Hæstiréttur íslands

Mál nr. 17/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


 

Mánudaginn 9. janúar 2012.

Nr. 17/2012.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Vilhjálmur Reyr Þórhallsson fulltrúi)

gegn

X

(Oddgeir Einarsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Greta Baldursdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. janúar 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. janúar 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 13. janúar 2012 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. janúar 2012.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum krafðist þess þann 5. janúar sl., fyrir Héraðsdómi Reykjaness með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 að [X] verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 13. janúar 2012 kl. 16. Þá er gerð krafa um að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.           

Krafa er reist á því að kærði sé undir rökstuddum grun um brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Kærði mótmælir kröfunni. Til vara krefst hann að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Í greinargerð með kröfunni kemur fram að Lögreglustjóranum á Suðurnesjum hafi borist tilkynning frá Tollgæslunni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar aðfaranótt 22. desember 2011, um að [Y] hefði verið stöðvaður á tollhliði við komu frá Kaupmannahöfn með flugi HCC-904A. Kvaðst [Y] telja að um 750 gr. af amfetamíni væru í töskunni, þá var [Y] einnig með í töskunni neysluskammta af kannabisefnum. Efnið í töskunni var prófað í Itemiser prófunartæki Tollstjórans í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og var niðurstaðan há svörun á kókaíni.

Samkvæmt niðurstöðum tæknideildar lögreglustjórans á Höfuðborgarsvæðinu innihélt taskan sem [Y] kom með til landsins 1.049,72 gr af meintu kókaíni auk 4,92 gr. af kannabisefnum.

Við yfirheyrslu yfir [Y] þann 22. desember 2011, greindi hann lögreglu frá því að hann hefði farið til Danmerkur í þeim tilgangi að sækja tösku fyrir aðila sem hafi beitt hann miklum þrýstingi. Sagði [Y] að hann hafi fengið töskuna sem innihélt hin meintu fíkniefni á lestarstöð í Kaupmannahöfn eftir að aðili sem að hann kannaðist ekki við hafði haft samband við hann á hóteli sem hann dvaldist á í Kaupmannahöfn. [Y] kvaðst ekki þekkja þann aðila sem beitti hann þrýstingi um að fara í ferðina til Danmerkur en hann hafi verið í símasambandi við þann aðila á meðan hann dvaldist í Danmörku.

Á meðan að [Y] dvaldist í Danmörku notaðist hann við danskt símanúmer, þ.e. númerið 004550641359. Símanúmerið sem [Y] notaði í Danmörku var ítrekað í sambandi við íslenskt símanúmer, þ.e. númerið 696-4962. Lögreglu grunar að kærði hafi haft umráð hins íslenska símanúmers á þeim tíma er [Y] dvaldist í Danmörku. Lögregla hefur aflað símagagna úr símtækjum kærða með símanúmerunum 774-2323 og 770-3558, sem kærði hefur haft í umráðum sínum. Hefur grunnskoðun þeirra gagna m.a. leitt í ljós að símtæki kærða hafi ítrekað tengst sömu fjarskiptasendum og símanúmerið 694-4962, á þeim tíma er [Y] var í símasambandi við númerið. Lögregla telur sig því hafa rökstuddan grun fyrir því að kærði hafi verið sá aðili sem var í sambandi við [Y] á meðan hann dvaldist í Danmörku.

Þann 20.12.2011, þ.e. á þeim tíma er [Y] dvaldist í Danmörku, lagði [Z], 70 þúsund krónur inn á reikning [Y]. [Z] hefur viðurkennt í yfirheyrslu hjá lögreglu að hann hafi lagt peningana inn á reikning [Y]. [Z] hefur tjáð lögreglu að maður sem hann þekkir ekki hafi boðið sér 10 þúsund krónur fyrir að leggja 70 þúsund krónur inn á reikning [Y]. Við rannsókn lögreglu á símtæki kærða hefur komið í ljós að símanúmer [Z] var vistað í einu af símtækjum kærða auk þess sem símanúmer [Z] var skráð í símnúmerabók kærða. Lögreglu grunar því að kærði hafi fengið [Z] til að leggja fjárhæðina inn á reikning [Y].

Þá hefur lögregla einnig aflað gagna sem sýna fram á að kærði hafi þann 21.12.2011, þ.e. á þeim tíma er [Y] dvaldist í Danmörku, lagt 76 þúsund kr. inn á bankareikning [Y]. Við yfirheyrslu hjá lögreglu í gær, þ.e. 5. janúar 2012, játaði kærði að hafa lagt peningana inn á reikning [Y] og tjáði lögreglu jafnframt að óþekktir aðilar hefðu boðið honum 14 þúsund krónur fyrir að leggja framangreinda fjárhæð inn á reikning [Y].

Í gær, þ.e. 5. janúar 2012, framkvæmdi lögregla húsleit að dvalarstað kærða að [...]. Við þá leit fundust og var lagt hald á talsverðan fjölda símtækja, símanúmera, tölvubúnað og pappíra. Þá var einnig lagt hald á meint kannabisefni í bifreið kærða. Lögregla vinnur nú að því að rannsaka þessi gögn.

Vísast nánar til meðfylgjandi gagna málsins.

Rannsókn þessa máls er í fullum gangi. Meðal þess sem rannsaka þarf er aðdragandi ferðar [Y] til landsins og tengsl hans við kærða og aðra hugsanlega vitorðsmenn á Íslandi og eða erlendis auk annarra atriða. Lögregla telur að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að kærði sé einn af þeim aðilum sem hafi fengið [Y] til að flytja framangreind fíkniefni til landsins. Þá telur lögregla sig einnig hafa vísbendingar um að kærði hafi margsinnis verið í símasambandi við [Y] þegar hann var erlendis og að kærði hafi í a.m.k. eitt skipti lagt peninga inn á reikning í eigu [Y] og í annað skipti hafi kærði fengið [Z] til að leggja peninga inn á reikning [Y]. Þá þurfi lögregla einnig að rannsaka hið mikla magn muna sem hún lagði hald á við húsleitina á dvalarstað kærða.

Magn hinna meintu fíkniefna, sem þegar hafa fundist í fórum [Y], þykja eindregið benda til þess að hin meintu fíkniefni hafi verið ætluð til sölu og dreifingar hér á landi og að háttsemi hans og kærða kunni að varða við ákvæði 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 auk ákvæða laga nr. 65, 1974 um ávana- og fíkniefni. Þá telur lögregla einnig hættu á að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka gangi hann laus.

Þess er krafist að kærða verði gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldi skv. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88, 2008.

Samkvæmt rannsóknargögnum  málsins er kærði undir rökstuddum grun um brot gegn ákvæði 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 auk ákvæða laga nr. 65, 1974 um ávana- og fíkniefni. ákvæði 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 auk ákvæða laga nr. 65, 1974 um ávana- og fíkniefni. Brot gegn 173. gr. a.. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, getur varðað allt að 12 ára fangelsi. Með vísan til alvarleika brotsins sem kærði er grunaður um að eiga aðild að og rannsóknargagna þykja skilyrði a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/ 2008 um meðferð sakamála vera uppfyllt í málinu. Verður því fallist á kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Sækjandi gerði kröfu fyrir dóminum um að kærði sætti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stæði. Vegna rannsóknarhagsmuna og þess að rannsókn málsins virðist viðamikil og þess að kærði gæti haft áhrif á þá sem tengjast málinu gangi hann laus, verður krafan um að kærða verði gert að sæta einangrun samkvæmt b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála tekin til greina. Þannig að takmarkanir verða á a-f liðum.

Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kærði, [X], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 13. janúar  nk. kl. 16:00.

Kærði sæti einangrun skv b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.