Hæstiréttur íslands
Mál nr. 145/2006
Lykilorð
- Stjórnsýsla
- Veiðiheimildir
- Skip
- Samningsveð
- Skaðabætur
- Kröfugerð
- Frávísunarkröfu hafnað
|
|
Fimmtudaginn 30. nóvember 2006. |
|
Nr. 145/2006. |
Íslenska ríkið (Óskar Thorarensen hrl.) gegn Berki Hrafni Árnasyni og Bjarti í Vík ehf. (Karl Axelsson hrl. Ragnheiður M. Ólafsdóttir hdl.) |
Stjórnsýsla. Veiðiheimildir. Skip. Samningsveð. Skaðabætur. Kröfugerð. Frávísunarkröfu hafnað.
BE og BJ kröfðust viðurkenningar á skaðabótaskyldu Í vegna tjóns, sem þeir töldu sig hafa orðið fyrir vegna samþykkis Fiskistofu á flutningi veiðileyfis í atvinnuskyni af fiskiskipinu S til fiskiskipsins E. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 106/2003 hafði framsal á veiðileyfi S og skráning þess hjá F á E verið ógilt með vísan til þess að ekki hefði verið gætt fyrirmæla 4. tl. 3. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð við flutning veiðileyfisins. Talið var nægilega fram komið að BE og BJ hefðu orðið fyrir tjóni og að þeir gætu samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 haft uppi viðurkenningarkröfu. Hins vegar reyndi á hvort ákvörðun F um samþykki fyrir flutningi umrædds veiðileyfis hefði verið andstæð fyrrnefndu ákvæði laga nr. 75/1997. Talið var að samkvæmt ákvæðinu þyrfti aðeins samþykki veðhafa fyrir flutningi veiðiheimilda sem héldust óbreyttar milli ára, en fyrir lá að flutningur veiðileyfis S yfir til E var varanlegur. Þar sem samþykki veðhafa fyrir flutningi veiðileyfisins lá ekki fyrir þegar F samþykkti hann var talið að annmarki hefði verið á ákvörðun stofnunarinnar og hún verið ólögmæt. Þá var talið að BE og BJ hefðu mátt treysta því að F, sem yrði lögum samkvæmt að skrá og staðfesta flutning veiðileyfa, stæði rétt að samþykki sínu fyrir flutningnum í greint sinn. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms var staðfest niðurstaða hans um viðurkenningu á skaðabótaskyldu Í.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Hrafn Bragason og Haraldur Henrysson fyrrverandi hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. mars 2006. Hann krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði úrskurður verði felldur úr gildi, hinn áfrýjaði dómur ómerktur og málinu vísað frá héraðsdómi. Til vara krefst hann sýknu af kröfu stefndu. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast þess að kröfu áfrýjanda um frávísun frá héraðsdómi verði hafnað og niðurstaða héraðsdóms staðfest. Þá krefjast þeir málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Í máli þessu krefjast stefndu viðurkenningar á skaðabótaskyldu áfrýjanda vegna tjóns, sem þeir telja sig hafa orðið fyrir vegna samþykkis Fiskistofu á flutningi veiðileyfis í atvinnuskyni 1. september 2000 af fiskiskipinu Sigrúnu GK 217 til fiskiskipsins Einars HU 13. Í gögnum málsins kemur fram að stefndi Börkur Hrafn Árnason keypti svokallað krókaleyfi Sigrúnar, þ.e. leyfi báts undir sex brúttórúmlestum til að stunda veiðar með dagatakmörkunum, í ágúst 2000 í því skyni að flytja það yfir á fiskiskipið Einar. Eigandi Sigrúnar tilkynnti Fiskistofu um flutning leyfisins og gaf Fiskistofa út „leyfi til veiða í atvinnuskyni á sóknardögum fiskveiðiárið 1. september 2000 - 31. ágúst 2001“ til Einars meðal annars á grundvelli veiðileyfisins. Hins vegar var ekki leitað samþykkis veðhafa í fiskiskipinu Sigrúnu fyrir flutningi þess. Með dómi Hæstaréttar 13. nóvember 2003 í máli nr. 106/2003, sem birtur var í dómasafni réttarins 2003 bls. 3928, var framsalið á veiðileyfi Sigrúnar og skráning þess hjá Fiskistofu á Einar ógilt með vísan til þess að ekki hefði verið gætt fyrirmæla 4. tl. 3. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð við flutning veiðileyfisins. Dómurinn leiddi til þess að Fiskistofa úthlutaði 19 sóknardögum varanlega og innan ársins til Sigrúnar GK 217 þann 5. desember 2003, sem að mati stofunnar jafngilti þeim réttindum er flutt höfðu verið af bátnum á Einar HU 13 þann 1. september 2000. Stefndu halda því fram að með því að vanrækja að leita eftir afstöðu veðhafa áður en flutningurinn var samþykktur hafi Fiskistofa bakað áfrýjanda bótaábyrgð gagnvart þeim, en þeir hafi treyst á að lögformlega hefði verið gengið frá flutningnum. Þessu er mótmælt af hálfu áfrýjanda.
II.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 19. september 2005 var hafnað frávísunarkröfu, sem áfrýjandi hafði uppi í héraði. Áfrýjandi er ósammála forsendum og niðurstöðu úrskurðarins og með aðalkröfu sinni leitar hann breytinga á henni. Hann reisir kröfuna á því að stefndu geti ekki leitað viðurkenningardóms um bótaskyldu án tiltekinnar fjárhæðar. Þá hafi þeir ekki sýnt fram á tjón og sé því krafa þeirra í raun beiðni um lögfræðilegt álit. Stefndu hafa um þetta efni meðal annars vísað til málskostnaðar þess sem þeir urðu að reiða fram vegna hæstaréttarmáls nr. 106/2003, sem áður er frá greint. Verður þegar af þeirri ástæðu að telja nægilega fram komið að stefndu hafi orðið fyrir tjóni vegna þess að ekki hafi verið gengið frá flutningi veiðileyfisins á lögformlegan hátt, sbr. áðurgreindan dóm Hæstaréttar þar um. Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er þeim því unnt að hafa uppi viðurkenningarkröfu í máli þessu. Verður úrskurður héraðsdóms um að hafna frávísunarkröfu áfrýjanda staðfestur.
III.
Samkvæmt framansögðu er það úrlausnarefni í máli þessu hvort ákvörðun Fiskistofu 1. september 2000 um samþykki fyrir flutningi veiðileyfis Sigrúnar GK 217 yfir til Einars HU 13 hafi verið haldin annmörkum sem leitt hafi til bótaskyldu áfrýjanda. Í 4. mgr. 3. gr. laga nr. 75/1997, sem hér skiptir máli, segir: „Eigi er heimilt að veðsetja réttindi til nýtingar í atvinnurekstri, sem skráð eru opinberri skráningu á tiltekið fjárverðmæti og stjórnvöld úthluta lögum samkvæmt, t.d. aflahlutdeild fiskiskips og greiðslumark bújarðar. Hafi fjárverðmæti það, sem réttindin eru skráð á, verið veðsett er eiganda þess óheimilt að skilja réttindin frá fjárverðmætinu nema með þinglýstu samþykki þeirra sem veðréttindin eiga í viðkomandi fjárverðmæti.“ Samkvæmt þessu er óheimilt að veðsetja réttindin sjálf en hins vegar er ráð fyrir því gert að fjárverðmætin sem þeim geta verið tengd verði veðsett. Ákvæðið leggur síðan bann við því að skilja að fjárverðmætin og réttindin nema með þinglýstu samþykki þeirra sem veðrétt eiga í fjárverðmætunum. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laganna var tekið fram að sú aflahlutdeild sem ákvæðið varðaði væri einvörðungu aflahlutdeild sem héldist óbreytt milli ára, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða. Samkvæmt því þyrfti ekki samþykki veðhafa þótt aflamark væri flutt milli skipa eftir þeim reglum sem um það gilda samkvæmt greindum lögum. Sama á því að gilda um aðrar veiðiheimildir, það er að ákvæðið taki einungis til þeirra heimilda sem haldast óbreyttar milli ára. Flutningur veiðileyfis Sigrúnar yfir til Einars var varanlegur.
Að framan er frá því skýrt að flutningur eiganda Sigrúnar á leyfi til veiða í atvinnuskyni frá skipinu til fiskiskipsins Einars, án þinglýsts samþykkis eigenda veðréttinda, hafi verið ógiltur með hæstaréttardómi í máli nr. 106/2003 þar sem hann var í andstöðu við greint ákvæði. Í málinu liggur frammi tilkynning eiganda Sigrúnar til Fiskistofu um flutning leyfisins. Er það ritað á eyðublað stofunnar en í því segir að flutningurinn öðlist ekki gildi fyrr en Fiskistofa hafi staðfest hann skriflega. Upplýst er að tilkynningunni fylgdi veðbókarvottorð þar sem fram komu þinglýst veðréttindi. Hins vegar fylgdi ekki þinglýst samþykki veðhafa fyrir flutningnum og gaf Fiskistofa út samþykki sitt án þess að það lægi fyrir. Starfsmenn stofunnar túlkuðu greint ákvæði svo að þess þyrfti ekki í þessu tilfelli. Ákvæðið verður þó augljóslega ekki skýrt svo að um flutning þessara réttinda gildi annað en um önnur varanleg réttindi til fiskveiða sem miklu skipta um verðgildi skips og Fiskistofa gefur út, sbr. og áðurnefndan hæstaréttardóm. Verður að meta það svo að annmarki hafi verið á samþykki Fiskistofu fyrir flutningi heimildanna og að ákvörðun hennar um flutninginn hafi verið ólögmæt. Ómótmælt er að stefndu höfðu keypt umrætt veiðileyfi fyrir milligöngu Kvóta-og skipasölunnar ehf. og var ókunnugt um fjárréttindi því tengd. Þá er því ekki á móti mælt að þeir greiddu ekki fyrir heimildirnar fyrr en að fengnu samþykki Fiskistofu. Máttu þeir treysta því að Fiskistofa, sem verður lögum samkvæmt að skrá og staðfesta flutning veiðileyfa, stæði rétt að samþykki sínu fyrir flutningnum í greint sinn. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður niðurstaða hans um viðurkenningu á skaðabótaskyldu áfrýjanda staðfest svo og um greiðslu málskostnaðar í héraði.
Samkvæmt þessari niðurstöðu verður áfrýjanda gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, íslenska ríkið, greiði stefndu, Berki Hrafni Árnasyni og Bjarti í Vík ehf., hvorum um sig 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 16. desember 2005.
Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 1. febrúar 2005 og dómtekið 8. desember sl. Stefnendur eru Börkur Hrafn Árnason og Bjartur í Vík ehf., báðir til heimilis að Grundarbraut 34, Ólafsvík. Stefnda er Fiskistofa, Ingólfsstræti 1, Reykjavík.
Stefnendur krefjast þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefndu vegna tjóns sem stefnendur urðu fyrir vegna þeirrar ákvörðunar stefndu 1. desember 2000 að skrá flutning leyfis til veiða í atvinnuskyni af bátnum Sigrúnu GK-217 yfir á bátinn Einar HU-13. Þeir krefjast einnig málskostnaðar.
Stefnda krefst sýknu af kröfu stefnenda. Hún krefst einnig málskostnaðar.
Með úrskurði 19. september sl. var kröfu stefndu um frávísun málsins hafnað.
I.
Málsatvik
Í málinu liggur fyrir dómur Hæstaréttar 13. nóvember 2003 í máli nr. 106/2003, þar sem afstaða er tekin til helstu atvika málsins.
Með bréfi 1. september 2000 gaf stefnda út leyfi til veiða í atvinnuskyni á sóknardögum, en um slíkar veiðar var einkum kveðið í 6. gr. laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða, eins og greininni hafði meðal annars verið breytt með 2. gr. laga nr. 1/1999. Samkvæmt leyfinu voru leyfilegir sóknardagar á fiskveiðiárinu 23. Í málinu liggur fyrir ódagsett beiðni Gullfaxa ehf. til stefndu um að veiðileyfi Sigrúnar GK-217 yrði fært yfir á Einar HU-13. Er jafnframt ágreiningslaust að veiðiréttur Sigrúnar GK-217 var með útgáfu leyfisins fluttur yfir á Einar HU-13 en auk þess var fluttur yfir á Einar veiðiréttur eins annars krókabáts. Ekki er um það deilt að við umræddan flutning á veiðirétti Sigrúnar GK-217 yfir á Einar HU-13 var ekki aflað samþykkis veðhafa Sigrúnar GK-217.
Í málinu liggur fyrir reikningur að fjárhæð 8.500.000 krónur, sem gefinn var út af Kvóta- og skipasölunni ehf. 18. september 2000 á hendur stefnanda Berki vegna kaupa á „veiðileyfi“, en ekki er þar getið um hver sé seljandi veiðiréttarins eða frá hvaða báti hann stafar. Er handritað á framangreindan reikning „2.000.000 gr. 18/9´00“ og „6.500.000 gr. 28/9´“. Í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar er vitnað til aðilaskýrslu stefnanda Barkar þess efnis að honum hafi ekki verið kunnugt um af hvaða skipi veiðileyfið var fengið fyrr en það mál var höfðað. Í stefnu segir að Kvóta- og skipasalan ehf. hafi gætt þess að engar greiðslur færu fram á milli aðila fyrr en flutningurinn hefði farið fram og veiðileyfið skráð á Einar HU-13. Kemur fram í bréfi Kvóta- og skipasölunnar ehf. til lögmanns stefnenda 10. desember 2003 að stefnda hafi gefið umrætt leyfi út 1. september 2000. Af hálfu stefnenda er því enn fremur haldið fram að stefnandi Börkur hafi keypt umræddan veiðirétt fyrir hönd óstofnaðs félags, sem síðar varð stefnandi Bjartur í Vík ehf. Stefnda mótmælir því hins vegar að sönnur hafi verið færðar á það að sú tilkynning til stefndu, sem áður greinir, eigi rætur sínar í þessum viðskiptum stefnanda Barkar við Gullfaxa ehf.
Í ofangreindum hæstaréttardómi er greint frá því að á þeim tíma, þegar umrætt leyfi var veitt, hafi Vík sf. verið formlegur eigandi Einars HU-13. Stefnandi Börkur hafi hins vegar gert munnlegan samning um kaup á Einari HU-13 frá Vík sf. í ágúst 2000. Þá segir í dóminum að stefnandinn Bjartur í Vík ehf., sem stofnað var 27. nóvember 2000, hafi síðar gengið inn í kaupin í stað Barkar. Í málinu liggur fyrir afsal Víkur sf. á bátnum til stefnanda Bjarts í Vík ehf. 17. maí 2001.
Í febrúar 2002 höfðaði einn af veðhöfum Sigrúnar GK-217 mál gegn Gullfaxa ehf., stefnendum máls þessa, Vík sf. og eigendum Víkur sf. Í málinu var þess krafist aðallega að ógilt yrði með dómi framsal Gullfaxa ehf. á leyfi Sigrúnar GK-217 til veiða í atvinnuskyni á sóknardögum til Víkur sf. útgerðar, þáverandi eiganda Einars HU-13. Þess var jafnframt krafist að framangreind skráning flutnings leyfis til veiða í atvinnuskyni af Sigrúnu GK-217 yfir á Einar HU-13 hjá stefndu yrði ógilt með dómi og leyfið skráð aftur á Sigrúnu GK-217. Þessum málaferlum lyktaði með fyrrgreindum dómi Hæstaréttar 13. nóvember 2003. Taldi Hæstiréttur að ekki orkaði tvímælis, að öllu virtu, að það veiðileyfi sem hér var um að ræða teldist til réttinda til nýtingar í atvinnurekstri í skilningi 4. mgr. 3. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð. Hæstiréttur komst því að þeirri niðurstöðu að óheimilt hefði verið að skilja þetta leyfi frá skipinu án samþykkis veðhafa. Hæstiréttur taldi einnig að ekki væru efni til þess að fallast á það með stefnendum þessa máls að umræddum veðhafa hefði borið að láta reyna á það hvort eða að hvaða leyti hann gæti fengið fullnustu á veðkröfu sinni með nauðungarsölu skipsins. Þar sem veðskuldabréfi hefði verið þinglýst á bátinn hefðu stefnendur ekki unnið rétt af umræddum veðhafa þótt stefnandi Börkur kynni að hafa verið grandlaus um veðréttindi aðilans við kaupin á veiðileyfi skipsins. Þá segir eftirfarandi í forsendum dóms Hæstaréttar:
Fyrir Hæstarétti leitar gagnáfrýjandi [þ.e. veðhafi Sigrúnar GK-217] staðfestingar á þeirri niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að ógilt sé framsal Gullfaxa ehf. á leyfi fyrir Sigrúnu GK 217 til veiða í atvinnuskyni og skráning þess leyfis á Einar HU 13 hjá Fiskistofu 1. september 2000. Nægilegt var að beina þessari dómkröfu að Gullfaxa ehf. og aðaláfrýjendum [Berki Hrafni Árnasyni og Bjarti í Vík ehf.], enda var löggerningur um framsalið milli þess félags og aðaláfrýjandans Barkar og leyfið nú tengt skipi í eigu aðaláfrýjandans Bjarts í Vík ehf. Voru því engin efni til að hafa þessa kröfu jafnframt uppi á hendur Fiskistofu, svo sem aðaláfrýjendur halda fram. Að efni til beinist dómkrafa þessi að því að fá hrundið framsali á veiðileyfi fiskiskipsins Sigrúnar og gera þannig gagnáfrýjanda sem líkast settan og ef ráðstöfun þessi hefði aldrei verið gerð. Aðaláfrýjendur verða ekki leystir undan þessari kröfu þótt vandkvæðum geti verið háð að gengnum dómi um hana að fá greitt úr því hvernig háttað verði framvegis heimildum til að nýta fiskiskipið Einar til veiða í atvinnuskyni. Þá getur það heldur ekki orðið aðaláfrýjendum til hagsbóta þótt Sigrúnu GK 217 kunni eins og sakir standa að skorta haffærisskírteini, svo sem þeir halda fram, þannig að skilyrðum 5. gr. laga nr. 38/1990 með áorðnum breytingum sé ekki fullnægt nú til að skrá á það veiðileyfi.
Staðfesti Hæstiréttur því þann dóm héraðsdóms að ógilda umrætt framsal og ógilda jafnframt skráningu leyfisins á Einar HU-13 sem fram fór hjá stefndu 1. september 2000. Þá var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að Gullfaxi ehf. og stefnendur máls þessa greiddu stefnanda málsins 400.000 krónur í málskostnað í héraði. Fyrir Hæstarétti voru stefnendur dæmdir til að greiða stefnanda málsins 250.000 krónur í málskostnað.
Eftir að dómur Hæstaréttar gekk, nánar tiltekið með bréfi 5. desember 2003, úthlutaði stefnda 19 sóknardögum, varanlega og innan ársins, til Sigrúnar GK-217, en að mati stefndu voru þetta ígildi þeirra réttinda sem flutt höfðu verið af bátnum yfir á Einar HU-13 haustið 2000. Í bréfi stefndu kemur jafnframt fram að rétt hafi þótt að endurúthluta Einari HU-13 þremur sóknardögum, varanlega og innan ársins, sem séu ígildi þeirra réttinda sem flutt voru til hans af öðrum tilgreindum krókabát haustið 2000.
Við aðalmeðferð málsins kom fyrir dóm sem vitni Gísli Rúnar Gíslason, lögfræðingur hjá stefndu. Í skýrslu hans kom fram að flutningur umræddra fisveiðiréttinda hafi verið í samræmi við það verklag sem tíðkaðist hjá stefndu á þeim tíma sem hér um ræði. Hafi það þannig ekki verið afstaða stefndu að umrædd réttindi féllu undir 4. mgr. 3. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð á þessum tíma. Eftir að umræddur dómur Hæstaréttar var kveðinn upp í nóvember 2003 hafi þau vinnubrögð verið tekin upp hjá stefndu að óska eftir samþykki veðhafa þegar um sé að ræða flutning á framseljanlegum sóknardögum krókabáta með svipuðum hætti og þegar um sé að ræða framsal á aflahlutdeild báta í hinu almenna kvótakerfi. Ekki var um aðrar skýrslur fyrir dómi að ræða.
II.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Um aðild sína vísa stefnendur til 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og þess að þeir hafi báðir orðið fyrir tjóni vegna hinnar ólögmætu stjórnvaldsákvörðunar stefndu. Dómkröfu þeirra sé að rekja til sömu aðstöðu og atviks. Dómsmáli því sem lauk með dómi Hæstaréttar 13. nóvember 2003 hafi verið beint að þeim báðum og þar hafi þeim báðum verið gert að þola ógildingu á framsali Gullfaxa ehf. á veiðileyfi Sigrúnar GK-217 yfir á Einar HU-13. Þá hafi þeim báðum verið gert að greiða stefnanda í því máli málskostnað. Stefnendur telja að kostnaðarsamt geti orðið að fá tjón þeirra metið, eftir atvikum af dómkvöddum matsmönnum. Stefnendur hafi því kosið að gera viðurkenningarkröfu í máli þessu, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991.
Stefnendur reisa skaðabótakröfu sína á meginreglum stjórnsýsluréttarins um skaðabótaábyrgð hins opinbera vegna ólögmætra stjórnvaldsákvarðana og meginreglum skaðabótaréttarins um skilyrði skaðabótaskyldu utan samninga. Stefnendur byggja á því að þegar stjórnvaldsákvörðun sé ógilt af dómstól felist í slíkum dómi að ákvörðunin hafi verið ólögmæt, annaðhvort að efni eða formi til. Viðurkennt sé að hafi ákvörðun sem ógilt var af dómstólum valdið tjóni geti þeir sem orðið hafa fyrir því tjóni krafist bóta að uppfylltum öðrum skilyrðum almennu skaðabótareglunnar.
Stefnendur benda á að þegar ákvörðun stefndu um að skrá flutning á umræddu veiðileyfi frá Sigrúnu GK-217 yfir á Einar HU-13 hafi verið ógilt af dómstólum, hafi það verið gert á þeim grundvelli að ákvörðunin fór í bága við lög. Ákvörðunin hafi þannig verið ólögmæt að efni til. Stefnendur leggja áherslu á að stefnda starfi, líkt og önnur stjórnvöld, á grundvelli laga. Hún verði samkvæmt lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins að haga störfum sínum í samræmi við lög. Í lögmætisreglunni felist tvíþættur áskilnaður, þ.e. að ákvarðanir stefndu verði að sækja stoð í lög og að þær megi ekki fara í bága við lög. Í máli þessu hafi ákvörðun stefndu farið í bága við 4. mgr. 3. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð. Stefnendur byggja á því að engu stoði fyrir stofnunina að bera því við að henni hafi verið ókunnugt um þá réttarreglu sem gilti á grundvelli 4. mgr. 3. gr. laga nr. 75/1997 um að óheimilt hefði verið að skilja veiðileyfi frá veðsettu skipi án samþykkis veðhafa. Stofnunin verði, í samræmi við lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins, að bera hallann af rangri lögskýringu sinni. Hæstiréttur staðfesti í dómi sínum hina réttu túlkun.
Þá benda stefnendur á að stefnda hefði átt að gefa veðhöfum færi á að tjá sig um flutninginn áður en hún tók ákvörðun um hann, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda höfðu veðhafarnir einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta í málinu og teljast því til aðila þess. Þá hefði stefndu borið að rannsaka málið betur áður en ákvörðun var tekin, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Aðrar meginreglur stjórnsýsluréttarins, svo sem leiðbeiningarregla stjórnsýslulaga, hafi einnig verið fyrir borð bornar. Ákvörðun stefndu hafi því ekki aðeins verið áfátt að efni til, heldur einnig formi.
Við þetta bætist að lögskýring stefndu þegar hún tók umrædda ákvörðun hafi verið í hæsta máta vafasöm, ekki síst þegar höfð sé í huga sérþekking starfsmanna hennar. Sé bótaábyrgð stefndu strangari en ella þótt ólíklegt megi teljast að reyni beinlínis á hina ströngu ábyrgð sérstaklega. Við hafi blasað að skráningin færi í bága við 4. mgr. 3. gr. laga nr. 75/1997. Stefnendur vísa til þess að veiðileyfi það sem um ræði í þessu máli hafi verið meginforsenda þess að nota mætti skipin til veiða í atvinnuskyni hér við land. Veiðileyfinu hafi verið úthlutað lögum samkvæmt af stefndu, tengt tilteknu skipi og skráð opinberlega. Verðgildi þeirra skipa sem um ræði í máli þessu hafi í verulegum atriðum verið háð því hvort veiðileyfi var fyrir hendi á þeim. Þá hafi stefnandi Börkur greitt háar fjárhæðir fyrir leyfið. Hafi því ekki orkað tvímælis að leyfið var talið til réttinda í atvinnurekstri í skilningi 4. mgr. 3. gr. laga nr. 75/1997. Sú ákvörðun stefndu að skrá veiðileyfið á Einar HU-13 án samþykkis veðhafa í Sigrúnu GK-217 hafi því verið bersýnilega röng og tekin af gáleysi.
Stefnendur byggja á því að hin ólögmæta og saknæma ákvörðun stefndu frá 1. september 2000 hafi valdið þeim tjóni. Tjónið sé að rekja til ákvörðunarinnar og sé sennileg afleiðing hennar. Stefnandi Börkur hafi verið algerlega grandlaus um ólögmæti þessarar ráðstöfunar enda hafi hann ekki vitað hver seljandi veiðileyfisins var. Hafi hann mátt treysta því að allt væri með felldu þar eð stefnda samþykkti flutninginn. Ef stefnda hefði tekið lögmæta ákvörðun og synjað um staðfestingu á flutningi veiðileyfis frá Sigrúnu GK-217 yfir á Einar HU-13, eins og henni bar, hefði stefnandi Börkur aldrei greitt fyrir leyfið og ekki orðið fyrir því tjóni sem hann varð fyrir af þessum völdum. Tjón stefnenda nemi að minnsta kosti þeim fjárútlátum sem þurfi til að þeir verði eins staddir og fyrir ógildingu á framsalinu. Afleitt tjón sé ennfremur verulegt. Þá hafi hlotist umtalsvert tjón af þeim málaferlum sem urðu milli veðhafans og stefnenda í máli þessu. Með vísan til ofangreinds telja stefnendur að skilyrði hinnar almennu skaðabótareglu utan samninga um orsakasamhengi, sennilega afleiðingu og tjón séu uppfyllt.
Um lagarök vísa stefnendur einkum til meginreglna stjórnsýsluréttarins um skaðabótaábyrgð hins opinbera vegna ólögmætra ákvarðana og meginreglna skaðabótaréttarins um skilyrði skaðabótaskyldu utan samninga.
III.
Málsástæður og lagarök stefnda
Á því er byggt í fyrsta lagi af hálfu stefndu að sýkna eigi hana vegna aðildarskorts með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Ekki sé að sjá að stefnendur hafi verið skráðir eigendur veiðileyfis né bátsins Einars HU-13 þegar leyfi til veiða í atvinnuskyni var flutt frá Sigrúnu GK-217 yfir á Einar HU-13, en skráður eigandi Einars HU-13 á þeim tíma hafi verið Vík sf. Því er mótmælt að dómur Hæstaréttar í málinu nr. 106/2003 hafi fullt sönnunargildi um málsatvik, en stefnda hafi ekki verið aðili að því máli. Stefnda mótmælir málavaxtalýsingu stefnenda sem ósannaðri og telur skýringar á munnlegum kaupsamningum og óstofnuðu einkahlutafélagi sérkennilegar. Þá er á það bent að samkvæmt gögnum málsins hafi Vík sf. selt Bjarti í Vík ehf. Einar HU-13 veiðileyfislausan. Það hljóti að þýða að honum hafi ekki átt að fylgja sóknardagar. Vakni því sú spurning hvort núverandi eigendur bátsins hafi í raun keypt sóknardagana.
Í öðru lagi hafnar stefnda því og mótmælir sem röngum þeim málsástæðum stefnenda að áðurgreind staðfesting stefndu á flutningi sóknardagaveiðileyfis Sigrúnar GK-217 (6886) til Einars HU-13 (6702) hafi valdið stefnendum tjóni og skapi stefndu bótaskyldu, enda þótt fyrrgreind skráning stefndu á réttindum þessum hafi verið dæmd ógild. Staðfesting stefndu á flutningi veiðileyfisins hafi verið framkvæmd í framhaldi af tilkynningu þáverandi eiganda Sigrúnar GK-217 um flutning réttindanna til Einars HU-13 (6702), á þeim grundvelli að tilkynningin um flutninginn fullnægði þeim skilyrðum laga sem sett voru fyrir því að stefnda staðfesti slíkan flutning. Afstaða veðhafa í Sigrúnu GK-217 (6886) hafi ekki legið fyrir þegar stefnda staðfesti flutning veiðileyfisins og ekki hafi verið leitað eftir afstöðu veðhafa til flutningsins, enda hafi það verið mat stefndu á þeim tíma að túlka bæri ákvæði 4. mgr. 3. gr. laga nr. 75/1997, um samningsveð, með þeim hætti að ákvæðið tæki ekki til flutnings veiðileyfa, og því þyrfti ekki að leita eftir afstöðu veðhafa til slíks flutnings. Það mat hafi ekki verið augljóslega rangt þótt Hæstiréttur hafi komist síðar að annarri niðurstöðu. Vísar stefnda til orðalags ákvæðisins og lögskýringagagna í þessu sambandi og þeirrar afstöðu stefndu að ákvæðið ætti aðeins við um flutning aflahlutdeildar og þorskaflahámarks.
Stefnda rekur í löngu máli á hvaða grundvelli framangreind lögskýring hafi verið reist. Vísar stefnda til þess að þegar um flutning aflahlutdeildar og þorskaflahámarks hafi verið að ræða hafi stefnda farið fram á að tilkynningu um flutning slíkra réttinda fylgdi: i) Nýtt þinglýsingarvottorð (ekki eldra en 30 daga) um skip sem flutt var frá. ii) Skriflegt samþykki allra þeirra aðila, sem áttu þinglýst samningsveð í skipinu 1. janúar 1991 (reist á ákvæði V til bráðabirgða laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða) iii) Þinglýst samþykki þeirra aðila, sem eiga þinglýst samningsveð í skipinu frá og með 1. janúar 1998 (reist á ákvæði 4. mgr. 3. gr. laga nr. 75/1997, um samningsveð, sem tóku gildi 1. janúar 1998) og iv) Skriflegt samþykki allra þeirra aðila, sem eiga þinglýsta kvöð á skipinu þar sem kveðið er á um að framsal aflahlutdeildar sé óheimilt án samþykkis kvaðarhafa. Kröfunni í lið iv) hafi verið ætlað að taka til réttinda þeirra veðhafa sem þinglýstu slíkri kvöð eða veði með slíkri kvöð á skip á tímabilinu frá 1. janúar 1991 til 1. janúar 1998, en á þeim tíma hafi ekki verið í gildi neitt lagaákvæði sem fól í sér að samþykki veðhafa væri skilyrði fyrir staðfestingu stefndu á flutningi á aflahlutdeild eða hlutdeild í þorskaflahámarki (krókaaflahlutdeild nú). Ákvörðun stefndu um að krefja um samþykki þessara aðila hafi verið tekin með hliðsjón af ákvæði V til bráðabirgða laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða og ákvæði 4. mgr. 3. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð sem fela í sér ákvæði sem taka til veðhafa annarra en þeirra sem eignuðust veð í skipi á tímabilinu milli 1. janúar 1991 og 1. janúar 1998. Hins vegar hafi það verið mat stefndu að ákvæði 4. mgr. 3. gr. laga 75/1997 tæki ekki til flutnings veiðileyfa, hvort heldur leyfis til veiða í atvinnuskyni með sóknardögum, með aflamarki eða með þorskaflahámarki, en á þeim tíma sem lög um samningsveð tóku gildi, hafi enn verið um það að ræða að leyfi til veiða í atvinnuskyni væru réttindi sem unnt væri að flytja milli skipa. Þetta mat stefndu hafi verið á því reist að veiðileyfi væru réttindi sem ekki yrði jafnað til aflahlutdeildar þar sem þessi réttindi væru ekki eðlislík eða hliðstæð. Auk þess hafi það verið skilyrði á þessum tíma fyrir því að unnt væri að skrá aflahlutdeild á fiskiskip, að skipið hefði gilt veiðileyfi samkvæmt lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða. Ef skip missti veiðileyfi varanlega, á þeim tíma sem lög 75/1997 voru sett, þá féll hlutdeild þess og aflamark einnig niður fyrir fullt og allt. Veiðileyfi hafi því í raun verið nauðsynlegt skilyrði fyrir því að geta haft hlutdeildir skráðar á skip og því hafi það verið mat stefndu að ef löggjafinn hefði ætlað að láta 4. mgr. 3. gr. laga 75/997 ná til flutnings veiðileyfa milli skipa, þá hefði verið eðlilegt að það hefði komið fram með beinum hætti í lögunum og greinargerð með þeim. Afstaða löggjafans um þetta efni hafi ekki fram í lögunum né í greinargerð með þeim eða umræðum á Alþingi um frumvarp það sem varð að lögum 75/1997. Þar sem ekkert hafi verið minnst á veiðileyfi í lögunum þá hafi stefnda talið að gagnstæð regla gilti um veiðileyfi, þ.e. að ekki væri skilyrði fyrir staðfestingu á flutningi á veiðileyfi milli skipa, að þeir veðhafar sem eignuðust veð í skipum, eftir gildistöku laganna, yrðu að veita samþykki sitt fyrir slíkum flutningi.
Í þriðja lagi vekur stefnda athygli á því að umrædd afstaða stefndu hafi einnig verið reist á því að það að synja aðila um staðfestingu á flutningi veiðileyfis milli skipa, væri íþyngjandi ákvörðun sem samkvæmt óskráðri meginreglu stjórnsýsluréttar (lögmætisreglunni) yrði að hafa ótvíræða lagastoð. Hvergi í lögum hafi verið að finna ákvæði sem ótvírætt kvað á um það skilyrði fyrir staðfestingu stefndu á flutningi veiðileyfis að samþykki veðhafa lægi fyrir. Af þeim sökum hafi það einnig verið mat stefndu á þessum tíma að stefndu væri ekki heimilt að synja um staðfestingu á flutningi veiðileyfis, enda þótt krafa um slíka synjun kæmi fram af hálfu veðhafa, sem hafi þó ekki verið reyndin í því tilviki sem hér um ræðir. Stefnda hafnar því alfarið sem röngum fullyrðingum stefnenda í stefnu þess efnis að lögskýring stefnda á þeim tíma sem hér um ræðir hafi verið augljóslega röng eða vafasöm.
Stefnda bendir einnig á að í þeim gerningi hennar að staðfesta flutning veiðileyfis milli skipa, felist ekki neinn úrskurður um gildi þess löggernings milli aðila, sem liggur á bak við beiðni þeirra um staðfestingu á flutningi veiðileyfis milli skipa. Það, að stefnda telji að öllum lagaskilyrðum, sem sett séu fyrir staðfestingu stefndu á flutningi veiðileyfis milli skipa sé fullnægt, feli ekki í sér að með því sé staðfest að sá löggerningur sem á bak við liggur, þ.e. t.d. samningur um kaup á veiðileyfi, sé gildur að lögum. Það sé hlutverk dómstóla að skera úr um gildi slíkra löggerninga, en ekki stefndu. Því sé það mat stefndu að aðili að löggerningi, sem feli í sér kaup á veiðileyfi, öðlist ekki bótarétt á hendur stefndu ef dómstólar dæma löggerningin ógildan. Verði stefnendur í máli þessu því að beina kröfu sinni um bætur að viðsemjendum sínum.
Á því er einnig byggt að ákvörðun stefndu hafi ekki verið ólögmæt. Því er einnig mótmælt sem röngu að ákvörðun stefndu hafi verið saknæm. Að mati stefndu getur aðili ekki byggt skaðabótakröfu á hendur stefndu fyrir að hafa staðfest flutning réttinda sem viðkomandi aðili hefur keypt, ef samningur sá, sem varð tilefni þess að óskað var eftir staðfestingu stefndu á flutningi þessara réttinda, er síðar dæmdur ógildur af ástæðum sem varða staðfestingu stefndu á engan hátt.
Að mati stefnda er einnig ósannað að tjón hafi orðið og einnig ósannað að stefnda hafi valdið stefnendum tjóni eða að það sé að rekja til athafna eða athafnaleysis stefndu. Stefnendur hafa sönnunarbyrði fyrir öllu sem kröfu þeirra viðkemur, þ.m.t. um orsakatengsl, en einnig að meint tjón stefnenda sé sennileg afleiðing af athöfnum eftir atvikum athafnaleysi starfsmanna stefndu. Á því er byggt af hálfu stefndu að ekki sé fullnægt skilyrðum skaðabótaréttar fyrir viðurkenningarkröfu um bótaskyldu stefndu, m.a. að ekki sé fyrir að fara orsakasambandi milli athafna eða eftir atvikum athafnaleysi starfsmanna sem stefnda beri ábyrgð á og meints tjóns stefnenda og ekki heldur að meint tjón stefnenda sé sennileg afleiðing af athöfnum eða eftir atvikum athafnaleysi starfsmanna sem stefnda ber ábyrgð á. Einnig er á því byggt að ekki sé fullnægt skilyrðum sakarreglunnar eða annarra bótareglna um sök og ólögmæti.
Að mati stefndu ber kaupandi sjálfstæða ábyrgð á því að ganga úr skugga um við kaup á skipi eða réttindum sem bundin eru við skip, eftir því sem honum er unnt, að seljandi slíkra réttinda hafi fullan rétt til að ráðstafa þeim og einnig að kanna hvort þinglýst hafi verið samþykki veðhafa. Þessa ábyrgð sína geti kaupandi ekki fært yfir á aðra, hvort heldur persónur eða stjórnvöld. Verði stefnendur af þessari ástæðu að bera tjón sitt sjálfir, ef því sé að skipta.
Verði talið að tjón hafi orðið er á því byggt að orsakir meints tjóns ráðist af því að Gullfaxa ehf. var óheimilt að ráðstafa veiðileyfi af Sigrúnu GK-217 án samþykkis veðhafa en einnig vegna aðgæsluleysis kaupanda veiðileyfisins en ekki vegna atvika er varða stefndu. Telur stefnda að kaupandi veiðileyfisins af Gullfaxa ehf. hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi við kaupin. Eigin sök hans hafi því verið veruleg og ryðji burt bótarétti stefnenda, ef honum sé að skipta. Nauðsynlegt sé að hafa í huga að afgreiðsla stefndu hafi verið hefðbundin afgreiðsla á þeim tíma þegar veiðileyfið var flutt. Verði einnig að skoða málið með hliðsjón af nauðsyn á hraðri afgreiðslu í kerfinu. Stefnda afgreiði hundruð flutninga vikulega. Traust í viðskiptum sé mikilvægt í þessu kerfi. Þá séu þessu viðskipti að vissu leyti varin af almennum hegningarlögum sé brotið gegn samningum um veðréttindi.
Stefnda vísar einnig til þess að kaupin virðist hafa farið fram í gegnum sérfræðing í sölu kvóta, Kvóta- og skipasöluna ehf. Stefnendur virðist hafa beint bótakröfu sinni á tímabili að Kvóta- og skipasölunni ehf., en ekki hafi verið fjallað frekar um afdrif þeirrar kröfugerðar í málinu. Að mati stefnda er málið því allt vanreifað.
Að lokum er á það bent að stjórnvöld ívilnuðu stefnendum verulega eftir að dómur hæstaréttar lá fyrir í málinu nr. 106/2003, án nokkurrar skyldu. Vísar stefnda m.a. til þess að Einari HU-13 hafi verið úthlutað þremur sóknardögum sem taldir voru ígildi þeirra réttinda sem ekki stöfuðu frá Sigrúnu GK-217. Telur stefnda að þetta bendi til þess að stefnendur hafi ekki orðið fyrir tjóni.
Að mati stefndu er verulega vanreifað hvernig stefnendur hvor í sínu lagi geti átt skaðabótakröfu eða hafi orðið fyrir tjóni af völdum stefndu.
Stefnda mótmælir því að hún hafi átt að gefa veðhöfum kost á að tjá sig um flutninginn áður en tekin var ákvörðun um hann með vísan til 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og að stefndu hafi borið að rannsaka málið betur með vísan til 10. gr. sömu laga. Stefnda mótmælir því einnig sem röngu og ósönnuðu að leiðbeiningarregla hafi verið fyrir borð borin eða að ákvörðun stefndu hafi verið áfátt að formi til.
Stefnda mótmælir að öðru leyti öllum kröfum, málsástæðum og rökum stefnenda sem röngum og ósönnuðum.
IV.
Niðurstaða
Í máli þessu liggur fyrir dómur Hæstaréttar 13. nóvember 2003, þar sem felld var úr gildi skráning stefndu á því leyfi til fiskveiða sem áður er gerð grein fyrir, en í leyfinu fólst í reynd varanlegur flutningur á framseljanlegum sóknardögum krókabátsins Sigrúnar GK-217 yfir á krókabátinn Einar HU-13, sbr. áðurtilvitnaða 6. gr. laga nr. 38/1990. Dómur Hæstaréttar verður ekki skilinn á aðra leið en þá að umrædd stjórnvaldsákvörðun hafi verið ólögmæt og að öðru leyti haldin slíkum annmörkum að skilyrðum hafi verið fullnægt til að fallast á kröfu um ógildingu hennar. Af hálfu stefndu hefur því ekki verið haldið fram að réttaráhrif dómsins 13. nóvember 2003, að því er varðar gildi þeirrar stjórnvaldsákvörðunar sem hér er um að tefla, séu takmörkuð vegna þess að stefnda var ekki aðili að því máli sem lyktaði með dóminum. Verða athafnir stefndu í kjölfar dómsins enn fremur ekki túlkaðar á aðra leið en þá að stefnda hafi litið svo á að umrædd stjórnvaldsákvörðun hafi verið felld úr gildi með bindandi hætti fyrir stofnunina með umræddum dómi Hæstaréttar.
Samkvæmt framangreindu verður lagt til grundvallar við úrlausn málsins að sú ákvörðun stefndu að skrá það leyfi til fiskveiða, sem áður greinir, á bátinn Einar HU-13 í september 2000 hafi verið felld úr gildi með dómi Hæstaréttar 13. nóvember 2003. Með hliðsjón af forsendum Hæstaréttar í dóminum 13. nóvember 2003 eru haldlausar þær málsástæður stefndu að umrædd ákvörðun stefndu hafi allt að einu verið lögmæt.
Almennt er viðurkennt að íslenskum rétti að stjórnvöld beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem er sennileg afleiðing af ólögmætum ákvörðunum þeirra, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar í dómasafni 1996, bls. 2956 og dóm í dómasafni 1999, bls. 1709. Af dómaframkvæmd Hæstaréttar er ljóst að umrædd regla um bótaábyrgð vegna ólögmætra stjórnvaldsákvarðana á jafnvel við þótt um sé að ræða almennt fjártjón, svo sem um ræðir í máli þessu. Þá verður ekki ráðið af dómaframkvæmd að umrædd regla geri ráð fyrir því að sýnt sé fram á saknæma háttsemi þess stjórnvaldshafa sem í hlut á. Þarf því ekki að fjalla frekar um hvort starfsmönnum stefndu hafi mátt vera ljóst að skylt var að afla samþykkis veðhafa fyrir flutningi veiðiréttar af Sigrúnu GK-217 í september 2000, svo sem varð síðar niðurstaða Hæstaréttar í dóminum 13. nóvember 2003.
Í máli þessu liggur fyrir að stefnandinn Börkur innti ekki greiðslu af hendi fyrir umrædd veiðiréttindi fyrr en staðfesting hafði borist um að stefnda hefði flutt réttindin af Sigrúnu GK-217 yfir á Einar HU-13. Verður því að teljast sannað að stefnandinn hefði ekki innt greiðsluna af hendi, ef stefnda hefði synjað um umbeðinn flutning með vísan til þess að samþykki veðhafa skorti. Samkvæmt þessu, og að teknu tilliti til eðlis þeirrar stjórnvaldsákvörðunar sem hér er um að ræða, telur dómari að gert hafi verið nægilega líklegt að stefnendur hafi orðið fyrir tjóni sem telst sennileg afleiðing af hinni ólögmætu stjórnvaldsákvörðun stefndu. Getur það ekki haggað þessari niðurstöðu þótt fleiri aðilar kunni að bera skaðabótaábyrgð á tjóni stefnenda með stefndu, en úr því og réttarsambandi fleiri hugsanlegra tjónvalda verður ekki skorið í máli þessu.
Í gögnum málsins kemur fram að þinglýsingarvottorð Sigrúnar GK-217 fylgdi með umsókn um flutning veiðiréttinda. Þá er fram komið að af hálfu stefndu var á þeim tíma, sem hér um ræðir, ekki gerð krafa um að samþykki veðhafa fylgdi með umsókn. Að þessu tvennu virtu telur dómari að ekki geti verið um að ræða eigin sök stefnenda. Verður krafa stefndu um sýknu ekki tekin til greina með vísan til sjónarmiða um eigin sök. Af sömu ástæðum kemur ekki til greina að skipta sök í málinu.
Af stefnu, svo og reifun lögmanns stefnenda í munnlegum málflutningi, verður nægilega ráðið að litið sé svo á af hálfu stefnenda að stefnandi Börkur hafi keypt umræddan veiðirétt fyrir hönd stefnandans Bjarts í Vík ehf. Af hálfu stefndu hefur þessari fullyrðingu, sem samrýmist málsatvikalýsingu í framangreindum hæstaréttardómi, ekki verið mótmælt með rökstuddum hætti, svo sem með framlagningu gagna eða munnlegum skýrslum. Í munnlegum málflutningi skýrði lögmaður stefnenda aðild stefnanda Barkar þannig að hún kæmi fyrst og fremst til vegna þess málskostnaðar sem þessi stefnandi hafi orðið að greiða samkvæmt dómi Hæstaréttar 13. nóvember 2003. Samkvæmt þessu er aðild hvors stefnanda um sig nægilega reifuð í málatilbúnaði stefnenda, enda er þess ekki krafist í málinu að tekin sé afstaða til nánar tiltekinna bótakrafna stefnenda.
Samkvæmt framangreindu verður fallist á kröfu stefnenda, eins og nánar greinir í dómsorði.
Eftir úrslitum málsins verður stefnda dæmd til að greiða stefnendum málskostnað, en samkvæmt 2. mgr. 132. gr. laga nr. 91/1991 er skylt að ákveða stefnendum málskostnað hverjum fyrir sig. Samkvæmt málskostnaðaryfirliti lögmanns stefnanda hefur alls 73,5 vinnustundum verið varið í mál þetta, þar af 15,25 vinnustundum vegna málflutnings um frávísun og 28,75 stundum vegna aðalmeðferðar málsins. Nemur málskostnaðarkrafan samtals 957.601 krónu. Dómari telur að þessi tímafjöldi lögmannsins sé nokkuð úr hófi miðað við umfang málsins. Eftir umfangi málsins þykir málskostnaður í heild hæfilega ákveðinn 400.000 krónur og verður gengið út frá því að stefnendur hafi haft jafnan kostnað af málinu. Við ákvörðun þessarar fjárhæðar hefur ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Það athugast að í greinargerð stefndu skortir á að málsástæður og lagarök séu sett fram með skýrum hætti. Felur greinargerð stefndu þar að auki í sér óþarfa endurtekningar og málalengingar sem ekki fá samræmst meginreglu réttarfars um munnlegan málflutning.
Af hálfu stefnenda flutti málið Arnar Þór Stefánsson hdl.
Af hálfu stefndu flutti málið Óskar Thorarensen hrl.
Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Viðurkennd er skaðabótaskylda stefndu, Fiskistofu, vegna tjóns sem stefnendur, Börkur Hrafn Árnason og Bjartur í Vík ehf., urðu fyrir við það að stefnda samþykkti flutning á framseljanlegum sóknardögum frá Sigrúnu GK-217 yfir á Einar HU-13 með útgáfu leyfis til veiða í atvinnuskyni á sóknardögum dagsettu 1. september 2000.
Stefnda greiði hvorum stefnanda 200.000 krónur eða alls 400.000 krónur í málskostnað.