Hæstiréttur íslands
Mál nr. 746/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Vitni
|
|
Fimmtudaginn 12. desember 2013. |
|
Nr. 746/2013. |
Steingrímur Wernersson (Sigmundur Hannesson hrl.) gegn Íslandsbanka hf. (Stefán A. Svensson hrl.) |
Kærumál. Vitni.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem heimilað var að tekin yrði skýrsla af nafngreindu vitni í tengslum við áfrýjun Í hf. á dómi héraðsdóms í máli sem S höfðaði gegn bankanum. Í niðurstöðu héraðsdóms kom m.a. fram að ekki yrði annað séð en að umbeðin skýrslutaka sneri að atvikum sem vitnið hefði orðið áskynja af eigin raun í starfi sínu hjá Í hf. Af d. lið 2. mgr. 156. gr. og 160. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála leiddi að áfrýjanda væri heimilt að afla nýrra sönnunargagna til að leggja fram við meðferð máls fyrir Hæstarétti. Staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu héraðsdóms með vísan til þess að eins og málið lægi fyrir yrði ekki fullyrt að ákvæði 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 stæði í vegi beiðni Í hf. um að leiða umrætt vitni en afstaða yrði fyrst tekin til þess við efnisúrlausn Hæstaréttar hvort umbeðin skýrsla gæti haft þar áhrif.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Árni Kolbeinsson og Greta Baldursdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. nóvember 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. nóvember 2013, þar sem heimilað var að tekin yrði skýrsla af nafngreindu vitni í tengslum við áfrýjun varnaraðila á dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 22. maí 2013 í máli sem sóknaraðili höfðaði gegn varnaraðila. Kæruheimild er í b. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og kröfu varnaraðila um að skýrsla verði tekin af framangreindu vitni hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Eins og málið liggur nú fyrir verður ekki fullyrt að ákvæði 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 standi í vegi beiðni varnaraðila um að leiða umrætt vitni, en afstaða verður fyrst tekin til þess við efnisúrlausn Hæstaréttar hvort umbeðin skýrsla geti haft þar áhrif. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt er í dómsorði greinir.
Sóknaraðili verður dæmdur til að að greiða varnaraðila kærumálkostnað eins og dómsorði greinir.
Það athugast að í hinum kærða úrskurði er ítrekað rætt um vitnastefnanda, vitnastefnda og vitnamál en ekkert þessara hugtaka á sér stoð í réttarfarslögum eftir gildistöku laga nr. 91/1991.
Dómsorð:
Heimilt er að leiða Stefán Þór Björnsson sem vitni í máli þessu.
Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað er staðfest.
Sóknaraðili, Steingrímur Wernersson, greiði varnaraðila. Íslandsbanka hf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. nóvember 2013.
Með beiðni, móttekinni í Héraðsdómi Reykjavíkur 2. október sl., óskaði vitnastefnandi, Íslandsbanki hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík eftir því að skýrsla yrði tekin af vitninu Stefáni Þór Björnssyni, kt. [...], Kvistavöllum 11, Hafnarfirði.
Við þingfestingu málsins 16. október sl. mótmælti vitnastefndi, Steingrímur Wernersson, til heimilis í London, Bretlandi, því að umbeðin skýrslutaka færi fram.
Vitnastefnandi krefst þess að beiðni hans nái fram að ganga. Þá krefst vitnastefnandi málskostnaðar úr hendi vitnastefnda.
Vitnastefndi krefst þess að beiðni vitnastefnanda um rekstur vitnamáls verði hafnað. Þá krefst vitnastefndi málskostnaðar úr hendi vitnastefnanda.
Málið var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 29. október sl.
Efni beiðni vitnastefnanda
Vitnastefnandi rekur í beiðni sinni að hann hafi áfrýjað til Hæstaréttar Íslands dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-180/2013, uppkveðnum 22. maí sl., með áfrýjunarstefnu útgefinni 16. ágúst sl. Málið sé nr. 546/2013 í málaskrá Hæstaréttar. Í tilefni af áfrýjun málsins sé vitnastefnanda nauðsynlegt að afla staðfestingar á nýju skjali og gögnum sem því fylgi, sem vitnastefnandi hyggist leggja fram í Hæstarétti. Ætlun vitnastefnanda sé að leiða sem vitni Stefán Þór Björnsson, kt. [...], Kvistavöllum 11, Hafnarfirði, öryggisstjóra vitnastefnanda. Beiðnin sé sett fram með vísan til 76. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Umrætt skjal ber fyrirsögnina ,,Atburðaskráning fyrir notendaheiti skráð á kt. [...]“ og er undirritað af Stefáni Þór Björnssyni, öryggisstjóra vitnastefnanda. Með því fylgir eitt fylgiskjal sem er útfyllt tafla.
Málsástæður vitnastefnanda
Vitnastefnandi kveður að honum sé nauðsynlegt að afla staðfestingar á umræddu skjali og fylgiskjali þess. Í skjalinu segi að farið hafi verið í netbanka vitnastefnda. Vitnastefnandi biðji um að vitnið staðfesti skjalið og að fylgiskjal sé prentað úr gagnagrunni vitnastefnanda.
Við munnlegan flutning málsins mótmælti lögmaður vitnastefnanda því að beiðni hans sé óskýr eða að vitnið sé sérfræðivitni. Vitnið sé starfsmaður vitnastefnanda. Ákvæði 76. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála vísi til 75. gr. laganna. Ekki sé skylt að tilgreina efni spurninga í beiðni. Ákvæði 73. gr. laganna eigi ekki við. Þessari beiðni sé beint til héraðsdóms en ekki vitnastefnda og sé send honum umfram skyldu. Til vara byggir vitnastefnandi á því að kröfur 73. gr. laga nr. 91/1991 séu uppfylltar. Þá standi ekkert því í vegi að ný gögn verði lögð fyrir Hæstarétt. Það sé hlutverk Hæstaréttar en ekki héraðsdóms eða vitnastefnda að meta sönnunargildi þessara skjala. Þá sé það hlutverk Hæstaréttar að meta hvort sönnunarfærslan sé þýðingarlaus. Fylgiskjalið lýsi atburðarás þegar farið sé í heimabanka. Umrætt skjal öryggisstjóra vitnastefnanda lýsi aðeins þessari atburðarás en leggi ekki sérfræðilegt mat á nokkurt atriði.
Málsástæður vitnastefnda
Vitnastefndi telur að hafna beri beiðni vitnastefnanda um rekstur vitnamáls, m.a. þar sem beiðnin uppfylli ekki þær lágmarkskröfur til slíkra beiðna sem raktar séu í 1. mgr. 73. gr., 1. mgr. 75. gr. og 76. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Í beiðninni sé ekki greint nákvæmlega frá þeim atriðum sem vætti eigi að varða, eins og sé áskilið í 73. gr. Þá séu þau skjöl sem vitnastefnandi hyggist leggja fyrir vitnið illskiljanleg, unnin af forstöðumanni hjá vitnastefnanda og ekki ný þótt þeirra hafi verið aflað eftir að dómur gekk í héraði og eftir áfrýjun málsins til Hæstaréttar. Vitnastefnanda hafi verið í lófa lagið að afla þessara skjala undir rekstri málsins í héraði og verði að bera hallann af því að hafa ekki gert það. Þá sé beiðni vitnastefnanda í raun beiðni um aðilaskýrslu, þar sem um fyrirsvarsmann vitnastefnanda sé að ræða. Beiðni vitnastefnanda sé einnig þýðingarlaus og beri að hafna með vísan til 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991.
Verði beiðni vitnastefnanda ekki hafnað á þeim grundvelli að um aðilaskýrslu sé að ræða, byggir vitnastefndi á því til vara að hafna beri beiðninni á þeim grundvelli að með henni sé þess freistað að leiða sérfræðivitni sem sé ætlað að tjá sig um tæknileg atriði varðandi tölvukerfi vitnastefnanda en ekki atriði sem viðkomandi hafi verið vitni að, auk þess sem vitninu sé ætlað að staðfesta eigin sérfræðiskýrslu. Hæstiréttur hafi ítrekað hafnað því að aðili/vitni, sem hvorki hafi getað borið um atvik af eigin raun né verið dómkvaddur sem mats- eða skoðunarmaður, komi fyrir dóm sem vitni eða að aðili gefi skýrslu fyrir dómi þar sem fyrirsjáanlegt sé að skýrsla viðkomandi sé bersýnilega þýðingarlaus. Þá hafi Hæstiréttur staðfest það að heimild til sönnunarfærslu og gagnaöflunar samkvæmt 76. gr. laga nr. 91/1991 beri að skýra þröngt.
Vitnastefndi vísar til laga nr. 91/1991, einkum 3. mgr. 46. gr., 1. mgr. 51. gr., 73. gr., 75. gr. og 76. gr. Krafa um málskostnað byggist á 129. og 130. gr. sömu laga.
Niðurstaða
Beiðni vitnastefnanda er sett fram með vísan til 76. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Vitnastefndi telur að þessi beiðni uppfylli ekki skilyrði 73. gr. laga nr. 91/1991. Fram kemur í 1. mgr. 47. gr. laga nr. 91/1991 að öflun sönnunargagna skuli að jafnaði fara fram fyrir þeim dómara sem fer með málið. Verði þessu ekki komið við nema með verulegum kostnaði eða óhagræði geti dómari ákveðið eftir ósk aðila að gagnaöflun megi fara fram fyrir öðrum dómi samkvæmt ákvæðum XI. kafla, enda leiði það ekki til óþarfra tafa á rekstri máls. Í 1. mgr. 73. gr. laganna segir m.a. að óski aðili eftir gefa skýrslu eða leiða vitni fyrir öðrum dómi en þar sem mál sé rekið skuli hann leggja skriflega beiðni um það fyrir dómara í málinu. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar skal beiðnin tekin fyrir í þinghaldi í málinu og í 3. mgr. greinarinnar segir að telji dómari skilyrðum 1. mgr. 47. gr. fullnægt til að verða við beiðni bóki hann ákvörðun sína um það í þingbók en úrskurður skuli kveðinn upp ef þess er krafist. Í 1. mgr. 76. gr. sömu laga kemur fram að eftir því sem átt geti við skuli ákvæðum 75. gr. beitt þegar gagna sé aflað í héraði í tengslum við rekstur máls fyrir æðra dómi. Í 1. mgr. 76. gr. er aðeins vísað til 75. gr. laganna en ekki til 73. gr. Eftir þessu er ljóst að ákvæði 73. gr. laga nr. 91/1991 gilda einungis um það þegar aðili óskar eftir því að afla sönnunargagna fyrir öðrum dómi en þeim héraðsdómi þar sem mál er rekið. Ákvæðið gildir því ekki um öflun sönnunargagna þegar máli er lokið í héraði, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 176/1997 og 98/2001. Beiðni vitnastefnanda er sett fram í tengslum við áfrýjun á dómi héraðsdóms og á 73. gr. því ekki við um beiðnina.
Í 1. mgr. 76. gr. laga nr. 91/1991 eru ekki gerðar sérstakar formkröfur til beiðni. Þó verður að ætlast til þess að þar komi skýrt fram hver setji beiðni fram, í tengslum við hvaða mál og hvers konar sönnunarfærslu sé óskað. Beiðni vitnastefnanda þykir fullnægja öllum þessum skilyrðum.
Fyrir liggur að Stefán Þór Björnsson er starfsmaður vitnastefnanda. Þeir einir koma fram sem fyrirsvarsmenn aðila samkvæmt 4. mgr. 17. gr. sem eru stjórnendur félaga, stofnana eða samtaka, eftir því sem leiðir af almennum reglum. Vitnastefnandi er hlutafélag og fer því félagsstjórn með málefni hans, sbr. 1. mgr. 68. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Ekkert liggur fyrir um að Stefán Þór sitji í stjórn vitnastefnanda. Þegar af þeirri ástæðu telst hann ekki vera fyrirsvarsmaður vitnastefnanda. Hann getur því einvörðungu gefið skýrslu fyrir dómi sem vitni eftir ákvæðum VIII. kafla laga nr. 91/1991.
Fram kom við munnlegan flutning málsins hjá lögmanni vitnastefnanda að óskað verði eftir því að Stefán Þór staðfesti skjal dagsett 26. september sl. til lögfræðideildar vitnastefnanda og að hann staðfesti að fylgiskjal með því sé prentað úr gagnagrunni vitnastefnanda. Hvað fylgiskjalið varðar verður ekki annað séð en að umbeðin skýrslutaka snúi að atvikum sem vitnið hefur orðið áskynja af eigin raun í starfi sínu hjá vitnastefnanda. Þá verður ekki annað séð en að fyrrnefnt skjal, dagsett 26. september sl., sé lýsing á virkni Netbanka Íslandsbanka og þeim færslum sem þar eru sagðar koma fram í fylgiskjalinu. Ekki verður séð að lýsing starfsmanns á tölvukerfi vinnuveitanda síns sé sérfræðilega álitsgerð.
Það leiðir af d-lið 2. mgr. 156. gr. og 1. mgr. 160. gr. laga nr. 91/1991 að áfrýjanda er heimilt að afla nýrra sönnunargagna til að leggja fram við meðferð máls í Hæstarétti. Vitnastefnandi telur nú þörf á sönnunarfærslu, sem hann taldi áður óþarfa. Verður ekki fallist á að fyrri afstaða hans í þessum efnum hafi falið í sér bindandi ráðstöfun sakarefnisins. Ræður heldur ekki úrslitum um heimild hans til að afla gagna nú þótt hann hafi átt þess kost á fyrri stigum að hlutast til um að skýrslur yrðu teknar af umræddum manni. Af fyrrnefndum ákvæðum leiðir einnig að það er Hæstaréttar að meta sönnunargildi og þýðingu nýrra sönnunargagna sem lögð eru fyrir réttinn. Það er því Hæstaréttar að meta hvort umrædd gögn séu þýðingarlaus, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991, svo sem vitnastefndi heldur fram, en ekki héraðsdóms.
Í samræmi við framangreint verður að taka beiðni vitnastefnanda til greina.
Eftir þessum úrslitum verður vitnastefnda gert að greiða vitnastefnanda málskostnað sem þykir, eftir atvikum og með hliðsjón af umfangi málsins, vera hæfilega ákveðinn 80.000 krónur.
Ásbjörn Jónasson, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Beiðni vitnastefnanda, Íslandsbanka hf., um að leiða fyrir dóm vitnið Stefán Þór Björnsson, kt. [...], Kvistavöllum 11, Hafnarfirði, er tekin til greina.
Vitnastefndi, Steingrímur Wernersson, greiði vitnastefnanda 80.000 krónur í málskostnað.