Hæstiréttur íslands

Mál nr. 829/2015

Ákæruvaldið (Marín Ólafsdóttir saksóknari)
gegn
Y (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson lögmaður), Óskari Aðils Kemp (Sigmundur Hannesson hrl.), X (Ólafur Eiríksson hrl.) og Þ áhugamannafélagi (Heiðar Ásberg Atlason hrl.)

Lykilorð

  • Fjárhættuspil
  • Peningaþvætti
  • Upptaka
  • Skilorð
  • Frávísunarkröfu hafnað
  • Ómerkingu héraðsdóms hafnað

Reifun

X, Y og Ó voru sakfelld fyrir brot gegn 183. og 184. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og fyrir peningaþvætti samkvæmt 264. gr. sömu laga með því að hafa á tilteknu tímabili rekið fjárhættuspil og tekið, nýtt eða aflað sér ávinnings með því að reka það í atvinnuskyni og komið öðrum til þátttöku í þeim í húsnæði sem félagið Þ hafði á leigu en ákærðu voru í forsvari fyrir félagið. Var refsing Y ákveðin fangelsi í 18 mánuði en fullnustu 15 mánaða refsingarinnar var frestað skilorðsbundið í tvö ár. Var refsing X og Ó ákveðin fangelsi í 9 mánuði en þar sem þáttur þeirra hefði verið mun veigaminni en Y og þar sem málsmeðferð hefði dregist verulega var fullnustu refsingu þeirra frestað skilorðsbundið í tvö ár. Þá voru nánar tilteknir munir og fjármunir gerðir upptækir.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 2. desember 2015 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærðu verði þyngd.

Ákærða X krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað. Að því frágengnu krefst ákærða sýknu en að öðrum kosti að refsing hennar verði milduð.

Ákærði Y krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað en að því frágengnu að refsing hans verði milduð.

Ákærði Óskar Aðils Kemp krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað. Að því frágengnu krefst ákærði sýknu og að upptökukröfum ákæruvaldsins verði hafnað en að öðrum kosti að refsing hans verði milduð.

Ákærði Þ áhugamannafélag krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað en að því frágengnu að hann verði sýknaður og upptökukröfum ákæruvaldsins hafnað.

I

Í hinum áfrýjaða dómi er gerð grein fyrir því að á grundvelli c.-liðar 1. mgr. 59. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála hafi 19. desember 2012 verið teknar skýrslur af þeim A, B og C. Eru endurrit af skýrslum allra þriggja meðal gagna málsins. Í héraðsdómi er fjallað sérstaklega um efni skýrslna þeirra B og C. Þá er framburður ákærðu fyrir dómi rakin en jafnframt gerð grein fyrir því sem fram hafði komið í skýrslutökum hjá lögreglu af ákærðu X og ákærða Óskari að því marki sem það var í ósamræmi við framburð þeirra fyrir dómi. Enn fremur er í hinum áfrýjaða dómi gerð grein fyrir því að alls hafi 20 vitni borið um það að þau hefðu stundað spilamennsku í húsnæðinu að […]. Reifar héraðsdómur sérstaklega framburð þeirra D, E, F, G, H, I, J, K, L og M fyrir dómi og gerir jafnframt grein fyrir því hvernig framburður þeirra breyttust í veigamiklum atriðum frá því sem fram hafði komið af þeirra hálfu við skýrslugjöf hjá lögreglu. Einnig er í héraðsdómi gerð stuttlega grein fyrir skýrslugjöf N hjá lögreglu en hann kom ekki fyrir dóm til skýrslugjafar. Enn fremur er vikið að framburði O, P, Q og R fyrir dómi. Auk framangreindra ákærðu og vitna gáfu fimm lögreglumenn skýrslu fyrir dómi sem og vitnin S, T, U, V, W og Y 

II

Sem fyrr greinir krefjast ákærðu þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi. Öll byggja þau þá kröfu á þeirri röksemd að lögregla hafi brotið gegn 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 um að þeir sem rannsaki sakamál skuli vinna að því að hið sanna og rétta sé leitt í ljós og gæta jafnt að atriðum sem horfi til sýknu og sektar. Samkvæmt 1. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 er markmið rannsóknar að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé fært að ákveða að henni lokinni hvort sækja skuli mann til sakar, svo og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferð fyrir dómi. Að rannsókn lokinni tekur ákærandi ákvörðun um hvort sækja skuli sakborning til sakar og telji hann það sem fram er komið nægilegt eða líklegt til sakfellis höfðar hann mál á hendur honum, sbr. 145. gr. sömu laga. Ákærandi hefur metið rannsókn málsins fullnægjandi og á grundvelli hennar gefið út ákæru í málinu. Ákvörðun ákæranda þar að lútandi felur í sér beitingu hans á valdheimildum á grundvelli laga og getur eðli máls samkvæmt ekki sætt endurskoðun dómstóla við úrlausn málsins. Jafnframt er þess að gæta að sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik, sem telja má honum í óhag, hvílir á ákæruvaldinu eftir 108. gr. laganna og verður það að bera hallann af því ef rannsókn máls er ábótavant og ákæra af þeim sökum ekki reist á nægilega traustum grunni. Að þessu virtu eru þær röksemdir, sem ákærðu hafa fært fyrir þessari kröfu, haldlausar.

III

Til vara krefjast öll ákærðu þess að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur. Þá kröfu reisa þau meðal annars á því að ákæruvaldið hafi lagt fram mikinn fjölda nýrra skjala við upphaf aðalmeðferðar í héraði. Gögnin sem um ræðir voru ekki ný sönnunargögn í málinu heldur fyrst og fremst samantekt upplýsinga sem þegar lágu fyrir.  Voru þau sett fram til einföldunar og samkvæmt þingbók var gert hlé á aðalmeðferð málsins þar sem sækjandi fór yfir þau með verjendum. Þó svo betur hefði farið á því að umrædd gögn hefðu verið lögð fram fyrir aðalmeðferð verður ekki talið, með hliðsjón af framangreindu, að vörn ákærðu hafi verið áfátt vegna framlagningar þeirra. Eru því ekki haldbær rök fyrir kröfu um ómerkingu héraðsdóms á þeim grunni.

Til stuðnings kröfu um ómerkingu hins áfrýjaða dóms byggja ákærðu einnig á því að í honum hafi verið byggt á framburði þriggja erlendra vitna sem ekki komu fyrir dóm við aðalmeðferð málsins. Eins og rakið er í héraðsdómi voru teknar skýrslur af umræddum vitnum við sama dómstól 19. desember 2012, sbr. heimild í c. lið 1. mgr. 59. gr. laga nr. 88/2008, að viðstöddum sækjanda. Auk þess var sótt þing af hálfu verjenda ákærðu. Samkvæmt 2. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008 er dómara heimilt að taka til greina sem sönnunargögn skýrslur sem ákærði, brotaþoli eða önnur vitni hafa gefið fyrir dómi áður en mál var höfðað samkvæmt meðal annars 59. gr. laganna. Þó skuli skýrslugjafar koma á ný fyrir dóm við málsmeðferð ef þess er kostur og annar hvor málsaðili krefst eða dómari telur annars ástæðu til. Hvorki verjendur né sækjandi kröfðust þess að umrædd vitni kæmu á ný fyrir dóm né taldi héraðsdómari sérstaka ástæðu til þess. Að þessu virtu er ekki hald í þeirri vörn ákærðu að umrædd málsmeðferð eigi að leið til ómerkingar dómsins.

Ákærði, Y, hefur auk þess reist kröfu sína um ómerkingu hins áfrýjaða dóms á þeim atriðum sem nú verða rakin.

Í fyrsta lagi er á því byggt að alvarlegir annmarkar séu á samningu héraðsdóms þar sem í forsendum hans séu dregnar saman ályktanir margra vitna en ekki vísað til þeirra sérstaklega. Samkvæmt 2. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008, eins og henni var breytt með 26. gr. laga nr. 78/2015, skal meðal annars greina í dómi svo stutt og glöggt sem verða má meginefni ákæru, sbr. b. lið hennar, hver málsatvik séu í aðalatriðum, án þess að gerð sé grein fyrir framburði ákærða og vitna nema að því leyti sem þörf krefur til úrlausnar máls, sbr. d. lið, við hvaða sönnunargögn og rök ákæra sé studd og andsvör ákærða við þeim eftir því sem þörf krefur, sbr. e. lið, og röksemdir dómara fyrir því hvað teljist sannað í málinu og með hverjum hætti, sbr. f. lið. Af ákvæðum d. liðar 2. mgr. 183. gr. og 111. gr. laganna leiðir að í héraðsdómi skal fyrst og fremst greina í stuttu máli frá framburði ákærða og vitna fyrir dómi. Ekki verður tekið undir þær athugasemdir ákærða að reifun í forsendum héraðsdóms á vitnisburði sé ófullkomin heldur er framburði vitna gerð skilmerkileg skil í málsatvikakafla dómsins að því leyti sem þörf krefur til úrlausnar málsins.

Í öðru lagi er  ómerkingarkrafan byggð á því að héraðsdómur hafi ekki getað lagt til grundvallar sakfellingu ákærða framburð vitnisins O. Vitnið sé lögreglumaður og sönnunargildi framburðar hans ekkert. Þeirri viðbáru ákærða að vitnið sé ótrúverðugt af þeirri ástæðu einni að hann er lögreglumaður er hafnað og enn síður gæti það leitt til ómerkingar hins áfrýjaða dóms.

Þá er ómerkingarkrafan í þriðja lagi byggð á því að héraðsdómara hafi borið að neyta heimildar í 4. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008 um að þrír dómarar skipuðu dóm í málinu. Varði það ómerkingu héraðsdóms að það hafi ekki verið gert. Í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008 segir að einn héraðsdómari skipi dóm í hverju máli nema svo standi á sem segir í 3. til 5. mgr. greinarinnar. Samkvæmt 4. mgr. getur dómstjóri ákveðið að þrír héraðsdómarar skipi dóm í máli ef ákærði neitar sök og dómari telur sýnt að niðurstaða kunni að verulegu leyti að ráðast af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi. Eins og mál þetta er vaxið eru ekki efni til að fallast á kröfu ákærða um ómerkingu dómsins af þeirri ástæðu að einn héraðsdómari skipaði dóm í málinu í samræmi við meginreglu 2. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008. 

Enn fremur byggir ákærði Y á því í fjórða lagi að sakfelling ákærða sé órökstudd. Í hinum áfrýjaða dómi er tekin rökstudd afstaða til þess hvað teljist sannað og hvað ekki, meðal annars með mati á framburði ákærða og annarra vitna fyrir dómi og hjá lögreglu, sem og annarra gagna í málinu. Með vísan til þess eru engir slíkir annmarkar á samningu hins áfrýjaða dóms og grundvelli sakfellingar samkvæmt honum að slíkt geti leitt til ómerkingar, sbr. 2. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008.

Loks byggja ákærðu allir á því, til stuðnings kröfu sinni um ómerkingu hins áfrýjaða dóms, að mat héraðsdóms á sönnunargildi munnlegs framburðar sé rangt, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 og að niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu hafi eingöngu verið reist á skýrslutökum af ákærðu og vitnum á rannsóknarstigi þar sem skýringar þeirra á breyttum framburði fyrir dómi voru taldar ótrúverðugar. Ekkert er komið fram í málinu um að niðurstaða héraðsdóms um mat á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi sé rangt svo einhverju skipti um úrlausn málsins, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008. Þá verður af forsendum dómsins ráðið að heildstætt mat fór fram á framburði ákærða og vitna og þeim gögnum öðrum sem fyrir dóminn voru lögð.

Samkvæmt öllu framangreindu verður varakröfu ákærðu um ómerkingu hins áfrýjaða dóms hafnað.

IV

            Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærðu og heimfærslu háttsemi þeirra til refsiákvæða samkvæmt I. kafla ákæru, í tilviki ákærðu Y, X og Óskars, og samkvæmt III. kafla ákæru hvað varðar ákærða Y.

            Um II. kafla ákærðu er sérstaklega til þess að líta að í hinum áfrýjaða dómi er gerð grein fyrir útreikningum lögreglu á lífeyri ákærðu, sem byggjast á gögnum um skráðar tekjur og útgjöld þeirra á þeim tíma sem um ræðir. Er niðurstaða útreikninganna sú að lífeyrir allra ákærðu hafi verið neikvæður um tilgreindar fjárhæðir og er af hálfu ákæruvaldsins lagt til grundvallar að ákærðu hafi nýtt sér afrakstur af hinni ólögmætu starfsemi sem að lágmarki nemi þeim neikvæða mismun. Eftir að tekið hafði verið tillit til gagna sem ákærði Óskar lagði fram undir rekstri málsins í héraði nema umræddar fjárhæðir 3.241.425 krónum í hans tilviki en 36.430.898 krónum í tilviki ákærðu Y og X. Við upphaf málflutnings í héraði voru af hálfu ákærðu Y og Óskars lögð fram gögn sem ákærðu töldu sýna fram á að þau hefðu á viðmiðunartímabili haft frekari tekjur sem leiða ættu til lækkunar á framangreindum viðmiðunar fjárhæðum neikvæðs lífeyris. Af hálfu ákærða Y var meðal annars lögð fram ljósmynd af fasteign sem ákærði kvaðst eiga í […] og útprentun af bankareikningum hans þar í landi. Af hálfu ákærða Óskars var lögð fram „pókersíða“ af veraldarvefnum sem ákærði kvað vera til upplýsingar um vinninga sína í þeim leik á því tímabili sem er til viðmiðunar. Þessi gögn bera það hvorki með sér að umrædd verðmæti hafi vafalaust verið í eigu ákærðu og því síður hvernig þau hafi nýst þeim hér á landi með þeim hætti að áhrif gæti haft á framangreinda útreikninga. Er því hafnað að gögnin hafi þýðingu í þessu sambandi og verða framangreindar viðmiðunartölur þvert á móti lagðar til grundvallar dómi sem og að afrakstur hinnar ólögmætu brotastarfsemi nemi að minnsta kosti þeim neikvæða mismun tekna og útgjalda sem þær leiða í ljós. Að þessu gættu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans um sakfellingu ákærðu og heimfærslu háttsemi þeirra til refsiákvæðis samkvæmt II. kafla ákæru.

V

Við ákvörðun refsingar er þess að gæta að þáttur ákærða Y er sýnu veigamestur í þeim brotum sem sakfellt hefur verið fyrir. Að því gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms telst refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði en fresta skal fullnustu 15 mánaða af refsingunni skilorðsbundið í tvö ár. Til frádráttar henni kemur gæsluvarðhald er hann sætti frá 12. til 21. desember 2012. Ákvörðun refsingar ákærðu X og Óskars skal vera fangelsi í 9 mánuði með þeim rökstuðningi sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi. Með hliðsjón af því að þáttur þeirra er mun veigaminni en ákærða Y sem og þess að málsmeðferð hefur dregist verulega þykir mega skilorðsbinda það sem eftir er af refsingu þeirra og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi þau almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Komi til fullnustu refsingarinnar skal, samkvæmt 76. gr. almennra hegningarlaga, dragast frá gæsluvarðhald sem þau sættu, svo sem greinir í dómsorði.

Staðfest er sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að gera upptæk, á grundvelli 69. gr. og 1. töluliðar 1. mgr. 69. a almennra hegningarlaga, verðmæti samkvæmt a., b., e. og f. liðum IV. kafla ákæru. Þá standa lagaskilyrði jafnframt til þess sbr. 1. málsliður 69. gr. almennra hegningarlaga, að gera upptæka peningaseðla að fjárhæð 2.975 evrur, samkvæmt c. lið IV. kafla ákæru og innstæðu að fjárhæð 1.157.541 króna ásamt vöxtum á bankareikningi á nafni ákærðu X, samkvæmt d. lið IV. kafla ákæru.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.

Ákærðu skulu greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og í dómsorði greinir.

Það athugist að verulegar dráttur hefur orðið á meðferð málsins eftir að héraðsdómur var kveðinn upp 3. nóvember 2015. Þannig bárust málsgögn Hæstarétti fyrst 15. ágúst 2016 eða átta mánuðum eftir að dómsgerðir voru afgreiddar frá héraðsdómi til ríkissaksóknara. Ekki hafa verið gefnar haldbærar skýringar á þessum drætti og er hann aðfinnsluverður.

Dómsorð:

Ákærði, Y, sæti fangelsi í 18 mánuði, en fresta skal fullnustu 15 mánaða af refsingunni og falli sá hluti hennar niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Gæsluvarðhald ákærða frá 12. til 21. desember 2012 kemur til frádráttar refsingu.

Ákærða, X, sæti fangelsi í 9 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Komi til fullnustu refsingarinnar skal dragast frá níu daga gæsluvarðhald frá 12. til 20. desember 2012.

Ákærði, Óskar Aðils Kemp, sæti fangelsi í 9 mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Komi til fullnustu refsingarinnar skal dragast frá tíu daga gæsluvarðhald frá 12. til 21. desember 2012.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku eru staðfest, en jafnframt skal gera upptæk 2.975 evrur og innstæðu að fjárhæð 1.157.541 króna ásamt áföllnum vöxtum sem var á reikningi nr. 0515-04-252074 á nafni ákærðu X.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði Y greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 992.000 krónur. Ákærða X greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Ólafs Eiríkssonar hæstaréttarlögmanns, 992.000 krónur. Ákærði Óskar greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 992.000 krónur. Ákærði Þ áhugamannafélag greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Heiðars Ásbergs Atlasonar hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur. Annan áfrýjunarkostnað málsins, 282.464 krónur, greiði ákærðu óskipt.

                                                                              

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. nóvember 2015.

                Mál þetta, sem dómtekið var þriðjudaginn 6. október 2015, er höfðað með ákæru, útgefinni af ríkissaksóknara 9. desember 2014, á hendur X, kt. [...], og Y, kt. [...], báðum að […], Seltjarnarnesi, Óskari Aðils Kemp, kt. [...], […], Reykjavík, og Þ áhugamannafélagi, kt. [...], […], Reykjavík, fyrir eftirtalin brot framin í Reykjavík: 

I

Gegn ákærðu X, Y og Óskari Aðils fyrir brot gegn XX. kafla almennra hegningarlaga með því að hafa á tímabilinu frá júní 2010 fram til 11. desember 2012, í félagi rekið fjárhættuspil („black Jack“, rúllettu og póker) í atvinnuskyni og sér til ávinnings og komið öðrum til þátttöku í þeim í húsnæði að […], sem Þ áhugamannafélag hafði á leigu en ákærðu voru í forsvari fyrir félagið.

Telst þetta varða við 183. gr. og 184. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

II

Gegn ákærðu X, Y og Óskari Aðils fyrir peningaþvætti með því að hafa, frá júní 2010 fram til 11. desember 2012, tekið við, nýtt eða aflað sér ávinnings samtals að fjárhæð 170.990.883 krónur, með því að reka fjárhættuspil í atvinnuskyni og sér til ávinnings og komið öðrum til þátttöku í þeim, sbr. I. ákærulið, en fjármunirnir voru greiddir með greiðslukortum af þeim sem tóku þátt í fjárhættuspilum að […] og fóru í gegnum kortaskanna Þ áhugamannafélags, sem ákærðu voru í forsvari fyrir, og inn á reikninga félagsins, annars vegar reikning nr. […], samtals að fjárhæð 35.159.600 krónur, og hins vegar reikning nr. […], samtals að fjárhæð 46.146.465 krónur, og bankareikning ákærða Y nr. […], samtals að fjárhæð  89.684.818 krónur. Af þeirri heildarfjárhæð sem var afrakstur peningaþvættisins nýttu ákærðu Y og X í eigin þágu að lágmarki 36.430.898 krónur en ákærði Óskar Aðils að lágmarki 4.757.855 krónur. 

Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr., 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

III

Gegn ákærða Y fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa þriðjudaginn 11. desember 2012 á heimili sínu að […], Reykjavík, haft í vörslum sínum 0,69 g af kókaíni sem hann afhenti lögreglu við húsleit. 

Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001.

Þess er krafist að ákærðu X, Y og Óskar Aðils verði dæmd til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Jafnframt er þess krafist að ákærðu sæti upptöku á eftirtöldum munum, peningum og innstæðum samkvæmt 69. gr. og 1. tölul. 1. mgr. 69. gr. a almennra hegningarlaga, sem hald var lagt á við rannsókn málsins:

a.                   Fimm spilaborð ásamt fylgihlutum, spilapeningum og spilastokkum.

b.                   Peningaseðlum, samtals að fjárhæð 551.500 krónur.

c.                   Peningaseðlum í erlendri mynt, samtals að fjárhæð 2.975 evrur.

d.                   Innstæðu að fjárhæð 1.157.541 krónur ásamt áföllnum vöxtum sem var á reikningi nr. [...] á nafni ákærðu X.

e.                   Innstæðu að fjárhæð 359.765 krónur ásamt áföllnum vöxtum sem var á reikningi nr. [...] á nafni Þ áhugamannafélags, kt. [...], og sem ákærði Y hafði umráð yfir.

f.               Innstæðu að fjárhæð 94.045 krónur ásamt áföllnum vöxtum sem var á reikningi nr. [...] á nafni Þ áhugamannafélags, kt. [...], og sem ákærði Y hafði umráð yfir.

Við aðalmeðferð málsins lét sækjandi bóka um breytingu á II. kafla ákæru á þann veg að ætlaður afrakstur peningaþvættis, sem ákærði Óskar Aðils sé talinn hafa notið, hafi numið 3.241.425 krónum.

                Ákærðu krefjast þess aðallega að þau verði sýknuð af kröfum ákæruvalds, en til vara að þeim verði dæmd vægasta refsing er lög leyfa. Þá krefjast ákærðu þess að málsvarnarlaun verði greidd úr ríkissjóði.

Málsatvik

                Síðla árs 2012 bárust lögreglu upplýsingar um að rekið væri spilavíti í húsnæði að […] í Reykjavík. Áhugamannafélagið Þ reyndist eiga skráð lögheimili í húsnæðinu. Samkvæmt gögnum frá fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra sem liggja fyrir í málinu var stofnfundargerð félagsins dagsett 8. júní 2010 og var ákærði Y skráður stjórnarformaður, en ákærða X og Q meðstjórnendur. Tilgangur félagsins var sagður að halda skemmti- og spilakvöld fyrir félagsmenn.

Lögregla fékk aðgang að gögnum um bankareikninga félagsins og stjórnarmanna þess, auk ákærða Óskars Aðils Kemp og P, bróður ákærða Y, sem taldir voru tengjast málinu. Þá voru skattframtöl viðkomandi skoðuð. Sú athugun leiddi í ljós að frá stofnun félagsins til 25. október 2012 hefði velta á bankareikningi félagsins numið rúmlega 153 milljónum króna. Velta á reikningi ákærða Y hefði numið rúmlega 164 milljónum króna og á reikningi ákærðu X rúmlega 24 milljónum króna, en ákærðu þáðu bæði atvinnuleysisbætur á tímabilinu. Þá námu tekjur ákærða Óskars rúmlega 4 milljónum króna samkvæmt opinberum gögnum, en útgjöld tæplega 28 milljónum króna á sama tíma, og höfðu 11 milljónir króna verið greiddar inn á reikning hans af Þ áhugamannafélagi. Aflað var frekari upplýsinga um færslur á bankareikningum framangreindra einstaklinga vegna tímabilsins 25. október til 12. desember 2012 og liggja þau gögn fyrir í málinu.

                Þriðjudagskvöldið 11. desember 2012 réðst lögregla í húsleit í húsnæðinu sem félagið hafði til umráða að […]. Í skýrslu lögreglu er aðstæðum á vettvangi lýst og kemur þar fram að stór salur hafi verið í húsnæðinu, með spilaborðum fyrir póker, „black Jack“ og rúllettu. Til hliðar hafi verið lítil skrifstofa. Þá hafi verið bar og eldhús, sem búið var helstu rafmagnstækjum, en þar hafi jafnframt verið að finna talsvert af matvælum, sælgæti, gosdrykki og áfengi, auk brúsa með „landa“. Húsnæðið hafi verið búið öryggismyndavélum og hafi ein slík við inngang verið tengd við skjá. Sextán manns voru á staðnum þegar lögreglu bar að, þeirra á meðal ákærði Óskar. Átta menn sátu við pókerspil og var Q í hópnum. Sambýliskona ákærða Óskars, S, var einnig á staðnum og kemur fram að hún hafi verið svokallaður gjafari við pókerspilið. Voru Óskar, Q og S öll handtekin. Þá voru þrír erlendir borgarar handteknir á staðnum, A, B, og C, en talið var að þau væru starfsmenn klúbbsins. Lögregla lagði hald á ýmsa muni er tengdust spilamennsku og fjármuni, sem fundust á vettvangi, þ.m.t. peningaseðla að fjárhæð 551.500 krónur sem komið hafði verið fyrir í frystikistu í geymslu. Rætt var við þá sem staddir voru á staðnum og voru skýrslur þeirra hljóðritaðar.

Í kjölfarið var leitað á heimilum ákærðu og á heimilum Q og P. Við leit á heimili ákærðu Y og X framvísaði Y efni sem hann hafði í vörslum sínum og reyndist vera 0,69 g af kókaíni.Voru ákærðu og Q úrskurðuð í gæsluvarðhald.

Í málinu liggja fyrir tveir húsaleigusamningar Þ áhugamannafélags við […] fasteignafélag vegna húsnæðisins að […], undirritaðir af ákærða Y fyrir hönd félagsins. Fyrri samningurinn er vegna einingar […], dagsettur 15. júní 2010, en samkvæmt honum skyldi leigutími hefjast 11. sama mánaðar og húsaleiga vera 311.740 krónur á mánuði. Síðari samningurinn er dagsettur 10. febrúar 2012 vegna einingar […], en húsaleiga samkvæmt honum er tilgreind 183.300 krónur á mánuði.

Við rannsókn málsins kom fram að Þ áhugamannafélag var skráð fyrir tveimur reikningum í Íslandsbanka á því tímabili sem um ræðir, nr. [...] og [...], og var ákærði Y prókúruhafi vegna beggja reikninga. Heildarvelta á útgjaldalið á reikningunum frá apríl 2011 til 10. desember 2012 reyndist nema 181.254.370 krónum. Kom fram að ákærðu hefðu fengið greidda fjármuni af reikningunum á því tímabili sem ákæra tekur til. Þannig námu millifærslur af reikningum félagsins til ákærða Y samtals 18.978.333 krónum, en á reikning ákærðu X 6.947.499 krónum á tímabilinu.

Félagið hafði gert tvo færsluhirðingarsamninga við greiðslukortafyrirtæki. Á tímabilinu frá október 2010 til desember 2012 reyndist heildarfjárstreymi um kortaskanna félagsins nema 170.990.883 krónum, vegna notkunar debet- og kreditkorta.

Félagið var jafnframt skráð fyrir tveimur greiðslukortum og var ákærði Y handhafi þeirra. Fyrir liggja yfirlit um kortafærslur á tímabilinu og kemur þar fram að greiðslukortin hafa m.a. verið notuð til að greiða fyrir flugfargjöld, úttektir á veitinga- og skemmtistöðum, í leikfangaverslunum, blómabúðum, kaffihúsum og vegna skólagjalda. 

Þá liggja fyrir gögn um millifærslur af bankareikningi ákærða Óskars yfir á erlenda bankareikninga á tímabilinu frá ágúst 2011 til október 2012. Um er að ræða 22 millifærslur á reikninga sjö einstaklinga í Litháen og Eistlandi, samtals að fjárhæð 2.761.729 krónur. Meðal annars eru gögn um millifærslu að fjárhæð 1.550 evrur 9. október 2011 á reikning skráðan á C.

Í málinu liggur fyrir samantekt lögreglu um útreikning á lífeyri ákærðu Y og X, unnið með hliðsjón af skattframtölum og bankareikningum þeirra og Þ áhugamannafélags. Heildartekjur ákærðu frá janúar 2010 til desember 2012 reyndust vera 15.171.249 krónur samkvæmt opinberri skráningu og var þar að langmestu leyti um að ræða atvinnuleysisbætur, greiðslur frá Tryggingastofnun og húsaleigubætur. Á sama tíma námu heildarútgjöld 51.602.147 krónum. Stærsti útgjaldaliðurinn var greiðslur til greiðslukortafyrirtækja vegna notkunar kreditkorta, sem námu rúmlega 28 milljónum króna. Ákærði Y var skráður fyrir fjórum kreditkortum, en ákærða X fyrir tveimur. Af yfirlitum varð ráðið að kortin höfðu verið notuð til að greiða fyrir ýmiss konar einkaneyslu. Samkvæmt bankayfirlitum voru helstu útgjöld ákærðu vegna húsaleigu tveggja íbúða að […] og […], til fjármögnunarleigufyrirtækja og til greiðslu vegna ýmiss konar einkaneyslu. Samkvæmt framangreindu var það niðurstaða útreikninga lögreglu að lífeyrir ákærðu hefði verið neikvæður sem nemur 36.430.898 krónum.  

Samkvæmt samantekt lögreglu um lífeyrisútreikninga ákærða Óskars námu skráðar tekjur hans, þ.e. vegna atvinnuleysisbóta, styrkja og launagreiðslna, […] krónum. Aðrar greiðslur inn á reikninga hans námu 19.184.146 krónum, en þar af námu innborgarnir frá Þ áhugamannafélagi 11.194.247 krónum og frá ákærða Y 917.000 krónum. Þá námu útgjöld á þessum tíma 26.648.453 krónum, þar af rekjanleg útgjöld í þágu ákærða 12.239.600 krónum. Reiknaður lífeyrir ákærða miðað við rekjanleg útgjöld í hans þágu var samkvæmt því neikvæður um 4.757.855 krónur. Við meðferð málsins fyrir dómi lagði ákærði fram skrá um vinninga í Íslenskum getraunum, sem bera með sér að vera vegna spila í Lengjunni. Hefur ákæruvaldið tekið tillit til þeirra gagna við útreikninga á lífeyri ákærða og var ákæru breytt í samræmi við það, sem að framan greinir. 

Við aðalmeðferð málsins voru af hálfu ákærðu lögð fram frekari gögn varðandi fjárhagsmálefni þeirra. Af hálfu ákærða Y var lagt fram ljósrit af bankabók í […] banka og bankabók á nafni ákærðu X í sama banka. Þá var af hálfu ákærðu lögð fram útprentun af heimasíðu fasteignasölu, „All Pattaya Condos“, með upplýsingum um fasteign, ásamt mynd af einbýlishúsi. Af hálfu ákærða Óskars var lögð fram útprentun af vefsíðunni Officialpokerrankings.com, sem ber með sér að vera skrá yfir vinninga „okemp“.

Hinn 19. desember 2012 voru teknar skýrslur fyrir dómi af A, B og C, sbr. c-lið 1. mgr. 59. gr. laga nr. 88/2008, að viðstöddum verjendum ákærðu X og Óskars á rannsóknarstigi málsins, en fært var í þingbók að verjandi ákærðu X sækti jafnframt þing vegna verjanda ákærða Y. Endurrit af skýrslum tveggja síðarnefndu vitnanna eru á meðal gagna málsins. Vitnin komu ekki fyrir dóm við aðalmeðferð málsins, en rétt þykir að gera grein fyrir framburði þeirra við skýrslutöku á rannsóknarstigi.

B kvaðst hafa komið hingað til lands í atvinnuleit og hefði ákærði Y aðstoða hana við það. Hún hefði búið endurgjaldslaust í herbergi í húsnæðinu að […]. Hún kvaðst ekki hafa verið í vinnu þarna á staðnum, en stundum aðstoðað við að bera fram drykki. Þá kvaðst hún hafa starfað í spilavíti í heimalandi sínu í Búlgaríu áður en hún kom hingað til lands.

C kvaðst hafa komið hingað til lands í september í því skyni að vinna í […]. Hann hefði unnið í spilavíti í heimalandi sínu í Litháen, fengið símanúmer hjá eigandanum og sett sig í samband við hann. Hann hefði rætt við ákærðu Óskar og Y áður en hann kom til landsins. Hefðu A og B starfað með honum á staðnum. Vitnið kvaðst hafa verið gjafari í rúllettu og „black Jack“ og fært fólki drykki. Hann hefði fengið greiddar 1.500 krónur á tímann fyrir vinnuna, eða um 50.000 til 70.000 krónur á viku. Hann hefði einu sinni fengið laun millifærð á reikning sinn, en einnig hafa fengið greitt í reiðufé; enskum pundum. Hann kvaðst hafa búið endurgjaldslaust í herbergi í húsnæðinu. Þarna hefði verið rekið spilavíti og kvaðst hann telja ákærða Y vera verkstjóra, en ákærða Óskar sjá um daglegan rekstur á staðnum. Ákærða X hefði verið gjafari á staðnum og hefði hún verið þar í um þrjú kvöld á viku. 

                Ákærði Y var yfirheyrður af lögreglu, 12., 18. og 21. desember 2012 og 23. maí 2013. Ákærða X var yfirheyrð 12., 18. og 20. desember 2012 og ákærði Óskar 12., 17. og 21. desember 2012. Ákærða X var leyst úr gæsluvarðhaldi 20. desember, en ákærðu Y og Óskar daginn eftir. Við rannsókn málsins voru jafnframt teknar skýrslur af um þriðja tug vitna sem flest báru um að hafa verið félagar í áhugamannafélaginu Þ og að hafa stundað spilamennsku í húsnæði sem félagið hafði til umráða að […].

Verður nú gerð grein fyrir framburði ákærðu og vitna við aðalmeðferð málsins að því leyti sem nauðsynlegt þykir til úrlausnar málsins. Verður jafnframt vikið að framburði við skýrslutökur hjá lögreglu eftir því sem þurfa þykir vegna sönnunarmats í málinu.

                Ákærði Y bar um það fyrir dóminum að þau X hefðu flust hingað til lands frá […] síðla árs 2007. Þau hefðu haft með sér umtalsverða fjármuni við flutninginn, en um hefði verið að ræða söluandvirði fasteignar, auk ágóða af fyrirtækjarekstri ytra. Ákærði kvaðst hafa tekið að sér að stofna félag fyrir áhugamenn um svokallaða hugarleiki og finna aðstöðu fyrir félagið. Hefði Þ áhugamannafélag verið stofnað í því skyni og skráð í fyrirtækjaskrá. Mikil stemning hefði verið í kringum verkefnið, enda séu margir áhugamenn um hugarleiki, s.s. bridds, skák, „backgammon“ og póker. Húsnæðið að […] hefði verið tekið á leigu fyrir félagsstarfið og hefðu félagsmenn skotið saman í það sem þar þyrfti að vera; húsgögn, skjávarpa o.fl. Þá hefðu menn komið með eigin tölvur til að spila á internetinu. Félagsmenn hefðu komið sér saman um að standa sameiginlega straum af greiðslu reikninga, einkum vegna húsaleigu, áskriftargjalds Stöðvar 2 og kostnaðar af internetnotkun. Ákærði hefði verið skráður stjórnarformaður félagsins og hefði hans hlutverk verið að sjá til þess að allt væri með felldu á staðnum, allir gengju vel um og bæru virðingu fyrir því sem þarna væri verið að gera.

Ákærði kannaðist við að „black Jack“, rúlletta og póker hefðu verið spiluð á staðnum. Þá hefðu menn lagt peninga undir þegar þeir spiluðu hver við annan. Spilapeningar hefðu verið notaðir í póker og hefðu einstaka félagsmenn tekið að sér að halda utan um spilin og skipta spilapeningum fyrir þá sem tóku þátt hverju sinni. Húsnæðið hefði yfirleitt verið opið alla daga vikunnar, en mest hefði verið spilað á kvöldin og um nætur. Hann kannaðist við að félagið hefði gert samninga við greiðslukortafyrirtæki og haft skráða posa. Tekið hefði verið á móti greiðslum frá þeim sem spiluðu með reiðufé, millifærslu á reikning félagsins eða greiðslukortum, debet- eða kreditkortum. Að spilinu loknu hefðu menn fengið endurgreitt með millifærslu eða í reiðufé. Greiðslur hefðu runnið í gegnum posa félagsins inn á reikning þess, en í upphafi hefðu þær þó runnið inn á reikning ákærða og þaðan yfir á reikning félagsins.

Ákærði kvaðst hafa verið á staðnum fjögur til sjö kvöld í viku og dvalið fram á nótt. Hann hefði ekki fengið greidd laun fyrir. Þeir ákærðu Óskar hefðu skipst á að vera á staðnum, en fleiri hefðu tekið það að sér auk þeirra. Hann kvað enga starfsmenn hafa verið á staðnum. Þá hefðu félagsmenn skipst á að vera gjafarar í pókerspilum, yfirleitt þannig að einn þeirra sem sat við spilaborðið hefði tekið það að sér. Komið hefði fyrir að aðrir spilarar greiddu þeim sem tók að sér að gefa einhvers konar framlag eða þjórfé. Ákærði kvaðst ekki kannast við skjal sem fannst í tölvu á skrifstofu húsnæðisins, sem ber með sér að vera einhvers konar tímatafla eða vaktaskipulag, en nöfn ákærðu allra komu þar fyrir.

Ákærði kvaðst ekki hafa tölu á félagsmönnum, en allir sem höfðu þetta sameiginlega áhugamál hefðu verið velkomnir. Menn hefðu ekki verið skyldaðir til að greiða félagsgjöld, en þau hefðu hins vegar verið vel þegin. Þau félagsgjöld sem greidd voru hefðu gengið upp í leigugreiðslur og annan kostnað af starfsemi félagsins. Ýmist hefði hann tekið við þessum greiðslum beint eða þær verið millifærðar á reikning félagsins. Ekki hefði verið haldið bókhald um þessi framlög eða hvernig þeim var varið. Ákærði neitaði því að veitingar eða áfengi hefði verið selt á staðnum, en kvað þá sem þar voru stundum hafa slegið saman í slíkt. Þá kvað hann áfengi sem lagt var hald á við húsleit hafa verið í eigu félagsmanna. Ákærði kvaðst hafa séð um að greiða leigu vegna húsnæðisins, sem hefði oftast komið af reikningum félagsins, en félagsmenn hefðu slegið saman fyrir þessum greiðslum.

Ákærði hafnaði því alfarið að greitt hefði verið einhvers konar endurgjald fyrir þátttöku í spilum á staðnum. Hins vegar hefði komið fyrir að spilað hefði verið um svokallaðan „jackpot“ í póker. Þá hefðu þeir sem voru að spila lagt um 200 krónur til hliðar í sjóð, sem kallaður hefði verið „jackpot“. Ef ákveðin samsetning af spilum kom upp hjá einum spilaranna gat hann unnið þennan sjóð. Engir fjármunir hefðu runnið til hússins í þessu sambandi. Ákærði hafnaði því alfarið að tekið hefði verið svokallað pottagjald í pókerspilum, þannig að gjafari tæki spilapeninga frá við hverja hönd. Þá kannaðist hann ekki við að rúlletta og „black Jack“ hefðu verið spiluð við húsið.

Ákærði var spurður um B og A, sem voru á staðnum þegar húsleit lögreglu fór fram. Hann kvaðst kannast við A og hefði hún verið félagsmaður. Hann kvaðst ekki muna hvort þessar stúlkur hefðu búið í húsnæðinu og ekki geta staðfest það. Þá kvaðst hann ekki kannast við C. Þetta fólk hefði verið félagsmenn en ekki starfsfólk staðarins. Hann kvaðst þó ekki geta útilokað að hann hefði sjálfur aðstoðað eitthvert þeirra við að koma til landsins.

Ákærði neitaði því að hlutfall af vinningum, sem greiddir voru út, hefði verið tekið frá og runnið til félagsins. Hann útskýrði veltu á bankareikningum félagsins með því að um væri að ræða sömu fjármuni, sem spilarar legðu inn í hvert sinn sem þeir spiluðu. Hann hefði verið handhafi debetkorts félagsins, en kvaðst ekki hafa tekið út af reikningum þess meira en sem nam því sem hann átti inni vegna spilamennsku.

Borin voru undir ákærða yfirlit bankareikninga Þ áhugamannafélags. Hann kvað færslur á reikningnum tengjast spilamennsku félagsmanna. Greiðslur sem skráðar voru frá Kortaþjónustunni inn á reikningana stöfuðu frá félagsmönnum sem hefðu notað greiðslukort við spilamennskuna. Þá hefðu greiðslur út af reikningum til ákærða og X eiginkonu hans verið vegna uppgjörs í spilum. Ákærði kannaðist við að hafa notað greiðslukort félagsins til að greiða fyrir einkaneyslu, s.s. vegna úttekta á veitingahúsum, í leikfangaverslunum, á skemmtistöðum, vegna leigubifreiða og innkaupa í matvöruverslunum. Hann kvað þarna hafa verið um að ræða fjármuni sem hann átti inni hjá félaginu.

                Ákærði kvaðst hafa verið með atvinnurekstur í […] og hefði hann jafnframt selt eignir þar áður en hann flutti til Íslands árið 2007. Hann kvaðst hafa tekið umtalsverða fjármuni með sér hingað til lands, en eftir það hefði hann fengið foreldra sína til að flytja fjármuni hingað frá […] í nokkrum ferðum og hefði það fé verið notað til framfærslu fjölskyldunnar. Varðandi fjármuni sem hann flutti með sér sjálfur til landsins kvaðst hann hafa komið með peninga heim „í vasanum“.

Ákærða X kvað eiginmann sinn hafa annast fjármál þeirra hjóna, en hún hefði sinnt börnum og heimilishaldi. Ákærði Y hefði stundað atvinnurekstur í […] og vegnað vel. Þau hefðu selt eignir sínar þar í landi áður en þau fluttu til Íslands árið 2007. Stóran hluta þeirra fjármuna sem fengust fyrir hefðu þau tekið með sér heim og notað til framfærslu, en hún hefði þó þegið bætur frá sjúkratryggingum og atvinnuleysisbætur að auki. Hún hefði ekki komið að stofnun Þ áhugamannafélags en hefði þó verið skráð sem einn stofnenda. Hún hefði stundum tekið þátt í spilakvöldum í húsnæði félagsins. Þá hefði hún stundum verið beðin um að gefa í spilum og þegið þjórfé frá þeim sem tóku þátt í spilinu hverju sinni. Ákærða kvað það vera rangt sem komið hefði fram hjá henni við yfirheyrslu hjá lögreglu 20. desember 2012 að hún hefði verið svokallaður „main dealer“ og tekið þátt í rekstri félagsins. Þá hefði hún ekki tekið pottagjöld eins og lögregla hefði ítrekað haldið fram við yfirheyrslur. Ákærða kvaðst hafa verið í miklu andlegu ójafnvægi eftir að hafa verið handtekin og úrskurðuð í gæsluvarðhald. Hún hefði verið sótt af lögreglumanni í fangageymslu og færð til framangreindrar skýrslutöku. Hefði lögreglumaðurinn sagt við hana: „Maybe you will go home for Christmas if you will answer correctly what we want to hear.“ Ákærða kvað það eitt hafa komist að í huga sér að komast heim og hefði hún því samþykkt margt af því sem lögreglan hefði lagt henni í munn við yfirheyrsluna, m.a. að hún tæki peninga úr pottinum þegar hún væri að gefa.

Ákærða kvaðst ekkert vita um fjármál Þ áhugamannafélags og ekkert hafa komið að rekstri þess. Ákærði Y hefði stjórnað þeim málum að einhverju leyti. Hann hefði einnig séð um öll fjármál fjölskyldunnar, þ.m.t. greiðslur og millifærslur á bankareikningum hennar. Þá kom fram hjá ákærðu að áður en hún kynntist eiginmanni sínum og flutti hingað til lands hefði hún starfað sem gjafari í spilavíti í […].

Ákærða neitaði því að veitingar hefðu verið til sölu í húsnæði félagsins. Hún var spurð hvort hún þekkti B, A og C. Hún neitaði því en kvað marga hafa komið þarna á staðinn og þekkti hún ekki nöfn allra. Hún áréttaði að hún vissi ekkert um rekstur félagsins og kvaðst því ekki geta sagt til um hvort þar hefðu verið starfsmenn.

                Við framangreinda yfirheyrslu ákærðu hjá lögreglu 20. desember 2012 kom fram hjá henni að hún hefði oft verið gjafari á staðnum og hefði hún einnig tekið þátt í spilum þar. Borið var undir hana skjal sem virtist vera vaktaplan og fannst í tölvu á skrifstofu húsnæðisins og sagði hún það hafa verið gert til að menn vissu hver væri að vinna hverju sinni. Þá kannaðist hún við að erlendar stúlkur hefðu verið þarna á staðnum og hefði hún heyrt að þær væru vanir gjafarar. Ákærða var spurð um þjórfé sem gjafari hefði fengið og kvaðst hún ekki vita hver skiptingin væri milli gjafarans og hússins. Það þjórfé sem gjafarinn fengi færi allt á einn stað, þ.e. í kassa við hliðina á gjafaranum. Kassinn færi síðan inn á skrifstofu og það væru eigendurnir sem héldu utan um þetta. Hún kvaðst ekki vita til hvers peningarnir í kassanum væru notaðir. Henni var kynnt að vitni hefðu borið um að greitt hefði verið svokallað pottagjald og var hún beðin um að lýsa því. Hún kvað pottagjaldið vera um 3%, eða um 600 krónur fyrir pottinn. Þessi pottur færi í kassann við hlið gjafarans. Byrjað væri að taka af pottinum þegar hann færi yfir 10.000 krónur. Þá væri tekið 3% ef potturinn væri stór, en þó aldrei hærra en 1.000 krónur. Þegar potturinn færi yfir 50.000 krónur væru aftur teknar 300 krónur. Þessir fjármunir gengju til klúbbsins, en gjafarinn fengi þjórfé.

                Áður en gerð verður grein fyrir framburði ákærða Óskars Aðils Kemp fyrir dóminum þykir rétt að rekja nokkuð það sem fram kom hjá honum við yfirheyrslur hjá lögreglu við rannsókn málsins. Við yfirheyrslu 12. desember 2012 kvaðst ákærði á síðustu árum hafa haft atvinnu af því að spila á Lengjunni og ýmsa getraunaleiki. Hann kvað tilgang Þ áhugamannafélags hafa verið að safna saman fólki sem hefði áhuga á að spila og hefði hann verið einn af eigendum félagsins. Félagið væri rekið með frjálsum framlögum félagsmanna. Ákærði kvaðst hafa stjórnað spilakvöldinu þegar húsleit fór fram og hefðu þrír starfsmenn verið á staðnum. Starfsmennirnir hefðu verið í hlutverki gjafara og hefðu þeir fengið greitt þjórfé fyrir. Ákærði kvaðst engin laun hafa þegið fyrir störf sín hjá félaginu. Hann kvaðst hafa haft umtalsverðar tekjur af því að spila á internetinu og í getraunum. Þannig hefði hann haft um 6.000.000 króna á ári í tekjur vegna spila á Lengjunni, en um 100.000 til 200.000 dollara vegna spila á internetinu, s.s. á síðunni „Pokerstars“. Hann hefði ekki gefið þessar tekjur upp til skatts.

Við yfirheyrslu 17. desember 2012 kvaðst ákærði hafa þegið atvinnuleysisbætur frá árinu 2008. Hann kvaðst fjármagna einkaneyslu sína með spilamennsku og getraunaleikjum, en af því hefði hann haft 6.000.000 til 8.000.000 krónur í tekjur á ári, sem hann hefði ekki talið fram til skatts. Þá kvaðst hann hafa fengið greitt inn á netkort sem hann notaði við spilamennsku og hefði hann haft um 110.000 dollara á ári upp úr því. Ákærði kvað pókerspil í áhugamannafélaginu ganga þannig fyrir sig að húsið tæki hluta af þjórfé sem gjafari fengi. Skiptingin væri þannig að gjafarinn fengi 30%, en afgangurinn rynni til hússins. Þetta fé, ásamt frjálsum framlögum félagsmanna, væri notað til að reka staðinn, þ.e. til að greiða leigu og annan kostnað. Þá kvað ákærði þjórfé sem greitt væri vegna spila í „black Jack“ og rúllettu skiptast til helminga milli gjafarans og hússins. Ákærði bar jafnframt að á staðnum hefðu starfað stúlkur frá Eistlandi, Lettlandi og Litháen, en þær hefðu starfað sem gjafarar, auk þess að sinna þrifum og þjónustustörfum. Ákærði gaf þær skýringar á millifærslum sínum á reikninga einstaklinga í Litháen og Eistlandi, sem að framan er getið, að um hefði verið að ræða launagreiðslur til starfsfólks.

Við síðustu yfirheyrslu hjá lögreglu 21. desember 2012 kvað ákærði sex til sjö starfsmenn vera á staðnum á hverju kvöldi og hefðu starfsmenn gengið í þau störf sem þurfti. Ákærða X hefði verið aðalgjafarinn í pókernum. Hann staðfesti það sem áður hafði komið fram hjá honum um skiptingu þjórfjár og kvað erlendar stúlkur sem hefðu verið fengnar á staðinn hafa séð um rúllettuna og önnur spil en pókerinn.

                Við aðalmeðferð málsins kvaðst ákærði hafa verið „mjög reikull í máli og jafnvel margsaga“ við yfirheyrslur hjá lögreglu. Ástæða þess væri sú að hann hefði verið mjög hræddur og á einhverjum tímapunkti ákveðið að segja fremur það sem lögreglan vildi heyra en það sem hefði átt sér stað í raunveruleikanum. Spurningar lögreglu hefðu verið mjög leiðandi og því auðvelt fyrir hann að svara á þann hátt. Hann hefði verið tilbúinn að segja hvað sem var til að losna úr gæsluvarðhaldi. Ákærði lýsti því svo að í húsnæði Þ áhugamannafélags hefði verið rekið félagsheimili fyrir áhugamenn um spilamennsku. Hann kvaðst engin laun hafa þegið frá félaginu og neitaði því að starfsmenn hefðu verið á staðnum. Þá hefðu engin félagsgjöld verið greidd, en frjáls framlög félagsmanna hefðu staðið straum af leigugreiðslum og öðrum kostnaði vegna félagsins. Engin veitinga- eða áfengissala hefði farið fram á staðnum, en ákærði kvaðst þó hafa tekið að sér að versla fyrir félagsmenn og keypt fyrir þá veitingar og áfengi sem neytt hefði verið þar. Ákærði neitaði því að gjald hefði verið tekið fyrir spilamennsku. Þá kvað hann framlag sem greitt var til gjafara hafa runnið óskipt til hans. Félagið hefði enga hlutdeild fengið í því. Ekkert gjald hefði verið tekið úr pottinum sem spilað var um. Spurður um tvær búlgarskar stúlkur sem voru á staðnum þegar húsleit fór fram kvað hann þær hafa verið komnar hingað til lands til að hitta vin sinn. Litháískur maður, sem þar var einnig staddur, hefði verið pókerspilari.

                Ákærði kvaðst ekki rengja gögn málsins þar sem fram kemur að opinberar tekjur hans á tímabilinu frá júní til desember 2012 hefðu numið […] krónum. Hann var beðinn um að gefa skýringar á millifærslum að fjárhæð 11.194.247 krónur á tímabili frá júní til desember 2012 af bankareikningum Þ áhugamannafélags yfir á hans reikning. Kvaðst hann telja að ýmist hefði verið um að ræða að ákærði Y hefði verið að leggja inn á hann svo að hann gæti tekið út fé til að greiða félagsmönnum spilavinninga, eða að um hefði verið að ræða vinninga hans sjálfs vegna pókerspilamennsku. Ákærða var kynnt að samkvæmt útreikningum sem fyrir lægju í málinu hefði hann verið með neikvæðan lífeyri sem næmi 4.757.850 krónum. Hann kvaðst þá hafa haft tekjur af því að spila póker á internetinu og léti hann leggja vinningsféð inn á kreditkort sitt. Þá hefði hann unnið milljónir króna í lottó og tugi milljóna með því að spila á Lengjunni.

                Varðandi millifærslur af bankareikningi ákærða yfir á erlenda bankareikninga á tímabilinu frá ágúst 2011 til október 2012, sem vikið hefur verið að, kvaðst hann hafa verið að millifæra fyrir þessa einstaklinga að þeirra beiðni, en þetta hefðu verið fjármunir sem þau áttu. Kom jafnframt fram hjá ákærða að auðveldara hefði verið fyrir hann að millifæra þar sem fólkið hefði ekki haft íslenska kennitölu.

                Að því er varðar 500.000 krónur sem fundust í frystikistu við húsleit í húsnæðinu að […] kvaðst ákærði hafa komið þessum fjármunum þar fyrir, en um hefði verið að ræða fé sem hann hefði tekið út fyrr um daginn. Þá kvaðst ákærði eiga eitthvað af þeim munum sem krafist væri upptöku á.

Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslu 20 vitni sem báru um að hafa stundað spilamennsku í húsnæðinu að […] og töldu flest sig hafa verið félaga í áhugamannafélaginu Þ. Almennt báru vitnin á þann veg að um félagsstarf hefði verið að ræða en ekki rekstur fjárhættuspils í atvinnu- eða ávinningsskyni. Allmörg þeirra lýstu atvikum þó á annan veg fyrir dóminum en þau höfðu gert við skýrslutökur hjá lögreglu. Voru það einkum vitni sem áður höfðu borið um einhvers konar gjaldtöku á staðnum og að starfsfólk hefði verið þar að störfum. Þykir rétt að gera nánar grein fyrir framburði þeirra vitna. 

D gaf skýrslu hjá lögreglu 21. desember 2012. Hann kvaðst hafa stundað spilamennsku á þessum stað, sem hann kallaði klúbb, í um eins og hálfs árs skeið. Þeir sem rækju klúbbinn hétu Y og Óskar, auk erlendrar konu sem hann taldi að héti X. Hann lýsti því að ákveðið pottagjald hefði verið greitt við pókerspilið, en auk þess hefðu frjáls framlög farið til gjafarans. Pottagjaldið væri þannig að ef 10 spilarar væru að spila og potturinn færi yfir 3.000 krónur væru tekin 10% af þeirri fjárhæð. Pottagjaldið færi væntanlega til staðarins, hugsanlega sem þóknun fyrir að halda spilakvöldið. Pottagjaldið færi í ákveðinn „rekka“ og reglulega kæmi yfirmaður á staðnum sem fjarlægði þá fjármuni og færi með þá inn á skrifstofu. Við aðalmeðferð málsins kvað vitnið ákærðu hafa verið virka félagsmenn í áhugamannafélaginu. Þá kannaðist hann ekki við pottagjald, sem hann hafði áður borið um, en kvaðst hafa verið að lýsa framkvæmd í erlendum klúbbum við skýrslutöku hjá lögreglu.

E gaf skýrslu hjá lögreglu 17. desember 2012 og 16. maí 2013. Hann lýsti því að fjórir til sex manns hefðu unnið á staðnum og nefndi nöfn ákærðu Y og Óskars í því sambandi, auk Q. Við aðalmeðferð málsins kvað hann enga starfsmenn hafa verið á staðnum og hefði framburður hans við lögregluyfirheyrslu ekki verið réttur að þessu leyti.

F gaf skýrslur hjá lögreglu 19. desember 2012 og 17. maí 2013. Hann kvaðst hafa spilað á staðnum um tveggja ára skeið, í um 30 skipti. Í fyrri skýrslunni greindi hann svo frá að gjafarinn í póker tæki 1.000 til 5.000 krónur af hverjum potti, sem gæti verið um 100.000 krónur á kvöldi. Í síðari skýrslunni lýsti hann því að á venjulegu kvöldi hefðu fimm starfsmenn verið á staðnum, gjafarar og stúlkur sem hefðu fært gestum veitingar. Hann kvaðst ekkert vita um pottagjald á staðnum en öllum væri frjálst að gefa gjafara þjórfé. Við aðalmeðferð málsins kvaðst hann ekki vita hversu margir starfsmenn hefðu verið á staðnum en það hefði alltaf einhver verið í því hlutverki að gefa. Hann kvaðst ekki minnast þess að gjafarinn hefði tekið úr pottinum þegar hann náði ákveðinni fjárhæð.

G gaf skýrslur hjá lögreglu 11. desember 2012 og 16. maí 2013. Hann kvaðst hafa komið þarna um þrisvar sinnum til að spila. Yfirleitt hefðu þrír starfsmenn verið á staðnum þegar spilað var, einhver sem sá um staðinn, gjafari og einn til viðbótar. Við aðalmeðferð málsins kvaðst vitnið ekki kannast við að starfsmenn hefðu verið á staðnum og ekki kannast við að hafa greint svo frá.

H gaf skýrslu 12. desember 2012. Hann kvaðst hafa spilað reglulega á staðnum um eins árs skeið. Kvöldið sem húsleit var gerð hefðu starfsmenn verið Óskar og tvær erlendar stúlkur, A og [...]. Við aðalmeðferð málsins kvaðst vitnið hvorki muna eftir starfsmönnum á staðnum né að hafa borið um slíkt við skýrslutöku hjá lögreglu. Hann kvaðst hafa verið „stressaður“ þegar hann gaf skýrsluna kvöldið sem húsleit fór fram.

  gaf skýrslur hjá lögreglu 17. desember 2012 og 16. maí 2013. Við fyrri skýrslutökuna kvaðst hann hafa vanið komur sínar á staðinn frá árinu 2011. Nokkrir starfsmenn væru á staðnum, t.d. Óskar, „[…]“ og Y. Hann lýsti því að þegar spilapeningar væru keyptir tæki húsið nokkur prósent af þeirri fjárhæð. Þá hefði hann spilað rúllettu við húsið og hefði verið um háar fjárhæðir að ræða. Þá hefðu veitingar verið til sölu á staðnum. Í síðari skýrslu vitnisins kvaðst hann hins vegar ekki vita hvort tekið hefði verið gjald af þeim sem spiluðu póker. Hann hefði eingöngu spilað rúllettu og ef hann tapaði hefði stjórnandinn tekið alla spilapeningana til sín. Við aðalmeðferð málsins kvaðst vitnið ekki minnast þess síðastgreinda og gaf þá skýringu að hann hefði verið taugaóstyrkur við skýrslutökur hjá lögreglu.

J gaf skýrslur 12. desember 2012 og 15. maí 2013. Hann kvaðst hafa spilað á staðnum í um 10 skipti. Staðurinn væri rekinn af Íslendingum, en allir starfsmenn þar hefðu verið erlendir. Þrír til fjórir starfsmenn hefðu verið á staðnum á venjulegu kvöldi. Við aðalmeðferð málsins kvaðst hann ekki vita hvernig staðurinn var rekinn og ekki heldur hvort fólk sem þarna var hefði verið starfsmenn.

K gaf skýrslur 12. desember 2012 og 16. maí 2013. Hann kvaðst hafa spilað á staðnum frá opnun um einu og hálfu ári fyrr. Kvöldið sem húsleit fór fram hefðu starfsmenn verið S, sem var að gefa, „[…]“, Óskar, sem væri einn af eigendunum, útlenskur strákur og tvær stúlkur frá Búlgaríu. Hann lýsti því hvernig tekinn væri hluti af spilapeningum í póker, sem færi í „jackpot“ og hægt væri að vinna. Spurður hvernig húsið fengi greitt kvaðst hann ekki vita hverjar reglurnar væru en það væri tekinn hluti úr hverjum potti. Þegar viss upphæð væri komin á borðið tæki „dílerinn“ hluta af henni. Hann kvaðst ekki vita hve mikið. Við síðari skýrslutökuna kvaðst vitnið lítið vita um reksturinn en Óskar og Y hefðu svarað í síma þegar hann hringdi þangað. Starfsmenn hefðu verið um þrír til átta hverju sinni. Einhverjir hefðu verið að gefa í spilum, aðrir að taka á móti fólki og enn aðrir að afgreiða veitingar. Hann lýsti því hvernig gjald hefði verið tekið af spilapeningum sem runnið hefði í „jackpot“, sem spilað væri um. Þá hefði gjafara verið gefið þjórfé ef svo bar undir og hefði það verið sett í bakka við hlið gjafarans. Þá lýsti vitnið því að tekið hefði verið gjald úr pottinum á spilaborðinu og hefðu þeir fjármunir farið í annan bakka. Starfsmenn hefðu komið reglulega og sótt það sem var í bökkunum. Við aðalmeðferð málsins kannaðist vitnið ekki við að starfsmenn hefðu verið á staðnum, en kvaðst þó muna eftir einhverjum myndarlegum erlendum stúlkum sem hefðu jafnan gengið um staðinn. Þá kvaðst hann ekki minnast þess að gjald hefði verið tekið úr pottinum þegar póker var spilaður. Hann kvaðst hafa verið mjög taugaóstyrkur við skýrslutöku hjá lögreglu og eflaust farið með eitthvert fleipur. Hann hefði sagt það sem hann taldi að lögreglan vildi heyra.

N gaf skýrslu 12. desember 2012. Hann kvaðst hafa spilað á staðnum þrisvar til fjórum sinnum í viku. Hann lýsti því að þegar hann keypti spilapeninga tæki staðurinn 400 krónur af hverjum 10.000 krónum sem hann reiddi af hendi.

L gaf skýrslu 12. desember 2012. Hann kvað þrjá starfmenn hafa verið að vinna á staðnum þetta kvöld, þ.á m. Óskar. Við aðalmeðferð málsins kvað hann einhverja ávallt hafa verið til að „sjá um geimið“ og nefndi nöfn Q og Óskars í því sambandi. Þá hefði ljóshærð kona stundum verið í hlutverki gjafara.

M gaf skýrslu 20. desember 2012. Hún kvaðst hafa spilað í klúbbnum um eins árs skeið. Yfirleitt væru þrír starfsmenn á staðnum á kvöldi, Y og tveir aðrir. Það hefði verið „flæði á gjöfurum“ og sami gjafari væri ekki tvo daga í röð. Hún kvaðst ekki vita hvort gjafararnir væru íslenskir eða erlendir. Við aðalmeðferð málsins kvaðst hún ekki minnast þess að hafa við skýrslutöku hjá lögreglu borið um að starfsmenn hefðu verið á staðnum.

O kvaðst hafa spilað á staðnum um átta mánaða skeið, um tvisvar í mánuði. Yfirleitt hefði einhver þeirra Y, Óskars, eða P verið á staðnum og afgreitt spilapeninga. Ákærða X hefði oftast verið í gjafarahlutverki, en hún hefði ekki tekið þátt í spilinu. Þá hefðu oft verið þarna tvær erlendar stúlkur, sem hefðu þjónað til borðs. Vitnið kvaðst aðallega hafa spilað póker, en þó prófað rúllettu í eitt eða tvö skipti. Þegar spilaður var póker hefði gjafari tekið svokallað pottagjald, sem hefði farið stighækkandi eftir því sem hærri fjárhæðir voru á borðinu. Pottagjaldið hefði farið í dall við hlið gjafarans og hefði einhver forsvarsmannanna komið reglulega og tæmt dallinn. Þegar rúlletta var spiluð hefði starfsmaðurinn sem sá um rúllettuna tekið þá spilapeninga sem töpuðust. Borið var undir vitnið að komið hefði fram hjá honum við skýrslutöku hjá lögreglu að hann hefði aðeins spilað póker á staðnum. Hann kvað það ekki vera rétt, hann hefði spilað rúllettu einu sinni eða tvisvar.

Þá komu fyrir dóminn sem vitni P og Q, sem báru um að hafa komið að stofnun félagsins ásamt ákærða Y. Q kvað ósætti hafa komið upp á milli þeirra Y þar sem vitnið hefði viðrað þá hugmynd að tekið yrði pottagjald í spilum sem rynni til hans sem endurgjald fyrir vinnuframlag hans á staðnum. Y hefði hins vegar ekki viljað fallast á þetta. Kvaðst vitnið hafa hætt afskiptum af félaginu eftir þetta.

R, [...] ákærða Y, gaf einnig skýrslu við aðalmeðferð málsins. Hann kvaðst hafa flutt fjármuni hingað til lands frá […] fyrir [...] sinn. Þetta hefði hann gert í fimm til sex skipti og haft með sér 4.000 til 5.000 evrur í hvert sinn, sem hann hefði afhent ákærða.

Loks komu fyrir dóminn lögreglumenn sem komu að rannsókn málsins, en ekki eru efni til að rekja framburð þeirra.

Niðurstaða

I. kafli ákæru

Fyrir liggur að í húsnæði sem Þ áhugamannafélag hafði á leigu að […] í Reykjavík kom fólk saman og spilaði fjárhættuspil á þeim tíma sem í ákæru greinir. Ákærði Y hefur borið um að hafa annast stofnun félagsins. Hann var jafnframt skráður stjórnarformaður þess, en eiginkona hans, ákærða X, var stjórnarmaður. Af framburði ákærðu og vitna verður ráðið að ákærðu Y og Óskar Aðils Kemp hafi haft umsjón með spilakvöldum í húsnæðinu, en X hafi oft verið í hlutverki gjafara. Þá er jafnframt komið fram að Y sá um fjármál félagsins og að Óskar kom að rekstri þess með ýmsum hætti. Verður lagt til grundvallar að ákærðu hafi verið í forsvari fyrir þá starfsemi sem fór fram í húsnæði félagsins, þó einkum ákærði Y. Ljóst er að talsverður kostnaður fylgdi starfseminni, einkum leigugreiðslur, kostnaður vegna rafmagns- og símanotkunar, nettengingar og sjónvarpsáskriftar. Þá var veruleg velta á bankareikningum félagsins, sem er til marks um að starfsemin hafi verið umfangsmikil.

Svo sem rakið hefur verið var töluvert misræmi í framburði ákærðu X og Óskars við skýrslutökur hjá lögreglu og við meðferð málsins fyrir dómi. Þannig lýsti X því fyrir lögreglu að tekið hefði verið „pottagjald“ við pókerspil sem runnið hefði til hússins, Óskar lýsti skiptingu á því sem hann kallaði þjórfé á milli gjafara og hússins, auk þess sem ákærðu báru bæði um að starfsfólk hefði verið á staðnum. Fyrir dóminum kváðu þau framburð sinn að þessu leyti vera rangan og gáfu þær skýringar að þau hefðu verið undir miklu andlegu álagi við yfirheyrslu hjá lögreglu. Þau lýstu því jafnframt að hafa orðið fyrir þrýstingi af hálfu rannsakenda, auk þess sem spurningar hefðu verið leiðandi.

Þá tók framburður þorra vitna breytingum við meðferð málsins. Hefur verið gerð grein fyrir framburði 11 vitna, sem við skýrslutöku hjá lögreglu báru ýmist að tekið hefði verið gjald við pókerspil, spilavinningar hefðu runnið til hússins eða að starfsfólk hefði unnið á staðnum, m.a. við að bera fram veitingar. Við aðalmeðferð málsins vildu vitnin hins vegar ekki kannast við að atvik hefðu verið með þessum hætti og báru að um félagsstarf hefði verið að ræða.

Fram kom hjá ákærðu og vitnum sem komu fyrir dóminn að þau tilheyrðu hópi áhugafólks um spilamennsku og mátti glöggt ráða af framburði þeirra og framgöngu fyrir dóminum að vinskapur væri í hópnum. Skiptir þetta máli við mat á framburði vitnanna og skýringum sem þau hafa gefið á misræmi sem þar er að finna. Í málinu liggja fyrir hljóðupptökur af framangreindum skýrslum ákærðu og vitnanna og verður ekki annað af þeim ráðið en að rétt hafi verið eftir skýrslugjöfum haft og að skýrslutökur hafi farið fram með eðlilegum hætti. Eru skýringar ákærðu og vitna á breyttum framburði fyrir dóminum því ótrúverðugar og ber að hafna þeim. Verður framburður þeirra við lögreglurannsókn málsins lagður til grundvallar eftir því sem hann fær stoð í öðrum gögnum málsins.

Í málinu liggur fyrir skýrsla vitnisins C sem tekin var fyrir dómi við lögreglurannsókn málsins, sbr. c-lið 1. mgr. 59. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Þótt vitnið hafi ekki komið fyrir dóm við aðalmeðferð málsins þykir mega líta til vitnisburðar hans við sönnunarmat í málinu, enda höfðu ákærðu færi á að láta spyrja hann við þá skýrslutöku sem fram fór. Vitnið kvaðst hafa starfað á staðnum sem gjafari og við að þjónusta gesti. Hann hefði þegið laun fyrir, sem að einhverju leyti hefðu verið millifærð á reikning í heimalandi hans. Fær sú frásögn stuðning í gögnum um millifærslu ákærða Óskars 9. október 2012, á 1.550 evrum, á reikning skráðan á nafn vitnisins í banka í Litháen.

Þá hefur verið rakinn framburður vitnisins O við aðalmeðferð málsins, sem lýsti því að tekið hefði verið gjald við pókerspil á staðnum og að spilapeningar sem töpuðust í rúllettu hefðu runnið til hússins, auk þess sem hann bar um hlutverk starfsfólks á staðnum. 

Samkvæmt framangreindu þykir sýnt fram á að gjald hafi verið tekið fyrir spilamennsku í húsnæði Þ áhugamannafélags, eins og fram kom hjá ákærðu X og Óskari og vitnunum D, F, I, K  og N við skýrslutökur hjá lögreglu og vitnin C og O hafa jafnframt borið um. Jafnframt þykir sýnt að erlent starfsfólk hafi verið á staðnum eins og ákærðu X og Óskar, vitnin E, F, G, I, J, K, H, L, M, C og O hafa borið um. Er jafnframt til þess að líta að í málinu liggja fyrir gögn um millifærslur á reikninga sjö einstaklinga í Litháen og Eistlandi, sem ákærði Óskar bar við yfirheyrslu hjá lögreglu að hefðu verið vegna launagreiðslna til starfsfólks. Verður því lagt til grundvallar að atvinnustarfsemi hafi farið fram í húsnæði sem félagið hafði á leigu, en ákærðu voru í forsvari fyrir. Fyrir liggur að verulegar greiðslur runnu til ákærðu frá félaginu, en greiðslur inn á bankareikninga ákærða Y frá félaginu námu samtals 18.978.333 krónum, innborganir á reikning ákærðu X 6.947.499 krónum og 11.194.247 krónur runnu inn á reikning ákærða Óskars, auk þess sem 917.000 krónur voru millifærðar á reikning hans af ákærða Y. Þá hefur ákærði Y kannast við að greiðslukort félagsins hafi að hluta til verið notuð vegna einkaneyslu þeirra X, eins og yfirlit um notkun þeirra bera með sér. Að öllu framangreindu virtu þykir sannað að ákærðu hafi rekið fjárhættuspil í atvinnuskyni og sér til ávinnings, eins og í ákæru greinir. Verða ákærðu sakfelld samkvæmt I. kafla ákæru og varðar háttsemi þeirra við 183. gr. og 184. gr. almennra hegningarlaga.

II. kafli ákæru

Samkvæmt gögnum sem liggja fyrir um fjárstreymi í gegnum kortaposa Þ áhugamannafélags bárust greiðslur að fjárhæð 170.990.883 krónur um kortaskanna félagsins á því tímabili sem ákæra tekur til, en fram er komið að nota mátti greiðslukort til að greiða fyrir þátttöku í spilum á staðnum. Fjármunirnir runnu inn á bankareikninga félagsins og hluti þeirra, 89.684.818 krónur, inn á bankareikning ákærða Y. Leiðir af niðurstöðu dómsins samkvæmt I. kafla ákæru að um var að ræða ávinning af ólöglegri starfsemi sem ákærðu voru í forsvari fyrir. Jafnframt liggur fyrir að greiðslur frá félaginu runnu inn á reikninga ákærðu á tímabilinu, eins og rakið hefur verið.

Gerð hefur verið grein fyrir útreikningum lögreglu á lífeyri ákærðu, sem byggja á gögnum um skráðar tekjur og útgjöld þeirra á þeim tíma sem um ræðir. Var niðurstaða útreikninganna sú að lífeyrir ákærðu Y og X hefði verið neikvæður sem nemur 36.430.898 krónum og lífeyrir ákærða Óskars neikvæður sem nemur 4.757.855 krónum. Hefur ákæruvaldið lagt til grundvallar að ákærðu hafi nýtt sér afrakstur af hinni ólögmætu starfsemi sem numið hafi þessum mismun að lágmarki, þó þannig að tekið hefur verið tillit til gagna sem ákærði Óskar lagði fram við meðferð málsins fyrir dómi um spilavinninga. Var ákæru breytt í samræmi við það þannig að ætlaður ávinningur hans er talinn hafa numið að lágmarki 3.241.425 krónum. Við lögreglurannsókn málsins og meðferð þess fyrir dómi báru ákærðu um að hafa haft frekari tekjur á tímabilinu sem þau hefðu ekki gert grein fyrir á skattframtölum. Við aðalmeðferð málsins voru lögð fram gögn sem rennt geta stoðum undir framburð ákærðu að einhverju leyti, auk þess sem framburður ákærðu Y og X um peningaflutninga til landsins fær stuðning í vitnisburði föður ákærða, þótt engin afstaða verði tekin til skýringa ákærðu á tilurð þeirra fjármuna sem um ræðir.

Samkvæmt framangreindu er sannað að ákærðu hafi gerst sek um peningaþvætti, eins og þeim er gefið að sök í ákæru. Eins og málið liggur fyrir dóminum þykir þó ekki verða slegið fastri fjárhæð afraksturs brotastarfseminnar sem ákærðu hafi nýtt sér. Með þeirri athugasemd verða ákærðu sakfelld samkvæmt II. kafla ákæru og varðar háttsemi þeirra við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga.

III. kafli ákæru

                Sannað er með játningu ákærða Y og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í III. kafla ákæru. Verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi og er brot hans rétt heimfært til refsiákvæða í ákæru.

Viðurlög og sakarkostnaður

                Ákærðu Y og Óskar Aðils Kemp eru fæddir árið […], en ákærða X árið 1974. Samkvæmt framlögðum sakavottorðum hafa ákærðu Óskar og X ekki áður sætt refsingu, en ákærða Y var gerð sekt vegna brota gegn tolla- og lyfjalögum árið 2013. Við ákvörðun refsingar ákærðu verður litið til þess að brot þeirra stóðu yfir um lengri tíma og vörðuðu þau umtalsverða fjármuni. Þá frömdu þau brot sín í sameiningu, sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, þótt ráðið verði af gögnum málsins að ákærði Y hafi haft um þau forgöngu. Á móti kemur að nokkuð er liðið frá brotum ákærðu. Með vísan til framangreinds þykir refsing ákærða Y hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði, en fresta skal fullnustu 9 mánaða af refsingunni skilorðsbundið í 2 ár. Refsing ákærðu X og Óskars þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 9 mánuði, en fresta skal fullnustu 6 mánaða af refsingunni skilorðsbundið í 2 ár. Gæsluvarðhald ákærðu kemur til frádráttar refsingu, eins og í dómsorði greinir.

                Í málinu er krafist upptöku á munum, peningum og innstæðum á bankareikningum samkvæmt 69. gr. og 1. tölul. 1. mgr. 69. gr. a almennra hegningarlaga og beinist upptökukrafa gegn ákærðu Y, X, Óskari og Þ áhugamannafélagi. Með vísan til þeirra lagaákvæða sem í ákæru greinir verða dæmd upptæk fimm spilaborð ásamt fylgihlutum, spilapeningum og spilastokkum skv. a-lið IV. kafla ákæru, en um er að ræða muni sem lögregla lagði hald á í húsnæði sem Þ áhugamannafélag hafði til umráða að […]. Þá verða dæmdir upptækir peningaseðlar, samtals að fjárhæð 551.500 krónur, sem fundust í frystikistu og peningaskáp í húsnæðinu, og innstæður á bankareikningum félagsins, skv. b-, e- og f-liðum sama kafla. Hins vegar þykir ekki hafa verið sýnt fram á að peningaseðlar að fjárhæð 2.975 evrur, sem fundust á heimili ákærðu Y og X, og innstæða á bankareikningi á nafni X, hafi verið ávinningur af brotastarfsemi ákærðu og er kröfu um upptöku skv. c- og d-liðum IV. kafla ákæru því hafnað.

                Ákærði Y verður dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl., vegna vinnu á rannsóknarstigi málsins og við meðferð þess fyrir dómi, 4.092.000 krónur. Ákærða X greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Bjarna Hólmars Einarssonar hdl., 3.069.000 krónur, og verjanda síns á rannsóknarstigi málsins, Grétars Dórs Sigurðssonar hdl., 409.200 krónur. Ákærði Óskar greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigmundar Hannessonar hrl., 2.946.240 krónur, og verjanda síns á rannsóknarstigi málsins, Bjarna Haukssonar hrl., 644.490 krónur. Ákærða Þ áhugamannafélag greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Heiðars Ásbergs Atlasonar hrl., 3.364.591 krónu. Við ákvörðun þóknunar lögmanna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Ákærðu greiði í sameiningu 90.944 krónur í annan sakarkostnað.

                Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Marín Ólafsdóttir aðstoðarsaksóknari.

                Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

                Ákærði, Y, sæti fangelsi í 12 mánuði, en fresta skal fullnustu 9 mánaða af refsingunni og falli sá hluti hennar niður að liðnum 2 árum frá birtingu dómsins, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Gæsluvarðhald ákærða frá 12. til 21. desember 2012 kemur til frádráttar refsingu.

                Ákærðu, X og Óskar Aðils Kemp, sæti hvort um sig fangelsi í 9 mánuði, en fresta skal fullnustu 6 mánaða af refsingu ákærðu og falli sá hluti hennar niður að liðnum 2 árum frá birtingu dómsins, haldi þau almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Gæsluvarðhald ákærðu X frá 12. til 20. desember 2012 og ákærða Óskars frá 12. til 21. desember 2012 kemur til frádráttar refsingu.

                Upptæk eru dæmd fimm spilaborð ásamt fylgihlutum, spilapeningum og spilastokkum, peningaseðlar samtals að fjárhæð 551.500 krónur, innstæða að fjárhæð 359.765 krónur, sem var á reikningi nr. 0526-14-401904 á nafni Þ áhugamannafélags, ásamt áföllnum vöxtum, og innstæða að fjárhæð 94.045 krónur sem var á reikningi nr. 0526-26-5506 á nafni Þ áhugamannafélags, ásamt áföllnum vöxtum.

                 Ákærði Y greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl., 4.092.000 krónur. Ákærða X greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Bjarna Hólmars Einarssonar hdl., 3.069.000 krónur, og verjanda síns á rannsóknarstigi málsins, Grétars Dórs Sigurðssonar hdl., 409.200 krónur. Ákærði Óskar greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigmundar Hannessonar hrl., 2.946.240 krónur, og verjanda síns á rannsóknarstigi málsins, Bjarna Haukssonar hrl., 644.490 krónur. Ákærða Þ áhugamannafélag greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Heiðars Ásbergs Atlasonar hrl., 3.364.591 krónu. Ákærðu greiði í sameiningu 90.944 krónur í annan sakarkostnað.