Hæstiréttur íslands
Mál nr. 5/2015
Lykilorð
- Gjaldþrotaskipti
- Riftun
- Aðild
|
|
Fimmtudaginn 10. september 2015. |
|
Nr. 5/2015.
|
Sund ehf. (Sigurður G. Guðjónsson hrl.) gegn þrotabúi IceCapital ehf. (Haukur Örn Birgisson hrl.) |
Gjaldþrotaskipti. Riftun. Aðild.
Þrotabú I ehf. krafðist riftunar á kaupsamningi SU ehf., sem síðar fékk varð I ehf., og S ehf. um kaup þess síðarnefnda á eignarhlut í F ehf. Samkvæmt samningnum átti að greiða kaupverðið við undirritun hans með skuldabréfi sagt var að væri í viðauka með samningnum en reyndist ekki fylgja. Í héraði hélt þrotabú I ehf. því fram að engin greiðsla hefði komið fyrir eignarhlutinn og því hefði verið um gjafagerning að ræða. Í héraði var fallist á kröfu þrotabúsins á þeim grundvelli að umrætt skuldabréf væri ekki fyrir hendi. Fyrir Hæstarétti lagði S ehf. fram afrit af skuldabréfi útgefnu af félaginu FS ehf. til SU ehf. að sömu fjárhæð og andvirði eignarhlutarins í fyrrnefndum kaupsamningi ásamt greiðsluáskorun búsins til skuldara bréfsins. Í dómi Hæstaréttar kom fram að hefði búið orðið við áskorun S ehf. í héraði um leggja fram umrætt skuldabréf, hefði það gefið S ehf. tilefni til sönnunarfærslu um hvernig eignarhaldi skuldara skuldabréfsins hefði verið háttað þegar það var gefið út. Yrði sönnunarbyrðin fyrir því að skuldabréfið væri málamyndagerningur lögð á búið en hana hefði það ekki axlað. Samkvæmt því var ekki talið að komist hefði á endanlegur samningur um kaup S ehf. á eignarhlutnum heldur hefði honum verið ráðstafað til annars félags. Var S ehf. því sýknað vegna aðildarskorts.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. janúar 2015. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti með álagi.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Svo sem greinir í hinum áfrýjaða dómi gerðu Sund ehf., sem síðar fékk nafnið IceCapital ehf. og áfrýjandi, sem þá hét Skýli 37 ehf., með sér kaupsamning 17. september 2008 þar sem síðarnefnda félagið keypti 68,93% eignarhluta í Fasteignafélaginu Sævarhöfða ehf. Kaupverðið var tilgreint 49.232.956 krónur og átti að greiða við undirritun samningsins með skuldabréfi sem sagt var sýnt í viðauka II með samningnum. Lokasíða samningsins var með þeirri fyrirsögn en að öðru leyti var síðan auð. Af hálfu seljanda undirrituðu samninginn Jón Kristjánsson, stjórnarformaður IceCapital ehf., og Páll Þór Magnússon, framkvæmdastjóri félagins, en sá fyrrnefndi ritaði einnig undir samninginn fyrir hönd áfrýjanda.
Stefndi reisti málatilbúnað sinn í héraði á því að ekkert endurgjald hefði komið fyrir hlutaféð í þessum kaupum og því hefði falist gjöf í ráðstöfuninni sem væri riftanleg eftir 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. eða í öllu falli hefði hún verið ótilhlýðileg í skilningi 141. gr. laganna. Áfrýjandi byggði hins vegar á því að samningur um kaupin hefði aldrei komið til framkvæmda og því hefði skuldabréf samkvæmt honum ekki verið gefið út. Aftur á móti hefði hlutnum verið ráðstafað til félagsins FS Holding ehf. Til stuðnings þessu vísaði áfrýjandi til ársreikninga þess félags 2009 og 2010 þar sem hluturinn var tilgreindur eign þess. Með hinum áfrýjaða dómi var talið að ráðstöfunin hefði falið í sér gjafagerning og voru kröfur stefnda teknar til greina.
Fyrir Hæstarétt lagði áfrýjandi fram afrit af skuldabréfi að fjárhæð 49.232.956 krónur útgefnu 20. september 2008 af FS Holding ehf. til Sunds ehf., sem síðar fékk nafnið IceCapital ehf., eins og áður greinir. Bréfið bar REIBOR vexti með 2% álagi og var til fimm ára með einum gjalddaga höfuðstóls og vaxta 20. september 2013. Bréfið var undirritað af Páli Þór Magnússyni og vottað af nafngreindum manni. Jafnframt lagði áfrýjandi fram greiðsluáskorun stefnda 14. janúar 2015 til skuldara bréfsins. Viðbrögð stefnda við þessu voru að leggja fram tilkynningu 26. mars 2008 um stofnun einkahlutafélagsins FS59, sem síðar fékk nafnið FS Holding ehf. Þar kom fram að félagið var stofnað af CF fyrirtækjasölunni ehf., en það mun vera dótturfélag KPMG ehf. Einnig lagði stefndi fram tilkynningu 23. október 2008 um breyttar samþykktir, nýja stjórn og prókúruumboð frá hluthafafundi 17. sama mánaðar. Á þeim fundi var nafni félagsins breytt í FS Holding ehf. og fyrrgreindur Páll Þór Magnússon kjörinn annar tveggja stjórnarmanna, auk þess sem hann var ráðinn framkvæmdastjóri og honum veitt prókúruumboð. Fyrir Hæstarétti hélt stefndi því fram að skuldabréfið hefði verið útbúið síðar en dagsetning þess gefur til kynna, enda hefði félagið þá borið annað nafn og Páll ekki haft heimild til að undirrita löggerninga fyrir þess hönd á þeim tíma.
II
Í greingargerð áfrýjanda til héraðsdóms skoraði áfrýjandi á stefnda að leggja fram gögn um samninga IceCapital ehf. við FS Holding ehf. og afrit af skuldabréfi sem gefið hefði verið út vegna viðskipta með hlutinn í Fasteignafélaginu Sævarhöfða ehf. Stefndi lagði ekki fram afrit af því skuldabréfi sem áður er lýst og var á meðal gagna búsins heldur var málið rekið áfram á þeim grundvelli að ekkert slíkt bréf væri fyrir hendi. Eftir að héraðsdómur gekk hefur stefndi síðan krafist greiðslu úr hendi skuldara bréfsins, sem nú heitir Helvia ehf.
Ef stefndi hefði orðið við áskorun áfrýjanda í héraði og lagt fram skuldabréfið, eins og honum var í lófa lagið, hefði það gefið áfrýjanda tilefni til sönnunarfærslu um hvernig hagað var eignarhaldi skuldara bréfsins þegar það var gefið út, hvað sem leið því hvenær haldinn var hluthafafundur til að hlutast til um málefni þess. Er þess einnig að gæta að skuldabréfið var vottað af manni sem var framkvæmdastjóri og stjórnarmaður Helvía ehf., áður FS Holding ehf., þegar félaginu var send greiðsluáskorun stefnda 14. janúar 2015 vegna skuldabréfsins. Að þessu gættu verður sönnunarbyrðin fyrir því að skuldabréfið sé málamyndagerningur lögð á stefnda en hana hefur hann ekki axlað. Þá verður ekki vefengt að bréfið hafi verið gefið út vegna kaupa á hlut í fyrrgreindu félagi, enda er það sömu fjárhæðar og andvirði hans í kaupsamningnum við áfrýjanda 17. september 2008 og engin önnur skýring hefur verið gefin á útgáfu þess. Samkvæmt þessu verður ekki talið að komist hafi á endanlegur samningur um kaup áfrýjanda á hlutnum í Fasteignafélaginu Sævarhöfða ehf. heldur hafi hlutnum verið ráðstafað til annars félags. Samkvæmt því verður áfrýjandi sýknaður vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Eftir þessum úrslitum verður stefnda gert að greiða áfrýjanda málskostnað á báðum dómstigum sem ákveðinn verður í einu lagi eins og greinir í dómsorði. Ekki eru efni til að dæma álag á málskostnað.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Sund ehf., er sýknaður af kröfum stefnda, þrotabús IceCapital ehf.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 2. október 2014.
Mál þetta, sem höfðað var með stefnu birtri 28. desember 2012, var tekið til dóms 4. september sl. Stefnandi er Þrotabú IceCapital ehf., Smáratorgi 3, Kópavogi, en stefndi er Sund ehf., Þernunesi 6, Garðabæ.
Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndi verði dæmdur til að þola riftun á ráðstöfun 68.93% eignarhlutar í Fasteignafélaginu Sævarhöfða ehf. sem seldur var frá IceCapital ehf. til stefnda þann 17. desember 2008. Jafnframt krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða stefnanda 49.232.956 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 17. desember 2008 til greiðsludags. Loks krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans.
I
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 14. mars 2012 var bú stefnanda IceCapital ehf. tekið til gjaldþrotaskipta en skiptabeiðandi var Arion banki hf. Skiptastjóri var skipaður sama dag í þrotabúinu. Frestdagur í búinu var 26. janúar 2012. Innköllun birtist í Lögbirtingablaði þann 23. mars 2012 og aftur 30. s.m. Skiptafundur um lýstar kröfur var haldinn þann 31. maí s.á. Í júní 2012 barst skiptastjóra bókhald félagsins á rafrænu formi. Deloitte ehf. var falið að rannsaka bókhald félagsins og var samantekt vegna rannsóknarinnar skilað til skiptastjóra í desember 2012. Samkvæmt hlutafélagaskrá var tilgangur félagsins umboðs- og heildverslun, eignarhald og viðskipti með verðbréf, rekstur og eignarhald fasteigna, svo og lánastarfsemi. Stefnandi átti hlut í íslensku viðskiptabönkunum. Stefnandi segir að við fall þeirra hafi félagið að mestu orðið eignalaust en setið eftir með háar skuldir. Stefnandi hét áður Sund ehf. Nafni félagsins var breytt árið 2008 og hét þá IceCapital ehf. Eftir breytinguna var nafni stefnda breytt úr Skýli 37 ehf. yfir í Sund ehf. Núverandi Sund ehf., kt. 680606-2500, er félag í eigu sömu aðila og voru hluthafar stefnanda, þ.e. systkinanna Jóns Kristjánssonar og Gabríelu Kristjánsdóttur ásamt móður þeirra, Gunnþórunni Jónsdóttur. Samkvæmt hlutafélagaskrá var tilgangur stefnanda umboðs- og heildverslun, eignarhald og viðskipti með verðbréf, rekstur og eignarhald fasteigna, svo og lánastarfsemi.
Þann 17. desember 2008 gerðu stefnandi og stefndi samning um kaup á hlutafé í Fasteignafélaginu Sævarhöfða ehf., kt. 460404-3120. Samkvæmt samningnum átti stefndi að greiða stefnanda 49.232.956 krónur fyrir hlutinn. Kaupverðið átti að greiðast með skuldabréfi sem var sagt fylgja kaupsamningi í viðauka nr. II. Stefnandi segir að skuldabréf þetta hafi ekki fundist í bókhaldi félagsins og engar greiðslur, hvorki vextir né afborganir af höfuðstól, hafi borist stefnanda frá stefnda síðan samningurinn var gerður.
Stefnandi telur kaupsamning 17. desember 2008 og skuldabréf, sem átti að fylgja kaupsamningi í viðauka, hafa verið málamyndagerning til þess að koma verðmætum og fjármunum undan fullnustugerðum skuldheimtumanna. Í raun hafi kaupin á hlutafé í Fasteignafélaginu Sævarhöfða ehf. verið gjöf til stefnda. Gjöfin hafi verið til hagsbóta fyrir stefnda og verulega óhagstæð stefnanda. Stefndi hafi ekkert reiðufé greitt til stefnanda vegna kaupanna. Í öllu falli hafi skilmálar greiðslunnar fyrir hlutaféð verið afar óvenjulegir og verulega óhagstæðir stefnanda en vænlegir fyrir stefnda, enda hafi hvorki verið greiddar afborganir né vextir af skuldabréfaláninu sem tilgreint sé í kaupsamningi. Þá hafi engar tryggingar verið lagðar fram til greiðslu skuldarinnar. Lán með engum tryggingum og engum afborgunum séu óvenjuleg, enda sé ómögulegt að fá slík lán á frjálsum lánamarkaði.
Sé ekki fallist á að kaupsamningurinn og lánssamningurinn hafi verið málamyndagerningar byggir stefnandi fjárkröfu sína og málatilbúnað á því að þegar kaupsamningurinn og lánssamningurinn séu skoðaðir saman í einni heild séu þeir í raun gjafagerningur þar sem ekki hafi þurft að greiða fyrir hin ráðstöfuðu hlutabréf.
Á því er byggt af hálfu stefnanda að stefnandi hafi verið ógjaldfært félag í skilningi laga nr. 21/1991 frá septembermánuði 2008 og þar af leiðandi ógjaldfært þegar hinar riftanlegu ráðstafanir áttu sér stað. Á þessum tíma hafi stefnandi verið eignalaust félag en skuldir félagsins numið mörgum milljörðum króna. Þessu til stuðnings megi t.d. benda á að samkvæmt ársreikningum stefnanda 2008 og 2009 hafi eigið fé stefnanda verið neikvætt um 17,5 milljarða króna í lok árs 2008 og um rúma 24,6 milljarða króna í árslok 2009. Í ársreikningi félagsins 2008 segi m.a. að tap ársins 2008 nemi rúmlega 32,2 milljörðum króna og eigið fé félagsins sé neikvætt í árslok um 17.579.000 krónur. Þessi atriði valdi því að vafi leiki á um rekstrarhæfi félagsins.
Þessu til frekari stuðnings vísist til þess sem fram komi í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 að á tímabilinu frá 1. janúar 2007 til 30. september 2008 en þar komi fram að skuldir stefnanda og tengdra félaga hafi hækkað um 44,7 milljarða króna. Í evrum talið hækkuðu skuldbindingar félaganna um 236,5 milljónir eða 117%. Á sama tímabili hafi nýjar lánveitingar samkvæmt ákvörðun lánanefnda numið 43,3 milljörðum króna.
Fyrirsvarsmönnum stefnanda hafi augljóslega verið ljóst að félagið var ógjaldfært þegar hinar riftanlegu ráðstafanir áttu sér stað. Í raun hafi stjórnarformaður stefnanda viðurkennt þetta í skýrslutöku hjá skiptastjóra þegar hann lýsti því hvernig eignahlið stefnanda hafi þurrkast út við hrun viðskiptabankanna haustið 2008 og aðeins skuldir hafi staðið eftir. Það hafi verið undir þessum kringumstæðum sem hinar riftanlegu ráðstafanir, sem um sé að tefla í þessu máli, hafi verið gerðar. Augljóst sé að gerningurinn hafi ekki verið nauðsynlegur í þágu atvinnurekstrar stefnanda og hvorki eðlilegur með tilliti til sameiginlegra hagsmuna lánardrottna né til að fullnægja daglegum þörfum. Þvert á móti hafi tilgangurinn verið að koma verðmætum undan gjaldþrotaskiptum með því að setja þau yfir í félag í eigu sömu aðila eða nákominna. Þetta hafi fyrirsvarsmönnum félaganna verið ljóst, enda þeim ekki dulist að fjárhagsleg staða stefnanda var orðin verulega slæm.
Stefnandi byggir riftunarkröfu sína aðallega á því að salan á hlutafé stefnanda til stefnda hafi verið gjafagerningur sem sé riftanlegur á grundvelli 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991. Stefnandi og stefndi séu nákomnir í skilningi 3. gr. laga laganna og þar af leiðandi eigi ákvæði 2. mgr. 131. gr. laganna, sbr. bráðabirgðaákvæði 1. mgr. 194. gr. laganna, við um gjafagerninginn. Þá hafi stefnandi, á þeim tíma er ráðstöfunin fór fram, verið ógjaldfær í skilningi 64. gr. laganna.
Stefnandi byggir riftunarkröfu sína einnig á ákvæði 141. gr. laga nr. 21/1991. Stefnandi byggir á að umrædd ráðstöfun hafi verið ótilhlýðileg og leitt til þess að eignir hins gjaldþrota félags voru ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum auk þess sem stefnandi var ógjaldfær og ógreiðslufær á þeim tíma sem gerningurinn átti sér stað og fyrirsvarsmenn stefnda vissu eða máttu vita af ógjaldfærni stefnanda og þeim aðstæðum sem leiddu til þess að ráðstöfunin var ótilhlýðileg.
Fjárkrafa stefnanda byggist á 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 verði henni rift á grundvelli ákvæðis 131. gr. laganna. Þar sé mælt fyrir um að sá sem hag hefur af riftanlegri ráðstöfun skuli greiða þrotabúi fé sem svari til þess sem greiðsla þrotamanns hafi orðið honum að notum. Stefnandi byggir á því að hin riftanlega ráðstöfun hafi komið stefndu að sömu notum og svari til fjárhæðar hennar.
Verði á hinn bóginn fallist á riftun á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991 sé endurgreiðslukrafa stefnanda reist á 3. mgr. 142. gr. laganna. Síðarnefnda ákvæðið mæli fyrir um að sá sem hag hefur haft af riftanlegri ráðstöfun greiði bætur eftir almennum reglum. Stefnandi hafi orðið fyrir fjártjóni sem nam fjárhæð hinnar riftanlegu ráðstöfunar, enda hefðu fjármunirnir nýst stefnanda að fullu til úthlutunar upp í lýstar kröfur í þrotabú stefnanda. Bæði reglur 1. og 3. mgr. 142. gr. laganna leiði til sömu fjárkröfu sem sé stefnufjárhæð þessa máls. Vísar stefnandi einnig til umfjöllunar um ótilhlýðileika ráðstöfunarinnar til frekari rökstuðnings.
Stefnandi byggir kröfu sína einnig á ákvæðum 51. gr. og 70. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Við gjaldþrotaskiptin hafi stefnandi eignast skaðabótakröfu hins gjaldþrota félags á hendur stefndu, sbr. XII. kafla laga nr. 21/1991. Stefnandi bendir á að stefndi hafi vitað, eða mátt vita, að sala bréfanna eða lánveiting stefnanda til stefnda hafi verið brot á ákvæðum laga um einkahlutafélög nr. 138/1994, sbr. 2. tl. 1. mgr. 52. gr. laganna. Stefnandi byggir á því að ráðstöfunin hafi verið bæði hluthöfum stefnanda eða öðrum, það er hluthöfum stefnda, til ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað stefnanda og kröfuhafa hans. Með sömu rökum vísar stefnandi til 70. gr. laganna.
Enn fremur byggir stefnandi á meginreglu gjaldþrotaskiptaréttar um jafnræði kröfuhafa og á almennum reglum kröfuréttar. Dráttarvaxtakrafa sé reist á III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Krafa um riftun er einkum reist á 131. og 141. gr. laganna. Fjárkrafa stefnanda byggist á 1. og 3. mgr. 142. gr. gjaldþrotalaga, almennum reglum skaðabótaréttarins sem og ákvæðum laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög og reglum kröfuréttar. Um vexti og dráttarvexti er vísað til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá er krafa um málskostnað reist á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um varnarþing er vísað til V. kafla sömu laga. Þá bendir stefnandi á að samkvæmt 1. mgr. 148. gr., sbr. bráðabirgðaákvæði 194. gr. gjaldþrotalaga, er mál þetta höfðað innan málshöfðunarfrests.
II
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að samningur aðila sé hrein markleysa og stefnandi hefði aldrei getað efnt hann. Hið rétta er að allir hlutir í Fasteignafélaginu Sævarhöfða ehf., sem hafi átt fasteignirnar að Sævarhöfða í Reykjavík, hafi verið færðir inn í félagið F.S. Holding ehf. ásamt hlutun í bifreiðaumboðunum B&L ehf. og Ingvari Helgasyni.
Íslandsbanki hf., sem hafi verið viðskiptabanki bifreiðaumboðanna og fasteignafélagsins hafi átt veð í öllum hlutum þeirra og leysti þá til sín á endanum. Stefnandi hafi því ekki getað á árinu 2008, né síðar, ráðstafað neinum hlutum í Fasteignafélaginu Sævarhöfða ehf., nema með samþykki Íslandsbanka hf. Íslandsbanki hf. hafi aldrei samþykkt sölu til stefnda og stefndi hafi aldrei verið skráður sem hluthafi í hlutaskrá Fasteignafélagsins Sævarhöfða ehf. Íslandsbanki hf. hafi hins vegar samþykkt ráðstöfun hlutanna til F.S. Holding ehf., enda hafi stjórnendur þess félags unnið með Íslandsbanka hf. að lausn skuldamála Fasteignafélagsins Sævarhöfða ehf., B&L ehf. og Ingvars Helgasonar ehf. Hafi farið svo að lokum að Íslandsbanki hf. hafi fengið alla hluti í Fasteignafélaginu Sævarhöfða ehf. og bifreiðaumboðunum framselda. Hlutirnir, sem mál þetta snúist um, hafi verið færðir í efnahagsreikning F.S.Holding ehf. og skuld við stefnanda á móti. Skuldabréf vegna hennar sé í fórum stefnanda.
Vilji stefnandi rifta ráðstöfun á hlutum í Fasteignafélaginu Sævarhöfða ehf. þá verði að beina kröfum þar að lútandi að F.S. Holding ehf. og Íslandsbanka hf. en ekki stefnda. Stefndi hafi enga aðild átt að viðskiptum með hluti í Fasteignafélaginu Sævarhöfða ehf. og geti því ekki þurft að þola riftun á samningi sem aldrei hafi komið til framkvæmda né hafi getað komið til framkvæmda. Engum riftanlegum ráðstöfuunum sé til að dreifa og því beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda. Sá kröfuhafi stefnanda, sem átti hafi veð í eignum þeim sem mál þetta snúist um, hafi fengið þau verðmæti sem í þeim eignum fólust. Stefnandi hefði geta komist hjá þessum þarflausu málaferlum hefði hann haft fyrir því að kynna sér gögn þrotabúsins áður en mál þetta var höfðað.
Stefndi bendir á að málatilbúnaður stefnanda sé ekki aðeins þarflaus heldur einnig þannig úr garði gerður að hann uppfylli ekki skilyrði d og e liðar 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Þannig sé krafist dráttarvaxta án nokkurrar tilvísunar til laga í dómkröfum málsins og málsástæður og málsatvik óljós. Stefndi mótmælir því að stefnandi fái bætt úr þessum hnökrum á málatilbúnaði sínum komi tilhæfulausar riftunarkröfur til álita. Dómara beri að vísa dráttarvaxtakröfunni frá dómi ex offico, enda verði hún ekki tekinn upp óbreytt sem ályktunarorð dómsniðurstöðu í málinu fari svo ólíklega að dómkrafa stefnanda verði tekin til greina.
Stefnda sé með öllu óskiljanleg sú málsástæða stefnanda að fjárkrafa hans í málinu styðjist einnig við ákvæði 51., 70. og 79. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 og almennu skaðabótaregluna. Undir dómkröfum í stefnu sé gerð krafa um riftun á samningi og endurgreiðslu að fjárhæð 49.232.956 krónur með dráttarvöxtum. Engin sjálfstæð krafa sé höfð uppi um það í málinu að stefnandi sé óbundinn af löggerningi sínum og stefnda. Þvert á móti virðist sem umfjöllun í stefnu geri ráð fyrir því að stefnandi eigi einhvers konar skaðabótakröfu á hendur stefnda þar sem forsvarsmenn stefnanda hafi við lánveitinguna hyglað stefnda á kostnað annarra hlutahafa eða félagsins. Tilvísun stefnanda til 51., 70. og 79. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 sé hreinlega út úr kú og hafi engin tengsl við sakarefni máls þessa. Engin grein sé gerð fyrir því í stefnunni hvernig almenna skaðabótareglan eigi að geta leitt til bótaskyldu stefnda gagnvart stefnanda í máli þessu. Þá beri þess einnig að geta að í 71. gr. laga um einkahlutafélög sé að finna sérstakt málshöfðunarákvæði.
Stefndi mótmælir málatilbúnaði stefnanda í heild sinni, enda sé hann án allra tengsla við það sem raunverulega hafi gerst. Stefnandi eigi enga lögvarða kröfu á hendur stefnda. Stefndi sé því ekki réttur aðili að máli þessu og beri að sýkna hann, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Varðandi lagarök vísar stefndi til almennra reglna samningaréttar um stofnun og slit samninga, reglna um afhendingu greiðslna og þýðingu vanheimildar. Til reglna einkamálaréttarfars um sýknu vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um málskostnað byggst á 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Fyrir dóminn komu og gáfu skýrslu Páll Þór Magnússon, fyrrverandi framkvæmdastjóri stefnanda. Þá gaf einnig skýrslu Sif Einarsdóttir, löggiltur endurskoðandi, en hún stjórnaði vinnu við gerð skýrslu um bókhald stefnanda sem gerð var að tilhlutan skiptastjóra stefnanda.
III
Bú IceCapital ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði 14. mars 2012 og var frestdagur í búinu 26. janúar 2012. Þrotabúið höfðaði mál þetta til riftunar á ráðstöfun sem það telur felast í sölu stefnanda á 68,93% eignahlut í Fasteignafélaginu Sævarhöfða ehf. frá stefnanda til stefnda þann 17. september 2008. Samkvæmt kaupsamningi aðila þann dag átti stefndi að greiða 49.232.956 krónur fyrir hlutinn sem greiðast skyldi með skuldabréfi sem sagt var í kaupsamningi að fylgdi með í viðauka. Af hálfu stefnanda er því haldið fram að kaupsamningur hafi ekki fundist í bókhaldi félagsins og er það staðfest af hálfu stefnda að kaupsamningur hafi ekki verið gerður. Í greinargerð stefnda er útskýrt hvernig á því stóð og er það rakið hér að framan. Heldur stefndi því fram að kaupsamningurinn hafi verið markleysa og að stefnandi hefði aldrei getað efnt hann.
Í kröfugerð stefnanda og málavöxtum er kaupsamningurinn sagður vera frá 17. desember 2008 en hann er í reynd undirritaður 17. september 2008. Í málflutningi sínum við aðalmeðferð leiðrétti lögmaður stefnanda þessa villu og sætti það ekki andmælum af hálfu lögmanns stefnda.
Riftunarkrafa stefnanda er aðallega reist á ákvæðum 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991, sbr. bráðabirgðaákvæði 1. mgr. 194. gr. laganna, og byggð á því að salan á hlutafénu hafi verið gjafagerningur til nákominna og að stefnandi hafi verið ógjaldfær þegar salan fór fram. Ekki er deilt um tímafresti í málinu né að aðilar hafi verið nákomnir í skilningi 131. gr. laganna.
Riftunarreglum XX. kafla laga nr. 21/1991 er ætlað að tryggja að markmið laganna um jafnræði kröfuhafa við úthlutun eigna búsins geti náðst. Með gjöf í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991 er átt við ráðstafanir sem leiði til skerðingar á eignum þrotamanns og eignaraukningar móttakandans. Í þessu sambandi verður einnig að líta til þess hvort ráðstöfunin hafi verið gerð í örlætisskyni til aðgreiningar frá ráðstöfunum sem einungis eru viðskiptalegs eðlis. Gagnkvæmir samningar, þar sem verulegur munur er á verðmæti greiðslu og endurgjalds, geta falið í sér gjöf í þessari merkingu.
Varðandi gjaldfærni stefnanda verður að hafa í huga að samkvæmt ársreikningum stefnanda var eigið fé stefnanda neikvætt um 17,5 milljarða króna í lok árs 2008 og rúma 24,6 milljarða króna í árslok 2009. Í ársreikningi stefnanda 2008 segir að tap ársins 2008 nemi 32.262 milljónum króna og eigið fé félagsins sé neikvætt í árslok 2008 um 17.579 milljónir króna. Segir endurskoðandi félagsins í ársskýrslunni að framangreint valdi því að vafi leiki á um rekstrarhæfi félagsins. Í ársreikningi 2009 segir m.a. í skýrslu stjórnar og framkvæmdastjóra að 7.028 milljóna króna tap hafi orðið á rekstri félagsins árið 2009 samkvæmt rekstrarreikningi og að eigið fé félagsins hafi í árslok verið neikvætt um 24.607 milljónir króna. Ársreikningur fyrir 2009 var ekki endurskoðaður af endurskoðanda. Alkunna er að erfiðleikar fjármálafyrirtækja hér á landi hófust árið 2007 og ágerðust haustið 2008. Stefnandi var fjárfestingafélag og átti m.a. stóra hluti í íslensku viðskiptabönkunum þremur svo og í Byr sparisjóði.
Sönnunarbyrði um gjaldfærni skuldara, eftir að gjöf var gefin, hvílir á móttakanda gjafar, stefnda. Hann hefur ekki í málatilbúnaði sínum leitast við að sýna frama á að stefndi hafi verið gjaldfær er kaupsamningur var gerður 17. september 2008 og það þrátt fyrir afhendinguna. Verður því talið að þessu skilyrði 2. mgr. 131. gr. sé fullnægt.
Ekki liggur annað fyrir í málinu en að 68,93% eignarhlutur í Fasteignafélaginu Sævarhöfða ehf. hafi verið færður frá stefnanda til stefnda og að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni sem söluverði nemur og móttakandi auðgast á sama hátt. Stefndi hefur ekki sýnt fram á með gögnum að atvikum sé á annan hátt farið. Engin gögn af hálfu stefnda hafa t.d. verið lögð fram um þá málsástæðu hans að Íslandsbanki hf. hafi átt veð í hinum seldu hlutum og því hafi salan á hinum umstefnda eignarhluta verið ómöguleg án samþykkis bankans og í raun ekki farið fram. Þá skiptir ekki máli hvernig eignarhlutnum var ráðstafað síðar til annarra félaga en á því virðist vera byggt af hálfu stefnda. Verður því fallist á með stefnanda að ráðstöfun stefnanda 17. september 2008, er 68,93% hlutur í Fasteignafélaginu Sævarhöfða ehf. var seldur frá stefnanda til stefnda og engin greiðsla kom fyrir, hafi verið örlætisgerningur og riftanlegur á grundvelli 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991. Verður því samkvæmt framansögðu fallist á riftunarkröfu stefnanda á hendur stefnda og jafnframt á endurgreiðslukröfu stefnanda samkvæmt 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 eins og nánar greinir í dómsorði.
Stefnandi byggir fjárkröfu sína einnig á 51. og 70. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Þessi kröfugerð stefnanda er ekki í tengslum við málatilbúnað stefnanda að öðru leyti og tengist ekki málsástæðum stefnanda og kröfugerð sem byggist á XX. kafla laga nr. 21/1991 um riftun á ráðstöfunum þrotamanns og endurheimt verðmæta við gjaldþrot. Fjárkrafa stefnanda verður því ekki reist á fyrrgreindum ákvæðum laga um einkahlutafélög.
Í kröfugerð sinni í stefnu krefst stefnandi dráttarvaxta án frekari tilvísunar. Í lagarökum sínum í stefnu vísar hann til III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu án þess að tiltaka hundraðshluta vaxta eða vísa til 1. mgr. 6. gr. laganna. Undir rekstri málsins var bókað af hálfu stefnanda að dráttarvaxtakrafan væri byggð á 1. mgr. 6. laga nr. 38/2001 og mótmælti stefndi að þessi breyting á kröfugerð kæmist að í málinu þar sem hún væri of seint fram komin. Talið verður í samræmi við fordæmi Hæstaréttar, t.d. í dómi nr. 522/2008, að tilvísun til III. kafla nefndra laga í stefnunni hafi verið fullnægjandi og stefnanda leiðréttingin heimil. Dráttarvextir verða dæmdir frá 28. janúar 2013 en þá var liðinn mánuður frá því að stefnandi krafði stefnda um greiðslu kröfunnar, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Eftir þessum úrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 350.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Við ákvörðun málskostnaðar hefur verið tekið tillit til fimm annarra riftunarmála stefnanda sem flutt voru sama dag.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð
Rift er kaupsamningi um sölu IceCapital ehf. til stefnda, Sunds ehf., á hlutabréfum í Fasteignafélaginu Sævarhöfða ehf., 66,56% eignarhlut, samkvæmt kaupsamningi 17. september 2008.
Stefndi greiði stefnanda 49.232.956 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 28. janúar 2013 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 350.000 krónur í málskostnað.