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi ekið bifreiðinni umrædda nótt. Samkvæmt niðurstöðu matsgerðar Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði mældust ávana- og fíkniefni í blóði ákærða eftir aksturinn. Samkvæmt því verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemin réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.

II. kafli.

Samkvæmt skýrslu lögreglu frá þriðjudeginum 19. júní 2007, kl. 15.10 voru lögreglumennirnir G og H á göngueftirliti á Laugavegi við Smiðjustíg í Reykjavík. Veittu þeir þá athygli ljósgrænni Toyota Avensis bifreið með skráningarnúmerið Y þar sem bifreiðinni var ekið vestur Laugaveg að Smiðjustíg. Var bifreiðin á nagladekkjum. Gáfu lögreglumennirnir ökumanni merki um að stöðva bifreiðina og færa bifreiðina yfir á Smiðjustíg við Laugaveg þar sem rætt var við hann. Ökumaður kvaðst hvorki vera með ökuskírteini né skráningarmerki meðferðis. Bar hann að vinur hans, Már, ætti bifreiðina en kvaðst ekki vita föðurnafn hans. Þegar lögreglumenn hafi opnað dyr bifreiðarinnar ökumannsmegin og beðið ökumann um að drepa á bifreiðinni hafi hann sagt að hann ,,nennti þessu ekki lengur“. Hafi hann spólað af stað norður Smiðjustíg og beygt austur Hverfisgötu þar sem lögreglumenn hafi misst sjónar af bifreiðinni. Á Smiðjustíg við Hverfisgötu sé stöðvunarskyldumerki sem ökumaður hafi ekki virt. Við athugun í ökutækjaskrá hafi komið í ljós að skráningarnúmerið Y sé af bifreið af gerðinni MMC Space í eigu I. Ákærði væri skráður eigandi að bifreið af gerðinni Toyota Avensis, árgerð 1999, sem sé græn að lit. Skráningarnúmer bifreiðarinnar sé UT-479. Í frumskýrslu er tekið fram að í ökuskírteinaskrá lögreglu sé mynd af ákærða og hafi lögreglumenn borið kennsl á hann sem ökumann bifreiðarinnar þennan dag.

Tekin var skýrsla af ákærða vegna málsins fimmtudaginn 6. september 2007. Kvaðst ákærði ekki hafa verið ökumaður bifreiðarinnar umrætt sinn. Kvaðst hann ekki vita hver hafi verið ökumaður, en ekki hafi verið um bifreið ákærða að ræða. Ákærði var á ný yfirheyrður af lögreglu 19. september 2007. Kvaðst hann þá halda við fyrri framburð sinn um að hafa ekki ekið bifreiðinni. Tók hann fram að lyklum að bifreiðinni hafi verið stolið og hver sem er getað ekið bifreiðinni. Fyrir dómi ítrekaði ákærði þá afstöðu sína að hann hafi ekki ekið umræddri bifreið. Lyklar að bifreið ákærða hafi verið í umferð, en þeim hafi einhverju sinni verið stolið frá ákærða. Ákærði hafi sjálfur verið með aðra lykla að bifreiðinni. Ákærði kvaðst þekkja I. Aðrir en ákærði hafi getað fengið bifreið hennar lánaða.

G lögreglumaður kvaðst í göngueftirliti hafa haft afskipti af ökumanni Toyota bifreiðar þriðjudaginn 19. júní 2007 þar sem ökumaður hafi ekið bifreiðinni vestur Laugaveg. Bifreiðin hafi verið á negldum dekkjum. Eftir að lögreglumenn hafi stöðvað bifreiðina hafi þeir rætt við ökumann. Fljótlega hafi G fengið það á tilfinninguna að ekki væri allt með feldu, en ökumaður hafi hvorki verið með ökuskírteini né skráningarskírteini fyrir bifreiðina. Hafi ökumaður skyndilega ekið af stað norður Smiðjustíg og austur Hverfisgötu án þess að virða stöðvunarskyldumerki á gatnamótum Smiðjustígs og Hverfisgötu í Reykjavík. Hafi G reynt að átta sig vel á öllum aðstæðum á staðnum og hafi hann lagt útlit ökumanns á minnið. Hafi verið látið vita til Fjarskiptamiðstöðvar lögreglu um bifreiðina en þá komið í ljós að skráningarnúmer komu ekki heim og saman við bifreiðina. Lögreglumenn hafi farið niður á lögreglustöð en þá hafi verið uppi grunur um að ákærði hafi verð ökumaður þar sem skráningarnúmer þau sem hafi verið á þeirri bifreið sem hafi verið stöðvuð hafi tengst vinkonu ákærða. G kvaðst viss um að ökumaður bifreiðarinnar hafi verið ákærði. Um leið og G hafi séð mynd af honum í ökuskírteinaskrá lögreglu hafi hann ekki verið í neinum vafa um að um sama mann væri að ræða.

H lögreglumaður kvaðst hafa verið í göngueftirliti ásamt G umræddan dag. Hafi þeir stöðvað bifreið með skráningarnúmerið Y á Laugavegi við Smiðjustíg en bifreiðin hafi verið á negldum dekkjum. Ökumaður hafi setið í framsæti bifreiðarinnar. Skyndilega hafi ákærði ekið bifreiðinni af stað og ekki sinnt stöðvunarskyldu á gatnamótum Smiðjustígs og Hverfisgötu. Hafi H borið þar kennsl á ákærða sem ökumann, en ákærða þekkti H vel úr starfi sínu sem lögreglumaður. Hafi H starfað í lögreglunni í 44 ár. Þá hafi ökuskírteinaskrá verið flett eftir að lögreglumenn hafi verið komnir á lögreglustöð og það sannreynt. 

Niðurstaða:

Ákærði neitar sök og kveðst ekki hafa verið ökumaður bifreiðar sem bar skráningarnúmerið Y og var ekið vestur Laugaveg í Reykjavík þriðjudaginn 19. júní 2007. Fyrir liggur samhljóða framburður tveggja lögreglumanna að för þessarar bifreiðar hafi verið stöðvuð þar sem bifreiðin hafi verið á negldum dekkjum að sumarlagi. Er ökumaður hafi ekki getað framvísað ökuskírteini og skráningarskírteini fyrir bifreiðina hafi hann ekið af stað og ekki virt stöðvunarskyldu á gatnamótum Smiðjustígs og Hverfisgötu. Lögreglumaðurinn H kveðst hafa borið kennsl á ákærða sem ökumann, en ákærða þekki H úr starfi sínu sem lögreglumaður. Hafi hann staðfest það eftir að hafa séð mynd af honum í ökuskírteinaskrá lögreglu. Þá hefur lögreglumaðurinn G jafnframt staðfest að hann hafi borið kennsl á ákærða sem ökumann en það hafi hann staðfest eftir að hafa séð mynd af ákærða í ökuskírteinaskrá lögreglu. Í rannsóknargögnum málsins er útprentun úr nefndri ökuskírteinaskrá. Á útprentuninni er mynd af ákærða, sem kemur vel heim og saman við útlit ákærða í dag. Þegar þessi atriði eru virt er að mati dómsins komin fram lögfull sönnun um að ákærði hafi ekið bifreið sem þá bar skráningarnúmerið Y, með þeim hætti er í ákæru greinir. Ákærða er einnig gefið að sök að hafa í heimildarleysi og blekkingarskyni sett skráningarmerkin Y, sem tilheyra bifreið af tegundinni Mitsubishi Space Wagon, hvít á lit, á græna Toyota Avensis bifreið ákærða sem á að bera skráningarnúmerið UT-479. Um þetta atriði hefur engin sönnunarfærsla farið fram í málinu. Verður af þeirri ástæðu að sýkna ákærða af þessari háttsemi, sem í ákæru er talin varða við 1. mgr. 63. gr. umferðarlaga og 1. mgr. 157. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Að þessu gættu verður ákærði sakfelldur samkvæmt II. kafla ákæru og er háttsemin þar réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákærunni. 

V. kafli.

Samkvæmt skýrslu lögreglu frá miðvikudeginum 3. október 2007 kl. 12.29 fengu lögreglumenn þann dag boð um að fara að verslun 11-11 við Laugaveg 116 í Reykjavík vegna þjófnaðar. Á staðnum ræddu lögreglumenn við J starfsmann í versluninni. Í skýrslunni kemur fram að J hafi verið staddur í eftirlitsherbergi verslunarinnar þaðan sem unnt hafi verið að horfa yfir verslunarrýmið. Hafi hann veitt því athygli að ákærði hafi tekið samloku og drykkjarjógúrt og stungið því í vasa á stakk sem hann hafi verið í. Því næst hafi J séð ákærða ganga út úr versluninni. Hafi J stöðvað för ákærða fyrir utan verslunina og ákærði brugðist illa við og neitað því að hafa stolið umræddum hlutum. Hafi J tekið samlokuna og drykkjarjógúrtina af ákærða og ákærði farið burt við svo búið. Hafi J ekki treyst sér til að stöðva för ákærða frekar þar sem hann hafi verið mjög ógnandi í hans garð. Ákærði hafi farið inn á Hlemm. Hafi J tjáð lögreglu að eftirlitsmyndavélakerfi væri í versluninni og myndi hann koma upptöku í hendur lögreglu. Í framhaldi af þessu hafi lögreglumenn farið inn á Hlemm og rætt þar við ákærða. Hafi ákærði viðurkennt fyrir lögreglumönnum að hafa tekið umrædda hluti og sett í jakkavasa sinn. Hafi hann ekki ætlað að stela þessum vörum. Hafi hann ætlað að fá stúlku sem með honum hafi verið til að borga fyrir sig en hún hafi verið farin út úr versluninni og hann því elt hana út. Þá hafi hann verið stöðvaður af starfsmanni verslunarinnar. Ekki gat ákærði gert grein fyrir nefndri stúlku að öðru leyti en því að hún héti Þóranna. Sú vara sem ákærði hafi tekið hafi verið að verðmæti 451 króna. Í málinu liggur frammi kassakvittun úr versluninni þar sem fram kemur að verðmæti samloku og drykkjarjógúrts hafi numið þeirri fjárhæð.

Ákærði kvaðst ekki hafa farið út úr umræddri verslun með þá vöru sem ákæra tilgreindi. Hafi ákærði tekið sér nefnda vöru í hendi og ætlað að kaupa hana. Hafi hann verið með vinkonu sinni í för. Ákærði hafi skyndilega áttað sig á því að hann hafi ekki verið með neina fjármuni meðferðis. Vinkona hans hafi yfirgefið verslunina og ákærði farið í hurðina til að kalla á eftir henni. Í því hafi starfsmaður verslunarinnar komið að ákærða. Hafi ákærði ekki ætlað að stela umræddum varningi. Væri rangt sem starfsmaðurinn héldi fram að ákærði hafi verið stöðvaður fyrir utan verslunina. Ekki kvaðst ákærði hafa aðrar upplýsingar um vinkonu sína en að hún héti Þóra.

J kvaðst hafa verið að störfum í versluninni þennan dag. Hafi hann verið uppi á skrifstofu með verslunarstjóra. Hafi hann séð ákærða stinga inn í vasa á jakka sem hann hafi verið í samloku. Því næst hafi ákærði gengið að mjólkurkæli en ekki hafi J séð hann stinga inn á sig drykkjarjógúrt þar. Því næst hafi ákærði gengið fram hjá afgreiðslukassa í versluninni og að útihurð. Hafi J stöðvað för ákærða í hurðinni. Hafi K verslunarstjóri rætt þar við ákærða. Stúlka hafi verið með ákærða í för í búðinni. Þegar þessir atburðir hafi átt sér stað hafi hún staðið í röð við afgreiðslukassa í búðinni. Kvaðst J hafa verið vitni að því er ákærði hafi afhent verslunarstjóranum nefndan varning.

Niðurstaða:

Ákærði neitar sök. Hefur hann borið því við að hann hafi áttað sig á því að hann hafi ekki verið með fjármuni meðferðis eftir að hann hafi verið kominn með samloku og drykkjarjógúrt í hendi í versluninni 11-11 að Laugavegi 116 miðvikudaginn 3. október 2007. Hafi hann ætlað að fá fjármuni lánaða hjá vinkonu sinni og í því skyni farið á eftir henni að útidyrum verslunarinnar.

Í máli þessu liggja fyrir upptökur úr eftirlitsmyndavélakerfi verslunarinnar. Sýna þau mann er svipar til ákærða og stúlku koma inn í verslunina. Stúlkan fær afgreiðslu á afgreiðslukassa og dokar síðan við. Ákærði kemur þá að afgreiðslukassanum en gengur rakleitt fram hjá honum og verður stúlkunni samferða út úr versluninni. Eru þau bæði komin út á stétt fyrir utan verslunina þegar verslunarstjóri fer á eftir ákærða og stöðvar för hans. Sést þar sem verslunarstjórinn ræðir við ákærða en í því kemur annar starfsmaður verslunarinnar að sem samkvæmt framburði J er nefndur J. Við svo búið kemur ákærði aftur inn í verslunina og afhentir verslunarstjóra varning sem kemur í ljós þegar verslunarstjórinn lætur hann á afgreiðsluborð við afgreiðslukassa. Samrýmist það því að um samloku og drykk geti verið að ræða. Þau atriði sem koma fram á nefndu myndskeiði staðfesta þann framburð sem J hefur gefið fyrir dómi um framferði ákærða greint sinn. Þá slær framburður ákærða sjálfs um atvik í versluninni föstu að ákærði er sá einstaklingur er framangreint myndskeið sýnir. Er engum vafa undirorpið að ákærði var kominn út úr versluninni þegar verslunarstjórinn stöðvaði för hans og ber myndskeiðið ekki með sér að ákærði hafi ætlað að fara aftur inn í verslunina til að greiða fyrir varninginn. Hafði hann þar með kastað eign sinni á þá muni sem hann hafði með höndum og ekki greitt fyrir. Með því hefur ákærði gerst sekur um þjófnað og verður hann því sakfelldur samkvæmt þessum lið ákæru. Er háttsemin réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

VII. kafli.

Samkvæmt skýrslu lögreglu frá laugardeginum 24. nóvember 2007 kl. 17.50 veitti lögregla á þeim tíma athygli bifreið með skráningarnúmerið NK-205 þar sem bifreiðinni var ekið um tvær bíllengdir áfram og síðan aftur á bak inn í bifreiðastæði á Einholti við Meðalholt í Reykjavík. Var ákveðið að athuga með ástand ökumanns. Í skýrslunni kemur fram að ákærði hafi verið ökumaður bifreiðarinnar. Strokupróf hafi verið framkvæmt og hafi það gefið jákvæða svörun við neyslu örvandi fíkniefna. Hafi ákærði verið handtekinn og fluttur á lögreglustöð. Þar hafi læknir dregið úr ákærða blóð til rannsóknar. Einnig hafi ákærði látið þvagsýni í té. Að því loknu hafi ákærði verið frjáls ferða sinna.

Samkvæmt matsgerð Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði frá 19. desember 2007 mældist amfetamín í blóði ákærða umrætt sinn. Þá hafi einnig fundist amfetamín og tetrahýdrókannabínólsýra í þvagi. Styrkur amfetamíns hafi samsvarað lækningalegum skömmtum. Tetrahýdrókannabínól hafi fundist í þvagi en ekki blóði sem bendi til þess að ákærði hafi neytt kannabis en ekki lengur verið undir áhrifum þess þegar blóðsýni hafi verið tekið.

Á meðal rannsóknargagna málsins er bréfi lögreglustjóra í tilefni af grun um fíkniefnaakstur. Í bréfið eru færðar upplýsingar um ökumann. Tekið er fram að ökumaður sé þekktur af lögreglu. Undir bréfið er ritað nafn ákærða og ber sú undirritun með sér, miðað við aðra undirritun ákærða í lögreglurannsóknum þeirra mála sem eru hluti af sakarefni máls þessa, að vera undirritun ákærða sjálfs.

Við aðalmeðferð málsins fyrir dómi kvaðst ákærði ekki muna eftir þessu tilviki. Ákærði kvaðst geta staðfest að sú bifreið sem mál þetta fjallaði um hafi verið staðsett fyrir utan heimili ákærða í Meðalholti. Ekki kvaðst ákærði geta skýrt niðurstöðu í matsgerð Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði.

Fyrir dóminn komu lögreglumennirnir L og M. Var framburður lögreglumannanna á sama veg um atvik. Kváðu þeir bifreið hafa verið ekið af stað út úr bifreiðastæði við Meðalholt. Eftir að hafa verið ekið um tvær bíllengdir hafi bifreiðin stöðvast og henni síðan ekið afturábak aftur inn í bifreiðastæðið. Ástaða hafi verið talin til að hafa afskipti af ökumanni og athuga með ástand hans. Ákærði hafi verið ökumaður bifreiðarinnar. Strokupróf hafi reynst jákvætt um að ákærði hafi ekið bifreiðinni undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Af þeim ástæðum hafi ákærði verið handtekinn og fluttur á lögreglustöð. Þar hafi læknir tekið úr ákærða blóðsýni, auk þess sem ákærði hafi látið þvagsýni í té. Málið hafi í framhaldi fengið venjubundinn framgang. L kvaðst áður hafa haft afskipti af ákærða og oft hafa hitt hann. M kvaðst vita til þess að L hafi þekkt ákærða fyrir þennan atburð.

Niðurstaða:

Með hliðsjón af samhljóða framburðum lögreglumannanna L og M er komin fram lögfull sönnun þess efnis að ákærði hafi laugardaginn 24. nóvember 2007 ekið bifreið með skráningarnúmerið NK-205 um tvær bíllengdir áfram og síðan afturábak á bifreiðastæði við Einholt í Reykjavík. Samkvæmt niðurstöðu matsgerðar um rannsókn á blóði og þvagi ákærða greindist hann með ávana- og fíkniefni í blóði þetta sinn. Með hliðsjón af því og dómaframkvæmd á þessu réttarsviði verður ákærði sakfelldur fyrir akstur bifreiðar undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Verður hann því sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemin rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

VIII. kafli.

Samkvæmt skýrslu lögreglu frá þriðjudeginum 11. desember 2007 kl. 23.20 voru lögreglumennirnir N og O á ómerktri lögreglubifreið við eftirlit er þeir urðu varir við að bifreið með skráningarnúmerið Z var ekið inn á bifreiðastæði við Írabakka í Reykjavík. Báru lögreglumenn þar kennsl á ákærða. Kemur fram að tal hafi verið haft af ákærða, sem hafi verið farþegi í bifreiðinni. Þá hafi verið rætt við ökumann bifreiðarinnar. Báðu lögreglumennirnir um leyfi til að fá að leita að fíkniefnum á ákærða og ökumanni. Hafi ökumaður heimilað leit og ekkert fundist á honum. Hafi ökumaður jafnframt heimilað leit í bifreiðinni, en ekkert fundist við þá leit. Ákærði hafi einnig heimilað leit á sér og hafi efni, sem grunur hafi leikið á um að væru fíkniefni, fundist í innri jakkavasa vinstra megin á ákærða. Hafi ákærði viðurkennt að um amfetamín væri að ræða sem ákærði hafi keypt af aðila. Efnið hafi verið ætlað til eigin nota. Tekið er fram að vettvangsskýrsla hafi verið gerð af öðrum lögreglumanni.

Á meðal rannsóknargagna málsins er skýrsla sem ber yfirskriftina Vettvangsskýrsla vegna fíkniefnamisferlis. Er nafn ákærða skráð sem nafn sakbornings. Er fært að ákærði skilji réttarstöðu sína og óski ekki eftir verjanda. Eigi hann það efni sem lögregla hafi lagt hald á. Um sé að ræða amfetamín og þyngd þess 1 gr. Fyrir efnið hafi ákærði borgað 4.700 krónur. Hafi ákærði ætlað að láta félaga sinn fá efnið. Undir skýrsluna ritar ákærði eigin hendi. Skýrsluna skráir P lögreglumaður.

Samkvæmt efnaskýrslu lögreglu frá 12. desember 2007 reyndist það fíkniefni sem lagt var hald á hjá ákærða vera amfetamín og magn þess 1,08 g.

Ákærði kvaðst muna eftir umræddu tilviki. Hafi ákærði játað hjá lögreglu að hafa átt efnið þar sem lögregla hafi þvingað hann til þess. Hafi ákærði fyrr um kvöldið farið í jakka sem hann hafi ekki sjálfur átt. Jakkann hafi átt drengur að nafni Valdi. Jakkann hafi ákærði fundið í bifreið þeirri sem hann og ökumaðurinn hafi verið á um kvöldið. Efnið hafi ákærði því ekki átt. Hafi ákærða verið tjáð að hann yrði færður á lögreglustöð ef hann neitaði því að eiga efnið.

Lögreglumennirnir O og N höfðu afskipti af ákærða greint sinni. Var framburður þeirra samhljóða um atvik. Greindu þeir svo frá fyrir dómi að þeir hafi verið við störf í ómerktri lögreglubifreið. Þeir hafi séð til ferða ákærða þar sem hann hafi verið farþegi í bifreið. Hafi þeir tekið ákvörðun um að hafa tal af ákærða. Hafi virst sem ákærði væri hugsanlega með fíkniefni í fórum sínum, en það hafi verið merkt af því hve hress ákærði hafi verið. Hafi ákærði tjáð lögreglumönnum að hann væri á leið í samkvæmi. Hafi lögreglumenn farið þess á leit að fá að leita á ákærða að hugsanlegum fíkniefnum. Við þá leit hafi fundist efni á ákærða sem grunur hafi leikið á um að væru fíkniefni. Hafi ákærði viðurkennt að eiga efnið og hafi því verið ákveðið að afgreiða málið á staðnum. O og N hafi ekki verið með í lögreglubifreiðinni sérstakt form sem notað væri við þær aðstæður að lagt væri hald á fíkniefni og viðkomandi játaði vörslur efnanna. Af þeim ástæðum hafi lögreglumaðurinn P komið á staðinn og afgreitt málið. Leitað hafi verið á ökumanni bifreiðarinnar en engin efni fundist á honum. Leitin hafi farið þannig fram að O hafi leitað á ökumanni bifreiðarinnar og N fylgst með þeirri leit á meðan. Því næst hafi N leitað á ákærða og O fylgst með þeirri leit. Ákærði hafi á engum tíma verið þvingaður til að játa vörslur efnanna.

P lögreglumaður kvað óskað hafa verið eftir aðstoð sinni að Írabakka í Reykjavík. Hafi P tekið við máli ákærða og lokið því í samræmi við gögn málsins. Þá hafi aðrir lögreglumenn verið búnir að framkvæma leit á ákærða. Þá hafi samferðamaður ákærða verið farinn af staðnum er P hafi komið þangað. Þeir lögreglumenn er kallað hafi P til hafi yfirgefið staðinn á meðan P hafi verið að ganga frá málinu. Ákærði hafi gengist við að eiga efnin. Að öðrum kosti hafi það form lögregluskýrslu sem notað hafi verið ekki verið notað. Væri játning forsenda fyrir því að slík vettvangsskýrsla væri notuð. Ákærði hafi að engu leyti verið beittur þrýstingi við játningu.

Niðurstaða:

Ákærði neitar sök. Kveðst hann ekki hafa verið eigandi þeirra efna er lögregla lagði hald á að Írabakka þriðjudaginn 11. desember 2007. Fyrir liggur í málinu samhljóða framburður tveggja lögreglumanna sem bera um að það efni er um ræðir hafi fundist við leit á ákærða. Hafi ákærði játað að eiga efnið. Þá liggur fyrir framburður þriðja lögreglumannsins sem borið hefur um að ákærði hafi gengist við því að eiga það efni er um ræðir. Samkvæmt efnaskýrslu lögreglu var það efni sem lagt var hald á umrætt kvöld amfetamín, 1,08 g að þyngd. Þá er til þess að líta að á meðal gagna málsins er skýrsla sem ákærði hefur undirritað þar sem hann játar að vera eigandi þessa efnis. Með hliðsjón af þessu er komin fram lögfull sönnun þess að ákærði hafi framið það brot sem hér er ákært fyrir og er það réttilega heimfært til refsiákvæða í ákæru.

X. kafli.

Samkvæmt skýrslu lögreglu frá sunnudeginum 20. janúar 2008 kl. 09.06 fékk lögregla á þeim tíma boð um að fara að versluninni Á stöðinni við Reykjavíkurveg 58 í Hafnarfirði. Samkvæmt tilkynningunni hafði greiðslukort verið misnotað í versluninni. Hafi þeir aðilar sem tengdust málinu verið á bifreið með skráningarnúmerið Ö. Er lögregla kom í verslunina hitti hún fyrir Ó starfsmann í versluninni. Tjáði hún lögreglu að bifreið með skráningarnúmerið Ö hafi verið ekið að versluninni og að eldsneytisdælu. Eftir að búið hafi verið að dæla á bifreiðina hafi ökumaður komið að afgreiðslulúgu. Þar hafi hann keypt vörur fyrir 16.262 krónur. Þegar greiða hafi átt fyrir varninginn hafi ökumaðurinn framvísað greiðslukorti á nafni C. Hafi Ó þekkt Cog sagt við ökumanninn að hún tæki ekki við kortinu þar sem hann ætti það ekki. Ökumaðurinn hafi þá farið að bifreiðinni og vakið þar stúlku sem verið hafi í aftursæti bifreiðarinnar. Í frumskýrslu er skráð eftir Ó að ,,þeir“ hafi látið hana ,,taka þetta á sig“ með því að framvísa korti Margrétar en hún hafi ekki verið í eðlilegu ástandi. Hafi öllum vörunum verið skilað til baka og þær verið nær óskemmdar. Eldsneytið hafi staðið út af borðinu að fjárhæð 6.873 krónur og hafi ökumaðurinn látið farsíma sinn sem tryggingu fyrir greiðslu eldsneytisins. Áður hafi hann þó tekið símakortið úr símanum. Ökumaðurinn hafi kynnt sig sem Hjörleif Jónsson en sagt að hann væri mikið að flýta sér þar sem hann væri að fara á sjó. Er Ó hafi spurt um skráningarnúmer bifreiðarinnar hafi hann sagt það vera FK-051, en viðskiptavinur séð að það hafi verið Ö. Ökumaður hafi komið nokkuð vel fyrir, verið sköllóttur og í blárri dúnúlpu. Samkvæmt frumskýrslu var tilkynnt um bifreið með skráningarnúmerið Ö áður en komið var að versluninni og að aðilar væri að bera flatskjá á milli bifreiða við Skalla á Reykjavíkurvegi. Þar hafi lögregla m.a. handtekið ákærða og hann þá verið klæddur í bláa dúnúlpu og verið sköllóttur. Lögreglumaður hafi rætt við eiganda umrædds greiðslukorts og hafi hann tjáð lögreglu að hún hafi verið að skemmta sér nóttina á undan. Hafi hún ekki verið búin að átta sig á að greiðslukorti hafi verið stolið fyrr en lögregla hafi haft samband vegna kortsins.

Mánudaginn 21. janúar 2008 mætti C á lögreglustöð og lagði fram kæru vegna misnotkunar á greiðslukorti hennar, en því hafi verið stolið frá henni kvöldið á undan ásamt öðrum hlutum í veski sem hún hafi verið með. Hafi C látið loka kortinu. Áður hafi þeim sem tekið hafi kortið tekist að nota það í lúgusjoppu.

Tekin var skýrsla af ákærða hjá lögreglu mánudaginn 20. janúar 2008. Ákærði kvaðst hafa verið ökumaður bifreiðar með skráningarnúmerið Ö sunnudaginn 20. janúar 2008. Einhver í bifreiðinni hafi látið ákærða í té greiðslukort og sagt ákærða að greiða fyrir bensín og vörur í versluninni Á stöðinni með kortinu. Hafi ákærði rétt afgreiðslukonunni kortið í þeim tilgangi að greiða með því. Hafi ákærði ekkert skoðað kortið heldur rétt afgreiðslukonunni það. Hafi hún skoðað kortið og um leið litið inn í bifreið þá sem ákærði hafi verið á og sagt að stúlkan afturí væri ekki C en hún þekkti C. Hafi ákærði þá sagt við afgreiðslukonuna að um misskilning væri að ræða og hafi ákærði því skilað vörunum til baka. Þar sem ákærði hafi verið búinn að dæla bensíni á bifreiðina hafi hann ekki getað skilað því til baka. Hafi afgreiðslukonan þá óskað eftir því að ákærði setti einhverja hluti að veði og hafi ákærði látið henni í té farsíma sinn. Ekki kvaðst ákærði muna hver úr bifreiðinni hafi rétt honum kortið. Úr því að engin C hafi verið í bifreiðinni hlyti kortið að hafa verið stolið.

Fyrir dómi greindi ákærði frá því að ekki hafi staðið til að svíkja vörur út úr umræddri verslun. Stúlka í aftursæti bifreiðarinnar hafi rétt ákærða umrætt greiðslukort og beðið hann um að kaupa fyrir sig ákveðna hluti. Hafi ákærði gert það. Er hann hafi áttað sig á mistökunum hafi hann beðist fyrirgefningar og sett síma sinn að veði fyrir bensíni sem hann hafi ekki getað skilað. Ákærði kvaðst ekki vita hver sú stúlka væri sem hafi verið honum samferða í bifreiðinni þennan dag. 

Ó kvaðst hafa verið á næturvakt í versluninni Á stöðinni þennan morgun. Vakt hennar hafi verið að ljúka. Bifreið hafi komið að versluninni og fjórir karlmenn og ein stúlka verið í bifreiðinni. Stúlkan hafi setið á milli mannanna aftur í bifreiðinni. Einstaklingarnir hafi verslað mikið í versluninni, mikið af samlokum og sígarettum. Fjárhæðin hafi verið komin í nærri 20.000 krónur. Hafi Ó þótt allt frekar dularfullt. Þegar komið hafi að því að greiða fyrir varninginn hafi henni verið afhent greiðslukort með nafni C söngkonu. Hafi Ó séð að C var ekki í bifreiðinni. Hafi karlmennirnir sagt að stúlkan í bifreiðinni væri viðkomandi. Það hafi ekki komið heim og saman. Hafi Ó þá viljað fá varninginn til baka og hafi það gengið eftir. Ökumaður bifreiðar fyrir aftan bifreiðina hafi áttað sig á því að eitthvað var að. Þar sem fólkið hafi tekið bensín á bifreiðina sem ekki hafi verið unnt að fá til baka hafi Ó viljað fá tryggingu fyrir því að greitt yrði fyrir bensínið. Hafi einn þessara einstaklinga látið hana fá farsíma sem veð. Í framhaldi af því hafi bifreiðin brunað í burtu eins hratt og kostur var. Ökumaður bifreiðarinnar fyrir aftan hafi skrifað skráningarnúmer bifreiðarinnar niður. Hafi Ó verið með það númer hjá sér er hún hafi í framhaldinu hringt á lögreglu. Ó kvaðst þekkja móður C. Hafi hún tekið sig til og hringt í C og greint henni frá atvikum. Ekki kvaðst Ó geta staðfest í dag hver hafi rétt henni greiðslukortið. Það hafi hún verið viss um er hún hafi greint lögreglu frá atvikum.

Tekin var lögregluskýrsla af Á 20. janúar 2008. Þorbergur kvaðst hafa verið að skemmta sér ásamt ákærða, É og Í. Hafi þau farið saman á bifreið til Hafnarfjarðar, en þangað hafi ákærði þurft að skreppa. Þau hafi komið við á bensínstöð og hafi ákærði dælt bensíni á bifreiðina. Þá hafi hann ætlað að kaupa fullt af dóti eins og sígarettur, inneignir, samlokur o.fl. Hafi ákærði framvísað við afgreiðslukonuna greiðslukorti. Afgreiðslukonan hafi sagt að kortið væri kort C söngkonu en C væri ekki í bifreiðinni. Hafi Í þá verið fengin til að setja kortið sitt upp í vörurnar. Ákærði hafi sagt að einhver misskilningur væri í gangi. Eftir að þau hafi farið frá bensínstöðinni hafi þau verið handtekin. Fyrir dómi kvaðst Á ekki muna eftir atvikum. Þá kvaðst hann ekki muna eftir að hafa gefið lögregluskýrslu vegna þessa máls daginn eftir handtöku. Kvaðst Á geta staðfest undirritun sína undir lögregluskýrslu í málinu. Á þessum tíma hafi hann verið í óreglu. Kvaðst Á ekki hafa ástæðu til að efast um framburð sinn hjá lögreglu.

Tekin var lögregluskýrsla af Í 20. janúar 2008. Bar hún að nóttin á undan hafi verið sér mjög erfið. Hafi hún verið í miðbæ Reykjavíkur ásamt kærasta sínum og henni væntanlega verið gefin einhver lyf. Hafi hún orðið mjög rugluð og myndi lítið eftir kvöldinu. Hafi hún og kærasti hennar, É, fengið far hjá þrem mönnum sem hún hafi lítið kannast við, nema þá AA. Ákærði hafi ekið bifreiðinni, en É setið aftur í hjá Í. Ákærði hafi ekki viljað skutla þeim strax heim og sagt að fyrst þyrfti hann að sinna einhverjum málum. Hafi förin endað í Hafnarfirði. Þar hafi þau farið inn í sjoppu. Af einhverjum ástæðum hafi ekki gengið eftir að borga fyrir það sem þau hafi ætlað að kaupa. Ekki vissi hún af hverju það hafi ekki gengið. Ekki hafi átt að leyfa þeim að fara og hafi hún látið greiðslukort sitt sem tryggingu í staðinn. Einnig hafi einhver annar látið síma sinn sem tryggingu. Ekki vissi Í af hverju þessi vandræði hafi orðið eða hver hafi átt það kort sem reynt hafi verið að greiða með. Hafi Í verið í mjög slæmu ástandi og ekki gert sér grein fyrir hvað hafi verið í gangi. Fyrir dómi kvaðst Í ekkert muna eftir umræddu tilviki. Hafi hún verið búin að vera slæm þegar þar var komið en það hafi hún verið í langan tíma. Staðfesti Í  undirritun sína undir lögregluskýrslu í málinu.

Niðurstaða:

Ákærða er gefið að sök að hafa reynt að svíkja út vöru og þjónustu að andvirði 16.262 krónur með því sunnudaginn 20. janúar 2008 í versluninni Á stöðinni við Reykjavíkurveg 58 í Hafnarfirði að framvísa heimildarlaust kreditkorti C, en starfsmaður verslunarinnar tók kortið af honum. Ákærði hefur viðurkennt að hafa framvísað umræddu kreditkorti við starfsmann verslunarinnar, en kortið hafi ákærði fengið afhent frá einhverjum úr bifreið sem hann hafi ekið og afhent það starfsmanninum án þess að líta á kortið. Hafi hann því ekki vitað að um væri að ræða greiðslukort C. Við mat á niðurstöðu er til þess að líta að ákærði framvísaði greiðslukorti sem hann var ekki eigandi að né nokkur annar í bifreið þeirri sem hann ók. Frásögn hans um að hann hafi verið grunlaus um heimildarleysið er haldin miklum ólíkindablæ þegar til þess er litið að ákærði keypti varning og þjónustu fyrir umtalsverða fjárhæð sem hann varð að skila þegar í ljós kom að afgreiðslustúlka í versluninni vildi ekki taka við greiðslukortinu. Samkvæmt því hafði ákærði ekki yfir öðrum fjármunum að ráða áður en hann réðst í hin umfangsmiklu innkaup. Er að mati dómsins hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærða hafi verið um það kunnugt að kaupa ætti vörur og þjónustu og greiða fyrir með greiðslukorti í eigu aðila sem ekki var viðstaddur. Í þessum dómi verður ekki tekin afstaða til þess hvort aðrir þeir sem í bifreiðinni voru hafi með háttsemi sinni umrætt sinn einnig gerst sekir um tilraun til fjársvika, eða hlutdeild í slíkum verknaði. Verður ákærði sakfelldur samkvæmt þessum lið ákæru og er háttsemin rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

XIV. kafli.

Samkvæmt skýrslu lögreglu frá miðvikudeginum 9. júlí 2008 kl. 06.38 var lögregla þann dag kvödd að verslun N1 að Straumi 9 í Ártúnsholti vegna þjófnaðar. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu voru lögreglumenn komnir á vettvang kl. 08.40. Hittu þeir fyrir BB starfsmann í versluninni. Gerði hún lögreglu grein fyrir því að maður hafi komið inn í verslunina og verið að velja sér vörur. Hafi annar viðskiptavinur látið starfsfólk verslunarinnar vita að viðkomandi einstaklingur hafi tekið gasgrill fyrir utan verslunina og sett í bifreið sína. Hafi starfsmenn skoðað myndir úr eftirlitsmyndavélakerfi verslunarinnar og þá komið í ljós að viðkomandi einstaklingur hafi ekki greitt fyrir viðkomandi vörur. Hafi starfsmaður í versluninni þá farið út á bifreiðastæði, en þar hafi viðkomandi einstaklingur setið í bifreið með skráningarnúmerið LZ-387. Þegar starfsmaður verslunarinnar hafi spurt þennan einstakling að því hvort hann ætlaði að greiða fyrir grillið hafi maðurinn sagt að hann ætti grillið og við svo búið ekið á brott. Þær vörur sem maðurinn hafi tekið hafi verið gasgrill að verðmæti 9.900 krónur og tveir brúsar af mótorolíu að verðmæti 7.280 krónur hvor. Samanlagt verðmæti varningsins hafi því verið 24.460 krónur.

Tekin var skýrsla af ákærða hjá lögreglu 7. ágúst 2008. Kvaðst ákærði ekki hafa verið að verki umrætt sinn. Við aðalmeðferð málsins fyrir dómi kvaðst ákærði ekki kannast við umræddan atburð, en hann hafi ekki verið þar á ferð. Ákærði kvaðst kannast við þá bifreið er tengd hafi verið verknaðinum, en um væri að ræða bifreið ákærða. Einhver annar hafi getað ekið bifreiðinni þar sem ákærði hafi oft lánað bifreiðina, auk þess sem lyklar að henni hafi týnst og einhver getað verið með þá.

BB kvaðst hafa komið að umræddu máli eftir að atvik hafi verið yfirstaðin. Atburðurinn hafi átt sér stað kl. 6.35 um morguninn. Hafi starfsmaður í versluninni greint henni frá því að maður hafi komið í verslunina og tekið olíu og grill. Hafi atburðurinn verið skoðaður á myndbandi úr eftirlitsmyndavélakerfi verslunarinnar. Þar hafi sést að maðurinn hafi ekki greitt fyrir varninginn. Hafi CC, starfsmaður í versluninni, farið út og rætt við manninn. DD, viðskiptavinur í versluninni, hafi bent CC á að grillið væri í bifreið mannsins. Í framhaldi af því hafi CC rætt við viðkomandi einstakling. Maðurinn hafi ekið frá versluninni án þess að greiða fyrir hlutina.  

CC kvaðst hafa verið inni á skrifstofu í versluninni. Hafi hann komið fram og DD bifreiðastjóri spurt hann hvort hann hafi verið að selja grill. Hafi CC farið fram og spurst fyrir í afgreiðslunni hvort grill hafi verið selt. Svo hafi ekki verið og hafi þá myndskeið úr eftirlitsmyndavélakerfi verslunarinnar verið skoðað. Þar hafi maður sést koma inn og fara inn í svonefnt bílahorn. Maðurinn hafi því næst farið út. DDr hafi farið út og komið inn aftur og sagt manninn enn vera úti. Hafi CC farið út og rætt við manninn. Sá hafi sagt að hann ætti grillið og því næst ekið á brott. Grillið hafi CC séð aftur í bifreið mannsins.

Gerðar voru árangurslausar tilraunir til að hafa upp á DD bifreiðastjóra við aðalmeðferð málsins. Höfðu þær tilraunir ekki borið árangur er málflutningur fór fram í málinu.

Niðurstaða:

Ákærði neitar sök og kveðst ekki kannast við að hafa verið í verslun N1 við Ártúnsholt að morgni miðvikudagsins 9. júlí 2008. Í málinu nýtur við framburðar vitnisins CC sem hefur borið um að viðskiptavinur hafi verið kominn með grill aftur í bifreið sína sem hann hafi ekki greitt fyrir. Hafi viðskiptavinurinn farið á brott frá versluninni án þess að greiða fyrir grillið og tvo brúsa af olíu sem hann hafi tekið inni í versluninni. Auk CC virðist sem DD bifreiðastjóri hafi orðið vitni að atburðinum en tilraunir til að hafa uppi á DD áður en málflutningur fór fram í málinu báru ekki árangur.

Í gögnum málsins liggja frammi upptökur úr eftirlitsmyndavélakerfi verslunarinnar. Ef upptökur þessar eru skoðaðar og virtar í heild sinni sést, svo ekki verður um villst, að ákærði leggur bifreið í bifreiðastæði hægra megin við inngang að versluninni út frá sjónarhorni eftirlitsmyndavélar. Hann kemur inn í verslunina og fer inn í svokallað bílahorn. Eftir að hafa skoðað stand með sólgleraugum tekur hann  brúsa með olíu úr hillu. Á annarri upptöku sést þar sem ákærði fer með tvo olíubrúsa út úr versluninni og fer með þá úti í bifreið. Því næst kemur hann til baka og gengur fram hjá útidyrum verslunarinnar og að pappakössum sem stillt hefur verið upp fyrir framan verslunina. Hann tekur einn kassann og gengur með hann aftur fyrir bifreið og setur kassann aftur í bifreiðina. Þegar bæði þessi myndskeið eru skoðuð fær framburður starfsmannsins CC að öllu leyti staðist um að ákærði hafi tekið grill og tvo olíubrúsa án þess að greiða fyrir varninginn. Þegar virtur er framburður CC og mat lagt á upptökur úr eftirlitsmyndavélakerfi verslunarinnar er að mati dómsins hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi framið það brot sem honum er gefið að sök. Ákæruvald hefur leiðrétt heimilisfang verslunarinnar N1 í Ártúnsholti. Er ákæruvaldinu það heimilt. Verður ákærði því sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemin réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru.      

Ákæra 1. október 2008.

1. tl.

Samkvæmt skýrslu lögreglu frá aðfaranótt þriðjudagsins 29. maí 2007 kl. 04.25 veittu lögreglumennirnir D og F, sem óku lögreglubifreið austur Kársnesbraut í Kópavogi á móts við Sæbólsbraut, því athygli að ekið hafi verið á umferðarmerki á Kársnesbraut. Hafði umferðarmerkið brotnað af festingum. Glerbrot voru á vettvangi, auk þess sem hluti af stuðara bifreiðar var á vettvangi. Samkvæmt skýrslunni var mikil olíubrák á vettvangi. Reyndist lögreglumönnum unnt að fylgja olíubrákinni eftir. Rétt austan við gatnamót Kársnesbrautar og Sæbólsbrautar veittu lögreglumenn athygli nýlegum hjólförum á umferðareyju þar sem olíubrák var jafnframt að finna. Slóðin lá inn á bifreiðastæði við verslun Toyota. Þar á bifreiðastæði var bifreið með skráningarnúmerið Y. Var vél bifreiðarinnar í gangi og heit viðkomu. Sást ákærði sitja undir stýri bifreiðarinnar sofandi fram á stýrið. Er tekið fram að þá hafi verið óskað eftir aðstoð annarra lögreglumanna. Tekið er fram að bifreiðin hafi verið mikið skemmd. Hafi verið tjón á henni að framan og á hægri hlið. Þá hafi tvær rúður verið brotnar í bifreiðinni. Í glashaldara í bifreiðinni hafi mátt sjá opna bjórflösku. Ákærði hafi verið vakinn og hann brugðist illa við afskiptum lögreglumanna. Hafi hann verið illa áttaður. Lögreglumaðurinn F hafi teygt sig inn í bifreiðina og drepið á vél bifreiðarinnar og tekið kveikjuláslykla í sínar vörslur. Þá hafi F einnig tekið í sínar vörslur fjölnota vasahníf sem legið hafi opinn inni í bifreiðinni. Ákærði hafi í fyrstu ekki svarað spurningum lögreglumanna. Hafi hann verið beðinn um að stíga út úr lögreglubifreiðinni, sem hann hafi og gert. Hafi hann verið mjög valtur og þurft að styðja hann svo hann dytti ekki. Hafi hann verið beðinn um að halla sér upp að bifreiðinni til að detta ekki og hafi hann þá sest aftur inn í bifreiðina og í ökumannssætið. Hafi lögreglumaðurinn D farið á eftir ákærða og staðið fyrir hurðinni til að ákærði gæti ekki lokað henni. Hafi ákærði teygt sig í hurðina og gert tilraunir til að loka hurðinni. Hafi F þá sett hægri fót sinn í hurðaspjaldið. Hafi ákærði þá snúið sér við í bifreiðastjórasætinu og sparkað með miklu afli og sparkið komið í vinstri sköflung D. Sparkið hafi einnig komið lítillega við vinstri sköflung F. Hafi D í því óskað eftir skjótri aðstoð frá öðrum lögreglumönnum. Hafi ákærða verið tilkynnt að hann væri handtekinn vegna gruns um ölvun við akstur. Hafi ákærði verið tekinn út úr bifreiðinni, en hann brotist um. Hafi hann náð að losa sig frá lögreglumönnum og hlaupið þvert yfir Nýbýlaveg til norðurs í átt að Lundi. Hafi lögreglumennirnir hlaupið á eftir ákærða. Hafi þeir náð til hans og náð að koma honum í jörðina. Í því hafi borist aðstoð frá öðrum lögreglumönnum. Hafi ákærði í framhaldi verið fluttur á lögreglustöð þar sem hann hafi verið vistaður í fangageymslu. Hafi D leitað á slysadeild í framhaldi af atburðum. Hafi hún verið með sjáanlegt mar á vinstri sköflungi, lítilsháttar hrufl og mar.

Ákærði var yfirheyrður af lögreglu næsta dag. Kvaðst ákærði hafa verið ölvaður og ekki muna atvik. Kvaðst ákærði ekki hafa ekið bifreiðinni umrætt sinn, en bifreiðinni hafi ekið maður sem ákærði hafi hitt fyrir utan skemmtistaðinn Pentagon í Ármúla. Ekki myndi ákærði hvernig ökumaðurinn hafi litið út. Er borið var undir ákærða að hann hafi sparkað í lögreglumann um nóttina í tengslum afskipti af ákærða lýsti ákærði því yfir að hann bæðist afsökunar vegna lögreglumannsins, en ákærða hafi fundist hann beittur óþarfa hörku. Ekki kvaðst ákærði muna eftir að hafa sparkað í lögreglumanninn. Fyrir dómi kvaðst ákærði kannast við að hafa ýtt í einhvern sem hafi verið að hafa afskipti af ákærða umrætt sinn. Ekki kvaðst ákærði hafa áttað sig á að þar væri um lögreglumann að ræða. Kvaðst ákærði ekkert muna eftir ferðalaginu umrædda nótt. Myndi hann einungis að einhver hafi verið að reyna að opna hurð bifreiðarinnar, en ákærði hafi reynt að loka hurðinni. Hafi hann í því skyni ýtt með fæti til að geta lokað hurðinni. Hafi hann ekki sparkað. Hafi ákærði verið hræddur við aðkomumennina sem hafi ávarpað ákærða á erlendu tungumáli. Hafi hann því hlaupið á brott. Atvikin væru nokkuð í móðu. Þegar ákærði hafi verið handtekinn hafi hann áttað sig á því að það væru lögreglumenn sem væru að hafa afskipti af honum.

D lögreglumaður kvaðst hafa haft afskipti af ákærða þar sem hann hafi setið undir stýri bifreiðar með skráningarnúmerið Y á bifreiðastæði við bílasölu Toyota að Nýbýlavegi 4 í Kópavogi aðfaranótt þriðjudagsins 29. maí 2007. Hafi hún verið á vettvangi ásamt lögreglumanninum F, en þau hafi verið að rannsaka grun um akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna. Er lögreglumenn hafi komið að bifreiðinni hafi ákærði verið sofandi í ökumannssæti og bifreiðin verið í gangi. Hafi D opnað hurð bifreiðarinnar bifreiðastjóramegin og vakið ákærða. Hafi ákærði sýnilega verið í annarlegu ástandi og illa áttaður á stað og stund. Hafi ákærði verið spurður að nafni og kennitölu. Hafi hann engu svarað. Hafi hann þá verið beðinn um að stíga út úr bifreiðinni, sem hann hafi og gert. Hafi hann virst eiga í erfiðleikum með að halda jafnvægi og lögreglumennirnir stutt við hann. Hafi hann verið beðinn um að halla sér upp að bifreiðinni til að halda jafnvægi en hann þá sest inn í bifreiðina á nýjan leik og aftur í ökumannssætið. Hafi lögreglumennirnir staðið fyrir hurðinni til að ákærði gæti ekki lokað henni. Hafi ákærði tekið þessu illa og byrjað að reyna að loka hurðinni. Hafi hann því næst snúið sér í sætinu þannig að hann hafi setið þvert í ökumannssætinu og með fætur í átt að lögreglumönnum. Hafi hann dregið fót að sér og því næst sparkað fram með fætinum með þeim afleiðingum að hann hafi sparkað í vinstri sköflung D. Ákærði hafi haft ásetning til sparksins, sem hafi verið fast. Þá hafi verið tekin ákvörðun um að handtaka ákærða vegna gruns um ölvunarakstur. Hafi hann því næst verið tekinn út úr bifreiðinni. Hann hafi brugðist illa við og því verið óskað eftir aðstoð fleiri lögreglumanna á vettvang. Þegar reynt hafi verið að koma ákærða í handjárn hafi hann brotist mikið um og náð að losa sig. Hafi hann hlaupið í norðurátt yfir Nýbýlaveg. Hafi ákærða verið fylgt eftir og hann yfirbugaður í framhaldinu. Því næst hafi hann verið færður á lögreglustöð. Hafi ákærða ekki getað dulist að lögreglumenn hafi verið að hafa afskipti af honum þegar hann hafi verið vakinn. Lögreglumenn hafi verið í einkennisbúningi, auk þess sem ákærða hafi verið tjáð að þau væru lögreglumenn. Lögreglumenn hafi sennilega verið með húfur á höfði. D kvaðst hafa orðið bólgin á fæti eftir sparkið frá ákærða. 

F kvaðst hafa haft afskipti af ákærða umrætt sinn. Er lögregla hafi komið að bifreiðinni Y hafi ákærði setið undir stýri bifreiðarinnar sofandi. Hafi grunur vaknað um að hann hafi verið undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna. Er ákærði hafi verið vakinn hafi hann í fyrstu verið ringlaður. Hafi D óskað eftir aðstoð annarra lögreglumanna á vettvang ef vera kynni að ákærði yrði ósáttur við afskipti lögreglu. Hafi ákærði verið beðinn um að koma út úr lögreglubifreiðinni. Hafi hann neitað í fyrstu en ráða hafi mátt af fasi hans að hann hafi viljað forðast afskipti lögreglu. Eftir nokkra stund hafi ákærði komið út úr bifreiðinni, en verið valtur á fæti. Hafi hann af þeim sökum verið beðinn um að halla sér upp að bifreiðinni. Í stað þess að gera það hafi ákærði farið aftur inn í bifreiðina og fálmað eftir handfangi til að loka hurðinni. Við það hafi D sett vinstri fót sinn við bifreiðastjórahurðina til að varna því að ákærði gæti lokað hurðinni. Sjálfur hafi F sett vinstri fót við hurðarspjaldið. Við það hafi ákærði snúið sér í bifreiðastjórasætinu og sparkað kröftugu sparki í vinstri sköflung D Sparkað hafi verið af ásetningi. Þá um leið hafi D kallað eftir tafarlausri aðstoð. Spark ákærða hafi komið lítillega við sköflung F. Ákærði hafi þá verið tekinn út úr bifreiðinni. Er leitast hafi verið við að handjárna ákærða hafi hann brotist um. Hafi verið reynt að leggja hann í jörðina en honum tekist að losa sig frá lögreglumönnunum. Hafi honum verið veitt eftirför og hann handtekinn skömmu síðar. D hafi leitað sér aðstoðar á slysa- og bráðadeild Landspítala. Sjáanlegt mar hafi verið á vinstri sköflungi hennar, bólga og lítilsháttar hrufl. Umrætt sinn hafi lögreglumenn verið í lögreglubúningi og hafi lögreglubifreiðinni verið lagt fyrir aftan þá bifreið sem ákærði hafi verið í. Hafi ákærða ekki átt að geta dulist að þar væru lögreglumenn á ferð.

Niðurstaða:

Ákærða er í þessum lið ákæru gefið að sök að hafa sparkað í lögreglumann við skyldustörf. Framburður ákærða hjá lögreglu og fyrir dómi ber þess merki að hann muni atburði næsta lítið. Í málinu liggur fyrir samhljóða framburður tveggja lögreglumanna um að ákærði hafi sparkað í vinstri sköflung lögreglumannsins D. Ákærða hefur ekki getað dulist að þar væru lögreglumenn á ferð en voru í lögreglubúningi. Þá er framburður lögreglumanna samhljóða um að spark ákærða hafi verið með þeim hætti að skýr ásetningur hafi legið að baki því. Ekki nýtur við læknisvottorð í málinu. Kemur það ekki að sök þar sem ekki er nauðsyn að sýna fram á áverka til þess að um brot gegn 1. mgr. 106. gr. laga nr. 19/1940 sé að ræða. Með hliðsjón af þessum samhljóða framburði lögreglumannanna er að mati dómsins komin fram lögfull sönnun þess að ákærði hafi framið það brot sem honum er gefið að sök í þessum tölulið ákæru og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða.

2. tl.

Samkvæmt skýrslu lögreglu frá aðfaranótt miðvikudagsins 12. mars 2008 kl. 02.03 var lögregla á þeim tíma kvödd að ZZ í Reykjavík vegna hávaða frá íbúð í kjallara, en eignin er fjöleignarhús. Fram kemur að lögreglumennirnir B og EE hafi farið á vettvang. Er lögreglumenn komu á staðinn barst til þeirra talsverður hávaði frá íbúð í kjallara. Knúði lögregla dyra og kom þá til dyra FF. Kvaðst hann vera húsráðandi. Í frumskýrslu kemur fram að FF hafi verið tjáð að lögregla væri komin vegna tilkynningar um hávaða. Hafi lögreglumaður óskað eftir því að FF framvísaði skilríkjum til staðfestingar á því að hann væri húsráðandi. FF hafi verið í annarlegu ástandi, mjög ör og órólegur í fasi. Hafi lögreglumenn grunað að FF væri undir áhrifum áfengis eða örvandi fíkniefna. Ákærði hafi verið inni í eldhúsi íbúðarinnar. Hafi framkoma hans bent til þess að hann væri undir áhrifum fíkniefna. Hafi ákærði verið mjög æstur og rokið upp. Hafi ákærði farið inn í baðherbergi íbúðarinnar. Í íbúðinni hafi einnig verið GG. Eftir ítrekaða beiðni hafi FF orðið við því að framvísa skilríkjum. Hafi hann gengið inn í íbúðina í því skyni og horfið lögreglumönnum sjónum inn í stofu íbúðarinnar. Hafi lögreglumaðurinn B í því stigið um 1 metra inn í íbúðina og hafi hann staðið á þeim stað þar til FF hafi komið til baka. Hafi FF haldið um skilríki sem hann hafi veifað framan í lögreglu. Hafi hann verið mjög æstur, öskrað á lögreglu og verið með mjög ógnandi tilburði. Í því hafi ákærði einnig komið að og sömuleiðis verið með ógnandi tilburði og öskrað á lögreglu. Eftir að FF hafi loks framvísað skilríkjum hafi honum verið tilkynnt að málinu væri þar með lokið og að lögreglumenn myndu halda á brott. Hafi B snúið sér við og ætlað að ganga á brott. Í því hafi verið gripið í lögreglujakka B aftanfrá. Hafi þar verið ákærði á ferð og hafi framferði hans borið með sér að hann hefði ekki neitt gott í hyggju. Hafi B snúið sér að ákærða og bent honum á að bakka frá. Hafi ákærði þá stigið fram og bitið snögglega í vísifingur hægri handar á B. Bitið hafi verið nokkuð fast og væri enginn vafi á því að ákærði myndi hafa bitið B til blóðs ef ekki hefðu komið til vandaðir hanskar sem B hafi verið í. Hafi B gripið um ákærða og ýtt honum frá sér. Í kjölfarið hafi B handtekið ákærða, sem veitt hafi talsverða mótspyrnu. FF hafi gert sig líklegan til að blanda sér í átökin, en EE lögreglumaður varnað honum því. Eftir þetta hafi komið á staðinn fleiri lögreglumenn og ákærði verið færður á lögreglustöð. Þar hafi ákærði verið vistaður í fangaklefa. B hafi farið á slysadeild til skoðunar að atvikum loknum.

Á meðal rannsóknargagna málsins er læknisvottorð sem Ágústa Ólafsdóttir sérfræðilæknir á slysa- og bráðadeild Landspítala hefur ritað 10. ágúst 2008 í tilefni af komu B á deildina 12. mars 2008. Í vottorðinu kemur fram að við skoðun á hægri vísifingri séu örlítil merki eftir bit. Ekki sé um opið sár að ræða.  

Tekin var skýrsla af ákærða hjá lögreglu næsta dag. Kvaðst ákærði hafa verið að skemmta sér með FF og GG að ZZ. Tónlist hafi sennilega verið stillt of hátt þannig að truflað hafi nágranna. Ákærði, FF og GG hafi orðið vör við að bankað hafi verið á dyr íbúðarinnar. FF hafi farið til dyra, en um leið hafi lögreglumaður komið inn í íbúðina. Annar lögreglumaður hafi á meðan beðið fyrir utan íbúðina. Hafi sá lögreglumaður er komið hafi inn krafist þess að fá að skoða sig um í íbúðinni. FF hafi neitað honum um það og kurteislega beðið hann um að fara. Það hafi farið í taugarnar á FF og ákærða hvernig framkoma lögreglumannsins hafi verið. Hafi ákærði því farið að skipta sér af málinu. Hafi ákærði gert lögreglumanninum grein fyrir því að hann væri að fremja húsbrot. Hafi ákærði séð að lögreglumerki á baki lögreglubúningi lögreglumannsins hafi verið orðið mjög slitið og ákærði strokið hendi yfir það. Um leið hafi ákærði tjáð lögreglumanninum að merkið væri mjög slitið. Hafi lögreglumaðurinn brugðist við með því að slá í hendi ákærða. Í framhaldi hafi hann sett vísifingur upp að andliti ákærða í um 5 cm fjarlægð frá andlitinu. Hafi móðir ákærða sagt honum í æsku að það væri dónaskapur að benda á fólk. Hafi ákærði brugðist við þessu með því að glefsa ósjálfrátt í fingur lögreglumannsins. Ekki hafi ákærði bitið fast og glefsið verið snöggt. Verknaðurinn hafi ekki verið illa meintur. Hafi lögreglumaðurinn þá ráðist á ákærða þannig að ákærði hafi fallið í rúm í stofunni. Hafi lögreglumaðurinn handjárnað ákærða, en ákærði hafi engan mótþróa sýnt. Kvaðst ákærði hafa beðið lögreglumanninn afsökunar á því að hafa strokið yfir merki á búningnum. Eftir þetta hafi ákærði verið fluttur á lögreglustöð. Ákærði kvaðst ekki hafa bitið í putta lögreglumannsins. Þá hafi ákærði ekki gripið í jakka lögreglumannsins, svo sem hann héldi fram. Ákærði kvaðst telja að lögreglumaðurinn B bæri einhvers konar kala til ákærða, en það hlyti að skýra framferði hans umrætt sinn. Ef lögreglumaðurinn hafi verið með einhvers konar áverka á fingri gætu þeir ekki hafa komið til fyrir tilstuðlan ákærða.  

B lögreglumaður bar að óskað hafi verið eftir aðstoð lögreglu að ZZ í Reykjavík vegna hávaða úr íbúð. Knúið hafi verið dyra og FF komið til dyra. Miðað við hátterni FF hafi verið rökstuddur grunur um neyslu fíkniefna á staðnum. Ákærði hafi verið á staðnum og verið mjög ör og æstur eins og FF. Hafi B óskað eftir því að FF framvísaði skilríkjum því til staðfestingar að hann væri húsráðandi. FF hafi tekið því illa í fyrstu en síðan rokið inn í stofu. B hafi í því gengið um 1 metra inn í íbúðina. FF hafi komið til baka eftir stutta stund og eftir nokkurt þref hafi hann sýnt skilríkin. Allan tímann hafi ákærði verið mjög æstur og óútreiknanlegur og á vappi í kringum þá. Eftir að staðfest hafi verið með húsráðanda hafi ætlunin verið að lögregla myndi yfirgefa húsnæðið. Hafi B snúið sér við en í því fundið að ákærði hafi gripið í jakka B. Hafi B þá snúið sér við og lyft upp hægri hendi til að tryggja fjarlægð á milli hans og ákærða. Ekki hafi B snert við ákærða né sýnt honum neina ógnandi hegðun. Hafi ákærði þá snögglega beygt sig fram og bitið í vísifingur hægri handar á B. Hafi B þá dregið höndina til baka og ýtt ákærða frá sér með hinni hendinni. Ákærði hafi fallið í rúm fyrir aftan sig. Hafi ákærði með aðstoð annars lögreglumanns verið handtekinn í framhaldi og færður á lögreglustöð. B kvaðst umrætt sinn hafa verið í sérstökum hönskum til varnar hnífum og stungum. Hafi hann farið á slysadeild eftir atburðinn og fundið nokkuð til í fingrinum. Hafi hann þakkað hönskunum fyrir að ekki hafi farið verr.

EE lögreglumaður kvaðst hafa sinnt útkallinu að ZZ ásamt B FF hafi komið til dyra er lögreglumenn hafi knúið dyra. Hafi verið óskað eftir að húsráðandi sýndi skilríki, sem hann hafi og gert. Hafi B óskað eftir að fá að litast um í íbúðinni og gengið inn. Hún hafi hins vegar beðið áfram fyrir utan íbúðina. Hafi EE séð B ræða áfram við FF. Í því hafi ákærði komið aftan að B og lagt aðra hendi á jakka FF um öxl. Hafi hún séð þar sem B hafi snúið sér við og tekið í ákærða. Við það hafi hafist ryskingar þeirra á milli. Í því hafi EE gengið inn í íbúðina. Eftir nokkur átök hafi B handjárnað ákærða. EE kvaðst ekki hafa séð ákærða bíta í fingur B en það hafi verið vegna þess að þeir hafi horfið henni sjónum eftir að ákærði hafi lagt hendi á B. 

FF kvaðst hafa verið á heimili sínu umrætt sinn ásamt ákærða og GG. Lögregla hafi knúið dyra og tilkynnt að borist hafi kvörtun vegna hávaða. FF hafi rætt við lögreglumanninn, sem skyndilega hafi séð ákærða og þá sagt eitthvað eins og ,,þú helvítið þitt“. Lögreglumaðurinn hafi farið inn í íbúðina og verið með mjög ógnandi tilburði. Hafi hann því farið inn í íbúðina óboðinn. Hafi FF verið ósáttur við að lögreglumaðurinn hafi farið óboðinn og á útiskóm inn í íbúðina. Í framhaldi af þessu hafi átt sér stað ryskingar á milli ákærða og lögreglumannsins. Í lögregluskýrslu sem tekin var af FF bar hann að hann hafi séð þar sem ákærði hafi glefsað í fingur lögreglumannsins. Þeir hafi síðan tekist á og ákærði verið handtekinn. Fyrir dómi kvaðst FF ekki vera viss um að það væri rétt eftir sér haft. Hann væri ekki viss um að hafa séð þetta. Ekki kvaðst FF muna eftir því að hafa verið beðinn um skilríki þessa nótt. 

GG kvaðst hafa verið á ZZ ásamt ákærða og FF. Lögregla hafi knúið dyra. Hafi ákærði strax farið að rífa kjaft við lögregluna. Hafi FF sagt við ákærða og GG að vera ekki að skipta sér af þessu. Hafi hún reynt að ýta ákærða inn í stofu en hann hafi verið æstur og viljað skipta sér af. Hafi hún ekki vitað fyrr en lögreglumaður hafi gengið inn í íbúðina og hafi þau spurt hann af hverju hann færi ekki úr skónum. Eftir að lögreglumaðurinn hafi sagt eitthvað við ákærða hafi ákærði staðið á fætur og glefsað í puttann á lögreglumanninum. Þá hafi farið af stað ryskingar þeirra á milli sem hafi endað með því að ákærði hafi verið handtekinn og færður á lögreglustöð.

Niðurstaða:

Ákærða er gefið að sök að hafa bitið í vísifingur hægri handar á lögreglumanninum B þar sem B var við skyldustörf að ZZ í Reykjavík aðfaranótt miðvikudagsins 12. mars 2008. Ákærði neitar sök. Hann hefur þó viðurkennt að hafa glefsað laust í fingur lögreglumannsins. Lögreglumaðurinn B hefur fullyrt að ákærði hafi bitið í fingur sér umrætt sinn. Þá hefur vitnið GG einnig staðhæft að ákærði hafi glefsað í fingur lögreglumannsins. EE kvaðst ekki hafa séð það atvik vegna þess að veggur í íbúðinni að ZZ hafi verið á milli. Þá hefur húsráðandi borið í lögregluskýrslu að hafa séð ákærða glefsa í fingur lögreglumannsins, þó svo húsráðandinn hafi ekki verið reiðubúinn að fullyrða það fyrir dóminum. Í málinu liggur fyrir áverkavottorð læknis. Samkvæmt því sást örlítið merki eftir bit á hægri vísifingri B. Þegar það er virt verður lagt til grundvallar að B hafi verið bitinn í fingur, en slíkur áverki kemur ekki við það eitt að glefsað sé í fingur. Þegar þetta er virt verður lagt til grundvallar að ákærði hafi bitið B í fingur svo sem honum er gefið að sök. Með hliðsjón af því verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða.

3. tl.

Samkvæmt skýrslu lögreglu frá aðfaranótt föstudagsins 18. apríl 2008 kl. 01.19 voru lögreglumenn sendir að veitingastaðnum Mónakó við Laugaveg en starfsfólk staðarins hafði ýtt á neyðarhnapp. Í viðræðum við starfsfólk kom fram að ákærði hafi verið inni á staðnum og verið mjög ógnandi og æstur. Í frumskýrslu kemur fram að rætt hafi verið við ákærða fyrir utan staðinn. Hafi hann verið mjög æstur og brugðist illa við afskiptum lögreglu. Hafi hann öskrað á lögreglumenn að þeir skyldu láta hann í friði ella myndi hann berja þá. Í framhaldi hafi ákærði ætlað að æða á brott. Hafi þá verið tekin ákvörðun um að handtaka ákærða. Í framhaldi hafi hann verið fluttur á lögreglustöð. Í viðræðum við varðstjóra hafi ákærði róast og skýrt háttsemi sína fyrr um kvöldið og hvað fyrir hann hafi komið. Eftir að varðstjóri hafi tekið ákvörðun um vistun ákærða hafi ákærði orðið mjög æstur á nýjan leik. Hafi ákærði því næst verið færður í fangamóttöku. Af því loknu hafi hann verið færður í fangaklefa. Eftir að búið hafi verið að loka fangaklefanum og læsa hafi ákærði farið að berja á klefahurðina. Hafi hann náð að opna litla opnanlega lúgu á hurð að fangaklefanum. Hafi hann í framhaldi gert tilraun til að taka slagbrand frá hurðinni. Hafi lögreglumennirnir E, HH og II farið þegar að hurðinni og sett slagbrandinn aftur í læsingu. Þá hafi þeir ýtt handlegg ákærða aftur inn um lúgu á klefahurðinni. Á meðan það hafi verið gert hafi ákærði náð að hrækja út um lúguna og hrákinn lent í andliti lögreglumannsins E.

Tekin var lögregluskýrsla af ákærða næsta dag. Kvaðst ákærði hafa verið ósáttur við handtöku lögreglu og að hafa þurft að gista í fangageymslum lögreglu. Kvaðst ákærði ekki minnast þess að hafa hrækt á lögreglumanninn E. Hann myndi hins vegar eftir að hafa náð að opna lúgu á hurð fangaklefans. Fyrir dómi kvaðst ákærði ekki muna eftir atvikinu. Hafi hann sennilega verið mjög ölvaður umrætt sinn. Ákærði kvaðst telja það vera mjög ósennilegt að hann hafi hrækt á lögreglumann. 

E lögreglumaður kvaðst hafa haft afskipti af ákærða á Laugavegi. Hafi hann verið mjög æstur og hótað vegfarendum. Ákveðið hafi verið að handtaka ákærða og færa á lögreglustöð. Í viðtali við varðstjóra hafi ákærði verið rólegur en aftur orðið æstur er fyrir hafi legið ákvörðun um að ákærði skyldi vistaður í fangageymslu. Ákærði hafi verið færður í fangaklefa. Er lögreglumenn hafi verið komnir frá klefanum hafi lúga á hurðinni opnast og ákærði reynt að opna hurðina. Hafi lögreglumenn flýtt sér til baka að klefahurðinni. Er lögreglumenn hafi verið að ýta hendi ákærða til baka inn um lúguna hafi ákærði hrækt út um lúguna og hrákinn lent í andliti E. Tveir aðrir lögreglumenn hafi staðið sitt hvoru megin við lúguna en E beint á móti lúgunni. Hafi verið augljóst að tilgangur ákærða hafi verið að hrækja á lögreglumennina.

HH lögreglumaður kvaðst hafa haft afskipti af ákærða þessa nótt. Eftir að ákærði hafi verið kominn inn í fangaklefa hafi hann náð að opna lúgu á klefanum. Lögreglumenn hafi hraðað sér til baka að dyrunum og séð til þess að dyrnar væru læstar. Þá hafi þeir lokað lúgunni og í því skyni ýtt hendi ákærða til baka. Í því hafi ákærði náð að hrækja út um lúguna og hrákinn lent á lögreglumanninum E. Hrákinn hafi lent í andliti lögreglumannsins. Blóð hafi verið í hrákanum.

II lögreglumaður kvaðst hafa haft afskipti af ákærða þessa nótt. Eftir að ákærði hafi verið kominn inn í fangaklefa hafi lögreglumenn gengið á brott frá klefanum. Ákærði hafi lamið á hurðina þannig að lúga á hurðinni hafi opnast. Hafi hann sett hendi út og reynt að opna dyrnar. Lögreglumennirnir hafi þá farið aftur að hurðinni og reynt að setja hendi ákærða aftur inn um lúguna. Í því hafi ákærði hrækt út um lúguna og hrákinn farið framhjá II. Ekki hafi II séð hrákann lenda framan í E þar sem II hafi verið að horfa í aðra átt, þó svo hann hafi greinilega séð hrákann koma út um lúguna.

Niðurstaða:

Ákærði neitar sök og kveðst ekki hafa hrækt framan í lögreglumanninn E aðfaranótt föstudagsins 18. apríl 2008 í fangaklefa á lögreglustöðinni við Hverfisgötu. Þrír lögreglumenn hafa borið um þetta atvik. Tveir þeirra hafa fullyrt að ákærði hafi hrækt út um lúgu á hurð að fangaklefa og að hrákinn hafi lent í andliti lögreglumannsins E. Sá þriðji hefur staðfest að ákærði hafi hrækt út um lúguna, þó svo hann hafi ekki séð hvar hrákinn hafi lent. Með vísan til þessa telur dómurinn sannað að ákærði hafi af ásetningi hrækt út um lúgu á hurð fangaklefans. Tilgangur ákærða með þeirri háttsemi hefur ekki getað verið annar en að hafa ætlað hrákanum að lenda á einhverjum lögreglumannanna. Sú fyrirætlan tókst með því að hrákinn lenti í andliti lögreglumannsins E. Með hliðsjón af því hefur ákærði gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í þessum lið ákæru og er háttsemin réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.

Ákæra 6. október 2008.

Ákærði hefur játað sök samkvæmt öllum köflum þessarar ákæru utan að hann kveður sjónvörp samkvæmt IV. kafla hafa verið 21 en ekki 22. Um þetta atriði hefur ekki farið fram sérstök sönnunarfærsla og verður í niðurstöðu miðað við að sjónvarpstækin hafi verið 21. Með vísan til játningar ákærða, sem samrýmist gögnum málsins, er sannað að ákærði hefur framið þau brot sem honum eru gefin að sök í ákæru og er háttsemin rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Ákærði er fæddur í desember 1975. Samkvæmt ákæru var ákærði fyrst dæmdur á árinu 1994 er hann var dæmdur í skilorðsbundna refsingu fyrir þjófnað. Hann gekkst undir sátt fyrir umferðarlagabrot á árinu 1998. Á árinu 2000 var hann dæmdur í skilorðsbundið fangelsi fyrir brot gegn 173. gr. almennra hegningarlaga. Hann var dæmdur í skilorðsbundið fangelsi á árinu 2002 fyrir þjófnað. Hann gekkst undir sátt á árinu 2004 fyrir umferðarlagabrot. Hann var dæmdur á árinu 2005 fyrir þjófnað. Hann gekkst undir sáttir á árinu 2006 fyrir brot gegn umferðarlögum. Hann gekkst undir sáttir í apríl og september 2007 fyrir umferðarlagabrot. Loks gekkst hann undir sátt í nóvember 2007 fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Brot ákærða samkvæmt ákæru ríkissaksóknara 22. september 2008 eru framin á sama degi og ákærði gekkst undir sekt á lögreglustöð vegna umferðarlagabrots og áður en ákærði gekkst undir sátt 15. nóvember 2007 fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Eru brotin hegningarauki að því leyti og ber því að tiltaka refsingu eftir 78. gr. laga nr. 19/1940. Að því er ákæru lögreglustjóra frá sama degi varðar eru brot samkvæmt I. til IV. kafla ákæru framin fyrir báðar ofangreindar sáttir og því hegningarauki. Brot samkvæmt V. og VI. kafla eru framin fyrir síðari sáttina og því hegningarauki að því leyti. Brot ákærða samkvæmt 1. tl. ákæru ríkissaksóknara frá 1. október 2008 eru framin fyrir sáttir frá í september og nóvember 2007 og því hegningarauki. Að því er ákæru frá 6. október 2008 varðar eru brot samkvæmt I. og II. kafla ákæru framin áður en gengist var undir sáttina 15. nóvember 2007 og því hegningarauki. Ákærði hefur í þessu máli verið sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni í 5 skipti. Þá hefur hann verið sakfelldur fyrir þjófnað í 13 skipti og nam þjófnaðarandlag í eitt skiptið umtalsverðum fjárhæðum eða ríflega 4.500.000 krónum samkvæmt ákæru. Hann hefur verið sakfelldur fyrir tilraun til fjársvika í tvígang og eignaspjöll. Loks hefur hann verið sakfelldur fyrir nytjastuld, í fimm skipti akstur bifreiðar undir áhrifum ávana- og fíkniefna og í þrígang sviptur ökurétti. Brotahrina ákærða var löng. Hefur hann sýnt einbeittan brotavilja og af fremsta megni reynt að hylja slóð sína. Í X. kafla ákæru lögreglustjóra 22. september 2008 og IV. kafla ákæru 6. október 2008 framdi ákærði brotið í félagi við aðra menn og er það til refsiþyngingar, sbr. 2. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940. Að því er brot gegn valdstjórninni varðar beitti ákærði ekki sérstaklega ofbeldisfullum árásum á lögreglumenn, en háttsemi hans var fremur lævísleg. Á ákærði sér þær einu málsbætur að hann hefur játað brot sín samkvæmt þeim ákæruliðum er hér að framan getur. Með vísan til alls þessa, sbr. og 77. gr. laga nr. 19/1940, er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 3 ár. Til frádráttar refsingu kemur óslitið gæsluvarðhald ákærða frá 6. ágúst 2008 til dómsuppsögudags. 

Með vísan til lagaákvæða í ákæru er ákærði sviptur ökurétti í 5 ár frá uppkvaðningu dómsins að telja.

Með vísan til lagaákvæða í ákæru skulu upptæk gerð til ríkissjóðs 1,36 g af amfetamíni, er lagt var hald á við rannsókn málsins.

Í málinu hafa verið hafðar uppi skaðabótakröfur á hendur ákærða. Eru þær sem hér segir:

Að því er ákæru frá 22. september 2008 varðar er í V. kafla krafist skaðabóta að fjárhæð 451 króna. Er um að ræða skaðabætur fyrir samloku og drykkjarjógúrt er ákærði hefur verið sakfelldur fyrir að stela. Myndir úr eftirlitsmyndavélakerfi sýna að verslunarstjóri fékk þennan varning til baka. Þá taldi starfsmaður í versluninni sennilegt að varningi þessum hafi einfaldlega aftur verið stillt upp í versluninni. Með hliðsjón af þessu og því að kröfunni hefur ekki verið fylgt eftir verður kröfunni vísað frá dómi.

Hagkaup hf. hafa krafist skaðabóta að fjárhæð 5.303 krónur samkvæmt 2. tl. IX. kafla ákæru. Ákærði hefur samþykkt skaðabótakröfuna og verður hún tekin til greina svo sem í dómsorði er kveðið á um. Þá hafa Hagkaup hf. krafist skaðabóta að fjárhæð 8.372 krónur samkvæmt XI. kafla ákæru. Ákærði hefur einnig samþykkt þessa skaðabótakröfu og verður hún tekin til greina svo sem í dómsorði er kveðið á um.

Orkuveita Reykjavíkur hefur krafist skaðabóta að fjárhæð 40.170 krónur samkvæmt XII. kafla ákæru. Ákærði hefur mótmælt bótakröfunni. Ákærði hefur í niðurstöðu verið sakfelldur fyrir að hafa kýlt og sparkað í rafmagnskassa samkvæmt ákæruliðnum með þeim afleiðingum að rafmagnsmælar skemmdust. Ber hann skaðabótaábyrgð á því tjóni sem hann hefur valdið. Skaðabótakrafan hefur verið rökstudd með fullnægjandi hætti af hálfu bótakrefjanda og verður hún tekin til greina svo sem í dómsorði er kveðið á um.

Áfengis og tóbaksverslun ríkisins hefur krafist skaðabóta samkvæmt XIII., XV., XVI., XVII., XVIII., og XIX. köflum ákæru. Hefur ákærði samþykkt allar framkomnar skaðabótakröfur og verða þær dæmdar svo sem í dómsorði er kveðið á um. 

Loks hefur Norvik hf. krafist skaðabóta að fjárhæð 4.571.631 króna samkvæmt IV. kafla ákæru 6. október 2008. Ákærði hefur mótmælt skaðabótakröfunni. Ákærði er skaðabótaskyldur gagnvart því tjóni sem hann hefur valdið Norvik hf. með háttsemi sinni samkvæmt IV. kafla ákæru 6. október 2008. Er í bótakröfunni krafist skaðabóta að fjárhæð 4.571.631 króna og vísað að öðru leyti í gögn málsins. Kröfunni hefur ekki verið fylgt eftir við meðferð málsins fyrir dómi. Hefði nauðsyn borið til þess til að skýra kröfufjárhæðina m.t.t. gagna málsins. Þar sem það var ekki gert verður ekki hjá því komist að vísa kröfunni frá dómi.

Ákærði greiði sakarkostnað samkvæmt yfirlitum lögreglustjóra um sakar­kostnað og nemur fjárhæð hans 626.506 krónum. Þá greiði hann málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, með þeim hætti er í dómsorði greinir.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Kolbrún Benediktsdóttir fulltrúi ríkissaksóknara.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð:

Ákærði, Már Ívar Henrysson, sæti fangelsi í 3 ár. Til frádráttar refsingu kemur gæsluvarðhald ákærða frá 6. ágúst 2008 til dómsuppsögudags.

Ákærði er sviptur ökurétti í 5 ár frá uppkvaðningu dómsins að telja.

Upptæk eru gerð til ríkissjóðs 1,36 g af amfetamíni, er lagt var hald á við rannsókn málsins.

Ákærði greiði Hagkaupum hf. 13.675 krónur ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, af 5.303 krónum frá 13. desember 2007 til 31. janúar 2008 en af 13.675 krónum frá þeim degi til 6. október 2008, en vöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laganna af fjárhæðinni frá þeim degi til greiðslu­dags.

Ákærði greiði Orkuveitu Reykjavíkur 40.170 krónur ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 15. apríl 2008 til 7. október 2008, en vöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðslu­dags.

Ákærði greiði Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins 30.306 krónur ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 11. júlí 2008 til 7. október 2008, en vöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðslu­dags.

Skaðabótakröfu Kaupáss hf. samkvæmt V. kafla ákæru lögreglustjóra frá 22. september 2008 og kröfu Norvik hf. samkvæmt IV. kafla ákæru frá 6. október 2008  er vísað frá dómi.

Ákærði greiði 1.233.070 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar héraðsdómslögmanns, 606.564 krónur.