Hæstiréttur íslands
Mál nr. 731/2016
Lykilorð
- Skuldabréf
- Gjaldþrotaskipti
- Fyrning
- Gjafsókn
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir, Helgi I. Jónsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. október 2016. Hann krefst þess að viðurkennd verði slit á fyrningu kröfu sinnar á hendur stefndu samkvæmt skuldabréfi númer G-076046, útgefnu 3. apríl 2008 og upphaflega að fjárhæð 3.072.058 krónur. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt.
Samkvæmt gögnum málsins undirritaði stefnda 3. apríl 2008 skuldabréf, sem bar númerið G-076046, og viðurkenndi þar að skulda áfrýjanda fjárhæð, sem nema myndi heildarskuld hennar vegna námslána, en honum var í skuldabréfinu veitt heimild til að færa inn þá fjárhæð við námslok stefndu. Óumdeilt er að stefnda hafi talist hafa lokið námi 29. júní 2009 og hafi áfrýjandi þá réttilega ritað fjárhæð skuldar hennar, 3.072.058 krónur, á viðeigandi stað í skuldabréfinu, en skuldin var bundin vísitölu neysluverðs með tiltekinni grunntölu. Eftir skilmálum skuldabréfsins hefði stefnda í fyrsta sinn átt að greiða af skuld sinni 30. júní 2011. Áður en til þess kom hafði stefnda sótt 18. mars 2011 um greiðsluaðlögun samkvæmt lögum nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga, en ekki varð af samningi um hana þar sem umboðsmaður skuldara ákvað 5. febrúar 2013 að fella niður heimild stefndu til að leita greiðsluaðlögunar. Með kröfu, sem barst héraðsdómi 9. september 2014, leitaði stefnda gjaldþrotaskipta á búi sínu og var krafan tekin til greina 10. desember sama ár. Við skiptin var lýst kröfum að fjárhæð samtals 5.886.318 krónur, en þar af nam krafa áfrýjanda á grundvelli fyrrnefnds skuldabréfs 4.116.479 krónum. Skiptunum lauk 2. mars 2015 án þess að greiðsla fengist upp í hana. Samkvæmt 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., svo sem þeirri lagagrein var breytt með 1. gr. laga nr. 142/2010, rufu gjaldþrotaskiptin á búi stefndu fyrningu á kröfu áfrýjanda samkvæmt skuldabréfinu, en við lok skiptanna hófst nýr tveggja ára fyrningarfrestur kröfunnar. Í málinu er deilt um hvort fullnægt sé skilyrðum 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 1. gr. laga nr. 142/2010, til að áfrýjandi fái með dómi viðurkennd slit á þessari fyrningu kröfunnar með þeim áhrifum að upp frá því gildi um hana fyrningarfrestur eftir almennum reglum laga.
Samkvæmt 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 er réttur áfrýjanda til að fá slitið fyrningu kröfu sinnar á hendur stefndu háður þeim skilyrðum að hann sýni fram á annars vegar að hann hafi sérstaka hagsmuni af því og hins vegar að líkur megi telja á að fullnusta geti fengist á kröfunni á nýjum fyrningartíma. Varðandi skýringu á fyrirmælum um þessi skilyrði hefur áfrýjandi meðal annars vísað til þess að með 1. gr. laga nr. 142/2010 hafi ekki aðeins verið sett ný regla um að krafa á hendur þrotamanni fyrnist á tveimur árum eftir lok gjaldþrotaskipta í stað eldri reglu 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 um að gjaldþrotaskipti ryfu fyrningu lýstrar kröfu og hæfist við lok þeirra á nýjan leik sami fyrningarfrestur og áður gilti um hana, heldur hafi einnig verið takmörkuð mjög heimild kröfuhafa til að fá fyrningu slitið. Standi 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar því í vegi að leidd séu í lög á afturvirkan hátt skilyrði, sem tálmi í svo ríkum mæli að fyrningu verði slitið að þau jafngildi banni við því, en að þessu verði sérstaklega að gæta við skýringu og beitingu 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991. Um þessa röksemd áfrýjanda er til þess að líta að fyrirmælin í síðastnefndu lagaákvæði eru ekki afturvirk í öðrum skilningi en þeim að þau taka til allra krafna á hendur þrotamanni, sem ekki er fullnægt við gjaldþrotaskipti, án tillits til þess hvort þær hafi orðið til áður en eða eftir að lög nr. 142/2010 tóku gildi. Með lögum er unnt að breyta fyrningartíma kröfu frá því, sem gilti við stofnun hennar, enda sé kröfuhafa þá gefið ráðrúm til að rjúfa fyrningu kröfu sinnar ef nýjum fyrningartíma hennar væri að öðrum kosti að ljúka eða þegar lokið. Eðli máls samkvæmt hefur löggjafinn þá einnig svigrúm til að setja nýjar reglur um hvernig og með hvaða skilyrðum fyrningu kröfu verði slitið. Ákvæði 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 fela í sér almenna takmörkun á rétti kröfuhafa til að slíta fyrningu við tilteknar aðstæður og tekur hún jafnt til allra. Eru því ekki efni til að láta 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar setja sérstakt mark á skýringu 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991.
Í lögskýringargögnum, sem lýst er í hinum áfrýjaða dómi, verður lítið séð sem máli skiptir um hvernig löggjafinn hafi ætlast til að skýrð yrðu þau fyrirmæli í 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 að kröfuhafi þurfi að sýna fram á sérstaka hagsmuni sína af því að slíta fyrningu kröfu til þess að við því megi verða. Eftir orðalagi þessa lagaákvæðis og með hliðsjón af því, sem þó kom fram í lögskýringargögnum, verður að líta svo á að í tilvikum, þar sem krafa hefur ekki orðið til út af ólögmætri háttsemi skuldarans, feli þetta skilyrði einkum í sér að kröfuhafi þurfi vegna sinna eigin aðstæðna að hafa svo að teljandi sé hagsmuni umfram aðra kröfuhafa af því að tiltekin krafa verði ekki látin falla niður fyrir fyrningu. Þótt áfrýjandi beri eftir lögum nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna ríkar skyldur til að veita námsmönnum fjárhagslega aðstoð með lánum geta þær einar ekki valdið því að aðstæður hans séu í framangreindum skilningi sérstakar í samanburði við aðra lánveitendur. Í því sambandi verður heldur ekki litið fram hjá því að áfrýjandi er ríkisstofnun, sem fær samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. 15. gr. laga nr. 21/1992 fé til að standa undir starfsemi sinni meðal annars með framlögum ríkisins, þess sama og hefur í skjóli löggjafarvalds síns sett 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 án þess að undanþiggja áfrýjanda eða aðra tiltekna lánardrottna frá því að þurfa að hlíta reglum ákvæðisins. Því hefur ekki verið borið við að stefnda hafi með ólögmætri háttsemi stofnað til skuldar við áfrýjanda. Þegar af þessum ástæðum eru ekki uppfyllt skilyrði 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 til að verða við kröfu áfrýjanda um að viðurkennd verði slit á fyrningu kröfu hans á hendur stefndu og þarf þá ekki að líta frekar til þess að hann hefur á engan hátt leitt í ljós að líkur séu á að fullnusta kröfunnar gæti fengist á nýjum fyrningartíma.
Samkvæmt framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur. Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti, en um hann og gjafsóknarkostnað stefndu hér fyrir dómi fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Lánasjóður íslenskra námsmanna, greiði í ríkissjóð 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Allur gjafsóknarkostnaður stefndu, Sylvíu Rósar Sigurðardóttur, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 750.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. október 2016.
Mál þetta, sem dómtekið var 6. október sl., er höfðað 10. febrúar 2016 af Lánasjóði íslenskra námsmanna, Borgartúni 21, Reykjavík gegn Sylvíu Rós Sigurðardóttur, Hofakri 5, Garðabæ.
Stefnandi gerir þær dómkröfur að fyrningarslit kröfu stefnanda á hendur stefndu samkvæmt skuldabréfi nr. G-076046, útgefnu 3. apríl 2008, upphaflega að fjárhæð 3.072.058 krónur, verði viðurkennd með dómi. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefnda krefst sýknu og málskostnaðar.
I.
Helstu atvik málsins eru þau að stefnda sótti um námslán hjá stefnanda á námsárunum 2007 til 2008 og 2008 til 2009 vegna náms í snyrtifræði við Snyrti-akademíuna í Kópavogi. Fékk hún greidd út námslán fyrir tímabilin apríl 2008 til apríl 2009, samtals að fjárhæð 2.788.892 krónur. Stefnda ritaði undir skuldabréf hjá stefnanda til viðurkenningar á teknum námslánum. Var skuldabréfið nr. G-076046 gefið út 3. apríl 2008. Námslok hjá stefndu voru skráð 29. júní 2009 og átti hún að greiða fyrstu greiðslu af námsláninu 30. júní 2011, sbr. 4. mgr. 7. gr. laga nr. 21/1992 um lánasjóð íslenskra námsmanna, sbr. og skilmála í bréfinu. Átti sú afborgun að vera föst árleg afborgun eða 52.698 krónur. Með auglýsingu í Lögbirtingablaði útgefnu 22. mars 2011 tilkynnti umboðsmaður skuldara að hann hefði móttekið umsókn stefndu samkvæmt lögum nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga. Hófst þá tímabundin frestun greiðslna hjá stefndu. Með auglýsingu í Lögbirtingablaði, útgefnu 11. mars 2013, tilkynnti umboðsmaður að tímabundinni frestun greiðslna vegna greiðsluaðlögunar einstaklinga hefði lokið hjá stefndu 8. mars 2013. Fyrsti gjalddagi af námsláni stefndu, eftir tímabundna frestun greiðslna hennar, var 1. mars 2014. Urðu vanskil á greiðslu gjalddagans. Með bréfi til Héraðsdóms Reykjavíkur 8. september 2014 krafðist stefnda þess að bú hennar yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Með úrskurði héraðsdóms 10. desember 2014 var bú stefndu tekið til gjaldþrotaskipta og innköllun til kröfuhafa birt í Lögbirtingablaði útgefnu 19. desember 2014. Skiptum á búi stefndu lauk 2. mars 2015 án þess neinar eignir fyndust í búinu. Stefnandi lýsti kröfu að fjárhæð 4.108.949 krónur í þrotabú stefndu á grundvelli skuldabréfsins. Ekkert fékkst upp í kröfuna.
II.
Stefnandi kveðst byggja á því að stefnda hafi með undirritun sinni á skuldabréf vegna námslána nr. G-076046 skuldbundið sig til að endurgreiða námslánið með þeim skilmálum sem fram komi á námslánaskuldabréfinu sjálfu og í samræmi við fyrirmæli laga nr. 21/1992. Hún standi því í skuld við stefnanda sem henni beri að endurgreiða. Byggt sé á því að krafa stefnanda á hendur stefndu hafi fallið í gjalddaga við úrskurð héraðsdóms um töku bús stefndu til gjaldþrotaskipta 10. desember 2014 samkvæmt fyrirmælum 99. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Samkvæmt 2. mgr. 165. gr. sömu laga byrji nýr tveggja ára fyrningarfrestur að líða á kröfum á hendur þrotamanni á þeim degi sem skiptunum sé lokið, hvort sem kröfu sé lýst við gjaldþrotaskiptin eða ekki, svo fremi sem vanlýst krafa fyrnist ekki á skemmri tíma. Nýr fyrningarfrestur hafi þá byrjað að líða gagnvart stefndu frá þeim degi sem skiptum á þrotabúi hennar lauk 2. mars 2015. Krafa um viðurkenningu á fyrningarslitum sé byggð á því að stefnandi hafi sérstaka hagsmuni af því að fá fyrningunni slitið. Sú sérstaða hvíli á stefnanda að hlutverk hans sé að veita námsmönnum námslán og allir námsmenn sem uppfylla skilyrði laga nr. 21/1992, sbr. reglugerð nr. 478/2011, sbr. áður reglugerð nr. 602/1997, fyrir því að fá námslán eigi rétt á námslánum í samræmi við markmið og tilgang stefnanda. Stefnanda sé skylt að veita öllum þeim sem uppfylli skilyrði laga sem gilt hafi um stefnanda niðurgreidd lán úr ríkissjóði og sé ákvörðun um lánveitingu aldrei háð frjálsu mati. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1992 sé það hlutverk sjóðsins að tryggja þeim sem falli undir lögin tækifæri til náms án tillits til efnahags. Í 1. mgr. 3. gr. laganna komi fram að miða skuli við að lán sem falli undir ákvæði laganna nægi hverjum námsmanni til að standa straum af náms- og framfærslukostnaði meðan á námi standi að teknu tilliti fjölskyldustærðar hans, sbr. einnig 12. gr. laganna. Í 3. mgr. 7. gr. laganna komi fram að lánstími sé ótilgreindur en greitt skuli af námsláni samkvæmt 8. gr. þar til skuldin sé að fullu greidd. Í 4. mgr. 7. gr. segi að endurgreiðsla námslána hefjist tveimur árum eftir námslok. Þá segi í 5. mgr. 7. gr. laganna að vextir skuli vera breytilegir, en þó aldrei hærri en 3% ársvextir af höfuðstól skuldarinnar, og vextir reiknist frá námslokum. Samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 478/2011 beri námslán auk verðtryggingar 1% ársvexti sem leggist á verðtryggðan höfuðstól. Samkvæmt 8. gr. laga nr. 21/1992 ákvarðist árleg endurgreiðsla lánanna í tvennu lagi. Sé þar annars vegar um að ræða fasta greiðslu óháða tekjum og hins vegar viðbótargreiðslu sem miðist við ákveðinn hundraðshluta tekjuársins á undan endurgreiðsluári, sbr. 10. gr. laganna. Endurgreiðsla námslána sé óháð fjárhæð námslánsins. Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laganna sé föst afborgun 52.698 krónur miðað við vísitölu neysluverðs 177,8. Þessi upphæð breytist á hverju ári í hlutfalli við vísitölu neysluverðs 1. janúar hvers árs. Viðbótargreiðslan miðist við tekjur lántakanda námsláns, en samkvæmt 3. mgr. 8. gr. miðist hún við 3,75% af tekjustofni ársins á undan endurgreiðsluári. Dragist fastagreiðslan frá viðbótargreiðslunni. Leiði það til þess að námslánaþegi greiði ekki viðbótargreiðsluna nema árslaun hans fari yfir 3,6 m.kr. á ári, sem séu svör stefnanda við spurningu nr. 15 til Allsherjar- og menntamálanefndar, sbr. einnig ársskýrslu stefnanda árið 2014.
Íslensk löggjöf beri þess víða merki að kröfur stefnanda séu taldar vera sérstaks eðlis og að baki liggi sérstakir og ríkir almannahagsmunir. Stefnandi vísi til þess að lán stefnanda séu undanþegin lögum um neytendalán, sbr. j-liður 1. mgr. 3. gr. laga nr. 33/2013, um neytendalán, sbr. áður c-liður 1. mgr. 2. gr. laga nr. 121/1994. Stefnandi vísi einnig til þess að lán stefnanda séu undanþegin lögum um greiðsluaðlögun, sbr. g. og h.-liður 3. gr. laga nr. 101/2010. Að baki þessum sérstöku ívilnunum í garð stefnanda séu þau rök að kröfusafn stefnanda byggi á ríkum almannahagsmunum, þar sem endurgreiðsla standi að verulegu leyti undir fjármögnun nýrra lánveitinga. Lánin séu veitt með því markmiði að jafna aðstöðu til náms, lánin séu veitt á niðurgreiddum kjörum og séu ekki veitt á viðskiptalegum forsendum. Þá séu endurgreiðslukjör lánanna óvenju hagstæð þar sem þau taki að mestu mið af tekjum lánþegans. Ennfremur sé stefnanda heimilt að veita undanþágur frá árlegum endurgreiðslum vegna sérstakra aðstæðna hjá lánþega sem talin séu upp í 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992, sbr. 12. og 13. gr. reglugerðar nr. 478/2011. Í greinargerð með 3. gr. laga nr. 101/2010 segi sem rök fyrir að greiðsluaðlögun taki ekki til námslána. Ástæða þess sé sú að námslán séu nátengd aflahæfi skuldara og ekki veitt á viðskiptalegum forsendum. Um helmingur útgjalda Lánasjóðs íslenskra námsmana komi nú úr ríkissjóði og því sé um ríkisstyrkt framfærslukerfi að ræða. Þá sé endurgreiðsla tengd launum skuldara. Á hinn bóginn sé gert ráð fyrir þeirri almennu reglu að afborganir námslána verði felldar niður á greiðsluaðlögunartíma og öðrum kröfuhöfum þannig skapað sanngjarnt svigrúm. Á því sé jafnframt byggt að stefnandi hafi sérstaka hagsmuni af því að slíta fyrningu þar sem kröfur stefnanda séu undanþægar greiðsluaðlögun samkvæmt lögum nr. 101/2010. Í framsögu flutningsmanns frumvarps sem varð að lögum nr. 142/2010 og síðar í andsvörum hans komi skýrt fram að tilgangur lagasetningarinnar hafi ekki verið sá að búa til úrræði sem yrði einhvers konar valkostur þess við hlið þess að fara í greiðsluaðlögun eða sértæka skuldaaðlögun. Markmið frumvarpsins hafi samkvæmt ræðu framsögumanns verið að taka utan um þann hóp sem hefði í neyð sinni orðið gjaldþrota þegar öll önnur ráð hefðu verið reynd. Þetta árétti framsögumaður í andsvörum sínum og segi allsherjarnefnd þingsins hafa sérstaklega fjallað um hvort verið væri að búa til sérstakt úrræði sem fólk í miklum greiðsluvanda myndi bera saman við greiðsluaðlögun og ákveða að fara frekar í. Niðurstaða meirihluta nefndarinnar hafi verið að svo væri ekki. Væri um algert neyðarúrræði að ræða, hafi framsögumaður frumvarpsins sagt og átti við gjaldþrotaskipti.
Á því sé byggt að jafna megi sérstakri stöðu lána stefnanda við greiðsluaðlögun, við þá sérstöku stöðu sem forgangskröfur njóti við gjaldþrotaskipti. Engin efnisleg rök séu fyrir dómstóla við mat sitt að greina þar á milli. Ummæli í nefndaráliti meirihluta allsherjarnefndar styðji við málatilbúnað stefnanda, þess efnis að aðilar sem séu undanþægir greiðsluaðlögun hafi sérstaka hagsmuni af því að slíta fyrningu. Ef líta megi til stöðu krafna í kröfuröð við gjaldþrotaskipti, eigi sama við um kröfur sem séu undanþegnar greiðsluaðlögun. Einnig sé á því byggt að kröfuréttindi stefnanda sem séu sjálfstæð stofnun sem starfi samkvæmt lögum nr. 21/1992 og hafi sjálfstæða stjórn njóti réttarverndar samkvæmt 72 gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Stefnandi vísi til dóms Hæstaréttar í máli nr. 229/2015 sem slái því föstu að einkaréttarleg kröfuréttindi stefnanda njóti lögverndar. Þó stefnandi sé stofnun sem starfi samkvæmt lögum sem Alþingi setji verði almenn einkaréttarleg réttindi stefnanda ekki skert svo lögmætt sé, nema með sérstökum lögum sem um stefnanda gildi. Skerðingar eignaréttinda sem ætlað sé að gilda um alla kröfuhafa verði að uppfylla almenn skilyrði stjórnskipunarinnar, þar með talið að lagafyrirmæli þar að lútandi skerði ekki lögvarin eignaréttindi með ólögmætum hætti. Stefnandi byggi á því að jafnvel þó löggjafanum yrði talið heimilt að stytta fyrningarfrest krafna, þá sé sá tálmi sem settur sé á rétt stefnanda til að slíta fyrningu svo íþyngjandi að brjóti í bága við 72. gr. stjórnarskrárinnar. Um slit fyrningar krafna stefnanda hafi gilt almennar reglur fyrningarlaga ýmist laga nr. 14/1905 eða nr. 150/2007 eftir því hvenær til krafnanna var stofnað. Stefnandi telji að kröfuréttindi hans verði ekki skert að þessu leyti með afturvirkum hætti og beri að virða sérstök íþyngjandi ákvæði laga nr. 142/2010 um slit fyrningar að vettugi. Beri því þegar af þeirri ástæðu að viðurkenna með dómi slit fyrningar á kröfu stefnanda í samræmi við dómkröfur stefnanda í málinu.
Þá sé á því byggt að fyrirmæli laga nr. 142/2010 geri ekki aðrar kröfur en að kröfuhafi sýni að hann hafi sérstaka hagsmuni af því að slíta fyrningu. Ef það sé einhver ein tegund af sérstökum hagsmunum umfram aðra, þá þurfi að tilgreina það með skýrum hætti í lagatextanum sjálfum. Svo sé ekki. Frumvarp til laganna beri það ekki heldur með sér, en sérstaklega sé tekið fram í greinargerð að endanlegt mat á því hvað séu sérstakir hagsmunir sé í höndum dómstóla. Með því sé dómstólum falið vald til að setja lög sem fari gegn þrískiptingu valds sem stjórnskipan Íslands byggi á, sbr. 2. gr. laga nr. 33/1944. Því verði að nægja að stefnandi sýni fram á að hann hafi sérstaka hagsmuni, en dómstólar geti ekki gert upp á milli hinna sérstöku hagsmuna með efnislegum hætti. Það sé hlutverk löggjafarvaldsins. Þá sé einnig á því byggt að hvort sem litið sé til greinargerðar með frumvarpi eða nefndarálits allsherjarnefndar þá komi ekki fram nein sérstök fyrirmæli sem dómstólar geti byggt á sem útiloki einhverja eina tegund sérstakra hagsmuna kröfuhafa umfram aðra. Í nefndaráliti sé til að mynda tekið svo til orðrétt í dæmaskyni úr umsögn ASÍ um frumvarpið, en ASÍ hafi ekki sérstakt lagasetningarvald og hafi slík endursögn ekkert vægi gagnvart skýru orðalagi ákvæðisins sjálfs. Beri að hafa í huga að í lögskýringargögnum komi fram að dómstólum sé ætlað að skilgreina sérstaka hagsmuni. Alþingi hafi verið í lófa lagið að skilgreina sérstaka hagsmuni í skilningi laga, en kosið að gera það ekki. Þá sé á því byggt að stefnandi hafi haft ríka sérstaka og lögvarða hagsmuni af lagasetningu þeirri sem mál þetta lúti að. Þrátt fyrir það hafi stefnanda ekki verið gefinn kostur á að senda inn umsögn í aðdraganda lagasetningarinnar. Vísist til yfirlits yfir útsendar umsagnarbeiðnir sem sé að finna á vef Alþingis. Við skoðun lögskýringargagna verði ekki framhjá þessari vangá gagnvart hagsmunum stefnanda litið. Á því sé að auki byggt að eðli námslána sem samfélagslegs úrræðis og mikilvægi endurgreiðslu lánanna fyrir fjármögnun nýrra útlána stefnanda, auk tillits til annarra lánþega námslána og eftir atvikum sjálfskuldarábyrgðaraðila m.t.t. jafnræðissjónarmiða hafi stefnandi verulega sérstaka hagsmuni af því að fá fyrningunni slitið. Stefnandi telji það óhæfilegt gagnvart öðrum lánþegum stefnanda, sem hafi fengið ríkisstyrkt námslán hjá stefnanda, að langt um styttri fyrningarfrestur gildi um námslánaskuldir afmarkaðs hóps lánþega heldur en almennt gerist. Stefnanda sé skylt að gæta jafnræðis og sé þar af leiðandi knúinn til málsóknar þessarar. Stefnandi hafi sérstaka hagsmuna að gæta að þessu leyti.
Á stefnanda hvíli sú skylda að gæta jafnræðis gagnvart öðrum lánþegum sínum á grundvelli 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Á því sé byggt að vegna sérstöðu kröfuréttinda stefnanda, sem löggjafinn hafi ákvarðað svo sem að framan sé lýst, en þau falli t.a.m. utan laga nr. 33/2013 og laga nr. 101/2010, sé stefnanda skylt að gæta að því að jafnræðis sé gætt hjá lánþegum hans. Verði látið viðgangast að kröfur lítils hóps lánþega námslána fyrnist á 2 árum, meðan gætt sé að því að innheimta kröfur gegn öðrum skuldurum á miklu lengri tíma, sé þeim síðarnefndu mismunað með ólögmætum hætti. Um sérstaka hagsmuni stefnanda að því að fá fyrningunni slitið verði jafnframt að líta til þess að lán stefnanda séu veitt á afar hagstæðum kjörum, sem niðurgreidd séu af almannafé, og greiðslubyrði þeirra miðist að mestu við tekjur hvers greiðanda. Felist styrkur ríkisins vegna námslána í lágum vöxtum til námsmanna, eða 1%, á meðan stefnandi þurfi að fjármagna sig með 3,79% vöxtum og ennfremur í hagstæðum afborgunum af námslánum þar sem endurgreiðslur taki mið af tekjum greiðanda, en ekki fjárhæð lánsins. Samkvæmt 15. gr. laga nr. 21/1992 sé ráðstöfunarfé stefnanda m.a. endurgreiðslur skv. lögum nr. 21/1992 og vextir og afborganir af eldri námslánum. Endurgreiðslukjör námslána taki mið af því að þau greiðist til baka á löngum tíma jafnvel svo áratugum skipti allt eftir greiðslugetu hvers lánþega. Líta verði til þessa þegar metnar séu líkur á því að námslánaskuldin verði endurgreidd. Námslán stefnanda hafi algera sérstöðu á lánamarkaði þar sem þau séu upphaflega veitt til framfærslu lántakandans og eftir atvikum fjölskyldu hans og endurgreiðsla lánanna alfarið háð aflahæfi lántakandans. Þá sé innbyggt í lánaskilmála að við andlát lántakandans falli ógjaldfallnar eftirstöðvar námslánsins niður. Þannig geri lánssamningurinn frá öndverðu ráð fyrir þeim möguleika að lánið verði ekki að fullu endurgreitt. Þá sé ennfremur í 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 lögbundin heimild fyrir stefnanda að veita lánþega námsláns undanþágu frá árlegri endurgreiðslu að hluta eða að öllu leyti, ef skyndilegar og verulegar breytingar verði á högum skuldara svo sem vegna veikinda eða slysa sem skerði ráðstöfunarfé hans eða möguleika á því að afla tekna. Þá sé stefnanda jafnframt heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu ef nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður valdi verulegum fjárhagserfiðleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans. Í vinnureglum um umsóknir um undanþágur vegna ársins 2016 komi fram að miðað sé við tekjur einstaklinga að fjárhæð 3.590.000 krónur og höfð hliðsjón af því að greiðanda reiknist ekki tekjutengd afborgun. Þá sé jafnframt höfð hliðsjón af lágmarkslaunataxta BHM, árslaun 3.586.300 krónur. Þá komi fram í svari stefnanda til Allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis að á árinu 2013 hafi 1.470 greiðendur fengið undanþágu á greiðslu afborgana á námslánum vegna veikinda, örorku, atvinnuleysi o.fl. Á árinu 2014 hafi 1.153 greiðendur fengið undanþágu á greiðslu afborgana. Þá komi fram í grein 8.5.1. í úthlutunarreglum stefnanda reglur um undanþágu frá árlegri endurgreiðslu námslána vegna fjárhagsörðugleika. Á því sé byggt að samkvæmt verklagsreglum stefnanda sé öllum lánþegum hjá stefnanda heimilt að koma námslánum sínum í skil, hvort sem krafan hafi verið gjaldfelld eður ei. Greiðist þá eftirleiðis afborganir af námsláninu samkvæmt fyrirmælum 8. gr. laga nr. 21/1992, og samkvæmt skilmálum skuldabréfs stefndu vegna námslána. Greiðslubyrði námslána stefnda fari aldrei yfir 3,75% af tekjustofni hennar, en annars rétt rúmar 10.000 krónur á mánuði á ársvísu, sé tekið mið af fastri árlegri afborgun af námsláninu. Í svari stefnanda við spurningu Allsherjar- og menntamálanefndar nr. 15, sé tekið saman yfirlit um greiðslubyrði af námslánum miðað við tilteknar tekjur lánþega námslána. Komi þar fram að séu laun á mánuði 180.000 til 250.000 krónur sé greiðslubyrði afborgana af námsláni 10.398 krónur á mánuði. Þá komi fram að hægt sé að sækja um 6 mánaða greiðsludreifingu fyrir hvern gjalddaga.
Byggt sé á því að samkvæmt kröfuskrá í þrotabúi stefndu hafi námslán stefndu ekkert með fjárhagsörðugleika hennar að gera. Einungis einn gjalddagi hafi verið í vanskilum og greiðslubyrði námslánsins á ársgrundvelli nemi rétt rúmum 10.000 krónum á mánuði, sé tekið mið af fastri afborgun námslánsins. Staðan sé í raun sambærileg þeirri aðstöðu að krafan hafi stofnast eftir lok gjaldþrotaskipta. Stefnandi telji að teknu tilliti til hagsmuna og jafnræðis gagnvart öðrum skuldurum námslána og að teknu tilliti til hagsmuna almennings, þá hafi stefnandi sérstaka hagsmuni af því að fá fyrningu námslánaskuldar stefndu slitið. Á því sé byggt að ætla verði að stefnda sé betur í stakk búinn til að greiða námslánaskuld sína eftir slit fyrningar vegna aukins aflahæfis á grundvelli þeirrar menntunar sem hún hafi aflað sér. Á því sé byggt að þessi sjónarmið eigi að fullu rétt á sér enda séu námslán og greiðslubyrði lána stefnanda nátengd aflahæfi stefndu.
Verði fallist á kröfu um slit fyrningar á kröfu stefnanda sé til þess að líta að við útgáfu stefnu hafi einungis einn gjalddagi af námsláninu verið í vanskilum. Stefndu standi til boða að greiða gjalddagann og gjaldfelling námslánsins verði dregin til baka verði fallist á slit fyrningar á kröfu stefnanda. Af því leiði að endurgreiðslur námslánsins verði í samræmi við upphafleg lánakjör. Við mat á því hvort líkur séu á að krafan fáist greidd verði að líta til sérstaks eðlis námslánanna og tengingu þeirra við aflahæfi skuldara. Í skaðabótarétti sé viðurkennt að við útreikning á töpuðum framtíðartekjum verði aflahæfi metið út frá því hvort tjónþoli hafi lokið námi sem hann hafi lagt stund á. Tjón á aflahæfi sé þá metið á grundvelli starfsréttinda ef námi hafi verið lokið á slysdegi. Á því sé byggt að sömu sjónarmið verði lögð til grundvallar hér og aflahæfi og greiðslugeta stefnda verði metin á grundvelli mögulegra tekna á því fagsviði sem stefndi hafi menntað sig til. Verði stefnda fyrir alvarlegum áföllum geti hún óskað eftir því við stjórn stefnanda að henni verði veitt undanþága frá afborgun árlegrar endurgreiðslu á námsláni sínu, að hluta eða að öllu leyti, sbr. 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 sem fyrr greini.
Af öllu framangreindu leiði að líkur megi telja að fullnusta geti fengist á kröfu stefnanda á nýjum fyrningartíma. Framlögð kröfuskrá styðji málatilbúnað stefnanda um framtíðargreiðsluhæfi stefndu. Af lögskýringargögnum verði ráðið að dómstólum sé eftirlátið að meta hvenær sérstakir hagsmunir kröfuhafa séu fyrir hendi svo viðurkenna megi slit fyrningar. Í lögskýringargögnum sé nefnt í dæmaskyni að ef niðurfelling geti talist óhæfileg gagnvart öðrum skuldurum eða samfélaginu sjálfu teljist hagsmunir kröfuhafa sérstakir. Stefnandi telji hvoru tveggja eiga við í tilviki stefnda. Samfélagið verði fyrir tjóni þar sem námslán sem sé hugsað til langs tíma og veitt á samfélagslegum forsendum fyrnist hjá afmörkuðum hópi skuldara á tveimur árum meðan aðrir lántakar námslána séu bundnir greiðsluskyldu áratugum saman. Í nefndaráliti meirihluta allsherjarnefndar séu í dæmaskyni nefndar kröfur sem séu undanþegnar greiðsluaðlögun. Tilgreindar séu kröfur um viðbótarmeðlag barns. Þær kröfur séu ólíkar námslánum að því leyti að greiðsluskyldan eftir úrskurð um gjaldþrotaskipti standi óhögguð þó svo krafan hafi stofnast fyrir upphaf gjaldþrotaskipta. Stefnda búi að menntun sinni alla ævi. Engin sanngirnisrök mæli með því að skuld hennar verði markaður skemmri fyrningartími en annarra sem tekið hafi félagsleg lán á niðurgreiddum kjörum hjá stefnanda. Þó kröfur stefnanda séu einkaréttarlegs eðlis og byggi á skilyrðislausu loforði skuldarans um að endurgreiða lánið með tilteknum hætti, þ.e. samkvæmt skilmálum skuldabréfs og fyrirmælum laga, sbr. 5. mgr. 6. gr. laga nr. 21/1992 og 7. gr. reglugerðar nr. 478/2011, sbr. áður 5. gr. reglugerðar nr. 602/1997, þá séu þær á sama tíma nátengdar aflahæfi skuldarans.
Stefnandi vísar til meginreglu kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga. Þá vísar stefnandi til laga nr. 21/1992 um lánasjóð íslenskra námsmanna, laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 33/2013 um neytendalán, laga nr. 121/1994 um neytendalán (brottfallin), og 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá er vísað til reglugerðar nr. 478/2011 um lánasjóð íslenskra námsmanna, með síðari breytingum og reglugerðar nr. 602/1997 (brottfallin). Ennfremur til stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, einkum 2. gr. og 72. gr. Um varnarþing er vísað til ákvæða í skuldabréfinu sjálfu og 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt styðst við lög nr. 50/1988.
III.
Stefnda kveðst mótmæla því að stefnandi eigi rétt á að fá kröfu sína um fyrningarslit viðurkennda og krefjist sýknu af öllum kröfum stefnanda. Kröfu sína um fyrningarslit byggi stefnandi á 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991, en hún kveði á um að fyrningu krafna sem um ræði í 2. mgr. sama ákvæðis verði aðeins slitið á ný með því að kröfuhafi höfði innan fyrningarfrests mál á hendur þrotamanninum og fái þar dóm um viðurkenningu á fyrningarslitum gagnvart honum. Slíka viðurkenningu skuli því aðeins veita með dómi að kröfuhafi sýni fram á að hann hafi sérstaka hagsmuni af því að slíta aftur fyrningu, svo og að líkur megi telja á að fullnusta geti fengist á kröfu hans á nýjum fyrningartíma, en að gengnum slíkum dómi gildi almennar reglur um fyrningu hennar. Stefnda byggi á því að um fjárkröfu stefnanda á hendur sér gildi fyrrnefndur tveggja ára fyrningarfrestur samkvæmt 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 sem byrjað hafi að líða 2. mars 2015. Enn fremur byggi stefnda sýknukröfu sína á því að framangreind tvö skilyrði 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 um fyrningarslit séu ekki uppfyllt. Stefnda telji ljóst að með stefnu sinni og framlögðum gögnum hafi stefnandi hvorki sýnt fram á að stefnandi hafi sérstaka hagsmuni af því að slíta aftur fyrningu kröfunnar, né að líkur megi telja á að fullnusta geti fengist á kröfunni á nýjum fyrningartíma. Ljóst sé að til að fá dómkröfu sína viðurkennda þurfi stefnandi að sýna fram á að bæði skilyrðin séu uppfyllt. Einnig hafni stefnda öðrum málsástæðum stefnanda sem byggt sé á í stefnu og telji að þær geti ekki leitt til þeirrar niðurstöðu að stefnandi fái kröfur sínar viðurkenndar. Stefnda telji raunar að telja megi málsástæður stefnanda vanreifaðar þar sem skil á milli málsástæðna séu mjög óljós í stefnu og að sama skapi séu málsástæður því illa afmarkaðar og óskýrar.
Stefnda hafni því að stefnandi hafi sýnt fram á að hann hafi sérstaka hagsmuni af því að slíta fyrningu fjárkröfu sinnar. Ákvæði 2. og 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 hafi orðið hluti af lögunum með breytingalögum nr. 142/2010. Um skilyrði 3. mgr. um sérstaka hagsmuni segi í almennum athugasemdum í frumvarpi því sem varð að lögunum að þegar rætt sé um sérstaka hagsmuni lánardrottins sé horft til þess af hvaða rót kröfurnar séu runnar og höfð í huga tilvik eins og krafa á hendur þrotamanni sem til hafi orðið með saknæmri eða ámælisverðri háttsemi hans. Fram komi að hér sé að sjálfsögðu ekki um tæmandi talningu að ræða en til þess beri að líta að hér sé gert ráð fyrir að um undantekningartilfelli verði að ræða og þrönga túlkun á heimildinni. Sé ráðgert að það komi í hlut dómstóla að afmarka í framkvæmd hvers konar tilvik gætu heyrt þar undir. Af þessum athugasemdum megi vera ljóst að heimild til fyrningarslita sé undantekningartilvik sem beri að túlka þröngt. Einnig megi sjá að það sem löggjafinn hafi haft í huga séu tilvik sem varði það af hvaða rót kröfurnar, sem annars myndu fyrnast, væru runnar og nefnd sem dæmi kröfur sem til hafi orðið með saknæmum hætti eða ámæliverðri háttsemi þrotamanns. Í nefndaráliti meirihluta allsherjarnefndar sem fram hafi komið við gerð framangreinds frumvarps segi þessu til viðbótar að undir þetta geti t.d. fallið tildæmdar skaðabætur vegna saknæmrar eða ólögmætrar háttsemi. Ljóst megi vera að námslán sem stofnað sé til með lögmætum hætti geti ekki fallið þar undir. Af framangreindum athugasemdum og öðrum lögskýringargögnum megi raunar telja að ætlun löggjafans hafi verið að fela dómstólum að meta hvert tilvik fyrir sig og að almennar ástæður fyrir sérstöðu tegunda krafna ættu ekki við. Þannig þyrfti að sýna fram á sérstaka hagsmuni varðandi þá tilteknu kröfu sem krafist væri fyrningarslita um. Stefnandi hafi ekki fært fram neina slíka sönnun, heldur látið nægja að vísa almennt til hlutverks síns og séreinkenna. Í stefnu vísi stefnandi til þess að lán stefnanda séu undanþegin lögum um neytendalán nr. 33/2013 og lögum um greiðsluaðlögun nr. 101/2010, einkum þau síðarnefndu. Virðist stefnandi byggja á því að vegna þeirrar sérstöðu sem lánum stefnanda séu veitt í tilvísuðum lögum væri rétt að þeim yrði veitt samskonar sérstaða þegar komi að gjaldþrotaskiptum. Stefnda bendi hins vegar á að þar sem ekki hafi verið kveðið sérstaklega á um slíka sérstöðu lána stefnanda við setningu laga nr. 142/2010 verði þvert á móti að túlka það sem svo að hinu sama hafi ekki verið ætlað að gilda um lán stefnanda. Enn fremur bendi stefnda á að af fyrrnefndu nefndaráliti meirihluta allsherjarnefndar megi sjá að sá möguleiki hafi verið ræddur að undanskilja kröfur með sama hætti og gert sé í lögum nr. 101/2010, en ákvörðun tekin um að fara ekki þá leið. Styðji það enn frekar framangreint sjónarmið. Í nefndarálitinu megi einnig finna umfjöllun nefndarinnar um þann grundvallar mun sem sé annars vegar á greiðsluaðlögun og hins vegar gjaldþrotaskiptum. Segi þar að gjaldþrot sé neyðarúrræði sem hafi þau réttaráhrif að allar eignir skuldara/þrotamanns séu teknar til skipta. Gjaldþrotaskipti séu því fullnustugerð með það að markmiði að skipta eignum skuldara með kröfuhöfum, tryggja að eignir og skuldir bús skuldara séu sannreyndar, bókhald og löggerningar þrotamanns séu rannsakaðar. Þá verði við gjaldþrotaskipti virkar reglur laganna um riftun ýmissa löggerninga þrotamanns. Þrotamaður beri áfram ábyrgð á þeim skuldum sem ekki fáist greiddar við gjaldþrotameðferðina. Til samanburðar gildi um greiðsluaðlögun að þar sé gert ráð fyrir að skuldari sem undirgangist greiðsluaðlögun skuli áfram greiða af skuldum sínum í samræmi við greiðslugetu. Með hliðsjón af þessu eðli gjaldþrotaskipta telji stefnda að þau sjónarmið sem búi að baka undanþágu námslána frá greiðsluaðlögun eigi ekki við í tilviki gjaldþrotaskipta. Stefnda veki einni athygli á því að námslán njóti ekki stöðu forgangskrafna við gjaldþrotaskipti heldur teljist þau til almennra krafna. Megi þegar af því álykta að löggjafinn hafi aldrei talið að slík lán ættu að njóta sérstöðu umfram aðrar kröfur við gjaldþrotaskipti. Lög nr. 21/1992, sem gildi um starfsemi stefnanda, feli ekki heldur í sér nein ákvæði sem skapi lánum stefnanda sérstöðu við gjaldþrotaskipti.
Stefnda telji að þeir sérstöku hagsmunir sem stefnandi telji sig hafa af því að rjúfa fyrningu séu í raun mjög almenns eðlis og geti átt við um nánast hvaða kröfuhafa sem sé. Geti þar af leiðandi ekki verið um sérstaka hagsmuni að ræða í skilningi 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991. Sem dæmi megi nefna þá málsástæðu stefnanda í stefnu að „endurgreiðsla standi að verulegu leyti undir fjármögnun nýrra lánveitinga“. Ljóst megi vera að hið sama eigi við um flesta þá aðila sem lýsi kröfum í þrotabú, þ.e. að fjármögnun þeirra byggi á samskonar kröfum og þeir lýsi við gjaldþrotaskiptin. Hið sama eigi við um tilvísun stefnanda til jafnræðissjónarmiða í greinargeð, en slík sjónarmið geti með sama hætti átt við um alla kröfuhafa sem eigi samskonar kröfur hjá mörgum skuldurum. Tilvísunum stefnanda til jafnræðissjónarmiða sé með öllu hafnað. Vel þekkt séu raunar dæmi um að stefnandi hafi talið tveggja ára fyrningarfrest krafna á hendur lánþegum sjóðsins á grundvelli 165. gr. laga nr. 21/1991 vera í gildi. Um það megi m.a. vísa til úrskurðar Persónuverndar í máli nr. 2015/1036. Af öllu framangreindu megi vera ljóst að til fjárkröfu stefnanda á hendur stefndu hafi ekki verið stofnað með hætti sem löggjafinn hafi ætlað að gæti verið grundvöllur undanþágu skv. 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991. Stefnandi hafi heldur ekki sýnt fram á að hann hafi sérstaka hagsmuni af því að fá fyrningu kröfu sinnar á hendur stefndu slitið og dugi almennar tilvísanir til hlutverks og séreinkenna stefnanda ekki til að sýnt hafi verið fram á það. Megi því vera ljóst að skilyrði 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 séu ekki uppfyllt þannig að stefnandi eigi rétt á að fá kröfu sína um fyrningarslit viðurkennda og beri því að sýkna stefndu af dómkröfum stefnanda.
Stefnda hafni því að stefnandi hafi sýnt fram á að líkur megi telja á að fullnusta geti fengist á fjárkröfu hans á nýjum fyrningartíma. Ljóst megi vera að sönnunarbyrðin um framangreint skilyrði 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 hvíli alfarið á stefnanda. Einnig megi ljóst vera að átt sé við líkur á því að öll krafan fáist fullnustuð, en ekki dugi að sýnt sé fram á að aðeins hluti hennar geti fengist fullnustaður. Í fyrrnefndu nefndaráliti meirihluta allsherjarnefndar segi raunar að meirihlutinn taki fram að með þessu sé ekki átt við lítinn hluta kröfunnar heldur alla kröfuna eða meiri hluta hennar. Ekki verði séð að stefnandi geri einu sinni tilraun til þess í stefnu sinni að sanna líkindi á því að skuldin geti fengist fullnustuð. Stefnandi hafi ekki lagt fram nein gögn sem sanni að stefnda eigi eignir sem dugað gætu til uppgreiðslu kröfunnar. Þvert á móti telji stefnda fyrirliggjandi gögn sýna að allar líkur séu á því að fullnusta fáist ekki fyrir kröfunni á nýjum fyrningartíma. Megi þar m.a. benda á það að bú stefndu hafi nýlega verið tekið til gjaldþrotaskipta og skiptum lokið á búinu án þess að neinar eignir fyndust í því. Stefnda sé auk þess atvinnulaus með tvö börn á framfæri og hafi haft mjög lágar framfærslutekjur undanfarin ár sem einkum séu í formi bóta. Líkt og eigi við um fyrrnefnda skilyrði 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 gildi um hið síðarnefnda að ljóst sé af athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögunum að almennar tilvísanir til hlutverks eða séreinkenna lána stefnanda dugi ekki til þess að skilyrðið sé uppfyllt.
Stefnanda beri að sýna fram á að líkur séu á að stefnandi muni getað fullnustað þá fjárkröfu sem hann eigi á hendur stefndu innan nýs fyrningarfrests. Sem fyrr segi virðist stefnandi ekki einu sinni gera tilraun til þess í stefnu. Í stefnu geri stefnandi ekki greinarmun á líkum fyrir því annars vegar að fullnusta fáist fyrir kröfu sinni á nýjum fyrningartíma og hins vegar á greiðsluhæfi stefndu til að geta greitt afborganir af láninu í framtíðinni. Skilyrði 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 sé að stefnandi leiði líkur að hinu fyrrnefnda og sé greiðsluhæfi stefndu til allrar framtíðar því málinu óviðkomandi. Umfjöllun í stefnu um greiðsluhæfi og þau úrræði sem stefnanda séu veitt með lögum til að koma til móts við tímabundna greiðsluerfiðleika lántakenda lýsi ekki einkennum fullnustu samkvæmt skilgreiningu. Fullnustu krafna séð náð fram með fullnustugerðum sem framkvæmdar séu af opinberum aðilum m.a. á grundvelli laga um aðför og laga um nauðungarsölu. Þar sem í 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 sé vísað til þess að líkur megi teljast á að fullnusta geti fengist á nýjum fyrningartíma, verði að ætla að átt sé við að hinn nýi fyrningartími dugi stefnanda til að fullnusta kröfuna í heilu lagi á þeim tíma sem slíkur fullnustuferill muni taka. Af öllu framangreindu megi vera ljóst að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að líkur megi telja á að fullnusta geti fengist á kröfu hans á nýjum fyrningartíma. Þar með séu skilyrði 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 ekki uppfyllt og beri því að sýkna stefndu af dómkröfum stefnanda.
Sem fyrr segi telji stefnda málsástæður stefnanda í stefnu mjög óskýrar. Til áréttingar mótmæli stefnda því öllum málsástæðum stefnanda og telji engin lagarök standa til þess að stefnandi fái kröfu sína viðurkennda. Hvað varði tilvísun stefnanda til þess að stytting á fyrningartíma feli í sér skerðingu á eignarrétti sem sé andstæð 72. gr. stjórnarskrárinnar, þá sé því alfarið hafnað. Augljóst megi vera að í nýrri reglu um styttri fyrningarfrest krafna við gjaldþrotaskipti felist ekki svipting eða skerðing á þeim eignarrétti sem felist í fjárkröfu stefnanda heldur aðeins breyttar reglur um það með hvaða hætti krafan kunni að fyrnast að loknum gjaldþrotaskiptum. Kröfurnar séu eftir sem áður háðar fyrningu og kröfuhafinn eigi eftir sem áður möguleika á að gæta réttinda sinna með því að slíta fyrningu, að uppfylltum lögmæltum skilyrðum. Þó talið yrði að lögákveðin stytting fyrningarfresti væri á einhvern hátt íþyngjandi megi vera jafnljóst að breytingin hafi verið almenns eðlis og sé jafn íþyngjandi fyrir stefnanda og aðra kröfuhafa. Tilvísunum stefnanda til málsástæðna tengdum því með hvaða hætti til laga 142/2010 hafi verið stofnað sé mótmælt. Þ.m.t. tilvísunar til hlutverks dómstóla og þrískiptingar ríkisvalds og þess að stefnanda hafi ekki verið formlega boðið að senda inn umsögn vegna frumvarpsins. Slíkar málsástæður geti ekki undir neinum kringumstæðum leitt til þeirrar niðurstöðu að stefnandi yrði ekki talið skylt að uppfylla lögfest skilyrði 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991. Af öllu framangreindu megi vera ljóst að hvorugt skilyrði 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 séu uppfyllt til þess að stefnandi geti fengið kröfu sína um fyrningarslit viðurkennda. Ítrekað sé að lögin áskilji að bæði skilyrðin séu uppfyllt, svo ef talið yrði að aðeins annað af þeim væri uppfyllt myndi það engu að síður leiða til sýknu stefndu. Stefnda telji einnig sýnt að aðrar málsástæður stefnanda geti ekki leitt til þeirrar niðurstöðu að stefnandi fái kröfur sínar viðurkenndar.
Stefnda vísar til laga nr. 21/1991um gjaldþrotaskipti o.fl. Einnig til meginreglna kröfu-, samninga- og eignarréttar. Einnig laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna nr. 21/1992.Vísað er til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Um málskostnað vísast til XXI. kafla laga nr. 91/1991, aðallega 1. mgr. 130. gr. Varðandi virðisaukaskatt af málskostnaði vísar stefnandi til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
IV.
Samkvæmt 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991, ber þrotamaður ábyrgð á skuldum sínum sem ekki fást greiddar við gjaldþrotaskipti. Hafi kröfu verið lýst við gjaldþrotaskiptin og hún ekki fengist greidd við þau er fyrningu slitið gagnvart þrotamanninum og byrjar þá nýr tveggja ára fyrningarfrestur að líða á þeim degi sem skiptunum lýkur. Þótt kröfu hafi ekki verið lýst við skiptin gildir þessi sami fyrningarfrestur um hana, enda fyrnist hún ekki á skemmri tíma. Samkvæmt 3. mgr. 165. gr. laganna verður fyrningu krafna sem um ræðir í 2. mgr. aðeins slitið á ný með því að kröfuhafi höfði, innan fyrningarfrests, mál á hendur þrotamanninum og fái þar dóm um viðurkenningu á fyrningarslitum gagnvart honum. Slíka viðurkenningu skal því aðeins veita með dómi að kröfuhafi sýni fram á að hann hafi sérstaka hagsmuni af því að slíta aftur fyrningu, svo og að líkur megi telja á að fullnusta geti fengist á kröfu hans á nýjum fyrningartíma, en að gengnum slíkum dómi gilda almennar reglur um fyrningu hennar.
Ákvæði 2. og 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 urðu hluti af þeim lögum með lögum nr. 142/2010. Í athugasemdum við frumvarp til laganna sagði að með því væru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti o.fl. sem miðuðu að því að stytta fyrningarfrest á þeim kröfum eða þeim hluta þeirra sem ekki fengjust greiddar við gjaldþrotaskipti. Með því móti væri þeim einstaklingum, sem teknir hefðu verið til gjaldþrotaskipta en bæru áfram ábyrgð á skuldum sem ekki hefðu fengist greiddar við gjaldþrotaskiptin, auðveldað að koma fjármálum sínum á réttan kjöl. Ákvæði þessi komu inn í lögin í kjölfar hins svonefnda efnahagshruns síðla árs 2008, sem leiddi til fjárhagsvanda fjölmargra. Var markmið með þessum breytingum að auðvelda þessum einstaklingum að koma fjármálum sínum aftur á réttan skjöl sem fyrst.
Eins og fyrr greinir gera ákvæði 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 að skilyrði fyrir fyrningu krafna sem um ræðir í 2. mgr. að kröfuhafi sýni fram á að hann hafi sérstaka hagsmuni af því að slíta fyrningu, svo og að líkur megi telja á að fullnusta geti fengist á kröfu hans á nýjum fyrningartíma. Hinir sérstöku hagsmunir sem vitnað er til í ákvæðinu eru ekki skýrðir frekar. Í athugasemdum með frumvarpinu sagði að þegar rætt væri um sérstaka hagsmuni lánadrottins væri horft til þess af hvaða rót kröfurnar væru runnar og höfð í huga tilvik eins og krafa á hendur þrotamanni sem til hefði orðið með saknæmri eða ámælisverðri háttsemi. Ekki væri þar um tæmandi talningu að ræða en til þess bæri að líta að hér væri gert ráð fyrir að um undantekningartilfelli væri að ræða og þrönga túlkun á heimildinni. Væri ráðgert að það kæmi í hlut dómstóla að afmarka í framkvæmd hvers konar tilvik gætu heyrt hér undir. Í nefndaráliti meirihluta allsherjarnefndar sagði þessu til viðbótar að undir þetta gætu t.d. fallið tildæmdar skaðabætur vegna saknæmrar eða ólögmætrar háttsemi.
Svo sem ákvæði 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 er úr garði gert hefur löggjafinn ekki gert greinarmun á lánadrottnum þegar skilyrði 3. mgr. um sérstaka hagsmuni eru metin. Meðferð málsins á Alþingi leiðir í ljós að slíkt var til umræðu en ákvörðun tekin um að gera það ekki. Stefnandi hefur teflt fram rökum til stuðnings því að hann hafi sérstaka hagsmuni umfram aðra lánadrottna af því að slíta fyrningu krafna á grundvelli námslána. Er meðal annars vísað til þess að sú sérstaka staða hvíli á stefnanda að veita námsmönnum námslán, að sjóðurinn eigi að tryggja þeim sem falli undir lögin jöfn tækifæri til náms, að endurgreiðslur námslána ákvarðist þannig að um sé að ræða mun hagstæðari kjör en tíðkist á lánamarkaði, að íslensk löggjöf beri þess víða merki að kröfur stefnanda séu taldar sérstaks eðlis og að baki liggi sérstakir og ríkir almannahagsmunir og að sá tálmi sem stefnanda sé settur til að slíta fyrningu sé svo íþyngjandi að brjóti í bága við 72. gr. stjórnarskrár. Um allar þær röksemdir sem hér eru tíundaðar og aðrar þær sem stefnandi vísar til er til þess að líta að löggjafinn tók um það meðvitaða ákvörðun að setja kröfur stefnanda á grundvelli námslána undir sama hatt og aðrar kröfur lánadrottna. Ef ætlunin hefði verið að skipa þessum kröfum á sérstakan veg hefði það verið tekið sérstaklega fram í ákvæðinu eða í það minnsta í athugasemdum við frumvarpi til laganna. Svo var hins vegar ekki gert og verður að ætla að jafnræðissjónarmið hafi þar að mestu búið að baki. Í dómaframkvæmd hefur löggjafanum verið játað nokkuð víðtækt vald til að ákveða hvaða atriði skuli ráða við ákvörðun um lengd fyrningarfrests og með hvaða hætti fyrningu verði slitið. Er hér um að ræða skýra ákvörðun löggjafans um lengd fyrningarfrests og með hvaða hætti fyrningu verður slitið, eftir almennum efnislegum mælikvarða. Verður samkvæmt framansögðu ekki talið að umrædd lagasetning brjóti í bága við 72. gr. stjórnarskrárinnar. Með vísan til þessa fellur það í hlut stefnanda að sýna fram á að hann hafi sérstaka hagsmuni af því að slíta fyrningu kröfu sinnar gagnvart stefndu.
Eins og áður greinir verður mat á því hvort um sérstaka hagsmuni sé að ræða í skilningi 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 skýrt þröngri skýringu. Krafa stefnanda á rætur að rekja til námsláns er stefnda tók á árunum 2008 og 2009. Stefnandi hefur í málflutningi vísað til þess að stefnda hafi sýnt af sér ámælisverða háttsemi í tengslum við fjármál sín og um það vísað til ákvörðunar umboðsmanns skuldara frá 5. febrúar 2013 um niðurfellingu á heimild stefndu til greiðsluaðlögunar. Í ákvörðun umboðsmanns 5. febrúar 2013 segir að í b lið, 1. mgr., 6. gr. laga nr. 101/2010 sé kveðið á um að synja skuli um heimild til að leita greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Telja verði að ákveðnir óvissuþættir séu fyrir hendi í máli umsækjanda þess eðlis að ekki sé mögulegt að fá heildarmynd af fjárhag og greiðslugetu. Þá gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags á tímabili greiðsluaðlögunar samkvæmt b lið, 1. mgr., 6. gr., sbr. einnig 4. tl., 1. mgr., 4. gr. laga nr. 101/2010 um skyldu skuldara til að veita upplýsingar um tekjur sínar á meðan greiðsluaðlögunarumleitanir standi yfir. Loks segir að í ljósi þeirrar óvissu sem liggi fyrir um tekjur umsækjanda þyki ótímabært að framkvæma heildstætt mat á því hvort hún hafi sinnt skyldum samkvæmt ákvæði a liðar, 1. mgr., 12. gr. laga nr. 101/2010 og lagt til hliðar fé af tekjum og öðrum launum á meðan frestun greiðslna hafi staðið yfir. Af framangreindum athugasemdum umboðsmanns skuldara verður einna helst ráðið að stefnda hafi ekki látið umboðsmanni í té fullnægjandi upplýsingar um fjármál sín og það verið ástæða þess að heimild til greiðsluaðlögunar var felld niður. Verður því ekki jafnað til þess að um saknæma eða álíka ámælisverða háttsemi stefndu hafi verið að ræða. Hefur stefnanda ekki tekist sönnun þess að svo sé. Þá hefur stefnandi ekki með öðrum hætti leitt í ljós að stefnda hafi sýnt af sér saknæma eða ámælisverða háttsemi í tengslum við töku námslánsins hjá stefnanda. Með hliðsjón af þessu hefur stefnandi ekki sýnt fram á að hann hafi sérstaka hagsmuni af því að slíta fyrningu kröfu sinnar gagnvart stefndu, sbr. 3. mgr., 165. gr. laga nr. 21/1991.
Með hliðsjón af öllu framanrituðu verður stefnda sýknuð af öllum kröfum stefnanda.
Á það skal bent að til viðbótar skilyrði um sérstaka hagsmuni þarf stefnandi að sýna fram á að líkur megi teljast á því að fullnusta geti fengist á kröfu stefnanda á nýjum fyrningartíma, sbr. 3. mgr., 165. gr. laga nr. 21/1991. Þó svo fyrra skilyrði 3. mgr., 165. gr. um sérstaka hagsmuni sé ekki fullnægt í málinu skal áréttað að í áliti meirihluta allsherjarnefndar með frumvarpi er varð að lögum nr. 142/2010 er tekið fram að átt sé við alla kröfuna eða meirihluta hennar. Bú stefndu var tekið til gjaldþrotaskipta 10. desember 2014 og lauk skiptum 2. mars 2015 án þess að neinar eignir fyndust í búi stefndu. Krafa stefnanda á hendur stefndu nemur ríflega 4.700.000 krónum. Samkvæmt síðasta skattframtali stefndu námu tekjur hennar, fyrir tekjuárið 2015, 642.120 krónum, auk þess sem reiknað endurgjald við eigin atvinnurekstur og hreinar tekjur af eigin atvinnurekstri námu samtals 465.600 krónum. Eignir í árslok 2015 voru óverulegar. Þá sýndu upplýsingar úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra fyrir tekjuárið 2016 ekki fram á nein laun eða afdregna staðgreiðslu fyrir tekjuárið. Þegar þessi atriði eru virt hefði stefnanda á engan hátt tekist sönnun þess að líkur mættu teljast á því að hann hefði getað fengið fullnustu á kröfum sínum á nýjum fyrningartíma.
Í ljósi niðurstöðu málsins greiði stefnandi stefndu 900.000 krónur í málskostnað, sem renni í ríkissjóð þar sem stefnda nýtur gjafsóknar. Um gjafsóknarkostnað stefndu fer sem í dómsorði greinir.
Mál þetta flutti af hálfu stefnanda, Sigurbjörn Þorbergsson hæstaréttarlögmaður, en af hálfu stefndu, Sigurður Árnason héraðsdómslögmaður.
Dóm þennan kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.
Dómsorð:
Stefnda, Sylvía Rós Sigurðardóttir, er sýkn af kröfum stefnanda, Lánasjóðs íslenskra námsmanna.
Stefnandi greiði stefndu 900.000 krónur í málskostnað sem renni í ríkissjóð.
Allur gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 900.000 krónur.