Hæstiréttur íslands

Mál nr. 683/2013


Lykilorð

  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
  • Kærumál


                                     

Þriðjudaginn 29. október 2013.

Nr. 683/2013.

 

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

Z

(Þuríður B. Sigurjónsdóttir hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að Z skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, og einangrun meðan á því stæði en gæsluvarðhaldi markaður skemmri tími.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. október 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. október 2013 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 8. nóvember 2013 klukkan 16 og einangrun meðan á því stæði. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Samkvæmt 3. mgr. 206. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 skal sá sem hefur atvinnu eða viðurværi sitt af vændi annarra sæta fangelsi allt að fjórum árum. Þá segir í 6. mgr. ákvæðisins að hver sem stuðli að því með ginningum, hvatningum eða milligöngu að aðrir hafi samræði eða önnur kynferðismök gegn greiðslu eða hefur tekjur af vændi annarra, svo sem með útleigu húsnæðis eða öðru, skuli sæta fangelsi allt að fjórum árum en sektum eða fangelsi allt að einu ári ef málsbætur eru. Varnaraðili er undir rökstuddum grun um brot gegn framangreindum lagaákvæðum. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest sú niðurstaða hans að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, þó þannig að því verður markaður skemmri tími eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Varnaraðili, Z, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 1. nóvember 2013 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. október 2013.

                Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði Z, kt. [...], til að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 8. nóvember 2013 kl. 16.  Þá er þess krafist að honum verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að embættinu hafi undanfarnar vikur, í kjölfar grunsemda sem vaknað hafi, rannsakað ætlaða sölu og milligöngu vændis forsvarsmanns og starfsmanna veitingastaðar í [...]í  Reykjavík sem rekin sé undir heitinu A. Lögregla hafi fengið og aflað ótvíræðra upplýsinga og staðfestinga um að konur á staðnum og á vegum staðarins selji kynlíf gegn greiðslu.  Sannreynt hafi verið að greiðsla fari fram hjá starfsfólki veitingahússins á bar með því að greitt sé með greiðslukorti inn á greiðslukortareikning staðarins.  Þá séu upplýsingar um að veitingastaðurinn og viðkomandi konur skipti greiðslu á milli sín að jöfnu. Grunsemdir hafi verið staðfestar um að kynlífsþjónustan sem starfsmenn veitingahússins hafi milligöngu um fari fram í húsnæði veitingastaðarins. Lögregla hafi ástæðu til að ætla að allt að 10 konur stundi vændi á vegum staðarins. Grunsemdir séu um að vændisstarfsemi hafi verið stunduð á vegum staðarins undanfarin 4 til 6 misseri a.m.k.

                Á grundvelli ofangreindra upplýsinga hafi með úrskurðum héraðsdóms Reykjavíkur 18. október og 25. október 2013 verið aflað heimildar til að skoða bankagögn meðkærða X og félaga honum tengdum frá 1. janúar 2010 til 15. nóvember 2013, en hann sé talinn forsvarsmaður staðarins.  Eins og fram komi í meðfylgjandi upplýsingaskýrslu lögreglu megi sjá af bankareikningi B ehf. að meginuppistaða bankaveltunnar sé í tengslum við greiðslukortaviðskipti.  Heildarinnborganir á árinu 2013 séu 84.248.928 krónur en athygli veki að á árinu séu reiðufjárúttektir 36.475.582 krónur. Samkvæmt virðisaukaskattkerfi hafi félagið gefið upp virðisaukaskattskylda veltu að fjárhæð 25.988.489 krónur.  Það sé því ljóst að verulegur munur sé á milli uppgefinnar opinberrar tekjuskráningar félagsins og veltu samkvæmt tekjuskráningakerfi.  Samkvæmt gögnum, sem lögregla hafi aflað fyrir árin 2011 til og með 2013, sé virðisaukaskattskyld velta samkvæmt innsendum skýrslum fyrir árið 2011, 71.154.860 krónur þegar velta á greiðslukortareikningi til félagsins sé rúmlega, 142.459.065 krónur fyrir árið 2012, 37.149.672 krónur þegar velta á greiðslukortareikningi til félagsins sé rúmlega 144.391.012 kr., og það sem af sé ári 2013, 25.988.489 kr. þegar velta á greiðslukortareikningi til félagsins sé rúmlega 86.656.960 kr.  Þá sé það afar tortryggilegt að meðkærði taki út í reiðufé af greiðslukortareikningum félagsins hvert ár tæplega helming af veltu, sem jafnframt sé hærri úttekt en uppgefinn virðisaukaskyld velta félagsins.

                Í gærkvöld hafi sjö óeinkennisklæddir lögreglumenn farið á staðinn, í tveimur aðskildum hópum.  Eins og fram komi í skýrslum þeirra allra hafi þeim verið boðin kynlífsþjónusta gegn 100.000 króna greiðslu, auk ýmiss annarra þjónustu eins og einkadans, en í því felist að starfstúlka staðarins dansar nakin fyrir viðskiptavininn.  Hafi þeim verið boðið að vera í klukkustund með einni af starfsstúlkum staðarins í sérstöku herbergi á þriðju hæð hússins.  Í því herbergi og gegn 100.000 króna greiðslu væri allt leyfilegt, þar væri hægt að fá „sex“ og „go all the way.“ Hafi lögreglumenn látið á það reyna að borga bæði fyrir einkadans sem fram hafi farið á fyrstu hæð hússins og kynlífsþjónustu á þriðju hæðinni, sbr. skýrslu BS-8614, þar sem eftirfarandi komi m.a. fram:

                „Hún [ein af starfsstúlkum staðarins] bauð einkadans í kjallara hússins en ég sagðist ekki hafa efni á því. Ég spurði hana hvað hún hefði fram að bjóða, þá sagði hún að það væru bara einhverjar mínútur þarna niðri eða þá að fara upp á efri hæðina, þá væri farið "all the way", en það myndi kosta hundrað þúsund kall.

                Á ákveðnum tímapunkti var mér boðið af félaga mínum að fara upp og þegar búið var að greiða fyrir það, kom barþjónninn til mín, grannur og stuttklipptur, og sagði við mig að ég mætti velja hverja sem er af stúlkunum sem inni voru. Ég valdi þá stúlku sem ég var búinn að tala við fyrr um kvöldið, hún spurði mig  hvers vegna hún, ég sagði að ástæðan fyrir því væri að ég hefði verið að tala við hana um kvöldið en ekki aðra.

                Við gengum framhjá barnum, framhjá salerninu og upp þröngan stiga og þar vísaði hún mér inn í herbergi með stólum og púðum. Þar spurði ég hana hvað ég gæti fengið, hún sagði að ég gæti fengið hvað sem er (eins og hún orðaði það, "we can go all the way"), þar sem ég væri búinn að borga þennan hundrað þúsund kall, en ég mætti ekki láta það spyrjast niður að það myndi gerast. Túlkaði ég þau orð frá henni, að í því fælust kynmök. Eftir það hringdi ég í félaga minn til að láta vita að hún væri búin að bjóða þessa þjónustu og stuttu seinna komu lögreglumenn upp.  Eftir það, var ástandið fryst og ég yfirgaf vettvang.“

                Kærði Z hafi verið handtekinn á veitingastaðnum í nótt þar sem hann hafi verið að vinna sem dyravörður.  Við yfirheyrslu í nótt og í morgun kvaðst Z starfa sem dyravörður á staðnum og að hafa starfað þar s.l. þrjá mánuði. Hann kvaðst ekki vita annað en staðurinn sé venjulegur veitingastaður.  Kvaðst hann ekki vita til að þar sé milliganga um vændi. Framburður kærða stangist á við framburði annarra og gögn málsins og sé hann talinn undir rökstuddum grun um að taka þátt í hinni refsiverðu háttsemi og því skipulagi sem þar sé upplýst að gangi út á að hafa milligöngu um sölu vændis.  Brot kærða sé talið varða við ákvæði 206. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Rannsókn málsins sé á algjöru frumstigi og því afar brýnt að kærði fái ekki svigrúm til að torvelda rannsóknina eða spilla henni á nokkurn hátt.  Fyrir liggi að afla frekari gagna, finna vitni og taka skýrslur af þeim, auk þess sem taka þurfi frekari skýrslu af kærðu í málinu, þá sé og unnið að rannsókn sönnunargagna, m.a. m.t.t. framburðar kærða og vitna.  Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a. liðar 1. mgr. 95. gr. og b. liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

                Samkvæmt því sem rakið er í greinargerð lögreglustjóra og ráða má af öðrum gögnum málsins er kærði undir rökstuddum grun um að hafa, í félagi við aðra, framið brot gegn 206. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að taka þátt í skipulagi um sölu vændis á veitingastaðnum A.  Brot það sem kærði er grunaður um getur varðað fangelsisrefsingu. Kærði hefur neitað sök, en rannsókn málsins er á frumstigi.  Er fallist á það með lögreglustjóranum að kærði geti torveldað rannsókn málsins, svo sem með því að hafa áhrif á samseka eða vitni, gangi hann laus. Með vísan til þess eru uppfyllt skilyrði a.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.  Verður krafan því tekin til greina eins og hún er fram sett, en ekki þykir ástæða til að marka varðhaldinu skemmri tíma.  Með sömu rökum er fallist á að kærði sæti einangrun í gæsluvarðhaldinu, eins og krafist er, samkvæmt b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði, Z, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 8. nóvember 2013 kl. 16. Kærði skal sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.