Hæstiréttur íslands

Mál nr. 71/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Hæfi dómara


Fimmtudaginn 3. mars 2011.

Nr. 71/2011.

Friðrik Þorbergsson

(Jón Einar Jakobsson hrl.)

gegn

Kristjáni Ingólfssyni og

Sigurði Erni Leóssyni

(Sigurður Jónsson hrl.)

Kærumál. Hæfi dómara.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu F um að dómari viki sæti í skuldamáli sem hann hafði höfðað gegn K og S. Í héraðsdómi, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, var talið að ekkert væri fram komið sem gæfi tilefni til að draga óhlutdrægni dómara í efa og ekki hefðu verið færð fram rök fyrir því að dómarinn bæri óvildarhug eða kala til lögmanns F.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. janúar 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. febrúar sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 17. janúar 2011, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari viki sæti í máli sem sóknaraðili hefur höfðað gegn varnaraðilum. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að úrskurðurinn verði felldur úr gildi og dómaranum verði gert að víkja sæti í málinu. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Friðrik Þorbergsson, greiði varnaraðilum, Kristjáni Ingólfssyni og Sigurði Erni Leóssyni, 100.000 krónur hvorum í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 17. janúar 2011.

Mál þetta er höfðað með stefnu birtri 3. nóvember 2010.  Stefnandi er Friðrik Þorbergsson, kt. 221149-3009, Stuðlaseli 27, Reykjavík og stefndu Kristján Ingólfsson, kt. 291150-5199, Lautasmára 31, Kópavogi og Sigurður Örn Leósson, kt. 150557-2759, Tjarnarbóli 8, 170 Seltjarnarnesi.

Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:

1.       Aðallega að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda in solidum skuld að fjárhæð kr. 14.950.000 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla, sbr. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, frá 23. sept. 2010 til greiðsludags. Krafist er vaxtavaxta skv. 12. gr. sömu laga er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti.

2.       Til vara að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda in solidum skuld að fjárhæð kr. 10.000.000 með dráttarvöxtum eins og að ofan greinir.

3.       Þá er krafist staðfestingar á kyrrsetningu, sem gerð var af sýslumanninum í Kópavogi 18. október 2010 fyrir kr. 15.777.489 í eigu stefnda Kristjáns Ingólfssonar, þ.e. 50% eignarhluta í Lautasmára 31, Kópavogi, fnr. 206-3794 og Eyrarskógi 90, Hvalfjarðarsveit, fnr. 210-4575.

4.       Þá er krafist málskostnaðar í öllum tilvikum, þ.m.t. kostnað af kyrrsetningu og þinglýsingu gerðar samkvæmt mati dómsins og/eða málskostnaðarreikningi auk virðisaukaskatts.

Stefndu krefjast þess að verða sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefndu málskostnað að mati dómsins. Til vara krefjast stefndu sýknu af öllum kröfum stefnanda gegn greiðslu á kr. 2.300.000 króna. Til þrautavara krefjast stefndu sýknu af öllum kröfum stefnanda gegn greiðslu á kr. 2.300.000 með vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum frá 23. september 2010 til greiðsludags. Þá krefjast stefndu málskostnaðar úr hendi stefnanda.               

Stefnandi hefur við fyrirtöku málsins þann 12. janúar sl. sett fram þá kröfu að dómari málsins víki sæti með vísan til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 91/1991 vegna vanhæfis.

Til stuðnings kröfu sinni vísar lögmaður stefnanda til þess að dómari í þessu máli hafi kveðið upp dóm í Héraðsdómi Suðurlands í sakamálinu S-730/2008 en lögmaður stefnanda hafi verið verjandi í því máli. Í forsendum þess dóms segi: „Framburður ákærða fyrir dóminum um meinta hassneyslu í bifreið sem hann kvaðst hafa verið í, kvöldinu áður en lögreglan stöðvaði hann við akstur, var mjög ótrúverðugur og frásögn ákærða nánast leidd af verjanda hans.“  Telur lögmaðurinn að ekki sé annað að skilja en að dómari álykti að framburður ákærða sé ótrúverðugur, m.a. af þeirri ástæðu að verjandi hafi lagt honum orð í munn, sem dómari nýti síðan sem forsendu að sakaráfelli. Telur lögmaðurinn að dómari staðhæfi með framangreindum orðum að lögmaðurinn hafi brotið lög, bæði hegningar- og réttarfarslöggjöf og komið óheiðarlega fram við störf sín sem verjandi auk þess að honum sé brigslað um brot á lögum um lögmenn, sbr. m.a. 18. gr. laga nr. 77/1988 og á siðareglum lögmanna, sbr. 2. mgr. 5. gr. lögmanna. Telur lögmaðurinn að þar sem ekkert í skýrslu héraðsdóms Suðurlands gefi minnsta tilefni til ummæla dómarans, verði að álykta, að dómarinn beri óvildarhug eða kala í garð lögmannsins, sem geri dómarann vanhæfan til að fara með mál, sem lögmaðurinn á einhverja aðild að. Full ástæða sé til að tortryggja og draga í efa óhlutdrægni dómarans við meðferð málsins.

Lögmaður stefndu mótmælir kröfu lögmanns stefnanda.

Forsendur og niðurstöður.

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 91/1991 gætir dómari að hæfi sínu sjálfur eða samkvæmt kröfu aðila. Í 5. gr. laganna segir í g-lið að dómari sé vanhæfur til að fara með mál ef fyrir hendi eru tilvik eða aðstæður sem fallin eru til þess að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa.  Í máli þessu telur lögmaður stefnanda að dómarinn beri til hans óvildarhug eða kala og vísar þar til orðalags í dómi Héraðsdóms Suðurlands í málinu S-730/2008, sem hann telur að ekki eigi við rök að styðjast.

Við mat á því hvort sekt telst sönnuð eða ekki í sakamáli, leggur dómari heilstætt mat á framkomin gögn, vitnisburði, framburð sakbornings og annað sem skiptir máli við aðalmeðferð máls. Svo var gert í umræddum dómi og niðurstaðan fengin í kjölfari. Í máli því sem hér er rekið er um skuldamál að ræða þar sem viðkomandi lögmaður á ekki aðild að að öðru leyti en því að hann rekur það í umboði skjólstæðings síns. Ekkert er fram komið sem gefur tilefni til að draga megi óhlutdrægni dómara í efa í máli því sem hér er til úrlausnar né hafa verið færð fram rök fyrir því að dómarinn beri óvildarhug eða kala til lögmannsins. 

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari víkur ekki sæti í máli þessu.