Hæstiréttur íslands
Mál nr. 296/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Farbann
|
|
Mánudaginn 29. apríl 2013. |
|
Nr. 296/2013.
|
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Víðir Smári Petersen hdl.) |
Kærumál. Farbann.
X var gert að sæta farbanni á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. apríl 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. apríl 2013 þar sem varnaraðila var gert að sæta farbanni til þriðjudagsins 21. maí 2013 klukkan 16. Kæruheimild er í l. liðar 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að farbanninu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hin kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. apríl 2013.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta farbanni, allt til þriðjudagsins 21. maí 2013 kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu rannsaki andlát A kt. [...] sem sunnudagskvöldið 17. mars sl. hafi verið flutt meðvitundarlaus af heimili sínu í [...] á Landspítalann við Hringbraut þar sem hún hafi verið úrskurðuð látin laust eftir kl 02:00 aðfaranótt mánudagsins 18. mars sl.
Óskað hafi verið eftir sjúkrabíl að heimili barnsins um kvöldmatarleytið 17. mars sl. vegna veikinda barnsins. Það hafi verið nágrannar barnsins sem hafi hringt að beiðni föður þess. Barnið hafi þá verið meðvitundarlaust en andað. Við líkamsskoðun á barninu á Landspítalanum hafi sést marblettir ofarlega á báðum upphandleggjum þess, sérstaklega hægra megin. Fljótlega eftir komu á slysadeild hafi komið í ljós að annað sjáaldrið hjá barninu hafi verið víðara en hitt og hafi því verið farið með barnið í tölvusneiðmynd á höfði. Tölvusneiðmyndin hafi sýnt útbreidda blæðingu hægra megin undir höfuðkúpubeini sem hafi legið yfir nær öllu hægra heilahvelinu og inn á milli heilahvelanna. Þá hafi æðar í höfði barnsins reynst sprungnar og háræðar rifnar. Stúlkan hafi látist að lokum vegna heilablæðingar. Það hafi verið niðurstaða læknis sem hafi skoðað barnið að útlit blæðingarinnar samræmdist blæðingu af völdum áverka, höggs eða því þegar heili kastast til inni í höfuðkúpu. Þá hafi áverkar á höndum bent til þess að barnið hefði verið beitt ofbeldi.
Vegna framangreinds hafi kærði verið handtekinn og yfirheyrður vegna málsins. Hann hafi neitað að vera valdur að áverkum dóttur sinnar. Hafi hann greint lögreglu frá því að hafa verið einn heima með barnið sem hafi vaknað skömmu eftir að móðir þess hafi farið til vinnu. Barnið hafi grátið og verið óvært en hann hafi reynt að róa það með því að ganga með það um gólf og fara með það út að ganga. Þegar kærði hafði gengið um gólf með barnið eftir að hann kom inn úr göngutúrnum hafi farið að koma frá henni undarleg hljóð og jafnframt hafi líkami hennar orðið máttlaus. Í framhaldinu hafi hann leitað til nágranna sinna og beðið þá að hringja á sjúkrahús.
Samkvæmt upplýsingu lögreglu hafi móðir barnsins farið til vinnu kl. 17:40 og hafi barnið þá verið sofandi. Laust fyrir klukkan 19 hafi kærði hringt í móður barnsins og sagt henni að eitthvað amaði að barninu.
A hafi verið krufin þriðjudaginn 19. mars sl. og hafi verið gerð bráðabirgðarsamantekt á niðurstöðum krufningarinnar sem sýni að barnið hafði verið beitt ofbeldi með þeim hætti að það hafi verið hrist skömmu fyrir andlát þess. Þetta sjáist á ytri áverkum á handleggjum barnsins og blæðingu í höfði og hjarta þess. Þá beri barnið einnig merki þess að hafa verið beitt ofbeldi áður en eldri blæðingar og áverkar hafi verið sjáanleg á rifjum og vinstri sköflungi barnsins. Það sé niðurstaða krufningarinnar að barnið hafi látist vegna svokallaðs shaken baby syndrome.
Kærði hafi nú verið yfirheyrður í þrígang og neiti alfarið að vera valdur að áverkum dóttur sinnar en geti ekki gefið skýringar á þeim miklu blæðingum og útvortis áverkum sem hún hafi borið við komu á slysadeild 17. mars sl.
Þrátt fyrir neitun kærða gefi læknisvottorð málsins og bráðabirgðaniðurstaða krufningar sterklega til kynna að barnið hafi látist vegna þess að það hafi verið hrisst harkalega. Kærða og móður barnsins beri saman um að barnið hafi verið rólegt og sofið er móðirin hafi farið til vinnu fyrr um kvöldið. Kærði hafi ekki geta gefið skýringar á þeim áverkum sem barnið hafi reynst vera með við komu á slysadeild en hann sé sá eini sem hafði með barnið að gera þar til það missti meðvitund. Kærði liggi samkvæmt framansögðu undir sterkum rökstuddum grun um að vera valdur að dauða dóttur sinnar, A og hafa þar með framið brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem varði allt að 16 ára fangelsi eða eftir atvikum gegn 215. gr. sem geti varðað fangelsi allt að 6 árum.
Kærði hafi upphaflega verið úrskurðaður í gæsluvarðhald með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur þann 18. mars sl. nr. R-109/2013 sem Hæstiréttur hafi staðfest með dómi réttarins nr. 184/2013. Kærða hafi í framhaldi verið gert að sæta farbanni frá 26. mars sl. til dagsins í dag með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur.
Kærði sé búsettur hér á landi en hann sé breskur ríkisborgari. Er það mat lögreglustjóra að brot það sem hér um ræðir sé þess eðlis að nauðsynlegt sé að tryggja nærveru kærða á landinu vegna rannsóknar málsins og til að hann geti ekki komið sér undan mögulegri málsmeðferð fyrir dómi. Er því nauðsynlegt að kærði sæti áframhaldandi farbanni meðan á meðferð máls þessa stendur.
Að öllu framangreindu virtu og með hliðsjón af því hversu alvarlega háttsemi kærði sé sakaður um, teljast uppfyllt skilyrði til að hann sæti farbanni á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 100. gr. laga nr. 88/2008.
Dóttir kærða, sem lést aðfaranótt 18. mars sl., var í hans umsjá er hún missti meðvitund. Miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir um áverka á henni er fram kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Kærði hefur verið búsettur hér á landi, en er [erlendur] ríkisborgari. Hann neitar því að hafa valdið dauða dóttur sinnar. Er á það fallist að fullnægt sé skilyrði b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um að ætla megi að hann muni reyna komast úr landi til að koma sér undan málsókn af þessu tilefni. Eru þá jafnframt uppfyllt skilyrði 100. gr. sömu laga til að banna honum brottför af landinu. Ber því að taka kröfu lögreglustjórans til greina, en ekki þykir ástæða til að marka farbanninu skemmri tíma.
Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærða, X, kt. [...], er bönnuð brottför af landinu allt til þriðjudagsins 21. maí 2013 kl. 16:00.