Hæstiréttur íslands
Mál nr. 207/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Föstudaginn 28. maí 1999. |
|
Nr. 207/1999. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík (Egill Stephensen saksóknari) gegn Y (Lúðvík Emil Kaaber hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Fallist var á þá niðurstöðu héraðsdóms, að G sætti gæsluvarðhaldi með vísan til a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, en gæsluvarðhaldstími styttur með hliðsjón af umfangi og rannsókn málsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. maí 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. maí 1999, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til 10. júní nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar verður fallist á með héraðsdómara að skilyrðum a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 sé fullnægt til þess að verða við kröfu sóknaraðila um gæsluvarðhald. Að virtri lýsingu sóknaraðila á umfangi málsins og fyrirhuguðum aðgerðum við rannsókn þess eru þó ekki efni til að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi lengur en til föstudagsins 4. júní nk. kl. 16.
Dómsorð:
Varnaraðili, Y, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 4. júní nk. kl. 16.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. maí 1999.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að Y verði á grundvelli a liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 10. júní nk. kl. 16.00.
Rannsóknardeild lögreglunnar í Reykjavík hefur undanfarið unnið að rannsókn innbrotsþjófnaða í 26 íbúðir í Reykjavík framdir á undanförnum tveimur mánuðum. Öll innbrotin eiga það sammerkt að hurðarhúnar og sívalningar í læsingum hafa verið snúnir upp og bera för eftir verkfærin.
[...]
Kærðu X og Y voru handteknir um kl. 7:30 í gærmorgun og hafa báðir ýmist neitað aðild að innbrotsþjófnuðunum og kærði X neitað að tjá sig um þá við skýrslutöku hjá lögreglu.
Niðurstaða.
Svo sem gögn málsins bera með sér er nú unnið að rannsókn 26 innbrotsþjófnaða í íbúðir í Reykjavík sem framdir hafa verið á sl. tveimur mánuðum. Rannsókn ríkislögreglustjóra sem barst í dag gefur til kynna að verkfæri sem fannst í fórum X og Y við handtöku [...] hefði verið notað í a.m.k. í einu innbrotanna en samskonar aðferð mun hafa verið notuð við mörg þau innbrot sem rannsókn málsins beinist að. Fyrir liggur í málinu að væntanleg er í þessari viku niðurstaða rannsóknar ríkislögreglustjóra á samanburði ummerkja á 13 innbrotsstöðum í íbúðarhús í borginni og verkfærum er fundust í bifreið sem X hafði til umráða [...]. Þá fundust munir úr þremur innbrotanna við húsleit á dvalarstað X [... og í bifreið Y, sem hann og X voru í við handtöku í gær, fundust munir úr innbroti að [...].
Rannsókn máls þessa er skammt á veg komin. Með vísan til ofangreinds er kominn fram rökstuddur grunur um brot Y gegn 244. gr. almennra hegningarlaga. Með vísan til ofanritaðs þykir einsýnt að kærði geti torveldað rannsókn málsins gangi hann laus og er því rétt að fallast á kröfu lögreglustjórans í Reykjavík og gera kærða að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a liðar 1. mgr. 103 gr. laga nr. 19/1991 allt til kl. 16.00 miðvikudaginn 10. júní nk.
Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, Y, sæti gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 10. júní nk. kl. 16:00.