Hæstiréttur íslands

Mál nr. 358/2006


Lykilorð

  • Farmsamningur
  • Skaðabætur
  • Vátrygging
  • Endurkrafa


Fimmtudaginn 15

 

Fimmtudaginn 15. febrúar 2007.

Nr. 358/2006.

Tryggingamiðstöðin hf.

(Guðmundur Sigurðsson hrl.)

gegn

Atlantsskipum-Evrópu ehf.

(Jón Höskuldsson hrl.)

 

Farmsamningur. Skaðabætur. Vátrygging. Endurkrafa.

A ehf. tók að sér fyrir G hf. að flytja með skipi sínu ferska ýsu frá Hafnarfirði til Immingham í Bretlandi og þaðan landleiðina til Hull. Tjón varð á farminum af völdum tafa við flutninginn og af þeim sökum greiddi vátryggingafélagið T hf. bætur til G hf. Höfðaði T hf. mál á hendur A ehf. til endurgreiðslu bótanna. Ráða mátti af gögnum málsins að ferðin til Immingham hefði að hámarki átt að taka fimm sólarhringa. A ehf. bar því við að ferð skipsins hefði tafist á leiðinni vegna veðurs og því hefði skipstjóri þess ákveðið að sleppa viðkomu í Immingham, en félagið hafði ekki lagt fram sönnunargögn um það atriði. Var talið að A ehf. bæri samkvæmt 1. mgr. 68. gr. siglingalaga nr. 34/1985 ábyrgð á tjóni á farminum sem rakið yrði til þeirra tafa á sendingunni sem af þessu hlutust. Þótti T hf. hafa sýnt fram á með skoðunargerð nafngreinds fyrirtækis að fiskurinn hefði skemmst af völdum tafanna og að samningsbundin undanþága frá ábyrgð A ehf., sem félagið bar fyrir sig, hefði ekki verið gild. Var endurkrafa T hf. því tekin til greina að fullu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson. 

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. júlí 2006. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 2.608.271 krónu með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. júní 2005 til 8. júlí sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Málsatvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Svo sem þar greinir tók stefndi að sér fyrir Granda hf. að flytja með skipi sínu Arnarnesi ferska ýsu frá Hafnarfirði til Hull. Var fiskurinn fluttur í gámi, skipað um borð í skipið í Kópavogshöfn og lét það úr höfn föstudaginn 15. apríl 2005. Stóð til að skipa gámnum upp í Immingham í Bretlandi og tók stefndi að sér að flytja hann landleiðina þaðan til Hull. Koma þessi efnisatriði fram í farmbréfi 15. apríl 2005 auk þess sem þar er tekið fram að halda beri hitastigi í gámnum í 0-3° C meðan á flutningnum standi. Áfrýjandi greiddi farmsendandanum Granda hf. bætur fyrir tjónið sem talið var að orðið hefði á farminum við flutninginn og byggir kröfu sína á 1. mgr. 22. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Stefndi hefur ekki upplýst hversu langan tíma ætlað var að ferðin frá Kópavogshöfn til Immingham tæki umrætt sinn. Má ráða af gögnum málsins að hún hafi að hámarki átt að taka fimm sólarhringa. Samkvæmt því hefði skipið átt að vera komið þar til hafnar í síðasta lagi miðvikudaginn 20. apríl 2005. Stefndi kveður ferð skipsins hafa tafist á leiðinni vegna veðurs og hafi skipstjóri þess vegna ákveðið að sleppa viðkomu í Immingham. Stefndi hefur ekki lagt fram sönnunargögn um nefndar ástæður fyrir þessari ákvörðun. Með því að taka ákvörðun um að sleppa þessum viðkomustað verður talið að stefndi beri, í lögskiptum sínum við farmsendandann, ábyrgð samkvæmt 1. mgr. 68. gr. siglingalaga nr. 34/1985 á tjóni á farminum sem rakið verður til þeirra tafa á sendingunni sem af þessu hlutust.

         Í héraðsdómi er gerð grein fyrir skoðunargerð, sem fyrirtækið McAusland & Turner Ltd. framkvæmdi að ósk farmsendanda, þegar fiskurinn kom til Hull 26. apríl 2005. Skýrslunni fylgja 24 ljósmyndir sem teknar voru af fiskinum í körunum þegar skoðun fór fram. Í skoðunargerðinni er lýst fjölda fiskkara, merkingu á gámi sem sendingin kom í og tilgreind þyngd hennar, sem er hin sama og í farmbréfi, þó að orðið nettó hafi misritast fyrir brúttó. Er hafið yfir vafa að skoðunargerðin og ljósmyndirnar varða umrædda sendingu. Í hinum áfrýjaða dómi kemur fram að sérfróðir meðdómendur töldu gögn málsins samrýmast því að fiskurinn hafi verið veiddur 11. og 12. apríl 2005, eins og áfrýjandi heldur fram, og miða þeir þá við að vel hafi verið frá fiskinum gengið með röðun og ísun í kör. Einnig kemur fram í héraðsdómi að fiskur sem orðinn er 14-16 daga gamall sé við þessar aðstæður kominn að mörkum geymsluþols og megi telja eðlilegt að slíkur fiskur seljist aðeins á „hrakvirði“. Af þessu verður ráðið að tafirnar sem urðu á því að fiskurinn kæmist á afhendingarstað í Hull ollu skemmdum á honum, þannig að tjón hlaust af. Samkvæmt 1. mgr. 68. gr. siglingalaga er farmflytjandi ábyrgur fyrir tjóni á farmi meðan hann er í vörslum hans á skipi eða í landi, nema ætla megi að hvorki hann né neinn maður, sem hann ber ábyrgð á, eigi sök á tjóninu. Þá er farmflytjandi samkvæmt 2. mgr. greinarinnar ekki ábyrgur ef hann getur sýnt fram á að tjónið stafi af ástæðum sem taldar eru upp í stafliðum a.-p. Stefndi hefur í þessu efni vísað til stafliða i., m. og n. Í málinu er ekki að finna sönnunargögn sem styðja málflutning hans um þetta og verður því þessum varnarástæðum hafnað.

         Stefndi hefur ennfremur byggt sýknukröfu sína á því að hann hafi undanþegið sig ábyrgð á tjóni farmsendanda með ákvæði í farmbréfinu, sem grein er gerð fyrir í héraðsdómi. Samkvæmt 1. mgr. 118. gr. siglingalaga er ekki heimilt að semja sig undan ábyrgð samkvæmt 68. gr. laganna. Þegar af þessari ástæðu verður þessari málsástæðu stefnda hafnað.

         Samkvæmt framangreindu þykir áfrýjandi hafa sýnt fram á að fiskurinn hafi skemmst af ástæðum sem stefndi ber ábyrgð á og að ekki hafi verið gild samningsbundin undanþága frá ábyrgð stefnda. Ber stefndi því skaðabótaábyrgð á tjóni áfrýjanda.

Stefndi hefur mótmælt því að fyrrnefnd skoðunargerð verði lögð til grundvallar ákvörðunar um fjárhæð tjóns farmsendandans Granda hf., eins og áfrýjandi gerði þegar hann greiddi fyrirtækinu bætur fyrir tjónið svo. Áfrýjandi hefur lagt fram gögn um fiskverð á mörkuðum í Bretlandi á þeim tíma sem farmsendandinn mátti gera ráð fyrir að fiskurinn yrði seldur ef sendingin hefði borist þangað á þeim tíma sem við mátti búast. Er þar um að ræða nokkru hærra verð en dómkrafan miðast við. Þykir af þessari ástæðu ekki varhugavert að leggja til grundvallar útreikning áfrýjanda á tjóninu. Verða kröfur hans því teknar til greina að fullu.

Það athugist að í hinum áfrýjaða dómi er í niðurstöðukafla vísað til skoðana sérfróðra meðdómsmanna á því hvernig háttað hafi verið opnunartíma fiskmarkaða í Hull á þeim tíma sem um ræðir í málinu og fleiri atriði sem varða undirbúning á sölu fisks þar. Ekki verður séð að vikið hafi verið að þessum atriðum í málflutningi aðila í héraði. Áfrýjandi hefur að auki lagt fram gögn fyrir Hæstarétti sem benda til þess að staðhæfingar meðdómsmanna um þetta séu rangar. Dómarar eru bundnir af málsástæðum aðila og er úrlausn héraðsdóms aðfinnsluverð að þessu leyti.

Samkvæmt úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti svo sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

         Stefndi, Atlantsskip-Evrópa ehf., greiði áfrýjanda, Tryggingamiðstöðinni hf., 2.608.271 krónu með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. júní 2005 til 8. júlí 2005 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags auk 800.000 króna samtals í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 12. apríl 2006.

Mál þetta sem dómtekið var 22. mars síðastliðinn höfðaði Tryggingamiðstöðin hf., Aðalstræti 6-8, Reykjavík, þann 16. september síðastliðinn á hendur Atlantsskipum – Evrópu ehf., Vesturvör 29, Kópavogi.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 2.608.271,- með vöxtum af stefnufjárhæð samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 8. júní 2005 til 8. júlí s.á., en frá þeim degi með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 til greiðsludags.

Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.

Stefndi krefst aðallega að hann verði alfarið sýknaður af öllum kröfum stefnanda.

Í aðalkröfu er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda, að mati dómsins.

Til vara krefst stefndi að stefnukrafan verði lækkuð verulega og málskostnaður til handa stefnanda verði felldur niður.

Málsatvik.

Málavextir eru þeir að stefndi tók að sér flutning á ferskri ýsu fyrir Granda hf. frá Hafnarfirði til Immingham í Englandi samkvæmt farmbréfi útgefnu 15. apríl 2005. Um var að ræða 16.580 kg. brúttó. Fiskurinn var fluttur í 40 feta frystigámi nr. CRLU 123403-0 með Arnarnesi.

Skipið lét úr höfn 15. apríl 2005. Ætlunin var að losa gáminn í Immingham og þaðan átti að aka gámnum til vörumóttakanda í Hull. Fyrirhugað var að ýsan færi á fiskmarkað í Hull fyrri hluta vikunnar 17. til 23. apríl 2005. Skipið kom hins vegar ekki við í Immingham heldur sigldi til Vlissingen í Hollandi þar sem gámnum var landað 23. apríl. Þaðan var gámurinn fluttur með vöruflutningabíl til Hull. Tafir urðu á flutningi gámsins til Hull, þar sem bílstjóri vöruflutningabifreiðarinnar hafði ekið lengur en honum var heimilt og varð að taka sér lögboðna hvíld. Gámurinn var afhentur móttakanda í Hull þann 26. apríl 2005, tæpum 11 sólarhringum eftir að skipið fór frá Íslandi. Var fiskurinn seldur á uppboðsmarkaði 26. og 27. apríl 2005 fyrir GBP 6.478.

Þegar sendingin kom til móttakanda voru kallaðir til skoðunarmenn, frá McAusland & Turner Ltd, sem skoðuðu fiskinn þann dag. Samkvæmt skýrslu þeirra, sem ranglega er dagsett 24. maí 2004, kemur fram það álit að varan hafi verðfallið sökum verulegs dráttar á afhendingu. Er það mat skoðunarmanna að verðmæti fisksins óskemmds hefði verið GBP 1,81 pr. kg eða GBP 28.579,9 fyrir farminn 15.790 kg. Heildartjónið hafi því numið GBP 22.101,9.

Stefnandi greiddi Granda hf. sem farmeiganda kr. 2.608.271,- þann 8 júní 2005  vegna tjónsins, sem er stefnufjárhæðin. Miðað er við gengi  GBP 118,01 kr.

Stefnandi krafði stefnda endurgreiðslu á skaðabótafjárhæðinni með bréfi dagsettu 8. júní 2005. Af hálfu stefnda var greiðsluskyldu hafnað með bréfi dagsettu 25. júlí s.á. á þeirri forsendu að stefndi bæri ekki skaðabótaábyrgð í máli þessu.

Þar sem stefndi hefur ekki fallist á að greiða hið bótaskylda tjón er mál þetta höfðað.

Af hálfu stefnda er upplýst að skipið hafi lent í slæmu veðri á leið sinni til Immingham. Var því ákveðið að sleppa viðkomu þar og halda beint til Vlissingen í Hollandi, sem var á viðkomuáætlun skipsins. Þaðan var gámnum komið á vöruflutningabíl,  þann 23. apríl 2005, sem flutti gáminn til Hull.

Ágreiningslaust er að vörumóttakandi fól McAusland & Turner Ltd. að skoða fiskinn og meta ástand hans við móttöku, þann 26. apríl 2005. Stefndi heldur því fram að skoðunarmaður hafi ekki metið vöruna ónýta og hafi það verið staðfest af matvælaeftirliti á staðnum. Hún hafi svo síðar verið seld á uppboði.

Stefndi telur sig ekki ábyrgan fyrir því tjóni sem þarna varð og hefur því á þeirri forsendu hafnað alfarið bótaábyrgð. Af þeirri ástæðu hefur stefnandi ekki séð sér fært annað en að höfða mál þetta.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi er vátryggingafélag sem vátryggði sendingu þá sem var í gámi nr. CRLU 123403-0 og greiddi stefnufjárhæðina í bætur til farmeiganda, Granda hf. Rétt til endurkröfu byggir stefnandi á 22. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Byggt er á þeirri málsástæðu að stefndi hafi tekið að sér að flytja ferskan fisk frá Íslandi til Bretlands við hitastig 0 til + 3°C og skila honum óskemmdum til vörumóttakanda í Hull. Stefndi hafi ekki staðið við það flutningsloforð, þar sem verulegar tafir urðu á flutningi vörunnar, sem ollu skemmdum á henni og þar með verðmætarýrnun. Á því tjóni beri stefndi ábyrgð.  Stefnda mátti verið ljóst að svo verulegar tafir á flutningi á ferskum fiski eins og hér varð eru til þess fallnar að valda skemmdum á vörunni.

Stefnandi bendir á að samkvæmt 68. gr. siglingalaga beri farmflytjandi ábyrgð á tjóni sem verður á farmi meðan hann er í vörslu farmflytjanda. Bendir stefnandi sérstaklega á að ákvæðið tekur einnig til tjóns sem rakið verður til þess að farmur kemur of seint á ákvörðunarstað. Þessari málsástæðu til frekari stuðnings vísar stefnandi einnig á 48. gr. og  2. mgr. 70. gr. sömu laga.

Ennfremur byggir stefnandi á þeirri málsástæðu að samkvæmt 1. mgr. 68. gr. siglingalaga hvíli sú lagaskylda á stefnda að sanna að hann beri ekki sakarábyrgð á tjóni sem stefnandi bætti. Stefnda hafi ekki tekist sú sönnun.

Því er haldið fram að stefndi beri sem farmflytjandi ábyrgð á tjóni stefnanda, með vísan til 21. gr., 48. gr., 1. mgr. 51. gr. og 68. gr. siglingalaga svo og skilmála í farmbréfi.

Vaxtakrafa styðst við ákvæði 5. gr., 6. gr., 8. gr. og 12. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 og krafa um málskostnað við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Sýknukröfur stefnda.

Stefndi mótmælir alfarið öllum málsástæðum og lagarökum stefnanda.

Samkvæmt 1. mgr. 68. gr. siglingalaga nr. 34/1985 verður farmsamningshafi eða sá sem krefja vill farmflytjanda bóta vegna skemmda á farmi fyrst að sanna að farmur hafi í raun skemmst á meðan hann var í vörslum farmflytjanda, hvort heldur á skipi eða í landi. Auk þess verður hann að sanna hvert sé umfang tjónsins á þann hátt sem getið er í 70. gr. siglingalaga. Takist það, er ráð fyrir því gert að farmflytjandi sé bótaskyldur, nema að hann annað hvort geti gert það sennilegt, að hvorki hann né neinn maður sem hann ber ábyrgð á eigi sök á tjóninu eða að tjónsatburðurinn falli undir einhverja af þeim undanþáguheimildum sem m.a. eru taldar upp í 2. mgr. 68. gr. siglingalaga.

Ósannað að farmurinn hafi skemmst í vörslum stefnda á skipi eða í landi.

Eftir því sem best verður ráðið af gögnum málsins, byggir stefnandi málatilbúnað sinn alfarið á skýrslu McAusland & Turner Ltd. og því að varan hafi við komuna á áfangastað selst á öðru og lægra verði en farmsendandi áleit sig geta fengið fyrir hana.

Stefndi mótmælir skoðunarskýrslunni í heild sinni sem rangri og ósannaðri að svo miklu leyti sem hún er óhagstæð stefnda og mótmælir að hún verði  lögð til grundvallar málatilbúnaði stefnanda. Í skýrslunni séu bæði staðreyndarvillur sem gera hana ónothæfa sem sönnunargagn auk þess sem ekki verði séð, að stefnda eða fulltrúa frá honum hafi verið gefinn kostur á að vera viðstaddur hina svokölluðu skoðun. Í þessu sambandi bendir stefndi á, að skv. skýrslunni er því haldið fram að vörunni hafi verið hlaðið í bifreiðina sem flutti hana til Hull þann 23. mars 2005 eða rúmum mánuði áður. Þá geti skoðunarmaður ekki staðfest með neinni vissu hversu gömul varan var við skoðun. Engar upplýsingar virðast heldur hafa legið fyrir við skoðunina um ástand fisksins þegar honum var pakkað í gám, t.d. hvenær honum hafi verið landað eða hvar eða annað sem telja verði nauðsynlegt til að leggja eitthvert raunhæft mat á það hvort varan hafi hugsanlega orðið fyrir verðrýrnun. Þessari málsástæðu til stuðnings vísar stefndi á 15. gr. flutningsskilmálanna.

Stefndi byggir ennfremur á þeirri málsástæðu að af skýrslunni megi þó ráða, að farið hafi verið í einu og öllu eftir þeim flutningsfyrirmælum sem lágu fyrir þ.e.a.s., að varan hafi verið flutt við 0 ° C til + 3° C frá móttöku- til áfangastaðar.

Því er haldið fram að það sem hér að framan hefur verið rakið renni stoðum undir þá staðhæfingu að skoðunarskýrslan fullnægi á engan hátt lágmarkskröfum sem gera verður til óháðra skoðunargerða. Skýrslan sé því engin sönnun fyrir því að tjón hafi yfir höfuð orðið. Því síður að slíkt hafi átt sér stað meðan varan var í vörslum stefnda. Stefnandi verði að bera hallann af þeim sönnunarskorti.

Skemmdir ekki raktar til sakar starfsmanna stefnda.

Fallist dómurinn ekki á framangreind rök og telji þrátt fyrir það sem að framan er rakið sannað að varan hafi skemmst á meðan hún var í vörslum stefnda,  byggir stefndi á því að ljóst sé að hvorki hann né neinn maður er hann beri ábyrgð á eigi sök á tjóninu.

Í þessu sambandi bendir stefndi á að þegar hann tók við gámnum úr hendi farmsendanda við skipshlið var gámurinn þegar tilbúinn til lestunar. Engar athugasemdir fylgdu gámnum frá farmsendanda aðrar en þær, að vöruna skyldi flytja við 0°C til + 3°C og kom gámurinn fullhlaðinn frá honum.  Ekkert í gögnum málsins bendi til annars en að við þetta hafi verið staðið.  Samkvæmt farmbréfi var lestunarstaður gámsins sagður Hafnarfjörður og afhendingarstaður Hull. Samkvæmt gögnum sem stefnandi hefur sjálfur lagt fram, og ekki hafa sætt andmælum af hans hálfu, hreppti skipið vont veður og tafðist á leiðinni svo mjög, að ákveðið var að fara beint til Vlissingen í Hollandi, sem er einn af áfangastöðum skipsins og keyra vöruna þaðan til afhendingarstaðarins í Hull. Slíkt er ekki einsdæmi og má í raun segja að sé séreinkennandi fyrir flutninga á sjó. Stefndi gerði því allt sem í hans valdi stóð til að meðhöndla, flytja, varðveita og annast um vöruna á eðlilegan og vandvirkan hátt.

Stefndi bendir á að samkvæmt 6. og 8. gr. í flutningsskilmálum hans er honum heimilt að framkvæma flutninginn samkvæmt farmsamningnum á hvern þann hátt sem teljast má eðlilegur og sanngjarn.  Jafnframt að hann skuli með sanngjörnum hætti leitast við að ljúka flutningnum og afhenda vöruna á þeim stað sem skilgreindur er sem afhendingarstaður hennar.

Að öllu þessu má ljóst vera, að jafnvel þó svo verði talið að tjón hafi átt sér stað á meðan varan var í vörslum stefnda þá verður það tjón á engan hátt rakið til sakar stefnda eða þeirra manna sem hann ber ábyrgð á. Því ber að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

Stefndi undanþeginn ábyrgð.

Verði ekki fallist á framangreind rök stefnda er til viðbótar byggt á þeirri málsástæðu að farmbréfið hafi að geyma samningsákvæði um að stefndi sem farmflytjandi beri ekki ábyrgð á innihaldi gámsins þar sem starfsmenn farmsendanda, Granda hf., hafi einir séð um að hlaða í hann. Óumdeilt sé að farmsendandi fékk farmbréfið í hendur og að það hafði að geyma flutningssamninginn milli stefnda og farmsendanda.

Á framhlið farmbréfsins er að finna eftirfarandi lýsingu og fyrirvara á farminum:

“CRLU 123403-0, 1X40/FT HC FLC/FCL reefer cont S.T.C. 55 small skips fresh haddock. Carrying temperature to be maintained at 0 - +3°C. Shippers load count and stow vessel not resp for outturn DDU Hull.”

Þá segi í 17. gr. 1. tl. í skilmálum stefnda, sem fjalli um gáma, að hafi gámur ekki verið fylltur, hlaðinn eða sjóbúinn af stefnda skuli hann ekki ábyrgur fyrir tjóni, tapi eða skemmdum á innihaldi gámsins.

Á grundvelli 102. gr. siglingalaga sé farmflytjanda heimilt að setja fyrirvara í farmbréf um ástand vöru hafi hann ekki fengið tækifæri á að kanna ástand hennar með eðlilegum hætti. Við það að veita vöru móttöku, sem hlaðin hafi verið í gám af farmsendanda hefur farmflytjandi ekki eðlilegt færi á að kanna ástand vörunnar og því með öllu ómögulegt fyrir hann að lofa afhendingu á vöru í tilteknu ástandi.

Því er haldið fram að óumdeilt sé að farmbréfið hafi að geyma grundvöll réttarsambands aðila um flutningsskilmála þá sem gilda áttu milli farmsendanda og farmflytjanda í umrætt sinn. Byggir stefnandi kröfu sína á hendur stefnda eimnitt á þeim rökum að á grundvelli farmsamningsins hafi stefnda borið að koma vörunni óskemmdri til móttakanda. Farmsendandi móttók umrætt farmbréf án þess að gera neinar athugasemdir við farmbréfið eða áritanir á það og er því á sama hátt bundinn við þann fyrirvara stefnda, að þar sem hann hafi ekki fengið eðlilegt færi á að skoða og kanna ástand þeirrar vöru sem í gáminn var hlaðið, undanþiggi hann sig allri ábyrgð á ástandi vörunnar þegar henni er skilað. Stefndi leyfir sér til hliðsjónar um þetta atriði m.a. að vísa til ákvæða 110. gr. og 111. gr. siglingalaga.

Þá byggir stefndi sýknukröfu sína samkvæmt þessum lið ennfremur á sérákvæðum 2. mgr. 68. gr. siglingalaga, einkum stafliðum i), m) og n). Í stefnu virðist stefnandi eingöngu byggja á því, að við afhendingu vörunnar í Hull hafi hún verið í lakara ástandi en farmsendandi hafi mátt vænta þegar henni var pakkað í gám. Stefndi telur sig hafa sýnt fram á með óyggjandi hætti, að hvorki hann né neinn sem hann ber ábyrgð á hafi átt sök á tjóninu og því beri að sýkna hann af öllum kröfum stefnanda. Þessu til viðbótar bendir stefndi á, að samkvæmt 2. mgr. 68. gr. siglingalaga er farmflytjandi heldur ekki ábyrgur á tjóni, ef hann getur sýnt fram á að einhver af þeim undanþáguatvikum sem þar eru greind kunni að eiga við um ástæður tjóns. Í því sambandi bendir stefndi á, að það er eiginleiki fisks, og þá sérstaklega ferskfisks, að sé ekki þeim mun betur um hann búið til flutnings, rýrnar hann og skemmist.  Engra upplýsinga nýtur við um með hvaða hætti búið var um fiskinn til flutnings, hversu gamall fiskurinn var áður en hann fór í gám, eða í hvaða ástandi hann var þegar honum var pakkað. Þá hefur stefnandi ekki lagt fram nein gögn, sem ráða má af hvert hafi verið ætlað geymsluþol fisksins. Stefndi staðhæfir, að eina ástæða þess, að tjón varð megi rekja til þess að honum var pakkað með ófullnægjandi hætti og að hann hafi því rýrnað af eigin eiginleikum. Í því sambandi sé engum um að kenna öðrum en farmsendanda eða starfsmönnum hans.

Af öllu framanrituðu sé ljóst, að sýkna verði stefnda af öllum kröfum stefnanda.

Umfang tjóns ósannað.

Að lokum byggir stefndi sýknukröfur sínar á því að umfang tjóns sé ósannað. Stefnandi hefur ekki lagt fram nein haldbær gögn um hvert hið raunverulega tjón á varningnum hafi verið. Af gögnum málsins sé ljóst, að umrædd vara var ekki ónýt og ekki liggi fyrir neitt mat sjálfstæðs og óháðs aðila á hvert raunverulegt markaðsvirði vörunnar hafi verið við komuna til móttakanda. Bendir stefndi á að upplýsingar skoðunaraðila um hugsanlegt verðmæti vörunnar, eru ekki studdar neinum gögnum. Fjárhæðum er því mótmælt bæði sem þýðingarlausum og röngum, þar sem ekkert kemur fram um þau gæði sem til grundvallar þargreindum fjárhæðum liggja. Þá hefur stefnandi ekki sýnt fram á að honum hafi borið nauðsyn til að greiða stefnufjárhæðina til farmsendanda. Stefnandi verði að sýna fram á að ítrustu tilraunar hafi verið gætt við að takmarka hugsanlegt tjón. Þar sem engin gögn liggi fyrir þar um verði stefnandi að bera hallan af þeim sönnunarskorti.

Varakrafa stefnda.

Stefndi áskilur sér rétt til að bera fyrir sig allar þær lækkunar- og takmörkunarheimildir sem mælt er fyrir um í siglingalögum svo og aðrar slíkar heimildir sem hann hefur samkvæmt öðrum réttarreglum.

Stefndi hafnar í fyrsta lagi að honum beri að greiða vexti og/eða dráttarvexti verði honum gert að greiða stefnanda bætur. Á því er byggt  að hér sé um umdeilda kröfu að ræða bæði að því er varðar bótarétt og umfang kröfunnar. Það sé því óréttmætt og andstætt almennum sjónarmiðum sem búa að baki reglum um vexti, að dæma slíkar álögur fyrr en frá og með dómsuppsögu.

Í öðru lagi er á það bent að komi til þess að hann verði dæmdur bótaskyldur, sé honum heimilt skv. ákvæðum 70. gr. siglingalaga að takmarka bótaskyldu sína og að þær bætur geti aldrei numið hærri fjárhæð en þar er greint. Vextir og/eða dráttarvextir séu eingöngu annað form af bótum sem falli innan heimildar ákvæða 70. gr. siglingalaga.

Að lokum bendir stefndi á að stefnandi hafi hvorki lagt fram vátryggingarskírteini né upplýst um þá skilmála sem um vátrygginguna giltu. Þá vekji það athygli að framsalið sem stefnandi byggir kröfur sínar á gegn stefnda er óundirritað.

Lagarök

Af hálfu stefnda er því haldið fram að óumdeilt sé að um meðferð málsins fari að íslenskum lögum og rétti. Á þeim grundvelli byggir stefndi málsvörn sína á flutningaskilmálum sem giltu um framangreindan flutning fyrir Granda hf.,  ákvæðum siglingalaga nr. 34/1985, almennum reglum flutningaréttar og lagasjónarmiðum um gámaflutninga auk laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Stefnandi byggir aðild sína að málinu á kröfuframsali frá farmsendanda. Á því er byggt að þar sem stefnandi hafi tekið stöðu farmsendanda í málinu öðlist hann sama rétt og farmsendandi. Að sama skapi verði hann að sæta því, að stefndi beri fram öll sömu mótmæli og mótbárur sem hann átti gagnvart farmsendanda.

Málskostnaðarkröfu sinni til stuðnings vísar stefndi til ákvæða 130. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Niðurstöður.

Stefnandi er vátryggingafélag sem vátryggði fiskinn sem fluttur var í gámi merktum nr. CRLU 123403 0 og greiddi farmsendanda, Granda hf., stefnufjárhæðina kr. 2.608.271,- í bætur þann 8. júní 2005. Rétt sinn til endurkröfu byggir stefnandi á 22. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Af hálfu stefnda er aðild stefnanda ekki mótmælt og ekki heldur að stefnandi hafi greitt farmeiganda stefnufjárhæð í skaðabætur.

Samkvæmt farmbréfi útgefnu 15. apríl 2005 tók stefndi að sér að flytja út 16.580 kg. (brúttó) af ferskri ýsu við flutningshitastig 0 til +3°C frá Hafnarfirði til Immingham í Englandi og áfram landleiðina til Hull sem var afhendingarstaður. Vörumóttakandi er tilgreindur Iceberg Ltd.

Af hálfu stefnanda er á því byggt að fiskurinn hafi átt að fara á markað í Hull fyrri hluta vikunnar 17. - 23. apríl.  Það þýðir væntanlega í fyrsta lagi á mánudaginn 18. apríl og í síðasta lagi miðvikudaginn 20. apríl. Þá hefur stefnandi lagt fram yfirlit um dagsverð á markaði í Grimsby mánudaginn 18. apríl til viðmiðunar um það verð sem farmsendandi hefði væntanlega getað fengið fyrir vöru sína hefði hún komist á markað í tæka tíð.

Farmbréfið ber ekki með sér að stefndi hafi lofað að afhenda vöruna fyrir tiltekinn dag. Hvorki stefnandi né stefndi hafa upplýst um siglingaáætlun skipsins í þessari ferð og verður því ekki á því byggt að með því móti hafi stefnandi mátt ætla að skipið væri komið til Immingham tiltekinn dag.

Í stefnu kemur fram að Arnarnesið hafi farið frá Íslandi 15. apríl en brottfarartími er ekki tilgreindur. Fiskurinn sem fluttur var út var afli veiddur af áhöfn Ásbjörns RE 50. Samkvæmt fyrirliggjandi lestarblaði var tilkynnt um aflann 13. apríl og hann sagður veiddur 11. og 12. apríl en samkvæmt gögnum Fiskistofu var honum landað 15. apríl 2005. Arnarnesið lætur því ekki úr höfn fyrr en síðar um daginn.

Það er mat dómsins að skip sem leggur ekki af stað fyrr en í fyrsta lagi um miðjan dag á föstudegi sé ekki komið til Immingham nægilega tímanlega til þess að fiskur komist á markað fyrri hluta vikunnar á eftir. Sérfróðir meðdómsmenn benda á að áætlun sama skips í apríl 2006 gerir ráð fyrir brottför á fimmtudögum og losun í Immingham á þriðjudögum og er það án viðkomu í Færeyjum. Raunhæft er því að áætla að skipið hafi í umræddri ferð sem hófst á föstudegi átt að losa í Immingham á miðvikudagsmorgni og eftir akstur til Hull og meðferð (vigtun, flokkun, kössun, ísun) á Fishgate markaði yrði fiskurinn tilbúinn til uppboðs á fimmtudegi og var það síðasta uppboð vikunnar í Hull.  Hafi skipið hreppt vont veður eins og stefndi heldur fram,  og seinkað, sem er ósannað gegn mótmælum stefnanda, var orðið tæpt með að ná síðasta uppboði vikunnar í Hull, þar sem aðeins er boðið upp mánudaga til fimmtudaga. Samkvæmt upplýsingum sérfróðra meðdómenda mátti einungis selja þennan farm á viðurkenndum uppboðsmörkuðum, þar sem vottorð Fiskistofu ber með sér að aflinn var ekki endanlega vigtaður hér á landi á löggiltan hátt og sætti því 10% útflutningsálagi. Hafi skipinu seinkað var því aðeins um að ræða að bíða mánudags á markaði í Hull, en engin gögn hafa verið lögð fram um samskipti famflytjanda og farmsendanda þessa viku.

Það liggur ekkert fyrir um að umsamið hafi verið að fiskurinn næði á  uppboðsmarkað í Hull í síðasta lagi miðvikudaginn 20. apríl sem málatilbúnaður stefnanda byggir á. Hins vegar er ljóst að það skipti farmsendanda öllu máli að fiskurinn næði á markað vikuna 17. - 23. apríl.  Eftir það var fiskurinn orðinn allt að 14 daga gamall þegar hann kæmist á markað mánudaginn 25. apríl og verð hans að öllum líkindum lækkað verulega að mati sérfróðra meðdómenda. Farmsendandi tók því áhættu þegar hann ákvað að senda farminn út með Arnarnesinu föstudaginn 15. apríl, þar sem  hann hafði einungis einn dag upp á að hlaupa til þess að koma fiskinum á markað í Hull vikuna 17. – 23. apríl. Tafir á afhendingu vöru um einn sólarhring, sem er flutt sjóleiðis, telst á hinn bóginn ekki veruleg seinkun þannig að baki farmflytjanda bótaábyrgð.

Ekki er rétt sem stefndi heldur fram að engra upplýsinga njóti um aldur fisksins áður en hann fór í gám eða um ástands hans áður en honum var pakkað. Samkvæmt fyrirliggjandi lestarblaði úr veiðiferð Ásbjörns RE 50 voru 53 kör af ýsu svo og ein stórlúða veidd dagana 11. - 12. apríl. Frá fyrri eða seinni veiðidögum kunna að hafa bæst við 2 kör af ýsu en slíkt er ekki tilgreint í gögnum. Ljóst er af framlögðum gögnum frá Fiskistofu að aflanum er landað föstudaginn 15. apríl. Aflinn var slægður af framlögðum ljósmyndum að dæma og að mati sérfróðra meðdómenda var vel frá fiskinum gengið með röðun og ísun í kör um borð í Ásbirni RE 50.

Geymsluþol slægðrar ýsu án áberandi skemmdareinkenna er um 14 dagar í ís, við hitastig nálægt 0°C að mati sérfróðra meðdómenda. Útlitsbreytinga verður vart mun fyrr, einkum á lit tálkna og með innföllnum augum. Breytingar á útliti eru notaðar sem fyrstu einkenni skemmda, sem þó verður ekki vart í fiskholdi en sigin lykt og þaðan af verri lykt úr tálknum og kvið (súr, ýlda) eru til marks um að fiskholdið sé skemmt og fiskur óætur. Ljóst er af gögnum málsins að við uppboð fisksins þriðjudaginn 26. apríl og miðvikudaginn 27. apríl er fiskurinn orðinn 14-16 daga gamall og við mörk geymsluþols, þannig að eðlilegt má telja að hann hafi aðeins selst á hrakvirði.

Af hálfu stefnda er umfang tjóns talið ósannað og sýknukrafa á því byggð. Eins og hér að framan hefur verið rakið telur dómurinn að ljóst þykir að stefnt hafi verið að sölu á markaði miðvikudaginn 20. apríl en það stóð frá upphafi tæpt. En einhverjar þær tafir urðu á skipinu þannig að sýnt var að uppboð degi síðar næðist ekki heldur. Á það verður fallist með stefnda að skoðunarskýrsla McAusland & Turner Ltd. er haldin annmörkum sem rýrir gildi hennar sem sönnunargagn. Skoðunarskýrslan er ranglega dagsett 24. maí 2004 og ennfremur er ranglega tilgeint að gámurinn hafi verið settur á vöruflutningabifreið í Vlissingen 23. mars 2005.  Tilgreind þyngd farmsins er sögð vera 16.580 kg. nettó í stað brúttó. Varðandi bótakröfur leggja skoðunarmenn til grundvallar kílóaverð á meðalstórri/stórri ýsu sem selst hafi á markaði í Grimsby sama dag. Ekki verður séð hvort skoðunarmenn eiga þá við þann sama dag og skoðun fór fram eða þann dag er skýrslan var skrifuð. Við sölu á uppboðsmörkuðum er eðli máls samkvæmt aldrei gengið út frá verði sem vísu og fer það eftir gæðum fisksins, aðallega geymslutíma og aðstæðum svo og meðferð frá veiðum til sölu, en einnig markaðsaðstæðum, þ.e. framboði og eftirspurn. Samkvæmt vitneskju hinna sérfróðu meðdómenda liggja fyrir á mörkuðum upplýsingar um veiðidag. Engra upplýsinga nýtur um sölu á markaði í Hull miðvikudaginn 20. apríl 2005 eða fimmtudaginn 21. apríl 2005, sem eru þeir dagar sem skilja má að farmsendandi hafi ætlað sér að setja  fiskinn á markað og raunhæft er að ætla uppboðsdaga. Gegn mótmælum stefnda verður ekki litið til fyrirliggjandi yfirlits um verð á ýsu á markaði í Grimsby mánudaginn 18. apríl, enda hafa þær upplýsingar ekkert sönnunargildi í máli þessu þar sem bæði er um annan markað að ræða og ekki var mögulegt að fiskurinn næði á markað þann dag að mati dómsins.

Samkvæmt því sem hér að framan hefur verið rakið og eins og mál þetta liggur fyrir þá þykir sýnt, að tjón stefnanda verði ekki rakið til sakar stefnda eða starfsmanna hans, sbr. 1. mgr. 68. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Að auki er umfang tjóns ósannað.

Samkvæmt þessu er niðurstaðan sú að stefndi skal sýkn af öllum kröfum stefnanda.

Eftir þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 ber að dæma stefnanda til þess að greiða stefnda málskostnað sem er ákveðinn 400.000,- krónur.

Mál þetta dæma Ólöf Pétursdóttir dómstjóri og meðdómendurnir Alda Möller matvælafræðingur og Sigurjón Arason yfirverkfræðingur.

D ó m s o r ð :

Stefndi, Atlantsskip-Evrópa ehf. er sýkn af öllum kröfum stefnanda, Tryggingamiðstöðvarinnar hf.

             Stefnandi greiði stefnda 400.000,- krónur í málskostnað.