Hæstiréttur íslands
Mál nr. 181/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Reynslulausn
- Skilorðsrof
- Fullnusta refsingar
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Hjördís Hákonardóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. mars 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 2. mars 2016 þar sem varnaraðila var gert að afplána 360 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar samkvæmt dómum Héraðsdóms Reykjavíkur [...]. september 2013 og [...]. nóvember sama ár. Kæruheimild er í 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 2. mars 2016.
Lögreglustjórinn á Selfossi hefur farið fram á það við dóminn að X, kt. [...] óstaðsettum í hús í Reykjavík, verði gert að afplána 360 daga eftirstöðvar óafplánaðra fangelsisrefsinga sem kærða var veitt reynslulausn á af Fangelsismálastofnun Ríkisins þann 20. maí 2015.
Skipaður verjandi kærða krefst þess að kröfunni verði hafnað.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að kærða hafi verið veitt reynslulausn þann 20. maí 2015 af eftirstöðvum neðangreindra óskilorðsbundinna fangelsisdóma:
1. 18 mánaða fangelsisdómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá [...]. september 2013 ([...]/2013)
2. 18 mánaða fangelsisdómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá [...]. nóvember 2013 ([...]/2013)
Samtals er um að ræða 360 daga eftirstöðvar ofangreindra refsinga og ákvað Fangelsismálastofnun að reynslutími skyldi vara í 2 ár. Skilyrði reynslulausnarinnar er m.a. að viðkomandi gerist ekki sekur um nýtt brot á reynslulausnartímanum og að kærði neyti ekki áfengis né fíkniefna á tímabilinu. Kærði samþykkti skilyrði reynslulausnarinnar með undirritun sinni þann 11. maí 2015.
Kærði hafi þrátt fyrir ungan aldur þónokkurn sakarferil að baki og hafi ítrekað á síðustu árum hlotið refsingar fyrir fíkniefnabrot, auðgunarbrot og umferðarlagabrot.
Lögreglustjóri kveður að lögregla rannsaki nú neðangreint mál sem kærði sé sterklega grunaður um aðild að:
318-2016-[...]
Lögreglu hafi borist tilkynning rétt eftir kl. 03:00 aðfaranótt 1. mars sl. um að innbrot væri yfirstandandi í verslun [...] á [...]. Er tilkynnandi hafi komið að versluninni hafi tveir aðilar verið inni í verslunni, annar að eiga við spilakassa með verkfæri og hinn aðilinn að eiga við sjóðsvélar. Tilkynnandi hafi beðið í felum þangað til aðilarnir tveir hafi yfirgefið vettvanginn á bifreiðinni [...]. Er lögregla hafi komið á vettvang hafi verið búið að spenna upp sjóðsvél og hafi verksummerki eftir meinta gerendur verið greinileg, þ. á m. hafi smápeningar verið á víð og dreif og tóbaksumbúðir. Um 07:00 sama morgun hafi bóndi í nágrenninu haft samband við lögreglu, hafi tveir aðilar bankað upp á hjá honum eftir að hafa fest bifreið sína. Hafi það verið bifreiðin [...]. Lögregla hafi komið á vettvang og handtekið kærða og meintan samverkamann hans. Áður hafi lögregla tekið ljósmyndir af skóförum fyrir utan verslunina sem reynst hafi sambærileg við mynstur á skóm beggja hinna handteknu aðila. Kærði hafi í yfirheyrslu hjá lögreglu játað að hafa brotist inn í verslunina ásamt samverkamanni og stolið þar tóbaki og skiptimynt.
Það sé mat lögreglustjórans á Selfossi, að öll lagaskilyrði 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga séu uppfyllt, enda hafi kærði með framangreindri háttsemi rofið gróflega almenn skilyrði reynslulausnar. Þá sé líka ljóst, m.a. í ljósi játningar kærða sjálfs sem samræmist öðrum rannsóknargögnum lögreglu, að hann sé undir sterkum rökstuddum grun um að hafa framið afbrot sem varðað geti allt að 6 ára fangelsi.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga sé þess hér með farið á leit að krafan nái fram að ganga.
Forsendur og niðurstaða
Í málinu liggur fyrir að þann 20. maí 2015 var kærða veitt reynslulausn á 360 daga eftirstöðvum framangreindra fangelsisrefsinga og var skilorðstími ákveðinn 2 ár.
Fyrir dóminn hafa verið lögð afrit rannsóknargagna ofangreinds máls lögreglu.
Það er almennt skilyrði reynslulausnar, sbr. 2. mgr. 64. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga, að aðili gerist ekki sekur um nýtt brot á reynslutíma. Samkvæmt 2. mgr. 65. gr. sömu laga getur dómstóll úrskurðað að kröfu ákæranda að maður sem hlotið hafi reynslulausn skuli afplána eftirstöðvar refsingar ef hann á reynslutíma rýfur gróflega almennt skilyrði reynslulausnar, enda liggi fyrir sterkur grunur um að hann hafi framið nýtt brot sem varðað geti sex ára fangelsi eða að brotið varði við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt þeim gögnum sem fyrir liggja í máli þessu er það mat dómsins að fullnægt sé skilyrðum 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 að kærði hafi á reynslutíma rofið gróflega almenn skilyrði reynslulausnarinnar og jafnframt er sýnt að fyrir liggur sterkur grunur um að kærði hafi framið brot sem varðað geta sex ára fangelsi. Verður því fallist á kröfu lögreglustjóra í máli þessu eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Samkvæmt næstsíðasta málslið 2. mgr. 65. gr. laganna frestar kæra til Hæstaréttar Íslands ekki framkvæmd úrskurðar.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kærði, X, skal afplána 360 daga eftirstöðvar fangelsisrefsinga samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá [...]. september 2013 og dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá [...]. nóvember 2013, sbr. reynslulausn sem Fangelsismálastofnun ríkisins veitti honum 20. maí 2015.
Kæra til Hæstaréttar Íslands frestar ekki framkvæmd úrskurðarins.