Hæstiréttur íslands

Mál nr. 281/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaðartrygging


                                                        

Þriðjudaginn 8. júní 2010.

Nr. 281/2010.

Geir Þórarinn Zoega ehf.

(Þorsteinn Einarsson hrl.)

gegn

Pétri Ingasyni og

Gunnari Björnssyni

(Klemenz Eggertsson hdl.)

Kærumál. Málskostnaðartrygging.

Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að G ehf. yrði gert að setja málskostnaðartryggingu í máli fyrirtækisins gegn P og G.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson 

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. apríl 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. maí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. apríl 2010, þar sem sóknaraðila var gert að setja, innan fjögurra vikna frá uppsögu úrskurðarins, tryggingu í formi bankabókar eða bankatryggingar að fjárhæð 1.000.000 krónur fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sínu gegn varnaraðilum. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að fjárhæð tryggingar verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar að öðru leyti en því að fjárhæð tryggingar fyrir greiðslu málskostnaðar verði hækkuð og sóknaraðili greiði varnaraðilum hvorum fyrir sig kærumálskostnað. Varnaraðilar hafa ekki kært úrskurðinn fyrir sitt leyti og kemur krafa þeirra um hækkun málskostnaðartryggingar því ekki til álita.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Geir Þórarinn Zoega ehf., greiði varnaraðilum, Pétri Ingasyni og Gunnari Björnssyni, hvorum fyrir sig 100.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. apríl 2010.

I.

Mál þetta er höfðað með stefnu, sem birt var stefndu 22. og 24. júlí 2008.

Stefnandi krefst þess að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða stefnanda 105.296.674 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 26. júlí 2006 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefndu, einnig in solidum, að mati dómsins.

Stefndu krefjast sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hans hendi.

II.

Málsatvik eru í megindráttum eftirfarandi:

Með kaupsamningi 26. maí 2006 keypti óstofnað einkahlutafélag, sem síðar bar heitið Hið íslenska gáfumannafélag, af stefndu 99% hlutafjár í Íshlutum ehf. og Vélafli ehf. Eftir kaupin voru stefndu hvor um sig eigandi að 0,5% hlutafjár í félögunum, en afsöluðu þeim hlutum til Hins íslenska gáfumannafélags ehf. í júlí 2006. Umsamið kaupverð var 334.000.000 króna fyrir hluti í Íshlutum ehf., en 16.000.000 króna fyrir hluti í Vélafli ehf. Samkvæmt kaupsamningnum skuldbatt kaupandi sig til að greiða kaupverðið innan 10 daga frá því að niðurstöður áreiðanleikakönnunar lægju fyrir, gegn afsali stefndu á hinu selda hlutafé.

Í 2. kafla kaupsamningsins, er fjallar um ábyrgð seljenda, segir m.a. að seljendur ábyrgist persónulega að rekstri og eignastöðu félaganna sé réttilega lýst í samræmi við góða reikningsskilavenju í ársreikningum félaganna fyrir árið 2005. Í því felist m.a. að engar óvenjulegar eða óeðlilegar ráðstafanir hafi verið gerðar til að draga upp betri mynd í umræddum skjölum en eðlilegt geti talist, að félögin búi yfir viðskiptasamböndum og eigi eignir líkt og fram komi til að tekjum félaganna verði við haldið og að félögin hafi ekki gert neina óvenjulega samninga, t.d. við stjórnendur eða starfsmenn, sem gætu reynst félögunum kostnaðarsamir. Jafnframt er þar tekið fram að seljendur ábyrgist að engin skakkaföll eða óvenjulegar, óeðlilegar eða meiriháttar ráðstafanir í rekstri hafi átt sér stað frá 31. desember 2005.

Í kaupsamningnum eru enn fremur ákvæði um áreiðanleikakönnun og fyrirvara kaupanda. Kemur þar fram að áreiðanleikakönnun hafi ekki farið fram við undirritun kaupsamningsins, en hún muni fara fram í kjölfar kaupanna. Skuldbinda seljendur sig til að tryggja fulltrúum kaupanda aðgang að nauðsynlegum gögnum, en kaupandi skuldbindur sig að ljúka framkvæmd könnunarinnar eigi síðar en þremur vikum eftir að öll tilskilin gögn liggja fyrir. Fyrirvari er um að áreiðanleikakönnun leiði ekkert í ljós, sem talist geti til verulegra frávika frá forsendum kaupanda fyrir kaupum og að ekki sé fyrir að fara öðrum skuldbindingum hjá félögunum en þeim sem fram koma í reikningslegum gögnum sem lögð eru til grundvallar. Jafnframt segir þar svo: „Kaupverð byggir á ársreikningi fyrir árið 2005. Tilboðshafar ábyrgjast að fram að þeim tíma er afhending hlutafjár samkvæmt þessum samningi á sér stað hafi ekki orðið óeðlilegar breytingar á efnahag (þ.m.t. útgreiðsla arðs) eða rekstri félagsins umfram óverulegar breytingar sem geta talist eðlilegur þáttur í daglegum rekstri félagsins, eða óvenjulega [sic] ákvarðanir teknar er varða hagsmuni félagsins og/eða sem leitt hafa til rýrnunar verðmæta þess, umfram það sem telja verður hluta af venjubundinni starfsemi.“ 

Loks segir þar, að leiði áreiðanleikakönnun í ljós veruleg frávik frá því sem vitnað sé til í samningnum, geti kaupandi krafist afsláttar eða lýst samninginn niður fallinn. Tekið er fram að með verulegum frávikum sé átt við a.m.k. 10% frávik varðandi fjárhagslega og mælanlega þætti. 

Í stefnu er frá því greint að kaupandi hafi falið KPMG endurskoðun að framkvæma ofangreinda áreiðanleikakönnun og hafi drögum að skýrslu verið skilað 24. júlí 2006. Í kjölfarið hafi KPMG ráðlagt kaupanda að ganga frá endanlegum samningi um kaup á hlutum í félögunum. Afsal var undirritað 26. júlí 2006 og greiddi kaupandi þá umsamið kaupverð og fékk sama dag hina seldu hluti afhenta. Jafnframt segir þar að stefnandi höfði mál þetta til greiðslu skaðabóta og/eða afsláttar vegna verulegra vanefnda stefndu á kaupsamningi um hluti í Íshlutum ehf., en geri hins vegar ekki athugasemdir við efndir stefndu á samningi um kaup á hlutum í Vélafli ehf. Annars vegar telur stefnandi, að þrátt fyrir ofangreindan fyrirvara hafi stefndu beitt hann blekkingum, er þeir greiddu sér arð úr

Íshlutum ehf., að fjárhæð 72.000.000 króna, skömmu áður en þeir afhentu stefnanda hina seldu hluti á árinu 2006. Hins vegar hafi komið í ljós að ýmsar þýðingarmiklar upplýsingar í ársreikningi félagsins fyrir árið 2005 hafi reynst rangar, og nefnir stefnandi sérstaklega að framlegð hafi verið oftalin, birgðir oftaldar, skuldir vantaldar og að félagið hafi ekki verið rétthafi að bókhaldskerfi þess. Samanlagt mynda kröfur stefnanda stefnufjárhæðina í máli þessu, 105.296.674 krónur.

Undir rekstri málsins óskaði stefnandi eftir því að dómkvaddur yrði matsmaður til þess að láta í té álit á nokkrum atriðum er einkum varða hagnað Íshluta ehf. í ársreikningi fyrirtækisins fyrir árið 2005, birgðir fyrirtækisins og skuldir þess, svo og til þess að leggja mat á innkaupsverð hugbúnaðar sem fyrirtækið notaði við færslu bókhalds. Matsgerðin er dagsett 29. mars 2010 og var hún lögð fram í þinghaldi í málinu 30. mars sl. Við það tækifæri var bókað eftir lögmanni stefndu að stefndu mótmæltu því að matsgerðin yrði lögð fram. Í næsta þinghaldi í málinu, 8. apríl sl., var bókuð sú ákvörðun dómara að matsgerðin kæmist að í málinu. Í sama þinghaldi upplýsti lögmaður stefnanda að stefnandi hefði skipt um nafn og héti nú FS1 ehf. Jafnframt óskaði lögmaðurinn eftir því að bókað yrði að FS1 ehf. hefði framselt stefnukröfuna til Geirs Þórarins Zoëga ehf., og tæki það félag við aðild stefnanda. Lögmaður stefndu mótmælti framsali kröfunnar og taldi framsalið málamyndagerning, og þar af leiðandi ógilt. Um leið skoraði hann að stefnanda að leggja fram skilríki fyrir framsali kröfunnar. Af hálfu stefndu voru lögð fram endurrit úr gerðarbók sýslumannsins í Kópavogi vegna árangurslausra löggeymslugerða stefndu hjá FS1 ehf., útskriftir úr hlutafélagaskrá vegna Geirs Þórarins Zoëga ehf., ásamt ársreikningi þess félags fyrir árið 2008. Kröfðust stefndu þess að meintur kröfueigandi, Geir Þórarinn Zoëga ehf., legði fram málskostnaðartryggingu samkvæmt 133. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Stefnandi mótmælti kröfunni og var málinu frestað til flutnings um framkomna kröfu stefndu til 12. apríl sl. Í þinghaldi þann dag lögðu stefndu fram ársreikninga Geirs Þórarins Zoëga ehf. fyrir árin 1995 til 2007, en stefnandi lagði fram útprentun úr vanskilaskrá. Lögmenn tjáðu sig jafnframt um framkomna kröfu stefndu um málskostnaðartryggingu, en að því búnu var ágreiningur aðila lagður í úrskurð dómsins.

III.

Stefndu byggja kröfu sína um málskostnaðartryggingu á því að uppfyllt séu skilyrði 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 til þess að krafan nái fram að ganga. Meintur kröfueigandi, Geir Þórarinn Zoëga ehf., hafi um margra ára skeið ekki haft neinn rekstur með höndum og sé starfsemi hans óþekkt. Framlagðir ársreikningar sýni að einu eignir félagsins séu bátur og skammtímakröfur, samtals að fjárhæð 2.569.528 krónur, og hafi þær eignir staðið óbreyttar til fjölda ára. Tekjur séu hins vegar engar. Telja stefndu að allar líkur séu á því að stefnandi sé ófær um greiðslu málskostnaðar í máli þessu, verði niðurstaða málsins á þann veg. Telja þeir að hæfileg málskostnaðartrygging sé 4.000.000 króna.

Stefnandi mótmælir kröfu stefndu og telur fjarri að þeir hafi með framlögðum gögnum leitt að því líkur að stefnandi sé ófær um greiðslu málskostnaðar. Þvert á móti byggir hann á því að gögn málsins, bæði ársreikningar félagsins og útskrift úr vanskilaskrá, sýni að félagið sé ekki í neinum vanskilum. Telur stefnandi að ekki séu uppfyllt skilyrði 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 til þess að verða við kröfu stefndu.

IV.

Samkvæmt b. lið 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, getur stefndi krafist þess við þingfestingu máls að stefnandi setji tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar, ef leiða má líkur að því að stefnandi sé ófær um greiðslu hans. Ákvæði þetta, sem er undantekningarákvæði, hefur verið túlkað þannig að ekki sé loku fyrir það skotið að taka megi til greina kröfu um málskostnaðartryggingu, komi hún fyrst fram eftir þingfestingu, enda hafi þá fyrst verið tilefni til þess að telja stefnanda ógreiðslufæran.        

Eins og áður greinir var stefnandi þessa máls í upphafi Hið íslenska gáfumannafélag ehf., og á krafa stefnanda rætur að rekja til kaupa þess félags á 99% hlutafjár í Íshlutum ehf. og Vélafli ehf. Nafni stefnanda var síðar breytt í FS1 ehf., að því er fram kom í þinghaldi 8. apríl sl. Meðal gagna, sem lögð voru fram í því þinghaldi, eru endurrit úr gerðabók sýslumannsins í Kópavogi vegna löggeymslugerða nr. 4 og 5/2010, sem fram fóru 6. apríl sl. Gerðarbeiðendur eru þar stefndu í máli þessu, en gerðarþoli er FS1 ehf. Kröfur gerðarbeiðenda nema þar samtals 31.523.334 krónum. Við fyrirtöku gerðanna var bókað eftir fyrirsvarsmanni gerðarþola að hann ætti engar eignir, aðrar en kröfu á hendur Geir Þórarni Zoëga ehf., en sú krafa sé þó umdeild. Var gerðunum lokið án árangurs.

Í þinghaldi 8. apríl sl. var einnig bókað eftir stefnanda að FS1 ehf. hefði framselt kröfu málsins til Geirs Þórarins Zoëga ehf., sem tæki um leið við aðild málsins sem stefnandi. Þessu mótmæltu stefndu og bentu á að stefnandi hefði ekki lagt fram skilríki fyrir framsali kröfunnar. Um leið kröfðust stefndu þess að hinn nýi aðili, Geir Þórarinn Zoëga ehf., legði fram tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar.

Stefndu áttu þess fyrst kost í þinghaldi 8. apríl sl. að gera kröfu um að stefnandi legði fram tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar, enda upplýsti stefnandi þá að stefnukrafan í máli þessu hefði verið framseld Geir Þórarni Zoëga ehf. Er því ekki við stefndu að sakast þótt sú krafa hafi þá fyrst komið fram. Að því leyti verður að telja að 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, standi því ekki í vegi að stefndu geti nú borið upp slíka kröfu fyrir dóminum.

Sönnunarbyrði um ógjaldfærni stefnanda hvílir á stefndu. Áðurnefnd gögn, einkum framlagðir ársreikningar Geirs Þórarins Zoëga ehf., þykja þess efnis að þeir gefi fullt tilefni til þess að ætla að hinn nýi aðili að málinu sé ófær um greiðslu málskostnaðar. Er þá sérstaklega til þess horft að enginn rekstur hefur verið í því félagi til fjölda ára og er starfsemi þess óþekkt. Um leið hefur félagið engar tekjur haft. Einu eignir þess eru bátur og skammtímakröfur, samtals að fjárhæð 2.569.528 krónur, og hefur hvort tveggja þannig staðið óbreytt í ársreikningum í mörg ár. Ekki er heldur unnt að líta fram hjá því að samkvæmt áðurnefndum löggeymslugerðum mun FS1 ehf. eiga umdeilda kröfu á hendur Geir Þórarni Zoëga ehf., þótt ekkert sé upplýst um efni þeirrar kröfu eða fjárhæð hennar. Niðurstaða dómsins er því sú að stefndu hafi leitt nægar líkur að því að hinn nýi aðili málsins, Geir Þórarinn Zoëga ehf., sé ófær um greiðslu málskostnaðar. Að áliti dómsins eru þannig uppfyllt skilyrði b. liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 til þess að stefnanda verði gert að leggja fram málskostnaðratryggingu vegna reksturs þessa máls.

Með hliðsjón af gögnum málsins og umfangi þess verður fjárhæð málskostnaðartryggingar ákveðin í einu lagi, 1.000.000 króna, og skal hún lögð fram í formi bankabókar eða bankatryggingar innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu þessa úrskurðar.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

Stefnandi, Geir Þórarinn Zoëga ehf., skal innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu þessa úrskurðar leggja fram tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli þessu, að fjárhæð 1.000.000 króna, í formi bankabókar eða bankatryggingar.