Hæstiréttur íslands

Mál nr. 447/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Fimmtudaginn 11

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999.

Nr. 447/1999.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. c. liður l. mgr. og 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Talið var að ekki væri unnt að úrskurða X, 16 ára, í gæsluvarðhald á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, þar sem að honum yrði aldrei gerð hærri refsing fyrir brot sitt en 8 ára fangelsi, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hins vegar var talið að færðar hefðu verið nægar líkur fyrir því að ætla mætti að X mundi halda áfram afbrotum ef ekki kæmi til gæsluvarðhalds og var honum gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. nóvember 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. nóvember sl., þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 5. janúar 2000 kl. 14. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að úrskurður héraðsdómara verði felldur úr gildi, en til vara að í stað gæsluvarðhalds verði hann vistaður á viðeigandi stofnun samkvæmt 110. gr. laga nr. 19/1991.

Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Eins og greinir í úrskurði héraðsdómara er varnaraðili borinn sökum um að hafa stungið A tvívegis með hnífi í síðuna aðfaranótt 3. nóvember 1999 og veitt honum þannig lífshættulega áverka. Varnaraðili hefur viðurkennt verknaðinn. Er því fyrir hendi rökstuddur grunur um að hann hafi brotið gegn ákvæði 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eða 2. mgr. 218. gr. sömu laga.

Varnaraðili er 16 ára að aldri. Tekur ákvæði 2. töluliðar 1. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga þannig til hans, en samkvæmt því yrði honum aldrei gerð hærri refsing vegna ætlaðs brots en 8 ára fangelsi. Með hliðsjón af því verður varnaraðila ekki gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, enda er ekki fullnægt því skilyrði þess ákvæðis að hann sé grunaður um afbrot, sem varðað geti hann 10 ára fangelsi.

Með hliðsjón af brotaferli varnaraðila, sem rakinn er í úrskurði héraðsdóms, má fallast á með sóknaraðila að ástæða sé til að ætla að varnaraðili muni halda áfram brotum meðan máli hans er ekki lokið, haldi hann óskertu frelsi. Verður því tekin til greina krafa sóknaraðila um gæsluvarðhald yfir varnaraðila á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Er gæsluvarðhaldinu markaður hæfilegur tími með hinum kærða úrskurði.

Við ákvörðun um vistun varnaraðila í gæsluvarðhaldi verður að taka sérstakt tillit til ungs aldurs hans, en ekki eru fyrir hendi nægileg gögn til stuðnings því að skilyrði séu til að mæla fyrir um vistun hans á sjúkrahúsi eða viðeigandi stofnun samkvæmt 110. gr. laga nr. 19/1991.

Samkvæmt framangreindu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. nóvember 1999.

Lögreglan hefur krafist þess að kærða X [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 5. janúar nk. kl. 14.00 á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 en til vara á grundvelli e- og d-liða 1. mgr. sömu lagagreinar.

Kærði hefur mótmælt fram kominni kröfu.

Í greinargerð lögreglu  kemur fram að um kl. 2:17 sl. nótt hafi lögreglunni í Reykjavík verið tilkynnt um að kl. 0:28 hefði komið á Slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur maður, sem stunginn hefði verið með hnífi skömmu áður tveimur stungum í vinstri síðu. Samkvæmt bráðabirgðavottorði Þorvalds Jónssonar, skurðlæknis, hafi á sjúkrahúsinu fljótlega verið framkvæmd aðgerð á manninum, sem reyndist vera A, kt. [...]. Hafði önnur hnífsstungan gengið uppávið í kviðvegg framanverðan, vinstra megin, í gegnum kviðvegg og inn í kviðarhol, sært framhlið magans, án þess að ganga í gegnum hann, og skorið 4 sm langan skurð inn i vinstri helming lungans.  Hafi reynst vera tæplega lítri af blóði í maga A.  Hafi blæðingin verið stöðvuð í aðgerðinni.

Lögreglan kveðst þegar hafa yfirheyrt fjögur vitni að atburðinum, sem hafi orðið í Hafnarstræti hér í borg, og jafnframt kærða X og sé rannsókn málsins komin vel á veg. Kærði hafi játað að hafa verið þarna að verki. Hann segist hafa verið að kýta við mann í Hafnarstræti við Ingólfstorg er nefndur A hafið komið að kærða, tekið báðum höndum um hálsmál hans og ýtt honum út í horn. Hafi kærði þá tekið upp veiðihníf, sem hann hafi verið með í vasanum og stungið A í vinstri síðu og hnífsblaðið gengið upp að skafti. Fjögur vitni hafi borið að eitthvert rifrildi hafi verið í gangi milli kærða og A en tvö vitnanna hafi séð kærða stinga. Eftir sé að yfirheyra nánar vitni þessi og kærða í því skyni að leita eftir því hvort meira samræmi fáist í framburði. Þá sé eftir að yfirheyra a.m.k. tvö vitni auk A.

Lögreglan kveðst hafa lagt hald á hnífinn heima hjá kærða. Hafi hann reynst vera veiðihnífur með 12 sm íbjúgu blaði. 

Telja verði að ætlað brot kærða varði við 211. gr., sbr. 20. gr., eða 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Samkvæmt meðfylgjandi gögnum hafi kærði áður orðið uppvís að eftirgreindurn ofbeldisbrotum:

1.  Þann 14. september sl. hafi lögreglustjórinn í Reykjavík höfðað mál á hendur kærða og fleirum fyrir tvö rán, framin í Reykjavík 21. júní og 7. júli sl. (Sakamálið nr. 2163/1999). Hafi kærði X gengist við sakargiftum fyrir dómi en aðalmeðferð sé fyrirhuguð í málinu 12. nóvember nk.

2.  Í skýrslu lögreglunnar í Reykjavík nr. 10-1999-7618 segi svo að tveir lögreglumenn hafi orðið vitni að því 4. apríl sl. að kærði hafi veist að manni í Hafnarstræti og slegið fast í höfuðið þannig að maðurinn hafi fallið í götuna. Hafi kærði haldið áfram að slá manninn í höfuðið ein tíu til fimmtán högg með sýnilegum krafi.  Maðurinn hafi kært atvikið til lögreglu en hann hafi hlotið sár á augabrún. Kærði hafi viðurkennt að hafa slegið manninn í andlitið. Mál þetta sé nú til meðferðar hjá lögfræðideild lögreglustjórans í Reykjavík.

3.   Þann 23. júní sl. hafi ákærði í Héraðsdómi Reykjavíkur verið dæmdur í tveggja mánaða fangelsi skilorðsbundið í þrjú ár fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Brot það sem kærði hafi orðið uppvís að síðastliðna nótt geti að lögum varðað allt að 16 ára fangelsi. Telja verði brotið það alvarlegt að varðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Þá verði jafnframt að telja að með tilliti til ofangreindra ofbeldisbrota, sem kærði hafi orðið uppvís að frá því í apríl sl., megi ætla að hann muni halda áfram brotum á meðan máli hans sé ekki lokið og að gæsluvarðhald sé einnig nauðsynlegt til að verja aðra fyrir árásum hans.

Kærði hefur viðurkennt að hafa lagt til A með hnífi í gærkvöld og getur sá verknaður varðað við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga eða 211. gr. sbr. 20. gr. sömu laga. Kærði var dæmdur þann 23. júní sl. fyrir brot á 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Þá hefur ákæra verið gefin út á hendur honum og fleirum fyrir tvö rán framin í Reykjavík 21. júní og 7. júlí sl. og kærði gengist við sakargiftum fyrir dómi. Loks er til rannsóknar hjá lögreglu kæra á hendur kærða fyrir að hafa veist að manni þann 4. apríl sl og hefur hann viðurkennt sakargiftir að hluta.

Kærði er sakaður um að hafa veist að manni með hnífi og veitt honum alvarlega áverka og þykir brot þetta það alvarlegt að því skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 sé fullnægt að varðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna enda verður hér og að líta til sakarferils kærða sem er alvarlegur þrátt fyrir ungan aldur hans.

Samkvæmt þessu verður krafa ákæruvaldsins tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 5. janúar nk. kl. 14.00.